Sel á Reykjanesskaganum eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum.
Sel á Baðsvöllum.
Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð. Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.
Vindássel í Selvogsheiði – Uppdráttur ÓSÁ.
Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.
Hraunssel.
En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Vindássel í Kjós.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.
Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var.
Litla-Botnssel.
Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Minjar í Selvogsheiði.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa.
Staðarsel.
Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.
Fornasels og Gjálselsstígur.
Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans.
Selgjá – Uppdráttur ÓSÁ.
Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni. Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.
Selsstígur.
Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Hraunssel – tilgáta.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinessel.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.
Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.
Hvaleyrarsel.
Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Víkursel í Öskjuhlíð.
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.
Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.
Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.
Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.
Fornasel í Strandarheiði.
Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaða-fjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Óttarsstaðaborg í Hraunum.
Óttarstaðaborgin, eða Kristrúnarborg, eins og hún hefur stundum verið nefnd, er við Óttarstaðaselsstíginn, Rauðamelsstíginn eða Skógargötuna, eins og hann hefur einnig verið nefndur. Straumsselsstígur liggur upp í Straumssel, Stakkavíkurselsstígur upp í Stakkavíkursel, Lónakotsselsstígur upp í Lónakotssel og svo mætti lengi telja. Til eru þó sel við alfaraleið, s.s. Hlíðarendaasel þar sem Ólafsskarðsvegur liggur svo til í gegnum selið sunnan Geitafells. Sum seljanna eru á fallegri stöðum en önnur. Má þar nefna Breiðbólstaðaselið í Krossfjöllum og selin í Sogagíg undir Trölladyngju. Hið fyrrnefnda státar af fögru útsýni niður í Dimmadal á meðan hið síðarnefnda nýtur skjóls í fallegum hraungíg undir öruggu og litskrúðugu faðmlagi Trölladyngju og Soganna. Ein tóftin er utan við gíginn.
Tóft í Blikdal.
Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.
Heiðarbæjarsel.
Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Litla-Botnssel – tilgáta.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður umhugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.
Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.
Hér er ekki ætlunin að skrifa magesterritgerð um sel á Reykjanesi, en reyna þó að nálgast viðfangsefnið þannig að það gefi nokkra góða sýn á fjölda selja og hversu ríkan þátt selbúskapurinn hefur átt í atvinnuháttum fólks á svæðinu, líkt og annars staðar á landinu. Því verður best lýst með eftirfarandi tilvitnunum í verk Hitzlers.
Sjá niðurlag um seljaumfjöllun HÉR.
Sjá meira um sel og selstöður á Reykjanesskaga HÉR.
Hópssel við Grindavíkurveg.