Tag Archive for: Reykjavík

Hafnarfjarðarvegur

Í Vísi 1915 er fjallað um Hafnarfjarðarveginn. Skömmu síðar sama ár skrifar B.B. um veginn. Skrifin eru áhugaverð, einkum í ljósi þess að umræða var þegar orðin um fyrirhugaða sporbraut (járnbraut) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Byrjað var á járnbrautarsporalagningunni 1918, en frá henni var horfið skömmu síðar, eins og lýst er glögglega annars staðar á vefsíðunni. Hafnarfjarðarvegurinn, einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, hefur sjaldnast fengið að njóta sín af verðleikum. Hann er bæði gömul saga og ný…

Hafnarfjarðarvegur

Vegurinn er merktur inn á kort af Reykjavík frá 1876 ( Benedikt Gröndal). En merktur sem „Gamli vegur“ á korti frá 1887 (Sveinn Sveinsson) en sem Gamli Hafnarfjarðarvegur á korti Benedikts Gröndals frá sama tíma.Vegurinn lá frá Arnarhóli um traðirnar að Traðarkoti og norðan í Skólavörðuholti og í átt að Öskjuhlíð. Vegurinn hefur verið aflagður að mestu árið 1887.Um 1887 er vegurinn merktu inn á kortið frá vegamótum Klapparstígs og Laugavegar, hann er þá aflagður og merktur sem Gamli vegur, hann hefur legið yfir Frakkastíg á milli Laugavegar og Grettisgötu, hefur síðan sveigt yfir Grettisgötu á móts við númer 32, legið síðan í átt að gatnamótum Njálsgötu og Vitastígs, yfir Bergþórugötu við húsnúmer 31 og yfir lóð Austurbæjarskóla og yfir Barónsstíg á móts við Heilsuverndarstöðina. Hann lá svo upp á Öskjuhlíðarveg vestan við Eskihlíð. Greinilegt er að Skólavörðustígur og Öskjuhlíðarvegur hafa leyst þennan veg af hólmi um 1870 en þá var hafist handa við að gera Öskjuhlíðarveg.

„Án efa er þessi vegur einn hinn allra fjölfarnasti vegarspotti á þessu landi. þótt hann sé ef til vill talinn lögum samkvæmt sýsluvegur, þá er hann í reyndinni sannkallaður þjóðvegur og því er það æði einkennilegt, að með fullum sanni má segja, að vegarkafli þessi — milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar — mun vera einn hinn ógreiðfærasti og óhentugasti til umferðar, allra lagðra vega landsins. Í fyrsta lagi, er hann frá upphafi hálfu mjórri en hann ætti og þyrfti að vera, og er það höfuðgalli. Svo mjór er hann víða, að alveg er ógjörningur að koma bifreið fram hjá öðrum vagni, sem hún mætir á veginum og vita allir hér um slóðir hvílík vagnaumferð er á þessari leið og sama máli gegnir um lestir, sem fara mjög um veginn bæði vor og haust.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforingjakorti 1919.

Af því, hve vegurinn er mjór, hafa fyr og síðar hlotist ýms slys og áföll og jafnvel hefir það orðið mönnum að bana. Í öðru lagi er það alveg óskiljanlegt hversu viðhaldið á þessum vegi er bágborið. Um hann allan eru djúpar gjótur og sumstaðar stærðar hnullungssteinar upp úr honum, svo það líkist meira óruddum „fjallabaksvegi“. Ennfremur eru brýrnar, sem bygðar hafa verið yfir lækina á leið þessari, þær ómyndir, að tæpíega er farandi yfir þær með bifreið eða flutningavagn. það eru handónýta fjalir, sem búast má við að hrynji, niður þá og þegar. Þar að auki eru þessar brúarmyndir alt of mjóar og ekki bætir það úr skák, að gleymst hefir að setja handrið fram með þeim eða við endana, svo í nokkru lagi sé.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Fossvogur.

Af þessum ástæðum, sem þegar eru nefndar, þykir það því nær ógerningur að halda uppi bifreiðaferðum um þennan veg. Bæði er það, að þeir, sem málinu eru kunnugir af reynslunni, telja það jafnvel lífshættu að aka bifreiðum um veginn suður í Hafnarfjörð og svo er hitt, að á meðan honum er svo illa haldið við, þá slitna hjólin og vagnarnir svo óbærilega mikið, að úthaldskostnaðurinn fer fram úr öllu hófi. En trúað gætum vér, að mörgum mundi bregða við, ef bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hættu með öllu, því það hefir reynslan sýnt, að þörfin á slíkum flutningatækjum er geysimikil á þessari leið.

Arnarnes

Arnarnes 1903 – herforingjaráðskort.

Vonandi sjá þeir, sem ráðin hafa og völdin í þessu máli, nauðsynina á því, að bæta úr þessum miklu brestum og ætti næsta sumar ekki að líða svo, að veginum verði ekki gjörbreytt og bættur sem þörf krefur. þessa mundi margur óska, því það eru ekki tugir, heldur hundruð, sem um veginn fara marga daga.
Vonandi hætta menn að kýta og metast um það, hverjir eigi að framkvæma verkið, en hefjast heldur handa sem allra fyrst að hægt er og svo að um muni.
Það er ábyrgðarhluti, að bíða eftir slysunum og hálf leiðinlegt að vera orsök í því, að menn þurfi um alla eilífð að ferðast um svo fjölfarinn veg eins og skrælingjar, og enginn búhnykkur er það fyrir þjóðfélagið, að tefja eða hefta för manna að óþörfu.“

Í Vísi í sama mánuði skrifar B.B. um „Veginn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar“:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

