Í Ægi árið 1926 er fjallað um Reykjanes.
„Ferðir fara nú að verða tíðar til Reykjaness og þegar farnar að birtast skemtilegar ferðasögur um leiðina og landslag. Vænta má, að framvegis verði ferðir þangað tíðar, að sumarlagi og þeir sem vilja taka eftir ýmsu, sem þar er að sjá, gefst kostur á að bera saman hvernig umhorfs er nú og fyrir 66 árum og geta þar af dregið hvort rétt sé ályktað, að Suðurland sé að sökkva í sjó.. Þegar farið er framhjá Vatnsleysu liggur vegurinn yfir jarðsprungu, sem nær þar ofan að sjó og yfir þveran Reykjanesskagann; er það Hrafnagjá sem víðkar eftir því, sem suðureftir dregur og er agaleg á köflum t. d. upp af Vogum.
Í ritinu „Blanda“ (2. árg. 1. h.) er lýsing á Höfnum samin af Brandi hreppstjóra Guðmundssyni, eftir beiðni sóknarprestsins Sigurðar B. Sívertsens á Útskálum, er það sóknarlýsing Kirkjuvogssóknar árið 1840. Brandur var fæddur árið 1771 og andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845. Hann var talinn einn hinn besti skipasmiður í sinni tíð og fljótvirkur. Á 40 árum smíðaði hann 40 stór skip og 100 smærri. Hann var lengi hreppstjóri í Hafnahreppi og mjög vel látinn.
Lýsingin byrjar á Höfnum og er of löng til að taka hana upp í „Ægir“; verður því byrjað á Kalmannstjörn óg þaðan farið vestur eftir, og tekið upp úr „Blöndu“ eins og lýsing Brands heitins hreppstjóra er framsett þar, skulu menn muna, að hún er frá árinu 1840: „Bæjarleið sunnar með ströndinni [en Merkines] er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkaragerði, sem 1/2 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft 4 kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“. Jarðab. AM. 1703). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri.
Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („Hefur óbygð legið hér um 50 ár“, segir í Jarðab. AM. 1703.) því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vík nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjörn. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér á undan.), og er þar lent þá verður brims vegna i norðan- og austanátt, þá menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið. Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá líka vatnsfarvegs afarstórs, en það getur upp undan og inn til fjalla, sem myndar líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hannn kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni víða vera um 100 faðma breidd og sumstaðar miklu meiri; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi átt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita.). Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi er bergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m. fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja.
Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar, sem varast þarf, þá fyrir það er lagt, og boði einn; er þar sem optast iðukast og óhreinn sjór. Á nesinu eru jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun. Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landssuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.
Fiskafli er þar helzti bjargræðisstofn manna; sjómenn eru þar í betra meðallagi og sjósókn, langræði mikið, en optast með landi suður. Fiskur gengur á öllum árstímum, helzt með stórstraum; menn hafa tekið eptir, að austangöngur með sílhlaupum koma helzt með góu og þeim straumnum, líka stundum síðar; vestangöngur, sem eru sjaldgæfar fyrri, lenda einkum í röst; þorskur ýsa keila, þyrslingur, skata, karfi, langa eru þær fiskitegundir, er veiðast á færi og öngla, líka hákarl nokkuð við andþóf og stundum stjóra. — Sundið i Kirkjuvogi er þrautgott, en langt og ógurlegt í brimum, snúningar eru á því lakari og lending háskasöm; eru þar blindsker fyrir sunnan sundið spottakorn.
Í Merkinesi er lakara sund, en lending um flóð betri. Bæði liggja sund þessi til austurs í land til þess við er snúið og haldið í suður. Sundið á Kalmanstjörn liggur í sömu átt, er stutt, þröngt og slæmt í brimum, en beint. Útsker er fyrir innan nyrðri enda bergsins og skammt frá landi, sést á það með hálfföllnum sjó; það heitir Eyrarsker. Önnur útsker eru ekki með Reykjanesi Hafnamegin.
En Eldey er klettur stór í hafinu í vestur frá Reykjanesi um 3 vikur sjávar; það er mestpartinn hengiberg með fáum hillum; að austan má lenda við klöpp í ládeyðu, og er þvert niður með henni 9 faðma djúp. Skerjahryggur með 2 ósum inn í liggur hálfhring til útnorðurs og vesturs frá nefndri klöpp; tvö sker eru í boga þessum, hann kemur upp með hálfföllum sjó. Klöppin er um 3 eða 4 ljábrýnur að stærð eða 80 ferskeytta faðma. Klettur þessi, það til lands veit, mun vera að ágizkan vel svo 100 faðma langur, um 40 að norðan, en á sjósíðuna (nefnil. vestan) 80—90 faðma og suðurhornið 15—20 faðmar, hæðin eptir ágizkun 90—100 faðma mest, móberg með blágrýti neðst, öllum mönnum ógengt. Slý er mikið á klöppinni og því hættulegt upp að komast, sem er um 2 faðma hæð um fjöru, og er þá skárst að lenda. Súgur er þar mikill og iðukast. Fugl er mikill á nefndri klöpp og á einni hillu stórri uppundan, sem ekki verður upp á komizt, súla mest uppá eynni.
