Stærsti jarðskjálfti á sögulegum tíma á Íslandi er gjarnan talinn vera skjálftinn á Suðurlandi 14. ágúst 1784. Stærð hans hefur verið metin 7,1. Þessi stærð er að sjálfsögðu ekki fengin með mælingum enda komu skjálftamælar ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld síðar. Stærðin er fengin með því að bera áhrif skjálftans saman við áhrif annarra skjálfta á sama svæði sem mælingar eru til á. Það er einkum jarðskjálftinn á Rangárvöllum árið 1912 sem hefur verið notaður í þessum tilgangi. Hann mældist 7 stig að stærð og áhrifasvæði hans var nokkru minna en skjálftans 1784. Ætla má að byggingar hafi verið sambærilegar á Suðurlandi í báðum skjálftunum.
Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.
Skjálftinn 1784 átti upptök í Holtum. Þar varð tjónið mest og í nágrenni Eystra-Gíslholtsvatns má finna sprungur sem telja má að hafi orðið til í upptökum skjálftans. Finna má vísbendingar um þetta upptakamisgengi til norðurs og teygir það sig í átt til Skálholts. Þar varð einmitt tilfinnanlegt tjón í skjálftanum. Varð það mönnum tilefni til vangnavelta um að flytja biskupsstólinn og Skálholtsskóla til Reykjavíkur.
Stærstu skjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, fyrrnefndur skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.
Jarðskjálftar á Reykjanesskaga
Jarðskálftabelti landsins.
Í kjölfar atburða á Reykjanesskaga hefur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, tekið saman yfirlit yfir jarðskjálftavirkni á svæðinu og byggir þar á nýlegri grein Sveinbjörns Björnssonar o.fl. höfunda.
Að sögn Páls byggja gögn fyrir árið 1900 á samantekt Þorvaldar Thoroddsen, meðan skýrsla Kjartans Ottóssonar er helsta heimildin fyrir tímabilið 1900-1930 og skýrslur Eysteins Tryggvasonar fyrir áratugina 1930-1960. „Frá 1960 er stuðst við lista frá International Seismological Centre, Veðurstofu Íslands og Sveinbirni Björnssyni o.fl. Eftir að mælitæki koma til sögunnar eru skjálftar á listanum einungis tilgreindir ef stærðin er 5 eða meira, eða ef þeir ollu tjóni, tengdust sprunguhreyfingum eða breytingum á hveravirkni.“
Sögulegt yfirlit
Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.
1151: „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.
1211: „Eldur kom upp úr sjó fyrir utan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hina nýju, en hinar horfnar er alla æfi höfðu staðið. Þá varð landskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu og létu margir menn líf sitt. … og féllu ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða.“
1240: „Landskjálftar miklir fyrir sunnan land. Sól rauð. Eldur fyrir Reykjanesi.“ Þetta er talið vera síðasta eldgosið í hviðu slíkra atburða á Reykjanesskaga. Hviðan er talin hafa byrjað stuttu eftir 870 AD og voru flest gosin hraungos (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson, 2013).
1724: Jarðskjálfti í ágústmánuði. Hrapaði bærinn í Herdísarvík og maður fórst við sölvatekju undir Krýsuvíkurbjargi.
1754: Jarðskjálfti í Krýsuvík, og kom þar upp hver, 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.
1785-1886: Jarðskjálftar fundust mörgum sinnum í Reykjavík og nágrenni, en ekki er getið um tjón. Sterkustu skjálftarnir voru 1868.
1879: „Allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar, harðastir voru þeir í nánd við Krýsuvík, sterk baðstofa á Vigdísarvöllum féll og í Nýjabæ við Krýsuvík flýði fólk úr húsum. Um sama leyti hófst eldgos á mararbotni fyrir utan Reykjanes nærri Geirfuglaskeri.“
Nýleg jarðskálftahrina á Reykjanesskaga.
1887: Jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanes og fundust margir kippir um Suðvesturland. Valahnúkur, sem Reykjanesviti stóð á, klofnaði og féllu úr honum stykki. Leirhverinn Gunna nærri Reykjanesvita breyttist töluvert.
1889: Sterkur jarðskjálfti olli minni háttar tjóni í Reykjavík og nærliggjandi byggðum. Nokkur hús hrundu á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.
1899: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanes og varð tjón á vitanum. Við Gunnuhver opnaðist sprunga og breytingar urðu á hvernum.
1900-1910: Vægir skjálftar fundust oft við Reykjanesvita á þessum árum. Umtalsvert tjón varð í janúar 1905 á Litla Nýjabæ, Vigdísarvöllum og Ísólfsskála.
1919: Reykjanesviti skemmdist í jarðskjálfta sem fannst víða á Reykjanesskaga. Nýr hver myndaðist á Reykjanesi.
1920: Skjálfti varð 14. maí sem líklega átti upptök í Krýsuvík, fannst í Reykjavík. Mældist 5,2 að stærð.
1924: Sterkur jarðskjálfti varð 4. september í Krýsuvík, fannst víða. Nýr hver, Austurengjahver, myndaðist, sprungur opnuðust og grjót hrundi úr fjöllum. Stærðin mældist 5,1.
