Tag Archive for: örnefnakort

Grindavík

Um var að ræða menningar- og sögutengda ferð í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins.

Söguskilti

Ferðin hófst við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. Gengið var að tóftum gamla Hópsbæjar og Neðri-sundvörðu. Þar var vígt fimmta söguskiltið sem sett er upp í Grindavík og nú í Hópshverfi. Þar mátti má sjá ýmsar minjar, s.s. tóftir gamla torfbæjarins á Hópi og jafnvel minjar um landnámsskála Molda-Gnúps, landnámsmanns Grindavíkur.
Gengið var með strandlengjunni að Eyjagarði, hafnarbakkanum sem reistur var í Vestmannaeyjagosinu, og að minjum á Hópsnesi. Í ferðinni var og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni.

Hóp

Hóp og Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Á söguskiltinu við Hóp stóð m.a: „Þú ert ofan við Vatnstanga norðan við Hópið, núverandi hafnarlægi Grindvíkinga. Til hægri handar eru tóftir gamla bæjarins á Hópi. Í Manntali 1880 var bæjarstæðan nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).
Við MiðaftanshólHúsið Hóp var byggt árið 1935 af Einari Einarssyni í Garðhúsum og húsið Sjónarhóll var byggt af Guðmundi Þorsteinssyni árið 1951.
Á túnakorti frá 1918 var hlaðin sundvarða þar sem íbúðarhúsið er nú. Rétt neðan við húsið Hóp er rúst. Hún mun vera leifar þurrabúðar sem byggð var ábúanda um tíma frá Þórkötlustöðum fyrir aldamótin 1900. Útihús var þarna skammt vestar.
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á ýmsum tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Hún hefur verið endurbyggð til annarra nota líkt og flest önnur mannvirki á svæðinu.

Hóp

Líkleg bólfesta fyrsta landnámsmannsins í Grindavík. Uppdráttur ÓSÁ.

Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness (síðasta íbúðarhúsið var flutt yfir Hópið á bát og er nú Túngata 9), auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa. Elsta bryggjan neðan við Hópskot er sýnd á uppdrættinum, en hún er nú horfin og aðrar nýrri teknar við hlutverki hennar.
Auk örnefnanna má sjá ýmiss gömul mannvirki í Hópinu á þessu sögu- og minjakorti.

Landnám

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..? Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

Í Landnámu segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra… En um vorið eftir fóru þeir  Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.“

Hóp

Hóp – túnakort 1918.

Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar. Í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, „sem hefur um langt skeið hefur verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þórkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum.
Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.“
HópskotÁ túninu umhverfis gamla bæinn eru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert sjónmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir þeirra eldri verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess hefur verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa. Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk. Um er að ræða áhugaverðar minjar, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu í Landnámu.

Hóp

Skiparétt í Nesi

Í Jarðabókinni 1703 segir að „öngvar engjar“ séu á Hópi. Þar var þá tvíbýli. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Þá eru þarna kýr, hestar og fé hjá báðum ábúendum. „Heimræði árið um kring og lending hin besta sem hjer í sveit er, en ærið lángt að setja, nema með flóði verði lent. Þar gánga vetur og sumar skip heimabænda. Item áttrætt skip stólsins og fylgir því búð og vergögn, sem hvorutveggja er innkomið í tíð Mag. Brynjólfs, en var ekki fyrr.“ Þá segir að „fjörugæði eru mikil til beitar fyrir fje á Hópi.“

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar. Verminjarnar ofan við Hópsvör virðast skv. þessu því geta tengst útveri Skálholtsstóls á staðnum. Árið 1840 er „Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.“

 

Í Landnámi Ingólfs segir að „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ Þar stingur skökku við því ferskvatnsuppspretta kemur undan landinu í fjörunni við Vatnstanga. Í fjöruborðinu hefur því verið mikið og fjölbreytt lífríki frá náttúrunnar hendi þar sem ferskvatnið kemur undan berginu og sameinast sjónum.
Í NesiÁrið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (Stóri- og Litliparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880, sem fyrr er lýst.
Inn á Túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og er bæjarstæðið sjálft því horfið. Skv. lýsingu Huldu D. Gísladóttur (f:1918) stóð bærinn ofan við núverandi smábátahöfn, sunnan við Skiparéttina. Hann hafi jafnan verið nefndur Hópsnes, en ábúandinn í hennar tíð gjarnan kenndur við „Nes“, t.d. Guðmundur í Nesi.

Nes á Hópsnesi

Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í Jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum.
Melbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamalt bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún. Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá austurhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Gengið um borðAustanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Loftur Jónsson segir um Vatnsstæðið: „Þar sem mýrin sunnan við þar sem fyrirtækið Stakkavík er nú var vatnsstæði þar sem sjór rann í á flóði. Þetta var þó nokkuð stór tjörn. Ósinn inn í vatnsstæðið var það mikill að ekki var hann fær þurrum fótum á flóði. Einhverntíma þegar dýpkun fór fram í höfninni var botndrullu dælt í þetta vatnsstæði og það fyllt upp. Smám saman greri þetta upp.“
Einn sjóvarnargarðurinnLanghóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. „Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,“ segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör. Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Þetta voru herslugarðar. Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur að Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,“ segir í Sögu Grindavíkur.
Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin liggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.

Hús

Gömul þjóðleið liggur ofan við Hóp áleiðis í Voga. Um var að ræða svonefnda Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.

Hafnargerð
Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.

Grindavík

Grindavík – seilað í Norðurvör.

Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Engar heimildir eru um að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu.
Gamla bryggjanÁ 20. öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í hafnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum. Árið 1902 fól hreppsnefnd þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
HópsnesFjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ. Bæjarstæðið var umflotið sjó 1925. Timburhúsið Teigur flaut þá upp.

Árið 1925 gerði mikið sjávarflóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið mjög í víkinni er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.

Bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram.
Hópið 1945Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd.
Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
ÁHópið 1955rið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.

Grettir

Grindavík – dýpkunarskipið Grettir.

Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
InnsiglinginByggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.

Sjávarútvegur og fiskvinnsla

Grindavík

Tvíæringur.

Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62.
AðkomanEftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm. Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.
Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð. En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið sem fyrr er lýst.
Með öllum eftirfarandi Hópiðframkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús rindavíkur og var fyrsta  verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1954 – loftmynd.

Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka.
Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun.
ÞorbjörnEinnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975-1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands. En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.
Við gerð uppdráttarins var m.a. stuðst við „Örnefni á Hópi“, sem séra Ari Gíslason skráði, Örnefnalýsingu Lofts Jónssonar, Jarðabók ÁM 1703, Manntöl frá 1880 og 1910, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, Sögu Grindavíkur og upplýsingum og heimildum núlifandi Grindvíkinga.

Grafið

Sérstakar þakkir eru færðar þeim Lofti Jónssyni, Tómasi Þorvaldssyni, Guðmundir Þorsteinssyni, Birgi Guðmundssyni, Huldur Dagmar Gísladóttur og Jóni Guðlaugssyni fyrir aðstoðina við gerð uppdráttarins. Þá er Gunnari Tómassyni þökkuð afnot af meðfylgjandi ljósmyndum.“

Frá „Nesi“ var siglt með Oddi V. Gíslasyni út Hópið, um Ósinn og út á Járngerðarsundið. Þar var stefnan tekin á Bótina utan við Þórkötlustaðanes. Sjólag var eins og best getur orðið. Útsýnið til landsins var ekki síðra. Vel var hægt að ímynda sér heimleiðir útvegsbændanna fyrrum. Aldan virtist há, en útlegð. Þótt handtök stjórnenda og áhöfnar Odds væru bæði örugg og traustvekjandi var auðvelt að sjá fyrir hvernig forfeður vorir fyrrum hafa þurft að hafa vara á sér og afl til að komast síðasta sjólagið að vörinni á öldum áður, hvort sem um var að ræða Fornuvör, Suðurvör, Norðurvör, Staðarvör eða Hópsvör (Gvendarvör).

Uppdráttur af svæðinu er á skiltinu, sem er allt hið vandaðasta. Eins og fram kom hér að framan er um að ræða fimmta Minja- og söguskiltið af sex slíkum í Grindavík. Segja má með sanni að þetta framtak Saltfisksetursins og Grindavíkurbæjar verður bæði að teljast til mikillar fyrirmyndar og á án efa eftir að efla til muna vitund bæjarbúa sem og annarra á sögu Grindavíkur og hinum miklu minjum sem sveitarfélagið hefur að geyma.

Frábært veður.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Járngerðarstaðir

Í tilefni að uppsetningu söguskiltis á atburðarsviði „Tyrkjaránsins“ við Járngerðarstaði var efnt til menningar- og sögutengdrar göngu um gamla Járngerðarstaðahverfið (2006). Skiltið, sem staðsett er við horn Verbrautar og Víkurbrautar, á auk þess að minna á sögulegt upprunahlutverk Járngerðarstaða í þróun byggðar í Grindavík. Ætlunin er að setja svipuð skilti upp á fleiri sögustöðum í byggðarlaginu, s.s. Þórkötlustaðahverfi, Hópi, Stórubót og jafnvel Þórkötlustaðanesi og Staðarhverfi. Allt eru þetta staðir, sem telja verður til þeirra markverðari í forsögu bæjarins, auk þess sem vonandi fást sérstök tækifæri síðar til að vekja athygli á hinu merka mannlífi, búskap, útgerð og verslun í Grindavík áður fyrr.
JárngerðarstaðahverfiGangan var í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins. Eftir stutta athöfn þar sem forstöðumaður Saltfisksetursins, Óskar Sævarsson, kynnti tilurð og tilgang skiltisins var tekið til við að lýsa atburðarrás „Tyrkjaránsins“ um Jónsmessubil árið 1627. Rifjaður var upp sá hluti hennar er gerðist þarna á sjónrænu sögusviði. Oft koma upp efasemdaraddir um nákvæma staðsetningu atburðarrásarinnar, einkum vegna þess að staðhættir hafa breyst á þeim nær 380 árum, sem liðnir eru frá atburðinum. Það er þó aðallega þrennt, sem styrkir fólk í þeirri trú að þetta geti verið staðurinn; a) frásögn þátttakenda og heimildamanna við skráningu atburðarrásarinnar, b) lýsing Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi þar sem sagt er frá því að „barist hafi verið í fiskigörðum Járngerðarstaða“ og c) þjóðsagan um Tyrki í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar þar sem segir að „þyrnir hafi sprottið upp þar sem blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust“ eftir bardagann. Þyrnir þessi, sem reyndar er þystill, vex einmitt við gatnamót Verbrautar og Víkurbrautar.
Í tilefni afhjúpunar upplýsingarskiltisins var talið vel við hæfi að þakka Guðjóni í Vík og Tómasi frá Núpi sérstaklega fyrir þeirra þátt við gerð þess. Báðir sýndu áhuga á verkinu og voru fúsir til að gefa allar þær upplýsingar er dygðu til að ljúka því með sómasamlegum hætti. Fleirri komu að verkinu. Eiga þeir allir verulegar þakkir skyldar.
Á nýja skiltinu eru m.a. eftirfarandi upplýsingar:

Þú ert hér
Járngerðarstaðahverfi„Þú stendur á slorþró Hafrenningshússins. Það var einnig nefnt Grindvíkingahúsið um tíma. Aftan við þig eru nokkur gömul hús (byggð um og eftir aldarmótin 1900). Elst er Flaggstangarhúsið (Flagghúsið), byggt 1890. Nokkur hús eru horfin, t.a.m. Einarsbúð.
Framundan eru Járngerðarstaðir og nálægir bæir. Svæðið, sem þú hefur nú yfirsýn yfir, var vettvangur “Tyrkjaránsins” í júnímánuði árið 1627.
Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu frá árinu 1967, lýsingum Guðjóns Þorlákssonar í Vík, Tómasar Þorvaldssonar o.fl. á staðháttum. Hafa ber m.a. í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.

Járngerðarstaðir
Járngerðarstaðahverfið er einn þriggja byggðakjarna í Grindavík. Austast er Þórkötlustaðarhverfi og vestast er Staðarhverfi.
Talið er að Grindavík hafi byggst mjög snemma. Í landnámsbók er talað um að Molda-(G)Núpur Hrólfsson hafi numið hér land (í kringum 934). Gera má ráð fyrir því að bæjarkjarnar hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning þeirra hafi ráðist af graslendi, aðgengi að vatni og aðstöðu til sjósóknar á þessum stöðum.
Talið er að þingstaður Grindvíkinga hafi frá upphafi verið á Járngerðarstöðum. Það bendir til þess að búið hafi verið þar allt frá landnámsöld.

Járngerðarstaðahverfi Heimildir um um sögu jarðarinar og ábúendur fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Helst er getið um fjöruréttindi, en þó er sýnt, að jörðin hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar.
Grindavík var verslunarstaður allt frá miðöldum og fram á 18. öld. Þjóðverjar og Englendingar höfðu aðstöðu við Járngerðarstaði á 15. og 16. öld. Sögulegur atburður gerðist hér aðfaranótt 11. júni 1532 við virki Englendinga ofan við Stóru bót. Þá voru 15 þeirra vegnir vegna ágreinings. Sá atburður breytti verslunarsögu landsins.
Af Jarðabókinni 1703 má sjá að Járngerðarstaðir voru taldir hin mesta kostajörð, en hún var þá enn í eigu Skálholtsdómkirkju.

Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli. Það samanstóð af tveimur býlum, sem þar voru, auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar. Um aldarmótin 1900 bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa og Járngerðarstaðahverfi varð miðstöð byggðar í Grindavík. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til Einars Einarssonar frá Garðhúsum en hann setti upp verslun í húsi sem hann byggði árið 1897. Einarsbúð var síðan reist hér skammt frá 1917.

Um aldamótin 1900 voru íbúarnir 357 talsins en árið 2006 voru þeir um 2600. Árið 1931 var gerð bryggja hér niður undan gömlu húsunum. Leifar hennar sjást enn. Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið þar sem aðalhöfnin er nú. Árið 1974 fékk bærinn kaupstaðarréttindi.
Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum.

“Tyrkjaránið”
JárngerðarstaðahverfiAtburðurinn hafði mikil áhrif á alla landsmenn. Í langan tíma á eftir voru Íslendingar mjög á varbergi. Þeir óttuðust endurkomu sjóræningjanna.
Það var um Jónsmessuna 1927 að skip kom að Grindavíkurströndum. Íbúafjöldinn var nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóðu þá í Járngerðarstaðalandi.
Á Járngerðarstaðavíkinni lá danskt kaupskip. Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, sendi átta Íslendinga að aðkomuskipinu. Þegar þeir komu um borð voru þeir umsvifalaust herteknir. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi „Tyrkjanna“, Amorath Reis, fór frá skipi sínu með þrjátíu vopnaða menn. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir.

Þá gerðist margt á örfáum klukkustundum. „Tyrkirnir“ snéru sér að Grindvíkingunum. Þeir skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. “Tyrkjunum” lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn sneri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku „Tyrkir“ hestinn af honum og stungu. Lá Hjálmar óvígur eftir.
„Tyrkir” rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og tvo sonu hennar, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru út í skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku „Tyrkir“ til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausan er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir með húsfrúnni og færðu til skips.
Þennan örlagaríka morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum, rænt í Grindavík.

Járngerðarstaðahverfi Á útleið ginntu „Tyrkir“ hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip.. Áður en „Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík. Loks héldu þeir til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó.
Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár. Halldór samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og voru þeir þá þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1636. Komst hann heim setti ásamt eiginkonu sinni saman bú á Járngerðarstöðum.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu þennan morgun 1627.

Þótt sjóræningarnir hafi jafnan verið nefndir “Tyrkir”, sem var þá samheiti yfir alla múslima í grennd við Miðjarðarhafið, hafa þeir að öllum líkindum verið Evrópubúar.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Sagan segir að: “Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan.” Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir auk þess: “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið.”

Tyrkjaránið
Á árinu 2007 eru, sem fyrr segir, liðin 380 ár frá þessum sögulega atburði í Grindavík. Það væri því vel við hæfi að minnast hans sérstaklega, t.d. með því að gera þá staði, sem gætu hafa tengst atburðinum, sýnilega og aðgengilega áhugasömum íbúum og gestum þeirra.
ÓSÁ hannaði útlit upplýsingaspjaldsins, Martak í Grindavík bjó til standinn og Stapaprent annaðist prentun. Skiltagerðin er styrkt af Pokasjóði og Grindavíkurbæ.

Járngerðarstaðahverfi Genginn var hringur um hverfið, þangað sem “blóðþyrnirinn” vex og síðan að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Gengið var til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Reynt var að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Uppákomur s.s harðfisks- og hákarlamakk o.fl. var í boði á leiðinni. Gangan endaði síðan við gamla Flaggstangarhúsið (Flagghúsið, sem verið er að endurreisa og var til sýnis í tilefni dagsins. Einn eigandi þess, Erling Einarsson, bauð gesti velkomna, sagði frá forsögu hússins, lýsti tilkomu nafngiftarinnar sem og notkun þess. Fram kom að ætlunin er að hýsa krambúð í húsinu, sem verður að teljast bæði áhugavert, einkum í ljósi þess að Einarsbúð, afurð og afkoma forfeðra hans, var lengi framan af í næsta húsi að vestanverðu, og áskorun, bæði til bæjarstjórnarfólks er þarf nú að taka ákvörðun um markvissa uppbyggingu og nýtingu þessa fyrrum upphafs byggðaþróunar í Grindavík og viðhalds hennar til lengri framtíðar. Ljóst er að allflest húsanna á svæðinu eru í niðurníðslu. En þegar haft er í huga að þarna uxu fáeinir bæir og nokkur ver fyrrum upp í hverfi og síðan heilt samfélag kaupstaðar verður ekki hjá því komist að meta þetta afmarkaða svæði með tilliti til lengri framtíðar. Ekki verður langs að bíða að kaupstaðurinn (unglingurinn) verði borg (fullorðinn). Þá er ekki verra að til verði áþreifanleg merki upprunans – hjartans.

Og þá aftur að göngunni. Eftir að hafa gengið að „blóðþyrninum“
var Verbrautinni fylgt að „Járngerðardys“. Hún mun vera í vestanverðri (túnmegin) beygjunni á milli Hliðs og Víkur. Tómas Þorvaldsson, 85 ára, tók á sínum tíma á móti FERLIR í Grindavík. Þegar staðsetja átti dys Járngerðar, sbr. söguna, gekk hann hikalust að framangreindum stað. Gatan liggur til suðurs frá Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Járngerðarstaðahverfi Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni í frásögn sinni (1903). Segir hann að gamla sjávargatan hafi fyrrum legið til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina, sem fyrr segir, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.
Brynjúlfur segir frá því að hann hafi grafið í dysina en þá hafi þar visrt vera gamall öskuhaugur. Hafa ber í huga að Rafnshús voru þarna skammt suðaustar, Syðri Gjáhús skamt norðar og Gjákot fast við. Gamli Víkurbærinn var svo örskammt norðar. Þarna gæti því verið um að ræða öskuhól frá hverjum þessara bæja, hvort sem hóll (dys) hafi verið þar fyrir eður ei.
Þjóðsagan segir að „Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“

Járngerðarstaðahverfi Vestan við Garðhús eru Járngerðarstaðir. Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær.

Gamla kirkjan var reist árið 1909 (-1982), að mestu leyti úr efni kirkjunnar að Stað (1858). Hún var afhelguð 1982 og nýtt sem barnaheimili eftir 1988. Nálægt henni er Krosshús, þar sem Halldór Laxnes skrifaði Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns og Garðhús Einars G. Einarssonar, fyrsta kaupmanns Grindavíkur.
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum. Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Járngerðarstaðahverfi Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.

Dalurinn er tjörn í suðaustanverðu heimatúni Járngerðarstaða. Í henni eru brunnar á a.m.k. tveimur stöðum, frá Vallarhúsum og Hólshúsi, jafnan nefndir holur. Sölvhóll er gróin hraunhæð sunnan Dalsins. Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að húsfreyjan í Vallarhúsum (Vallhúsum) hafi bent á að huldufólk byggi í Sölvhól. Hann mætti ekki slá. Eitts inn sló bóndinn í Vallarhúsum Sölvhól og rapst þá kýrin á bænum.

