Tag Archive for: Reykjanesbær

Stapagata

Gengið var um Stapagötu frá Reiðskarði við Vogavík og eftir Stapanum yfir að Stapakoti í Njarðvíkum.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins, eða Menningsvegar, eins og gárungarnir kölluða hann eftir misritun). Alfaravegurinn (-leiðin) liggur frá Hafnarfirði og suður að Kúagerði þar sem Almenningsvegurinn tekur við. Hann liðast síðan um Vatnsleysustrandarhrepp að Vogastapa. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Árið eftir var hafist handa við gerð vegar frá Vogastapa til Grindavíkur. Þangað náði vegurinn fullgeðrur árið 1918. Við þann veg má sjá miklar minjar eftir vegagerðarmennina.

Stapinn

Stapadraugurinn.

Vogar eru bæði fallegt og snyrtilegt sjávarþorp. Þaðan var gengið suður að Stapanum. Þegar komið er að hlíð hans er gengið í átt að sjónum og þar má sjá merkið „Stapagata.”
Gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þegar gengið er upp gömlu götuna má sjá enn eldri götu á hægri hönd, sem kastað hefur verið duglega upp úr. Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Þarna við gerðist m.a. saga sú, sem jafnan var sögð á Vatnsleysuströnd um fylgdarkonuna (huldukonuna þokumkenndu) í Skarðinu (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Reiðskarð

Reiðskarð.

Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Þaðan lá gata til hægri, niður að bænum Brekku. Eftir stutta göngu sjást miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19.aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m) og þar er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor.

Stapagata

Stapagata nær Njarðvík.

Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og gaman að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði. Næst verður Dýpri-Skor eða Ytri-Skor á vegi okkar en þar var áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást því miður enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Grænaborg heitir stór gömul og grasigróin fjárborg hér rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga. Bærinn, sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík, heitir Stapakot og þar við túnfótinn lýkur göngunni.
Ekki má gleyma Stapadraugnum, sem margar sagnir eru til um, enda mun hann oft hafa sést á gamla veginum um Stapann þars em hann stóð með höfuðið undir handleggnum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Byggt m.a. á frásögn Rannveigar L. Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Stapagata

Stapagata.

Prestastígur

Gengið var þvert yfir vestanverðan Reykjanesskagann um Prestastíg frá Húsatóftum (Húsatóttum/Húsatóptum) á sunnanverðum skaganum yfir í Hundadal ofan við Kalmannstjörn á honum norðanverðum með viðkomu í fiskgeymslubyrgjum í Sundvörðuhrauni og öðrum sambærilegum í Eldvörpum, auk þess sem skyggnst var inn í útilegumannabælu í hraununum. Þessi kafli Prestastígsins er að jafnaði u.þ.b. 16 km, en að þessu sinni var ætlunin að nýta nálægt 20 km í þágu göngunnar.

