Tag Archive for: Reykjanesskagi

Hengill

Páll Imsland skrifar um „Þróun jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa – sprungumyndunarsögu“ í Náttúrufræðinginn árið 1985.

Inngangur

Páll Imsland

Páll Imsland.

Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi.
Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin ljósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn.
Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.

Um sprungusveima og megineldstöðvar og hlutverk þeirra í jarðskorpumyndun
Sprungur
Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn.

Sprungur

Sprungur ofan Grindavíkur.

Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu. Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni.
Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“. Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri.
Sprungur
Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast. Ásamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu.
Sprungur
Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Náttúrufræðistofnun.

Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv.

Esja

Esjan – jarðfræðikort.

Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið sprungusveimsins. Eldvirkni og sprunguvirkni hefst því á Kjalarnessprungusveimnum nokkrum hundruðum þúsunda ára áður en megineldstöðin sjálf hefur þróast svo, að hún verði þekkjanleg í jarðlagastaflanum. Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengilssprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.
Um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins hefur ýmislegt verið ritað og er vitnað til þess helsta í köflunum, sem á eftir fylgja. Jarðfræðileg kortlagning svæðisins var gerð af þeim Tómasi Tryggvasyni og Jóni Jónssyni (1958). Er það kort í mælikvarðanum 1:40.000 og sýnir fyrst og fremst lausu jarðlögin ofan á berggrunninum, sem þó er mjög víða sýnilegur í gegn um lausu þekjuna.

Jarðlög og berg við sunnanverðan Faxaflóa

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir:
(1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.
(2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardals-sveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

(3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík,Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

(4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt.
Á þeim tíma, er forverar Hengilssprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.

Tertíer-, ár- og miðkvarter
Jarðfræðikort
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall. Þetta berg er myndað í sprungusveimum, sem ekki verða til umfjöllunar hér. Á því hvílir það berg, sem myndar berggrunninn á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu.

Jarðfræði

Jarðfræði.

Meginhluti þess bergs, sem nú finnst á yfirborði, myndaðist í árkvarteru sprungusveimunum tveimur. Það finnst í Esju og þeim fjallabálki, sem henni tengist. Það er því myndað í nyrðri hluta kerfanna. Botn Faxaflóa úti fyrir höfuðborgarsvæðinu er einnig gerður úr bergi frá Kjalarneskerfinu, þ.e.a.s. suðurhluta þess. Ofan sjávarmáls sést í þetta berg, þar sem það hverfur undir grágrýtið í Viðey, Kleppsskafti, Geldinganesi og fleiri stöðum. Einnig kemur það fram ofarlega í borholum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið (Ragna Karlsdóttir 1973). Tiltölulega meira berg er sýnilegt úr suðurhluta Stardalskerfisins, enda er kerfið yngra og minna rofið. Það finnst í fjöllunum vestan Mosfellsheiðar. Í Seljadal og sunnan Úlfarsár hverfur það undir grágrýtið. Lítið er vitað um það, hvernig þessi árkvarteru jarðlög enda í staflanum undir grágrýtinu.
Mörk árkvarteru myndunarinnar og grágrýtisins hlýtur eiginlega á flestum stöðum að vera strand-mislægi. Hver heildarþykkt ákvarteru myndunarinnar er liggur ekki ljóst fyrir, en neðri mörk hennar eru mótin við tertíera bergið. Á yfirborði finnst það fyrst norðan Hvalfjarðar. Ummyndað og holufyllt árkvartert berg kemur fyrir í borholum um allt höfuðborgarsvæðið.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Fræðileg samstilling jarðlaga og uppröðun þróunarsögunnar innan þessarar myndunar, er að því er virðist töluvert erfið í smáatriðum. Bergið í þessari árkvarteru myndun er mestmegnis allvel holufyllt basalthraunlög og basískt móberg, enda var landið ýmist hulið jöklum eða ísfrítt á myndunarskeiðinu. Slæðingur af súru bergi finnst, einkum úr Stardalsmegineldstöðinni. Það kemur fyrir í Móskarðshnjúkum og Grímmannsfelli (sjá Helga Torfason 1974). Innskotsberg er einnig töluvert áberandi í þessum jarðlagastafla. Er þar bæði um að ræða ganga og minniháttar óregluleg innskot eins og til dæmis í Þverfelli og umhverfis Stardal (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Gangarnir mynda kerfi með sömu stefnu og sprungukerfin hafa, enda eru þeir storknuð kvika, sem leitaði inn í sprungukerfið.

Fyrri hluti síðkvarters — grágrýtið
Hrútargjárdyngja
Ofan á árkvarteru myndunina leggst grágrýtið. Núverandi þekja þess teygir sig frá Þingvallavatni í sjó fram, sitt hvorum megin við Mosfellssveitarfjöllin. Það finnst á öllum nesjum og eyjum frá Hvaleyri til Brimness. Það finnst í ásum og holtum á höfuðborgarsvæðinu, frá Ásfjalli í suðri til Keldnaholts og Reynisvatnsáss í norðri. Það er einkennisberg flatlendisins ofan Lækjarbotna, umhverfis Sandskeið og á Mosfellsheiði.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Vogar og Stapi.

Stór og mikill fláki af sama bergi finnst sunnar við Faxaflóa og myndar þar Vogastapa, Miðnesheiði og Garðaskaga. Hvort þetta syðra svæði tengist hinu nyrðra beint um botn flóans úti fyrir Vatnsleysuströnd er óljóst. Það gæti eins verið stök myndun. Heildarþykkt grágrýtisins á svæðinu er óþekkt en í borholum reynist það víða allþykkt (Jens Tómasson o.fl. 1977). Þrátt fyrir rofið yfirborð sjást víða um 40 m af því á yfirborði í einu hrauni. Sem jarðlagamyndun með millilögum er það varla undir 150—200 m. Þó grágrýtið sé myndað á tiltölulega stuttu tímaskeiði, þá fer aldur þess almennt lækkandi eftir því sem austar dregur. Neðstu og elstu hlutar grágrýtismyndunarinnar finnast vestur við sjó, í Reykjavík, á Álftanesi og Brimnesi, o.s.frv. Efst og yngst er grágrýtið austur á Mosfellsheiði. Grágrýtið er yfirleitt fremur grófkorna bergtegund. Það er basalt eins og blágrýtið í eldri myndunum og flestöll yngri hraun. Það er opnara að innri gerö, kristallarnir liggja ekkí þétt saman, svo á milli þeirra eru smáholrúm. Þetta einkenni er líklega meginástæðan fyrir hinum ljósa lit grágrýtisins og á þátt í því að grágrýtið er yfirleitt tiltölulega vatnsgæft. Mjög mörg grágrýtishraunin eru tiltölulega frumstæð basölt. Helsta sýnilega einkenni þessarar frumstæðu samsetningar er mikið magn ólivíndíla, einnar af frumsteindum basalts.

Hengill

Hengill.

Dyngjur þær, sem myndast hafa eftir að ísöld lauk, eru margar gerðar úr bergi, sem mjög líkist grágrýti hlýskeiðshraunanna frá síðkvarter. Auk þess er ýmislegt annað líkt með dyngjunum og þessum hraunum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Yfirleitt telja því jarðfræðingar að síðkvartera grágrýtið á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar víðar, sé komið úr dyngjum. Dyngjulögunin er þó í flestum tilvikum horfin svo og sjálfir gígarnir. Upptök grágrýtisins eru því yfirleitt óþekkt. Pað hefur vegna þessa (líkrar berggerðar og samsetningar og horfinna flestra upprunalegra yfirborðseinkenna) reynst mjög erfitt að deila grágrýtinu upp í einstök hraun, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Grágrýtið var fyrr á tímum gjarnan afgreitt sem ein stór myndun komin úr Borgarhólum á Mosfellsheiði (Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 og Þorleifur Einarsson 1968), en nú á síðari árum hefur sýnt sig (sbr. Jón Jónsson 1972), að þetta er of mikil einföldun. Að hluta til hefur hún verið leiðrétt með því að greina grágrýtisflákann upp í smærri myndanir (Ragna Karlsdóttir 1973; Árni Hjartarson 1980; Kristján Sæmundsson 1981), þó öll kurl séu langt frá því komin til grafar.

Grágrýti

Grágrýti.

Nokkuð bendir til þess, að enn eimi eftir af upprunalegu landslagi í grágrýtinu, þrátt fyrir jökulrof og sjávarágang.

Basalt

Basalt (grágrýti).

Grágrýtið er víða enn mjög þykkt, jafnvel svo að skiptir nokkrum tugum metra. Sú skoðun hefur því komið fram, að upptakasvæði sumra grágrýtiseininganna sé að finna í námunda við þykkustu hluta þess (sbr. Jón Jónsson 1978). Enn sem komið er, er þó ekki gengið úr skugga um þetta. Ef satt er, bendir þetta til þess að upptök grágrýtisins séu ekki eins tengd sprungusveimum og upptök annarra hrauna.
Árkvart eru kerfin tvö, sem að ofan er lýst, voru virk á tímabilinu frá 2.8 – 1.6 miljón ára. Grágrýtið, sem ofan á jarðmyndanir þeirra leggst, er allt rétt segulmagnað (Leó Kristjánsson 1982, munnlegar upplýsingar), þ.e.a.s. með sömu segulstefnu og ríkir á svæðinu í dag. Grágrýtið hefur því runnið sem hraun á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu segulumpólun, fyrir 700 þúsund árum, eða á síðkvarter.

Lok síðkvarters og nútími – móberg og hraun

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar.

Móberg

Móberg.

Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana.
Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp. Þó þetta berg skiptist í tvær ólíkar berg gerðir og önnur þeirra (móbergið) sé eldri, þá er það allt ættað úr sömu einingunum (virku sprungusveimunum). Báðar berggerðirnar eiga því saman sem „stratigrafísk“ og tímaleg eining.

Móberg

Móberg í Henglinum.

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum.

Móberg

Móberg.

Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin. Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti. Vatn hripar því auðveldlega niður í myndunina, enda rennur hvorki á né lækur til sjávar á milli Lækjarins í Hafnarfirði og Ölfusár.
Ekki verður séð að aldursmunur sé á einstökum sprungusveimum innan myndunarinnar. Uppbygging er mest og land stendur hæst á Hengilssveimnum, sem er lengst inn til landsins. Uppbyggingin er hins vegar minnst og land stendur lægst á Reykjanessveimnum, sem nær lengst út til sjávarins. Hlutfallslega virðist móberg vera mest inni á Hengilssveimnum, en minnst úti á Reykjanessveimnum. Þetta gæti bent til þess, að Hengilssveimurinn væri ef til vill eitthvað eldri. Það er þó líklegra að öll þessi einkenni spegli fremur afkastagetu sprungusveimanna og mismikla virkni en verulegan aldursmun.

Saga jarðskorpumyndunarinnar á Suðvesturlandi í stuttu máli

Skálafell

Skálafell – Stardalur fremst.

Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára.

Stardalshnúkur

Stardalshnúkur.

Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Það getur því vart verið, að hann einn eigi sök á færslu Stardalsskerfisins vestur á bóginn. Líklegast er, að á tímabilinu á milli u. þ. b. 1.8 miljón ára og þess að Hengilssveimurinn tók við gliðnunarhlutverkinu, hafi verið virkur sprungusveimur, sem nú ætti að finnast útdauður á milli Hengils og Stardals. Ekki hefur þó slíkt kerfi fundist, en sá möguleiki er fyrir hendi, að það sé til staðar undir hinni miklu grágrýtisþekju á Mosfellsheiði og nágrenni.
Annar möguleiki er að í langan tíma hafi að lokum verið tiltölulega þétt hrina stórra dyngjugosa, sem framleiddu grágrýtið.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Á tímum þessara árkvarteru kerfa myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði. Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981).

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlaga- og móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest. Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans. Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.

Höggunin, um aldur hreyfinganna og fleira

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Höfuðborgarsvæðið liggur utan gosbeltisins, þar sem jarðskorpan myndast í dag. Það er að mestu leyti þakið grágrýtinu, sem er á milli gömlu útdauðu sprungusveimanna og hinna virku. Grágrýtið rann á sínum tíma út yfir sprungið land gömlu sprungusveimanna. Það virðist sjálft ekki hafa myndast á sprungusveimum eða í beinum tengslum við sprungusveima og er því óbrotín og ósprungin myndun við lok myndunarskeikvartera jarðlagastaflann líka.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Gömlu og nýju sprungurnar eru sama eðlis og líklega er mjög erfitt að greina þær að í árkvartera berginu, einkum vegna þess, að stefna þeirra virðist vera í megindráttum nær alveg sú sama (sjá Jefferis og Voight 1981). Gömlu sprungurnar gætu því eins vel hafa tekið að hreyfast aftur í vissum tilvikum, eins og nýjar að myndast. Grágrýtið sjálft er mest sprungið á vestanverðri Mosfellsheiði, í beinu framhaldi af sprungusveim Brennisteinsfjallanna og umhverfis Elliðavatn, í beinu framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum. Framhald Reykjanessprungusveimsins til norðausturs stefnir beint á Reykjavík. Sprungurnar hverfa í sjó á Vatnsleysuströnd, en þær hafa ekki fundist á landi á Álftanesi eða í Reykjavík. Grágrýtið á þessum stöðum er því að mestu óbrotið, að því er virðist. Erfitt er þó að fá af þessu óyggjandi mynd, vegna þess hversu byggt land er orðið í Reykjavík og sprungukort voru ekki gerð í tíma, eins og nú er farið að gera á framtíðarsvæðum byggðar á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Halldór Torfason 1982). Árkvartera bergið undir grágrýtinu er hins vegar brotið, en þau brot tilheyra Kjalarnessprungusveimnum, eins og fyrr segir. Hvort líkur eru á að sprunguvirkni Reykjanessprungusveimsins nái til Reykjavíkur í framtíðinni, er háð því á hvaða stigi Reykjanessprungusveimurinn er. Sé hann enn vaxandi að virkni er ekki útilokað að hann eigi eftir að brjóta Reykjavíkurgrágrýtið á sama hátt og Krýsuvíkursprungusveimurinn hefur brotið grágrýtið umhverfis Elliðavatn og Rauðavatn, og Brennisteinsfjallasveimurinn hefur brotið grágrýtið á vestanverðri Mosfellsheiði. Sé hann á hinn bóginn í hámarki virkni sinnar eða farinn að dala, verður að sama skapi að teljast ólíklegt að hann brjóti nokkurn tíma Reykjavíkurgrágrýtið.
Reykjanesskagi
Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanessprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á Krýsuvíkursprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið.
SprungurGrágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m. Einum 6—7 km norðar rann hraun í gegnum sundið á milli Skyggnis og Seláss niður eftir Elliðaárdalnum. Hraun þetta er komið upp í Leitum austan Bláfjalla og hefur runnið norður undir Kolviðarhól, svo niður á Sandskeið, um Lækjarbotna og Elliðaárdal til sjávar í Elliðavogi (Þorleifur Einarsson 1961). Samkvæmt geislakolsaldursákvörðun á mó undan hrauninu í Elliðavogi, þeirri fyrstu á íslensku efni, rann þetta hraun fyrir um það bil 5300 árum (Hospers 1953 og Jóhannes Áskelsson 1953).

Sprungur

Sprungumyndun eftir jarðskjálfta.

Samskonar aldursákvörðun á birkikolum undan hrauninu í Elliðaárdal, gerð síðar (Jón Jónsson 1971), gefur heldur lægri aldur, eða um 4600 ár, sem er líklega nær hinu rétta. Hraun þetta er óbrotið í sundinu við Skyggni, þar sem það liggur 4- 5 m þykkt ofan á 2 m af lausum jarðlögum (Gestur Gíslason og Páll Imsland 1971). Austurbrún Selássins norðan sundsins er misgengisstallur á sama misgengja- og sprungusveim og Hjallamisgengið. Fleiri misgengi á þessum sprungusveim liggja norður um svæðið austan Elliðavatns og skera þar grágrýtið beggja vegna Leitahraunsins, án þess að nokkurra brota verði vart í hrauninu (sbr. Jón Jónsson 1965). Það verður því að teljast nær fullvíst, að ekki hafi orðið hreyfing á þessum misgengjasveim norðan Elliðavatns síðustu 4600 árin, þó ljóst sé, að 6- 7 km sunnar hafi orðið allt að 7 m misgengi á brotum á sama sprungusveim einhvern tíma á síðustu 7200 árum. Leitahraun er hins vegar brotið austur við Vatnaöldur (Jón Jónsson 1982, munnl. upplýsingar), þar sem Brennisteinsfjallasprungusveimurinn sker það. Verið getur að brotavirkni á öllum norðurhluta Krýsuvíkursprungusveimsins hafi dáið út á tímabilinu milli 7200 og 4600 ára. Hitt er líklegra, að áhrifa brotavirkninnar gæti minna eftir því, sem norðar dregur og 7 m misgengið við Búrfellsgjá deyi út áður en það nær norður að Skyggni. Í síðara tilvikinu segir aldur hraunanna ekkert til um lágmarksaldur síðustu misgengjahreyfinga á brotum.

Lambafell

Lambafell í Krýsuvík – forn dulbúin dyngja.

Krýsuvíkursveimurinn hefur sem sagt ekki náð að brjóta og hreyfa grágrýtið í Reynisvatnsheiði á síðustu 4600 árum. Ekki liggur fyrir næg vitneskja um eðli og hegðun sprungusveima til þess að draga megi af þessu mjög ákveðna vitneskju um framtíðarhorfur.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Yfirleitt virðist sem 5000 ár á milli atburða á sprungusveimum rekbeltanna sé mjög langt hlé, en hér er þess að gæta, að um er að ræða ysta jaðar sprungusveimsins, svo langt frá hámarki virkninnar sem komist verður. Hvenær á „lífsferli“ sprungusveims slíkir jaðrar eru virkastir er ekki vitað með neinni vissu.
Grunnvatnsstreymi allt, ekki síst í jarðhitakerfunum í landinu, er yfirleitt talið standa í mjög nánum tengslum við sprungukerfin. Árkvarteru sprungukerfin hafa þannig, að því er virðist, afgerandi áhrif á lághitasvæðin í Reykjavík og Mosfellssveit. Virku sprungusveimarnir stjórna hins vegar rennsli vatns og gufu í háhitasvæðunum á Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli.
Kaldavatnsrennslið á sér stað grynnra og ungar sprungur í grágrýtinu og ungu hraununum stjórna rennsli þess á Elliðavatns-Heiðmerkursvæðinu að einhverju leyti. Vegna þess hversu hátt í jarðskorpunni kaldavatnsstraumurinn á sér stað og þeirrar staðreyndar, að þar eru jarðlög, grágrýti, móberg og hraun, mjög opin að innri byggingu, er kalda vatnið minna háð sprungum um rennsli en heita vatnið, sem streymir dýpra og í þéttara bergi.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.04.1985, Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, Páll Imsland, bls. 63-74.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – misgengi.

Sprunga

Ágúst Guðmundsson skrifaði um „Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra“ í Náttúrfræðinginn 1986:

Sprungur

Sprungur á Þingvallasvæðinu.

