Tag Archive for: Krýsuvík

Brennisteinsnám

Ólafur Ólafsson, sem síðar latíniseraði nafn sitt að lærðra manna sið og kallaðist Olavius, var vestfizkrar ættar. Fæddur var hann á Eyri í Seyðisfirði vestra árið 1741. Ingibjörg, systir Olaviusar, varð amma Jóns Sigurðssonar forseta.
Seltúnssvæðið í Krýsuvík - ytra námusvæðiðJafnframt læknanámi í Skálholti og síðar guðfræðinámi í Kaupmannahöfn fékkst hann við ritstörf. Hann hefur sýnilega verið gagntekinn af anda fræðslustefnunnar, sem þá ruddi sér til mjög til rúms, en jafnframt fullur áhuga á að efla framfarir og menningu meðal Íslendinga.
Ólafur Olavius ferðaðist um Ísland sumurin 1775-77 en honum hafði verið falið að kynna sér m. a. hafnir og lendingar, hvar heppilegast væri að koma upp fiskiþorpum. Olavius ritaði bók um ferðir sínar og rannsóknir, Oeconomisk Reise igiennem Island, og kom hún út 1780.
Í bók II er skýrsla Ole Henchels um brennisteinsnámur á Íslandi og hreinsun brennisteins, 30. janúar 1776. Í henni lýsir Ole m.a. leir og brennisteini í Krýsuvíkurfjalli og hvernig vatnsborð Kleifarvatns hafði lækkað eftir landskjálfta, „trúlega eftir að sprunga hafi opnazt í vatnsbotninum“.
„Hjá syðstu námunum rétt við fjallsræturnar var fyrsta hreinsunarstöðin reist, en þar sem ekkert eldsneyti var þar að hafa, var hún flutt og sett niður fjórðung mílu frá bænum, en þar er mótekja góð. Síðan var hún flutt heim undir bæinn, því að mönnum þótti léttara að flytja brennisteininn þangað niður eftir en að flytja eldsneytið upp eftir að fyrsta stöðvarhúsinu. Heima við bæinn er einnig léttara að ná í vatn, því að lækur með góðu vatni rennur þar framhjá.

Í Baðstofu - innra námusvæðinu

Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði tekin upp brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, ein og þar hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Það hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna búsettur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna. Síðan hefði kaupmaðurinn í Grindavík, sem er einungis 2 1/2 mílu í burtu þaðan, getað farið til Krýsuvíkur eini sinni á sumri til þess að líta eftir, að umsjónin væri sómasamlega rækt. Þá hefði ekki þurft nema smávegis aðgerðir, þegar vinnslan yrði upp tekin á nýjan leik…
Bóndinn í Krýsuvík vissi ekki nema af einum stað öðrum, þar sem brennisteinn fyndist. Er hann 2 1/2 mílu í norðaustur þaðan. Síðast meðan unnið var í Krýsuvík að brennisteinsnámi, sótti hann þangað allan þann brennistein, sem þar var að fá, á 50 hesta, og hefur það þá verið nálægt 80 ættum. Ekki vissi hann, hvort brennisteinn hefði skapazt þar síðan, og væri það vert athugunar.
Ef til þess skyldi koma, að brennisteinsvinnsla yrði hafin hér að nýju, þá mundi stofnkostnaðurinn verða allmikill, eins og þegar hefur verið bent á. En ég þori að fullyrða, að þetta er kleift, ef hagsýni er gætti. Í fyrsta lagi verður að taka brennisteininn með hinni mestu varkárni. Þá verður og að fara skynsamlega að við hreinsunina og ætti fyrst að þvo hrábrennisteininn. Með þeim hætti hygg ég, að mætti ekki aðeins spara mikið lýsi, heldur einnig yrði brennisteinninn betri en ella. Hversu þessu yrði bezt fyrir komið, skal ég lýsa, þegar ég síðar lýsi þeim aðferðum, sem nú eru notaðar við hreinsun brennisteins í hreinsistöðinni á Húsavík.Í Seltúni
Í Krýsuvík er brennisteinninn hreinni og betri en á Norðurlandi. Það þarf ekki heldur að flytja hann óhreinsaðan langar leiðir eftir vondum vegum, svo að framleiðslukostnaðurinn verður minni en á Húsavík. Hins vegar verður að kannast við það, að frá Krýsuvík þarf að flytja brennisteininn hreinsaðan 6 mílna leið til Hólmshafnar, en þaðan er hann fluttur út. En Grindavíkurhöfn er aðeins 2 1/2 mílu frá Krýsuvík og allgóður vegur þar á milli. Ef brennisteinsvinnslan yrði upp tekin, verða starfsmenn verzlunarinnar að skera úr því, hvort muni vera ódýrara, að flytja brennisteininn á hestum til Grindavíkur og þaðan á bátum til Básendahafnar, þar er ekki er siglt á Grindavíkurhöfn, eða flytja hann á hestum alla leið í Hólminn eða til Hafnarfjarðar. En þeir geta gert það betur en ég, því þeir hafa fyrrum haft umsjá með flutningunum og vita, hvað þeir hafa kostað. Þeir ættu einnig að geta reiknað nokkurn veginn, hvað flutningskostnaðurinn yrði, eins og ég hef stungið upp á, og er þá létt að bera það saman, hvor leiðin reyndist ódýrari, og að velja hana að sjálfsögðu.
En þegar nú þar að auki nokkrar smáskútur eru gerðar út til fiskveiða við Ísland, gætu þær tekið brennisteininn á Grindavíkurhöfn, og þá er flutningurinn á landi mjög stuttur.
Hins vegar get ég ekki heitið því, að unnt sé að stunda brennisteinsnám í Krýsuvík um langt skeið í einu, þar eð námurnar eru allar á einum stað og ná ekki yfir sérlega stórt svæði. Þegar brennisteinninn hefur verið tekin úr þeim í 3-4 ár, mun þurfa að hvíla þær um jafnlangan tíma, nema menn yrðu svo heppnir að finna þar kaldar námur, sem hægt væri að vinna meðan brennisteinn myndaðist á ný í lifandi námunum, en ekki er hægt að gera því skóna með nokkurri vissu.
En ef ekki sýnist tiltækilegt að hefja brennisteinsvinnslu í Krýsuvík að þessu athuguðu, virðist mér samt, svo að námurnar liggi ekki þar engum til gagns, að rétt væri að lofa bændum þeim, er þar búa, að hreinsa brennisteininn, gegn því að þeir afhendi hann verzluninni og fengju erfiði sitt og fyrirhöfn goldið eftir landsvenju. Verzlunin mundi að vísu ekki græða mikið á þessu, en hafa þó nokkurn ágóða.

