Tag Archive for: Ölfus

Stakkavíkurhraun

Gengið var um Stakkavíkurhraun milli Herdísarvíkurvegar (þjóðvegarins) og strandar.
Áður höfðu Herdisarvikurvegurhinar fornu djúptklöppuðu götur verið skoðar þar sem þær liggja um Hellurnar vestur að Háahrauni. Í örnefnalýsingum er götunum lýst, bæði neðri leiðinni með sjónum og hinni efri. Í annarri lýsingunni er efri leiðin nefnd Herdísarvíkurvegur og sú neðri Stakkavíkurvegur.
Þegar neðri leiðin var skoðuð núna hafði sjórinn sópað stórgrýtinu af hraunhellunni ofan við ströndina svo sjá mátti hvar gamla gatan, ennþá mörkuð í helluna, hefur legið svo til á núverandi bjargbrún áleiðis að Mölvíkurvatni. Þeirri leið er lýst svo: „Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.
Við götur þessar upp af Happasælaviki er Hundaþúfuhóll, sem allt eins er kallaður Hulduþúfuhóll.  Þaðan liggur gatan um klappirnar ofan við Bergdali. Alfaravegurinn efri liggur um Hellurnar upp á brunann allmiklu ofar.  Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.“
MolvikurvatnEfri leiðinni, Herdísarvíkurvegi er lýst svo: „Frá bæjarhliðinu lá vegurinn heiman frá bæ og um hlið þetta, austur með Túngarði, framhjá Kátsgjótu, með Langagarði, um Herdísarvíkurbruna og áfram austur, milli Fiskigarðanna á Brunanum, um Mölvíkurklappir, yfir Háa-Hraun vestra og yfir brunann og niður á Hellurnar ofarlega og austur þær, upp Sandhlíð og upp á Háahraun eystra (sem er annað nafn á Stakkavíkurhrauni), um gróna sléttu litla í Hrauninu, Hvítubakka, um Borgartungur ofanvert við Fjárborgina og niður á Flötina og á Stakkavíkurveg.“

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur. ÓSÁ

Báðar göturnar, sú neðri og sú eftir, eru mjög vel greinilegar enn þann dag í dag. Greinilegt er að báðar hafa í fyrstu þjónað fótgangandi vegfarendum, en síðar hafi efri leiðin verið gerð vagnfær. Enn má sjá sporrennuna í henni víðast hvar. Þá sést hvar Borgin hefur verið í Borgartungum. Slóði liggur að svæðinu þar sem Borgin var, notaður til að fjarlægja grjótið úr henni, væntanlega undir þjóðveginn.
Gengið var fram á greni austan við Háa-Hraun. Nýleg tófuspor voru allt umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Herdísarvíkurleið

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Raufarhólshellir

Í MBL 16. jan. 1955 lýsir prófessor Harold H. Munger ferð í „Raufarhólshelli við Þrengsli„: „Mætti útlendingi leyfast að lýsa einu af náttúruundrum Íslands, sem er ekki eins vel þekkt og það verðskuldar? Ég hef átt því láni að fagna að geta farið víða og líta augum fjölmargar af dásemdum Íslands, þau tæp 2 ár, sem ég hef dvalizt hér á landi. Á feralögum mínum, frá Siglufirði til Hornafjarðar, frá Keflavík til Neskaupstaðar, frá Mývatni til Vestmannaeyja, hef ég litið augum náttúrufegurð, sem ekki á sinn líka í nokkru öðru landi. Af öllu því, sem ég hef séð, er mér gleggst í minni furðuleg fjölbreytni og fegurð dökkglitrandi hraunstöngla og storkinna hraunflóða, sem fólgin eru í djúpum Raufarhólshellis.

Greinin 1954

Í ágúst 1953, var ég í hópi skemmtiferðamanna, sem heimsóttu þennan helli, og fannst mér þá þegar mikið til um einkennilega fegurð hans. Ég spurðist fyrir um uppdrátt af hellinum, en var sagt, að enginn uppdráttur væri til af honum. Síðar heimsótti ég aftur Raufarhólshelli í hópi ungra manna sem voru óðfúsir að hjálpa til við að mæla hann. Uppdrátturinn og myndirnar, sem með fylgja, gætu ef til vill orðið til fróðleiks mönnum, sem ekki hafa komið í hellinn. Vegalengdir voru mældar með fjarlægðarmæli og áttir voru teknar með vasaáttavita. Hvorugt tækið er sérlega nákvæmt, en uppdrátturinn, sem gerður var eftir þessum mælingum, ætti þó að geta gefið sæmilega góða hugmynd um lögun og stærð hellisins. Vegalengin frá hellismunna til innsta enda hans mældist vera 850 metrar, þó þeim, sem brotizt hafa alla þess leið, muni flestum virðast hún vera a.m.k. helmingi lengri.
Raufarhólshellir er hraunhellir um 15 km suðvestur frá Hveragerði í landareign Vindheima. Akvegur liggur að Vindheimum, sem einnig er skólasetur Adventista, og þaðan er gengið upp fjallshlíðina til norðurs. Bezt er að hafa leiðsögumann, því að fátt er um kennileiti. Leiðin er greiðfær og hallinn er ekki nema 150 metrar á 2 km.
Hraunfossinn í RaufarhólshelliHellirinn er 1-10 metra breiður og víðast um 10 m á hæð. Hellisgólfið er víðast þakið grjóti, sem fallið hefur úr þakinu, sennilega í jarðskjálftum. Sums staðar eru grjóthrúgurnar svo háar, að þær ber hærra en upprunalegt þak hellisins. Leiðin liggur þar um hvolf, sem myndazt hafa við hrunið.
Farið er inn í hellinn sunnanverðan um op, þar sem þakið hefur fallið niður. Sennilegt er að hraunstraumurinn, sem rann um þessi gömlu hraungöng, hafi komið fram á yfirborðið í fjallshlíðinni suður eða suðaustur frá opinu. Hraunið hlýtur að vera mörg þúsund ára gamalt, því að það er víða þakið allþykkum jarðvegi og vaxið lynggróðri. Þar sem hraunið er bert, er hvergi að sjá merki þess, að ís hafi gengið yfir það, svo að það hlýtur að hafa runnið eftir jökultímann, sem var á enda fyrir um það bil 10.000 árum.
Vott er í hellinum. Hellisþakið er óþétt og vatn drýpur úr þúsundum sprungna- og hola. Þegar við gengum í hellinn, 14. febr. 1954, var hellisgólfið þakið ís, 200 metra inn frá opinu. Sums staðar höfðu myndast þyrpingar af íssúlum, er sumar voru 40 cm langar. Erfitt er að klifra eftir ísuðum steinum og ekki alveg hættulaust. Hvergi er hægta ð drepa niður fæti nema á hálan ísinn, og hvergi er hægt að taka til hendi, nema á svellótta steinana. Slys gæti fljótlega viljað til, fótbrot eða annað, sem ekki væri auðgert að flytja slasaðan mann e ftir íshálum og ósléttum hellinum. Ísströnglar hanga frá þaki og sillum, sumir allt að 3 metrar á lengd. Á einum stað, meðfram hliðarveggnum, mynduðu þeir samfellt ístjald, 6-7 metra breitt.
Uppdrátturinn 1954Í ágúst 1953 bar lítill ís í hellinum. Ís var einungis næst opinu og víðast hægt að kærækja fram hjá honum. Jafnvel þótt ísinn sé horfinn er erfitt að fara um hellinn fyrri þá, sem ekki eru vanir fjallgöngum. Yfir eintómar grjóturðir er að fara, og víða er svo bratt, að erfitt er að klifra upp. Í hellinum eru yfir 20 stallar, 1-10 metra háir. Margir hafa komið í Raufarhólshelli. Aðeins fáir hafa gengið hann á enda.
Efst greinist hellirinn í þrennt. Auk þess eru á honum smá afkomar, sem viið ekki athuguðum nánar, vegna tímaskorts, Í botni austurgreinarinnar getur að líta óvenjulega sýn, hraunfoss, 2 metra háan og rúmelga 1 meters breiðan, sem virðist hafa storknað snögglega í fullu rennsli. Ekki er auðséð, hvenrig þetta furðuverk hefur myndazt. Ef til vill hefur hraunflóðið kólnað smám saman og ledleðjan orðið seigari og seigari, þangað til hún gat naumast hnigið. Að lokum hefur þunn slæða af seigfljótandi hrauni hangið fram af brúninni og storknað þannig, sums staðar aðeins 5 cm á þykkt. Hér er eins og máttugir töfrar hafi verið að verki, eins og voldug völva hafi galið sinn galdur og „fryst“ eldfljótið í einu vetfangi.
Miðgrein hellisins er ekki merkileg. Suðurgreinin er því undursamlegri. Þúsundir grannra hraunkerta hanga úr þakinu í beinum röðum, þar sem yfirborð eldleðjunanr hefur staðið umstund, þegar hraunflóðið minnkaði smám saman í hellinum. Hrífandi feguðr þessa töfrahellis veður ekki með orðum lýst. Straumar og bárur og iður eldflóðsins hafa bókstaflega steinrunnið og geymzt þannig um þúsundir ára til augnayndis þeim, sem hafa djörfung og dugnað til að koma og sjá.
Rauf-7Einhvern tíma verður hellirinn mældur nákvæmlega, en ekki verður það auðvelt verk. Það verður að gerast í a.m.k. 20 áföngum og víðast verður að ryðja burt grjóti uk að koma fyrir þrífótum undir mælingatæki. Sum staðar verður erfitt að verja tækin fyrir lekavatni. Þrír til fjórir menn gætu lokið þessu veki á viku. Þegar þetta hefur verið gert, mun koma í ljós, að meðfylgjandi uppdráttur er ekki alveg réttur, en hann mun þó gefa sæmilega hugmynd um lögun og stærð hellisins.“
Í stórvirki Björns Hróarssonar, „Íslenskir hellar“ frá árinu 2006, bls. 279-283, er m.a. fjallað um Raufarhólshelli. Við mælingu enskra hellarannsóknarmanna reyndist hann vera 1360 metrar. Leitarhraunið, sem hellirinn er í, rann fyrir u.þ.b. 5000 árum. Hellirinn dregur nafn sitt af hól skammt ofan hans, Raufarhól.

