Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.
Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs. Vestan Sandgerðisgötunnar liggur gatan síðan áfram framhjá Einstæðingsvörðu þar sem voru gatnamót Fuglavíkurvegar og áfram upp að Gotuvörðu, sem fyrr segir. Gotuvarðan er endurhlaðin, en skammt norðan og austan hennar eru tvær fallnar vörður. Sunnan Gotuvörðu fer gamla gatan enn á ný undir Sandgerðisveginn. Þar liðast hún niður móana áleiðis að Keflavíkurborginni ofan Grófarinnar og niður með Brennivínshól. Á leiðinni fer gatan undir Garðveginn og síðasti sýnilegi hluti hennar er skammt vestan hólsins.
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er því með yngstu kaupstöðum landsins.
Um staðhætti við Sandgerði má lesa á vefsíðu Sandgerðisbæjar: „Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri.
Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Sandgerðisgatan liggur um beitarhólfið. Á þá leið vantar sárgrætilega tvær „prílur“ – inn og út úr beitarhólfinu.
Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða og ekki síst á sjálfri heiðinni.
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn.
Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis. [Gamli Sandgerðisbærinn mun hins vegar hafa staðið niður við sjó, en þegar hann var fluttur upp að tjörninni var hann jafnan nefndur Efra-Sandgerði].
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.
Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.“
Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, í ritinu „Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð“, sem Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123, segir m.a.: „Sundpolli var Keilir um Digruvörðu. [Digravarða er eitt helsta auðkenni Sandgerðisbæjar og á eftir að koma við sögu á leiðinni].
Sjósókn var mikil frá Sandgerði á tíma opnu skipanna. Enn er viðbrugðið sjósókn Sveinbjörns Þórðarsonar og sona hans, Jóns og Einars. Fleiri hefi ég í huga, en hvar á staðar að nema, ef byrjað er? Fór saman dugnaður þessara manna og góð aðstaða, því þarna var bezta sundið og góð lending. Mest var lent í Stokkavörinni, þar var bezt og hreinlegast á land að leggja; voru skipin sett þar upp í kampinn, svo mörg sem komust, en oft lágu líka skip Sandgerðinga á mjúkri þarasænginni í Fúlu. Hún var oft ill umferðar, sem áður segir, og því fremur dróst úr hömlu að setja skipin, enda kom það fyrir oftar en eitt sinn, er flóð hækkaði mjög að óvörum, sem oft kemur fyrir á Miðnesi, að skipin tók út.
Um aldamótin síðustu rak fjögur skip út úr Fúlu á morgunflóði einu eftir austanrok. Einhver hafði orð á því við Guðrúnu húsfreyju, hvert tjón þetta væri. „Það er ekkert með skaðann,“ sagði hún „en skömmin.“ 1880 tók út frá Sandgerði sexmannafar með öllum veiðarfærum. Það skip átti Þórarinn Andrésson á Flankastöðum, segir Suðurnesjaannáll.
Þannig var umhorfs í Sandgerðisnaustum fyrir og fram yfir aldamót, að allir bændur í hverfinu, sem gerðu út skip, áttu timburskúr, en sjómennirnir kofa eða byrgi. Var þetta stór þyrping húsa af ýmsu tagi. Skipin, sem í notkun voru, stóðu í röð neðan við húsin. Önnur, sem ekki voru notuð í svipinn, stóðu eða hvolfdu fyrir ofan skúrana. Dekkbátarnir stóðu að vetrarlagi, tveir eða þrír, hlið við hlið uppi á bakkanum fyrir ofan Fúlu. Allt bar þetta vitni dugmiklum athafnamönnum á þeirra tíma vísu. Eigi veit ég, hvenær verzlunarskipin (skonnorturnar) byrjuðu að leggjast á Sandgerðisvík, en frá 1880 og fram yfir aldamót komu skip kaupmanna í Keflavík þangað á hverju sumri, fyrst með salt til næstu vertíðar, svo með vörur til viðskiptamanna og loks að sækja fiskinn, er hann var þurr orðinn. Voru oft tvö eða þrjú skip á víkinni í einu. Þar komu líka á hverju sumri „spekulantar“, eins og þeir voru þá nefndir. Var lestin útbúin sem verzlunarbúð. Sóttu kvenfólk og krakkar mjög að skipum þessum, því þar var gnægð álnavöru og leikfanga. Gjaldeyrir þessa fólks var oftast örfáir fiskar, er hlotnazt höfðu að gjöf, helzt á sumardaginn fyrsta, eða ullarhár. Og krakkar áttu stundum hagalagða, sem dugðu fyrir bolta eða blístru.
