Tag Archive for: Reykjanesskagi

Hernám

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson skrifaði um „Erlend nöfn á Innnesjum – Arfur seinni heimsstyrjaldar í örnefnum á höfuðborgarsvæðinu“.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

„Þegar breski herinn hertók Ísland 10. maí 1940 var íslenskt þjóðfélag bændasamfélag upp á gamla vísu. Borgaraleg menning VesturEvrópu hafði að vísu skotið nokkrum rótum í íslensku samfélagi en var mest áberandi í Seltjarnarneshreppi hinum forna og hinum gamla Álftaneshreppi, einkum í Reykjavík og Hafnarfirði og örfáum þéttbýlissvæðum í öðrum landshlutum eins og á Ísafirði, Akureyri, Stykkishólmi og Seyðisfirði.
Hér verður rætt um ýmis ensk heiti sem breski og bandaríski herinn skráði á kort og notaði í skjölum í síðari heimsstyrjöld á svokölluðu Stór-Reykjavíkursvæði sem áður fyrr var nefnt Innnes. Álftanes, Seltjarnarnes og Kjalarnes voru oft nefnd einu nafni Innnes til aðgreiningar frá Suðurnesjum. Stundum voru öll nesin við innanverðan Faxaflóa nefnd Innnes, að Akranesi meðtöldu.

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Umfjöllunin í greininni er að mestu takmörkuð við land Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Seltjarnarness og þau nöfn sem oft koma fyrir á kortum og í skjölum. Ensku nöfnin voru gefin án nokkurrar málstýringar af hálfu Íslendinga (sbr. Ara Pál Kristinsson 2010:1–2) og hafa sérstöðu innan örnefnaforðans á Íslandi. Í greininni ræði ég hluta ensku örnefnanna og skýri tilurð þeirra.
Fyrirmyndir fyrstu nafnanna, sem Bretarnir gáfu, má oft rekja til örnefna í Englandi og Skotlandi. Bandarísku hermennirnir notuðu einnig bresku nöfnin en bættu við nafngiftum sem gjarna vísuðu til ákveðinna þekktra einstaklinga. Um mörg nafnanna hefur áður verið fjallað, ekki síst kampanöfnin, m.a. hjá Sævari Þ. Jóhannessyni.

Sævar G. Jóhannesson

Sævar G. Jóhannesson – (1938-2024).

Örnefnafræði er margslungin fræðigrein sem styðst við málfræði, orðsifjafræði, landafræði og sögu svo að eitthvað sé nefnt. Greinin er hugsuð sem sögulegt og landfræðilegt framlag til örnefnafræðinnar hvað varðar Innnesjasvæðið við Faxaflóa. Á íslensku er þessi þáttur örnefnafræði nefndur staðfræði eða svæðislýsing.

Hernám á Innnesjum – Seltjarnarneshreppur og Álftaneshreppur
Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir nesið á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Sjálft Seltjarnarnesið, sem hreppurinn er kenndur við, er nesið á milli Fossvogs og Grafarvogs og því umtalsvert stærra en sveitarfélagið sem enn er kennt við það og er yst á nesinu. Reykjavík í hinum forna Seltjarnarneshreppi fékk kaupstaðarréttindi 18. ágúst 1786. Tuttugu og fimm lögbýli innan hins forna hrepps tilheyra nú Reykjavík en þau lögbýli í honum, sem eru innan Kópavogsbæjar, mynduðu fyrst sjálfstætt sveitarfélag, Kópavogshrepp, árið 1948. Þá varð einnig til Seltjarnarneshreppur hinn nýi.
Kópavogshreppur fékk kaupstaðarréttindi 11. maí 1955. Garðahreppur varð til er Álftaneshreppi hinum forna var skipt 1878 í Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Frá og með 1. janúar 1976 hét Garðahreppur Garðabær. Samþykkt var í atkvæðagreiðslu 20. október 2012 að sameina Garðabæ og Álftanes (gamla Bessastaðahrepp).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður tilheyrði Garðahreppi þar til hann varð sérstakt lögsagnarumdæmi með kaupstaðarréttindum 1. júní 1908.

Þegar breski herinn kom í maímánuði 1940 voru jarðirnar Kópavogur, Digranes, Fífuhvammur, Vatnsendi, Gunnarshólmi, Geirland og Lækjarbotnar innan hreppamarka Seltjarnarneshrepps hins forna.

Hernaðarþýðing Innnesja
Reykjavík og nágrenni hafði mikla hernaðarþýðingu í styrjöldinni og Innnes því í brennipunkti hjá hernum. Hæðirnar í nágrenni Reykjavíkur og leiðirnar úr höfuðborginni voru mikilvægar. Herstöðvarnar í Seltjarnarneshreppi hinum forna teygðu anga sína allt að rótum Vífilsfells.

Sandskeiði

Amerískir dátar á Sandskeiði.

Sandskeiðið, sem hugsanlegur lendingarstaður þýskra flugvéla, hlaut strax mikla athygli breska flughersins.
Sandskeiðið er á afrétti Lækjarbotnajarðar. Bretar reistu loftvarnarbyssuvígi á Kópavogshálsi haustið 1940 og höfðu einnig smærri loftvarnarbyssur á Kársnesi. Vígin voru hluti af varnarkerfi flugvallarins í Reykjavík.

Breska hernámið

Reykjavík

Hermaður á verði í Aðalstræti skömmu eftir hernámið.

Áætlun Breta um hernám Íslands var nefnd „Operation Fork“. Samkvæmt áætluninni voru hafnarsvæðin í Reykjavík og Hvalfirði tekin fyrsta daginn og tveir hugsanlegir lendingarstaðir óvinaflugvéla, Sandskeið og Kaldaðarnes. Fyrstu aðalstöðvar hersins voru í Menntaskólanum í Reykjavík en voru síðar fluttar inn að Elliðaám í Camp Alabaster en breska herliðið gekk í fyrstu undir heitinu „Alabaster Force“.
Fjölmargir bresku hermannanna komu frá Norður-Englandi og því var þeim nærtækt að nefna íslensk kennimerki eftir bæjarnöfnum og öðrum heitum í heimahéruðunum. Ensku heitin þurftu að vera kunnugleg og auðveld í framburði svo að ekki gætti neins vafa.

Reykjanesskagi - hernám

AMS-kort af Reykjanesskaga með enskum nöfnum.

Breska herstjórnin í Reykjavík gaf út gróft kort í júlí 1940 með helstu kennimerkjum á höfuðborgarsvæðinu þar sem nokkur báru ensk nöfn. Kortadeild breska hersins nýtti sér kort dönsku landmælinganna sem til voru í landinu (Landmælingadeild herforingjaráðsins 1903 og 1910).

Bandaríkjamenn taka við vörnum
Með herverndarsamningnum við Bandaríkin, sem undirritaður var sumarið 1941, var breski landherinn leystur af hólmi. Þá lauk formlegu hernámi Breta. Liðssveitir breska flughersins og flotans voru þó áfram í landinu, aðallega við varnir skipalesta á siglingaleiðum yfir Norður-Atlantshafið.

Hernámsárin

AMS-kort ad Reykjavík.

Fyrstu Bandaríkjamennirnir stigu á land á Íslandi 7. júlí 1941. Þeir voru úr landgönguliði flotans („United States Marines“). Á eftir landgönguliðunum kom landherinn („US Army“). Í lok desember 1942 voru um 38.000 bandarískir hermenn á Íslandi í 300 kömpum víðs vegar um landið. Bandaríkjamenn notuðu bresku heitin en voru duglegir við að gefa nýjum kömpum bandarísk nöfn.

Breytingar á samskiptaháttum
Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervörnum voru aðalstöðvar hersins fluttar í Camp Tadcaster.

Hernámsárin

Camp Persing 1942.

Eins og gildir um mörg heiti Bretanna, sem komu frá norðurhluta Englands, var Tadcaster-nafnið fengið úr heimabyggð þeirra, litlum markaðsbæ í Selby-héraði um 16 km suðvestan við Jórvík (York). Camp Tadcaster var rétt sunnan við Miklubraut þar sem nú er Borgargerði og Rauðagerði, skammt norðan við Charing Cross þar sem Bústaðavegur og Sogavegur mætast. Charing Cross var eitt af mörgum Lundúnaheitum Bretanna. Bandaríkjamenn breyttu Tadcaster-nafninu í Camp Pershing. Síðar var nafninu breytt í Camp Curtis til heiðurs breska yfirhershöfðingjanum Harry O. Curtis þegar hann var að fara af landi brott.

Hernám

George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Öryggisþjónusta breska hersins („Field Security Service“), sem bar ábyrgð á því að hindra að óvinum bærist njósn af viðbúnaði og umsvifum hersins, átti í erfiðleikum í samskiptunum við Íslendinga enda enskukunnátta ekki almenn meðal Íslendinga á þessum tíma. Foringjar Bretanna leituðu oft til miður vandaðra Íslendinga sem gáfu þeim uppdiktaðar upplýsingar gegn greiðslu í pundum. Síðan gengu þessir Íslendingar um og skopuðust að einfeldni bresku foringjanna (Þór Whitehead 1999:245). Viðhorf yfirmanna öryggisþjónustunnar voru Íslendingum illskiljanleg sem og samskiptahættir þeir sem tíðkuðust í formfastri stéttaskiptingu Breta.
Miklar breytingar urðu á samskiptaháttum setuliðsins og Íslendinga þegar bandaríski herinn kom til Íslands. Þessi breyttu viðhorf tengjast meðal annars tungunum ensku og íslensku. Með bandaríska hernum komu Vestur-Íslendingar og margir þeirra voru vel talandi á íslensku.

Hernám

Hernám – Nissanbraggi í Mosfellssveit.

Þekktastur þeirra er Ragnar Stefánsson (1909–1988), síðar ofursti, sem var foringi í bandaríska gagnnjósnaliðinu („Counter Intelligence Center Analysis Group“) á Íslandi á stríðsárunum. Ragnar Sefánsson stjórnaði starfseminni á Norður- og Austurlandi og hafði bækistöð á Akureyri. Að stríðinu loknu var hann ráðgjafi bandaríska hersins í samskiptum við Íslendinga með stuttum hléum til ársins 1958 (Þór Whitehead 1999:244–245).

Hertækni Bandaríkjamanna og kortagerð
Nýjasta hernaðartækni fylgdi Bandaríkjamönnum. Má þar nefna ratsjárstöðvarnar og aðrar fjarskiptastöðvar sem settar voru í nágrenni við Reykjavíkurflugvöll. Ellefu ratsjárstöðvar mynduðu ratsjárkerfi bandamanna á Íslandi.