Staðnæmst var við Tíðarhliðið, bent á hin ýmsu örnefni, s.s. Píkuskarðsklett, Vatnsstæðið, Bóndastakkatún, Hliðartún, Kjöthól o.fl., auk þjóðsagnakennda staði, t.a.m. Þjófagjá í Þorbjarnarfelli, Silfru, Junkaragerði, Sölvhól, Járngerðardys, „blóðþyrnirinn“ og fleiri staði þarna í nágrenninu eða í sjónmáli.
Við girðinguna sunnan við Tíðarhliðið eru strompleifar af togaranum Ásu sem fórst utan við Litlubót 1926. Togarinn var í eigu Duus-verslunar. Fyrirtækið átti þrjú skip með Ásunafninu og fórust þau öll, en mannbjörg varð í öll skiptin. Þau voru í raun undirstaðan undir veldi Duus, en sagan segir að þegar átti að reis hús fyrir verslunina í Kaplaskjóli í Reykjavík hafi eiganda hennar birst kona í draumi. Sú hafi sagst heita Ása. Bað hún hann um að reisa ekki hús á þessum stað, ella myndi hann hafa verra af. Húsið var reist og afleiðingarnar urðu framangreindar.

Járngerðarstaðahverfi Vatnsstæðið er afurð gjánna er liggja við grindavík ofanverða, en lágu einnig fyrrum í gegnum þorpið. Þær hafa nú verið fylltar.
Þetta voru (og eru) hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Silfurgjáin er einna stærst, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.

Skaldan var kynnt til sögunnar. Hún var orðið eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið þar sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Útihúsið var sambyggt við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.

Tómas segir Hraunstekki vera austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Við Gerðisvallabrunna eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík 1532 sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott. Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni.
Járngerðarstaðahverfi Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.
Einar Ól. Sveinsson segir svo frá því í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum:
„Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Járngerðarstaðahverfi Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlagt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti þegar þurfa hefur þótt.
Staldrað var ofan við Litlubót, Hvítisandur barinn augum sem og Fúlatjörn og önnur örnefni austur með ströndinni. Af Hádegishól var litið yfir sögusviðið, rifjuð upp nöfn hinna gömlu bæja, bæði þeirra sem enn sjást sem og þeirra er hafa horfið. Vellir flutu t..a.m. upp í flóðinu mikla 1925. Hólsgarður, hlaðinn úr grjóti, við hjáleiguna Hól er enn svo til óraskaður. Þá sést Hólsholan enn í Dalnum.
Þeginn var hákarl hjá Óskari við hákarlahjall Gísla og Guðjóns. Þá var „reykofn“ (reykgámur) Víkurbænda kynnt til sögunnar. Verið er að endurnýja kyndinguna, en í hana er einungis notað úrvals tað, þriggja ára gamalt, úr Víkurfjárhúsunum. Þarna er því að mörgu leyti rekin einn sjálfbærasti búskapur bæjarfélagsins. Heimaslátrun var ekki hafin þegar gangan átti sér stað, sem betur fer.
Járngerðarstaðahverfi Ofan við gömlu varirnar var farið yfir nöfnin á þeim frá vestri til austurs; Fornavör, Suðurvör, Stokkavör og Norðurvör (Skökk) innan við gömlu bryggjuna, sem byggð var 1931. Átta árum síðar var grafið inn í Hópið og varanleg bryggja gerð þar um 1950.
Ofan við gömlu bryggjuna eru enn nokkur gömul hús, s.s. Varir, Sæmundarhús, Bakki og Flagghúsið.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur, talið vera byggt árið 1890. Erling Einarsson, einn eiganda hússins, áformar að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir vel á veg komnar. Hann hafði húsið opið í tilefni dagsins og bauð þátttakendur velkomna. Ljóst er að mikið verk er enn fyrir höndum. Erling er þegar búinn að endurbyggja skemmda hluta burðarvirkis hússins, skipta um gólf beggja hæða einnig er búið að skipta um þak og þaksperrur einangra húsið utanvert á gömlu klæðninguna og bárujárnsklæða að utan. Alla nýja viðarhluta hefur Erling gert gamla í útliti með sérstakri bæsunaraðferð.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um.
Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu.
Járngerðarstaðahverfi Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastaðahverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Húsnúmer í Grindavík eru miðuð við þann stað, sem Flagghúsið er nú. Flagghúsið hefur gegnt marg­víslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, beitu­skúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbels­verðlauna­skáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er upp­spretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans.
Erling hafði séð til þess að gestir gengu ekki beint inn á gólf Flagghússins á skítugm skónum. Hann hafði farið ásamt nokkrum öðrum á heimalendur Íslólfsskálalands, inn á Hraunssnes vestan Mölvíkur, og sótt þangað stóra og slétta hraunhellu. Mjög var haft fyrir því og mikið vandað við að koma henni heilli á þar til sniðna kerru. Þegar stöðvað var síðan við áfangastaðinn kom í ljós að stóra slétta hellan hafði brotnað í tvennt – ekki þolað flutninginn í kerrunni. Það er sem sagt skýringin á sprungunni í dyrahellu Flagghússins. Þetta þurfti að skrá því bæði er það að heimildir þurfa jú að vera fyrir öllu, ekki síst ef einhverjum dytti í hug að spyrja síðar.
Í máli Erlings, eftir að hafa boðið, innkomna gesti velkomna, kom fram að Flagghúsið, sem var byggt árið 1890, varð að pakkhúsi verslunar Einars í Garðshúsum eftir að Einarsbúð var byggð norðan við það árið 1917.

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Á milli hennar og pakkhússins var vegur milli húsanna. Afgirt port var austan Einarsbúðar. Sunnan við pakkhúsið var lítill kofi, jafnan nefndur Lubbi. Erling kvaðst hafa áhuga á að endurbyggja hann svo hann geti gegnt þar nýju hlutverki salernisaðstöðu og fleiru frá Flagghúsi framtíðarinnar. Ekki stæði til að breyta neinu í Flagghúsinu sjálfu, enda mátti þar innan dyra sjá hinar gömlu áletranir pakkhússhlutverksins á veggjum, súðum og bitum.
Loft er í Pakkhúsinu. Því er haldið uppi með hluta af mastri og bugtspjóti skútu er strandaði við Þórkötlustaðavík út frá Leifrunarhól, sama ár og húsið var endurbyggt. Hvorutveggja eru hinar ágætustu minjar um skútuöldina, afleiðingar sjósóknar og þá samtvinnuðu sögu er var óhjákvæmileg hlutdeild í lífi fólks í Grindavík fyrrum.
Járngerðarstaðahverfi Erling benti á gamlar bækur er tilheyrðu bókhaldi Einarsverslunar og hafa varðveist. M.a. er þar um að ræða færslur er varða lagningu Grindavíkurvegarins á árunum 1913-1918. Þá fengu Grindvíkingar, að þeirra frumkvæði, fé frá Alþingi til vegalagningarinnar gegn því að formenn Grindavíkurbátanna legðu hluta lifrapeninga áhafnar þeirra á móti. Það varð til þess að vegurinn var lagður.
Sami háttur var hafður á er kvenfélagshúsið í Járngerðarstaðahverfi var byggt á sínum tíma.
Með endurbyggingu Flagghússins er kominn grundvöllur til að endurgera hluta gamla bæjarins, ofan við gömlu Norðurvörina, í Járngerðarstaðahverfi. Það myndi án efa setja mikinn svip á bæinn, fylla bæjarbúa stolti og jafnframt gera Grindavík að áhugaverðari kosti fyrir ferðamenn – ekki síst innlenda.
Aðgengið og umhverfið þarfnast lagfæringar, sem fyrr sagði. Vel væri við hæfi að steinleggja helstu samgönguæðar og gangstéttir, gerða ráð fyrir endurbyggingu gamalla húsa á svæðinu (að sjálfsögðu að uppfylltum nútímakröfum) frá „Resikó“ að Hópsnesi og gera þarna lítið þorpsgildi er um leið yrði nokkurs konar minnismerki um það sem var – og verður.
Flagghúsið mun nú ganga í endurnýjun lífdaga. Þar verður krambúð og e.t.v. eitthvað fleira áhugavert. Mikilvægt er að ráðafólk í Grindavík skoði, meti og ákveði hver eigi að verða framtíð þess gamla byggðakjarna er ávöxtur bæjarfélagsins er sprottin upp af, leifum þess liðna, en jafnframt áþreifanlegum minnismerkjum er sýna þarf tilhlýðilega virðingu – þar sem gömlu húsin eru annars vegar.
Grindavík, líkt og önnur byggðalög landsins, á sér merka sögu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Einar Ól. Sveinsson – Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – 1952.
-Guðjón Þorláksson.
-Tómas Þorvaldsson.
-Erling Einarsson.
-Færslubækur Einarsverslunar 196 og 1917.
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.