Inngangur
„Sprunguþyrpingar, þ. e. belti af opnum gjám og misgengjum, eru algengar í gosbeltum hér á landi, en finnast einnig á eldvirkum svæðum erlendis. Almenn lýsing á öllum sprunguþyrpingum á Íslandi er í grein Kristjáns Sæmundssonar (1978), en ítarleg lýsing á einstöku sprungusvæði er í grein Ágústs Guðmundssonar (1980) um sprungurnar við Voga á Vatnsleysuströnd.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Jón Jónsson (1978) hefur einnig lýst sprungunum á Reykjanesskaga. Sprunguþyrpingar hér á landi eru allt að 20 km breiðar og 100 km langar. Flestar eru þó talsvert minni að flatarmáli, og almennt eru sprunguþyrpingarnar álíka að flatarmáli og rofnar gangaþyrpingar (Walker 1974).
Á síðustu árum hafa umfangsmiklar rannsóknir farið fram á sprunguþyrpingunni við Kröflu (Axel Björnsson o. fl. 1979, Oddur Sigurðsson 1980, Torge 1981, Eysteinn Tryggvason 1980). Kröfluþyrpingin gliðnaði um nokkra metra á tímabilinu 1975-1983. Gliðnunin er talin orsakast af göngum sem troðast lárétt inn undir þyrpinguna á nokkurra kílómetra dýpi (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir 1980, Pollard o. fl. 1983). Stundum ná þó gangarnir til yfirborðs og verða þá sprungugos. Utan Íslands hafa sprunguþyrpingarnar á Hawaii einkum verið kannaðar og virðast að flestu leyti mjög áþekkar hinum íslensku (Duffield 1975, Pollard o. fl. 1983).

Hrútagjá

Hrútagjá.

Sprunguaflfræði er vísindagrein sem hefur þróast ört á síðustu áratugum (Broek 1978). Beiting hennar í jarðfræði er þó nýtilkomin, en hefur þegar varpað ljósi á ýmsa þætti í myndun og þróun jarðsprungna sem áður voru óljósir (Rudnicki 1980). Enn er þó margt óskýrt, en aukin áhersla er nú lögð á nákvæmar mælingar og tilraunir úti í náttúrunni ásamt athugunum á tilraunastofum (Logan 1979). Slíkar nákvæmar athuganir hafa meðal annars leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að allar jarðsprungur eru sundurslitnar eða ósamfelldar og því ber að fjalla um þær sem slíkar (Segall og Pollard 1980).
Sprungur
Sprungurnar á Þingvöllum eru hluti af mikilli sprunguþyrpingu sem kallast Hengilsþyrpingin (Kristján Sæmundsson 1978, Eysteinn Tryggvason 1982) og nær frá Langjökli í norðri til Reykjanesskaga í suðri. Þær sprungur sem hér verður rætt um liggja norðan við Þingvallavatn í um 9000 ára gömlu helluhrauni (Guðmundur Kjartansson 1964).

Þingvellir

Almannagjá.

Oft hefur verið talið að Þingvallahraunið sé frá Skjaldbreið. Svo mun þó ekki vera, heldur er það komið úr 15 km langri gossprungu á Tindfjallaheiði, vestan við Kálfstinda, og liggur það ofan á Skjaldbreiðshrauninu (Kristján Sæmundsson 1965). Þótt Þingvallahraunið sé úr gossprungu er það dæmigert helluhraun (dyngjuhraun), beltað og tuga metra þykkt, eins og best sést í veggjum Almannagjár.
Á undanförnum árum hafa margvíslegar jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar athuganir verið gerðar á Þingvallasprungunum, og verður helstu niðurstöðum lýst hér á eftir. Meginefni greinarinnar eru þó mælingar sem höfundur gerði á nokkrum af stærri sprungunum sumarið 1981 og tilgátur um myndun og þróun þeirra.

Fyrri rannsóknir
Sprungur
Þingvallasprungurnar hafa verið kannaðar bæði jarðfræðilega og jarðeðlisfræðilega á síðustu áratugum, og er rétt að geta hér helstu rannsóknanna.

Þegar árið 1938 var gerð ítarleg könnun á Þingvallasprungunum, sem meðal annars fól í sér mælingu á samanlagðri vídd sprungna í tilteknu sniði (Bernauer 1943).

Þingvellir

Þingvellir.

Bernauer og félagar gengu yfir Þingvalladældina milli Almannagjár og Heiðargjár og mældu vídd hverrar sprungu sem þeir rákust á. Niðurstaðan var sú að vesturhluti dældarinnar, 1310 m breiður, hefði gliðnað um 41,2 m, en austurhlutinn, 2150 m breiður, hefði gliðnað um 33,85 m. Engin sprunga reyndist vera í 2,7 km breiðum miðhluta dældarinnar. Heildargliðnun 6160 m mælisniðs yfir Þingvalladældina reyndist því um 75 m, sem jafngildir 1,25%.
Kristján Sæmundsson (1965, 1967) kortlagði helstu sprungur Þingvalla sem hluta af kortlagningu Hengilsvæðisins. Í grein Kristjáns frá 1965 er yfirlit yfir allar fyrri rannsóknir á Þingvöllum, og vísast í það yfirlit um rannsóknir eldri en Bernauers (1943). Þrír rannsóknarhópar hafa á síðustu árum reynt að mæla hraða gliðnunar á Þingvöllum. Þýskur hópur mældi 1967 og 1971, en fann enga marktæka gliðnun eða samþjöppun á því tímabili (Gerke 1974). Bandarísk-íslenskur hópur mældi 1967, 1970 og 1973, og reyndist gliðnunarhraðinn 3 mm á ári tímabilið 1967-1973 (Decker o.fl. 1976). Hópurinn reyndi einnig að mæla hreyfingu samsíða Almannagjá, þ. e. hliðarhreyfingu, en engin fannst.
Sprungur
Niðurstöðurnar sýna að láréttar hreyfingar á Þingvallasvæðinu eru óreglulegar; svæðið næst Almannagjá þjappast saman en svæðið næst Hrafnagjá gliðnar, þannig að lokaniðurstaðan er gliðnun um 2 cm á ofangreindu tímabili. Enskur hópur mældi 1968-1972, 1977 og 1979. Niðurstöðurnar benda til gliðnunar í stefnu þvert á sprungustefnuna, að meðaltali um 3 mm á ári á tímabilinu 1970-1979 (Brander o. fl. 1976, R.G. Mason, munnlegar upplýsingar, 1981).
Eysteinn Tryggvason (1974) hefur mælt lóðrétta færslu eða sig á Þingvallasvæðinu. Niðurstöður hans benda til 2,5 mm sigs austurhluta dældarinnar, miðað við svæðið vestan við Almannagjá, tímabilið 1966-1971. Eysteinn (1968) áætlar mesta sigið á svæðinu 70 m og telur (1982) að breidd þess svæðis sem sígur kunni að vera meiri en breidd Þingvalladældarinnar, þannig að raunverulegur sighraði gæti verið talsvert meiri en þeir 2,5 mm hér á undan.

Stefna
Sprungur
Meðalstefna sprungnanna er N30°A, og er þá átt við línulega stefnu milli sprunguenda. Einstakar sprungur eru hlykkjóttar og víkja sums staðar talsvert frá meðalstefnu. Dæmi um slíkt er Gildruholtsgjá sem er stórt misgengi á austurhluta Þingvallasvæðisins. Gildruholtsgjá liggur í áberandi sveig þar sem misgengið um hana er mest, en þrátt fyrir það er línuleg stefna milli endanna áþekk meðalstefnu sprungna á svæðinu. Flestar sprungur á svæðinu víkja þó lítið frá meðalstefnu.

Lengd
Sprungur
Lengd sprungna er ávallt háð túlkun þar sem þær eru yfirleitt ósamfelldar (sundurslitnar) og klofnar. Í þessari grein hefur sú aðferð verið notuð að telja sem eina sprungu togsprungu eða misgengi sem rekja má óslitið á loftmyndum í mælikvarða 1:33300. Þessi kvarði var valinn til að auðvelda samanburð við sprunguþyrpinguna við Voga (Ágúst Guðmundson 1980) og til að útiloka smásprungur og stuðlasprungur sem sjást á loftmyndum í stærri mælikvarða.
Meðallengd þeirrar 101 sprungu sem mæld var er 620 m. Stysta sprungan mældist 57 m en sú lengsta 7,7 km (Almannagjá). Flestar sprungurnar eru hlutfallslega stuttar, en örfáar mjög langar. Til dæmis eru 44 sprungur styttri en 250 m og 72 styttri en 500 m. Hins vegar eru aðeins 12 sprungur lengri en 1000 m.

Vídd
Sprungur
Vídd sprungna var mæld með 25 eða 50 m millibili. Víddin er að vísu breytileg en oft mest nálægt miðri sprungunni og minnkar svo til beggja enda. Mesta vídd mældist á Hrafnagjá, 68 m. Mesta vídd Almannagjár mældist 64 m, en báðar þessar mælingar eru gerðar eftir loftmyndum. Mesta vídd úti í náttúrunni mældist á Hrafnagjá, 60 m. Þar sem sprungurnar eru víðastar hafa þær lögun langra, mjórra sigspildna.

Lóðrétt færsla

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Allar stórar sprungur á Þingvallasvæðinu eru að hluta til siggengi, og margar af smærri sprungunum hafa mælanlega lóðrétta færslu í einstökum mælipunktum. Siggengisveggirnir eru venjulega því sem næst lóðréttir. Sum siggengin eru lokuð, en önnur eru opnar gjár. Sums staðar eru þau því sem næst bein, en annars staðar hlykkjótt. Lóðrétt færsla mældist mest 28 m í einum punkti við Almannagjá, og er þá átt við brúnir misgengisveggjanna. Þar sem austurveggurinn stendur 10 til 20 m hærra en landið rétt austan við hann er heildarsigið um Almannagjá mest um 40 m (Kristján Sæmundsson 1965). Þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1974) liggur yfir Almannagjá er sigið 30-35 m, og er þá áttvið brún misgengisins að vestan og lægstu stöðu lands rétt austan við eystri misgengisbrúnina. Sigið um Gildruholtsgjá er 25 m í mörgum mælipunktum nálægt miðju hennar. Mesta sig um flest misgengin er þó aðeins nokkrir metrar.

Almannagjá og Hrafnagjá
Almannagjá og Hrafnagjá eru meginsprungur Þingvallasvæðisins og eru jafnframt þau misgengi sem mynda Þingvalladældina, þ. e. sigdalinn. Báðar eru sprungurnar siggengi, en útlit þeirra er samt talsvert mismunandi. Hér á eftir fer lýsing á þessum sprungum.

Almannagjá

Almannagjá

Almannagjá.

Til samans mynda Hestagjá, Almannagjá, Stekkjargjá, Hvannagjá og nokkrar smærri sprungur 7,7 km langa sprungu sem hér verður einu nafni nefnd Almannagjá. Gjáin er víðust 64 m. Sprungurnar sem til samans mynda Almannagjá hafa upphaflega verið hliðraðar, með nokkuð breytilega stefnu, en síðan vaxið saman í brotahrinum.

Þingvellir

Þingvellir – Almanngjá.

Hlutarnir sem tengja sprungurnar saman víkja víða nokkuð frá meðalstefnu Almannagjár og eru oft tengdir smásprungum. Fyrst hefur Almannagjá komið fram á yfirborðinu sem belti af hliðruðum sprungum, en þær síðan sameinast við aukna gliðnun á svæðinu.
Í suðri gengur Almannagjá yfir í röð af skástígum sprungum. Sprungurnar sjálfar hafa áþekka stefnu og meðalstefna Almannagjár, en til samans mynda þær belti sem víkur talsvert frá stefnu hennar. Þetta bendir til þess að undir þessu belti af skástígum sprungum sé eldra misgengi sem ákvarði staðsetningu og stefnu sprungubeltisins, en sprungurnar sjálfar opnist í stefnu mestu togspennu. Sums staðar er Almannagjá klofin upp í nokkrar meira og minna samsíða sprungur. Í sumum tilfellum hefur landspildan milli sprungnanna sigið nokkra metra, en í öðrum tillfellum ekki. Flestar þær sprungur sem mynda Almannagjá eru mjóar sigspildur, sem hafa orðið til við það að landræman milli samsíða sprungna hefur sigið. Þótt Almannagjá sé siggengi er hún því einnig gapandi gjá.

Hrafnagjá
Hrafnagjá
Innan Þingvallahrauns er Hrafnagjá ekki nema um 4,4 km að lengd og sker móbergsfjallið Arnarfell. Ef þessi suðurhluti er talinn með, svo og belti af smásprungum norðan víð gjána, er hún yfir 11 km löng. Mesta vídd er 68 m, sem jafnframt er mesta vídd í einum mælipunkti á svæðinu. Víddin er þó mjög breytileg, eða allt niður undir 0 m, en sigið, miðað við brúnir sprunguveggjanna, er nokkuð jafnt langs eftir gjánni; yfirleitt 5-10 m og mest um 20 m.

Hrafnagjá

Hrafnagjá við Þingvelli.

Ef miðað er við lægstu stöðu landsrétt vestan við Hrafnagjá og austurbrún gjárinnar er sigið þó meira, til dæmis um 30 m þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1968) liggur yfir gjána.
Hrafnagjá er samsett af mörgum skástígum, ílöngum sigspildum sem eru að hluta til samvaxnar. Í þversniði líkjast þessar sigspildur helst U-laga dal, öfugt við Almannagjá þar sem sigspildurnar hafa rétthyrnt þversnið. Sigspildur Hrafnagjár eru grunnar miðað við sigspildur Almannagjár.
Í suðri liggur Hrafnagjá fyrst í gegnum Arnarfell, en endar síðan í Þingvallavatni. Nálægt suðurendanum klofnar hún upp í margar samsíða sprungur, ekki þó skástígar. Í norðri víkkar sprungan, grynnist og breytist síðan í belti af smásprungum, svo litlum að vart eru greinanlegar á loftmyndum. Eins og við Almannagjá er mesta sigið ekki um Hrafnagjá sjálfa heldur nokkuð vestan við vestari sprungubarminn. Af þessu er ljóst að landið við bæði Hrafnagjá og Almannagjá hefur svignað nokkuð áður en sprungurnar mynduðust.

Dýpi
SprungurAllar togsprungur og siggengi hafa svo til lóðrétta veggi við yfirborð. Af þessu má álykta að allar sprungur á Þingvallasvæðinu séu myndaðar við togspennu nálægt yfirborði. Spennuástand í jarðskorpunni ræður því að á ákveðnu dýpi fá siggengin eðlilegan halla, sem er um 70° frá láréttu á rofnum blágrýtissvæðum hér á landi (Ágúst Guðmundsson 1984a) og svipaður annars staðar (Price 1966). Dýpi togsprungna og lóðrétts hluta siggengja má áætla með reikningum. Ef togsprungur ná ákveðnu dýpi breytast þær í siggengi með mælanlega lóðrétta færslu á yfirborði.

Myndun
Hér verða ræddar tvær tilgátur um myndun sprungna á Þingvöllum. Í fyrri tilgátunni eru gangar taldir valda sprungunum, nema þeim stærstu sem eru beint tengdar plötuhniki. Í síðari tilgátunni er sprungumyndun og sig tengt þrýstingsbreytingum í kvikuþró undir Hengilsþyrpingunni.

Gangainnskot

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson skoðar berggang undir Lyngfelli við Festarfjall.

Þessi tilgáta gerir ráð fyrir að stóru misgengin, svo sem Hrafnagjá og Almannagjá, séu mynduð við plötuhreyfingar, en að smærri misgengi og togsprungur séu af völdum ganga sem ekki ná yfirborði. Plötuhreyfingar, og tengsl þeirra við jarðhnik, hafa verið svo mikið ræddar á síðustu árum að ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þær hér.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Þegar kvika í gangi nálgast yfirborðið, minnkar yfirþrýstingur hennar yfirleitt þar sem eðlismassi basalkviku er venjulega hærri en eðlismassi efsta hluta skorpunnar. Athuganir benda til þess að þegar kvika í sprungu nálgast yfirborðið þá sé sprunguendinn í það minnsta nokkrum tugum metra á undan kvikunni (Macdonald 1972 s. 15). Þótt kvika gangsins stoppi tugum eða hundruðum metra neðan við yfirborðið getur gangurinn samt þróað sprungu til yfirborðsins. Einnig hjálpar til að á virkum svæðum er oft togspenna ríkjandi í efsta hluta skorpunnar (Scháfer 1979), ef til vill vegna kólnunar skorpunnar. Þá þarf sáralítinn yfirþrýsting kviku til að þróa sprungu til yfirborðs, þótt eðlismassi kvikunnar sé of hár til þess að hún nái að lyfta sér til yfirborðs.
Gangakenningin um uppruna sprungnanna skýrir hvers vegna slíkar sprungur finnast innan sigdala eins og Þingvalladældarinnar. Sprungurnar eru myndaðar við togspennu, en vegna þess að siggengin sem afmarka sigdalinn eru virk, einangra þau dalinn frá togspennusviði utan við hann. Togspenna utan við dalinn leiðir einungis til frekari sigs um siggengin, en getur ekki myndað togsprungur innan við þau. Togspennan sem myndar sprungurnar í sigdalnum sjálfum verður því að myndast innan við stóru siggengin, og auðvelt er að skýra slíkt togspennusvið með gangainnskotum.

Gangakenningin skýrir einnig hvers vegna sprungurnar eru svo stuttar sem raun ber vitni. Ef togspenna orkaði á gosbeltið í heild, og hún væri nægilega mikil til þess að mynda tuga metra breiðar sprungur, mætti búast við því að sprungurnar yrðu tuga kílómetra langar, þ. e. næðu langs eftir því gosbelti sem þær tilheyrðu. Svo er ekki, og er það auðskýrt ef gangar valda sprungunum, því þá deyr togspennan út við lárétta enda ganganna, þannig að yfirborðssprungur verða ekki lengri en þeir gangar sem mynda þær.

Háibjalli

Háibjalli.

Ýmsir annmarkar eru þó á gangakenningunni og skal hér getið um þá helstu, án þess að ræða þá ítarlega.
1) Margt bendir til að sömu sprungurnar séu virkar í langan tíma og að Þingvallasprungurnar séu bara yngstu hreyfingar á gömlum sprungum. Ef svo er, þá geta einstakir gangar varla skýrt sprungurnar.
2) Gangakenningin skýrir ekki sigið um sprungurnar, þ.e. myndun sigdalsins. Sigið er þó unnt að skýra með plötuhreyfingum og/eða þrýstingsbreytingu í kvikulagi undir svæðinu.

Þrýstingsbreytingar
SprungurÞessi tilgáta gerir ráð fyrir að undir Hengilsþyrpingunni, sem og öðrum virkum eldstöðvakerfum á Íslandi, sé kvikuþró sem sé álíka löng og þyrpingin sjálf. Þessi kvikuþró er hluti af kvikulaginu undir gosbeltinu á þessu svæði (Gylfi Páll Hersir o. fl. 1984). Rétt er að undirstrika að hér er gerður greinarmunur á kvikuþró, sem staðsett er í kvikulaginu á 8—10 km dýpi, og kvikuhólfi, sem staðsett er í skorpunni á 1—3 km dýpi eða minna, líkt og undir Kröflusvæðinu (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þingvellir

Gjár á Þingvöllum.

