Tag Archive for: Reykjanesbær

Stekkjarkot

Reykjanesskaginn á sér magnaða sögu.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki.

Íbúarnir hafa hins vegar oft verið meira sem þátttakendur en gerendur í hinum stærri atburðum, s.s. atburðunum í kjölfar átaka Englendinga og Þjóðverja og aftöku Jóns Arasonar. Mikil umferð fólks var um svæðið alls staðar af landinu, það kom á vertíðir og fór síðan. Kot voru mörg hver lítil og oft nýtt til tiltölulega skamms tíma, sbr. Stekkjarkot í Narðvík. Höfuðbýlin voru fá, en lítt ríkmannleg, með örfáum undantekningum.
Í seinni tíð má segja að á Reykjanesskaganum hafi nútíminn verið stærri en sagan, en víða úti á landi hefur sagan verið stærri en nútíminn (SÁJ).

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Þannig hafa íbúarnir vera meira uppteknir af því að hafa ofan af fyrir sér með niðursoðnu afþreyingarefni en leita þess í sögunni, þjóðarmenningunni. Landsbyggðin hefur hins vegar notið fortíðarinnar og nýtt sér hana til framtíðar. Hvorutveggja eru þau næringarefni nútímans, sem maðurinn þarnast til að geta verið sæmilega sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt.

Víðast hvar í heiminum er verið að leggja aukna áherslu á nýtingu áþreifanlegra minja til að gera íbúnum og gestum þeirra mögulegt að „þreifa á“ uppruna sínum.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að uppruninn er sú auðlind, sem allt annað er á eftir kemur byggist á.
Þróun er afbrigði þess þekkta. Sá, sem ekki þekkir, kemur hvorki til með að geta þróað eitt né neitt.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Gömlu-Hafnir

“Það er haft eftir Magnúsi Stephensen, að samkvæmt ævagömlum heimildum hafi mest allur hluti Reykjaness árið 1000 sokkið í sæ, og þá komið upp Geirfuglasker. Ætti þá fyrir þann tíma að hafa verið land langt norðvestur út fyrir Eldeyjar, þannig að Eldey og drangar þeir, sem þar eru, hafi á þeim tíma og fyrr verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Þetta er mjög líklegt, enda kemur það heim við fornsögur vorar, því þar er þess getið, að þegar fornmenn komu siglandi fyrir Reykjanes, þá blasti við þeim opinn Faxaflói. Kemur þetta alveg heim við nútímann.
Árið 1118 er mesta óár, og undur gerast á Reykjanesi. Þá er landskjálfti mikill og eldur þar fyrir; þá farast 18 menn. Svo kemur röðin af óárunum á Reykjanesi og eldgosum, er smátt og smátt eyðileggja allan þann gróður og grashéruð, er hafa verið til forna á Reykjanesi.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Árið 1206 er eldgos á Reykjanesi, sömulieðis 1210, og ’11 brann Reykjanes. Þá sukku ýmsar eyjar, er voru úti fyrir nesinu. 1222 er einnig eldgos, 1223 líka; það sama á gýs Hekla. Fyrri helmingur 13. aldar á mestan þátt í því að leggja býlin í kringum Skjótastaði í auðn. Myrkur var um hábjartan dag á Suðurnesjum árið 1226.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Elsta handrit um byggð í Höfnum, er máldagi, sem Vilkin biskum gjörði, er hann visiteraði í hafnirnar 1397, eða 5 árum fyrir Svartdauða. Þessi visitazía er elsta og merkilegasta lýsing á Höfnum, eða réttra sagt Vogkirkju. Á þessum máldaga sést að Vogskirkja er helgið Maríu mey, fyrst og fremst, og að nokkru leyti Pétri postula.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður ofan Gömlu-Hafna.

Rosmhvalanes var, samkvæmt gömlum skjölum, frá grófinni hjá Duus í Keflavík í Háleitisþúfu og þaðan í Ósabotna, er þeir ná lengst í austur. Hvað byggt hefir verið sunnar með Ósunum á þessum tímum, er ei vitað, en þó líklegt, að í Kirkjuvogi hafi verið kot eða hjáleiga frá Vogi.
Í Kirkjuhöfn var kirkja á 12. og 13. öld, þótt ekki sé hennar getið hjá Vilkin biskupi.
Talið er víst, að byggð hafi verið á Eyri lengi fram eftir 18. öld, því 1770 býr þar í Eyrarbænum Ormur Þórarinsson (Litla Sandhöfn (Sandhöfn)). Um 1702 er Litla-Sandhöfn skilgreind. Bærinn eyðilagðist 1650 og Eyrarbærinn fór í eyði um 1770. Kirkjuhöfn mun leggjast í afslöppun á næstunni nokkru síðar, 1660, og Eyrarbærinn fór í eyði 1776.
Kirkjan er mjög áhugaverð.“

