Færslur

Fálkageiraskarð

“Stórkostlegasti hellir, sem ég hef séð. Sáuð þið litadýrðina, skærgult, rautt, blátt, grænt og allt þar á milli. Ekki rykkorn á gólfinu, Óendanlegur. Hef ekki séð gulan björgunarbát í helli áður. Það tekur a.m.k. viku að skoða hann allan”. Þetta voru viðbrögð FERLIRs félaga og félaga úr HERFÍ eftir að hafa fundið helli í Brennisteinsfjöllum eftir langa göngu og allnokkra leit. Áður höfðu þeir fundið nokkra hella til viðbótar, reyndar heilt hellakerfi, en það reyndist einungis sýnishorn af því sem koma skyldi.

Fálkageiraskarð

Efst í Fálkageiraskarði.

Gengið var upp Fálkageiraskarð (Falskageiraskarð skv. örnefnalýsinigu) með það fyrir augum að kanna hvort um væri að ræða hellagöt á ókönnuðu svæði í Brennisteinsfjöllum. Áætlaðir voru þrír tímar í göngu og síðan tvo tíma í leit á svæðinu því ganga þurfti til baka sömu leið. Hálfa klukkustund tók að ganga upp skarðið, en það er í sjálfu sér ekki erfitt uppgöngu. Leiðin upp er þakin fjölskúðugum plöntum, og utan í því er fallegur hraunhóll, sem (þegar upp var komið) kom í ljós að hafði runnið í þunnfljótandi hraunæð fram af brúninni og storknað jafnóðum utan í og neðan við bergbrúnina.  Síðan hafði brotnað út hömrunum efst og þeir fjarlægst hraunstandinn, sem stendur þarna einn og tignarlegur. Efst í skarðinu er hár klettadrangur, Fálkaklettur. Undir honum eru grasbrekkur og jafnframt fyrir ofan þegar komið er upp.

Fálkageiraskarð

Standur efst í Fálkageiraskarði – Fálkaklettur.

Ofan við skarðið tók við langt misgengi. Því var fylgt, haldið yfir apalhraun að ísaldarskyldi. Suðaustur úr honum lá þriggja metra breiður stígur áleiðis niður að Mosaskarði. Sennilega er hér um að ræða hluta leiðarinnar, sem Stakkavíkurbræður gengu þaðan yfir að Fagradalsmúla og niður í Hafnarfjörð með rjúpur á vetrum, sbr. frásagnir Eggerts og Þorkels undir viðtöl hér á vefsíðunni. Gengið var yfir ísaldarskjöldinn og síðan úfin apal- og helluhraun uns komið var í hraunið, sem átti að skoða. Strax fundust nokkur op. Rásirnar voru hverri annarri fegurri. Þunnfljótandi hraunlag hafði slétt út gólfin og myndað þunna skán á því. Afhellar voru hingað og þangað. Ein rásin lá þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litardýrð. Gljáfægðir separ í loftum.

Ferlir

Í Ferli.

Tvær hraunsúlur héldu loftinu uppi á einum stað og svona mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir voru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að vera klukkustunum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthv nýtt. GPS-punkar voru teknir af þremur opanna.
Á leiðinni til baka var haldið ofar í hlíðina og strikið þvert á hana því einn FERLIRsfélagi hafði veitt athygli gati þar á leiðinni upp eftir. Um er að ræða sæmilegt jarðfall. Sjá má lýsingarinnar á innihaldinu í upphafinu hér að framan. Hægt er að far niður rásina og þar greinist hún í margar nokkrar aðrar.

Ferlir

Í Ferli.

Fremst er bergið bláglerjað, hárrauð þverrás gengur inn úr henni og hægt er að ganga í hringi um ýmsa ganga. Ofar virðist rásin ekki mjög merkileg. Hún virðist enda eftir um 100 metra, en þegar betur er að gætt er rás upp undir lofti. Þegar skriðið er eftir henni opnast “konfektkassi” hellaháhugamanna í öllum litum og litbrigðum. Tvær fallegar súlur eru í rásinni. Allar rásir eru heilar og varla steinn á gólfi. Hliðarrásir ganga inn úr hverjum gangi, stundu í allar áttir. Sá litur, sem sker sig mest úr er skærgulur, en jafnframt má sjá silfurliðar berg. Þegar þessi hluti verður skoðaður þarf að hafa spotta er merkilínu.

Ferlir

Storknun í Ferli.