Þegar ísa tók að leysa fyrir um 14000 árum flæddi kvika undir landið, og þá einkum undir gosbeltin þar sem skorpan er þynnst. Landið reis því mest í gosbeltunum, og opnuðust þá bæði gamlar og nýjar sprungur. Samtímis urðu dyngjugos og sprungugos, og eitt þeirra var gosið sem myndaði Þingvallahraun fyrir um 9000 árum.
Nokkru eftir að Þingvallahraun rann náði landlyftingin á Þingvallasvæðinu hámarki og mynduðust þá Þingvallasprungurnar. Til samanburðar má geta þess að strönd Íslands mun almennt hafa legið utar en nú á tímabilinu 9000-3000 og landið mun hafa verið fullrisið fyrir um 5000 árum (Þorleifur Einarsson 1968). Af þessu má álykta að Þingvallasvæðið hafi haldið áfram að rísa í nokkurn tíma eftir að Þingvallahraun rann, sem skýrir myndun sprungnanna.
Sprungur
Eftir að landið er fullrisið minnkar aðstreymi nýrrar kviku verulega (hættir jafnvel um tíma), og gosvirkni Hengilsþyrpingarinnar færist nær miðju hennar þar sem skorpan er þynnst.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Kvikan í þrónni tekur því að flæða frá endunum inn að miðju, sem leiðir til þrýstingsminnkunar við endana og landsigs. Sigið verður jafnan um þær sprungur sem þegar voru myndaðar, einkum um Almannagjá, Hrafnagjá, Gildruholtsgjá og Heiðargjá. Síðustu árþúsundin hefur því sig verið ríkjandi á Þingvallasvæðinu, en innan dældarinnar mun gliðnunin aðallega hafa orðið fyrir þann tíma, þ. e. meðan landið var að rísa.
Hér á undan er hugmyndin um þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni það almennt orðuð að erfitt er að benda á einstök atriði sem hún skýrir illa eða ekki. Þó er ljóst að einhver gliðnun hlýtur að hafa orðið á Þingvallasvæðinu síðustu árþúsundin, ella gæti sigdalurinn ekki sigið. En sú gliðnun hefur einungis orðið um stóru siggengin sem mynda sigdalinn, en ekki um sprungurnar inni í dalnum. Eðlilegast er að tengja þessa gliðnun við plötuhreyfingar eða þyngdarskrið (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þróun og vöxtur

Sprungur

Hraunsprungur þykja jafnan áhugaverðar til skoðunar.

Af lýsingu á sprungunum er ljóst að þær hafa vaxið saman úr smærri sprungum. Vöxtur sprungna virðist yfirleitt gerast með þessum hætti, og á það jafnt við um örsprungur (Broek 1978) og sprungur sem eru margir kílómetrar að lengd (Segall og Pollard 1980). Líklegt er að Þingvallasprungurnar hafi fyrst opnast um stuðlasprungur í hrauninu, því þar er hraunið veikast.

Sundhnúkahraun

Sprungur í eldra Sundhnúkahrauni.

Hlutfallslega stuttar sprungur eru mun algengari en langar sprungur. Ástæður fyrir þessu eru eftirfarandi:
1) Ef gangar mynda sprungurnar þá ná þeir mishátt upp í skorpuna (yfirborð hvers gangs er á mismiklu dýpi) og því opnast sprunga bara á vissum svæðum. Þetta þýðir að sprunga sem annars væri samfelld og löng er slitin sundur í margar smásprungur.
2) Togstyrkur hraunsins er breytilegur, einkum vegna breytilegrar niðurröðunar og dreifingar á stuðlasprungum. Þegar sprunga vex lárétt verður hún að yfirvinna togstyrk bergsins, og því opnast hún greiðlegast þar sem togstyrkur er lægstur, en síður eða alls ekki þar sem togstyrkur er hár. Margar sprungur ná því ekki að vaxa saman í lengri sprungur.
3) Einnig hefur verið bent á (Nur 1982, Segall og Pollard 1983) að vöxtur einnar langrar sprungu hindri vöxt
margra stuttra. Ein löng sprunga léttir svo mikilli togspennu af svæðinu að vöxtur sprungna í grenndinni stöðvast. Smáar sprungur í grenndinni ná því ekki að vaxa saman í stórar sprungur.

Hliðrun

Almannagjá.

Almannagjá.

Hliðraðar, stundum skástígar og samsíða sprungur eru algengar á Þingvöllum. Sumar af stóru sprungunum, svo sem Almannagjá, greinast í margar smásprungur við endana, og minna þannig á „árfarvegi“. Kvíslóttir „árfarvegir“ af þessu tæi eru algengir á yfirborði örsprungna og er vöxtur sprungunnar ávallt „niðurstreymis“ (Broek 1978). Samkvæmt þessu hefur Almannagjá vaxið frá norðaustri til suðvesturs, sem er í samræmi við það að síðasta meiriháttar sig um gjána var syðst á henni, þar sem hún mætir Þingvallavatni. Þar seig landið um 0,6 m í jarðskjálftum 1789 (Kristján Sæmundsson 1965). Lawn og Wilshaw (1975) benda á þrjár mögulegar skýringar á hliðrun örsprungna og ættu þær að eiga jafnt við um jarðsprungur. Í fyrsta lagi kann sprungan, þegar hún er að þróast, að verða fyrir staðbundinni truflun við endann. Fyrir Þingvallasprungurnar gæti slík staðbundin truflun verið fólgin í breytilegri niðurröðun stuðlasprungna, breytingu á gerð bergsins undir Þingvallahrauninu, eða í brotalínum í berginu undir sem hafa aðra stefnu en sprungan sjálf. Sprungan hefur þá tilhneigingu til að klofna í margar samsíða sprungur eins og best sést við suðurenda Almannagjár og suðurenda Hrafnagjár.

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Í öðru lagi benda þeir á að sprungan kunni að myndast við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega eru hliðraðar. Þetta er að mínu áliti algengasta ástæðan fyrir hliðrun sprungna í sprunguþyrpingum hér á landi.
Í þriðja lagi geta sprungur sem þróast mjög hratt, þ.e. nálgast hljóðhraðann, klofnað vegna snöggra breytinga á spennusviðinu við endana. Þessi skýring mun vart eiga við um Þingvallasprungurnar því þær eru myndaðar á löngum tíma og hafa því þróast mjög hægt.
Sú hugmynd um vöxt sprungnanna sem sett er fram í þessari grein er sú sama og önnur skýring Lawn Wilshaw (1975) hér að ofan. Upphaflegu sprungurnar eru hliðraðar vegna þess að togspennan nær að brjóta bergið samtímis á mörgum stöðum innan þess beltis þar sem há togspenna er ríkjandi og þar sem endanlega sprungan kemur til með að liggja. Þegar gliðnunin vex innan þessa beltis sameinast sprungurnar í eina meginsprungu. Sums staðar á Þingvallasvæðinu er þessi sameining langt á veg komin eða þegar lokið, en annars staðar, svo sem í framhaldi af Sleðaásgjá, er hún skammt á veg komin.

Niðurstöður

Sprungur

Gjár á Þingvöllum.

Helstu niðurstöður greinarinnar eru þessar:
1) Meðalstefna sprungnanna er N30° A.
2) Meðallengd um 100 sprungna er 620 m, minnsta lengd 57 m og mesta lengd 7,7 km (Almannagjá).

Þingvellir

Sprungur (gjár) á Þingvöllum.

3) Mesta vídd er 68 m á Hrafnagjá, en þar á eftir kemur Almannagjá með mestu vídd 64 m.
4) Mesta lóðrétta færslan (sigið) er 28 m á Almannagjá og þá átt við sigið miðað við brúnir sprunguveggjanna. Sé miðað við landið rétt austan við Almannagjá er mesta sigið um 40 m.
5) Allar stóru sprungurnar eru myndaðar við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega voru hliðraðar og stundum skástígar.
6) Tvær tilgátur eru settar fram sem skýring á tilurð sprungnanna. Fyrri tilgátan reiknar með að gangar sem ekki ná að brjóta sér leið til yfirborðs, valdi togspennu á yfirborðinu sem leiði til sprungumyndunar. Í þessari tilgátu er þó gert ráð fyrir að stærstu sprungurnar (svo sem Almannagjá og Hrafnagjá) séu tengdar reki á gosbeltunum.
Seinni tilgátan tengir sprungumyndunina og sigið á Þingvallasvæðinu við þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni.“

Framangreind lýsing á sprungunum á Þingvallasvæðinu gæti jafnframt átt við önnur sprungu- og misgengissvæði á Reykjanesskaganum.

Í Náttúrfræðingnum árið 1983 skrifar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um „Hálfrar aldar þögn um merka athugun„.

Sprungur

Hraunsprunga.

„Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki. Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde“ í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halvöen“ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadœkker“. Í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug. Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur fram

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t.d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960).

Ágúst Guðmundsson

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur.

Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ.á.m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.
Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978).
Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system“ sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði Íslands (1979).

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano“ og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar. Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm“.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson.

Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano“ en sprungusveimurinn „rift zone“. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone“ hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm).
Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum). Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981).

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi“. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“ (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.“

Ágúst Guðmundsson skrifar um „Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa“ í Náttúrfræðinginn árið 1989. Þar segir hann m.a. um skammtíma gosstíðni:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

„Reykjanesskagi er það svæði hér á landi þar sem fjöldi gosa á nútíma er hvað best þekktur (Jón Jónsson 1978, 1983, 1984, 1985). Samkvæmt gögnum Jóns Jónssonar (1978, 1984) hafa þar orðið um 200 gos á síðustu 10-12 þúsund árum. Þessi gos hafa deilst á fjögur eldstöðvakerfi sem til samans eru 35 km að breidd. Fyrir svo langt tímabil er stuðull togspennumögnunar (k) á bilinu 1,0-3,0.

Eldgos

Eldgos í Merardölum 2023.

Ef gert er ráð fyrir að Reykjanesskaginn taki á sig allt rekið og að allir gangar nái yfirborði (séu gosgangar) ættu að verða 0,8-2,4 gos (háð stærð k) á hverjum 100 árum. Á 12 þúsund árum ættu því að hafa orðið 96-288 gos á Reykjanesskaga, sem er í góðu samræmi við töluna 200 hér á undan. Þótt niðurstöður þessara reikninga falli tiltölulega vel að áætluðum fjölda gosa á Reykjanesskaga, er óvissan í reikningunum mikil. Rekhraðinn og gildin á k eru sennilega nærri lagi, en það er hins vegar ekki eins víst að gera megi ráð fyrir að allir gangar á svo löngu tímabili hafi náð til yfirborðs. Á móti kemur þó að ef hærri talan, 288 gos, er nálægt raunverulegum fjölda ganga á þessu tímabili, hefur allt að þriðjungur þeirra ekki náð yfirborði og ofangreind forsenda því óþörf. Vera kann að allir eða langflestir gangar hafi náð yfirborði á fyrri hluta nútíma þegar hraunaframleiðsla var mest á skaganum (Ágúst Guðmundsson 1986), en að hlutur hreinna innskota hafi farið vaxandi síðustu árþúsundin samtímis því sem hraunaframleiðslan hefur minnkað.

Nútímahraun

Nútímahraun á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hafa sumar gossprungur og margar dyngjur myndast utan hinna eiginlegu eldstöðvakerfa (Ágúst Guðmundsson 1986), þannig að samanlögð vídd eldstöðvakerfa á skaganum er ef til vill ekki fullkominn mælikvarði á breidd þess svæðis sem verður fyrir togstreitu. Frávikin eru þó varla veruleg og þegar breiddin er orðin yfir 30 km þá hefur frekari aukning á breidd lítil áhrif á gostíðni.
Þrátt fyrir þessa varnagla, verður að telja að líkanið gefi allgóða mynd af gostíðni á Reykjanesskaga á nútíma.“

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um Eldgos á Reykjanesskaga á sögulegum tíma í Náttúrufræðinginn 1983. Greinina má lesa HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn 1. tbl. 01.04.1986, Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra, Ágúst Guðmundsson, bls. 1-18.
-Náttúrfræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1989, Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa, Ágúst Guðmundsson, bls. 49.

Eldgos

Eldgos á Havaii.

Reykjanesskagi

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga“ í Náttúrufræðinginn árið 1983:

Inngangur

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Reykjanesskagi er hluti af gosbeitinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi. Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Tvíbollahrauni – Jón Jónsson.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða“ (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld“ (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort; hraun ofan Hafnarfjarðar – Jón Jónsson.

Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða“ að Hjalla.
Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi. Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.

Aldursákvarðanir

Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

SÖGULEG HRAUN Á REYKJANESI
Svínahraun — Kristnitökuhraunið

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Kristnitökuhraun og nágrenni.

Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlu-lagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km\. Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Rjúpnadyngjuhraun og nágrenni

Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á. Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Brennisteinsfjöll.

Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C“ ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun

Draugahlíðar

Gráfeldur á Draugahlíðum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a).

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Tvíbollahraun neðan Bolla.

Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells.
Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (lón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt.
Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar.

Afstapahraun

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „In aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen“, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins.

Afstapahraun

Afstapahraun – kort.

Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun

Arnarsetur

Arnarsetur.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2  og telst samkvæmt því 0,44 km\ en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Arnarsetur efst og hraun ofan Grindavíkur.

Út frá þeim skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma.
Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litla-Skógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Eftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e.t.v. að nefna það Traðarfjallahraun.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla.

Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast.

Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Umræða

Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a.m.k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma þó ekki verði það fullsannað. Vel gætu gosin verið enn fleiri og ber því að líta á þessar tölur sem lágmark en ekki  endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km’. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.
Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma.

Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum“). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3- 4 cm þykkt eða meir.
Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14  ákvörðuninni verulega eldra. Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra.

Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.!“

Sjá Jarðfræðikort ÍSOR HÉR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 1983 – 52. árgangur 1983, 1.-4. tölublað, „Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga“ – Jón Jónsson, blaðsíða 127-138.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Kålund

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Vesturháls

Vesturháls á Reykjanesskaga.

„Reykjanesskaginn hefur í raun og sannleika verið sem miðstöð hvers konar eldsumbrota, og þó að skaginn hafi þegar fyrir Íslands byggð verið sama útlits og eðlis sem nú, hafa þó jarðskjálfatr þráfaldlega skekið hann á sögulegum tíma, og hraunstraumar hafa runnið ofan á hina eldri frá næstum óteljandi gígum, sem opnast í fjallgörðum skagans, en þeir eru aðeins framhald af miklu meiri og víðlendari eldfjallabjálki sem liggur til landnorðurs inn í óbyggðir landsins. Slíkt hérað gat ekki verið mjög aðlaðandi fyrir fyrstu íbúana; „til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta“, segir Karli þræll Ingólfs, þegar húsbóndi hans að tilvísun öndvegissúlna nam alla Gullbringu – og Kjósarsýslu og nærliggjandi sveitir og settist að í Reykjavík, – og hvarf síðan á brott og ambátt með honum. –

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Í fornöld var landbúskapur eðlilegastur og hæfilegastur fyrir bónda, fiskveiði aftur móti í minna áliti, arðminni og einnig óvissari atvinnugrein. Fyrst eftir að ísland var komið undir yfirráð noskra konunga, hófst fiskverslun við útlönd, sem síðar varð svo mikilvæg (Maurer: Island 420-22, sbr. 412-14). Á fyrsta tímabili Íslandssögunnar var enn óþekkt þessi undirstaða framfærslu í fiskihéruðunum, sem gat í góðæri orðið til mikils framgangs efnuðum útgerðarbændum. Salan miðaðist þá við það sem landbændur keyptu; annars fiskuðu menn aðeins til eigin afnota, en hafa sennilega næstum alltaf stuðst svo og svo mikið við landbúnað. Einnig hefur það verið sjaldgæft að bændur færu sjálfir í verið niður við ströndina og tækju þar þátt í fiskveiðinni.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga.

Í þjóðveldislögunum, Grágás, er að vísu talað um „fiskiskála“ á nokkrum stöðum og að fólk dvelst þar um veturinn til fiskveiða, og einnig nefna nokkra af sögunum „vermenn“ (fólk sem dvelst um tíma í verstöðvum) og verstöðvar, þar sem margir komu saman, en ætla má að það hafi einkum verið lausamenn eða fólk frá fiskihéruðunum sjálfum, sem var að þessum störfum; má helst ætla það af athugunum á þessum málefnum eða þögn sagnanna um þau, en aftur á móti oftsinnis minnst á skreiðarkaup af útvegsbændum.

Skreið

Skreiðalest í Ögmundarhrauni.

Af þessu leiðir, að líklegt er, að ástand í Gullbringusýslu hafi í fornöld verið með allt öðrum hætti en nú. Nú er sýsla þessi ein hin mannflesta í landinu; er þar að vísu mikil fátækt, en einnig allmargir efnamenn á íslenska vísu. Á hverjum vetri eða raunar allt árið að undateknum sumarmánuðunum þremur sækir þangað fjöldi fólks, því að næstum hver bóndi frá Skafafellssýslu til Skagafjarðar kemur annaðhvort sjálfur eða sendir vinnumann til fiskveiða eina eða fleiri „vertíðir“. Þangað koma menn þúsundum saman, og búa þeir í bæjunum í hinum mestu þrengslum eða í verbúðum sem til þess eru útbúnar, og við illar aðstæður menningar gæti þetta orðið tilefni hinna margvíslegustu atburða. Þetta hefði tæplega þekkst í fornöld, án þess að um það hefði verið talað í sögunum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum, fyrrum selstöð Grindvíkinga.

Fyrir austan Reykjanes er byggðarlagið Grindavík á suðurströnd skagans (Harðar s. 15, Gunnl. s.61). Byggðin liggur einnig hér meðfram sjónum, og er landsvipur hinn sami og fyrr hefur verið lýst. Uppi í landinu er hrjóstugt hraun, en ofar eru ýmsar hæðir og smáfjöll, sum nokkuð grasi gróin, en flest aðeins mosavaxin, jafnvel ekki einu sinni það, svört og nakin. Hraunið getur með nokkrum hætti kallast framhald af Almenningum, en gróðurminna og yngra.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Þessi eru einkenni landsins, allt út til strandar, allt heim að túnum bæjanna er ekki annað að sjá en sand, blásnar heiðar og svart brunnið hraun. Byggðarlagið skortir mjög beitiland, bæði kýr og sauðfé, bæði málnytu- og geldpening verður að reka þegar á vorin frá bæjunum og til sameiginlegra selja upp undir fjöllunum; vegna þess að þarna er ekki sameiginlegt beitarland (afréttur) verða menn þar enn – eins og nokkrum öðrum svipuðum stöðum á Íslandi – að láta lömbin ganga undir ánum kefld, þ.e. með tréprjón, bundinn með bandi sem er krosslagt yfir höfuðið, liggur sem kjaftamél í munninum, svo þau geti ekki sogið. Einnig verður að reka hestana langt burtu frá bænum í hvert skipti sem þeir hafa verið notaðir. Þar er og mikil vatnsskortur. Víðast verður að notast við hálfsalt vatn úr pollum nálægt ströndinni eða úr sprungum í hrauninu, þar sem sjór fellur út og inn við hvert flóð og fjöru.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 17-28.

Kålund

Íslandskort Kålunds.

Keilir

Það hefur varla farið framhjá nokkrum að öflug og stöðug jarðskjálftarhrina hefur gengið yfir sunnanverðan Reykjanesskagann að undanförnu (skrifað 5. mars 2021).

Í Fréttablaðinu 04.03.2021 mátti lesa eftirfarandi:
Gosspenna á Reykjanesskaga
Reykjanesskagi
Óróapúls og kvikuhlaup á Reykjanesskaganum í gær bentu til að von væri á eldgosi á svæðinu á næstu dögum. Jarðeðlisfræðingur sem Fréttablaðið ræddi við átti ekki von á því að næstu byggðir væru í hættu.

Grindavík

Grindavík.

