Fornar götur eru merkileg fyrirbæri.
Þegar þær eru gengnar nú til dags (2012) má vel greina
áætlaðan aldur þeirra og notkun. Þannig er a.m.k. háttað með göturnar í Selvogi. Í byggðinni sjálfri voru tvær götur; kirkjugatan lá með gömlu bæjunum frá austri til vesturs, að Strandarkirkju og vegurinn lá ofan Fornagarðs, efri endimörk byggðarinnar. Upp frá honum lá Útvogsgatan upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornugötu (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðagötu), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornugata lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sést enn nokkuð glögglega. FERLIR fylgdi Fornugötu nýlega frá fyrrnefndum gatnamótum á Strandarhæð til vesturs, áleiðis að Vogsósum, en áður hafði götunni verið fylgt til austurs áleiðis að Hlíðarenda.
Fornagata liggur til vesturs/austurs norðan gamla þjóðvegarins á Hæðinni, nokkuð innan við Skálavörðu. Auðvelt er að rekja hana um grasi gróið sléttlendi áleiðis að Vogsósum uns hún þverar gamla þjóðveginn. Þar liggur hún í beygu niður með háu barði og kemur síðan glögglega í ljós að nýju skammt neðar. Síðan fylgir hún nokkurn veginn suðurmörkum gróins lands Vogsósa, allt niður á Vallabarmi og yfir Vaðið á affalli Hlíðarvatns. Eftir það hverfur hún í síbreytilegar sandöldur Víðisands allt þangað til komið er að vörðu á austanverðum hraunsmörkum Hellunnar. Frá henni skýrist gatan smám saman und hún verður allgreinileg. Á köflum verður gatan allt að 10 cm djúpt mörkuð í hraunhelluna. Hún greinist á tveimur stöðum spölkorn, en verður fljótlega að einni á ný. Þá greinist gatan á ný og nú varanlega. Líklega er nafnið „Fornugötur“ sprottið af því? Stundum hefur gatan á þessum kafla verið nefnd Hellugata vegna framangreindrar staðsetningarinnar.
Annar leggurinn leggst til vinstri, upp á hærri brúnir nær ströndinni. Þar verður gatan jafn greinilegt í hraunhelluna sem fyrr, allt til syðst að austari Brunabrúninni framundan. Að vísu liggur hún sunnan við sandlág síðasta kaflann, en sést síðan mjög vel þar sem hún liggur inn á úfið apalhraunið áleiðis að Mölvík og Mölvíkurtjörn. Áframhald þeirrar leiðar verður lýst hér á eftir.
Svo segir í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík: „Ofanvert við sjávarkampinn, sem liggur frá Draugagjám austur að Skothellu, er austast Víðisandur, og liggur vestasti hluti hans undir Stakkavík. Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun. Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.“
Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir ennfremur: „Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvikurkampi. Austast í henni voru klappir, og [var] þar kallað Varir eða Mölvikurvarir. Í Breiðabás og á Mölvík var rekasvæði ágætt.Ofanvert við kampinn var Mölvíkurtjörn, en vestur úr henni eða lægðinni, sem hún liggur í, er sæmilega bílfær vegur, Mölvíkurstígur upp á alfaraveginn uppi á brunanum. Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum, er útræði var úr Mölvíkurvörum; þar er og Mölvíkurfiskabyrgi. Þar upp af framan í brunanum eru svo Grenshólar. Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast.
Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn.“
Hinn leggurinn liggur til norðvesturs upp með Brunabrúninni fyrrnefndu uns komið er að vörðu skammt austan hennar. Þaðan liggur þessi forna leið inn á Brunann eftir seinni tíma vagnvegi, líklega frá því á fyrri hluta 20. aldar, allt að Brunabrúninni vestari ofan við Breiðabás á mörkum Stakkavíkur og Herdísavíkur.
Á kafla (á sléttu helluhrauni ofan Mölvíkurtjörn) má sjá ummerki eftir fornu hestagötuna; „efri leiðina“ leið í gegnum Brunann. Vagnvegurinn virðist augsýnilega hafa verið brotinn ofan í gömlu götuna eftir að neðri gatan var orðin ófær vegna umbrots sjávar. Á stuttum kafla skammt austur þar sem vagnvegurinn kemur niður af Brunanum að austanverðu má slá leifar vegagerðar, líklega tilraun til hins fyrsta akvegar handan hraunbrúnarinnar, en hætt virðist hafa verið þá vegagerð því engin ummerki önnur er um hana þar að finna. Tófugreni er við austurbrún þessarar vegagerðarummerkja.
Nú skal aftur horfið niður á neðri Fornugötu. Þegar komið er inn á Brunann hverfur gatan vegna þess að Ægir hefur etið hana upp til agna á a.m.k. 200 metra kafla. Handan þess, ofan við Drauga (klettadranga er skaga út í sjóinn) kemur gatan aftur í ljós og hægt er að rekja hana að Mölvíkurtjörn.
Það er mikilfenglegt að ganga um neðanvert apalhraunið vestan vestari Brunabrúnarinnar þar sem berja má augum hina víðfeðmu fiskigarða og fjölmörgu fiskibyrgja austan sjóðbúðanna austan Herdísarvíkur sem og fjárhúsanna „Langsum“ og Þversum“ í Austurtúninu sem og þær sjálfar millum þeirra og heimatúnsins.
Sérstaka athygli vakti á göngunni hversu lyng á það til að vaxa í gömlum götum, hvort sem um var að ræða hesta- eða vagngötu. Allt um kring var grænn eða grá mosinn alsber, en í gatan var jafnan lyngvaxinn svo til enda á millum.
Eins og fyrr segir er sérstök upplifun að ganga þessa tiltölulegu stuttu, en misgömlu, götukafla frá fyrri tíð og fá þannig að sjá þróun vegagerðarinnar, sem virðist hafa verið nánast óbreytt um 1000 ára skeið, uns þörfin hafi allt í einu orðið önnur með tilkomu vagnsins og síðar sjálfrennireiðarinnar – en það er nú önnur saga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stakkavík.
Tag Archive for: Ölfus
Samþykki jarðeigenda hafði fengist til að opna Draugshellinn í Litlalandslandi í Ölfusi. Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. Þá tapaðist vitneskjan um opið. Draugasaga er kennd við hellinn og hann því vel þjóðsagnarkenndur. Um Draugshelli er skráð saga í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki við í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.
Nú var ætlunin að reyna að finna opið og þar með hellinn. Þátttakendur mættu með stunguskólfur við Litlaland í birtingu. Byrjað var á því að bera saman gögn og munnmæli og bera hvorutveggja saman við landshætti
Í örnefnalýsingu fyrir Litlaland frá 17. nóv. 1968 eftir Eirík Einarsson, segir m.a.: „Sunnan undir honum (Litlalandsáss) er Draugshellir, lítill hraunhellir í mörkum Litlalands og Breiðabólsstaðar…“.
Í annarri örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir.”
Þegar framangreind möguleg misvísun var borin undir heimamann kom í ljós að Litlalandsháls er múlinn eða ásinn ofan við hól þann, sem Draugshellir átti að vera við. Syðst í ásnum eru Rifjabrekkur. Allt virtist því koma heim og saman við fyrirliggjandi lýsingar.
Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hon gömlu landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðnorðaustan við bæinn. Vel mátti greina hin gömlu gróðurmörk því eldri girðing virðist hafa verið í línunni, skammt vestan núverandi girðingar. Þá benti hann á að fyrir ári síðan hafi op opnast í túninu á tilgreindum stað og vatn lekið þar niður. Hafi bóndinn fyllt upp í það með tveimur dráttarvélaskólfum.
Gróið hafði yfir það. Staðurinn var vestan við tilnefndan hól á landamörkunum, sem fyrr segir.
Hafist var handa við mokstur. Þátttakendur unnu kappsamlega og ekki leið á löngu að sjá mátti niður um opið. Skurður var stækkaður og lengdur og grafið var með stefnu á miðju jarðar. Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn. Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir, litlu minni en t.d. Bjargarhellir eða Strandarhellir. Einn þátttakenda skreið inn og skoðaði sig um. Mikil mold hefur runnið niður í hellinn á löngum tíma, en svona til að undirstrika að mannvistarleifar væri að finna í honum, skein ljósið á bein á moldinni í miðjum hellinum. Það var látið óhreift.
Ljóst er að mikil vinna verður að hreinsa moldina úr hellinum. Grafið var spölkorn áfram niður framan við opið, en ljóst er að þar er enn talsvert niður á fast. Hér getur því orðið um þarft verkefni fyrir vinnuskólabörn í Ölfushreppi að vinna á sumri komanda. Þá þurfa fornleifafræðingar að líta þarna við og skoða fyrirbærið, því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.
Draugshellir er fundinn. FERLIRsfélagar voru ánægðir með ágætt dagsverk. Samráð verður haft við landeigandann um frágang við hellisopið.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. „Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.
Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“ Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“. „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.“
Frábært veður.
Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.
„Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.
Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.
Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.
Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.
Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.
Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.
Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.
Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.
Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús. Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Hraunið norðan Gullbringu heitir Hvammahraun og er sagt kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur niður sunnanverða Vatnshlíð og út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni til vesturs. Hluti hraunstraumsins rann til norðurs, m.a. niður í Fagradal. Hinn straumurinn féll niður í Herdísarvík, til suðausturs. Hins vegar, ef grannt er skoðað,má sjá fleira en eitt hraun í Hvömmunum. Þegar gengið var niður frá Eldborg má sjá stóran gíg. Úr honum hefur komið þunnfljótandi hraunkvika og runnið niður hlíðarnar. Það helluhraun hefur greinilega fallið niður syðst í Vatnshlíðinni og er undir hrauni því sem jafnan er nefnt Hvammahraun. Það er því eldra. Hvammahraunið hefur hins vegar komið úr gígunum vestan við Kistufell.
Gengið var upp með Gullbringu með hraunkantinum, inn á gömlu þjóðleiðina ofan hrauns (Dalaleiðin), upp gróinn sneiðing í brekkunni norðan Gullbringu og áfram upp með Brúnunum. Þar er stórt jarðfall, alveg við götuna. Niðri í því er Gullbringuhellir. Hann hefur m.a. verið notaður sem skjól því í hellinum er hlaðið undir bæli undir vegg. Ofar er annað op á hellinum. Rásin er sú sama. Þar í rás er rúmgóður hellir, a.m.k. 150 m langur.
Beygt var til hægri upp úr hvömmunum og stefnan tekin á Vörðufell. Haldið var yfir í hrauntröð mikla er kemur úr eldborg norðvestan Vörðufells. Þá var gengið á hina breiðu og reglulega formuðu eldborg norðan Vörðufells. Kvikan úr henni hefur að mestu unnið niður í Herdísarvíkurhraun við Lyngskjöld.
Norðan eldborganna er Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Hún er fremur lítil, en stendur hátt. Þegar staðið er uppi á henni má sjá svo til um allan Reykjanesskagann. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Gígaröðin liggur til NA norðan hennar og SV sunnan hennar. Áður en komið var að Eldborginni sást rjúpa þjóta hjá – og hvítur refur í loftköstum á eftir. Hann var svo upptekinn við veiðarnar að honum yfirsást mannfólkið.
Vestan Eldborgar er enn ein eldborgin, sem fyrr sagði. Þar er stærsti gígurinn og sá þeirra sem framleitt hefur mesta þunnfljótandi kvikuna er rann að mestur til vesturs, niður hlíðarnar.
Að þessu sinni var ekki gengið um Kistufell og niður í Brennisteinsnámurnar, enda gert ráð fyrir að um það svæði verði gengið í annarri ferð n.k. vor þegar skimað verður eftir „götunum djúpu“ norðvestan Kistufells (fundust í einni FERLIRsferðinni, ca. 10-15 m djúp).
Orkustofnun hefur skoðað Brennisteinsfjöll m.t.t. háhitaöflunar. Í umsögn stofnunarinnar segir að „Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað“ með hliðsjón af því. Á vefsíðu stofnunarinnar segir m.a. um svæðið:
„Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“ Með umfjölluninni fylgja yfirlitsmyndir, sem sýna alls ekki þá miklu náttúrufegurð er svæðið hefur að geyma.
Náttúruperlur eins og sú sem hér er rædd eru gríðarlegar auðlindir í sjálfu sér, ósnortnar og kynngimagnaðar. Verndargildi þeirra er hátt sem þýðir á máli hagfræðinnar að þær eigi vafalaust eftir að margfaldast að verði eftir því sem tímar líða. En um leið má búast við ásókn þeirra sem vilja nýta sér jarðvarmann á þessum svæðum og virkja. Þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir rannsóknaboranir í Kerlingarfjöllum og í Reykjanesfólkvangi, m.a. í Brennisteinsfjöllum. Augljóst er að virkjanir á þessum stöðum munu hafa mikil og óafturkræf náttúruspjöll í för með sér.
Forsætisráðherra hefur haldið því fram að ríkisstjórnin hafi enga stefnu í uppbyggingu álvera. Á sama tíma geysast menn áfram og leggja til að reist verði ný álver og þau eldri stækkuð, allt með fullum stuðningi stjórnvalda. Sama stefnuleysi ríkir í virkjanamálum. Stjórnvöld hafa gefið raforkufyrirtækjum lausan tauminn með því að innleiða samkeppni á raforkumarkaði en hafa ekki enn lokið við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í raun má efast um að stjórnvöld ætli sér yfir höfuð nokkuð með þeirri vinnu sem hefur farið í gerð rammaáætlunarinnar. Í fyrsta áfanga hennar, er ekki einu sinni fjallað um Kerlingarfjöll sem virkjunarkost.
Til eru stjórnmálasamtök er telja að dýrmæt náttúrusvæði, eins og Brennisteinsfjöll, eigi að vernda. Það er engin þörf á því að ráðast að þessum perlum. Þvert á móti er mikilvægt að hlúa að þeim með því að samþykkja að gerð verði um þau verndaráætlun. Þannig yrði vernd þeirra tryggð og séð til þess að unnt væri að njóta þeirra um ókomna tíð.
Á Reykjanesskaganum má enn rekja stórkostlega jarðsögu, líklega sögu sem á engan sinn líka og hefur á síðustu 5000 árum mótað landsslag þéttbýlisins á suðvesturhorninu.
Áhrifavaldar í mótun skagans eru fjögur eldstöðvakerfi sem liggja á gosbeltinu eftir endilöngum skaganum og hefur gosið í þeim öllum á sögulegum tíma. Þau eru Reykjaneskerfið þar sem gaus fyrir um 1500 – 1800 árum og svo aftur í Reykjaneseldum árin 1211 – 1240, Trölladyngjukerfið en þar gaus fyrir 2000 árum og síðan aftur í Krýsuvíkureldum 1151-1180, Brennisteinsfjallakerfið sem var virkt fyrir 2000 árum og aftur í Reykjaneseldum og að lokum það stærsta Hengilskerfið sem var í essinu sínu fyrst fyrir um 5000 árum og svo aftur fyrir 2000 árum.