Eitt af nýfundnum byrgjum í Eldvörpum

Prestastígsnafngiftin er tiltölulega nýlegt heiti á þessari annars fornu þjóðleið, sem um aldir hefur verið nokkuð fjölfarin milli Staðahverfis og Hafna. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fyrrum fornu leið. Presthóll á hæstu hæð Hafnamegin undirstrikar nafngiftina. Annars er leiðin ágætt dæmi um seinni tíma prestaleið því gatan er bæði vel og þétt vörðuð, auk þess sem hún er unnin víðast hvar, bæði með brúargerð í gjám og úrkasti í móum og melum. Yfirvaldið hafði í hendi sér að nýta þegnskylduánauðina og hvernig gat verið nýtanlega en við vörðu- og vegagerð? Þegar horft er á vörðurnar má sjá mismunandi handbragð, auk þess þær geta verið ólíkar að stærð og lögun. Efnið í þeir er einnig mismunandi því það tók óneitanlega mið af aðstæðum á hverjum stað. Handbragðið og útlitið gæti hafa breyst frá því að vörðurnar voru fyrst hlaðnar því búið er að endurhlaða margar þeirra á leiðinni. Meginlínan hefur þó haldið sér, þ.e. að vörðurnar eru vestan stígsins. Þó má sjá stakar vörður á leiðinni, sem virðast ekki vera í röðinni. Ein þeirra er t.a.m. landamerkjavarða á mörkum Hafna og Grindavíkur vestan götunnar og önnur var hlaðin austan hans eftir að maður varð úti eða bráðkvaddur á leiðinni. Sumar varðanna eru nú fallnar og hafa ekki verið endurhlaðnar, einkum á miðkafla leiðarinnar, vestan Sandfellshæðar.
Í seinni tíð hefur þessi fornu þjóðleið verið nefnd Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin (Árnastíg, Skipsstíg og Skógfellastíg) en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Annað nýfundið byrgi í EldvörpumGengið var upp frá Húsatóftum. Nú er gatan vörðuð upp af brún Hjálmagjáar norðan við Harðhaus og Dansinn, en hún lá áður upp frá Nónvörðu suðvestan við Húsatóftir. Þar voru gatnamótin að Stað og Húsatóftum/Járngerðarstaðahverfi til austurs. Við þann kafla leiðarinnar má enn sjá fallnar vörður að Gerðisvöllum ofan við Stóru-Bót. En þar sem engin varða er á leiðarkaflanum frá Nónvörðu að gatnamótum þessarra hlöðnu varða upp frá Hjálmagjá má ætla að gatan hafi fyrrum ekki verið jafn vel vörðuð og nú má augum líta.
Þjóðsögur eru tengdar bæði Harðhaus og Hjálmagjá, en þær má sjá annars staðar á vefsíðunni þar sem umhverfi Húsatófta er lýst.
Ofan við Hjálmagjá er Byrgishæð. Á henni má sjá leifar nokkurra fiskbyrgja frá Húsatóftum. Móar eru ofan gjárinar. Þegar komið er upp fyrir gatnamót „Staðarvegar“ skýrist gatan verulega. Ofar, örlítið til vinstri, er Skothóll (með fuglaþúfu á) og til hægri handar eru 
Tóftarkrókar inn í apalhraunbrúnir, sem þar eru. Hraunið er hluti af einu Eldvarpahraunanna. Gengið var yfir Miðgjá og síðan Hrafnagjá. Í hana hefur verið hlaðin myndarleg hraunbrú.
Leifar útilegumanna?Þegar tilteknu miði var náð var stefnan tekin til austurs, að fiskigeymslubyrgjunum undir jaðri Sundvörðuhrauns. Byrgi þessu féllu í gleymsku, en fundust aftur á seinni hluta 19. aldar. Vildu menn meina að þarna hefði verið tilbúnir felustaðir Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur (þeir komu til Grindavíkur í júnímánuði 1627 og tóku 12 íbúa og 3 Dani herfangi) eða að þarna hefðu útilegumenn leynst um tíma. Fjallað er um Tyrkjaránið I og Tyrkjaránið II sem og „Tyrkjabyrgin“ á annarri vefsíðu FERLIRs].
Þá var stefnan tekin á sambærileg byrgi, ósnert í Eldvörpum. FERLIR fann þau fyrir stuttu. Byrgin er sambærileg hinum fyrri og bíða rannsóknar áhugasamra fornleifafræðinga. Sú rannsókn gæti upplýst tilurð og notkun byrgjanna á báðum stöðunum.
Eldvarpagígaröðinni var fylgt yfir á Prestastíg og stefnan tekin á Hundadal. Rauðhóll var á vinstri hönd og síðan Sandfellshæð á þá hægri.
EGatvarða við Prestastígldvarpahraunið er yngsta hraunið á svæðinu, rann árið 1226. Þá gaus á u,þ.b. 10 km langri sprungurein. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Rauðhóll er hluti af eldri gígaröð sem Eldvarpahraunið hefur hulið að allnokkrum hluta. Rauðhólshraunið er talið 2000-3000 ára. Vestan við Sandfellshæð ævagamall hóll, Einiberjahóll. Hann er stakur gígur sem Rauðhólshraunið hefur umlukið.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hið mikla hraunflæmi dyngjunnar upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Önnur gatvarða við Prestastíg
Norðvestan við Sandfellshæðina breyttist landlagið. Nú tóku við móar og síðan, þegar komið var yfir sigdæld milli dyngjunnar og Haugsvörðugjár, varð fínn basaltsandur ráðandi. Sandurinn er upprunninn í Stóru-Sandvík, en eftir að fok hans var heft um miðja 20. öld, snarminnkaði ángurinn á heiðina. Áður hafði honum þó tekist að leggja alla bæina vestan Kalmanstungu og Junkaragerðis í eyði. Gjáin dregur nafn sitt af hól vestast við gjána, Haug. Í kringum hólana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára. Norðan þeirra taka við Stampahraunin með sínum fjórum sprungureinagígaröðum. Syðsta röðin nefnast Hörsl.
Prestastígur liggur um flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna. Í rauninni eru flekaskilin á öllu miðsvæði landsins frá SV til NA, allt frá norðvestanverðu Reykjanesi austur að Heklu. En ef menn vilja hafa einhver tiltekin mörk þar sem skilin eru nákvæmlega er ekkert verra að hafa þau við Haugsvörðugjá en einhvers annars staðar.
Þá tók við Kinnin og Presthóll sást framundan. Handan hans sást heim að Merkinesi og yfir til Hafna. Tvær gatavörður eru á þessum kafla er stinga í stúf við annars hefðbundnari vörðugerð á leiðinni. Hugsanlega hefur sá, sem falið var vörðugerðin á þessum kafla, viljað annað hvort breyta til eða tjá hug sinn til verksins með þessu framtaki. Og eflaust hefur handverkið fengið mikla umfjöllun í sveitinni og hverjum sýnst sitthvað um framtakið. Þessar vörður eru reyndar táknrænar fyrir það hvað allt öðruvísi getur verið eftirminnilegt.
Þá sást heim að Kalmannstjörn. Heiðin er tekin að gróa upp með staðbundum plöntum, sem er ánægjuleg þróun á vistkerfinu.
Þegar komið var niður í Hundadal var látið staðar numið, en stígurinn liggur áfram til austurs norðan Hafnavegar. Nokkrar vörður við hana standa enn, en aðrar eru fallnar.
Ánægður hópur að leiðarlokumÖll þessi leið er, sem fyrr segir, vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda og öfugt, því Hafnamenn þurftu áður að sækja verslun til Grindavíkur um aldir.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson

Prestastígur

Prestastígur

Arnarbæli

Upp með Arnarbælisveggjum innan við Kirkjuvogslágar ofan Ósabotna í Höfnum liggur vörðuröð.
Varda-33Auk hennar má sjá fallnar vörður, sem verið hafa allstórar á meðan þær stóðu heilar. Ein þeirra er nánast grasi gróin, líklega mið frá Kirkjuvogi eða Kotvogi í Súlur. Nokkrar vörður standa þó enn heilar. Ætlunin er að reyna að fylgja þessum vörðum áleiðis upp í heiðina og sjá hvert þær leiddu. Í leiðinni var stefnan tekin á Arnarbæli, áberandi klapparhól. Á honum er varða.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing Vilhjálms Hinriks í Merkinesi um Hafnir má sjá eftirfarandi um göngusvæðið: „
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu nafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
ArnarbaeliÍ nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.“
Skotæfingasvæði Keflavíkur er þarna í heiðinni. Skothvellir heyrðust af og til þegar gengið var samsíða skotstefnunni áleiðis upp í Arnarbæli. Hrunin varða, áður stór, var þar fremst á lágu klapparholti. Þegar komið var upp og inn fyrir skotbrautina kom í ljós stór heilleg varða. Gul málning var á einum steininum. Hún gat því verið landamerkjavarða, líklega á gömlum hreppamörkum.
Varda-34Önnur minni var skammt ofar, með stefnu á Stapaþúfu. Skammt frá henni var minni varða, með stefnu á Arnarbæli. Þegar horft var upp að Hvalhólum, mátti sjá vörðu hægra megin ofan þeirra. Þar er lægð í landið er liggur síðan niður með vestanverðu Arnarbæli.
Á Arnarbæli er varða á hraundrangi. Af honum er hið ágætasta útsýni yfir nágrennið, allt niður í Hafnir. Ekki er erfitt að álíta að Össur hafi gert sér bæli þar fyrrum.
Neðan Arnarbælis eru vörðubrot, en allt umleikis hefur verið tiltölulega greiðfært um heiðina, hvaðan og hvert svo sem ferðinni hefur verið heitið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbælisgjá

Arnarbælisgjá.