Brennisteinn í Krýsuvík

Þá rannsakaði ég, eins og mér var boðið, hvort jarðhitinn væri nokkurs staðar svo mikill, að unnt væri að nota hann til brennisteinshreinsunarinnar. En hann reyndist mér hvergi meiri en svo, að kvikasilfrið kæmist í suðumark. Hann er þannig með öllu ónógur til að bræða með brennisteinn eða eima hann, þegar hann er í föstu formi. En þó að hitinn væri nægur, þá er jarðvegurinn of laus til þess, að hægt sé að koma þar fyrir húsi eða nokkrum tækjum til að handsama hitann, því að þar er hvorki hægt að ganga né standa án þess að hætta sé á, að maður sökkvi í leðjuna, og varð ég oft fyrir því að vaða jörðina upp í hné.
Dagana 18. – 19. júlí fór ég um fjöllin, sem liggja suðvestur frá Kleifarvatni og fram hjá brennisteinsnámunum og beygja síðan í suðaustur til sjávar. Svipaðist ég þar um eftir kalki, sem mér datt í hug, að kynni að finnast þar, af því að kalk er algeng bergtegund í öðrum löndum. En hversu vel sem ég leitaði, fann ég hvergi nokkurn kalkvott, því að hvarvetna þar, sem ég  fór eða sá yfir, var enga aðra bergtegund að sjá en sandstein þann, sem áður hefur verið lýst.“
Áhugavert væri að leita uppi leifar húsanna, sem lýst er hér að framan.

Heimild:
-Ólafur Olavius – Ferðabók II og II, Steindór Steindórsson frá Hlöðumíslenskaði, Bókfellsútgáfan, 1964, bls. 272-274 (II).Uppdráttur Ólafs Olaviusar af Krýsuvíkurnámum

Húshólmi

„Enskur sagnfræðingur, A. L. Rowse, segir á einum stað, að sá, sem vilji kynnast sögu lands síns, eigi ekki að byrja á því að lesa þykkar bækur. Hann eigi að fá sér góða gönguskó, blýant, vasabók og landabréf.
husholmi-267Um hverja helgi leita Reykvíkingar þúsundum saman úr bænum, og hafa einatt lítinn fróðleik upp úr ferðunum. Oftast vill brenna við, að menn fari sömu leiðina og þeir hafa farið ótal sinnum áður, (t.d. Þingvallahringinn), eða menn keppast við að komast sem lengst burtu, en þá vill allur tíminn fara í bílakstur. Af þessum sökum má búast við, að ýmsum yrði þökk á uppástungum og leiðsögn um skemmtilegar og fróðlegar bíl- og gönguferðir um nágrenni bæjarins.
Að þessu sinni skulum við halda af stað í bíl kl. 1 e.h. á laugardegi eða sunnudegi og aka sem leið liggur til Krýsuvíkur, beygja út af þjóðveginum til hægri og aka heim að gamla bænum í Krýsuvík. Þaðan er unnt að aka spölkorn suður fyrir túnið eftir melum, allt að braggarúst einni frá stríðsárunum. Síðasta spottann verður þó að fara varlega vegna stórgrýtis.
Hér förum við út bílnum og göngum í suðvesturátt, meðfram bæjarlæknum í Krýsuvík. Þarna er hægt að fylgja bílförum, en þau liggja þó í fullmiklum krókum. Þegar komið er suður undir fellið Stráka og bæjarlækurinn beygir í hásuður, höldum við þvert í vestur frá læknum og göngum í áttina að Ögmundarhrauni, yfir mela og móa. Þegar við komum að hraunjaðrinum, verðum við að gæta vel að til að finna stíginn, sem  liggur inn í hraunið. Hann er merktur með tveimur litlum vörðum í hraunbrúninni.
Stígurinn er fallega grænn í gráum husholmi-345mosanum, og er greiðfær fárra mínútna gangur eftir honum, þar til komið er í Húshólma, grænan óbrennishólma inni í hrauninu.
Við göngum í suðvestur yfir hólmann. Í jaðri hans að suðvestan sjáum við glögglega mikla túngarða forna, sem hverfa undir hraunið. Skammt sunnan við þá sjáum við tvo græna bletti lítið eitt inni í hrauninu. Þar heita Kirkjulágar. Þegar þangað er komið, rekum við upp stór augu, því að hér eru afar greinilegar bæjarrústir, sem hraunið hefur hlaðizt allt í kringum og sums staðar runnið inn í. Í syðri rústunum er austasta tóftin e.t.v. kirkjurúst, en í nyrðri rústunum er vesturtóftin sennilega skáli með setum meðfram báðum veggjum (sjá Árbók Fornleifafélagsins 1903, bls. 49).Talið er, að hér hafi upphaflega verið höfuðbólið Krýsuvík, þar sem Þórir haustmyrkur nam land, enda er staðurinn stundum nefndur Gamla Krýsuvík. En bærinn hefur verið fluttur, þegar Ögmundarhraum rann. Jónas Hallgrímsson telur það hafa gerzt árið 1340, en það er óvíst. Getið er um eldsumbrot á Reykjanesskaga í fornum heimildum bæði á 12. og 14. öld.
Ef við göngum nú niður að sjónum, sjáum við ljóslega, hvað gerst hefur. Ofan frá fjöllunum (frá gígum skammt sunnan við Vigdísarvelli, sbr. Ferðabók Þorvalds Thoroddsens I, 187) hefur ógurlegt  hraunflóð runnið suður til sjávar og breiðzt austur Og vestur yfir feiknamikið flæmi. Það helfur umlukt bæinn í Krýsuvík, en skilið eftir allstóran hólma austan hans og annan allmiklu vestar (Óbrennishólma).
Framan við bæinn hefur krysuvik-teikninghraunflóðið náð saman og steypzt fram af sjávarbökkunum alllangt út í sjó og fyllt hina gömlu Krýsuvík. Þar með hefur útræði frá víkinni verið úr sögunni. Má enn sjá hinn gamla sjávarkamb syðst í Húshólma. Margur num nú spyrja, hvort ekki væri vert að rannsaka fræðilega hinar fornu rústir Krýsuvíkur. Það væri sjálfsagt mjög forvitnilegt og verður eflaust gert, áður en langt um líður. Þangað fóru fundarmenn „víkingafundarins“ í Reykjavík í fyrra til að athuga rústirnar. Óþarft er að taka fram, að óheimilt er almenningi að hreyfa við rústunum.
Frá Húshólma er greiðfærast að ganga sömu leið til baka, eftir hraunstígnum. Aðrir mundu vilja klöngrast yfir hraunið með sjónum, en það er mjög ógreiðfært og betra að vera á góðum skóm með gúmsólum. En hvor leiðin sem farin er, er sjálfsagt að ganga nú austur á Krýsuvíkurberg. Það er allt að 30—40 metra hátt fuglabjarg, þar sem verpir svartfugl og ryta. Þarna með sjónum má víða sjá kynlegar klettamyndir, og stórfenglegt getur verið að sjá brimið þeytast tugi metra upp um alls konar glufur í hrauninu. Að þessu sinni látum við nægja að ganga þangað austur, sem bæjarlækurinn fellur í litlum fossi fram af berginu. Síðan höldum við upp með læknum, fram hjá eyðibýlinu að Fitjum, vestan við Stráka, og loks sömu leið til baka vestan með læknum.
Hæfilegt mun að ætla fjóra tíma til þessarar gönguferðar með hvíldum, en gönguleiðin er alls 12—13 km, og er þá klukkan orðin 6 þegar komið er að bílnum aftur. Gott er að hafa með sér nesti til að borða í Húshólma. Þeir, sem í ferðina leggja, ættu að klippa þennan leiðarvísi og hafa með ser. Góða ferð! – H.“