Kaflaskil urðu í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga í gær þegar svo virtist sem von væri á eldgosi.
Óróapúls greindist á mælum um miðjan dag og var þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað til að kanna hvort gos væri að hefjast.
Þegar Fréttablaðið fór í prentun var gos ekki hafið.
„Þetta sem við sáum í dag var greinilega kvikuhlaup, kvikan hljóp þarna upp eða til hliðar en virðist ekki hafa farið nálægt yfirborði og þá hafi hlutirnir róast aftur,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um stöðu mála í gærkvöld.

Tumi Guðmundsson

Tumi Guðmundsson.

„Svo er bara spurningin hvert framhaldið verður, eftir því sem svona atburðarás dregst á langinn aukast líkurnar á að þetta endi á gosi. Það verður að koma í ljós,“ heldur Magnús Tumi áfram.
„Ef það kemur eldgos á Reykjanesskaga yrði það sögulegur atburður. Það hefur ekki komið gos á þessu svæði í 800 ár og það gæti komið hrinu af stað. Það skal samt ekki gleymast að hrinur geta staðið yfir í aldir og það voru áratugir milli gosa síðast.“
Fram kom á blaðamannafundi almannavarna að jarðskjálftavirknin væri milli Litla-Hrúts og Keilis. Þar gæti kvika verið að brjóta sér leið og færast nær yfirborðinu. Freysteinn Sigmundsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sagði erfitt að spá fyrir um nákvæma tímasetningu eldgossins.

Víðir Reynisson

Víðir Reynisson.

Um leið tilkynnti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að fyrstu tákn væru um að gosið yrði eftir þeim sviðsmyndum sem Veðurstofan var búin að teikna upp og að hraunstraumar ættu ekki eftir að ógna mannfólki.
„Ef þetta endar með eldgosi þá ætti þetta ekki að vera sprengigos heldur flæðigos með lítilli sprengivirkni. Þetta ætti fyrir vikið ekki að koma til með að ógna næstu byggðum þótt það sé skiljanlegt að fólk í næstu byggðum hafi áhyggjur. Það snertir marga að það sé eldgos á þessu svæði en miðað við fyrri gos á þessu svæði ættu byggðir ekki að vera í hættu þótt það sé aldrei fullvíst,“ sagði Magnús Tumi, aðspurður út í hættuna fyrir næstu byggðir.
„Það getur alveg gerst að það verði ekkert gos á næstunni. Í Kröflueldum voru sífellt blikur á lofti um að það færi að gjósa en það var ekki fyrr en eftir árabil sem fyrsta gosið var. Það er ekki hægt að færa það yfir á þetta en það sýnir að það getur heilmikið kvikuhlaup átt sér stað án þess að það gjósi upp,“ sagði Magnús Tumi.

Í mbl.is þann daginn sagði: „Stærsti skjálftinn í rúma tvo sólarhringa„.
ReykjanesskagiJarðskjálfti sem reið yfir klukkan 8.54 var 4,5 að stærð samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands. Jarðskjálftinn er á svipuðum slóðum og fyrri skjálftar, við Fagradalsfjall.
Skjálftinn fannst víða á suðvesturhorni landsins líkt og aðrir skjálftar af þessari stærð á Reykjanesi. Órói hefur ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum.
Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03.05 en sá var 4,6 að stærð.

Í mbls.is sama dag segir: „Nýlegar sprungur eru á svæðinu„.

Reykjanesskaginn

Vitleysan öll…

Nýlegar sprungur eru á svæðinu við Litla Hrút, Fagradalsfjall og Sandfell, aðallega suðvestan við Keili. Ekki er hægt að segja til um hvort þær mynduðust í gær eða eftir stóra jarðskjálftann sem varð í síðustu viku.
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segist ekki vita hversu stórar sprungurnar eru.

Í DV mátti einnig lesa eftirfarandi:
Reykjanesskagi

Grannt er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesi á næturvakt Veðurstofunnar. Auk eins veðurfræðings eru tveir á skjálftavakt. Sólarhringsmönnun hefur verið á skjálftavaktinni frá því skjálftahrina hófst á Reykjanesi fyrir viku síðan.

Bjarki Kaldalóns Friis

Bjarki Kaldalóns Friis.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings hefur staðan á Reykjanesi lítið breyst síðustu klukkustundir. „Það er áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu suðvestur af Keili. Óróinn er enn til staðar og hefur ekki breyst mikið frá því í kvöld.“
Skjálfti 4,1 að stærð reið yfir um klukka 00:59 í nótt, sá stærsti síðastliðinn sólarhring en þó litlu stærri en annar sem var á fjórða tímanum í dag.
Nýjar gervihnattamyndir af skjálftasvæðinu bárust í nótt, en eftir á að vinna úr þeim. Þá eru myndirnar bornar saman við fyrri myndir til að sjá þenslu jarðskorpunnar og fá vísbendingar um kvikumagn auk þess sem landris sést á myndunum. Í fyrramálið ætti yfir­ferðinni að ljúka.

Hafa ekki undan að yfirfara skjálfta
Meðal helstu verkefna næturvaktarinnar hjá Veðurstofunni er að yfirfara handvirkt þá skjálfta sem ríða yfir, greina stærð og staðsetningu. Óvinnandi vegur er þó að fara yfir þá alla enda skipta skjálftarnir þúsundum á hverjum sólarhring um þessar mundir. Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka skömmu fyrir klukkan tvö í nótt voru skjálftarnir orðnir 215 frá miðnætti.

Reykjanesskagi
„Við náum auðvitað ekki yfir þetta allt saman. En ef maður er mjög duglegur getur maður náð 100-200 skjálftum á dag,“ segir hann. Því til viðbótar þarf að senda út tilkynningar, taka við símtölum frá almenningi og auðvitað svara fjölmiðlamönnum. „Þegar það er eitthvað mikið að gerast þá hringir almenningur mikið og sendir inn fyrirspurnir, en núna þegar þessi atburður er búinn að vera í gangi í yfir viku þá eru þau ekki mikið að senda tilkynningar eða hringja inn lengur,“ segir Bjarki.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Fjallið er fjölbreytt, bæði að gerð og lögun.

Ef gos hefst er aðeins einn á formlegri bakvakt, en Bjarki segist þó viss um að starfsfólk muni hrúgast inn ef til þess kemur. Því mætti segja að allir væru á óformlegri bakvakt.

Þá fer enda mikið ferli af stað. Breyta þarf litakóða fyrir flug yfir á rautt, senda út fréttatilkynningar og skrifa á vefinn. „Þess vegna eru þau sem eru ekki á vakt löngu farin heim að hvíla sig þannig að þau verði tilbúin ef eitthvað gerist. Það verða vonandi einhverjir sem eru úthvíldir,“ segir Bjarki.

Í DV samdægurs segir; „Hvað er óróapúls?

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Flestir landsmenn heyrðu í fyrsta skipti í gær orðið „óróapúls“. Það koma víða fyrir í fréttum í eftirmiðdaginn og um kvöldið en flestir hafa líklega í besta falli óljósa hugmynd um hvað það þýðir. „Óróapúls mældist í gær kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili, við Litla Hrút,“ segir í samantekt Veðurstofunnar um atburði gærdagsins.

Sigurlaug Hjaltadóttir

Sigurlaug Hjaltadóttir.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili. „Það sem við teljum að gerst hafi í gær var að kvika var að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpuna. Virknin sýnir þá hvar spenna er í jarðskorpunni. Þegar hún rýkur upp köllum við það púls. Þá verður fjöldi lítilla jarðskjálfta, jafnvel með fárra sekúndna millibili,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við DV.

Eins og Sigurlaug segir er líkleg skýring á óróanum í gær sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið inn í jarðskorpuna. En óróapúls getur átt sér aðrar skýringar: „Í öðrum kringumstæðum geta verið aðrar skýringar, til dæmis suða á jarðhitakerfi,“ segir Sigurlaug en tekur fram að það eigi alls ekki við um atburði gærdagsins. Þar er líklegasta skýringin sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpu og valdið fjölda lítilla skjálfta með örstuttu millibili.

Sem sagt, stutta skýringin á orðinu „óróapúls“ er: Fjöldi lítilla jarðskjálfta með örstuttu millibili.

Í RÚV er sagt að „Eldgos við Keili gæti komið af stað keðjuverkun
Reykjanesskagi
Eldgos við Keili gæti komið af stað kvikuinnskotum á öðrum sprungusveimum á Reykjanesskaganum að mati Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Reykjanesskaginn sé allur virkt svæði og eldvirkni á svæðinu tengist milli kerfa. Páll telur mögulegt að kvikuinnskot geti orðið í Reykjaneskerfinu, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Henglinum. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Gígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Páll sagði að undanfarið ár hafi orðið ítrekuð kvikuinnskot í þessum kerfum en þau hafi ekki valdið tjóni. Hinsvegar sé ekki hægt að útiloka að ef kæmi til eldgoss myndi það hafa í för með sér kvikuinnskot á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum sem gæti opnað sprungur ofanjarðar án þess að eldgos yrði á þeim stað.
Slíkar sprungur gætu haft í för með sér tjón á ýmsum innviðum eins og vegum, rafmagnslínum, vatnsæðum og fjarskiptum.

„Þegar svona virkni tekur sig upp þá virðist vera að öll svæðin taki undir“ segir Páll og bætir við að eina svæðið sem ekki hafi tekið undir ennþá séu Brennisteinsfjöll en að það sé bara tímaspursmál hvenær virkni hefjst þar líka.
„Eitt af því sem getur valdið tjóni eru sprunguhreyfingar og það er nokkuð sem við getum ekki horft framhjá. Kannski er það það alvarlegasta sem getur gerst þarna“ segir Páll og bendir á að Krísuvíkurkerfið teygi anga sína alveg inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins og sprungur samhliða kvikuinnskotum geti farið í sér tjón á innviðum. Því sé Krísuvíkurkerfið undir alveg sérstöku eftirliti vísindamanna.
Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta gerist segir Páll að litlir skjálftar síðdegis í gær hafi verið óþægilega nálægt Krísuvíkursvæðinu.

Í Vísi segir: „Áfram gert ráð fyrir að gos muni hefjast
Reykjanesskagi
Áfram er mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaganum þó eitthvað hafi dregið úr óróapúlsi í nótt. Þó er enn gert ráð fyrir að eldgos muni hefjast, að sögn Kristínar Jónsdóttur náttúruvársérfræðings. Stór skjálfti reið yfir í morgun en hann er sá stærsti í rúma tvo sólarhringa.

Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir.

Um 2500 jarðskjálftar mældust í gær, og frá miðnætti eru þeir um 800 talsins. Í heildina hafa ríflega átján þúsund skjálftar síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt en jókst aftur um fimm leytið. Þá mældist skjálfti af stærðinni 4,5 um klukkan 8.54 í morgun við Fagradalsfjall en hann fannst vel á suðvesturhorni landsins.
„Staðan núna er sú að það hefur kannski aðeins dregið úr ákafanum í þessari skjálftahrinu en hún er samt enn þá í gangi. Og hún er dálítið hviðótt þannig að það koma svona mjög öflugar hviður, stundum með stærri skjálftum og svo koma svona smá hlé inn á milli,“ segir Kristín.

Í miðjum atburði akkúrat núna

Keilir t.h. og Fagradalsfjalll t.v.

„Núna er búið að vera frekar rólegt síðustu tvo klukkutímana en þegar við horfum aftur í tímann þá sjáum við að það eru klukkutímar, jafnvel tveir til þrír klukkutímar, á milli sem eru frekar rólegir en svo tekur þetta sig alltaf upp aftur. Þannig að við erum bara inni í miðjum atburði akkúrat núna,“ bætir hún við.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Kristín segir að viðbúið sé að fleiri öflugir skjálftar verði. „Þessum umbrotum fylgja greinilega sterkir skjálftar eða sæmilega sterkir skjálftar og við verðum bara að vera í þeim gírnum að þetta geti haldið eitthvað áfram,“ segir Kristín og bætir við að helstu breytingarnar í nótt hafi verið að virknin hafi fært sig til suðvesturs en sé áfram bundin við Fagradalsfjall.
Þá sé enn búist við að eldgos muni hefjast. „Á meðan hrinan stendur enn yfir að þá verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika. Ég held að flestir jarðvísindamenn séu sammála þeirri túlkun að þessi jarðskjálftavirkni og óróahviða sem kemur í gær að hún sé líklega til marks um kvikuhreyfingar. Og kvikan er á ferð þarna á þessu svæði. Á meðan kvikan er á ferð þá er auðvitað hætt við því að hún komi ofar í jarðskorpuna og komi upp. Þannig að við erum með þá sviðsmynd enn þá á borðinu, já.“
Vonir stóðu til að niðurstöður úr gervihnattamyndatöku lægju fyrir um hádegisbil í dag. Það hefur hins vegar frestast og að sögn Kristínar verða niðurstöðurnar að líkindum klárar seint í kvöld eða á morgun.

Í mbl.is segir: „Líklega byrjun á gosskeiði fari að gjósa
Reykjanesskagi
„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:

Eldgos

Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir hana á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen (nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprung­um sem geta orðið allt að 12 km langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár
Reykjanesskagi
Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.

Reykjanes

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/​Hellnahraun.

Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í Óbrennishólmum.
ReykjaneseldarEftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 km langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.

Reykjanesskagi„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:
Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hóló­sen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfun­um á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.

Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Í DV segir jarðfræðingur „atburðarásina á Reykjanesskaga koma stöðugt á óvart

Reykjanesskagi

Hraunflæðispá – ein af mörgum.

Eins og kunnugt er mældist óróapúls sunnan við Keili á miðvikudaginn en slíkt er fyrirboði eldgoss en enn er ekki byrjað að gjósa á svæðinu. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir að vísindamenn séu að reyna að átta sig á hvaða möguleikar eru í stöðunni og að þeir séu mjög margir.

Gígaröð

Gígaröð í Eldvörpum.

Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Páli að atburðarásin komi vísindamönnum á óvart daglega.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Enn er mikil virkni á svæðinu en hún hefur færst í suðvestur frá Keili. Hefur Morgunblaðið eftir Páli að ekki sé nein leið að spá um hvert framhaldið verður því sérfræðingar eigi fullt í fangi með að reyna að skilja hvað gerðist eftir að óróapúlsinn mældist á miðvikudaginn.

Á gervihnattarmyndum sem ná frá 25. febrúar til 3. mars sést kvikugangur á milli Fagradalsfjalls og Keilis en þær sýna ekki verulega aukningu í kvikuhreyfingum í óróanum á miðvikudaginn. „Það hefði enginn orðið hissa þótt breytingarnar hefðu verið talsverðar og eitthvað hægt að ráða í þær. Það hefur verið kvikuhlaup en mjög lítið,“ er haft eftir Páli.

Hraunfæðispá

Hraunflæðispá 2021: Hér kemur ný hraunflæðispá miðað við atburði næturinnar. Eldsuppkomunæmi reiknað kl 11 í morgun. Nú koma fram 4 möguleg svæði hvar eldur gæti komið upp. Smá punktur er í Móhálsadal, Fagradalsfjalls svæðið, við Sýlingafell og Hauksvörðugjá. Af þeim sökum koma hraun frá 4 svæðinu. Nú tökum við sérstaklega fram að möguleikar á því að það komi til eldgoss á öllum svæðum í einu eru engar.
Kortið sýnir mögulega hraunrennslis leiðir, ef litur er dökkur er líklegra að hraun fari þar um og að sama skapi ef litur er ljós eru mun minni líkur á að hraun fari þar um. Þar sem það er eru nánast engar líkur á að gjósi á öllum svæðum munu ávalt vera opnir vegir, eins og komið hefur áður fram hjá Þorvaldi. Þá er mikilvægt að hraun tekur tíma að renna og því ávalt viðrbragðstími.
Kortið er til að glöggva okkur á hvar hraun gætu runnið.

Samkvæmt nýrri hraunflæðispá vísindamanna við Háskóla Íslands er gert ráð fyrir fjórum svæðum þar sem gæti gosið. Þetta eru Fagradalssvæðið, Hauksvörðugjá, Móhálsadalur og Sýlingarfell sem er rétt norðan við Grindavík. Breytingin frá fyrri spám eru að skjálftavirknin hefur dreift úr sér og því eru fleiri svæði talin líkleg en áður.

Á mbl.is má lesa eftirfarandi: „Dvínandi jarðskjálftavirkni

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga hefur dvínað aðeins eftir að hafa færst í aukana á sjötta tímanum í morgun. Enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu en ekki eins mikil og um hálfþrjúleytið í gær.
Að sögn náttúruvársérfræðingsins kemur þetta í bylgjum. Þegar átt er við að óróinn og virknin hafi dvínað er átt við þéttleika skjálftanna. Þar af leiðandi er óróapúlsinn ekki eins áberandi og í gær.
Spurður hvaða þýðingu þetta hefur segir sérfræðingurinn ekkert hægt að lesa úr stöðunni eins og hún er núna. Hlutirnir verði að koma betur í ljós.

Ekki séð gervihnattarmyndir

Flogið var yfir svæðið í þyrlu í gær og teknar myndir, auk þess sem starfsfólk var á staðnum áður en óróapúlsinn myndaðist. Fara þarf betur yfir þær upplýsingar sem fengust.

Sudhnúkur

Sundhnúkur – loftmynd.

Spurður hvort starfsfólk Veðurstofunnar muni fara á svæðið í dag segir hann það fara eftir því hvernig hlutirnir þróast.
Gervihnattamyndir áttu einnig að berast núna í morgun sem eiga að hjálpa til við að meta stöðuna en náttúruvársérfræðingurinn hefur ekki séð þær enn þá.

Funda með Veðurstofunni
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að næstu skref verði að fá upplýsingar um hvernig nóttin var og funda svo með Veðurstofunni. Hann segir stöðuna óbreytta frá því sem var í gærkvöldi.

HÉR má sjá myndskeið gossögunnar í Geldingadölum fyrstu tíu dagana á fimm mínútum….

Reykjanesskagi

Jarðfræðikort.

Ergo
Þegar þetta er skrifað 4. mars 2021 skelfur jörðin enn á Reykjanesskaganum.
Málið er að allt framangreint virðist fljótt á litið vera hjóm eitt, þ.e.a. ályktanir svonefndra „sérfræðinga“ er hvorki byggja gögn sín á sögulegum staðreyndum né víðtækri þekkingu á landssvæði Reykjanesskagans.
FlekaskilÍ fyrsta lagi ganga skil Evrasíu- og Ameríkufleka jarðskorpunnar upp í gegnum Reykjanesið er liggja síðan austan með sunnanverðu landinu að miðsvæði þess þá er þau skera það í tvennt til norðausturs uns hlaup verða á skilununum til vesturs á leið þeirra áfram til norðurs.
Engin ummerki eru enn um að gosið hafi orðið á flekaskilunum sjálfum, a.m.k. ekki á landi. Stóru dyngjugosin fyrir meira en 5000 árum voru á kvikuþróm út frá flekaskilunum, flest til norðurs, s.s. Þráinsskjöldur, Hrútargjárdyngja, Stóra-Lambafell, Kistufell og Ölkelduháls. Möttulstrókurinn, sem nú er undir Vatnajökli, var í þá daga mun vestar og hefur eflaust ýtt undir kvikumyndun á þessum svæðum.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Í öðru lagi hafa langflest gos á Reykjanesskaganum síðustu 5000 árin verið svonefnd sprungureinagos, þ.e. gosið hafa orðið á sprungum, mislöngum eftir aðstæðum. Sprungureinar þessar liggja langflestar til norðnorðausturs út frá flekaskilunum. Lengsta sprungureinagosið varð 1151 er Ögmundarhraun rann, en þá náði sprungan frá sunnanverðum Núpshlíðarhálsi að Helgafelli ofan Hafnarfjarðar. Af þessum gosum hafa jarðfræðingar dregið ályktanir að svonefndar kvikuþrær lægju þvert á flekaskilin í tilgreindum sveimum inn til landsins. Það segir hins vegar lítið um það hvort og hve mikla kviku er þar að finna í dag.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Hér má sjá flekaskilin (svart) og fyrrum kvikuhólfin (hvít).