Karlsgígurinn

„Í ljósi þeirra gagna sem safnast hafa um Yngra-Stampagosið á Reykjanesi er mögulegt að gera grein fyrir framgangi þess í grófum dráttum: Gossprunga með stefnu suðvestur-norðaustur opnast á Reykjanesi. Upphaf gossins er við suðvesturströnd Reykjaness Karl-221eftir því sem best verður séð, en ekki er útilokað að gosið hafi í sjó fjær ströndinni um svipað leyti. Engin ummerki hafa þó fundist um slíkt. Gosið hefst í sjófylltri sigdæld sem legið hefur frá ströndinni inn til landsins og hleðst þar upp hverfjall, Vatnsfellsgígurinn.
Lokaþáttur gossins einkennist af strombólskri gosvirkni með gjallmyndun. Gjóskan frá gígnum berst nær algerlega til hafs. Skömmu síðar, sennilega nokkrum mánuðum, hefst gos að nýju, um 500 m undan núverandi ströndu, og hleðst þar upp annað hverfjall, Karlsgígurinn. Í lok gossins kemur upp hraun í austanverðum gígrimanum og rennur inn til lands. Gjóskan frá Karlsgígnum (R-7) berst að nokkru leyti inn til landsins, yfir allt Reykjanes, en að mestum hluta til hafs. í framhaldi af gjóskugosunum við ströndina hefst hraungos á landi og rennur hraun frá 4 km langri gígaröð. Mest hraunrennsli hefur verið til beggja enda gígaraðarinnar þar sem stærstu gígarnir eru. Hraunið rennur upp að Karlsgígnum og markar hraunjaðarinn við ströndina nú útlínur hans að hluta. Nokkur landauki hefur orðið af hrauninu en það rann í sjó fram á a.m.k. fjórum stöðum.
Eldey-221Í annálum, við árið 1210/11, er sagt að Sörli Kolsson hafi fundið „Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu“ (stílfærsla höfundar). Alls er óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengist þeirri Eldey sem við sjáum í dag, en ekkert útilokar þó að hún sé frá þessum tíma.
Í heimildum er hvergi sagt berum orðum að hraun hafí runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að þvi í frásögnum við árið 1210/11 (Storm 1888). í Oddaverjaannál er sagt: „Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“ Af þessari klausu má skilja að gefið sé í skyn að eldur hafi verið uppi á Reykjanesi og þá væntanlega með hraunrennsli. Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans „fráfalli“ (Biskupasögur I 1858). Þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn er vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
Þó að Yngra-Stampagosið standist ekki samjöfnuð við Skaftárelda er ekki útilokað að nokkurt mistur eða móða hafi verið í lofti við gosstöðvarnar sem orsakað gat rauðan blæ á himintungl (sólu).“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 64. árg. 1994-1995, 3. tbl. bls. 225-227.

Eldey

Eldey.

 

Kinnaberg

Í Alþýðublaðinu árið 1965 er sagt frá sjóslysi undir Kinnabergi á Reykjanesi undir fyrirsögninni „VÉLBÁTURINN Þorbjörn RE 36 fórst í fyrrinótt“ við svokallað Kinnaberg skammt frá Reykjanesvita: „Einum manni af sex manna áhöfn bátsins, 