Heimild:
-Frjáls þjóð 31. ágúst 1957, bls. 4

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Krýsuvík

Skoðaður var fjárhellir Krýsuvíkurbænda í Bæjarfelli, rakin kennileiti og gengið eftir vörslugarðinum mikla á milli Bæjarfells og Arnarfells, yfir Vestari læk og framhjá Arnarfellsbænum. Tóftir hans eru vel greinilegar sunnan undir fellinu. Auk þeirra eru tóftir miðja vegu uppi í fellinu. Efst er Eiríksvarðan, nefnd eftir Eiríku galdrapresti í Selvogi. Nokkrar sögur honum tengdum gerðust í Krýsuvík, s.s. viðureign hans við Tyrkina, sem nú eru dysjaðir í svonefndum Ræningjahól neðan kirkjunnar, en allar eru þær því miður rangfeðraðar í tíma.

Bæjarfell

Bæjarfell.

Haldið var yfir ísilagða Bleiksmýrina og stefnt á heiðina. Eftir stutta göngu var komið að Jónsvörðuhúsi, stórri tótt á miðri Krýsuvíkurheiði. Sagt er að Magnús í Krýsuvík hafi verið hafður þar fyrrum yfir sauðum sumarlangt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þaðan var haldið að hlöðnu húsi, sem gæti annað hvort hafa verið sæluhús (smalabyrgi) eða húsi tengt mannvirkjunum í Litlahrauni og öðrum nytjum í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg), sem þarna er suðaustan undan hæðinni.

Krýsuvíkurheiði

Smalabyrgi í Krýsuvíkurheiði.

Húsið er sunnan í heiðinni með útsýni um Krýsuvíkurberg frá Keflavík að Selöldu. Þá var haldið á Litla-hraun, skoðaðar minjarnar þar (tóft, hlaðið fjárskjól og rétt) og yfir í Klofninga þar sem komið var við Arnsgrímshelli, fornum fjárhelli, sem þar er á sléttlendi sunnan undir hraunkanti. Arngrímur, bóndi á Læk, hafði fé í hellinum fram undir 1700, er sylla úr berginu féll á höfuð hans – með tilheyrandi afleiðingum.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þar gerist þjóðsagan um Grákollu o.fl. góðar sögur. Í hellinum eru hleðslur sem og fyrir opum hans. Við eitt opið er tótt undan húsi Krýsuvíkur-Gvendar, sem einnig nýtti hellinn sem fjárhelli um 1830. Gengið var í gegnum Bálkahelli, sem var klakaprýddur og skartaði sínu fegursta. Leitað var tveggja fjárskjóla efst í Eldborgarhrauni. Vitað er nú hvar þau eru og er ætlunin að finna þau óvænt síðar.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Loks var staldrað við hjá dysjum Herdísar og Krýsu og rifjuð upp þjóðsaga þeirra kvenna.
Veðrið var gott – sól og lognið í bakið.
Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Seltúnssel

M.a. var litið á „trúlegt sel“ á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á „hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell“ sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á „afar fallegan brunn“ við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að „vel farinni og fallegri rétt“ sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda „Krýsa“ er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af „Krossavík“. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið „krýsa“ sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega „Deiluvík“. Sennilegast er þó orðskýringin „krýsa“, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Ólafsson

Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarnar kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogósum og göldrum hans).

Krýsuvík

Krýsuvík.

Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.

Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938). Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ.

Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvik sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“

Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík, þar sem hann dvaldi í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.

Þóra bjó með Magnúsi í vestri enda Nýjabæja ásamt öðru vinnufólki á bænum. Þegar elsta barn (Ólafur Magnússon) þeirra hjóna var komið á skólaaldur flutti Þóra búferlum til Hafnarfjarðar. Magnús unni sér hins vegar ekki í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þóra bjó eftir sem áður í Hafnarfirði og heimsótti hún ásamt börnum sínum Magnús í Krýsuvík. Hún var atorkusöm kona sem bjó við lítil efni, en kom börnum sínum í gegnum skólagöngu og til mennta með sóma.

Þóra var dugleg kona og nýtin, börn þeirra hjóna komust vel á legg og skorti ekki andlega næringu né líkamlega. Hún kenndi börnum sínum að njóta lífsins án þess að þurfa mikið af veraldlegum gæðum. Frú Þóra gat gert veislumat úr hverju sem var og var þakklát fyrir góða heilsu og þá reynslu sem að lífið gaf henni. Gestir voru ævinlega velkomnir og bauð frú Þóra ævinlega til borðs er gesti bar að garði þótt efni hafi verið lítil.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Sonur þeirra hjóna, sem er yngstur, Þorvarður Magnússon, varð húsasmiðameistari í Hafnarfirði og kvæntist Áslaugu Einarsdóttur klæðskeradóttur í Hafnarfirði.