Ekki lágu verzlunarskipin suður á Álnum, heldur fyrir norðan sund, innan við Þorvald. Þau lágu ætíð kirkjuna framan við Skarfakletta, og röðin frá suðri til norðurs, ef fleiri voru en eitt. Þau komu ekki nema í góðviðri og fóru strax, ef brimvottur sást eða hvassviðri, af hvaða átt sem var, og skipstjórum leið illa ef skörp var útræna.
Í örnefnaskrá frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni er Ari Gíslason skráði, segir m.a. um Býjasker (Bæjarsker): „Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthóla, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.
Í viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni „Frá Suðurnesjum“, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði: „Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka. Norðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. [Grímsvörðurvoru allnokkru ofan Draugaskarða].
Skammt ofar varð að sprengja þar úr [er nýi þjóðvegurinn (malbikaði) var lagður. Þá voru vörðurnar teknar, en hóllinn er með marki SE og G frænda hans]. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.
„Vafi hefur verið á hvar Einstæðingur er, hvort hann er hér eða í Leirunni. Einstæðingsmelur er þó vestan við Sandgerðisgötuna þar sem Fuglavíkurgatan kemur inn á hana.“ Þar sést Einstæðingur og varðan á honum, litlum grónum hól í melnum. Guðmundur, sem var með í för, hefur þegar gert ráðstafnir til að hlaða upp vörðuna og áletraður steinninn í hana bíður tilbúinn í Norðurkoti.
Ef haldið er á ný niður eftir Sandgerðisgötu (-vegi) og örnefnin rakin upp eftir sem leð lá, verður fyrst fyrir Oddnýjarhóll norðan við veginn, skammt suður frá merkjum. Á hólnum, sem er við innkeyrsluna í Sandgerði, er nú listaverkið „Álög“. Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.
Næst ofar er Árnakötluhóll. Hærra og norðaustur af honum er Neðri-Dauðsmannsvarða. Henni hefur ekki verið haldið við, og þar var letur á hellu rétt hjá. Hefur það ekki fundizt nú um sinn. Hefur það líklega verið leiði meiri háttar manns. Þetta er beint upp af Stekknum fyrrnefnda. Upp af Neðri-Dauðsmannsvörðu er Sjónarhóll. Hann er á merkjum móti Sandgerði. Suður af Sjónarhól er Vegamótahóll. Þar á milli eru smáholt nafnlaus. Upp af Vegamótahól í Draugaskörðum er nefndur Dynhóll. Austur af honum eru Samföstuhólar. Þá ber við himin og eru með smáþúfum á. Græn þúfa er á Breiðhól syðri, sem er fyrir norðan Digruvörðu, úr Breiðhól til Gotuvörðu, þaðan í Háaleitisþúfu.
Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur merkt nokkra af þessum hólum eftir lýsingum eldri manna er þekktu vel til fyrrum.
Digravarða rís há og mikil i norðri. Hún var sundvarða í Hamarssundið, [um Sundbolla í Keili].
Þegar staðið er við Vegamótahól má sjá niður að Býjaskerum (Bæjarskerum). Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.
Á Bæjarskerum á eftirfarandi þjóðsaga að hafa gerst: „Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. „Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir,“ sagði hún.
En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.
Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu „ónáttúrlegu“. Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út.
Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu. Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: „Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því.“
Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við.
Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.“
Ofan við Býjarsker er Arnarbæli og skammt ofar Álaborg, rétt auk tófta. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að „Holt eitt með klettum og grasi vaxið á milli klettanna er upp í heiðinni milli Býjaskerja og Sandgerðis rétt fyrir ofan (sunnan) túngarðinn, er Arnarbæli heitir. Annar klettur er þar fyrir neðan Sandgerði sem brúkaður hefur verið fyrir hróf á sumarinn, er heitir Hamar. Þaðan þóttust menn sjá álfafólk vera að setja skip sín og upp í Arnarbæli nóttina fyrir Bátsendaflóðið – þann 4. janúar 1798 [á reyndar að vera 1799] – sem mörgum sveitum olli hins mesta tjóns og töpunar.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um „loftanda“ á Miðnesheiði, sbr.: „Vor eitt um 1820 í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nejsamenn. Var þetta kallaður loftandi. Sögur svipaðar þessari gengu manna á meðal og voru alltaf kallaðar loftanda verkan.“
Jón Jónsson frá Bæjarskerjum sagði að „við Vegamótahól koma saman vegirnir frá Bæjarskerjum og Sandgerði, svo var einn vegur frá Vegamótahól til Keflavíkur.“
Í leiðinni var litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta er rétt ofan við Sandgerði. Á hellu við hana á, skv. örnefnalýsingu [gömlum sögnum], að vera áletrun.