Skiltið

Stóra-gerði

Ætlunin var að ganga um Staðarhverfi í Grindavík, rekja staðsetningar einstakra bæja, sem þar voru, sem og önnur gömul mannvirki á svæðinu. Má þar nefna útgerðarminjarnar á Hvirflum, konungsverslunarminjarnar við Kóngshellu og Hvirfla, Staðarhverfi-loftmyndhreppsstjórasamfélagsminjarnar á Húsatóftum o.fl. o.fl.
Gangan var liður í undirbúningi að gerð sögu- og örnefnaskiltis, sem fyrirhugað er að setja upp í Staðarhverfi. Með í fartaskinu var örnefnalýsing fyrir Húsatóftir og Stað sem og fornleifaskráning fyrir Stað frá árinu 1999 auk fleiri gagna.
Haldið var rangsælis um hverfið, frá Húsatóftum að Stað. Skoðaðar voru tóftir tómthúsanna Hamra, Blómsturvalla, Dalbæjar, Vindheima og Reynisstaðar (Reynivalla). Öll þessi hús voru byggð eftir 1910. Sunnar eru leifar dönsku konungsverslunarinnar, alls sex hús og brunnur.
Fyrrum bæjarstæðið á stað var skoðað, einkum eldri bæjarins. Bergskot var austan við bæinn, upp á svonefndum Bringum. Leifar þess þess sjást enn. Einnig tóftir Nýjabæjar, u.þ.b. 100 metra norður af þeim.
Íbúðarhúsið að Móakoti var rifið nýlega svo þar sjást enn ummerki eftir það svo og garða og tún. Lönd voru austan við Stað og Merki á Hvirflum, á ystu  mörkum.
Hjáleigan Kvíadalur var suður af Stað. Þar sjást enn heillegar tóftir. Austar var Litla-Gerði og enn austar, á miðjum Gerðistöngum, var Staðargerði eða Stóra-Gerði öðru nafni. Þar sjást enn vegglegar vegghleðslu bæjarins, garða og sem og falleg heimtröð.
Staðarbrunnurinn hefur nú verið lagaður, en hann var upphaflega hlaðinn árið 1914. Dýptin á honum er 23 fet. Hóll er sunnan við brunninn. Sagt er að þar hafi fyrir löngu verið hjáleigan Krubba, eða Krukka eins og sr. Geir Backmann nefnir hana. Annar hóll er skammt suðaustar, líklega leifar hjáleigunnar Króks.
Tóftir KvíadalsMelstaður var sunnan við Hvirfla, nýbýli frá Stað frá árinu 1936. Þá má nefna hjáleiguna Sjávarhús, sem áður stóð á Staðarklöppinni, rétt við Staðarvörina. Þau munu hafa farið í eyði í sjávarflóðinu mikla árið 1799.
Hlaðnir brunnar eru nokkrir í Staðarhverfi, s.s. við Stað, Stóra-Gerði, Melstað, Hústóftir  og Kóngshelluna. Gamla réttin sést að hluta til enn ofan við Gerðistanga. Með ströndinni eru víða grunnar og ker síðan frá saltfiskverkuninni, einkum eftir 1930. Nokkrir grunnanna eru ofan við gömlu brygguna við Hvirfla, í Húsatóftarlandi. Vestan í Hvirflum er Vatnstangi yst

ur. Á honum er gróin tóft. Vestan við hana er lítil vík. Í henni leysir ferskvatn. Vegna seinni tíma bygginga sést orðið lítið af verslunarstaðnum, sem þar var fyrr á öldum. Á einokunartímabilinu kom t.d. öll sigling á þessa vík, en mun hafa lagst endanlega af í tíð Hörmangara. Víkin hefur ekki sérstakt nafn svo vitað sér, en hefur stundum verið nefnd Staðarvík því Staðarsundið er þarna utan við hana.

Staðarvör

Hvirflavörður eru tvær; neðri varðan er ofan við efsta flóðfar og hin 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsund og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá. Steinbryggjan austan við neðri vörðuna var reist árið 1933, en hún er í landi Húsatófta þrátt fyrir að lending hafi verið betri í Staðarvíkinni. Ástæðan er ágreiningur, sem var, um gjald fyrir bryggjuaðstöðuna.
Þótt landið sunnan Kóngshellunnar sé komið undir sjó, má þó enn sjá leifar á skerjum, m.a. hluta af flóraðri götu. Barlestasker er syðst sunnan Garðafjörðu. Þar munu verslunarskipin fyrrum hafa tekið barlest. Upp af þeim er stór og mikil klöpp, Kóngshellan, sbr. framangreindar minjar.
Brunnur við KóngshellunaÖrnefni á þessu svæði eru fjölmörg. Við gerð sögu- og örnefnaskiltis í Staðarhverfi er m.a. stuðst við „Örnefni í Staðarhverfi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, lýsingum Einars, Jóns og Þórhalls Einarssona frá Húsatóftum, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók“, heimilda Gamalíels Jónssonar bónda á Stað, Árna Vilmundasonar, Þorsteins Bjarnasonar o.fl., auk þess sem Loftur Jónsson mun gæta samræmis. Þá verður og byggt á lýsingum bræðranna Helga og ÓLafs Gamalíelssona frá því er þeir gengu með FERLIR um svæðið fyrir nokkrum misserum og lýstu örnefnum, minjum og staðháttum á svæðinu. Loks verður tekið mið af nýjum uppgötvunum við þéttriðna vettvangsleit á svæðinu. Nú þegar er uppkast uppdráttarsins svo þakin örnefnum og minjum að varla sést í auðan díl. Líklega verður að grisja uppdráttinn eitthvað áður en hann kemur endanlega fyrir almenningssjónir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Staðarkirkjugarður - gamli bærinn var ofarlega fyrir miðri mynd

Staðsetning gamla bæjarins m.v. gamla ljósmynd

Hraun

Sögu- og minjaskilti var vígt við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Þetta var sjöunda skiltið á jafnmörgum stöðum víðsvegar í Grindavík. Af því tilefni var efnt til gönguferðar um svæðið með leiðsögn.
Skiltið er staðsett við Ísólfsskálaveg á mörkum Hrauns og Þórkötlustaða. Á því er örnefna- og minjakort og auk þess má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik:

Uppdráttur

„Molda-Gnúpur Hrólfsson nam land í Grindavík árið 934. Lítið sem ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu aldir. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270.  Í Fitjaannál segir að árið 1602 hafi 24 piltar og 1 stúlka drukknað þegar stórt farmskip Skálholtsstaðar fórst utan við Hraun. Þau voru grafin við kirkjuna á Hrauni. Annað skip frá Skálholtsstóli fórst með allri áhöfn 8. mars árið 1700, auk þriggja annarra frá Grindavík.
Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Önnur var við heimabæinn en bar ekkert sérstakt nafn og hin var hjáleigan Vatnagarðar. Þriðja hjáleigan nefndist Garðhús. Ekki kemur fram hvar hún var. Um gæti verið að ræða býli við túngarðinn í svonefndu Draugagerði við Tíðahliðið. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það aðallega róið úr Þorkötlustaðanesi.
Jón Jónsson bjó á Hrauni eftir 1822. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Voru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Selstaða frá Hrauni fram til u.þ.b. 1900 var inn undir Núpshlíðarhálsi. Minjar þar sjást enn.
HraunSkammt austan við gamla bæjarhólinn, sem fjárhúsin eru nú, eru tóftir. Þar var áður sjóbúð ofan við Hraunsvörina. Ofan við hana var kirkjan.
Þegar kemur fram á 19. öld er Hraun orðið hið mesta myndarbýli. Þrjár hjáleigur eru þá á Hrauni, auk Vatnagarða; Hraunkot, Sunnuhvoll og Bakkar (Bakki).
Skammt ofar, milli Húsafells og Fiskidalsfjalls, var loftskeytastöð  hersins um og eftir miðjan síðasta áratug. Við Hraun hefur löngum verið eitt stærsta kríuvarp landsins.

Túngarður, brunnur og refagildra
VatnagarðurHlaðinn garður heimatúnanna sést enn. Honum hefur verið haldið við, enda fékk Jón bóndi „Dannebrogsorðuna“ fyrir hleðslu garða við Hraun. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Grjót úr görðunum var fyrir miðja síðustu öld tekið og notað undir Grindavíkurbryggjur.
Gömul hlaðin refagild
ra er ofar í hrauninu og önnur nær. Austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Í hann sótti fólk úr Þórkötlustaðahverfi vatn í þurrkatíð.

Kapellulág

garður

Í Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er þúst. Við hana er merki: „Friðlýstar minjar”. Á 6. áratug 20. aldar gróf Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörður, þar upp kapellu og fann í henni ýmsa gripi. Síðan var sandi mokað yfir minjarnar. Talið er að kapellan sé frá því á 14. öld.

Dys

Kapellan

Þegar „Tyrkir“ rændu hér á landi árið 1627 gerðu þeir landgöngu í Grindavík.  Sagt er að þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
„Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkir væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.“

„Tyrkirnir“ eru sagðir hafa verið settir í Dysina, sem er rétt við þjóðveginn.

Hellar
FiskigarðarVið Efri-Hellu sunnan undir Húsafelli er hellir. Um hellinn er sagt að í hann ætluðu Grindvíkingar að flýja kæmu „Tyrkir“ aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin.
Guðbjargarhellir er skammt ofan við Hraun. Í hann á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði.

Festarfjall
Frá Hrauni blasir Festarfjall við í norðnorðaustri. Í miðju berginu er grá rák, berggangur upp í gegnum bergið, og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefur verið auðvelt að láta heita eftir henni. Hangir festin því enn óhreyfð. 

Hnyðlingar

Dysin

Í Hrólfsvíkinni eru hnyðlingar; brot úr framandbergi. Brotin eru úr gígrás eða úr þaki kvikuþróar. Oft eru þau úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassanum. 

Gamlar götur
Frá Hrauni lágu fyrrum götur til vesturs yfir í Þorkötlustaðahverfi. Neðst (syðst) var Eyrarvegur (Randeiðarstígur), ofar Hraunkotsgata og Þorkötlustaðagata og efst Hraunsvegur. Leið lá einnig til austurs frá Hrauni um Siglubergsháls.

Fiskgarðar
SunnuhvollÍ Slokahrauni eru miklir fiskgarðar, svonefndir Hraunsgarðar, og -byrgi frá þeim tíma þegar fiskur var þurrkaður. Talið eru að þeir séu að hluta frá þeim tíma er Skálholtsstóll átti og gerði út frá Hrauni.

Kirkja
Bænahús eða kirkja var á Hrauni frá 1397 og fram yfir 1600. Þegar kirkjan var aflögð var hún flutt að Stað. Í lýsingu kirkjunnar að Stað segir m.a.: „Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni“.
Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.“

Þórkötlustaðagata

Skömmu eftir aldamótin 1900 hafði vertíðarfiskur verið saltaður í sjóhúsi við Hraunsbæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að grafa holu utan við húsvegginn. Átti að veita pæklinum í hana. Við fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hinnar fornu kirkju, þar sem Skálholtssveinar höfðu verið grafnir eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason á Hrauni fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda skemmu (nú fjárhús). SauðagerðiGætti Sigurður þess að halda honum til haga.

Cap Fagnet
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum utan við Skarfatanga í slæmu veðri. Áhöfnin, 38 menn, gátu ekki yfirgefið skipið á björgunarbátum togarans. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við. Fluglínutæki voru flutt á strandstað. Í fyrsta skipti var skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Skipbrotsmenn voru dregnir á land í björgunarstól og gekk allt að óskum. Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja því örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Síðar um daginn brotnaði það í spón.

Steinn

Björgunin markaði tímamót og færði mönnum sannindi þess hversu öflugt björgunartæki línubyssan var og flýtti mjög fyrir útbreiðslu hennar. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjum og björgunarsveitum á Íslandi lífið að launa.