Hernám

Camp Tinker – loftmynd 1954.

Aðalstöðin var í Camp Tinker í Almannadal austan Rauðavatns (Þór Whitehead 2002:184). Búðirnar hétu eftir Clarence L. Tinker, hershöfðingja í bandaríska flughernum. Tinker fórst í árásarleiðangri á bækistöð Japana á Wake-eyju á Kyrrahafi árið 1942 (Friðþór Eydal 2013:33).
Kortadeild breska hersins dró upp frumdrætti leiðakerfis hersins umhverfis höfuðborgina á árunum 1940–1941 og fyrstu ensku heitin bera því breskt svipmót.
Kortadeild bandaríska hersins teiknaði nákvæm kort á árunum 1941–1943 og eru þau besta heimildin um skipulag svæðisins í nágrenni Reykjavíkur og þau ensku heiti sem notuð voru á styrjaldarárunum. Eitt besta kortið með örnefnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu er frá 1943 í mælikvarðanum 1:25.000. Yfirmaður verkfræðideildar bandaríska landhersins sá um gerð kortsins með aðstoð kortaþjónustu landhersins í Washington (frumkort GSGS 4186, 1941, endurskoðað 1943: A.M.S. C861).

Örnefni á hernaðarlega mikilvægum svæðum – Strandsvæðið

Hernám

Strandsvæðið frá Viðeyjarsundi, Gufunes Bay, að Gróttutanga, Grotta Point, og Seltjörn, Grotta Bay, er nákvæmlega teiknað á kortum hersins. Leiðin frá höfninni í Reykjavík að Gróttuvita er nefnd Grotta Road og Eiðsvík Selsker Bay. Herfræðilega var ströndin mikilvæg, allt frá Vatnagörðum, Balbos Beach, Laugarnesi, Laugarnes Point, að Höfða við Rauðarárvík, Consul Point.
Hið sama má segja um suðurströnd Seltjarnarness að Nauthólsvík, South Beach. Viðey, Vidhey, Engey, Akurey og Selsker eru nákvæmlega teiknuð á kortunum sem og Gufuneshöfði, Trigger Point, og Grafarvogur. Um Grafarvog lá leiðin að árkjöftum Elliðaárvogs, Salmon Inlet, og að Ósmel Grafarvogs, Grafar Inlet. Á Gelgjutanga við Grafarvog var braggabyggð og skipalægi.

Hæðir á Seltjarnarnesi

Hernám

AMS-kort.

Á hæðunum umhverfis Reykjavíkurhöfn og flugvöllinn var varnarvirkjum komið fyrir og voru mörg hver niðurgrafin. Einn fyrsti breski kampurinn var reistur á Skólavörðuholti. Orðið lá ekki vel fyrir Bretanum í framburði og kölluðu þeir holtið Skipton Hill og braggahverfið Camp Skipton. Kampurinn var nefndur eftir heimabæ hersveitarinnar „The Duke of Wellington’s Regiment“ í Norður-Yorkshire. Eitt herfylki hennar hafði aðalstöðvar á Skólavörðuholti.

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Valhúsahæðina kölluðu Bretar Keighley Hill og kampinn Camp Keighley. Keighley er bær í Vestur-Yorkshire á Englandi þangað sem hersveitin „The West Yorkshire Regiment“ átti rætur að rekja. Liðsmenn hennar tóku sér stöðu á Seltjarnarnesi.
Laugarásinn, Pimple Hill, Grensásinn, Casement Hill, og Rauðarárholt, Tower Hill, mynduðu eins konar varnarbyrgjamúr fyrir austurhluta hafnarsvæðisins og flugvöllinn.
Pimple Hill er hæð í enska héraðinu West Midlands, skammt frá Birmingham. Casement Hill hefur svipaða merkingu og íslenska örnefnið Skyggnir. Tower Hill er þekktur staður skammt fyrir utan London.

Hernám

Skotbyrgi á Howitzer Hill.

Gamla leiðin úr Reykjavík yfir Skólavörðuholt lá að Háaleiti sem var smáhæð í skarðinu milli Öskjuhlíðar, Howitzer Hill, og Minni-Öskjuhlíðar, Red House Hill. Howitzer var varnarbyssa (samkvæmt enskum orðsifjabókum á enska orðið howitzer rætur í tékkneska orðinu houfnice sem merkir ‘að slöngva’). Rauða golfskálabyggingin, sem Golfklúbbur Íslands reisti 1937, rétt norðvestan við hús Veðurstofunnar, skýrir nafnið Red House Hill.

Að Elliðaám
Austan við Háaleiti í skarðinu milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar skiptust leiðir. Önnur lá um Bústaðaholt, Handley Ridge, að Elliðaánum, Salmon River.
HernámHandley er smábær í Great Boughton-héraði í Cheshire á Englandi og þar er einnig örnefnið Handley Ridge. Gamli Bústaðavegur er nefndur á kortum hersins Edward Road.
Vegurinn lá að gatnamótum sem Bretarnir nefndu Piccadilly Circus. Þar mætir Bústaðavegur nú Grensásvegi sem Bretar nefndu Harley Street. Bústaðavegur lá ofan við Bústaðabæinn að hinum hernaðarlega mikilvægu vegamótum vestan Elliðaárkvíslanna, Charing Cross, þar sem Bústaðavegur og Sogavegur, Tower Hill Road, mættust. Nöfnin eru tengd Lundúnum.
Austan vegamótanna var hið gamla Álftnesingavað á Vesturkvíslinni, West Fork, og Ártúnsvað á Austurkvíslinni, East Fork. Um þessi vöð lá aðalleiðin frá Seltjarnarneshreppi hinum forna, allt þar til Elliðaárnar voru brúaðar.

Um Kópavog og Álftanes
HernámFrá gatnamótunum austan við Minni-Öskjuhlíð lá Hafnarfjarðarvegur, Hafnarfjordur Road, í suður yfir Leynimýri og síðan austan við Fossvog, Fossvogur Bay. Þá erum við komin að norðurmörkum Kópavogsjarðar. Leiðin lá að krossgötum Nýbýlavegar, Skeleton Hill Road, og Kársnesbrautar, Korsnes Road. Vestasti hluti Kársness, Kársnestá, ber heitið Whale Point á herkortunum.
Leiðin frá Fossvogsbotni lá í suður milli Kópavogsháls, Mossley Knoll, og Digranesháls, Whale Hill, og að gatnamótum ofan við Kópavogslæk. Knoll í Mossley er í norðvesturhluta Englands. Knoll er notað í ensku yfir ávalar smáhæðir eða hálsa. Hinn ávali Digranesháls minnir á lögun hvalbaks.
Í austur lá Hilton Road yfir brú yfir Kópavogslæk við gamla Danskavað. Nú heitir vestasti hluti Hilton Road Fífuhvammur.
HernámMýrarsvæðið, aðallega Fífumýri og Kringlumýri sunnan við veginn sem nú er nefndur Fífuhvammur, er kallað á herkortunum Hilton Flats. Þekktasta Hilton Flatsnefnið í Bretlandi er í Tenby í Suður-Wales.
Af Arnarnesi, Puffin Point, blasir við Arnarnesvogur, Puffin Bay, og Eskines, Arnar Point, nyrsti hluti Gálgahrauns. Á Álftanesi, Gardar Peninsula, við Skerjafjörð, Ford Fjord, er Bessastaðatjörn, Bless Bay, Seilan, Point Eyri, Rani, Rani Point, Lambhúsatjörn, Lamb Bay og Skógtjörn, Bottle Neck Bay Örnefni á ýmsum leiðum og herskálahverfum – Herskálahverfi í landi gömlu Kópavogsjarðar Camp Fossvogur var norðan við Miðbjarg (Votaberg), rétt austan við Hanganda og norðan við Tjaldhól við Fossvogsbotn. Breski flugherinn hafði þar síðast aðstöðu og nefndi Camp Cook South en Camp Cook stóð nokkru norðar við Hafnarfjarðarveginn. Ætla mætti að heitið væri tengt breska landkönnuðinum James Cook (1728–1799) sem var kapteinn í Hinum konunglega breska flota.
HernámFlugbátalægi hersins var á innanverðum Skerjafirði. Á norðanverðu Kársnesi var viðhaldsstöð fyrir þjónustubáta og hraðbáta flughafnarinnar („RAF Marine Craft Section“) og var herstöðin með sjö bröggum nefnd Marine Slipway með vísan til dráttarbrautar sem þar var. Á íslenskum kortum frá árunum eftir stríð er Flughöfn merkt á svæðinu þar sem Marine Slipway var (Ágúst Böðvarsson 1947).
Á vestanverðu Kársnesi var lítið herskálasvæði sem nefnt var Camp Korsnes. Það var yst á Kársnesi ofan við Kársnesbraut (þar sem Kársneskjör reis síðar). Í Sæbólslandi við Fossvogsbotninn reis herskálahverfi, Camp Bournemouth, við suðurleiðina úr Reykjavík. Borgin Bournemouth er á suðurströnd Englands.

Hernám

Á Íslandi voru fyrstu braggarnir reistir í kringum 1940 eftir hernám Breta sem komu sér upp braggaherbúðum í Reykjavík og víðar. Eftir stríðið voru braggar notaðir sem bráðabirgðahúsnæði fyrir húsnæðislaust fólk en voru smám saman rifnir og meðal annars byggðar leiguíbúðir í fjölbýlishúsum fyrir íbúana. Helstu braggahverfi í Reykjavík voru Camp Knox, Múlakampur og Laugarneskampur.

Háhæðina, þar sem nú er miðbær Kópavogs og Hamraborgin, nefndu Bretar Skeleton Hill. Margir hafa talið að nafnið Skeleton Hill tengist beinagrindum frá aftökustað Kópavogsþings. Engar sannanir eru samt um beinafund hermanna þar. Á hæðinni voru trönur og fiskur þurrkaður. Það vakti forvitni hermanna og gaf búðunum nafn. Friðþór Eydal hefur sýnt fram á að búðirnar hafi verið nefndar Skeleton Hill allt frá upphafi haustið 1940 og þar til Bandaríkjamenn tóku við búðunum árið 1942 (Friðþór Eydal 2013:13–16).

Herleiðir og herskálar í landi Digraness- og Fífuhvammsjarða
Frá Hafnarfjarðarvegi, Hafnarfjordur Road, lá ófullkominn vegur í austur frá Skeleton Hill að Víghóli. Þar var ratsjárstöð bandaríska flughersins, Camp Catharine. Þaðan lágu traðir að Digranesbæ á Digraneshæð, Whale Hill.

Hernám

Heræfingar við Reyki í Mosfellsbæ.

