Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík kemst í eigu Hafnarfjarðarbæjar

Krýsuvík

Horft yfir Krýsuvík um 1962 (HH).

Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð; bæjarbúar voru ekki sjálfum sér nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Framkvæmdir og rekstur

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í gróðurhúsi í Krýsuvík (HH).

Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmis konar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Vinnuskóli

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmis konar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

Bústjórahúsið

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Bústjórahúsið í Krýsuvík var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Skátar

Hverahlíð

Skátaskáli í Hverahlíð.

Skátar í Hraunbúum reistu skátaskála við Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns 1945-46. Þennan skála nýttu skátar á sumrin og veturna um langt árabil. Á áttunda áratugnum fengu skátarnir afnot af hluta heimatúns Krýsuvíkurjarðarinnar og komu sér þar upp aðstöðu. Reistu þeir lítinn skála í gömlu fjárhústóftinni og sléttuðu túnið. Á þessum stað halda Hraunbúar árlegt vormót sitt á hvítasunnunni.

Fornleifar

Selalda

Selalda; Krýsuvíkursel og Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Hvergi er hins vegar minnst í „Aðalskipulaginu“ á meintar fornleifar á svæðinu, einungis endurtekin almenn klausa um skilgreiningu á fornleifum skv. þjóðminjalögum.
Þrátt fyrir allt hið innihaldslausa í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025“ eru t.d. Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði, steinhlaðið veiðihús, heilleg fjárhústóft í Litlahrauni, steinhlaðin réttin sem og fjárskjólið þar í hrauninu, miðunarvarðan ofan Krýsuvíkurbjargs, tófta Krýsuvíkursels ofan Heiðnabergs, bæjartófta Eyris sem og annarra merkilegra fornleifa í heiðinni er hvergi getið í „Aðalskipulaginu“.

Orkuvinnsla

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Heildarskýrsla um rannsókn jarðhitasvæðisins kom út 1975. Miðað við stærð svæðisins, hita í jarðhitakerfinu, að 80% þess er aðgengilegt til borana o.fl. var reiknað út að svæðið geti staðið undir vinnslu raforku sem svarar til 2400 GWh/ári í 50 ár, eða afl þess sé 300 MW til sama árafjölda. Í Rannsóknaráætlun fyrir Krýsuvíkursvæðið sem Íslenskar orkurannsóknir unnu fyrir Hitaveitu Suðurnesja er sótt um rannsóknarleyfi á 295 km2 svæði sem nær til Krýsuvíkur, Trölladyngju og Sandfells. Helsti rannsóknaráfanginn er borun þrettán rannsóknarholna allt 2500 m djúpar og einnig er ætlunin að bora rannsóknarholur til grunnvatnsrannsókna. Tilgangur er að kanna vinnslueiginleika jarðhitans m.t.t. nýtingar og til að auka við þekkingu á jarðhitanum. Jarðhitaholurnar verða boraðar með þeim hætti að þær geti nýst síðar til virkjunar. Af þessum þrettán holum er fyrirhugað að bora a.m.k. sex í Krýsuvík.
Í framhaldi af sprengingu á hverasvæðinu við Seltún haustið 1999 var leitað til Orkustofnunar um athugun til að svara spurningu um hvort hætta væri á frekari hamförum. Orkustofnun hefur lagt fram áætlun um nauðsynlegar athuganir og rannsóknir.

Námuvinnsla

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Í skýrslunni, Eldstöðvar á Reykjanesi er sett fram tillaga um námuvinnslu. Suður á Krýsuvíkurbergi eru tvö forn eldvörp. Þeirra mest er Selalda og frá henni liggur röð flatra gjallhóla til norðausturs. Austari hluti þeirra heitir Trygghólar. Þarna er mikið efni að mestu leiti gjall, rauðamöl og vikur. Rauðskriða heitir gíghóll alveg fram á bergbrún og er sjór sem óðast að brjóta hann niður. Talsvert efni er þar að finna.

Beitiland

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Hrossabeit er í tveimur hólfum á Vestur- og Austurengjum frá Hvammsholti að Grænavatni. Við Hvamma standa um 10 sumarhús en upphaflega var gefið leyfi fyrir hnakkageymslum á þessum stað. Hafnarfjarðarbær og hestamannafélagið Sörli hafa gert með sér samkomulag um að þar megi mest vera 50 hross og gilti samningurinn frá 1988 til 1993. Í samningnum er ákvæði um að félagið viðhaldi girðingu og annist áburðardreifingu þannig að gróður rýrni ekki. Ath. Vantar upplýsingar um nýjan samning.
Í sauðfjárbeitarhólfi á Krýsuvíkurheiði eru fjárbændur í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi með samningi sem gildir til 1. janúar 2009. Hólfið er um 1500 ha að stærð. Landgræðslan er ráðgefandi varðandi beitarþol og uppgræðslu og leggur til grasfræ eftir þörfum. Árleg áburðaþörf er 20 tonn miðað við fullnýtingu hólfsins.
Samningur á milli Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, Grindavíkurbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps um nýtt sauðfjárbeitarhólf og bann við lausagöngu utan beitarhólfa var samþykkt s.l. vor. Tilgangur samkomulagsins er að auka umferðaröryggi á vegum á Reykjanesskaga og skapa sátt um sauðfjárhald á Reykjanesi. Á Krýsuvíkurjörðinni nær girðingin að núverandi beitarhólfi á Krýsuvíkurheiði og að jarðamörkum á Sveifluhálsi og þaðan að Selhögum og norður fyrir Djúpavatn. Samningurinn gildir til 20 ára.

Krýsuvíkurskóli

Krýsuvíkurskóli

Krýsuvíkurskóli.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þyrftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið eða þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota 1986. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur. Á heimilinu dvelja að jafnaði 20 Íslendingar og Svíar í einu og eru þar frá sex mánuðum upp í tvö og hálft ár. Máttur náttúrunnar er augljós í Krýsuvík og styður við hugmyndfræðina sem notuð er við meðferðina.

Heimild:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík; greinargerð 2 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er m.a. fjallað um fyrirhugaða mjólkurframleiðslu í Krýsuvík sem og byggingu fjóssins norðan Grænavatns:

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

„Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”
Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fallin fjósbyggingin og súrheysturnarnir standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Gestsstaðir

