Tag Archive for: Hóp

Hóp

Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?

Loftmynd af Hópi

Í Landnámu (IV.hluti) segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.“
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: „Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Goðatóftin fremst - og gamli bæjarhóllinnAustur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.

Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.

Hópið

Hóp

Ofan við Hóp í Grindavík er heilleg og falleg hlaðin refagildra, sú 59. í röðinni, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesskaganum (sjá meira um refagildrur HÉR).
RefagildranSvo er að sjá, að notkun slíkra veiðitækja, hafi verið mun algengari hér áður fyrr en áætlað hefur verið. Mjög lítið hefur verið skrifað um gildrurnar, sennilega aðallega af tveimur ástæðum; notkun og staðsetning þeirra var á fárra vitorði og því lítið um þær talað. Veiðiaðferðin hefur líklega ekki heldur þótt í frásögu færandi því refurinn, sem létt ginnast, svalt venjulega í hel þar sem hann var fastur í þröngri rásinni eftir að fallhellan hafði lokað hann inni.
Lítið sem ekkert er getið um hlaðnar refagildrur í örnefnalýsingum, en nokkur örnefni þeim tengdum er þó þar að finna, s.s. Gildruholt.

Refagildran

Þegar svæðið ofan við Hóp var skoðað mátti glögglega sjá að þar væri að finna  „minjasafn“ mannvistarleifa eftir refaveiðar; hlaðin byrgi og hlaðin skjól fyrir refaskyttur, merkingar á grenjum og svo áðurnefnd refagildra, sem líklega er elsta mannvirkið á svæðinu. Talið er að fyrirmynda að gerð gildranna megi leita til landnáms-manna. Minjarnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og ætti að reyna að varðveita það sem líkt.
Refagildran, sem um ræðir, er með op til suðurs og norðurs. Fallhellur eru við bæði opin. Í þessari gildru má enn sjá uppbyggingu slíkra mannvirkja, auk þess sem staðsetningin gefur vel til kynna að lágfóta fór ekki með brúnum heldur „lægðirnar smjó“, eins og segir í kvæðinu.
„Svæðið fyrir ofan veginn ofan við Hóp er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur. Hún er ofan við utasta húsið.
ByrgiÞar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki. Þar ofar uppi á brekkunum er holt, sem heitir Bláberjaholt. Skammt þar ofar er gamall eldgígur, sem heitir Melhóll. Þangað er sóttur ofaníburður. Vestur af Melhól er lægð, sem Grindavíkurvegurinn liggur yfir.“
Þegar svæðið var skoðað nánar kom í ljós enn ein refagildran, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda. Þessi stendur upp á lágum hól. Í hana er ágætt útsýni frá Þórkötlustaðabæjunum. Enn má sjá grunninn í hleðslunni, en að öðru leyti hefur gildrunni verið spillt. Gróið er að mestu yfir hana, en vel má sjá hleðslurnar, sem fyrr segir.
Sjá ennmeira um refagildur HÉR.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hóp

Hóp

Refagildra ofan við Hóp.

 

Grindavík

Eins og fram kemur á vefsíðu FERLIRs voru, að venju tvær, innsiglingavörður, önnur ofan við hina, hlaðnar sem mið að lendingum fyrrum.

Efri innsiglingarvardan vorid 2014

Efri innsiglingarvarðan vorið 2014.

Vörðurnar stóru (gulmáluðu) við Hóp eru þar engar undantekningar. Þær voru hlaðnar árið 1939 í framhaldi af inngreftri um ósinn inn í Hópið í Grindavík. Með því náðu Grindvíkingar að skapa sér hið ákjósanlegasta lægi fyrir nýgerða vélbáta sína. Í framhaldinu fylgdi hanargerð á hafnargerð ofan.
Í fyrstu voru vörðurnar bara eins og hverjar aðrar innsiglingar-vörður; mið af hafi til að rata rétta leið til lægis að róðrum loknum.
Komið var fyrir siglutrjám á vörðunum og á þeim voru innsiglingarmerki. Ekki eru til heimildir um hverjir hlóðu þessar vörður árið 1939, en eflaust voru það handhægir Grindvíkingar þess tíma. Í viðtali við Sigurð Garðarsson, fæddur ’34 á Sólbakka í Þórkötlustaðahverfi sagði hann að árið 1947 hefði hann, sem þá var ári fyrir fermingu, ásamt Benedikti Benónýsyni frá þórkötlustöðum, hræst steypuna í vörðuna og í framhaldi af því hefði hún verið gulmáluð að „framanverðu“. „Þetta var fyrsta launaða vinnan mín, enda bara strákpjakki“.

