Austan við Bótina, í klettunum af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þá Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveimur stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent á Nesinu.
Austan við Buðlungavör koma Slokin; út af þeim svonefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.
Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, sem áður er sagt, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafði laskast svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land. Þar, sem þeir tóku land, reyndist vera Blásíðubás á Reykjanesi, sem áður er getið, og var þetta því önnur skipshöfnin, sem bjargaðist þar í land. Mennirnir komust svo heim á Reykjanes um morguninn, allir sæmilega hressir.
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaða- menn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því var giskað á, að togarinn hafi lent annað hvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavík.
Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötustaða og Hrauns. Næsta örnefni við Markabásinn er Hádegisklettur og fram af honum út í sjóinn Hádegistangi, næst Skarfatangi, klapparhlein nokkur þvernípt að norðan, líkust bryggju, en að sunnan ávala líðandi niður á bás. Ekki hefir Skarfatanginn orðið afskiptur af ströndunum, því skip hafa strandað báðum megin við hann. Og vegna þess, að við erum á leið frá vestri til austurs, er fyrst að geta um franska togarann „Cap Gagnet“, sem strandaði þarna sunnan undir Skarfatanganum aðfaranótt 24. mars 1931. Þetta er að mörgu leyti minnisstætt strand, því þar voru í fyrsta skipti í allri strandsögu Grindavíkur notuð nýtísku björgunartæki af björgunarsveit, sem var búin að æfa sig svo vel að nota tækin, að hún stóðst pryðilega þá eldskírn, sem hún fékk þarna við að nota þau í alvöru í fyrsta sinni. Þá var það og, að merkilega virtist hittast á, að þessi björgun fór fram þann eftirminnilega 24. mars, sem áður er getið og hefir gengið undir nafninu hrakningadagurinn, og einnig að, að bjargað var þarna jafnmörgum mönnum og Grindvíkingarnir voru, sem kútter Ester bjargaði hinn 24. mars 1916, eða 38 að tölu.
S.a. stormur var og nokkurt brim, þegar skipið strandaði. Þetta var stór togari, 600-700 tonn, sem gera mátti ráð fyrir, að þyldi eitthvað þarna í fjörunni. Stórstreymt var, flóð um kl 6 f.h. Nokkru fyrir flóðið var búið að koma sambandi frá landi í skipið. En brimið var það mikið og hreyfing á skipinu, að hægt gekk, fyrst í stað, að draga mennina í land. Þegar svo fór að falla út, fór skipið að verða kyrrara og þá fór að ganga betur með björgunina og fyrir hádegi var allri áhöfninni bjargað, 38 manns. Allir skipsbrotsmennirnir voru fluttir heim að Hrauni, til eirra bræðra Gísla og Magnúsar Hafliðasona. Það vildi til að þeir höfðu hýsrými nóg. Ekki er ég viss um að allar konur nú í dag kærðu sig um að fylla hús sín af mönnum, sem verið væri að draga upp úr sjó svo úr þeim læki í stríðum straumum, en Hraunskonurnar, sem á voru Margrét Jónsdóttir og Katrín Gísladóttir, voru ekki að hugsa um, hvort húsin blotnuðu eða óhreinkuðust, heldur að hjúkra mönnunum, jafnóðum og þeir voru leiddir eða bornir heim. Kvenfólk var og fengið af næstu bæjum til að hjálpa til og stjórnuðu þær hjúkruninni og lögðu sig fram um að hressa þá, sem helst þurftu þess, án allra úrtalna. Það var áberandi með sjómennina af skipi þessu, hvað þeir voru illa búnir; margir í einum nankins-samfesting og engu öðru, enda voru þeir illa á sig komnir vegna kulda. Þeir voru allir háttaðir niður í rúm til að fá til að hitna. Síðan voru fengin lánuð föt um allt Þórkötlustaðahverfi að færa þá í. Hreppstjórinn varð svo, sem á tíðkaðist, að koma mönnunum fyrir og sjá um kostnað með föt og annað. En vegna þess, að þarna gátu allir þessir menn ekki verið lengi, símaði hreppstjóri til Hjalta Jónssonar, sem þá var franskur konsúll, að hann sæi um að flytja hópinn til Reykjavíkur.
