Færslur

Snorri

“MEGAflott” varð fulltrúa Hellarannsóknarfélags Íslands að orði eftir að hafa skoðað skoðað Snorra. Meira um það á eftir.

Snorri

Björn Hróarsson við Snorra.

Stefnan var tekin á Slóðaketil og Snorra. Rúmlega fimm metra langur stigi var með í för. Lögreglunni í Reykjavík er þökkuð afnotin því án stigans hefði hrikaleiki undirheimana ekki verið uppgötvaður að þessu sinni.
Til þess að komast niður í Slóðaketil þurfti á öllum fimm metrunum að halda. Í hraunbólu er ketill. Rás liggur upp úr honum á efri hæðinnim þrengist, en víttkar aftur uns hún lokast alveg. Mjó rás, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, liggur niður í sléttbotna rás, sem enn er ókönnuð. Þar þarf einhvern mjósleginn til að skríða aftur á bak niður og skoða rásina. Aldrei að vita hvað þar kannn að leynast. Niður í katlinum liggur rás niður á við og beygir til hægri. Þar lokast hún. Í heildina er kannaður hluti Slóðaketils u.þ.b. 30 metrar.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Þegar komið var að Snorra blasir við geysistórt jarðfall. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hruninn skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra uns hún lokast alveg. Snorri fannst eftir ábendingu frá Snorra Þórarinssyni frá Vogsósum, en hann hafði einhverju sinni átt leið þarna um í smalamennsku og þá gengið fram á jarðfallið. Síðan gerði FERLIR þrjár tilraunir til að finna jarðfallið og fannst það að lokum í svartaþoku með aðstoð GPS-tækis, sem notað hafði verið til að skanna svæðið þvers og kruss.

Snorri

Snorri – þrívíddarmynd.

Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann með því að færa til stóra steina. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í nálægt sex metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en nú sást að allur veggur kjallarans er þannig. Stiginn var dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Fulltrúi HERFÍs klifraði upp – og hvarf. Hann kom ekki aftur fyrr en eftir rúmlega hálfa klukkustund. MEGAflott sagði hann bara þegar hann var spurður hvernig þetta væri þarna uppi – og brosti sínu breiðasta. FERLIRsfélagar héldu við stigann á meðan, en ef vel á að vera þarf þarna nálægt átta metra langan stiga til að komast bæði upp og niður með góðu móti. Einn félaginn stalst reyndar til að klifra upp og kíkja inn fyrir. Þessi rás liggur inn fyrir stóra jarðfallið í meginrásinni. Þá tekur við u.þ.b. 5 metra hár og 10 metra breiður sléttbotna hellir, um 300 metra langur. Í honum eru dropasteinar og annað er prýtt getur fallegan hraunhelli. HERFÍsfulltrúinn gaf hellinum einkunina 8 af 10 mögulegum. Það segir jú sína sögu.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Þarna bættist enn ein perlan í safn HERFÍs, ekki langt frá fyrirhuguðu vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar. FERLIRsfélagar er ánægðir með að hafa fengið að taka þátt í uppljóstran þessara gersema Íslands. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með fulltrúum HERFÍs og skoða, mynda og mæla hellinn. Aldrei er að vita hvað þá kann að finnast.
Snorri er sem sagt ekki fullkannaður. Hellirinn er bæði vandfundinn og aðkoman torfarin – þrátt fyrir stærðina.

Veður var frábært – logn og sól.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Arngrímshellir

Á Reykjanesskaganum eru þekktir um 600 hellar og skjól. Líklega er rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notað undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verk.

Húshellir

Í Húshelli.