Þegar stórhuga menn mæltu fyrir stofnun Reykjavíkurfólksvangs um miðjan áttunda áratug síðustu aldar bentu þeir á að á fáum stöðum á landinu væri að finna fjölbreyttari eldgosmyndanir og hvergi í Evrópu væri að finna sambærileg jarðfræðifyrirbæri í návist þéttbýlis. Þarna mætti finna flest það sem sóst væri eftir inn á Miðhálendinu, öræfakyrrð og óröskuð víðerni.
Eftir stofnun fólksvangsins var ítrekuð nauðsyn þess að huga að framtíðarskipulagi varðandi landnotkun. Það skipulag hefur ekki litið dagsins ljós en nú 30 árum síðar er búið að ráðstafa þremur af þessum fjórum eldstöðvakerfum og háhitasvæðum til fjölnýttrar orkuvinnslu þ.e. að framleitt er rafmagn, hitaveituvatn, grunnvatn og iðnargufa. Byggðar hafa verið verksmiðjur, jarðböð og orkuver. Nýtingu háhitasvæða fylgja vegalagnir og efnisnámur, borholur, borplön, raflínur og vatns- og gufuleiðslur. Þeir sem fara um Hengilsvæðið og Hellisheiði, út á Reykjanes eða ganga um Svartsengi og meðfram Eldvörpum sjá hvernig borholum hefur verið dritað um allt. Vegir liggja þvers og kruss. Aðeins Brennisteinsfjöll ein eru eftir ósnortin.
Orkuyfirvöld hafa nú þegar óskað eftir því að hefja rannsóknir í Brennisteinsfjöllum. Gegn því hefur Náttúrufræðistofnun lagst enda fylgja slíkum rannsóknum vegir, borholur og borplön. Þar með væri búið að eyðileggja öll háhitasvæðin á Reykjanesi.
Verði komið í veg fyrir veitingu leyfis til rannsókna í Brennisteinsfjöllum kæmi til greina að friðlýsa hluta Reykjanesfólksvangs sem fyrsta skref í stofnun rekbelta – heimsminjasvæðis sem næði áfram austur eftir gosbeltinu til Vatnajökuls og þaðan norður í Axarfjörð eins og Sigrún Helgadóttir hefur stungið upp á.
Full ástæða er til að ígrunda það alvarlega að friðlýsa Brennisteinsfjöllin sem ósnortið víðerni – og það fyrr en seinna.
Umhverfisstofnun vekur athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, er rektor Háskóla Íslands hafði farið þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum. Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Álit stofnunarinnar var eftirfarandi:
„Í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.
Á 130. löggjafarþinginu lagði Ásta R. Jóhannesdóttir fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir iðnaðarráðherra: „Hvernig hefur verið brugðist við umsóknum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um leyfi til rannsókna í Brennisteinsfjöllum?“
Svar iðnaðarráðherra var eftrifarandi: „Á miðju ári 2000 barst iðnaðarráðuneyti erindi frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem farið var fram á rannsóknarleyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum. Á sama tíma barst ráðuneytinu sams konar erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Í báðum tilvikum óskuðu umsækjendur eftir rannsóknarleyfi með fyrirheit um nýtingarleyfi.
Þetta var í fyrsta sinn sem tveir aðilar sóttu um rannsóknarleyfi á sem næst sama tíma frá því lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, voru sett. Í þeim lögum er ekki kveðið á um það að ekki megi veita tveimur hæfum aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði og á sama tíma. Ráðuneytið hefur litið svo á að túlka beri lög nr. 57/1998 svo að heimilt sé að veita fleiri en einum aðila rannsóknarleyfi á sama svæðinu.
Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að veita fleiri en einum aðila fyrirheit um forgang til nýtingar á sama svæði. Þar sem lög nr. 57/1998 mæla ekki fyrir um hvernig gert skuli upp á milli umsækjenda taldi ráðuneytið ekki unnt að veita öðrum umsækjandanna fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Var því beiðni um fyrirheit um forgang til nýtingar fyrir Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar hafnað í júní 2002. Ráðuneytið benti hins vegar umsækjendum á þann möguleika að þeir sameinuðust um rannsóknir á svæðinu og fengju tilskilin leyfi til þess ásamt fyrirheiti um forgang að nýtingu.
Í lok janúar 2003 sóttu fyrrgreind fyrirtæki sameiginlega um leyfi til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu jarðhitasvæða í Brennisteinsfjöllum. Þar var farið fram á að fyrirtækjunum verði sameiginlega veitt nýtingarleyfi á svæðinu ef árangur rannsókna reynist jákvæður. Í apríl 2003 var óskað eftir umsögnum Orkustofnunar, umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga um umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi í samræmi við ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Orkustofnun og sveitarfélögin tóku jákvætt í að rannsóknarleyfi yrði veitt, en umhverfisráðuneyti taldi að ekki ætti að svo komnu máli að veita Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Á fundi með umhverfisráðuneyti 26. águst 2003 var farið yfir forsendur fyrir áliti ráðuneytisins, en árið 2000 hafði ráðuneytið ekki lagst gegn því að rannsóknarleyfi yrði veitt, þó með ströngum skilyrðum.
Þegar framangreind viðbótargögn berast iðnaðarráðuneyti mun umsagnaraðilum lögum samkvæmt kynnt þau gögn og þeim gefið tækifæri á að tjá sig um þau. Komi ekki fram verulegar efnislegar og rökstuddar athugasemdir mun iðnaðarráðuneytið í framhaldi af því gefa út leyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum.“
Í þingræðu 7. des. 2005 fjallaði Kolbrún halldórsdóttir m.a. um Brennisteinsfjöll:
„Ef við værum skynsöm mundum við nú setja reiknimeistara yfir það að reikna ólíka hagsmuni, annars vegar af því að vernda Brennisteinsfjöll og hins vegar að hleypa orkufyrirtækjunum þar að til að ná í jarðvarmann til að selja raforkuna ódýrt til stóriðju. Hvorir hagsmunirnir ætli kæmu betur út? Í mínum huga er ekki nokkur vafi, langtímahagsmunirnir af náttúruverndinni yrðu miklu meiri. Ég er sannfærð um það af því að reikniaðferðirnar sem umhverfissinnaðir hagfræðingar hafa þróað í þeim efnum hafa sýnt okkur fram á að ef dæmin eru reiknuð til enda þar sem náttúruverndarsvæði eru eða verndarsvæði sem hafa mikla verndarhagsmuni eru þau svo þung á vogarskálunum þegar til langs tíma er litið.
Enn ein rökin fyrir því að hinkra og hætta þessu óðagoti, láta ekki eftir orkufrekjunni í orkufyrirtækjunum vegna þess að það liggur ekki lífið á, er að hér er fjöldi virkjunarkosta, í vatnsaflinu jafnvel, fullrannsakaður og ónýttur. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan og það skiptir verulegu máli að við tökum þetta upp á arma okkar á þeim nótum að við horfum heildstætt á málin.
