Tag Archive for: Ölfus

Hjallasel

Gengið var um Hjalla í Ölfusi og síðan um Þóroddstaði þar skammt austar. M.a. var skoðaður hraunfossinn í hlíðum hjallans þar sem hraunið átti að hafa runnið þá er kristni var lögleidd. Einnig var skoðaður kross í klöppum ofan við Riftún. Hjalla er getið frá því um 1000 og er nefndur er Kristnitökuhraunið rann frá Eldborgum ofan við Svínahraun, þá er ákveðið var að heiðnir Íslendingar skyldu kristnir verða.

Hjallakirkja

Hjallakirkja.

Hjalli er bær og kirkjustaður. Þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Vitað er að síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.
Í Landnámu er getið manna er námu land í Ölfusi; Orms hins gamla er bjó ó Hvammi og átti allt Austur-Ölfusið, allt til Þverár. Hinn er Álfur hin egðski, sem bjó á Núpum og átti vesturpartinn.
Kirkjan, sem nú stendur að Hjalla, var byggð 1928 og vígð 5. nóvember sama ár. Hún er fyrsta steinkirkjan, sem var reist austanfjalls. Meðal margra góðra gripa hennar er predikunarstóll með ártalinu 1797 (gefandi Páll Jónsson, klausturhaldari) og lítil, máluð altaristafla frá 20. öld, sem sýnir upprisuna.
Í Flóamannasögu segir að „1000-1030 að [Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja]. Váru þeir allir jarðaðir at þeirri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeirra í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at Skapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hún var at léreptum sínum.“

Ölfus

Hjallarétt.

Árin 1382-91 er kveðið á um að „kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa“. Árið 1397 átti Grindarvíkurkirkja að gjalda til Skálholts 6 hdr skreiðar og “flytia til Hialla”. Þessi skráning er staðfestur vottur um þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið höfðu og lýsa hversu mikilvægar fiskveiðarnar voru orðnar. Skálholtsstóll hafði þá og af þeirri ástæðu m.a. reynt að ná undir sig útgerðarjörðunum á sunnanverðum Reykjanesskagnum.
Núverandi Hjallakirkja er í Þorlákshafnarprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð og vígð 1928 um haustið.
Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Hjallakirkja var útkirkja frá Arnarbæli og frá Hveragerði. Húsameistari var Þorleifur Eyjólfsson og yfirsmiður Kristinn Vigfússon. Kirkjan er steinsteypt, fyrsta steinsteypta kirkjan austanfjalls.
Goðhóll er ágætt dæmi um það sem var, en er horfið. Heitið var áður á litlum hól, grasigrónum, vestan lækjartún, ofan við gömlu götuna. Hann var því miður allur tekinn sem efni í þjóðveginn.
Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust. Rétt fyrir vestan Hjallarétt er gata upp á brúnina, þar sem hlíðin skagar einna lengst fram. Hún heitir Suðurferðarstígur og Króksstígur.
Á grænni flöt vestan við [Bolasteins] rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina. Selbrekkur eru ofar. Vestan við þær verður fyrir rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar má vel greina rústir sels eða stekks er heitir Lækjarborg.

Riftún

Riftún – kross.

Þjóðsagan segir af Guðnýjarhæð. Hún er rétt vestan við Lækjarmóa, lítil hæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn.
Skólgarður var vörslugarður beint upp af Skyggnisþúfu. Sjá má móta fyrir honum ef vel er að gáð.
Fjallsendaborg er fjárskýli. Það er skammt vestan við Skjólgarð.
Selstígurinn liggur ofar, vestan við Kerlingarberg. Hann liggur um skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina. Stígurinn er enn vel greinilegur.
Áhrifaríkt er að skoða hvar hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðar milli Þurárhnúks og Núpahnúks austan Þóroddsstaða, en straumsins er getið í frásögn um kristnitökuna á Þingvöllum það sumarið. Einhver misvísun mun þó hafa verið þar á ferð því hraunstraumur þessi rann ekki árið 1000 heldur allnokkru fyrir landnám. Kristnitökuhraunið er miklu mun vestar.
Skammt vestan Þóroddssataða, ofan við Riftún, er stór kross á klettaborg. Í Riftúni er Kapella hins helga kross, kaþólskt trúboð.
Frábært veður. Gangan um Hjalla tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is
-http://www.bokasafn.is

Fjallsendaborg

Fjallsendaborg.