Gengið var frá Sveinsstofu (-safni) við Gestsstaðavatn um Sveiflu og upp undir Hettu, þaðan niður Hettustíg inn á Bleikingsvelli innan Vigdísarvalla og um Drumbsstíg yfir sunnanverðan Sveifluháls að Gestsstöðum, tóftum elsta bæjar Krýsuvíkur að talið er.
HnakkurHnakkur blasti við norðan Hettu. Hann er að kortum nefndur Hattur, en sá mun vera þarna næst norðar (þar sem sér best niður á Seltúnið). Sveiflan mun heita dalskorningur suðaustan Hettu. Um hann rennur lækur, heitur efst, en smákólnar eftir því sem neðar dregur. Sveinar í Vinnuskólanum í Krýsuvík stífluðu lækinn fyrst árið 1962 og reistu kofaborg í neðanverðum dalnum og ári síðar byggðu þeir varanlegri stíflu á læknum (neðan við núverandi gróðurhús) og gerðu þar volga sundlaug. Áður höfðu þeir gert sundlaug sunnan undir Bleikhól, en þar eru heitar uppsprettur á annars gróðursnauðum sandinum. Allar þessar heitavatnsuppsprettur hafa kólnað umtalsvert á s.l. aldarfjórðungi. Löngu seinna taldi göngumaður á ferð um svæðið sig hafa fundið þar fornminjar, en við athugun kom í ljós að þar var um umrædda sundlaugagerð að ræða frá því um 1960. Enn má sjá leifar mannvirkisins á sandinum.
Þegar komið var upp í Hettu gafst hið ágætasta útsýni yfir Krýsuvíkursvæðið; Gestsstaðavatn, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitafell (Æsubúðir) og allt niður að Selöldu. Litbrigði jarðvegsins eru þarna ólík öðrum stöðum, enda um virkt háhitasvæði að ræða.
járnbrautarlestin Sunnan við Hettu (379 m.y.s.) er ílangt móbergshæð. Vinnuskólastrákarnir kölluðu hana jafnan „Járnbrautarlestina“ því hún er ekki ólík lest að sjá þar sem hún kemur út úr henni að norðanverðu. Þegar upp er komið er hægt að velja um tvær leiðir; annars vegar til vesturs norðan Járnbrautarlestarinnar og hins vegar til vesturs sunnan hennar. Í fyrrnefnda tilvikinu er komið inn á Hettustíg, götu áleiðis niður að Vigdísarvöllum. Í síðarnefnda tilvikinu er farið yfir litbrigðafagra hlíð þa sem útsýni yfir að Vigdísarvöllum birtist í allri sinni dýrð.´
Síðarnefnda leiðin var valin að þessu sinni. Haldið var niður með hlíðinni og inn á Hettustíg. Hann sést vel á köflum þar sem hann er markaður í móbergsbrúnir. Þegar komið var niður í Bleikingsdal var vesturhlíð Sveifluhálsins (Austurhálsins) fylgt til suðurs. Áður hafði uppspretta lækjar þess er rennur niður um Ögmundarhraun og reynir nú eftir bestu getu að hlaða undir sig jarðvegi úr hlíðunum til að komast til sjávar, opinberast. Í Krýsuvík var fjöldi íbúa og býla stöðugur fram undir 1825, en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú Gestsstaðirnýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.
Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905.
Gengið var inn á svonefndan Drumbsstíg austur yfir hálsinn til Krýsuvíkurtorfunnar. Efst í brúninni er drykkjarsteinn. Um er að ræða þægilega leið um fallegt umhverfi. Þegar komið var að austurbrúnum Austurshálsar var stefnan tekin til norðurs. Stígur liggur með móbergshlíðinni. Upp í einni gróðurkvosinni má sjá tóftir. Leifar hinna fornu Gestsstaða (sem nú eru friðlýstir) sjást að handan. Tóftirnar í hlíðinni eru að öllum líkindum hluti megintóftanna og ættu því að njóta friðlýsingar að sama skapi. Reyndar njóta þær hennar skv. Þjóðminjalögum því þar eru allra minjar eldri en 100 ára friðaðar.
TóftEkki er vitað til þess að fornleifauppgröftur hafi farið fram á að Gestsstöðum í Krýsuvík, en eflaust kemur að því. Guðrún Gísladóttir segir í skýrslu sinni um „Gróður ofl. í Reykjanesfólkvangi“ að gera ætti upp allar sýnilegar rústir á svæðinu. Taka má undir orð hennar að hluta því nauðsynlegt er að endurgera a.m.k. eitt sel og eina verbúð á svæðinu.
Getsstaðatóftirnar sunnan undir brúnum Gestsstaðavatns (sem nú hýsir starfsemi Krýsuvíkursamtakanna) sjást vel frá hálsinum. Vestar er stór ílöng megintóft, en austar tóftaþyrping.
Í Gestsstaðavatni er silungur. Vatnið var vatnsforðabúr Vinnuskólans á sínum tíma. Austar er Grænavatn, alldjúpur sprengigígur. Gestsstaðavatnsgígurinn hefur jafnan verið nefndur „hinn mildi“ á meðan Grænavatnsgígurinn hefur fengið nafnbótina „hinn hvassi“. Nafngiftin er fengin af brúnum þeirra.
Austanverðum hálsinum var fylgt uns haldið var niður að Sveinssafni – að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 31 mín.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Arnarfell

Í göngu á og við Arnarfell í Krýsuvík voru rifjaðar upp fjórar þjóðsögur er tengjast fellinu. Annars var megintilgangur ferðarinnar að staðsetja nokkrar fornleifar, sem fornleifafræðingar höfðu ekki komið auga á, auk náttúruminja. Þá var svæðið myndað, bæði með upptökuvélum og stafrænum.

Arnarfell

Arnarfell.

Gengið var að hlaðinni brú vestan við Arnarfell. Hún er í skarði á innri heimagarðinum að sunnanverðu. Gamla þjóðleiðin að Krýsuvík að austan lá um brúna, annars vegar til norðausturs að Eystrilæk og hins vegar til vesturs með garðinum utanverðum. Sett var niður prik við brúna.
Þá var gengið að vörðum með gömlu leiðinni til austurs sunnan Arnarfells, utan garðs. Hún lá framhjá brunninum sunnan Arnarfells og skiptist síðan í tvennt; annars vegar til austurs yfir Bleiksmýrina og hins vegar niður að Arnarfellsvatni (Bleiksmýrartjörn).

Arnarfellsvatn

Arnarfellsvatn/–tjörn.

Vestan við tjörnina mótar fyrir rústum. Áningarstaður vermanna í verum á sunnanverðum Reykjanesskaganum og skreiðarflutningamanna var þarna við sunnanverða tjörnina. Þá var jafnan slegið upp tjöldum. Vörðurnar eru fallnar, en vel móta fyrir innleggi þeirra. Annars var óþarfi að hafa vörður við Arnarfell því það var jafnan hið ágætasta kennileiti ferðamanna til og frá Krýsuvík að austan.
Merkt var umhverfis hinar gömlu tóftir Arnarfells vestan bæjarhólsins og síðan haldið upp á fellið. Ofan við syðri útihúsatóftina í fellinu er skúti. Þeir eru reyndar tveir. Annar er ofar og austar. Þar er fjárskjól, en engar hleðslur. Hinn er ofan og sunnan við tóftina. Þar er hleðsla fyrir, gróin. Svo virðist sem tákn séu þar skráð á veggi, en þau gætu eins verið af náttúrlegum ástæðum.

Krýsuvík

Krýsuvík – garður frá Bæjarfelli yfir að Arnarfelli.