Hjalti kom sjálfur suður kl. 3-4 um daginn með tvo kassabíla að sækja mennina. En þegar að því kom, að Frakkarnir færu að klæða sig, reyndist ómögulegt að láta þá fara í föt sín aftur. Þau voru bæði blaut og meira og minna ötuð í smurningsolíu. Hjalti var ekki lengi að ráða fram úr því. Hann sendi hreppstjóra til að kaupa fatnað á alla skipshöfnina. Hann fór í verslun Einars í Garðhúsum og það heppnaðist að fá fatnað yst sem innst á alla; gallinn var bara sá, að yfirleitt voru þeir frönsku mjög smávaxnir, en verulegur partur af fötunum hafði lagst fyrir, vegna þess, hve stór þau voru. Fljótlega var komið með fatnaðinn og skipsbrotsmennirnir látnir fara að klæða sig. Var þeim sagt að fara úr þeim nærfötum, sem þeir höfðu verið færðir í. Þegar hópurinn var klæddur kom í ljós, að mikið vantaði af hinum lánuðu nærfötum. Annaðhvort hafa þeir ekki skilið skipunina eða viljað hafa fötin. Mest vantaði af ullarnæsbuxum. Þá var farið að kanna piltana, hverjir voru klæddir aukafötum, og reka þá úr, sem í þeim voru. Þegar búið var að yfirfara nokkra karla, brast Hjalta þolinmæði, og lofaði hann að sjá umgreiðslu fyrir þau föt, sem vantaði. Ég býst við, að margir, sem á horfðu, minnist þeirra frönsku, er þeir voru að spígspora um hlaðið á Hrauni í núju fötunum, flestir eins og marflóétnir gemlingar innan í þeim, með margbrotið upp á buxnaskálmar og jakkaermar. En búnaðinn virtust þeir ekkert setja fyrir sig; voru allir glaðir og kátir, Áður en skipstjórinn fór, gerði hann grein fyrir því víni, sem ætti að vera um borð í skipinu, taldi það vera 4 kvartel af koníaki, með 120 l hvert, og 6 tunnur af rauðvíni, með 250 l hverja.
Hjalti Jónsson fór svo með þá frönsku kl. langt gengin í 6 um kvöldið. Þá fór og hreppstjórinn frá Hrauni, en varla var hann kominn heim til sín um kvöldið, út í Staðarhverfi, þegar Gísli á Hrauni var kominn á eftir honum að tilkynna, að togarinn væri alveg horfinn; hefði brotnað í spón í flóðinu, svo að ekkert sæi eftir af honum, en mikið rekald væri að koma upp í fjöruna. Þegar þetta var, var kominn dagur að kvöldi og ekkert hægt að gera við að bjarga. Það hefir löngum verið viðbrugðið þjófnaði á ströndum, eða svo að það þótti slöttungs heiðvirðir menn, þótt sannast hefði á þá þjófnaður á strandi. Þess vegna var talin nauðsun að hafa vörð á þeim ströndum, sem hægt var komast að, til þess að ekki reyndi of mikið á heiðarleika manna. Í þessu tilfelli var Gísli beðinnn um að láta líta eftir strandinu um nóttina.
Morguninn eftir setti hreppstjóri sig símeiðis í samband við Hjalta Jónsson, um hvað ætti að gera við strandið, bjarga undan sjó eða láta það eiga sig. Ekki gat Hjalti svarað á stundinni, taldi sig þurfa einhvern tíma til að taka ákvörðun; aðeins bað hann um að láta líta eftir, að engu yrði stolið eða skemmt af strandgóssinu.