Hilton Road, sem lá á svipuðum slóðum og Fífuhvammur (vegur) er nú, sveigði suður yfir Kópavogslæk, suðvestan núverandi Digraneskirkju. Frá Hilton Road var unnt að aka að Fífuhvammsbænum.
Vestan við veginn að Fífuhvammsbæ var ófullkomin braut hersins að hinum mikilvægu sprengjugeymslum og herskálum við Hnoðraholt, Gala Hill. Örnefnið Gala Hill er á mörkum Skotlands og Englands.
Ástarljóðið „Braes O’Gala Hill“ var oft sungið á stríðsárunum. Brautin lá um Selhrygg, Hawick Hill, Smalaholt, Camel Hill, og Rjúpnahlíð (Rjúpnadalshlíð, Rjúpnahæð), Bare Hill.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Bærinn Hawick er í Skotlandi og þekktur fyrir vefnað. Við bæinn eru Hawick Hills. Fyrirmynd Camel Hill-nafnsins gæti verið þekktur búgarður í Los Gatos í Kaliforníu, Camel Hill Vineyard. Þar var og er enn mikil vínrækt og úlfaldarækt. Nafnið gæti einnig verið dregið af staðháttum, kryppu eða kryppum. Ef til vill á örnefnið Bare Hill sér eðlilegar rætur í gróðursnauðum hluta Rjúpnahlíðar (Rjúpnahæðar) þar sem nyrsti hluti Hunt Delaware var. Samt sem áður má nefna að hæðir við stórborgina Baltimore eru nefndar Bare Hills. Svæðið norðan við Hnoðraholt og Selhrygg er á herkortunum merkt „Scattered Boulders“ (hnullungadreif).

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Sunnan Smalaholts og Rjúpnahlíðar lá Flóttamannavegur sem svo hefur stundum verið nefndur, Back Road, að Vífilsstöðum. Hjáleið frá Flóttamannavegi, norðan við Kjóavelli, er nefnd Hunt Road.
Á stríðsárunum var lítið herskálahverfi og loftvarnarbyrgi á Víghóli (Víghólum) á vegum bandaríska flughersins. Búðirnar voru þar sem Digraneshæðina, Whale Hill, ber hæst. Þær voru annars vegar á milli núverandi gatna, Melaheiðar og Lyngheiðar, og austan við Bjarnhólastíg og Víghólastíg hins vegar. Herskálabyggðin var kölluð Camp Catherine. Búðirnar fengu nafnið eftir eiginkonu fyrsta yfirmanns ratsjárstöðvarinnar (Friðþór Eydal 2013:20).

Blesugróf 1954

Blesugróf 1954.

Á stríðsárunum var byggður herskálakampur rétt austan við Meltungu og við Blesugróf og var hann nefndur New Mercur Dump (New Mercur Camp). Nafnið gæti hugsanlega verið tengt New Mercursvæðinu í Utah í Bandaríkjunum sem einnig er kallað Mercur District og Camp Floyd District. Í Bandaríkjunum voru svæði þar sem losa mátti eiturefni eins og kvikasilfur (e. mercury) kölluð Mercury Dump. Kampurinn var á mörkum jarðanna Digraness, Bústaða og Breiðholts. Stærsti hluti búðanna var innan marka Reykjavíkur. Þar var lengst af birgðastöð fyrir skotfæri.

Camp Ártún

Camp Ártún 1942.

Vestan við New Mercur Camp og sunnan við bæinn Bústaði var önnur birgðageymsla hersins sem nefnd var Salmon River Dump (Þór Whitehead 2002:125). Kampurinn var í landi Bústaða.
Í suðausturhlíð Rjúpnahlíðar (Rjúpnadalahlíðar, Rjúpnadalshlíðar, Rjúpnahæðar), Bare Hill, og nyrst á Kjóavöllum var herskálahverfi og birgðageymsla bandaríska hersins á árunum 1943 og 1944, Hunt Delaware, sem áður var getið. Delaware er eitt af ríkjum Bandaríkjanna á austurströndinni. Í Rjúpnahlíð, milli Smalaholts og Hörðuvalla, var reist fjarskiptasendistöð sumarið 1943.

Hernám

Á Íslandi voru fyrstu braggarnir reistir í kringum 1940 eftir hernám Breta sem komu sér upp braggaherbúðum í Reykjavík og víðar. Eftir stríðið voru braggar notaðir sem bráðabirgðahúsnæði fyrir húsnæðislaust fólk en voru smám saman rifnir og meðal annars byggðar leiguíbúðir í fjölbýlishúsum fyrir íbúana. Helstu braggahverfi í Reykjavík voru Camp Knox, Múlakampur og Laugarneskampur.

Í Leirdal í landi Fífuhvamms, í lægðinni milli Hnoðraholts, Selhryggs og Smalaholts, var skotfærageymsla, Hilton Ammo Dump (Loho Bomb Dump). Vegur lá frá Fífuhvammi að svæðinu og er merktur á kortum hersins frá 1943 en ekki með nafni. Á stríðsárunum flæddi vatn inn á sprengjugeymslusvæðið og var sprengjugeymslan þá færð ofar þar sem þurrara var.
Stærsti kampurinn í landi Fífuhvamms var þar sem nú er Gróðrarstöðin Storð við Dalveg, Camp Hilton. Herbúðirnar voru reistar haustið 1941 sem aðalstöðvar og þjónustumiðstöð lof- og strandvarnarbyssufylkis. Í Camp Hilton bjuggu hermenn sem sáu um lofvarnarstöðina á Fálkhóli, Arlington Hill, í Breiðholti og loftvarnarstöðina Fox-Batery á Bústaðaholti, Handley Ridge.

Herleiðir og herbúðir í landi Vatnsenda

Hernám

Kaldakvísl-camp.

Fyrstu herbúðir Breta, kenndar við Vatnsenda, voru í þeim hluta Seltjarnarneshrepps sem varð Kópavogshreppur árið 1948. Búðirnar voru reistar fyrir 30 manna fótgönguliðsflokk úr herfylkinu „1/5 Battalion, Duke of Wellington Regiment“, við loftskeytasendistöð Landssíma Íslands í Vatnsendahvarfi skömmu eftir hernámsdaginn 10. maí 1940 (Friðþór Eydal 2013:1).
Þær hæðir, sem höfðu mest gildi fyrir herinn, lágu norðan og vestan við Elliðavatn í landi Vatnsenda: Breiðholtshvarf, Baldurshagi Hill, Vatnsendahvarf, Vatnsendi Ridge, og Vatnsendahlíð, Vatnsendahlidh. Vestan og sunnan hæðanna voru mikilvægar herbúðir og sprengjugeymslur, einkum í Leirdal og á Kjóavöllum.

Helgafell

Camp Helgafell.

Aðalleið hersins lá frá krossgötunum Charing Cross, sem voru rétt við Bústaðabæinn, og vestan við Vesturkvísl, West Fork, Elliðaánna, Salmon River. Herleiðin lá í suður um Breiðholtsland, austan við Fálkhól, Arlington Hill. Þaðan lá hún inn í Vatnsendaland og að útvarpsstöðvarhúsinu á Vatnsendahvarfi. Þá var stutt í austur að Flóttamannavegi, Back Road, sem lá um Vatnsendaland frá Dimmuvaði að Rjúpnahlíð. Frá Flótamannavegi ofan við Vatnsendabæinn var unnt að fara suður fyrir Elliðavatn og Þingnes, Thingnes, efir gamalli leið, Þingnesslóð, Langvatn Trail, að Elliðavatnsbænum í landi Reykjavíkur.
Frá Vatnsendahvarfi (Vatnsendahæð) var unnt að sjá helstu samgönguleiðir á Suðurlandi, Vesturlandi og Suðurnesjum. Frá Charing Cross lá Útvarpsstöðvarvegur, Vatnsendi Road, að Vatnsendahvarfi.

Camp Aberdeen

Camp Aberdeen.

Herbúðirnar, sem reistar voru fyrir fótgönguliða á Hörðuvöllum milli Vatnsendahvarfs og Rjúpnahlíðar árið 1942, voru nefndar Camp Wade, eftir bandarískum hermanni sem féll á Filippseyjum árið 1942. Í þeim voru alls 104 braggar. Þrír braggar, Sandahlid Hut Site, voru byggðir árið 1943 fyrir miðstöð í miðunarkerfi fyrir flugvélar Bandaríkjahers uppi á Sandahlíð, suðaustan við Kjóavelli.

Hernaðarumsvif við Selfoss Road

Hernám

Camp Hálogaland – Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og
var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks
í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn,
þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig
íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.

Frá Elliðaárósi, Salmon Inlet, lágu mikilvægar leiðir í austur og suður. Vesturlandsvegur, Alafoss Road, og Suðurlandsvegur, Selfoss Road, lágu í austur frá Elliðaánum.
Bandarísk ratsjársveit var í Camp Hickam í Ártúnsbrekku. Horace Meek Hickam var ofursti og frumkvöðull í flugmálum í Bandaríkjunum. Hann fórst í flugslysi 5. nóvember 1934. Flugvöllurinn í Pearl Harbor var skírður Hickam Field þegar hann var opnaður 31. maí 1935.
Ratsjársveitin flutti í nýjar búðir, Camp Tinker, í Rauðhólum vorið 1943. Þaðan var loftvörnum stjórnað til ársins 1944 en þá fluttist starfsemin til Keflavíkurflugvallar. Selfoss Road lá við Rauðavatn, norðan við Rauðhóla, Red Lava Pits. Frá Selfoss Road vestan við Rauðavatn lá Flóttamannavegur, Back Road, í suður að Vatnsenda og Vífilsstöðum.
Bærinn Hólmur er austan við Rauðhóla og norðan við veginn er Hólmsheiði. Þar voru á stríðsárunum þrír kampar, Jeffersonville, Aberdeen og Waterloo. Thomas Jefferson var forseti Bandaríkjanna 1801–1809. Aberdeen er borg og skíri í Skotlandi. Við Waterloo í Belgíu sigraði yfirhershöfðinginn Wellington keisarann Napóleon sunnudaginn 18. júní 1815.

Kópavogur

Herkampur við Sandskeið.