Hagakot

„Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Af lýsingunni hér að neðan að dæma hafa þetta verið laugarnar á Ölkelduhálsi fremur en laugar nær byggð.

Hagavíkurhraun

Hagavíkurhraun – loftmynd.

„Þegar Margrét hafði verið í Hagavíkurhrauni um nokkurt skeið, tók hún það ráð að færa sig nokkuð um set. Flutti hún sig þá vestur í Hengil og settist að í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum. Tók hún sér til framfærslu það, sem hún mátti hönd á festa, og sauð mat sinn við hveri að dæmi Fjalla-Eyvindar. Var hún í laugunum, það sem eftir var sumars og allt fram að hausti, og gerðist mjög illa þokkuð af Grafningsmönnum. Bundust þeir þá samtökum að veita henni heimsókn og taka hana höndum og hafa allt í sömu ferð og fyrstu fjallgöngu um haustið. En Margrét var sem margir aðrir, að hún átti vini með óvinum, og hafði einhver kunningi hennar gert hana vara við, hvað bændur ætluðust fyrir. Þeir fóru nú til fjalls og smöluðu fé sínu, en hversu vanldega sem þeir leituðu, þá urðu þeir hvergi varir við Margréti. Töldu menn hana því á burtu farna, og var því máli þá ekki frekari gaumur gefinn. En það er af Margréti að segja, að hún hafði hlaupið á burt úr laugunum litlu fyrir fjallleitina. Hélt hún þá austur yfir Ölfusá og fór heim til foreldra sinna [í Flóa]. Sat hún þá heima um veturinn, og er ekki annars getið en hún væri þá hin spakasta í héraði.“

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Önnur þjóðsaga segir að Margrét útilegumaður hafi hafst við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðurferðaleið manna. Var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.

Hurðarásvötn

Hurðarásvötn.

En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og logn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað var förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar.
Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á. Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra.

Svínahraun

Svínahraunsleið.

Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.

Svínahraunsleið

Svínahraunsleið – dys.

Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …
Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni …

Arnarbæli

Arnarbæli í Ölfusi.

Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hfði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum“ –
Blanda VI, 187-89.

Heimildir:
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.

Svínahraunsleið

Svínahraun – skúti.

Engidalur

Í „Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps„, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

„Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur austan Lyklafells.

Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi.

Grafningsvegur

Grafningsvegur.

Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – yngsta húsið á hólnum.

Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.“ Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.

Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ SSÁ, 205

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“

Hellisheiði

Hellisheiði – gamla gatan.

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“

Hellisheiðarvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis.

„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“

Hellisheiðarvegur

Austurvegur 1880.

„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur við Þrívörður.

Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ Útivist 6(1980), 82-86.
„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .

Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. „var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).

Hellukofinn

Hellukofinn.

„Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

1703: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“
19.6.1793: „Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.“

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

„Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“ „Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.“ „Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].“ „Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.“ „Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.“ Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

1703: „Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.“ „Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.“
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

„Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.

Engidalur

Engidalur – tóftir.

„Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.“ Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Brennisteinsnám

Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.

Brennisteinsnámur

Ofninn í brennisteinsnámunum.

Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.

Brennisteinsnámur

Tóft brennisteinsmanna í Námuhvammi.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsnám

Tóft húss námumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”

Selvogsgata

Gata um Kerlingarskarð.

Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og „knýjandi“ orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki „réttmæta“ ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í „mannefnalegum“ málum. Það er „kýrskýrt“ (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða „færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna“ (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis „föðurleg“ ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).

Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.

Brennisteinsnám

Gata á námusvæðinu.

Núpafjall

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu III“ má lesa eftirfarandi um Camp Cameron á Núpafjalli í Ölfusi:

Núpafjall
“Vorið 1941 sendu Bretar aftur herlið fram á Núpafjall. Gerðu þeir bílfæra braut, kílómetra langa, suður af Hellisheiðarvegi […]. Þaðan lá brautin vestan undir klettabelti um einstigi og á sveig niður í dalverpið norður af Hurðarásvötnum. Þar reistu þeir tjaldbúðir og eitthvað af bröggum fyrir veturinn […]. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum Suðurlands vorið 1942, yfirtóku þeir stöðvarnar á fjallinu af Bretum. Við Hurðarásvötn voru reistir einir 15 braggar. Þar var sett upp öflug dísilstöð og kampurinn raflýstur, en neyzluvatn sótt á tankbíl úr Hveragerði,” segir í Styrjaldarárin á Suðurlandi e. Guðmund Kristinsson. Camp Cameron er í hálfgrónu dalverpi ofarlega á norðausturhluta Núpsfjalli. Landið er smáhæðótt og er mosi mikill í sverði, þó stendur smágrýti og annað grjót sums staðar upp úr mosanum. Herminjar eru innan svæðis 21440×270 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi er teikning birt af braggahverfinu, byggður á þeim minjum sem sáust á yfirborði árið 1998. Teikningin er ekki í réttum hlutföllum, en sýnir ágætlega þær minjar sem sjáanlegar eru þegar komið er á vettvang.“
Leifar skotbyrgja eftir loftvarnabyssur má sjá á fjallinu ofan við braggahverfið, en auk þess voru þar ratsjármastur.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla III, 2020.

Núpafjall

Núpafjall – Camp Cameron; loftmynd 2020.

Strandarkirkja

„Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.“

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Kögunarhóll

Gengið var um söguslóðir Ingólfs Arnarssonar á og við Ingólfsfjall.
Kögunarhóll, stundum nefndur Knarrarhóll, er í landi Hvols. Hann er hólstrýta úr móbergi suður af Ingólfsfjalli að vestanverðu. Suðurlandsvegurinn liggur um skarðið milli hóls og fjalls. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í heimild frá árinu 1821 segir að “… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt um kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framan undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fialli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata skip sitt.” Árið 1840 var sagt að “Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.”
Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu.
Gengið var á Ingólfsfjall upp skarð austan Þórustaðanámunnar. Leiðin var greið. Á skarðsbrúninni er varða sem ofar á fjallsbrúninni. Gangan inn eftir fjallinu var nokkuð slétt í brúnum brekkna. Framundan blasti Inghóll við ásamt Leirdalahnúkum.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Inghóll hefur jafnan verið tilnefndur sem legstaður Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta skráða landnámsmanns. Hóllinn er efst á fjallinu, á mörkum Hvamms og Alviðru. Hann er hár, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum hefur hann verið talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti. Ýmislegt hefur verið skráð og ritað um Inghól.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Árin 1641-42 er skrifað að “kveðið ex tempore yfir haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfir haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfir leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.”
Árið 1703 segir að Inghóll sé þar sem “fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, sé haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.”
Um 1750 er ritað að: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.”
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfialli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfialls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fleiri Hieród; um Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi –

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – varða

… Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fiarmuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfiall eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.

Ölfus

Inghóll.

Árið 1840 segir að “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.”
Árið 1873 segir að “á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall og nágrenni – loftmynd.

Brynjúlfur Jónsson ritar um Inghól árið 1898. Þar segir hann að “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heiti hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðaní honum stórgrýti nokkuð. Að eins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfis hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni. Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.”