Eiríksvarða var barin augum. Varðan er greinilega gömul að hluta, en verið haldið við með því að bæta í hana. Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum hafi látið hlaða vörðuna eftir komu Tyrkja til Krýsuvíkur (sjá þjóðsögu síðar) með þeim orðum að á meðan hún stæði óhreyfð væri byggðinni óhætt.
Gengið var niður skarðið og í Stínuskúta. Við hann var settur staur. Skútinn er með þeim fallegri í Krýsuvíkurfellunum.
Staur var sett við hlaðið og gróið skjól norðan undir stórum steini neðan við Stínuskúta. Þar gæti hafa verið kví og tengst stekknum þarna skammt vestar.
Loks var gengið að hinni gömlu þjóðleið milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er lá um Deildarháls. Þjóðleiðin sést enn mjög vel norðan við Eystrilæk. Þar liggur hún um mela, en því miður… Jarðýtustjóri er nú búinn að ýta duglega yfir hluta leiðarinnar. En verið róleg…

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

Samkvæmt bestu heimildum á að færa allt í samt lag aftur að lokinni kvikmyndatöku, einnig gömlu þjóðleiðina. Fylgst verður gaumgæfulega með hvernig það verður gert.
Hið skemmtilega (eða hið leiðinlega) við þessa þjóðleið er að fulltrúi Fornleifaverndar ríkisins var sérstaklega spurður að því á fundi, sem haldinn var með nefndarfólki og öðrum í Hafnarborg (daginn áður en skipulags og byggingarráð tók ákvörðun sína) hvort hann væri handviss um að þjóðleiðin gamla lægi ekki um þær slóðir sem ætti að raska. Spyrjandi sagðist hafa lesið það í hans gögnum að þetta væri talinn gamall árfarvegur. Fulltrúi Forneifaverndar móðgaðist mjög, sagði að þetta væri örugglega gamall árfarvegur og engin ástæða væri til að efast um þekkingu hans. Þetta væri ekki gömul þjóðleið, en nú er annað komið í ljós. Mjög mikilvægt er að fólk, sem vinnur við mat og skráningu fornleifa skoði svæði sem þetta með opnum hug og nýti sér vel þær upplýsingar, sem fyrir eru, bæði um einstakar minjar sem og sögu svæðisins. Mikið magn upplýsinga er til um Krýsuvík og ábúð það fyrrum.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Öryggisverðir reyndu að meina FERLIRsfélögum göngu um svæðið, en eftir að aðkomumenn höfðu rakið fyrir öryggisvörðunum helstu þjóðsögur, sem svæðið hefur að geyma, sagt þeim frá merkum minjum, lýst staðháttum og örnefnum, lagt út af sögu Krýsuvíkur í stuttu máli o.fl. o.fl. sáu þeir auðvitað að þarna fór ekki hættulegt fólk eða fólk, sem væri líklegt til að valda skemmdum á svæðinu. Það gekk því óáreitt á og umhverfis Arnarfell, eins og ætlunin var. Öryggisverðirnir sannfærðust líka um að það getur verið alvarlegt mál að hefta frjálsa för fólks í frjálsu landi, nema hafa til þess mjög ríkar ástæður, sbr. ákvæði hegningarlaga. Þær voru ekki fyrir hendi þarna, enda stafaði göngufólkinu engin hætta af umhverfinu og ekkert var á staðnum sem hægt var að skemma nema tveir kamrar, sem öryggisverðirnir hafa staðið dyggan vörð um og passað vandlega undanfarnar vikur. Þeir voru hins vegar ekki við Arnarfell, heldur við gömlu þjóðleiðina, sem nú var búið að skemma. Það vissu öryggisverðirnir að sjálfsögðu ekki.

Arnarfell

FERLIRsfélagar komnir í búðir kvikmyndafólks.

Öryggisverðirnir voru beðnir um að fygjast vel mannaferðum um svæði, einkum að kvöld- og næturlagi því skemmdir hafa verið unnar að undanförnu bæði á Krýsuvíkurkirkju og skátaskálanum Skýjaborgum undir Bæjarfelli. Þá væri og gott ef þeir, nærtækir, gættu þess vel að fólk væri ekki að ganga mikið til suðurs að Arnarfelli, því mýmörg hreiður væru enn í móanum milli vegarins og þess. Ljóst er því að heildarhlutverk öryggisvarðanna á svæðinu getur orðið til gangs þegar til alls er litið.
Hið skemmtilega var að annar öryggisvarðanna reyndi að telja FERLIRsfélögum trú um að girðingin um beitarhólfið hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að fólk færi um svæðið. Þá reyndi hann að telja hinum sömu trú um að straumurinn á henni gæti reynst varhugaverður. Hann vissi greinilega ekki við hverja hann var að tala.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Fyrsta þjóðsagan um Arnarfell segir frá Beinteini, en svo var nefndur maður „suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hann lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði. Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna.

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan. Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.“

Selatangar

Á Selatöngum.

Önnur saga segir að „á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.“
Þriðja sagan segir að „á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

Arnarhreiður Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann:
„Og hann fylgir staurunum, lagsi“.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.“
SkjólFjórða sagan segir af Tyrkjum er „undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju.
Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt: ”Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: ”Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu.
Hann mælti til þeirra: ”Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.“
Fjórða sagan segir af Arnarfellslabba. „Í Arnarfelli skammt frá Krýsivík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur. Var

Þjóðleið

Gamla þjóðleiðin til austurs frá Krýsuvík. Henni var fórnað með samþykki Fornleifastofnunar í þágu kvikmyndarinnar“Flags of our Fathers“, sem kom innlendum nákvæmlega ekkert við.

hann svo kallaður af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsivíkurmýrar, en þar var almennur áfangastaður og lágu menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli.
Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsivíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsivíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsivík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar.
”Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,” segir bóndi; ”get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.”
”Rétt getur þú til,” segir Björn, ”sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.”
”Kaup vilda ég eiga við þig,” segir bóndi; ”vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.”
Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsivík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.“

Heimildir m.a.:
-SIGFÚS IV 39
-RAUÐSKINNA I. 41
-JÓN ÁRNASON I. 562
-JÓN ÁRNASON III 593

Arnarfell

Arnarfell.

Fáni
Gengið var um hinn óaðgengilegustu hluta Krýsuvíkur, skv. fréttalýsingum a.m.k.

Arnarfell

Í Arnarfelli.

Haldið var austur eftir vörslugarðinum við Krýsuvíkurbæina undir Bæjarfelli, framhjá Ræningjahól og tóftum Suðurkots og áleiðis yfir að Arnarfelli.
Fljótlega kom í ljós að starfsmaður Fornleifaverndar ríkisins hafði farið um svæðið og rekið niður áberandi hæla þar sem vænta mátti fornleifa. En alls ekki við þær allar, eins og í ljós kom á göngunni.
Vörslugarðurinn hafði verið markaður sem og hluti af tóftum Arnarfellsbæjarins. Gömlu tóftirnar voru enn óafmarkaðar. Brunnurinn hafði loks fengið náð starfsmannsins og nú loksins komist á blað fornleifaskráningarinnar. Hins vegar voru báðar vörðurnar ómerktar. FERLIR mun á næstunni merkja 9 minjar til viðbótar á svæðinu, sem horft hefur verið framhjá.
Gengið var upp á Arnarfellið að sunnanverðu. Táknrænt mátti þykta að á steini við brún fellsins lá hvítskeljuð hauskúpa kindar. Var eins og hún vildi minna á tilvist sína í þessu táknræna bústetulandslagi langs tíma aftur í aldir. En því miður virðast fáir nútímamenn þess umkomnir að skilja slíkt.