Hellarannsóknarfélaginu er kunnugt um alla kunna hella og skjól á svæðinu. Einnig hvað í þeim er að finna. Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu Þjóðminjalöganna, þar sem segir að “til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.”
Skv. framangreindu mætti skipta hellum, skútum og skjólum á Reykjanesskaganum í tvo flokka, þ.e. a) án fornleifa og b) með fornleifum sbr. framangreint. Síðarnefnda flokkunum væri síðan hægt að skipta í tvo undirflokka; I) hella með titeknum mannvistarleifum, s.s. hleðslum, áletrunum, bælum o.fl. og II) þjóðsagnakennda hella.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Undir síðarnefnda aðalflokkinn teljast u.þ.b. 100 fjárskjól á Reykjanesskaganum. Mörg þeirra hafa verið í notkun fram yfir aldamótin 1900. Má þar nefna Strandarhelli, Bjargarhelli, Gaphelli, Eimuból og Strandarselsból á Strandarheiði, Fjallsendahelli, Stekkshellir og Litlalandshelli í Ölfusi, Breiðabáshelli og Seljabótarhelli í Herdísarvíkurhrauni, Arngrímshelli (Gvendarhelli) og Krýsuvíkurhelli í Klofningum, fjárskjól í Bæjarfelli, Arnarfelli, við Vigdísarvelli og Ísólfsskála sem og í Katlahrauni, Fjárhella í Kálffelli, við Hvassahraun, Lónakot, Óttarsstaði, Straum og Þorbjarnarstaði í Hraunum, fjárskjól ofan við Ás og í Kaldárseli, Selgjá og Búrfellsgjá og þannig mætti lengi telja.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Undir fyrrnefnda undirflokkinn teljast t.d. hellar eins og Gíslhellir við Rauðamel, Gullbringuhellir, Húshellir, Skjólið í Strandarheiði, Oddshellir í Kálffelli, Útilegumannahellar og Brauðhellir í Eldvörpum, Hestshellir og Dátahellir í Arnarseturshrauni, Sæluhúsið undir Lat, Loftsskúti og Brugghellir ofan við Hvassahraun, Helluhellir og Smalahellir við Kleifarvatn og t.d. Áni undir Hlíðarfjalli. Annars er letur og áletranir í mjög fáum hellum á Reykjanesskaganum (borgar sig ekki að upplýsa hvar).
Einn stærsti og fallegasti manngerði niðurgangurinn í helli á svæðinu er í Skjólinu í Strandarheiði og í Þorsteinshelli norðan við Selgjá. Óvíst er í hvaða tilgangi Skjólið var notað, en við það er bæði stekkur, tóft og fjárskjól. Gólfið innanvert er slétt og á því miðju er eitt einasta bein – sem segir svo sem ekkert. Þorsteinshellir er hins vegar augljóst tvískipt fjárskjól.
Undir seinni undirflokkinn teljast t.d. Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni, Draugshellir í Ölfusi, Draugahellir í Valahnúk, Dauðsmannskúti í Kóngsfelli, Litlihellir við Selfjall, Rauðshellir við Helgafell og Strandarhellir, Dúnknahellir við Hraunssand og Smíðahellir við Selatanga og Sængurkonuhellir í Illahrauni.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ljóst er að mannvistarleifar í hellum á Reykjanesskaganum hljóta að tengjast bæði fjárbúskap og ferðum manna á milli byggðalaga. Auk þess tengjast þeir athöfnum manna, s.s. veiðum, hvort sem um var að ræða rúpna-, refa- eða hreindýraveiðum. Minjar alls þessa má sjá í hellunum. Hellarnir og skjólin eru þess vegna tilvalin rannsóknarefni fyrir áhugasama fornleifa- og/eða þjóðfræðinga á höfðuborgarsvæðinu, sem ekki vilja fara of langt til efnisöflunar.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Minna má á að ekki er langt síðan að FERLIRsfélagar fundu niðurgang í Bjargarhelli. Um slíkan “gang” er getið í gömlum þjóðsögum og er þá jafnan átt við Strandarhelli, sem er þar skammt frá. Ekki er ólíklegt að ætla að einhverjir hafi ruglað hellunum saman, enda hvorutveggja fjárskjól. Annars væri fróðlegt fyrir einhvern fræðinginn að taka fyrir “nafnafrávikskenninguna” í tíma og rúmi. Eflaust gæti ýmisleg nýmæli komið út úr því. Margt óþarflegra hefur verið gert í fræðunum í gegnum tíðina. Með rannsókninni væri hægt að sameina hugmyndir og kenningar í ýmsum fræðigreinum.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Brennisteinsfjöll

Ætlunin var að finna Lýðveldishellir þann er Þröstur Jónsson lýsir í Surti og á að vera austan við Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Dagurinn var 17. maí.
Ekið var upp frá Sýslusteini á hæðirnar vestan við Vörðufall. Þaðan var gengið til austurs með norðanverðum grasigrónum hraunkanti með aflíðandi sandfjallshrygg á vinstri hönd. Til suðurs mátti sjá í Sandfjöllin, en Vörðufellið framundan.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gönguleiðin.

Gengið var eftir greinilega fjölförnum rollustíg inn yfir hraunið í átt að fellinu. Róleg rjúpa stóð á steini og fylgdist með. Við norðausturhornið á Vörðufellinu sást ofan í rás, en hún virtist ekki ná mjög langt. Frá honum lá djúp og löng hrauntröð til vesturs. Haldið var yfir öxlina sunnan hennar og birtist þá breiður og myndarlegur eldgígur í suðaustri. Myndarlegur eldgígur var norðvestan við Vörðufell og annar norðaustan við það. Gengið var upp á brúnin og blasti þá djúpur og myndarlegur eldgígur við. Frá syðri brún þessa stóra eldgígs far hið fallegast útsýni niður á Herdísarvíkurfjöllin, Hlíðarvatn, Selvog og austur með Suðurströndinni. Eldborg trjónaði efst á hryggnum skammt norðaustar. Sjá mátti á toppinn á Kistufelli í norðaustri.
Gengið var til austurs sunnan Eldborgarinnar, upp hraunhrygg og komið niður hann að austanverðu. Framundan, metrum sunnan við Eldborgina, var komið í slétt dökkleitt hraun er hallaði undan hlíðinni til suðurs. Í stefnu um 500 m austan af borginni var komið að litlu jarðfalli. Op lá niður úr því til suðurs. Eftir að inn var komið tók við mannhæðahá falleg rás. Bekkir voru beggja vegna í mjaðmahæð. Öll rásin, sem var heil, var öll glansandi. Separ voru í lofti. Eftir nokkra tugi metra beygði hún og var gengið í hring um stóra súlu. Rásin lá lengra niður, en sá hluti var ekki skoðaður að þessu sinni. Einn gluggi var á rásinni.

Kistuhellar

Í Kistuhelli.