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

„Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona: „Stóðu að steindu smíði, staður fornmanns hlaðinn, hlóðu að herrans boðiheiða teikn yfir leiði. Haugur var hár og fagurhrundin saman á grundu. Draugur dimmur og magurdrundi í björgum undir.“
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi, allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi verið um annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.“
Tóftir bæjarins Fjalls eru við suðausturhorn Ingólfsfjalls, en þar á Ingólfur að hafa haft vetursetu á leið sinni vestur með suðurströnd landsins þar sem hann settist að í Reykjavík.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
-Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
-Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
-Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15.

Inghóll

Inghóll.

Ferjukot
Gengið var um Kirkjuferju á norðurbakka Ölfusár.
Ölfusá er algerlega vaðlaus, þannig að fyrrum varð að sundríða hana eða nota ferjur. Á 19. öld voru einnig ferjustaðir við Laugardæli og við Óseyrarnes. Kotferjuslysið 1627 er eitt mesta ferjuslys hérlendis. Þá drukknuðu 10 manns. Ferjað var víðar yfir ána og eru fleiri sagnir til um slys og óhöpp á ferðum fólks yfir ána.

Kirkjuferja

Kirkjuferja – loftmynd.

Íslendingar hafa frá upphafi ferðast um land sitt þvert og endilangt. Þau ferðalög hafa oft verið erfið, einkum þar sem torleiði eins og vatnsföll urðu á leið manna. Þá minntust þeir þess gjarnan að oft er betri krókur en kelda og lögðu lykkju á leið sína þar sem því var við komið. Seinna komu fram uppfinningar eins og ferjur og kláfar til að stytta mönnum leið yfir erfiðustu vatnsföllin, sem varasamt eða ómögulegt var að sundríða.
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á um einkarétt Kaldaðarness til ferjuflutninga yfir ána og tvær ferjur voru í rekstri. Önnur var á heimajörðinni gegnt Arnarbæli og hin efri var í ferðum milli Kotferju og Kirkjuferju.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Kaldaðarnes varð snemma kirkjustaður, helgaður heilögum krossi. Kirkjan átti kross, sem mikill átrúnaður hvíldi á. Vegna þessa kross var ævinlega margmenni á staðnum, þó flest á krossmessum vor og haust. Fólkið kom með gjafir með sér sem áheit. Sagnir segja frá því, að pílagrímar hafi flykkzt 50 saman út í ferjuna í einu og hún hafi sokkið í miðri á og allir farizt.
Kirkjuferja er norðan Ölfusár, en Kotferja sunnan hennar. Þegar gengið var um Kirkjuferju var Kirkjuhóll, Völukirkja og Ferjunefið (Ferjunes) skoðað sérstaklega. Handan árinnar heitir Hraknes. Kotferja var við víkina austan þess. Þar má sjá tóftir bæjarins.
Völukirkja er strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kirkjan er kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Haft er fyrir satt að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfir mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.

Kirkjuferja

Völvukirkja.

Kirkjuhóllinn er austur á túninu, sunnan vegar. Utan í honum er tún huldufólksins, sem í hólnum bjó.
Ferjunef er klettanef, sem skagar út í ána við mörk Þórustaða. Í skjóli við það var ferjunni lent, þegar ferjað var. Þar sjást enn kengir í klöppum, leifar frá tímum ferjunnar. Einnig eru uppi á bakkanum (á Ferjuvöllum), eða var til langs tíma, einhverjar leifar af byggingum, ef til vill skýli fyrir þá, sem biðu eftir ferjunni.
Segja má að fyrirrennarar nútímasjálfseignarstofnana á Íslandi megi finna allt aftur í fornöld. Þá voru brýr og ferjustaðir stundum eins konar sjálfseignarstofnanir. Ferjur hafa verið notaðar á Íslandi frá örófi alda. Nú hafa brýr víðast gert þær óþarfar.
Frábært veður.

Kirkjuferja

Kirkjuferja Ölfushreppur Árnessýsla – túnakort 1914.

