Tag Archive for: Selvogur

Herdísarvík

Siglt var um Herdísarvíkurtjörn.
Í þjóðsögunni um Krýs og Herdísi segir m.a. um tjörnina: „
Lagði þá Herd-301Krýs það á Herdísi, að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aptur full af loðsilungi, sumir segja Öfugugga. En Herdís lagði það aptur á Krýs, að allur silúngur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Af ummælum þeirra er það að segja, að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefir einginn silungur feingizt, svo menn viti, nokkurn tíma síðan, en fult er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefir ekki heldur orðið silungs vart; en loðsilungar ætla menn bar bafi verið, þótt ekki sé þess getið, að neinn hafi af því bana beðið. Aptur var það einn vetur eptir þetta, er sjómenn geingu til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemst leið er að gánga til sjávar þaðan yfir tjörnina, þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu.“
Herd-302Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir m.a. um silung í Herdísarvíkurtjörn: „Árið 1861 var silungur fluttur úr Hlíðarvatni í Ölfusi í tjörnina hjá Herdísarvík. Silungarnir voru fluttir í opnu íláti og tókst það svo vel, að eftir 5 ár fór silungur að veiðast í tjörninni og hefir veiðst þar meira og minna á hverju ári síðan.“
Ólafur Þorvaldsson lýsir Herdísarvíkurtjörn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948: „Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Árnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta.

Herd-303

Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim. Annars er saga Herdísarvíkursilungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn.
Voru þeir bornir í bala og Herd-304fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú íáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast.

Herd-305

Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar. Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Herd-306

Landi í Herdísarvík má skipta í tvennt, er lýsa á. Fjallinu með sínu upplandi og landi neðan fjalls. Neðan fjalls er landið allt brunnið, — hraun eldri og yngri. Eldri hraunin mikið gróin og fjárbeit þar með ágætum. Fjallið er allt að kalla skriðurunnið hið neðra, en háir og fagrir hamrar hið efra. Þó eru nokkrar grónar brekkur í fjallinu vestanverðu, og er þar dálítið viðarkjarr. Fjallið má teljast allt jafnhátt og brúnir þess sléttar og reglulegar.
Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda.
Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur Herd-307var í göngu. Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara. Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil.“
Nú hefur sjórinn rofið eiðið sem aðskildi tjörnina frá opnu hafinu og náð að nánast þurrka út bæði gamla bæjarstæðið og útihúsin (smiðjuna og geymsluna) er stöðu þeim næst.
Tilgangurinn með ferðinni var að mæla dýpið í Herdísarvíkurtjörninni. Háflóð var. Dýpið mældist 2.5 m næst landi og 3.5 m fjær, en tjörnin grynntist síðan eftir því sem nær rifinu dró. Á stuttum köflum náði dýpið allt að 7 metrum, en þar eru sennilega gjár undir. Talsverð lóðning var af fiski í tjörninni.
Frábært veður. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, 1. b. bls. 476-477.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 1951, bls. 548.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Herdísarvík,  49. árg. 1943-1948, bls. 129-130.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.

Selvogur

Uppi á fjörukambinum skammt austan við Selvogsvita má enn sjá leifar hluta trébáts, sem þar fórst á sínum tíma. „Báturinn hét Vörður RE 295,  er hann rak á land með bilaða vél austan við Selvogsvita, 9. mars 1956, með fullfermi af loðnu. Með bátnum fórst öll áhöfnin samtals 5 manns.
Vordur-21Bátur þessi var kantsettur tvísöfnungur smíðaður af Þórði Jónssyni frá Bergi í Vestmannaeyjum árið 1913 og átti hann bátinn sjálfur og réri á honum fyrstu árin. Báturinn var eini báturinn sem Þórður smíðaði.  Umb. 1937.
Bátur þessi er sagður hafa verið með fullfermi af loðnu sem er nokkuð framúrstefnuleg, en nokkrum árum áður eða 1954, var hann gerður út á humarveiðar frá Grindavík og var skipstjóri þá Jón Eiríksson og lagði hann hjá frystihúsinu í Höfnum.
Nöfn: Enok VE 164, Enok II VE 164, Ingólfur Arnarson VE 187, Ingólfur Arnarson GK 187, Stuðlafoss SU 550, Vörður SU 550 og Vörður RE 295.“