Engin ákvörðun var komin frá Hjalta næsta morgun, þegar Gísli á Hrauni tilkynnti hrepsstjóra, að mikið rekald væri komið upp í fjöruna, þar sem Cap Fagnet strandaði, og að vart hefði orðið við tvær víntunnur, sem ekki hefðu brotnað í lendingu. Annað var koníakskvartel og hafði því strax verið bjargað og sett undir lás. Hitt var rauðvínstunna, en hún hafði farið þannig, að brotinn hafði verið úr henni botninn og mannfjöldi var sestur að henni við drykkju. Nú þótti ekki til setunnar boðið, og fór hreppstjóri með Gísla þegar á strandstaðinn. Þegar þangað kom, gaf á að líta. Tunnunni hafði verið velt hátt upp á kampinn – bjargað undan sjó – og reist þar á annan endann, vegna leka á annarri lögginni. En kampurinn var snarbrattur, þar sem tunnan stóð. Í kringum tunnuna voru svo milli 30-40 menn, allir að gæða sér á rauðvíninu. Enginn hafði gefið sér tíma til að fara frá, til að ná í ílát að drekka úr, heldur notað það, sem tiltækt var þarna í fjörunni. Þeir heppnari höfðu náð í hinar og aðrar dósir eða fundið flöskur til að drekka úr; og þeir sem höfðu fundið ílát, sem dálítið tóku, gátu veitt sér þann munað að leita eftir þægilegum steinum í kampinum til að sitja á og rabba saman meðan á drykkjunni stóð. Aðrir höfðu verið óheppnir með ílátin og ekkert undið nema öður eða kúskeljar eða brotnar kúlur. Þeir gátu vitanlega ekkert farið frá tunnunni, heldur urðu að standa við hana og bera sem örast á, svo eitthvað gengi að taka til sín mjöðinn. Ekki lest hreppstjóra á aðkomuna, óttaðist eftirmál um skemmdir á verðmætum og sérstaklega, að ölæði yrði svo mikið, að róstur hlytust af. Hann rést því inn í hópinn að ofanverðu við tunnuna, sagði í gamansömum tón, að rauðvín hefði hann aldrei bragðað, og spurði viðstadda, hvernig þeim líkaði það. Sjálfsagt þótti að gefa honum pláss til að komast að, svo hann gæti bragðað á miðinum. En þegar hann var kominn að tunnunni, setti hann í hana fótinn, svo hún hraut á hliðina og allt hvolfdist úr henni.
Það kvað við margraddað org og óp, þegar menn sáu rauðvínið hvolfast niður í kampinn. En að sýndi sog þá, að óþarfi hafði verið að meina þeim að þamba rauðvínið vegna áflogahættu. Aðeins einn réðst á hreppstjórann, er hann hafði velt tunnunni, og bróðir árásarmannsins kom þá og tók hann samstundis. Hitt var svo annað mál, að hreppstjóra, voru sendar margar ómjúkar kveðjur fyrir að gera þetta En hann taldi sig ekki hafa fengið neitt samviskubit af verknaðinum, nema þá helst vegna eins fullorðins manns, sem fór að hágráta yfir því mikla óhappaverki, að skemma svona mikið af rauðvíninu.
Þegar hér var komið sögu, fékk hreppstjóri fréttir af því, hvernig gengið hafði til að ráðist var svona á tunnuna. Hún var sú eina, sem komst heil upp á kampinn, hinar allar brotnuðu, en eitthvað var hún þó löskuð á löggum við annan botninn. Menn höfðu farið að hópast á strandstaðinn, strax eftir að bjart var orðið og flestir stansað hjá tunnunni. Hófust vangaveltur og umtal, að víst læki tunnan og sennilega myndi hún tæmast. Þetta gekk lengi morguns, þar til maður kom í hópinn, sem ekki hafði verið þar áður. Sá stóð þar þegjandi nokkra stund, tók síðan upp stein, sló honum í botninn leka, sem sneri upp, svo hann brotnaði úr, og sagði um leið og hann gekk í burtu; „Jú, vist lekur tunnan“, og lét svo eki sjá sig framar. Hann hefir sennilega hugsað svipað og Egill Skallagrímsson forðum, þegar hann vildi komast til Alþingis með silfurkistur sínar.
Þá er að fara yfir Skarfatangann, en norðan undir honum strandaði hinn 9. maí 1926 kútter Hákon frá Reykjavík, eign Geirs Sigurðssonar. Þennan dag var veðri svo háttað, að það var n.a. rok með snjókomu svo mikilli, að ekki var meira en 100-200 metra kyggni. Frá bænum Hrauni er ca. 400-500 metrar á Sarfatangann og blasir hann við gluggum þar. Hákon hafði strandað þarna fyrir miðjan dag, en engin á Hrauni sá skipið. Það var ekki fyrr en undir kvöld, að Eyjólfur Jónsson bóndi í Buðlungu sá skipið þarna, er hann var á gangi í fjörunni í leit að kindum. Fyrst var farið frá Hrauni að athuga, hvort menn voru um borð, en þar var ekki vart neinnar hreyfingar, og greinilega þótti, að skipsbáturinn væri horfinn. Þá var sent um allt Þórkötlustaðahverfi, að fá menn til að leita á fjörunni, bæði austur og vestur. Var almennt brugðist vel við að fara í leitina, þótt þá væri ekki orðið greitt um ferðalag því þá var kominn klofsnjór, svo ekki var fært um jörðina, nema þá helst eftir fjörunum. leitað var fram á nótt, en án árangurs.