Selfoss Road lá síðan í austur um land Gunnarshólma, Geirlands og Lækjarbotna. Á leiðinni austur voru búðir reistar árið 1940 á hæðinni neðan við bæinn Lögberg í Lækjarbotnum. Suðurlandsvegur liggur nú yfir gamla bæjarstæðinu. Þar var birgðageymsla og geymslusvæði fyrir skotfæri breska hersins. Svæðið var afmarkað með um tveggja metra háum garði sem hlaðinn var úr hraunhellum. Þar rak herinn stórt bakarí sem var nefnt Logberg Bakery. Bandaríkjaher tók við rekstri birgðastöðvarinnar og bakarísins árið 1942 og rak hvort tveggja til haustsins 1943 (Friðþór Eydal 2013:38).
SandskeiðSvifflugfélag Íslands fékk árið 1938 leyfi til að jafna land fyrir flugsvæði og byggja flugskýli á afrétti Seltjarnarneshrepps þar sem heitir Sandskeið. Við hernám Breta og síðar hersetu Bandaríkjamanna var hluti af Sandskeiði tekinn undir skotæfingar og var það nánast allt sundurskotið á hersetutímanum. Sunnarlega á Lakheiði (Lakaheiði) á sléttlendinu í Lakadal, sem er á afrétti Lækjarbotnajarðar, geymdi breski herinn þegar árið 1940 stæður af bensínbrúsum og bensíntunnum sem var dreift vítt um svæðið. Hersvæðið í Lakadal var kallað Sandskeid Dump (Sandskeid Depot). Hersvæðið var rétt austan við mörk heimajarðar Lækjarbotna og afréttarins. Svæðið þar sem eldsneytið var geymt var nefnt Sandskeid Gas Dump.

Hernám

Íslenskir lögreglumenn á skotæfingum á hernámssvæðinu við Arnarþúfur neðan Sandskeiðs.

Aðalæfingasvæði breska stórskotaliðsins og síðar bandaríska hersins var um 700 hektarar að stærð og nefnt Sandskeid Range. Þetta æfingasvæði náði frá vestanverðu Sandskeiði og austur á Mosfellsheiði. Á korti bandaríska hersins frá árinu 1950 eru æfingasvæði fótgönguliðs og stórskotaliðs hersins sýnd (Friðþór Eydal 2013:35). Á þessum tíma lá Suðurlandsvegur, Selfoss Road, skammt norðan við Lakadal og sunnanvert um Sandskeið, þar sem vegurinn að Sandskeiðsflugvelli liggur nú austur af Bláfjallavegi og áfram austur með Vífilsfelli.

Lokaorð

Hernám

Bretar við undirbúning 1941.

Hér hefur verið fjallað um tilraunir breskra og bandarískra hermanna á heimsstyrjaldarárunum 1940 til 1945 til að ná tökum á og skipuleggja land þar sem örnefni voru á tungumáli sem flestum þeirra var framandi. Hermennirnir komust upp á lag með að nýta þau íslensku örnefni sem þeir réðu við að bera fram en bættu við nöfnum yfir herbúðir, herleiðir og kennileiti athafnasvæða hersins. Ný ensk heiti í stað íslenskra örnefna voru skráð á árunum 1940–1944 og notuð á kortum og í öðrum skjölum hersins. Bretarnir notuðu gjarna örnefni í Englandi og Skotlandi sem fyrirmyndir við nafngiftir sínar á Íslandi en þegar bandarísku hermennirnir bættu við fleiri heitum var oft um að ræða nöfn þekktra persóna úr bandarískri hersögu. Erlendu nöfnin urðu aldrei hluti af daglegu máli Íslendinga og hurfu eins og dögg fyrir sólu strax á fyrstu árunum eftir hernámið.“

Heimild:
-https://www.academia.edu/47442681/Erlend_n%C3%B6fn_%C3%A1_Innnesjum_Arfur_seinni_heimsstyrjaldar_%C3%AD_%C3%B6rnefnum_%C3%A1_h%C3%B6fu%C3%B0borgarsv%C3%A6%C3%B0inu

Hernám

Kampar – kort.

Krýsuvík

Jarðfræðifyrirbærið „Sprengigígur“ er gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp. Gosefnin þeytast langt og hátt upp í loftið, en skilja lítið af jarðefnum eftir sig.

Sprengigígar

Sprengigígar – myndun.

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa. Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku, en hins vegar kallast þeir „maar“ í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni. Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum. Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni. Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.

Sprengigígar

Sprengigígar – skýringar.

Gosvirknin verður þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu. Þá verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar. Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos. Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eða engum gígbörmum, sem fyrr sagði. Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.

Sprengigígar

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Sprengigígur (e. maar) er eins og nafnið bendir til gígur sem verður til í sprengingu. Sprengingin verður oftast

vegna þess að kvika kemst í snertingu við vatn skammt undir yfirborðinu eða að gasrík kvika springur við yfirborðið.
Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Sprengigjá

Sprengigígar

Sprengigígar (-gjá) – Valagjá.

Sprengigjá (e. explosion fissure) er aflangur sprengigígur sem verður til þegar sprengingar verða á stuttri sprungu.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Sprengigos

Sprengigígar

Sprengigígar – sprengjugos.

Sprengigos (e. explosive eruption) teljast hvers konar gos þar sem kvika tætist í sundur í sprengingum. Oftast er það snerting við vatn sem veldur sprengingunum en stundum er spennu í sjálfri kvikunni um að kenna. Spennan stafar þá af gosgufum sem þurfa rými.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar. Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.

Sprungugos
Sprungugos (e. fissure eruption) er eins og nafnið bendir til eldgos á sprungu.

Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni.

Sprengigígar

Sprengigígar (gos-) – Innstidalur.

Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.

Minniháttar hverasprengigígar

Austurengjahver

Austurengjahver.

Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.

Kolsýrusprengigígar

Sprengigígar

Sprengigígar (kolsýru) – Súlufell.

Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Kattatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða „hverfjöll“ (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist „hýalóklastít“, sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungum.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar.
Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar „rætur“, það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.

Grænavatnseggjar

Sprengigígar – Grænavatnseggjar (Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn efst).

Landslag á Reykjanesskaga, einkum þó í Krýsuvík, er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins. Í öllum þessum gígum er vatn. Sunnan við Grænavatn eru hins vegar tveir vatnslausir sprengigígar, Stampar (Litli-Stampur og Stóri-Stampur).

Sjaldgæft er að sprengigígar gjósi oftar en einu sinni. Þeir eru oft það djúpir að þeir ná niður fyrir grunnvatnsborð. Í sprengigosum er megingosefnið stundum aðallega vatnsgufa og gastegundir, en lítið af gjósku.

Sprengigígar

Sprengigígar í Grafningi (Álftatjörn, Litla-Kattartjörn, Stóra-Kattatjörn og Djáknapollur efst).

Kattartjarnir eru í Hryggjunum, suðvestan til í Grafningi. Neðri-Kattartjörn (Nyrðri-), Stóra-Kattartjörn er norður af Kyllisfelli, en Efri-Kattartjörn (Syðri-), Litla-Kattartjörn er norður og/eða norðvestur af fellinu. Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir (Neðri-Katlatjörn, Efri-Katlatjörn og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Það er sennilega líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar.

Önnur dæmi um sprengigíga á Reykjanesskaganum eru Grænavatn á Núpshlíðarhálsi, Djúpavatn, Spákonuvatn, Arnarvatn og Austurengjahver.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sprengig%C3%ADgur
-https://isor.is/jardhiti/hahiti/sprengigigar/
-https://jardfraedi.vefbok.idnu.is/?id=32&tx_systimeglossary_pi1%5Bcharacter%5D=s&cHash=8bf0fc14952fadd54c0faf1ba759395c#c6
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1208

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Hraun

Dyngjur myndast á löngum tíma í þunnfljótandi flæðigosum þar sem kvikan streymir langar leiðir. Vísindamenn segja að stöðugt flæði þunnrar kviku af miklu dýpi, eins og í gosinu í Geldingadölum, sé sterk vísbending um að þar sé dyngja í mótun. Langflestar dyngjur á Íslandi mynduðust fyrir um það bil tíu þúsund árum. Eldvirknin getur staðið yfir í mörg ár, jafnvel áratugi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Íslenskar dyngjur eru á rekbeltum um allt land. Flestar eru ekki meira en þrír kílómetrar í þvermál og um 100 metra háar. Þekktustu dyngjurnar eru líklega Skjaldbreiður og Trölladyngja, en fleiri eru til dæmis Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Hrútagjárdyngja á Reykjanesskaganum.

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Dyngjur

Dyngjur á Reykjanesskaga frá síðustu 14.000 árum.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.
Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Atlantshafshryggur

Reykjanesgosbeltið og Mið-Atlantshafshryggurinn.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Geldingadalir

Geldingadalir í Fagradalsfjalli – eldgos.

Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð. Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá).

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.
Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára. Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.

Ein dyngjan er ótalin hér að ofan, en það er nafnlaus slík á milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns í Krýsuvík. Sjá má barma hennar austan við veginn gegnt Hádegishnúk. Gígurinn hefur nú fyllst af sandi og leir.

Heimildir:
-https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2021-03-23-gaeti-ordid-fyrsta-nyja-dyngjan-a-islandi-i-3000-ar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=56348
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329
-https://jokull.jorfi.is/articles/jokull1986.36/jokull1986.36.011.pdf

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.

Kaldársel

Sesselja Guðmundsdóttir tók í janúar 2002 saman upplýsingar um sel, sem getið er um í Jarðabókinni 1703 á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs Arnarssonar. Þau eru eftirfarandi:

Gullbringu-og Kjósarsýsla / Árnessýsla – Nefnd sel og eða selstöður:

Grindavíkurhreppur

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

1. Krisevik:
“Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjálegumenn og bóndi.“ Skógur í landinu.
2. Isólfs Skále:
Ekki nefnd selstaða en eiga skóg í Suðurnesja almenningum.
3. Hraun:
“Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ (Sel í Þrenglsum).

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

4. Þorkötlu stader:
“Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en mikillega lángt og erfitt til að sækja.“
5. Hóp:
“Selstöðu þarf út að kaupa.“ (Sel undir Selhálsi).
6. Jarngerdar stader:
“Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

7. Husa Tofter:
„Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“
8. Stadur:
„Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnu brúkuð verið 1xxx ár á Selsvöllum.“

Hafnahreppur
9. Gálmatjörn:
“Selstöðu hefur jörðin átt sem nú er að mestu eyðilögð fyrir sandi, og verður því valla eður ekki brúkuð, og er augljóst að snart muni hún að öngvu liði verða.“
10. Merke Nes:
“Selstaða mjög haglítil og vatnslaus, so þíða verður snjó fyrir peníng, um sumur, þegar hann bregst, er ekki vært í selinu.“
11. Kyrkiu Vogur:
“Selstaða ei allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar.“

Hafnasel

Hafnasel – uppdráttur ÓSÁ.

