Tag Archive for: Reykjavík

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar „Borgarminjar“, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem „réttin“ hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á „sprungusvæðinu“ sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að „Græna trefillinum“ svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: „Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …“
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: „Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.“
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. „Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000“. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið „Sumarhús“ og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: „Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. „Sumarhús það er heimurinn“ sagði Bjartur í Sumarhúsum.“ Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: „Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.“
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið „Sumarhús“ er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

 

Hólmsheiði

Hólmsheiði.

Sæfinnur

Raunasaga „Sæfinns með sextán skó“ hefur þegar verið skráð.
Sæfinnur Hannesson, þekktastur undir nafninu Sæfinnur með sextán skó, var einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hann var hinn ókrýndi konungur þeirrar stéttar þótt ekki hafi það verið glæsimennsSæfinnurka, sem hóf nafn hans upp úr hópi hinna nafnlausu og nafngetnu vatnsbera því hann þótti [einfaldlega] óglæsilegastur þeirra allra.
Sæfinnur var, sem fyrr sagði, einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Einleikar hans, geðprýði, ráðvendni, kurteisi og gott hjartalag, lyftu honum í minningunni á hærra stig en nokkrum öðrum úr hans stétt. Saga hans er þó átakanleg raunasaga, þótt samtíð hans hefði engan skilning á því. Það var ekki fyrr en hann hvarf af sjónarsviðinu og brunnurinn í Aðalstræti hafði verið byrgður, að augu manna opnuðust fyrir þeim mannlega harmleik sem saga hans geymir.

Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826, fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Samkvæmt lýsingu og frásögnum manna, sem mundu Sæfinn ungan, þótti hann bera af öðrum mönnum um gjörvuleik og líkamsfegurð. Hann var og talinn vel greindur og afburðamaður til allra verka. En það voru ekki einu kostir hans því geðgóður var hann og prúður í allri framgöngu, reglumaður og neytti hvorki áfengis né tóbaks og því hélt hann alla ævi. Hann hafði alist upp við lítil efni og einsett sér að brjótast upp úr fátæktinni og byrjaði því ungur að temja sér sparsemi og nýtni. Ekki var hann þó öfundsjúkur eða ágjarn á eigur annarra, heldur var frómlyndi hans og ráðvendni viðbrugðið.

Margar meyjar hafa eflaust litið þennan unga og efnilega mann hýru auga. Fjöllyndi átti hann þó ekki til, en var tilfinninganæmur og bar heitt hjarta í brjósti. Svo fór að hann felldi ástarhug til ungrar og glæsilegrar stúlku og hún játaði fyrir honum að hún elskaði hann líka og bundust þau ævilöngum trúnaðarheitum. Framtíðin virtist því brosa við björt og fögur og Sæfinnur lagði nú alla stund á að búa svo í haginn, að þau gætu stofnað eigið heimili. Ekki er vitað hversu lengi þessi sæli draumur um fullkomna hamingju stóð, en Sæfinnur fékk að reyna, „að svo er friður kvinna, þeirra er flátt hyggja, sem í byr óðum beiti stjórnlausu“.

Aðalstræti 1836

Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.

Ekki er vitað hverjar orsakir lágu til þess að unnustan sleit tryggð við hann, en með þeirri harmastund urðu alger þáttaskil í lífi hans. Um þetta segir svo frá í frásögn Árna Óla í ritverkinu Reykjavík fyrri tíma:

Flóahreppur

Flóahreppur – kort.

„Hann tók sér þetta svo nærri, að hann varð ekki mönnum sinnandi. Myrkur grúfði yfir sál hans og lamaði hið innra líf. Og þegar hann vaknaði að lokum af þessari martröð, þá var hann orðinn annar maður. Hinn hrausti og gjörvulegi æskumaður var horfinn, en í hans stað kominn annar Sæfinnur, gamall um aldur fram og andlega bilaður. Hann var að vísu ekki geðveikur í hinni venjulegu merkingu þess orðs, en hann hafði glatað hinni heilbrigðu skynsemi og lifði nú og hrærðist í öðrum heimi en samtíðarmenn hans. Hann gat ekki trúað því, að hann hefði misst stúlkuna sína. Hann var alltaf viss um, að hún myndi koma aftur til sín og þá yrði allt gott aftur. Og þess vegna hélt hann áfram að safna til þess að geta tekið vel á móti henni og gert henni yndislegt heimili. En allt var það ímyndun ein og sjálfsblekking, sjúkleg sjálfsblekking. Að öðru leyti hafði hann ekki tapað gáfum sínum.“

Sæfinnur
Margt var af einkennilegu fólki í Reykjavík á ofanverðri nítjándu öld en þótti þó kasta tólfunum er Sæfinnur bættist í hópinn. Í fyrstu vildu götustrákar gera sér dælt við hann, erta hann og stríða eins og öðrum fáráðlingum í bænum, en gáfust fljótt upp á því. Sæfinnur skipti aldrei skapi og tók öllum hrekkjum og strákapörum með mesta rólyndi og jafnaðargeði, en hélt sínum háttum eins og ekkert hefði í skorist.

Glasgow

Vesturgata 5 a, stórhýsið Glasgow, í Reykjavík, um 1885.
Sæfinnur bjó í útihúsi við Glasgow-verslunina þangað sem hann dró að ýmsa muni. Hann vildi vera viðbúinn ef ástin hans kæmi til baka og búa henni heimili. Þegar Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður af vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta. Halldór fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja bústang hans niður í sjó. Hann brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent í nærliggjandi fjöru 10. júlí 1890. Eftir það sást til hans í fjörunni við að reyna að tína saman leifar af dóti sínu enn með hugann við að unnustan myndi koma til hans. Sæfinnur lést árið 1896.

Sá var ljóður á ráði Sæfinns að hann vildi allt gera til að eignast peninga og notfærðu menn sér það til að henda gaman af honum. Sæfinni græddist með þessum hætti nokkuð fé og byrjaði einnig að draga björg í bú með öðrum hætti. Hann tíndi upp af götunum öll bréfsnifsi sem hann fann og druslur, glerbrot og flöskur. Og einatt mátti sjá hann niðri í fjöru þar sem hann rótaði í drasli og hirti, hvort heldur voru slitin föt eða skóræflar, skeljar, flöskur og jafnvel þara bar hann heim til sín. Þessari söfnun hélt hann alla ævi. En til hvers var hann að safna? Hjálmar Sigurðsson segir svo frá í blaðinu Íslandi 1898:

„Enn þráir hann bjarteygu, ljóshærðu meyna, og enn vonast hann eftir að hún muni koma á hverju andartaki og dveljast hjá sér það sem eftir er og aldrei framar við sig skilja. Hann hefur hvorki látið kemba né skera hár sitt frá því er hann sá hana síðast og hvorki kambar né eggverkfæri eiga að fá að snerta það fyrr en hún kemur með gullkambinn og gullskærin, því hún ein á hvert hár á höfði hans. Heima í höll sinni á hann stóra hrúgu af alls konar gersemum. Þar eru bjarnarfeldir og bjórskinn, safali og silkidúkar, pell og purpuri, gull og gimsteinar og alls konar kjörgripir og fágæti, sem nöfnum tjáir að nefna. Þessu hefur hann safnað saman um mörg ár, og sí og æ bætt við einhverju nýju á degi hverjum. Þetta má enginn hreyfa, enginn skoða, þangað til hún kemur, drottning hans, sem hann hefur vonast eftir á hverjum degi nú um mörg ár, því handa henni einni hefur hann safnað, utan á hana eina ætlar hann að hlaða öllum þessum gersemum.“….

Þessi var draumheimur sá, er Sæfinnur lifði og hrærðist í.

Sæfinnur

Melbær í Reykjavík um 1900. Talið er að bærinn hafi verið fyrirmynd Laxness af Brekkukoti.

Með hverju árinu sem leið gerðist Sæfinnur ótrúlegri ásýndum. Enginn slíkur tötradúði hefur sézt hér í bæ fyrr né síðar. Maður, sem þekkti hann, lýsti honum þannig:

„Hann hefur síðan hött á höfði. Hárið hangir í flókaberði dökkjarpt niður um herðar, og skeggið niður á bringu, allt í eintómum flygsum. Hann er í þremur eða fjórum vestum, jafn mörgum brókum, jökkum, frökkum eða úlpum, með fyrnin öll af skóm á fótunum, sem allt er margslitið, marggötótt og margstagað og hanga tuskurnar alls staðar út úr flíkum þessum. Um mjóaleggina eru buxurnar margvafðar að fótunum með samanhnýttum snærisspottum.“

Sæfinnur

Vatnsberarnir Gvendur Vísir og Álfrún.

Sæfinnur bjó lengst af í svonefndu Glasgow-húsi og eftir að Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður að vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta, sem fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja allt draslið niður í sjó. Er menn höfðu verið að um stund datt spesía út úr tusku og er betur var að gáð kom í ljós að silfur og gull var víðs vegar um ruslabinginn. Mörg ár eftir þetta voru strákar að finna peninga í fjörunni á þeim stað er rusli Sæfinns var fleygt.

Glasgow

Horft til vesturs úr fjörunni hjá Grófinni um 1890. Stóra húsið vinstra megin er Glasgow. Við hliðin á er Sjóbúð sem er reisulegt timburhús byggt var 1859 í stað torfbæjar með sama nafni. Hægra megin sjást tómthúsbýli norðan við Hlíðarhúsastíg, núverandi Vesturgötu. Á þessu svæði voru allnokkrir torfbæir um miðja 19. öld. Þeir voru auk Sjóbúðar, Hóll, Helluland, Merkisteinn, Klettakot og Jafetsbær. Dúkskot og Gróubær voru á sömu slóðum við Garðastræti.

Þegar Sæfinnur kom heim að loknum vatnsburði þennan dag þótti honum að vonum köld aðkoman. Hann horfði nokkra stund á hervirkið og gekk svo þegjandi burt. Er sagt að hann hafi komið við í Fischersbúð raunamæddur mjög og haft á orði að einkennilegt réttlæti ríkti hér á landi, að eignir manna skyldu ekki vera friðhelgar. Meira sagði hann ekki, en fór niður í fjöru og fór að tína saman það, er hann náði af drasli sínu.

Í frásögn Árna Óla segir svo frá þessum atburði: „En þótt Sæfinnur segði fátt, var þetta annað stóra áfallið, er hann varð fyrir í lífinu. Áður hafði hann talið sig ríkan, en nú fannst honum hann vera orðinn öreigi. Heimurinn var verri en hann hafði haldið. Menn, sem hann hafði aldrei sagt eitt styggðaryrði við, né gert á hluta þeirra, höfðu ráðist inn í helgidóm hans, allsnægtabúrið, og hagað sér eins og og verstu ræningjar, sópað öllu burt og fleygt því í sjóinn. Hann talaði ekki um þetta við neinn, því að geðprýðin var hin sama og endranær. En eitthvað brast í sál hans – héðan af gat han ekki tekið eins vel á móti stúlkunni sinni og hann hafði ætlað. Og hann varð hrörlegri og rolulegri með hverjum deginum sem leið.“
Sæfinnur náði sér aldrei eftir þetta, heilsunni hnignaði smám saman og lést hann 5. febrúar 1896 tæplega sjötugur að aldri.

Reykjavík

Séð til norðurs frá Tjörninni á dögum vatnsberanna. Dómkirkjan, Lærði skólinn nú MR og stjórnarráðshúsið eru á sínum stað. Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796 og var fyrsta byggingin sem reist var sérstaklega með tilliti til þess að Reykjavík skyldi verða höfuðstaður landsins.

Neðst við Vesturgötuna á horni Aðalstrætis og Vesturgötu og upp að Garðastræti og einnig inn í Suðurgötu bjó um aldamótin 1900 fólk sem sumt hvert gekk nokkuð utan alfaraleiðar. Var eftirtektarvert fyrir ýmissa hluta sakir. Framkomu, klæðaburð og öðru sem daglegu líferni horfir. Oft átti þetta fólk við einhverskonar veikindi að stríða sem almenningur bar takmarkað skynbragð á. Þetta fólk vakti athygli. Stundum fundu rithöfundar og listamenn í því fyrirmyndir til verka sinna.

