Tag Archive for: Reykjanesbær

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

„Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Á einu þeirra eru upplýsingar um Reykjanesvita. Þar stendur eftirfarandi:

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

„Reykjanesviti er elsti vitinn sem nú stendur við Íslandsstrendur, tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrðið er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða starfi sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

„Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.“

Stampar

Stampar – skilti.

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – stekkur.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Gömlu-Hafnir

Brynjúlfur Jónsson skrifar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 um „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902„:

Gömlu-Hafnir - uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

„Kirkjuhöfn er góðum kipp fyrir sunnan Kalmanstjörn. En þar mitt á milli, eða því nær, er hóll sá er Stekkjarhóll heitir, því þar hefir í seinni tíð verið stekkur frá Kalmanstjörn. Þar er rústabunga mikil, og hefir óefað verið bær. Liggur þaðan óslitinn garður, líklega túngarður, alla leið út að Kirkjuhöfn. Þvert frá þeim garði liggja þrír þvergarðar til sjávarkambs, með þeim millibilum að svara mundi kýrfóðurvelli eða meira.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Liggur beint við að ætla, að sitt býli hafi fyrrum verið á hverri þessari spildu og bæirnir staðið við sjóinn. En hann hefir brotið landið, og er þar nú kamburinn, sem bæirnir hafa staðið. Alt land er hér sandrokið hraun. Þó er grashóll þar, sem bærinn Kirkjuhöfn stóð, og er gróið yfir bæjarrústina, svo hún sést ógjörla. Sunnan undir hólnum er sérstök grjótrúst, sem ætla má að sé kirkjutóftin. Suður þaðan er dálítil sandvik með malarkambi. Bak við kambinn hefir verið mýrardæl, sem nú er leirflag. Í henni sést brunnurinn. Utanvert við vík þessa er höfnin, sem bærinn Kirkjuhöfn er kenndur við. Það er lón fyrir innan skerjaröð. Þar er þrautalending í öllum suðlægum áttum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Sandhöfn, stóra og litla, heita tvær graxivaxnar hæðir, sem eru hvor hjá annari suðvestur frá höfninni. I þeim hæðum voru bæir, sem nú eru eyddir af sandfoki. Stóra Sandhöfn er austar, og lagðist hún fyr í eyði. Er svo langt síðan, að Á. M. jarðab. getur hennar ekki. En Kirkjuhöfn og Litlu-Sandhöfn telur hún sem eyðijarðir.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Eyrarhöfn.

Seinna var gjör bær á Hafnareyri. Það er skamt út frá Litlu-Sandhöfn. En hann hélzt skamma stund við. Er sá maður nefndur Ormur Þórarinsson, sem þar bjó síðast. Allir þessir bæir hafa verið fyrir innan Hafnaberg.“
Brandur Guðmundsson, hreppsstjóri segir: „Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði um 1660), að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurnveginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast í eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með því móti síðar orðið kongseign (Gróa Hafliðadóltir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (f 1855)).“
 

Gömlu Hafnir

Systur.

„Nokkru fyrir sunnan Kalmanstjörn eru við sjóinn rústir allmiklar og garðar. Eru það sandorpnar leifar af fornri byggð. Þar hét Kirkjuhöfn. Á þessum stað hafa fundizt leifar af kirkjugarði og gömul mannabein.
Fleiri bæir hafa verið þarna, svo sem Sandhöfn og Eyri. Á Eyri bjó um miðja 17. öld maður sá, er Grímur hét. Það var einhverju sinni meðan Hallgrímur Pétursson var prestur á Hvalsnesi, að Grímur bóndi á Eyri kom þar á sunnudegi og hlýddi messu í Hvalsneskirkju. Gekk hann út um messuna að gæta reiðskjóta síns, sem var hryssa. Hafði hún losnað, en Grími varð skapbrátt, lamdi merina harkalega og batt síðan rammlega aftur með reipi. Munu þær aðfarir hafa verið ófagrar. Gerðist þetta i sömu andrá og Hallgrímur blessaði yfir söfnuðinn. Sá hann gjörla allt atferli Gríms, því að viðureign hans við merina fór fram gegnt opnum kyrkjudyrum. Um það kvað prestur eftir messuna:
Hann Grímur á Eyri
gerir sem fleiri,
að gengur hann út,
merina keyrir,
með reipum svo reyrir
og rekur á hnút.“

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Grímsson skrifaði um „Fornminjar um Reykjanessskaga“. Þar segir hann m.a. um Kirkjuhöfn og nágrenni: „Snertukorn suður frá Kalmanstjörn gengur vík en breið inn í landið. Hún nær suður allt að Hafnarbergi. Í þessari vík sér rústir af 3 fornbæjum niður við sjóinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir;  bæjarhóll.