Heimild:
-Harold H. Munger, rófessor – Raufarhólshellir – Lesbók Mbl. 16. jan. 1955.Rauf-10

Heiðin há

Í Lesbók Mbl 7. nóv. 1954 er fjallað um „Heiðina há“ í svonefndu Fjarðafoki:  „Upp af Selvogsheiði er fjarska mikil hraunbunga, sem kölluð er Heiðinhá. Er hún 2030 fet á hæð, geisimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lík í lögun og Skjaldbreiður. Hún er hlaðin upp úr óteljandi gömlum hraunalögum suður af Bláfjallahlíðum. Efst á heiðinni markar fyrir gígum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr. ÚtsýniGígurinn er nú fullur af hrauni, em hefir verið afar stór, sem sjá má af leifum þeim, sem standa af gígröndinni. Það eru dálitlir hraunhnúkar sem standa í hring og hefir gígurinn verið allt að 100 faðmar að þvermáli.
Við riðum upp á sjálfa heiðarbunguna og útsjónin var ágætlega fögur. Landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum okkar, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa. Sunnanlands undirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum. Vestmannaeyjar lyftust upp af hyllingunni og Snæfellsjökull norðan við flóðann blasti við eins og fagur og hann er vandur. Langt uppi í landi „rís Skjaldbreiður við himin og jöklarnir með hvítleitum bjarma“. (Þorv. Thoroddsen)“
Eldstöðin Heiðin há er af dyngjuætt og er mest eldstöðva á Reykjanesskaganum. Hraun frá henni þekja um 170 ferkíómetra og rúmmál þeirra um 6,8 rúmkílómetrar, en það er ríflega helmingur af hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Ekki ber mikið á gígnum sjálfum en þó eru á börmum hans háar hraunstrýtur sem sýna nokkurn vegin útlínur hans. Hæðin er 613 m.y.s.

Efsti hlutinn á Heiðinni há

Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Dyngjan, sem heiðin há, stendur á, liggur utan í Bláfjöllunum og hefur á kafla kaffært framhald þeirra til suðvesturs að Austurásum. Mögulegt er að hraun frá Heiðinni há hafi fyllt 100-200 m dæld í landið umhverfis Geitafell en það mun vera þykkt hraunanna við fjallið. Eldri hraun, nú grafin, kunna að hafa fyllt slíka dæld við upphaf nútíma áður en Heiðin há varð til.“

Heimild:
-Lesbók Mbl. 7. nóv. 1954.
-raunvís.hi.is

Brennisteinsfjöll

Meitlar

Sigurður Kristinsson skrifaði um „Meitlana“ í Morgunblaðið árið 1990:
meitlar - kort„Séður norðaustan frá, t.d. frá Hveradölum, virðist Stórimeitill (521 m) vera töluvert hamrafjall, en svo er þó aðeins á þá hlið, því hann er aðliðandi til annarra hliða. Suður frá honum er lægri háls (360 m) sem tengir hann við Litlameitil (467 m). Þeir eru báðir úr móbergi. Líta má á þá ásamt Stakahnúk og Gráuhnúkum sem einstakt fjall umlukið hraunum. Vestan að þeim öllum er samhangandi brekka um 80 m há. Undir henni miðri heitir Stórihvammur. Vestan í Litlameitli er klettur sem heitir Votaberg, oft dökkur af raka á sumrin. Við suðurenda hans eru friðlýstar rústir af seli frá Þorlákshöfn.
En Stórimeitill er allt öðruvísi en fjöllin í kring og á vart sinn líka. Gígur er ofan í koll hans a.m.k. 50 m djúpur og er snarbratt nema þar sem skarð er að norðanverðu. Sést gígurinn hvergi fyrr en komið er á brún hans. Skarð er í norðurbrún gígsins og virðist sem hraun hafi runnið þar út. Þetta gefur Stórameitli vissan eldborgarsvip að hluta. En hann er til orðinn á ísöld og því er hvergi laust gjall þar að finna. Fyrir neðan skarðið í gígnum er lítill dalur og nær hann að Gráuhnúkum. Hann heitir því einkennilega nafni Stóridalur, en réttara væri að nefna hann Stórahvamm.
Besta gönguleiðin á Stórameitil er að fara upp eftir dálitlu viki sem gengur inn í brekkuna áðurnefndu skammt fyrir sunnan Stakahnúk.“

Heimild:
-Morgunblaðið 17. mars 1990, bls. 12.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Kambar

Steindór Björnsson frá Gröf skrifaði í Tímann 1958 um „Gamla veginn um Kamba„:

Hellisheiðarvegur-221

„Um all-langt árabil, máske aldabil, hefur vegur legið yfir Hellisheiði, en lengst af, allt þar til lagður var akvegur yfir heiðina á síðasta tug 19. aldar, lá hann norðar en nú er yfir heiðina, þar sem snjór var lítið til farartálma. Kom sá, vegur austur af heiðinni- rétt norðan við norðari Kambinn. En Kambar heita 2 hamra-hnúskar í norður af hamrabeltunum í  Núpafjalli. Síðan lá þessi gamli vegur nærri því beint niður Kambabrekkurnar. Akvegurinn var látinn koma fram á norðari Kambinn, — á þeim kambinum stendur nú útsýnisskífa Ferðafélags Íslands —, og síðan lagður í smáum, kröppum krákustíg niður brekkurnar rétt sunnan við gamla veginn. Nú er búið að taka af mestu smáhlykkina ofantil, en við það liggur vegurinn, þegar neðst í efsta sniðinu, norður á Mosana, það heitir hraunhallinn allt frá því skammt norðan við nyrðri kambinn og norður að Hengildalsánni, sem þar fellur austur af fjallinu. Eftir syðstu rönd Mosanna liggur svo vegurinn (þar til hann beygir beint í suður af Ásnum).