„Um hann var grein í »Vísi« 9. þ. m. Á þeirri tíð, er Gullbringu- og Kjósarsýsla var eitt sýslufélag, mun hafa verið ákveðinn sýsluvegur frá Rvík suður með sjó, og er kaflinn milli landa Ríkur og Hafnarfj. hluti af þeim vegi. Sýslan gerði á sínum tíma vegarspotta þennan akfæran, en bæði var þá afvanefnum að gera og miðað að eins við þörf tímans, sem þá var, og því er vegurinn að gerðinni eins og fyrnefnd grein lýsir honum.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Þegar sýslunni var skift, hlaut hver sýslan þann kafla til viðhalds, sem í henni lá. Kársnes, milli Fossvogs og Kópavogs, er syðsta horn Kjósarsýslu. Yfir það liggur vegur þessi, og hlaut Kjósarsýsla þann klafa. Honum hefir verið sæmilega við haldið, enda gleypti hann mesLalt vegafé sýslunnar árlega, (oftast 300—700 kr.) svo aðra vegi sýslunnar hefir orðið að vanrækja.
Er þessi vegur þó svona út úr sýslunni, og henni ekki fremur að notum, en hann lægi í öðru héraði.

En er umferð Heilsuhælisins og bílanna bættist á þenna mjóa og veikgerða veg, sá sýslunefnd Kjósarsýslu fram á, að henni var ókleift að halda honum í standi, og í eðli sínu óskylt, svo lítið sem sýslurnar nota hann. Var þessi kafli því numinn úr tölu sýsluvega Kjósarsýslu frá nýári 1915. En við hann var svo vel gert síðastl. sumar, að nú er kafli þessi skárstur af Hafnarfjarðarveginum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

Eitt af listaverkum aukaþingsins í fyrra var breyting á vegalögunum frá 1907, er ákveður að vera skuli flutningabraut frá Rvík til Hafnarfjarðar milli lögsagnarumdæmanna, en þess viðhaldi hennar sé ráðstafað á annan hátt, en lögin 1907 ákveða. Verri grikk var varla unt að gera hinni litlu Kjósarsýslu; því nú eru helst horfur á, að henni verði skipað að halda vegarkafla þessum við sem flutningabraut. En undir það getur hún ekki gengist, Á nýafstöðnum sýslufundi þar var ákveðið, að leita 1000 kr. láns fyrir sýslusjóð, til að bæta bráðustu viðgerðarþörf á sýsluvegum þar, sem legið hafa þar óbættir, af því alt féð lenti í viðhaldi hins óþarfa vegarkafla. Það horfir því til vandræða, ef þvinga ætti sýsluna til að taka á sig í viðbót þenna Kársnesskafla Hafnarfjarðarbrautarinnar, og er vonandi að til þeirra óyndisúrræða verði ekki að taka.

Hafnafjarðarvegur

Gamli Hafnafjarðarvegurinn 1971 – brú í Fossvogi. Fjær er Borgarpítalinn.

Vanhugsað væri að lappa upp á þenna veg til lengdar, eins og hann er. Eigi að fullnægja samgangnaþörfinni þarna, verður að byggja nýjan veg á öðrum stað, og yrði óvíða eða lítil not að þeim vegi, sem nú er, við þá vegargerð. Líklega væri skynsamlegast að leggja þarna sporbraut (járnbraut), og skal eg leyfa mér að láta í ljósi hugmynd mína um legu vegarins (eða sporbrautar), er fullnægja mundi framtíðarþörfinni.

Vegurinn, sem nú er, liggur yfir 6 hæðir (með lægðum á milli) og er víða of brattur. Ætti að leggja framtíðarveg um sama svæði, yrði að sneyða hæðirnar meira og jafnframt beygja inn í dalverpin, og hlyti það að lengja veginn mikið, til að fá hann sæmilega hallalítinn og hægan. Eg hygg því að vegurinn yrði ekki mikið lengri, þó valin væri önnur leið, er nú skal lýst.

Hafnarfjarðarvegurinn

Hafnarfjarðarvegurinn 1947 – malbikið orðið holótt.

Sé um sporbraut að ræða, skal nota hið mælda járnbrautarstæði upp að Blesugróf, ella austur veginn austur á móts við Bústaði, þá járnbrautarleiðina upp fyrir Blesugróf, þá austan við Digranessháls, um Fífuhvamm, Nónskarð, austan Hofstaðaholtið, vestan við Vífilstaði, um Hagakot, og síðan yfir hraunið til Hafnarfjarðar.
Á þessari leið er ein aðal-bugða, en færri lægða- og hæðabeygjur, en ef fara ætti gömlu hálsaleiðina; og heilsuhælið, sem svo mikið notar veginn, fær hann nær sér.
Þetta er a. m. k. þess vert að athuga það.“ – B.B.

Heimildir:
-Vísir, 119. tbl. 09.04.1915, Hafnarfjarðarvegurinn, bls. 1.
-Vísir, 126. tbl. 16.04.1915, Vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, bls. 2.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Stromphellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 10 hellar:

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir er um 700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir (sjá síðar). Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla.

Rótarhellir

Í Rótarhelli.

Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er vestastur Bláfjallahella, skammt frá hraunjaðri Kóngsfellshrauns.

3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Langahellis og Rótahellis. Farið er nniður og inn í sæmilega vítt op. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.

Bláfjallahellar

Við Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.

5. Ranghali er um 100 metra langur í stefnu út frá stóru skíðalyftunni. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni.

Rósahellir

Í Rósahelli.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur.

7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur bátalaga hraunmyndunum.

8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þrönng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Krókudílahellir

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.

10. Goðahellir er nyrsti hluti Langahellis, eins og fyrr sagði. Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsi í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni hrauntjörn á gólfinu.

Í þessari hellaferð var veður með miklum ágætum. Í sumum hellanna liðu fallegir sólstafir inn um opin og mátti vel sjá í þeim hin ýmsu mynstur.

Strompahellar

Í Strompahellum (Bláfjallahellum).

