Tag Archive for: Ölfus

Selvogur - örnefna- og minjakort

Dr. Jón Helgason, biskup, ritaði grein í Lesbók Mbl. 17. janúar 1926 og nefndi hana „Um Strönd og Strandakirkju„.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Tæpum tveim árum síðar, eða 2. október 1927, kom svo í sama riti greinin: „Erindi um Strandakirkju“ eftir séra Ólaf Ólafsson, sem þar hóf prestskap sinn.
Séra Helgi Sveinsson, sem einnig þjónaði Strandarkirkju, skrifaði í 18. árgang Kirkjuritsins grein, sem hann nefndi „Engilsvík“.
Allir koma þessir þjónar kirkjunnar inn á tilurð Strandarkirkju, en hver með sínum hætti.
Séra Helgi endursegir söguna um skipbrotsmennina, sem engillinn leiddi í örugga höfn, en gerir enga tilraun til þess að tímasetja hana.
Séra Ólafur segir í sinni grein: „Strandarkirkja er orðin ævagömul. Hinn rétta aldur hennar þekkir enginn, sumir ætla hana byggða við upphaf kristninnar hér á landi, á dögum Gissurar hvíta, en aðrir á dögum Staða-Árna, en enginn veit neitt með vissu. Ég hallast lang mest að þeirri gömlu þjóðsögu, að hún sé upphaflega og það snemma á tímum til orðin fyrir áheit manna í sjávarháska, áheitendurnir komust á land og björguðust á Strandarsundi, rétt fyrir vestan það er nefnilega hin alkunna Engilsvík. Ég styrktist í þessari trú við þá staðreynd að nú á okkar dögum hefur heil skipshöfn bjargast úr sjávarháska einmitt á þessum svæðum. Síðan eru um 30 ár.“
StrandarkirkjaDr. Jón hefur mál sitt á vísu eftir Grím Thomsen þar sem hann telur Gissur hvíta hafa reist fyrstu Strandarkirkjuna. Síðan segir biskupinn: „Hefi ég ekki annarsstaðar, það ég man, rekið mig á þá sögn að Gissur hvíti hafi fyrstu gert kirkju á Strönd í Selvogi. Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé rétt hermt þó söguleg rök vanti fyrir því.“
Nokkru síðan í sömu grein segir hann: „Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju er að vér vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyrr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar.
Allir hafa þessir heiðursmenn ausið af sama gnægtarbrunni um sögu Selvogs og Strandarkirkju, en það eru vísur eftir séra Jón Vestmann, er prestur var í Selvogsþingum 1811-42 og inngangsritgerð við þær eftir dr. Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörð, en það eru bestu heimildirnar, sem mér eru kunnar um þessi efni.
En hver setti kirkjuna þarna, hvenær og hversvegna?
Í StrandarkirkjuEða væri e.t.v. hyggilegra að huga fyrst að því hverjir þeirra, sem nefndir hafa verið til þessarar sögu, komi alls ekki til greina?
Fyrstan í þeim flokki, vil ég nefna Gissur hvíta.
Mér telst svo til, að í Íslendingasögum, Biskupasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Flateyjarbók sé talað um hana á samtals rúmelga 100 blaðsíðum án þess að ég finni nokkuð, sem bendi til þessarar kirkjubyggingar og ég er algjörlega ósammála þeim rökum dr. Jóns Helgasonar, biskups, að það sé alveg jafngóð sagnfræði þótt enginn flugufótur finnist fyrir þeim kenningum, sem hún setur fram.
Þá er það Árni biskup Þorláksson (Staða-Árni, 1269-98).
Er líklegt að hann hafi lent í því hafvolki, að þar sé að leita upphafsins að Strandarkirkju – og er sennilegt, að hann og landeigandinn á Strönd hafi staðið saman að byggingu þessarar kirkju?
Fyrri spurningunni er hægt að svara hiklaust neitandi því að í sögu hans segir: „Eftir það er Árni biskup hafði skilið við virðulegan herra Jón erkibiskup…….. sigldu þeir í haf, og greiddist þeirra ferð vel og ekki allskjótt. Komu þeir skipi sínu í Eyjafjörð.“
StrandarkirkjaEn hver var þá eigandi Strandar á þessum tíma og hvernig var samkomulag hans og biskups?
„Á dögum Árna biskups Þorlákssonar………. átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið „með fulltingi“ Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu.“
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi – vígsluföður Árna biskups.
Mér finnst það meira en furðulegt ef þessir erkifjendur í staðamálum hefðu getað sameinast um að gera nýja kirkju á jörð Erlends og það með þeim glæsibrag, að á aðeins 5-6 árum var hún orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.

Strandarkirkja

„Elsta „Strendur-máldaga“ er nú þekkist hafa menn heimfært til tíma Árna biskups Þorlákssonar eða hér um bil 1275…….. og er Strönd þá svo stórauðug að rekum að hún togast á við Hjallamenn, Krýsvíkinga og sjálfan Skálholtsstól.“
Nú er það staðreynd að „kirkjan suður á sandinum situr ein og hljóð“ svo einhver hlýtur að hafa byggt hana og einhverntíma. En hver og hvenær?
Árni Óla er einn þeirra, sem skrifað hafa um Strandarkirkju. Eftir að hafa rætt nokkuð um upphaf hennar segir hann: „En sé nú gert ráð fyrir því að Strandarkirkja hafi verið reist áður en Árni varð biskup og ennfremur hitt, að munnmælasagan hermi rétt að það hafi verið biskup, sem heitið gerði um kirkjubygginguna. Þá gæti skeð að það hefði verið Þorlákur biskup helgi.“
Þarna hygg ég að naglinn hafi verið hittur beint á höfuðið. En af hverju Þorlákur biskup Þórhallsson öðrum biskupum fremur?
Til þess að svara þeirri spurningu þarf að leggja nokkra lykkju á leið sína – eða er það ef til vill bein lína að settu Strandarkirkjamarki?
Það þarf ekki að horfa lengi á Íslandskort til þess að sjá, að hafnir eru ekki höfuðprýði Suðurlandsins. Hinu má svo ekki gleyma, að eldsumbrot, jökulhlaup, hafís og hafrót hafa í aldanna rás gnauðað þar á ströndinni og því er ekki ólíklegt að það hafi í raun og veru verið allt önnur strönd, sem blasti við augum þeirra fóstbræðra Ingólfs og Hjörleifs er þeir komu af hafi, en sú sem við horfum á í dag.
Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort Hjörleifur sigldi inn fjörð til þess að taka land við Hjörleifshöfða.
Á hitt skal aftur á móti bent að „Rangá mun hafa verið hafskipahöfn í tíð Sæmundar fróða“ og að „Rangá og Holtsósar eru dæmi um hafnir, sem lögðust niður.“
Svo er það Strandarsund í Selvogi, „Strandarsund, sem er suður og austur af kirkjunni, hefur sjálfsagt frá ómunatíð, allt þar til það tók að fylla af sandi á síðari öldum, verið einhver öruggast lendingarhöfn fyrir öllu Suðurlandi. Segja kunnugir menn, að enn sé oft kyrrt á Strandarsundi þó að allur Selvogssjór sé í einnu veltu. Er það gamalt mál, að aldrei berist skipi á á Strandarsundi „rétt förnu“….. Ýmsar sagnir hafa gengið um sundið. Sögðu sumir að jafnan væri lag á Strandarsundi á nóni dags.“
En hvað er þá orðið um Strandarsund?
Í ágúst 1706 voru þeir Jarðabókarmenn í Selvogi og var þá sagt að jörðin „Straund“ sé fyrir 10 árum í auðn komin. Einnig segir: „Heimræði hefur hér verið ár um kring, sem nú er fordjarfað síðan hafís rak hér inn í sundið, svo þaðan í frá er ófært nema í blíðviðrum og láleysu.“
StröndHvað var það, sem gerðist þarna í Selvogi á árunum 1694-96 og varð þess valdandi að í fardögum ´96 flýr síðasti maðurinn stórbýlið Strönd? Hvað fordjarfaði svo Strandarsund, að þar er síðan ólendandi nema í besta og blíðasta veðri?
Í Fitjaannnál segir um árið 1695: „Kom hafís fyrir norðan á jólum einnin fyrir Austfirði og seint á einmánuði fyrir Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, svo þar varð ekki á sjó komist um nokkra daga, færðist svo vestur fyrir Reykjanes og öll Suðurnes. Þann 19. apríl rak hann inn fyrir Garð og svo meir og meir, Akranes, Mýrar og undir Snæfellsjökul.“
Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að hafís, sem náði að fylla nær alla firði við Faxaflóa hefir í leiðinni mokað svo rækilega upp í mynni Strandarsunds, að það hefir verið létt verk fyrir foksandinn, sem þegar var farinn að granda túnum sveitarinnar, að fylla upp afganginn.
En hvað kemur þetta Þorláki Þórhallssyni við?
Nákvæmlega ekki neitt ef svo hefði ekki viljað til að faðir hans var Þórhallur FARMAÐUR.
Það mætti furðulegt heita ef skammdegiskvöldin á Hlíðarenda hefðu ekki einhverntíma verið stytt með sögum og samræðum um ferðir húsbóndans og jafn skrýtið gæti það talist ef aldrei hefði borið á góma þar á bæ, að úti í Selvogi væri höfn þar sem hægt væri að lenda a.m.k. tvisvar á dag nánast hvernig sem viðraði.
StrandarkirkjaMunnmælin herma að Strandarsund hafi ávallt verið fært á nóni. Það fær ekki staðist, en hitt gæti meira en verið, að sundið hefði oftast verið fært á öðrum hvorum liggjandanum eða á hálfföllnum sjó.
En einu gildir hvort munnmælin hafa hallvikað hér strangasta sannleika eitthvað lítillega eða ekki, Þorláki hlýtur að hafa verið ljóst strax í bernsku, að á einum stað á Suðurlandi mátti taka land í svo til hvernig veðri sem var, bara ef rétt var að verki staðið.
Þá er það sagan um hann Árna, sem fór til Noregs til þess að sækja húsavið. Þar hygg ég að þjóðsagan hafi ofið skemmtilega voð þar sem uppistaðan er frásögn yngri gerðar Þorlákssögu af heimför biskupsins úr vígsluför sinni til Noregs, en fegurðarskynið eitt látið ráð hvar ívafið var tekið.
Besta gerð þeirrar sögu, sem ég hefi séð er skráð af Konráði Bjarnasyni, fræðimanni frá Þorkelsgerði í Selvogi, en hann hefir söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sem gift var Árna Árnasyni, uppeldissyni Kristínar Jónsdóttur Vestmanns.
Bæði Þorlákssaga og þjóðsagan geta um skip, sem býst frá Noregi hlaðið húsaviði og í báðum endar ferðin í óveðri við Íslandsstrendur og mestur hluti viðarins tapast fyrir borð áður en landi er náð, en það tekst giftusamlega eftir að viss heit hafa verið gerð.
StrandarkirkjaEn hver var svo hlutur farmannssonarins í landtökunni í byrjun ágúst 1178. Hver var hlutur þessa skarpgáfaða en ráðríka manns, sem áreiðanlega þekkti Suðurland frá Vatnajökli og vestur úr eins og fingurna á sér? Hafði grillt svo í land að hann vissi upp á hár hvar hann var staddur? Hvers vegna vildi hann ekki heita fyrr en rutt var af skipinu öllu því, sem hann við brottför hafði talið ofhleðslu? Var það vegna þess að honum fannst að skipstjórnarmenn hefðu gott af refsingu fyrir mótþróa við biskupinn eða var það af þeirri einföldu ástæðu að hann vissi að svo hlaðið, sem skipið var, mundi það aldrei fljóta inn Strandarsund?
Þannig má leika sér að spurningum næstum í það óendanlega. En svör við þeim finnst engin. Á hinu tel ég ekki leika nokkurn vafa, að það voru gömul ráð Þórhalls farmanns, sem komu syni hans heilum í höfn úr vígsluförinni og urðu um leið til þess að hin fyrsta Strandarkirkja var byggð. Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er helgi Þorláks og áheit á hann, sem valda því að um öld eftir að hann lét reisa kirkju að Strönd var hún þegar orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
Og það er fleira en hugdettur minar, sem styða þá kenningu, að margnefnd kirkja hafi verið byggð á dögum heilags Þorláks því að kirknatal Páls biskups Jónssonar enda upptalningu sína á kirkjum í Árnesþingi með kirkjunni á Strönd í Selvogi.
Auðvitað er mér fulljóst, að frumritið af þeirri skrá er ekki til og ekki er hægt að útiloka að einhverjum vini Strandarkirkju, sem var að afrita skrána hafi þótt svo sjálfsagt, að hennar nafn stæði þar, að hann hafi bætt því við, en ég tel þann möguleika miklum mun minni en þann, að Erlendur lögmaður Ólafsson hafi farið að aðstoða Staða-Árna við að ná einu af tekjuhæstu óðulum sínum undir kirkjuna.“

Heimild:
-Tekið saman af Gunnari Markússyni í september 1991.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=72&idx=6

Selvogur

Frá afhjúpun skiltis með örnefnum og minjum við Strandarkirkju í Selvogi.