Varið var tveimur klukkustundum í skoðun á hellinum, en sýnt er að gefa þarf sér góðan tíma til að skoða hann allan.
Stungið var upp á nafni á hellinn og gengur hann framvegis undir vinnuheitinu FERLIR (beygist eins og HELLIR).
Gengið var niður með ísaldaskyldinum og austan misgengisins, en síðan var bjargbrúninni fylgt að Fálkageiraskarði. Blankalogn var svo auðvelt var að fylgjast með fýlnum í berginu og tilburðum hans. Sauðamergur, geldingahnappur, ljónslappi og burknategundir eru dæmi um jurtir í gilinu.

Ferlir

Í Ferli.

Skammt ofan við jökulskjöldinn fyrrnefnda fannst skarlatbikar (cladonic borealis), en hann vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum og er algengur um land allt, en askhirslurnar, skærrauðar, sem voru á þessari einu litlu plöntu víðáttunni, eru fremur sjaldséðar.
Áætluð er fljótlega fer með HERFÍ á hellasvæðið. Þá verður farið með allan nauðsynlegan búnað og ljós, sem og það markmið að reyna áætla umfang þess nýfundna hellis. Mjög erfitt er að að koma auga á opið, auk þess sem það er á einu fáfarnasta svæði landsins. Slík svæði eru “veiðilendur” FERLIRs.
Það var vel við hæfi að ferð nr. 666 tengdust undirheimunum.
Gangan tók 8 klst og 12 mín, eins og áætlað var. Fábært veður – sól og blíða.
Sjá MEIRA.

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Leiðarendi

Gengið var frá Bláfjallavegi um stíg norður yfir Tvíbollahraun, u.þ.b. 300 metra. Þá var komið í eldra hraun, Stórabollahraun, mosavaxið, en tiltölulega slétt. Hægra megin við stígsendann er jarðfall. Í því er Leiðarendi.

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Haldið var niður um vítt opið að vestanverðu. Stórir steinar eru næst opinu, en hellirinn er samst sem áður greiður niðurgöngu. Fljótlega er komið inn á slétt gólf og víða og háa hraunrás. Litirnir í veggjum rásarinnar eru rauðlitið og verða fallegri eftir því sem innar dregur. Komið er að svolitlu hruni þar sem önnur rás liggur upp til hægri. Á rásmótunum eru falleg steinkerti á gólfum. Þegar gengið er áfram niður rásina má víða sjá stór hraunkerti og fallegar hraunnálar í loftum. Sumsstaðar lækkar rásin og á einum stað þarf að skríða yfir hrun. Þar fyrir innan er mjög hátt og vítt. Þegar komið er innst í rásina er víður hraunpollur.

Leiðarendi

Á leið um Leiðarenda.

Þegar komið er að pollinum má sjá beinagrind af rollu þar undir veggnum hægra megin. Rollan virðist hafa villst alla þessa leið, um 200-300 metra, inn í hellinn og lagst síðan þarna undir vegginn þar sem hún hefur borið beinin. Frá hraunpollinum lækkar hellirinn verulega. Þó má skríða í gegnum hrun lengst til hægri og spölkorn áfram. Ákveðið var að gera það ekki að þessu sinni.
Haldið var til baka og farið í rásina, sem fyrr var lýst. Hraun er víða í annars víðri rásinni, en hægt að fara hægra megin með því. Hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Á einum stað er geisifalleg hraunsepamyndun í loftinu og eins og skrautleg kóróna hangi nuður úr því.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinar. Sá til vinstri er eftirgerð annars, sem glatast hefur.

Innar þrengist hellirinn á ný, en þegar komið er framhjá smá hruni opnast hann inn í víða þverrás. Hlaðin var lítið varða á mótunum svo auðveldara væri að rata til baka því auðvelt er að villast í margskiptum hellum. Þessi varða kom sér líka vel á bakaleiðinni.
Þverrásin virðist lækka nokkuð þegar neðar dregur, en hana á að vera hægt að skríða áfram út um eystra opið í jarðfallinu. Þegar ofar dregur hækkar og víttkar hellirinn og fallegir bálkar eru með veggjum. Efst í honum er hrun, en áður en komið að því er lítil varða hlaðin á mitt gólfið. Hún gaf til kynna að lengra væri ekki komist með góðu móti. Hins vegar liggur rás þarna til hægri, en hún er það lág að skríða þarf hana á maganum. Haldið var til baka að fyrr vörðunni og haldið niður eftir rásinni, sem genginn hafði verið. Þegar farið er til baka er eðlilegra að halda áfram, framhjá aðalrásinni, og því auðvelt að ganga framhjá opinu við hrunið. Seinni rásin er sviðuð að lengd og sú fyrri, um 200-300 metrar.

Leiðarendi

Leiðarendi – kort ÓSÁ.