Brautarholtskirkja

Í Morgunblaðinu 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22, fjallar Elín Pálmadóttir um „Látnu óvinina í Brautarholtskirkjugarði á Kjalarnesi“:

„Í kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi vekur forvitni tréskjöldur með áletrun um þakklæti þýskra mæðra – og feðra til Ólafs Bjarnasonar bónda þar fyrir umhyggju hans. Elín Pálmadóttir leitast hér við að rekja merkilega sögu, sem liggur að baki, um 13 þýska flugmenn sem voru jarðsettir þar í kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun „E.D.“ (Enemy Dead), látinn óvinur.

Brautarholt 1Hugsunarháttur og tilfinningar í stríðinu eru orðin okkur býsna framandi. Hafa líklega alltaf verið það, jafnvel eftir að grimmt stríð barst að okkar ströndum og upp á land.
Hiklaus viðbrögð Ólafs Bjarnasonar, bónda í Brautarholti, á stríðsárunum bera þess merki. Enda segir á viðarskildinum í Brautarholtskirkju að aldrei gleymist góðs manns verk. Það góða verk hefur samt ekki farið hátt í þá hálfu öld sem liðin er síðan. Enda var þá stríð og bann við öllum fréttaflutningi af flugvélum sem skotnar voru niður. Nær ekkert verið um þetta skrifað á Íslandi síðan. En þýskir blaðamenn skýrðu frá þessu og höfum við tvær slíkar greinar úr þýskum blöðum með fyrirsögnunum: „Hinir óþekktu í kirkjugarðinum í Brautarholti“ og Flugmannagrafreitur við Faxaflóa“.
Sú fyrri frá 1953 og sú síðari í tilefni þess að þýskur hermannagrafreitur var vígður í Fossvogskirkjugarði 1958 og haustið áður fluttir þangað þýsku flugmennirnir 13 úr kirkjugarðinum í Brautarholti, svo og fjórir þýskir flugmenn úr Búðareyrarkirkjugarði á Reyðarfirði.

Brautarholtskirkja

Í Brautarholtskirkju.

Börn Ólafs Bjarnasonar, sem lést 1970, Jón Ólafsson, bóndi í Brautarholti, og Ingibjörg, systir hans, rifjuðu upp með blaðamanni þennan atburð úr æsku sinni, þegar stríðið kom í Brautarholt og lík þýskra flugmanna fengu skjól í kirkjugarðinum þeirra.
Jón gekk með blaðamanni út í kirkju, sem er einstaklega falleg, byggð 1858. Hún var gerð upp fyrir áratug í samráði við Hörð Ágústsson, sem telur að predikunarstóllinn sé 300 ára gamall. Dönsk altaristafla er frá 1868 en marmaraskírnarfontur með loki frá 1948 er til minningar um Bjarna Ólafsson, bróður þeirra systkina. Okkar athygli beinist að viðarskildinum útskorna til Ólafs Bjarnasonar frá Íslandsvinafélaginu í Hamborg og Félagi um hermannagrafir á veggnum aftan við kirkjubekkina. Þar má lesa: „Þýskar mæður og feður þakka þér fyrir umhyggju þína“ og þar fyrir neðan „Aldrei gleymist góðs manns verk. Við heiðrum Ísland og Íslendinga með þessari töflu til yðar“. Taflan var afhent Ólafi 1953 og síðar var hann í þakklætisskyni sæmdur heiðursmerki þýska ríkisins fyrir hiklausa viðtöku þessara ungu, þýsku manna í kirkjugarðinn og umhyggju og varðveislu leiðanna. Taflan hékk alltaf á heimili þeirra hjóna, Ólafs og konu hans, Ástu Ólafsdóttur, en var eftir lát hans flutt í kirkjuna með samþykki prestsins. Úr kirkjuglugganum blasir við kirkjugarðurinn og efst í honum voru þýsku leiðin.

Lík á hrakhólum
Brautarholt 2Eitt hvassviðriskvöld var barið að dyrum í Brautarholti. Ólafur gekk út. Liðsforingi stóð á tröppunum og spurði hvort Ólafur gæti leyst vandræði þeirra. Þýsk flugvél hefði verið skotin niður með 7 þýskum fiugmönnum. Málið væri komið í algert óefni. Ekki hefði verið leyft að grafa þá í kirkjugarðinum í Reykjavík, því menn veigruðu sér við að grafa óvinahermenn á sama stað og sína eigin. Þá var nærtækasti staðurinn Lágafell, en þar gat enginn veitt leyfi. Thor Jensen var í húsi sínu en hafði ekkert með kirkju eða garð að gera. Nú spurðu þeir hvort þeim yrði leyft að grafa þýsku flugmennina í kirkjugarðinum í Brautarholti. Ekki væri lengur til setunnar boðið. Ólafur sagði að kirkjugarðurinn væri svo til útgrafinn, eitt og eitt rými eftir á stangli, en til stæði að stækka garðinn til norðurs út á hólinn. Ef þeir vildu þiggja að grafa þá þar, gæti hann veitt leyfið strax.
Ingibjörg segir að hann hafi svo haft samband við sr. Hálfdán Helgason. Ólafur var formaður sóknarnefndar, kirkjuráðsmaður, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarðs, hreppstjóri og um tíma líka oddviti. Hann gat því tekið þessa ákvörðun á eigin spýtur og sá strax hvernig hann gæti leyst málið á staðnum.
Jón var 10 ára gamall og stóð við stafngluggann í gamla húsinu þegar komið var með líkamsleifar fyrstu þýsku flugmannanna sjö, sem skotnir höfðu verið niður yfir Hvalfirði 21. júní 1941. Komið var með þá á börum og teppi breidd yfir. En þeir sem komu seinna voru jarðsettir í kistum. Hermennirnir komu sjálfir með prest, sem jarðsetti og blessaði yfir grafirnar og skotið var heiðursskotum.