Hveragerði

Hveragerði – Hamrinn.

Ásinn er í Ölfusinu (og Hveragerði) kallaður: Hamarinn. Austast undir endanum á Hamrinum voru beitarhús frá Vorsabæ, fyrsta bænum vestan við Varmá. Niðri á lítið eitt bungumynduðum mel neðan við hallann frá fjárhúsunum, var stór hver nokkuð hringmyndaður, en þó ílangur, líkl. um 15—20 x 30 metrar, sporöskjulaga. Vatnið í honum var kyrrt og bláleitt, aðeins komu upp úr því loftbólur öðru hvoru. Vatnið í hvernum hækkaði og lækkaði á víxl með sem næst jöfnu milliibili. Þegar það var hæst, rann austur úr hverum lækur og austur í Varmá, en þegar vatnið lækkaði, þornaði lækurinn. Í hallanum norður af þessum hver, — mig minnir að hann væri kallaður Bláhver, — var eitthvað af litlum hverholum, og dálítið vestur fyrir stóra hverinn, sem sauð og kraumaði í, en ekki man ég til þess að ég sæi þær spýta vatninu upp. Þetta litla hverasvæði hét Hveragerði. Sunnanvert meðfram þessu hverasvæði lá gamli vegurinn yfir lækinn við Blálhver og á vaði yfir Varmá skammt fyrir ofan Reykjafoss. Þaðan um túnið, hlaðið á Reykjum og suður með Reykjafjallinu, rétt ofan við bæjarhúsin í Reykjahjáleigu, og svo áfram austur með fjallinu, alltaf með fjalla-rótunum, því mýrarnar voru ófærar hestum sem vegur.

Hveragerði

Geysir í Hveragerði.

Upp með Varmá í gilinu austan við Hamarinn, var þá, líkt og nú, talsvert af stærri og smærri hveraholum, svo og upp hjá Reykjum (þar sem Litli-Geysir var stærstur og merkastur, þótt lítt sjái fyrir honum nú) og allt inn að Reykjakoti. Á leiðinni til Reykjakots er gosholan Grýta norðan undir austurendanum á Hamrinum. Ekkert af þessum hverum tilheyrðu því svæði, sem þá hét Hveragerði. Þegar menn nú á 3. og 4. tug þessarar aldar fóru að reisa sumarbústaði þarna við jarðhitann og nota sér hveravatnið og gufuna til húsahitunar, voru sumarbústaðirnir sóttir þarna í kringum Bláhver, mest sunnan og austan við hann. Síðan var meira farið að grafa og enn síðar bora eftir meiri hita, eftir því sem byggðin óx og færðist i það að vera fastir bústaðir, þótt byggðin færðist smátt og smátt langt út fyrir takmörk hins upphaflega Hveragerðis, var nafnið teygt út yfir hana.

Hveragerði

Í Kömbum.

Fyrir fáum árum var – þessi nýja byggð klofin út úr Ölfushreppi og gerð að sérstökum hreppi: Hveragerðishreppi. Mun hið litla land, sem hann nær yfir, vera allt tekið úr landi Vorsabæjar (kannske eitthvað lítið eitt, vestast sé frá Yxnalæk mér er ókunnugt um landamerki þeirra bæja), en hvar mörkin eru milli Hveragerðishrepps annars vegar, en Yxnalækjar og Vorsabæjar hins vegar, veit ég ekki. Hitt veit ég, að Varmá skilur Hveragerðishrepp að austan frá Ölfushreppi og að norðan líklegast gömlu landamerkin milli Vorsabæjar og Reykjakots, því að bæirnir Reykir (þar er Garðyrkjuskóli ríkisins),

Kambar

Gamli vegurinn um Kamba.

Gufudalur (sem er fárra áratuga gamalt nýbýli úr Reykjakotslandi), og Reykjakot (þar er Menntaskólaselið) eru allir enn í Ölfushreppi — (ekki í Hveragerði). Þær boranir með stóra bornum, sem nú hafa verið framkvæmdar, eru því í Ölfusi en ekki í Hveragerði. Hitt er önnur saga að eðlilegt er að ókunnugir haldi að öll kvosin þarna á milli fjalla, heyri undir Hveragerðishrepp og taki því svona til orða. Skiptingin, sem nú er, er svo aftaka heimskuleg frá landfræðilegu (og landslagslegu) sjónarmiði. – Reykjavík, 23. sept. Steindór Björnsson.“

Heimild:
-Tíminn 2. október 1958, bls. 6 og 8.

Hveragerði

Hveragerði.

Hveragerði

Hveragerði er að mörgu leyti sérstakt samfélag – svo að segja í miðju öðru sveitarfélagi. Í Sveitarstjórnarmálum 1986 fjallar Karl Guðmundsson um „Hveragerðishrepp fjörutíu ára„. Þar segir m.a.:

Hveragerði

Elsti uppdráttur af byggðinni í Hveragerði. Í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands er að finna elsta uppdrátt af byggðinni í Hveragerði, líklega frá árinu 1930. Á uppdrættinum má sjá fjögur hús, Mjólkurbú Ölfusinga (Breiðamörk 26), Varmahlíð (Breiðamörk 31), Egilsstaði (Skólamörk 4, gamli barnaskólinn) og rafstöðvarhúsið í Varmárgili.

„Á árinu 1946 var Hveragerðishreppur stofnaður með skiptingu úr Ölfushreppi. Dómsmálaráðuneytið gaf út tilskipun hinn 13. marz það ár þess efnis, að frá og með 1. janúar sama ár væri Hveragerði sjálfstætt sveitarfélag. Í framhaldi þessa var fyrsta hreppsnefnd hins nýja hrepps kjörin hinn 28. apríl, og kom hún saman til fyrsta fundarsins hinn 29. apríl. Hreppsnefndin var skipuð 5 fulltrúum.“

Í Sveitarstjórnarmálum 2016 segir af „Hveragerðisbæ 70 ára„:

Hveragerði

2016 – Hveragerði 70 ára; „Í ár eru 70 ár síðan íbúar í Hveragerði klufu sig úr Ölfushreppi og stofnuðu sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp. Ágreiningur um stækkun á þinghúsi hreppsins (nú Skyrgerðin) hrundi af stað atburðarrás sem varð til þess að 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið.“

„Byggðar við Varmá mun fyrst getið í Fitjaannál fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í jarðskjálfta árið 1597. Í lýsingum Hálfdáns Jónssonar, lögréttumanns á Reykjum um Ölfushrepp frá árinu 1703, kemur fram að fólk hafi nýtt hverahitann til þvotta, suðu matvæla og jafnvel baða á þeim tíma. Á fyrsta áratug 20. aldar var nokkuð um svonefnt þurrabúðarlíf eða býli án mjólkurframleiðslu við Varmá. Þessi fyrsta byggð tengdist ullarverksmiðju sem var byggð 1902 og drifin var af vatnshjóli og reimdrifi virkjunar sem byggð var við Reykjafoss. Ullarverksmiðja þessi starfaði fram til 1912 en var þá rifin að öðru leyti en því að grunnur hennar stendur enn. Fyrsta raunverulega byggðin sem um getur varð til um 1929 ef frá er talið þurrabúðarlífið í kringum Varmá. Á þeim grunni var Hveragerðishreppur stofnaður 1946 sem sjálfstætt sveitarfélag út úr Ölfusinu og hreppnum var síðan breytt í bæjarfélag 1987.“

Í Morgunblaðinu 1987 segir Sigurður Jónsson um Hveragerði: „Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár„:

Hveragerði

Þann 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið. Framhald fundargerðarinnar má sjá á næstu mynd.