Eftir smáhvíld var haldið inn um eystra opið í jarðfallinu. Klöngrast þarf spölkorn inn í hellinn, en síðan tekur við slétt gólf. Miklir bálkar eru til beggja handa. Fljótlega er komið að stað þar sem nýja hraunið hefur lekið niður í rásina og storknað. Hægt er að skríða meðfram því vinstra megin og er þá komið inn í víða hraunrásina á ný. Þar fyrir innan er eins og hraunpollur því gólfið framundan hækkar nokkuð. Eftir það lækkar hellirinn mikið og verður einungis skriðinn. Þá er komið inn á þann stað, sem horfið var frá áður. Með eindregnum vilja má fara þar í gegn og er þá stutt eftir í efra opið á jarðfalli Leiðarenda.
Veðrið ofan jarðar skipti í rauninni engu máli. Niðri var bæði hlýtt og skjólgott.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.

Leiðarendi

Hópur ungskáta með FERLIRsfélögum á leið í Leiðarenda.

 

Húshellir

Gengið var upp með Fjallsgjá að Fjallinu eina og inn á hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju. Ætlunin var að skoða nokkra hella, s.s. Steinbogahelli, Híðið, Húshelli og Maístjörnuna. Nokkrir aðrir hellar eru þarna á svæðinu og sumir nokkuð langir.

Hrútagjárdyngja

Jarðmyndun í Hrútargjárdyngjuhelli.

Op Híðisins lætur lítið yfir sér. Þegar inn var komið sést einungis í fljótu bragði lág hraunbóla með sléttu gólfi. Hægt er þó að halda áfram niður í meginrásina á tveimur stöðum. Auðveldara var að fara til vinstri þegar inn var komið og láta sig síðan síga á aftur bak niður í rásins. Þá tók við greið leið til suðurs, með beygjum og bugðum, dropsteinum, hraunstráum og öðrum fallegum hraunmyndunum. Hellirinn lækkar og hækkar, stuttir hliðargangar liggja út frá meginrásinni og stundum þurfti að skríða á maganum um tíma. Híðið er alllangt með viðkvæmum helladýrgripum.
Húshellir er skammt ofar. Þegar inn var komið tók við stór salur með stuttum rásum til tveggja átta. Á miðju gólfi var hlaðið byrgi. Bein lágu á gólfinu. Erfitt reyndist að ákvarða úr hvaða skepnu þau gætu hafa verið. Jafnvel var talið að þau hafi verið úr hreindýrskálfi. Húshellir hefur alla burði til að geta talist til tímabundinna mannabústaða.

Híðið

Í Híðinu.

Gömul þjóðleið lá upp með Fjallinu eina og skammt frá opi hellisins áleiðis að norðurbrún Hrútagjárdyngju. Sagnir eru af útilegumönnum á þessum slóðum, en í þeim frásögnum er ýmist getið um Hverinn eina eða Fjallið eina. Ein sagan segir að þeir hafi fundið skúta “skammt sunnan Selsvöllu og hreiðrað þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina.” Þar voru þeir handteknir og dæmdir á Bessastöðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sunnan við Selsvelli er hellir, en ekki er fulljóst hvar nefndur hellir hafi verið nálægt Hvernum eina. Þó er þar nálægt gróið jarðfall með lóðréttum veggjum. Auðvelt hefði verið að refta yfir það og fá þannig hið ákjósanlegasta skjól. Þrátt fyrir sagnir af útilegumönnunum við Selsvelli er alls ekki útilokað að útilegumenn hafi hafst við annars staðar í hraununum í skamman tíma, s.s. í Húshelli. Þá gætu refaveiðimenn hafa haft þar skjól, en a.m.k. tvær hlaðnar refagildrur eru í Hrútargjárdyngju skammt ofar.
Samkvæmt lögum þjóðveldisins forna var skóggangur þyngsta refsing sem sakamaður gat fengið. Skóggangur var ævilangur og voru sakamenn þessir gerðir útlægir úr samfélaginu og voru réttdræpir ef til þeirra sást. Þeir leituðu því oftast skjóls í óbyggðum þar sem enginn varð þeirra var.

Húshellir

Við Húshelli.

Sumir útilegumenn áttu að búa í hellum uppi í óbyggðum við frekar kröpp kjör. Líf þessara manna var erfitt og þar eð þeir gátu ekki lifað einungis á náttúrunnar gæðum þá neyddust þeir oft til þess að stunda gripdeildir í byggð. Og þá var ekki verra að vera tiltölulega nálægt henni, en þó í öruggri fjarlægð.
Maístjarnan er með fallegri hellum. Inngangan í hana er áhrifarík, eða í gegnum auga. Hellirinn er viðkvæmur; mikið af dropsteinum og hraunstráum. Litadýrðin er allnokkur og súlnaverkið skrautlegt. Steinbogahellir er hins vegar æskilegri umgangs. Opið er stórt og hellirinn víður. Hrun er inni í rásinni, en hægt er að fara yfir það og áfram niður rásina. Hellirinn er nefndur eftir steinboga, sem er yfir jarðfallinu þar sem opið er.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tók 5 klst og 5 mín.