Heimild:
-emilpall.123.is/blog/yearmonth/2010/04/18/

Vordur-22

Strandarkirkja

Eftirfarandi upplýsingar um Strandarkirkju var tekinn saman af Gunnari Markússyni árið 1991:
„Dr. Jón Helgason, biskup, ritaði grein í Lesbók Mbl. 17. janúar 1926 og nefndi hana Um Strönd og Strandakirkju.
Tæpum tveim árum síðar, eða 2. október 1927 kom svo í sama riti greinin: „Erindi um Strandakirkju“ eftir séra Ólaf Ólafsson, sem þar hóf prestskap sinn.-
Séra Helgi Sveinsson, sem einnig þjónaði Strandarkirkju, skrifaði í 18. árgang Kirkjuritsins grein, sem hann nefndi „Engilsvík“.
Strandarkirkja-901Allir koma þessir þjónar kirkjunnar inn á tilurð Strandarkirkju, en hver með sínum hætti.
Séra Helgi endursegir söguna um skipbrotsmennina, sem engillinn leiddi í örugga höfn, en gerir enga tilraun til þess að tímasetja hana.
Séra Ólafur segir í sinni grein: „Strandarkirkja er orðin ævagömul. Hinn rétta aldur hennar þekkir enginn, sumir ætla hana byggða við upphaf kristninnar hér á landi, á dögum Gissurar hvíta, en aðrir á dögum Staða-Árna, en enginn veit neitt með vissu. Ég hallast lang mest að þeirri gömlu þjóðsögu, að hún sé upphaflega og það snemma á tímum til orðin fyrir áheit manna í sjávarháska, áheitendurnir komust á land og björguðust á Strandarsundi, rétt fyrir vestan það er nefnilega hin alkunna Engilsvík. Ég styrktist í þessari trú við þá staðreynd að nú á okkar dögum hefur heil skipshöfn bjargast úr sjávarháska einmitt á þessum svæðum. Síðan eru um 30 ár.“
Dr. Jón hefur mál sitt á vísu eftir Grím Thomsen þar sem hann telur Gissur hvíta hafa reist fyrstu Strandarkirkjuna. Síðan segir biskupinn: „Hefi ég ekki annarsstaðar, það ég man, rekið mig á þá sögn að Gissur hvíti hafi fyrstu gert kirkju á Strönd í Selvogi. Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé rétt hermt þó söguleg rök vanti fyrir því.“
Nokkru síðan í sömu grein segir hann: „Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju er að vér vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyrr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar.
Allir hafa þessir heiðursmenn ausið af sama gnægtarbrunni um sögu Selvogs og Strandarkirkju, en það eru vísur eftir séra Jón Vestmann, er prestur var í Selvogsþingum 1811-42 og inngangsritgerð við þær eftir dr. Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörð, en það eru bestu heimildirnar, sem mér eru kunnar um þessi efni.
Herdís Andrésdóttir kvað: „Kirkjan suður á sandinum –  situr ein og hljóð.  En stormurinn kveður þar – sinn kalda vetraróð.“
En hver setti hana þarna, hvenær og hversvegna?
Eða væri e.t.v. hyggilegra að huga fyrst að því hverjir þeirra, sem nefndir hafa verið til þessarar sögu, komi alls ekki til greina?
F
yrstan í þeim flokki, vil ég nefna Gissur hvíta.
Strandarkirkja-902Mér telst svo til, að í Íslendingasögum, Biskupasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Flateyjarbók sé talað um hana á samtals rúmelga 100 blaðsíðum án þess að ég finni nokkuð, sem bendi til þessarar kirkjubyggingar og ég er algjörlega ósammála þeim rökum dr. Jóns Helgasonar, biskups, að það sé alveg jafngóð sagnfræði þótt enginn flugufótur finnist fyrir þeim kenningum, sem hún setur fram.
Þá er það Árni biskup Þorláksson (Staða-Árni, 1269-98). Er líklegt að hann hafi lent í því hafvolki, að þar sé að leita upphafsins að Strandarkirkju – og er sennilegt, að hann og landeigandinn á Strönd hafi staðið saman að byggingu þessarar kirkju?