Atli Michaelsen

Atla Mikaelsen, var bjargað á síðustu stundu áður en allt brotnaði ofan af bátnum, en þá hafði félögum hans fjórum skolað út hverjum eftir annað og varð hann að fara frá þeim fimmta látnum í stýrishúsinu.
Tildrög þessa hræðilega slyss eru í stuttu máli þau, að vélbáturinn Þorbjörn var að veiðum út af Reykjanesi í nótt. Veður var vont, norðvestan stormur og mikill sjór. Veiðarfæri bátsins lentu með einhverjum hætti í skrúfunni og rak hann stjórnlaust til lands. Báturinn sendi frá sér neyðarkall og hafði samband við Loftskeytastöðina í Reykjavík. en mikil og afdrifarík mistök urðu á að senda björgunarsveitir á staðinn. Mun hafa sést frá báti þar úti fyrir, að gúmbátur fór frá Þorbirni til lands og talið víst, að mennirnir væru allir í honum, þannig, að vitavörðurinn og synir hans gætu gengið að þeim vísum. Mennirnir voru hins vegar allir um borð í hinum strandaða báti og höfðu misst gúmbátinn frá sér, áður en nokkur komst í hann.“
„BLAÐAMENN Morgunblaðsins fóru suður á Reykjanes þegar í gærmorgun eftir að kunnugt varð um hið hörmulega sjóslys, er vélbátuKinnaberg-1rinn Þorbjörn frá Reykjavík strand aði og fimm menn fórust. Bátinn hafði hrakið upp í þverhnípt björg í þröngri vík í nánd við Reykjanesvita, þar sem Kinnaberg heitir. Þar á staðnum blasti við hryggileg sjón. Flakið af Þorbirni var að brotna niður undan þungum sjógangi við stórgrýtta ströndina. Rétt fyrir utan bátsskrokkinn hékk stýrishúsið á grynningum, og spýtnabrak úr bátnum barst upp að ströndinni. Þá voru staddir við Kinnaberg nokkrir menn úr björgunarsveitinni frá Grindavík.
Þeir gátu ekkert aðhafzt 
lengur í beljandi norðanáttinni. Öll von var úti um að bjarga fleiri mannslífum. Þeir gátu aðeins freistað þess að ná líkum hinna látnu sjómanna á land.
Thorbjorn-flakHér á eftir fara samtöl við björgunarmennina, vita vörðinn í Reykjanesvita og formann björgunarsveitar-innar í Höfnum.
MORGUNBLAÐIÐ átti í gær tal við vitavörðinn í Reykjanesvita, Sigurjón Ólafsson, en hann kom fyrstur á strandstaðinn ásamt 3 sonum sínum og dóttur. Sigurjóni sagðist svp frá:
— Á þriðjudagskvöldið var auglýst, að rafmagnið yrði tekið af í Höfnum og þar með af Reykjanesvita. En hér er varamótor fyrir radíóvitann og Ijósvitann og setti ég hann í gang fyrir miðnætti. Beið ég svo ásamt syni mínum í radíó husinu eftir því, að rafmagnið yrði tekið af og gerðist það um kl. 12.20.
— Ég sagði syni mínum að vaka yfir mótornum til öryggis og vekja mig, ef eitthvað kæmi fyrir.
— Þegar klukkuna vantaði ca. 5 mínútur í 2 hringdi síminn. Það var loftskeytastöðin og var sagt, að bátur væri strandaður norðvestan við Reykjanes. Ég spurði, hversu margar gráður frá vitanum, en loftskeytastöðin sagði, að það hefði bara verið nefnt kennileiti. Ég taldi þá upp ýmis kennileiti, m. a. Kinnaberg, og sagði loftskeytastöðin, að það væri staðurinn.
— Ég hélt svo á strandstað ásamt 3 sonum mínum og dóttur og vorum við komin þangað um kl. 2.30. Gátum við ekið á bíl á móts við strandstað, en urðum að ganga um 1 km til sjávar.
— All margir bátar voru fyrir utan strandstaðinn, einir 6 eða 7 a.m.k., og lýstu þeir upp staðinn með ljóskösturum og blysum. Voru þeir mjög nærri, um 100 metra frá bátnum.
— Þorbjörn RE 36 var strsigurjon og sonurandaður nyrzt á Kinnabergi. Hann var ekki byrjaður að brotna, þegar við komum, en sat fastur á skeri um 150 metra frá berginu. Okkur virtist 5 menn vera um borð, en komumst að því síðar að þeir voru sex.
— Undir klettunum var gúmbátur og það fyrsta sem við gerðum var að athuga hvort einhver væri í honum. Gerði það einn sonur minn, en báturinn var mannlaus. Höfðu skipverjar misst hann frá sér áður en nokkur komst í hann.
— Við vorum með línubyssu, 2 rakettulínur og 4 skot. Ég gat skotið einni línu, sem fór milli mastrana á Þorbirni, en vindhviða feykti henni yfir afturmastrið og í sjóinn fyrir aftan skipið. Skipverjum tókst ekki að ná henni. Þegar ég ætlaði að skjóta aftur kom í ljós, að hin skotin þrjú voru óvirk. Ég veit ekki, hvað því hefur valdið. Ef til vill hefur raki komizt að þeim.
— Þegar svona var komið fórum við þrjú heim, en tveir synir mínir urðu eftir. Hringdi ég strax til björgunar-sveitarinnar í Höfnum og bað þá að koma með öll nauðsynleg björgunartæki.
— Björgunarsveitin kom ens fljótt og hún gat, en þá var aðeins unnt að bjarga einum manni. Það hafði hvesst mikið. Álandsvindur var, líklega um 7 vindstig, þegar hvassast var. Brim var mikið, gekk yfir bátinn og bergið líka. Um það leyti, sem maðurinn náðist í land, kom björg unarsveitin frá Grindavík, en henni hafði verið gert aðvart af einum bátnum.
— Synir mínir og menn úr björgunarsveitunum hafa verið á strandstað í dag. Eitt líkanna rak á land í morgun, en gengið hefur verið með fjörum án þess að fleiri fyndust, enda ei útsog mikið við Kinnaberg. Hins vegar hefur mikið brak úr bátnum rekið, svo og trollið.
— Núna síðdegis liggur bát urinn fast upp við bergið og má ganga út í hann. Er hann eins og ristur eftir endilöngu. Hliðin, sem að landi snýr, er nokkuð heilleg, en hin öll brotin, sagði Sigurjón.
MORGUNBLAÐIÐ náði í gær tali af Katli Ólafssyni, Óslandi í Höfnum, en hann er formaður björgunarsveitar Hafnamanna.
Thorbjorn-2014Ketill sagði, að þeir hefðu fengið boð um slysið á þriðja tímanum um nóttina og verið komnir þangað um kl. 3. Vegurinn að Kinnabergi væri mjög slæmur og auk þess hafi þurft að aka vegleysur á strandstað, en þetta hafi allt saman tafið fyrir.
Þegar við komum á strandstað, sagði Ketill, var skipið farið að brotna mikið, en það tókst hjá okkur að skjóta línu yfir bátinn og varð það til að bjarga þessum eina manni.
Ketill kvað allar aðstæður til björgunar erfiðar. Mjög hvasst hafi verið og mikið brim, en Þorbjörn legið fast upp við talsvert háa kletta.
Þá sagði Ketill, að ekki hafi verið gerlegt að skjóta línu á nýjan leik, því mönnunum hafi þá þegar verið skolað fyrir borð og stýrishúsið brotið af.
Ketill sagði, að jeppabíll frá björgunarsveit Grindavíkur, sem þá hafi verið kominn á staðinn, hefði farið með skipbrotsmanninn þegar í stað til Keflavíkur, énda hefði hann verið slæptur og þjakaður, en ekki sýnilega meiddur. Að lokum sagði Ketill, að menn yrðu á strandstað til að reyna að ná líkum hinna látnu á land.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, 26. ágúst 1965, bls. 1.
-Morgunblaðið, 26. ágúst 1965, bls. 2.
Kinnaberg