Híðið

Híðið – op.

Rauðshellir
Undirheimar Íslands eru með þeim margflóknustu í heiminum og eru þá öll stórustu löndin meðtalin.
FerlirOft hefur fólk hér á landi talað um undirheimana sem eitthvað þokukennt og lítt hönd á festandi. Flestir óttast undirheimana. Fáir hafa þó litið þá augum. Einungis einn maður hefur hingað til ferðast um þann heim allan. Fyrir hans tilstuðlan er nú svo komið að Ísland er eina landið í heiminum sem kortlagt hefur og eignast heilstætt yfirlit um undirheima sína. Það er nú komið út í bók – og það ekki lítilli.
Stórvirkið Íslenskir hellar eftir Björn Hróarsson hafði verið a.m.k. 25 ár í vinnslu. Um er að ræða tvær bækur í öskju. Verkið í heild er 672 blaðsíður. Ljósmyndir í bókinni eru um 1000 talsins, auk um 100 uppdrátta af hraunhellum.Björn
Í þessu stórkostlega verki, sem er í rauninni hreint afrek út af fyrir sig, er lýst undraveröld hraunhellanna á Íslandi. Hellarnir mynda undirheima landsins. Þeir eru yfir 100 km að lengd og að rúmmáli eru þeir yfir fimm milljónir rúmmetra.
Með stórfenglegum ljósmyndum og uppdráttum er lýst á fimmta hundrað hellum og um fæsta þeirra hefur verið fjallað á prenti fram til þessa. Bókin færir lesendum gríðarlega viðbót við lýsingu landsins og gefur nú öllum kost á að berja þá augum. Sérhver hellisrás hefur sín sérkenni og lögun. Litadýrð undirheimanna er mikil. Samsetning lita eru komnir beint frá móður náttúru sem og önnur jarðmyndunarlistaverk, sem þar er að finna. Hugmyndagöfgi manna geta verið fjölbreytt, en henni eru takmörk sett og verða í rauninni léttvæg þegar staðið er andspænis afurð náttúrunnar. Hún birtist m.a. í hellunum, sem hafa fengið að vera ósnertir í þúsundir ára.
Hellafræðin er kynnt ítarlega til sögunnar og tilurð hraunhella útskýrð á glöggan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um hraunrennsli og þær einstæðu myndanir sem íslenskir hraunhellar geyma og gerð grein fyrir hellarannsóknum, hellamennsku og umgengni í hellum svo eitthvað sé nefnt.
Með hjálp stórfenglegra ljósmynda er hulunni svipt af óþekktri en heillandi veröld og lesendum boðið í ferðalag sem seint gleymist.
Björn sagði við útgáfu bókarinnar að eitt af markmiðum útgáfunnar væri að kynna þessa undirheima og upplýsa um undur þeirra og hvernig skuli um þá gengið. Bókinni er beinlínis ætlað að koma í staðinn fyrir hellaferðir enda nú hægt að njóta hellanna heima í stofu eða “sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast”.
Þótt bókin sé eðlilega búin til fyrir lesendur sína eins og aðrar bækur þá er hún einnig og ekki síður sett saman fyrir hellana sjálfa. Þeir þurfa á því að halda að um þá sé vitað og um þá sé fjallað. Það er hvorki hægt að skoða, virða, nýta né vernda heim sem ekki er vitað um. Þetta mikla verk fjallar þannig ekki bara um hellana heldur var hún einnig hugsuð fyrir þá.
Í hinu mikilfenglega ritverki Íslenskir hellar leggst allt á eitt við að ljúka upp ævintýralegri veröld undirheima landsins sem fáir þekkja – en allir geta nú fræðst um, skoðað og dáðst að.
Til hamingju Björn Hróarsson – til hamingju Íslendingar.