Þegar Halldór Laxnes skrifaði Brekkukotsannál mun hann hafa horft til fólks sem bjó þar sem nú er neðsti hluti Suðurgötu og tengdist einnig neðsta hluta Vesturgötunnar. Magnús í Melkoti er talin fyrirmynd að Birni í Brekkukoti en kona hans var ömmusystir Halldórs. Melkots er ekki getið í heimildum frá 1703 en finna má fyrstu heimildir um það á síðari hluta 18. aldar. Melkot var rifið árið 1915 og mun hafa verið búið þar í um 200 ár.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

Að minnsta kosti ein önnur persóna í Brekkukotsannál mun eiga upptök sín neðst í gamla Vesturbænum á svæðinu á milli Hlíðarhúsa og Aðalstrætis. Í Dúkskoti var til húsa eldri maður hjá Jóni hafnsögumanni sem þar bjó. Að sögn hávaxinn en nokkuð lotinn í herðum með sítt grátt hár og gisið kragaskegg. Útlit hans vakti athygli því hann var jafnan klæddur hálfsíðum klæðisfrakka en ekki vaðmálsflík eins og algengast var með gylltum hnöppum. Var nokkuð keikur í göngulagi og ljóst að hann fann talsvert til sín. Þessi roskni maður kallaði sig jafnan Hogesen en hét Kristján Hákonarson. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og frakkann hjá útendum skipstjóra vegna starfs síns sem hafnsögumaður við að koma skipi hans heilu í höfn. Kristján mun jafnan hafa verið drjúgur yfir þessu afreki þótt óvíst megi telja að hann hafði unnið til þess á nokkurn hátt. Fremur var talið að erlendir menn hefði gefið honum frakkann og uppnefnd hann á dönsku til að draga dár að honum.

Eiríkur á Brúnum

Eiríkur Ólafsson (1823-1900), Brúnum undir Eyjafjöllum og Mormóni Utha.

Fullvíst er talið að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogesen í Brekkukotsannál. Í skáldlegum meðförum Laxness hafði Hogesen hlotið nokkra upphefð. Hann hafði verið leiðsögumaður danskra sjómælingamanna á Breiðafirði stað þangað sem hann hafði trúlega aldrei komið. Í Brekkukotsannál er einnig sagt frá því að Hogesen hafi farið á hverjum nýársdegi upp í Næpu á fund landshöfðingja til að fara með bænaskrá fyrir Íslands hönd og þiggja staup af brennivíni. Landshöfðingi á þá að hafa sagt við hann að hann væri nú eini íslenski sjóherinn.

Fleiri kynlegir kvistir bjuggu á þessum slóðum. Einn þeirra var Eiríkur Ólafsson oftast kallaður Eiríkur frá Brúnum. Hann bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár en fór þá til Kaupmannahafnar. Eiríkur fór síðan til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og dvaldi þar í átta ár. Gerðist mormóni en gekk síðan af trúnni. Kom heim og dvaldist í Reykjavík til aldamótaársins 1900 er hann lést.

Laxnes

Halldór Laxnes við Brúnir.

Eiríkur er fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í bókinni Paradísarheimt. Þórbergur Þórðarson fjallaði einnig um ævi Eiríks í kaflanum Bókfell aldanna. Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Bergshús var aðeins ofar í reykvísku byggðinni. Það stóð þar sem Bergstaðastræti og Skólavörðustígur mætast. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865 en það var lengst kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld. Þar var Þórbergur leigjandi um tíma og mun hafa kynnst Eiríki.

Ástarsorgin mikla
SæfinnurSæfinnur með sextán skó var þekktastur vatnsberanna, en bugaður af ástarsorg.
Fyrir daga vatnsveitu í Reykjavík var hópur sem nefndist vatnsberar. Þeir höfðu þann starfa að sækja vatn í svokallaða vatnspósta sem settir höfðu verið upp við brunna. Einn þeirra var nefndur Ingólfsbrunnur við Aðalstræti. Ingólfsbrunnur var á milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9 og var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið. Í liði vatnsberanna var margt sérkennilegt fólk karlar og konur. Sumt af þessu fólki var bæði vanheilt og þroskaskert og hafði ýmsa kæki, sem gerði það öðruvísi en aðra. Flestir vatnsberarnir voru nefndir styttum nöfnum og án föðurnafns, en höfðu í þess stað auknefni eða kenningarnöfn. Sæfinnur Hannesson eða Sæfinnur með sextán skó var einn þeirra þekktastur.

Sæfinnur lést árið 1896.

Loff Malakoff

Þórður Árnason

Þórður malakoff.

Þórður Árnason var einn af þeim kynlegu kvistum sem héldu til á mörkum Mið- og Vesturbæjarins. Hann var jafnan auðkenndur með heitinu Almala. Margar sögur gengu manna á meðal um afreksverk hans á blómaskeiði ævinnar. Hann var nokkuð ölkær og tíður gestur í þeirri veitingastofu gömlu húsanna við Aðalstræti sem almenningur kallaði Svínastíu. Hugmyndir um vínbann á Íslandi mun eiga rætur til drykkjusiða landans á þessari alræmdu krá. Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Vandræði urðu þó fljótt að fá lík til krufningar. Fólk vildi ekki leyfa læknavísindunum að krukka í ástvini sína látna. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Dag nokkurn fréttist af Þórði dauðum í verslun í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann. En þá reis hann upp. Hafði bara verið brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólsen síðar rektor Menntaskólans kvæðið Loff Malakoff. Þórður dó 1897 og var krufinn í líkhúsinu. Fyrsta erindi kvæðis Björns er á þessa leið.

Þótt deyi aðrir dánumenn,
loff- Malakoff,
hann Þórður gamli þraukar enn.

Loff Malakoff – mala,
lifir enn hann Malakoff
þótt læknar vilji flensa’ í

Malakoff, koff, koff
Þá lifir Malakoff,
þá lifir Malakoff.

Kvæðið varð eins konar dægurlagavísa. Auknefni Þórðar breyttist í munni manna. Hann síðan nefndur: Þórður Malakoff. Kvæðið er með sama lagi og danska skopvísan: „Malabrock er död i Krigen”. Mun Malabrock þessi hafa verið pólskur eða rússneskur herforingi. Sagan segir að læknanemar hafi verið hátt á aðra viku að fást við skrokkinn af Þórði. Vínföng munu hafa verið borin upp í Líkhús og læknanemar héldu ræður yfir líkamspörtunum á allt að sjö tungumálum. Ingólfur Gíslason læknir segir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum þótt hann væri nokkuð laus í böndunum er við sáum hann síðast.“

Þórður Árnason

Þórður Árnason.

Fólk af erlendum uppruna er ekki nýlunda hér á landi. Við Hlíðarhúsastíginn sem er neðsti hluti Vesturgötu var eitt af allra hrörlegustu kotunum í Vesturbænum og hét Helluland. Í þessu hreysi átti heima kona sem var kölluð Rómanía. Ekki er vitað til að hún hafi átt eiginmann eða börn. Hún var sögð nokkuð gild, lág vexti, dálítið lotin í herðum og með mikið hrafnsvart hár sem hélt litnum þrátt fyrir aldurinn. Augun voru móbrún og tinnuhvöss, og eins og gneistaði af þeim ef hún skipti skapi. Andlitið var kringluleitt og smáhrukkótt. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Hún gat tæpast verið af norrænu bergi brotin. Hún þótti skaphörð og óvægin í orðum og athöfnum. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum. Á þessum tíma kom önnur kona við og við í bæinn. Hún var kölluð Manga dauðablóð. Hún mun hafa verið á fimmtugsaldri með tinnusvart hár og skolbrúnt andlit. Ónorræn að útliti. Manga var í meðallagi á vöxt, beinvaxin og bar höfuðið hátt. Hún var skartgjörn. Hafði mikið dálæti á skærum litum, og notaði því marglitan höfuðklút, grænt slifsi og rauða svuntu. Hún mun hafa átt einhverja kunningja í bænum, sem hún heimsótti, því að aldrei sníkti hún í húsum eða á götum úti. Af lýsingum á þessum konum má draga þá ályktun að þær hafi verið af ættum rómafólks sem stundum hefur verið kallað sígaunar hér á landi. Rómanir hafa verið flökkuþjóð. Trúlega hafa menn af ættum rómana komið hingað til lands – hugsanlega með frönskum fiskiskipum og náð að kasta sæði í fróan veg á meðan skipin lágu við festu.

Hlíðarhús

Hlíðarhúsabæirnir um 1870 samkvæmt málverki Jóns Helgasonar biskups. Hlíðarhúsabæirnir voru: Norðurbær, Vesturbær, Sund, Skáli, Miðbær, Jónsbær og Austurbær. Allir þessir bæir nema Vesturbærinn voru rifnir fyrir aldamótin 1900. Hlíðarhús stóðu þar sem nú er Vesturgata 24 og 26 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu.

Í næstvestasta Hlíðarhúsabænum sem var kallaður Sund bjuggu saman Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Vísis nafnið fékk Guðmundur vegna þess að hann var um tíma aðstoðarmaður hjá Skotfélagi Reykjavíkur. Hann þótti seinlátur og lítt vinnugefinn. Álfrún var grannholda og fremur lág vexti, kvik á fæti og hin mesta áhugamanneskja í starfi sínu. Hún stundaði vatnsburð frá Prentsmiðjupóstinum til margra heimila í Miðbænum og Grjótaþorpinu. Hún naut stundum aðstoðar Guðmundar þegar annasamt var. Gekk oftast á undan honum og leit oft við til þess að hvetja hann áfram. Hún kunni illa seinagangi hans. Ekki er vitað hvert sambúðarform þeirra var en ekki voru það eintóm ástarorð sem hún talaði til Guðmundar. Þau dugðu þó illa því að maðurinn var hinn mesti letingi.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld og Gvendur dúllari.

Símon Dalaskáld svaraði yfirleitt fyrir sig þegar á hann var deilt. Hann freistaðist meira að segja til að svara eigin andlátsfregn.

Símon dalaskáld

Símon Björnsson Dalaskáld (1844-1916) – íslenskt skáld og förumaður á 19. og 20. öld.

Ýmsir fleiri sérlundaðir einstaklingar áttu sér dvalarstað í Rekjavík um lengri eða skemmri tíma. Einn þeirra var Símon Bjarnason. Hann tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali. Hann var fæddur 1844 í Blönduhlíð og lifði til 1916. Símon var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum. Hann giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt. Hann fékkst um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum. Hann fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var ekki umrenningur eða betlari. Miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Hann hafði ekki fastan gistingarstað í Reykjavík en átti þó víða innhlaup hjá fornum kunningjum, eftir því sem honum sjálfum sagðist frá. Margar sögur eru til af Símoni. Ein er sú að eitt sinn mun hann hafa komið að morgni dags í Landsprentsmiðjuna við Aðalstræti þræl timbraður. Hann sagðist hafa skotist inn í hlöðuna hjá blessuninni honum séra Þórhalli í Laufási. Oft minntist hann á góðan viðurgerning við sig á Laufásheimilinu. Þennan morgunn þótti prentsmiðjumönnum Símon vera með einkennilegan trefil um hálsinn og spurðu hann hvar hann hefði fengið hann. Sagðist hann hafa gripið hann einhvers staðar þar sem hann hefði komið um kvöldið því að sér hefði verið orðið kalt. Rakti hann svo þetta af hálsinum og kom þá í ljós að það voru kvenbuxur úr rauðu flúneli.

Reykjavík

Sjómannsbýli við Vesturgötu árið 1836, sennilega kotið Helluland sem stóð norðan við Vesturgötu 11 nálægt þeim stað sem áður var veitingahúsið Naustið. Teikning eftir Auguste Mayer.

Kveðskapur Símonar fór fyrir brjóstið á sumum. “Landhreinsun mikil má það teljast í bókmenntum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfur „Dala-skáld,“ sé látinn.“ Á þessum orðum hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Þess má geta að Símon var um þrítugt og snarlifandi þegar þessu orð voru rituð. Ritháttur sem þessi varð ekki til með samfélagsmiðlum nútímans.

Svo tóku vistheimilin við

Reykjavík

Reykjavík – Vesturgata um 1900.