Efra opið var aðgengilegra. Niður í það sáust glansandi bekkirnir mjög vel. Gengið var upp eftir henni um ca. 20 metra, en þar þrengist rásin, en hægt var að sjá upp í gíg. Þegar hann var skoðaður ofan frá sást vel hvernig þunnfljótandi rauðleitt hraunið hefur smurt rásina og leitað þarna upp úr henni. Rásin hafði fallið niður ofan opsins. Hægt var að ganga hana upp um ca. 20 metra. Hún var einnig mannhæðahá, en þrengdist svolítið áður en hægt var að komast upp úr henni þar fyrir ofan. Enn ofar var gígop og lá rásin upp úr henni. Þegar gengið var upp hraunið í stefnu rásarinnar fannst enn eitt opið. Frá því lá rásin til suðurs á móti honum. Hellarásirnar voru nefndar Kistuhellar, enda í Kistuhrauni.
Gengið var um slétta hraunið, rásinni fylgt ofanjarðar til norðurs og leitað að öðrum opum á leiðinni, en engin fundust. Skv. lýsingu Þrastar getur þarna varla verið um Lýðveldishellinn að ræða því í greininni er hann sagður vera í stóru jarðfalli og miklu, en á mjög svipuðum slóðum. Rétt er því, þangað til annað kemur í ljós, að nefna hellinn “Þjóðhátíðardagshellir Norðmanna” því þjóðhátíðardagur þeirra er 17 maí. Þarna var um fallegan helli að ræða.

Þjóðhátíðarhellir Norðmanna

Í Þjóðhátíðarhelli Norðmanna.

Gengið var til bak upp að Eldborginni og síðan frá henni til vesturs. Þá var komið að fallegum eldgíg. Gengið var upp á brún annars og sást þá ofan í stóran og umfangsmikinn eldgíg, nokkuð sléttan í botninn með moshól nokkurn veginn í miðju. Haldið var niður brúnina að vestanverðu og var þá komið í sléttbotna hraunrás. Síðan var nokkuð slétt hraunið fetað vestur með norðanverðu Vörðufelli með viðkomu í fallegri gígaröð. Tvær rjúpur sátu á hraunhrygg skammt norðar. Gengið var niður frá henni eftir stíg til vestnorðvesturs niður í slétt hraunið, þvert yfir djúpu rásina og að grashlíðunum, sem gengið hafi verið upp með í upphafi ferðar. Meðfram þeim var gengið aftur að bílunum.
Skv. gps-tækinu var gengið um 15 km leið. Gangan tók u.þ.b. 6 klst. Veður var ágætt – skyggð sól, en bjart.
(Lýðveldishellir fannst í næstur FERLIRsferð á svæðið, skammt norðaustan við Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna).

Lýðveldishellir

Í Lýðveldishelli.

Lónakot

Gengið var til norðurs á ská niður hraunið frá gatnamótum Lónakotsafleggjara við Reykjanesbraut. Eftir stutta göngu var komið í hraunlægð á milli hóla skammt norðan við landamarkagirðingu Óttarsstaða. Þar suður undir þeim, suðsuðaustan Sjónarhóls, var hlaðið myndarlegt fjárskjól, gjarnan nefnt Óttarsstaðahellir, en í örnefnalýsingu er það nefnt Sjónarhólsskjól. Stígur liggur frá því til norðurs í átt að Óttarsstöðum.

Lónakot

Tóftir Lónakotsbæjarins.

Haldið var áfram suðvestur hraunið að Lónakoti. Komið var að suðurgarðinum og inn fyrir gerðið. Inni í því er heillegt tótt af húsi. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndalegt sumarhús, sem nú er fallið. Lónin voru yfirfull vegna háflæðis. Ferskvatn var efst í lónunum. Gengið var framhjá hlöðnum nátthaga og áfram yfir túngarðinn að Lónakotsbæjarstæðinu. Austan þess mátti sjá Krumma, klofinn hraunhól, en lónið sunnan undir bænum, þar sem brunnurinn er. Var það svo yfirfullt að hvergi sást í skeljasandsstrandmyndina undan bænum. Tóttir fjóss mátti greina norðar í túninu og sauðakofa norðaustan á því. Víða eru þarna garðar og tóttir.
Gengið var vestur með ströndinni, framhjá hlöðnu gerði eða rétt og áfram yfir hraunhaft. Áður en gengið er upp hraunhaftið mátti sjá greinilegan flóraðan veg og annan hluta þess vestan við haftið. Þarna eru garðar og gerði, tóttir o.fl. í fögru umhverfi. Sækindin var þarna á beit við tjörn skammt vestar, en þegar hún varð mannaferða vör, tók hún strikið í átt að hafinu og hvarf sjónum enn á ný.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var spölkorn lengra til vesturs og var þá komið inn í fallega hrauntjörn, Dulu, með skjól á allar hliðar. Innan um hraunklettanna var tendraður varðeldur og var síðan sest við guðsveigainnlegg um stund, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sólin skein frá hafi og lognið speglaðist í tjörninni.
Loks var haldið suðaustur upp hraunið með viðkomu í Lónakotsfjárhelli. Norðan hans er Réttartangi eða Réttarklettar. Umhverfis þá eru garðhleðslur, hlaðinn stekkur eða rétt og tóftir undir klettum. Talið er að annað hvort hafi svæðið verið nýtt sem heimaselstaða frá Lónakoti eða hreinlega að gamli Lónakotsbærinn hafi staðið þarna, en verið færður fyrir nokkrum öldum vegna ágangs sjávar. Þá er og hermt að bærinn hafi heitið Svínakot.
Þegar gengið hafði verið enn lengra upp hraunið var komið að tveimur fyrirhleðslum undir gjávegg á mót suðaustri. Frá hólnum mátti sjá roðagyllta sólina setjast á sléttan hafflötinn. Útsýnið var eins og að horfa á málverk skapandi listamanns.
Frábært veður. Gangan 1. klst. og 11. mín.