Í þriðja lagi sýna jarðskjálftamælingar nánast einungis hreyfingar á flekaskilunum, sem verður að teljast eðlilegar þótt það kunni að þykja óþægilegt. Ef um aukna kvikumyndun væri að ræða undir niðri myndu skjálftamælar og gps-mælingar bæði sýna auka hreyfingu á jarðskorpunni út frá flekaskilunum sem og landris. Því hefur ekki verið til að heilsa. a.m.k. ekki hingað til.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Í fjórða lagi má líta á landfræðilegar aðstæður á svæðinu í kringum Keili, Fagradalsfjall og nágrenni. Þegar Þráinsskjöldur gaus fyrir u.þ.b. 9000 árum rann hraun bæði til austurs og norðvesturs, myndaði t.d. Vatnsleysuströndina og heiðina upp af henni. Þá má ætla að frá dyngjunni hafi legið jafnlæg hraunbreiða niður að ströndinni. Nú má hins vegar sjá á landssvæðinu miklar gjár og misgengi upp á tugi metra. Slík landmótun hefur ekki gengið þegjandi og hljóðlaust fyrir sig í gegnum árþúsundin, en þó án nýrrar uppstreymiskvikumyndunar, að einum stað undanskildum, þ.e. í smáum „Eldvörpum“ ofan Knarrarnessels. Hraungosin í Kálffelli, í Rauðhólsröðinni ofan Skógfella og Sundhnúkagígaröðin eru seinna til kominn, líkt og Eldvörp og Stamparnir.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í fimmta lagi virðast jarðfræðingar fyrrum, sem unnu frábært skráningarstarf á hraunaupptökum og -rennsi, hafa dregið þá ályktun að gígaraðirnar séu enn tákn um virkar kvikuþrær undir niðri. Reyndar er fátt, sem bendir til þess, umfram það sem jarðarþróin stóra getur annars eðlilega boðið upp á. Hún er og verður reyndar óútreiknanleg svo lengi sem Jörðin mun verða til.
Í sjötta lagi hafa Grindvíkingar löngum þurft að upplifa skjálftahrinur líkar þessum. Á tólftu öld var nánast ólíft á svæðinu. Á þrettándu öld flúðu íbúarnir og byggðin lagðist í eyði um langt skeið. Í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hrundu bæir í jarðskjálftum, s.s. á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík. Núlifandi Grindvíkingar munu að vísu ekki þau tímabil, en óþægindatímabil voru þau samt, þeim er þá lifðu.

Kvikuþró

Kvikuþró.

Í sjöunda lagi mættu fjölmiðlar vera meira vakandi; ekki bara endurtaka og mata almenning á upplýsingum frá „sérfæðingunum“, heldur gera sínar eigin athuganir. Hversu margt fjölmiðlafólk skyldi hafa gengið um svæðið, lesið landið og ályktað tilurð þess út frá landfræðilegum aðstæðum í gegnum tíðina? Nánast hver einasti nútíma fjölmiðlaumfjallandi virðist nú vera orðinn sérfræðingur í landsháttum svæðisins á örskömmum tíma.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Í áttunda lagi finnst mér sorglegt hversu margt fjölmiðlafólk kann ekki að stafsetja örnefnið „Krýsuvík“ – sjá HÉR.
Í nýjunda lagi á bæði „sérfræðingar“ og fjölmiðlafólk það til að rugla saman örnefnum; skjálftarsvæðið við Fagradalsfjall er ekki á Reykjanesi. Reykjanes er syðsti hluti Reykjanesskagans, þar sem m.a. Reykjanesvitinn trjónar nú. Reykjanesskaginn er landssvæðið allt, landnám Ingólfs fyrrum er hann nam á milli „Brynjudals og Ölfusárósa“. Alltaf betra þegar fjölmiðlafólk gerir sér annt um að geta réttra heimilda – ekki síst út frá sögulegu samhengi.

Fjallasýn

Útsýni að Keili og nágrenni frá höfðuborgarsvæðinu – örnefni.

Las í gær áhyggjur íbúa á Völlunum í Hafnarfirði í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla af væntanlegu gosi. Hann virtist hræddur og krafðist skýringa af hálfu lögregluyfirvalda. Náði að útskýra fyrir honum að hann þyrfti ekkert að óttast, ef spár „sérfræðinganna“ gengi eftir; millum væntanlegs eldgoss suðvestan Keilis væru a.m.k. þrjú hraun frá 12. og 13. öld er myndu hindra hraunstraum í átt til hans. Hann gæti því bara setið rólegur á sínum svölum og notið dásemdanna, ef af yrðu.

Rykjaneskaginn

Krútt.

Með fullri virðingu fyrir svonefndum „jarðvársérfræðingum“, sem virðast vera nokkurs konar „veðurfréttamenn“ hversdagsins, er á stundum svolítið erfitt að hlusta á glaðklakkanlegar útskýringar þeirra, að því að virðist, án nokkurs rökstuðnings m.t.t., eins og að framan sagði; sögulegra og landfræðilegra aðstæðna. Undantekningin er þó söguleg umfjöllun mbl.is.
Sakna gömlu góðu jarðfræðinganna; Jóns Jónssonar og Kristjáns Sæmundssonar, sem kenndu mér svo margt. Hólósenheilkennið virðist hafa truflað margan nútímajarðfræðinginn.

Ef svo ólíklega vildi til að eldgos birtist ofan jarðar í framhaldinu á þessu tilgreinda landssvæði yrði það bara kærkomin sjón. Flest fólk upplifir slíka ásýnd ekki nema einu sinni á ævinni…

Hér má sjá það nýjasta á Vísir.is (6. mars):
Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð.

Keilir

Yfirlit yfir væntanlegt jarðgosasvæði milli Keilis og Fagradalsfjalls.

Enn er full ástæða til að hafa gætur á vegna jarðhræringanna á Reykjanesi að sögn jarðeðlisfræðings. Skjálftavirkni sé enn mikil þrátt fyrir að fólk finn ef til vill minna fyrir skjálftum eins og staðan er núna. Það kunni að vera að framundan sé ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum sem gæti spannað nokkur hundruð ára tímabil.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

„Það er áframhaldandi skjálftavirkni þó að fólk finni kannski ekki jarðskjálftana þannig að þeir eru minni heldur en þeir hafa verið. En þeir eru mjög tíðir og GPS-mælar sem ég vinn helst með sýna að það er áframhaldandi þensla á svæðinu,“ segir Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við fréttastofu.

Halldór sérhæfir sig einkum í jarðskorpuhreyfingum. „Sumir kalla okkur krumpufólkið. Við erum að skoða hvernig jarðskorpan beyglast og reyna að túlka þannig hvað er að gerast ofan í jarðskorpunni,“ segir Halldór.

Hærri líkur ekki það sama og háar líkur
Þá segir hann heilmargt hafa komið á óvart hvað varðar þær jarðhræringar sem nú standa yfir. „Það er búið að vera magnað að fylgjast með þessu núna síðastliðna rúma viku og bara til dæmis það að við séum að sjá kviku á ferð þarna er eitthvað sem að mörg okkar hafi kannski ekki alveg órað fyrir. Það er langt síðan að það hefur gosið akkúrat á þessum slóðum þótt að þar hafi gosið mörgum sinnum áður. En þetta er kannski ekki það fyrsta sem fólk átti von á. Það er spennandi fyrir jarðvísindaáhugafólk að fylgjast með þessu,“ segir Halldór.

Hvernig metur þú líkurnar á eldgosi akkúrat núna?

„Það er mjög erfitt að segja til um einhverjar líkur. En á meðan við sjáum að einhver kvika er að flæða inn í kerfið, sem við sjáum núna, það er að flæða inn nokkuð magn af kviku á hverjum degi, og á meðan að það er í gangi þá eru alltaf hærri líkur á eldgosi. En það þýðir ekki endilega að það séu háar líkur,“ segir Halldór. „Það þarf bara að fylgjast vel með öllum tiltækum ráðum.“

Kvikugangurinn á hreyfingu

Eldgos

Tölvugerð skjámynd í Kastljósi RÚV um það sem landsmenn kynnu að vænta.

Hann segir útlit fyrir að þessi kvikugangurinn hafi færst aðeins til suðvesturs fyrir nokkrum dögum og hann haldi áfram að þenjast út. „Þannig það er full ástæða til að hafa fullar gætur á öllu,“ segir Halldór.

Er ekki ástæða til að ætla að þetta sé að verða búið?

„Nei það held ég ekki og ekki vísbendingar um það. Þannig að eins og ég segi, það er stöðug skjálftavirkni í gangi, þeir eru bara það litlir að fólk finnur fæsta þeirra,“ svarar Halldór.

Eldgos
„Jarðskjálftavirknin færist aðeins til, þannig milli 25. febrúar og fram til 3. mars þá var mest af virkninni á milli Fagradalsfjalls og Keilis en svo 3. mars var heilmikil jarðskjálftavirkni og þá er kvikan að brjóta sér leið lengra í raun og veru inn í Fagradalsfjall, eða undir það, og er að fara kannski kílómetra, einn eða tvo þar undir eða eitthvað svoleiðis, og það hefur líka svolítil áhrif á jarðskjálftavirknina. Þannig að þegar svona berggangar, eða kvikugangar troðast út þá breyta þeir líka spennu á mismunandi misgengjum og á miklu stærra svæði heldur en akkúrat þar sem þessi gangur er að þenjast út,“ útskýrir Halldór.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Það orsaki kannski að einhverju leiti þá jarðskjálftavirkni sem hefur verið nær Grindavík. „Það er alla veganna ein helsta skýringin sem við erum með þessa dagana. Kvikugangurinn virðist ekki vera á neinni ferð þangað beinlínis, það er frekar að stefnan sé núna meira suðlæg heldur en að hann sé að ferðast til suðvesturs. Þannig að það er ekkert sem að styður að það séu einhverjar kvikufærslur þarna nærri bænum,“ segir Halldór.

En eru enn jafn miklar líkur á að það verði stór skjálfti líkt og talað var um fyrir helgi. Er viðbúið að skjálfti upp á 6 eða meira kunni að ríða yfir á svæðinu?

Kvikugangur

Kvikugangur.

„Það eru heilmiklar breytingar á landinu og aflögun á landinu um einhverja sentímetra eða tugi sentímetra og þetta hefur áhrif á þessi jarðskjálftamisgengi sem geta jafnvel verið þó nokkuð í burtu. Þannig að það lítur út fyrir að það hafi kannski heldur minnkað líkur á jarðskjálfta í Brenniseinsfjöllum, þessi tegund af hreyfingu hefur tilhneigingu til að ýta aðeins saman misgengjunum þar þannig að þau festast frekar. En það eru í sjálfu sér ekki miklar breytingar þannig að sú hætta er alltaf enn fyrir hendi svona í bakgrunninum en það er síður líklegt,“ svarar Halldór.

Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð?
Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hversu lengi þetta muni halda áfram eða hvenær þessu muni ljúka. Ekki sjái fyrir endann á virkninni ennþá.

Grindavík

Grindavík.

„Við höfum kannski verið í tiltölulega rólegu tímabili síðustu áratugina og síðustu árhundruðin en það er náttúrlega ekki útilokað að það hafi verið viðlíka hrinur áður en að góðar mælingar voru til. En svo getur líka verið að við séum að fara inn í ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum og það getur þá spannað tímabil sem við myndum mæla þá í einhverjum hundruðum ára, með einhverjum smá gosi hér og hvar, stundum stærri og stundum minni og stundum jarðskjálftar og fleira. En þetta er nú allt í stóra samhenginu þá er þetta nú kannski frekar smátt í sniði yfirleitt, alla veganna sýnir jarðsagan okkur það,“ segir Halldór.

Heimildir:
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/210304_ny.pdf
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/staersti_skjalftinn_i_ruma_tvo_solarhringa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/nylegar_sprungur_eru_a_svaedinu/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/allir_a_tanum_a_vedurstofunni/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/4/ord-gaerdagsins-hvad-er-oroapuls/
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/03/eldgos-vid-keili-gaeti-komid-af-stad-kedjuverkun
-https://www.visir.is/g/20212080792d/afram-gert-rad-fyrir-ad-gos-muni-hefjast
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/5/pall-segir-atburdarasina-reykjanesskaga-koma-stodugt-ovart/
-https://www.visir.is/g/20212081717d/gaetum-sed-fram-a-virknitimabil-sem-spannar-arhundrud

Goshrina

Goshrina – sem spáð var á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Ómar

Á MBL.is þann 11.6.2011 birtist eftirfarandi frétt; „Fornleifar fanga lögreglumann„.

Garður

Höfðinu stungið upp úr fornleifauppgreftri.

„Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, útskrifast í dag sem fornleifafræðingur frá Háskóla Íslands.

Ómar hefur starfað sem lögreglumaður mestallan sinn starfsferil eða í um 35 ár, en segist hafa hugsað til framtíðar þegar hann sótti um nám í fornleifafræði.

„Ég hef alltaf haft áhuga á fornleifum og einn daginn kom upp í huga mér hvað ég ætti að gera þegar ég hætti sem lögreglumaður, þá var ég áður búinn að skoða gamlar minjar á Reykjanesskaganum. Það kveikti í mér og kom lítið annað til greina en að skella sér í háskólann,“ segir Ómar.“

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan. 

„Þetta var nú ekki löng frétt, en merkileg út af fyrir sig“, svaraði Ómar er fréttamaður spurði; „ekki síst í ljósi þess að hafa fengið að taka þátt í að bæta samfélagið, síðan að móta samskiptamál lögreglunnar með verulega jákvæðum árangri, tækifæri til að upplýsa ásamt samstarfsfélögum mínum mörg hin flóknustu afbrotamál síðustu áratugina, gefið áhugasömum kost á að skoða merkilegheit þeirra nánasta umhverfis, og loks, eftir að hafa lokið 45 ára starfi í lögreglunni, innan lögskyldulegra marka, fengið að nýta mér háskólanámið, m.a. í „Hagnýtri menningarmiðlun“, til að stofna vefsíðuna www.ferlir.is með margbreytilegum fróðleik um sögu, minjar og möguleika Reykjanesskagans. Sagan okkar er jú mun merkilegri en líðandi stund.“
„Háskólanámið er í sjálfu sér ekkert merkilegt, margt er þar sem mætti bæta“, bætti Ómar við.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Vefsíðuna hefur, að sögn Ómars, þurft að uppfæra nokkrum sinnum m.t.t. breyttrar tækni og nýrra krafna, en innihaldið hefur þó, þrátt fyrir mótlæti með staðfestu að vopni, fengið að viðhalda sér að mestu, reyndar með mikilli fórnfýsi hverju sinni.

Markmið vefsíðunnar er að upplýsa áhugasama um sögu og minjar Reykjanesskagans í von um að innihaldið fái að lifa áfram meðal þeirra…

Sjá eldri vefsíður

Heimild:
-Morgunblaðið 11.06.2011 (mbl.is), Fornleifar fanga lögreglumann – janus@mbl.is.

Omar

Ómar – við útskriftina í Háskóla Íslands.

Sögukort

Á „Sögukorti Vegagerðarinnar um Suðvesturland“ má lesa eftirfarandi:

Sögukort„Saga Suðvesturlands, frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá og austur til Krýsuvíkur, er afar áhugaverð. Það var þar sem hið endanlega landnám Íslands hófst um árið 874 þegar Ingólfur Arnarsson nam allt svæðið og er talið að bær hans og Hallveigar Fróðadóttur, konu hans, hafi staðið í Reykjavík. Þar hefur verið grafinn upp skáli frá miðri 10. öld með einum elstu mannvistarleifum sem fundist hafa á íslandi. Má af því álykta að svæðið hafi byggst snemma. Helsti þingstaður þar eftir landnám var á Þingnesi við Elliðavatn og er svæðið einnig sögusvið Kjalnesinga sögu.

Sögukort

Sögukort Suðvesturlands.

Á miðöldum var Viðeyjarklaustur (1226-1539) ein helsta stofnun á þessu landsvæði og eignaðist það fjölda jarða við sunnanverðan Faxaflóa. Frá miðri 13. öld og fram til loka 18. aldar voru Bessastaðir á Álftanesi miðstöð norska og síðar danska konungsveldisins á Íslandi og þar sátu helstu embættismenn konungs. Frá stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefur þar verið aðsetur forseta Íslands.

Helstu verslunarstaðir Reykjanesskagans voru lengi Grindavík og Hafnarfjörður, þar sem Englendingar og Þjóðverjar börðust um verslunaryfirráð. Þeir urðu þó að lúta í lægra haldi fyrir Danakonungi sem náði valdi á allri verslun hérlendis í byrjun 17. aldar. í framhald af því sóru Íslendingar konungi eið á Kópavogsfundinum 1662 og erfðaeinveldi komst á. Hugur landsmanna stóð þó alltaf til sjálfstæðis þótt baráttan hafi lengi verið rislítil.

Sögukort

Samgöngukort Íslands.

Það var ekki fyrr en á 19. öld sem sjálfstæðiskrafan náði flugi með Jón Sigurðsson í fararbroddi og árið 118 var Ísland loks viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn. Bæði þingið og ríkisstjórnin sitja í höfuðborg Íslands, Reykjavík, sem festi sig í sessi sem höfuðstaður á 19. öld eftir nokkra samkeppni við Hafnarfjörð. Þar var, auk Alþingis, sem endurreist var 1845, biskupsstóll frá 1801 og þangað var Lærði skólinn fluttur frá Skálholti 1785 og síðar frá Bessastöðum 1846. Byggð á höfuðborgarsvæðinu ox jafnt og þétt alla 20. öldina og bjuggu þar um 2/3 hlutar landsmanna árið 2009.

SögukortÚtgerð hefur verið mikil á svæðinu frá fornu fari, einkum á Suðurnesjum, þar sem voru miklar útgerðarjarðir í eigu konungs og Skálholtsstóls og sóttu menn af landinu öllu þangað á vertíð öldum samna. Enn er útgerð mikilvæg atvinnugrein en iðnaður, landbúnaður, verslun, þjónusta og nú síðast stóriðja, eru ekki síður máttarstólpar atvinnu á svæðinu. Í seinni tíð hefur svo bæst við ferðaþjónusta, hátækni- og þekkingariðnaður.

Náttúra og jarðsaga Reykjanesskagans er einstök því að þar gengur eldvirkur goshryggur á land með gliðnandi pötuskilum á milli Evrópu og Ameríku. Skaginn er því mjög eldbrunninn og þar er jarðhiti víða mikill, einkum á Suðurnesjum en einnig í Reykjavík og Mosfellsdal. Mikið fuglalíf er við sunnan- og vestanverðan Reykjanesskagann, á Álftanesi, Seltjarnarnesi og víðar. Í Eldey er ein mesta súlubyggð í veröldinni. Þá eru góðar laxveiðiár í Kjósinni.