Brennisteinsfjöll

Einn sunnudag í nóvember ákváðu félagar í Climbing.is að skreppa í hellaferð í Brennisteinsfjöll.
Fjallgarðurinn liggur suður-norður á Reykjanesskaga og er stysta leið að honum frá Kleifarvatni. ferlirGengum við uppúr Gullbringu og haldið inn hraunið í átt að fjöllunum. Til að byrja með var gönguleiðin nokkuð slæm, þykkur mosi og miklar mishæðir en skánaði stórum þegar komið var upp á heiðina. Við gengum í talsverðum vindi en hita yfir frostmarki inn að fjöllunum og skoðuðum þónokkra smáhella á leiðinni en talsvert hellakerfi virðist liggja í austur-vestur en er þó mikið hrunið og grunnt.
Þegar komið er í Brennisteinsfjöll er nokkuð áberandi gígaröð til suðurs og gengum við upp á einn gíginn sem heitir Eldborg og er útsýni af honum mikið og fagurt eftir gígaröðinni og niður í Selvog. Um 1 kílómeter sunnan við gíginn er opið niður í hellinn Ferli sem var áætlunarstaður okkar. Í munnanum eru 2 op, annað beint áfram niður og annað til hægri og talsvert þrengra. Fyrst var valið að fara beint niður og mætti okkur þar smá gangakerfi með hraunflór í miðju sem er mjög rauðleitur og fallegur.
FerlirEftir smá ljósmyndun þar var snúið við og farið í göngin sem liggja niður til hægri. Þau skiptast strax í tvennt, önnur liggja til hægri og enda mjög fljótt en fallegar myndanir eru í gólfi þar. Göngin til vinstri eru mun lengri en þrengri. Þar hefur þunnur hraunstraumur runnið og eru veggirnir ótrúlega fagrir með beinum rennslismyndunum og öðru megin er bakki sem er eins og bekkur. Þau göng eru cirka 40 metrar og enda svo snarlega.
Þegar við kláruðum að skoða það sem við fundum af hellinum var ljóst að stutt væri í myrkur og því haldið af stað til baka um 7 km leið að bílnum. Var myrkur skollið á á miðri leið en þar sem allir voru vel ljósum búnir reyndist það ekki vandamál, leiðsögutæki sett í hönd og haldið áfram að labba. Nokkuð lengri leið var valin til baka þar sem enginn nennti aftur að klöngrast um hraunið aftur og lá sú leið niður í lítinn dal rétt norðan Gullbringu en þar hefur stór og úfin hrauntunga runnið um. Við tókum stefnuna fyrir hana á þægilegum göngustíg sem liggur niður á veginn fyrir suðurenda Kleifarvatns.
Gangan reyndist vera 15 km samkvæmt GPS og er þetta frábært svæði að ganga um.

Ferlir

Í FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

 

Björn Hróarsson
Stórvirkið „Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson er að koma út hjá Vöku-Helgafelli (Eddu útgáfu hf.).
Stórvirkið Íslenskir hellarUm er að ræða tvær bækur í öskju. Bækurnar eru í stóru broti, 33 cm x 25 cm, opnan er þannig 33 cm á hæð og hálfur metri á breidd. Verkið í heild er 672 blaðsíður, fyrra bindið er 320 blaðsíður og síðara bindið er 352 blaðsíður. Textinn er um 150.000 orð eða um ein milljón stafir. Ljósmyndirnar eru um 1000 talsins. Þá eru uppdrættir af um 100 hraunhellum í verkinu.

Í þessu mikla verki er lýst undraveröld hraunhellanna á Íslandi. Með stórfenglegum ljósmyndum og uppdráttum er lýst á fimmta hundrað hellum og um fæsta þeirra hefur verið fjallað á prenti fram til þessa. Bókin færir lesendum gríðarlega viðbót við lýsingu landsins því hellarnir eru samanlagt yfir 100 kílómetrar að lengd og að umfangi yfir fimm miljónir rúmmetra.

Hellafræðin er kynnt ítarlega til sögunnar og tilurð hraunhella útskýrð á glöggan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um hraunrennsli og þær einstæðu myndanir sem íslenskir hraunhellar geyma og gerð grein fyrir hellarannsóknum, hellamennsku og umgengni í hellum svo eitthvað sé nefnt.

Úr hellinum FERLIRMeð hjálp nærri þúsund stórfenglegra ljósmynda er hulunni svipt af heillandi veröld og lesendum boðið í ferðalag sem seint gleymist. Eitt af markmiðum útgáfunnar er að kynna þessa undirheima og upplýsa um undur þeirra og hvernig skuli um þá gengið. Bókinni er beinlínis ætlað að koma í staðinn fyrir hellaferðir enda nú hægt að njóta hellanna heima í stofu eða “sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast”.

Þótt bókin sé eðlilega búin til fyrir lesendur sína eins og aðrar bækur þá er hún einnig og ekki síður sett saman fyrir hellana sjálfa. Þeir þurfa á því að halda að um þá sé vitað og um þá sé fjallað. Það er hvorki hægt að skoða, virða, nýta né vernda heim sem ekki er vitað um. Þetta mikla verk fjallar þannig ekki bara um hellana heldur var hún einnig hugsuð fyrir þá.