12. Gamle Kyrkiu Vogur:
“Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sje þaðan fluttur, þángað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sje í Stafness landi.“
Gamle Kirkiuvogur: “ …. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er bygður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. . .“
13. Stafnes:
Ekkert minnt á selstöðu.
14. Basendar:
Kaupstaður. Nefndar eru 12 hjáleigur í landinu, í eyði fyrir 1-40 árum, landbrot og uppblástur.

15. Hualsnes:
“Selstöður tvær er sagt að kirkjan eigi, og eru nú báðar þær næsta því ónýtar fyrir grasleysi, og önnur aldeilis vatnslaus, so er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur.“

Hvalsnessel

Sigurður Eiríksson við Hvalsnessel.

16. Maasbuder:
“Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans . . .“
17. Melaberg:
“Eyðijörð, hefur legið í auðn yfir hundrað ár.“

Vatnsleysustrandar hreppur

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

18. Innre Niardvik:
“Selstaða mjög haglítil.“
19. Storu Vogar:
“Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“
20. Minne Vogar:
“Selstöðu brúkar jörðin frí hina sömu sem Stóru Vogar.“
21. Brunnastader:
“Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.'“

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

22. Hlodunes:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðuneskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu.“
23. Stóru Aslaksstader:
“Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
24. Minne Aslakstader:
Sama selstaða.
25. Litla Knararnes:
Sama selstaða.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

26. Stóra Knararnes:
“Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.“
27. Breida Gierde:
Sama selstaða.
28. Audnar:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft.“

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

29. Þorustader:
“Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ (tel að þarna sé átt við Sogasel. S.G.)
30. Kalfatiörn:
“Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði (svo hdr), þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja.“

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

31. Backe:
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi.“
32. Fleckuvík:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“
33. Minne Vatnsleisa:
“Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“
34. Stóra Vatnsleisa:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“
35. Huassahraun:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina.“

Álftanesshreppur

Lónakotssel

Lónakotssel.

36. Lónakot.
„Seltöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti.“
37. Ottarstader.
„Selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn hafa við Óttarstaði.“
38. Straumur.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga.“
39. Þorbiarnarstader.
“Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, þar eru hagar góðir, en vatn slæmt.“

Gjásel

Gjásel.

40. Lambhæge.
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt.“
41. Ás.
“Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.“
42. Ofridarstader.
„Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður í Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss haf skipstöðu eignast í Ófriðastaðarlandi sem áður greinir.“
43. Hamarskot.
“Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

44. Setberg.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólarhiti bræðir.“
45. Gardar.
“Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“
46. Sandhus.
„Selstöðu á jörðin og hefur brúkað átölulaust þar sem heita Norðurhellrar.“
47. Hlid.
„Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.“
48. Mölshus.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
49. Brecka.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðruhellrar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

50. Sualbarde.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
51. Suidhollt.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað í Norðurhellrum.“
52. Deild.
„Selstaða hefur brúkuð verið til forna í Norðurhellrum.“
53. Selskard.
„Selstöðu má jörðin brúka í staðarins landi.“

Seltjarnarnesshreppur
54. Lambastader.
„Selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
55. Nes.
“Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið.“

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

56. Erfersey.
“Selstöðu á jörðin undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel.“
57. Reikiavík.
“Selstaða er jörðunni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“

Selvogur
58. Snióthús.
“Selstöðu brúkar jörðin í óskiftum úthögum, sem hún hefur saman við Nesmenn haft og brúkað ómótmælt so lángt menn minnast.“ . . . „Vötn engin nema sjóstemma, og er það flutt á hestum til seljanna á sumardag, en kvikfje rekið meir en fjórðúng þingmannaleiðar til vatns.“ (37,5 km/4 = 9,4 km, aths. S.G.).

Nessel

Nessel.

59. Nes.
“Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“
60. Biarnastader.
“Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“
61. Gata.
“Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“
62. Þorkelsgerde.
“Selstaða vatnslaus ut supra.“

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

63. Eima.
“Selstöðu brúkar jörðin í heiðinni, vatnslausa so sem aðrir.“
64. Windás.
“Selstaða í heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“
65. Straund.
“Selstöðu á jörðin gangvæna í eigin landi, en þó vatnslausa nærri sjer, nema votviðri tilfalli, þó er hjer skemra til vatns en annarstaðar hjer í sveitum frá seljum.“

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

66. Wogshús.
“Selstöðu á jörðin í Hlíðarlandi og færa menn þó vatn til selfólks brúkunar, en kvikfje er vatnað stórbágindalaust í Hlíðarlandi“
67. Stackawijk.
“Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“
68. Herdijsarwijk.
“ Selstöðu eigna menn jörðinni í Krísivíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“

Ölfus

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

69. Breiðabólsstaðarsel.
„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberf, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmá þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli.“

Litlalandssel

Litlalandssel.

70. Litlalandssel.
„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg.“
71. Hlíðarendasel.
„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitarfelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil.“

Framangreindra selja er, sem fyrr segir, getið í Jarðabókinni 1703. FERLIRsfélaga hafa, árið 2024, leitað að og fundið 434 sel og selstöður á Reykjanesskaganum, frá mismunandi tímum. Hafa ber í huga að hér að framan er ekki getið seljanna frá bæjum á Kjalarnesi og í Kjós, sem einnig voru innan landnáms Ingólfs.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám.

Kristján Sæmundsson

Eftirfarandi grein Páls Imslands, „Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa – sprungumyndunarsaga„, birtist í Náttúrufræðingnum árið 1985:

Berggrunnur-ökort

„Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin ljósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.

Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu.
Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“.
Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast.
SprungusveimarÁsamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri  berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.

Reykjanesskagi

Reykjaneskagi – jarðfræðikort ISOR.

Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið.

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengilssprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins hefur ýmislegt verið ritað og er vitnað til þess helsta í köflunum, sem á eftir fylgja. Jarðfræðileg kortlagning svæðisins var gerð af þeim Tómasi Tiyggvasyni og Jóni Jónssyni (1958). Er það kort í mælikvarðanum 1:40.000 og sýnir fyrst og fremst lausu jarðlögin ofan á berggrunninum, sem þó er mjög víða sýnilegur í gegn um lausu þekjuna.

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir. Dreifing þeirra er sýnd á Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.  Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardals-sveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva. Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt.

Hengill

Hengill.

Á þeim tíma, er forverar Hengilssprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.

Esja

Esjan á Kjalarnesi.

Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall. Þetta berg er myndað í sprungusveimum, sem ekki verða til umfjöllunar hér. Á því hvílir það berg, sem myndar berggrunninn á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu. Meginhluti þess bergs, sem nú finnst á yfirborði, myndaðist í árkvarteru sprungusveimunum tveimur. Það finnst í Esju og þeim fjallabálki, sem henni tengist. Það er því myndað í nyrðri hluta kerfanna. Botn Faxaflóa
úti fyrir höfuðborgarsvæðinu er einnig gerður úr bergi frá Kjalarneskerfinu, þ.e.a.s. suðurhluta þess. Ofan sjávarmáls sést í þetta berg, þar sem það hverfur undir grágrýtið í Viðey, Kleppsskafti, Geldinganesi og fleiri stöðum. Einnig kemur það fram ofarlega í borholum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið (Ragna Karlsdóttir 1973). Tiltölulega meira berg er sýnilegt úr suðurhluta Stardalskerfisins, enda er kerfið yngra og minna rofið. Það finnst í fjöllunum vestan Mosfellsheiðar. Í Seljadal og sunnan Úlfarsár hverfur það undir grágrýtið. Lítið er vitað um það, hvernig þessi árkvarteru jarðlög enda í staflanum undir grágrýtinu. Mörk árkvarteru myndunarinnar og grágrýtisins hlýtur eiginlega á flestum stöðum að vera strand-mislægi. Hver heildarþykkt ákvarteru myndunarinnar er liggur ekki ljóst fyrir, en neðri mörk hennar eru mótin við tertíera bergið. Á yfirborði finnst það fyrst norðan Hvalfjarðar. Ummyndað og holufyllt árkvartert berg kemur fyrir í borholum um allt höfuðborgarsvæðið.

Reykjanes

Reykjanestáin – jarðfræðikort.

Fræðileg samstilling jarðlaga og uppröðun þróunarsögunnar innan þessarar myndunar, er að því er virðist töluvert erfið í smáatriðum. Bergið í þessari árkvarteru myndun er mestmegnis allvel holufyllt basalthraunlög og basískt móberg, enda var landið ýmist hulið jöklum eða ísfrítt á myndunarskeiðinu. Slæðingur af súru bergi finnst, einkum úr Stardalsmegineldstöðinni. Það kemur fyrir í Móskarðshnjúkum og Grímmannsfelli (sjá Helga Torfason 1974). Innskotsberg er einnig töluvert áberandi í þessum jarðlagastafla. Er þar bæði um að ræða ganga og minniháttar óregluleg innskot eins og til dæmis í Þverfelli og umhverfis Stardal (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Gangarnir mynda kerfi með sömu stefnu og sprungukerfin hafa, enda eru þeir storknuð kvika, sem leitaði inn í sprungukerfið. Ofan á árkvarteru myndunina leggst grágrýtið. Núverandi þekja þess teygir sig frá Þingvallavatni í sjó fram, sitt hvorum megin við Mosfellssveitarfjöllin. Það finnst á öllum nesjum og eyjum frá Hvaleyri til Brimness. Það finnst í ásum og holtum á höfuðborgarsvæðinu, frá Ásfjalli í suðri til Keldnaholts og Reynisvatnsáss í norðri. Það er einkennisberg flatlendisins ofan Lækjarbotna, umhverfis Sandskeið og á Mosfellsheiði.

Vogastapi

Stapinn.