Brunnur

Nes í Selvogi var lengi höfuðból. Bjuggu þar oft gildir bændur og efnuðust stundum vel af sjávarútvegi og sauðfjárbúskap. Um 1830 bjó þar bóndi sá, er Gísli hét Þorláksson: fæddur var hann í Selvogi um 1774 og dvaldist þar ævilangt. Hann virðist hafa verið í góðu áliti og hreppstjóri var hann Selvogsmanna um nokkurt skeið. Gísli var þríkvæntur og átti börn nokkur, en eigi koma þau við þessa sögu nema dóttir ein, sem Ólöf hét. Hana átti Gísli með miðkonu sinni, sem Ingveldur hét Gísladóttir. Ólöf var fædd í Nesi 9. október 1813 og dvaldist þar til 27 ára aldurs. Við fermingu fær hún þann vitnisburð hjá presti sínum, að hún sé „meðallagi gáfuð, lærði allt kverið smátt og stórt og hegðun skikkanleg.“ Í æsku hafði hún þótt efnisstúlka, fríð sínum með mikið og glóbjart hár og hög vel til handa.

NesMilli Ness í Selvogi og Þorlákshafnar voru vináttubönd, hvorutveggja voru hreppstjóraheimili, að vísu var allt stærra og meira í sniðum í Þorlákshöfn, en þau áttu það sameiginlegt að bera af um alla alþýðumenningu.

Það mun hafa verið fastmælum bundið haustið 1834, að Ólöf í Nesi færi til dvalar að Þorlákshöfn. Var hún þá tvítug að aldri og átti að læra hannyrðir hjá maddömu Hólmfríði, konu Magnúsar Beinteinssonar. Mun Ólöf hafa dvalist í Höfninni vetrarlangt eða fram undir 1835.

Nes

Nes í Selvogi – túnakort.

Nú kemur ný persóna til sögunnar, og verður nokkuð greint frá henni. Bergur hét maður og var Guðmundsson, fæddur í Króki í Hraungerðishreppi 1797. Voru foreldrar hans Guðmundur Hannesson bóndi í Króki og kona hans Herdís Bergsdóttir frá Reynisvatni í Mosfellssveit. Bergur kvæntist 1823 Margréti Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti og byrjuðu þau búskap í Hvammsvík í Kjós. Þar eru þau talin búandi til ársins 1826. Síðasta árið var í félagsbúskap við Berg bróðir hans, Hannes, er síðar bjó að Hjalla í Ölfusi. Um þessar mundir sótti Bergur um leyfi með Hannesi bróður sínum að reisa nýbýli suðaustan undir Esjunni, en því synjað á þeim forsendum, að býlið myndi liggja á afréttarlöndum tveggja sýslna, lá og eigi „allskostar gott orð á þeim bræðrum“. Bergur varð snemma drykkfelldur og eigi við eina fjöl felldur, einkum í kvennamálum, en dugandi maður var hann talinn til verka og smiður góður. Með Margréti konu sinni átti Bergur tvö börn, skildu þau hjón síðar að borði og sæng, það var árið 1827. Annað barn þeirra dó í bernsku, en hitt komst til aldurs. Það var Þorsteinn, skipstjóri í Ytri-Njarðvík, f. 1823, og er margt dugandi fólk frá honum komið.

Tóftir

Tóftir við Nes.

Er Bergur hafði látið af búskap í Hvammsvík og skilið við konu sína, mun hann hafa verið á ýmsum stöðum, ýmist sem lausamaður ella í vinnumennsku. Árið 1835 er hann vinnumaður í Helli í Ölfusi hjá þeim hjónum Þorleifi Sæfinnssyni og Aldísi Vigfúsdóttur frá Fjalli á Skeiðum, systur Ófeigs ríka. Aldís þótti kona mikil fyrir sér og mælt, að bóndi hennar hefði stundum fullmikið konuríki. Veturinn sem Bergur dvaldist í Helli, gerðist það, að hann barnaði húsmóður sína. Barnið var mær og komst til fullorðinsára. Það var Guðrún á Grímslæk, f. 20. febrúar 1836. Hún giftist og átti margt barna, meðal þeirra var Marteinn Einarsson stórkaupmaður í Reykjavík. Til er saga um það, þegar Aldís í Helli hafði alið barnið, þá hafi Þorleifur maður hennar komið inn í baðstofuna og viljað líta á afkvæmið nýfætt. Þá átti Aldís að hafa sagt þetta, sem var í minnum haft: „Skiptu þér nú ekkert af þessu, við Bergur eigum þetta barn!“ –

Veturinn 1835 um vertíðarbyrjun lagði Bergur leið sína út í Þorlákshöfn og falaðist eftir skipsrúmi. Samdist þá svo um, að hann gerðist háseti hjá hinum nafnkunna formanni Jóni Ólafssyni í Hraunshjáleigu, er stýrði einu af skipum Magnúsar Beinteinssonar. Lítt samdi þeim Bergi og Jóni formanni, og taldi Jón, að Bergur hefði ill áhrif á skipshöfnina. Þar kom, að Bergur stökk úr skiprúminu, en aðrir sögðu, að Jón formaður ræki hann, og var það óvanalegt í Þorlákshöfn. Mælt var, að Jón teldi sig feginn að vera laus við Berg, þótt dugandi sjómaður væri og allvel fiskinn, en vildi ekki vinna það fyrir, sökum ýmissa þverbresta í fari hans. Eigi hvarf Bergur úr Höfninni, þótt hann færi af skipi Jóns Ólafssonar. Gekk hann nú um sinn á milli formanna og fékk að róa hjá þeim einn og einn róður. Var margt um það skrafað, en Jón Ólafsson hafði í flimtingum við formenn þá, er leyfðu honum að fljóta með, sögðust þeir mundu það gera, meðan Magnús Beinteinsson gerði hann ekki „plássrækan“. Nokkru eftir að þessir atburðir gerðust, samdist svo á milli Bergs og Magnúsar bónda Magnússonar á Hrauni, að hann smíðaði veiðibát fyrir Magnús, en hann var sem kunnugt er sonur Magnúsar Beinteinssonar. En með því að í Þorlákshöfn var smíðahús og smiðja með nægum tækjum, bað Magnús á Hrauni föður sinn leyfis, að Bergur mætti vinna að smíðinni úti í Höfn. Gaf Magnús Beinteinsson leyfi til þess, þótt eigi væri honum um dvöl Bergs þar gefið, eftir að hann fór úr skiprúminu. Fékk Bergur nú að sofa á bæjardyralofti; voru þar tvö rúm ætluð ótignari gestum. Þar hafði Jón Ólafsson formaður sofið á vetrarvertíðum, áður en hann flutti að Hraunshjáleigu.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Það var eitt sinn, er Bergur hafði hafið bátssmíðina, að Jóni Ólafssyni varð gengið fyrir smiðjudyrnar í Þorlákshöfn. Sá hann þá, að hurð hneig að stöfum, en rauk úr strompi. Fýsti hann að vita, hver væri þar að smíðum, því að mjög hugaði hann hvatvíslega að öllum hlutum þar á staðnum, og var sem hann hefði auga á hverjum fingri, hvort sem hann var á landi eða sjó. Opnaði Jón nú smiðjudyrnar og birtist honum þá sjón, er hann starði á um stundarsakir sem steinilostinn. Var Bergur þar að hita byrðingsborð til beygingar yfir eldinum, en undir glóðinni blés heimasætan Ólöf frá Nesi. – Jón formaður gekk snúðugt á brott, án þess að mæla nokkurt orð. En fréttir hafði hann að segja í verbúðum þetta kvöld, er þóttu tíðindi, að Ólöf frá Nesi væri jafnframt hannyrðanáminu farin að stunda smiðjuverk og aðstoða Berg við bátasmíði. Um sömu mundir kom upp vísa þessi í Þorlákshöfn:

Er að smíða Bergur bát, –
bragðvís öllum konum.
Undurblíð og eftirlát
Ólöf virðist honum.

Nes

Nesborgir.

Eins og áður segir, hafði Bergur fengið að sofa í bæjardyraloftinu, og var hann þar einsamall. Það var eitt kvöld um háttatíma, að Magnúsi Beinteinssyni varð gengið fram til dyra að loka bænum og signa útihurð, sem venja hans var. Er hann hafði litið til veðurs og lokað bænum, hélt hann inn göngin. Þegar hann kom á móts við stigann upp í dyraloftið, virtist honum heyrast mannamál þar uppi. Hann staldraði snöggvast við og gekk síðan upp stigann að hurð þeirri, er var að sængurhúsinu. Var hún læst með skrá og stóð lykillinn í að utan. Magnús lauk hurðinni fyrirvaralaust upp og litaðist um hálfrökkvað hús. Lá Bergur þar í sæng sinni, en á rúmstokknum fyrir framan hann sat Ólöf frá Nesi og létu þau dátt hvort að öðru. En er Ólöf sá Magnús birtast í dyrunum, skipti það engum togum, að hún vatt sér eldsnöggt út og ofan stigann, svo að Magnús gat naumast áttað sig á viðbrögðunum, er hún skaust framhjá honum. – Einhvern pata hafði Magnús verið búinn að fá af samdrætti þeirra Bergs og Ólafar, en lítt trúað þeim sögum, álitið þær vera verbúðaslúður, er þagga þyrfti niður, en nú fannst honum hann fá fullar heimildir að söguburðinum. Hafði hann nú flutt ávítunarræðu nokkra yfir Bergi þarna í loftinu fyrir táldrátt við meyjuna. Kvað hann Berg skyldi tafarlaust næsta morgunn úr húsum víkja og eigi skyldi hann fá í verbúðum að vera. En eigi vildi hann reka hann á brott undir nóttina, dyraloftinu kvaðst hann nú læsa, svo að Bergur mætti ekki þaðan út komast án sinnar vitundar. Að því búnu gekk Magnús út, læsti hurðu og hafði lykilinn með sér. Einhverjir höfðu verið enn á fótum, er atburður þessi gerðist, og heyrt á samtal Magnúsar við Berg og barst sagan því út og beint til verbúðarmanna og þaðan flaug hún víða.

Nes

Nesborgir.

Næsta morgunn var Magnús árla á fótum, og var þá Bergur ferðbúinn. Fátt var um kveðjur við heimamenn og var fullyrt, að eigi hefði hann fengið tækifæri til að kveðja Ólöfu. Hélt Bergur þaðan að Hrauni og dvaldist þar um stund; var nú sem enn meira los kæmi á hann og slangraði hann um milli bæja í Hjallasókn og var ekkert dulur á dvöl sína í Þorlákshöfn og viðskiptin við heimasætuna frá Nesi. Fór svo fram um nokkrar vikur.

En það er af Ólöfu að segja, að hún dvaldist í Höfninni fram yfir sumarmál, en fór þá aftur heim að Nesi. Mælt var, að Magnúsi yrði það hugraun mikil, að hún skyldi hafa komist í kynni við Berg, því að nokkuð þótti litföróttur ferill hans. Ræddi hann þetta við Ólöfu með skynsamlegum fortölum, átaldi hana ekki, taldi hana nú reyndar sloppna úr klóm flagarans. En þar missást hinum hyggna Þorlákshafnarhúsbónda, sem nú mun sagt verða.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nokkru eftir að Bergur hafði orðið að víkja svo sviplega úr Höfninni, urðu menn þess varir, að Ólöfu barst sendibréf ofan úr Ölfusi. Eigi fóru sögur af því, að fólk innti hana eftir, hvaðan henni hefði borist bréfið og lá svo kyrrt um sinn. – En hér var það raunar Bergur, sem hafði tyllt sér einhvers staðar niður á flandri sínu og ritað Ólöfu bréf. Var efni þess innfjálgun mikil og þar tjáði hann henni, að eigi mætti hann lifa, án þess að ná fundi hennar. Og nú voru góð ráð dýr, eins og oft vill verða, þegar málum er svona komið Tiltók Bergur nú stað og stund, hvar þau mættu ná fundum saman og átt sem kallast á nútímamáli „stefnumót“. Og hann tiltók staðinn, sem hann taldi ákjósanlegan og öruggastan til samfundanna, en það var í Hleininni vestan við Hafnarberg. Bjart var orðið á nóttum og um annan tíma sólarhringsins var auðvitað ekki að ræða vegna mannaferða til þessa stefnumóts.

Nes

FERLIRsfélagar við gamla Nesvita.