Önglabrjótsnef

Í Tímanum árið 1951 mátti lesa eftirfarandi frásögn; „Þýzkur togari strandar við Önglahrjótsnef – Losnaði af grunni, sökk á skammri stundu en áhöfnin bjargaðist í annan togara“:
onglabrjotsnef-loftmynd„Klukkan 6.40 í gærmorgun strandaði þýzki togarinn Kartsburg Danh við Önglabrjótsnef, nyrðri tá Reykjaness, sunnanvert við Sandvíkurnar. Losnaði hann af grunni tæpum tveimur stundum síðar, en sökk síðan innan lítillar stundar. Forðuðu skipverjar, tuttugu menn, sér í björgunarbátana, og komust þeir i annan þýzkan togara, Hans Böchler, er var í námunda við strandstaðinn.
Fyrstu fregnir af strandinu Loftskeytastöðin í Reykjavík náði fyrst fregnum af strandinu, og lét hún Slysavarnafélagið þegar vita. En það sneri sér til björgunarsveitarinnar í Grindavík og vitavarðarins á Reykjanesi, Sigurjón Ólafssonar, er var einn karlmanna á bænum. —
Brá hann þegar við og fór á strandstaðinn með línubyssu og annan útbúnað, er til björgunar þurfti. Dró hann þetta eftir sér á sleða.
Meðan þessu fór fram var slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík að senda hina öruggu björgunarsveit sína af stað á stórum bifreiðum, en torfæri var yfir að fara og færðin hin versta. Björgunarsveit úr Höfnum lagði einnig af stað.
Loftskeytastöðin Í Reykjavík var í stöðugu sambandi við annan þýzkan togara, Schiitting, er var á þessum slóðum, og tilkynnti hann, að Karlsburg Danh væri strandaður við Öngiabrjótsnef, og voru önnur skip látin Onglabrjotsnef-21vita um þetta. Klukkan 8,20 tilkynnti Schütting, að hinn strandaði togari hefði losnað af grunni og hefði getað hreyít vél sína en mikill leki væri kominn að skipinu. En eftir þetta segir ekki af skipinu, því að það sökk að skammri stundu liðinni.
Sigurjón Ólafsson vitavörður segir svo frá, að hann hafi séð skip, er mikið rauk úr, á hreyfingu hjá Karlinum svonefndum, er hann kom fram á Önglabrjótsnefið. Hugði hann, að þetta væri skip, sem komið hefði til aðstoðar. En nú bar leiti á milli ntla stund, en vitavörðurinn sá aftur þangað, sem skipið átti að vera, var það horfi með öllu, og sást ekki annað eftir en gufumökkur. Til skipsbátanna sást ekki heldur. Ætlaði vitavörðurinn varla að trúa því, að skipið hefði sokkið svo skjótt. Kona vitavarðarins sá hins vegar heiman frá bænum lítinn bát á floti, og gaf hann frá sér rauð ljósmerki.
Það er af áhöfninn fá Karlsburg Danh að segja, að hún sá brátt, að skipið hlaut að sökkva á örskammri stundu. Fóru skipverjar, tuttugu menn, í skyndi í skipsbátana tvo, og komust þeir heilu og og höldnu í þriðja þýzka togarann, sem kominn var. á vettvang, Hans Böchler. Urðu skipverjar á honum bátanna varir og fór til móts við. Þá og á tíunda tímanum komust skipbrotsmenn um borð í hann.
Hans Böchler kom með skipbrotsmennina til Reykjavíkur um miðjan dag í gær. Voru þeir allir hressir. Slysavarnafélagið tók á móti þeim. Erfiðlega mun hafa gengið að útvega þeim gististað, því að flugvallarhótelinu hefir nú verið lokað. Hljóp Hótel Skjaldbreið að síðustu undir bagga, og fengu skipbrotsmennirnir gistingu þar.“

Heimild:
-Tíminn, 9. febrúar 1951, bls 1 og 7.

Önglabrjótsnef

Þýskur togari líkur Karslburg Dahn.

Prestastígur

Ætlunin var að leita og finna hina fornu leið er farin var milli Hafna og Húsatófta fyrrum. Konungsverslunin var um tíma við Húsatóftir, s.s. örnefni og minjar gefa til kynna, og nálægur Staðarprestur þjónaði jafnt Stað og Höfnum. Hann og aðrir þurftu að fara þarna á millum.
Varða í HafnaheiðiEftir að verslunarhöfn í Grindavík lagðist af 1639 og Hörmagnarar hættu verslun í Arfadalsvík 1745 færðist hún yfir á Þórshöfn og Básenda, eða allt til 1799. Áður fóru yfrumsveitungar til Grindavíkur og til baka og omvent eftir það. Stundum var farin „bæjaleiðin“ (með ströndinni) og síðan vent upp úr Hundadal á Prestshól, yfir Haugsvörðugjá og þaðan að Rauðhól. En þeir, sem betur þekktu til og oftar þurfu að fara leiðina, fóru stystu leið um Hafnaheiði. Þegar upp á hábrúnina var komið greindist gatan niður að bæjunum. Þeir, sem austar fóru, fyrir Ósabotna eða til Keflavíkur eða annarra útbæja, fóru um Gamla kaupstað, jafnvel með með viðkomu í Miðseli (allnokkrar næstum jarðlægar tóftir þó enn sjáanlegar), Mönguseli, Merkinesseli eða Kirkjuvogsseli.
Það var ekki fyrr en síðar að farið var að ganga „Prestastíg“ líkt og nú er gert. Sá hluti leiðarinnar hefur verið endurvarðaður, en vörðurnar á hinni fornu leið um Hafnaheiði eru nú nær allar fallnar, þó ekki allar, en ágæt kennileiti eftir sem áður. Sandfellshæðin (dyngjugígurinn), bara eitt sér, er verðugt skoðunarefni.
Á kaflanum milli Rauðhóls og Húsatófta má m.a. skjól útilegumanna í hraunrásum, þekkt fiskgeymsluhús frá tímum Básendaverslunarinnar og önnur algerlega óþekkt (nema kannski 2-3 núlifandi mönnum). 