Lónakot

Lónakot – sjóhús.

Völundarhúsið

Við gömlu Selvogsgötuna undir Tvíbollum eru nokkrir myndarlegir hraunhellar. Má þar nefna Völdundarhúsið, Spenastofuhelli og Rósaloftshellir. Hellarnir eru greinilega í útrásum frá meginrásinni, sem vel má greina af hinum miklu Grindarskörðjarðföllum ofar í hlíðinni, norðvestan við gígana. Meginrásin hefur borið mikið fóður frá þeim, en eftir því sem neðar dró hvíslaðist hún í nokkrar minni. Nyrst í djúpu og stóru ílöngu jarðfalli má sjá eina rásina. Önnur er þar sem Spenastofuhellir er ráshluti og þriðja er rásakerfi Völdundarhússins. Rósaloftshellir er hluti af fjórðu rásinni og eflaust mætti greina fleiri ef vel væri leitað. Enn neðar hafa þessar rásir síðan komið aftur saman í eina eða tvær. Hjartartröð og Leiðarendi eru hlutar af þeim rásum.
Stutt var um liðið síðan FERLIR fór í Spenastofuhelli með viðkomu í Völdundarhúsinu. Nú var gagngert farið á vettvang til að skoða betur síðarnefnda hellinn og jafnframt kíkja inn í Rósaloftshelli. Stutt er á milli opanna. Þannig eru ekki nema u.þ.b. 50 metrar milli meginopa Spenastofuhellis og Völdundarhússins og ekki nema um 20 metrar milli Völdundarhellis og Rósaloftshellis.
Meginop Völdundarhússins er í um 20 m ílöngu jarðfalli, ca. 4 m breiðu. Greiðar leiðir eru bæði í norður og suður inn úr jarðfallinu. Nyrðri hlutinn er áhugaverðari, enda margflóknari, litskrúðugri og með meiri fjölbreytni í hraunmyndunum.
Fallegar storkumyndanir eru á gólfi svo og líkt og bátur á hvolfi. Annað op er skammt ofar. en ca. 10 m suðaustan við neðra niðurfallið er 1-2 m breitt op. Innan við það tekur við rúmgóður hellir með nokkrum opum. Út frá rásinni er ýmis göng og þverrásir í allar áttir, jafnvel í hálfhringi.
Hliðarrásir eru víða þröngar, en litfagrar. Í einum ganginum eru mjó undirgöng sem óvíst er hvort fara má um. Hellirinn er líklega um 100 metra í heildina. Hann hefur þó ekki verið skoðaður til hlítar.
GrindarskörðÞegar komið er inn í nyrðri hlutann er hægt að velja um tvær rásir. Ef farið er niður í þá hægri má fljótlega sjá ógreiðfæra hliðarrás til vinstri. Hún mætir hliðrrás úr vinstri rásinni. Neðar er rauðleitur flór sem er líkur snigli á gólfi hellisins. Á veggjum má sjá hvernig hraunáarhæðin í rásinni hefur verið frá einum tíma til annars. Litlir separ eru í lofti. Rásin hlykkjast niður á við og þrengist. Hliðarrás liggur til vinstri. Þarna er gólfið brúnleitt og hefur þar lag lagst ofan á annað með þunnu lagi, sem síðan hefur brotnað upp í flísar. Lítið sem ekkert hrun er í þessum hluta hellisins. Hægt er að fara áfram á fjórum fótum og eflaust munu fleiri afhellar opnast þar neðra. Sú leið var hins vegar ekki farin að þessu sinni.
Þá var haldið niður í vinstri rásina í nyrðri hlutanum. Greina má hversu stór rásin hefur verið áður en þakið féll og jarðfallið myndaðist. Brúnleitara hraun er í þessari rás. Afrás er til hægri. Þverrás hærgi hellishlutans kemur inn í hana, en meginhlutinn heldur áfram niður á við, milli rásanna tveggja. Hún var ekki könnuð að þessu sinni. Þess í stað var haldið niður á við. Lítil þverrás er til vinstri. Stór steinn virðist loka leiðinni áfram, en hægt er að fara framhjá honum. Það er líka þess virði. Komið var inn í lítið rauðleitt herbergi með fáum, en fallegum spenum. Þarna hefur hrauneðja dvalið um stund áður en hún hefur náð að bræða grannbergið og leita áframhaldandi leiðar – um granna rás, sem síðan hefur lokast á eftir henni.
Skoðað var upp í syðra op rásarinnar. Innan við það er hrun. Hellirinn skiptist í tvennt. Ef haldið er upp eftir hægri rásinni er fljótlega komið að litlu jarðfalli, sem hægt er að komast upp úr. Einnig er hægt að skríða áfram inn undir hraunhelluna og eflaust eitthvert lengra. Vinstri rásin er heil. Hún leggur lítillega upp á við. Vinstra megin er sylla og rás innan við þröngt ílangt op. Rásin heldur áfram upp á við, en þrengist verulega. Meginhraunstraumurinn hefur runnið þarna um á leið sinni niður hlíðina.
GrindarskörðSkammt norðaustan við meginopið er lítið gat, sem þó er hægt að fara niður um. Undir því er sléttbotna rás. Þegar farð er til suðurs er komið inn á sylluna fyrrnefndu. Norðurleiðin lofar góðu. Hún virðist víkka þar sem hún hallar niður á við og beygja síðan. Henni var ekki fylgt að þessu sinni þar sem skriðbúnaðurinn var ekki með í för. Þetta er rás sem vert væri að kanna nánar við tækifæri.
Rósaloftshellir er stuttur. Op hans er í u.þ.b. 30 m ílöngu jarðfalli, svipuðu að breidd og Völdunarhúsið. Þessi hluti rásarinnar er ekki nema ca. 10 metra löng, en loftið er sérstakt. Um er að ræða nokkurs konar sepamyndun, nema hvað hún er mun minni en margflóknari. Þannig hefur orðið til mynstur er minna sumsstaðar á rósir. Af þeim dregur hellirinn nafn sitt.
Eins og fyrr sagði má sjá hvar hraunið hefur runnið niður hlíðar, sem einhverju sinni hefur verið nyrðri hluti Lönguhlíðar. Síðan hafa fæðst efst á brún hennar nokkrir klepra- og gjallgígar á sprungurein. Þríhnúkar, sem reyndar sumir vilja staðsetja sem hluta Stóra-Kóngsfells og Drottningar (Þríhnúkar) því hinir eiginlegu Þríhnúkar eru fjórir þegar horft er á þá frá austri, eru hluti þessarar gossprungu. Hún opnaðist skömmu eftir að fyrstu norrænu landnámsmennirnir settust að á Suðvesturhorni landsins. Líklega hefur það verið fyrsta eldgosið sem þeir hafa séð hér á landi. Síðan, í þessari sömu goshrinu, rann Kristnitökuhraunið. Þá opnaðist sprunga skammt vestar og sunnar er fæddi Nýjahraun, Afstapahraunið yngra og Ögmundarhraun.
Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma.
Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun. Gos í Tvíbollum, Stórabolla skammt norðar og Syðstubollum skammt sunnar, hafa orðið í þessari hrinu. Að vísu má sjá gíga á sprungureinum nokkur ofar og nær Bláfjöllum. Telja verður líklegt að þau hafi orðið í upphafi goshrinunnnar enda liggja hraunin er runnu úr Bollunum til suðausturs yfir þeim. Bollahraunin (þ.á.m. Þríhnúkahraunin) hafa því orðið til á síðari hluta goshrinunnat og miða má afmæli Völdundarhússins og Rósaloftshellis við það tímabil.
GrindarskörðÞegar horft er upp ú undirhlíðar Bollanna má bæði sjá hversu hraunstraumurinn hefur verið mikill, en um leið takmarkast af umhverfinu, þ.e. hæðum og lægðum í hlíðunum. Gamburmosinn er þar allsráðandi, en þess fyrir utan má sjá vel gróna “hlíðaróbrennishólma”.
Eldvirkni á skaganum virðist vera nokkuð reglubundin – goslotur verða á um þúsund ára fresti. Hver lota stendur í nokkur hundruð ár. Síðasta slík goslota hófst síðla á tíundu öld og stóð fram undir miðja þrettándu öld. Í hverri goslotu eru nokkrar goshrinur. Eins og við er að búast er síðasta goslotan best þekkt. Hún hófst með goshrinu í Brennisteinsfjallakerfinu og gaus á þremur stöðum, líklega á nokkurra ára eða áratuga bili. Austasta gossprungan er austan undir Bláfjöllum, á henni eru Eldborgir nyrðri og syðri þar sem Kristnitökuhraunið (Svínahraunsbruni) kom upp árið 1000. Mikil gos urðu á stuttri gossprungu sitthvoru megin við Kóngsfell í Bláfjöllum. Frá þeirri sprungu runnu feiknmikil hraun niður undir Sandskeið, ofan í Heiðmörk og vestur undir Húsfell. Vestasta sprungan liggur í suðvestur frá Tvíbollum í Grindaskörðum og frá henni runnu hraun niður með Höfðunum ofan Hafnafjarðar og niður undir Sædýrasafnið sáluga. Einnig runnu hraun frá henni til suðurs og ofan í Herdísarvík.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Tvíbollahrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi (gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið sem ekkert er um kjarrlendi á þessu svæði. Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu.
GrindarskörðStór hluti fólkvangsins eru melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna í suðurhluta fólksvangsins. Stærst er mýrin við Stóra Lambafell, en þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Jarðsaga svæðisins er fyrir margra hluta merkileg – og að mörgu leyti sýnilegri en gengur og gerist annars staðar í þessum landshluta. Svæðið er virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til svávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.
Rósaloftshellir Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum sprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25 -50 km langar og 5-7 km breiðar. Tvær þeirra fara um Reykjanesfólkvang, þ.e Krýsuvíkurrein og Brennisteinsfjallarein sem liggja frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann.
Jarðlögin á þessu svæði líkt og víðast hvar á Reykjanesskaganum eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli. Sömu sögu má segja um Lönguhlíð, þá er fóstraði Bollana. Syðst og austast í fólkvanginum er Krýsuvíkurhraun, forsög

ulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Það fæddist í annarri af hinum miklu goshrinum á Skagagnum. Sú hefur verið nefnd eftir Krýsuvíkur-Trölladyngjureininni. Goshrinan hófst árið 1151 og gaus þá á um 25 km langri sprungu sem lá skáhallt yfir skagann um Móhálsadal. Úr suðurhluta hennar rann Ögmundarhraunið og tók af m.a. hinn forna Krýsuvíkurstað. Úr norðurendanum rann Kapelluhraun í sjó fram sunnan Hafnarfjarðar. Um 1188 gaus aftur og rann þá að líkindum svonefnt Máfahlíðarhraun.
Síðasta hrinan var í Reykjanesreininni og stóð hún í nær þrjá áratugi, frá um 1210 til 1240. Fyrst gaus við Eldey 1210 eða 1211 og reis þá núverandi Eldey úr sjó.
Hvert eldgosið rak svo annað, en mest virðast umbrotin hafa verið árið 1226 en þá gaus í sjó við Reykjanestána og öskuna lagði til norðausturs yfir Reykjanesskagan, upp í Borgarfjörð og austur í Þingvallasveit. Í kjölfarið runnu nokkur hraun, Yngra-Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun (á því stendur orkuverið í Svartsengi) og Gíghæð við Grindavíkurveginn.
SpenastofuhellirAf framangreindu má sjá hversu t.d. hellar Tvíbollahrauns sem og annarra hrauna geta gefið greinargóðar upplýsingar um myndun og rennsli afurða gíganna, sem enn má sjá víðast hvar. Þeim, einkum þeir eru nærtækilegastir vegagerðarmönnum, fer þó óðum fækkandi. Sú verður og reyndin með hellana, ef ekki verður staðið vörð um þá sérstaklega. Að fenginni reynslu má sjá að venjulega hefur verið vaðið í nærtækustu hraungígana. Þannig hafa margir þeirra farið forgörðum. Má nefna Eldborg undir Trölladyngju, Moshól undir Núpshlíð og Rauðhól (Hraunhól) undir Vatnsskarði. Gígar þessir voru mikil náttúruundur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir eru meðal þess áhugaverðasta sem ferðamenn hafa verið að sækjast eftir á Íslandi. Skemmdar eða fjarlægðar eldborgir verða hins vegar ekki endurheimtar. Eins og þær líta út í dag, hálfsundurgrafnar, eru þær eiginlega bara slæmt minnismerki um skammtímaverðmætamat mannskepnunnar.
Neðar í hraunum Stórabolla og Tvíbolla má enn finna fallega hella, s.s. Flóka, Litla-Flóka og Dauðadalahellana. Allir hafa þeir sín einkenni, liti og myndunarsögu þótt uppruninn sér oftast einn og sá sami.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
http://www.os.is/blafjoll/blafjoll2.html
http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/upload/files/pdf/adalskipulag/umhverfi_og_utivist.pdf