Arnarfell

Búðir kvikmyndafólks við Arnarfell.

Undir fellsbrúninni voru útihúsatóftir merktar, en helliskúti í fornleifaskránni fékk að vera ómerktur. Í honum eru hellaristur, sem skoða þyrfti nánar. Framan við hann eru hleðslur.
Uppi á Arnarfelli var Eiríksvarðan merkt tveimur stikum, en arnarhreiðrið ekki. Önnur stikan var því færð að hreiðrinu forna – svona til að spara sérfræðingum sporin.
Efst á fellinu var staldrað við og horft yfir sviðið. Jarðýta hafði rutt móann næst þjóðveginum. Þar á víst að reisa hljólhýsabúðir fyrir væntanlega útlendinga. Heyrst hafði í samtali að von væri á þremur fullhlöðnum skipum til landsins með hinn ýmsa búnað, s.s. tæki og tól. FERLIR mun fylgjast með upptökunum.

Arnarfell

Arnarfell – tjaldbúðir.

Þá hvíslaði fugl því að einhverjum að nýlega hefðu komið nýmóðins tæki með flugi til landsins er m.a.s. embættismenn töldu sig þurfa að gæta að. Öllu var komið í „örugga“ geymslu á tilteknum stað.
Hvað sem framangreindu líður hafa FERLIRsfélaga einungis áhuga á umhverfinu, minjum og sögu svæðsins. Flaggað var að því tilefni á arnarhreiðrinu á toppi Arnarfells með útsýni yfir Arnarfellsvatnið, er iðaði að fuglalífi þessa kvöldstund. Reyndar eru arnarlauparnir tveir á fellinu.
Haldið var niður Arnarfellið að austanverðu.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Þar var kominn kaðall fyrir fótalúna, en vanir gengu niður um „klofið“ og beina leið niður í Stínuskúta. Þar er um að ræða fallegt fjárskjól með útsýni yfir suðausturhluta svæðisns. Því hefur verið haldið fram að engar fornleifar væru á því svæði, en það er rangt. Beint þarna neðan af er t.d. gróið hlaðið skjól undir kletti. Skammt vestar er stekkur. Gömul leið lá með lækjarfarvegi austur yfir heiðina. Yfir hana á að leggja veg.
Skoðað var rask jarðýtunnar við þjóðveginn. Það er orðið allnokkurt, en án efa mun það verða fært í samt lag á ný. Gamla þjóðleiðin liggur fast við mörkin, sem nú er verið að raska. Hún var merkt með steinum, svo fornleifafræðingar gætu komið auga á hana.
Gengið var að kömrum, sem öryggisvörður gætti. Hann virtist vakna við vondan draum þegar FERLIRsfélagar buðu gott kvöld að góðra manna sið. Sagðist hann einungis vera að gæta að jarðvegsdúk, sem þarna væri, en kamranir væru opnir öllum, gangandi sem akandi.

Fáni

Flaggað var við Eiríksvörðu á Arnarfelli á meðan á tökum „Flag of ours Fathers“ stóð.

Frá vörslustaðnum sást til fólks vera á ganga á Arnarfell, Líklegt er að þannig muni það verða á næstunni – hvað sem kvikmyndatökum áhrærir.
Í viðtali við öryggisvörðinn kom í ljós að glussarör í jarðýtunni hafði brostið um morguninn af óskiljanlegum ástæðum. Vildu menn jafnvel rekja það til álagasteins, sem reynt hafði verið að færa úr stað. Hann myndi nú fá að vera í friði. Hvorki virðast menn, skv. þessu, hafa tengt atburðinn grafhelginni í Krýsuvíkurkirkjugarði né Gullskinnu séra Eiríks frá Vogsósum. Líklegt má telja að ýmislegt óvænt, skrýtið og jafnvel óútskýranlegt, muni koma koma upp á á svæðinu á næstu dögum og vikum, en vonandi mun það þó allt ganga óhappalaust fyrir sig.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Öryggisverðinum á 12 tíma vöktum virtist leiðast að þurfa að gæta öryggis jarðvegsdúksins, sem örugglega fáir virðast hafa áhuga á að færa úr stað. Hann virtist hins vegar engan áhuga hafa á ferðum fólks um svæðið, enda óheimilt, skv. fornum, en gildandi, lögum, að meina fólki för um land.
Öryggisvörðurinn hafði á orði að góður peningur hafi fengist fyrir gæsluna. Fyrirtækið geymi sprengiefnið, sem nota á á tilteknum stað, og fengið gæsluna sem ábót. Auðvitað virðist þetta sjálfsögð áhrifavirkun á atvinnumál svæðisins – svona í fljótu bragði. Jafnvel formaður einna ferðamálasamtaka svæðisns varð sleginn blindu þegar einhverjum peningaseðlum var veifað framan í hann á kostnað umhverfisins. Slíkt viðhorf hryggir marga, en eru þó skiljanleg.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Í göngunni var bæði það auglósa og það nærtækasta skoðað. Auk sögulegra minja, jarðfræðiáhugaverðra fyrirbæra og náttúrueinkenna svæðisins var gefinn gaumur af fugla- og dýralífi þess. Víða mátti, með góðri yfirlegu og tíma, sjá fugla á hreiðrum. T.d. var tekið hús að þúfutillingi þar sem hann hafi verpt, sennilega öðru sinni, fimm eggjum undir þúfu. Lóan lá enn á eggjum sínum, en væntanlega munu ungarnir kúra sig um sinn undir börðum og bökkum, þ.e.a.s. ef jarðýtan sér ekki um að allur lífstilbúningurinn hafi verið tilgangslaus. Blindir menn á náttúruna og umhverfið sjá ekki slíka hluti – því miður.
Jarðýtur fóru síðast um þetta svæði árin 1944, þegar vegurinn var ruddur austur að Herdísarvík, og þegar þjóðminjavörður fyrirskipaði að rústir Krýsuvíkurbæjarins skyldu jafnaðar við jörðu. Fáum hefur orðið jafn mikil eftirsjá eftir litlu. Í rauninni er sorglegt til þess að vita hversu nútímamaðurinn, með ásókn sinni í sýndarveruleikann, er orðinn fjarlægur raunveruleikanum. Ástæða er til að hvetja áhugsamt fólk til að nota tækifærið og ganga á Arnarfell á næstunni, skoða minjarnar og virða fyrir sér umhverfið, sem er óvíða fagurrra hér á landi.
Frá fellinu má vel sjá yfir að Eldey, út með Stóru-Eldborg, upp yfir Vegghamra og Geitahlíð, upp yfir Rauðuskriður og í hinar stórbrotnu hraunár vestan við Geitarhlíð. Auk þess má af Arnarfelli, með lítilli fyrirhöfn, virða fyrir sér nær allt nærumhverfi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell.