Um klukkutíma gangur er heiman frá Þorlákshöfn út í Hleinina. Hún er af landi séð klapparhólsbunga há og mikil, en að framan standberg niður í sjó. Í gegnum hana þvera frá austri til vesturs er gjásprunga djúp og mikil með grasigrónum botni. Einhvern tíma í fyrndinni hefur hraunbungan klofnað og fremri hlutinn sjávarmeginn sigið frá, og hafa þá myndast göng í gegnum hana, eru þau sums staðar meir en mannhæðarhá. Til beggja handa þá inn er komið, er bergið víða með smástöllum og kvosum, þar sem máríerlur og smáfuglar byggja hreiður sín um varptímann. Hleinin er einn af sérkennilegustu stöðum, hvort sem á er litið af landi en þó einkum af sjó og ekki síst, þegar komið er inn í hana. Óvíða vermir sumarsólin betur á lognværum degi og friðsælli stað er vart hægt að hugsa sér. Ekkert glepur þar hugann nema bylgjugjálfrið undir bergveggnum og einstaka sinnum sjómávar er flögra þar yfir. Hleinin var athyglisverð sjófarendum og fiskimönnum á fyrri tíð. Framundan henni nokkuð undan er dýpi mikið og fiskisælt, og þar hlóðu formenn skip sín á fyrri tíð oft á stuttum tíma.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við Nes.

Nokkru eftir að heimsætunni frá Nesi hafði borist hið umgetna bréf frá Bergi, var það nótt eina, sem tiltekin hafði verið, að hún reis hljóðlega úr rekkju. Hún hefur sennilega haft á sér andvara nokkurn, ætlað fólki stundirnar, er það væri nýsofnað og svæfi sem fastast eftir vinnulangan dag. Hún laumaðist fáklædd niður loftstigann og þreif til utanyfirfata, er hún hafði falið um kvöldið, og smeygði sér í þau. Síðan laumaðist hún út úr bænum. Veður var kyrrt og milt. Ef til vill hefur einhver óróleiki bærst í brjósti hennar. En stefnt var til þess fundar, sem flestum mannlegum tilfinningum getur orðið yfirsterkari. Hún hljóp við fót og þótt sandurinn væri sums staðar gljúpur og léttstígir fætur hennar sykkju nokkuð í hann, sóttist ferðin furðu vel. Og ekki stóð á móttökum, sá kominn, er stefnt hafði henni þangað. Trúlega hefur hann verið mættur nokkru fyrr, og verið á gægjum milli vonar og ótta, hvort bitið yrði á öngul þann, er hann hafði á sinn hátt rennt í djúpið. Og stund samfundanna hefur eflaust liðið fljótt. Ekkert hefur truflað hana, nema ef verið hefur bylgjuskvaldrið undir Hleininni, sem orðið hefur eins konar undirspil athafnanna, er þarna gerðust. En skjótt hefur komið skilnaðarstund. Enginn veit nú, með hvaða hætti hún hefur gerst. Ætluðu þessar tvær persónur, hinn veraldvani maður, sem átti sér að baki næsta brosfellda sögu í kvennamálum, og hin tvítuga mær frá Nesi, sem ætla má að verið hafi lítt spjölluð af veröldinni og viðsjám hennar, að halda ástarfundum sínum áfram? Vafalítð hefur hún hugsað til þess, öðru máli má ætla að hafi gegnt um hann. En eitt er víst, að í Hleininni hittust þau ekki oftar. Og fyrir rismál var Ólöf komin aftur heim til Þorlákshafnar. Með sömu varkárni og hún hafði farið út úr bænum, læddist hún upp á baðstofuloftið og smeygði sér ofan í rúm sitt. Við það urðu einhverjir þó varir, sem voru farnir að losa svefninn. En eigi var því gaumur gefinn. Næsta dag sáu menn, að Ólöf var eitthvað miður sín, og þegar hún var innt eftir, hverju það sætti, kvaðst hún vera lítilsháttar lasin og jafnaði það sig, er frá leið. Nokkru síðar lauk dvöl Ólafar í Þorlákshöfn. Öllum hafði hún kynnst vel þar í vistinni, og kvöddu heimilismenn hana með söknuði. En þá hafði hún í trúnaði sagt einni vinkonu sinni í Höfninni af næturferðinni út í Hleinina, en sú gat ekki þagað yfir leyndarmálinu, og þá barst sagan út síðar meir.

Nes

Nesviti/Selvogsviti gamli.

Leið svo sumarið, að ekkert bar til tíðinda, sem nú er lengur munað. En um haustið gengu Selvogsmenn til altaris í Strandarkirkju. Þá var sálnahirðir þeirra séra Jón Vestmann. Hann var maður gáfaður og mannskyggn, einarður, en þó mildur í skapi. Ólöf í Nesi kraup við drottins borð eins og annað sóknarfólk í Selvogi. Það vakti almenna athygli í kirkjunni, að þegar hún reis upp af knéfallinu við gráturnar og gekk til sætis, var sem nokkurt fát kæmi á klerkinn og hik yrði á embættisgjörðinni og beindust rannsakandi augu hans að Ólöfu. Eftir embættið gáfu kirkjugestir henni flestir auga. Og því varð ekki leynt, sem klerkur hafði séð við útdeilinguna, stúlkan var ekki kona einsömul. Atburðurinn flaug út um alla sveitina og sama spurning var á allra vörum: hver ætti þungann, er hún gengi með. Ekki höfðu langir tímar liðið, þegar fréttin var komin til Þorlákshafnar.

„Signorinn“, Magnús Beinteinsson, setti hljóðann við þessa fregn, en eftir nokkra umhugsun lét hann söðla reiðhest sinn og tygjaðist reiðfötum. Hann hefur þá sjálfsagt farið í „bláu kvaíuna“, viðhafnar yfirhöfn sína, er hann bar jafnan til mannfunda, og förinni var stefnt út að Nesi í Selvogi. Fátt vissu menn, hvað gerðist í þeirri för. Sat Magnús lengi dags á einmælum við Gísla hreppstjóra, föður Ólafar, og síðla um kvöldið kom hann heim til Þorlákshafnar. Næsta dag bar gest að garði í Þorlákshöfn, það var Jón Ólafsson, formaður í Hraunshjáleigu, en hann mat Magnús mann mest þeirra, er verið höfðu í þjónustu hans. Jón snaraðist að Magnúsi og spurði hann almennra tíðinda. Magnús bað hann að ganga með sér inn í stofuna og læsti hann hurðinni, er þeir voru inn komnir. Ræddust þeir við og sagði Magnús Jóni, hversu komið væri fyrir Ólöfu og Bergur ætti barn það, er hún gengi með. Tók Magnús þá fram tvö staup, hellti á, kvað þá Jón skyldu drekka af og dreifa um stund andstreymi lífins. Að því búnu kvaddi Jón formaður og hélt leiðar sinnar.

Tíminn leið með sínum vanagangi. Eftir áramótin 1836, hinn 13. janúar, varð Ólöf í Nesi léttari. Hún fæddi sveinbarn, og var það vatni ausið eftir tvo daga og nefnt Jón. En ævidagar þessa barns urðu ekki margir. – Sama ár, 1836, ritar séra Jón Vestmann í kirkjubókina eftirfarandi: „Dáinn 14. september Jón Bergsson, dóttursonur hreppstjóra Gísla Þorlákssonar í Nesi, 36 vikna, úr landfarsótt.“

Nesviti

Nesviti.

Nú liðu svo fjögur ár, að engar sögur fara af Ólöfu. Hún dvaldist heima í Nesi og giftist ekki og verður horfið frá henni um sinn. En af Bergi er það að segja, að hann fór víða vistum um skeið, uns hann árið 1843 fluttist að Hraukhlöðu í Stokkseyrarhreppi og bjó þar til 1851. Hann dó í Einkofa á Eyrarbakka 5. mars 1861, 63 ára gamall „úr uppstígandi fótaveiki“, eins og komist er að orði í kirkjubókinni. Sem áður getur, átti Bergur tvö börn með konu sinni. Þá átti hann óskilgetinn son með Ingibjörgu Jónsdóttur, vinnukonu á Langstöðum í Flóa, og hét hann Gunnlaugur. Hann komst til þroskaára, en varð lítill lánsmaður, þótti snemma brellinn og hvinnskur og varð uppvís að gripdeildum. Þegar hann var vinnumaður að Laugardælum í Flóa stal hann ásamt félaga sínum hestum o.fl; ætluðu báðir að flýja til fjalla og gerast útilegumenn. Voru gripnir og dæmdir til þrælkunar í Kaupmannahafnarfestingu. Þaðan kom Gunnlaugur ekki aftur, mun hafa dáið áður en refsitímanum var lokið.

Nú kemur nýr maður til sögunnar. Hann hét Guðbrandur Torfason, fæddur 11. ágúst 1804 að Klafastöðum í Skilmannahreppi í Borgarfirði. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Torfi Sveinsson og Margrét Guðbrandsdóttir, og áttu þau fleiri börn. Árið 1816 eru þau hjón búandi að Dægru í Garðasókn á Akranesi. Það ár er Guðbrandur sonur þeirra fermdur, 14 ára gamall. Fær hann þá þann vitnisburð, að hann sé sæmilega að sér og hlýðinn. Þetta sama ár virðist hann flytjast úr foreldrahúsum og er síðan á annan áratug á ýmsum bæjum í Borgarfirði í vinnumennsku. Virðist heldur óstöðugur í vistum. Árið 1833 er hann sagður vinnumaður á Vatnshamri í Andakílshreppi. Þá lýsir Sigríður nokkur Jónsdóttir á Kollslæk hann föður að barni, sem hún ól og skírt var Guðmundur, og gekkst Guðbrandur við því. Næsta ár er hann kominn að Mávahlíð og þá fyrst talinn bóndi, ógiftur. Bústýra hans er þá talin Elín Sigurðardóttir, 25 ára gömul, er hjá þeim tveggja ára sonur Guðbrandar og dóttir, sem Elín átti, 7 ára gömul. Eigi mun búskapur þeirra Guðbrandar og Elínar hafa staðið nema um tvö ár. Þá flytja þau frá Mávahlíð og virðist samvistum þeirra þá lokið: börn munu þau eigi hafa átt saman.

Nes

Nesfjara.

Árið 1837 var Stóri-Núpur í Árnessýslu veittur Guðmundi presti Vigfússyni og fluttist hann þangað sama ár. Séra Guðmundur var fæddur að Gullberastöðum í Borgarfirði og var uppvaxtarár sín þar í héraði. Vel getur því verið, að þeir Guðbrandur Torfason hafi verið eitthvað kunnugir og fluttist hann nú með presti austur að Stóra-Núpi. En eigi dvaldist hann þar nema eitt ár. Þaðan fór hann austur að Þúfu í Landeyjum og virðist dveljast þar næstu tvö ár, en flytur þá suður í Útskálasókn. En um sömu mundir er hann kominn að Nesi í Selvogi. Þar mun hann hafa verið sjómaður vetrarvertíðina 1840 og þar verða kynni með þeim Ólöfu að Nesi og Guðbrandi. Um vorið, hinn 17. maí 1840, eru þau gefin saman í Strandarkirkju, að afstöðnum lýsingum af predikunarstóli, Guðbrandur Torfason, 36 ára, sjómaður í Nesi og Ólöf Gísladóttir, 26 ára á sama bæ. – Liðið höfðu um fjögur ár frá því að hún lenti í ævintýrunum með Bergi Guðmundssyni, þar til hún komst í höfn hjónabandsins.

Nes

Nes – legsteinn.

Þau Ólöf og Guðbrandur settust ekki að í Selvognum heldur fluttust þau sama vorið og þau giftust til Grindavíkur. Þar settust þau að í einu tómthúsbýlanna, er hét Vallarhús. Þau eignuðust tvö börn saman. Má nú fara fljótt yfir sögu. Þau Guðbrandur og Ólöf bjuggu saman til æviloka eða í næstum aldarfjórðung. Þau munu ávallt hafa hokrað í þurrabúðarkotum, lengstum í Garðinum og Vogunum, og að líkindum oftast við þröngan kost, eins og raunar allur þorri fólks við svipuð lífsskilyrði á 19. öld. Ólöf dó á Brekku í Kálfatjarnarsókn 10. júlí 1874, 61 árs, en Guðbrandur tæpu ári seinna, hinn 3. mars 1875 í Tumakoti, 70 ára gamall.

Aðalheimildamaður minn að þessum frásagnarþætti var Þórður hinn fróði á Tannastöðum. Hann festi sjálfur frásöguna aldrei á blað, svo að ég vissi, en ég hripaði hana eitt sinn á blöð eftir honum jafnóðum og hann sagði frá og hreinritaði að kveldi. Var það einkum um veru Bergs í Helli og í Þorlákshöfn og stefnumótið í Hleininni. Fæðingardagar, dánardagar og ártöl, sem viðkoma fólkinu í þættinum, eru að sjálfsögðu úr kirkjubókum og fleiri heimildarritum.