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Maístjarnan

Haldið var í Maístjörnuna norðan við Hrútagjárdyngju.
Í stórvirkinu “Íslenskir hellar” segir Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna.
Í Maístjörnunni“Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.”
Í rauninni eru þrjú op á Maístjörnunni; meginopið með “Auganu” innanvert, lítið op skammt austar og það þriðja skammt suðaustar (sunnan við litla opið). Innan við litla opið er rás. Úr henni er hægt að komast í greinótta þverrás, sem síðan greinist á nokkra vegu líkt og stjarna.
Hér kemur lýsing á því sem er innan við stærsta opið (augað).
Skriðið var inn um “augað”. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir. Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”.
Ekki var að sjá að hellirinn hafi látið á sjá eftir jarðskjálftana undanfarið (2008). Þrátt fyrir að hellinum hafi verið haldið sæmilega vel leyndum hafa hraunstrá í loftum verið brotin á nokkrum stöðum.

Heimild:
Björn Hróarsson, Íslenkir hellar – 2006.

Dropsteinn í Maístjörnunni

Sauðabrekkuhellar

Gengið var niður að gígnum í Hrútagjárdyngju frá Djúpavatnsvegi (Undirhlíðaleið), yfir Hrútagjá og gamalli götu fylgt niður (norður) slétt mosagróið helluhraun austan við úfin hraunkant uns komið var Dyngjugrenjunum nyrst í brúninni áður en hraunið lækkaði til norðurs, í átt að Stóru-Sauðabrekku. Milli hans og brekkunnar eru Sauðabrekkuhellarnir sagðir vera, nokkrir hellar í stórum hraunbólum. Í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík eru þeir nefndir Moshellar.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum (gígur).

Nefnt Sauðabrekkuskjól er í Sauðabrekkum, en einungis FERLIR hefur hingað til tekist að staðsetja það [2001]. Að hellunum liggja götur úr þremur áttum. Einni þeirra var fylgt til austurs uns komið var að Skjólinu, fallegu sæluhúsi í mjórri hraunræmu í annars grónu hrauninu. Lítil varða er skammt norðan við sæluhúsið. Þá var haldið upp í Hrútagjárhella og síðan til baka um nyrstu Hrútagjárhrauntröðina, upp í þá austustu og áfram að upphafsstað.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Ketilsstígur liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni að Seltúni og þar taka heimalönd Krýsuvíkur við.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þegar komið var yfir fyrstu stóru sprunguna efst í Hrútagjá tók við tiltölulega slétt hraun vestan við austurtröð dyngjunnar. þegar komið var að enda hennar blasti dyngjuopið við. Það er hringlaga og reglulegt. Ljóst er að hraunið hefur bullað og kraumað í gígnum eftir að eiginlegu hraungosi lauk.