Þorvarður Magnússon, sonur Magnúsar einbúans í Krýsuvík. Hann vinnur sem húsasmíðameistari í Hafnarfirði.

Þorvarður kveðst ekki hafa búið með foreldrum sínum á Nýjabæ enda yngstur systkina sinna sem komin voru á skólaaldur er hann fæddist. Hann heimsótti þó föður sinn í Krýsuvík þegar að hann bjó á bænum og einnig í kirkjunni. Þorvarður man ekki mikið frá Nýjabæ enda var hann kornungur þegar faðir hans bjó enn þar. Bærinn lagðist í eyði árið 1938 og var Þorvarður einunigs 11 ára gamall þá.

Hann heimsótti hins vegar föður sinn í kirkjuna í Krýsuvík og man eftir henni og hvernig faðir hans bjó. Einsetumaðurinn í Krýsuvík var því fjölskyldumaður þó svo að hann hafi kosið að búa fjarri mannabyggðum. Þorvarður man eftir fátæktinni sem var á þessum árum, atvinnuleysinu og hvað húsakostur var misjafn eftir efnum manna. Faðir hans var vinnumaður allt sitt líf og þekkti ekki annað.

Húsasmíðameistarinn í Hafnarfirði, Þorvarður Magnússon, segir frásögnina rétta sem er í bókinni „Landið er fagurt og frítt“, sem að var gefinn út árið 1944 og er rituð af Árna Óla og gefin út Bókafellsútgáfunni. Í bókinni er viðtal við einbúan í Krýsuvík.
Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://nemendur.khi.is/annaher/index.htm

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar.
Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. „Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess“. Stekkurinn er reyndar skammt austan við Seltúnið. Þar er og hringlaga nátthagi. Sjálft selið var í austanverðu túninu, en hefur nú verið jafnað við jörðu í þá fyrirhugaðrar ræktunar á svæðinu.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja

Eftirfarandi frásögn Þórðar Jónssonar frá Eyrarbakka um „Ferð til Krýsuvíkur“ birtist í Heimilisblaðinu árið 1945:
krysuvik-323„Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur.
Hinn nýi Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir. Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er. Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, en minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari.

krysuvikurkirkja-344

Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum sem hér er drepið á, er áreiðanlega vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.
Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.

magnus olafsson-231

Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð. Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók,mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna. Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið.

krysuvik-354

En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags. Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki. Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir.
Og nutum við, ég og félagar mínir, krysuvik-371hinnar mestu gestrisni og höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns. Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri.
Það má nærri geta að slíkir krysuvik-432búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flytja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nú tímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum?
Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra mannna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgu dóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað.
Kirkjan á „sjálf víst ekki grænan eyri til endurbyggingar, Krysuvikurkirkja-371en hvað munar menn og ríkið um slíka smámuni? Það er verið reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo — hví skilum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að nokkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðilega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.
Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“

Heimild:
-Heimilisblaðið 34. árg., 9.-10. tbl. 1945, bls. 172-174 og 193.

Krýsuvík

Bleikhóll í Krýsuvík.

Krýsuvík

Í samtali við Loft Jónsson í Grindavík bar margt skemmtilegt á góða:
Loftur-21„Ég var að lesa frásögn í “Ferlir” um “Braggann á Krýsuvíkurheiði”. Þetta vekur upp ýmsar minningar frá æsku. Eins og þú veist þá ólst ég upp í Garðbæ og þar rétt við túnfótinn lá vegurinn til Krýsuvikur. Í seinni heimsstyrjöldinni, eftir að Amerikanar tóku við hersetu á Íslandi, þá önnuðust þeir stöðvar eins og á Þorbirni og í Krýsuvík. Á hverjum degi fóru fram vistaflutningar til og mannaskipti í Krýsuvík. Þessir ungu menn frá USA voru ýmsu öðru betra vanir en íslenskum vegum. Allavega, þegar maður skoðar gamla Krýsuvíkurveginn í dag þá hlýtur þetta að hafa verið mikill torfæruakstur.
Þessar sendingar áttu sér stað á sama tíma alla daga.  Og svo þegar bíllinn birtist á Vestara-Leiti þá tóku allir pollarnir á efri bæjunum sprettinn upp á veg í veg fyrir hann. Dátarnir voru mjög gjalfmildir og oftar en ekki fengum við hátt í vasana af alls konar sælgæti eða ávöxtum. Ingi í Búðum (Ingimar Magnússon) var okkar elstur og séðastur (en kannske ekki gáfaðastur). Hann betlaði af mömmu sinni daglega mjólk á þriggja pela flösku sem hann rétti síðan til hermannanna. Þeim virtist líka þetta vel því þeir skiptu mjólkinni bróðurlega á milli sín og Ingi fékk þar af leiðandi mikið meira í vasana en aðrir.

Baejarfellsrett-201Þar sem segir af Magnúsi Ólafssyni er sagt að Stóri-Nýibæ hafi farið í eyði 1938. Ég hef aðra sögu að segja. Fyrir fjárskipti í Grindavík, sem voru að ég held 1950, var ég í tvígang við réttir að vori í Krýsuvík þegar smalað var til rúnings þótt ég hafi ekki smalað vegna aldurs. Það var alltaf tjaldað við lækinn austan við kirkjuna og þá austan við lækinn við torfvegginn sem þar er. Réttað var í rétt suð-austan við Bæjarfellið. Mér er margt minnisstætt frá þessum dögum t.d. hverning karlarnir báru sig að við rúninginn, mörkun og geldingu á vorlömbunum. Í þá daga þekktist ekki annað en ketilkaffi í tjöldunum og eitt sinn er hitað var vatn í katlinum til kaffilögunar, þá setti Jón í Efralandi vasahnífinn sinn ofan í ketilinn.
Karlarnir spurðu undrandi hvað þetta ætti að þýða. Og Jón Krysuvikurkirkja 1940-21svaraði með mestu ró: “Ég ætla bara að sótthreinsa hnífinn minn. Ég skar afurfótahaft af rollu í dag og það var svolítið farið að grafa í henni”. Það hafði enginn lyst á kaffidrykkju í það sinn.
Eitt sinn var ég sendur upp í kirkju til Manga (Magnús Ólafsson) til þess að fá nál og tvinna, einhver hafði mist tölu af buxunum sínum. Ég man eins og það hefði verið í gær hverning allt var innanstokks hjá honum. Tíkin á strigapoka fram við dyr, rúmfletið í suð-austur horninu við altarið og einhver eldavél hinu megin.
En aftur að Nýja-Bæ. Einn dag vorum við Daddi í Ásgarði (Dagbjartur Einarsson), sem er tveimur árum eldri en ég, sendir upp að Stóra-Nýjabæ til að kaupa mjólk á þriggja pela flösku til notkunar í kaffi. Okkur var boðið inn í baðstofu og spurðir frétta.  Að sjálfsögðu hafði Daddi orðið þar sem hann var eldri en ég.  Og við fengum mjólk á flöskuna. Þannig að þá hefur Guðmundur í Stóra-Nýjabæ verið með kýr þarna og hann var með konu sína og dætur. Ég hef verið ca. 10-11 ára þegar þetta var.
Þetta er bara sett fram til fróðleiks og gamans en ekki til færslu í annála. – Kveðja, L.J.“