-Séra Jón Thorarensen
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

Árið 1804 rak á land á svo nefndri Valahnjúksmöl á Reykjanesi geysistóran timburflota. Var hann alveg ein samfelld heild og gyrtur afardigrum járnböndum. Allt voru það ferstrend tré. Það var til marks um stærð flotans, að 10 metra löng tré stóðu upp á endann í honum. Töluvert hafði verið af fötum og fataræflum upp á flotanum, og var haldið, að skip það, sem hafði hann aftan í, hefði farist, en skipshöfnin komist á flotann, en skolast svo aftur af honum í ofviðrinu.

Valahnúkshellir

Valahnúskhellir.

Þegar mannfjöldi mikill hafði bjargað öllu timbrinu undan sjó, fór opinbert uppboð fram; voru þar mættir bændur úr allri Gullbringusýslu. Seldust trén á 4-8 dali hvert, sum þó nokkuð meira, allt upp að 12 dölum einstök tré. Allt voru þetta rauðviðartré, sem kallað var, og valinn viður. Til marks um gæði viðarins, þá var rifið hús eitt í Höfnum sumarið 1929, sem byggt var að mestu leyti úr Reykjanesstrandinu, og var mikið af viðnum alveg óskemmt eftir meira en heila öld. Mestan hluta trjánna keyptu Hafnahrepps- og Vatnsleysustrandarmenn á uppboðinu, dálítið lenti úti á Rosmhvalanesi, en minna í Grindavík og innhreppum sýslunnar. Ár eftir ár voru menn svo úr þessum sveitum að fletta trén í borðvið. Voru borðin svo flutt á hestum í dráttarklyfjum til eigendanna, og sjást vegslóðarnir inn Hafnaheiðina enn í dag, þar sem Strandarmenn og aðrir innan Stapa fóru með lestir sínar.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Hafnamenn einir söguðu lítið af trjánum suður frá, en reru þau aftan í skipum sínum, þegar logn og ládeyða var. Höfðu þeir oft 4-5 tré aftan í einu; var þá lagt af stað um háfjöru að sunnan og norðurfallið látið létta róðurinn með trén, og ef vel gekk, var lent í Kirkjuvogsvörinni um háflæði eftir 6 tíma þembingsróður. Engin byggð var þá á Reykjanesi og urðu sögunarmennirnir því að liggja í tjöldum eða grjótbyrgjum, er þeir hrófuðu upp og skýldu sér í yfir nóttina. En brátt urðu menn þess varir, að uppi á Valahnjúkshamrinum að sunnanverðu, beint upp af þeim stað, þar sem þeir voru að saga, var hellir; skoðuðu þeir hann, og leist þeim hann mjög girnilegur til hvíldar, því að þar var þurr, bjartur og hlýr bústaður fyrir hretviðrum haustsins. Hugðu nú margir gott til þessa staðar fyrir sjálfa sig og seppa sína.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

Næsta dag var svo hafinn krossmessuflutningur úr tjöldum og grjóthreysum upp í hellinn. Bjuggu menn um sig eftir föngum og gjörðust glaðir mjög; var svo etið og drukkið af kappi miklu, sungin kvæði og sögur sagðar og hlegið dátt, svo að hellirinn glumdi við. Loks voru þó lesnar bænir og lagst til hvíldar. Hvíldi nú grafarkyrrð og helgur friður yfir hellisbúum hálfrar eyktar stund. Allt í einu tóku hundarnir að urra og gelta, og í sama vetfangi var kallað:
„Rífið hann Jón upp; hann er að hengjast. Heyrði þið ekki korrið í honum? Og nú er það komið ofan á hann Brand og hann Gvend og ætlar þá alveg að drepa.“
„Komið með kerti fljótt og kveikið ljós.“