Stór og mikill fláki af sama bergi finnst sunnar við Faxaflóa og myndar þar Vogastapa, Miðnesheiði og Garðaskaga. Hvort þetta syðra svæði tengist hinu nyrðra beint um botn flóans úti fyrir Vatnsleysuströnd er óljóst. Það gæti eins verið stök myndun. Heildarþykkt grágrýtisins á svæðinu er óþekkt en í borholum reynist það víða allþykkt (Jens Tómasson o.fl. 1977). Þrátt fyrir rofið yfirborð sjást víða um 40 m af því á yfirborði í einu hrauni. Sem jarðlagamyndun með millilögum er það varla undir 150—200 m. Þó grágrýtið sé myndað á tiltölulega stuttu tímaskeiði, þá fer aldur þess almennt lækkandi eftir því sem austar dregur. Neðstu og elstu hlutar grágrýtismyndunarinnar finnast vestur við sjó, í Reykjavík, á Álftanesi og Brimnesi, o.s.frv. Efst og yngst er grágrýtið austur á Mosfellsheiði. Grágrýtið er yfirleitt fremur grófkorna bergtegund. Það er basalt eins og blágrýtið í eldri myndunum og flestöll yngri hraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Dyngjur þær, sem myndast hafa eftir að ísöld lauk, eru margar gerðar úr bergi, sem mjög líkist grágrýti hlýskeiðshraunanna frá síðkvarter. Auk þess er ýmislegt annað líkt með dyngjunum og þessum hraunum. Yfirleitt telja því jarðfræðingar að síðkvartera grágrýtið á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar víðar, sé komið úr dyngjum. Dyngjulögunin er þó í flestum tilvikum horfin svo og sjálfir gígarnir. Upptök grágrýtisins eru því yfirleitt óþekkt. Það hefur vegna þessa (líkrar berggerðar og samsetningar og horfinna flestra upprunalegra yfirborðseinkenna) reynst mjög erfitt að deila grágrýtinu upp í einstök hraun, þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Grágrýtið var fyrr á tímum gjarnan afgreitt sem ein stór myndun komin úr Borgarhólum á Mosfellsheiði (Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 og Þorleifur Einarsson 1968), en nú á síðari árum hefur sýnt sig (sbr. Jón Jónsson 1972), að þetta er of mikil einföldun. Að hluta til hefur hún verið leiðrétt með því að greina grágrýtisflákann upp í smærri myndanir (Ragna Karlsdóttir 1973; Árni Hjartarson 1980; Kristján Sæmundsson 1981), þó öll kurl séu langt frá því komin til grafar. Nokkuð bendir til þess, að enn eimi eftir af upprunalegu landslagi í grágrýtinu, þrátt fyrir jökulrof og sjávarágang. Grágrýtið er víða enn mjög þykkt, jafnvel svo að skiptir nokkrum tugum metra. Sú skoðun hefur því komið fram, að upptakasvæði sumra
grágrýtiseininganna sé að finna í námunda við þykkustu hluta þess (sbr. Jón Jónsson 1978). Enn sem komið er, er þó ekki gengið úr skugga um þetta. Ef satt er, bendir þetta til þess að upptök grágrýtisins séu ekki eins tengd sprungusveimum og upptök annarra hrauna.

Sveifluháls

Sveifluháls – móbergsfjallgarður.

Árkvarteru kerfin tvö, sem að ofan er lýst, voru virk á tímabilinu frá 2.8 – 1.6 miljón ára. Grágrýtið, sem ofan á jarðmyndanir þeirra leggst, er allt rétt segulmagnað (Leó Kristjánsson 1982, munnlegar upplýsingar), þ.e.a.s. með sömu segulstefnu og ríkir á svæðinu í dag. Grágrýtið hefur því runnið sem hraun á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu segulumpólun, fyrir 700 þúsund árum, eða á síðkvarter.
Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana.

Reykjanesskagi

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp. Þó þetta berg skiptist í tvær ólíkar berggerðir og önnur þeirra (móbergið) sé eldri, þá er það allt ættað úr sömu einingunum (virku sprungusveimunum). Báðar berggerðirnar eiga því
saman sem „stratigrafísk“ og tímaleg eining.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar; Jón Jónsson.

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin.
Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti. Vatn hripar því auðveldlega niður í myndunina, enda rennur hvorki á né lækur til sjávar á milli Lækjarins í Hafnarfirði og Ölfusár.

Stardalur

Stardalur og Móskarðshnúkar.

Ekki verður séð að aldursmunur sé á einstökum sprungusveimum innan myndunarinnar. Uppbygging er mest og land stendur hæst á Hengilssveimnum, sem er lengst inn til landsins. Uppbyggingin er hins vegar minnst og land stendur lægst á Reykjanessveimnum, sem nær lengst út til sjávarins. Hlutfallslega virðist móberg vera mest inni á Hengilssveimnum, en minnst úti á Reykjanessveimnum. Þetta gæti bent til þess, að Hengilssveimurinn væri ef til vill eitthvað eldri. Það er þó líklegra að öll þessi einkenni spegli fremur afkastagetu sprungusveimanna og mismikla virkni en verulegan aldursmun.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð.

Stardalshnúkur

Stardalshnúkur.

Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Það getur því vart verið, að hann einn eigi sök á færslu Stardalsskerfisins vestur á bóginn. Líklegast er, að á tímabilinu á milli u. þ. b. 1.8 miljón ára og þess að Hengilssveimurinn tók við gliðnunarhlutverkinu, hafi verið virkur sprungusveimur, sem nú ætti að finnast útdauður á milli Hengils og Stardals. Ekki hefur þó slíkt kerfi fundist, en sá möguleiki er fyrir hendi, að það sé til staðar undir hinni miklu grágrýtisþekju á Mosfellsheiði og nágrenni.

Sprungur

Hraunsprungur.

Annar möguleiki er reyndar sá, að af einhverjum ástæðum hafi ekkert slíkt sprungukerfi myndast á þessum tíma og að grágrýtið sjálft sé eins konar staðgengill þess, þannig að afleiðingin af tregu reki og lítilli virkni um langan tíma hafi að lokum verið tiltölulega þétt hrina stórra dyngjugosa, sem framleiddu grágrýtið. Á tímum þessara árkvarteru kerfa myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði.

Reykjanes

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlagaog móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest.

Sprungur

Hrafnagjá – misgengi.

Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans.
Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Höfuðborgarsvæðið liggur utan gosbeltisins, þar sem jarðskorpan myndast í dag. Það er að mestu leyti þakið grágrýtinu, sem er á milli gömlu útdauðu sprungusveimanna og hinna virku. Grágrýtið rann á sínum tíma út yfir sprungið land gömlu sprungusveimanna. Það virðist sjálft ekki hafa myndast á sprungusveimum eða í beinum tengslum við sprungusveima og er því óbrotín og ósprungin myndun við lok myndunarskeiðsins.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Þegar virknin hefst á sprungusveimum Reykjanesskagans leggst berg þeirra ofan á grágrýtið. Vegna afstöðu nýju sprungusveimanna teygja sprungur þeirra sig inn í gamla jarðlagastaflann. Þá fyrst brotnar grágrýtið upp og eflaust nær þessi sprunguvirkni inn í árkvartera jarðlagastaflann líka. Grágrýtið sjálft er mest sprungið á vestanverðri Mosfellsheiði, í beinu framhaldi af sprungusveim Brennisteinsfjallanna og umhverfis Elliðavatn,
í beinu framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum. Framhald Reykjanessprungusveimsins til norðausturs stefnir beint á Reykjavík. Sprungurnar hverfa í sjó á Vatnsleysuströnd, en þær hafa ekki fundist á landi á Álftanesi eða í Reykjavík. Grágrýtið á þessum stöðum er því að mestu óbrotið, að því er virðist.

Grágrýti

Grágrýti.

Erfitt er þó að fá af þessu óyggjandi mynd, vegna þess hversu byggt land er orðið í Reykjavík og sprungukort voru ekki gerð í tíma, eins og nú er farið að gera á framtíðarsvæðum byggðar á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Halldór Torfason 1982). Árkvartera bergið undir grágrýtinu er hins vegar brotið, en þau brot tilheyra Kjalarnessprungusveimnum, eins og fyrr segir. Hvort líkur eru á að sprunguvirkni Reykjanessprungusveimsins nái til Reykjavíkur í framtíðinni, er háð því á hvaða stigi Reykjanessprungusveimurinn er. Sé hann enn vaxandi að virkni er ekki útilokað að hann eigi eftir að brjóta Reykjavíkurgrágrýtið á sama hátt og Krýsuvíkursprungusveimurinn hefur brotið grágrýtið umhverfis Elliðavatn og Rauðavatn, og Brennisteinsfjallasveimurinn hefur brotið grágrýtið á vestanverðri Mosfellsheiði. Sé hann á hinn bóginn í hámarki virkni sinnar eða farinn að dala, verður að sama skapi að teljast ólíklegt að hann brjóti nokkurn tíma Reykjavíkurgrágrýtið. Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanessprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Krýsuvíkursprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m. Einum 6—7 km norðar rann hraun í gegnum sundið á milli Skyggnis og Seláss niður eftir Elliðaárdalnum. Hraun þetta er komið upp í Leitum austan Bláfjalla og hefur runnið norður undir Kolviðarhól, svo niður á Sandskeið, um Lækjarbotna og Elliðaárdal til sjávar í Elliðavogi (Þorleifur Einarsson 1961). Samkvæmt geislakolsaldursákvörðun á mó undan hrauninu í Elliðavogi, þeirri fyrstu á íslensku efni, rann þetta hraun fyrir um það bil 5300 árum (Hospers 1953 og Jóhannes Áskelsson 1953).

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Samskonar aldursákvörðun á birkikolum undan hrauninu í Elliðaárdal, gerð síðar (Jón Jónsson 1971), gefur heldur lægri aldur, eða um 4600 ár, sem er líklega nær hinu rétta. Hraun þetta er óbrotið í sundinu við Skyggni, þar sem það liggur 4 – 5 m þykkt ofan á 2 m af lausum jarðlögum (Gestur Gíslason og Páll Imsland 1971). Austurbrún Selássins norðan sundsins er misgengisstallur á sama misgengja- og sprungusveim og Hjallamisgengið. Fleiri misgengi á þessum sprungusveim liggja norður um svæðið austan Elliðavatns og skera þar grágrýtið beggja vegna Leitahraunsins, án þess að nokkurra brota verði vart í hrauninu (sbr. Jón Jónsson 1965). Það verður því að teljast nær fullvíst, að ekki hafi orðið hreyfing á þessum misgengjasveim norðan Elliðavatns síðustu 4600 árin, þó ljóst sé, að 6 – 7 km sunnar hafi orðið allt að 7 m misgengi á brotum á sama sprungusveim einhvern tíma á síðustu 7200 árum.

Leiti

Í Leitarhrauni. Leiti framundan.