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Alþýðublaðinu árin 1957 og 1963 er umfjöllun um Vinnuskólann í Krýsuvík. Fyrrnefnda greinin bar yfirskriftina „Sumardvöl í Vinnuskólanum í Krýsuvík„:
krys-vinnuskioli-22„Vegna sívaxandi fólksfjölda í stærstu kaupstöðum landsins og stöðugt fækkandi fólks í sveitunum, verður æ erfiðara, með hverju ári sem líður, að ráða bót á hinu sígilda vandamáli, að koma kaupstaðarbörnum í sumardvöl, lengri eða skemmri tíma. Börnunum er nauðsyn, að komast úr göturykinu, í ferskt og heilnæmt loft, hafa eitthvað fyrir stafni og helzt að kynnast hinum fjölbreyttu sveitastörfum er þess er nokkur kostur.
Til þess að ráða bót á fyrrgreindu vandamáli hefur Hafnarfjarðarbær rekið vinnuskóla fyrir drengi, suður í Krýsuvík. Dvelja drengirnir þar sumarlangt, undir stjórn kennara. Vinna þeir þar ýmiss konar störf, sem til falla á Krýsuvíkurbúinu og í gróðurhúsum bæjarins, en Hafnarfjarðarbær rekur, eins og kunnugt er, myndarlegt fjárbú (4-5 hundruð fjár) í Krýsuvík og allnokkra gróðurhúsarækt.
Vinnuskólinn í Krýsuvík á miklum vinsældum að fagna meðal Hafnfirðinga, enda bætir hann úr brýnni þörf og er hið mesta þjóðþrifafyrirtæki. Þetta ný verkefni og fleiri og Hafnarfjarðarbær greiðir allan kostnað. Hann er nú orðinn þriðji stærsti kaupstaður landsins (íbúar um 6300).
Dvelja drengirnir í Krýsuvík, foreldrum algerlega að kostnaðarlausu. Ekkert bæjarfélag kosta sumardvöl barna, í jafn stórum stíl og Hafnarfjarðarbær.
Vinnuskólinn í Krýsuvík tók til starfa fyrstu dagana í júní og starfaði í sex vikur eða til 20. ágúst. Höfðu þá milli 60—70 drengir, á aldrinum 9—13 ára notið þar sumardvalar í lengri eða skemmri tíma, flestir allan tímann eða um 40. Alls bárust um 80 beiðnir, og reyndist því miður ekki hægt að sinna þeim öllum, að þessu sinni. Getur farið svo, að nauðsynlegt verði að taka upp breytt fyrirkomulag næsta sumar þannig, að skipta verði algerlega um drengi, að hálfnuðu sumri, en það hefur ekki þurft hingað til. Í Krýsuvík er aðeins rúm fyrir 50 drengi í einu.
Drengirnir kynntust ýmisskonar sveitastörfum, eins og áður getur, svo sem heyskap, skurðgreftri, grjóttínslu, gróðurhúsarækt, smölun, rúningu og réttum og fleiru. Veður var gott og fagurt nær allan tímann og undu drengirnir hið bezta. Urðu nær engin skipti, og þess vegna erfiðara að sinna hinum fjölmörgu beiðnum.
Hafnarfjarðarbær bauð öllum drengjunum, sem dvöldu í Krýsuvík í sumar í ferðalag austur um sveitir, og var komið heim um Þingvöll. Komu dreng irnir, sólforenndir, glaðir og hressir, eftir sex vikna útivist að Barnaskólanum, um hádegi s.l. þriðjudag. Þeir létu vel yfir dvöl sinni í Krýsuvík í sumar og þótti voða gaman í ferðalaginu.
Yfirumsjón með vinnuskólanum, að þessu sinni, hafði Kári Arnórsson, kennari í Flensborg og Helgi Jónasson, kennari, var honum til aðstoðar. í eldhúsi störfuðu þrjár konur, Guðrún Bjarnadóttir, frú Ingibjörg Áskelsdóttir og frú Erla Sigurjónsdóttir. Allt þetta fólk á skilið miklar þakkir fyrir vel unnin störf.“
Og síðarnefnda greinin árið 1963: „Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf. Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hóp ur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vínnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.
Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri , annast forstöðu skólans.
krys-vinnuskoli-25Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.
Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu ög margt fleira, auk þess sem þéir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhlíðum undanfarin ár.
Drengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. — Svo er verkefnum skipt á milli flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki.
krys-vinnuskoli-27Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín“ daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði. Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum þær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
krys-vinnuskoli-26Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sin. í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.
Þegar hver hópur kveðuf vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? — Svarið við þessu er skráð aftan á einkunnarbækur vinmiskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nkrys-vinnuskoli-28emenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra“.
Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginn að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15. Svo er „kaffi“ klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöld ið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið“ sitt.
Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“
Sjá meira um Vinnuskólann HÉR.

Heimildir:
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – sundlaugin.