Heitir sá nyrzti þeirra Stóra-Sandhöfn, þá Kirkjuhöfn og syðst Litla-Sandhöfn. Af þessum 3 bæjum er án efa héraðsnafnið, Hafnir dregið. En yzt í víkinni, þar sem Hafnarberg byrjar, hefir staðið bær, sem hét á Eyri; hann var lengst þeirra byggður, og er þar nú helzt grasi vaxið nokkuð í rústunum. Hinir 3 fyrrnefndu bæir hafa allir staðið á Hólum, og er þar ei alveg upp blásið enn, sem rústirnar eru. Merkilegasta rústin er Kirkjuhöfn. Þar hefir verið mikil bær og hús mörg. Kirkja hefir þar verið skammt frá bænum, og er rúst hennar auðþekkjanleg,  en mjög hrunin og ei svo glögg, að mæld verði. Sama er að segja um kirkjugarðinn. Fram við sjóinn eru þar og rústir allstórar, sem á að hafa verið eftir kaupstað og þess konar. Það er skammt frá því, sem vörin á að hafa verið. Ekki sést nú glögglega hvort vör þessi hefir verið rudd eða ekki, en líklegt er hún hafi þar verið, sem sagt er.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður í Gömlu-Höfnum.

Ýmsar eru hér fleiri rústir en þessar , en þær eru svo af sér gegnar, að eigi verða þær mældar. Sama er að segja um Sandhafnirnar báðar; þó líta þær ekki út fyrir að hafa verið eins stórbæjarlegar og í Kirkjuhöfn. Bæjarrústirnar í Kirkjuhöfn væri vel vert að grafa upp líkt og í Vogi, sem ég áður gat um, en það er mikið verk.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Fyrir ofan alla þessa bæi hefir legið garður eigi allítill, og sér rústa hans á mörgum stöðum. Hann nær frá Stóru-Sandhöfn suður að Eyri eða Eyrarbæ. Upp undan Kirkjuhöfn er í hrauninu hóll, kallaður Bæli, og er mælt að þar hafi staðið samnefndur bæ; þar sér enn til nokkurra rústa.
Þegar kemur suður fyrir Hafnarberg, gengur enn vík allbreið inn í landið; hún deilist í 2 víkur misstórar af hraunbelti, er þar gengur fram í hana að sjó. Nyrðri hluti víkurinnar heitir Stóra-Sandvík, en hin Litla-Sandvík. Norðanvert við Stóru-Sandvík, fram við sjó , er kalla Skjótastaðir, og  er mælt að þar hafi fyrrum verið bær samnefndu, en engin sjást þar nú vegsummerki, því hraunið hefir runnið þar yfir, ef nokkuð hefir verið.“
Sjá Myndir.

-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 43
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, Lýsing á Höfnum eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi, bls. 54
-Faxi, 24. árg. 1964, bls. 169
-Magnús Grímsson. Fornminjar um Reykjanessskaga, bls. 259-2

Gömlu-Hafnir

Fiskbyrgi við Gömlu-Hafnir.

 

Draugshellir

Leitað var Valahnjúkshellis, en gamlar sagnir eru um mikinn draugagang í hellinum. Eftir að mikið timbur rak á Valahnjúksmalir á 18. öld voru vinnumenn Kirkjuvogsbónda við sögunarvinnu á mölunum. Þeir hlóðu byrgi og tjölduðu á mölunum.

Valahnúkar

Tröll á Valahnúkum.