Þá er að segja frá skipshöfninni á kútter Hákoni. Þar sem skipið strandaði í lágum sjó, fór það ekki að öllu leyti inn í landsjóina; var víst utan til í broti þeirra. Eins og áður er getið, var bylurinn svo svartur, að erfitt var að átta sig á umhverfinu. Og þótt talið væri af kunnugum, að áhöfnin hefði getað komist þarna í land vegna brims, má gera ráð fyrir, að brotsjóirnir hafi ekki sýnst árennilegir fyrir innan, þar sem í dimmviðri sýnist allt stærra og fyrirferðameira en að raunverulega er. Skipshöfnin tók líka þann kostinn að fara í björgunarbátinn og út á rúmsjó; en að það skyldi vera hægt á þessum stað, sýndi raunverulega, að mjög lítið brim var, eftir mati okkar Grindvíkinga.
Eftir að báturinn var kominn út fyrir botin, hafði hann svo borist undan vindinum, sem stóð þarna meðfram landinu. Landkenningu höfðu þeir svo fljótlega tvívegis, sennilega á Slokunum og svo við Þórkötlustaðanes. En þar sem ekkert var hægt að átta sig á umhverfinu, urðu bátverjar ekki varir við neitt nema brimsjóina á töngunum, svo þeir hefir ekki þótt árennilegt að leita í land. Þennan dag voru lendingar allar taldar færar í Grindavík, en þar sem þær eru allar inni á víkunum hafa þeir ekki getað gert sér grein fyrir því. Næst munu þeir svo hafa orðið varir við land undir Staðarbergi. hvort tveggja var, að þeir urðu varir við sorta af bergveggnum, og hitt, að þar lentu þeir í meiri bulsorta en bæði undan og eftir. Sennilegt, að bylurinn hafi orðið hvað þéttastur í skjólinu, eftir að hafa þyrlast fram af bjargbrúninni. Bátinn hélt áfram að reka, en undir kvöldið bar þá allt í einu að landi. Sjórinn skellti bátnum uppá stórgrýtiskamp og mennirnir komust allir í ad, án meiðsla. Þar sem þeir lentu, reyndist vera Blásíðubás, svo þetta var þriðja skipshöfnin, sem þar hefir bjargast í land. heim að Reykjanesi komust þeir svo um kvöldið.
Ekki fréttist neitt af skipshöfninni af Hákoni í Grindavík fyrr en morguninn eftir, og fannst öllum þeir úr helju heimtir. Ekki hefi ég fullar heimildir fyrir því, en nokkrar líkur, að skipstjóri sá, sem var með Hákon, er hann strandaði, hafi verið stýrimaður sá á Resolút, er best gekk fram við að bjarga sér og öðrum skipverjum af henni í land, svo sem áður er getið.
Næsta örnefni innan við Skarfatanga er Kobbasker. Munnmæli er, að það hafi komið upp, þegar bænahúsið var lagt niður á Hrauni. Þá hafi og tekið af gömlu Hraunsvör. Þar fryir innan Vatnstangi, atnagarðar, Suðurvör og Norðurvör. Á milli varanna er sker, sem heitir Rolla. Innan við Norðurvörina er sker, sem heitir Baðstofa, þá Bótin, Barnaklettur, Skeljabót og Vonda fjara.