Þakkir
Uppdrátturinn er byggður á örnefnalýsingum fyrir Hraun. Sigurði Gíslasyni frá Hrauni eru færðar sérstakar þakkir fyrir ómetanlegan fróðleik og vísan á örnefni og einstakar minjar. Þá er öðrum heimildarmönnum, Herði Sigurðssyni, Gísla Sigurðssyni, Árna Jóni Konráðssyni og Lofti Jónssyni, færðar þakkir.“

Skiltið er lokaþáttur í þriggja ára áætlun um gerð sögu- og minjaskilta í Grindavík – frá Skiltiðvestri til austurs. Líklega getur ekkert annað sveitarfélag á landinu státað af því að eiga heilstæðan uppdrátt af örnefnum og sýnilegum minjum í bæjarfélaginu. Verkefnið hefur, og mun verða, notað til kennslu í grunnskólum bæjarins. Uppdrættirnir eru þegar aðgengilegir íbúum og gestum þeirra í Saltfisksetrinu (fyrir sanngjarnt verð), auk þess sem ætlunin er að útbúa á næstunni handhægan bækling með öllum uppdráttunum, ítarlegri textum, teikningum og ljósmyndum af einstökum minjum og minjasvæðum í bæjarfélaginu.

Gengið um HraunÞað er FERLIR (ÓSÁ) sem hefur séð um upplýsinga- og heimildaöflun, texta, uppdrætti, ljósmyndir og teikningar á sögu- og minjaskiltum þessum. Martak hefur séð um hönnun og smíði standsins og Stapaprent um setningu og prentun. Saltfisksetur Íslands, Grindavíkurbær og Pokasjóður fjármögnuðu verkið og verkefnastjóri viðburðardagskrár Grindavíkurbæjar, Sigrún Jónsdóttir Franklín, hefur annast undirbúning, kynningar og framkvæmd sögugangna í tengslum við vígslu skiltanna. Aðstoðarfólk og heimildarmenn eru fjölmargir og eiga allir miklar þakkir skyldar.Hraun

Hóp

Fimmta Minja- og söguskiltið af sex í Grindavík verður afhjúpað við Hópið laugardaginn 11. október n.k. Staðsetningin sem og dagskráin verða auglýst á www.grindavik.is er nær dregur.
KortiðÍ Manntali 1880 var bæjarstæðan að Hópi nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á hinum ýmsu tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má og sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness, auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Bæjarráð Grindavíkur samþykkti fyrir stuttu að kosta endurprentun á öllum minja- og örnefnakortin á skiltastöndunum sjö er settir hafa verið niður í gömlu byggðinni, áhugasömu og fróðleiksfúsu fólki um sögu byggðalagsins til ánægju.

Grindavik - uppdrattur StadaehverfiEldri skiltin voru prentuð á pappír og sett undir plast, en hin nýju voru prentuð á ál með sérstakri teflonplastfilmu yfir. Veðrun hafði afmáð alla áletrun svo við blasti einungs hvítur flötur.
Nú er búið að koma öllum skiltunum sjö fyrir á sínum stað – fallegri sem aldrei fyrr.
Hér er uppdráttur af Staðarhverfi. Tilgreindir bæir eru 28, auk þess sem minja og örnefna er getið. Meðfylgjandi á skiltinu er svo sögulegur fróðleikur um hverfið.
Þá má geta þess að Grindavíkurbær hefur gefið úr rit; Sögu- og minjakort af Grindavík. Ritið hefur að geyma öll kortin auk meðfylgjandi fróðleiks. Það fæst ásamt öðrum ritum um gersemar Grindavíkur í Kvikunni í hjarta bæjarins.

 

Gerðavellir

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Grindavík

Nú hafa sögu- og minjaskiltin í Grindavík verið lagfærð. Skiltin eru orðin sjö talsins; í Þórkötlustaðahverfi, á Þórkötlustaðanesi, við Hóp, í Járngerðarstaðahverfi, á Gerðarvöllum, í Staðarhverfi og við Hraun.
SkiltiFyrsta sögu- og minjaskiltið var sett upp í Járngerðar-staðahverfi fyrir þremur árum. Kortið á því, og næstu skiltum þar á eftir, var prentað á hlífðarlausan pappír og sett undir plasthlíf. Þegar raki komst að pappírnum vildi hann smám saman bæði bólgna og upplitast. Núverandi kort eru varin álfilmu svo þau ættu að verja sig betur og endast þar af leiðandi lengur. Nýju kortin eru auk þess skýrari en þau gömlu.
Í kjölfar afhjúpunar skiltisins við Hraun var farið í þá vinnu að gefa út veglegan bækling með öllum kortunum, textum og fjölda ljósmynda af sögu- og minjastöðum í Grindavík. Vonast er til að Ferðamálafélag Grindavíkur komi að því verki líkt og það gerði svo myndarlega við útgáfu bæklinga um Selatanga og Húshólma.
SkiltiLíklegt má telja að kortabæklingurinn verði vinsæll, bæði meðal heimafólks og ekki síður gesta þess. Í raun má segja að hér verði um einstakt verk að ræða því ekkert annað sveitarfélag á landinu getur státað að því að hafa látið teikna upp og staðsetja allar sýnilegar (og jafnvel horfnar) minjar og örnefni í bænum og gera gögnin aðgengileg fyrir áhugafólk um efnið. Kennarar og nemendur í skólum bæjarins munu og geta notað gögnin til að fræðast betur um bæinn sinn, sögu hans og þróun allt frá upphafi byggðar.
Kortin er allnákvæm. Upplýsingar- og staðsetningar eru unnar í nánu samráði við aldna Grindvíkina er gerst þekkja til staðháttu. Sem dæmi má nefna að í fornleifaskráningu fyrir Staðarhverfi er getið um 8 býli í hverfinu, en á kortinu er getið um 28 slík, enda má sjá leifar þeirra enn ef grannt er skoðað. Nú við endurnýjun skiltanna hefur 29 bærinn (sem verið hefur nafnlaus á kortinu) skilað sér. Hann mun hafa heitið „Ölfus“.
Skilti

Þórkötlustaðir

Ætlunin var að afhjúpa örnefna- og söguskilti í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Skilti í Þórkötlustaðahverfi

Á árinu 2006 var afhjúpað sambærilegt skilti í Járngerðarstaðahverfi með sérstaka áherslu á sögusvið „Tyrkjaránsins“ 1627. Austustu einingu þeirra þriggja stoða er Grindavík hefur byggt afkomu sína á í gegnum aldir verður nú gerð skil í máli og myndum. Markmiðið er að áhugasömum bæjarbúum og gestum verði gert auðveldara um vik að rata skýrðar sagnaslóðir hverfisins og njóta þess sem íbúarnir hafa skapað frá upphafi landnáms. Ef vel er að gáð má vel greina landnámsskála, minjar um forna vætti, dysjar, dæmi um átrúnað, þjósagnakennda staði, gamlar markaðar götur, garða, útræði og búskap jafnt sem aðra landnotkun á þessu annars afmarkaða svæði í þjóðleið atvinnusköpunnar um aldir – allt til þessa dags.
Skiltið verið afhjúpuð kl. 11:01 að staðartíma við Þórkötlustaðaréttina. Í kjölfar þess mun verða gengið um hluta svæðins og staðhættir skoðaðir og kynntir af staðkunnugum.
Kort af ÞórkötlustaðahverfiSpáð hafði verið vonskuveðri, en því hafði verið breytt í blíðskaparveður í tilefni dagsins.
Byrjað var á upphafsstað, við örnefna- og söguskiltið, sem héðan í frá mun standa á Klapparhólnum austan við Þórkötlustaðaréttina. Á standinum má berja augum kort af svæðinu sem og stutt yfirlit um sögu þess. Í textanum stendur m.a.: „Þú stendur við réttina í Þórkötlustaðahverfi. Réttin var hlaðin um aldamótin 1900. Hún hefur síðan verið endurbætt. Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli. Hætt var að nota hana um 1950. Rétt suðaustan við Bæjarfellið í Krýsuvík var vorrétt. Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu bændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efralands. Þar var Gamla-réttin.
Hér á eftir er að finna nánari upplýsingar um hús, örnefni og örlítið um þróun byggðar á svæðinu. Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu Lofts Jónssonar, Garðbæ, frá árinu 1976, frásögnum hans sem og Ingeyjar Arnkelsdóttur, Buðlungu, Margrétar Sigðardóttur, Hofi, Ólafs Guðbjartssonar, Bjarmalandi, Sigurðar Gíslasonar, Hrauni, og fleirri er þekkja til staðhátta. Heimildir eru m.a. fengnar úr Sögu Grindavíkur, Jarðabók ÁM 1703, Fornleifaskráningu í Grindavík, Þjóðsögum JÁ og Landnámu. Hafa ber í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Þórkötlustaðahverfið

Gengið um söguslóðir Þórkötlustaðahverfis

Í Grindavík hefur verið hverfabyggð frá ómunatíð. Hverfin voru þrjú; Staðarhverfið er vestast og Járngerðarstaðahverfi í miðið. Það austasta er hér, Þórkötlusstaðahverfið. Í byrjun 19. aldar voru íbúar allra hverfanna 185 talsins.

Þjóðsagan segir að Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. „Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi.” Segja fróðir menn að það hafi gengið eftir. Leiði kvennanna má sjá í hvoru hverfi. Þorkötluleiði mun vera á túninu austan Þórkötlustaðavegar nr. 11 sem og dysjar hunds og smala.

Þorkötludys

Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík, líklega um 934. Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Líklegt má telja að byggðin hafi horfið um tíma. Um 1150 var mikið gos austan (Ögmundarhraun) við Grindavík og aftur um 1188. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að vestanverðu. Um 1211 færðist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Arnarseturshraun ógnuðu byggðinni.
Þórkötlustaða er fyrst getið í heimildum í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Staðsetningin freistaði stólsins einkum vegna nálægðar við góð fiskimið. Hér þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum. Minjar fiskverkunar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. í Slokahrauni hér austan Þórkötlustaðahverfis og í Strýthólahrauni hér úti á Þórkötlustaðanesi. Landamerki Þórkötlustaða og Hrauns liggja um Slokahraun. Þar eru leifar margra fiskigarða (Hraungarðar). Garðarnir liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið mynstur. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m.
 