Þegar staðið var ofan við Bringurnar norðanverðar og horft yfir Hvammana og Vatnshlíðina mátti vel ímynda sér þá ógnarkrafta sem þarna hafa verið að verki er hraunið rann, fyllti dalinn og stöðvaðist úti í Kleifarvatni austanverðu. Undir er eldra helluhraun, sem sést vel þar sem það rann niður hlíðna sunnanverða.
Hellir ofarlega í brúnum var skoðaður. Hann var í þröngri rás, en fallegar myndanir voru í honum. Vel mátti sjá hvar Dalaleiðin liggur yfir hraunið þar sem það er mjóst, inn í óbrennishólma að sunnanverðu. Breið kindagata liggur umhverfis hraunið. Líklegt má telja að gangandi fólk hafi farið beint af augum eftir stígnum þvert yfir hraunið til suðurs frá vestanverðum hraunkantinum í Vatnshlíðinni, en ríðandi fólk farið eftir hinni miklu og áberandi götu í hrauninu undir Vatnshlíðinni og síðan krækt með hraunkantinum að Gullbringu. Gatan þar er áberandi enn þann dag í dag. Við Gullbringu skiptist gatan enn á ný, annars vegar í sneiðing upp hlíðina austan við fjallið og áfram um Kálfadali, og hins vegar í gróna sneiðingnum til vesturs norðan fjallsins og síðan yfir að Hvömmum sunnan Kleifarvatns.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. (16. km).
Heimildir m.a.:
-Guðrún Hallgrímsdóttir.
-Svandís Svavarsdóttir.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson 2001.
-Umhverfisstofnun.
-Kolbrún Halldórsdóttir
-Alþingi.
Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu frá Strandamannahliði neðan Strandardals, efst í Selvogsheiði, um Vörðufellsmóa og Stóraflag niður að gatnamótum Fornugötu og Útvogsgötu ofan Skálavörðu vestan Strandarhæðar. Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948, 49. árgangi.
„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga. Þessari aðalleið Selvogsmanna, Grindaskarðaleið, skal nú lýst hér, eftir því sem föng eru á, svo og getið þeirra örnefna, sem nálægt henni eru, og nokkurra fleiri, þótt fjær liggi. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.“
Hér er hlaupið yfir lýsingu leiðarinnar frá Hafnarfirði að Strandardal ofan Selvogsheiðar því einungis er ætlunin að feta götuna þaðan niður og áleiðis að Skálavörðu á Strandarhæð þar hún mætir Útvogsgötu. Þar eru suðurmörk Selvogsheiðar (Þórður Bjarnason frá Bjargi í Selvogi). Gatnamótin eru skammt norðan Skálavörðu, þar sem Fornugötur mæta fyrrnefndu götunum. Skal því drepið niður í lýsingu Ólafs þar sem hann er að koma niður í strandardal.
„Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum.“
Hér er Ólafur kominn að Strandarmannahliði á fjárgirðingunni undir fjöllunum, efst í heiðinni. Þaðan er ætlunin að ganga að þessu sinni og fylgja þá Selvogsgötunni, eins og fyrr segir, um Vörðufellsmóa og Stóraflag þar sem gæta þarf vel að því að fara ekki út úr götunni sökum landeyðingar.
„Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði. Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir.
Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða. Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eftir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.“
Hér sleppir Ólafur tóftum selstöðu í heiðinni, en Selvogsgatan liggur niður með þeim að austannverðu. Þetta eru grónar tóftir, en þó sést móta fyrir í þeim þremur rýmum. Suðaustan við tóftirnar er grafinn brunnur og skammt vestsuðvestan við hann má sjá mosagrónar hleðslur stekks. Ekki hefur verið hægt að tengja þessar minjar við neina heimild um sel í heiðinni, en telja má líklegt að það hafi verið frá einhverri hjáleigu Strandar því þær voru nokkrar og enn sést móta fyrir ofan og austan við kirkjuna í Selvogi. Strandarselið er hins vegar upp undir Svörtubjörgum og hefur bæði verið þar um langan tíma og ríkmannlegt. Þetta sel við Selvogsgötuna virðist hafa verið þarna í tiltölulega skamman tíma, sennilega seint á 18. eða byrjun 19. aldar (eftir að jarðabók ÁM var rituð).
Í dag (2012) gæti óvönum þótt erfitt að fylgja götunni þar sem vatn hefur á þessum kafla heiðarinnar grafið hana í sundur auk þess sem gróðureyðingin er þar umtalsverð. Vanir menn ættu hins vegar ekki að eiga í erfiðleikum að fylgja götunni þrátt fyrir þetta.
„Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar.“
Skv. upplýsingum Þórðar Bjarnasonar heita Vellir austan Skálavörðu. Norðaustar er Strandarhæð. Efst í henni er hóll og gerði norðvestanundir honum. Þar var ætlunin að rækta upp gerði um aldarmótin 1900, en ekkert varð af því.
„Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ [Útvogsgata].
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn.
Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.
Eftirmáli
Á Grindaskarðaleið var það, að fundum mínum og Selvogsmanna bar fyrst saman, og eru margir þeirra funda, þótt oftast væru stuttir, mér að mörgu leyti minnistæðir. Tildrög voru sem hér segir: Kringum síðustu aldamót var ég oft á ferð um fjöllin vestan Grindaskarða. Kom það þá nokkrum sinnum fyrir, að ég reið fram á eða mætti einum eða fleiri mönnum, sem voru með hesta undir klyfjum, stundum bar mig þar að, sem þeir voru að æja, — voru að hvíla sig og hesta sína. Þetta voru Selvogsmenn. Það gátu ekki aðrir verið, svo fremi að það væru ekki útilegumenn, en ég mun þá hafa verið hættur að trúa á tilveru þeirra, og var því ótti minn við þá alveg horfinn. Þó komu mér ósjálfrátt í hug sagnir um útilegumenn, þegar ég komst fyrst í kynni við Selvogsmenn þarna í fjöllunum. Ekki var það samt af því, að þeir væru svo ógnarlegir, nei, síður en svo, þeir voru bara eins og fólk er flest.
Það, sem mér fannst einkennilegast við þessa menn og ferðalög þeirra, var víst aðallega það, að þeir voru þarna á ferð, þar sem mjög lítil von var mannaferða, og voru ýmist að koma ofan af fjöllunum eða fara til fjalla. Oft fylgdist ég með þeim nokkurn spöl eða staldraði við hjá þeim, þegar þeir voru í áningarstað. Þjóðlegir voru þeir og viðræðugóðir. Engir voru þeir yfirborðsmenn — en voru það sem þeir sýndust og oftast vel það. Ég var forvitinn og spurði margs, spurði um daginn og veginn, spurði hvernig væri hinum megin við fjöllin, hvernig sveitin þeirra liti út, um það langaði mig eitthvað að vita, því að ég vissi þá, að ég var fjórði maður frá Jóni Halldórssyni lögréttumanni að Nesi í Selvogi og Rannveigu Filippusdóttur, fyrri konu Bjarna riddara, sem fæddur var að Nesi 6. apríl 1763. Og ég spurði og spurði, og þeir svöruðu víst oft betur en spurt var. Eitt var það, sem ég tók eftir í farangri þessara manna, sem var öðruvísi en ég hafði séð hjá öðrum ferðamönnum. Það voru reiðingarnir á hestunum. Þetta voru ekki torfreiðingar, heldur voru þeir gerðir af rótum eða flækjum. Þeir voru léttir og lausir við mold og leir.