Hér er aðeins minnst á fáa af því sérkennilega fólki sem tengdist horninu á mótum Aðalstrætis og Vesturgötu með einhverju móti. Þetta sýnir að sumt fólk hefur alltaf haft tilhneigingu af ýmsum ástæðum til þess að fara utan alfaraleiðar. Þegar byggðin tók á sig meira borgarform þótti ýmum nauðsynlegt að fjarlægja þetta fólk úr húsaskrífum og af götum. Þá hófst saga vistheimilanna sem enn þann dag í dag eru að berast fregnir af hvernig farið var með fólk. Ef til vill leið því ekkert verr frjálsu á ráfi um götur bæjarins.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Járnbraut

Í Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 mátti lesa; „Draumurinn um eimreið austur í sveitir“ eftir Pálma Eyjólfsson.

„Á árunum eftir aldamótin var farið að tala um sjálfrennireiðar eða mótorvagna, en stóri draumurinn var járnbraut oq tvær eimreiðir til að draqa 20 opna 6 smálesta vagna, en þar að auki yrðu 10 lokaðir vagnar og 5 ferðamannavagnar. Dr. Valtýr Guðmundsson vildi veita ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar oq umræðurnar á þingi 1894 urðu svo miklar, að þær fylltu 345 dálka í þingtíðindum.

Eimreið
Á aukaþingi sem haldið var í ágústmánuði árið 1894 var lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem nefndist: „Frumvarp til laga um löggildingu félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m.fl.“

Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson (1854-1926).

Flutningsmenn voru þeir séra Jens Pálsson, sóknarprestur á Útskálum, alþingismaður Dalamanna og Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans og þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. En það var einmitt á þessu sama ári 1894 sem fyrsta vélknúna millilandaskipið komst í eigu Íslendinga; Ásgeirsverslun á Ísafirði átti það. Potturinn og pannan í stóra málinu, sem kom á borð alþingismanna á þessu sumarþingi var Sigtryggur Jónasson, umboðsmaður Winnipeg. Sigtryggur var þá á fimmtugsaldri. Hann hafði verið skrifari Péturs Havsteens, amtmanns, og húskennari. Þegar Sigtryggur hafði starfað í átta ár hjá Pétri var amtmanni vikið úr embætti. Sigtryggur flutti þá vestur um haf og varð meðal fyrstu landnámsmanna í Kanada. Hann efnaðist á viðarhöggi við járnbrautarfélög og var duglegur að bjarga sér og hneykslaðist á framtaksleysi heimaþjóðarinnar. Hann reisti sér myndarlegt býli og nefndi það Möðruvelli eins og höfuðból amtmanns við Eyjafjörð. Hér er stuðst við bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, sem út kom árið 1971. Og hvert átti svo að verða hlutverk þessa mikla félags? Það var rakið í mörgum greinum frumvarpsins og verður hér aðeins drepið á það, sem varðar Suðurlandið.

Eimreið
„Félagið hefur fullt leyfi og vald til að ákveða legustað fyrir einsporðar eða tvísporðar stál- eða járnbrautar, sem liggi: a) frá Reykjavík suður og austur gegnum Kjósar- og Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í frumvarpinu var einnig greint frá öðrum sýslum, sem njóta eiga samgöngubóta með járnbrautum, allt norður í Eyjafjörð. Þetta fyrirhugaða félag átti að eiga öll hús við enda; stöðvar á járnbrautunum svo og gistihús. Á járnbrautarstöðvunum átti að selja mat, tóbak, vín og ölföng. Hvað er nú stóriðjan á Íslandi í dag á móti því, sem framkvæma átti eftir frumvarpinu, sem lagt var á borð alþingismanna þjóðarinnar í lok nítjándu aldarinnar?

Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
EimreiðinÍ tímariti dr. Valtýs Guðmundssonar, Eimreiðinni, var og farið að skrifa um bifreiðar, sem menn nefndu sjálfhreyfivagna, sjálfrennireiðar, eða mótorvagna þegar árið 1905. Þorsteinn Erlingsson orti „Brautina“, sem ávarpskvæði Eimreiðarinnar. Í ljóðinu eru þessi erindi: En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði ekki hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt og framtíðarlandið er fjarri.

Hvatningarljóðið er tuttugu erindi. Sautjánda erindið er svohljóðandi: Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstuga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Það þarf átta milljónir króna á næstu tíu árum til að koma atvinnuvegum Íslands til góða og til að bæta samgöngur og verslun landsins.

Eimreið
Stærsti pósturinn í þessari nýsköpun var járnbrautin því með „telgrafþræði“ var áætlun 6 milljónir króna. Þannig skrifaði áðurnefndur Sigtryggur í ársbyrjun árið 1889. Þetta var nefnt „Stóra málið“.

Góðtemplarahúsið

Góðtemlarahúsið við Templarasund.

Fimm árum síðar efndi Sigtryggur til fundar í Góðtemplarahúsinu gamla, sunnan við alþingishúsið, þar sem alþingismenn geyma nú farartæki sín. Enn er gripið í bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, og þar segir svo: „Til þess er ætlast, að hinni fyrirhuguðu járnbraut austur í Árnessýslu fylgi 20 opnir vagnar, er taki sex smálestir hver og 10 lokaðir vagnar, jafnstórir. Enn fremur eiga þar að vera sex ferðamannavagnar, III. flokks handa 32 farþegum hver, en tveir I. flokks handa 18 hver og tveir farþegavagnar. Til dráttar eru áætlaðar tvær eimreiðar. Getur hver eimreið dregið 20 vagna með 25 enskra mílna hraða á klukkustundinni, þar sem hallalaust er eða því nær 10 vagna upp halla 1:25.“ Of langt mál er að greina frá umræðum og blaðaskrifum um járnbrautarmálið.

Eimreið

Fyrsta járnbrautarlest og járnbrautarferð á Íslandi. Hópur fólks, nær eingöngu karlmenn að sjá, prúðbúnir með hatta á höfði, hafa komið sér fyrir á tveimur sléttum vögnum tengdum aftan í járnbraut á teinum sem rýkur úr gufan, lestarstjóri og starfsmenn standa þar hjá. Þekkja má borgarstjóra Reykjavíkur og landritara.

Einn af stóru fundunum í Þjórsártúni

Það var hinn 30. júlí árið 1905 sem einn af þessum stóru fundum var haldinn í Þjórsártúni. Bogi Th. Melsteð var fyrirlesarinn eins og ræðumenn voru þá kallaðir. Hann nefndi erindi sitt „Verslun Íslendinga og samvinnufélagsskapur“. Svona eins og í framhjáhlaupi segir hann í erindi sínu: „Ég heyri, menn nefna járbraut hingað úr Reykjavík.

Bogi Th. Melsted

Bogi Th. Melsted (1860-1929).

Ég minntist á járnbraut í bæklingi mínum. Framtíðarmálum, fyrir fjórtán árum en vil nú leiða athygli manna að sporbraut fyrir „elektriska“ vagna. Slík braut er talin þrisvar sinnum ódýrari en járnbraut þótt báðar séu reknar með gufu. Tveir „elektriskir“ „sporvagnar geta flutt 150 manns í einu eða áburð af 150 hestum. Þeir geta hæglega farið á dag fram og aftur jafnlanga leið og héðan til Reykjavíkur. Orkuna til að knýja vagnana mætti fá rétt hjá fundarstaðnum úr Búðafossi í Þjórsá.“

Ræðumaðurinn var nánast á heimaslóðum því hann var frá Klausturhólum í Grímsnesi. Bogi var einn af frumkvöðlum samvinnufélagsskapar og sláturhúsa. Þó að hann hafi á sínum tíma verið þekktastur fyrir sagnfræðirit sitt, hafði hann áhuga á samgöngum með járnbrautum, síma og hitaveitu. En ekki tókst málafylgjumanninum að hrífa þingheim með sér í járnbrautarmálinu. Daufu eyrun voru of mörg. Um aldamótin var talað um járnbrautarferðir frá Reykjavík austur að Þjórsá og var þá höfð í huga samvinna við breska aðila. Dr. Valtýr Guðmundsson var kosinn á þing í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1894, en þá um sumarið var aukaþing. Var hann þá helsti forystumaður þess að veita fyrirhuguðu ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar á íslandi og til að halda uppi beinum gufuskipaferðum milli Reykjavíkur og Englands, ásamt strandferðum umhverfis landið. Innan sjö ára skyldi félagið hafa lagt mjóspora járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá.

Eimreið

Um 1925. Eimreiðin Minör. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir f.v. Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson

Aðalforgöngumaður málsins var áðurnefndur Sigtryggur Jónasson, sem staddur var í Reykjavík um þingtímann og taldi sig hafa 900 þúsund króna loforð frá væntanlegum félagsmönnum, ef alþingi samþykkti það tillag úr landssjóði, sem farið var fram á.

Valtýr Guðmundsson

Valtýr Guðmundsson (1860-1928).

Þetta var mesta nýmæli um verklegar framkvæmdir, sem nokkurn tíma hafði komið fyrir alþingi. Umræðurnar á þingi fylltu 345 dálka í þingtíðindum 1894. Um járnbrautina var mest deilt, en flestir voru samþykkir gufuskipaferðum enda voru þær miklu betri eftir frumvarpi dr. Valtýs, en þær sem Sameinaða gufuskipafélagið hélt uppi. Frumvarpið um járnbrauta- og siglingafélagið var samþykkt í neðri deild, en til efri deildar kom það svo seint, að ekki var tími til að ljúka málinu og féll það þar með úr sögunni.

Heimsborgarhljóð stundvísinnar

Það var hinn 17. apríl árið 1913 að fyrsta og eina járnbrautin á Íslandi var tekin í notkun. Járnbrautarteinar lágu frá Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sem þá var enn óbyggð, og niður að Reykjavíkurhöfn, sem nú er hin eldri Reykjavíkurhöfn. Grjótflutningarnir voru miklir í þetta stóra mannvirki. Sagt er frá því í blöðum að hinn 10. nóvember 1913 hafi farþegar verið fluttir í fyrsta og eina skipið með járnbrautarlest.

Eimreið

Eimreiðin Minör – nú minnisvarði við Reykjavíkurhöfn.

Verktakar við Reykjavíkurhöfn breyttu vöruflutningavögnum til að geta flutt blaðamenn og fleiri frá höfninni upp í Öskjuhlíð þar sem grjótnáman var þá. Það mun hafa komið fyrir að Reykvíkingar fengju sér sunnudagsskemmtiferð með Pioneer-eimreiðinni upp í Skólavörðuholt og Öskjuhlíð. Meðan á hafnargerðinni stóð var járnbrautin talsvert notuð til vöruflutninga. Olíubirgðastöð var þá komin í Örfirisey og þangað flutti járnbrautin olíu á tunnum, en á þeim árum var steinolía enn mikið notuð í Reykjavík. Saltað kindakjöt í tunnum, sem þá var góð útflutningsvara, var flutt frá húsi Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu, en skammt þaðan var hið virta fyrirtæki, Völundur og þangað flutti járnbrautin timbur frá skipshlið. Þá var og steypumöl í Landspítalann flutt með járnbrautinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Margir muna enn í dag eftir þungum slögum frá eimreiðinni, járnbrautarteinum og hinum reglubundna hvini. Eimreiðarstgórinn flautaði svo undir tók þegar farið var yfir Hverfisgötuna og Laugaveginn, vestan við gömlu gasstöðina og á þeim slóðum þar sem lögreglustöðin var síðar reist. Einnig var flautað hátt og hressilega þegar farið var yfir Hafharfjarðarveginn gamla. Heimsborgarhljóðin glumdu yfir höfuðborginni, hljóð stundvísinnar, sem einkennir járnbrautarferðir út í hinum stóra heimi. Hafnarsmiðjur, rauðmáluð lágreist hús með svörtu þaki, voru á þeim slóðum þar sem síðar kom Miklatorg, austan við Landspítalann. Hafnarsmiðjan var birgðastöð og skýli yfir eimreiðarnar. Ekki var hægt að snúa eimreiðunum við eða breyta stefnu þeirra að Öskjuhhíðinni þannig að þær drógu ýmist farmvagnana eða ýttu þeim á undan sér. Þann 9. mars árið 1913 varpaði gufuskipið Edvard Grieg akkeram þar sem síðar varð hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en þetta skip kom með verkfæri til hafnargerðarinnar og N.P. Kirk yfirverkfræðing. Hálfum mánuði síðar höfðu hundrað manns hafið vinnu við að leggja járnbrautarteina úr Öskjuhlíðinni yfir Melana og vestur á Granda og var því verki lokið um miðjan apríl. Síðan var önnur braut lögð úr Öskjuhlíð yfir Skólavörðuholt og Arnarhólstún og niður á Batterí, á þeim slóðum, sem Seðlabankinn er í dag.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Með áðurnefndu skipi kom ein eimreið, nefnd Minör, og sama sumar kom svo önnur eimreið, nefnd Pioneer. Í árbók Verkfræðingafélags Íslands árið 1914 skrifar Jón Þorláksson, landverkfræðingur, síðar forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, grein sem hann nefndi: „Áætlunarferðir með eimreið austur í sveitir“. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum úr áætlun um þessa járnbraut, sem minnst er á í riti þessu á öðrum stað: Lega brautarinnar er ráðgerð frá Reykjavík um Þingvelli og Selfoss til Þjórsár, að lengd alls 112 km. Einnig er gert ráð fyrir hliðarálmu frá Selfossi til Eyrarbakka, að lengd 11 km. Hæð yfir sjávarmál mest 275 m. á þessari leið. Gerð brautarinnar: Breidd undirbyggingar er áætluð 4 m. og fylgt þeirri reglu, að gera brautina allstaðar upphækkaða, en hvergi niðurgrafna, til þess að koma í veg fyrir hindranir af snjóalögum.“ Þar lét Guðjón í Laxnesi, sem þá var vegaverkstjóri mæla snjóþykktina árin 1912-1918 og aftur 1924-1926, af þessum snjómælingum var ályktað að járnbrautarlest gæti komist yfir Mosfellsheiði alla daga ársins. Guðjón var eins og kunnugt er faðir Halldórs nóbelsskálds.