Hermann gefur á garðann í Buðlungu

Í gömlum heimildum er getið um „gömlu Hraunsvör“. Á hún að hafa horfið er bænhús á Hrauni var lagt af skömmu eftir 1600. Kirkja mun hafa verið þar jafnvel frá því um 1200. Á 19. öld reru Hraunsmenn frá Nesi, en um 1840 hóf Jón Jónsson hreppsstjóri að láta gera vör sunnan undan túninu við bæinn. Enn má sjá hluta að gömlum hlöðnum túngörðum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón m.a. Dannebrogsorðuna.
Norðan vegarins ofan við Hraun er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaðir „Tyrkir” er drápust eftir að þeir gengu á land ásamt félögum sínum utan við Hraun 1627. Segir sagan að strákur frá Ísólfsskála hafi reynt að komast undan þeim á rauðri meri, þeir náð í taglið á henni en sú rauða þá sett hófana í þá með þeim afleiðingum að báðir drápust.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir enn eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland (Einland), Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 1787 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurpart, vesturpart og miðpart). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring. Sjávargötunar þrjár (Traðirnar) liggja niður að sjó milli bæjanna. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu, m.a. selalátur. Sjórinn gekk á túnin og braut land að framan. Árið 1840 náðu þau rétt upp fyrir Þórkötlustaðaveginn, sem nú er. Þorkötludysin var þá utan garðs. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar.

Þórkötlustaðagata í Slokahrauni

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Þórkötlustaðbrunninn sést á túnakorti frá 1918, norðan Miðbæjar. Hann var fallega hlaðinn, en síðar fylltur möl.
Álagasteinninn Heródes er innan garðs Vesturbæjar. Sagnir eru um að steininn megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Fornar rúnir eða tákn er markað á hlið steinsins.
Þórkötlustaðir - hinn forni bæjarhóllÍ rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að á Þórkötlustöðum átti að byggja heyhlöðu í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni benti til þess að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú er hlaðan horfin.
Tóftir bæja og gamlir kálgarðar eru allt um kring. Tóftir elstu Klappar og gömlu Klappar eru t.a.m. enn greinilegar.
Hleðslur úr torfi og grjóti sýna torfbæ eins og hann var allt fram á 20. öld. Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Mikið flóð 1925 tók af nokkur hús á svæðinu austast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar.
RanCap Fagnetdeiðarstígur (Eyrargata) var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða með ströndinni. Ofar í Slokahrauni sést enn móta fyrir Hraunkotsgötu og Þórkötlustaðagötu. Hraunkot byggðist frá Hrauni og reri ábúandinn þaðan.

Við Skarfatanga hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði þar aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki hér á landi. Þrjátíu og átta mönnum var bjargað í land.
Ofan hverfisins má sjá mikla steingarða til austurs. Þá hlóð að miklu leiti Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel og verið haldið við.
Aðrar áhugaverðir minjastaðir eru og við hverfið, s.s. „Tyrkjahellir” utan í Vatnsheiði, hlaðnar refagildur ofan við Hraun, hlaðnir brunnar og kapella frá miðöldum á Þórkötlustaðabæirnir fyrr á 20. öldinniHraunssandi.“
Í ferðinni miðluðu nokkrir innfæddir Þórkötlustaðabúar af þekkingu sinni og reynslu. Ólafur Rúnar Sigurðsson sagði t.a.m. frá uppvaxtarminningum sínum í Austurbænum, þær stöllur Anna og Sólveig að Þórkötlustöðum 3 (vestari Vesturbænum) buðu gestum orkusnakk og leyfðu þeim að skoða álagasteininn Heródes sem stendur í garði þeirra. Fram kom í samtali stuttu síðar eftirfarandi fróðleikskorn. „Kunnugur á svæðinu kom einhverju sinni að Vesturbæ með tvo ferðamenn. Hann langaði til að sýna þeim Heródes. Áður
 hafði hann átt samræður við steininn, sem jafnan hafi sýnt honum inn í óorðna atburði. Þessu sinni þagði steinninn. Aðkomumaður vék frá, en kom aftur að steininum skömmu síðar. Þegar hann beygði sig niður að steininum og snart hann sá hann hvar hann hafði litla biblíu í brjótsvasanum. Tók hann bókina úr vasanum og náði þá þegar sambandi við steininn. Sagði sá að þá þegar hafi Hekla gosið. Þau undur og stórmerki áttu og að hafa gerst að gosið færði vatn það er átti að hafa verið á fjallinu upp með gosstróknum í heilu lagi svo sá undir botninn. Slíkur væri kraftur steinsins.

Heródes

Gamla ljósmyndin af Þórkötlustaðatorfunni er tekin á bilinu 1943-8. Fremst má sjá Austurbæinn, en austari Austurbærinn er til hægri og utan myndarinnar. Sjá má hrútakofann við enda bæjarins, gamla Miðbæinn og þá Miðbæinn, sem enn stendur. Þá tekur við Vesturbærinn, sem nú er horfinn og vestari Vesturbærinn. Að handan sést í Sólbakka. Milli hans og vestari Vesturbæjar (t.v.) er fjárhús frá Austurbæ. Þá bjuggu í Austurbænum þau Ólafur Þorleifsson og Ragnheiður Jónsdóttir. Fyrri kona Ólafs, Þórlaug, ljósmóðir, var þá látin. Þau áttu saman Láru, en börn Ólafs og Ragnheiðar voru Þórlaug, Kristinn og Jón. Ólafur, sonur Þórlaugar, kom einmitt þessari ljósmynd á framfæri við FERLIR, en hún er einstök fyrir margra hluta sakir; í fyrsta lagi sýnir hún gömlu Þórkötlustaðatorfuna utan austari Austurbæ og í örðu lagi sýnir hún aftakendur torfhúsa landans frá fyrstu tíð. Þau voru óeinöngruð, með einfalt gler í gluggum og segja má að baðstofumenningin fyrrum hafi verið flutt svo til óbreytt inn í þau nýju híbýli. Í húsunum var eldhús með kamínu þar sem fyrir var viður og hrossatað (og besta falli kol) til upphitunar, búr innan af (yfirleitt úr torfi og grjót) og síðan baðstofa sem sameinaði borðstofu, setustofu og svefnaðstöðu. Fólk sat áfram á fletum sínum og mataðist uns birtu þraut. Skepnukofar voru samfastir húsunum, svo sem heyra mátti dag og nótt.
Líklegt má telja að steinninn með tákninu tengist fyrrnefndum fornmannatóftum á bæjarhólnum að Þórkötlustöðum sem og Þórkötludysinni ofan garðs (fyrrum).
Loftur Jónsson lýsti örnefnum eins og hann væri að lýsa einföldum mataruppkriftum – svo vel þekkir hann til staðhátta á svæðinu, kvótakóngurinn og fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson upplýsti viðstadda um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir og er þá allt meðtalið. Erling Einarsson sagði frá fyrstu minningum sínum í kjallarnum á Eyvindarstöðum, sem nú hafa verið flutt í heilu lagi út í Járngerðarstaðarhverfi líkt og nokkur önnur hús á torfunni. Þá mátti litlu muna að hann missti ekki verri handlegginn í þvottavélavindunni, en ekki er langt um liðið að hann missti næstum betri handlegginn í kollbyltu á Selfjalli ofan við Brúsastaði í Þingvallasveit.
Hinir miklu túngarðar í ÞórkötlustaðahverfiLoftur sagði frá verslun Þórkötlustaðahverfinga; Kron og Kötlu sem og Pöntunarfélagi Hraðfrystihúss Þórkötlustaðahverfis og hversu áræðnir hverfingar voru að brjótast undan verslunaráhrifum Járngerðishverfinga. Á leiðinni bauð Hermann Ólafsson í Stakkavík þátttakendum í fjárhús sín við Buðlungu og fengu allir þeir er enn teldu sig vera börn að gefa uppáhöldunum brauð á garðann. Margir voru til kallaðir, enda fjárhúslyktin flestum hverfisbúum ómeðvitað í blóð borin. Þess má geta til gamans að talið er að fjárhirslan við Buðlungu sem og það, sem Stakkavíkurbændur eiga í Staðarhverfi, geti vel verið útibú frá Seðlabankanum. Lengi hefur verið leitað að fjárgeninu í bændum landsins, en líklega væri fljótvirkasta og vænlegasta leiðin að leita þess hjá Grindavíkurbændum.
Loftur, helsti ráðgjafi og þekkjari staðhátta á svæðinu, gat þess að lokum að jafnan hafi Grindavíkurbændur verið handgengnir útvegnum; sótt sjóinn, átt nokkrar kindur og 2-3 kýr. Þeir hafi jafnan unað glaðir við sitt og því væri varla frá miklu meira að segja, en hér hefur komið fram.
Að endalokum bauð Báruverslunar-Björn (afkomandi Hafur-Björns) og Didda til mikillar kjötsúpuveislu að Auðsholti, að gömlum réttardagslegum sið. Fyrir það ber að þakka.

Gangan tók 1 klst og 41 mín.

Þórkötlustaðahverfi

Staðarhverfi

Grindavík á sér bæði merka og mikla sögu. Menningar- og sögutengd ganga var um Staðarhverfi, sögusvið verslunar-, kirkjustaðar- og útgerðar í Grindavík, mannfólk mikilla sæva. Gangan hófst ofan við kirkjugarð Grindvíkinga með vígslu á fjórða söguskiltinu sem sett hefur verið upp í Grindavík, og nú í Staðarhverfi, eitt af fjölmennustu hverfunum þremur í Grindavík.
Nokkrir þátttakenda nálgast söguskiltið á HoluhólGengið var frá Holuhól að Staðarbrunni, að gamla Staðarbænum, hinum nýrri, kirkjustæðinu í garðinum, klukknaporti, sem þar er og síðan haldið um Sandskörð, að Hvirflum og með ströndinni yfir að Stóragerði, Kvíadal og Krukku. Á leiðinni voru rifuð upp bæjarnöfn 28 bæja, staðsetningar þeirra og tilvist í tíma. Bæði gamlir Staðhverfingar mættu við þessa athöfn sem og afkomendur þeirra.
Kirkja var á Stað allt frá 13.öld til 1907. Í Staðarhverfi var konungsverslun á 18. öld, eða þangað til hún var flutt til Básenda. Árið 1703 var Staðarhverfið fjölmennast í Staðarsókn (Grindavík). Áttatíu árum seinna var þar orðið fámennast. Í dag er enginn íbúi skráður í Staðarhverfi, en þar má sjá tóftir tveggja lögbýla, eldri og nýrra á báðum stöðum, og 24 hjáleiga frá mismunandi tímum. Ýmislegt annað var skoðað, sem fyrir augu bar á leiðinni.
Í lok göngu var stefnt að því að hafa heitt á könnunni [að Stað] í Dúukoti.