Sagan segir að einn sögunarmanna hafi fundið þurran og rúmgóðan helli uppi í hnúknum og hafi þeir flutt sitt hafurtask þangað. Fyrsta kvöldið, eftir að hafa farið með bænir og sygnt sig, sofnuðu þeir, en vöknuðu fljótlega aftur við lætin í hundunum og raddir ósýnilegra manna. Kvað svo rammt að þessu að þeir urðu að flýja út í sunnanbálið, sem þá geisaði. Nokkru seinna komu tveir menn til sögunarvinnu frá Kirkjuvogi, en vildu ekki, þrátt fyrir beiðni heimamanna, að taka með sér tjald, því þeir höfðu ákveðið að gista í hellinum. Um nóttina kom annar mannanna aðframkominn heim að Kirkjuvogi.
Félaga hans var leitað og fannst hann á reiki um hraunssandinn. Aldrei fékkst upp úr þeim hvað gerðist í hellinum um nóttina. Hellirinn sést ekki nema þegar komið er alveg að opinu.

Valahnúkur

Valahnúkur – Draugahellir.

Skoðaður var upphlaðinn stígur, sem liggur frá Bæjarfelli að Valahnjúkum.
Hellisskútinn uppi í austanverðum Valahnúk er ekki verri Draugahellir en hver annar. A.m.k. fékkst hundkvikindi, sem var með í för, ekki til þess að fara þangað inn ótilneytt. Hafi hellirinn verið sunnan í hnúknum er hann löngu horfinn því aldan sverfur stöðugt af honum framanverðum.
Undir austanverðum Valahnúk má sjá sjá hleðslu undan búðum. Hún gæti hafa verið gerð þegar fyrsti vitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk 1878. Leifar vitans liggja nú neðan og norðan við hnúkinn.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þá var skoðuð gamla hlaðna sundlaugin, sem Grindavíkurbörn lærðu að synda í um og eftir 1930.
Frábært veður.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

„Vangaveltur hafa verið um nafn fellsins sem núverandi Reykjanesviti stendur á:

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

-1752-7. Ferðabók Eggerts og Bjarna: “ . . . en þrjú lítil leirfjöll skera sig þó mjög úr umhverfinu. Þau heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni, . . . „

-1840. Lýsing Grindavíkursóknar. Geir Bachmann: “ . . . Valahnúkur . . . Skammt þaðan í landnorður er aðrísandi fell, Vatnsfell kallað. “ Sérann nefnir ekki Bæjarfell. Á öðrum stað segir hann: “ . . . Sandfell, Sílfell, Grasfell eða áður nefnt Vatnsfell og fram á Skarfasetur.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Bæjarfell er framan við nýja Reykjanesvitann á Vatnsfelli.

-1883. Þorvaldur Thoroddsen. “ Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, t.d. Valahnúkur (43 m), sem vitinn stendur á [gamli vitinn], Vatnsfell (54 m) og Sýrfell (105 m).

-1908-10: Herforingjaráðskort, 1:50 þús. : Þar sést fell með rana til suðurs. Orðið ´viti´ er skráð vinstra megin við háfellið en örnefnið Bæjarfell er skráð til hægri og sunnar þar sem raninn byrjar. Ekki er hægt að segja til um hvort örnefnið á við hæsta hluta fellsins (Vatnsfellið, nýi bærinn] eða þann lægsta (Bæjarfellið, gamli bærinn).

-1945 kort 1:100 þús.: Þar er Vatnsfell skráð vsv við Bæjarfellið [smbr. Jón Jónsson hér neðar).

-1926. Lesbók Mbl.. Valtýr Stefánsson, ritstjóri: “ . . . Því var ráðist í það að byggja annan vita á Vatnsfelli.·“

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn nýi. Vitavarðahúsin gömlu neðar.