Leitahraun er hins vegar brotið austur við Vatnaöldur (Jón Jónsson 1982, munnl. upplýsingar), þar sem Brennisteinsfjallasprungusveimurinn sker það. Verið getur að brotavirkni á öllum norðurhluta Krýsuvíkursprungusveimsins hafi dáið út á tímabilinu milli 7200 og 4600 ára. Hitt er líklegra, að áhrifa brotavirkninnar gæti minna eftir því, sem norðar dregur og 7 m misgengið við Búrfellsgjá deyi út áður en það nær norður að Skyggni. Í síðara tilvikinu segir aldur hraunanna ekkert til um lágmarksaldur síðustu misgengjahreyfinga á brotum. Krýsuvíkursveimurinn hefur sem sagt ekki náð að brjóta og hreyfa grágrýtið í Reynisvatnsheiði á síðustu 4600 árum. Ekki liggur fyrir næg vitneskja um eðli og hegðun sprungusveima til þess að draga megi af þessu mjög ákveðna vitneskju um framtíðarhorfur.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Yfirleitt virðist sem 5000 ár á milli atburða á sprungusveimum rekbeltanna sé mjög langt hlé, en hér er þess að gæta, að um er að ræða ysta jaðar sprungusveimsins, svo langt frá hámarki virkninnar sem komist verður. Hvenær á „lífsferli“ sprungusveims slíkir jaðrar eru virkastir er ekki vitað með neinni vissu.
Grunnvatnsstreymi allt, ekki síst í jarðhitakerfunum í landinu, er yfirleitt talið standa í mjög nánum tengslum við sprungukerfin. Árkvarteru sprungukerfin hafa þannig, að því er virðist, afgerandi áhrif á lághitasvæðin í Reykjavík og Mosfellssveit. Virku sprungusveimarnir stjórna hins vegar rennsli vatns og gufu í háhitasvæðunum á Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Kaldavatnsrennslið á sér stað grynnra og ungar sprungur í grágrýtinu og ungu hraununum stjórna rennsli þess á Elliðavatns-Heiðmerkursvæðinu að einhverju leyti. Vegna þess hversu hátt í jarðskorpunni kaldavatnsstraumurinn á sér stað og þeirrar staðreyndar, að þar eru jarðlög, grágrýti, móberg og hraun, mjög opin að innri byggingu, er kalda vatnið minna háð sprungum um rennsli en heita vatnið, sem streymir dýpra og í þéttara bergi.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland: Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árg. 1985, 2. tbl., bls. 63-75.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði þess vegna mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.

Stampar

Stampagígaröðin.

Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.
Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana.
Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Flekaskil

Eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Háibjalli

Háibjalli.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.

Wegener

Prof. Dr. Alfred Wegener, ca. 1924-1930.

Svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
Bruin-26Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.
Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749.

Bruin-25

Misgengi á Reykjanesi.

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.

Núpshlíð

[G]Núpshlíðarhorn ofan Húshólma.

Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Húshólmi

Húshólmi – skáli undir [G]Núpshlíðarhorni.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu, af Hettustíg. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fornri kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargreni

Eldborgargreni ofan Knarrarnessels.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.

Gvendarhellir

Hitti Grindvíking á N-1 í morgun. Bauð honum að venju upp á ókeypis kaffi. Settumst niður í „Heita pottinn“ og spjölluðum um allt og ekkert. Hann virtist svartsýnn á ástandið í bænum og nágrenni en varð loks sammála um að framtíð Grindavíkur væri bara verulega björt – til langrar framtíðar litið.

Ferlir

Ferlir – fyrsta myndin. Þátttakandi við öllu búinn – fyrirhuguð ganga á Helgafell; spáð var rigningu, yfir á að fara, slæmu skyggni í hellum á leiðinni og takmörkuðu súrefni á efstu hæðum.

Hann: „Heyrðu, ég hef alltaf af og til verið að fylgjast með vefsíðunni ykkar; ferlir.is. Hún er alveg frábær, ótrúlega mikill fróðleikur saman kominn um tiltekið landssvæði. Upplýsingarnar koma mér alltaf jafn mikið á óvart – bæta til muna við fyrrum vitneskjuna. Þið fjallið um minjar, náttúrufyrirbæri, sagnir, sögur og birtið viðtöl við fólk, sem hefur frá ýmsu markverðu að segja frá fyrri tíð. Það hlítur að liggja mikil vinna þarna að baki; að leita uppi heimildir, tala við heimafólk, fara á vettvang og skoða aðstæður og uppgötva svona margar áður óþekktar fornleifar. Bara talandi um selstöðurnar. Mér hefði aldrei dottið í hug að þær væru svo margar sem ykkur hefur tekist að skrá á ekki stærra svæði. Hvernig hafið þið farið þið að þessu?, að ekki sé talað um alla vinnuna við að stofna og reka síðuna öll þessi ár frá degi til dags.“
Gaman var að sjá að einhver skuli vera eins meðvitaður um viðvangsefnið og raun bar vitni.

Ég: „Markmiðið í upphafi var að fá samstarfsfólkið í rannsóknarhluta lögreglunnar í Reykjavík til að breyta bæði um umhverfi og viðfangsefni a.m.k. einu sinni í viku, þ.e. um helgar, með hreyfingu í huga.

Bessastaðir

FERLIRsfélagar með staðarhaldara Bessastaða.

Þetta fólk á mikið lof skilið. Það lagði á sig mikla ánægjulega vinnu. Leitin að bæði þekktum og óþekktum minjum eða minjasvæðum var tálbeitan. Eftir að hafa gengið markvisst um Reykjanesskagann í áratug og safnað upplýsingum var ákveðið að koma gögnunum á stafrænt form, gert öllu áhugasömu fólki um landssvæðið aðgengilegt. Þau lýsa m.a. ágætlega við hvaða aðstæður og hvaða kost forfeður og – mæður bjuggu við hé ráður fyrr. Vefurinn hefur síðan þrisvar sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga vegna krafna um tæknilegar uppfærslur. Sérhver slík hefur í framhaldinu bæði kostað álitlega fjármuni og auk þess kostað einn mann a.m.k. árs vinnu við að aðlaga og uppfæra gamlar skrár að nýjum og bæði tengja þær gömlum myndum, sem jafnan hafa farið forgörðum, og endurnýja aðrar.“

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Hann: „Þetta er nú svolítið sérstakt í ljósi nýjustu umræðu sérfræðinga í fjölmiðlum um mikilvægi hreyfingar og útivistar á lýðheilsu almennings. Þið virðist, a.m.k. á þeim tíma, hafa verið svolítið á undan ykkar samtíð?“
Ég: „Við vorum á undan öðrum hvað varðaði tilgang og nýtingu hreyfingarinnar í þágu annars en hreyfingarinnar einnar vegna sem slíkrar. Áður höfðu t.d. Ferðafélagið og Útivist boðið upp á dagsgönguferðir, en til gangurinn var fyrst og fremst að fara frá A-B með formötuðum fróðleik. Þátttakendur þeirra félaga þurftu að greiða fyrir leiðsögnina, en í okkar tilvikum var hún að mestu ókeypis, auk þess sem öðru áhuga- eða átthagafólki, sem vildi taka þátt í „leitinni“, var frjálst að slást í hópinn. Í því áhugasama fólki fólust mikil áður óþekkt verðmæti. Áherslan var m.a. lögð á að grennslast fyrir um lifnaðarhætti fólksins okkar fyrrum. Vitneskja um fortíðina nýtist jú nútímafólki ágætlega – ef vel er skyggnst.

FERLIR

FERLIR – elsta vefsíðan.

Hef tekið eftir því undanfarið að yngri „sérfæðingar“ hafa birst í fjölmiðlum og talið sig hafa fundið lausnina á að viðhalda lýðheilsu landsmanna. Hún er, að þeirra sögn, fólgin í hreyfingu og útivist, sem eru jú reyndar bæði gömul sannindi og ný.“
Hann: „Var að spá. Þið hafið komið óhemjumiklum upplýsingum á framfæri, að ógleymdum öllum uppdráttunum af einstökum stöðum og svæðum. Hefur hann nýst öðru en áhugasömu fólki, t.d. opinberum aðilum, á einhvern hátt og hvernig ætlið þið eiginlega að viðhalda öllum fróðleiknum. Ef vefsíðan hverfur einn góðan veðurdag, eða jafnvel vondan, munu vissulega mikil verðmæti glatast.“

Ferlir

Ferlir – jólakort frá Dóru Hlín, einum Ferlisfélaganum árið 2000.

Ég: „Fróðleikurinn hefur fyrst og fremst verið gerður fyrir áhugasama einstaklinga. Uppdrættir af minjum og minjastöðum fylla heilans skáp. Margir þeirra hafa verið birtir með umfjöllunum á vefsíðunni. Við höfum jú sent opinberum stofnunum upplýsingar þegar einhvers staðar stefnir í óefni, t.d. við opinberar framkvæmdir, en höfum skynjað að lítill áhugi hefur verið þar innan dyra á slíkum ábendingum „áhugafólks“. FEERLIs félagar bentu t.d. á sínum tíma á fyrirhugaða eyðileggingu verktaka á vörslugarðinum í Tóum í Afstaðahrauni. Framkvæmdir voru, sem betur fer, stöðvaðar samstundis. Í ljós kom að eftirlitslaus verktakinn var kominn langt út fyrir heimilt framkvæmdarsvæði.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-Tóu.

Í dag stendur garðurinn enn við hinn forna Tóustíg á þeim slóðum.
Beinlínis vegna áhugaleysis hins opinbera hafa fornleifar því miður verið látnar fara forgörðum. Má þar nefna fornleifar að Úlfarsá í Úlfarsárdal, fjárskjól í Dalnum í Hafnarfirði og brennisteinsnámutóftir undir Baðstofu í Krýsuvík. Í tilviki fjárskjólsins létu yfirvöld hjá líðast, því miður – að viðhafast nokkuð án nokkurra viðurlaga eða áminninga þrátt fyrir augljóst tilefni. Í tilviki Krýsuvíkur létu yfirvöld hjá líðast að skrá fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæðinu, með tilheyrandi afleiðingum. Ljóst er að framangreindu að einhver í þágu hins opinbera er ekki að vinna vinnuna sína.“

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Héldum samtalinu áfram um stund – um nánast allt og ekkert, sem ekki verður fjölyrt um hér.
Hann: „Þetta er alveg ótrúlegur fróðleikur, eins og ég sagði. Eigið þið eftir við einhverju að bæta.“
Ég: „Já, reyndar. Að baki vinnu undanfarinna áratuga liggja fyrir hnitaskrár yfir allar skráðar fornleifar og náttúruminjar á Reykjanesskaganum, hvort sem um er t.d. að ræða, sel og selstöður, selstíga, brunna, fjárborgir, flugvélaflök, fornar þjóðleiðir, greni, hella og fjárskjól, letursteina, refagildrur, fjárréttir, skotbyrgi, sæluhús, vörður, bæði nafngreindar, með vísan í konungsútskurði eða við fornar leiðir, og aðrar tóftir á Reykjanesskaganum, svo eitthvað sé nefnt.

Skipsstígur

Skipsstígur – endurbættur skv. „nútíma“ kröfum á tímum hestvagnsins.