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Nú kom öll hundaþvagan þjótandi og skrækjandi upp í fangið á hellisbúum, og skriðu hundarnir titrandi upp fyrir húsbændur sína og þorðu sig ekki þaðan að hreyfa. Kertið fannst ekki í fátinu og myrkrinu, en úti var aftakaveður af landsuðri með úrfelli, en inni voru reimleikar þeir, sem sóttu að andfærum manna og dýra, og mátti því segja, að menn væru þarna milli steins og sleggju, því að hvorugur kosturinn var góður, að flýja út í veðrið eða reyna að haldast við í hellinum, þar til dagur ljómaði á lofti. Loks urðu hellisbúar ásáttir um að hreyfa sig ekki, en hafa við bænir og sálmasöng, það er eftir var nætur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Var nú allt með kyrrum kjörum, á meðan allir voru vakandi, og hellirinn bergmálaði af bænahaldi og sálmasöng. En er lifa myndi þriðjungur nætur, gerðust sumir af hellisbúum svefnhöfgir mjög og hugðu á hvíld um stund; áttu þeir, er vöktu, að vera trúir í hinu andlega starfi og vera til taks, ef friður yrði rofinn eða korr heyrðist í hálsum hinna sofandi manna. En ekki var mönnum þessum fyrr siginn blundur á brá en sömu ósköpin byrjuðu aftur, hundarnir vitlausir með ýlfri og emji, en mennirnir með kyrkingshljóði og korri miklu þar til félagar þeirra voru búnir að fá þá til fullrar meðvitundar. En nú gekk vindur til vesturs og veðrið batnaði, og skammt var til morguns, fóru því mennirnir allir hið bráðasta út úr hellinum og kvöddu hinn ógestrisna hellisráðanda með ófögrum kveðjum.
Liðu svo full 50 ár, að enginn maður varð til þess að leita skjóls í helli þessum, en árið 1862 leigði presturinn að Stað í Grindavík bændum í Hafnahreppi nokkuð af rekalandi prestssetursins. Bóndinn í Kalmannstjörn leigði svonefndar Krossvíkur sem eru stuttan spöl fyrir austan Valahnjúkinn og nálægt landamerkjum Staðar og Kalmannstjarnar. Valahnjúkurinn fylgir Kalmannstjörn.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Veturinn 1865 rak stórt, ferkantað tré á Krossvíkum. Sendi bóndinn vinnumenn sína og sjómenn marga til þess að koma trénu undan sjó og undir sögun, því að hann ætlaði að láta saga tréð þar suður frá. Lá svo tréð allt vorið og sumarið fram yfir höfuðdag á sögunarpallinum, en seint í september voru tveir vinnumenn, Þorleifur og Eyjólfur, sendir suður eftir að saga tréð. Voru þeir útbúnir með nesti og nýja skó, sængurföt og fleira. Loks var tjaldið og tjaldsúlurnar tekið niður af háalofti.
„Hvað eigum við að gera við þetta?“ spurði Leifi gamli.
„Auðvitað liggið þið ekki undir beru lofti,“ var honum svarað.

Reykjanes

Brim við Reykjanes.

„Það ætla eg ekki heldur að gera,“ segir Leifi. „Eg ætla að lofa Valahnjúkshellinum að hýsa okkur“. Þá var Leifi minntur á ósköpin, sem á gengu, þegar Reykjanesstrandið var, en Leifi svaraði með því einu, að lygaþvættingur, heimska og hjátrú vitlausra manna hefði engin áhrif á sig.
Og svo lögðu þeir Þorleifur og Eyjólfur af stað með hund og hest og tjaldlausir. Eyjólfur var með afbrigðum blótsamur, og mátti segja, að hann tæki ærið oft upp í sig.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Næsta morgun um fótaferðartíma er Eyfi kominn á Blágrána gamla að sækja tjaldið. Nú átti auðvitað að spyrja Eyfa spjörunum úr; en það hafðist ekkert annað upp úr honum en hinar óttalegustu formælingar og helv… hann Kolur, og þóttust sumir hafa heyrt tóninn frá Eyfa suður um allt tún, er hann lagði af stað með tjaldið. En víst er, að Þorleifur þjappaði að Eyjólfi með að láta aldrei uppi við neinn, hvernig þeim reiddi af þessa einu nótt í Valahnjúkshellinum og aldrei hafðist neitt frekara upp úr þeim félögum um dvöl þeirra í hellinum.
Sjá meira um strandið við Valahnúkamöl HÉR.

Heimild:
-Rauðskinna I 161.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Hunangshella
Þegar gengið er eftir gömlu götunni, alfaraveginum sunnan Ósabotna til Hafna, er slétt jökulsorfin grágrýtishella á hægri hönd, nú orðin nokkuð gróin. Á hellunni, sem nefnd er Hunangshella, er varða.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Gamla gatan er vörðuð, en vörðurnar eru nú flestar fallnar. Á Hunangshellu, segir sagan, var finngálkn unnið fyrrum.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annarra þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki.

Hunangshella

Hunangshella.

Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella sem fyrr segir.

-Jón Árnason I 611

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Básendar

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.

Stafnes

Við Stafnes – steinbrú.

“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.

Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.

Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.

-Öldin okkar 1799.

Básendar

Básendar – gamli bærinn í sjó fram.