Ef skoðuð er örnefnalýsing fyrir þetta svæði má m.a. lesa eftirfarandi: „
Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni  [Súlnagjá] er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Varða í HafnaheiðiKaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður. Gren var í hól þessum áður fyrr, en aldrei í tíð núlifandi manna. Í norðaustur frá því, er við stöndum, er gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn. Hann heitir Grákolluhóll. Þar norðaustur af er hár, klofinn klapparhóll, Stóri-Klofningur. Dálítið ofar er annar hóll, líkur hinum, en minni, Litli-Klofningur. Báðir eru hólar þessir neðan við sjálfa heiðarbrúnina.
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu Landamerki Grindavíkur og Hafnanafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
Í nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.
Nú er rétt að keyra í Hafnir á afleggjarann, sem liggur til Reykjaness, og athuga kennileiti og örnefni þau, sem sjást og með veginum liggja. Fyrsta hæð, sem við förum yfir, eftir að húsum sleppir, heitir Lúðvíkshæð. Skammt suðvestar er hár, klofinn hóll og á sitthvorum barmi sprungunnar eru vörður. Þetta heita Bræður. Garðlag liggur á hægri hönd til sjávar í stefnu á þykka vörðu með dálitlu tré í. Þetta er Sundvarða fyrir Merkinessund, og skal hún bera í Bræður á aðalsundi.
Útsýni að Reykjanesvita og EldeyUpp af Lágunum við dálítið skarð í hæðarkinninni í vestur frá Norður-Nauthólum eru mjög gamlar rústir. Það heitir Gamla-Merkinessel (Miðsel). Augljóst er, að landkostir hafa daprazt og selið fært upp í Mönguselsgjána. Niður af Arnarbæli til vesturs eru hólar og graslautir og er það svæði nefnt Kúadalir.“
Þegar gengið var upp frá Kirkjuvogi í Höfnum virtist heiðin nokkuð flöt á fótinn framundan, sendin en hálfgróin. Myndarleg ferköntuð varða er áberandi í heiðinni. Á leiðinni að henni var gengið framhjá hlöðnum matjurtargarði vestan undir í lágum hól. Frá vörðunni sást vel upp í Torfhóla, en stefnan var tekin á heiðarbrúnina með stefnu á vestanvert Sandfell. Umhverfi hefur breyst þarna mikið í gegnum aldir, bæði vegna eldgosa fyrrum, síðan vegna mikils sandfoks upp úr Stóru-Sandvík og um heiðina og loks vegna markvissar landgræslu. Vörður og vörðubrot eru á leiðinni, misstórar. Efst á brúninni hefur verið myndarleg varða, nú hálffallin. Frá henni er ágætt útsýni niður að Höfnum og suður að Sandfellshæð. Hausgvörðugjá er á millum. Vörðubrotum var fylgt að gjárbrúninni og síðan áfram upp að mörkum Hafnar og Grindavíkur. Á þeim er varða.
Lokaáfanginn ofan við HúsatóftirGullkollur, fjalldrapi, lyn og einir eru áberandi í mosagróðurfari svæðisins sem nú tók við. Í vesturöxl Sandfellshæðar er varða. Hún virðist hafa verið kennileiti fyrir þá er voru á leið frá Húsatóftum og vildu taka stefnuna beint af Prestastíg áleiðis til Hafna. 
Norðan þessa er „Prestastígur“ lítt áberandi í landslaginu. Líklega er ástæðan sú að frá gatnamótunum hefur umferðin dreifst yfir Hafnaheiðina, enda ekki nema u.þ.b. 2 klst gangur til bæja.
Frá vörðunni var Prestastíg fylgt framhjá Rauðhól, yfir Eldvörp og að gatnamótum Staðargötu og Húsatóftagötu ofan Hjálmagjár. Síðarnefnda gatan var loks gengin til enda.
Rétt er að geta þess að gatnamót eru á Prestastíg norðan Rauðhóls. Þar liggur gata af honum til norðurs með stefnu á norðuröxl Sandfellshæðar. Vörðubrot er á hraunkolli utan í hæðinni og efst í henni norðvestanverðri er hlaðið gerði. Þaðan sést vel yfir austurhluta Hafnaheiðar. Þessi leið er sú stysta þegar fara átti fyrir Ósabotna.
Þessi leið er 18.1 km, svolítið styttri en ef farið væri frá Höfnum með ströndinni og síðan vent til vinstri í Hundadal eftir núverandi Prestastíg, enda beinni. Útsýni á leiðinni er stórbrotið, bæði til fjalla og stranda. Líklega hafa einungis örfáir menn gengið þessa leið á þessari öld.
Ætlunin er að fara þessa leið rangsælis við tækifæri og skoða þá betur það smáa er fyrir augu ber á göngunni.

Gangan tók rúmlega 4 klst, en alls varaði ferðin í rúmlega 6 klst með góðum hléum, enda veðrið frábært.Prestastígur

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Reykjanes

Í Ægi árið 1926 er fjallað um Reykjanes.
„Ferðir fara nú að verða tíðar til Reykjaness og þegar farnar að birtast skemtilegar ferðasögur um leiðina og landslag. Reykjanes-221Vænta má, að framvegis verði ferðir þangað tíðar, að sumarlagi og þeir sem vilja taka eftir ýmsu, sem þar er að sjá, gefst kostur á að bera saman hvernig umhorfs er nú og fyrir 66 árum og geta þar af dregið hvort rétt sé ályktað, að Suðurland sé að sökkva í sjó.. Þegar farið er framhjá Vatnsleysu liggur vegurinn yfir jarðsprungu, sem nær þar ofan að sjó og yfir þveran Reykjanesskagann; er það Hrafnagjá sem víðkar eftir því, sem suðureftir dregur og er agaleg á köflum t. d. upp af Vogum.
Í ritinu „Blanda“ (2. árg. 1. h.) er lýsing á Höfnum samin af Brandi hreppstjóra Guðmundssyni, eftir beiðni sóknarprestsins Sigurðar B. Sívertsens á Útskálum, er það sóknarlýsing Kirkjuvogssóknar árið 1840. Brandur var fæddur árið 1771 og andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845. Hann var talinn einn hinn besti skipasmiður í sinni tíð og fljótvirkur. Á 40 árum smíðaði hann 40 stór skip og 100 smærri. Hann var lengi hreppstjóri í Hafnahreppi og mjög vel látinn.

Reykjanes-222

Lýsingin byrjar á Höfnum og er of löng til að taka hana upp í „Ægir“; verður því byrjað á Kalmannstjörn óg þaðan farið vestur eftir, og tekið upp úr „Blöndu“ eins og lýsing Brands heitins hreppstjóra er framsett þar, skulu menn muna, að hún er frá árinu 1840: „Bæjarleið sunnar með ströndinni [en Merkines] er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkaragerði, sem 1/2 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft 4 kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“. Jarðab. AM. 1703). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri.
Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („Hefur óbygð legið hér um 50 ár“, segir í Jarðab. AM. 1703.) því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
Reykjanes-223Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vík nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjörn. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér á undan.), og er þar lent þá verður brims vegna i norðan- og austanátt, þá menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið. Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá líka vatnsfarvegs afarstórs, en það getur upp undan og inn til fjalla, sem myndar líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hannn kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni víða vera um 100 faðma breidd og sumstaðar miklu meiri; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi átt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita.). Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi er bergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m. fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja.
Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar, sem varast þarf, þá fyrir það er lagt, og boði einn; er þar sem optast iðukast og óhreinn sjór. Á nesinu eru Reykjanes-224jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun. Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landssuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.