Efri innsiglingarvarðan 2014-endurgerd

Efri innsiglingarvarðan eftir viðgerð.

Stuttu síðar voru reistir staurar við vörðurnar og á þá sett ljós; grænt, hvítt og grænt. Gáfu þau sæfarendum innsiglingarstefnuna til kynna á nóttu sem degi. Síðar voru reist járnmöstur í þeirra stað með viðeigandi leiðbeiningarljósum fyrir sæfarendur. Steinsteyptur mastursfóturinn sést enn ofan við efri vörðuna fyrrnefndu.
Um vorið árið 2014 hrundi nánast hálf efri innsiglingavarðan við Hóp. Síðdegis í maímánuði sama ár löguðu FERLIRsfélagar innsiglingar-vörðuna. Hún átti 75 ára afmæli á árinu. Verkið var unnið í sjálfboðavinnu – enda kennileitið eitt helsta tákn útvegssögu Grindavíkur í gegnum tíðina – auk þess sem árlegi sjómannadagurinn var framundan. Minna gat það ekki verið…
Hafa ber í huga að mikilvægt er að varðveita vörður, eða kennileiti sem þessi – ekki síst í sögulegum skilningu viðkomandi bæjarfélaga. Grindavík er og hefur verið útvegsbændasamfélag frá örófi alda. Ástæðulaust er að gleyma því, jafnvel þótt minjar þess hverfi smám saman. Tómas Þorvaldsson, útgerðarmaður í Grindavík, nú látinn, lagði í lifandi lífi mikla áherslu á þetta atriði. Máli sínu til stuðnings nefndi hann Títublaðavörðuna við Skipsstíginn; fyrstu stóru vörðuna götuna ofan Járngerðarstaða. Sagði hann þá áhrínisorð til Grindvíkinga að halda þyrfti vörðunni þeirri við svo vegfarendum til og frá bænum myndi vel farnast. Á meðan Tómas lifði var vörðunni ávallt við haldið, en í dag er hún nánast gróið sjálfgildi. Vonandi mun nýstofnað minjafélag í Grindavík huga sérstaklega að þessum merkilegu þáttum sögu bæjarfélagsins.

Hópsvarða

Efri-Hópsvarðan í viðgerð 2010.

 

Heimildir:
-Sigurður Garðarsson.
-Tómas Þorvaldsson.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hleypt hefur verið af stokkunum Umbótakeppni í umdæmi Grindavíkur. Leikreglur eru þær að liðsheild tekur að sér umbætur í einhverju er telja má til gagns er lýtur að útivistar-, umhverfis- og/eða söguminjum í umdæmi Grindavíkur.

Efr-innsiglingarvarðan

Að þeim loknum skorar liðsheildin á aðra tiltekna að gera hið sama innan tilgreindra tímamarka og svo koll af kolli. Fylgst verður með áhuga og árangri viðkomandi liða og fjallað um hvorutveggja á vefsíðunni www.grindavik.is.
Keppnin hófts á því að FERLIR, félagsskapur um útivist,  umhverfi, sögu og  minjar á Reykjanesskaganum (sjá
www.ferlir.is) tók að sér að lagfæra skemmdir, sem orðið höfðu á Efri-innsiglingarvörðunni við Hóp, en vörðurnar eru og hafa verið eitt af meginsérkennum Grindavíkur frá því þær voru hlaðnar af sjófarendum inn í Hópið til leiðsagnar eftir að rás fyrir báta hafði verið grafin inn í það árið 1939.
Efri-innsiglingarvarðan, sem er um fimm metra há og fjórir metrar í ummál, hafði orðið fyrir hnjaski í jarðskjálfta tveimur árum fyrr og grjóthleðslan hrunið úr henni bæði að norðvestan- og austanverðu. Að sjá var toppurinn og við það að falla niður, auk þess sem varðan hafði öll að hluta gengið til. Um tvennt var að velja; að láta vörðuna afskiptalausa og leyfa henni að falla saman í grjóthrúgu (með það fyrir augum að hlaða hana frá grunni, þ.e. hlaða nýja vörðu) eða gera við skemmdina og reyna þannig að viðhalda hinu upprunalega mannvirki að svo miklu leyti sem það var hægt.