Arnarfell
Gengið var til austurs frá bílastæðinu við skátasvæðið neðan við Skýjaborgir undir Bæjarfelli, suðvestan við Krýsuvíkurkirkju, meðfram Ræningjahjól, um tún Suðurkots og síðan var gamla túngarðinum fylgt sem lá lá í áttina að Arnarfelli.
Ræningjahóll er þar sem hæst ber, en skammt austan undir honum er Ræningjadys eða Ræningjaþúfur. Sagan segir að Tyrkir hafi komið að Heiðnabergi við Hælsvík. Gengu þeir upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“
Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, mundu þið éta hvur annan.“
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – varða.

Vörslugarðarnir umhverfis Krýsuvíkurbæina eru bæði úr grjóti og úr torfi. Grjóthleðslur eru við endana, þar sem þeir koma að fellunum beggja vegna, en á milli þeirra eru þeir úr torfi. Garðar þessi voru endurhlaðnir á 19. öld. Áður en komið var að Arnarfelli þurfti að fara yfir lítinn læk. Á honum eru leifar að hlaðinni brú þar sem garðurinn hefur legið. Skammt þar norður af, í mýrinni eru leifar húss eða stekks.
Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfellskotsins. Býlið er á 80x150m stóru svæði innan túngarðsins. Veggir eru úr torfi og grjóti. Sennilega eru 6 hólf í rústinni. Safnþró er framan við hana, líkt og fyrir framan Fitjabæinn undir Selöldu.

Krýsuvík

Krýsuvík – garður frá Bæjarfelli yfir að Arnarfelli.

Traðir eru undir fellinu, í grasi grónum hlíðum þess. Þær eru óljósar, en virðast hafa legið frá suðsuðvesturhorni bæjarins niður hlíðina og stefna síðan að Bæjarfellinu austan við túngarðinn. Beggja vegna traðanna má sjá grilla í lága garða sinn hvoru megin við þær. Traðirnar eru vel grónar. Beinteinn Sveinsson bjó síðastur að Arnarfelli, hagur maður á tré og járn. Hann byggði m.a. Krýsuvíkurkirkju árið 1857, en hún hefur þó síðan nokkrum sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.
Fræg er viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á selatöngum. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó Beinteinn á Arnarfelli í Krýsuvík. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:

Arnarfell

Arnarfell – Í Guðbjargarhelli.

„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Lá hann rúmfastur næstu daga.

Arnarfell

Arnarfell – bæjarbrunnurinn.

Bæjarbrunnurinn er utan garðs, fallega hlaðinn. Fallin varða er við forna götu skammt frá honum.
Þegar búið var að skoða svæðið innan heimagarðsins, bæjartóftirnar og umhverfi þeirra, var haldið rangsælis umhverfis fellið eftir gamalli götu er lá áfram til austurs, yfir að Jónsbúð, sauðakofa austarlega á Krýsuvíkurheiði. Varða er við götuna ofan við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Þaðan var ágætt útsýni yfir Bleiksmýrina, sem ræst var út um miðja 20. öldina. Vestan við vatnið eru gamlar rústir. Sunnan þess var fyrrum áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við sunnanverðan Reykjanesskaga austur í sveitir. Einnig mátti vel sjá fyrir sér og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Neðar eru Trygghólar. U.þ.b. miðja vegu milli þeirra og Arnarfells, skammt vestar, er Arnarfellsréttin, nokkuð heilleg fjárrétt í lægð.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Suðaustan við Arnarfell er fyrrum gróðurvana svæði, sem komið er vel á veg að gróa upp. Blóðberg, lambagras, geldingahnappur ásamt lyngi eru nú á góðri leið með að þekja fokjarðveginn.
Við austurhorn Arnarfell er stekkur, á grasi gróinni rein við fjallsræturnar, vestan megin við uppþornaðan lækjarfarveg. Hann er 5x5m. Veggir eru úr grjóti.
Gengið var austur og norður með fellinu. Við norðurhorn þess er stekkur undir steini. Stínuskúti er í fellinu skammt austar og ofar í því. Ekki er vitað um tilurð nafnsins, en þó er ekki ólíklegt að það sé til komið líkt og Guðbjargarhellir á Hrauni við Grindavík, þ.e. tímabundið skjól þeirra, sem það var nefnt eftir, líklega frá amstri dagsins.

Arnarfell

Arnarfell – Stínuskúti.

Um er að ræða mjög fallegan skúta, tvískiptan. Hægt er að ganga inn í hann að austanverðu, en að vestanverðu er líklegt að fé hafi legið. Svo virðist sem skútinn hafi myndast að tilstuðlan vatns, en það er hvergi að finna nú. Því virðist hér um nokkuð merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Falleg, viðkvæm, móbergssúla skilur af hluta skútans.
Arnarfellið er í u.þ.b. 100 m hæð. Sjálft fellið er tæplega 100 metra hátt (93 m). Þegar gengið er upp gróna norðvesturhlíð þess sjást vel útihúsin frá bænum. Þar er rúst, stekkur og skúti ofan hans. Rústin er 4,5x7m. Veggir eru úr torfi og grjóti. Mjög stórir steinar eru í veggjum, sumir jarðfastir. Tvö hólf eru í rústinni og eru dyr á báðum. Stekkurinn er 5x10m. veggir eru úr grjóti og torfi. Tvö hólf eru í stekknum, líkt og almennt gerist með slík mannvirki á Reykjanesskaganum. Dyr eru ábáðum hólfum. Skútinn er 1,5x4m og 1,5m hár. Hann liggur skáhalt inn í áberandi hamar í fjallinu, nánast beint ofan við rústina og stekkinn.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Vestan við Arnarfell sést vel yfir að Læk þar sem Arngrímur bjó um tíma fyrir og eftir aldamótin 1700. Þekkt er þjóðsagan af Grákollu er tengdist honum og fjárhelli hans í Klofningum, sem eru í Krýsuvíkurhrauni þarna skammt austar.
Þegar upp á Arnarfell er komið blasir Eiríksvarða við á vestari toppi þess, en hún er kennd við Eirík prest (Magnússon) í Vogsósum sem þekktur er úr þjóðsögum fyrir fjölkyngi sína. Hann dó árið 1716. Hann þótti skrýtinn í ýmsu, eins og segir í örnefnalýsingu. Fellið er tiltölulega auðvelt uppgöngu að vestanverðu og þaðan er útsýni yfir Krýsuvíkurheiði og næsta nágrenni.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Ef vel viðrar er hægt að sjá hvar Eldey rís úr hafi við sjóndeildarhring í vestri. Þegar horft er inn til landsins sést hvar Sveifluhálsinn teygir sig einn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna ásamt Selvogsheiðinni enn austar og suðurlands.
Á eystri toppi Arnarfells er fornt arnarsetur, enda dregur fellið nafn sitt af því. Hreiðrið er vel gróið og því ljóst að ernir hafa haft þar hreiðurstæði um langan tíma áður en þeir voru gerðir útlægir af svæðinu, enda þóttur þeir hinir mestu vágestir. Margar sagnir eru til af atferli þeirra, sumar reyndar verulega ýktar. Annað fornt arnarhreiður er þarna skammt frá, í austanverðu Ögmundarhrauni.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Af fellinu sést vel yfir Arnarfellsvatn í suðaustri og mógrafir Krýsuvíkurbænda í norðri. Grafirnar, sem eru í mýri, eru a.m.k. fjórar talsins og misstórar, 3×4 til 6x8m. Allar eru þær fullar af vatni og hugsanlega eru eldri samanfallnar grafir allt í kring í kvosum og lægðum í næsta nágrenni. Þannig er líklegt að einungis yngstu mógrafirnar sjáist með berum augum, en þær eldri orðnar jarðlægar.
Þegar horft er til norðausturs sjást Vegghamrarnir vel. Ofan þeirra eru Kálfadalirnir. Niður í þann syðri rann hrauná, sem kallast Víti. Stórkostlegt er að standa ofan við strauminn, sjá hvernig hraunið hefur fossað niður hlíðina og storknað þar á leið sinni.