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=221&p=1&idx=7

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Brennisteinsfjöll

Á loftmynd má sjá allnokkur göt á landinu sunnan og austan við Vörðufell í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum. Tvö þeirra eru meira áberandi en önnur. Svo virðist sem í þeim geti verið leið undir hraunið úr Vörðufellsborgum og niður í eldra hraun er myndaði t.d. Lyngskjöld. Í honum má og sjá minni göt er gætu verið hluti af sömu hraunrásum.
JafndægurEkki eru mörg misseri síðan FERLIR uppgötvaði litskrúðugasta hraunhelli landsins undir Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Að fenginni reynslu er ljóst að engir slíkir finnast nema fara á svæðið og skoða.
Farið verður um Lyngskjöld, hann gaumgæfður, og síðan haldið upp í götin fyrrnefndu.
Svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Lyngskjöldur er tiltölulega slétt helluhraun, líklega úr gígum vestan við sunnanvert Vörðufell. Nýrra hraun runnið að hluta til yfir það úr gígum norðvestan við Vörðufell. Einnig úr gígum Vörðufellsborgar norðaustan við fellið.
Mikil, löng og djúp hrauntröð er suðvestan við Vörðufell sem er framhald hrauntraðar úr gígunum efra. Bæði rofnar hún sunnan við Vörðufell þar sem sjá má mikil göt í nýrra hrauninu, auk þess sem stórt jarðfall er ofar í tröðinni. Hvorutveggja var skoðað í þessari ferð.
LeiðinReyndar er ekki heiglum hent að sækja Brennisteinsfjöllin heim. Þegar farið er í þau til norðurs þarf að huga að ýmsu ef rata á rétta leið í úfnu apalhrauni og þykkum hraungambra. Um aldur þessara hrauna er ekki vita, en telja má líklegt að Lyngskjöldurinn geti verið ca. 3500 ára og nýrri hraunin um 1000-2000 ára gömul. Sennilega hefur svæðið allt verið mjög virt um langt skeið, með stuttum hléum á millum.
Vitað er að hraun rann í Brennisteinsfjöllum um árið 1000, m.a. úr Bláfeldi (Draugahlíðargíg). Það kom niður Stakkavíkurfjall vestan við Hlíðarvatn. Annars eru sunnanverð Bláfjöll eitt stórbrotið jarðeldasvæði þar sem hver eldstöðin og gígaröðin hefur gosið eftir aðra. Víða er miklir gos- og móbergshryggir, sem komið hafa upp á síðasta jökulskeiði. Þar er og að finna einstaka stapa frá fyrra ísaldarskeiði. Tilkomumikið er að sjá hvernig einstök gos á hryggjunum hafa náð að bræði sig upp í gegnum íshelluna og mynda grágrýtisstapakolla. Einnig hafa undirliggjandi gossrásir náð að bræða af sér ísinn til hliðanna og mynda litla grágrýtisstapa, s.s. Höfðann út frá Sandafjöllunum.

Leiðin

Ofan og utan í þessum gömlu hryggjum eru svo ótal eldstöðvar, sem gosið hafa á ýmsum tímum á löngu tímabili. Miklar hrauntraðir liggja niður frá upptökunum, hrauntjarnir hafa myndast og hraungúlpar orðið til. Hrauntraðirnar eru sumar bæði breiðar og djúpar. Sú, sem ferðinni var heitið í að þessu sinni, við suðvestanverð Sandafjöll, hafði greinilega fóðrað hraunbreiðuna neðanverða (sunnanverða) í allnokkurn tíma því hún hafði smám saman hlaðist upp yfir landið umhverfis og myndað allnokkurn hæðarhrygg. Samanlagt er hrauntröðin um 3 km að lengd.
Skoðuð voru jarðföllin í Lyngskyldi. Það neðsta er stórt umleikis. Undir því gæti verið hólf, en ekkert Gjallgat var að sjá niður í það. Skammt sunnar steypist hraunáin fram af Geitahlíð (sem aðrir kalla Herdísarvíkurfjallsenda). Ofar er gat niður í rásina, en hún er svo lág að skríða þarf þar inn og undir hraunið.
Haldið var upp og yfir hraungambra á nýrra hrauni. Fjárgata liggur þar yfir. Þegar komið var upp að Höfða var áð. Þrátt fyrir margar hæðir og klettaborgir á þessu svæði er á því ótrúlega lítið um örnefni. Gæti það verið, annars vegar vegna þess að svæðið hefur ekki verið smalað um langa tíð og örnefnin því gleymst, eða ekki hefur verið talin ástæða til að nefna kennileitin þar sem fáir hafa að jafnaði farið þar um.
Þegar komið var upp í götin, sem ferðinni var heitið í, kom í ljós stærðarinnar niðurfall hið efra, en minna hið neðra. Bæði voru full af snjó þrátt fyrir snjóleysu á jörðu. Ofan efra jarðfallsins er hrauntröðin langa og djúpa svo löng sem augað eygði.
HraundrottninginFarið var niður í jarðfallið. Reipi hafði verið tekið með, en nú var í því bæði það mikill snjór að auðvelt var að komast niður og svo var að sjá að hægt væri að komast niður með því að fara á réttum stað í það norðaustanvert. Efst norðanvert í jarðfallinu var rás inn undir hraunið. Þegar niður var komið reyndist rásin full af snjó. Ekki var því lengra haldið að þessu sinni. Neðst sunnanvert í jarðfallinu var snjór. Regndropar höfðu þó holað snjóinn svo stinga mátti löngum staf niður. Hann botnaði ekki þrátt fyrir lengdina. Þarna niðri var greinilega rás, sem kanna þyrfti nánar. Helli þessum var gefið nafnið „Jafndægur“ þar sem hann var uppgötvaður 21 mars þegar vorjafndægur voru þetta árið.
Haldið var upp eftir hrauntröðunni löngu. Efst í henni var lokuð rás, full af snjó.
TröllahárTil baka var haldið nokkuð vestar en komið hafði verið. Skoðaðir voru nokkrir fallegir eldgígar. Suðvestan undir Sandafellum er mikil eldstöð. Sunnan úr henni ganga stuttar, en hrikalegar, hrauntraðir. Ein þeirra hefur myndað stóra hrauntjörn. Nú rísa umleikis hana háir bergveggir er mynda hið ágætasta skjól.
Tröllahár óx á mosa. Hraundrottning leið um Gambrann. Gervigígur stóð einn í lágri kvos. Þar hafði hraunið greinilega runnið niður beggja vegna eldri hæðar, og myndað aðstæður fyrir tjörn. Á seinni stigum gossins hafði hraunstraumurinn náð að renna niður í tjörnina og myndaðist þá gervigígurinn.
Þessi hluti Brennisteinsfjalla er öllu jafnan mjög fáfarinn. Jafndægur er uppi á hæð og því langt í frá að vera auðfundin. Til að geta gengið að henni þarf annað hvort góða loftmynd eða heppni – eða vitneskju um hvar hellinn er að finna.
Gengnir voru 10.5 km. Mesta hæð var um 350 m.y.s. Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Gígur

Selvogsgata

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938 segir Ólafur Jóhannsson úr Ólafsey frá „Selvogi og umhverfi hans„. Lýsingin er áhugaverð miðað við þess tíma ferðamáta og auk þess góð ábending um að óþarfi er að burðast með pólitískar „byrgðar í bakpokanum“ á slíkum ferðalögum:

„Í góðviðriskaflanum í sept. fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur, að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni.

Hlíðarendi

Hlíðarendi í Ölfusi.

Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina.

Selvogsviti

Selvogsviti.

Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót.
Heiðin smállækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1940.

Þegar komið er um 2/3 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju. Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi grundir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t.d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið.
Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.
Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna.

Selvogur

Nes – loftmynd 1958.

Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það, hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum. Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en „ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr. er gera verður ráð fyrir að sje í reiðufje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar.
Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari. Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbörn sín, svo sem til bókasafns o.fl.

Nes

Nes í Selvogi.

Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum. Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar.
Blóðferill komúnismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson. Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – gata.

Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.

Strandardalur

Strandardalur.

Frá Selvogi ákvað jeg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi kl. 9, og ljet Guðmundur vitavörður mjer í tje hest og fylgdarmann upp að heiðinni, sem er rúmur klukkutíma gangur. Heiðarbrúnin er fremur lág að sunnanverðu, en svo smáhækkar hún upp að miðju, og liggur mjög hátt alla leið norður á brún. Á miðri heiðinni er mikið og fagurt víðsýni austur til Eyjafjalla, Vestmannaeyja og á haf út, og var sjerstaklega aðdáunarvert, að sjá lífgeislaflóð „Almættisins erindreka“ leika um hafflötinn. Suðurhluti heiðarinnar er mestmegnis vaxinn mosa og lyngi, en þegar norðar kemur er fjölbreyttari gróður, og er kjarngóð beit þar allvíða. Norðanverð heiðin er hallalítil, þar skiftast á „fjallshnúkaraðir“ og dalir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Í dölunum skiftast á, gamalt hraunflóð og valllendisgróður, og liggur leiðin um þetta.
Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðningar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega.
Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einnngis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
Á norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta:

Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi;
með galdrakyngi og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð.
Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engu miður.
Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.

Selvogsgata

Selvogsgata að Grindarskörðum.

Þegar komið er fram úr Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun. Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.
Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf.

Selvogsgata

Selvogsgatan neðanverð.

Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja.
Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1938, Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson frá Ólafsey, bls. 17-19.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Herdísarvík

Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.

„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.

Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.

Vogsósar

Vogsósar 1932.

Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.

Herd´siarvík

Herdísarvík 1898.

Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.

Herd´siarvík

Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.

Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.

Herdísarvík

Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.

Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdísarvík - skipshöfn 1919;

Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.

Sjóklæði

Sjóklæði.

Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.

Skrína

Skrína.

Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:

Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.
eða: : ’
Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.

Seilaról

Seilaról og -nál.

Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.

Þórarinn Árnason

Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.

Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.

Ólöf Sveinsdóttir

Ólöf Sveinsdóttir 1910.

Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Selvogur

Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.

Víghólsrétt?

Þórður Sveinsson sagði nýlega frá því að Selvogsbóndi einn hafi misst frá sér kind við Hásteina. Hún hafi síðan fundist í skúta skammt vestan við þá. Áður höfðu þrjár kindur horfið sporlaust á þessu svæði. Þær fundust síðar af tilviljun þegar maður einn var að ganga skammt vestan við girðinguna, sem þar er (var). Bein kindanna lágu framan við hellisop og virðast þær hafa fennt þar í kaf. Hvar opið er eða hvað er fyrir innan opið er ekki vitað. Ætlunin var m.a. að skoða svæðið.
Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.
Í Örnefnaskrá fyrir Nes segir m.a.: „Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð.  Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur. Prestskrókur er milli Nesstekkjar og Víghólsréttar.  Það er slægjublettur, og hefur prestur slegið þar einhvern tíma. Þar var PrestGapiskróksvarða, nú dottin niður.
Ofar en Víghóll er Fornagata. Á Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum  og neðan úr Selvogi, s.s. frá Þorkelsgerði og Bjarnastöðum. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“
Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta svæði umhverfis Bjarnastaðaflatir: „Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.
Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann FRétt við Fornugötuornugötuflatir.“
Í örnefnalýsingu fyrir Götu er getið um Bjarnastaðastekk o.fl.: „Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v. í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
Að þessu sinni var lagt af stað frá Fornugötu sunnan Fornugötuhliðs, gengið suður fyrir klapparhæðina þar sem gatnamótin á götunni eru, annars vegar til vesturs og austurs og hins vegar til suðvesturs niður að Selvogi. Nokkru sunnar var stefnan tekin til vesturs, að Víghól og áfram inn á og yfir Bjarnastaðaflatir. Mikil landeyðing hefur orðið á neðanverðum flötunum og neðan þeirra. Ekki var unnt að greina mannvirki á þeirri leið, þ.e. frá svonefndri Víghólsrétt. Nokkrar grónar vörður, sem fyrrum hafa verið allstórar, eru á ofanverðum Bjarnastaðaflötum, s.s. Digravarða. Ekki er óvarlegt að ætla að Nesstekkur geti verið Fornagata við Strandarhæðtvískipt tóft norðan í Fornugötu, örskammt vestan við gatnamótin. Sú tóft hefur ekki verið skýrð og hennar virðist ekki vera getið í örnefnaskrám. Ef þetta er Nesstekkur er hann í Neslandi, svo til alveg við mörkin.
Komið var í fjárstekknum Gapa og haldið inn á Fornugötu ofan hans. Gatan sést þar vel í holtinu. Hún liggur skammt norðan við Bjargarhelli. Litið var inn í hellinn, en götunni síðan fylgt áfram til austurs. Komið var að grónum hvammi og liggur gatan norðan hans. Hlaðið er í götukantinn ofan við hvamminn. Skammt suðaustan við hann er annar gróinn hvammur, sem eflaust hefur verið ágætur áningarstaður fyrrum þegar langar lestir manna og skepna liðuðust um hæðina. Þarna sunnan við götuna er rétt. Líklega hefur hún verið notuð sem aðhald þegar reka þurfti fé þessa leið. Skammt austar og norðaustar eru allnokkrar vörður, líklega á landamerkjum.
Fornugötu var fylgt áfram til austurs, en stefnan síðan tekin upp með girðingunni fyrrnefndu á mörkum Ness og Bjarnastaða. Henni var fylgt upp að efstu Hásteinum. Ætlunin var að finna skúta þann eða helli sem Þórður Sveinsson hafði sagt frá vikunni áður. Þegar komið var upp fyrir Hásteina mátti sjá hlaðið aðhald norðvestan við þá. Tóftir eru og undir hæsta Hásteini. Eftir stutta göngu til vesturs var komið að litlu jarðfalli og skúta. Þar gæti verið um að ræða skúta þann sem fyrr var nefndur. Innihaldið gæti vel rúmað 10 kindur. Vestan við hann var hlaðið skjól, líklega refaskyttu. Varða var þar skammt frá, yfir greni. Á bakaleiðinni var gengið fram á nokkur merkt greni. Nýleg fótspor voru eftir ref frá vestanverðum Hásteinum með stefnu á Strandarkirkju.
Annað jarðfall fannst nokkuð suðvestar, í sömu fjarlægð frá girðingunni og sá efri. Gróið var umhverfis, en inni var rými fyrir 15-20 kindur. Engin bein sáust í eða við framangreinda skúta, en nokkur mold var á gólfum beggja.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Nes, Bjarnastaði, Þorkelsgerði og Götu.