Brautarholt

Brautarholt – gamla húsið.

Þjóðverjunum var sýnd full virðing að hermanna sið. Á hvert leiði var lagður lítill steinn og á honum messingplata með áletruninni E.D., sem stendur fyrir Enemy Dead, og númeri, sem eflaust hefur verið af málmplötunni sem hermenn hafa um hálsinn. Eftir stríð var farið að leita að fjölskyldum þeirra og virðist hafa gengið misjafnlega, svo sem fram kemur síðar. Tveir þeirra voru Jósep Lutz, 24 ára, og Friedrich Harnisch, 27 ára.
Steinarnir eru ekki lengur til, því starfsmenn kirkjugarðanna í Fossvogi mokuðu þeim ofan í með moldinni þegar þeir sóttu líkin síðar. Þetta var seinni hluta viku og eldri systkinin tvö, Ingibjörg, sem þá hefur verið 14 ára, og Ólafur (landlæknir), 13 ára, voru í skólanum, en yngri bræðurnir Páll og Jón heima. Þegar systkinin komu heim á laugardeginum var auðvitað mikið um þetta talað.
Þau gerðu sér grein fyrir að þetta væri mikill viðburður, en voru ekkert að tala um það út á við. Ingibjörg heldur að hún hafi ekki sagt frá  því í skólanum. Það var stríð og ekkert slíkt nefnt í blöðum. Ekki er getið um hvaða flugvél þetta var, sem svo snemma í stríðinu var skotin niður yfir Hvalfirði. Þjóðverjar sendu hingað flugvélar við mjög erfið skilyrði frá Stavanger í Noregi til ljósmyndaflugs og í veðurathugunarflug.
Vorið 1941 bjuggu Bretar sig undir að verjast loftárásum á skipalægið í Hvalfirði og sendu hingað sérbúna sveit með loftvarnabyssur, sem kom sér fyrir þar. En frá fyrsta degi hernámsins vorið 1940 höfðu Bretar tekið sér stöðu beggja megin Hvalfjarðar.

Stríðið kemur í hlað
Brautarholtskirkja 4Ekki var óeðlilegt að bresku hermönnunum dytti í hug að leita til Ólafs í Brautarholti í vandræðum sínum með legstað fyrir Þjóðverjana. Þeir voru öllum hnútum kunnugir þar á bæ, þekktu kirkju og kirkjugarð frá fyrsta degi. Brautarholt stendur yst á Kjalarnesi með útsýni yfir innsiglinguna að Reykjavfkurhöfn og inn í Hvalfjörð, þar sem voru alltaf miklar skipaferðir og flutningar.
Ingibjörg minnist þess þegar herinn kom 10. maí 1940. Pabbi hennar var alltaf árrisull og sá herskipin sigla inn. Hann vissi ekki hvort þetta væru Bretar eða Þjóðverjar að hernema landið. Ekki var kominn sími á hvern bæ, en í Brautarholti var stöð svo hann gat hringt og fékk staðfest að þetta væru Bretar. Ólafur dreif sig þá í bæinn, því hann var þar í ábyrgðarstörfum, m.a. í stjórn Mjólkurfélags Reykjavfkur og formaður í Landssambandi íslenskra bænda. Nú þurfti að ýmsu að hyggja.
Klukkan fimm um daginn hringdi Kolbeinn í Kollafirði í Brautarholt og sagði að heil bílalest væri á leiðinni til þeirra eftir Vesturlandsvegi, 7 rútur frá BSR fullar af hermönnum. Ásta var ein heima með börnin og leist ekki á blikuna. Hún hringdi í Ólaf í bænum. Hann brá við og hafði samband við Thor Jensen á Lágafelli, sem leyfði honum að beina hermönnunum í Arnarholt. Þar voru stórar byggingar og svo vel vildi til að þær stóðu auðar. Þarna var sumarfjós Thors, en kýrnar ekki komnar þangað frá Korpúlfsstöðum í sumarbeitina.
Ekki leið á löngu þar til rúturnar sjö óku í hlað, hermenn streymdu út úr þeim og byrjuðu að afferma til að búa um sig á kirkjuhólnum í tjöldum. Ásta húsfreyja var svo heppin að þar var danskur karl, sem varð henni til trausts og halds.

Brautarholt

Brautarholt – loftmynd.

Niðurstaðan varð sú að hermennirnir hættu við að tjalda og rúturnar óku í Arnarholt, þar sem varð aðalbækistöð þeirra. En þeir héldu beint niður í nesið við sjóinn þar sem þeir byggðu bragga, grófu skotgrafir og bjuggu sér varnarvígi. Og þeir héldu stöðuga vakt á kirkjuhólnum og í kirkjugarðinum frá fyrsta degi og allt stríðið. Um sumarið byggðu þeir fimm bragga aftan við kirkjuna, þar sem þeir bjuggu, en voru fyrst í tjöldum.„Af þessu var svo mikill ágangur þarna fyrst og mamma hálfhrædd,“ segir Ingibjörg, „svo pabbi ákvað að hún flytti með okkur krakkana og stúlkurnar út í Klébergsskóla, sem var laus eftir að skóla lauk í maí.“ Ólafur og karlmennirnir komu sér fyrir í kjallara íbúðarhússins og var sendur matur frá Klébergi, enda voru þeir við heyskap. En yfirmenn Bretanna komu sér fyrir á hæðunum.

Brautarholt

Brautarholt á stríðstímum.