Og ég spurði enn. „Já, þetta eru melreiðingar, lagsmaður,“ var svarið. Stundum sá ég þá flytja í kaupstað ýmsa einkennilega hluti, sem stundum voru ofan á milli bagga eða í böggum. Þetta voru ýmsir munir úr skipum, sem strandað höfðu í Selvogi. Mér fannst skrítið að sjá þessa muni, sem tilheyrt höfðu útlendum skipum, vera nú bundna með ullarböggum sveitamanna, því að þá leit ég á Selvogsmenn sem eingöngu sveitamenn, en skýringin á öllu þessu var sú, að þeirra sveit lá bæði til sjávar og lands og Selvogsmenn voru og eru „synir landvers og skers.“ Ég komst líka að því, að bændur í Selvogi áttu allmargt fé og margir fjölda sauða og fallega, og það þótti mér nú ekki alveg ónýtt. Allt fannst mér þetta vera líkt einhverju ævintýri, og á sveit þeirra leit ég í huganum sem ævintýraland, og ekki grunaði mig þá, að ég ætti eftir að eiga heima í þessari sveit, en vel gæti ég trúað, að ég hafi einhvern tíma óskað þess, þó að ég muni það ekki nú.
Það má nú ef til vill segja, að þessi saga komi ekki við lýsingu þeirra fornu slóða, sem aðallega eru hér skráðar, ef verða mætti til þess að forða því, að þær féllu alveg í gleymsku og týndust og enginn vissi síðar meir, hverjir hefðu þær aðallega notað. Ég gat ekki skilið svo við þetta efni, að ég minntist ekki lítillega þeirra manna, sem markað hafa þennan veg, og þeirra litlu og afskekktu sveitar, Selvogsins.
Oft hljóta Selvogsmenn að hafa farið þessa leið með hesta sína, því að fáir fóru þar um aðrir en þeir. Sanna það bezt hinar djúpt mótuðu götur í hart grjótið á þessum fornu slóðum. Nú hefur þessi aldna leið Selvogsmanna lokið sínu ætlunarverki, og mun nú fá að „gróa yfir götur“, þar sem svo hagar landi, en langt verður þar til „hölknin gróa“ svo á leið þessari, að eigi sjáist merki mikillar umferðar.
Nú eru flestir þessir Selvogsmenn, sem ég fyrst kynntist, gengnir veg allrar veraldar. Nokkrir afkomendur þeirra lifa þar enn. Fáir hafa flutzt inn í sveitina. Fyrir 250 árum voru um 200 manns í Selvogi, — en nú munu vera þar um 60 manns, svo mjög hefur þessi sveit gengið saman, og er það af ýmsum orsökum, sem ekki verða raktar hér. Kynni mín af Selvogsmönnum á síðari árum hafa verið góð og engri rýrð kastað á þá eða sveit þeirra, frá því að ég fyrst átti samleið með þeim í fjöllunum, fyrir 40—50 árum. Hér brestur bæði rúm og getu til að lýsa Selvogshreppi, svo að gagn eða gaman væri að. Þó vil ég aðeins drepa á tvennt, sem þessi fámenna og afskekkta sveit hefur átt og á, sem enginn getur frá henni tekið, og það er Strandarkirkja og minningin um Eirík Magnússon, prest að Vogsósum, sem vígðist að Strönd árið 1667 og þjónaði þar í 39 ár.
Kirkjan hefur svo að öldum skiptir staðið ein húsa á hinu forna höfuðbóli, Strönd, sem sandur og uppblástur eyddu ásamt fleiri jörðum í Selvogi. Munnmæli herma, að þegar Erlendur lögmaður Þorvarðarson bjó að Strönd á fyrri hluta og fram yfir miðja 16. öld og allt var þar með blóma, hafi það eitt sinn borið við, er smalamaður Erlends kom heim, að hann hafi stungið spjóti sínu niður, og komið sandur upp á því. Segir þá smalamaður: „Hér mun uppblástur verða.“ Hjó Erlendur hann þá banahögg og kvað hann ekki skyldi spá fleiri hrakspám. Spá smalamannsins hefur illu heilli rætzt. Strandarkirkja er löngu þjóðkunn fyrir það, hve vel hún „verður við“, þegar fólk leitar til hennar með áheit í ýmsum áhugamálum sínum.
Um Eirík á Vogsósum skal ekki fjölyrt hér. Sagnir af honum og kunnáttu hans er víða að finna og flestar í þjóðsagnastíl og hafa því víða flogið. Sennilegast er, að Selvogsmenn hafi á sínum tíma litið til Eiríks á Vogsósum með ótta og lotningu fyrir orð hans og athafnir, og er mér ekki grunlaust um, að eitthvað eimi eftir enn af trú á verk hans og ummæli, sem honum eru eignuð, svo sem um vörðurnar á Vörðufelli, sem áður er á minnzt, og segi ég ekki þetta Selvogsmönnum til lítilsvirðingar.“
Göngunni lauk, sem fyrr sagði á Strandarhæð þaðan sem Fornugötunni efri var síðan fylgt til vesturs inn í Vogsósaland. Fyrrum hefur verið myndarleg varða við gatnamótin, en nú er hún einungis svipur hjá sjón. Fornagatan efri er vel greinileg. Áður hafði FERLIR fylgt götunni til austurs áleiðis að Hlíðarenda í Ölfusi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, 49. árg. 1943-1948, bls. 96-107.
FERLIR hefur nokkrum sinnum áður bæði fetað og lýst Selvogsgötunni (Suðurferðagötu), hinni fornu þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Selvogs.
Fáar, ef nokkrar, lýsingar eru hins vegar af síðasta áfanga götunnar, þ.e. frá „Skálanum“ vestan Strandarhæðar niður að Útvogsrétt í Selvogi. Þegar gatan var rakin þessa leið reyndist það þó tiltölulega auðvelt viðfangs. Reyndar hverfur hún á kafla í túnrækt, en ef og þegar eðlilegri legu götunnar er fylgt í landslaginu má auðveldlega rekja áframhaldandi legur hennar, enda víða vörðubrot við hana að finna, ef vel var gáð. Gatan liggur ekki að Strönd, eins og ætla mætti, heldur að Útvogsréttinni fyrrnefndu. Þar greinist hún til austurs og vesturs, bæði á götuna ofan Fornagarðs og á kirkjugötuna skammt neðar (á millum hinna gömlu bæja).
Að teknu tilliti örnefna á svæðinu má sjá eftirfarandi í Örnefnaskrá fyrir Þorkelsgerði í Selvogi: „Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ. Þessar réttir eru enn notaðar. Réttin var flutt þangað eftir flóðið mikla 1925.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa. [Þarna fyrir ofan voru slægjupartar bæjanna (Þórður Bjarnason.]
Fyrir ofan túnin og veginn út að Strandarkirkju eru Þorkelsgerðisflatir. Þær eru uppblásnar nú, einkum næst bæjunum. Gata var frá túnhliði og í veginn upp frá bæjunum. Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið. Ofar og með veginum er klapparhæð, sem nefnd er Stóraklif, og á henni var Stóraklifsvarða. Austar er Austurklif, og á því var Markavarða milli Götu og Þorkelsgerðis, nú farin. Þá taka við Snældhólar, þar sem flatir minnka og móar taka við.