Fyrri spurningunni er hægt að svara hiklaust neitandi því að í sögu hans segir: „Eftir það er Árni biskup hafði skilið við virðulegan herra Jón erkibiskup…….. sigldu þeir í haf, og greiddist þeirra ferð vel og ekki allskjótt. Komu þeir skipi sínu í Eyjafjörð.“
En hver var þá eigandi Strandar á þessum tíma og hvernig var samkomulag hans og biskups?
“ Á dögum Árna biskups Þorlákssonar………. átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið „með fulltingi“ Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu.“
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi – vígsluföður Árna biskups.
M
ér finnst það meira en furðulegt ef þessir erkifjendur í staðamálum hefðu getað sameinast um að gera nýja kirkju á jörð Erlends og það með þeim glæsibrag, að á aðeins 5-6 árum var hún orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
„Elsta „Strendur-máldaga“ er nú þekkist hafa menn heimfært til tíma Árna biskups Þorlákssonar eða hér um bil 1275…….. og er Strönd þá svo stórauðug að rekum að hún togast á við Hjallamenn, Krýsvíkinga og sjálfan Skálholtsstól.“
Nú er það staðreynd að „kirkjan suður á sandinum situr ein og hljóð“ svo einhver hlýtur að hafa byggt hana og einhverntíma. En hver og hvenær?
Árni Óla er einn þeirra, sem skrifað hafa um Strandarkirkju. Eftir að hafa rætt nokkuð um upphaf hennar segir hann: „En sé nú gert ráð fyrir því að Strandarkirkja hafi verið reist áður en Árni varð biskup og ennfremur hitt, að munnmælasagan hermi rétt að það hafi verið biskup, sem heitið gerði um kirkjubygginguna. Þá gæti skeð að það hefði verið Þorlákur biskup helgi.“
strandarkirkja-904Þarna hygg ég að naglinn hafi verið hittur beint á höfuðið. En af hverju Þorlákur biskup Þórhallsson öðrum biskupum fremur?
Til þess að svara þeirri spurningu þarf að leggja nokkra lykkju á leið sína – eða er það ef til vill bein lína að settu marki?
Það þarf ekki að horfa lengi á Íslandskort til þess að sjá, að hafnir eru ekki höfuðprýði Suðurlandsins. Hinu má svo ekki gleyma, að eldsumbrot, jökulhlaup, hafís og hafrót hafa í aldanna rás gnauðað þar á ströndinni og því er ekki ólíklegt að það hafi í raun og veru verið allt önnur strönd, sem blasti við augum þeirra fóstbræðra Ingólfs og Hjörleifs er þeir komu af hafi, en sú sem við horfum á í dag.
Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort Hjörleifur sigldi inn fjörð til þess að taka land við Hjörleifshöfða.
Á hitt skal aftur á móti bent að „Rangá mun hafa verið hafskipahöfn í tíð Sæmundar fróða“ og að „Rangá og Holtsósar eru dæmi um hafnir, sem lögðust niður.“
Svo er það Strandarsund í Selvogi, „Strandarsund, sem er suður og austur af kirkjunni, hefur sjálfsagt frá ómunatíð, allt þar til það tók að fylla af sandi á síðari öldum, verið einhver öruggast lendingarhöfn fyrir öllu Suðurlandi. Segja kunnugir menn, að enn sé oft kyrrt á Strandarsundi þó að allur Selvogssjór sé í einnu veltu. Er það gamalt mál, að aldrei berist skipi á á Strandarsundi „rétt förnu“….. Ýmsar sagnir hafa gengið um sundið. Sögðu sumir að jafnan væri lag á Strandarsundi á nóni dags.“
En hvað er þá orðið um Strandarsund?
Í ágúst 1706 voru þeir Jarðabókarmenn í Selvogi og var þá sagt að jörðin „Strönd“ sé fyrir 10 árum í auðn komin. Einnig segir: „Heimræði hefur hér verið ár um kring, sem nú er fordjarfað síðan hafís rak hér inn í sundið, svo þaðan í frá er ófært nema í blíðviðrum og láleysu.“