Hermennirnir fóru illa með húsið, sem þurfti viðgerðar við um haustið. Þá flutti fjölskyldan heim, enda var þá búið að byggja braggana á kirkjuhólnum fyrir alla þá sem stóðu vaktina til að óvinurinn kæmist ekki óséður á land. Hermennirnir voru því þarna rétt á hlaðinu hjá þeim allt stríðið en samskiptin gengu vel. Ólafur stóð fyrir sínu og gætti þess að ekki væri ágangur á fjölskylduna og Bretarnir virtu hann. Þeir voru því sestir þarna að þegar þeir þurftu að finna stað og fá leyfi til að grafa þýsku flugmennina.
Því má bæta við að þetta varð endirinn á sumadvöl kúnna frá Korpúlfsstöðum í Arnarholti. Herinn var þar allan tímann og 1946 keypti Reykjavíkurborg jörðina. „Hvað við vorum heppin að Arnarholt var laust og Thor Jensen létti hernum af okkur. Við vorum svo hrædd,“ segir Ingibjörg þegar hún rifjar þetta upp.

Tvær þýskar flugáhafnir í viðbót
Brautarholt 3Í október árið 1942 komu liðsforingjar aftur til Ólafs sömu erinda. Nú með þrjú lík af þýskum flugmönnum, sem höfðu verið skotnir niður 18. október. Og enn árið eftir þegar þrír þýskir flugmenn höfðu verið skotnir niður 24. apríl 1943. Ólafur sagði sem fyrr sjálfsagt, grafið þá í garðinum hér hjá okkur. Þá voru grafirnar orðnar 13, í röð nyrst í garðinum. Þar var jarðsettur við hliðina á þeim Bjarni, sonur Ólafs og Ástu 1948, og var allur garðurinn með stækkuninni endurvígður af sr. Hálfdáni Helgasyni. Samkvæmt dagsetningunni 1942 hefur þetta verið vél af Jungergerð, sem Bretar eltu og löskuðu svo að hún hrapaði í Svínaskarði innan við Esjuna og féllu hlutar úr vélinni til jarðar í Grafardal. Flugmennirnir voru samkvæmt nöfnum sem skrifuð hafa verið á afrit af grein þýsku blaðamannanna er komu í garðinn 1953: Frans Kirchmann, 22 ára, Josef Ulsamer, 24 ára, og Harald Osthus, þrítugur.

Patterson

Vogshóll – slysavettvangur í Strandarheiði.

Þeir höfðu er þeir skrifuðu grein sína fundið nöfn þeirra þriggja sem fórust árið eftir, 24. apríl 1943: Werner Gerhard Bullerjahn, 31 árs, Theodor Scholtyssek, 23 ára, og Karl Martin Bruck, 25 ára, sem var „lautenant“. Junkers 88 flugvél þeirra eltu Bandaríkjamenn og löskuðu yfir Faxaflóa og lenti hún í hrauni á Strandaheiði. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn bjargaðist í fallhlíf og var tekinn til fanga. Þetta voru því allt ungir menn sem hlutu legu í Brautarholtskirkjugarði.
Systkinin muna vel eftir þessum 13 gröfum í röð efst í kirkjugarðinum og þegar komið var með líkin í þremur áföngum, fyrst sjö 1941, þrjú 1942 og aftur þrjú 1943. Faðir þeirra hugsaði alltaf vel um grafirnar og lét slá á þeim grasið hvert sumar. Eftir 1943 voru ekki fleiri þýskir flugmenn grafnir þar, enda höfðu varnir hér verið stórefldar og ferðir þýskra flugvéla að leggjast af. Eftir stríð voru Þjóðverjar Ólafi í Brautarholti ákaflega þakklátir, svo sem marka má af þakkartöflunni, sem prófessor dr. F. Danmeyer afhendi honum 1953 í viðurvist þýska sendiherrans dr. Kurt Opplers. Þá var messað í kirkjunni, að viðstöddum kaþólskum og lúterskum prestum, og síðan settur upp við þýsku leiðin trékross að frumkvæði Gísla Sigurbjörnssonar á Elliheimilinu. Á krossinn var letrað: „Hér hvíla 13 óþekktir þýskir flugmenn.“

Líkin flutt
FossvogskirkjugarðurNú voru Þjóðverjar búsettir hér, sendiráðsfólk og þýskir ferðamenn farnir að heimsækja grafreitinn á hverjum „þjóðarsorgardegi“ Þjóðverja til að leggja blómsveig að krossinum að aflokinni messu. En þeim þótti staðurinn nokkuð afskekktur og fyrirhafnarsamt að komast þangað eftir vondum vegum og í misjöfnum veðrum. Einkum þó í annan grafreit á Reyðarfirði þar sem hvíldu fjórir þýskir flugmenn. Því ákváðu Þjóðverjar að gera sérstakan hermannagrafreit í Fossvogskirkjugarði og flytja þangað líkamsleifar þýsku flugmannanna, sem var gert 1957.
Man Jón Ólafsson vel eftir því þegar menn frá Fossvogskirkjugarði komu í slagveðri miklu og grófu upp líkamsleifar þýsku flugmannanna þrettán. Segir í grein, sem birtist um þetta í fréttablaði Sambandsfélaga um varðveislu þýskra hermannagrafreita árið eftir, þegar reiturinn hafði verið formlega tekinn í notkun, að tveir menn hafi átt mestan þátt í að flytja hina föllnu í aðalkirkjugarðinn í höfuborg Íslands.

Svínaskarð

Svínaskarð – slysavettvangur.

Það voru þeir Gísli Sigurbjörnsson forstjóri, sem hafi látið sér mjög annt um grafreitina og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem fyrst frétti af hinum föllnu á ferð til Íslands 1951 og skýrði Sambandinu frá gröfunum, auk þess sem sendiráðið í Reykjavík sýndi málinu skilning.
Þar segir að haustið 1957 hafi allir erfiðleikar verið að baki. Flugmennirnir 17 séu ekki lengur „óþekktir flugmenn“ eins og stóð á krossinum í Brautarholti. Fólk þekkti nöfn þeirra og aðstandendur þeirra höfðu verið látnir vita. Þá hefði ekki enn tekist að ná til aðstandenda nokkurra þeirra.