Staðarhverfi

Horft yfir Staðarhverfi.

Á Holuhól var rifjuð upp tilurð skiltisins, þ.e. frumkvæði og aðkomu Saltfiskseturs Íslands að því verki, líkt og hinna þriggja, stuðningi Pokasjóðs og jákvæðni fulltrúa Grindavíkurbæjar og Grindvíkinga. Í raun má með þessu segja með allnokkrum sanni að þarna hefur bæjarfélagið í raun sýnt mikla framsýni og lagt varanlegri grunn að varðveislu helstu menningarminja þess sem og staðsetningu örnefna og kennileita. Íbúar bæjarfélagsins munu eiga auðveldara í framtíðinni að staðsetja slík kennileiti og það mun jafnframt gera þeim kleift að sjá hið sögulega samhengi í raunverulegra ljósi en margir aðrir.
Þetta virðist kannski ekki svo merkilegt nákvæmlega Staðarbrunnurinn, byggður 1914 - útihúsin á Stað og kirkjugarðurinn fjærnúna – þ.e. NÚNA, en mun án nokkurs vafa verða komandi kynslóðum ómetanlegt þegar fram líða stundir. Það gleymist stundum að gera ráð fyrir arfleifðinni í amstri og hita hverdagsins. Sagt hefur verið, að sá sem þekkir fortíðina eigi bæði auðveldara með að skilja nútíðina og spá í framtíðina.

Á Bringum, milli Holuhóls og Staðarbrunns, var ekki hægt að halda lengra án þess að þakka öllum þeim er komu að örnefnaskráningunni, staðsetningu þeirra sem og sýnilegra minja (sjá í lokaorðum á skiltinu), en þar höfðu Ólafur (heitinn) Gamalíelsson, Helgi, bróðir hans, og systir, Guðrún, hönd á plóginn. Loftur Jónsson hafði haldið utan um örnefnaþáttinn og staðið sig með mikilli prýði. Hafa ber í huga að það er ekki heiglum hent að rata rétt á alla slíka staði, sem jafnvel hafa getið tekið breytingum á hinum ýmsu tímum. Á örnefna- og minjaskiltinu stendur m.a. (og er þá vitnað m.a. í Sögu Grindavíkur, Staðhverfingabók, lýsingar Gísla Brynjólfssonar, Geirs Bachmann og Guðsteins Einarssonar):

Þú ert á Holuhól og horfir yfir Staðarhverfið.
Tóftir KvíadalsÁ kortinu sjást staðsetningar 28 bæja, hjáleiga og nýbýla, sem heimildir eru til um að hafi verið í Staðarhverfi, á mismunandi tímum. Öll býlin eru í eyði. Breytt samfélagsgerð og búskaparhættir höfðu þar mest áhrif.
Staður (9 og 10) var lögbýli og kirkjujörð. Kirkjan á Stað var innan kirkjugarðsins, en var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfið 1908 og endurvígð þar ári síðar. Búið var á Stað fram til ársins 1964.  Eldri hjáleigur voru Krókur (1), Beinrófa (8), Sjávarhús (12), Krukka (6), Móakot eldra (2) og Blómsturvellir eldri (11). Þær fóru í eyði á 18. öld, síðast Sjávarhús í Básendaflóðinu 1799. Búseta á öðrum bæjum í Staðarlandi lagðist af sem hér segir; Móakot (3) árið 1945, Stóra-Gerði (15) 1918 (hafði byggst 1789), Kvíadalur (13) 1919 (hafði byggst 1789), Bergskot (5) 1927, Litla-Gerði (14) 1914, Nýibær (4) 1910, Merki (17) 1943, Lönd (16) 1946 og Melstaður (18) 1950.
Húsatóftir (25 og 26) fóru í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934. Búseta á þeim lagðist af sem hér segir: Dalbær (21 og 22) árið 1946, Vindheimar (20) 1919, Hamrar (24) 1930 og Reynistaður (19) 1938. Í Jarðabókinni 1703 er getið um hjáleigurnar Garðhús (27) og Kóngshús (28). Ekki er vitað með vissu hvar Garðhús var.
Löndunarbryggja var byggð í hverfinu 1933. Ofan við hana má sjá leifar af fiskverkunar-, lifrabræðslu- og salthúsum. Auk örnefnanna má sjá ýmis gömul [og áður óskráð] mannvirki á kortinu.

Hverfin
Staðnmæst við gamla kirkjustæðið í StaðarkirkjugarðiMargt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna þriggja í Grindavík, Þórkötlustaðahverfi austast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Sitthvað bendir til þess, að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld.
Þegar þungamiðja byggðar í landinu færðist nær sjónum og mikilvægi sjávarútvegs og útflutnings sjávarafurða jókst er hugsanlegt að byggð í hverfunum hafi breyst nokkuð, jafnvel strax á 13. öld, einkum þó í Staðarhverfi. Munnmæli herma, að Staðarhverfi hafi eitt sinn verið stærst allra hverfa í Grindavík.
Staðarhverfi hafði nokkra sérstöðu að því leyti, að þar var kirkjustaðurinn og grafreitur sveitarinnar, og því munu flestir Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi að Stað en öðrum bæjum í sveitinni. Þá hafði Grindavíkurhöndlun lengi aðsetur í Staðarhverfi, og varð það enn til að auka mönnum erindi þangað.
Árið 1703 var íbúafjöldinn í Staðarsókn 214 (þar af 72 í Staðarhverfi). Árið 1762 var fámennast orðið í Staðarhverfi og íbúar þess aðeins 44. Árið 1783 hafði heimilum í Staðarsókn fækkað um tæpan fjórðung, og má telja næsta öruggt, að sú fækkun hafi að öllu leyti orðið með þeim hætti, að byggð hafi lagst af á hjáleigum og þurrabúðum, einkum í Staðarhverfi.

Staður
Hin flóraða StaðarvörStaður var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Torfhús voru á Stað fram á 20. öld, en 1923 var byggt steinhús, sem var nýtt þangað til búi var brugðið (1964).
Prestsetrið Staður hafði takmarkaða landkosti og þurfti að sæta ágangi sjávar og sandfoks, en var samt ein hæst metna jörðin í sókninni. Heimræði var árið um kring, skammt að róa og mikinn afla að fá, þegar fiskur gekk á miðinn og gæftir voru góðar. Rekanum var skipt niður milli staðar og kirkju. Selstöðu fyrir búfénað hafði Staður á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrr á öldum var fjörugrasa- og sölvatekja næg. Hrognkelsaveiði var allmikil alla tíð meðan hér var byggð. Beita, bæði sandmaðkur og skel, var drjúg. Sauðfénaður kunni vel að meta fjörubeitina. Á veturna var fjaran eina bjargræði hrossanna. Maríukjarni var skorinn fyrir kýrnar á ystu skerjum, látinn rigna, þurrkaður og geymdur í töðunni til vetrarins. Þá var eldsneytið, þang, sótt í fjöruna því hvorki var mór né skán í fjárhúsum fyrir að fara. Höfnin var kennd við prestsetrið Stað og ýmist nefnd Staðarvík, Staðarhöfn eða Staðarsund.
Geir Bachmann segir í lýsingu sinni árið 1840 að á Stað sé „mikið slétt og gróandi yfrið fögur tún; eru þau sandorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn að sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1799.” Árið 1925 gekk sjór langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold.
Gamli torfbærinn var við norðvesturhorn kirkjugarðsins austan við steyptar rústir, sem þar eru. Grunnur og tröppur steinhússins (byggt 1938) sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð (endurbyggður 2005).
Brunnurinn á Stað var hlaðinn árið 1914[, 23 fet á dýpt og kostaði 300 kr]. Efsti hluti hans hefur verið endurhlaðinn (2006).

Kirkja
Klukkan af Anlaby í klukknaportinuHeimildir eru um kirkju á Stað í Vilkinsmáldaga 1397. Þá ber henni að gjalda til Skálholts „6 hundruð skreiðar hvert ár og flytja til Hjalla [í Ölfusi]“.
Allt fram til ársins 1836 var torfkirkja á Stað. Þá var reist timburkirkja, en hún stóð þó einungis í 22 ár. Sumarið 1858 var reist ný kirkja sömu gerðar, alþiljuð og traustleg, uns hún var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfi (1908) og endurreist þar (1909). Trúlega hefur Staðarkirkja ávallt verið á þeim stað, sem síðasta kirkjan stóð, inni í kirkjugarðinum.
Í kirkjugarðinum er klukkuturn og í honum bjalla. Á hana er letrað; SS. Anlaby 1898 Hull. Það er skipsklukkan úr Anlaby, togara frá Hull, sem fórst með allri áhöfn (11 manns) við Jónsbásakletta aðfaranótt 14. janúar 1902.
Þekktir prestar á Stað voru t.d. séra Oddur V. Gíslason, brautryðjandi í slysavarnarmálum sjómanna, séra Geir Bachmann og séra Gísli Brynjólfsson.

Húsatóftir
Húsatóftir-neðriHúsatóftir (-tóptir/-tóttir) er hin stórða jörðin í Staðarhverfi. Árið 1703 voru Húsatóftir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs skv. Jarðabókinni. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum”.
Árið 1840 lýsti Geir Bachmann Húsatóftum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“  Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóftum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.
Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, en þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið sem nú stendur að Húsatóftum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Þar er golfskáli Grindvíkinga.
Við gömlu sjávargötuna frá Húsatóftum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem heitir Pústi. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Ofar eru gróningar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru leifar grjótbyrgja. Þar eru og greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Vörður og leiðir
Hvirflavörður eru á Hvirflum. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni rétt vestan við bryggjuna. Hin er um 150 m Ein Nónvarðanna á Hæðumofar. Vörðunar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli bæjanna.
Nónvörður eru eyktarmark frá Húsatóftum. Vörðurnar standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremsta varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum.
Árnastígur er austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg. Syðsti hluti stígsins var bæði kallaður Staðar- og Tóftarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg [Skipsstíg] á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Önnur gömul þjóðleið milli Húsatófta og Hafna var Prestastígur.