Vegurinn liggur nú á milli þeirra. Snældhólar eru tveir, grænir grasi grónir hólar, ekki berir. Þeir eru svo lágir, að varla er tekið eftir þeim. Þegar kemur upp undir þjóðveg, taka við Dalhólalágar, eina graslendið, sem eftir var, annað blásið upp. Uppi undir þjóðveginum eru Dalhólar fyrir vestan veginn frá bæjunum. Þar er Dalhólabyrgi, skotbyrgi. Vestur af Dalhólum er Daunhóll, grasi vaxinn hnöttóttur hóll, og Eimuullhæðir sem tilheyra Eimu. Neshóll er grasi vaxinn bali eða hæð út í sandinn, eiginlega suðvestur frá Daunhól. Útvogsgata lá frá túngarðshliði í Þorkelsgerði, upp Dalhóla og upp hjá Skála, sem er rétt vestan við mörkin og því í Strandarlandi.“
Hafa ber í huga að hæðin vestan Strandarhæðar, að sögn Þórðar Bjarnasonar frá Bjargi í Selvogi, er nafnlaus. Útvogsgatan (Selvogsgatan), liggur vestan við „Útvogsskálavarða“ eða „Skálavörðuna (Skálann)“. Hún er áberandi kennileiti þegar farið er um hina fornu Selvogsgötu (Útvogsgötu) upp frá Útvogsrétt. Austan Skála eru Vellir. Skammt austar, neðan Strandarhæðar, er Árnavarða. Fornugötur liggja þarna um hæðina til austurs og vesturs. Þegar staðnæmst var við Árnavörðu á Dalhólum (sem Kristófer Bjarnason og fleiri endurhlóðu fyrir ekki svo löngu síðan, en hún var lengi eitt af kennileitum hæðarinnar) er þaðan ágætt útsýni, bæði yfir Selvogsbyggðina í suðri og fjöllin í norðri. Enn má vel sjá móta fyrir Fornugötu. Sunnar er Dalurinn. Vestar er varða (vörður), nefnd Dalhólabyrgi.
Fyrrnnefnd ferhyrnd varða; „Skálinn“, er þó og verður um allnokkra framtíð, aðalkennileitið á hæðinni þegar ganga þarf um Selvogsgötu hina fornu. Hafa ber þó í huga að síðasti hluti leiðarinnar, að teknu tilliti til fyrrnefndar örnefnalýsingar, heitir Útvogsvegur. Líklegt þykir því, af bæði heimildum og ummerkjum að dæma, að gatnamót Selvogsgötu annars vegar og Fornugatna og Útvogsgötu hins vegar hafi fyrrum verið skammt norðan við „Skálann“ vestan Strandarhæðar. [Þar byrjar Selvogsheiðin sunnanverð (Þórður Bjarnason).] Umleikis hana eru hleðslur. Þórður Sveinsson telur að þarna hafi fyrrum verið skáli, afdrep, t.d. fyrir smala í heiðinni. Minjarnar gætu alveg eins hafa orðið til vegna vegamóta er nefnd hafa verið.
Hvað sem öllum örnefnum líður er gatan augljós þarna frá hæðinni niður í Selvog. Hins vegar hefur nú verið gerður nýr vegur (Suðurstrandarvegur) neðan Strandarhæðar. Girt hefur verið beggja vegna vegarins. Þegar áhugasamt fólk vill feta hina gömlu götu kemur í ljós að girt hefur verið fyrir hana beggja vegna Suðurstrandarvegarins (Útvogsvegar). Klifra þarf því yfir tvær girðingar á leiðinni. Að vísu eru hlið á girðingunni, en þau eru allfjarri gömlu þjóðleiðinni. Úr þessu þyrfti að bæta.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði í Selvogi.
Gefið hefur verið út minja- og örnefnakort fyrir Selvog í Sveitarfélaginu Ölfus. Undirbúningur og gerð kortsins hefur staðið yfir um langt skeið, en í góðu samstarfi við „gömlu mennina“ og aðra kunnuga hefur tekist að ljúka verkinu.
Til hafa verið örnefnalýsingar fyrir Selvog, en þær eru mjög misvísandi. Þegar Kristófer Bjarnason frá Þorkelssgerði lést á síðasta ári [2010], en hann hafði farið með FERLIR nokkrum sinnum um svæðið, var ákveðið að fá þá tvo menn, Þórarinn Snorrason á Vogsósum og Þórð Sveinsson frá Bjargi, er enn voru á lífi og þekktu gleggst til staðhátta á svæðinu til að koma saman heildstæðum uppdrætti. Og með stuðningi sveitarfélagsins og þolinmæði prentarans tókst að fullkomna verkið, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á kortinu má auk þess sjá ljósmyndir af gömlu bæjunum.
Kort þetta þjónar a.m.k. tvennu; í fyrsta lagi að stuðla að varðveislugildi örnefnanna og staðsetningu minja frá fyrri tíð og í öðru lagi að minnka líkur á að verðmæti fari forgörðum vegna þekkingarleysis. Þá gefur uppdrátturinn ágæta yfirsýn yfir þróun byggðar í Selvogi. Sjá má hvar gömlu bæjunum hafði verið raðað ofan við ströndina. Verbúðir og fjárborgir voru við sjóinn og á milli lágu götur; kirkjugata og brunngata. Ofar má enn sjá leifar af hjáleigunum.
Ætlunin er að fá sóknarnefnd Strandarkirkju í samvinnu við Biskupsstofu til að setja kortið upp við bílastæðið nálægt kirkjunni til glöggvunar og upplýsinga fyrir hina fjölmörgu ferðamenn, sem sækja Selvog heim árlega.
Gefið hefur verið út minja- og örnefnakort fyrir Selvog í Sveitarfélaginu Ölfus.
Undirbúningur og gerð kortsins hefur staðið yfir um langt skeið, en í góðu samstarfi við „gömlu mennina“ og aðra kunnuga hefur tekist að ljúka verkinu.
Til hafa verið örnefnalýsingar fyrir Selvog, en þær eru mjög misvísandi. Þegar Kristófer Bjarnason frá Þorkelssgerði lést á síðasta ári [2010], en hann hafði farið með FERLIR nokkrum sinnum um svæðið, var ákveðið að fá þá tvo menn, Þórarinn Snorrason á Vogsósum og Þórð Sveinsson frá Bjargi, er enn voru á lífi og þekktu gleggst til staðhátta á svæðinu til að koma saman heildstæðum uppdrætti. Og með stuðningi sveitarfélagsins og þolinmæði prentarans tókst að fullkomna verkið, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á kortinu má auk þess sjá ljósmyndir af gömlu bæjunum.
Kort þetta þjónar a.m.k. tvennu; í fyrsta lagi að stuðla að varðveislugildi örnefnanna og staðsetningu minja frá fyrri tíð og í öðru lagi að minnka líkur
á að verðmæti fari forgörðum vegna þekkingarleysis. Þá gefur uppdrátturinn ágæta yfirsýn yfir þróun byggðar í Selvogi. Sjá má hvar gömlu bæjunum hafði verið raðað ofan við ströndina. Verbúðir og fjárborgir voru við sjóinn og á milli lágu götur; kirkjugata og brunngata. Ofar má enn sjá leyfar af hjáleigunum.
Ætlunin er að fá sóknarnefnd Strandarkirkju í samvinnu við Biskupsstofu til að setja kortið upp við bílastæðið nálægt kirkjunni til glöggvunar og upplýsinga fyrir hina fjölmörgu ferðamenn, sem sækja Selvog heim árlega.