Brautarholt

Brautarholt á stríðstímum.

Sama dag og mennirnir þrettán í Brautarholti voru fluttir til Reykjavíkur, 20. september 1957, komu líkamsleifar hinna fjögurra frá Búðareyri við Reyðarfjörð með vélskipinu Heklu, en útgerð skipsins tók á sig kostnaðinn við flutninginn. Þýsku flugmennirnir fjórir höfðu hvílt í kirkjugarðinum á Búðareyri frá því flugvél þeirra af Henkel-gerð fórst á uppstigningardag 1941 er hún lenti á fjallinu Snæfugli norðan við Reyðarfjörð.

Könnunarflug Þjóðverja yfir Austurlandi munu einkum hafa miðað að því að aðgæta um liðssafnað sem hugsanlega miðaði að innrás í Noreg. Fólk á nálægum bæ varð slyssins vart og Íslendingar fundu líkin. Flugvélin lá á svonefndum Völvuhjalla og mátti til skamms tíma sjá þar leifar af þessari þýsku flugvél. Allir flugmennirnir fjórir fórust, foringinn Joakim Durfeld, Brauer yfirliðþjálfi, Leitz undirliðsforingi og Hornisch loftskeytamaður. Heimildir eru um þetta flugslys á Reyðarfirði og hefur verið um það skrifað.

Brautarholt

Brautarholt; AMC-kort.

Þegar 50 ár voru liðin frá hernáminu átti blaðamaður Morgunblaðsins, Guðrún Guðlaugsdóttir, viðtal í Þýskalandi við systur Joakims Durfelds, sem hafði fengið málmmerki hans, sem á var grafið nafn hans, type HE 11 og númer flugvélarinnar, 1291 R. Þannig merki hafa allir flugmennirnir eflaust haft um hálsinn og þar fengin númerin á leiðunum í Brautarholti. Hans Joakim Durfeld hafði, að sögn Ilse systur hans, verið myndarlegur, glaðlyndur maður, 31 árs gamall, nýkvæntur, foringi í þýska flughernum og átti eftir eitt ár af herskyldu. Fyrstu fregnir af afdrifum hans sögðu að hann hefði ekki snúið aftur úr flugi til Englands, en í október 1941 barst systrum hans tilkynning frá upplýsingaskrifstofu hersins þess efnis að hann hefði farist í flugslysi á Íslandi. Ilse var mjög þakklát að heyra að vel hefði verið hugsað um gröf bróður síns í kirkjugörðunum hér öll þessi ár.

Þrír voldugir krossar
Fossvogskirkjugarður 2Líkin 17 voru grafin við hljóðláta athöfn við grafreitinn, sem þýska sendiráðinu hafði verið úthlutaður í kirkjugarðinum í Fossvogi, að viðstöddum nokkrum starfsmönnum þýska sendiráðsins og þýskum Reykvíkingum, prestar beggja kirkjudeilda báðu bænir og kransar voru lagðir. Endanlegur og varanlegur frágangur minningarreitsins fór svo fram á vegum þýska ríkisins og var lokið sumarið eftir. Þar höfðu verið steyptir þrír voldugir krossar og skráð á vegginn um grafreitinn þekkt nöfn þeirra sem þar hvíla. Var reiturinn vígður á þjóðarsorgardag Þjóðverja 1958 við hátíðlega athöfn, að viðstöddum Þjóðverjum á Íslandi, dómprófastinum Jóni Auðuns og kaþóska biskupnum Pater Hacking, menntamálaráðherra Íslands, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, fulltrúa aðalræðismanns Austurríkis, forseta Germaníu og íslenskum Þýskalandsvinum, þeirra á meðal Gísla Sigurbjörnssyni, segir í greininni í fréttabréfi Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafa. En Gísli hafði haft mikil afskipti af þessum málum öllum og voru færðar þakkir. Svo heppilega stóð á að frægur þýskur organisti, Wilhelm Stollenwer, var einmitt á tónleikaferð á Íslandi og lék við minningarathöfnina í kapellunni þar sem Dómkórinn söng. Hans

Búðareyri

Grafir þýsku flugmannanna á Búðareyri.

Richard Hirschfeld sendiherra lagði blómsveig á grafirnar, svo og aðalræðismaður Austurríkis. Og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem kom flugleiðis á eigin vegum til vígslu grafreitsins í Reykjavík, fann þau orð sem náðu til hjartans þegar hann talaði um „fórnardauða milljóna manna sem létu líf sitt vegna pólitískrar sannfæringar eða vegna þess að þeir voru af ákveðnum kynþætti, sem féllu í vígstöðvunum, í sprengiregni loftárásanna eða á endalausum flótta“.
Þarna höfðu þá hlotið með viðhöfn varanlega gröf 17 ungir menn, sem sogast höfðu inn í stríðsátök. Að vísu ekki þar sem hvíldi þeirra vagga heldur norður á Íslandi. Sinn hlut í því átti stórbóndinn íslenski Ólafur Bjarnason, sem lét sig engu varða hvorum megin þessir piltar voru að stríða og geymdi þá í íslenskri mold meðan ósköpin liðu hjá.“
Ólafur í Brautarholti bjó yfir þeim fágæta hæfileika manna að kunna að meta vanda nútíðar til lausnar komandi framtíðar.

Heimild:
Morgunblaðið 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22 – Elín Pálmadóttir – Látnu óvinirnir í Brautarholtskirkjugarði.

Brautarholt

Brautarholtskirkjugarður – grafir þýskra flugmanna.