SögukortReykjanesskaginn, höfuðborgarsvæðið, Kjalarnes og Kjós eru rík af fjölbreyttum þjóðsögum, svo sem um álfa, drauga og skrímsli. Einna þekktust er saga af hvalnum Rauðhöfða í Hvalfirði og eins sagan af marbendlinum í Vogum. Einnig eru margar góðar gönguleiðir á svæðinu og margskonar afþreying í boði fyrir ferðamenn þar sem Reykjavík er helsta miðstöð menningar og lista. Þá er Bláa lónið einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi.“
Sögukort

Keilir

Helgi Valdimar Viðarsson Biering skrifaði ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun árið 2024 um „Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga – Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir“. Hér er vitnað í formála ritgerðarinnar:

Helgi Valdimar Viðarsson Biering

Helgi Valdimar Viðarsson Biering.

„Markmið þessa verkefnis er að skrifa gönguleiðabók um fornar leiðir Reykjanesskagans. Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði þegar höfundur að ganga eftir gamalli þjóðleið yfir Vogastapa. Það var rökkur og hann fór að segja samferðafólki sínu draugasögur sem tengdust Stapagötunni svokölluðu. Þá barst í tal að það vantaði gönguleiðabók sem segði frá þessum gömlu leiðum og þeim sögum sem tengjast þeim. Sögur af Stapadraugnum, af hverju Prestastígurinn heitir Prestastígur og af hverju Skipsstígurinn fékk nafnið Skipsstígur? Er það satt að maður hafi fallið í sprungu við Skógfellsstíg og ekki fundist fyrr en mörgum árum síðar? En hvað með þær gömlu leiðir sem við höfum heyrt orðróm um, er hægt að gera þær að þekktum gönguleiðum?
Helgi Valdimar ViðarssonTil að byrja með varð hin gleymda leið um Brúnir fyrir valinu. Hún lá frá Grindavík og niður í Kúagerði en lagðist af sem alþekkt og fjölfarin leið fyrir rúmlega 150 til 200 árum síðan. Einhverjar heimildir voru til um hana í munnmælum gamalla bænda úr Vogum. Höfundi langaði að gera þessari fornleið einhver skil og athuga hvort að hann gæti staðsett hana nákvæmlega. Höfundur gekk hana ásamt tveim göngufélögum, gerði heimildarmynd um hana og gekk hana sem fararstjóri með 56 manna hóp. Höfundur gerði einnig útvarpsþátt þar sem fjallað var um Brúnaleiðina. Hugmyndin fór að taka á sig fastari mynd. Höfundur ætlaði að skrifa gönguleiðabók þar sem allar þessar gömlu leiðir á Reykjanesskaganum fengju sinn sess ásamt nokkrum nýrri. Í bókinni átti að vera, fyrir utan hefðbundnar upplýsingar; frásagnir, þjóðsögur og fréttir af atburðum sem tengjast hverri leið fyrir sig.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Höfundur er síður en svo fyrstur til að skrifa bók um gönguleiðir Reykjanesskagans, en mín er sú fyrsta sem tekur sérstaklega fyrir menningu og sögur sem tengjast hverri leið fyrir sig. Þetta er í fyrsta sinn sem ferðamaðurinn getur sótt sér fróðleik um viðkomandi gönguleið í bók sem studd er af tveim vefsíðum eins og komið er inn á síðar.
Heimildirnar sem höfundur fékkst við til að byrja með voru gömul herforingjaráðskort, loftmyndir og Örnefnasjá Minjastofnunar. Þegar höfundur fór síðan að ganga Brúnaleiðina fann hann vörður og vörðubrot sem ekki voru skráð í gagnagrunn Minjastofnunar.

Brúnavegur

Brúnavegur.

Því ákvað höfundur með sjálfum sér að þessu yrði að koma á framfæri í bókinni, sem hann er að vinna sem hluta af þessari ritgerðarsmíð. Það er ósk höfundar að þetta verkefni verði til þess að enn fleiri hafi áhuga á að ganga hinar fornu slóðir Reykjanesskagans. Að ferðamenn nær og fjær hafi gagn og gaman af, á sama tíma og þeir fræðast um horfinn heim hins gamla íslenska samfélags á Reykjanesskaganum.

Um Reykjanesskagann allan liggur net gamalla gönguleiða sem lágu ýmist á milli bæja, verstöðva eða út af svæðinu og til annarra landshluta. Reykjanesskaginn hefur ekki allur verið vinsæll til útivistar og þá einna helst vegna vanþekkingar fólks á landsvæðinu. Eftir eldgosin við Fagradalsfjall 2021-2023 komst Reykjanesskaginn á útivistarkort landsmanna og erlendra ferðamanna sem nú lenda ekki einungis í Keflavík og mögulega fara í Bláa Lónið, heldur gera sér far um að skoða nágrenni flugvallarins og Reykjanesskagans.

Hemphóll

Hemphóll – áningastaður við Brúnaveg.

Kynningarstarf er hafið, en gera má betur. Höfundur mun leggja sitt af mörkum við að kynna sögu svæðisins með útgáfu gönguleiðabókar ásamt því að bjóða upp á sögugöngu, gera heimildarmynd og útvarpsþátt. Gönguleiðir bókarinnar eru tíundaðar hér, en ein þeirra, Brúnavegurinn, er tekin út fyrir sviga og kynnt sérstaklega.“

Framlag Helga Valdimars kann að verða kærkomin viðbót við fjölmargt það, sem áður hefur verið fjallað um þjóðleiðir Reykjanesskagans í gegnum tíðina. Grindvíkingar fóru um Brúnaveg allt fram á 20. öld. Sagnir lifandi grindjána herma að sú leið hafi jafnan verið farin að vetrarlagi og því eru fá jarðummerki að finna á leiðinni.

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.

Brúnavegur

Brúnavegur – kort.

Gunnuhver

ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr „Jarðfræðikort af Suðvesturlandi“ í mælikvarðanum 1:100 000.

Austurengjahver-21

Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er jafnframt bent á 40 áhugaverða staði og eru lýsingar af þeim að finna hér á vefnum.
Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. „Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.
Sniðgengisþátturinn kemur fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig á Richter.
Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og Krysuvikurberg-21sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir.
Síðasta gos- og gliðnunartímabili lauk um miðja 13. öld. Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Aðeins tvö síðustu gostímabilin eru vel þekkt, það þriðja að nokkru leyti, en helst til fá hraun því tilheyrandi hafa verið aldursgreind. Eldstöðvakerfin hafa ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með löngum hléum á milli.

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar.

Hraundrangur

Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum skagans eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli. Hvert hinna þriggja gostímabila sem greind hafa verið byrjaði þar um 200-300 árum fyrr en hin komu til. Endurtaki það sig mætti ætla að Brennisteinsfjallakerfið færi að nálgast nýtt upphaf miðað við lengd undanfarinna sniðgengistímabila. Hin myndu svo fylgja eftir með löngum hléum á milli.

Básendar – Básendaflóð
Basendar-21Eitt mesta sjávarflóð sem orðið hefur við Íslandsstrendur, Básendaflóðið, er kennt við Básenda á Reykjanesi. Básendar var gamall verslunar- og útróðrarstaður skammt sunnan við Stafnes og þekktur frá fornu fari. Þar eru grágrýtisklappir við sjóinn og grýttar fjörur. Ströndin öll liggur fyrir opnu hafi en smávíkur og básar gera veitt bátum og smærri skipum var.
Básendaflóðið varð aðfaranótt 9. janúar 1799. Þetta var stórstraumsflóð samfara lágum loftþrýstingi og aftakaveðri af hafi en við slíkar aðstæður magnast flóðbylgjan. Á Básendum gekk hún langt á land og hreif með sér verslunarhúsin og flest önnur hús á staðnum, eyðilagði lendinguna og braut alla báta sem þar voru í naustum. Margir sluppu naumlega úr flóðinu en gömul kona drukknaði. Þá urðu einnig gríðarmikil flóð og eignatjón víða við Suður- og Vesturland allt frá Þjórsárósi til Barðastrandar.

Basendar-22

Allmikil tóftarbrot eru á Básendum. Staðurinn er sæmilega merktur.
Í Reykjavík gekk sjór yfir nesið vestan við Lambastaðahverfið svo Seltjarnarnesið var sem eyja í hafinu. Fátítt er að slíkt gerist en átti sér þó stað 1936 í Pourquoi Pas veðrinu fræga. Bærinn Breið, sem var yst á Akranesi, gereyddist, bæði hús og tún. Talið er að 187 skip og bátar hafi eyðilagst eða stórskemmst en engin sjóslys urðu þó. Fárviðri var að suðvestri þessa nótt þannig að það var ekki einungis sjávargangurinn sem olli eyðileggingu. Kirkjurnar á Hvalsnesi og Nesi við Seltjörn fuku af grunni og brotnuðu í spón og kirkjurnar á Kirkjuvogi og Kálfatjörn stórskemmdust .

Basendar-23

Miklar breytingar urðu víða við ströndina, sjávarkambar hurfu og nýir urðu til og grandar og eiði tóku stakkaskiptum. Erfitt er að meta flóðhæðina en þó eru ýmsar vísbendingar í tjónalýsingum. Í skýrslu um tjónið á Básendum er sagt að sjór hafi komist 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur hafi skolast upp á húsþak og liggi þar 4 álnum yfir jafnsléttu. Geir biskup Vídalín sem bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi áleit „að 5 álnum [3 m] hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum“.
Breidd flóðsins Pattersson-21innan við Lambastaði mældist 300 faðmar (áln 0,63 m, faðmur 1,88 m). Í Staðarsveit á Snæfellsnesi gekk sjórinn alstaðar meira en 560 m lengra á land en í eðlilegum stórstraumi og allt upp í 2800 m. Í dag eru ummerki Básendaflóðsins hvergi glögg. Þrátt fyrir það eru þetta mestu hamfarið af völdum sjávarfalla sem vitað er til að hafi orðið við Ísland á sögulegum tíma.

Pattersonvöllur – fornskeljar, 20-25.000 ára gamlar
Undir Pattersonflugvellinum sunnan við Innri-Njarðvík eru allþykk, forn, hörðnuð sjávarsetlög. Í þeim er á köflum mikið af steingerðum skeljum. Mest ber á sandmigu (smyrslingi – Mya truncata) og er hún víða í lífsstöðu. Í einstaka samloku hefur fundist steingerður skelfiskur. Aldur skeljanna er 20.000-22.000 ár og þær því lifað skömmu áður en jöklar síðasta jökulskeiðs gengu fram í fremstu stöðu fyrir um 18.000 árum. Sjávarstaða hefir verið a.m.k. 5-10 metrum ofar en nú.

Valahnúksmöl – sjávarkambur

Valahnuksmol

Valahnúksmöl er 420 m langur og 80 m breiður stórgrýttur sjávarkampur (-kambur) úr vel núnum hnullungum, mestmegnis á bilinu 1-3 fet í þvermál. Hann liggur þvert um sigdæld, eða sigdal, sem markast af Valahnúk í norðri og Valbjargagjá í suðri. Þegar hásjávað er myndast lítið lón innan við kampinn.
Uppruna grjótsins í Valahnúksmöl er einkum að leita í sjávarklettum milli kampsins og Reykjanestáar. Ströndin þarna er ákaflega brimasöm og er þungi úthafsöldunnar mikill þegar hún skellur á klettunum. Ber hún skýr merki þessara átaka og er alsett básum og skútum, jafnvel gatklettum. Valahnúksmöl liggur nokkuð inn á Yngra Stampahraun, sem rann á öndverðri 13. öld, og er því yngri.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaugin neðst.

Vert er að benda á frumstæða sundlaug innan við kampinn gerða af vitaverði í Reykjanesvita á 3. áratug síðustu aldar. Laugin var sprengd niður í sprungu við norðanvert lónið. Hún var einungis nothæf á flóði en með aðfallinu streymir sjór um sprungur inn í lónið og hitnar.

Háleyjabunga – dyngjugígur
HaleyjarbungaHáleyjabunga er lítil hraundyngja austast á Reykjanesi. Í hvirfli dyngjunnar er allstór hringlaga gígur, um 25 m djúpur.Hraunin eru úr bergtegundinni píkrít, sem er mjög auðugt af steindinni ólivín. Í handsýni má auðveldlega sjá mikið af flöskugrænum ólivíndílum. Píkrít flokkast sem frumstætt berg og er talið eiga upptök í möttli jarðar.
Mesta sjáanlega þvermál dyngjunnar er um 1 km en hún er umlukt yngri hraunum á alla kanta nema suðaustanmegin, þar sem hún liggur að sjó. Í sjávarhömrunum er auðvelt að skoða byggingu dyngjunnar og einnig sést vel hvernig yngri hraun hafa runnið upp að henni. Píkríthraun eru talin elst hrauna á Reykjanesskaga, frá því skömmu eftir að ísaldarjöklana tók að leysa.

Kerlingarbás – öskugígur og berggangar
KerlingarbasVið Kerlingarbás, sem er grunnur vogur næst sunnan Önglabrjótsnefs, hafa skapast einstakar aðstæður til að skoða innviði eldgíga af ýmsum gerðum. Gígaraðir á vestari gosrein Reykjaness, sem kennd hefur verið við Stampa, liggja að sjó við Kerlingarbás. Þar sem gossprungurnar opnuðust í sjó  hlóðust upp gjóskukeilur en gjall- og klepragígar þar sem sjór komst ekki að gosrásinni. Leifar þriggja gjóskugíga af hverfjallsgerð má sjá við ströndina. Þeir tilheyra Eldri og Yngri Stampagígaröðunum sem liggja um 4 km inn til landsins frá Kerlingarbás.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Eldra Stampagosið varð fyrir tæpum 2000 árum síðan en það yngra á 13. öld. Gosmyndanir Stampagígaraðanna eru mest áberandi við Kerlingarbás en þó sér þar í eldri myndanir í sjávarmálinu, bæði túff og hraun.
Gígar og hraun við Kerlingarbás á Reykjanesi. Myndin er tekin frá Önglabrjótsnefi.

Kerlingarbas-2

Norðan til í básnum er þverskorinn gjallgígur á Eldri Stampagígaröðinni. Þar má m.a. sjá bergstólpa í fjörunni sem er hluti af gosrás hans. Gígur þessi ber nafnið Kerling (kemur fram í þjóðsögum ásamt dranginum Karli).
Eftir að virkni á Eldri Stampagígaröðinni lauk tók við goshlé á Reykjanesi í um 1100 ár. Yngra Stampagosið hófst snemma á 13. öld á gossprungu sem lá um 150 m suðaustan Eldri Stampagígaraðarinnar. Í upphafi gossins hlóðust upp tvær gjóskukeilur af hverfjallsgerð við ströndina. Aldursmunur þeirra er vart meiri en nokkrir mánuðir. Gígrimar beggja gíganna náðu inn á land og eru að hluta varðveittir. Yngra Stampahraunið rann upp að gígrimunum og markar hraunbrúnin hringlaga útlínur þeirra. Við miðjan Kerlingarbás má sjá tvo þunna bergganga sem liggja upp í gegnum yngri gjóskukeiluna, í Yngra Stampahraunið. Gefst þarna gott tækifæri til að skoða tengsl hrauns við aðfærsluæðar þess. Um 150 m breið sigdæld liggur um miðjan Kerlingarbás, með skarpa brún norðan megin. Rofmislægi koma fram beggja vegna sigdældarinnar. Við Kerlingarbás má fá góða mynd af gosvirkni við mörk lands og sjávar.
Við Kerlingarbás. Á myndinni hér að ofan sést berggangur sem liggur í gegnum óharðnaða gjósku, upp í Yngra Stampahraunið.

Eldvörp – gígaröð frá 13. öld
Eldvorp-21Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eld-varpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar. Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun. Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.

Sandfellsdalur – dyngjugígur
SandfellshaedStærstu hraunin á Reykjanesskaga eru dyngjur. Þær elstu og stærstu, hvor um sig yfir 100 km2, eru Sandfellshæð og Þráinsskjöldur. Þær mynduðust á síðjökultíma fyrir um 14.000 árum. Þá var sjávarstaða næstum 30 m lægri en nú.
Gígurinn í Sandfellshæð heitir Sandfellsdalur. Hann er næstum kringlóttur, mest 450 m yfir barminn. Í honum hefur verið hrauntjörn. Hraun úr henni hefur runnið um hellakerfi. Sums staðar hefur ollið upp úr því, t.d. þar sem röð af hraunbólum vísar til vesturs með Langhól og Berghól stærstum. Í lok gossins hefur sigið í tjörninni og hallandi spildur hangið eftir innan á barminum. Hraun hefur einnig runnið yfir gígbarminn. Næst honum er það fremur frauðkennt og þunnbeltótt en fjær eru beltin þykkri og bergið þéttara. Dyngjugos standa lengi, jafnvel í nokkur ár þau stærstu. Bergið í þeim er jafnan ólivínríkt. Um það bil 5 km breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Jaðarmisgengið suðaustan megin skerst yfir gíginn í henni og heldur áfram norðaustur yfir Sandfell, Lágafell og Þórðarfell. Það sést ekki í um það bil 2000 ára hrauni suðvestan við gíginn en kemur aftur fram í eldri hraunum úti á Reykjanesi, svo sem Háleyjabungu.

Stampagígaröðin 
Stampar-21Yngra Stampahraun er eitt af hraunum Reykjaneselda 1210-1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum og neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.
Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 km2. Á norðurenda hennar eru tveir allstæðilegir  „stamplaga“ gígar sem heita Stampar. Sunnar á gígaröðinni eru nokkrir stæðilegir gígar sem bera nöfn, s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri, en allir þessir gígar voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Að öðru leyti eru gígar Stampagígaraðarinnar lágir klepragígar og fremur lítt áberandi.
Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti sex gosa í sjó við Reykjanes á tímabilinu 1210-1240. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi sem skjóta stoðum undir þessar frásagnir.

Stampar-22

Einnig eru þekkt fjögur hraun sem runnu á þessu tímabili, það er Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar 1210-1240. Eldarnir byrjuðu með gosi í sjó við suðvesturströnd Reykjaness. Þar hlóðust upp tveir gjóskugígar af hverfjallsgerð með um 500 metra millibili. Er drangurinn Karl hluti af gígbarmi yngri gígsins. Báðir gígarnir eru nú mikið eyddir vegna rofs en hlutar þeirra eru þó varðveittir á ströndinni. Þar má sjá allt að 20 metra þykka gjóskustabba sem vitna um tilvist gíganna. Í framhaldi af gjóskugosunum rann Yngra Stampahraunið.

Gunnuhver – hverasvæði
Gunnuhver-21Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter.
Í helstu hrinunum Gunnuhver-22hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Skálafell – jarðskjálfta-sprungur
SkalafellSkálafell hefur hlaðist upp í nokkrum gosum á gossprungum og aldursmunur á þeim er mikill. Toppgígurinn í því er klepragígur af eldborgargerð. Hann varð til í því yngsta, líklega fyrir rúmum 3000 árum. Kringum toppgíginn eru jarðföll (skálarnar?) þar sem runnið hefur undan. Af þeim toga er einnig smáhellir suður úr toppgígnum. Elstu hraunlögin úr Skálafelli, yfir 8000 ára, sjást í misgengisstalli austan við fellið og í sjávarklettum (Krossvíkurberg). Brotstallar eru stórir í gömlu hraununum en í yngsta hrauninu rétt mótar fyrir þeim. Misgengi þessi takmarka siglægðina á Reykjanesi að austan. Tilsvarandi misgengi á móti eru vestur við Kinn og við táknræna brú yfir flekaskilin. Þar á milli eru 5 km. Á hraunsléttu kippkorn norðaustan við Skálafellsbunguna eru gömul hraun úr Skálafelli og í þeim slitróttar gjár með norð-suðlægri stefnu. Færsla á þeim er lárétt til hægri þegar horft er þvert yfir þær. Einkenni þeirra eru uppskrúfaðir sprunguhólar þar sem sprungubútarnir hliðrast til.