Hveragerði

Framhald fundargerðarinnar er lesa má undir mynd hér að ofan.

„Hveragerði öðlaðist bœjarréttindi miðvikudaginn 1. júlí 1987, samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum. Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 13. mars 1946. Íbúafjöldi í Hveragerði þann 1. desember 1986 var 1462. Íbúafjöldi í Hveragerði hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár en 1970 bjuggu þar um 800 manns.

Hveragerði

Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. – Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Upphaf byggðar í Hveragerði er rakin til þess að Ölfusingar stofnuðu með sér samvinnufélag um mjólkurbú sem reist var í Hveragerði. Mjólkurbúið lét gera drög að skipulagi og leigði mönnum lóðir. Vorið 1929 voru reist tvö íbúðarhús, Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri reisti hús sitt, Fagrahvamm, við Varmá þar sem er elsta gróðarstöðin í Hveragerði. Bóndi úr Ölfusi Guðmundur Gottskálksson reisti hús undir brekkunni og nefndi Varmahlíð og stendur það hús enn. Hann reisti sér þar hús til elliáranna en hann gekk ekki heill til skógar. Í árslok var fjölskylda Guðmundar, 5 manns, sú eina sem skráð var á manntal 1929.
Segja má að upphaf byggðarinnar sé táknrænt fyrir þá byggð sem þróaðist í Hveragerði annars vegar garðyrkjan og hins vegar áhugi að búa sér í haginn á þægilegum stað.

Hveragerði

Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar.  Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.

Garðyrkjan og gróðurhúsin hafa verið vaxtarbroddur Hveragerðis. Í kringum gróðurhúsin og blómaræktina hefur þróast mikill ferðamannastraumur sem nú er vaxandi atvinnugrein. Einnig er þjónusta í kringum dvalarheimili og heilsuhæli stór þáttur í atvinnulífinu. Þó undarlegt megi virðast var það ekki jarðhitinn sem laðaði menn að Hveragerði í fyrstu heldur fossinn í Varmá, Reykjafoss. Þar var reist ullarþvottastöð og vatn leitt úr fossinum til að knýja vélarnar. Grunnur stöðvarinnar sést ennþá, einnig stíflan í ánni og rústir fyrstu rafstöðvarinnar sem sett var upp austan fjalls, 1906. Í ullarþvottastöðinni var og greiðasala fyrir ferðamenn, fyrsti vísir þess sem koma skyldi.

Hveragerði

Virkjunin í Varmá. Fyrsta rafstöðin austan fjalls 1906.

Athafnasemin í kringum Reykjafoss stóð í 12 ár og var byggðin í kring alltaf kennd við fossinn. Hús Ullarþvottastöðvarinnar voru rifin 1915.
Meginatvinnuvegur í Hveragerði hefur ávallt verið garðyrkja. Gert er ráð fyrir að hlutfall garðyrkjunnar í atvinnulífinu sé nú 15%. Gróðurhúsin eru hituð upp með gufu sem fengin er frá hverasvæðinuí miðju bæjarins. Þar og í hverasvæðum í kring er gífurleg orka til staðar.

Hveragerði

Konur við þvotta við Bakkahver í Hveragerði árið 1934. Bakkahver var virkjaður árið 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga. Steypt var yfir hverinn nokkurs konar hjálmur og hann þannig virkjaður. Tvö fjögurra tommu rör lágu frá hvernum og í mjólkurbúið, annað fyrir heitt vatn sem lá neðst á hjálminum og hitt fyrir gufu sem var efst. Voru rörin vel einangruð með samtals um 30 cm lagi af hveraleir, mómylsnu, tjörupappa og koltjöru til að sem minnstur hiti tapaðist á leið í búið. Hveravatnið var notað ásamt upphituðu köldu vatni til að gerilsneyða mjólk. Gufan var notuð til þess að sjóða mysuost. Vatnið í Bakkahver var nálægt 100° C heitt á yfirborðinu og um 102° C á 1,5 m. dýpi. Rennsli Bakkahvers var um 2 lítrar á sekúndu. Steypuhjálmurinn er nú horfinn og Bakkahver ekki lengur virkur. Ljósmyndin er úr Þjóðskjalasafni Hollands.

Þjónusta á heilsuhælum og við elliheimili er um 15% í atvinnulífinu en Hveragerðis hefur lengi verið getið í tengslum við náttúrulækningar og þjónustu elliheimilisins. Hlutur iðnaðar í atvinnulífinu er um 15%. Aðallega er um að ræða minni fyrirtæki. Eitt öflugasta og þekktasta iðnfyrirtækið er Kjörís sem verið hefur í stöðugum vexti undanfarin ár.

Hveragerði

Barnaskólinn í Hveragerði.

Opinber þjónusta hefur farið vaxandi í Hveragerði og staðurinn fyrir löngu orðinn þjónustubær. Hlutfall opinberrar þjónustu nemur 35% í atvinnulífinu og önnur þjónusta svo sem þjónusta við ferðamenn er um 20%. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega í Hveragerði og eru þar öflugir máttarstólpar, Eden, Tívolíið, Blómaborg, Hótel Ljósbrá og nú síðast Hótel Örk.

Hveragerði

Hveragerði – mörk umdæmisins 2020.

Hjá hinu nýja bæjarfélagi sem er í örum vexti eru mörg verkefni framundan. Það helsta er nýbygging við Grunnskólann sem hýsa mun alla starfsemi skólans. Gagnfræðaskólinn í Hveragerði hefur verið í leiguhúsnæði og mun nýja húsnæðið leysa mikinn vanda. Áformað er að koma skólanum í notkun fyrir haustið 1988. Hann á allur að geta hýst 500 nemendur í 10 bekkjardeildum.

Hveragerði

Hveragerði á efri frumbýlisárunum.