Bjarnastaðastekkur

Bjarnastaðastekkur.

Festarfjall

Þegar ströndinni er fylgt má víða sjá hella, sem sjórinn hefur gert inn í bergið eða sem hluta hraunrása.
Viðarhellir er milli Þorlákshafnar og Selvogs. Takmörk nefndra sveita eru við Hraunsvíkhellinn. Hann er dæmigerður hellir í hömrum við sjó. Ægir brýtur sér leið inn undir bergið og þeytir síðan þakinu af skammt ofar, bæði með þunga sínum og þrýstingi. Þegar staðið er á bjarginu í ágjöf má bæði sjá og skynja afl hafsins því segja má að landið leiki á reiðiskjálfi.
Yst undir Hellisbergi við Hlíðarenda ofan Þorlákshafnar er Hellir, eða Hlíðarendahellir, ágætt fjárból. Þótt hellirinn sé nú langt uppi í landi er hann sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m. langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Við með suðurströndinni má sjá skúta í fjallsjöðrum ofan strandarinnar. Landið þarna hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Eftir að síðustu ísöld lauk voru móbergshryggirnir og einstök fjöll áberandi norðaustur eftir og með Atlantshafshryggnum frá suðvestri. Síðan mynduðu dyngjurnar mikil hraunflæmi og fylltu að og út frá þeim. Loks bættu stærri og smærri sprungureinagos um betur. Nýjahraun, sem álverið í Straumsvík stendur á, rann t.a.m. árið 1151. Síðasta stóra gosið var á 13. öld, en á Reykjanesskaganum hefur gosið fram á 18. öld. Síðan hefur eldvirknin dvínað, en þar með er ekki sagt að henni sé lokið. Eldgos geta orðið hvenær sem er, en á líklega eftir að koma öllum jafn mikið á óvart þegar það verður.
StraumsvíkSjávarhellar í Herdísarvíkurbjargi og berginu milli Selatanga og Ísólfsskála eru allmargir, auk hella í Festisfjalli, ofan við Hraunsvík, í Staðarbergi og Hafnabergi. Í suma er hægt að komast með sæmilegu móti, en við aðra er erfitt um vik.
Grunur hefur verið um mikinn sjávarhelli utan við Straumsvík er náð gæti inn undir álverið og hugsanlega eitthvað up í hraunið. Vonir eru bundnar um samvinnu við kafara að kanna svæðið með ströndinni og huga að mögulegri innför. Að sögn kafara, sem hafa skoðað svæðið eru þar víða rásir inn undir bergið, en ekki er að heyra að þær hafi verið kannaðar með það fyrir augum að þar gætu verið verulegir hraunhellar.
Ef eldri ljósmyndum af álverinu í Straumsvík má sjá þrjú síló (rauð/hvít). Frásögn er af því að þegar eitt sílóið tók upp á því að halla var borað undir það. Þá kom í ljós tómarúm þar undir. Var brugðið á það ráð að dæla steypu niður um gatið daglangt. Þegar einn starfsmannanna gekk fram á sjávarkampinn sá hann hvar sjórinn var allur steypulitaður framanvert. Var verkið þá stöðvað. Sílóið var þó notað enn um hríð, en síðan rifið. Nú er þarna einungis tvö síló.
Ef þarna er stór sjávarhellir með öllu sem fylgt getur slíku jarðfræðifyrirbæri væri það einstakt í heiminum.
Sjávarhellir

Þorlákshöfn

Í Sveitarstjórnarmálum 1976 fjallar Gunnar Markússon um „Ágrip af sögu Þorlákshafnar„:

Þorlákshöfn

Gunnar Markússon.

„Sögu Þorlákshafnar má skipta í tvo höfuðkafla — sögu sveitabýlisins og sögu sjávarþorpsins.
Upphafið að sögu sveitabýlisins er svo algjörlega hulið í móðu fjarskans, að ekki er einu sinni á hreinu með nafn staðarins. Munnmæli herma, að bær hér hafi í upphafi heitið Elliðahöfn og verið kenndur við skip það, er Ketilbjörn gamli kom á frá Noregi — það sama og Elliðaárnar eru við kenndar. Hvort svo hefir verið eða ekki, verður víst seint upplýst. Þó má benda á, að Þórdís, systir Skafta lögsögumanns á Hjalla, varð þriðja kona Gissurar hvíta. Þeirra son var Ísleifur biskup. Hafi hinn kristni goði á Hjalla verið að gera lögbýli úr verbúðum þeim og hrófum, sem hann hlýtur að hafa átt hér niðri á ströndinni, um svipað leyti og hann var að gefa dóttur sína sonarsyni Ketilbjarnar — þeim manni, er fáum árum áður átti sinn stóra þátt í kristnitökunni á Þingvöllum, — er varla hægt að segja, að seilzt hafi verið um hurð til lokunnar, þótt nýbýlið væri kennt við frægasta farkost í ætt brúðguma. Þau sömu munnmæli, sem herma, að bær hér hafi heitið Elliðahöfn, geta þess og, að bóndi hér hafi í hafsnauð heitið á heilagan Þorlák sér og félögum sínum til fulltingis og heimkominn hafi hann breytt nafni á bæ sínum og kallað Þorlákshöfn. Sitthvað gæti verið missagt í fræðum þessum, en varla er hægt að gera ráð fyrir, að bær hafi verið kenndur við heilagan Þorlák fyrr en 20. júlí 1198. Þann dag var helgur dómur hans upp tekinn og prestar samþykktu áheit á hann.

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Þess skal að lokum getið, að í lögmannsannál er sagt, að árið 1360 hafi Gyrður Skálholtsbiskup ætlað til Noregs fjölmennur á skipi litlu. Skipið var ekki komið úr landsýn, er það sökk. Fyrir áheit á heilagan Þorlák björguðust menn allir, og silfurkistu dómkirkjunnar rak á land á Eyrum. Vel má vera, að hér sé að finna kveikjuna að munnmælasögunni og nafnaskiptunum — ef verið hafa. En hvað sem bærinn hét, þá fer það ekki á milli mála, að hér var búið og oftast stórt. Tún voru tödd og slegin, búsmala gætt og hann nytjaður. Konur komu ull í fat og mjólk í mat, og karlar gættu útiverka til lands og sjávar. Börn fæddust og eldra fólk safnaðist til feðra sinna.
Kynslóðir komu og kynslóðir fóru, þar til komið var fram um 1950, þá hvarf síðasta bændafólkið héðan með amboð sín og áhöld — fénað og föggur.
Þá lauk sögu sveitabýlisins.

Mannskaðar og mannbjörg

Þorlákshöfn

Þorlákhöfn – kort frá 1908.

Auður in djúpúðga lét gera knörr einn mikinn. Hún hafði með sér frændlið sitt allt, það er á lífi var, þar á meðal 20 karla. Hún hafði og auð fjár á skipinu.
Hún kom skipi sínu á Vikraskeið. Þar braut skipið, en menn héldust og fé. Vikraskeið heitir nú Hafnarskeið. Þannig er elzta frásögn, sem til er úr nágrenni Þorlákshafnar, tengd sjónum, og fer vel á því. Þetta er þó ekki í eina sinnið, sem getið er um gifturíka björgun mannslífa hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – lending fyrrum.

Laugardaginn 5. nóvember 1718 strandaði danska herskipið Gautaborg á Hafnarskeiði. Þá björguðu bændur hér úr grenndinni rúmlega 170 manns á land.
Hinn 16. marz árið 1895 réru öll skip, sem þá voru gerð út frá Þorlákshöfn, en þau voru rúmlega 20. Þann sama dag réru einnig um 60 skip frá öðrum verstöðvum í Árnessýslu. Um miðjan dag brimaði svo snögglega, að einungis tugur skipa náði lendingu í heimavör austan Ölfusár. — öll hin skipin, rúmir sjö tugir, urðu að lenda inn á milli Skarfs og Flataskers. Þann dag áttu nær 1000 karlmenn á bezta aldri Norðurvörinni hér líf að launa. Ekki þarf að ræða, hvert afhroð sunnlenzkar sveitir hefðu goldið, ef hennar — og þeirra manna, er þá stjórnuðu hér — hefði ekki notið við.
En því miður geymir saga Þorlákshafnar ekki aðeins frásögur um sigra í baráttunni við Ægi. Þar er líka getið um ósigra og mannskaða. Á árunum 1840—90 fórust tvö skip héðan með um 30 manns innanborðs, og á sama tíma fórst um tugur manna í lendingu hér.

Verstöð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þess er áður getið, að fyrstu mannabústaðirnir hér hafi verið verbúðir. Þannig mun starf hinna fyrstu manna hér hafa verið það sama og enn er sá burðarás, er afkoman hvílir á, að afla fiskjar og verka hann.
En veiðiskapur þessi og verkun hefir aldrei verið neitt einkamál þeirra, er hér hafa búið. Höfuðkirkjur og stórbýli sýslunnar áttu hér sína aðstöðu.
Þess er t. d. getið, að árið 1543 hafi Skálholtsstóll átt hér um 40 hestburði af fiski. Stóllinn átti um aldir ítök hér á staðnum — hvort þau hafi verið hluti af heimanmundi Þórdísar á Hjalla, veit ég ekki — en gömul eru þau. Og þegar jarðir Skálholtsstóls voru seldar um árið 1800, var Þorlákshöfn ein af þeim.
S

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

tórbóndinn sendi nokkra af vinnumönnum sínum hingað, og einyrkinn skildi búsmala sinn eftir í umsjá konu og barna og fór í verið. Þannig varð Höfnin einn af hornsteinum undir afkomu manna í héraðinu öllu. Ekki mun kunnugt um tölu vermanna hér, fyrr en komið er fram um miðja síðustu öld, en þá var ekkert óalgengt, að þeir væru 300—400 að tölu.
Framan af öldum var handfærið eina tækið, sem notað var til að ná fiski úr sjó. Árið 1800 gerði Lambertsen, kaupmaður á Eyrarbakka, tilraun með netaveiði hér útifyrir. Sú tilraun gaf góða raun, en þetta nýmæli mætti svo mikilli andspyrnu, að rúm öld leið, þangað til aftur var róið með net hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – skipshöfn um 1900.

Um 1880 var farið að nota hér línu síðari hluta vetrar. Árið 1903 reyndi Gísli Gíslason, þá bóndi í Óseyrarnesi að veiða fisk í net og tókst vel. Sú mótmælaalda, sem þá reis, var brotin á bak aftur á nokkrum árum, og árið 1909 voru netin orðin aðal veiðarfærið.
Það lætur að líkum, að ekki var fremur hægt að róa alla daga vertíðarinnar um aldamót en nú er. Vermenn urðu því að sjá sér fyrir einhverju að gera í tómstundum, sem því miður urðu stundum helzt til margar. Gat jafnvel komið fyrir, að einungis væri hægt að róa 30 af þessum 90—100 dögum, sem vertíðin stóð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – áhöfn um 1920.

Sumir notuðu tómstundirnar til þess að gera ýmsa smáhluti, sem heimilum þeirra mátti að gagni koma. Aðrir spiluðu eða glímdu og fyrirkom, að leikfimi var iðkuð. Þá starfaði hér lestrarfélag og söngfélag. Einnig var málfundafélag hér um og eftir aldamótin. Það hóf m.a. undirbúning að byggingu sjúkraskýlis hér á staðnum. Nokkru var safnað af peningum, og á vertíðinni árið 1916 var grunnurinn gerður og grindin reist.
Það vor veitti sýslusjóður 200 kr. til þessara framkvæmda. En því miður fauk grindin og þar með vonin um sjúkraskýli hér, en fé það, er til var, var lagt í sjúkrahússbygginguna að Litlahrauni, en, eins og kunnugt er, voru konur þær, er að þeirri byggingu stóðu, of stórhuga fyrir sína samtíð, og byggingin endaði sem fangelsi, en ekki sjúkrahús.

Verzlunarstaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Í Íslendingasögunum er hvergi getið um skipakomur til Þorlákshafnar. Fyrsta örugga heimildin um kaupskip hér er frá árinu 1533, þá segist landfógeti hafa tekið við 30 lýbskum mörkum frá tilteknum kaupmanni liggjandi í „Thorlacershaffen“.
Ekki er ljóst, hvort skip þetta var statt hérna fyrir einhverja tilviljun eða algengt var, að kaupskapur færi fram hér á víkinni. Okkur, sem átt höfum heima hér í Þorlákshöfn fleiri eða færri undanfarinna ára og sótt svo til allar okkar daglegu nauðþurftir í þessa einu búð, sem hér hefir verið, gæti virzt, að ekki þyrfti mörg orð til þess að rekja verzlunarsögu staðarins. En það er öðru nær.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – bærinn 1911.