Eimreið

Eimreiðin við gerð hafnargarða Reykjavíkurhafnar.

Stöðvar eru áætlaðar í Reykjavík, við Selfoss og við Þjórsá og auk þess 16 smástöðvar, sem mjög litlu sé til kostað. Fullkomin rannsókn á brautarstæðinu liggur ekki fyrir ennþá, segir í greininni, heldur aðeins bráðabirgðarannsókn, sem þó er byggð á hallamælingum á mestum hluta leiðarinnar. Eftir áætluninni er jarðrask 7.400 tenm. á hverjum km. aðallínunnar.

Eimreið

Eimreiðin í Vatnsmýri.

Kostnaður til bráðabirgða er áætlaður þannig: Aðalbrautin 112 km, krónur 3,5 milljónir. Álma niður á Eyrarbakka 11 km, kr. 300 þúsund. I þessum kostnaði er borgun fyrir landspjöll ekki meðtalin. Fólksfjöldi á brautarsvæðinu er nú sem stendur full 25.000 manns.

Þórarinn Kristjánsson

Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri.

Þórarinn Kristjánsson, byggingaverkfræðingur vann á skrifstofu landverkfræðings árið 1912, þá nýútskrifaður frá Kaupmannahöfn, og mældi hann fyrir járnbrautarstæðinu frá Reykjavík um Þingvöll að Selfossi. Þórarinn varð síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Árið 1920 skrifar svo Jón Ísleifsson verkfræðingur í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands og bendir á aðrar leiðir, sem hann nefnir Reykjanesleiðir. Þær leiðir áttu að liggja frá Reykjavík inn að Elliðaám suður í Hafnarfjörð um Vífilsstaði.

Fyrir sunnan Hafnarfjörð á móts við Hvaleyri áttu leiðirnar að skiptast og átti önnur að stefna í hásuður, milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, um Vigdísarvelli og ofan á Krýsuvíkurbjarg vestanvert. Þaðan meðfram sjó yfir Vogsós og Ölfusárós að Eyrarbakka. Frá Eyrarbakka átti leiðin að liggja upp Flóa að Ölfursárbrú og þaðan að Þjórsárbrú. Hin leiðin átti að liggja frá Hvaleyri í vestur, meðfram sjó suður í Voga og beygja þar til hásuðurs meðfram Sandakravegi, yfir Dalahraun niður að Hraunsvík hjá Ísólfsskála, og þaðan meðfram sjó að Krýsuvíkurbjargi, þar átti þessi vestri Reykjanesleið að mæta hinni fyrrnefndu leið. Eystri-Reykjanesleiðin var talin 126 km löng, en hin vestri 146 km. Þessar leiðir áttu að komu öllum íbúum Reykjanesskagans að notum og vera snjóléttar. Við Reykjanesleiðina voru þá 2872, íbúar en við Þingvallaleiðina 827 íbúar.

„Járnbrautarmálið og samgöngumál suðurlandsundirlendisins“

Eimreið

Eimreiðin í Öskjuhlíð.

Þannig hljóðaði yfirskriftin á tveimur erindum, sem Geir G. Zoéga, vegamálastjóri flutti í mars og aprfl árið 1924. Fyrra erindið byrjar þannig: „Járnbrautarmálið er óefað langstærsta samgöngumálið, sem hjá oss hefur verið á dagskrá. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að Suðurlandsundirlendið verður að fá samgöngubót, er veitir því greiða og örugga leið til Reykjavíkur jafnt vetur sem sumar ef þess á að vera nokkur von, að fé það allt, sem þar hefur verið lagt í ræktun beri tilætlaðan ávöxt. Þessi samgöngubót hlýtur að verða annað tveggja járnbraut eða fullkominn akvegur til bifreiðaflutninga.“

Eimreið

Eimreiðin Pioneer og gufuvaltarinn Bríet við Árbæjarsafn.

Í greinargerð vegamálastjóra kemur fram að Stóra málið hafði um árabil legið í þagnargildi, en á alþingi 1921 voru samþykkt lög sem heimiluðu landstjórninni að láta framkvæma fullnaðarrannsóknir járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendi.

Valgeir Björnsson

Valgeir Björnsson, bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri (1894-1983).

Snéri landstjórnin sér til stjórnar norsku ríkisbrautanna með beiðni um að fá vel hæfan starfsmann þeirra til rannsókna. Var málinu vel tekið og bent á Sv. Möller, járnbrautarverkfræðing. Í janúarmánuði árið 1924 sendir þessi „baneinspektör“ landsstjórninni langa og nákvæma skýrslu með áætlun um stofnkostnað upp á kr. 6.925.000 og er þá miðað við að verkamannakaup sé kr. 1.00-1.10 á klst. Með Sverre Möller vann Valgeir Björnsson verkfræðingur, sem þá starfaði á skrifstofu vegamálastjóra, við mælingarnar og áætlunargerðina. Valgeir varð síðar bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri í Reykjavík.

Um járnbrautarstöð í Reykjavík segir norski verkfræðingurinn: „Þar sem hér er aðalstöð og endastöð verður að áætla tiltölulega mikil húsakynni, enda eru stöðvarhúsin, vöruskáli, eimreiðarskáli og smiðja áætluð að kosti um 200 þúsund krónur. Stöðvarstæðið austan við Tjörnina neðst í Laufástúni, neðan við Fjólugötuna, þótti áhugavert en dýrt. Lítum á legu járnbrautarinnar: Járnbrautarstöðin er staðsett austan við Tjörnina og liggur leiðin þaðan til suðurs, en því næst í suðaustur yfir Vatnsmýri, vestan við Eskihlíð yfir Hafnarfjarðarveginn í Fossvogi.

Eimreið
Á þessari leið er hallinn lítill og bugður vel greiðar. Öll leiðin norðan í Fossvogi er mjög hagkvæm, mestur halli 12% vestan við Bústaði, en þar er stuttur láréttur kafli, þar sem stétt verði sett síðar. Því næst er brautin lögð norðan í Breiðholtshálsi að efri Veiðimannahúsum og er þar farið yfir Elliðaárnar. Þá er beygt suður fyrir hálsinn milli Elliðaáanna og Rauðavatns, því næst farið yfir Hólmsá nálægt Baldurshaga, síðan með fram Rauðhólum um túnið á Hólmi og er þar ráðgerð fyrsta stöðin.“

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Önnur áætlun var og gerð um stöð í Arnarhólstúni austan við Ingólfsstræti, niður undir sjó en það stöðvarsvæði er af ýmsum ástæðum ekki eins heppilegt, sérstaklega kostar miklu meira að jafna svæðið og enn meira tiltölulega, þegar kemur að því að stækka stöðina. Jafnvel þó stöðin verði sett svo austarlega, að gatan með fram sjónum (meðfram Nýborg og Völundi) verði tekin af, mun kosta 165. þúsund krónum meira að jafna þetta stöðvarsvæði og gera nothæft en stöðvarsvæðið austan við Tjörnina, og enn meiri verður munurinn er kemur að því að færa úr kvíarnar. Leiðin frá hafnarstöðinni inn að Elliðaám er heldur ekki eins heppileg og frá Tjarnarstöðinni.“

Járnbraut

Tillaga að legu járnbrautar frá Reykjavík að Ölfusárbrú árið 1924. Lestrarstöðvar á leiðinni áttu að vera: Hólmur, Kolviðarhóll, Þurá og Sandhóll.

Nokkru síðar í skýrslu norska járnbrautarverkfræðingsins er þess getið að Hólmsstöð liggi haganlega með tilliti til Þingvallaumferðar. Eimreiðin verður að staðnæmast hér, segir í skýrslunni, og bæta vatni á ketilinn. Við Kolviðarhólsstöð áttu eimreiðarnar að mætast og enn þarf þar að bæta vatni á ketilinn. Vatnsveitan að Kolviðarhóli er nokkuð dýr eftir áætluninni og eru nefndar 50 þúsund krónur. Kolviðarhóll var á þessum árum þýðingarmikill og vinsæll áfangastaður og rausnargarður. Eftir þessari áætlun átti Ölfusárbrúarstöð að vera fyrst um sinn endastöð austanfjalls. Þar þarf að vera eimreiðarskáli, segir í skýrslunni, – fjölskyldubústaður stöðvarstjóra og herbergi fyrir annað starfsfólk. Verkfræðingurinn telur að 40 km. hraði á klukkustund sé vel fullnægjandi á ekki lengri leið. Í Þrengslunum er brautin hæst yfir sjávarmál, 283 metrar.

Járnbraut

Járnbrautarlest, þe. eimreið með vagna bæði fyrir framan og aftan á ferð. Mun vera járnbrautin sem lögð var uppi í Öskjuhlíð vegna hafnargerðar í Reykjavíkurhöfn.

Framhaldsskýrsla um járnbrautarmálið var lögð fyrir alþingi 1926. Við þá endurskoðun lækkaði stofnkostnaður verulega. Eftir nýju skýrslunni átti að byggja Reykjavíkurstöðina á svonefnt „Skell“ tún austan við Hringbraut, en sunnan við Laugaveg. Þótti sá staður hagkvæmari en neðst í Laufástúninu fyrir neðan Fjólugötu. Í hinni nýju áætlun var gert ráð fyrir sérstöku spori frá Reykjavíkurstöðinni eins og hún er nefnd og niður að höfn og mætti koma fyrir stétt þar, til dæmis við Ingólfsstræti, og nota sem endastöð lesta, ef aðalstöðin þætti vera nokkuð langt frá miðbænum. Í þessari endurskoðuðu áætlun var gert ráð fyrir að Ölfusárstöðin, sem fyrirhuguð var undir brekkunni vestan árinnar gegnt Selfossi, yrði austan Ölfusár og gerir nú járnbrautarverkfræðingurinn ráð fyrir eimreiðarbrú, sem kosta myndi 200 þúsund krónur. Verkfræðingarnir telja að mótorvagnar geti sparað talsverða upphæð með því að nota slík farartæki að einhverju leyti, en segja að sér hafi ekki tekist að gera áætlun þar um. Telur skýrsluhöfundur, að aðalókostur mótorvagna sé, að dráttarafl þeirra upp brekkur sé frekar lítið. Þá kemur greinargerð um rafmagn til rekstrar brautarinnar, en það telur skýrsluhöfundur ekki koma til greina nema að það fáist á mjög vægu verði, enda sé raforkuveitan meðfram brautinni mjög kostnaðarsöm.

Eimreið

Eimreiðin við gerð varnagarða Reykjavíkurhafnar.