Hvað var það, sem gerðist þarna í Selvogi á árunum 1694-96 og varð þess valdandi að í fardögum ´96 flýr síðasti maðurinn stórbýlið Strönd? Hvað fordjarfaði svo Strandarsund, að þar er síðan ólendandi nema í besta og blíðasta veðri?
Í Fitjaannnál segir um árið 1695: „Kom hafís fyrir norðan á jólum einnin fyrir Austfirði og seint á einmánuði fyrir Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, svo þar varð ekki á sjó komist um nokkra daga, færðist svo vestur fyrir Reykjanes og öll Suðurnes. Þann 19. apríl rak hann inn fyrir Garð og svo meir og meir, Akranes, Mýrar og undir Snæfellsjökul.“
Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að hafís, sem náði að fylla nær alla firði við Faxaflóa hefir í leiðinni mokað svo rækilega upp í mynni Strandarsunds, að það hefir verið létt verk fyrir foksandinn, sem þegar var farinn að granda túnum sveitarinnar, að fylla upp afganginn.
En hvað kemur þetta Þorláki Þórhallssyni við?
Strandarkirkja-905Nákvæmlega ekki neitt ef svo hefði ekki viljað til að faðir hans var Þórhallur FARMAÐUR.
Það mætti furðulegt heita ef skammdegiskvöldin á Hlíðarenda hefðu ekki einhverntíma verið stytt með sögum og samræðum um ferðir húsbóndans og jafn skrýtið gæti það talist ef aldrei hefði borið á góma þar á bæ, að úti í Selvogi væri höfn þar sem hægt væri að lenda a.m.k. tvisvar á dag nánast hvernig sem viðraði.
Munnmælin herma að Strandarsund hafi ávallt verið fært á nóni. Það fær ekki staðist, en hitt gæti meira en verið, að sundið hefði oftast verið fært á öðrum hvorum liggjandanum eða á hálfföllnum sjó.
En einu gildir hvort munnmælin hafa hallvikað hér strangasta sannleika eitthvað lítillega eða ekki, Þorláki hlýtur að hafa verið ljóst strax í bernsku, að á einum stað á Suðurlandi mátti taka land í svo til hvernig veðri sem var, bara ef rétt var að verki staðið.
Þá er það sagan um hann Árna, sem fór til Noregs til þess að sækja húsavið. Þar hygg ég að þjóðsagan hafi ofið skemmtilega voð þar sem uppistaðan er frásögn yngri gerðar Þorlákssögu af heimför biskupsins úr vígsluför sinni til Noregs, en fegurðarskynið eitt látið ráð hvar ívafið var tekið.
Besta gerð þeirrar sögu, sem ég hefi séð er skráð af Konráði Bjarnasyni, fræðimanni frá Þorkelsgerði í Selvogi, en hann hefir söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sem gift var Árna Árnasyni, uppeldissyni Kristínar Jónsdóttur Vestmanns.
Bæði Þorlákssaga og þjóðsagan geta um skip, sem býst frá Noregi hlaðið húsaviði og í báðum endar ferðin í óveðri við Íslandsstrendur og mestur hluti viðarins tapast fyrir borð áður en landi er náð, en það tekst giftusamlega eftir að viss heit hafa verið gerð.
En hver var svo hlutur farmannssonarins í landtökunni í byrjun ágúst 1178. Hver var hlutur þessa skarpgáfaða en ráðríka manns, sem áreiðanlega þekkti Suðurland frá Vatnajökli og vestur úr eins og fingurna á sér? Hafði grillt svo í land að hann vissi upp á hár hvar hann var staddur? Hvers vegna vildi hann ekki heita fyrr en rutt var af skipinu öllu því, sem hann við brottför hafði talið ofhleðslu? Var það vegna þess að honum fannst að skipstjórnarmenn hefðu gott af refsingu fyrir mótþróa við biskupinn eða var það af þeirri einföldu ástæðu að hann vissi að svo hlaðið, sem skipið var, mundi það aldrei fljóta inn Strandarsund?