Úr hellinum FERLIRBjörn Hróarsson, höfundur verksins, er jarðfræðingur og hellafræðingur sem stundað hefur rannsóknir á hraunhellum í aldarfjórðung. Hann hefur notið aðstoðar fjölmargra hellamanna og sérfræðinga á ýmsum sviðum við að draga upp þessa ítarlegu lýsingu. Heimildaskráin telur til dæmis um 700 titla. Þá eiga um 40 ljósmyndarar, innlendir og erlendir, myndir í bókinni.

Allt leggst hér á eitt við að ljúka upp ævintýralegri veröld sem fáir þekkja. Ekki þarf að koma á óvart að þetta mikla, óeigingjarna og jafnframt ómetanlega ritverk verði valið til viðurkenninga hinna Íslensku bókmenntaverðlauna.

Þorsteinshellir

Sauðahellir fjárhellir.

Kistufellsgígur

Í síðustu FERLIRsferð um Brennisteinsfjöll var gengið fram á op á þykkri hraunhellu í Kistufellshrauni, nokkru vestan Kisufellshraunshellanna (KST). Gatið var um 4 m í radíus, hringlaga. Dýptin niður á botn var um 10 metrar. Þar sást niður í rás, um 6 metra breiða. Stórt gróið jarðfall er nokkuð ofar, en ekkert að sjá neðar. Til að komast niður þurfti um 6 m langan stiga niður á hrunið eða góðan kaðal. Ætlunin var að kanna undirniðrið sem og annað op í hliðarrás við hrauntröðina miklu norðvestan Kistufells.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp úr Fagradal með stiga og sléttri hellu Kistuhraunsins fylgt inn að hrauntröðinni. Í rauninni mætti neðsti hluti hraunsins hafa sæmdarheitið “Reipahraun” því slík eru hraunreipin á kafla að fá önnur hraun geta af státað nokkru sambærilegu. Reipaflekarnir taka á sig hinar ótrúlegustu myndir, auk þess sem sjá má þarna sýnishorn af flestum reipagerðum, sem til eru.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi.
Í hluta hraunsins, einkum neðanverðu, eru lágir hólar með gróningum á milli. Þegar yfirborðsskánin þykknar brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins.
BrennisteinsfjöllEfri hlutinn er mjög sléttur, enda runnið yfir sléttveðrað Kistufellshraunið, sem sjá má norðan hraunstraumsins. Vestan hans er Eldborgarhraunin, úfin apalhraun. Apalhraun [aa] nefnast úfin hraunin sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður.
Brennisteinsfjöll Skammt norðvestan við hrauntröðina miklu liggja þrjár hraunrásir, samliggjandi. Þrjú jarðföll er þarna á einni þeirra á stuttu svæði. Eitt þeirra er einstaklega vænlegt. Stiga eða kaðal þarf til að komast niður í rásina. Það var ekki gert að þessu sinni því snjór hafði fyllt hana, auk þess sem stiginn var einnota. Hún verður því skoðuð síðar. Jarðfallið var nefnd KST-17.
Þegar komið var upp að hrauntröðinni miklu var henni fylgt spölkorn til vesturs en síðan haldið upp að Kistufellshellunum. Í opið var kominn snjótappi jafnhár yfirborðinu, en einungis í miðju þess. Nú sást vel til hinna miklu jarðfalla er geyma Kistufellshellanna. Opið, sem opnast hefur tiltölulega nýlega, er greinilegahluti af þessu hellakerfi. Gróin hrauntröð er skammt neðar og liggur hún að hrauntröðinni miklu. Neðarlega er stórt jarðfall í henni, nú nær fullt af snjó, líkt og önnur slík á svæðinu.
Veður var eins og best var á kosið, logn og sól. Því var ákveðið að ganga upp í Kistufellsgíginn sjálfan og berja hann augum áður en hafist yrði handa við opið fyrrnefnda.
Kistufellsgígurinn skartaði sínu fegursta. Í bakagöngunni var komið við í Jökulgeimi, einum Kistufellshellanna. Þrátt fyrir mikinn snjó framan við opið var hægt að nýta hann til að komast niður í geiminn. Grýlukerti þöktu loft og jökullinn þakti gólf.
Brennisteinsfjöll Þá var hafist handa við að reyna að komast niður í opið, sem fengið hafði nafnið KST-16.
Með hjálp stigans var hægt að komast niður með snjótappanum og forfæra stigann síðan áfram niður með honum. Það er jafnan ekki auðvelt að kanna undirheimana, en með góðum undirbúningi og útsjónarsemi geta þeir orðið ótrúlega greiðfærir. Í ljós kom að þarna var um að ræða svipað fyrirbæri og hina Kistufellshellana, en minna þó. Þarna hafði kvika safnast saman á leið um rásina, sem nú myndar grónu hrauntröðina. Hraunhellan (þakið) hafði nú rofnað yfir hólfinu. Ekki er ólíklegt að rás kunni að liggja áleiðis að hinum Kistufellshellunum, en snjór hindraði frekari könnun á þeim möguleika. KST-16 var nefnd “Hróarskelda” í tilefni dagsins.
Þá var bara að finna opið á rásinni norðvestan við hrauntröðina miklu. Með því að rekja hana eins og áður hafði verið gert, þegar opið fannst tókst að staðsetja það (KST-19). Nú var opið fullt af snjó, en með löngum göngustaf var hægt að opna gat niður í rásina. Hún er um þriggja metra breið og um einn og hálfur meter á hæð, en lækkar eftir því sem innar dregur. Hlutinn til norðurs er um 30 metrar, en til suðurs um 5 metrar. Þessi hluti rásarinnar er því um 40 metrar að heildarlengd.
Nokkru norðvestar er stórt op með víðum og háum helli (KST-18), u.þ.b. 30 m langur. Tvö op eru á honum. Þessi hellir er líklega hluti af sömu hraunrás og sá fyrrnefndi.
Líklegt má telja að fleiri rásir séu enn ókannaðar á þessum slóðum. T.a.m. höfðu tvö til viðbótar sést á loftmynd, en ekki vannst tími til að finna og kanna þau að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.mr.is/~gk/jfr/ordskyr/index.html