Þann 22. október 1944, u.þ.b. kl. 15:00, flaug fyrsti lútenant John J. Custy, meðlimur 33ju orrustusveitar ameríska flughersins, C-64 flugvél sinni, í Efrafjall ofan við Ölfus. Hann, ásamt fjórum farþegum, liðþjálfanum Robert R. Richt, korperálnum Anthony P. Colombo, óbreyttum Leonard T. Damerval og óbreyttum Floyd C. Van Orden, lést er kviknaði í flugvélinni við brotlendinguna. Brak úr henni dreifðist um stórt svæði.
Þremur árum fyrr, eða sunnudaginn 7. desember 1941, fórst önnur herflugvél, af Hudson-gerð/G, þarna í fjallinu, ekki langt frá. Fjórir menn í áhöfninni létust allir. Flugstjórinn hét Eric Stewart, 22 ára Nýsjálendingur.
Ætlunin var að skoða brakið úr vélunum, sem er þarna enn um 65 árum síðar, en líta fyrst á á Hraunssel við Selstíginn undir Lönguhlíðum og athuga hvort tóftir kunni að leynast undir Selbrekkum í austanverðu Efrafjalli.
Gengið var til austurs yfir Eldborgarhraun ofan við Frambrúnir í Þrengslunum og yfir á Selstíginn undir Lönguhlíð. Þar kúrir Hraunsselið. Auðvelt er að fylgja gróinni kindaslóð í gegnum mosahraunið, svo til beint að selinu.
Eftir að hafa skoðað tóftirnar var gengið upp á Litlaberg ofan við Kerlingaberg og inn á Selbrekkur undir Efrafjalli. Ofar eru Vatnsbrekkur og enn ofar Suðurhálsar. Neðar er Neðrafjall ofan við Hjalla.
Altalað var í Ölfusi að búkonurnar á Hrauni hafi fengið nægan efnivið til sauma eftir slysið því fallhlífarnar, sem voru úr silki, fundust skammt frá slysstaðnum og voru notaðar í flest það sem þurfa þótti til sauma næstu daga á eftir, hvort sem um var að ræða klæðnað eða gluggatjöld.
Í bókinni „Styrjaldarárin á Suðurlandi“, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson segir m.a. frá síðarnefnda flugslysinu. Í frásögninni kemur fram að slysið hafi borið upp á sama dag og árás Japana á Pearl Harbour, þann 7. desember 1941. Þrátt fyrir að þetta væri á sunnudegi var búist við því að þessu myndi fylgja óvænt árás þýska hersins einhvers staðar í Evrópu. Að því tilefni var 8 Hudson flugvélar, sem staðsettar voru á Kaldaðarnesflugvelli, sendar á loft um hádegisbil og var hlutverk þeirra að skima eftir eftir óvinaflugvélum, kafbátum eða skipum nálægt suðurströndinni. Þegar líða tók á daginn fór veður versnandi. Flugstjórar vélanna ákváðu því að snúa til baka fyrr en ákveðið hafði verið. Síðastur á loft hafði verið Eric Stewart á Hudson/G, með einkennisstafina T-9416, ásamt þremur öðrum áhafnameðlimum. Samkvæmt áætlun átti vélin að lenda kl. 15:45. Á þeim tíma sást hún fljúga tvo hringi yfir vellinum fyrir lendingu, en mjög lágskýjað var orðið þegar það varð.
Tómas Jónsson frá Þóroddsstöðum, þá 8 ára, var að sækja hesta út í mýri á þessum tíma, handan Ölfusár. Komið var myrkur. Kl. 16:45 sá hann ógurlegan eldblossa í fjöllunum fyrir ofan Hjall. Hann hafði skömmu áður séð vél koma fljúgandi með blikkandi ljós og stefna beint á fjallið. Bjarminn var eldrauður og u.þ.b. 15 mínútum síðar sá hann annan blossa, hvítan er lýsti sem dagur væri. Fyrr bjarminn gæti hafa stafað af því er kviknaði í flugvélinni er hún snerti jörðina, en síðari blossinn gæti hafa verið kafbátasprengjur að springa, sem höfðu verið um borð í vélinni. Bjarmar þessir sáust vel frá Hveragerði því næstum albjart varð þar þessa örskömmu stund.
Gerður var út 12 manna leitaflokkur frá Hjalla undir leiðsögn þeirra Sigurðar Steindórssonar og Engelberts Hannesson frá Bakka. Flakið af flugvélinni fannst á Efrafjalli ofan við Hjalla síðar um kvöldið. Aðkoman var hroðaleg. Ljóst var af ummerkjum að dæma að vængur hafði rekist í jörðina, vélin steypst í fjallið og síðan allt sprungið í tætlur. Fallhlífar fundust, sem fyrr sagði, skammt frá slyssstað og úr þeim voru saumaðar margar flíkur, allar úr skínandi silki. Og það þóttu nú ekki dónalegur fatnaður til sveita í þá daga.
Öðrum Hudson vélum á Kaldaðarnesflugvelli var síðan flogið til Reykjavíkur og þær gerðar út þaðan. Sem fyrr sagði fórust fjórir með vélinni.
Gengið var frá Raufarhólshelli í Þrengslunum og austur yfir gamburmosahraun, afurð Eldborgar norðaustur undir Litlameitli, með sínum grónu lyngbollum. Gangan tekur innan við 10 mínútur. Hægt er að ganga eftir gamalli götu er liggur upp úr Lyngbrekkum frá Breiðabólstað, um Rauðhól, síðan eftir gróinni kindaslóð yfir hraunið og áfram inn á Selstíginn skammt norðar. Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið þar sem það kúrir undir lágum hraunkantinum, greinilega miðlungs gamalt. Þetta eru fimm tóttir; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn (Skógstígurinn) liggur upp og niður milli hraunkantsins og hlíðarinnar. Bæði ofan og neðan við selið að norðanverðu eru grasi grónar Lönguhlíðarnar.
Eitt af sérkennum seljanna á Reykjanesskaganum er hversu fá þeirra uxu og urðu að kotum til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu. Einungis Straumssel, af þeim 165 seljum, sem enn hafa verið skoðuð á svæðinu (landnámi Ingólfs) mun hafa vaxið til heilsársbúsetu, en þó einungis í skamman tíma. Þessu er t.a.m. öfugt farið á öndverðu landinu, Melrakkasléttu. Þar virðist einungis Bakkaselið hafa varðveist í upprunalegri selsmynd, en önnur sel orðið að kotum til heilsársbúsetu. Fróðlegt væri að bera þessi landssvæði saman, því á báðum má finna margar selsminjar og aðstæður eru ekki svo frábrugnar til sauðfjárbeitar og fjarnýtingar frá bæjunum með ströndinni. Sel á Norðurlandi og Vestfjörðum (og jafnvel víðar) virðast hafa verið annarskonar, þ.e. nokkurs konar afrit af bæjunum þangað sem búsmalinn flutti yfir sumartímann.
Gengið var yfir vestanvert Litlaberg og áfram inn á Efrafjall austarn Kerlingabergs. Gott útsýni er þarna yfir fjalllendið sem og niður á Neðrafjall, sem nú hefur víða orðið gróðureyðingunni að bráð. Bændur þar neðra hafa þó reynt að stemma stigu við eyðingunni með víðtækri trjáplöntugróður-setningu.