Krýsuvíkurheiði

Lagt var af stað frá timburrétt Hafnarfjarðarfjárbænda undir Stóru-Eldborg. Þar neðan við eru austurmörk beitahólfs þeirra.
JónsbúðMiðað við gögn á Þjóðskjalasafninu frá árinu 1941 mun svæðið vera í Grindavíkurlandi því spilda sú er Hafnfirðingum var afhent á silfurfati af þáverandi ráðherra (fyrrverandi bæjarfulltrúa og bæjarstjóra í Hafnarfirði nær alls ekki svo langt til austurs sem beitarhólfið. Fjárbændur í Hafnarfirði hafa því verið þarna í óþökk Grindvíkinga í 67 ár með fé sitt. Auk þess er skv. lögum óheimilt að girða af svæði með ströndum landsins eða þvert á þjóðleiðir, eins og raunin mun vera þarna núna. Hafnfirðingum til varnar má geta þess að fyrsta beitarhólfsgirðingin náði ekki alveg niður á Krýsuvíkurbjarg. Hún var u.þ.b. 100 metrum ofan þess (leifar hennar sjást enn), en Landgræðsla ríkisins mun síðan hafa farið offari og sett upp nýja girðingu (í Grindavíkurlandi án þess að biðja um leyfi) frá þjóðveginum og alla leið niður á bjargbrún skammt vestan við Bergsenda. Spildumörk Hafnfirðinga sunnan Kleifarvatns eru mun þrengri en þeir hafa viljað vera láta.
Stefnan var tekin á suðaustanverða Krýsuvíkurheiðina. Í Litlahrauni ofan við Bergsenda á Krýsuvíkurbergi, sunnan Uppdrátturheiðarendans, eru búskaparminjar frá fyrri öldum, s.s. fjárskjól, grjóthlaðin rétt (og stekkur), húsarúst o.fl. Þarna hefur Gvendarhellir, sem reyndar er í Klofningum, nokkru austar, verið ranglega staðsettur. Ofar, í heiðarbrúninni, eru tvö hlaðin hús. Á korti eru þarna merktar tvær réttir. Á heiðarendanum er beitarhúsarúst. Allt er þetta hluti af heilstæðu búsetulandslagi Krýsuvíkur.

Fornleifaskráning er framkvæmd var á svæðinu vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar 2003 virðist í besta falli hafa verið lélegu brandari. Þrátt fyrir það lagði Vegagerðin hana til grundvallar rökstuðningi sínum fyrir vegstæðinu – sem reyndar er dæmigert fyrir slíkar framkvæmdir víðar um land. Þegar skoða á svo stór svæði með hliðsjón af öllum hugsanlegum og mögulegum minjum þarf að áætla miklu meiri tíma í slík en gert hefur verið og viðurkenna um leið mikilvægi þess. Svo virðist sem verktakar fornleifaskráninga hafi annað hvort slegið slöku við eða þeim ekki verið gert kleift að sinna starfi sínu sem skyldi.
HúsiðÁ slíkum búsetusvæðum, sem nýtt hafa verið í árþúsund mætti ætla að væru ýmsar mannvistaleifar, sem erfitt væri að koma auga á, einkum þegar haft er að leiðarljósi að landssvæðið er bæði víðfeðmt og hefur tekið verulegum gróðufarslegum breytingum á umliðnum öldum. Kannski að þarna kynnu að leynast enn áður óþekktar minjar?!!
Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Erfitt reyndist að staðsetja arnarhreiðrið af nákvæmni því nokkrir staðir komu til greina. Hafa ber í huga að gróðurfar á þessu svæði, einkum norðvestan við Litlahraun, hefur tekið miklum breytingum tiltölulega skömmum tíma.
Fyrst var komið við í Jónsbúð. Í fornleifaskráningunni segir m.a.: „Rúst (beitarhús?). 6 x 13 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1,5 – 2,3 m Húsiðbreiðir og 0,5 – 1,1 m háir. Dyr eru á rústinni til S. Mikið er af grjóti inni í rústinni norðanverðri og við dyrnar. Veggir eru farnir að gróa mosa og grasi. Garðlög sjást í innanverðum veggjum að vestanverðu og utanverðum veggjum að austan og vestan. Gólf er vel vaxið grasi og mosa. Í kring um rústina er svæðið vel gróið. Hugsanlega er þetta ekki Jónsbúð, heldur eru það fornleifar nr. 285 [húsið er fjallað verður um næst]. Ekki er ágreiningur um staðsetningu Jónsbúðar því Magnús, síðasti bóndinn í Krýsuvík lýsti vist sinni þar í viðtölum.
„Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var beitarhús. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.“

Skjól

Eftir að hafa skoðað leifar Jónsbúðar var stefnan tekin á hlaðið hús suðaustan í Krýsuvíkurheiðinni. Það, sem slíkt, hefur valdið þeim fáu, sem það þekkja, öllu meiri höfuðverk. Húsið er hlaðið með þykkjum veggjum með dyr mót suðri. Ljóri hefur verið á norðurvegg. Gengið hefur verið niður um þrep við dyr. Í fornleifaskráningunni segir: „Rúst 6 x 8 m (N – S). [Á að vera 3 x 8]. Veggir úr grjóti, 1,3 – 1,6 m breiðir og 0,6 – 1,4 m háir. Dyr eru á rústinni mót S (mót hafinu).
Garðlög eru greinileg víðast hvar. Rústin er felld inn í dæld í slakkanum. Gólf er vel gróið grasi og mosa. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er þetta Jónsbúð en ekki fornleifar nr. 283.“
Ýmsar kenningar hafa verið um notkunargildi þessarar heillegu rústar. Sérstaklega stórir steinar hafa verið færðir í vegghleðsluna svo þarna hljóta margir menn hafa verið að verki. Getgátur hafa verið um að a) þarna kunni að vera mannvirki frá pöpum, b) varðhýsi til að fylgjast með skipakomum eftir Tyrkjaránið, c) sæluhús skreiðaflutningslestarmanna millum Grindavíkur (Selatanga) og Suðurlands, d) skjól fyrir refaskyttur, e) aðhald fyrir stórgripi og fleira mætti nefna.

Rof

Skammt vestar er hleðsla. Í fornleifaskráningunni segir um hana: „Byrgi. 2 x 2,5 m (NNA – SSV). Veggir úr grjóti, ca. 0,3 – 0,7 m breiðir og 0,2 – 0,7 m háir. Dyr eru á byrginu mót SSV (mót hafinu). Við NV – horn byrgisins er fuglastapi. Gólf er vaxið grasi og mosa. Hugsanlega er þetta skotbyrgi, en ekki hægt að útiloka að það tengist fornleifum nr. 285 á einhvern hátt (smalakofi?) eða útsýnisstaður frá tímum Tyrkjaránsins 1627.“ Augsýnilega hefur hér verið um að ræða tímabundið skjól fyrir tófuskyttur á heiðarbrúninni.
Hafa má í huga hina miklu umferð skreiðarlestanna fyrrum. Skreiðarlestargatan frá Grindavík lá við Arnarvatn suðaustan við samnefnt fellið.
Þegar gengið var til suðausturs niður Krýsuvíkurheiðina, áleiðis að Litlahrauni, blasti hin mikla gróðureyðing liðinna áratuga við. Mótvægisaðgerðir Grindavíkurbæjar virtust þó hafa skilað sér vel því vel var gróið millum hárra (1.20 m) moldarbarða.