Átak í gatnagerð er meðal þess sem framundan er. Gatnakerfið í Hveragerði er óvenju langt, rúmir 16 kílómetrar. Ástæða þess eru hverasvæðin og gróðurhúsabyggðin í bænum sem taka mikið landrými. Til samanburðar má nefna að í Þorlákshöfn er gatnakerfíð í kringum 8 kílómetrar. Búið er að leggja bundið slitlag á helming gatnanna í Hveragerði og verður ein gata tekin fyrir í sumar. Þá er verið að gera nýja knattspyrnuvöll í Reykjadal en uppgangur er í Hveragerði á íþróttasviðinu.“

Skáldagatan hefur aðdráttarafl
Kristmann Guðmundsson„Andans gata er til í Hveragerði og ber hún nafnið Frumskógar. Þar hafa margir andans menn átt heima, má þar nefna skáldin Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, sr. Helga Sveinsson, Gunnar Benediktsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Aðrir, sem búið hafa við götuna, eru Gunnlaugur Scheving listmálari og Ríkharður Jónsson átti þar sumarbústað. Þessi gata er gjarnan kölluð Skáldagata og hverfið listamannahverfi Hveragerðis. Í næstu götum bjuggu til dæmis Höskuldur Björnsson listmálari, Arni Björnsson tónskáld, Hannes Sigfússon og Kári Tryggvason. Einnig ólst Bergþóra Arnadóttir lagasmiður og söngkona upp í þessu hverfi.
Gatan hefur mikið aðdráttarafl og er snyrtileg. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar, hefur látið sér annt um viðhald húsa þar en Grund á velflest húsin við götuna.
Hópar, sem leið eiga um Hveragerði, vilja gjarnan fara um þessa götu og hópur kvenna kom þar við fyrir skömmu og gerði sérstaka kröfu um að sjá hús Kristmanns Guðmundssonar.“

Í Sunnudagsblaði Vísis 1942 skrifar Kristmann Guðmundsson um „Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands„:

Hveragerði

Séð yfir Fossflöt við Reykjafoss um 1940. Tjaldbúðir hermanna í forgrunni, líklega kanadísku hersveitarinnar Fusiliers Mont Royal sem hafði aðsetur í Hveragerði á bökkum Varmár sumarið 1940.

„Einu sinni s.l. sumar gekk eg með miðaldra manni, útlendum, um Hveragerði. Hann var hugsjónamaður mikill, og hafði fest yndi við þetta land, sem er erlendu fólki oftast erfitt í fyrstu, sökum auðna og hrjósturs. „Í þessum fjallkrika“, sagði hann, „í þessu „alpvesi“ er framtíð hins nýja Íslands að bruma.“

Hvveragerði

Hveragerði á hernámsárunum.

Hann hafði rétt fyrir sér. Hér í Hveragerði mun upp rísa fyrsta og mesta landhúnaðarborg Íslands. Og að fimmtíu árum liðnum mun hún ná alla leið til Þorlákshafnar, sem þá verður stærsta höfn landsins, og miðstöð allra viðskipta við útlönd; en óslitið þéttbýli nær þá yfir alla Rangárvallasýslu! Dagar hirðingjabúskapar á Íslandi munu senn taldir. Á næstunni munu tugir þúsunda af ungu fólki leita úr andstyggð borgarlífsins. og vígja líf sitt gróandanum, í tvennum skilningi! Vér höfum nú um skeið verið á bullandi „túr“ í annarlegri kvikmyndamenningu, pólitískum grillum, búðarlokufínheitum, og öðrum óþverra sem hingað hefir skolast. Gleði- og menningarþorsti margra gáfaðra hirðingjakynslóða hefir farið með oss í allskonar gönur. Vér stigum úr móbíl miðaldanna, upp í nýtízku flugvél framtíðarinnar, og því engin furða þó á oss rynni, fyrst í stað. En vér höfum fyrr siglt krappan sjó, og náð þó höfn, heilir að mestu.

Hveragerði

Hveragerði 1967.

Svo mun enn verða. Eg sé ekki ástæðu til að bera kvíðboga fyrir framtíð íslenzks kyns, og íslenzkrar tungu, þó að nokkur þúsund erlendir hermenn dvelji hér með oss um hríð. Sú raun, sem vér nú þolum, er ekki meiri en það, að hún mun verða oss til blessunar, ef vér erum þeir menn, sem vér sjálfir höfum lengi gumað af. Og ef svo er ekki, ef vér erum lubbar og aumingjar, þá er ekki nema vel farið að vér hverfum í deiglu sköpunarinnar! En það er undir oss sjálfum komið, og því má enginn ábyrgur Íslendingur gleyma!

Hveragerði

Sundlaug í Laugaskarði – Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.

Eg vil leyfa mér að skjóta hér inn atriði, sem er ekki beinlínis tilheyrandi því efni sem þetta greinarkorn á að fjalla um. Ef menning vor þolir ekki þá þrekraun, sem sambúðin við erlent setulið, og allt sem stríðinu fylgir, hlýtur að hafa í för með sér, þá skulum vér að minnsta kosti ekki láta eftir oss þann lúalega ræfilsskap, að kenna kvenfólkinu um það! Ef piltar vorir hefðu ahnennt tamið sér prúðmennsku og siði hvítra manna, í stað allskonar hornrónaháttar, sem hér er landlægur, þá hefði vissulega aldrei þurft að skipa neina nefnd til viðreisnar íslenzku kvenfólki!
Nei, vinir góðir, skipið heldur nefndir sem vinna að því, að gera mönnum kleift að græða og rækta þetta óviðjafnanlega fagra land! Einblínið ekki á hættur og erfiðleika, skapið yður umfram allt ekki grýlur, málið ekki andskotann á vegginn! Segið við sjálfa yður hið sama og engillinn sagði við kerlinguna, sem horfði hugstola á ljá þá hina miklu, er hún skyldi raka:
„Horf þú ekki á ljá þína langa,
láttu heldur hrífuna ganga!“

Hveragerði
Hér er yfrið nóg að vinna. Setjið þennan margumtalaða stríðsgróða í ræktun og uppbyggingu nýrra sveitabýlahverfa, fyrst ekki er hægt að kaupa fyrir hann skip! Stríðsgróðinn verður yður hvort sem er því aðeins til blessunar, að hann sé notaður í þjónustu gróðurs og lífs! Annars verður hann ólánið einbert! — Fylgið dæmi Hveragerðinga, og skapið ný verðmæti handa framtíðinni, fyrir það fé, sem berst yður í hendur sökum niðurrifs og eyðilegginga annarsstaðar í heiminum. Þá mun það aldrei svíða hendur yðar, og þér finnið aldrei af því þann þef blóðs og tára, sem við það er bundinn!
Hér í Hveragerði er handagangur í öskjunni. Eftir því sem eg kemst næst, á að byggja hér 25—30 gróðurhús á þessum vetri og 20 íbúðarhús. Illlendismóar, sem legið hafa gagnslitlir um þúsundir ára, eru rifnir sundur með traktorum, og úr þeim skal á sumri komanda vaxa lífsþróttur og hamingja til handa börnum þessa lands!

Hveragerði

Hverahvammur – Einstök mynd af Hverahvammi í Hveragerði, þar sem nú er hótelið Frost og funi og veitingastaðurinn Varmá. Óljóst er hvenær myndin er tekin, en ekki er ólíklegt að hún sé tekin snemma á fjórða áratug 20. aldar.

Jarðhitinn, sem allt fram að þessu hefir unnið óbundinn í þjónustu eyðingarinnar, er færður í fjötra og látinn mala gull og gæfu bornum og óbornum. Á hrjóstrum íslenzkra móa vaxa rósir og nytjajurtir, sem auka fegurðina og efla lífskraftinn. Þetta er að vinna í þjónustu lífsins, mínir elskanlegir, þetta er að byggja upp án hiks og æðru, hvað sem hrynur og brotnar í kringum mann. Í þessu starfi liggur einn af sterkustu þáttum framtíðar vorrar, heilla og hags. Í móðurfaðm náttúrunnar eigum vér að sækja endurnýjungu kraftarins, gleðinnar, ástarinnar, alls þess sem gerir oss heila og sterka, og veitir oss þrótt til að vinna bug á hverju því mótlæti sem oss er ætlað.