Kálfadalir

Kálfadalir – sviðmynd fyrstu leiknu íslenskrar kvikmyndar.

Skammt norðar er leiksvið einnar af fyrstu leiknu kvikmyndunum á Íslandi. Hluti hennar átti að hafa gerst á tunglinu og er landlagið ekki ólíkt því sem þar má ímynda sér. Geimfarar þeir, sem fyrstir stigu fæti sínum tunglið, skv. bestu heimildum, komu m.a. þangað til að aðlagast því sem við mátti búast. Svæðið er torfundið, en er ein af mestu náttúrperlum landsins.
Vakin er athygli á því að myndirnar, sem fylgja þessari vefsíðu, eru af minjum, sem hvergi er minnst á í fornleifaskráningu af svæðinu frá árinu 1998 og Fornleifavernd ríkisins hefur stuðst við í umsögn sinni um fyrirhugaða kvikmyndatöku við Arnarfell, en þó er síðasta myndin (af Eiríksvörðu) undanskilin. Þá hefur hvorki Landgræðsla ríkisins né Umhverfisstofnun tekið tillit til Arnarfellsins sjálfs þegar umsögn var gefin, einungis umhverfis þess. Í nefnda skráningu vantar a.m.k. 12 minjar, sem vitað er um á og við fellið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Kringlumýri

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um svæðið norðvestan, vestan og suðvestan Hettu: „Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum.
refagildra-76Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn.“
Þegar FERLIR var nýlega að feta stíga, götur og vegi á sunnanverðum Sveifluhálsinum [Eystri Móháls] [Austurháls] var staðnæmst á Hettuvegi sunnan undir Hettu. Bjart var í verði og útsýni yfir Kringlumýri og Drumbdali var með ágætum. Fé undi sér vel í Kringlumýrinni, enda einkar grösugur dalur. Stórt vatnsstæði er í gömlum gíg syðst í honum (Kringlumýrartjörn). Lækir runnu frá Hettuhlíðum beggja megin mýrinnar áleiðis niður í Bleikingsdal og áfram niður í Ögmundarhraun.
Fagraskjol-21Af fyrri reynslu mátti ætla að þessi grösugi og safaríki dalur hefði verið nytjaður fyrrum. Norðaustan í dalnum er aflíðandi hæð. Á henni virtust vera grónar tóftir, svona úr fjarlægð séð. Tóftarhóllinn var grænni en umhverfið. Líklegt mátti ætla ef þarna hefði verið selstaða fyrrum hefði hún verið frá Húshólmabæjunum (hinni fornu Krýsuvík) því aðkoman að Kringlumýrinni virtist ákjósanlegust þaðan, þ.e. upp og niður með vestanverðum Sveifluhálsi og áfram um gróninga (nú hraun eftir 1151) að bæjunum neðanundir og ofan við ströndina. Ekki er útilokað að selstaðan hafi verið frá Krýsuvíkurbænum austan Bæjarfells því aðkoman frá honum ef farið er suður fyrir Sveifluháls er svipuð og ef verið hefði frá fyrrnefndu bæjunum. Þá væri sennilegast að þar hefðu kýr verið hafðar í seli fremur en fé því bæði var bithaginn góður að gæðum og afmarkaður, auk þess sem aðgangur var að nægu vatni allt árið um kring.
Kringlumyri-28Vegna hæðamismunarins á mýrinni og veginum var mögulegt selstæði ekki kannað í það sinnið.
Daginn eftir var hins vegar haldið inn í Kringlumýrina. Gengið var um Steinabrekkustíg og Drumbdalastíg frá hinum fornu Gestsstöðum í Krýsuvík. Á leiðinni voru leifar útihúss í Steinabrekkum skoðaðar, hlaðin refagildra mynduð, kíkt á Fagraskjól ofan Skugga og þegar komið var efst í austanverða Drumbdali var fjárgata rakin ofarlega í hlíðinni inn að Kringlumýrartjörn. Þaðan var gengið að meintri selstöðu. Ekki þurfti að staldra lengi við á selshólnum til að sjá móta fyrir rými og hlöðnum grjótveggjum, sennilega stekk eða fjósi. Augljóst virtist að þarna hafði fyrir alllöngu verið mannvirki, nú næstum algróið. Hús var austur/vestur, sennilega lítill skáli. Stekkurinn eða fjósið var þvert á hann, eða suður/norður.
Kringlumyri-29Ýmislegt gaf til kynna að þarna hafi fyrrum, líklega um og eftir 1000, verið kúasel. Aðstæður voru ákjósanlegar, bæði vatn og góðir bithagar, takmarkað rými og auðvelt um gæslu. Brekkur eru á alla vegu nema skarð til suðvesturs, niður með vestanverðum hlíðum hálsarins. Þar gæti selsstígurinn enn verið greinilegur, en skoðun þar bíður betri tíma.
Aðkoma og afstaða selsins er mjög svipuð og sjá má í Helgadal ofan við Hafnarfjörð. Þar er áætlað að kúasel hafi verið frá því skömmu eftir landnám hér á landi.
Selsstöðunnar í Kringlumýri er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningu af svæðinu. Hún væri því vel frekari rannsóknarinnar virði. Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km.
Þetta mun vera sjöunda selstaðan, sem staðsett hefur verið í landi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnaskráning fyrir Krýsuvík – Gísli Sigurðsson.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri af Hettustíg.

Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1„Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður“. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.“

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Enganess, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.“

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. 

Reykjanes

Upphafið – Eggert og Bjarni
Upphaf rannsókna á jarðhitasvæðinu í Krýsuvík má rekja aftur til ársins 1756. Þá voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson þar á ferð en þeir voru meðal helstu boðbera upplýsingastefnunnar hér á landi. Þeir félagar könnuðu jarðhitann í Sveifluhálsi austanverðum og boruðu þar m.a. 32 feta djúpa rannsóknarholu. Rannsóknirnar breyttu ekki þeirra fyrri skoðunum á uppruna jarðhitans, þ.e. að hann væri ekki kominn úr iðrum jarðar heldur skapaðist á nokkurra feta og í mesta lagi nokkurra faðma dýpi í jörðinni (Eggert Ólafsson 1975).