Fiskafli er þar helzti bjargræðisstofn manna; sjómenn eru þar í betra meðallagi og sjósókn, langræði mikið, en optast með landi suður. Fiskur gengur á öllum árstímum, helzt með stórstraum; menn hafa tekið eptir, að austangöngur með sílhlaupum koma helzt með góu og þeim straumnum, líka stundum síðar; vestangöngur, sem eru sjaldgæfar fyrri, lenda einkum í röst; þorskur ýsa keila, þyrslingur, skata, karfi, langa eru þær fiskitegundir, er veiðast á færi og öngla, líka hákarl nokkuð við andþóf og stundum stjóra. — Sundið i Kirkjuvogi er þrautgott, en langt og ógurlegt í brimum, snúningar eru á því lakari og lending háskasöm; eru þar blindsker fyrir sunnan sundið spottakorn.
Reykjanes-225Í Merkinesi er lakara sund, en lending um flóð betri. Bæði liggja sund þessi til austurs í land til þess við er snúið og haldið í suður. Sundið á Kalmanstjörn liggur í sömu átt, er stutt, þröngt og slæmt í brimum, en beint. Útsker er fyrir innan nyrðri enda bergsins og skammt frá landi, sést á það með hálfföllnum sjó; það heitir Eyrarsker. Önnur útsker eru ekki með Reykjanesi Hafnamegin.
En Eldey er klettur stór í hafinu í vestur frá Reykjanesi um 3 vikur sjávar; það er mestpartinn hengiberg með fáum hillum; að austan má lenda við klöpp í ládeyðu, og er þvert niður með henni 9 faðma djúp. Skerjahryggur með 2 ósum inn í liggur hálfhring til útnorðurs og vesturs frá nefndri klöpp; tvö sker eru í boga þessum, hann kemur upp með hálfföllum sjó. Klöppin er um 3 eða 4 ljábrýnur að stærð eða 80 ferskeytta faðma. Klettur þessi, það til lands veit, mun vera að ágizkan vel svo 100 faðma langur, um 40 að norðan, en á sjósíðuna (nefnil. vestan) 80—90 faðma og suðurhornið 15—20 faðmar, hæðin eptir ágizkun 90—100 faðma mest, móberg með blágrýti neðst, öllum mönnum ógengt. Slý er mikið á klöppinni og því hættulegt upp að komast, sem er um 2 faðma hæð um fjöru, og er þá skárst að lenda. Súgur er þar mikill og iðukast. Fugl er mikill á nefndri klöpp og á einni hillu stórri uppundan, sem ekki verður upp á komizt, súla mest uppá eynni.

Reykjanes-226

Maður, sem þangað hefur farið nokkur vor, segist hafa náð þar mest 10 í hlut af svartfugli, 2 og 3 súlu, — 24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést — og 100 í hlut af eggjum. Litið er þar af sel, en afarstyggur. Skammt frá Eldey er klettur í útsuður, kallaður Eyjadrangi (mun vera það sem nú ka]last Eldeyjardrangur), sem hvergi verður upp á komizt, enda er hann gæðalaus. Geirfuglasker er í vestur í hafinu undan Eldey. Sagt er, að menn hafi gert þangað ferðir fyrir og eptir slátt á sumri, sem þá lukkaðist, hafi mannshlutur orðið fullt svo mikill sem fullkomins manns sumarkaup úr Norðurlandi. Skrifað finnst, að skip hafi farizt þar (Sumarið 1639 fórust með allri áhöfn 2 skip af 4, er til Geirfuglaskers fóru til aflafanga af Suðurnesjum (sbr. Skarðsárannál) í suður frá skerinu er klettur, sem kallast Skerdrangi, en í vestur frá því eða til útnorðurs hefur brunnið í hafinu fyrir fáum árum. Í mæli er, að 12 vikur sjávar séu úr Höfnum í skerið, en 6 til Eldeyjar.
Reykjanes-227Í Höfnum er rigninga- og snjóasamt frá austurs— landssuðurs og sunnanáttum og stormasamast, líka bitur kuldi; norðanveður eru vægari að tiltölu, útnyrðingar hættusamastir sjófarendum, útsynningar ganga miklir um jólaaðventu og á útmánuðum, skruggur stundum, en ekki orðið skaði af, hrævareldar og ýmsar loptsjónir orðið vart við. Flestar grasategundir munu þar á heiðinni og hraununum, líka nærri sjó. Engin eru þar rennandi vötn og ekki fjöll það heifa megi. Trjáreki á Kalmanstjarna rekaplássi, sem er stórtré opt, allarðsamur til húsabóta, engir skógar. Ekki hefur hval rekið i Höfnum yfir 60 ár; engir skógar, engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.

Athugagrein.
Af 60 ára reynslu er aðgætt, að flóð hafi orðið mest um og eptir veturnætur, veður mest um jól fram eftir miðjan vetur af land og hafsuðri til útsuðurs, en vestan- og útnorðanáttir hafa verið skæðastar sjófarendum í Höfnum.
Klettur er framan Hafnaberg, laus við land, má fara milli hans og þess, stendur optast upp úr um flóð, og því ekki sérlega hættulegur. Víða eru boðar með landi, en ekki sérleg rif eða útgrynni. Röstin fyrir Reykjanesi liggur til vesturs frá nesinu til Eldeyjar; hálfa viku sjávar frá því er svo mikið misdýpi, að á skipslengd er 14 og líka 40 faðma djúp, og er það hraunhryggur þverhníptur að norðan, en flatur suður af.

Reykjanes-228

Viku sjávar frá landi verður sandalda um 50 faðma djúp, en botnast ekki þá norður eða suður af ber; sandalda þessi breikkar því meira sem fram eptir dregur og ætla menn hún nái framt að Eldey. Skammt frá henni, hér um bil 80 faðma, er 40 faðma djúp landsmegin, en grynnra að vestan. Opt er straumur svo mikill í röstinni, þó veður sé gott, að ekki gengur á fallið, þótt siglt sé og róið af mesta kappi. Aðfall er þar venjulega meira en útfall; stundum ber til, að þar [er] ekki skiplægur sjór, þó annarsstaðar sé ládeyða. Vestan- og sunnanáttir eru þar beztar, þá hægar eru, en austanáttir hættulegastar, því að sækja er á einn landsodda í austur, en haf á allar síður, en straumar opt óviðráðanlegir. Ekki hefur þar skip farizt svo menn viti (þ. e. í Reykjanesröst), en erfitt er að sækja þangað; mörg hefur þaðan máltíð fengizt; það er um 4 vikna sjóarlengd þangað frá Kirkjuvogi.
Þetta er þá sú upplýsing, er er get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega vel að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vildi eg að því leyti geta sýnt viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Heimild:
-Ægir, 19. árg. 1926, bls. 182-187.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Hafnir