Hveragerði

Fagrihvammur – Fagrihvammur í ágúst 1930. Íbúðarhúsið á myndinni brann en núverandi íbúðarhúsi í Fagrahvammi var reist árið 1933. Við árbakkann sést fyrsta gróðurhúsið í Hveragerði en það var alls 45 fermetrar og í því voru fyrst um sinn ræktaðir tómatar og blóm.

Lífskjör þjóðarinnar þurfa að komast sem fyrst í heilbrigðara horf. Vér erum bændaþjóð, en búskapur vor er orðinn á eftir tímanum, og vér flykktumst í kaupstaðina úr fátækt og fásinni sveitanna. Vér fórum þangað í gæfuleit; manneskjan er ávallt að leita að gæfu sinni. En grunur minn er sá, að almenningur íslenzkur finni ekki gæfu sína í borgum, og hvar er hennar þá að leita? Ætli hún sé ekki einmitt í sveitunum semvér yfirgáfum, í samstarfinu við hið skapandi líf, í hollu erfiði daganna og draumlausri hvíld næturinnar? Ef til vill er hún í því fólgin að sjá börn vor vaxa upp í félagsskap við jurtir og dýr, og sjá á andlitum þeirra hinn hreina svip heilbrigðinnar?

Hveragerði

Spegillinn – Forsíða skoptímaritsins Spegilsins frá júní 1947. Á myndinni er gert góðlátlegt grín að fjölda hvera sem mynduðust í Hveragerði í kjölfar eldgoss í Heklu sama ár. Á myndinni má sjá nokkra þjóðþekkta menn sem bjuggu í Hveragerði á þeim tíma. Talið frá vinstri Jónas Jónsson frá Hriflu sem átti sumarbúðstað á Reykjum, Kristmann Guðmundsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn Pétursson og sr. Helgi Sveinsson.

Mér hefir þótt það sérstaklega eftirtektarvert hvað fólkið hérna í Hveragerði er ánægt að sjá. Það á sér efalaust sínar sorgir, hjá því verður ekki komizt í henni veröld, en almennt séð, virðist vera meiri vellíðan hér en annarsstaðar, þar sem eg þekki til. Skyldi það ekki koma til af því, að menn eru hér í starfi sínu sifellt í nánu sambandi við móður Náttúru?

Hveragerði

Berklahæli – Í þessu húsi á Reykjum í Ölfusi var starfrækt heilsuhæli fyrir berklasjúklinga árin 1931-1938. Samhliða því var rekið stórt kúabú og garðyrkjustöð. Eftir að berklahælið hætti var húsið notað undir starfsemi Garðyrkjuskóla ríkisins sem tók til starfa árið 1939. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru tekin í notkun ný hús undir starfsemi Garðyrkjuskólans og var því húsið ekki lengur í daglegri notkun. Árið 2005 var gamla berklahælið notað fyrir slökkviliðsæfingar og brennt til grunna.

Hveragerði er ekki staður fyrir svokallaða „snobba“. Hér þrífst engin „buxnavasamenning“, eins og einn Hveragerðingur hefir komizt að orði. Hér er unnið, og unnið vel! Aðra eins blómgun í einu þorpi hefi eg aldrei séð. Þetta er góður staður fyrir skáld, sem vilja vera í stöðugu sambandi við hið lifandi líf! Enda eru nú skáld og aðrir listamenn sem óðast að flytja hingað búferlum, og vel sé þeim! Hér ríkir andi samstarfs og hjálpsemi; vér erum allir verkamenn í víngarði Drottins, og skiljum nauðsyn hvors annars. Þeir, sem ætla sér að okra á náunganum, eru hér illa séðir og munu aldrei þrífast. Enda höfum við ekki haft marga þesskyns fugla hérna. Sá eini, sem mér vitanlega hefir reynt það, komst skjótlega að því, að almenningsálitið var honum ekki hliðhollt!

Hveragerði

Garðyrkjuskólinn gamli.

Það eru ekki nema tólf ár síðan fyrsta býlið var reist í Hveragerði. Þá byggði Sigurður heitinn Sigurðsson búnaðarmálastjóri Fagrahvamm. Þar situr nú sonur hans, Ingimar, og er garðyrkjustöð hans hin stærsta innan þorpsins: fimmtán hundruð fermetrar undir gleri. Enn stærri garðyrkjustöðvar eru þó á Reykjabúinu, og í Gufudal. Pálmi Hannesson réktor hefir og snotra garðyrkjustöð í Reykjakoti, þar sem Menntaskólaselið er. Í Gufudal býr Guðjón Sigurðsson, mikill dugnaðarmaður; eru þar um álján hundruð fermetrar undir gleri, og hefir hann byggt það allt upp á fimm árum. Í Fagrahvammi er trjáræktarstöð blómleg, hjá Ingimar Sigurðssyni, og er mikil prýði að henni í þorpinu.

Hveragerði

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.

Auk þess, sem eg þegar hefi nefnt, eru 14 garðyrkjustöðvar í Hveragerði, og útlit fyrir að annað eins verði byggt á næstunni, eða meira. Þorpsbúar eru nú þegar á þriðja hundrað, en þeim mun fjölga talsvert á næstunni, því margir eru í þann veginn að flytja hingað.

Hveragerði

Kambar.

Kaupfélag Árnesinga á grunninn sem þorpið stendur á, en það er almennur vilji Hvergerðinga að ríkið eignist staðinn, og heyrst hefir, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá kaupfélagsins hendi. Væri það líka eðlilegast að svo yrði, og að lóðirnar fengjust á erfðafestu. Þá þyrfti einnig sem fyrst að leggja götur og ræsi, því að enn er frumbýlingsháttur á slíku.

Hveragerði

Hveragerði – ferðamannhver.

Hverir og laugar eru nær óteljandi í Hveragerði. Mestir eru Bláhver, Bakkahver og Sandhólahver, en í kringum þá er allstórt svæði óbyggilegt, og hefir það verið afgirt. Goshverir eru nokkrir; þekktastur þeirra er Grýla, sem gýs 20—30 metra i loft upp, en henni miklu meiri er Svaði, er á það til að gjósa all stórkostlega. Hann er uppi í hlíðinni fyrir ofan og austan Varmá. Jarðhitinn er mjög mikill, og skorpan ofan á honum sumstaðar nokkuð þunn, að því er bezt séð verður. Hefir víða verið borað eftir gufu með jarðborum, og tekist vel. Jarðskjálftar eru tíðir en sjaldan verulegir, hverakippir svokallaðir. S.l. sumar voru þeir þó all snarpir og komu með stuttu millibili í nokkra daga.

Hveragerði

Í Hveragerði má sjá fjórar kynslóðir af þjóðvegum. Núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun 1972, þjóðvegur sem var í notkun 1894-1972, Eiríksvegur sem var lagður 1880-1881 og svo gamla þjóðleiðin sem sést á þessari mynd. Gamla þjóðleiðin er aldagömul. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má.

Náttúrufegurð er mikil í Hveragerði. Úr þorpinu blasir við Ölfusið allt, og ósar Ölfusár, sést þar á sjó fram. Húsin standa skammt frá hlíðum Reykjafjalls, en fagur klettahjalli vestan við þorpið, og fyrir innan hann dalur grösugur og ljúfur.

Hveragerði

Eiríksvegur – lagður um 1880.

Fram úr honum rennur Varmá, en við hana hefir verið byggð rafstöð sem lýsir upp þorpið. Foss er i ánni, fagur mjög, í sjálfu Hveragerði, og er mikil bæjarprýði að honum. Undir klettahjallanum, sem að ofan er nefndur, er falleg hlíð, vaxin víði og blágresi, og mun þar verða lystigarður þorpsins innan tíðar.