Hrólfsvík – hnyðlingar
HrolfsvikHrólfsvík er þekktur fundarstaður hnyðlinga. Hnyðlingar eru aðskotasteinar sem kvika hefur hrifið með sér í gosum. Ein gerð þeirra er úr gabbrói og svo er um hnyðlingana í Hrólfsvík. Þar eru þeir í hraunlagi, eða öllu heldur í hraunbelti, og krökkt af þeim á litlum kafla austanvert í víkinni. Ekki er vitað um upptök hraunsins. Ofan á því er sandur og möl sem best sést í lágum sjávarbakka. Áhorfsmál er hvort jökull hefur gengið yfir það. Hnyðlingarnir eru ýmist rúnnaðir eða kantaðir. Í þeim er aðallega feldspat en mikið ólivín í sumum. Þeir gætu verið úr botnfalli kvikuinnskots sem var byrjað að storkna en kvika hreif svo með sér eftir viðdvöl í neðra. Skorpan undir Reykjanesskaga er úr gosbergi og minni háttar innskotum niður á 5-6 km dýpi en þar undir innskotsbergi, fyrst berggöngum og síðan gabbrói. Vel mega gabbróhnyðlingarnir vera úr gabbrólaginu.

Festarfjall – rofin eldstöð, aðfærsluæð og berggangar
FestarfjallÓvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti. Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur. Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.

Vestan Selatanga – tæmd hrauntjörn
KatlahraunHraunið vestan við Selatanga er úr Moshólum, sundurgröfnum gjallgígum við veginn neðst í hraunsundinu milli Móhálsa. Moshólar eru ysti parturinn af gígaröð sem nær inn fyrir Trölladyngju. Aldur hennar er um 2000 ár. Þekktasta hraunið úr henni er Afstapahraun. Veiðistöðin gamla á Selatöngum er þar sem hraunið úr Moshólum og Ögmundarhraun koma saman. Þar er dálítið var í smáviki.
Katlahraun heitir í Moshólahrauninu (ekki örnefni) þarna vestur af. Í því eru tvær stórar bungur úr helluhrauni skammt vestur af Selatöngum. Hraun hefur safnast í þær en síðan hlaupið undan fram í sjó og miðsvæðið í þeim sigið og 10-20 m hár veggur staðið eftir umhverfis. Stöku strípar standa eftir í siglægðinni. Innveggir eru ýmist hrunskriða eða húðaðir hraunbrynju, svo einnig stríparnir.
Helluhraunið í botni er ogmundarhraun-mosiýmislega beyglað og brotið. Þessi tæmda hrauntjörn minnir á Dimmuborgir í Mývatnssveit en sá munur er að þær eru gervigígamyndun og hér vantar gjallið sem einkennir þær.

Húshólmi, Óbrennishólmi – rústir og samspil byggðar og eldgosa
Allstór óbrinnishólmi austast í Ögmundarhrauni niður undir sjó. Hólminn opnast niður í fjöru [Hólmasund]. Ögmundarhraun sem brann árið 1151 umlykur hann. Í hólmanum og kimum vestur úr honum eru mannvistarleifar sem eru eldri en hraunið. Í aðalhólmanum eru tveir fornir torfgarðar sem hraunið hefir runnið upp að og yfir. Annar þeirra var hlaðinn fyrir árið 871, er landnámsöskulagið féll, og því eitt elsta mannvirki sem fundist hefir í landinu. Í kimunum eru húsatóftir sem hraunið rann upp að og að stórum hluta yfir. Þar eru leifar af stórum bóndabæ sem hlaðinn hefir verið að hluta úr lábörðu grjóti.
Þar er einnig heilleg tóft sem talin hefur verið af kirkju. Husholmi-21Þessi staður nefnist Forna-Krýsuvík og þar hefir Krýsuvíkurbærinn staðið frá upphafi og fram að gosi er hann hefir verið fluttur á núverandi stað.
Óbrennishólmi er í miðju Ögmundarhrauni norðvestur af Húshólma. Gengið er í hólmann frá fjallinu Lat. Þá er farinn misglöggur stígur um Ögmundarhraun sem brann árið 1151. Í Óbrennihólma er forn, hringlaga fjárborg og einnig eru þar leifar af túngarði. Þessar mannvistaleifar eru eldri en hraunið.

Ögmundarhraun við Núphlíð – gígar og hraunfossar
Ögmundarhraun myndaðist í gosi árið 1151. Þá opnaðist um 25 km löng sprunga eftir endilöngum Móhálsadal og allt norður undir Kaldársel. Í henni miðri er gígalaus kafli. Úr suðurhlutanum rann Ögmundarhraun en Kapelluhraun úr þeim nyrðri. Syðst í Vesturhálsi, þar sem heitir Núphlíð, liggur gígaröðin á bláfjallsbrúninni og falla frá gígunum hraunlænur niður þverhnípta hlíðina. Hraunið er að mestu slétt helluhraun og gígarnir eru flestir litlir.

Grænavatn, Gestsstaðavatn – sprengigígar
GraenavatnÍ Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára. Þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV.Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni). Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni.

Grænavatn

Grænavatn.

Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með. Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á. Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis.

Seltún – háhitasvæði
Seltun-21Seltúnshverir kallast hveraþyrping neðst í lækjarskorningi sem margir skoða, enda við alfaraveg. Fyrir rúmri öld var þar miðstöð brennisteinsvinnslu og fyrir um hálfri öld einn helsti vettvangur borana í Krýsuvík. Þarna eru gufu- og leirhverir og heit jörð umhverfis. Nokkuð er um heiðgulan brennistein en einnig gulleit og hvít hverasölt. Þau þekkjast frá brennisteini á beisku bragði en hverfa að mestu í rigningartíð.
Fúlipollur heitir víð hveraskál austan vegarins en dautt er í honum nú. Kraumandi leirhverir eru fast við veginn aðeins norðar. Gamlir borpallar eru við lækinn vestan við göngustíginn. Borholan í öðrum þeirra reif sig upp í gos veturinn 2010 en dagar liðu og líða enn milli gosa.

Seltun-22

Úthlaupi fyrir gosin er beint til hliðar yfir lækinn. Gufusprenging varð í annarri borholu neðst í brekkunni austan við stíginn í nóvember 1999. Hún myndaði gíg um 30 m í þvermál. Úrkastið, leir og grjót, barst inn með hlíðinni til norðausturs og gulleitur hroði situr enn á brekkunni.
Vatnið í hverunum er yfirborðsvatn. Það hitnar af gufu sem sýður upp af jarðhitageyminum undir og þéttist í því. Gastegundir, einkum brennisteinsvetni, fylgja með. Þær sýra yfirborðsvatnið og leysa bergið sundur í leir. Aðeins efstu 300 metrar jarðhitakerfisins undir Seltúnssvæðinu eru í suðu, þ.e. fylgja suðumarksferli með dýpi. Þar fyrir neðan kólnar. Það bendir til flatrennslis frá uppstreymi til hliðar.

Stóra-Eldborg – eldborg

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

Eldborg (Stóra-Eldborg) sunnan við Geitahlíð er dæmi um gíg af eldborgargerð. Gígarnir eru raunar tveir, báðir með eldborgarlögun. Gígar þessir eru á gossprungu með þrem smágígum milli eldborganna og Geitahlíðar. Norðan við Geitahlíð heldur gígaröðin áfram. Eldborgir myndast kringum hrauntjörn af hraunbráð sem fellur úr miðlægum gosstrók, eins og hér, eða smástrókum í tjörninni og hlaða upp kamb allt umhverfis, brattastan efst. Hér er kamburinn úr 5-10 cm þykkum hraunskeljum, líkustum hraunbelti hver og ein, blöðróttar efst en þéttari neðar. Hraun getur runnið yfir gígbarminn og svo var hér um skarð austan í móti. Hrauntraðir eru þar niður undan og sömu þunnu hraunskeljarnar í börmum þeirra.

Bálkahellir

Bálkahellir í Elborgarhbrauni.

Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun. Það hefur runnið til sjávar fram af Krýsuvíkurbergi austast. Aldur þess er ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.

Sog – gígar og litskrúðug ummyndun

Sog

Sogin er slakki sunnan við Trölla- og Grænudyngju. Í Sogunum er litskrúðug háhitaummyndun og nokkrir leirhverir og gufuaugu. Skammt neðan við Sogin er merkileg gígaröð. Norðan við vegslóðann er svonefndur Sogagígur, allstór sprengigígur. Inni í honum eru tóftir af nokkrum fornum seljum. Sunnan við vegslóðann eru nokkrir minni en áberandi sprengigígar. Suður af Sogunum er Spákonuvatn og enn sunnar Grænavatn. Mikið útsýni er af egginni ofan við Sogin. Í sundinu milli Soga og Oddafells eru falleg apalhraun og gufur upp úr þeim í grennd við borholu sem þar er.

Lambafellsgjá – bólstraberg
Lambafellsklofi-21Norðan við Eldborg við Trölladyngju er lágt, ávallt fell er nefnist Lambafell. Syðst í því eru virk háhitaaugu. Eftir fellinu er slakki eða lág brún sem opnast í hrikalegri gjá sem nefnist Lambafellsgjá. Gjáin er aðeins nokkurra metra víð og mesta dýpi er um 50 metrar. Gjáin opnast út á jafnsléttu í norðurenda fellsins. Hægt er að ganga eftir gjánni endilangri. Auðveldast er að fara upp í fellið að sunnanverðu og ganga niður gjánna. Þar eru bratt og nokkuð laust undir fæti en engin mannhætta. Í veggjum gjárinnar sést bólstraberg sem fellið er byggt úr. Gjá þessi er vafalaust að stórum hluta mynduð við umbrot á nútíma en fellið sjálft virðist aldið og hugsanlega frá næstsíðasta jökulskeiði eða jafnvel eldra.

Hrútagjá – risfláki
Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða sem vert er að skoða. Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulaga-rannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum.

Hrutagja-21

Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.
Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu. Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast. Hún hefur verið allt að 30 m há.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.

Straumsvík
Straumsvik-21Straumsvík er lítil sjávarvík sem gengur inn á milli Kapelluhrauns, sem rann árið 1151, og hrauns frá Hrútagjárdyngju sem er um 6000 ára. Keflavíkurvegurinn liggur við víkurbotninn. Bærinn Straumur stendur við víkina og handan hennar er Álverið í Straumsvík. Þarna eru miklar fjörulindir sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund við ströndina og út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Fjörulindir eru allvíða á Reykjanesi en hvergi eru þær eins vatnsmiklar og áberandi. Vatnið er úrkomuvatn sem fellur á hraunin upp af Straumsvík. Hluti þess er kominn úr Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð. Kaldá kemur upp í Kaldárbotnum en hverfur aftur í hraunin nokkru neðar. Vatnið birtist síðan á ný í Straumsvík. Annar grunnvatnsstraumur kemur frá Kleifarvatni. Við Þorbjarnarstaði hjá Straumsvík eru tjarnir sem flóðs og fjöru gætir í. Við innstu tjörnina er Gvendarbrunnur. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.

Ástjörn
AstjornÁstjörn er hraunstífluð tjörn í kvos vestan undir Ásfjalli, tæpir 5 ha að stærð og liggur í um 20 m hæð yfir sjó. Berggrunnurinn í kvosinni undir tjörninni er kubbaberg úr neðsta hluta Reykjavíkur-grágrýtisins en í Ásfjalli er yngra grágrýti. Fyrir um 3000 árum rann svokallað Skúlatúnshraun niður með grágrýtisholtunum. Þetta var þunnfljótandi helluhraun sem nú myndar ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík. Það rann fyrir mynni kvosarinnar og þá hefur Ástjörn líklega orðið til í lægð milli hraunsins og grágrýtisins sem myndar Ásfjall. Skömmu eftir landnámsöld, eða um 950, varð eldgosahrina í Grindaskörðum og Brennisteinsfjöllum.

Selhóll

Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.

Mjóir, þunnfljótandi hraunstraumar teygðu sig allt niður undir Hvaleyrarholt. Þetta er flatt helluhraun og nefnist eftir útliti sínu Hellnahraun. Tunga úr hrauninu rann inn í kvosina við Ástjörn sem þá fékk sitt núverandi lag. ÁAsfjall-22stjörn er afrennslislaus á yfirborði, eins og flest vötn á Reykjanesskaga, en vatnsstaðan í henni ræðst af grunnvatnsstöðunni í berginu. Þegar hátt stendur má greina streymi frá tjörninni inn í vikið vestast í henni þar sem vatn sígur í hraun og skilar sér með grunnvatnsstraumi til sjávar vestan við Hvaleyrarhöfða. Innrennsli í tjörnina kemur úr mýrunum norðan hennar og austan. Þar eru smálindir sem koma úr grágrýtinu. Vatnasvið tjarnarinnar á yfirborði er ekki nema um 1 km2.
Útsýni af Ásfjalli er gott og áhugavert fyrir fólk sem vill fræðast um jarðfræði og sögu Hafnarfjarðar og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Bærinn Ás stóð skammt frá tjörninni en bæði hún og fjallið þar ofan við heita eftir bænum. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkenndust af fjölbreyttu gróðurfari en nú er lúpínan að leggjast yfir svæðið og rýma brott upprunalegum gróðri. Fugla- og smádýralíf er auðugt. Ástjörn er friðuð og umhverfis hana er friðland og fólkvangur.

Álftanes og Álftanesgarður
Bessastadir-23Álftanesgarðurinn er jökulgarður sem myndast hefur framan við skriðjökulstungu sem lá yfir Álftanes einhvern tíma í ísaldarlok. Bæjarröðin gamla á nesinu frá Skógtjörn að Bessastöðum er á garðinum sem síðan heldur áfram út á Bessastaðanes. Þar hverfur hann í sjó. Á árum áður mátti sjá hvar hann tók land yst á Kársnesi en nú er hann horfinn undir fyllingu þar. Garðurinn er lágur og breiður og gæti hafa myndast í sjó, a.m.k. er ljóst að sjór hefur gengið yfir hann eftir að hann varð til. Álftanesgarðurinn er langstærsti jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Minni garðar og garðstubbar eru á nokkrum stöðum, s.s. við botn Kópavogs og við Grafarvog. Fátt er vitað með vissu um aldur Álftanesgarðsins. Hann virðist þó vera yngri en skeljalög Fossvogsins og er að líkindum frá yngra dryas kuldakastinu og um 11.000 ára.

Rauðhólar – gervigígar

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Fyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.
VideyRauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp. Hægt er að aka að Rauðhólum frá Suðurlandsvegi, um 1 km austan Rauðavatns.

Viðey – basaltinnskot og keilugangar

Viðey

Viðey.

Berggrunnur Viðeyjar skiptist alveg í tvennt. Á Vestureynni er grágrýtishraun frá hlýskeiði seint á ísöld. Á Heimaeynni er aftur á móti mest áberandi jarðlög sem myndast hafa í tengslum við svonefnda Viðeyjarmegineldstöð sem var virk fyrir um tveimur milljónum ára. Þar er gosmóberg víða og einnig eru setlög austast á eynni. Inn í móbergið hafa troðist innskotseitlar s.s. Virkishöfði. Norðan á Heimaey er svo grágrýtisflekkur allstór.

Búrfellsgjá – gígur og hrauntröð
Burfell-22Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
Smyrlabúðarhraun
Gráhelluhraun
Lækjarbotnahraun
Urriðakotshraun
Hafnarfjarðarhraun
Garðahraun
Gálgahraun
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – loftmynd.

Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Burfellsgja-21Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og  misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hverahlid-21

Hrauntraðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Margir hraunhellar eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Hverahlíð – jökulhamlaður hraunjaðar

Hverasvæði

Á hverasvæði við Hverahlíð.

Hverahlíð er hluti af bogadregnum stalli. Hann er hæstur á móts við hverina en lækkar niður að jöfnu til austurs og heldur nokkurn veginn hæð til vesturs. Stallur þessi er hraunbrún á dyngju sem myndaðist seint á ísöld, líklega á síðasta jökulskeiði, og nefnd er Skálafellsdyngja (ekki örnefni). Hún er hæst vestan við Skálafell. Þar er gígurinn, Trölladalur. Hraunið er skrapað af jökli sem hvalbök og jökulrákir á því sýna. Hraunbrúnir sem þessar myndast þar sem hraun hafa runnið í aðhaldi af jökli. Hér hefur hann verið á hæð við stallinn eða lítið þar yfir. Neðst í stallinum sést hér og þar móbergsbreksía með bólstrum. Hún nær hátt upp í hann nokkuð austur frá hverunum.
Skalafell-21Vatn hefur eftir því staðið mishátt í lóni milli jökuls og hrauns. Lægri stallur í miðri hlíð sýnir hraunrennsli við lága vatnsstöðu. Hverahlíðarhorn skagar vestur úr hraunjaðrinum. Þar hefur hraunið leitað í rás sem þangað lá. Hraunið hefur runnið niður á jafnsléttu í Ölfusi og í sjó við um það bil 30 m háa sjávarstöðu sem skil á breksíu og hraunlögum sýna. Þar er á því hnullungakambur eftir 20 m hærri sjávarstöðu frá lokum ísaldar. Hverirnir sem hlíðin dregur nafn af eru á NA-SV sprungu. Hana má rekja töluverðan spöl suður á dyngjuna. Undir Hverahlíð er hæstur hiti í jarðhitakerfinu sunnan Hengils, vel yfir 300°C.

Ölfusvatnslaugar – uppsprettur
Olfusvatnslaugar-3Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal [í Þrengslum við Miðdal] inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.

Gjárnar á Þingvöllum
ThingvallagjarGliðnunarbelti Reykjaneshryggjar gengur inn í Ísland. Á Reykjanesskaga er það samsett af tveim þáttum, gliðnun og sniðgengi. Það mætti nefna sniðrekbelti. Hreint rekbelti verður hryggjarstykkið ekki fyrr en norðan Hengils, í norðurgrein eldstöðvakerfis hans. Partur af því er Þingvallasigið með gjánum beggja vegna. Gjárnar norðan við Þingvallavatn eru í dyngjuhrauni sem rann fyrir um 10.000 árum. Gígurinn í dyngjunni er suður af Hrafnabjörgum. Nýrunnið náði hraunið suður á móts við Nesjaey. Þingvallavatn var þá að flatarmáli aðeins um þriðjungur þess sem það er nú. Gjárnar komu fram við tognun yfir flekaskilin og því fylgdi landsig. Þetta gerðist í hrinum með gangainnskotum frá Hengli og gliðnun gjánna ofan þess sem gangarnir náðu. Við landsigið færðist ströndin innar. Tímann á milli slíkra umbrota þekkjum við ekki en síðasti atburður af því tagi varð í júní 1789.

Þingvellir

Vatnskot.