Fossvogsbakkar

Norðan Fossvogs, milli Nauthólsvíkur og Nestis, er skilti; Fossvogsbakkar. Á því má lesa eftirfarandi:
„Fossvogsbakkar eru friðlýstir vegna einstæðra setlaga frá lokum ísaldar. Friðlýsta svæðið nær all frá Nauthólsvík inn í botn Fossvogs. Stærð svæðisins er um 18 ha.

Jarðsaga og myndun

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – mörk friðlýsta svæðisins.

Á síðustu hlýskeiðum ísaldar fyrir um 11 þúsund árum leiddi bráðnun jökla til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Þá mynduðust sjávarsetlög í kyrrlátu grunnsævi sem sjást einstaklega vel i Fossvogsbökkum. Setlögin mynduðust ofan á grágrýtisklöpp sem tilheyrir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndaðist við eldumbrot á hlýskeiðum síðustu ísaldar, sennilega fyfir 100-200 þúsund árum. Silt-, eðju- og sandsteinslög einkenna setlögin sem eru auk þess mjög rík af steingervingum. Allra síðustu jöklar gengu yfir svæðið skömmu eftir myndun setlaganna og skildu eftir jökulruðning.

Setlögin

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – setlög.

Setlögin ná yfir 2 km strandlengju en eru misþykk og víðar nær rofin í burt af sjávarföllunum. Þykkust eru þau í botni Fossvogs og er hámarksþykktin tæpir 5 metrar. Neðsta lagið er jökulberg myndað úr jökulruðningi sem bendir til hörfunar jökla. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög sem sýna að sjávarstaða hafi hækkað.
Í sjávarsetinu eru steingervingar einkum skeljar samlokutegunda svo sem hallloka, rataskel, smyrslingur, gimburskel, trönuskel og kúskel, en einnig skeljar kuðunga og hrúðukarla.
Flestir steingervingarnir eru óbrotnir og í lífstöðu sem bendir til þess að setið hafi myndast í kyrrlátu grunnsævi.

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar.

Ofan á sjávarsetinu er meira jökulberg frá síðasta jökulskeiði ísaldar. Þar eru ummerki um áhrif rennandi vatns sem bendir til þess að jökullinn hafi verið þunnur.

Vestast á svæðinu, næst Nauthólsvík, er hið 200.000 ára gamla Reykjavíkurgrágrýti áberandi undir setlögunum.
Í klettinum Míganda innst í Fossvogi eru setlögin þykk og auðvelt að skoða þau. Þar eru nær eingöngu eðjusteinslög, mjög þykk og lagskipt. Það sést ekki í Reykjavíkurgrágrýtið. Neðsta dökka lagið er hvarfs- leirkenndur eðjusteinn og ofan á honum eru ljósari eðjusteinslög. Á einstöku stað eru skeljar eða för eftir skeljar.“

Fossvogur

Fossvogur.

Laugarás

Efst á Laugarásholti er skilti; Laugarás. Á því má lesa eftirfarandi.

Laugarás

Laugarás – mörk friðlýsta svæðisins.

„Laugarás er eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík.
Berggrunnur Laugaráss er Reykjavíkurgrágrýtið er rann sem hraun á síðasta hluta ísaldar fyrir um 200 þúsund árum.
Síðan gengu jöklar yfir svæðið og mótuðu landslag í grágrýtisflákann; eyjar, sund, holt og hæðir. Laugarás er ein þessara jökulmótuðu hæða. Þegar síðustu meginjöklar ísaldar höfuðu fyrir um tíu þúsund árum flæddi sjór inn yfir svæðið. Laugarás varð þá sker þar sem brimið velti hnullungunum og mótaði. Sjór stóð þá 43 metrum hærra en nú.
Laugarás (45 m yfir sjávarmáli) er einn af örfáum stöðum í borgarlandinu þar sem slíkar minjar eru enn varðveittar.

Laugarás

Laugarás.

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti þann 5. janúar 1982. Ástæða friðlýsingar svæðisins var að halda opnu svæði þar sem unnt er að skoða jökulrispað berg og hæstu sjávarstöðu en svæðið er dæmi um ísaldaminjar.
Stærð náttúruvættisins er 1,5 ha.
Á friðlýstum svæðum er óheimilt aðs pilla gróðri og skerða jarðmyndanir. Öllum er heimil umferð um svæðið sé góðrar umgengni gætt.

Fyrir um tíuþúsund árum og um aldir var Laugarás eyja sem stóð upp úr Kollafirði. Nálægar eyjar voru t.d. Öskjuhlíð og Grensás. Þær eyjar sem við þekkjum í dag voru þá langt neðan sjávarmáls.

Laugarás

Laugarás sem eyja.

Ef til vill hefur Laugarás líkst Akyrey eins og við þekkjum hana í dag eða jafnvel skerjunum Hólmum sem er á milli hennar og Örfiriseyjar. Á myndinni eru sýndar núverandi byggingar til að glöggva okkur á því hvernig svæðið liti út í dag ef sjávarstaða yrði aftur sú sama og var eftir lok ísaldar.“

Laugarás

Á Laugarási.

Háubakkar

Vestan Geirsnefs nyrst í Fossvogi (veg veg að smábátahöfninni) er skilti; Háubakkar. Á því má lesa eftirfarandi:

Háubakkar

Háubakkar – mörk hins friðaða svæðis.

„Háubakkar eru eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Háubakkar voru friðlýstir árið 1983. Á Háubökkum finnast þykk og afar merkileg setlög, sennilega um 200 þúsund ára gömul.
Þar sjást áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Eftir nýjar aldursgreiningar í Fossvogslögunum sem leiddu til nýrra upplýsinga um aldur þeirra er e.t.v. rétt að taka framanskráðan aldur Háabakka með fyrirvara. Setlögin eru um 8 m á þykkt og er þar m.a. að finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag og í því fræ, aldin og fjókorn ýmissa jurtategunda.
Stærð náttúrvættisins er 2,1 ha.