Í Vondufjöru strandaði eftir 1940, snemma í janúar, enskur togari, St. Louis. Veðri var þannig háttað, að s.a. rok var allan daginn með slydduéljum og miklu brimi. tekið var eftir strandinu frá Hrauni, rétt fyrir rökkrið, og björgunarsveit Slysavarnarfélagsins var þegar látin vita. En þegar hún kom á strandstaðinn, var orðið dimmt. Mjög þægilegt var að flytja björgunartækin, því að segjamátti, að bílar kæmust fast að kampinum, þar sem togarinn var niður undan. Þar sem strandið var svo nærri byggð, hópaðist mikið af fólki þangað, bæði konur og karlar, til að horfa á björgunina, en varð mjög til hjálpar, þar sem þetta var með erfiðari björgunum, sem björgunarsveitin hefir framkvæmt, aðallega vegna þess, hversu mikil hreyfing var á skipinu. Þannig hagaði til, að lágsjávað var. Skipið lá alveg þversum á tiltölulega sléttum klöppum fyrir brotsjóum, sem á það gengu. Þegar svo brotin skullu á það að utan, lagðist það alveg flatt en reisti sigá útsogunum, svo að það varð alveg kjölrétt. Það gekk ágætlega að skjóta línunni um borð í skipið og koma dráttartaug um borð. Skipshöfnin festi taugina neðan til í miðjan forvantinn, en þegar átti að fara að strengja dráttartaugina í landi, kom í ljós, að það mátti ekki gera vegna hreyfingarinnar á skipinu, sem áður er lyst. Þá komu i góðar þarfir allir áhorfendurnir, sem safnast höfðu þangað, því með nógum mannafla í taugarendanum var mikið hægt að fylgja hreyfingum skipsins eftir. En þrátt fyrir þetta urðu mennirnir í björgunarstólnum stundum eins og fuglar uppi í loftinu, en köstuðust svo niður í sjóinn aftur, þegar skipið lagðist á hliðina. Til að verja skipsbrotsmennina meiðslum, er þeir skullu niður, þegar nær kom landi, stóðu menn úti í sjónum, svo langt úti sem hakað var, til að taka af þeim fallið.
Þegar björgunarsveitin hafði skipulagt björgunina og hún var kominm af stað, mátti segja að hún gengi vel. Hver maðurinn af öðrum var deginn í land, þar til allir voru komnir nema skipstjórinn, sem venja mun til að fari síðastur af strönduðu skipui. Þegar björgunarstóllinn var að síðustu kominn um borð eftir honum, kom hann ekki út úr brúnni nærri strax. Var búið að bíða með stólinn allt að 10. mín., áður en hann bir tist á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum, síðan uppá vantinn að björgunarstólnum, en er hann var kominn upp undir stólinn féll hann allt í einu aftur fyrir sig og niður í ólgandi brimlöðrið og drukknaði þar. Skipsbrotsmenn voru vitanlega fluttir heim að Hrauni og hresstir þar við, áður en farð var með þá til Reykjavíkur, enda var það ekki talið eftir, frekar en fyrri daginn.
Fyrir innan Vondu fjöru kemur Fremri- og Efri-Hrólfsvík. Í Hrólfsvíkinni hafði fyrir eða um miðja 19. öld rekið mannlaust seglskip (skonnortu). Þetta var í tíð Jóns dannebr.m. Jónssonar, sem var merkisbóndi þar á Hrauni. Skip þetta hafði komið heilt upp í fjöruna og var hlaðið bankabyggi, sem var laust ílestinni. Giskað var á, að áhöfnin hefði yfirgefið skipið vegna leka, en það svo ekki getað sokkið með þennan farm.
Bankabygginu hafði öllu verið bjargað í land, þurrkað á seglum og selt á uppboði. Talið var, að það hefði allt verið notað til manneldis og þótti hið mesta happ. Á þeim tímum voru hlutirnir nýttir og engu hent, sem hægt var a borða.
Innan við Hrólfsvík er Skerjaklettur, Hvalvík, Skarfaklettur og Dunkshellir. Í kringum 1890 fannst þarna rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir. hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En meðþví að engan mann hafði rekið úr því, var rekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hæslvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar veðrið fór að versla.
Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morgunin eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rekaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið að þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt ap sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð. Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg ríst alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einums tað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.
Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nýpa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Estri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selsker og eru fram undan Eystri-Nýpu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa þá orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórköt lustaðahverfi voru á sjó. Eftir hádegi kom „fransari“ siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu að vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og ar í strand. Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Haflði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þessa fransa skips eða siglingar þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar „fransari“ sigldi að bati, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti. Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum.
Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í að, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutarbót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var fari að veita siglingunni athygli, þegar svo að skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf frir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafi hann sagt, að aldrei mun hann hafa verið fljótari upp á Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.
Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig, að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flyji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, að ekki hafi unnist tími til þess að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.
Austan við Skálasand kemur Lambastapi, þá Bjalli og næst Skálabót; upp af henni er bærinn Ísólfsskáli. Fyrir austan Skálabót er Gvendarvör; það var víst aðallendingin meðan útræði var á Ísólfsskála. Þar fyrir austan Gvendarsker, Trantar, Hattvík, Hattur, Rangagjögur, Skálabás, Veiðibjöllunef, Mölvík, Katlahraun, Nótarhellir, Nótarhóll og Dágon. Þá er komið á Selatanga.
