Tag Archive for: landnám

Festisfjall

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um forna sögn af Írum á Íslandi:
Irar-1„I. Forn sögn er það ein, að í gamalli kálfskinnsbók frá anno 400 post Cristum natum standi, að Ísland hafi verið bygt af Írum, er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér um 200 ár: Eptir það er mælt, að niðjar þeirra hafi hingað komið, er bygð áttu á Írlandi, og séð hér yfir 50 elda, og var þá útdautt hið gamla fólk, qvi delirabant dix. hinc ven. Tröll. Þar segir og um Siglubergsháls, sem skuli hafa verið í Grindavík. Þar skyldu Írskir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu, og segja gamlir menn, að um stórfjörur megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppunum.
(Eptir handriti sjéra Friðriks Eggertz 1852).“

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 1.

Papahellir

Papahellir? á Suðurlandi.

Landnámssýning

Eftirfarandi umfjöllun um fyrirhugaða sýningu á víkingaaldarskála við Aðalstræti í Reykjavík er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Fornminjar hafa fundist við Aðalstræti og næsta nágrenni. Forsaga staðarins er nokkur sem og eldri rannsóknir á svæðinu. Hér verður m.a. fjallað um sannfræði upplýsinganna, upprunaleika minja og helgi þeirra.
Fornleifar í Kvosinni fundust þegar fyrir 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á svæðinu m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að „öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum“ fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist. Matthías Þórðarson skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun embættismönnum borgarinnar kom fram árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – „því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns“. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, „enda vel við hæfi“.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu.
Ummerki um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengra til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”? Fjölmiðlar voru a.m.k. upprifnir af þeirri mögulegu staðreynd. Því verður þó ekki hnikað að skálatóftin getur ekki verið eldri en frá miðbiki 10. aldar og síðar. Við norðurenda skálans fundust veggjabrot er bendir til að sé eldra en textalandnám segir til um, þ.e. fyrir 870. Því er hér um að ræða einn tveggja staða á landinu, sem benda til eldra landnáms en textaheimildir kveða á um. Hinn er Húshólmi í Ögmundarhrauni, í umdæmi Grindavíkur.
Einkenni skálans voru bogadregnir útveggir, langeldur í miðju hans, inngangur á öðrum langvegg og þrískipting byggingarinnar. Hið óvenjulega voru bakdyr og forskáli til hliðar er síðar kom í ljós. Langeldurinn er óvenju vel hannaður. Það bendir til þess að fólkið hafi litið stórt á sig. Skálinn er hins vegar lítill á íslenskan fornaldaskálamælikvarða. Um hefur verið að ræða meðalheimili og þar hefur verið búið í u.þ.b. 70 ár. Skálinn hefur að öllum líkindum verið yfirgefinn um 1000.
Þrjár rostungstennur fundust í skálanum. Fleiri slíkar hafa fundist í Reykjavík. Þessum var stungið undir hellu og geymdar þar. Hafa ber í huga að fyrst var, skv. heimildum, farið til Grænlands 983 svo rostungurinn gæti hafa verið veiddur hér á landi. Það eitt ætti að vera nokkuð merkilegt.
Glerbort úr litlum bikar fannst í tóftinni. Það á sér hliðstæðu úr öðrum víkingaaldargripum. Þetta mun þó vera elsta glerbrot úr uppgrefti á Íslandi. Glerið gæti verið stöðutákn og til merki um sambönd og ríkidæmi ábúandans.
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann má áætla um 500 milljónir króna.
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhaldsrannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í rauyn tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út. Með því er ekki verið að útiloka að eldri minjar kunni að leynast á svæðinu, jafnvel undir skálanum, þótt litlar líkur bendi þó til þess.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning verður því í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík.
Skálinn verður aðalsýningargripurinn. Áhersla verður lögð á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir.
En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla? Er hún samkeppni eða viðbót við Þjms og aðrar sýningar? Líklega verður hún samkeppni þar sem ferðamenn í miðborginni munu geta á einum stað og á skömmum tíma geta kynnt sér upphaflega búsetu norrænna manna hér á landi, án þess að þurfa að fara í Þjms.
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930.
Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Hugsanlega eiga líka eftir að finnast ennþá eldri merki um búsetu manna á Íslandi, því margt er enn órannsakað, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, s.s. í Húshólma.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins verður: Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition.
En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði?
Í rauninni er þetta „helgur“ staður í augum Reykvíkinga? Fyrirhuguð sýning er áhersla á fornleifarnar frekar en söguna. Skálinn er aðalsýningargripurinn og sýningin snýst um hann. Um er að ræða skýr aðgreining hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Það er sérstakt.
Sýningin er fremur lítil. Tekur um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti verður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum taka á móti gestum í kjallara. Sagt verður frá ritheimildum áveggjum, auk „panaorama“ myndum er sýna umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir „sviðið“. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund.

Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.
Nokkur umfjöllun hefur verið um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: „Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.
Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: „Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær.
GrafiðOg þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Varðveisla skálans er véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt er fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla varð bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg er eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála getið.
Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir ei. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina.
Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins. Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar.
Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Framangreint er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006. Texti er á ábyrgð ritara.

Landnámssýning

Landnámsýningin.

Víkingaskip

Í Lesbók Morgunblaðsins 8. ágúst 1954 er m.a. fjallað um Ísland fyrir landnámstíð: „Galfried af Monmouth (d. 1154) getur þess í sögum sínum, sem Bretasögur eru ritaðar eftir, að Arthur konungur færi til Íslands. Í brezkum annálum er víðar getið um för Arthurs konungs til Íslands.

Arthur konungur

John de Wavrin (lifði enn 1469) segir þannig, að Arthur konungur hafi farið með lið sitt til Íslands (Yzland): hafi hann barizt þar, sigrað Íslendinga (Yzaladois) og bælt þá undir sig. Þess er getið í innganginum til laga Játvarðs konungs góða (1042-46) að Arthur hafi lagt undir sig Ísland, Grænland, Vínland og fleiri lönd. – De Costa trúir Galfreied af Monmouth eins og nýju neti. Hann er sannfærður um að Arthur konungur hafi siglt til Íslands um 505 með miklu liði, og þar hafi þá verið talsverð byggð Íra, en seinna meir hafi norrænir víkingar hrakið þá af landi burt. (Ólafur Davíðsson)“
Hér er framangreind tilvísun endurvakin, ekki síst í ljósi áhuga manna um að hinn „Heilagi kaleikur“ kunni að leynast á Kili, en Arthur konungur var jafnan orðaður við gripinn þann sbr. ítarlegri frásögn um hvorutveggja á Wikipedia.

Landnám

Landnám fyrir „landnám“.

 

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.
Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.
Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargren

Eldborgargreni.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Í Kálffelli.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.

Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.