Reynsla Norðmanna benti þó í þá átt, að litlar horfur væru á, að rafvirkjun með svo lítilli umferð mundi gerleg. Rekstrarkostnaður bifreiðanna er áætlaður meiri en járnbrautar og munar þar mestu um eldneytiseyðsluna, sem óhætt er að telja að minnsta kosti tvöfalt meiri. Annar liður sem um munar er gúmmí. Þegar hér er komið í skýrslunni er hætt að tala um mótorvagna eins og algengt var í upphafi bílaaldar.

Geir Zoega

Geir Zoëga, verkfræðingur og vegamálastjóri í Reykjavík (1885-1959),

Árið 1918 var mikill mjólkurskortur í Reykjavík. Blöðin fjölluðu um mjólkurskortinn og Guðmundur Björnsson landlæknir og alþingismaður, sem hafði setið í bæjarstjórn Reykjavíkur, taldi að mjólkurskorturinn stafaði af því að hér vantaði járnbrautir. Hermann Jónasson búfræðikandidat, sem verið hafði ritstjóri Búnaðarritsins, taldi og að veigamesta lausnin á mjólkurskortinum væri að flytja hey austan úr sveitum að sumarlagi með járnbraut til Reykjavíkur. Geir G. Zoéga varð vegamálastjóri árið 1917 og 1922 varð hann ráðunautur ríkistjórna í málum er snertu notkun bifreiða og í járnbrauta. Í skýrslu hans, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands í febrúarmánuði árið 1926, má lesa: „Hvernig sem á málið er litið verður rekstrarafkoma bifreiðanna miklu lakari en Járnbrautarinnar. En mest gætir þó hins, að þær jafnast alls eigi á við járnbraut um að fullnægja þörfum vaxandi umferðar. Nú verður að gera ráð fyrir því, að ræktun Suðurlandsundirlendisins vaxi til muna jafnvel í náinni framtíð“. Í samanburði á járnbrautinni og bifreiðunum er talið að járnbrautin verði tvær og hálfa klukkustund milli Reykjavíkur og Ölfusár en fólksbifreið yrði þrjár og hálfa klukkustund á leiðinni. Endastöð brautarinnar var eins og það er orðað, fyrst um sinn áætluð við Ölfusá. „Jafnframt verður til frekari tryggingar að banna reglubundnar bifreiðarferðir til almennra vöru- og fólksflutninga á þeirri leið. Flutningsgjöldin fyrir vörur með járnbrautinni eru að vísu áætluð svo lág (20 kr. fyrir 1000 kg. milli Reykjavíkur og Ölfusár, sem nú kostar minnst 60 kr.)“ Eftir áætluninni átti fargjald með járnbrautinni að kosta kr. 6.50, en kostaði 10 krónur með bílum árið 1926. Hér hefur verið stiklað á fóru og aðeins gripið ofaní skýrslur Geirs Zoéga, vegamálastjóra frá árunum 1924 og 1926.

Eimreið

Pioneer við Árbæjarsafn.

En víkjum nú sögunni austur í Rangárvallasýslu: Það var á útmánuðum árið 1922, að sýslunefndarmenn í Rangárvallasýslu voru búnir að koma sér fyrir í kringum stóra fundarborðið á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, að oddviti sýslunefhdarinnar, Björgvin Vigfússon, las nefndarmönnum bréf frá stjórnarráði Íslands þar sem það tjáir sig bresta heimild til að veita kaupgjaldsrétt á landsspildu þeirri úr Kálfholtslandi í Ásahreppi sem sýslunefndin hefur tekið á leigu í 100 ár.

Kálfholt

Kálfholt.

Jafnframt tjáir stjórnarráð Íslands sýslunefndinni í Rangárvallasýslu, að það finni ekki næga ástæðu til að útvega heimild til sölunnar með sérstökum lögum. Kálfholt var prestssetursjörð um hundrað ára skeið. Þetta er víðlend kirkjujörð, með land að Þjórsá. Þjórsártún og Lækjartún, sem áður hét Kálfholtshjáleiga, eru byggð úr Kálfholtslandi. Árið 1926 bjó í Kálfholtshjáleigu Jón Jónsson, og kona hans Rósa Runólfsdóttir síðar búandi að Herríðarhóli í sömu sveit. 1. mars árið 1926 skrifar Jón sýslunefndinni í Rangárvallasýslu bréf og óskar eftir meðmælum með því, að hann fái keypta jörðina Kálfholtshjáleigu sem var eign Kirkjujarðasjóðs eins og fjölmargar jarðir í Rangárþingi eru. Eftir sýslufundinn sendi sýslumaður Jóni bónda svarbréf þar sem í meginmáli er skráð: „Meirihluti sýslunefndarinnar telur varhugaverða sölu á Kálfholtshjáleigu, vegna væntanlegrar vatnsvirkjunar Urriðafoss og járnbrautarlagningar austur yfir Þjórsá.“ Urriðafoss er skammt fyrir neðan Þjórsárbrú. Það var mikið talað og skrifað um járnbrautarmálið á öðrum og þriðja áratug þessar aldar. Hinn 20. mars 1919 sótti fossafélagið Títan um sérleyfi til virkjunar Þjórsár allrar. Hafði norskur verkfræðingur, G. Sætersmoen, athugað rennsli hennar um tveggja ára skeið á árunum 1915-1917. Títanfélagið dró umsókn sína síðar til baka. Ekkert skeði svo í virkjunarmálunum við Þjórsá fyrr en en Búrfellsstöðin var byggð eftir lögum um Landsvirkjun árið 1964.

Eimreið

Eimreiðin Pioneer á Árbæjarsafni.

Enn er málið vakið upp á Alþingi eftir að hljótt hafði verið um það í áratugi. Árið 1980 er borin fram tillaga til þingsályktunar um rafknúna járnbraut. Flutningsmenn eru: Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jóhann Einvarðsson. Upphaf tillögurnar er þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda, sem upp hafa komið um rafknúna járnbraut til notkunar á mestu þéttbýlisstöð; um Suðvesturlands og austur yfir fjall.“

Þórarinn Sigurjónsson

Þórarinn Sigurjónsson (1923-2012).

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rætt um orkukreppu, gjaldeyrissparnað með meiru. Svo og telja flutningsmenn að járnbraut auki öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Flutningsmenn tillögunar telja eðlilegt að gaumgæfilega verði athugað hvort ekki sé hagkvæmt að koma upp rafknúnum farartækjum og rafknúinni járnbraut um þau svæði sunnanog suðvesturlands þar sem flutningar eru mestir.

Í þingskjölum kemur fram, að Þórarinn Sigurjónsson bóndi og alþingismaður í Laugardælum hefur leitað til Hinriks Guðmundssonar, verkfræðings, sem svo aftur leitaði til ráðgjafaverka í járnbrautarmálum í Þýskalandi. Einnig leitar verkfræðingurinn til Almennu verkfræðistofunnar hf. í Reykjavík. Bæði þessi fyrirtæki lýsa sig fús til að vinna saman að þessu verkefni. Þýska fyrirtækið telur að athugun muni taka 6 mánuði og kosta um 450 þús. D.M., um 18,1 milljón krónur. Þórarinn Sigurjónsson segir m.a. í þingræðu 27. janúar 1981: „Með flutningi þessarar tillögu viljum við flutningsmenn fá úr því skorið, hvort ekki sé tímabært að koma upp rafknúinni járnbraut um þéttbýlustu svæði landsins til vöruflutninga og e.t.v. mannflutninga. Meðal annara þjóða er járnbraut talin ódýrasta og afkastamesta flutningatæki á landi sem hægt er að fá, þar sem hún hentar. Og með það í huga, að stöðugt hækkar verð á erlendum orkugjöfum. „Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa og spara þannig erlendan gjaldeyri,“ sagði Þórarinn í þingræðu, þegar hann lagði áherslu á að rækileg athugun færi fram á hagkvæmni á rekstri járnbrautar um Suðurland og Suðurnes.

Járnbraut

Myndin sýnir röð af óhrjálegum skúrum sem standa meðfram járnbrautarteinum. Nýborg við Skúlagötu.

Í um það bil heila öld hafa umræður um járnbrautarlagnir á Íslandi skotið upp kollinum annað kastið þó með hléum allt til Alþingishátíðarársins 1930, en það ár eru 800 bílar í eigu Reykvíkinga og þörfin á betri vegum á allri landsbyggðinni orðin brýn, en hægt miðaði með hestvögnum á vegum sem ruddir voru með hökum og skóflum. Draumurinn um eimreiðina rættist ekki þó að erlendu sérfræðingarnir, sem hingað komu og athuguðu aðstæður sæju engin vandkvæði á því að leggja járnbraut fyrir eimreið austur í sveit. Í dag eigum við raforkuna og virkjunarmöguleikana, en fátt bendir til þess að innlend orka eigi eftir að knýja hraðlestir um Suðurlandsundirlendið í á nýrri öld.

Ný verkmenning við vegagerð hófst hér á landi með tilkomu þungavinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og bifreiðar og flugvélar hafa í áratugi sannað ágæti sitt sem góð og örugg samgöngutæki.“

Sjá meira um fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar HÉR.

Heimildir:
-Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, útg. 1971.
-Tímarit verkfræðingafélagsins 1920, 1924 og 1926.
-Alþingistíðindi: 1980 og 1981.
-Sýslufundargerðir Rangárvallasýslu.
-Eimreiðin. Dr. Valtýr Guðmundsson.
-Járnbrautin í Reykjavík: Árbæjarsafn 1982.
-Íslenskir búfræðikandidatar, Guðm. Jónsson, skólastj.
-Þyrnar: Þorsteinn Erlingsson.
-Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, Draumurinn um eimreið austur í sveitir, Pálmi Eyjólfsson, bls. 4-6.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Lækjarbotnar

Í rannsókn á „Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
„Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – hellisopið.

Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið „Dysjar hinna dæmdu“ en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
HallberuhellirMargrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
Í annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).

Engidalur

Engidalur – bæli.

Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Örfiriseyjar-) Bessastaðasel).

Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).“

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

„Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.

Lækarbotnar

Lækjarbotnar – Hallberuhellir.

Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.“

Hallberuhellir

Hallberuhellir – teikning.

[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina „Hallberuhellir“ í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri „mætri“ manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, stundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þess mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.

Hellisskarð

Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.

Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.

Kolviðarhóll.Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakin möl og mylsnu.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í Wikipedia segir eftirfarandi um P.E. Kristian Kålund, en hann skrifaði m.a. „Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877„. Þar fjallar hann um helstu sögustaði Íslands. Einn þeirra er Reykjavík.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund (1844-1919).

„Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna.
KaalundÞessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung).
Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu.

Kålund

Kålund á efri árum.

Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á Palæografisk Atlas, með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum.
Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki.
Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í Dansk biografisk leksikon, 1887–1905, og greinar um Ísland i Nordisk konversations-leksikon, 3. útg.

Kaalund

Rit Kaalunds um Ísland.

Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna. Afmælisrit til dr. Phil. Kr. Kålunds, bókavarðar við Safn Árna Magnússonar, 19. ágúst 1914, Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum.
Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897.
KaalundKristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók .

Kålund

Bók Kålunds um „Íslenska sögustaði“.

Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002.

Íslandskort

Íslandskort.

Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og „þing“ eða „búð“ sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða.
Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund.“

Í ritinu um Íslenska Sögustaði (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), skrifar P.E. Kristian Kålund m.a. um Sunnlendingafjórðung. Þar getur hann um „sögustaðinn“ Reykjavík, sem fyrr segir:

Gullbringusýsla – Reykjavík

Reykjavík

Reykjavík 1935.

Þetta landsvæði er mestur hluti þess flæmis, er Ingólfur nam, fyrsti og frægasti landnámsmaðurinn. Settist hann að í Reykjavík, en næsta umhverfi bæjar varð búland hans. Land það er Ingólfur á eftir að lokum, er eigi mjög stórt miðað við hið mikla flæmi er hann nam í upphafi, þ.e. milli Hraunsholtslækjar og Úlfarsár. Hraunsholtslækur rennur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog. Úlfarsá kemur úr Hafravatni, rennur til vesturs sunnan við Úlfarsfell, beygir síðan til vesturs vestan við Lambhaga og fellur í litla vík sem nefnist Blikastaðakró. Úlfarsá breytir síðan um nafn, nefnist Korpustaðaá eða Korpa, fyrst sennilega aðeins neðri hlutinn í grennd við Korpúlfsstaði. Í þessu landi Ingólfs eru þó Vífilsstaðir, land það er hann gaf Vífli leysingja sínum.