Verslun

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Aðalaðsetur Grindavíkurverslunarinnar fyrr á öldum var á Húsatóftum. Jörðin virðst hafa komist að fullu í eigu Viðeyjarklausturs á 15. öld, og eftir siðaskiptin sló konungur eign sinni á hana eins og aðrar eigur íslensku klaustranna.  Verslun hófts á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Grindavíkurverslunin hafði bækistöð sína hér fram til 1742. Í Staðarhverfi var „sumarhöfn konungsskipsins“ segir Skúli Magnússon í lýsingu sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þegar sigling  lagðist niður fluttu Grindvíkingar vörur sínar til Básendahafnar og úttekt sína frá henni sjóleiðis eða á hestum. Síðan versluðu Grindvíkingar í Keflavík áður en þeir fóru sjálfir að höndla á nýjan leik.
Lengi voru glögg ummerki eftir siglingu kaupskipanna í Arfadalsvík, þ.e. festarhringir á Bindiskerum. Höndlunarhúsin stóðu niður við sjó nálægt Hvirflum, en kaupmenn bjuggu á Húsatóftum.  Barlest, Kóngshella og Búðasandur eru örnefni er benda til verslunarinnar. Verslunarhúsið, sem reist var á Búðarsandi árið 1731, stóð allt framundir eða framyfir lok einokunar. Síðustu verslunarhúsin voru rifin 1806.

Við gerð uppdráttarins var m.a. stuðst við „Örnefni í Staðarhverfi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði, Jarðabók ÁM 1703, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, bókina „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók“, lýsingar Gamalíels Jónssonar bónda á Stað, Árna Vilmundasonar og Þorsteins Bjarnasonar, Sögu Grindavíkur o.fl., auk örnefnalýsingar Lofts Jónssonar frá 1976.
Hafa ber huga að heiti túnbletta og einstakra húsa gætu hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Sérstakar þakkir eru færðar þeim Lofti Jónssyni, Helga Gamalíelssyni, Ólafi Gamalíelssyni, Guðrúnu Gamalíelsdóttur, Kristni Þórhallssyni og Kristínu Sæmundsdóttur fyrir aðstoðina við gerð uppdráttarins.“

Hermann í Stakkavík og féðÁ sérhverjum stað var staðnæmst og reynt að gera svolitlu af sögunni skil, sem og skyldu efni. Hermann Ólafsson í Stakkavík, sonur Gamalíelssonar, færði fínan fénað sinn fram fyrir börnin og gaf þeim kost á að fóðra féð á brauði. Nokkur léttfætt tryppi trítluðu umleikis.
Stóra-Gerði, sem fyrrum hét Gerði, er einstaklega heillegur 19. aldar bær að meginefni til. Enn má t.d. sjá bæjargöng milli vistarvera bakhúsa þar sem voru fjós og búr. Nálægt eru tóftir útihúsa, brunnur, fallega hlaðnir garðar, einstök heimtröð o.fl. Um er að ræða tóftir, sem stefna ætti að varðveita til lengri framtíðar. Auk þess mætti, til efla áhuga á svæðinu, reisa þar verstöð líkt og gert var við Bolungarvík.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

Undirbúningurinn að söguskiltinu í Staðarhverfi hefur tekið allnokkurn tíma, eins og sjá má að hluta til  HÉR, og HÉR og HÉR, og ótaldar ferðir hafa verið farnar á umliðnum áratug með það að markmiði að safna upplýsingum og fróðleik um svæðið. Þá er rétt að hafa í huga að Gamalíel Jónsson, síðasti bóndinn í Staðarhverfi, fæddist í vitavarðahúsinu við Reykjanesvita í okt. 1908. Eiginkona hans varð Guðríður Guðbrandsdóttir. Þau eignuðust 5 mannvænleg börn, sem fyrr sagði. Í ár (2008) er því 100 ár frá fæðingu hans. Það var því vel við hæfi að setja þetta sögu- og örnefnaskilti upp í Staðarhverfi. Eftir er að setja upp 2 skilti til að tengja saman allan þéttbýliskjarna Grindavíkur sem og sögu og minjar hennar, þ.e. við Hóp (landnámsminjar og hafnagerð) og Stórubót (Grindavíkurstríðið og Junkarar í Grindavík). Hægt er að nálgast örnefna- og minjakortin í Saltfisksetrinu – gegn hóflegu gjaldi.
Gangan tók rúman  klukkutíma. Lögð hafði verið inn pöntun á gott veður þennan dag fyrir alllöngu síðan – og gekk það eftir. Frábært veður.
Við endurbyggt klukknaportið í Staðarkirkjugarði

Gerðavellir

Grindavíkurbær og Saltfisksetrið vígðu nýtt sögu- og örnefnaskilti á Gerðavöllum.
Af því tilefni var bæjarbúum og gestum boðið til gönguferðar um Vellina og næsta nágrenni. Á skiltinu er uppdráttur Virkiðaf svæðinu með öllum helstu minjum og örnefnum. Um er að ræða 6. skiltið í röð slíkra í Grindavík, sem einn FERLIRsfélaga hefur m.a. haft umsjón með. Sjöunda skiltið verður vígt við Hraun austan Grindavíkur í septembermánuði n.k. (2009). Með því hefur meginhluti þéttbýlishverfa Grindavíkur verið teiknaður upp m.t.t. sýnilegra og sögulegra minja í tengslum við helstu örnefnin. Hugmyndin er og að nýta svo efnið til útgáfu fyrir þá sem vilja eignast uppdrættina á kortunum svo og til kennslu í grunnskólum bæjarins.
Í fróðleik á skiltinu á Gerðavöllum segir m.a. (textinn er ónákæmari hér): „Á
Gerðavöllum og nágrenni má m.a. sjá leifar eftir svonefnda Junkara, sem hér voru við fiskveiðar á 14. og 16. öld. Sumir telja að gerðið geti verið enn eldra, frá fyrstu tíð verslunar á 13. öld eða jafnvel frá upphafi búsetu í Grindavík.
Þá eru örnefni er minna á Rásinsögusvið „Grindavíkurstríðsins“ árið 1532, s.s. Virkið og Engelskalág, en sá atburður breytti verslunarsögu landsins svo að segja á einni nóttu. Á svæðinu eru einnig minjar um búskap Járngerðarstaða-bænda frá fyrri tíð. Utar á kampinum er rétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Gamla kirkjugatan yfir á Stað lá hér um til 1908 og  ekki má gleyma sjóskrímslunum er héðan hafa sést endrum og eins um aldir. Á landakorti frá 1590 eftir Gubrand Þorláksson, biskup, eru t.a.m. teiknuð inn mörg hafskrímsli, sem höfundur byggir líklega á eigin reynslu.
Utan í Stekkhól er stekkur og á hólnum er hlaðið, uppgróið, mannvirki, hugsanlega dys eða brenniker, þ.e. eldur var kveiktur á hólnum þegar vantaði skip af hafi eftir að myrkvaði enda útsýni af hólnum hvergi betra yfir Járngerðar- og Staðarsund. Í Bjarnagjá og Hrafnagjá er fjölbreytt lífríki sem og í fjörunni með strandlengjunni.
Meðfylgjandi uppdráttur er unnin upp úr örnefnalýsingum fyrir Járngerðarstaðahverfi eftir lýsingum þess fólks er best þekkir til staðhátta. Sérstakar þakkir eru færðar Lofti Jónssyni, Guðlaugi Tómassyni, Tómasi Þorvaldssyni, Gunnari Tómassyni og Guðjóni Þorlákssyni. Í textanum er auk þess vitnað í Þjóðsögur og ævintýri Einars Ól. Sveinssonar (1952), Öldina okkar 1518 og 1532, Sögu Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór (1994) og fyrirlestra Jóns Böðvarssonar um Grindavíkurstríðið (2006).

Junkaragerði
LitbrigðiGerðavellir eru nefndir eftir gerði Junkaranna. Garðarnir sjást enn mjög vel þótt sjórinn hafi brotið af þeim að austanverðu. Einar Ól. Sveinsson segir svo frá í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum: „Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem Hóllvindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki.
Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á Stekkuraftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlangt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti.“

Verslun og fiskveiðar útlendinga
MarkhóllMeð Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til að veiða og kaupa skreið og aðra vöru (t.d. vaðmál og brennistein) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira. Hún hófst skömmu eftir að Svarti dauði herjaði á landið (1402 til 1404) og siglingar frá Noregi lögðust að mestu leyti af í kjölfarið.
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Um það má t.d. lesa á sambærilegu skilti í Staðarhverfi.

Bjarnagjá

Enska tímabilinu lauk með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða hér ofan við Stórubót í júní 1532. Þetta leiddi til þess að 16. öldin er stundum kölluð þýska öldin í Íslandssögunni. Elstu menn segja að enn megi sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ eða „Engelskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda.
Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga.

Hrafnagjá

Ný siglingatækni kom fram og Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað.
Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom þýskt fyrsta skipi hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar urðu loks sterkastir við landið og víða með aðstöðu.  Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið.

Katrínarvík

Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur. Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.

Junkaragerði

Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. 

Tóft

Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Grindavíkurstríðið
brotÞá víkur sögunni hingað til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu til Grindavíkur. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum.

Kortið

Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.

Gengið um Junkaragerði

Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stórubót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir, alls fimmtán manns. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.

Skiltið

Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.
Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “Ensku öldinni” á Íslandi, en átökunum  lauk ekki, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma. Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum.

Kort

Í kjölfarið fylgdi þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja.

Skrímsli
Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo Sæskrímslineinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem ættu að vera útdauð fyrir löngu.“
Hið skemmtilegasta við framtakið er að verkið er unnið af öldnum Grindvíkingum, sem síðan hinir yngri geta nýtt sér í námi, bæði til fróðleiks og skemmtunar. Um 80 manns gengu um svæðið með leiðsögn.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Rétt