Hér er um að ræða nær tveggja alda sögu — sögu um baráttu hins veika við hinn sterka — sögu um uppreisn hins kúgaða gegn kúgara sínum —, en fæst af því verður rakið hér.
Hinn 13. júní árið 1787 var gefin út í Kaupmannahöfn konungleg tilskipun um, að verzlun á Íslandi skuli frjáls öllum þegnum Danakonungs. Þá hófst verzlunarsaga Þorlákshafnar. „Spekulantar“ lögðust hér inn á víkina, en voru illa séðir af Bakkakaupmanni — var jafnvel dæmi til, að þeir héldu sig heldur vestur á Keflavík, þar sem þeir blöstu ekki eins við Bakkanum. Sumrin 1789 og 1790 fengu þrír Árnesingar skip hingað, en Petersen Bakkakaupmanni tókst að fá verzlunarleyfin dæmd af þeim félögum.
Árið 1845 var lögð fram á Alþingi bænaskrá undirrituð af 142 sunnlenzkum bændum, þar sem óskað var eftir, að Þorlákshöfn verði löggilt sem verzlunarstaður.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1918.

Vorið 1875 samþykkti fjölmennur bændafundur, haldinn í Hraungerði, að óska hins sama, og þá um sumarið flutti Þorlákur Guðmundsson frumvarp til laga um verzlunarstað í Þorlákshöfn. Frumvarpið var samþykkt í neðri deild. Þegar það svo kom til efri deildar, gekk þáverandi landlæknir svo hreinlega af því dauðu, að það var fellt við fyrstu umræðu.

Landlæknir sagðist hafa verið læknir á Eyrarbakka um eins árs skeið og gæti því borið um, að Þorlákshöfn væri einn mesti brimrass á öllu landinu, nema ef vera skyldi, að Svörtuloft væru lakari. Það mætti alveg eins setja lög um verzlunarstað á tunglinu eins og í Þorlákshöfn.
Hins gat læknirinn ekki, að hann hafði þetta ár sitt á Bakkanum verið meiri gistivinur í húsi kaupmannsins en í kotum karlanna, sem áttu lendingunum í Þorlákshöfn líf að launa. Þorlákur tók málið upp aftur á þinginu 1877 og daginn eftir Þorláksmessu á sumri það ár var samþykkt, að Þorlákshöfn í Árnessýslu skuli vera löggiltur verzlunarstaður frá 20. júní 1878. Verzlun hér hefir þó aldrei verið mikil. Þó hafði Jón Árnason hér sölubúð um skeið, og eftir að þorpið myndaðist, hefir Kaupfélag Árnesinga rekið einu verzlunina, þar til nú, að komin er önnur matvöruverzlun, brauðgerð og tvær sérverzlanir.

Lendingaraðstaða — hafnargerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – loftmynd 1958.

Tvær voru lendingar í Þorlákshöfn, Norður- og Suðurvör, og voru þær um mitt Hafnarnes austanvert. Varir þessar höfðu tvo stóra kosti. Þann fyrstan, að siglingaleiðin að þeim var hrein og skerjalaus. Og hin, sem oftar skipti sköpum um gildi þeirra, að þar var sjór ekki ófær, nema rok væri af suðaustri eða um 30 gráður hvoru megin við þá átt. Nokkru áður en vindur nær hásuðri, verður hann nesfastur og Flóinn tekur við mestu látunum, áður en áttin verður þver austan. En auðvitað getur lagt kviku hér inn á víkina í öðrum áttum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – bátar í nausti.

Á fyrstu árum þessarar aldar samþykkti sýslunefnd Árnessýslu að láta fara fram athugun á hafnarstæði beggja vegna Ölfusár. Thorvald Krabbe, þáverandi landsverkfræðingur, gerði þessa athugun á árunum 1907—1909. Honum fannst ekki gerlegt að leggja í framkvæmdir austan ár, en gerði tillögur um hafnargerð í Þorlákshöfn.
Árið 1913 veitti Alþingi Fiskveiðifélagi Íslands1000 kr. styrk til þess að rannsaka og gera áætlun um vélabátahöfn í Þorlákshöfn. Jón Þorláksson, sem þá var orðinn landsverkfræðingur, gerði þessa áætlun.
Árið eftir flutti Matthías Ólafsson, þingmaður Vestur-Ísfirðinga og starfsmaður fiskifélagsins, tillögu þess efnis, að landssjóður veitti 20.000 króna styrk til hafnargerðar hér og auk þess yrðu lánaðar 40.000 krónur úr viðlagasjóði til sömu framkvæmda.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – santfiskbreiður.

Tillaga þessi fór til sjávarútvegsnefndar, sem lagði til, að landssjóður keypti jörðina og léti gera þar landshöfn, og er það fyrsta sinni, sem það orð er notað um höfnina hér, svo mér sé kunnugt.
Þegar þessi tillaga var komin fram, dró Matthías tillögu sína til baka. Tillaga nefndarinnar var mikið rædd og var loks ákveðið að vísa málinu til landsstjórnarinnar.
En þingsalirnir voru ekki eini vettvangurinn fyrir umræður um hafnarmál Þorlákshafnar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Hinn 18. júlí 1914 var mest öll forsíða blaðsins Suðurland helguð þessum málum og þá komizt að þeirri niðurstöðu, að vélbátaútgerð á Eyrum nyti sín ekki til fulls, nema til kæmi í Þorlákshöfn hafnaraðstaða, sem þeir gætu leitað til í viðlögum eins og verið hafði með áraskipin.
Hinn 11. marz árið 1916 ritar Gestur á Hæli langa grein í Suðurlandið. Þessi grein er um samgöngumál Sunnlendinga. Þar kemst Gestur að þeirri niðurstöðu, að það fyrsta, sem gera þurfi í þeim málum, sé að byggja höfn í Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911.

Það ár var sýslufundur Árnessýslu haldinn um mánaðamótin marz—apríl. Þar lagði Gestur fram tillögu um hafnargerð í Þorlákshöfn og samgöngur út frá henni.
Og á aukafundi sýslunefndar hinn 17. júní um sumarið var samþykkt að kaupa jörðina Þorlákshöfn og gera þar höfn, sem tæki 175 fiskibáta og a. m. k. 2 hafskip. Samþykkt þessi var bundin því skilyrði, að verð jarðar og hafnar færi ekki fram úr einni milljón króna, og á því mun málið hafa strandað. Þetta sumar var mikið skrifað um hafnarmálin hér, og er ekki tækifæri til að tíunda það nú. Þó vil ég ekki láta ógetið greinar, sem danski faktorinn á Eyrarbakka skrifaði í Suðurlandið hinn 24. apríl um vorið. Greinin hefst á orðunum „vel lýst mér á hugmyndir Gests um höfn í Þorlákshöfn“. Síðan er gerður samanburður á aðstöðu til hafnargerðar hér og á Eyrarbakka. Það fer ekki á milli mála, að þar heldur náttúrufræðingurinn Pétur Nielsen á pennanum, en arftaki dönsku einokunarkaupmannanna hefir verið rekinn út í horn, meðan greinin var skrifuð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Árið 1917 var samþykkt þingályktunartillaga um, að gerð verði áætlun um fulltrausta hafnargerð í Þorlákshöfn og hvað slíkt verk muni kosta. N.P. Kirk, verkfræðingi, var falið að vinna þetta verk, og skilaði hann áætlun árið 1919. Hann lagði til, að gerður yrði 635 m langur suðurgarður og 860 m norðurgarður. Inni í höfninni kæmi svo „T“ laga bryggja, og væri landleggurinn 183 m, en þverbryggjan 60 m. Kostnað áætlaði hann 3.830.177 kr. Sumarið 1929 var 20 m löng og 4 m breið bryggja gerð norðan við Norðurvörina. Sumarið eftir var hún lengd um 10 m.
Sumarið 1935 var Flataskersgarðurinn gerður. Hann var 90 m langur, teiknaður af Jóni Þorlákssyni til þess að taka skakkafallið af Norðurvörinni. Árið 1938 var hafin gerð Suðurvararbryggju. Var unnið við hana öðru hverju næsta hálfan annan áratuginn, og var hún þá orðin 175 m löng með tveggja metra háum skjólvegg á ytri brún.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

Vorið 1962 var enn hafizt handa um hafnargerð hér. Þeim áfanga lauk árið 1969. Þá var Suðurvararbryggja orðin 240 metrar. Norðurvararbryggjan var þá orðin „L“ laga. Frá landi var hún 195 m, en þverleggurinn 100 m. Fljótlega eftir að Heimaeyjargosið hófst, var farið að huga að bættri hafnaraðstöðu á suðurströndinni. Árangur þeirra bollalegginga var, að Alþjóðabankinn lánaði fé til þriggja hafna, en lang mest til Þorlákshafnar.
Hinn 1. september árið 1974 hóf verktakafyrirtækið Ístak framkvæmdir við þann áfanga hafnargerðar hér, sem nú er unnið að, og áætlað er, að verði lokið á þessu ári, en það er stærsta átak, sem gert hefir verið í einu við hafnarbyggingu hér á landi.

Jörðin Þorlákshöfn

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Sjálfsagt hefir oltið á ýmsu um eignarhald á jörðinni Þorlákshöfn, eins og á öðrum góðjörðum landsins. Kirkja og klaustur — biskupar og braskarar hafa áreiðanlega átt hana öldum saman. En stundum hafa setið hér sjálfseignarbændur.
Árið 1818 keypti Magnús Beinteinsson, þá bóndi hér, jörðina, og í Suðurlandi 8. des. árið 1910 er þess getið, að Jón Árnason, sonarsonur Magnúsar, hafi þá fyrir fáum dögum selt Þorleifi Guðmundssyni frá Háeyri höfuðból sitt. Jón sat hér þó til dauðadags, 4. nóvember 1912.

Þorlákshöfn

Jón Árnason og frú.

Um það leyti, er Þorleifur keypti jörðina, hafði franskt útgerðarfyrirtæki mikinn áhuga á að koma sér upp útgerðarstöð hér. Það sendi hingað verkfræðinga árið 1911, og sögur voru á lofti um, að Þorleifur hafi selt Frökkunum hluta jarðarinnar.
Upp úr 1920 kemst Þorlákshöfn svo í eigu Reykvíkinga og er það, þangað til árið 1934, að Kaupfélag Árnesinga, undir stjórn Egils Thorarensen, kaupir hana. Tólf árum síðar kaupa svo Árnes- og Rangárvallasýslur staðinn, og á þeirra vegum var ráðizt í hafnarframkvæmdirnar á árunum 1946 og 1962.
Árið 1966 var höfnin gerð að landshöfn, og eignaðist ríkið þá 80 m breiða spildu meðfram ströndinni. Árið 1971 keypti svo Ölfushreppur jörðina að undanskildum nokkrum hekturum, sem sýslurnar eiga enn.

Dýrasta jörð á Íslandi
ÞorlákshöfnÁ árunum kringum 1920 var unnið að nýju fasteignamati fyrir landið í heild. Mat þetta tók gildi 1. apríl 1922 og var Þorlákshöfn þá dýrasta jörð á Íslandi, metan á 118.000 kr. auk bygginga.
Hve hátt land hér var virt, sést bezt á því, að allt land Árnessýslu var þá metið á tæplega tvær og einn fjórða úr milljón, og að 6 af hreppum sýslunnar voru hver um sig lægra virtir en landið hér. Skálholtsland var þá virt á 9.700 kr. og Oddi á Rangárvöllum á 8.400, og allt land Skarðshrepps í Dalasýslu var talið 400 kr. minna virði en sandurinn hér og trúlegt, að Birni á Skarði og Ólöfu ríku hefði þótt það þunnur þrettándi. Var þá hægt að moka hér upp gulli á þessum árum? Ekki úr sandinum, en þeir, sem að matinu unnu, gerðu sér ljóst, að mikið gull var geymt í Selvogsbanka, og hér höfðu verið hönnuð þau mannvirki, er þurfti til að taka á móti því.

Meitillinn hf. stofnaður
ÞorlákshöfnÁrið 1949 var Meitillinn h.f. stofnaður að frumkvæði Egils Thorarensen. Í september það ár kom fyrsta skip þess fyrirtækis hingað. Var það 22 tonna eikarbátur, er Brynjólfur hét. Félagið hóf svo útgerð á vertíðinni 1950. Þann vetur voru bátar þess 5 og hétu allir nöfnum Skálholtsbiskupa. Flaggskip þess flota var Þorlákur, er var 27 tonn. Samtals voru þessir 5 bátar 104 tonn. Fyrstu starfsmenn Meitilsins settust að í bæjarhúsum bóndans. Þannig sátu gamli og nýi tíminn hér í tvíbýli um skeið og skildu í bróðerni.
Á manntalinu árið 1950 voru skráðir hér í Þorlákshöfn 4 karlmenn, en engin kona. Árið eftir, þegar fyrstu húsinu voru reist, voru komnar hingað tvær fjölskyldur og 7 einhleypingar, alls 14 manns. Nú eru hér 834 íbúar með lögheimili, þar af 406 innan við tvítugt, en aðeins 5, sem náð hafa áttræðisaldri. Meðalaldur manna hér er nú 24 ár, og má segja, að sá hafi verið meðalaldur íbúanna öll árin, sem þorp hefir staðið hér.