Reykjavík 1874

Reykjavík 1874.

Reykjavík hét áður Reykjarvík, í Íslendingabók Raikjarvic. Vík nefnist staðurinn í Kjalnesinga sögu, sem er skáldsaga. Hér er einn merkasti staður landsins, það er óhætt að segja en þó einn af þeim sem sjaldnast er nefndur í fornum sögum.
Sennilega hefur ætt Ingólfs átt Reykjavík alllengi. Þorsteinn sonur Ingólfs var stofnandi Kjalarnesþings. Hans sonur var Þorkell máni, en Harðar saga Grímkelssonar segir að hann hafi búið þar. Hann lifði samkvæmt vitnisburði sgana svo hreinlega sem kristnir menn, er best eru siðaðir, og virðist helst hafa haft hugboð um kristnina. Síðan þegja allar heimildir um Reykjavík langan tíma. Árið 1616 fær Kristján IV jörðina ásamt kirkju í skiptum fyrir nokkrar aðrar jarðir. Var Reykjavík á allvænleg jörð. Magnús Ketilsson segir í Forordinger II, 265, að nokkurn hluta jarðarinnar virðist krúnan þó hafa átt síðan 1590 (sjá Finnur Jónsson Hist. eccl. III. 35), það ár flæmdi sem sé konunglegur befalingsmaður, Laurids Kruse, Orm Narfason frá nokkrum hluta jarðarinnar, Reykjavík, en við móður hans og þrjá bræður voru makaskiptin gerð árið 1616.

Ingólfsnaust

Ingólfsnaust.

Árið 1786 fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi ásamt nokkrum öðrum verslunarstöðum, þegar verslun var gefin frjáls öllum dönskum þegnum.
Reistir höfðu verið veglegir bústaðir á landareignum umhverfis Reykjavík handa ýmsum hinna æðri embættismanna, en nú fluttust þeir smám saman til bæjarins, stiftamtmaðurinn þegar 1816, eftir að fangahúsinu hafði verið breytt í þeim tilgangi og samtímis fjölgaði íbúum bæjarins mjög hratt, miðað við aðstæður. Um aldmót voru íbúar Reykjavíkur 300, 1840 var íbúatalan um 900, 1870 var hún komin upp í 2000 og þessi aukning virðist ætla að halda áfram.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Nú er Reykjavík ekki svo lítilfjörlegur bær að sjá, húsin eru dreifð yfir tiltölulega stórt landsvæði, því þau eru ekki sambyggð, heldur standa stök og umhverfis þau er afgirtur blettur eða lítill garður; utan við bæinn sjálfan standa svo að segja á allar hliðar hópar af torfhúsum, svokallaðir bæir, en þetta eru bústaðir hinna mörgu fiskimanna. Húsin í bænum eru eru nær öll hin svokölluðu timburhús, þ.e. grindamúr og timburklædda að utan, en loft og skilrúm hið innra eru einnig úr tré. Þessi hús eru smekklega máluð og vel við haldið, geta þau verið snotur að sjá, þegar men hafa vanist timburklæðningunni.

Kaalund

Sturlungasaga – eitt handritanna sem Kaalund vann mikið með.

Samhliða stækkun bæjarins hefur fækkað arfsögnum um fornminjar. Í bréfi til Finns Magnússonar þegar 1821 kvartar presturinn t.d., sem þá var yfir því, að þar í sókn séu alls engar sögulegar minjar. E.Ó. (1041, bls.) skýrir frá, að enn megi sjá í Reykjavík tóftina (í sambandi við notkun orðsins „tóft“ er ef til vill ekki ónauðsynlegt að taka fram, að í þessu riti er það notað í íslenskri sérmerkingu; þýðir það sem sé veggur þaklaustar byggingar ásamt rýmingu innan þeirra, eða leifar húss, þar sem þakið er horfið) af skipsnausti Ingólfs, sem nefndist Ingólfsnaust, en um það veit nú enginn, ekki þekkist heldur nafnið Ingólfsbrunnur um vatnsbólið góða í Reykjavík, sem Skúli Magnússon minnist á í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu; miðað við legu legu hans og gæði vatnsins mætti ætla, að hann væri hinn sami og helsti brunnur bæjarins nú í hinni gömlu aðalgötu (Aðalstræti).“

Vatnspóstur

Vatnsberar í Reykjavík um aldamótin 1900.

  • -(Innskot; saga Reykjavíkur er ekki bara saga landnámsmanns, höfðingja og annarra stórbusa. Hún er ekki síður saga almúgans. Meðal þeirra var Sæfinnur Hannesson); Ingólfsbrunnur, milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9, var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið en þangað sóttu Víkurbæirnir og aðrir nálægir bæir vatn sitt. Brunnurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum eins og víkurpóstur, vatnspóstur og prentsmiðjupóstur. Heitið vatnspóstur kom til eftir að í hann var sett dæla og menn töluðu um að „pósta“ upp vatninu en nafnið prentsmiðjupóstur kom til eftir að Landsprentsmiðjan var flutt úr Viðey í næsta hús við brunninn. Notkun brunnsins lagðist af með lagningu vatnsveitunnar árið 1909. Talið er að um aldamótin 1900 hafi 34 brunnar verið í Reykjavík.
Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Með vaxandi þéttbýlismyndun varð til sérstök stétt fólks sem sá um að bera vatn í hús heldra fólks, svonefndir vatnsberar. Einn þessara vatnsbera var Sæfinnur Hannesson, betur þekkur sem Sæfinnur með sextán skó. Kemur nafngiftin til af því að það var siður Sæfinns að klæða sig í mörg lög af fötum og jafnvel mörg pör af skóm, sumir segja allt að átta pör! Eins og með aðra vatnsbera þá var litið niður á Sæfinn og sagt var að hópur krakka hafi gert sér það að leik að elta hann um bæinn og syngja þessa vísu:

Sæfinnur með sextán skó,
sækir vatn og ber heim mó.
Á ‘ann festir aldrei ló,
af því hann er gamalt hró.

Saga Sæfinns Hannessonar lýsir vel mannlegum harmleik og hversu stutt er á milli samfélagslegar viðurkenningar og útskúfunar. Sæfinnur var sagður hafa verið ósköp venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit kannski enginn en sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum með þeim afleiðingum að Sæfinnur beið hennar allt sitt líf og safnaði peningum til að undirbúa afturkomu hennar. Sæfinnur brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent úr útihúsi við Glasgow-verslunina í nærliggjandi fjöru. Þetta gerðist 10. júlí 1890 en Sæfinnur lést árið 1896.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

„Reykjavík er, og ekki síst á Íslandi sjálfu, onlbogabarn náttúrunnar. Í nágrenni bæjarins er lítið um grösugt jafnlendi, sem er ímynd frjósemi og blómlegs landbúnaðar og íbúarnir telja fremsta skilyrðu fagurs landslags. Fyrir handan (þ.e. fyrir sunnan) tjörnina liggur mýrardrag þvert yfir nesið, en annars ber fyrir augu aðeins gróðurlausar hæðir þaktar stórgrýti og hnullungum, smáum og stórum, hin svonefndu „holt“ eða flöt malarflæði, sem nefnast „melar“, allt með moldarlit og ömurlegt útlits.
Til uppbótar fyrir óskemmtilegt útlit hið næsta, getur fjærsýnið aftur á móti verið miklu fallegra. Handan Kollafjarðar, innsta hluta Faxaflóa, sem er nokkurra mílna breiður, svífa sjónir til að festast þeim mun lengur við hinn hrífandi bogadregna fjallbálk, sem afmarkar útsýni til norðurs. Þar liggja eins og í boga þrjú fjöll, Esja, Skarðsheiði og Akrafjall og virðast mynda samfellda röð, enda þótt hin síðarnefndu séu aðskilin frá Esju með löngum og mjóum firði, Hvalfirði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kristian_Kaalund
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 1-15.
-https://afangar.com/atvinnusaga/ingolfsbrunnur/

Esja

Esja – örnefni: „Ein af fáum dásemdum Reykjavíkur“.

Gamli Þingvallavegur

Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum,  á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara „heimildirnar“ ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.

Þingvallaleiðir

Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…

Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýrri áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.

Nátthagavatn

Í Skátablaðiðinu í febrúar 1939 er fjallað um húsbyggingarmál skáta, m.a. „Byggingu skátaskála við Nátthagavatn ofan Reykjavíkur„.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 1954.

„Flest skátafélög á landinu, sem nokkrum aldri og þroska hafa náð, hafa ráðist í húsbyggingar af einhverri gerð.
Sum hafa byggt sumarskála, önnur funda og samkomuhús o. s. frv. Öllum hefir verið það ljóst, að með einhverjum samastað, hefir skapast festa í félögunum, og framtak og starfsþrek einstaklinga þeirra notið sín við byggingarnar, og fjáröflun til þeirra. Nægir að geta um í þessu sambandi byggingar skátafél. Væringja og Arna við Lækjarbotna og Elliðakot, skátafél Einherja á Ísafirði, skátafél. Fálkar á Akureyri og samskonarfundarhús skátafél. Væringjar á Akranesi, sem að mínum dómi hefir bezt náð tilgangi sínum, enda þótt jeg viðurkenni fyllilega þörf sumar- og skíðaskála.

Arnarból

Arnarból.

Hér í Reykjavík er nú vaknaður meðal skáta mikill áhugi fyrir húsbyggingu til afnota fyrir skátafélögin, enda mjög mikilsvert fyrir allan félagsskap skáta að ráða yfir heppilegu húsnæði til æfinga og fundarhalda.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2004.

Allir eldri skátar finna mjög til þess, hve ábótavant er í þessum efnum hér í bænum, og munu nú einhuga um að hrinda í framkvæmd hið allra fyrsta húsbyggingu, er orðið getur samastaður skáta og félagsskapar þeirra, auk þess ættu félagar utan af landi að geta átt þar örugt athvarf er þeir koma til Reykjavíkur.
Þegar velja á stað undir slíka hyggingu verður að taka tillit til tvenns, að staðurinn sé sem næst því í miðbænum, vegna fundarsókna og æfinga, og liggi vel við umferð, t.d. vegna verzlunar. Verði þessa gætt við ákvörðun staðar undir væntanlega húsbyggingu, er vel fyrir öllu séð, því ýmsar ráðagerðir eru uppi í sambandi við bygginguna og ákornast þá mjög sennilega í framkvæmd skátahreyfingunni til eflingar og þroska.

Arnarból

Arnarból.

Þann 10. nóv. síðastl. samþykkti stjórn B. í. S. að skipa bygginganefnd í samráði við skátafélögin í Reykjavík. Tók nefndin strax til starfa, við undirbúning fjáröflunar til lóðarkaupa, sem hraða ber, vegna þess að lóðunum fækkar óðum, sem nothæfar eru.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2019.

Byggingarnefndin hefir nú fengið leyfi dómsmálaráðuneytisins til þess að hafa happdrætti um sumarbústað „Arna“ við Nátthagavatn, sem að fasteignamati er, með stórri eignarlóð, metin á kr. 9500.00.

Arnarból

Arnarból, loftmynd 2022.

Er sumarbústaðurinn byggður á svo skemmtilegum stað og sjálfur svo eigulegur, að nefndin vonar að auðvelt verði að selja happdrættismiðana, þegar um svo stóran og glæsilegan vinning er að ræða og í annan stað stuðningur við félagsskap skáta, sem á almennum vinsældum að fagna.
Í Reykjavík eru nú starfandi um 8—900 skátar, að kvenskátunum meðtöldum. Ef allur sá hópur sameinar sig um, að koma sem fyrst upp veglegri húsbyggingu hér í bænuin, er vissa fengin um góðan árangur. Skátar, piltar og slúlkur, hugleiðið það, að væntanleg skátabygging á að vera ykkar annað heimkynni, æfingar og samkomustaður,  kynningastaður við skáta utan af landi, sem og aðsetur stjórnar skátamálanna og félaganna í bænum. Um þetta mál mætti margt segja fleira, en svo treysti ég á dómgreind og framtakssemi allra skáta, og er þess fullviss, að byggingarnefndin á í hverjum einstakling vissan stuðningsmann, enda er þá helzt von um fljótan og góðan árangur.
Byggingarnefndarmaður.“

Í dag má skálinn sá muna fífil sinn fegurri. Og svo virðist sem eignarlóðin verðmæta á svo frábærum stað ofan Nátthagavatns nýtist í dag skátastarfi reykvískra skáta í engu.