Boranir 1941-1951
krysuvik-999Milli 15 og 20 grunnar holur voru boraðar í nágrenni Krýsuvíkur á árunum 1941-1951, líklega allar innan við 200 m djúpar. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um þessar boranir, en tilgangurinn með þeim var að afla gufu til rafmagnsframleiðslu fyrir Hafnarfjörð og voru þær kostaðar af bæjarsjóði Hafnarfjarðar og Rafveitu Hafnarfjarðar (Ásgeir Guðmundsson 1983, Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson 1996).
Ein þessara holna, stundum nefnd Drottningarholan, sem boruð var í Seltúni árið 1949, blés allt til ársins 1999. Talið er að hún hafi sofnað snemma í október það ár en þann 25. október varð feikna mikil gufusprenging í holunni. Talið er að holan hafi stíflast vegna útfellinga og að úr sér genginn holubúnaðurinn hafi gefið sig þegar þrýstingur byggðist að nýju upp í aðfærsluæðum holunnar sem hafði blásið samfellt í 50 ár.

Boranir 1960
Í framhaldi af viðræðum Hafnarfjarðarbæjar og Reykjavíkurborgar um hitaveitu frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur voru boraðar þrjár holur í næsta nágrenni Krýsuvíkur árið 1960. Til verksins var notaður nýr jarðbor, Gufubor ríkisins og Reykjavíkurborgar. Holurnar urðu 1275, 1220 og 329 m djúpar. Ekki var settur raufaður leiðari í holurnar og hrundu þær þegar þeim var seltun-998hleypt í blástur.
Áður höfðu
fengist upplýsingar um jarðlög og hita í holunum. Niðurstöður borananna ollu nokkrum vonbrigðum þar sem mestur hiti í holunum reyndist á 300–400 dýpi, 200–225°C, en neðar fór hitinn lækkandi. Boranirnar voru kostaðar af ríkissjóði (Ásgeir Guðmundsson 1983, Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson 1996). Þessar þrjár holur hafa í umfjöllun um rannsóknir yfirleitt verið nefndar hola 1, 2 og 3 og í seinni tíð KR-1, KR-2 og KR-3.

Borun 1964
Árið 1964 var boruð 300 m djúp hola í Krýsuvík til vatns- og gufuöflunar fyrir gróðurhús á staðnum. Þessi hola hefur verið nefnd hola 4 eða KR-4.

Krýsuvíkuráætlun 1970–1971
Árið 1970 hófst á vegum Orkustofnunar kerfisbundin rannsókn á Krýsuvíkursvæðinu í kjölfar fimm ára áætlunar sem stofnunin hafði gert um rannsókn háhitasvæða. Í áætluninni var Krýsuvíkursvæði skilgreint þannig að það náði yfir jarðhitasvæðin í Krýsuvík og nágrenni, þ.e. við Trölladyngju og milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls (Stefán Arnórsson og Stefán Sigurmundsson 1970).
Tilgangurinn var að kanna útbreiðslu heits bergs og vatns á svæðinu, berghita, vatnsforða heita bergsins og gegndræpni þess, en niðurstöður slíkrar könnunar voru taldar nauðsynleg undirstaða fyrir raunhæfar áætlanir um nýtingu jarðvarma í stórum stíl. Í heildarskýrslu Jarðhitadeildar Orkustofnunar um rannsókn jarðhitans á Krýsuvíkursvæði (Stefán Arnórsson o.fl. 1975) er gerð ítarleg grein fyrir niðurstöðum rannsóknanna sem voru m.a. jarðfræðikortlagning, mælingar á smáskjálftum, jarðsveiflumælingar, viðnámsmælingar, segulmælingar, þyngdarmælingar, efnafræði jarðhitavatns, boranir og borholurannsóknir.

Þrjár rannsóknarholur voru boraðar árið 1971 og ein til viðbótar árið 1972. Hola 5 (KR-5) við suðurenda Kleifarvatns varð 816 m djúp, hola 6 (KR-6) norðan við Trölladyngju varð 843 m djúp og hola 7 (KR-7) við Djúpavatn varð 931 m djúp. Hola 8 (KR-8) var boruð 1972 við Ketil vestan undir Sveifluhálsi og varð hún 930 m djúp.

seltun-997

Sem fyrr var borað niður í gegnum hæsta hitann í öllum borholunum og voru settar fram þrjár skýringar á því:
(1) Uppstreymi á miklu dýpi undir svæðinu og þaðan skástreymi í átt til yfirborðs til allra hliða, meira eða minna.
(2) Aðskilin uppstreymissvæði, líklega eitt undir Sveifluhálsi og annað undir Trölladyngju og lárétt streymi út frá þeim á tiltölulega litlu dýpi. Lárétta streymið leiðir til myndunar á svepplaga massa af heitu vatni og bergi ofan á uppstreyminu.
(3) Dvínandi hitagjafi undir svæðinu án verulega minnkaðs rennslis inn í það neðan frá. Þetta leiðir til lækkunar á hita vatnsins í rótum jarðhitakerfisins og eykur líkur á kólnun ofan frá.
Höfundar skýrslunnar töldu skýringu (1) ekki koma til álita þar sem hola 8 fór einnig í gegnum hæsta hitann en hún var talin staðsett í miðju megineldstöðvarinnar í Krýsuvík. Ekki var talið unnt að skera úr um það með fyrirliggjandi þekkingu hvort skýring (2) eða (3) ætti betur við um Krýsuvíkursvæðið eða hvort einhverjir aðrir þættir réðu hinum viðsnúnu hitaferlum í borholunum. Hátt eðlisviðnám djúpt undir jarðhitasvæðinu var talið geta stafað af lágum hita eða litlum poruhluta og fremur talið styðja hugmyndina um dvínandi hitagjafa.
Í grein Stefáns Arnórssonar o.fl. (1975) um rannsóknirnar á Krýsuvíkursvæðinu koma fram sömu niðurstöður nema hvað tilgáta (1) hefur verið felld út. Þessar niðurstöður ollu ekki síður vonbrigðum en niðurstöður borananna árið 1960 og hafa vafalítið ýtt undir það að ekki varð af frekari rannsóknum á svæðinu um sinn og áhugi stjórnvalda og annarra beindist að öðrum jarðhitasvæðum.

Rannsóknir á níunda áratugnum
seltun-996Um 1980 var enn farið að huga að jarðhitanum á Krýsuvíkursvæðinu. Frá því að rannsóknum á Krýsuvíkursvæðinu lauk hafði mikil reynsla fengist af rannsóknum á háhitasvæðinunum við Kröflu og í Svartsengi.
Í erindi á ráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands haustið 1980 kynnti Valgarður Stefánsson líkanhugmynd af svæðinu byggða á endurskoðun rannsóknargagna frá Krýsuvík. Valgarður segir að viðsnúnir hitaferlar séu tákn um lárétt streymi í bergi og telur að hitadreifing í borholum bendi til að uppstreymi sé annars vegar austan við Seltún í Krýsuvík og hins vegar við Trölladyngju en niðurstreymi á milli svæðanna, þ.e. í Móhálsadal. Hér er í raun endurvakin skýring (2) frá Krýsuvíkuráætlun og hún talin eiga við rök að styðjast.