Hveragerði

Kvennaskólinn á Hverabakka.

Í Hveragerði er barnaskóli, garðyrkjuskóli og kvennaskóli. Garðyrkjuskólinn er rekinn fyrir ríkisfé, í sambandi við Reykjabúið, og læra unglingarnir þar að yrkja og græða land sitt. Kvennaskólanum veitir forstöðu stofnandi hans og eigandi, Árný Filipusdóttir, sem mörgum er að góðu kunn, fyrir gestrisni, listfengi og fádæma dugnað í starfi sínu. Þá er í Hveragerði stærsta sundlaug landsins. Stjórnandi hennar er þjóðkunnur ágætismaður, Lárus Rist sundkennari.

Hveragerði

Jónas Jónason frá Hriflu 1934.

Uppi í hlíðinni, undir Reykjafjalli á Jónas Jónsson frá Hriflu sumarbústað, ásamt fleiri góðum mönnum. Annar alþingismaður er nýbúinn að byggja sér hús í Hveragerði: Jóhannes úr Kötlum, sem er þjóðinni reyndar kunnari fyrir skáldskap sinn en þingmensku, að hvorutveggja ólöstuðu. Fleiri listamenn eru hér búsettir, og í ráði að enn nokkrir flytjist hingað, og er það vel. Einn dýrmætasti auður íslenzku þjóðarinnar eru listamenn hennar, og hefir aldrei verið meiri nauðsyn til að hlúa vel að þeim en nú. Og hér í Hveragerði myndi þeim líða vel, ef þeim væri gert kleift að eignast hér heimilL og lifa sæmilegu lífi. Vonandi þekkir nú þjóðin sinn vitjunartíma, og sér sóma sinn í því að reisa nú þegar þetta listamannahús, sem lengi hefir verið um talað! Því væri hvergi betur í sveit komið en í Hveragerði, og nú eru til nógir peningar að byggja það fyrir, svo hvað dvelur orminn langa? Er ekki sífellt verið að prédika í blöðum og útvarpi, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að styðja og styrkja íslenzka menningu af fremsta megni, vernda málið, og útbreiða þekkinguna á landinu? Hverjir haldið þér að séu líklegastir til alls þessa? Hverjum eiga Íslendingar að þakka tungu sína og þjóðerni, og þar með líf sitt og tilveru? Hverjir hafa verið inn – og útverðir íslenzkrar menningar gegnum aldirnar? Hverjum er það að þakka að Íslendingar njóta þó nokkurrar virðingar meðal þjóðanna? Sérhver dómbær útlendingur myndi svara: Skáld, fræðimenn og listamenn! En farið þér nú að svara því sjálfir, mínir elskanlegir, og svarið því þannig, að yður sé heldur sómi að en skömm.

Hveragerði

Jóhannes úr Kötlum.

Það kveður nú við úr öllum áttum, að nú séu myrkir tímar og kvíðvænlegir, og er það ekki of sagt. En „él eitt mun vera“, eins og Njáll gamli á Bergþórshvoli sagði. Aftur mun Birta, og vér fáum að sjá „upp rísa, öðru sinni, jörð úr ægi iðjagræna“. En á þeirri jörð mun Hveragerðis oft verða að góðu getið, því að hér er framtíð hins nýja Íslands að rísa úr grasi.“

Heimildir:
-Sveitarstjórnarmál. 2. tbl. 01.04.1986, Hveragerðishreppur fjörutíu ára – Karl Guðmundsson, bls. 66.
-Sveitarstjórnarmál, 5. tbl. 01.09.2016, Hveragerðisbær 70 ára, bls. 8.
-Morgunblaðið, 145. tbl. 01.07.1987, Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár, bls. 26.
-Vísir Sunnudagsblað, 8. blað 12.04.1942, Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands – Kristmann Guðmundsson, bls. 1-3.
https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/

Hveragerði

Merki bæjarins – Hreppsnefnd Hveragerðis ákvað haustið 1982 að efna til samkeppni um gerð byggðamerkis fyrir sveitarfélagið. Um 80 tillögur bárust frá 27 aðilum. Í nóvember sama ár var efnt til sýningar á tillögunum og gátu þá allir íbúar, 12 ára og eldri, tekið þátt í skoðanakönnun um val á merki. Hreppsnefnd valdi síðan merki úr hópi tillagna sem flest atkvæði fengu. Höfundur vinningstillögunar var Helgi Grétar Kristinsson málarameistari í Hveragerði. Skjaldarflötur merkisins er í þremur bláum litum. Merkið sýnir gufustrók sem er táknrænn fyrir jarðhitann í Hveragerði. Einnig myndar gufustrókurinn lauf eða smára sem er tákn fyrir garðyrkju- og blómarækt sem sveitarfélagið er þekkt fyrir. Fuglinn í merkinu vísar í þjóðsögu um hverafugla sem syntu á sjóðheitum hverum. Merkið var tekið í notkun árið 1983.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: „Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.“
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
„Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  „Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896„. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

„Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: „Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.“ Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.“
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét „Andrés“ og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.“
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. „Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.“

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. „Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…“ Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. „Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Raufarhólshellir
Ætlunin var að fara inn í Raufarhólshelli í Þrengslum, en alls mun hellirinn vera um 1360 metrar að lengd, en meginlínan er um 900 m og dýptin um 32 m. Sú saga hefur fylgt Raufarhólshelli að í honum hafi verið komið krukku með jarðneskum leifum síðustu manna úr útdauðum indíánaþjóðflokki við Magellansund.
RaufarhólshellirOpið inn í hellinn er bæði aðgengilegt og stórt. Eftir að inn er komið má sjá hvar loftið hefur fallið á nokkrum stöðum á leiðinni inn. Þetta er einn fjölfarnasti hraunhellir á Íslandi. Auk þess er hann lengstur hraunhellanna utan Hallmundarhrauns. Hellirinn sveigir undir þjóðveginn til suðvesturs og upp í rennslisstefnuna. Þar sem vegurinn liggur yfir Raufarhólshelli er hætta á ferðum. Þakið yfir hellinum, sem í upphafi var um 10 m á þykkt, er nú aðeins um 3-4 metrar. Búið er að hreinsa úr hellinum allar fagrar hraunmyndanir, dropsteina og hraunstrá og nú má sjá þar leifar af kyndlum, kertavax, filmuhylki, niðursuðudósir, plastpokar og fleira er nútímafólk gæti hugsanlega haft gaman að því að skoða við aðstæður, sem þarna eru.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Innst í hellinum er fallegur hraunfoss, eða hann hefur a.m.k. einhvern tímann verið fallegur. Fyrir ofan fossinn má komast inn lítil þröng göng og skríða nokkra metra áfram inn í skemmtilega kúlu þar sem nokkrir menn komast fyrir. Gamlar sagnir greina frá dropsteinum í hellinum. Margir þeirra voru um hálfur meter á hæð. Enginn dropsteinn er nú eftir í Raufarhólshelli og lýsir það vel umgegni um hella, sem aðgengilegir eru hverjum og einum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Raufarhólshellir er mjög hruninn og því erfiður yfirferðar nema innst þar sem lítið hefur hrunið úr hellisloftinu. Ís er einnig fremst í hellinum og því oft hált á grjótinu og erfitt að komast þar um. Þá er ekki síst nauðsynlegt að hafa góða fyrirhyggju á bæði ljósabúnaði, sem nota á, og þeim er hægt er grípa til ef hann bregst því myrkrið er mikið um langan veg.Þessi ferð var hins vegar farin til að kanna hvort framangreind sögn gæti átt við rök að styðjast. Sagan segir að þegar Magellan sigldi um heimsins höf og í hringferð um jarðskorpuna, hafi hann komið sem nú er Magellansund. Þá bjó þar þjóðflokkur indíána er var að deyja út. Sótt geisaði og voru einungis þrír af ættflokknum eftir. Var svo um mælt og handsalað að jarðneskar leifar índíánanna yrðu settar í krukku að þeim brenndum og henni komið fyrir á friðsælasta stað, sem til væri á jörðinni. Indíánarnir dóu og staðið var við samningana.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Ösku þeirra var komið fyrir í krukku og einhverjir tóku að sér að efna loforðið og fylgja efndunum eftir. Þeir tóku sig upp og fóru með krukkuna til friðsællar eyju í norðurhöfum. Þar var krukkunni komið fyrir í stórum og löngum helli eftir hátíðlega athöfn. Áletrun var skilin eftir því til vitnis. Nafni eyjarinnar var haldið leyndri af skiljanlegum ástæðum.
Þegar komið er u.þ.b. 300 metra inn í Raufarhólshelli er skilti á veggnum. Erfitt er að koma auga á það á bak við stóran stein eftir bugðu á göngunum. Á þessu skilti er sagt frá atvikinu…. Krukkan stendur þar hjá ef vel er að gáð. Þetta er eina indíánaathöfnin af þessum toga hér á landi sem vitað er um.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Þorlákshafnarsel