Sokkinn túngarður í Vatnskoti sýnir að landsigið þar nam um 2,5 metrum. Vestan megin er svo til allt sigið um Almannagjá en austan megin deilist það á fleiri gjár. Sigið í Almannagjá losar 40 m þar sem mest er. Líta má á misgengin við Hestvík sem framhald gjárinnar til suðvesturs. Þar sneiða þau sundur grágrýtisdyngju og er austurhlíð hennar töluvert neðar en botn víkurinnar. Samanlögð stærð sigstallanna, þeir eru tveir stærstir, nemur hátt í 400 metrum. Hún gæti eftir því verið tíu sinnum eldri en Þingvallahraun og þá frá síðasta hlýskeiði ísaldar.

Súlufell – sprengigígar
KattartjarnirSúlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan. Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum.

Sulufell-3

Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum. Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.

Tjarnarhnúkshraun við Ölfusvatnsá – fjölbreyttir hnyðlingar
Tjarnahnuksgigur-3Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.

Sogið

Sogið.

Eftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt.

Tjarnahnuksgigur-4

Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.

Dyrafjöll – móbergshryggir og misgengi
Dyradalur-21Dyrafjöll eru samsett úr mörgum goseiningum sem skiptast í þrjár syrpur. Tvær af þeim eru við Nesjavallaveginn.
Eldri gossyrpan er úr næstum dílalausu þóleiítbasalti, sem aðallega er móberg, en grágrýtishraunlög samkynja eru ofan á því, ósamfelldir flákar og bleðlar. Grágrýtið er straumlögótt og oft rauðagjall neðst í því. Stærsti flákinn er á Háhrygg.
Yngri syrpan samanstendur af bólstrabergs- og móbergshryggjum úr dílóttu basalti. Móbergshryggirnir eru skarpir en bólstrabergshryggirnir ávalir og skriðurunnir.
Nesjavellir-21

Hryggir þessir eru fremur efnisrýrir og dalir skilja þá að, luktir öllum megin. Fyrir kemur þó að rás hafi grafist á milli. Dyrnar eru dæmi. Þar má á nöfinni sjá jökulbergslag á skilum milli þessara myndana.
Grágrýtið í dyngjunni vestan við Hestvík gengur undir Dyrafjöll. Það er sennilega frá síðasta hlýskeiði ísaldar. Fjöldi misgengja liggur eftir Dyrafjöllum. Lóðrétt færsla á þeim er báðum megin frá að Háhrygg. Í honum er siglægðin þannig dýpst þótt landið sé hæst. Frá Háhrygg gengur hún ofan í Hestvík, og til suðvesturs yfir Hengil.

Nesjavellir

Nesjavellir.

Nesjavellir eru á austurvæng siglægðarinnar. Misgengi eru báðum megin við hann en færsla á þeim er niður til vesturs. Því er líkast að misgengi með færslu niður til austurs sé vestan Nesjavalladalsins en svo er ekki. Þar hefur á austurhlíð Háhryggjar gosið á Hengilssprungunni auk þess sem einn af yngri hryggjunum, Kýrdalsbrúnir, hafa hlaðist þar upp. Eftir Kýrdalsbrúnum liggja að auki tvær gígaraðir. Gosrein þessi er meginuppstreymisrás Nesjavallahluta jarðhitakerfisins sem virkjunin byggir á.

Seltjörn – fjörumór
SeltjornLand er að síga við sunnanverðan Faxaflóa. Þetta sést bæði í gömlum örnefnum og í jarðlögum. Þegar land byggðist virðist hafa verið allmikil tjörn eða stöðuvatn á Seltjarnarnesi sem nesið dró nafn sitt af. Vegna landsigs og ágangs sjávar breyttist tjörnin í breiða sjávarvík milli Gróttu og Suðurness. Talið er að allt fram á 18. öld hafi Seltjarnarrif (eða Suðurnesrif) lokað Seltjörn og hún því verið með fersku eða lítt söltu vatni fram til þess tíma.

Grótta

Grótta.

Þegar lágsjávað er við ströndina, t.d. á stórstraumsfjöru, koma sérkennilegar jarðvegstorfur í ljós sem standa upp úr sandinum og sjávarmölinni við ströndina fyrir miðri Seltjörn. Þetta er fjörumór sem myndast hefur í vel gróinni mýri. Mórinn er 3000-9000 ára og sýnir að Seltjarnarnes hefur sigið um 3-5 m á síðustu 3000 árum og um 1-1,5 m frá landnámstíð.

Fossvogur – setlög frá ísaldarlokum

Fossvogur

Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar er straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum víða um vesturbæ Reykjavíkur, svo sem á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld.
Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum og allt eru það tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur, t.d.:
smyrslingur (mya truncata)
hallloka (macoma calcaria)
beitukóngur (buccinium undatum)
hrúðurkarlar ((Balanus balanus) o.fl.

Raufarholshellir

Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur eru undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500-13.000 ára, eða frá alleröd-tímabilinu og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá yngra dryas kuldakastinu.

Raufarhólshellir
Raufarhólshellir er rétt fyrir ofan efsta hjallann á Þrengslavegi, áður en farið er niður í áttina til Þorlákshafnar. Hann er ekki vel sýnilegur frá veginum þótt hann sé aðeins steinsnar frá honum austanverðum. Hellirinn er u.þ.b. 1360 m langur og liggur að hluta undir Þrengslaveginum til norðvesturs. Hann er 10-30 m breiður og upp undir 10 m hár.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Nokkur smá op eru fremst í hellinum og er farið ofan í það syðsta. Raufarhólshellir er fjórði lengsti hraunhellir landsins og sá lengsti utan Hallmundarhrauns í Borgarfirði. Hellirinn er í Leitahrauni sem rann fyrir um 5200 árum en upptökustaður eldsumbrotanna voru rétt austan Bláfjalla í Leitum. [Hann dregur nafn sitt af lágum hól rétt vestan vegarins móts við Hellisopið.]

Hvalfjarðareyri-21Hvalfjarðareyri – eyri, baggalútar, geislasteinar og berggangar
Á sunnanverðri Hvalfjarðarströnd norðan við Eyrarfjall er Hvalfjarðareyri. Meðfram ströndinni er að finna mikinn fjölda síðsteinda (seólíta). Bergið er mjög ummyndað af völdum bergganga frá Kjalarneseldstöðinni sem skera jarðlagastaflann. Þeir koma vel fram í Tíðarskarði við mynni fjarðarins og áfram inn með ströndinni. Önnur þyrping bergganga er svo austan og norðan við Hvalfjarðareyri en þeir eru ættaðir frá Hvalfjarðareldstöðinni sem liggur nærri Ferstiklu norðan við fjörðinn.
Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins þegar heitt vatn leikur um það. Vatnið leysir upp frumsteindir bergsins en í staðinn falla út síðsteindir í sprungur og holrými. Dæmi um seólíta sem finna má með ströndinni eru:

Baggalútar 21

kabasít
stilbít
analsím
mesólít
thomsonít
heulandít
Á Hvalfjarðareyrinni er einnig einn aðalfundarstaður baggalúta á suðvestur horni landsins. Baggalútar eða kýlingar nefnast smákúlur sem myndast þar sem gas hefur orðið innlyksa í líparíthraunum eða flikrubergi. Nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5-3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. Baggalútarnir hafa rofist út úr líparíthraunlögum sem mynda jarðlögin með ströndinni austan við eyrina.

Botnsdalur – grafinn móbergshryggur
MulafjallInnst í Hvalfirði er að finna grafinn móbergshrygg. Hryggurinn kemur fram í miðju Múlafjalli sem skilur á milli Brynjudals og Botnsdals. Móbergshryggurinn hefur myndast undir jökli á jökulskeiði snemma á kvarter. Mörkin milli tertíer og kvarter (2,58 milljóna ára) liggja þarna utar með ströndinni og neðar í staflanum sem sýnir að hryggurinn er um 2,5 milljóna ára gamall. Hann liggur þvert undir Múlafjallið með NNA-stefnu sem er algeng stefna misgengja á svæðinu. Móberghryggurinn kemur best fram í Botnsdal. Þar má sjá hvernig hryggurinn rís hæst í miðju og hvernig hraunlög frá yngri dyngjugosum hafa runnið upp að honum og að lokum kaffært hann.“

Á jarðfræðikortinu eru jafnframt upplýsingar um aldur flestra hraunanna á Reykjanesskaganum.

Heimild:
http://isor.is/
-Kristján Sæmundsson, 2010.
-Haukur Jóhannesson, 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010.
-Árni Hjartarson, 2010.
-Sigurður Garðar Kristinsson, 2010.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga

Krýsuvíkurkirkja

Íslensku biskuparnir áttu árlega að fara um biskupsdæmi sín og koma í hvern hrepp, svo að menn næðu fundi þeirra, vígja kirkjur, ferma börn og veita mönnum skriftagöngur. Þetta nefndist að vísitera.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1811.

Prófastar virðast hafa átt að fara einu sinni á ári um sóknir í umdæmi sínu. Breytingar urðu á þessu við siðaskipti með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 og síðar með kirkjuskipun Kristjáns IV árið 1607, Norsku lögum Kristjáns V árið 1687 og erindisbréfi biskupa árið 1746.
Bækur þær, sem í er skráð það, sem fram fer við visitasíu, nefnast visitasíubækur. Þar er fyrst og fremst lýst eignum kirkna, föstum og lausum, og ítökum, eignarbréfum, kirkjuhúsi, skrúða og innanstokksmunum og fylgifé með áorðnum breytingum frá síðustu visitasíu, tekjum og gjöldum, kunnáttu og framferði prests og safnaðar og samkomulagi þeirra. Elstu, íslensku biskupsvisitasíubækurnar eru frá fyrri hluta 17. aldar. Fyrirrennarar þeirra voru máldagabækur, þar sem skráðar voru eignir kirkna og ítök.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Prófastar urðu umboðsmenn (þ.e. aðstoðarmenn) biskupa með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537. Þeir áttu að vísitera hverja kirkju í umdæmi sínu árlega, athuga reikninga kirkna, skýra barnalærdóm, veita náðarmeðul, kanna kunnáttu og hegðun sóknarfólks, athuga kirkjur og kirkjugarða og kynna sér launamál presta.
Væntanlega hafa prófastar tekið biskupa sér til fyrirmyndar með færslu visitasíubóka. Elsta prófastsvisitasíubókin er „Héraðsbók“ Halldórs Jónssonar í Reykholti fyrir árin 1663-1699. Sú bók er allt í senn: Bréfa-, visitasíu- og máldagabók. Sömu atriði eru tekin til meðferðar í visitasíubókum biskupa og prófasta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið máldagi var einkum notað í kaþólskri tíð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía biskups.

Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans.

Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía.

Árið 1789, 24. júlí, var gefin út tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir. Þar var próföstum boðið að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir, þegar prestar dæju eða færu frá brauðunum eða þess gerðist þörf eins og ævagömul venja væri til á Íslandi. Úttektargerðirnar skyldu ritaðar í kirkjubókina (þ.e. kirkjustólinn) og lýst nákvæmlega ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga frá síðustu úttekt svo og álags. Þessi tilskipun gildir enn (2017) í flestum atriðum. Ákvæðið um kirkjubækur er t.d. þar með.
Þegar kemur fram yfir 1900, fór mjög að draga úr færslu kirkjustóla. Virðast menn oft láta sér nægja að færa visitasíur og skoðunargerðir kirkna inn í visitasíubækur biskupa og prófasta, og hvað varðar kirknareikninga, hafa lögin um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, líklega haft þau áhrif, að margir hættu að skrá reikningana í kirkjustóla en í staðinn á laus blöð eða eyðublöð, því að lögin gera ráð fyrir endurskoðun reikninganna af hlutaðeigandi presti eða safnaðarfulltrúa og síðan prófasti.

Krýsuvíkurkirkja – altaristafla?

Altaristafla

Altaristafla í kirkju fyrrum.

Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857 og endurbyggð og endurvígð árið 1964.
FERLIR sendi Þjóðskjalasafni Íslands eftirfarandi fyrirspurn: „Kemur eitthvað fram í gögnum safnsins um altaristöflu í Krýsuvíkurkirkju. Í ferðabók Englendings frá því á ofanverðri 19. öld segir að í kirkjunni sé „altaristafla, bogadregin að ofan“.
Þjóðminjasafnið kannast ekki við að altaristafla hafi verið til í kirkjunni. Krýsuvíkursókn var á þessum tíma ýmist færð til Selvogs eða að Stað í Grindavík. Einhverjir kirkjugripir gætu hafa færst á milli kirknanna á þesum tímamótum, líkt og kirkjugripir frá Staðarkirkju að Grindavíkurkirkju 1907 og voru flestir þeirra þá geymdir á lofti nýju kirkjunnar.
Þórarinn Snorrason, nú látinn, sýndi okkur forna dýrgripi Selvogskirkju (Strandarkirkju) á sínum tíma, en þar var þá enga aðra altaristöflu en þá er nú prýðir kirkjuna að finna.
Líklegt má telja að altaristafla hafi prýtt Krýsuvíkurkirkju á 19. öld, allt til upphafs þeirrar 20. og þá verið talin henni til eignar.“

Krýsuvík

Krýsuvík – bæir fyrrum.

Svar: „Þjóðskalasafnsins var afrit af tveimur Vísatasíum biskups, annað frá 1875 og hitt frá 1911“. Ekkert kemur fram um altaristöflu í þessum „tasíum“, en þær eru þó fróðlegar fyrir margt:

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1868-1898; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Visitasíubók 1911.

„Ár 1875, 4. dag júnímánaðar vísiteraði biskupinn yfir Íslandi Dr. P. Pjetursson kirkju og söfnuð að Krýsuvík. Hún á alla Herdísarvík, 1x mælira lands á þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Hraunsnesi, milli Rangárgjögurs og marks við Besstaðinga, og enga grasnautn með, 3 hluti hvals, en Viðeyjingafjórðung, en frá Mígandigróf til Kirkjufjöru eiga staðir í Skálholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn og allan reka á Kirkjufjöru og þaðan frá og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn, en í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viða við Krýsuvík; þriðjun hvalreka eiga báðir staðir saman til marks við Strandamenn, en fjórðung hvala við Strandamenn til Vogs; hálfan tóftung hvals á Krýsuvík í Strandarhluta.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Húsið sjálft er úr timbri í 5 stafgólfum með tvöfaldri súð, 4 bitum og 2 sexrú’na gluggum á hverri hlið og 1 4 rúðna glugga á vesturstafni. Í framkirkjunni eru 5 bekkir hvoru megin og 1 sæti að auk að sunnanverðu; í kórnum eru hálffóðraðir bekkir allt í kring. Altari lítilfjörlegt með óskrálæstri hurð. Af ornamentis á kirkjan silfurkaleik með gylltri platínu úr silfri og coporadúk? bilaðan úr rósasilki. Í skrúða á kirkjan 1 rikkilín og hörkul úr rósadamanski fóðraðan, 2 altarisklæði, hvar af annað er með silkikögri á einn veg; kirkjan á tvo ljósstjaka úr tinu frá 17. öld.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Enn eru þeir sömu gallar á húsinu, sem seinustu prófastsvísitasíur tilgreina; porzionsreikningur? er heldur ekki aflagður fyrir þetta faradagaár né hin seinustu síðan 1871, enda virðist ekki fjárhald kirkjunnar hafa verið falið í hendur nokkrum eigenda hennar, sem eru fleiri en einn, nema hvað prófasturinn í seinustu vísitasíu hefur talið það eðlilegt, að kirkjubóndinn, Sjr. Jón Odsson hefði það á hendi, eins og hann hérmeð af mér er skipaður til eftirlieðis að vera fjárhaldsmaður kirkjunnar, að innkalla allar tekjur hennar, endurbæta húsið svo það verði sómasamlegt guðshús og gjöra reglulegan reikning fyrir tekjum og útgjöldum kirkjunnar eftirleiðis og að svo miklu leyti auðið er fyrir hin síðustu ár, og tekst hann þetta starf á hendur, og lofar að ræða bót á göllum kirkjunnar þetta ár, en gallar þessir, sem eins og áður er sagt eru taldir í seinustu prófastsvísitasíu, eru einkum þeir að ytri súð þarf að leggja á suðurhlið kirkjunnar og smíða nýjar gráður.
Kirkjugarðurinn þarf endurbóta við.“

Þrjú börn mættu til yfirheyrslu.
aelum ut supra

Undir skrifa þrettán einstaklingar, s.s. P. Pjetursson, Jón Oddsson, Vigfús Guðnason, Jón Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Steingrímur Steingrímsson, Lárus Halldórsson, Björn Björnsson og Einar Einarsson.

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1900-1912; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

„Ár 1911 hinn 21. sept. var biskup Þórh. Bjarnarson staddur Krýsuvík í Kjalarnesþingi. var hann þangað kominn til að hafa eigin sjón af kirkjunni,hafði bæði prófastur í skýrslum lýst afar bágbornu ástandi hennar og sóknarpresturinn hafði við komu sína til Reykjavíkur 20. þ.m. lýst kirkjuna alófæra til messugjörðar.
Biskup var að öllu sammála síðustu vísitasíu prófasts 20. júlí 1910, sem hjer umfærist til athugunar:
„Húsið er byggt 1857 úr timbri, á því hefir í upphafi verið ósmekkleg mannasmíð, gerðin ókirkjuleg, veggir mjög lágir, ekki fullar 3 álnir, undir bita, sem er um þvera kirkjuna framanverða, og á þeim afþiljað geymsluloftm gluggar afleitir og aðeins 4 á húsinu og veita ekki nægilega birtu nema vel sje bjart í lofti. Turnlaus hefur hún verið frá upphafi, og ekkert merki þess á henni að utan að hún sje kirkja. Járnvarin er hún öll að utan. Að innri gerð hefir hún aldrei sómt sér vel sem guðsþjónustuhús, en er svo úr sér gengin hið innra að hún getur ekki talist sæmilegt hús til safnaðarguðsþjónustu nema verulega sje fáguð og umbætt, enda ber á fúa á innviðum(sperra lá gjörfúinn af fúa) á suðurhliðinni og altari og grátur í versta ástandi og vegna súgs og kulda er hún alls óhæfileg til þeirrar notkunar að vetrarlagi. Prófastur hyggst að bera undir álit biskups og leita íhlutunar hans um hver ráð verði höfð til þess að bæta úr þessum vandræðum.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Muni kirkjunnar segir ábúandi sína og verið hafi – hvorki viðbætst nje reitt burtu fallið. Sem stendur eru aðeins tvö heimili í sókninni, og á báðum til saman að jafnaði nær 30 manns. Kirkjugarður þarf umbóta. 7 voru atkvæðisbærir við nýlega afstaðna pretskosningu.“
Biskup álítur að gera verði gangskör að því við eigendur kirkjunnar sem eru erendis að endurreisa hana hið fyrsta. Um viðgerð getur eigi verið að ræða. Verður prestur í bráð að flytja predrikanir sínar í heimahúsum í Krýsuvíkursókn.
Lýst var því yfir af viðstöddum sóknarnefndaroddvita að það sje eindregin vilji hins fámenna safnaðar að kirkja haldist í Krýsuvík enda ómissandi eftir landslegu.
Kirkjugarður er illa varinn og ætlar sóknarnefnd úr að bæta.
Kirkjugjöld hafa eigi verið innheimt nokkur hins síðustu ár en munu að mestu leyti vera fyrir hendi til endurbyggingar hennar.“
Skrúði kirkjunnar allgóður en nokkuð forn. Tveir altarisstjakar með ártalinu 1650.

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Þórh. Bjarnason

Heimildir:
-https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/visitasiubaekur/
-https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%A1ldagi
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1875
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1911