Stekkur

Dr. Guðrún Gísladóttir, náttúrulandfræðingur og prófessor við Land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands, hefur fjallað um gróðureyðinguna á Krýsuvíkurheiði.
„Krýsuvíkurheiði á Reykjanesskaga er eitt þeirra svæða á landinu sem hafa liðið fyrir alvarlega gróðurhnignun og ákaft jarðvegsrof og er meginhluti svæðisins nú ógróinn. Gerð verður grein fyrir áhrifum jarðvegsrofs á kolefnisbúskap jarðvegs og landgæði á þessu svæði á sögulegum tíma. Í þeim tilgangi voru mæld jarðvegssnið þar sem jarðvegsþykknun frá landnámi var mæld, sem og kolefnishlutfall og uppsöfnun kolefnis. Einnig var áætlað heildarmagn áfoks og jarðvegstap á svæðinu frá landnámi og magn kolefnis sem hefur safnast upp í kjölfar áfoks og hversu mikið hefur tapast af svæðinu vegna rofs.

Rétt

Fljótlega eftir landnám fór að bera á auknu áfoki, sem jókst til mikilla muna eftir 1226 vestast á svæðinu. Jarðvegsþykknun varð mikil og jarðvegur allur grófari og lausari í sér. Sambærilegar breytingar urðu ekki fyrr en eftir 1500 austar á rannsóknarsvæðinu. Hið mikla áfok og jarðvegsrof hefur leit til gríðarlegrar landhnignunar á svæðinu. Þó ber að geta þess að mikil uppgræðsla hefur átt sér stað á Krýsuvíkurheiði á undanförnum árum, en svæðið á langt í land með að ná þeim landgæðum sem voru á svæðinu við landnám.
Krýsuvík og nágrenni á sunnanverðum Reykjanesskaga er alvarlegasta og verst farna svæði gróðureyðingar og jarðvegsrofs í Gullbringu- og Kjósarsýslum. Þar er unnið að umfangsmiklum landgræðsluverkefnum með það að markmiði að stöðva hið mikla jarðvegsrof sem enn á sér stað, skapa með uppgræðslu skilyrði til þess að staðargróður geti numið land á ógrónum svæðum og koma í veg fyrir að gróður í beitarhólfunum, sem þar eru, skaðist vegna búfjárbeitar.

Fjárskjól

Þótt upplýsingar um gróður fyrr á tímum í Krýsuvík séu litlar og ekki nákvæmar, er ljóst að þar hefur orðið mikil landhnignun. Líkur eru á að þar hafi fyrrum vaxið birkiskógur, en af þeim birkiskógi sem nefndur er í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og nýttur var til kolagerðar og eldiviðar um 1700 er nú ekkert eftir nema nokkrar jarðlægar hríslur. Ekki er ljóst hvenær gróður- og jarðvegseyðing hófst í Krýsuvík, en líklegt er að hún hafi verið einna mest á 18. og 19. öld.
Niðurstöður rannsókna, m.a. Guðrúnar Gísladóttur (1993, 1998 og 2001), Ólafs Arnalds o.fl. (1997) og Sigurðar H. Magnússonar (1998) sýna fram á vægast sagt slæmt ástand lands í Krýsuvík og nágrenni. Í riti Ólafs o.fl.(1997) um jarðvegsrof á Íslandi er tilgreint fyrir Krýsuvík, bls. 133; „Mikið jarðvegsrof á sér stað í Krýsuvík, á 72% landsins á sér stað mikið og mjög mikið rof (einkunnir 4 og 5). Þetta rof veldur tapi á samfelldu gróðurlendi og segja má að stærsti hluti Krýsuvíkursvæðisins sé samfellt rofabarðasvæði (samtals 34 km2 í flokkum 3, 4 og 5). Krýsuvík er á meðal þeirra svæða landsins þar sem rof er mest“.

Sundvarðan

Á rannsóknasvæði Guðrúnar nam hlutdeild ógróna landsins 61%, en smárunnar þöktu um 20%. Hjá Sigurði kemur m.a. fram að rofdílar eru algengir á gróðurtorfum, þ.e. að gróðurhulan þar er veik, sérstaklega á Krýsuvíkurheiði, og þar er frostlyfting mikil og gróður á því erfitt með að nema land af sjálfsdáðum.
Meginmarkmið uppgræðslustarfsins hefur verið að stöðva hina geigvænlegu eyðingu gróðurs og jarðvegs sem þarna hefur herjað síðustu tvær aldirnar. Verkefnið undirstrikar m.a. hve mikilvægt það er að stöðva samspil frostlyftingar, vatnsrofs og vindrofs. Vatnið sem veldur mestu rofi berst langt og fer hratt á gróðurlausu landi, og því þarf að vinna m.t.t. þess. Laust efni getur einnig borist langa leið með vindi og sargað úr börðum. Því þarf að taka stór svæði fyrir í einu.

Krýsuvíkurbjarg

Annað meginmarkmið er að skapa skilyrði fyrir staðargróður að nema land á ógrónum svæðum. Markmið áburðardreifingar og sáningar er fyrst og fremst að skapa slík skilyrði, hinum áburðarkæru grösum er ætlað að deyja, sinunni að rotna og annar gróður á að taka við. Þá þarf að rata hinn gullna meðalveg milli þess að bera nóg á, bæði í magni og tíðni, og þess að bera ekki það mikið á að það trufli landnám þeirra plantna sem taka eiga við. Misjafnt er hvað við á eftir aðstæðum og erfitt að yfirfæra þekkingu annars staðar frá með beinum hætti.