-1984. Árbók F.Í.. Séra Gísli Brynjólfsson:“ . . . reis núverandi viti á Bæjarfellinu. “ Sama rit. Jón Jónsson, jarðfr.:. “ . . Lítð eitt
austar [er að lýsa frá vestri] er gosmalarkeila, Vatnsfell, sem sjór er nú sem óðast að brjóta niður [ þarna er greinilega hvorki átt við fellið sem vitinn er á eða gamla bæjarhólinn, en Vatnsfell heitir annað fell austar með ströndinni]“ “ . . . Í fellinu neðan við vitann, Bæjarfelli, stendur bústaður vitavarðar. . .“

-1988. Suður með sjó. Jón Böðvarsson: “ Reykjanesviti trjónar efst á Grasfelli . . . . Eftir byggingu hússins þokaðist gamla örnefnið fyrir heitinu Bæjarfell.“

-1989.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Íslandshandbókin. Örn og Örlygur (mynd): “ . . . Bæjarfell með Reykjanesvita fjær . . . „

-1991. Tímaritiði Áfangar. Hafnahreppur. Leó M. Jónsson,: “ . . . og var núverandi viti á Vatnsfelli tekinn í notkun árið 1908.“ Í greininni er mynd af fellunum á Reykjanestá tekin úr norðri, frá veginum og undir henni stendur: “ Frá vinstri sést í Bæjarfell [hóllinn (fellið) sem gamli bærinn stóð á] , þá Reykjanesviti á Vatnsfelli . . „

-2004. FERLIR 665: „Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú.“

-Vitamálastofnun notar örnefnið Bæjarfell.

Undirrituð velur Vatnsfell, svona fyrir aldurs og úbreiðslu sakir . . „.

-Sesselja Guðmundsdóttir tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr „betons“grjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálabarmshelli.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.

Reykjanes

Reykjanes – brunnur.

Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanes

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanesviti

Flóruð gata milli vitavarðarhússins og Valahnúks, áleiðis að gamla vitanum.

Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Gengið var eftir flóraðri „vitagötunni“ að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Reykjanes
Sagt er að náttúran á Reykjanesi sé engu lík.
Reykjaneshryggurinn er kannski ekki þekktasta náttúruparadís Íslands en þar er hins vegar náttúran óviðjafnanleg. Reykjanesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi með fjöll eins og Keilir, tignarlegt fjall í miðju hrauni, þar sem umhverfið milli fjallanna minnir helst á tunglið. Umhverfið er gráleitt og þar er gamalt mosavaxið hraunið í samspili við græn engi.

Stampar

Stampar – gígur.

Sandvík og svæðið þar í kring er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir vini og vandamenn að koma saman og njóta náttúrufegurðar í góðu veðri. Þar er flott strönd þar sem m.a. er hægt að fara í strandblak og fleiri strandleiki ásamt ýmsu öðru.
Hafnarbergið er mjög tignarlegt og þar er fjölskrúðugt fuglalífið í miklum blóma í hrauninu og klettunum. Þar er einn besti fuglaskoðunarstaður á suð/vestur horninu og þar er stutt 40m gönguleið sem orðin er mjög vinsæl hjá göngufólki.
Ýmis hverasvæði eru á Reykjanesinu, s.s. Gunnuhver.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Á Reykjanesvitasvæðinu eru ýmsar merktar gönguleiðir út á Reykjanestá og að Skálafelli og einnig frá Valarhnúk út á Önglabrjótsnef þar sem hægt er að fara í stuttar gönguferðir í fallegri og skemmtilegri náttúru en þess má geta að á Reykjanesinu er mikið um merktar gönguleiðir s.s. Prestastígur, Skipsstígur og Skógfellavegur sem eru mjög vinsælar leiðir.
Á Stafnesinu, frá Hvalnesi að Básendum sem er forn verslunarstaður frá tímum einokunarverslunar, má sjá rústir af húsum og festingar polla sem festir hafa verið í klappirnar þar sem verslunarskipin voru bundin.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bergið í Reykjanesbæ er einnig dæmi um fallegt útivistarsvæði og í góðu veðri er þaðan ómótstæðilegt útsýni til fjalla höfuðborgarsvæðisins.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Þetta eru bara lítil dæmi um náttúrufegurð Reykjaness og væri hægt að telja upp endalaust af stöðum, s.s. Bláa-lónið, Garðskaga þar sem er fjara með hvítum sandi og einnig mætti nefna Þórkötlustaðanes í Grindavík og Þorbjörn frá fjallinu sést vítt yfir vestanverðan Reykjanesskaga og jafnvel víðar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.