Setlög
Setlögin í Háubökkum eru staðsett undir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndar að miklum hluta berggrunn Reykjavíkur og er grunnur setlaganna á tveggja milljón ára gömlum hraunlagamyndunum frá fyrri hluta ísaldar.

Háubakkar

Háubakkar – setlög.

Þar ofan á eru sjávarsetlög með steingerðum leifum ýmissa sjávaradýra og má þar nefna skeljategundir eins og hallloku, kúskel og krókskel.
Ofan á sjávarsetlögunum eru síðan setlög mynduð af framburði áa sem runnið hafa um svæðið. Þar ofan á er um 20 sm þykkt surtarbrandslag (en þá var gróðurfar svipað og nú) og efst er Reykjavíkurgrágrýtið.

Í klettunum hér beint á móti eru nær eingöngu siltsteinslög og sandsteinslög til skiptis. Ekki sést þar í Reykjavíkurgrágrýtið né í surtarbrandslögin, en þau eru norðar í setlögunum.

Jarðasaga og myndun

Háubakkar

Háubakkar.

Þegar ísaldarjökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulsskeiðs ísaldar fylltust lægðir í berggrunninum af sjávarsetlögum. Yfir þau lögðust síðan setlög mynduð í sjó úr áframburði. Eftir það tók við langt tímabil þar sem land var algróið þar til gífurlegt eldgos varð á Mosfellsheiði og hraunið er myndar Reykjavíkurgrágrýtið rann yfir svæðið.
Jöklar síðustu íslandarskeiða gengu síðan yfir og mótuðu landið í svipað horf og það er nú.“

Auðvelt aðgengi að Háubökkum er frá litlu bílastæði við skiltið.

Háubakkar

Háubakkar í Elliðavogi.

Árbæjarsafn

Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:

Öskjuhlíð

Kortið sýnir staðsetningu á meintri „hoftóft“.

„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.

Lárus Sigurbjörnsson

Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður. 
Lárus þýddi fjölda leikrita, m.a. Hrekkir Scapins (Les fourberies de Scapin) eftir Molière (meðþýðandi), Jóhann úlfstjarna (Johan Ulfstjerna) eftir Tor Hedberg og Jeppi á fjalli (Jeppe paa Bierget) og fleiri gamanleikrit eftir Ludvig Holberg. Auk þess skrifaði hann greinar og bækur um leiklist og leiklistarsögu Íslands.
Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.
Myndin er af Lárusi Sigurbjörnssyni og Sveini Þórðarsyni við gamla kistu fulla af munum. Enginn myndatexti en fyrirsögn greinar er „Árbæjarsafnið opnað í dag“. Þar segir m.a. „Mynd þessi var tekin þá er Sveinn Þórðarson bankagjaldkeri framkvstj. Reykvíkingafélagsins, til hægri og Lárus Sigurbjörnsson skoða ýmsa gripi, úr stórum kistli sem geymdur var í eldtraustum skáp.“

Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“

Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.

Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.

Árbæjarkirkja

Örnefnið Háfaleiti á milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar á korti frá 1933.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“

Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.

Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – steinarnir tveir…

Nauthólsvík

Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Nauthólsvík

Í Nauthólsvík.

Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Nauthólsvík

Öskjuhlíð og nágrenni 1945.

Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – bryggja.

Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.

Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.

Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.

Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur – loftmynd 2023.

„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“

Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.

„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.

Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.

Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.

Nauthólslækur

Nauthólslækur (Sigmund-mbl).

Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“

Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:

Nauthólsvík

Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)

„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.

Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)

Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)

Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.

Lögreglan

B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.

Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.

Nauthólsvík

Nauthólslækur.

Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“

Í Morgunblaðinu 1978 segir:

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“

Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“

Í DV árið 1983 segir:

Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.

Nauthólslækur

Nauthólslækur.

Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.

Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.

Nauthólsvík

Nauthólsvík og nágrenni 1945.

Fossvogur

Á sjávarbakka í botni Fossvogs á klettinum Hanganda/Votabergi um 110 m vestur af Kringlumýrarbraut og 122 m norðvestur af bensínstöð N1 er skotbyrgi.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Byrgið tilheyrði Camp Fossvogi sem var fyrir botni vogsins og var síðar einnig nefndur Camp Cook South. Kampurinn er skráður undir jörðina Laugarnes.

Á bakkanum norðvestan við eru leifar af tveimur undirstöðum og grunni sem tilheyrðu einnig kampinum.
Byrgið er heillegt skotbyrgi. Veggir eru hlaðnir en þakið er steypt með halla að framan. Gengið er niður þrjú steypt þrep í byrgið á norðausturhlið. Byrgið er þakið jarðvegi og er grasi vaxið.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Norðvestan við er lágt garðlag um 20 m á lengd, liggur norður-suður með ströndinni og annað minna 10 m austar, um 10 m á lengd, bæði garðlögin eru greinileg á loftmyndum frá árinu 1954 og síðar, ekki er ljóst hvaða garðlög þetta eru.
Úr byrginu var útsýni til sjávar þannig að þar hefur verið hægt að fylgst með skipaferðum og flugi yfir Fossvog. Fyllt hefur verið upp í skotraufina en líklega hefur það verið notað sem geymsla fyrir matjurtir seinna.
Hlaðin eða steypt skotbyrgi frá stríðsárunum eru 50 talsins á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 222 skráðum fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í „Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal„, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

„Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.“

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; „rétt Reykjavíkurbarna“ eftir Guðna Þórðarson:

„Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.“

Í Vísi 1964 er grein; „Í Hafravatnsrétt„:
Hafravatnsrétt
„Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,“ sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.“

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um „Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
„Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur“ á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.“

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; „Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?“:
Hafravatnsrétt
„Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2023.

Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.“

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni „Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt„:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. „Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

„Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.“

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
„Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.“

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar 1990“ segir um Þormóðsdal: „Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.