Færslur

Skátar

Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt “Frá Hafnarfirði” um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
“Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson.

Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.

Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur”, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson í miðið; fæddur 9. september 1900 – dáinn 12. desember 1983.
“Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skátastarfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldurækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsviðhorfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla öðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverjum þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, drengskap og dug.  
Við munum hann Eirík með gítarinn við eldinn, syngjandi skátasöngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gamansemina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinninguna fyrir landi okkar, náttúrufegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skátamótum hérlendis og erlendis, útdeilandi kakói og góðu skapi, hlédrægur og allt að því feimnislegur,
en þó svo nálægur og hlýr.
Já, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn,
já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn.
Sem skátar og vinir við eigum margt yndilegt minningasafn,” sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasöngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann.
Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. 
Með skátakveðju.” – F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði – Hörður Zóphaníasson.

Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.

Hvaleyrarvatn

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson, skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri, og eiginkona hans, Else Sörensen Bárðarson, létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.

Rögnvaldur R. Bárðarson

Rögnvaldur R. Bárðarson.

Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.

Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.

Else Sörensen Bárðarson

Else Sörensen Bárðarson.

Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.

Vatnshlíð

Minningarreiturinn í Vatnshlíð ofan Hvaleyrarvatns.

Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – hólmar.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Vatnshlíð.

Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.

Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.

Á skilti í minningarlundinum í Vatnshlíð má lesa eftirfarandi:
Gróðurunnendur

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

“Hjálmar var fæddur og uppalinn á Ísafirði. hann lauk námi í skipaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í kaupmannahöfn 1947. Að námi loknu starfaði hann á skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi, en hóf svo störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948. Þar hannaði hann og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins, dráttarbátsins Magna. Hjálmar var skipaður skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri til 1985. Hann tók virkan þátt í starfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og var forseti stofnunarinnar um þriggja ára skeið. Hann var einn af brautryðjendum í alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun heimshafanna og kom að mótun reglna um öryggi í siglingum á heimsvísu og öryggismálum sjómanna. Fyrir störf sín að siglingamálum hlaut hann Höfrunginn, alþjóðleg verðlaun IMO, árið 1983. Hjálmar var afkastamikill og vandvirkur áhugaljósmyndari og höfundur tólf bóka í máli og myndum um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – minningarreiturinn 2021.

Else var fædd í Svíðþjóð, af dönskum foreldrum. Hún lauk prófi frá verslunarskóla í Danmörku 1940 og vann á skattstofu Kaupmannahafnar þar til þau Hjálmar fluttu til Íslands 1948. Else var góð tungumálamanneskja, söngelsk, listræn og fróð um listasögu, einkum danska málara. Hún var mikill dýravinur og átti stóran þátt í stofnun Kattavinafélags Íslands og Kattholts. Else hafi unun af ferðalögum og þau Hjálmar ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.

Hjálmar og Else voru barnlaus en arfleiddu Landgræðslusjóð, landgræðslu ríkisins, Fuglavernd, Sjóminjasafnið Víkina, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Vestfjarða að eigum sínum. Að ósk gefenda er meginhluta arfs Landgræðslusjóðs varið til langræsluskógræktar á landsvæðum vöxnum lúpínu.
Stofnaður var minningarsjóður, í samvinnu við Landgræslu ríksins, en markmið hans er einkum að styrkja rannsóknir er tengjast notkun lúpínu í landgræðslu og skógrækt.”

Heimild:
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Hvaleyrarsel

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998” er m.a. sagt frá “Hvaleyrarseli”:

Hvaleyrarsel

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

1703: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.” “Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru mikla rústir eftir Hvaleyrarsel.” “Héðan liggur svo línan suður á Seljahraun. Þar er Seljahraunsskjól skammt vestan Hvaleyrarvatns, en inn með því er lágur hóll, þar sem Hvaleyrarsel stóð, og má þar enn sjá móta fyrir byggingum. Línan liggur um Selhöfða, rétt hjá Borginni, fjárborg, sem er hæst á höfðanum.” “Rústirnar eru vestan í klöppum í jarðsygi í austurjaðri Selhraunsins, hraunið er mjög gróið, aðallega mosa og lyngi.”