Kirkjuvogur

Haldið var að Stekkjarkoti í Njarðvíkum.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Stekkjarkot var byggt 1855. Jón og Rósa bjuggu þar í u.þ.b. hálfa öld. Eignuðst þau þrjár dætur. Kotið var tómthús og grasbýli og dæmigert fyrir slík býli á 19. öld, en jafnframt var róið til fiskjar eins og títt var um útvegsbændur við ströndina. Síðast var búið í kotinu til 1924, en þá fór það í eyði. Jón var frá Vatnsleysuströnd, en er hann hugðist kvænast Rósu var hann gerður arflaus eftir föður sinn. Hann valdi ástina. Mikil umferð ferðamanna var um Stekkjarkot, en þar stöldruðu þeir við áður en þeir héldu yfir Fitjarnar, sandleirurnar, sem áður gátu verið mikill farartálmi á leiðinni um Njarðvíkur. Brunnur er norðan við túngarðinn í Stekkjarkoti og gömul tóft suðaustan við það. Kotið var endurbyggt fyrir nokkrum árum og er nú safn.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Fitjakot var norðvestar, en það fór í eyði vegna ágangs ferðamanna, en hestar þeirra hreinlega átu upp túnin og þar með fólkið út á gaddinn.

Á vefsíðu Reykjanesbæjar segir um Stekkjarkot: „Hvernig skyldu menn hafa búið hér áður fyrr, fyrir daga bárujárnshúsa og áður en íslenska steinsteypuöldin gekk yfir.

Stekkjarkot er endurgerð á hefðbundinni þurrabúð eins og þær voru kallaðar og voru algengiar hér í eina tíð.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Þeir sem bjuggu í þurrabúð máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot – útihús.

Á Safnavef Reykjanesbæjar segir: „Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992.
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.

Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi.“

Þá var haldið í Hafnir, Kirkjuvog og Kotvog.
Hafnir sunnan Ósabotna, var mikill útgerðarstaður hér áður fyrr. Kirkjan í Höfnum, Kirkjuvogskirkja, var byggð 1861. Það var Vilhjálmur Kr. Hákonarson, sem lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Sagt er að hún hafi kostað 300 kýrverð. Hún er timburkirkja og var upphaflega bikuð að utan með hvítum gluggum. Handan við kirkjuna hefur verið grafinn upp skáli, sem talinn er geta hafa verið frá landnámstíð.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Löngu síðar var hún svo múrhúðuð að utan og ljósmáluð. Á árunum 1970-72 var kirkjan endurreist frá grunni og færð til upprunalegs horfs undir umsjón þjóðminjasafns Við Reykjanesveginn í Höfnum er akkeri mikið landmeginn vegarins við björgunarstöðina. Akkerið er af skipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í Ósabotna 1870.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði og á vindfána kirkjuturnsins. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur á Stað í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Kotvogur

Kotvogur.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón.

Kotvogur

Kotvogur.

Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið , uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins.

Hafnir

Sandgræðslugirðing ofan Hafna.

Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu
Gríðarlega stórt tréskip, hlaðið timbri, á land nálægt þar sem heitir Hvalsnes á milli Þórshafnar (verslunarhöfn á 19. öld) og Hestakletts nokkru norðan Ósa og gegnt þorpinu. Skipið, sem hét Jamestown og var frá Maine í Bandaríkjunum, rak að landi mannlaust og var auðséð að það hafði verið lengi á reki. Þetta gerðist að morgni hvítasunnudags þann 26. júní 1881. Skipið, sem var þrímastrað og þriggja þilfara, var sagt tröllaukið að stærð.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við fyrrum Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni.

Heimildir m.a.:
-leo.is
-https://visitreykjanesbaer.is/upplifun/stekkjarkot/
-https://sofn.reykjanesbaer.is/byggdasafn/vidburdir/Stekkjarkot-2

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Vörðuhólmi

Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnesinga og eigenda Kirkjuvogs.

„Frá Hæstarétti í gær.

Vísir

Vísir 1925.

Þar var sótt og varið málið: „Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina“.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð „hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð“, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri „Gömlu þúfu“ á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól“ í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma“, þaðan sunnanundir „Selskeri“ og „Hestakletti“ og þaðan á sjó út.“

Hestaskjól

Hestaskjól (Hestaklettur).

Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Beinhóll

Beinhóll – LM-merking.

Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í „Beinhól“, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.“

Beinhóll

Beinhóll – merki.

Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.

Ósar

Ósar – herforingjaráðskort 1903.

— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.“

Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.

Vörðuhólmi

Vörðuhólmi – LM-merki.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnesleið

Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.

Hvalsnesgata

Hvalsnesvegur.

Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.

Hvalsnesleið

Gengið um Hvalsnesleið.

Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata – vörðukort.