1924: Í desember varð áköf hrina á Reykjanesi sem olli minni háttar tjóni á vitanum. Stærsti skjálftinn metinn 4,7 stig.
1925-1928: Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi. Vitinn skemmdist 25. október 1926. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.
1929: Hinn 23. júlí varð stærsti skjálfti sem vitað er að hafi orðið á Reykjanesskaga. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi. Stærðin var 6, 3 og skjálftinn fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.
Vegsummerki eftir jarðskálfta.
1933: Skjálfti sem varð 10. júní fannst víða á Suðvesturlandi. Upptökin voru líklega suður af Keili og vestan Núpshlíðarháls. Rétt við Vigdísarvelli hrundi og mikið rót varð á yfirborði jarðar, sprungur og viðsnúnir steinar. Mælingar erlendis gáfu stærð skjálftans tæplega 6 stig.
1935: Skjálfti 9. október átti upptök á Hellisheiði. Minni háttar tjón varð, en grjót hrundi úr fjöllum og vörður á Hellisheiði féllu á nokkru svæði. Mælingar gefa stærð um 6 stig.
1952: Skjálfti að stærð 5,2 átti upptök nærri Kleifarvatni. Hann fannst víða en olli engu tjóni.
Ummerki jarðskálfta.
1955: Skjálfti ad stærð 5,5, sem varð 1. apríl, átti upptök austarlega á Hellisheiði. Hann fannst víða en olli litlu tjóni.
1967: Kröftug skjálftahrina átti upptök á Reykjanesi 28.-30. september. Miklar breytingar urðu á jarðhitasvæðinu þar og sprungur mynduðust. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,9 en alls urðu 14 skjálftar af stærðinni 4,0 og stærri. Skjálftarnir fundust víða en tjón var óverulegt.
1968: Jarðskjálfti af stærðinni 6,0 varð 5. desember og átti hann upptök í Brennisteinsfjöllum, líklega á Hvalhnúksmisgenginu, líkt og skjálftinn 1929. Brotlausn hans sýnir að hann varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu. Skjálftinn fannst víða og olli minniháttar tjóni í Reykjavík.
Afleiðingar jarðskálfta innanhúss.
1973: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskaga 15.-17. september. Fimm skjálftar voru stærri en 4, þar af þrír stærri en 5, sá stærsti 5,6. Virknin byrjaði í Móhálsadal, austan Djúpavatns og færðist síðan til vesturs, allt vestur að Eldvörpum. Stærsti skjálftinn varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu.
1974: Jarðskjálftahrina varð 8. desember skammt undan ströndinni á Reykjanesi. Fjórir kippir voru á stærðarbilinu 4,0-4,5.
2000: Jarðskjálftinn 17. júní á Suðurlandi hleypti af stað röð skjálfta á flekaskilunum sem liggja um Reykjanesskagann, allt vestur að Núpshlíðarhálsi. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti (5,9) átti upptök undir Kleifarvatni. Vatnsborð Kleifarvatns féll um 4 metra á næstu vikum. Þá voru FERLIRsfélagar á göngu í Sveifluhálsi, en sakaði ekki.
Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.
2003: Jarðskjálfti að stærð 5,0 varð 23. ágúst og átti upptök nálægt Krýsuvík. Honum fylgdu margir smærri eftirskjálftar sem röðuðu sér á N-S línu.
2013: Skjálfti að stærð 5,2 með upptök skammt austan Reykjaness varð 13. október. Ekkert tjón varð en sprungur sem hreyfðust á svæði austan jarðhitasvæðisins gáfu til kynna færslur á vensluðum sniðgengjum með stefnur í norður og aust-norð-austur.
Sjá meira um jarðskjálfta á Íslandi fyrrum.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0skj%C3%A1lftar_%C3%A1_%C3%8Dslandi
-Eysteinn Tryggvason, 1978a. Jarðskjálftar á Íslandi 1930 – 1939. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-21, 92 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1978b. Jarðskjálftar á Íslandi 1940 – 1949. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-22, 51 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1979. Earthquakes in Iceland 1950 – 1959. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-79-06, 90 pp.
-International Seismological Centre, 2014.
-Kjartan Ottósson, 1980. Jarðskjálftar á Íslandi 1900 – 1929. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-80-05, 84 pp .
-Sveinbjörn Björnsson, Páll Einarsson, Helga Tulinius, Ásta Rut Hjartardóttir, 2018. Seismicity of the Reykjanes Peninsula 1971-1976. J. Volcanol. Geothermal Res., https://doi.org/10.1016/j.jvolgeores.2018.04.026.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1899. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 197 bls.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1905. Landskjálftar á Íslandi, II. Jarðskjálftar við Faxaflóa. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn. bls. 201-269.-
Þorvaldur Thoroddsen,1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane, Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Köbenhavn 1925, 18+458 p.
-https://jardvis.hi.is/sogulegt_yfirlit_um_jardskjalftavirkni_reykjanesskaga
Yfirlit yfir styrk jarðskjálfta á Íslandi aftur til 1734.