Vatnsstæði

Landgræðslan hefur lengi átt gott samstarf við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um uppgræðslu í Krýsuvík, en gert er ráð fyrir að verkefnum þar ljúki að mestu 2010. Aðferðafræðin felur að mestu í sér væga áburðargjöf, um 150 til 250 kg/ha, í tvö til fjögur ár til að laða fram staðargróður sem lúrir í landinu. Þar sem land er naktast, t.d. með minna en 5% gróðurhulu, er sáð blöndu af túnvingli og vallarsveifgrasi til að m.a. stöðva frostlyftingu og skapa skilyrði fyrir gróður úr nágrenninu að nema land. Reikna má með að heildarkostnaður við uppgræðslu og stöðvun jarðvegsrofs á þessum slóðum á árabilinu 1976 til 2010 verði í allt um 70 til 100 milljónir króna. Allt uppgræðslulandið hefur verið notað til sauðfjárbeitar, en vorið 2005 verður hluti þess friðaður.
Stór hluti hins illa farna uppgræðslulands er innan beitarhólfa fyrir sauðfé, og líta má að hluta á uppgræðslustarfið sem mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir að beitin valdi frekara tjóni á landi. Land HafnarfjarðarBeitin hefur mikil áhrif á þróunarmöguleika gróðurfarsins, ekki síst vaxtarmöguleika víðis og blómplantna, en óljóst er hve áhrifin eru mikil í heild. Með beitarhólfunum tókst að friða margfalt stærri svæði utan þeirra, stóran hluta Reykjanesskaga, sem örvar mjög gróðurframfarir þar. Eftir stendur sú spurning hvernig meta eigi saman þann ávinning og aukinn uppgræðslukostnað vegna beitar innan beitarhólfanna.“

Aðhald

Litlahraun eru tvær vestustu spýjurnar úr Litlu-Eldborg (fyrir tæplega 3000 árum). Í hrauninu er að finna ílangan stekk (sennilega kúastekk), hlaðna rétt, sem eflaust hefur verið stekkur, fjárskjól og vörður, auk fyrirhleðslna víðast hvar og nátthaga. Þrátt fyrir leit fundust ekki leifar íveruhúsa, sem ætla mætti að ættu að vera þarna á svæðinu. Lausnin gæti verið fólgin í hlaðna húsinu fyrrnefnda utan í Krýsuvíkurheiðinni.
Hlaðin sundvarða, friðuð, er á Krýsuvíkurbjargi. Hún hefur sennilega verið mið af sjó – og þá jafnvel fleiri en eitt. Skammt ofan við hana er hlaðið aðhald. Eflaust má finna fleiri búsetuminjar á þessu svæði ef gaumgæft væri. Bergsendi er t.d. skammt austar og ofan við hann er Krýsuvíkurhellir með mannvistarleifum.
Þegar komið var til baka að réttinni fyrstnefndu voru þar fyrir nokkrir fjárbændur. Voru þeir að lagfæra timburverkið því ætlunin var að rétta þar að þremur vikum liðum. Þeir, einkum sá minnsti og belgmesti, byrjuðu móttökurnar með látum: „Hvað eru þið að gera hér? Hvaðan komið þið? Vitið þið ekki að bannað er að vera með hund í beitarhólfinu? Þið eigið bara ekkert að vera hér á þessu svæði? Þið vitið ekkert um landamerki hér!“

Hafflöturinn

Svörin voru þessi: „Og hverjir eruð þið? Hafnfirskir tómstundafjárbændur, einmitt það? Þá eigið þið ekkert með að vera hér í Grindavíkurlandi. Reyndar megið þið ekki einu sinni standa hér án leyfis Grindvíkinga, strangt til tekið. Og hundurinn gerir engum mein, allra síst öðrum ferfætlingum og öðrum fáfættari. Komið ykkur bara yfir á land Hafnfirðinga, sem er þarna vestar á Krýsuvíkurheiðinni! Og hvað segir Jónsbók um aðgengi fólks að svæðum sem þessum? Það væri hægt að dæma ykkur, eða þá er girtu svæðið af, í háar sektir, gerið ykkur grein fyrir því.“ (Það er alltaf auðvelt að rífa kjaft á móti þegar svo ber undir.) Og talandi um landamerki – þá er fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkur hér með í för, sá er hvað mesta og besta vitneskju hefur einmitt um þennan fróðleik – gjörið svo vel!“

Göngusvæðið

Við þessi svör sljákkaði heldur betur í áður kotrosknu hobbýfjárbændunum, einkum þeim litla. Héðan í frá gátu umræðurnar farið fram með rólyndislegri og vitsmunalegri hætti. Í ljós kom að Hafnarfjarðarfjárbændur og nágrannar þeirra voru með um 300 fjár í beitarhólfinu, helmingi færri en Grindvíkingar í sínu – höfðu aldrei verið færri í manna minnum. Einn síðasti fjárbóndinn innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar var t.d. með 10 skjátur, en hafði haft mest 300. Hann var búinn að stunda þennan búskap í áratugi. Fjárhús hans eru við Kaldárselsveginn við gatnamót Flóttamannavegar. Aðrir bændur þarna voru með fé ofan við Lónakot og á Álftanesi.
Já, það þýðir ekkert að reyna að rífa kjaft við FERLIRsfélaga þegar kemur að heimildum og sögulegu samhengi hlutanna.
Þegar upp er staðið, eftir hvíld á langri göngu, er ljóst að Krýsuvíkursvæðið sem heildstætt búseturlandslag hefur verið vanmetið sem slíkt. Ekki er að sjá að áhugi hafi verið hjá hlutaðeigandi yfirvöldum, sér í lagi Fornleifavernd ríkisins, að kortleggja minjasvæðið í heild sinni af þeirri nákvæmni sem það verðskuldar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðrún Gísladóttir, 1993. Gróður, jarðvegur og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi. Ástand og tillögur til úrbóta. Óbirt skýrsla unnin fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs, 44 bls.
-Guðrún Gísladóttir, 1998. Environmental characterisation and change in south-western Iceland. Doktorsritgerð, Háskólinn í Stokkhólmi, Svíþjóð.
-Gísladottir, G, 2001. Ecological disturbance and soil erosion on grazing land in Southwest Iceland. pp. 109–126, in: A. Conacher (ed). Land Degradation. Kluwer Academic Publishers: Dordrecht, The Netherlands.
-Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Jarðvegsrof á Íslandi, 1997. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. 157 bls.
-Sigurður H. Magnússon, 1998. Ástand lands í Krýsuvík sumarið 1997. Áætlun um uppgræðslu. Unnið fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, 53 bls.
-Guðrún Gísladóttir – Áhrif jarðvegsrofs á kolefnisbúskap og landgæði, 5. mars 2008.
-Fornleifaskráning 2003.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.