Hrauntaumurinn í austurtröðinni hefur runnið til baka í átt að gígnum og hraðkólnandi apalhraun hefur hrúgast upp norðan gígsins. Þegar staðið er á brún “hrúgaldsins” er horft yfir slétt hellurhraunið norðan af því. Það hraun hefur runnið áður og er dæmigert dyngjuhraun. Sérkennileg hrauntota kemur úr suðri, frá Mávahlíðahnúk, þar sem hraunið er allt markbrotið í hellur þvers og kruss. Svo virðsit sem hraun hafi náð aðskríða undir hið elda og brotið það upp á kafla. Norðan og austan viðþað er slétt og greiðfært helluhraunið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Gömul gata liggur norður hraunið með stefnu á brúna yfir Sauðabrekkugjá sunnan við Stóru-Sauðabrekkur. Hún stefnir beint á Dyngjugrenin. Þau eru í hraunæðum fremst í brúninni. Varða er við grenin þar sem skjól refaskyttunar hefur verið. Frá því er gott útsýni yfir hraunbreiðuna neðanverða, milli brúnarinnar og Stóru-Sauðabrekkna.
Stutt er yfir að Sauðabrekkuhellum, en svo nefnast nokkrir hraunhellar sunnan Stóru-Sauðabrekku. Þar á meðal er Sauðabrekkuskjól, sem smalar Hraunamanna nýttu fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Hellarnir eru fallegar, bjartar og rúmgóða hraunbólur. Ein er sýnum stærst; Sauðabrekkuskjólið. Op þess nýr til austurs. Það hefur rúmað góðan fjárhóp, auk þess sem innan þess er hið ágætasta mannaskjól. norðaustan við skjólið er falleg hraunbóla. Einnig á gjárbarmi norðan þess. Austan skjólsins er hægt að ganga niður um sprunguenda og er þá komið inn í dimmara skjól, en rúmgott. Best er að finna hella þessa með því að koma að þeim úr suðri, líkt og nú var gert.

Híðið

Híðið – op.

Sauðabrekkuskjólið sást vel á loftmynd, sem var meðferðis.
Götu var fylgt til austurs frá hellunum. Var þá, eftir stutta göngu, komið að Skjólinu, gömlu sæluhúsi nálægt Hrauntungustíg. Gengið hefur verið vel um Skjólið. Það er opið til suðurs. Hleðslur hafa verið við opið, en þær eru nú að mestu fallnar niður í það. Einhverju sinni fyrrum hefur meri orðið úti eða endað lífdaga skammt frá skjólinu. Sjá má enn þann hluta beinagrindarinnar, sem refurinn hefur ekki hirt.
Haldið var áfram upp í Hrútagjárhella. Hellarnir er samheiti fjölda hella sem eru í nokkrum hraunrásum vestan við Fjallið eina. Þetta er spennandi hellasvæði, en rétt er að fara varlega því víða leynast sprungur og glufur í hrauninu. Margir hellar eru í hrauninu og sumir þeirra alllangir. Sjá má hvar opnar hafa verið rásir og má fylgja sumum þeirra langar leiðir inn undir hraunið.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Hrútagjárdyngja er í rauninni heimur út af fyrir sig með sínum stórkostlegu hrauntröðum, hrikalegu gjám og upplyftingum á jöðrum meginsvæðisins. Talið er að dyngjan hafi gosið fyrir u,þ.b. 5000 árum. Hún er því með yngstu dyngjunum á Reykjanesskaganum.
Í Hrútadyngjuhrauni er margir hellar. Í ferðinni var m.a. kíkt á Neyðarútgöngudyrahelli. Steinbogahelli eða Hellin eina, Langahelli, Aðventuna, Húshelli, Híðið og fleiri, sem ekki hafa enn fengið nöfn.
Hraun frá dyngunni hafa runnið frá Hvaleyrarholti vestur í Vatnsleysuvík og austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellskola. Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum. Jón Jónsson telur lágmarksútbreiðslu hraunsins ekki undir 80 ferkílómetrum og rúmmálið um 3,2 rúmkílómetra.

Húshellir

Í Húshelli.

Sumir hellanna eru yfir 100 metra langir. Híðið er a.m.k. 500 m að lengd. Í honum er viðkvæmar dropsteinamyndanir og sumir allháir. Hellirinn eini er um 170 metrar, en hann er víða lágur er innar dregur. Í Húshelli, sem fannst 1988, er hlaðið skjól. Það er fallegt og greinilega gamalt.
Gengið var upp í norðurtröð Hrútagjárdyngju og henni fylgt til suðurs. Leiðin er greiðfær. Í fyrstu liggur hún um helluhraun, en ofar liggur hún um gróna rás. Þá var komið að eystri hrauntröðinni. Gengið var niður í hana norðanverða og henni síðan fylgt til suðurs. Hrauntröðin er tvískipt að austanverðu, en hún hefur rúmað mikla hrauná þegar atgangurinn var hvað mestur.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Dyngjur

Dyngjur og Mávahlíðar.

Litluborgir

Haldið var í Litluborgir, stundum einnig nefndar Hraungerði og Minni-Dimmuborgir, með viðkomu í Helgadal og Valabóli.
Litluborgir-3Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar skammt fyrir sunnan Helgafell ofan Hafnarfjarðar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Hið friðlýsta svæði er 10,6 hektarar að stærð.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.
Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009. Þar segir m.a: “Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Litluborgir við Helgafell í Hafnarfirði sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Litluborgr-2

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað. Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu Litlu­borgum. Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins.