Heimild:
-Skátablaðið V. árgangur 1. tölublað febrúar 1939, – Húsbyggingarmál skáta, bls. 1.

Skátablaðið

Skátablaðið.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping gervigíga við Elliðavatn í útjaðri Reykjavíkur og tilheyra Heiðmerkursvæðinu. Upphaflega voru gígarnir um 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari.

RauðhólarFyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp

Gervigígar eru fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. Önnur dæmi hér á landi eru Álftavershólar og Landbrotshólar í Skaftafellssýslu (hvoru tveggja taldir vera í Eldgjárhrauni frá 934) og gígarnir við Mývatn, til dæmis Skútustaðagígar.

Rauðhólar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. Um gervigíga er hægt að lesa meira í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvernig myndast gervigígar? Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu.

Gervigígar myndast einnig þegar helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir.

Rauðhólar

Tjaldbúðir Komorowicz í Rauðhólum.

Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum þegar Leitahraun (Elliðavogshraun) rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Þar sem nú eru Rauðhólar var grunnt stöðuvatn sem hraunið varð að fylla áður en það héldi áfram þeirri ferð. Þýskur jarðfræðingur, Komorowitz, lýsti Rauðhólum árið 1912 og birti af þeim kort, hið eina sem til er af þeim óspilltum. Stærstu hólarnir voru 212 m að grunnþvermáli og risu 22 m yfir hraunið undir. Frá um 1940 og fram til 1960 voru þeir notaðir sem gjallnáma, einkum til að byggja Reykjavíkurvöll á stríðsárunum, en síðar í húsgrunna og vegi.

Rauðhólar

Sagt er að gervigígar hafi aðeins fundist á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.

Rauðhólar

Hús Vorboðans í Rauðhólum.

Á austur hluta hólasvæðisins var stór gígur sem hét Kastali. Vestur af honum var gígur sem nefndist Stóri-Rauðhóll og er hann að mestu leyti horfinn. Þaðan suðaustan af var Miðaftanshóll sem er einnig mikið raskaður.

Innan Rauðhólasvæðisins má í dag finna minjar um húsagrunna frá stríðsárunum. Með auknum athöfnum og ágangi á náttúruna sem fylgdi útþenslu borgarsamfélagsins jókst jafnframt meðvitund manna á því að vernda rétt náttúrunnar. Sumarið 1958 kvað Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um friðlýsingu á Rauðhólasvæðinu. Sama ár samþykkti bæjarráð bann við því að skertir yrðu fleiri hólar.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Árið 1961 var sá hluti sem ekki var stórskemmdur friðlýstur sem náttúruvætti. Á fyrsta náttúruverndarþingi árið 1972 var hvatt til þess að gerð yrði náttúruminjaskrá undir forystu Náttúruverndarráðs og var lagt til að Náttúruverndarráð í samvinnu við Náttúruverndarnefnd og áhugamenn myndi kynna sér þær náttúruminjar sem ástæða þótti til að lýsa sem friðlönd, þjóðgarða eða fólkvanga. Það var svo árið 1973 á fundi Náttúruverndarnefndar sem samþykkt var að óska eftir fólkvangsfriðun Rauðhólasvæðisins. Að tillögu Náttúruvernarráðs og samþykki frá borgarstjórn Reykjavíkur ákvað Umhverfisstofnun að friðlýsa svæðið sem fólkvang skv. 24. gr. laga nr. 47/1972 (Borgarskjalasafn Reykjavíkur). Svæðið var svo friðlýst sem fólkvangur 12. mars árið 1974 með auglýsingu í Stjórnartíðindum B nr. 185/1974, án athugasemda (Umhverfisstofnun, á.á.c). Með friðlýsingu svæðisins sem fólkvangur var það komið í umsjá sveitarfélagsins.

Vorboðinn

Vorboðinn

Vorboðinn – barnaheimili í Rauðhólum.

Í Alþýðublaðinu 1953 fjallar Svava Jónsdóttir um barnaheimilið Vorboðann í Rauðhólum:
„Árið 1933 var Fulltrúaráði verkalýðsfélagannna í Reykjavík leigð spilda á vesturhluta Rauðhólasvæðisins. Á þeirra vegum og vegum Alþýðuflokksins var á sumrin um nokkurra ára skeið haldnar útisamkomur á svæðinu. Síðar afhenti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, barnaheimilinu Vorboðanum leigulandið ásamt skála og var þar rekið um tíma sumardvalarheimili fyrir börn.

Rauðhólar

Rauðhólar – grunnur Vorboðans.

Árið 1986 var á svæðinu starfrækt útileikhús þar sem sett var á svið brot úr Njálssögu (Páll Líndal, 1985).
Hér langar mig til að segja frá merkri starfsemi, sem fram fer í bókstaflegum skilningi við bæjardyr okkar Reykvíkinga, en fjöldinn hefur litla hugmynd um.
Ég á við sumardvalarheimilið í Rauðhólum, sem „Vorboðinn“ hefur rekið með miklum myndarskap og þeirri atorku og alúð, sém jafnan mun segja til sín í störfum kvenna, þegar þær vilja beita sér fyrir góðu málefni.
En „Vorboðinn“ er samtök alþýðukvenna, og standa að honum Verkakvennafélagið Framsókn, Þvottakvennafélagið Freyja og Mæðrafélagið. Þessi samtök hafa um langt skeið rekið sumarheimili fyrir börn, og nú allmörg síðustu árin í Rauðhólum, þar sem alþýðusamtökin á sínuni tíma helguðu sér land, girtu það og reistu skála sinn, sem enn er aðalhúsið, þó að Vorboðinn hafi tvisvar byggt við hann.
Rauðhólar eru frá náttúrunnar hendi eitt hið heppilegasta land, sem hægt er að hugsa sér til slíkrar starfsemi, grónir hraunhólar, með dældum, bollum og slökkum, sem gefa skjól við veðrum allra átta, breytileiki og fjölbreytni í landslagi ótrúlega mikil, byggingarefni er þar nærtækt fyrir smáar hendur, vegagerð hægt að stunda þar sumarlangt. Ekki má svo gleyma blessuðu lynginu, sem býður berin sín strax og kemur fram í ágúst, enda eru þau þegin eins og við eigum að: þiggja allir góðar gjafir — með fögnuði hjartans, sem einskis spyr.“

Rauðhólar

Bátur við barnaheimili Vorboðans í Rauðhólum.

Í Morgunblaðinu 1950 er fjallað um barnaheimilið undir fyrirsögninni „Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn“.
„Barnaheimilsnefnd Vorboðans hafði boð inni í gær og sýndi gestum barnaheimilið að Rauðhólum og skýrði frá starfsemi þess. Forstöðukona heimilisins er Þuríður Hringsdóttir. — Heimilið starfar tvo mánuði á sumri hverju og eru þar nú 81 barn á aldrinum þriggja til sjö ára.

Rauðhólar

Rauðhólar – braggagrunnur.

Barnaheimilið Vorboðinn tók fyrst til starfa árið 1937. Gengust nokkrar konur úr Alþjóðasambandi Verkalýðsins fyrir stofnun þess, og leituðu til tveggja fjelaga, Þvottakvennafjelagsins „Freyju“ og Verkakvennafjelagsins „Framsókn“ um styrk í því sambandi. Var því vel tekið og seinna bættist Mæðrafjelagið í hópinn. Eru nú fimm konur úr hverju fjelagi í Barnaheimilisnefndinni.
Í byrjun var barnaheimilið rekið að Brautarholti í Skeiðum, síðan að Flúðum og svo eitt sumar að Þingborg í Flóanum. — Var þetta mjög erfitt fyrirkomulag, þar eð þurfti að fá lánaða heimavistarskóla, flytja þangað allt, sem með þurfti til heimilisins og síðan burtu aftur að haustinu.
Meðan á stríðinu stóð, annaðist Rauði Kross Íslands öll barnaheimili, en er því lauk, byrjaði Vorboðinn að nýju í smáum stíl í skóla að Ásum í Hreppum með 30—40 börn.
Fulltrúaráð Verkalýðsfjelaganna átti um þessar mundir skála í Rauðhólum, er notaður var fyrir skemmtistað, og var ákveðið að hann skyldi gefinn til reksturs Vorboðans það landrými er honum fylgdi, og hóf barnaheimilið starfsemi sína þar árið 1947. Var heimilinu veittur styrkur frá ríki og bæ, og í fyrra og hittiðfyrra var skálinn stækkaður og breytt svo sem með þurfti, og tekinn í algera notkun í fyrra.

Rauðhóla

Framnesvegur 66.

Rúmar hann nú 80 börn. Eru í honum tveir svefnskálar fyrir stúlkur og einn fyrir drengi, ásamt borðstofu, eldhúsi, herbergi fyrir forstöðukonu og starfsstúlkur, baðherbergi, þvottahúsi og ýmislegt annað. Er allt heimilið með miklum myndarbrag. Landrými er einnig mikið og gott.
Á barnaheimilinu vinna 13 stúlkur, að forstöðukonu meðtalinni. Meðlag með börnunum er mjög lágt og er markmið Vorboðans að taka einungis börn til sumardvalar frá þeim heimilum, sem örðugast eiga, og er von nefndarinnar að geta gert enn meira þeim til hjálpar í framtíðinni.
Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný. Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn.“

Í „Húsaskrá 2004“ má lesa eftirfarandi um framangreint hús Vorboðans í Rauðhólum:
„Húsið er einlyft timburhús með risi. Það var flutt á lóðina við Framnesveg 66 árið 1982, en stóð upphaflega við Rauðhóla, austan við Reykjavík. Þar reisti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Alþýðuflokkurinn skála fyrir sumarsamkomur, á spildu sem fulltrúaráðið tók á leigu árið 1933. Síðar var leigulandið ásamt skálanum afhent undir starfsemi sumardvalarheimilis Vorboðans fyrir börn frá fátækum heimilum, sem stofnað var 1935 og rekið af kvenfélögum í Reykjavík með styrk frá bænum. Snemma á 9. áratugnum var ákveðið að rífa barnaheimili Vorboðans og fékkst þá leyfi til að flytja hluta þess, einlyftan skála með leikfimisal, á nýja lóð við Framnesveg og endurbyggja þar sem íbúðarhús. Við endurbygginguna var skálinn styttur um nokkra metra, gerðir á hann gluggar og byggt ris með kvistum ofan á hann, en gólf og veggir héldu sér. Við þetta var notað efni úr þeim hluta barnaheimilisins sem var rifinn. Í nóvember 1982 var húsið fullklárað í núverandi mynd og var flutt inn í það sama mánuð.
Engar minjar er að sjá á staðnum, nema timburbát sem hefur trúlega verið notaður sem leiktæki.“

Skáli/skóli

Rauðhólar

Meintur skáli í Rauðhólum.

Skammt norðan húsgrunns Vorboðans er aflöng tóft, u.þ.b. 12 metra löng; þrískipt. Tóftin er skálalöguð og veggir grónir en vel greinilegir í grasivöxnu umhverfinu. Á Herforingjaráðskorti frá árinu 1908 er þarna getið um „Skóla“ eða „Skála“. Kortið var gert löngu áður en Vorboðinn fékk úthlutaða lóð á nálægum slóðum (skammt vestar) og enn fyrr en hernaðarmannvirkin voru byggð í Rauðhólum.  Um athyglisverðar minjar er að ræða, en þeirra virðist hingað til ekki hafa verið getið í fornleifaskránigum af svæðinu.

