Færslur

Arngrímshellir

Í aprílmánuði árið 1948 birtist eftirfarandi lýsing á “Mókollu” í Lesbók Morgunblaðsins í dálknum “Fjaðrafok”:
Heimkynni Mókollu í Klofningum“Sú er sögn að í Krýsuvík hafi einu sinni búið bóndi, sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin hvað skera skyldi, en eitt haust, er hún leit á fje bónda, sagði hún að eins: “Lengi lifir Mókolla” – og fekk bóndi ekki meira upp úr kerlingu.
Bóndi ljet skera fátt fje þetta haus, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn, 300 í Kerið á Kirkjufjöru og 299 kindur fyrir berg, en Mókolla stóð ein eftir á bjargbrúninni þegar bóndi kom að. Varð hann þá svo reiður út af missi sínum að hann ætlaði að þrífa Mókollu og henda henni fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sögnin að svo margt fje hafi æxlast út af henni að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.”
KrýsuvíkurbjargÖnnur saga segir: “Eitt sinn var bóndi í Krýsuvík sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin, hvað skera skyldi, en eitt haust er hún leit yfir fé bónda sagði hún aðeins: “Lengi lifir Mókolla,”
– og fékk bóndi ekki meira upp úr kerlingu, hvernig sem hann reyndi til.
Bóndi lét skera fátt fé þetta haust, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn og 300 í Kerið á Kirkjufjöru; sjást þar enn kindabein, þegar smogið er inn í Kerið um fjöru, því að ekki er hægt að komast niður í það að ofan; 299 kindur missti bóndi niður fyrir berg, en mókollótt ær ein, sem bóndi átti, stóð á bergsbrúninni, þegar hann koma að; varð hann þá svo reiður yfir missi sínum, að hann ætlaði að fleygja Mókollu fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sagan, að svo margt fé hafi æxlast út af henni, að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.”
(Þessi saga er til í nokkrum útgáfum.)
Heimild:
-Lesbók MBl. apríl 1948, bls. 188.
-Ólaf Davíðsson II 124.

Kirkjufjara

Krýsuvík

Hér verður fjallað um “Krýsuvík” út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: “…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum”.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: “…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum”.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: “… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin” …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: “… kirkian kryssvvik ætti þar j xc” …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: “… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: “Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga”.
Samkvæmt einu vitnanna: “á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: “… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð”.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: “Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn”. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: “… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: “… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á”.
Einnig hafði vitnið heyrt að: “… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða”.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: “… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: “Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642”. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: “… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj”. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: “Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð”.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: “Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja”.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: “Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum” … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: “… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum” … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: “… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó”. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: “Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum” … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: “Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres”.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: “Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket”.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: “Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur”.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: “Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu”.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,” …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)” …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: “Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík”.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: “Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin”.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: “Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu”.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt”.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: “Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2”.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: “þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús”.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: “Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar”. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: “Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi”.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: “Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: “Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi”.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt”. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, “Tunglið, tunglið, taktu mig”, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús í Krýsuvíkurheiði.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
“Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.”

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð “Kölskakapella” eða “Kölska-kyrkja”. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða “mestu galdrabók allra tíma”.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  “Einn áfangi á Reykjanesi“. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson“Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.
Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum. Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum “Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.

Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Við Gvendarhelli.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: “Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.”

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Seltún

Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík:

“Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna pess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig að minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.

Þórður Jónsson

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka.

Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka. Árið 1861 segir hann þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík.
Búandi Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.
Á heimajörðinni Krýsuvík: Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Arnarfelli og Fitjum. Í Vigdísarvöllum 2 búendur. Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot. Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð — fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.
Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrirsauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð. Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík. Kleifarvatn fjær.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu bnennisteinsnámur í Krýsuvík, ogvar brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu pá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Krýsuvíkurkirkja
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og messaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.
Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.
Fyr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um í Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.

Guðmundur Ísleifsson

Hjónin Guðmundur Ísleifsson, útvegsbóndi og kaupmaður, og Sigríður Þorleifsdóttir, húsfreyja, Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, ásamt börnum sínum.

Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.
Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri” hina.
Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið.

Hellugata

Forn gata um hraunhelluna við Herdísarvík.

Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdísarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stiga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa, En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breytingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.
Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við blíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Fólk framan við Nýjabæ í Krýsuvík um 1930.

Mér, sem þetta ritar, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhrið þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.
Þá bjó í Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kend verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka staði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar — atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargleg verða eins haldgóð til að viðhalda karlmensku og hreysti í búskapnum í Krýsuvík, skal ósagt látið.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.” – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík.
Krýsuvík