Í bók Guðna Jónssonar, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, er m.a. fjallað um „Brúðarránið“ svonefnda. Erlendur Marteinsson er heimildarmaður og segir hann frá því þegar séra Oddur V. Gíslason, nam konu þá er hann elskaði, á brott frá Kirkjuvogi í Höfnum og flúði með hana til Reykjavíkur einn fagran haustdag árið 1870. Í frásögnum hefur brúðarrán þetta verið sagt hafa verið það „mesta“ er um getur hér á landi. Frásögnin er svona:
Oddur„Síra Oddur V. Gíslason var bráðgáfaður maður og þar eftir skemmtilegur í allri umgengni. Einnig lá honum allt í augum upp á veraldlega vísu. Var hann hugvits – og hugsjónarnaður, en ekki að sama skapi heppinn með áform sín. Eitt af því, sem hann gerði tilraun með, líklega fyrstur manna hér á landi, var að gera þorskalifur að verðmætri vöru, bræða úr henni lýsi. Sigldi hann til Englands í þeim tilgangi að læra lýsisbræðslu, en setti sig síðan niður suður í Höfnum, því þar var þá einn mestur merktarmaður Vilhjálmur Kristinn Hákonarson bóndi í Kirkjuvogi. Þar settist Oddur að. Vilhjálmur átti dóttur þá, er Anna hét. Var hún forkunnar fríð og myndarleg og eftir því góð stúlka. Brátt felldu þau Oddur og Anna hugi saman, og kom svo, að þau bundust heitorði með samþykki foreldra hennar.
Nokkur síðar sigldi Oddur öðru sinni til frekari ráðagerða við Englendinga. Hafði hann nú í hyggju að kom aupp postulínsvinnslu á Reykjanesi, og gat hann komið svo málum sínum við enska menn, að þeir lögðu fram fé nokkurt, og var gerð tilraun með postulínsbræðslu. En hvað sem olli, fór tilraun þessi út um þúfur og varð engum að notum. Þá er svo var komið, tók Vilhjálmur karl að snúast á móti ráðahag Odds og Önnu. Hann var þannig gerður, að hann kunni betur við að sjá arð af því, sem í var lagt, og mat menn mjög eftir því, hvernig þeim gekk að afla fjár, eins og einkennt hefir ríkismenn bæði fyrr og síðar. Þar við bættist, að Oddur fór um sinn að blóta Bakkus meira en góðu hófi mundi gegna. En tryggð Önnu helzt óbreytt eftir sem áður.

Kirkjuvogur

Nú líður svo nokkur tími, að tvísýnt þótti um, hvort Oddur og Anna fengju að njótast sökum ofríkis föður hennar. Þá var það einn fagran haustdag í byrjun jólaföstu, að Vilhjálmur bóndi í Kirkjuvogi lá fyrir dýr suður á Reykjanesi. En er rökkva tók, verður fólk í Kirkjuvogi vart við það, að Anna er horfin og sjást engin merki um burtför hennar, nema föt hennar utast og innst fundust úti á kirkjulofti. Er Önnu nú leitað á bæjum þar í Höfnum, en enginn hafði orðið hennar var. Þá er hennar leitað með sjónum og í útihúsum, ef vera kynni, að hún hefði gripið til örþrifaráða, en leitin bar engan árangur. En um kvöldið á vöku kemur Gunnar bóndi Halldórsson í Kirkjuvogi heim, en hann hafði legið fyrir dýr inni í Ósabotnum um daginn. Hann segir þau tíðindi, að ekki muni þurfa að óttast um Önnu, því að Oddur muni vera kominn með hana inn í Voga. Segist hann hafa mætt tveim mönnum á heiðinni, sem að vísu hafi verið búnir sem karlmenn, ern þar muni Anna þó verið hafa reyndar. Eru nú sendir þrír eða fjórir menn á eftir þeim Oddi.
VarðaEn er þeir koma inn á heiði, hita þeir mann með söðulhest. Þeir spyrja hann erinda, en hann segist vera að bíða eftir Oddi Gíslasyni, hann sé að sækja kvenmann suður í Hafnir og eigi hún að ríða hestinum. Sjá nú hvorir tveggju, að þeir eru gabbaðir, og snúa hvorur sína leið. En af Oddi og Önnu er það að segja, að þau fara rakleitt inn í Njarðvíkur til Björns bónda í Þórukoti. Flýtur þar í vörinni sexmannafar með allri áhöfn. Er ekki að orðlengja það, að undin eru upp segl og siglt til Reykjavíkur um nóttina.
Oddur hafði svo ráð fyrir gert, að maður væri sendur þegar í stað úr Njarðvíkum suður að Kirkjuvogi til þess að segja foreldrum Önnu, hvað komið var. Til ferðar þessarar var valinn Björn nokkur Auðunsson, hávaðamaður og svakafenginn nokkuð. Hann kemur að Kirkjuvogi, 
er búið var að loka dyrum. Guðar hann því á glugga, kallar inn og segir: „Þið þurfið ekki að spyrja um hana Önnu. Hún er komin til Reykjavíkur með Oddi V. Gíslasyni“.
KirkjuvogskirkjaVilhjálmur bóndi, sem var nú kominn heim og var í mjög æstu skapi, tók fregn þessari svo, að hann þreif til byssu sinnar og gerði sig líklegan til skjóta út um gluggan á sendimanninn. Hin góða og hægláta kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir prests á Útskálum, gat þó afstýrt þessu tiltæki manns síns. En Vilhjálmur lagðist í rúm sitt og lá síðan lengi vetrar og varð raunar aldrei samur maður eftir þetta, svo stórt var skap hans. Það skal þó tekið fram, að Oddur sættist fullum sáttum við tengdaforeldra sína, og Anna fékk fullan arf, þegar þar að kom, en sú var venja á þeim tímum, ef börn gerðu stórlega á móti vilja foreldra sinna, að svipta þau arfi.
Þau Oddur og Anna giftust á gamlársdag 1870, og var Oddur síðar prestur í Grindavík og þjóðkunnur maður fyrir baráttu sína fyrir slysavörnum á sjó og rit sín og leiðbeiningar um þau efni. Síðar fluttist hann til Vesturheims, stundaði þar prestsstörf og lækningar og andaðist í Winnipeg 1911. Eignuðust þau hjón mörg börn og efnileg.
Að lokum vil ég bæta því við, að atburður sá, sem hér er sagt frá, er mér í fersku minni, þó að ég væri þá aðeins 6 ára drengur í Merkinesi í Höfnum. En Þau Odd og Önnu þekkti ég persónulega að öllu góðu.“

(Handrit Guðlaugs E. Einarssonar í Hafnarfirði veturinn 1934-35 eftir frásögn Erlends Marteinssonar frá Merkinesi, síðar að Kirkjuvegi 10 í Hafnarfirði).

Heimild:
-Guðni Jónsson, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, 1934-35, bls. 126-129.
Hafnir