Í Kistufellshellum

Búri
Hraunhellar eru rásir sem hraunbráðin rann eftir og tæmdust síðan.
Hraun renna ýmist í tiltölulega grunnum farvegum, svokölluðum hrauntröðum, nærri yfirborði hraunsins eða bráðin rennur neðanjarðar og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins og sameinast honum. Við þetta lyftist yfirborð hraunsins og það getur þykknað verulega á stóru svæði auk þess sem svonefndir „troðhólar“ myndast. Þessa sér til dæmis víða stað meðfram Keflavíkurveginum.

Búri

Búri – svelgurinn.

Surtshellir í Hallmundarhrauni í Mýrasýslu er stærsti íslenski hellirinn. Surtshellir er einnig lengsti hellir á Íslandi um 1.970 metra langur. Í beinu framhaldi af Surtshelli til norðausturs er Stefánshellir en lokað er á milli hellanna vegna hruns. Samtals eru þeir 3.500 metrar á lengd. Þessi háttur, að hraunkvikan „troðist inn í“ hinn bráðna hluta hraunsins líkt og vatn í belg, er sennilega mun algengari en hinn fyrrnefndi, einkum þegar um rúmmálsmikil hraun er að ræða.Þegar hraun rennur eftir hrauntröð myndast þegar í stað storkin skán á yfirborði þess. Þegar skánin þykknar getur hún orðið að föstu þaki yfir hraunrásinni sem helst stöðugt þótt lækki í hraunstraumnum undir. Hraunhellar eru sem sagt rennslisrásir eða „pípur“ sem hafa tæmst að meira eða minna leyti.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Hvalur

Í hópinn bættust á annan tug Grindvíkinga, sem virðast hafa mikinn áhuga á sögu og umhverfi bæjarins.

Hvalur

Leitin að Hvalnum.

Ætlunin var m.a. að reyna að staðsetja Hvalinn í Arnarseturshrauni og kíkja síðan á nokkra staði. Fyrir lá gamall gps-punktur af hellinum og var hann notaður til að staðsetja svæðið. Á leiðinni var komið við í einu hlöðnu byrgjanna frá gerð Grindarvíkurvegarins á árunum 1914-1918. Það stendur svo til heilt örskammt vestan við veginn skammt sunnan stigann vestan Hestshellis.
Eftir svolitla leit fannst opið á Hvalnum. Komið er niður í hvalsginið, farið inn fyrir þrengingu og þar er opinn flór í gólfinu. Farið er ofan í flórinn og hellirinn var eltur u.þ.b. 30 metra. Fallegasti hlutinn er um og í kringum flórinn og síðan inn undir hann. Alls er hellirinn um 50 metrar. Hlaðin var lítið varða vestan við opið.

Kubbur

Op Kubbs.

Þá var haldið til suðurs að Kubbnum. Hann er í enda hraunrásarinnar miklu er liggur til vestur frá Arnarsetri á Gíghæð. Hægt er að fara inn í hann í hraunrásinni, en þá þarf að hoppa niður í kjallara þegar inn kemur. Ef hins vegar, eins og gert var nú, farið inn skammt vestan við stórt jarðfall vestan við opið í rásinni, er fljótlega komið inn í heillegan helli. Gólfið er slétt og bæði hátt til lofts og vítt til veggja á kafla. Alls er neðri rásin um 60 metra löng.
Á leiðinni upp með norðanverðum gjárbarminum var bent á op Nadda, en inngangur í hann er hola ofan í jörðina. Hellirinn er um 30 metra langur. Ekki var farið ofan í hann að þessu sinni.