Efr-innsiglingarvarðan - 2

Í marsmánuði árið 2010 barst erindi til bæjarráðs Grindavíkur um nauðsyn þess að lagfæra þyrfti Efri-innsiglingarvörðuna, ekki síst vegna slysahættu er af hruninu stafaði. Erindinu var vísað til Umhverfisnefndar. Á 122. fundi nefndarinnar var vakin athygli á málinu og lagt til að leitað yrði tilboða í að færa vörðuna í upprunalegt horf. FERLIR sendi nefndinni erindi og bauðst til að taka að sér verkið – endurgjaldslaust. Nokkrir FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í grjóthleðslunámskeiði í Vogum árið áður og töldu sig geta framkæmt verkið án vandkvæða.
Á 123. fundi Umhverfisnefndar Grindavíkur 11. mars s.á. var málið tekið fyrir með afbrigðum: „Eins og fram kom í síðustu fundargerð eru töluverðar skemmdir á Efri Hópsvörðu og stafar af henni slysahætta. Ómar Smári Ármannsson hjá FERLIR hafði samband og bjóðast FERLIRsfélagar að taka að sér verkið endurgjaldslaust. Nefndin þiggur þetta höfðinglega boð fyrir hönd bæjarins og felur formanni nefndarinnar að vera FERLIR innan handar við framkvæmd verksins.“

Efr-innsiglingarvarðan - 3

Þann 8. apríl framkvæmdu FERLIRsfélagar verkið og má segja að Efri-innsiglingarvarðan við Hóp sé nú jafnsett og hún var fyrir skemmdirnar. Að vísu er varðan, sem hlaðin er í halla, gengin til að hluta líkt og sjá má á henni sunnanverði. Úr því verður ekki bætt nema rífa hana í sundur stein fyrir stein og endurhlaða að nýju. Ef ástæða þykir til þess síðar mun FERLIR fúslega taka að sér verkið, en eins og varðan er núna er sá hinn sami sómi að henni og áður var.
Í framhaldi af umbótunum á Efri-innsiglingarvörðunni í Grindavík skorar FERLIR á félaga í Björgunarsveit Grindavíkur (Þorbirni) að byggja göngubrú yfir Rásina ofan við Stóru-Bót og auðvelda þannig íbúum og gestum þeirra að nýta hið fagra og sagnaríka umhverfi Gerðisvallanna. Göngubrúna má gera á einfaldan hátt, t.d. með föstum járnlykkjum beggja vegna og tréstaur er lægi á milli þeirra og gæti mætt bæði fjöru og flóði. Sveitin hefur einn mánuð til að framkvæma verkið og að því loknu býðst henni að skora á hvern þann annan er getur auðveldlega án mikils tilkostnaðar látið gott af sér leiða til úrbóta v/útivist-, sögu- og minjar í umdæmi Grindavíkur. FERLIRsfélagar eru tilbúnir að aðstoða við framkvæmdina.
Eða eins og björgunarsveitarmaðurinn sagði: „Þetta er ekki spurning um hvað samfélagið getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir samfélagið“.
Því miður daufheyrðist björgunarsveitarfólkinu í Grindavík við hugmyndinni.

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

Nú er Neðri Hópsvarðan fallin. Hver tekur að sér viðgerð hennar; bæjarstjórinn? eða björgunarsveitarfólkið? Nei, það verður FERLIRsfólkið, sem mun láta að sér kveða við varðveislu þessara sögulegra minja í Grindavík – líkt og svo oft fyrrum…
Efr-innsiglingarvarðan - 5

Hóp

Í 85. kafla Landnámu segir:
„Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:
Ek bar einn af ellifu bana orð. Blástu meir!
Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Hof í GrindavíkMolda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

hop-234Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.“ Iðunn var og dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

Í Rekaskrá Skálholtsstaðar um 1270 segir m.a.: „Item þessi rekamörk eru hallden j Grindavik: J millum valagnüpa og Rangagiógurs ad huar sem hualur kiemur j Grindabijk j greindu takmarke skal skiptast j fiðra fiordunga. Skal eirn fiordung hafa Þorkotlustadir. annann stadarstadr. vr jarngerdarstada hlut. hinn fiorda hlut sjal hafa hraun og hof. skal hraun hafa tuo hlute. en hof þridiung. Item a klaustrid i videy. hemlming huers af hrauns hlut.“

Heimild:
-Landnámabók, 85. kafli
-Íslenskt fornbréfasafn fyrir 1270,
Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1857, bls. 75-76.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

 

Hóp

Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót Neðri Sundavarðanverið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hópsvarða

Hópsvarðan neðri.