Gengið var yfir Eldborgarhraun eftir Lágaskarðsvegi gegnt Raufarhólshelli, norður með Lönguhlíð, inn á Selstíg, upp í Sandali og á Eldborg undir Meitlum, um Lágaskarð milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells og um Lákastíg austan Stóra-Meitils um Stóradal að Hveradölum. Þessi fyrrum fjölfarni vegur var nefndur Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Gatnamót eru undir Lönguhlíð þar sem Selstígurinn liggur af honum suður með hlíðinni að Hrauni. Þessi leið hefur einnig verið nefnd Lágaskarðsvegur, líkt og hin, sem liggur frá gatnamótunum til suðvesturs áleiðis niður að Breiðabólstað. Sá hluti götunnar (Selstígur/Lágaskarðsvegur) lá niður að Hjalla í Ölfusi. Hraunsselið er skammt neðan við gatnamótin, fast við hraunbrúnina. Í bakaleiðinni var gengið suður með austanverðum Litla-Meitli, ofan við Innbruna og áð undir Votabergi þar sem Hafnarsel kúrir undir grettistaki.
Lágaskarðsvegur var genginn yfir Eldborgarhraunið frá malarnámusvæðinu við Raufarhólshelli að Lönguhlíð. Ofar er Sanddalahlíðin og Suðurhálsar. Þegar komið var yfir hraunið var gengið spölkorn suður eftir Selstígnum og litið á tóftir Hraunssels.
Þá var haldið áfram upp með Lönguhlíð gengið norður eftir Lágaskarðsvegi, milli hraunsins og hlíðarinnar. Undirhlíðin er grasi gróin og því greiðfar göngufólk.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Litli-Meitill blasti við í norðvestri og Eldborgin var beint framundan, ofan Sanddala. Undir Litla-Meitli eru fallegir grasbalar, auk þess sem sjá má vísir af skógrækt undir hlíðinni. Nyrðri-Eldborg er framundan. Úr henni liggur falleg hrauntröð á sléttlendið fyrir neðan. Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla í Ölfusi, kom úr þessari Eldborg. Í raun er það miklu mun eldra en Kristnitökuhraunið norðvestan við Lambafellið, það er myndaði Svínahraunsbrunann.
Gígurinn er mikilfenglegur, ekki síst þar sem hann trjónaði þarna uppi í þokukenndri hlíðinni. Hann hefur hlaðið upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Gígurinn er opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gígarnir tveir, þessi er nefnist Nyrði-Eldborg og annar mun minni austar, utan í Stóra-Sandfelli, nefndur Syðri-Eldborg. Hraunið norðan þeirra er úr Eldborg ofan Hveradala, austan í Stóra-Reykjafelli.
Gengið var áfram um Lágaskarð. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”
Varða Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: „Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar (303 m.y.s.).

Skálafell

Skálafell.

Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: „Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.“

Lakadalur

Lakadalur.

Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”

Lágaskarðsvegur

Stapi við Lágaskarðsveg.

Framundan var Hveradalaflötin norðan Lakahnúka og Hveradalir suðavestan í Reykjafelli (Stóra-Reykjafelli). Í efsta dalnum, vestan við Eldborg, var skíðastökkpallur og heitir þar Flengingarbrekka. Stærsti dalurinn heitir Stóridalur og ofan við mynni hans er Skíðaskálinn. Hverirnir, sem dalirnir eru við kenndir, eru í litlum hvammi fyrir ofan Skíðaskálann.
Skíðaskálinn í Hveradölum var reistur árið 1934 af Skíðafélagi Reykjavíkur og var hann í eigu þess til 1971 er Reykjavíkurborg keypti hann. Skálinn brann til kaldra kola 21. janúar 1991. Nýr skáli í svipuðum stíl var þá reistur á grunni hins gamla. Hann var tekinn í notkun 4. apríl 1992 og formlega vígður 17. júní það ár.

Skíðaskáli

Skíðaskálinn í Hveradölum.

Uppi í brekkunni fyrir ofan skálann eru tveir minnisvarðar. Annar þeirra er til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann, er var formaður Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár, frá stofnun þess 1914, en hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann, er var formaður þess næstu 11 árin. Í Hveradölum bjó á árunum milli 1930 og 1940 danskur maður, A.C. Høyer að nafni. Hafði hann þar greiðasölu. Þá hafði hann gufu- og leirböð og vísi að gróðurhúsarækt, líklega einn fyrsti maður hér á landi sem stundaði þann atvinnuveg.
Gengið var til baka um Stóradal, niður í Stórahvamm vestan undir Stóra-Meitli og hlíðinni fylgt til suðurs milli hennar og Lambafellshrauns, framhjá Hrafnakletti og að Votabergi. Undir berginu er Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).
RaufarhólshellirÍ örnefnalýsingu segir að „frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi. Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi. Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við stóran klett kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi. Þar hafði Þorlákshafnarbóndi í seli gegn skipsuppsátri Breiðabólsstaðarbóndans í Þorlákshöfn. Sunnar frá selinu er hóll eða klettaborg og þar við lóðréttan, lítinn hamravegg er eitthvert mannvirki, sem gæti verið kvíar og raunar ekki sýnilegt, hvað það gæti verið annað.

Votaberg

Votarberg.

Hamraveggurinn hefur veirð notaður á eina hlið, en síðan hlaðið á þrjá vegu úr grjóti. Þetta er um 7 m á lengd og 2 m á breidd, kynni að hafa tekið um 25-30, en það má þykja helst til lítið fyrir stórbýlið Þorlákshöfn. Þetta gæti þó vel staðist, því fjöldi sauðfjár var þar ekki svo mikill á 18. öld og fram á þá 19.”
Rústirnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni í janúar 1976.
Í heimildum er einnig sagt frá Tæpistíg, leið er lá “upp úr grasgeira ofan við Votaberg, sniðgata í snarbrattri hlíðinni, upp á brúnina.“
Gengið var niður með Litla-Meitli og niður Eldborgarhraun að upphafsstað. Á leiðinni var leitað hugsanlegra hella í hrauninu, en engir fundust að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.