Þegar horft var yfir fjallshlíðina var erfitt að reyna að gera sér í hugarlund hvar brakið af Hudson/G vélinni gæti verið. Kaldalaðanesflugvallarstæðið sést í austri, handan Ölfusár. Flugvélin hefur væntanlega verið í aðflugsbeygju að vellinum. Stefnan var tekin á brekkuna þar sem hún rís hæst á móti suðvestri, líklegasta slysstaðinn. Eftir u.þ.b. klukkustundar göngu var lagst niður í móann og hann skimaður. Stöng stóð upp úr í norðri. Haldið var þangað. Þar reyndist verða slysstaðurinn með öllu því braki er slíku fylgir.
Heillegt dekk merkt Goodyear, tveir hreyflar, blágrænn litur á áli, leiðslur, hjólaspyrna og hluti mælaborðs, auk annars er fylgir sundurtættu flugvélaflaki var þarna. Ógróið svæði var þar sem flugvélin hafði komið niður og væntanlega brunnið skv. lýsingunni, en smábrak allt um kring. Vel mátti ímynda sér hvernig slysið hafði orðið. Ekki var þó að sjá leifar eftir eld eða sprengingar á vettvangi. Teknar voru myndir af númerum einstakra hluta og sendar sérfræðingi. Mun álit hans væntanlega berast innan skamms.
Ef finna ætti brakið af C-64 flugvélinni í heiðinni myndi það væntanlega verða meiriháttar tilviljun. Samkvæmt lýsingum á það að vera u.þ.b. 2 km sunnan Núpafjalls. Það gæti verið í suðausturhlíðum Skálafells. Ef einhver fróður eða upplýstur maður getur gefið upplýsingar hvar brakið er að finna væru þær upplýsingar vel þegnar.
Þá var gengið upp í Hjallasel og áfram norðaustur upp og yfir Efrafjall. Bóndinn á Hrauni hafði áður sagt að sjá mætti tóftir suðvestan við Hjallaselið, en þar eru víða grónir blettir. Við leit var ekki að sjá ummerki eftir mannvistarleifar, enda geta þær varla verið miklar því vatnsskortur hlýtur að hafa háð viðverandi dvöl manna og skepna í heiðinni.
Á göngunni til vesturs voru þveraðar a.m.k. þrjár veglegar götur, þ.á.m. Sólarlagstígurinn neðan frá Hjalla.
Frábært veður. Lygna og angan af vorgróanda. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimildir m.a.:
-Styrjaldarárin á Suðurlandi, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson.
-Sævar Jóhannesson.
Þorlákshöfn ber nafn af Þorláki Þórhallssyni hinum helga sem var biskup í Skálholti 1178-1193. Jörðin mun snemma hafa komist í eign Skálholtsstóls en var seld árið 1785. Þorlákshöfn var í eigu einstaklinga til ársins 1934 en þá keypti Kaupfélag Árnesinga hana. Árnes- og Rangárvallasýslur keyptu Þorlákshöfn árið 1946 og áttu til ársins 1971 þegar Ölfushreppur eignaðis jörðina og hefur átt síðan. Sandgræðslan hóf uppgræðslu í Þorlákshafnarlandi árið 1935 og lagðist þá sauðfjárbúskapur af að mestu en búið var með kýr þar til ársins 1951.
Sjór var sóttur frá Þorlákshöfn svo lengi sem heimildir greina. Lending fyrir áraskip var þar betri en annars staðar við suðurströndina og gengu þaðan á fjórða tug skipa þegar mest var. Vertíðin hófst í febrúar og stóð til lokadags 11. maí. Síðast á 19. öld og í upphafi hinnar 20 var mikið um að vera í Þorlákshöfn, blómleg útgerð, landbúnaður og verslun. Í árslok 1915 voru íbúar í Þorlákshöfn 31 og 31 áraskip gert út þaðan næstu vertíð. Í áhöfnum voru 458 manns þannig að þá var ólgandi mannlíf þar og sjóbúðir út um allt. Ungum körlum þótti mannsbragur af því að fá skipsrúm í Þorlákshöfn.
Eftir það fór mjög að halla undan fæti, skipum fækkaði og vertíðina 1934 var aðeins einn vélbátur gerður út frá Þorlákshöfn. Árnaskipin voru öll horfin af vettvangi um 1930. Kaupfélag Árnesinga hóf markvissa uppbyggingu í Þorlákshöfn árið 1934. Byggt var fiskvinnsluhús svo ekki þurfti lengur að gera að undir berum himni. Mótorbátum fjölgaði og urðu þeir flestir 12 vertíðina 1940. Með stríðsárunum og umsvifum hersins bauðst mikil atvinna annarsstaðar. Útgerð lagðist því af í Þorlákshöfn eftir vertíðina 1941.
Á stríðsárunum var lítið um að vera í Þorlákshöfn og aðeins einn ráðsmaður þar með lögheimili. Framkvæmdir hófust aftur árið 1946, þangað var gert sæmilega bílfært og hafnargerð hafin að nýju.
Árið 1950 hófst öflug útgerð í Þorlákshöfn á vegum Meitilins hf. sem stofnaður var árið áður. Á lokadaginn 11. maí 1950 lagðist 700 lesta skip, Maiken frá Bergen, að nýrri framlengingu Suðurvararbryggju og lestaði saltfisk. Í árslok 1950 voru aðeins 4 einstaklingar skráðir með lögheimili í Þorlákshöfn en ári síðar voru fyrstu fjölskyldurnar skráðar þar og alls voru þá 14 íbúar í Þorlákshöfn hinni nýju. Íbúar voru 170 árið 1960 og 523 árið 1970.
Mikil fjölgun varð á 8. áratugnum einkum eftir eldgosið í Heimaey. Íbúar Þorlákshafnar voru 1
010 árið 1980 og 1333 þann 1. des. 2000. Með vaxandi byggð hófst félagslíf og ýmis þjónusta.
Í nóvemberlok 1956 byrjaði barnakennsla, börnin voru 9 og kennari Kristján skáld frá Djúpalæk. Bygging skólahúss hófst 1960 og Þorlákshöfn varð sjálfstætt skólahverfi með barnaskóla árið 1962. Fyrsti skólastjórinn var Gunnar Markússon.
Stjórnsýsla sveitarfélagsins fluttist til Þorlákshafnar árið 1970 og fyrsti sveitarstjórinn Svanur Kristjánsson var ráðinn.
Þrátt fyrir að í Þorlákshöfn hafi verið til mörg af húsum frá fyrrnefndu tímabili var þeim flestum eytt vegna skammsýni, Nú eru hins vegar uppi hugmyndir um að endurreisa einhver þeirra. M.a. hefur Brunnurinn verið gerður upp og er nú aðgengilegur.
Árið 1979 var hitaveita lögð frá Bakka í Ölfusi svo og bygging kirkju hafin og var hún vígð 1985. Sundlaug var tekin í notkun árið 1981 og stórt íþróttahús árið 1991. Kirkjurnar í Þorlákshöfn, Hjalla í Ölfusi og Strönd í Selvogi urðu sérstakt prestakall árið 1991 og séra Svavar Stefánsson fyrsti prestur þess. Árið 2000 var tekið í notkun nýtt menningar- og stjórnsýsluhús að Hafnarbergi 1. Auk bæjarskrifstofunnar eru þar veislu- og fundarsalir Versalir, bókasafn, félagsmiðstöðin Svítan og fleira.
Heimild m.a.:
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=164&p=1&idx=7



