Á árunum 1983-1986 var af og til unnið að jarðhitarannsóknum á svæðinu á vegum Orkustofnunar. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa aldrei verið teknar saman í heild en þær hafa að nokkru leyti komið fram í ýmsum skýrslum og greinum, m.a. á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Fljótlega komu t.d. fram hugmyndir um hliðrun Krýsuvíkurgosreinarinnar til vesturs eða norðvesturs um 1-3 km frá því á síðasta jökulskeiði og bent var á samsvarandi hliðrum í gosrein Brennisteinsfjalla. Einnig kom í ljós að sprungukerfi með stefnu nálægt norður-suður, framhald skjálftasprungna á Suðurlandi til vesturs, virtust tengjast jarðhitanum við Krýsuvík og við Sandfell (Sigmundur Einarsson 1984).
seltun-995Kifua (1986) telur í skýrslu sinni um jarðhitasvæðið við Trölladyngju sem unnin var við Jarðhitaskólann að austur-vestur útbreiðsla jarðhitaummyndunar virðist eiga rætur að rekja til eiginleika s.s. brota í jarðaskorpunni sem liggja undir yfirborðslögum og tengjast hugsanlega skjálftabeltinu.
Í erindi Sigmundar Einarssonar og Hauks Jóhannessonar á ráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands vorið 1988, sem að hluta byggðist á rannsóknum á vegum Orkustofnunar, er rakin gosvirkni í Trölladyngjubrotakerfinu á nútíma. Þar er einnig minnst á eldvirkni í Krýsuvík austan við Sveifluháls, en hún talin liggja utan við meginbrotakerfið.
Í grein Sigmundar Einarssonar o.fl. (1991), sem einnig byggðist að hluta á rannsóknum Orkustofnunar, er gerð allítarleg grein fyrir yngstu goshrinunni í Trölladyngjukerfinu. Þar kemur m.a. fram að óreglur eru í gossprungu Krýsuvíkurelda þar sem hún liggur gegnum jarðahitaummyndun við Vigdísarvelli.
Sumrin 1983-1984 voru gerðar viðnámsmælingar á háhitasvæðinu við Trölladyngju en talin var þörf á verulegum viðbótarmælingum til að unnt yrði að draga af þeim nægjanlega öruggar ályktanir um gerð jarðhitasvæðisins (Ólafur G. Flóvenz og Kristján Ágústsson 1985).

Rannsóknir fyrir Lindalax hf. 1986
seltun-994Árið 1986 gerði Orkustofnun ítarlega skýrslu um jarðhitasvæðið við Trölladyngju og byggðist hún að mestu á niðurstöðum rannsókna undagenginna ára og frekari úrvinnslu eldri gagna (Orkustofnun og Verkfræðistofan Vatnaskil 1986).
Í niðurstöðum er gert ráð fyrir að Trölladyngjusvæðið sé vestasti hlutinn af stóru jarðhitasvæði sem teygi sig austur að Kleifarvatni og suður í Sandfell og tengist náið eldvirkni á nútíma. Út frá viðnámsmælingum og borholugögnum er jarðhitakerfinu skipt í efra kerfi á 300–500 m dýpi og talið að hiti í því geti verið allt að 260°C. Í neðra kerfi, sem ekki hefur verið borað í (neðan 900 m), er gert ráð fyrir að hitinn geti verið á bilinu 270–300°C og byggist sú niðurstaða á efnarannsóknum í gufuaugum. Gróft mat á vinnslugetu svæðisins er í skýrslunni talið benda til að orkan í efstu 1000 m nægi til framleiðslu 100 MW af varmaorku í 140 ár.

Heimild:
-Yfirlit rannsókna á jarðhitasvæðinu í Krýsuvík. Unnið fyrir Orkustofnun, júní 2000.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hveradalur.

Austurengjar

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmmetra jafnlínu.

austurengjar-998

Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smá-hraunum með úrkastinu. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.
Um er að ræða fólkvangur; friðlýst útivistarsvæði: Reykjanesfólkvangur. Náttúruminjar; Keilir, Höskuldarvellir og Eldborg við Trölladyngju. Tegundir á válista: tunguskollakambur, sem einnig er friðlýst tegund, sem og laugadepla. Friðlýstar minjar: Kaldrani (Gestsstaðir við jaðar svæðisins).
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengja hver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 metrar í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 metra djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 metra vestan við hvera rákina. Hæstur hiti í henni er um 160 °C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík. Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Krýsuvík, oft einnig (ranglega) ritað Krísuvík, er fornt höfuðból sunnan við Kleifarvatn sem lagðist í eyði á síðustu öld austurengjar-997og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Áhugavert er að skoða sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn. Og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg sem er fuglabjarg niðri við ströndina, þar verpa um 57.000 sjófuglapör aðallega rita og svartfugl. Þar verpir einnig nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Í Krýsuvík er mikið um gamlar gönguleiðir sem áhugavert er að skoða. Hér má skoða eina gönguleið þetta er gönguleið um Krýsuvík – Sveifluháls – Ketilsstíg -leiðin er um 12-14 km löng og tekur um 4-5 klst, hækkunin er um 120 m.
Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverhlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi. Þar má sjá gufustróka sem stíga til himins og sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og Hverahvammar sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.
austurengjar-991Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell og eru hverasvæðin mjög ólík.
Hveravirknin er samfelldust í Hveradölum og við Seltún með gufuhverum og leirhverum. Á þessum stað er mikið um brennisteinshveri og er hæsti hiti í borholum um 230°c en ekki hefur verið borað dýpra en 1200m.
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær norður í Kleifarvatns. Á þessari hitarák eru sprengigígjar sem gosið hafa gjalli. Stærsti gígurinn er um 100 m í þvermál og er staðsettur norðaustur af Stóra-Lambafelli. Við Kleifarvatn er ein 600 m djúp borhola og þar er hæsti hitinn um 160°c. Áhugasamir virkjunarsinnar horfa ní [2013] löngunaraugum til svæðisins.
Þegar kemur að stórhuga virkjunarframkvæmdum ber að hafa í huga sögu Krýsuvíkursvæðisins; hingað til hefur ekkert lukkast er langanir hafa staðið til.

Heimildir m.a.:
-http://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&frm=1&source=web&cd=1&ved=0CCUQFjAA&url=http%3A%2F%2Fwww.rammaaaetlun.is%2Fmedia%2Fbeinleid%2FMinnisblad-67-Austurengjar.pdf&ei=avfJUZXfIYaT0QWgpYGgDQ&usg=AFQjCNFKQYQCW9u-yRnHIPfmwacvzrrAAw&bvm=bv.48293060,d.d2k
-http://is.wikipedia.org/wiki/Kr%C3%BDsuv%C3%ADk

Lambafell

Lambafell í Krýsuvík – forn dyngja.