Litluborgr-3

Ræktun og dreifing framandi tegunda er jafnframt óheimil innan marka þess. Skotveiðar eru óheimilar á svæðinu. Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar. Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.”
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Búri
Þá var lagt af stað í Búra, enn og aftur. Að þessu sinni var tilgangurinn að þjálfa og undirbúa nýliða til að takast á við væntanlega hellaferð í Goðahraun. Aflóga vegstikur voru gripnar upp á leiðinni. Framlag Vegagerðarinnar til undirheimanna. Ætlunin var færa stikurnar í endurnýjun lífdaga, þ.e. nota þær til merkinga í Búra.
Gengið um fordyri BúraEkið var eftir slóða upp á Búrfell. Fálki tók sig á loft og fleytti vangdýfur til vesturs. Tignarleg sjón. Afturendaleifar á hæsta steini benda til þess að hann eigi sér makahreiður í björgunum neðanverðum. Frá efstu brún Búrfells var fetuð gata norðvestan og niður með fellinu að Ólafskarðsvegi, gengið þvert yfir hann að jarðfallinu, sem geymir op hellisins.
Annars ósnertur mosinn umhverfis geymdi spor þriggja manna – engin spor lágu til baka.
Bakpokar voru geymdir upploftis, hundar bundnir og allt skilið eftir, sem ekki var beinlínis þörf fyrir. Mittismál allra þátttakaenda uppfylltu ströng skilyrði áframhaldsins.
Búraopið er slíkt að skilyrða þarf að gæta; fætur niður, hægri handleggurinn niður og sá vinstri upp, snúningur og niðurdráttur. Með því lagi einu er hægt að komast niður í ískjallarann; fordyri Búra. Þar neðan við var sett upp stika með glitmerki Sparisjóðs Reykjavíkur. Sérstakur styrkur af hans hálfu var afþakkaður vegna áhugaleysis um að koma nýjungum á framfæri við viðskiptavini sína, þ.e. pappírslaus greiðsluseðlaviðskipti í gegnum rafnrænan heimabanka samviskusamlegra viðskiptavina hans. Þörf áminning í myrkrinu.
Gengið um hrunhluta BúraFordyrið klikkar aldrei. Þrátt fyrir að dagar grýlukertanna væru taldir þetta sumarið stóðu klakadrílin enn undir nafni. Leiðin var fetuð milli þeirra – og upp hrunið að handan. Þegar inn fyrir þrengingu þar var komið hélt gangan áfram ofan á fyrrum loftum hins víðganga Búra; þrenging, gengið niður á við, upp á við, þrenging og haldið niður á við. Þarna var sett stika, enda hefur reynslan sýnt að ekki er alltaf auðvelt að finna þröng opið í bakaleiðinni. Úr þeirri áttinni hverfur það í skriðu. Stika var sett við þrenginguna til að koma í veg fyrir að beinagrindur kunni að finnast þar í framtíðinni.
Haldið til vinstri og niður á við. Í bakaleiðinni gleymist þessi sýn gjarnan – því þá þarf að fara til hægri og upp á við. Allt slíkt er mikilvægt að leggja á minnið þegar gengið er um hellarásir. Búrarásin er tiltölulega auðveld, enda ekki um aðrar leiðir að velja, en rétt að nýta  tækifærið til að þjálfa nauðvirkileg neðanjarðarskilningarvitin.
Hér í frá, líkt og áður, þarf að gæta vel að því hvar stigið er niður. Ennisljósin eru nauðsynleg í Búra sem og handlukt að auki.
Búri - að endinguEftir allnokkurt ferðalag um jafnfallið hraun úr loftum er komið að sléttum gólffleti. Lofthæðin er um 20 metrar og breiddin um 12 metrar. Héðan er hægt að fara með veggjum og ganga þvert milli þeirra á sléttu gófinu. Framundan er ein myndarlegasta hraunrás norðan Alpafjalla; jafnsléttir veggir, brúnleitir, alsettir smáum”gaseggjum”. Þá lækkar rásin í tvennum skilningi; annars vegar lækkar lofthæðin og hins vegar lækkar gólfið. Lítill haunfoss er á skilunum. Frá honum er stutt að Svelgnum, um 18 metra djúpum hyl innst í rásinni. Lengra verður ekki farið að sinni án sigbúnaðar. Sjá má leifar festinga sem Björn Hróarsson og félagar notuðu þegar þeir sigu fyrstir manna í Svelginn (sjá stórvirkið “Íslenskir hellar” eftir BH). Rautt glitmerki Hellarannsóknarfélagsins er við mörkin til marks um endimörk rásarinnar. Stiku var bætt um betur.
Ferðin inn eftir þessari tæplega kílómetralangri hraunrás hafði tekið u.þ.b. 30 mínútur. Ferðin til baka tók svipaðan tíma, með staldri við áhugaverðar hraunmyndanir, þökk sé fyrrum vegstikunum.
Sá, sem ætlar að ferðast um Búra, ætti að gefa sér a.m.k. 3 klst til þeirrar ferðar. Bæði þarf að fara mjög varlega í hrunum, sem varða 3/4 rásarinnar, og þá er að mörgu að hyggja á leiðinni. Góður ljósabúnaður er því og nauðsynlegur.
Þegar komið var upp úr rásinni barst söngur lóunnar á móti þátttakendum, heitkennt sumarloftið og vindurinn hafði þegar lagst til hvílu þetta kvöldið. FRÁBÆRT.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Búri

Búri.