Enn hefur hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þó má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Kominn er tími til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem í og henni liggur. Efri-Dauðsmannsvörðan er skammt frá götunni ofan við Draugaskörð og enn önnur í heiðinni ofan við Berghús. Ekki hafa fundist áletranir við þær. Dauðsmannsvarðan, sem er á efsta Draughólnum við Draugagil, var hlaðin upp fyrir skemmstu.
Við Rockvilleroad voru fyrrum mannvirki í radarstöðinni kynnt til sögunnar sem og tilgangur hennar.
Einstæðingsvarða er á mel [fyrrum malargryfjum] skammt neðan Gotuvörðu, sem er nú áberandi kennileiti sunnan við götuna. Einstæðingsmelur er þar og á honum Einstæðingshóll – varðan er nú sokkin í grashólinn. Sigurður og Guðmundur hafa mikinn áhuga á að endurreisa vörðuna, enda munu, sem fyrr segir, gatnamót Fuglavíkurgötu og Sandgerðisgötu hafa verið þarna nálægt hólnum. Sigurður þekkir Fuglavíkurleiðina mjög vel, en hún er nú víða horfin, bæði vegna jarðvegseyðingar, framkvæmda sem og gróins gróanda. Hún sést þó enn á köflum.
Þarna á melnum voru námur og öll verksummerki eftir þann hluta Fuglavíkurleiðarinnar, nema hóllinn, hafa verið þurrkuð út.
Þegar komið var upp að Gotuvörðu var áð, enda komið sólksinsdreif. Hvers vegna nafnið er til komið er óþekkt. Þarna gæti t.a.m. gotufata hafa fallið af hesti, sbr. Méltunnuklif austan Grindavíkur (þar sem méltunna féll af hesti og klifið hlaut nafn af). Sumir hafa talið að þarna gæti hafa átt að standa „Götuvarða“, en þeir sem gleggst þekkja til segja það hafi ekki verið. Sigurður og Guðmundur frændi hans endurhlóðu vörðuna fyrir skemmstu. Í henni er steinn með nafni vörðunnar.
Tugir manna (hundruðir samtals til lengri tíma) urðu úti á skömmum tíma á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. bæði fyrir að bíða og fyrir afneitun.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af „eðlilegum“ ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Keflavíkurborg sést framundan þegar gatan er fetuð áleiðis niður að Grófinni. Leifar af borginni sjást enn, en líklegt má telja að grjót úr henni hafi veri tekið í nýrri mannvirki líkt og var með vörður og önnur hlaðin steinmannvikri fram að þeim tíma. Brennivínshóll er við ofan við Grófina, norðan götunar, skammt frá Keflavíkurborg. Þar var til siðs að taka tappa úr flösku á leið yfir heiðina (hóllinn er merktur af SE). Reynslan sýndi að það þótti miður heppilegt því margir áttu erfitt með að rata réttar leiðir eftir það.
Ljóst er að Sandgerðisgatan sést um langan veg á fyrrgreindum 8 km kafla milli bæjarins og Grófarinnar. Hún er reyndar horfin þar sem nýjasti vegurinn hefur verið lagður ofan á hana sem og þar sem malargryfjum hefur verið komið fyrir á leiðinni. Annars sést hún vel í móum Miðnesheiðar, fjölmörg vörðubrot eru við hana (vinstra megin á leið frá Sandgerði) og ýmsar mannvistarleifar tengdum sögum og atburðum á leiðinni má enn berja augum.
Sjá MYNDIR.
Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123.
-Saga Sandgerðis.
-Örnefni frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni um Býjasker (Bæjarsker). Ari Gíslason skráði.
-Viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni „Frá Suðurnesjum“, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði.
-Sigurður Eiríksson – Norðurkoti.
-Sandgerdi.is
-Sigfús III 142.
-Jón Árnason IV 27 og III 10.