Dágon er hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum, eru í honum landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Kirkjunar komu víða við með ítök í gamla daga, og þarna fyrir Ísólfsskálalandi, frá Dágon að austan og vestur um Veiðibjöllunefn, átti Kálfatjarnarkirkja allan stórviðarreka, þ.e. ábúandinn mátti sjálfur hirða það sem kallað var morkefli. Ítak þetta var svo keypt af núverandi ábúanda og eiganda Ísolfsskála um 1920, svo það er ekki kirkjueign lengur.
Næst austan við Dágon er Vestri-Hlein, þá Eystri-Hlein. Þarna á Selatöngum var útræði frá Krýsuvík. Sundið hefir verið vestan undir Eystri-Hlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni hafa bátarnir verið settir undan sjó. Verbúðir hafa verið þarna, því 6-7 km vegalengd er frá Krýsuvík á Selatanga og allt að þriðjungi þess vegar apalhraun, svo það hefði verið erfið skipsganga – sem kallað var – að fara kvölds og morgna. Tóftir verbúðanna standa nokkurn veginn uppi ennþá, hafa verið hlaðnar úr vel löguðu hellugrjóti, svo glögga grein er hægt að gera sér grein fyrir því, hvert húsurými og aðbúnaður útróðramanna hefir verið þarna.
Það má gera ráð fyrir, að 12-15 menn hafi verið við hvern bát, eftir því hvað stórir þeir voru, og verbúðin þá verið fyrir alla skipshöfnina. Varla getur það trúlegt talist nú, að fyrir tæpum 100 arum hafi þetta stór hópur manna hafst við í húsnæði, sem ekki var nema 5.5 m á lengd og 2.5 má breidd, en það er stærðin á búðartóftunum þarna.
Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja sögu útræðisins á Selatöngum, þar sem þess er ð nokkru getið bæði í annálum og þjóðsögum. En geta vil ég þess, að Sigurður Jónsson frá Hópi í Grindavík kann brag nokkurn, þar sem allir útróðramenn, sem þá voru á Selatöngum, eru taldir með nafni, og samkvæmt bragnum hafa þeir þá verið yfir 60 talsins.
Fyrir austan Eystri-Hlein koma Vestri-Látur, þá Eystri-Látur, Miðrekar, Selhella, Þjófabásnefn, Þjófabásar og Húshólmi; þar upp undan er talið, að til forna hafi Krýsuvíkurbærinn staðið, en hraunflóð hafi runnið á bæinn, og sjást tóftarbrot á einum stað út úr hárri hraunbrún. Þarna í Húshólma bjargaðist í land áhöfn af skipi, sem sökk þar rétt fram undan. Skip þetta hét Kópur og var frá Reykjavík, ekki veit ég nákvæmlega, hvenær þetta gerðist, en það var að hausti til, sennilega fryir eða um 1920.
Austan við Húshólmann byrjar svo Krýsuvíkurberg og er það fyrsta örnefnið Bergsendi. Þá koma Mávaflár og Hællinn, af honum dregur Hælsvík nafn; hún er frá Selatöngum og að Fuglasteini. Á Hæslvíkinni er talið vera mjög aflasælt. Fram undan Hælnum er sker eða klettadrangur; hann heitir Þyrsklingasteinn. Þá kemur ækurinn, það er svokallaður Vestri-Lækur, sem rennur skammt fyrir ofan bergbrúnina, og sér þar fyrir túni og tóftum.
Fyrir austan Lækinn er Skriðan, þá Lundapallur og Ræningjastígur; fram undan honum, nokkuð úti í sjónum, er Fuglasteinn. Þar verpir mikið af sjófugli, þegar vel viðrar á vorin. En þegar a. eða s.a. áhlaup gerirm skolar hátt upp í hann, svo mikið fer af varpinu. Hægt er talið að komast í Fuglastein í aflandsvindi, þegar kyrrt er í sjó, og er þá farið þangað stöku sinnum.