Barnafræðsla

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamla skólahúsið.

Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavistarskóla fyrir börn í Hveragerði. Þar áttu bændabörnin héðan að stunda sitt skyldunám, eins og önnur börn sveitarinnar.
Fyrstu ár þorpsins hér voru engin skólaskyld börn á staðnum. Það var ekki fyrr en á árunum 1954—1955, sem þurfti að fara að hugsa um barnafræðslu í Þorlákshöfn. Þá varð hver að bjarga sér, eins og bezt hann gat. Einu barni var komið fyrir á Selfossi, og með öðru var lesið heima.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn fyrrum.

Sumarið 1956 voru hér 9 skólaskyld börn. Þá um haustið var sett hér á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði og Kristján frá Djúpalæk ráðinn til kennslunnar.
Fram að jólum var kennt í sjóbúð, í janúar var verið í skúr, sem reyndist óhæfur. Þá var flutt í íbúð, sem útibússtjóra K.Á. hafði verið ætluð. Svona gekk þetta næstu árin. Kennt var, þar sem hægt var að fá inni fyrir nemendur og kennara.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Gamli bærinn 1961.

Í upphafi ársins 1962 var flutt í skólahús staðarins. Byggingu þess var þó ekki lengra komið en svo, að mótatimbur klætt tjörupappa þénaði sem útihurð og rúðugler. Útbúnaður þessi hélt vindi og vatni að mestu utan veggja, en rafmagn og olía gáfu húsinu birtu og yl.
Þetta vor luku 37 börn prófi hér. Þá var Þorlákshöfn gerð að sérstöku skólahverfi. Aukning nemenda hefir verið stöðug og nú, þegar hér hefir verið kennt í rétt 20 ár, er tala nemenda 170. Vantar aðeins tug til að tvítugur standi skólinn með 20 sinnum fleiri nemendum en hann byrjaði með. Kennarar voru 9 í vetur eða jafnmargir og nemendurnir fyrsta árið.

Gamall kirkjustaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Á fyrri öldum, þegar hestar postulanna máttu heita eina farartæki alþýðu hér á landi, voru kirkjur miklu víðar en nú er. Þorlákshöfn er einn þessara gömlu kirkjustaða.
Hvenær eða hve lengi hér stóð kirkja, er mér ekki kunnugt, en víst er, að hér var hálfkirkja fram yfir miðja 18. öldina.
Kirkjugarður var fyrir norðan bæjarhúsin, og voru flutt þaðan að Hjalla bein, er upp komu í jarðraski, er þar var gert í sambandi við hafnargerðina árið 1962. Hökull úr Þorlákshafnarkirkju er á minjasafninu á Selfossi.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn-gamli bærinn.

Mér er fullljóst, að mikið vantar á að sögu Þorlákshafnar hafi verið gerð tæmandi skil. Til þess að ég geti gert það, vantar mig tvennt, sem ekki verður án verið, en það er þekking og tími til að raða saman þeim sprekum, sem rekið hafa á fjörur mínar. En enginn Sunnlendingur lætur hug fallast, þótt ekki sé alhirt um höfuðdag, og það, sem við ekki komum í verk í dag, munu afkomendur okkar gera á morgun.
Þegar Þorlákur Guðmundsson, 2. þingmaður Árnesinga, mælti fyrir þeirri tillögu sinni á Alþingi árið 1875, að hér mætti verða verzlunarstaður, sagði hann m.a.: „Það mun fara með þetta mál sem hvert annað, að væri það á skynsamlegum ástæðum byggt, mundi það hafa framgang, en væri það af heimsku stofnað, mundi það með henni fyrirfarast.“
Það er von mín, að sú verði gifta Þorlákshafnar, að hvert það mál, sem er á skynsamlegum ástæðum byggt, nái fram að ganga, en það, sem er af heimsku til stofnað, muni með heimskunni fyrirfarast.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 3. hefti, 01.06.1976, Ágrip af sögu Þorlákshafnar – Gunnar Markússon, bls. 109-115.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Í Sjómannadagsblaðinu 1982 er fjallað um „Sögu Þorlákshafnar„:

Höfundur Þorlákshafnar, höfðingjarnir tveir

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

„Þorlákshöfn mun draga nafn sitt af Þorláki helga, er biskup var í Skálholti (1139—1193) en þar mun hann hann hafa stigið á land, eftir að hafa tekið biskupsvígslu, árið 1178. Hann þótti hinn skörulegasti biskup og reyndi mjög að efla kirkjuvaldið, sem kunnugt er. Önnur sögn segir á hinn bóginn að bóndi í Þorlákshöfn, er þá hét Elliðahöfn, hefði heitið á Þorlák biskup í sjávarháska, að breyta nafni jarðarinnar, ef hann næði landi, heilu og höldnu.
Miklar sögur eru um útgerð og siglingu í Þorlákshöfn og talið að Ögmundur Pálsson, biskup, sem var í Skálholti 1521—1540 (d. 1541) hafi siglt skipi sínu, Súðinni í Þorlákshöfn, en hann var nafntogaður skipstjórnarmaður og réði yfir Súðinni, haffæru skipi, en hann sigldi sjálfur, meðal annars margsinnis til Noregs.
ÞorlákshöfnEkki er unnt að rekja hér langa útgerðarsögu Þorlákshafnar, en einkennileg tilviljun er það, að tveir frægðarmenn koma þar seinast við sögu, Þorleifur ríki á Háeyri, útvegsbóndi, kaupmaður og alþingismaður, er segja má að væri seinasti ábúandi í gamla stíl, meðan róið var á áraskipum, og Egill Gr. Thorarensen í Sigtúnum, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga, er menn nefndu oft Jarlinn í Sigtúnum. Hann fékk kaupfélagið til að kaupa Þorlákshöfn og er réttur faðir Þorlákshafnar eins og hún er í dag.
Svo skemmtilega vildi til, að við hér á blaðinu hittum að máli syni þessara tveggja höfðingja, þá Benedikt Thorarensen, framkvæmdastjóra hjá Meitlinum hf. og Sigurð Þorleifsson, Guðmundssonar á Háeyri, en báðir eiga þeir heimili í Þorlákshöfn, og ennfremur Gunnar Markússon, bókavörð, en hann er einnig fróður mjög um sögu staðarins.
Og á frásögnum þeirra og öðrum upplýsingum, rituðum, skal hér reynt að gjöra nokkra grein fyrir Þorlákshöfn að fornu og nýju, það er Þorlákshöfn Þorvaldar á Háeyri og Þorlákshöfn Egils í Sigtúnum.

Þorlákshöfn í byrjun aldar

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – kort.

Þorlákshöfn liggur í vesturjaðri Árnessýslu og svonefnt Hafnarnes skýlir höfninni í suðlægum og suðvestlægum áttum og síðan er landvar frá hendi náttúrunnar allt að ASA. Landsynningur eða suðaustanáttin var erfiðasta áttin, því þá stóð upp í víkina. Að norðan og austanverðu markar Skötubótin og síðan Hafnarskeið Þorlákshöfn, eða „Höfninni“ bás, en fyrrgreint svæði, þótt opið sé, er einstakt í óvogskorinni og skjóllausri strönd Suðurláglendisins. Þorlákshöfn varð því snemma lífhöfn manna á þessum slóðum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þorleifur á Háeyri bjó í Þorlákshöfn á árunum 1914—1927 og gerði þar út. Í hans tíð munu skipin (áraskipin) flest hafa orðið 30 talsins. Þetta voru teinæringar, er sumir nefna 12 róin skip. Til eru góðar heimildir um skip í Þorlákshöfn á þessari öld og munu þau um aldamótin hafa verið um 20 talsins og árið 1901 voru þau 27. En flest urðu þau árið 1916, eða 30, en úr því fer skipum að fækka í Þorlákshöfn.
Nýir tímar fóru í hönd í útgerð, og menn leituðu á aðra staði, þar sem náttúruhafnir voru fyrir skútur og togara. Árið 1923 voru aðeins 5 skip eftir, sem réru frá Þorlákshöfn. Vélbátaútgerð var ekki stunduð í tíð Þorleifs á Háeyri. Bryggja var engin og allt varð að bera. Róið var út í saltiskip og saltið borið í sekkjum í hús og fiskinum var skipað út með sama hætti, róið var í skip. Út og uppskipun fór fram við Hellurnar, Norðurhellu og Suðurhellu. Aðallega var þó skipað út við Suðurhelluna, því þar var fiskinum pakkað í húsi, er þar stóð, og nefnt var Bakkapakkhús, en Einarshafnarverslun átti það hús. Saltinu var skipað upp í báðar varirnar, Norðurvör og Suðurvör, en á báðum stöðunum voru salthús.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Mjög fjölmennt var í Þorlákshöfn á vertíðum og að meðtöldu heimilisfólkinu hjá Þorleifi, mun hafa verið á fimmta hundrað manns í Þorlákshöfn á vetrarvertíð.
Sjómennirnir, eða skipshafnirnar bjuggu í sjóbúðum, sem voru grjótbyrgi með bárujárnsþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti, áður en bárujárnið kom til sögunnar, voru sjóbúðirnar með torfþaki, eins og flest önnur hús á Íslandi. Upphitun var engin, en prímus var notaður við eldamennsku, sem aðallega mun hafa verið sú að laga kaffi. Sjóbúðin var eitt herbergi og flet meðfram veggjum og sváfu tveir í hverju fleti. Aðkomumennirnir voru flestir úr Ölfusinu og austan úr Árnessýslu. Margir komu frá Eyrarbakka, og ennfremur réru þarna Rangæingar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – sjóbúð.

Þorleifur á Háeyri gerði út nokkra báta og verkaði fisk af sínum bátum og einnig tók hann að sér fiskverkun fyrir Einarshafnarverslun á Eyrarbakka. Fyrstu árin að minnsta kosti.
Í tíð Þorleifs voru tvö íbúðarhús í Þorlákshöfn. Gamli bærinn, sem svo var nefndur og svo tvílyft timburhús, eða íbúðarhús, bárujárnsklætt, sem stóð framar.
Umsvif Þorleifs á Háeyri í Þorlákshöfn voru mikil en fóru minnkandi. Hann þraukaði þó þarna til ársins 1927, en þá voru skipin aðeins orðin fjögur. Þorleifur fluttist síðan til Reykjavíkur og varð þar fisksölustjóri. Hann andaðist árið 1942.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – róðraskip um 1890.

Áraskipin voru á netaveiðum, einvörðungu, í tíð Þorleifs. Þá var hætt að verka í skreið á Íslandi, nema harðfisk til heimabrúks.
Allur fiskur var saltaður, og það sem ekki var saltað til útflutnings, var svokallaður matfiskur, morkinn fiskur og fiskur með lýti. Hann var hafður til manneldis og seldur í sveitirnar. Þorskhausar voru þurrkaðir og seldir innanlands.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Þess má þó geta, að þorskanet voru fyrst notuð í Þorlákshöfn árið 1907. Sjómennskan var erfið og aldrei höfðu menn með sér bita á sjóinn, ekki einu sinni þótt tvíróið væri sama daginn, eða þríhlaðið, sem oft kom fyrir, ef verið var á leirnum, sem svo var nefnt. Fengust þá of 12000 fiskar á skip sama daginn, og þegar róið var hrærðu menn í þorski með árunum og oft gogguðu menn fiska upp úr sjónum á leiðinni í land.
Þorlákshöfn
Merkileg tilraun var gerð í Þorlákshöfn árið 1922, en þá reyndi frægur aflamaður Nes-Gísli (Gísli Jónsson) að veiða þorsk í hringnót. Gísli hafði þríhlaðið skip sitt þennan dag. Þegar lokið var við að landa, héldu þeir út með hringnót, sem gjörð var úr trolltvinna. Nóttina höfðu þeir á einu skipi, en kunnu ekki með að fara, enda sveitamenn, eins og flestir þeir sem réru á áraskipum á þessum stað. Þeir köstuðu nótinni og fengu 60 fiska. Ekki hugkvæmdist þeim að nota tvö skip til að kasta nótinni, en það er önnur saga. Er þetta líklega í fyrsta skipti, sem gerð er tilraun til þorskveiða með nót hér á landi. Ekki mun nótinni þó hafa verið kastað nema einu sinni.
Þess má einnig geta, að Gísli í Nesi, varð fyrstur manna til að nota þorskanet í Þorlákshöfn, en áður fóru skipin með lóðir.
Síðasti bóndinn í Þorlákshöfn var Guðmundur Jónsson, en hann flutti að Eyði-Sandvík í Flóa árið 1940. Þá lagðist sveitabúskapur af í Þorlákshöfn. Skúli Þorleifsson var ráðsmaður í Þorlákshöfn 1942—1943 og viðloðandi þar um skeið.
Lítil útgerð mun hafa verið í Þorlákshöfn í tíð Guðmundar Jónssonar.