Við eigum bara eftir að finna út hvernig er hentugast að birta slík uppsöfnuð verðmæti almenningi til handa. Reynsla okkar er því miður sú að sumir skráningaraðilar fornleifa virðast nýta sér upplýsingarnar á vefsíðunni án þess að geta þeirra í heimildum sínum. Það er ólíðandi. Svo virðist sem sumir fornleifafræðingar virðast haldnir einhverri minniháttarkennd, þ.e. eru feimnir við að tala við og/eða vitna í heimildir og uppgötvanir áhugafólks. Sjálf höfum við reyndar tekið þátt í einstökum fornleifaskráningum, án þess að þiggja fyrir það greiðslur, sem jafnan hafa reynst þær bestu er þekkjast.“
Hann: „Var að spá. Hafið þið einhvern tíma fengið einhverja viðurkenningu fyrir framlagið?“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ég: „Já, vissulega. Daglega berast jákvæðir póstar frá einstaklingum á ferlir@ferlir.is er innifela þakklæti fyrir efnið, auk fjölda spurninga, s.s. um tilfallandi hnit á einstaka staði. Höfum ávallt svarað slíkum fyrirspurnum samdægurs. Höfum hins vegar aldrei fengið slíka pósta frá opinberum aðilum. Sum sveitarfélög á Reykjanesskaga hafa þó verið okkur hliðholl og styrkt okkur með smáupphæðum ár hvert, sem og einstakir notendur. Styrkirnir hafa hjálpað okkur til að viðhalda síhækkandi hýsingarkostnaði.
Hvert sem við höfum leitað hefur okkur ávallt verið vel tekið. Fólk hefur haft samband við okkur vegna upplýsinga eða heimilda, sem það hefur búið yfir frá forfeðrum sínum og sýnt okkur gögn er beinlínist stangast á við aðrar yfirlýstar sem slíkar.
Heimsóknir á vefsíðuna er u.þ.b. ein milljón á ári hverju.“

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Hann: „Þið eigið skilið riddarakross fyrir framlag ykkar. Ég er stoltur af því, að þú Grindvíkingurinn, skuli vera í forsvari fyrir þessu stórmerkilega verkefni. Þakka þér og þínum.“
Ég. „Myndi afþakka krossinn þann fyrir okkar hönd. Hann er einungis pjátur forsetaembættisins í anda forláta danska konungsveldisins og á ekkert skylt við uppeldislífsviðhorf okkar Íslendinga um aldir.“
Samtalið var nú truflað af öðrum nýkomnum í „Heita pottinn“. Sá hafði meiri áhuga á enn einu væntanlegu eldgosinu ofan Grindavíkur á næstu dögum…

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Reykjanesskagans í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

 

 

Reykjanesskagi

Margir virðast hafa mikinn áhuga á Reykjanesskaganum, enda úr fjölmörgu að velja.

Eldborg

Víða má sjá raskaðar jarðmyndanir – Eldborg undir Trölladyngju.

Á meðan sumir njóta þess að ganga um svæðið og skoða smáatriðin hafa aðrir gaman að því að aka um það og njóta útsýnisins.
Fá landsvæði bjóða upp á fjölbreyttari möguleika til útivistar. Ef benda ætti á einn tiltekinn stað öðrum fremri væri úr vandi að velja. Landssvæðið í heild er svo stórbrotið og fallegt; sjá má myndunina og jarðsöguna hvar sem á það er litið, menningarsagan er við hvert fótmál og ófáir staðir eru til sem ekki tengast þjóðtrú og sögulegum atburðum. Í rauninni er sá staðurinn fallegastur þar sem þú ert staddur hverju sinni. Allt umfram það er einungis myndbreyting í allri fegurðinni.
Í elstu heimildum segir að fyrst hafi land verið numið á Reykjanesskaganum, en svo er landssvæðið nú jafnan nefnt er þá spannaði landnám Ingólfs Arnarssonar.

Jarðhiti er óvíða meiri

Jarðhiti er óvíða meiri en á Reykjanesskaga.

Minjar frá fyrri tíð eru víðar en fólk grunar, jafnvel heilstæð búsetusvæði. Garðar eru enn víða heillegir, götur grópaðar í berghelluna og hlaðnar réttir eða fjárborgir skipta hundruðum. Brunnar voru svo til við hvern bæ og sjást fjölmargir þeirra enn. Verbúðir og mannvirki þeim tengdum eru víða við ströndina og ef vel er að gáð má sjá hlaðin skjól og sæluhús við gamlar þjóðleiðir. Til marks um verðmætin í minjunum einum má auk þess nefna að enn má sjá leifar um 250 selja á landssvæðinu. Þá eru víða vörður, sem hlaðnar hafa verið til marks um söguleg atvik, minningar um fólk er varð úti á ferðum sínum eða til leiðsagnar og tilvísunar. Auk þessa má nefna hina fjölmörgu hella á svæðinu. Sumir þeirra geyma mannvistarleifar.

Mannvistarleifar í helli

Mannvistarleifar í Húshelli við Hrútagjárdyngju.

Mikilvægt er að efla enn frekar áhuga fleirri á möguleikum Reykjanesskagans. Áður þarf þó að huga að ýmsu; sveitarstjórnarfólk þarf að sammælast um að eyða engu að óathuguðu máli er skipt getur máli í framangreindu samhengi, íbúarnir sjálfir þurfa að verða meðvitaðir um möguleikana og tala um þá með jákvæðum formerkjum, áhugafólk með þekkingu á svæðinu þarf að ýta undir áhuga annarra og fagfólk, ekki síst í minjavörslunni, þarf að beina athygli sínu að svæðinu í mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þá er gildi aukinnar samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í heild aldrei ofmetin.
Það fólk, sem hefur aflað sér mikillar vitneskju um svæðið, skoðað það lengi, leitað uppi vettvang er lýst hefur verið eða sagt frá í ræðu og riti, uppgötvað annað áður óþekkt, fengið tækifæri til að setja hluti í samhengi eða sýna fram á rangildi, þarf að vera meðvitað um mótunaráhrif sín. Hér vegur jákvæðnin þyngst á vogarskálunum. Sem dæmi má taka örnefni.

Atvinnusagan

Atvinnusagan sögð í Saltfisksetrinu í Grindavík.

Gamalt fólk býr yfir mikilli þekkingu á þessum þætti og felast í upplýsingum þess mikil verðmæti. Vitað er þó að örnefni hafa breyst frá einum tíma til annars og til eru þeir staðir, sem fólk þekkir undir fleiru en einu nafni. Þá hafa örnefni færst á milli, t.d. hæða og hóla. Stundum bregst fólk, sem telur sig búa yfir mikilli eða staðbundinni þekkingu, illa við upplýsingum um annað en það sjálft telur hið eina og rétta. Oft hefur þurft að verja lengri tíma í að leiðrétta slíkt fólk og færa rök fyrir hinu gagnstæða en að svara fyrirspurnum þess er minni vitneskju á að hafa, öllu jöfnu.
Mikið hefur breyst á skömmum tíma og margt færst til betri vegar í framangreindum efnum. Enn sem fyrr er sérstaklega mikilvægt að allir hlutaðeigandi samhæfi sig í að efla upplýsingamiðlun, auðvelda aðgengi og hvetji aðra til að nýta sér hina stórkostlegu möguleika Reykjanesskagans til útivistar.
Líklegt má telja að við lok goshrinunnar liðinna missera ofan Grindavíkur sem og í dölum Fagradalsfjalls muni ásókn ferðafólks aukast til mikilla muna að svæðinu. Mikilvægt er að huga að því framtíðarverkefni i tíma svo náttúruverðmætum verði ekki raskað að óþörfu til lengri framtíðar litið. 

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Sól og skuggar

FERLIR fékk senda eftirfarandi frásögn skömmu eftir áramót 2012-2013:

„Ég sendi lýsingu á ótrúlegri, stórkostlegri ljósadýrð á svæðinu á milli Þorbjarnar og Þórðarfells föstudaginn 14. desember 2012.

geimur-3Það var föstudaginn 14. desember 2012 sem ég var staddur á Grundartanga í Hvalfirði í ákaflega góðu veðri, landið skartaði sínu fegursta með sólina í aðalhlutverki, birtan sérstök, sólin lagt á lofti sem setti sérstakan litblæ á landið og magnaði upp gil og skorninga með skuggavarpi.

Það var svo þegar klukkuna vantaði um það bil 15 mínútur í fjögur þegar ég var á leið til höfuðborgarinnar nýkominn á þjóðveginn að framundan eru tvö sterk ljós í fjarska, í stefnu á höfuðborgarsvæðið,  þó greinilega ekki frá Reykjavík, heldur nokkru hærra og fjær að sjá úr Hvalfirðinum. Ljósamagnið var svo mikið að þau voru líkust stórum þorpum, þar sem ég vissi fyrir að á þessu svæði sem ljósin birtust væri engin mannabyggð, var ég að velta fyrir mér hvar þetta gæti verið. Það sem var ljóst var að ljósin sáust á milli fellanna Þorbjörns og Þórðarfells, en þau sjást ágætlega og eru vel þekkjanleg úr Hvalfirði.

geimur-5Á örstuttum tíma breytist ljósadýrðin, þannig ljósið sem er nær Þórðarfelli myndar nokkurskonar hyllingar og þá er eins og stórt skemtiferðaskip birtist, varir þetta ljós í mjög stuttan tíma, og skyndilega hverfa þessi ljós, en nú  sést hvað er að gerast, sólin hverfur loks á bakvið landslagið, og þá er eins og hvítar ljósaseríur logi á landslaginu sem stendur hæst milli fellanna. Þegar betur er að gáð, eru það gígar í Eldvörpum sem sólin lýsti svo fallega upp, og menn horfðu á og hrifust af alla leið ofan úr Hvalfirði.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga.

Þennan dag sá ég fallegust jólaljós sem ég hef séð.

Ég sendi þér þessa lýsingu, vegna þess að mér þykir hún svo sérstök, og hún lýsir landslagi á Reykjanesskaga, sem hefur áhrif  á fólk í mikilli fjarlægð, jafnvel þó landslagið sé ekki hátt yfir sjávarmáli.
Þá vill ég að lýsingin geymist, en gleymist ekki.

Það er sjálfsagt að birta þessa lýsingu, enda skrifaði ég hana niður til að festa þessa minningu í sessi. Því miður var ég ekki með myndavél meðferðis, en ef hún hefði verið til staðar hefði ég stoppað og tekið eins mikið af myndum og ég hefði getað.“

Takk fyrir mig;
Eyjólfur Guðmundsson.

Reykjanesskagi

Eldgos og norðurljós ofan Grindavíkur.