Sumarskemmtun í Rauðhólum
Rauðhólar
Í Þjóðviljanum 1945 mátti lesa eftirfarndi um „Sumarskemmtun í Rauðhólum“.
„Sumarskemmtun í Rauðhólum í dag yerður fyrsta útihátíð Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum, og er það atburður, sem ástæða er til að reykvískir sósíalistar og allt reykvískt alþýðufólk, veiti athygli.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Það var í mikið ráðizt þegar Æskulýðsfylkingin ákvað að taka Rauðhólaskálann á leigu og gera úr honum skemmtistað, eftir að hann hafði legið ónotaður um margra ára skeið og húsið drabbazt niður. Fylkingin hafði um langt skeið verið að svipazt um. eftir hentugum stað til sumarskemmtana í nágrenni bæjarins, og þegar Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna gaf æskulýðsfélögum sósíalista og Alþýðuflokksmanna kost á að fá Rauðhólaskálann leigðan, tók Æskulýðsfylkingin boðinu tveim höndum.
„Þú spurðir hvort yið hefðum ekki álitið þetta fyrirtæki ofviða félagsskap okkar“, segir Lárus Bjarnfreðsson, einn ötulasti forgöngumaður Rauðhólamálsins, í viðtali við Þjóðviljann í fyrrahaust, og heldur áfram: „En nú skal ég segja þér nokkuð. Við hófum þetta verk með það fyrir augum, að skapa samastað fyrir alþýðuæskuna í bænum, þar sem hún gæti komið saman til útiskemmtana og hollra leikja, en á slíkum stað hefur verið tilfinnanleg vöntun hér. í öruggri vissu um skilning félaga á þessu mikla nauðsynjamáli, leituðum við til þeirra um að leggja fram vinnu sína til þeirra endurbóta, sem þurfti að gera á staðnum. Félagarnir brugðust ekki trausti okkar, og sýnir það bezt félagsþroska þeirra, er að kvöldi þess sama dags og samningarnir um leiguna gengu í gildi, mættu á skrifstofu Æskulýðsfylkingarinnar yfir 30 manns, piltar og stúlkur, tilbúin að hefja starf“.

Rauðhólar

Grunnur Rauðhólaskálans.

Og unga fólkið kom oftar en þetta kvöld. Kvöld eftir kvöld, sunnudag eftir sunnudag, fór hópur reykvískra æskumanna upp í Rauðhóla, og vann þar í sjálfboðavinnu mikið verk og gott. Laugardags- og sunnudagskvöld, að loknu dagsverki, undu kátir félagar við söng, upplestur og sögur. Þetta var Reykjavíkuræska að eyða tómstundum sínum, við erfitt starf, unnið af þegnskap, landnámsstarf, óeigingjarnt og seinunnið, eins og slík störf eru oftast. Það kom í ljós að til þess að Rauðhólar gætu talizt boðlegur skemmtistaður, þurfti svo mikla vinnu, að ekki tókst að ljúka henni nógu snemma til þess að sumarskemmtanir gætu hafizt þar í fyrrasumar. En öllum þeim, sem voru á vígsluhátíð Rauðhólaskálans í fyrrahaust, varð ljóst, að þar hafði gott verk verið unnið, sú skemmtun varð minnisstæð, og að góðu einu. Nú er komið til kasta reykvískrar alþýðu að sýna að hún kann að meta það starf, sem þarna hefur verið unnið, og er ekki að efa að margmennt verður í Rauðhólum í dag.“

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum í maí 1946 er sagt frá „Glæsilegri útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum“.
„Á morgun býður Æskulýðsfylkingin Reykvikingum upp á einhverja fjölbreyttustu cg beztu skemmtun ársins.
Skemmtunin verður haldin uppi í Rauðhólum. Þessi atriði verða á. skemmtiskránni:
1. Ræða: Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

2. Upplestur: Elías Mar les kafla úr „Eldur í Kaupinhafn“, eftir Halldór Kiljan Laxness.
3. Söngur: Kátir sveinar, kvartett.
4. Glímusýning: Glímuflokkur frá KB sýnir.
5. Galdrasýningari Baldur Georgs.
Lúðrasveitin Svanur leikur milli skemmtiatriða.
6. Dans: Hljómsveit Björns R. Einarssonar leikur. Haukur Mortens og Alfreð Clausen syngja með hljómsveitinni. Þeir félagar eru vel þekktir fyrir söng sinn í útvarpinu nú fyrir skemmstu í tímanum „Lög og létt hjal“.
Auk þessara atriða mun Einar Arnórsson teikna skopmyndir af teim, sem þess óska, meðan á skemmtuninni stendur. Ennfremur fá mótsgestir að þreyta skotfimi sína og ýmsar aðrar listir í sérstöku tjaldi.
Æskulýðsfylkingin á þakkir skilið fyrir forgöngu sína í því að sjá Reykvíkingum fyrir góðum útiskemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, enda mun æskulýður Reykjavíkur vafalaust kunna að meta þau fjölbreyttu skemmtiatriði, sem eru í boði í Rauðhólum á morgun.
Ferðir verða frá Bifreiðastöðinni Heklu eftir kl. 13 á morgun, en skemmtunin byrjar kl. 15.“

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 22. maí, er fjallað um skemmtanahaldið.
„Eins og sjá má af þessu, var hér um óvenju fjölbreytta og glæsilega skemmtun að ræða, enda hefur verið unnið af kappi að endurbótum á staðnum í vor, og er þeim framkvæmdum langt frá því að vera lokið.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Tilhögun skemmtananna hefur verið breytt frá því sem var síðast liðið sumar. Öll skemmtiatriði nema íþróttir fara nú fram í stórum gíg norðan við skálann, og er þar skjól fyrir flestum áttum. Nýr danspallur hefur verið settur upp í laut suður af skálanum, og er hann alveg í skjóli.
Þrátt fyrir tvísýnt veður, einkum framan af degi, sóttu skemmtunina hátt á annað þúsund manns. Ölvunar varð lítið vart, en að því leyti eru Rauðhólaskemmtanir Æ.P.R. undantekning frá flestum öðrum útisamkomum.
Hollar útiskemmtanir eru sá þáttur skemmtanalífsins, sem Reykvíkingar hafa átt mjög lítinn kost á að kynnast.
Nafn Æskulýðsfylkingarinnar í Reykjavík er trygging fyrir góðum og vönduðum skemmtunum. Vonandi kunna bæjarbúar að meta þessa starfsemi félagsins, en það geta þeir bezt sýnt með því að sækja skemmtanirnar.
Hittumst heil á næstu Rauðhólaskemmtun!

Auk framangreinds var gerð tilraun til að reka leiksvið í Rauðhólum.

Njála í rauðum hlíðum

Rauðhólar

Frásögn af Rauðhóla-leiksviðinu í DV.

Í DV í júlí 1986 mátti lesa eftirfarandi um „Söguleikana“ í Rauðhólum.

Rauðhólar

Rauðhólar – loftmynd.

„Aðstandendur sýningarinnar á Njáls sögu lentu, sem kunnugt er, á nokkrum hrakhólum með stað fyrir leikritið eftir að endanlega hafði verið neitað um leyfi til að sýna það í Hvannagjá á Þingvöllum, þar sem óneitanlega hefði verið stórbrotið að sjá einmitt þetta verk leikið. En uppi í Rauðhólum fannst um síðir tilvalinn staður fyrir sýninguna, hraunhólamir mynda þarna litríka og sterka umgjörð um örlagasögu persónanna úr Njálu.
Þau Helga Bachmann og Helgi Skúlason hafa við gerð handritsins lagt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, Mörð Valgarðsson, til grundvallar, en hafa bæði skorið burt og annars staðar bætt inn í atriðum og tilsvörum beint úr Njálu sjálfri. Leiksýningin endar, eins og leikrit Jóhanns, á brennunni á Bergþórshvoli, en áður segir frá launráðum Marðar Valgarðssonar, sem með rógi og undirferlum kemur af stað þeirri óeiningu og hatri, sem leiðir til vígs Höskulds, og hefndarinnar, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrir það. Miðdepillinn er þannig Mörður, afbrýðisemi hans og öfund, en í kringum hann öðlast allar hinar þekktu persónur Njálu líf, Njáll og Berþóra, kona hans, synir þeirra, Skarphéðinn og Grímur, koma hér við sögðu, Kári, Höskuldur Hvítanesgoði og Hildigunnur, kona hans, Flosi föðurbróðir hennar og Þórkatla, eiginkona Marðar.
Leikritið gengur upp sem sjálfstæð heild, og hinn óvenjulegi sýningarstaður skapar mikla stemmningu.

Rauðhólar

Leiksviðið í Rauðhólum.

Upphafsatriði sýningarinnar er mjög eftirminnilegt, tónlist Leifs Þórarinssonar hljómar að hólabaki og fornkappar og konur þeirra birtast uppi á háum hólum og ber við loft. Þarna er umhverfið nýtt til hins ýtrasta á áhrifamikinn hátt. Annars fer mestöll atburðarásin fram á balanum fyrir framan áhorfendapallana, en þar hefur lítillega verið bætt um betur frá því að lið þeirra Helgu og Helga kom á vettvang.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Balinn er ágætis leiksvið en atriðið með Valgarði gráa í forleiknum sýndi að stundum hefði mátt nýta sér kosti umhverfisins betur og færa fleiri atriði upp í brekkurnar.
Leikendur eru flestir af yngstu kynslóð leikara, en til liðs við þá koma nokkrar þaulreyndar kempur. Þau Erlingur Gíslason og Ásdís Skúladóttir eru ungleg og stillileg sem Njáll og Bergþóra. Friðarræða Njáls og lokaatriðið er þau Bergþóra leggjast til hinstu hvíldar eru sterk atriði og vel flutt. Öllu meiri tilþrif fær Valdimar Flygenring tækifæri til að sýna í hlutverki hetjunnar uppstökku, Skarphéðins. Bróðir hans, Grímur, er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni og mágur þeirra bræðra, Kári, er leikinn af Skúla Gautasyni. Þeir standa þétt saman, bundnir af hetjuhugsjón og hefndarskyldu síns tíma.
Jakob Þór Einarsson er í hlutverki Höskulds Hvítanesgoða, og konu hans, Hildigunni, leikur Bryndís Petra Bragadóttir, og komast bæði nokkuð vel frá sínu. Rúrik Haraldsson er höfðinglegur Flosi og hann leikur líka heiðingjann gamla, Valgarð, sem illu heilli egnir son sinn, Mörð, gegn Njálssonum.
Aðalsteinn Bergdal, sem leikur Mörð, lykilpersónuna í leiknum, skapa eftirminnilega persónu. Mörður verður í túlkun hans trúverðugur jafnt í öfugsnúinni aðdáun sinni á Skarphéðni, sem í afbrýðisemi sinni og öfund. Kona hans Þórkatla, björt yfirlitum og algjör andstæða Marðar, er leikin af Guðrúnu Þórðardóttur. Búningar eru ágætlega hannaðir, utan skófatnaðurinn, sem var eitthvað vandræðalegur.
Aðstandendum sýningarinnar má þakka fyrir góða og nýstárlega sýningu og tel ég að enginn sé svikinn af því að leggja leið sína upp í Rauðhóla á næstunni.“ – AE

Stríðsminjar

Rauðhólar

Rauðhólar – minjar bragga.

Í Rauðhólum voru herbúðirnar Thinker frá árinu 1943, það var miðstöð ratsjárkerfis, höfuðstöðvar stórfylkis, strandvarna og eða loftvarnastórskotaliðs. Fjölmargar minjar, einkum braggagrunna og vegi, má enn sjá í hólunum, einkum vestanverðum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0h%C3%B3lar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=11583
-https://www.isor.is/25-raudholar-gervigigar
-Rauðhólafólkvangur, saga, verndun og nýting, Lena Rut Kristjánsdóttir, BS-ritgerð, Landbúaðarháskóli Íslands, 2009.
-Alþýðublaðið, Konan og heimilið, Svava Jónsdóttir, laugardagur 8. ágúst 1953, bls. 5.
-Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 1950, Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn, bls. 8.
-https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=567205
-Þjóðviljinn, sunnudaginn 8. júlí 1945, Sumarskemmtun í Rauðhólum, bls. 3.
-Þjóðviljinn, laugardaginn 18. maí 1946, Glæsileg útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum á morgun, bls. 1.
-Þjóðviljinn 22. maí 1946, bls. 3.
-DV, lagardaginn 5. júlí 1986, Leiklist; Njála í rauðum hlíðum – Auður Eydal, bls. 15.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.