Maður, sem þangað hefur farið nokkur vor, segist hafa náð þar mest 10 í hlut af svartfugli, 2 og 3 súlu, — 24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést — og 100 í hlut af eggjum. Litið er þar af sel, en afarstyggur. Skammt frá Eldey er klettur í útsuður, kallaður Eyjadrangi (mun vera það sem nú ka]last Eldeyjardrangur), sem hvergi verður upp á komizt, enda er hann gæðalaus. Geirfuglasker er í vestur í hafinu undan Eldey. Sagt er, að menn hafi gert þangað ferðir fyrir og eptir slátt á sumri, sem þá lukkaðist, hafi mannshlutur orðið fullt svo mikill sem fullkomins manns sumarkaup úr Norðurlandi. Skrifað finnst, að skip hafi farizt þar (Sumarið 1639 fórust með allri áhöfn 2 skip af 4, er til Geirfuglaskers fóru til aflafanga af Suðurnesjum (sbr. Skarðsárannál) í suður frá skerinu er klettur, sem kallast Skerdrangi, en í vestur frá því eða til útnorðurs hefur brunnið í hafinu fyrir fáum árum. Í mæli er, að 12 vikur sjávar séu úr Höfnum í skerið, en 6 til Eldeyjar.
Í Höfnum er rigninga- og snjóasamt frá austurs— landssuðurs og sunnanáttum og stormasamast, líka bitur kuldi; norðanveður eru vægari að tiltölu, útnyrðingar hættusamastir sjófarendum, útsynningar ganga miklir um jólaaðventu og á útmánuðum, skruggur stundum, en ekki orðið skaði af, hrævareldar og ýmsar loptsjónir orðið vart við. Flestar grasategundir munu þar á heiðinni og hraununum, líka nærri sjó. Engin eru þar rennandi vötn og ekki fjöll það heifa megi. Trjáreki á Kalmanstjarna rekaplássi, sem er stórtré opt, allarðsamur til húsabóta, engir skógar. Ekki hefur hval rekið i Höfnum yfir 60 ár; engir skógar, engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Athugagrein.
Af 60 ára reynslu er aðgætt, að flóð hafi orðið mest um og eptir veturnætur, veður mest um jól fram eftir miðjan vetur af land og hafsuðri til útsuðurs, en vestan- og útnorðanáttir hafa verið skæðastar sjófarendum í Höfnum.
Klettur er framan Hafnaberg, laus við land, má fara milli hans og þess, stendur optast upp úr um flóð, og því ekki sérlega hættulegur. Víða eru boðar með landi, en ekki sérleg rif eða útgrynni. Röstin fyrir Reykjanesi liggur til vesturs frá nesinu til Eldeyjar; hálfa viku sjávar frá því er svo mikið misdýpi, að á skipslengd er 14 og líka 40 faðma djúp, og er það hraunhryggur þverhníptur að norðan, en flatur suður af.
Viku sjávar frá landi verður sandalda um 50 faðma djúp, en botnast ekki þá norður eða suður af ber; sandalda þessi breikkar því meira sem fram eptir dregur og ætla menn hún nái framt að Eldey. Skammt frá henni, hér um bil 80 faðma, er 40 faðma djúp landsmegin, en grynnra að vestan. Opt er straumur svo mikill í röstinni, þó veður sé gott, að ekki gengur á fallið, þótt siglt sé og róið af mesta kappi. Aðfall er þar venjulega meira en útfall; stundum ber til, að þar [er] ekki skiplægur sjór, þó annarsstaðar sé ládeyða. Vestan- og sunnanáttir eru þar beztar, þá hægar eru, en austanáttir hættulegastar, því að sækja er á einn landsodda í austur, en haf á allar síður, en straumar opt óviðráðanlegir. Ekki hefur þar skip farizt svo menn viti (þ. e. í Reykjanesröst), en erfitt er að sækja þangað; mörg hefur þaðan máltíð fengizt; það er um 4 vikna sjóarlengd þangað frá Kirkjuvogi.
Þetta er þá sú upplýsing, er er get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega vel að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vildi eg að því leyti geta sýnt viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“
Heimild:
-Ægir, 19. árg. 1926, bls. 182-187.
Gunnuhver.