Um Ræningjastíg er sú þjóðsaga, að ræningjarnir hafi komið þar á land í Tyrkjaráninu og farið alla leið heim til Krýsuvíkur. Þetta hafi verið á sunnudegi, þegar presturinn var með allan söfnuðinn í krikju. Eitthvað hafði klerkir vitað um ferðir Tyrkjanna, þótt hann væri að fræða fólkið um eilífa sáluhjálp, því þegar þeir komu heim á Krýsuvíkurtúnið, lét hann þá fara að berjast hvern við annan, þar til allir voru fallnir. Það var dálítið gagn í prestunum í gamla daga og varla yrði slíkum körlum skotaskuld úr því nú á dögum að fylla hjá sér kirkurnar svið og við. Ræningjarnir höfðu verið dysjaðir í túninu, þar sem þeir lágu, en klerkur hafði sagt, að notið hefðu þeir þess að það var sunnudagur, því annars hefði hann látið þá éta hvern annan. Fyrir dysjunum á að hafa sést, allt þar til nýi tíminn reið í garð þar í Krýsuvík og Hafnarfjarðarbúið jafnaði allar misfellur og gerði alla jörð að sléttu túni.
Fyrir austan Ræningjastíg kemur Nýipallur og Vondasig. Þá koma örnefni, sem virðast benda til skipta á berginu til nytja, því fyrir austan Vondasig heitir Krýsuvíkurberg, þá Kotaberg, þar rennur eystri Lækur fram af berginu, og næst Strandarberg. Til forna hafði Strandarkirkja átt ítök til eggjatöku og fuglaveiða í Strandarbergi. Undir Krýsuvíkurbergi, sem þarna er sérnafn á berginu, eru sker nokkur, sem upp úr standa á fjörum og hita Selsker, og milli þeirra Selalón.
Á árunum 1900-1907 hafði enskur togari strandað þarna undir berinu. Enginn vissi, hvenær það hefði gerst, því ekki hafi verið gengið á fjörur nema endrum og eins, og var fyrst vart við það þannig, að nokkuð mikið brak fannst í Húshólma og vestur á Selatanga, Nokkru seinna sást svo skipsflakið sjálft ofan af bergbrúninni, þarna í Selalóninu.
Af brakinu var hægt að sjá, hvað skipið hafði heitið og hvaðan það var.
Ekkert varð vart við áhöfnina; hún vitanlega farist með skipinu. Aðeins eitt lík eða part af líki hafði rekið í Húshólma og það verið jarðað í Krýsuvík.
Árið 1947 eða 48 strandaði og þarna á skernaddi undir Krýsuvíkurbergi vélbáturinn Árni Árnason úr Garðinum. Þetta var seint í apríl eða byrjun maí. Báturinn var í fiskiróðri og, að sagt er, að leggja línuna er það vildi til, en fiskur gengur þarna oft mjög nærri landi, enda aðdýpi víðast hvar. Fleiri bátar voru á þessum slóðum og ekki allir langt frá landi, svo bátshöfninni var fljótlega bjargað, en báturinn brotnaði þarna og hvarf.
Fyrir austan Strandarbergið er Strandarbergs- kriki. Þá er bergið farið að lækka, svo hægt er að komast niður í bás í krikanum. Þá kemur Keflavík; þar eru og básar, sem hægt er að komast niður í.
Þá kemur austasta örnefnið við sjó í Krýsuvíkurlandi. Það heitri Seljabót og eru þar mörk milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, ásamt sýslu– og hreppamörkum.
Þá hefir verið farið með öllum fjörum meðfram Grindavíkurlandi, af Valahnjúkamöl að vestan og í Seljabót að austan.
Ég hefi leitað til margra eldri manna, sem ég vissi að voru fróðir um örnefni og ýmsar sagnir, og eru það aðallega þessir: Gamalíel Jónsson, bóndi, Stað, Jón Gíslason frá Merki, Sæmundur Tómasson frá Járngerarstöðum, Ólafur Árnasonm, Gimli, Guðmundur Beónýsson, Þórkötlustöðum, Magnús Hafliðason, Hrauni, og Guðmundur Guðmundsson, Ísólfsskála.
Það vannst ekki tíma til að leita til fleiri manna eða að fá að öllu staðfest það, sem sagt er frá, svo að lítilsháttar getur borið á milli í smærri atriðum. En í höfuðatriðum tel ég, að sé farið nærri því rétta.“
Sjá framhald.
Heimild:
-Guðsteinn Einarsson: Frá Valahnúk til Seljabótar – Frá Suðurnesjum 1960, bls. 9-52.
Dys við Hraun.