Hvaleyrarsel?

Meint Hvaleyrarsel.

Rústunum má skifta í tvö hólf. Sunnanmegin er hlaðinn veggur úr grjóti og e.t.v. torfi, en veggurinn er mjög gróinn. Veggur þessi liggur samsíða hraunhellu sem hefur risið nokkuð upp fyrir jarðsigið og slútir undir sig. Veggurinn nær að löngum hellisskúta í suðri.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Skútinn er fullur af grjóti nú en hugsanlega hefur hann verið nýttur sem hluti af mannvirkinu. Veggur þessi er 11.2 m langur og 1.5-2m breiður. Rýmis milli hans og hraunhellu er 2-4 m á breidd, allt eftir hvort mælt er frá efri brún hellunnar eða þeirri neðri. Rými undir hellunni er mjög lágt eða um 0.3-0.5m á hæð og hefur því væntanlega ekki geta nýst mikið nema til geynslu. Vel getur verið að reft hafi verið yfir en engin merki er að finna um það. Inngangur er á vesturveggnum. Syðst, milli þess mannvirkis og veggja tóftarinnar, sem er þarna sunnan við. Hæsta hæð veggjar er 1.1-1.2 m. Syðsta tóftin er einnig hlaðin utan í klöpp og eru 3 veggir hennar hlaðnir úr grjóti sem nú er mjög gróið. Inngangur hefur líklega verið á norðurvegg við vesturhornið og hefur því verið innangengt úr nyrðri tóftinni. Innanmál tóftarinnar eru; um 3.5 m frá A-V og 2.4m frá N-S. Veggjaþykktir eru 1.3-1.5m þar sem ekki er hrun. Vestur og norðurveggur er nokkuð hrundir en suðurveggur stendur þokkalega. Suðurveggurinn er 1.3m á hæð þar sem hann er hæstur. Vestur frá SV-horni syðri tóftarinnar liggur einföld steinröð þvert yfir jarðsigið. Þetta munu vera leifar garðs sem hjálpað hefur við aðrekstur fjársins.”

Hvaleyrarsel

Fjárborg á Selhöfða.

Framangreind umfjöllun er miklum annmörkum háð. Ef vel er skoðað hefur þarna aldrei verið selstaða, einungis hluti selstöðu, þ.e. stekkur. Þessar minjar munu hafa tilheyrt eldri selstöðu Hvaleyrar vestan við Hvaleyrarvatn, skammt frá Seljahraunsskjóli (gróið jarðfall), en heimildir um selstöðuna þar fyrrum virðast ekki hafa varðveist. Þó má þar sjá minjar hennar enn í dag, ef vel er skoðað, s.s. vanhirtar vegghleðslur með skógræktanlegu ívafi og tilheyrandi eyðileggingu. Annars er umrædd “Svæðisskráning” lesendum einstaklega ruglingsleg; hlaupið er úr einu í annað án nokkurs samhengis. Meira um það síðar…

Hvaleyrarsel

Stekkjartóft í Seldal.

Áþreifanlegustu minjar Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn, áður en það fluttist upp í Kaldárssel, eru á tanga norðan undir Selhöfða. Þar má enn sjá móta fyrir baðstofu, búri, eldhúsi og stekk. Tilvist selsins er m.a. staðfest með frásögninni, sem hér má lesa HÉR, HÉR og HÉR.

Rétt 

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

“Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðan er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni austan og vestur á brún, þar sem landið lækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.”

Sjá meira um Hvaleyrarsel HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 99-100.
-JÁM III, 168; Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B,5; Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði 154.

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

Portfolio Items