Hellisheiði

Eftirfarandi lýsing á leiðinni frá Reykjavík um Hellisheiði birtist í Eimreiðinni árið 1928:
„Þegar erindum var lokið í Hafnarfirði eða Reykjavík og nógu lengi búið að liggja, var lagt upp og haldið af stað austur upp hjá Lækjarbotnum. Þar mátti fá kaffi — og í það. Síðan var haldið um Vötnin, sem var áfangastaður góður, og annað hvort um hið þá illfæra Svínahraun eða Bolavelli til kolvidarholl-saeluhusidKolviðarhóls. En það var krókur að fara vellina, og þar gengu þá á sumrum mörg og stór naut þeirra Ölfusbænda. Eru til ýmsar sögur af viðureign ferðamanna við þau, því sum þeirra voru allmannýg.
Á Kolviðarhóli hafði verið bygt svo kallað sæluhús haustið 1843, af samskotum úr næstliggjandi héruðum, fyrir forgöngu Jóns bónda á Elliðavatni og fleiri. Hús þetta var kofi bygður úr torfi og grjóti og þakinn torfi. Loft var í honum og á því nokkur flet til þess að liggja í. Niðri var húsið óskift ætlað hestum. Naumast var hús þetta annað en nafnið. Á loftinu var alt skemt, sem hægt var að skemma, áhaldalítið, súð og annað útskorið og krassað, með rispuðum skammaryrðum og klámi, en niðri var aldrei hreinsað, svo hreinasta neyð var að láta þar inn nokkra skepnu.
hellisheidi-221Annars er það mjög furðulegt, hvað ferðamönnum var hætt við að skemma það, sem þeim átti að vera og var til þæginda svo sem þarna átti sér stað, og til skamms tíma hefur borið á, – svo sem að fella niður merkisteina og steina af hættuleg um vegabrúnum. Þegar Guðni bóndi Þorbergsson bjó á Kolviðarhóli, varðaði hann alla Hellisheiði og lét af nærgætni sinni tréhæl norðan í hverja vörðu og festi á hælinn tréplötu með raðartölu, varðanna frá Kolviðarhóli austur á Kambabrún. Var það hinn allra bezti leiðarvísir í dimmviðri, svo menn gátu glöggt vitað, hvar þeir voru staddir, þó viltir væru, ef þeir fundu einhverja vörðuna. En því miður leið ekki á löngu þangað til búið var að kroppa þetta merki úr hverri einustu vörðu.
Árið 1879 var búið að byggja steinhús á Kolviðarhóli, og fenginn maður til að setjast þar að með fjölskyldu. Skyldi hann sjá ferðamönnum fyrir húsnæði og greiða eftir föngum. Fyrsti bóndi þar var Ebeneser gullsmiður Guðmundsson.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð ofan Kolviðarhóls.

Frá Kolviðarhóli var lagt á Hellisheiði — eða Fjallið, eins og það var venjulega kallað. Afarbratt var upp Hellisskarð, þar sem leiðin lá upp á fjallið að vestan, eins var niður Kamba, niður af því að austan, þar sem vegnefnan hlykkiaðist í ótal krókum niður að Hveragerði. Sjálfsagt var að gera vel að áður en lagt var á þessa kafla. Þótti það snildarlega gert, ef ekki þurfti að gera að aftur á leiðinni, upp eða niður, en langoftast fór annað hvort aftur af eða fram af einhverjum hesti á þessum köflum. Yfir Ölfusið var ekki mjög vondur vegur og ferjan á Laugardælum allgóð. En vegurinn yfir Flóann, eða réttara sagt vegleysan þar, var býsna slæm, sérstaklega kring um Krók og fyrir neðan Vælugerði, eintóm fen og foræði, og stór svæði útvaðin.“

Heimild:
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti, bls. 31-32.
Kolviðarhóll

Grænaflöt

Eftirfarandi er úr viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.“

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.