Dollan

Dollan.

Einnig var skyggnst niður í Dolluna, en hún er örskammt vestan við Grindavíkurveginn á Gíghæð. Stiga þarf til að komast niður og upp aftur með góðu móti. Dollan er einnig um 30 metra löng.
Þá var haldið yfir veginn og komið við í vegavinnubúðunum á hæðinni. Hlaðið hesthús er þar austar, en hesthús, geymsla og smiðja í meginhraunrásinni. Þar má einnig sjá fallega hestagötu og sléttuð svæði fyrir tjöld.

Hvalur

Við opið á Hvalnum.

Gengið var norður með girðingunni og komið við í Dátahelli og síðan áfram með henni til norðurs uns komið var í Hestshelli. Fallegar hleðslur eru fyrir opinu. Hellirinn er hæstur og víðastur fremst, en lækkar og þrengist eftir því sem innar dregur. Þar greinist hann í tvær þröngar rásir og er hellirinn lengstur um 160 metrar. Þátttakendum var bent á hvar Hnapp (Geirdal) væri að finna ef einhver þeirra hefði áhuga á að skoða þann helli við tækifæri. Opið er nokkuð mjótt og þröngt, en þegar niður er komið tekur við gott rými. Þaðan liggur rást til norðvesturs og greinist í tvennt. Rásin til vinstri hallar niður á við og er þá komið í nokkuð rúmgóðan sal. Út frá honum liggja rásir í ýmsar áttir. Hægt er að komast upp úr hellinum á a.m.k. tveimur stöðum.

Arnarseturshraun

Hellisop í Arnarseturshrauni.

Veður var þokkalegt þegar lagt var af stað og góður veðuruppgangur varð á svæðinu þegar á leið. Það er ekki á hverjum degi sem boðið er upp á ónotað súrefni beint frá Suðurheimskautinu.
Í næstu ferð á svæðið verða fleiri hellar staðsettir.
Gangan tók um 2 og ½ klst. Sjá meira HÉR.

Hestshellir

Hestshellir.

Þjófadalir

Ákveðið hafði verið að líta á helli í brún Þríhnúkahrauns ofan við Þjófadali, en gengið hafði verið fram á opið á sínum tíma á leið ofan af Þríhnúkum (FERLIR-398). Opið er utan í mikilli hraunrás talsvert norðan við hnúkana. Rásin sjálf er fallin og liggur til norðurs frá stóra gígnum. Í henni er mikið og líklega um 12 metra ókannað djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður nema á bandi. Snjór er á botninum. Fallna rásin lokast síðan með hafti uns hún beygir til norðvesturs. Mikill geymur hefur verið í beygjunni áður en þakið féll niður.
Haldið var því á ská upp hlíðina þangað til komið var í nýrra hraun ofan við hana. Í því eru miklir hraunhólar fremst á brúninni. Skjól var á milli hólanna og svo til alveg að hellisgatinu. Það er uppi og utan í norðurbrún föllnu hraunrásarinnar. Opið er u.þ.b. mannhæðar hátt og snýr á móti suðri. Grófur brúnleitur hraunlækur hefur runnið niður rásina og myndar hann gólfið. Frauðkennt hraunið lét undan þegar stigið var í það svo ljóst er að þarna hefur ekki verið mikil umferð.

Þjófadalir

Þjófadalahellar.

Rásin sjálf er nokkuð slétt. Hún hallar niður á við og beygir aflíðandi til vinstri. Fallegar bergmyndanir eru í henni. Eftir u.þ.b. 100 metra lækkar rásin en hækkar síðan á ný.

Ekki var farið lengra að þessu sinni, enda þyrfti góðan galla til að koma í veg fyrir að koma ekki allur rifinn og tættur út aftur. Á leiðinni var komið við í fallegri hraunrás undir nýja hraunkantinum í Þjófadölum. Rásin er greinilega endinn á hraunrás, sem komið hefur niður hlíðina því nokkur jarðföll eru á henni á leiðinni niður. Veggirnir eru rauðleitir og fallegir. Rásinni var fylgt u.þ.b. 60 metra, en þá var snúið við. Hún virðist beygja áfram til norðvesturs undan hallanum. Þetta er falleg rás, sem vert væri að skoða nánar.
Gangan tók 2 klst og 21 mín. Frábært veður.

Þjófadalir

Í einum Þjófadalahellanna.