„Nú skal byggja borg“
ÞorlákshöfnSem áður sagði, þá eru það einkum tveir héraðshöfðingjar, er setja svip sinn á Þorlákshöfn á þessari öld. Annar þeirra Þorleifur á Háeyri sér hina eldfornu útgerð áraskipa liðast í sundur í straumi tímans, hinn Egill í Sigtúnum tekur að sér að leiða Þorlákshöfn til nýrrar tíðar. Báðir þessir menn voru orðnir að þjóðsögu, áður en þeir voru allir, sem er fremur sjaldgæft á Íslandi, og ekki hafa þeir heldur meiðst í endurminningunni. — Standa þar fyrir sínu. Sem áður sagði þraukaði Þorleifur á Háeyri til ársins 1927 í Þorlákshöfn, enda staðurinn búinn að vera í bili, sem viðunandi verstöð.
Þá verða tímamót í sögu Þorlákshafnar. Árið 1929 mun fyrst hafa verið reynt að gjöra bryggju í Þorlákshöfn, og var hún 20 metra löng. Ekki skal fullyrt um gagnsemi hennar, en árið 1934 kaupir Kaupfélag Árnesinga jörðina. Um þetta segir Guðmundur Daníelsson, rithöfundur í grein á þessa leið. (Stytt):
„Á stjórnarfundi Kaupfélags Árnesinga 2. apríl 1934 var samþykkt að festa kaup á jörðinni Þorlákshöfn með þeim mannvirkjum, sem þar voru. Kaup þessi voru í upphafi mest hugsuð til að hefja útgerð í atvinnubótaskyni, hef ég einhvers staðar lesið, en tel mjög hæpið. Aftur á móti mun hafa vakað fyrir Agli að bæta svo lendingarskilyrði, að þar yrði brátt hægt að skipa upp flestum vörum Sunnlendinga, það er að segja að byggja hafskipahöfn.
Árið 1935 lét Egill kaupfélagið hefja útgerð í Þorlákshöfn. Ólafur bóndi Þorláksson á Hrauni í Ölfusi er einn af örfáum Íslendingum, kannski sá eini, sem vitni varð að því, þegar Egill kom fyrsta sinni út í Þorlákshöfn til þess að ræða við eina formann staðarins um væntanleg kaup K.Á. á jörðinni, umsvif og atvinnurekstur þar. Ólafur segir frá þessu í minningargrein, sem hann skrifaði um Egil látinn:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

„Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1933, að ég var við sjóróðra á vertíð í Þorlákshöfn, þá tvítugur unglingur. Staðurinn var þá kominn í slíka niðurníðslu, að aðeins einn bátur (opin trilla) reri þarna frá verstöðinni, þrátt fyrir það að þarna rétt upp við landsteina var sjórinn svo morandi af fiski, að einn daginn fengum við til dæmis á fjórða þúsund fiska, þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Og þeir sem við þetta unnu voru aðeins menn úr nágrenninu. Slík var nú trúin orðin á framtíð staðarins.
ÞorlákshöfnÞað var snemma morguns einn dag áður en farið var á sjó, að inn í verbúðina vatt sér maður einn gustmikill og mikilúðlegur, og af honum sindraði orka og fjör. Hér var þá kominn forstjóri hins unga kaupfélags, sem nýbúið var að stofna í héraðinu. Maður þessi tók sér sæti á rúmi formanns og fékk sér hressilega í nefið. Síðan tóku þeir tal saman, og fór ég að leggja við eyra. Egill sagðist nú vera kominn í þeim erindagjörðum að skoða Þorlákshöfn, því að hann hefði hugsað sér að láta kaupfélagið kaupa jörðina. Síðan hann að lýsa á sinn alkunna hátt öllum þeim möguleikum, sem þarna væru fyrir hendi og verkefnum sem biðu þess að verða leyst. Og ég, unglingurinn, hlustaði þarna sem bergnuminn og fannst sem ég hlýddi á ævintýri „Þúsund og einnar nætur.“
Og kaupfélagsstjórinn var ekki að tvínóna við hlutina fremur en endranær. Strax um sumarið var hafizt handa um lendingarbætur og síðan útgerð. Fyrst í smáum stíl en síðan vaxandi. Þannig hefur þróunin haldið áfram, að vísu með nokkru hléi á stríðsárunum (þá dró „Bretavinnan“ til sín allt fáanlegt vinnuafl). En að lokinni styrjöldinni komst nýr og aukinn skriður á uppbyggingu Þorlákshafnar, og ekki hefur orðið lát á því síðan.“
Um þennan þátt í frumlegu og stórtæku sköpunarstarfi Egils á vegum verklegra framkvæmda hefur Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu þetta að segja:
„Egill Thorarensen gleymdi ekki sjónum og gjöfum hans. Hann var líka vel minnugur hafnlausu strandarinnar, sem umlykur mesta samfellda búnaðarhérað landsins. Hann sá, að höfn yrði að byggja í hinni gömlu verstöð við Eyrarbakkabugt, sem helguð var hinum sæla Þorláki biskupi, og hann sá fyrir sér stóra hafnarborg rísa upp á hinni gróðurlausu örfoka sandströnd. Og hann lét ekki sitja við hugsanir og orðin tóm, það gerði hann aldrei. K.Á. keypti þessa niðurníddu verstöð, hóf hafnarbætur og útgerð, þar sem fiskurinn gengur upp í landsteina á vetrarvertíð, svo að þríróa má hvern dag, þegar gæftir eru.
Þorlákshöfn
Eftir stríðið, sem endaði 1945, endurreisti Egill í annað sinn útgerð í Þorlákshöfn, og þá stofnaði hann sjálfur, K.Á., SÍS og fleiri aðilar hlutafélagið Meitilinn í Þorlákshöfn. Áður, árið 1938, hafði Egill látið K.Á. hefja þar byggingu hafskipahafnar. Að heimsstyrjöldinni lokinni vaknaði almennur áhugi á lengingu þessa hafnargarðs, sem kominn var. Þar með taldi Egill, að málið væri í rauninni orðið ofviða einu kaupfélagi, því að vissulega stefndi hann að hafskipahöfn með öruggri legu fyrir 40 til 50 stóra fiskibáta. Þá vann Egill það þrekvirki, sem ég persónulega er viss um, að enginn lifandi maður á Íslandi hefði getað leikið eftir honum: að fá Árnes- og Rangárvallasýslur til að kaupa Þorlákshöfn, það er að segja jörðina og hafnarmannvirkin. Meitillinn hélt aftur á móti áfram að vera hlutafélag. Þetta gerðist árið 1946. Hafnarnefnd var sett á laggirnar og formaður hennar kosinn Páll Hallgrímsson sýslumaður. Helmingur nefndarinnar mun hafa verið búsettur austan Þjórsár, meðal annarra sýslumaðurinn, Björn Fr. Björnsson.
ÞorlákshöfnNú var settur kraftur á framkvæmdirnar, og sýslusjóðir urðu auðvitað að galopna pyngjur sínar — og dugði stundum ekki til. Þá tókst Agli jafnvel að fá stjórn Mjólkurbús Flóamanna til að hlaupa undir bagga, eitt sinn þegar mikið reið á að koma niður bryggjukerum, sem búið var að steypa í landi.. . .“ Samþykkti Mjólkurbúið að leggja til 5 milljónir króna, sem var mikið fé á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum Benedikts Thorarensen, framkvæmdastjóra, þá hóf Kaupfélag Árnesinga hafnargerð þegar árið 1934 og stóð sú framkvæmd til ársins 1946. Gerður var varnargarður í Norðurvör og ennfremur var hafist handa um gerð Suðurvarargarðs árið 1938, sem árið 1940 var orðinn 75 metra langur. Á þessum árum var hafin útgerð trillubáta og dekkbáta og reist var fiskhús til að salta aflann.
Voru verslunarhús Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka flutt til Þorlákshafnar og endurreist þar. Trillurnar lönduðu aflanum við Norðurvararbryggju.
Árið 1950 urðu enn þáttaskil í sögu Þorlákshafnar. Keyptir voru fimm þilfarsbátar og einn 100 tonna bátur. Annars skammtaði höfnin stærð bátanna, og voru þeir 20—30 tonn hver. Minni bátarnir lágu fyrir legufærum, en stærri bátar voru á útilegu.
Næsti áfangi er svo að árið 1960 en þá byggði Meitillinn hraðfrystihús. Annar þáttur hafnarsögunnar var sá, að Sambandið setti snemma upp fóðurblöndunarstöð og landaði fóðurvörum, og Olíufélagið hf. setti upp olíugeyma og sendi olíu með skipum til Þorlákshafnar, en mikið hagræði var að geta landað varningi og skipað út vörum í Þorlákshöfn. Var t.d. mestu af föngum Búrfellsvirkjunar skipað upp í Þorlákshöfn, svo dæmi séu nefnd um almennt gildi hafnarinnar á þessum árum. Þá var Þorlákshöfn notuð til mjólkurflutninga út í Vestmannaeyjar og er enn.

Takmarkinu náð — Höfnin fullgerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1960 – Meitillinn.

Árið 1960 voru miklar framkvæmdir á vegum sýslufélaganna, sem nú áttu Þorlákshöfn. Fengið var lánsfé með ríkisábyrgð, en árið 1965 var Þorlákshöfn gjörð að landshöfn. Síðan er svo lokið við hafnargerðina með stórátaki í kjölfar Vestmannaeyjagossins.
Benedikt Thorarensen lýsir þessu svo í grein er hann ritaði í Sjómannablaðið Víking árið 1978:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1965.

„Eftir eldgosið í Heimaey í janúar 1973, leit helzt út fyrir, að Þorlákshöfn yrði að taka við hluta Vestmannaeyjaflotans, og opnuðust þá möguleikar á lántöku hjá Alþjóðabankanum til uppbyggingar hafnarinnar í Þorlákshöfn. Höfnin var þá reyndar þegar alltof þröng orðin fyrir heimaflotann, en skipin stækkuðu og þurftu meira pláss.
Gifta hafnar heilags Þorláks var mikil morguninn eftir gosnóttina, þegar um 5000 eyjaskeggjar komust hér á fastalandið slysalaust með fiskibátum sínum og annarra, þ.á m. bátum héðan, sem legið höfðu í Eyjum daginn áður vegna óveðurs. Frá kl. 8 árdegis fram yfir hádegi munu hartnær 1 þús. manns á klukkustund hafa stokkið uppá bryggjurnar hér. Það var mikið lán.
Verksamningur um gerð nýrrar hafnar var undirritaður við Ístak h.f. 9/10 ’74, og þegar hafist handa. Á verðlagi þess árs átti verkið að kosta um 710 millj. Er óhætt að segja, að þetta vandasama verk hafi í öllum meginatriðum gengið samkvæmt áætlun.
Þorlákshöfn
1975, síðla hausts, var lokið hættulegasta áfanga hafnargerðarinnar, Suðurvarargarðs. Alls fóru í gerð beggja hafnargarðanna um 2900 steinakkeri (dolosar) sem vega hver um níu lestir eða alls 26.000 tonn. Um 380 þús. rúmmetrar af grjóti, af ýmsum ákveðnum stærðum fóru í garðana. Þá varbyggt ferjulægi fyrir ferjuskipið Herjólf, sem vígði svo höfnina hausið 1976 með því að slíta borða, sem strengdur hafði verið fyrir hafnarkjaftinn. Ferja þeirra eyjamanna hefur því verið starfrækt um tvö ár, og allt gengið vel.“ Síðan víkur Benedikt að vegamálum, nauðsyn á vegi með bundnu slitlagi til Reykjavíkur, en þeirri framkvæmd er nú lokið, þótt ýmsum hafi þótt miða heldur seint.
Nú því er við að bæta, að Þorlákshöfn hefur reynst vel. Þaðan eru gerðir út um 25 bátar og þrír togarar, en auk þess leggur fjöldi aðkomubáta þar upp afla, og á þessa vertíð munu um 50 skip landa afla í Þorlákshöfn.“ -JG

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1982, Þorlákshöfn, bls. 31-41.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Selvogur

Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð „horfin“, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.

Imphólarétt

Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
FornagataÍ lýsingum segir m.a. um Fornugötu: „Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu.  Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“ Jafnframt að „ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“ Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið „Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.“ Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Víghólaréttin?Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. „Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.“ Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.“
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
Mörk Ness og Bjarnastaða„Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð.  Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði.  Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við  eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana.  Rúst við FornugötuVið túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi.  Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.“ Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
„Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina.  Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli.  Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi.  Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.“ Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. „Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð.  Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Varða við FornugötuFrá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.“ Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.“ Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
„Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“ Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.“
Fornagata í MiðheiðinniÍ örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: „Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina.  Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig.  Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Þórður Sveinsson - t.h.Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa.  Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.“
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.

Strandarkirkja