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1930.

Þannig má leika sér að spurningum næstum í það óendanlega. En svör við þeim finnst engin. Á hinu tel ég ekki leika nokkurn vafa, að það voru gömul ráð Þórhalls farmanns, sem komu syni hans heilum í höfn úr vígsluförinni og urðu um leið til þess að hin fyrsta Strandarkirkja var byggð. Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er helgi Þorláks og áheit á hann, sem valda því að um öld eftir að hann lét reisa kirkju að Strönd var hún þegar orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
Og það er fleira en hugdettur minar, sem styða þá kenningu, að margnefnd kirkja hafi verið byggð á dögum heilags Þoláks því að kirknatal Páls biskups Jónssonar enda upptalningu sína á kirkjum í Árnesþingi með kirkjunni á Strönd í Selvogi.
Auðvitað er mér fulljóst , að frumritið af þeirri skrá er ekki til og ekki er hægt að útiloka að einhverjum vini Strandarkirkju, sem var að afrita skrána hafi þótt svo sjálfsagt, að hennar nafn stæði þar, að hann hafi bætt því við, en ég tel þann möguleika miklum mun minni en þann, að Erlendur lögmaður Ólafsson hafi farið að aðstoða Staða-Árna við að ná einu af tekjuhæstu óðulum sínum undir kirkjuna.“ 

Tekið saman af Gunnari Markússyni í september 1991.
(sjá olfus.is)

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Herdísarvík

Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð og samnefnd vík í Árnessýslu í landi Sveitarfélagsins Ölfuss.
Herdisarvik-334Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík í um áratug en nú er jörðin í eyði. Hús skálsins, sem hann reisti þar, er núna í eigu Háskóla Íslands. Hamrar Herdísarvíkurfjalls eru 329 m háir og gnæfa upp yfir víkinni til norðurs. Herdísarvík er eyðilegur staður en þar er fjölskrúðugt dýralíf.
Jörðin Herdísarvík státar af þúsund ára búsetu en nú stendur þar lítið annað en hús Einars Benediktssonar sem hann reisti eftir að hann flutti á jörðina. Hlaðnir túngarða og veggir frá fyrri tíð eru þar á jörðinni og hluti af þeim er húsið sem Einar bjó í þegar hann fluttist fyrst í Herdísarvík. Ólafur Þorvaldsson, þingvörður, var bóndi að Herdísarvík um tíma. Hann var gildur bóndi, átti til dæmis þúsund fjár á fjalli seinasta árið sem hann bjó í Herdísarvík. Það var fardagaárið 1932 – 1933. Landsdrottinn Ólafs þar var Einar sem fluttist þangað 1932 og var því samtímis Ólafi í eitt ár. Einar bjó í Herdísarvík þar til hann lést árið 1940.
Herdisarvik-335Einar Benediktsson fluttist til Herdísarvíkur með Hlín Johnson sem annaðist hann þar þegar ellin tók að herja á Einar. Þegar Einar lést arfleiddi hann Háskóla Íslands að jörðinni, húsinu og bókasafni sínu. Herdísarvík er 4.218 ha land sem hefur verið friðlýst og á lista yfir friðlýst svæði á Íslandi frá árinu 1988.[1]
Árið 1952 var fé sett til höfuðs Herdísarvíkur-Surtlu sem varð frægasta og dýrasta sauðkind landsins. Kind þessi var í eigu Hlínar Johnson og sú síðasta í þúsund ára sauðfjárstofni Grunur um mæðiveiki olli því að fella varð allt fé á suðurlandi. Fjölda manna Herdisarvik-356leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist.
Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns.
Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík.
Í Herdísarvík var áður bær á flöt við tjarnarbakkann og var viðarverkið í bænum unnið úr rekaviði úr fjörunni, Bærinn var svo nálægt sjó að stundum flæddi inn í bæinn. Það gerðist veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum. Flóðið kom inn í bæinn og varð fólkið að flýja upp í hlöðu uppi á túninu sem stóð hærra en bærinn. Það eru tvö tún í Herdísarvík og fékkst af þeim 179 hestar af heyi í meðalári á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Herdisarvik-367Í Herdísarvík eru fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar eru leifar sjóbúða og óteljandi hraungarða hlaðnir af mannahöndum sem voru þurrkreitir þar sem fiskurinn var hertur. Herdísarvík þótti gott fiskver og var róið út á víkina og fékkst oft góður afli. Seinna var farið að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi. Eftir sumarmál fór fiskur á svonefndar „Forir“ og aflaðist oft vel þar í vertíðarlok. Útgerð lagðist að mestu af í Herdísarvík um tíma en fyrir aldamótin 1900 hófst útgerð þar aftur og veturinn 1896 gengu þaðan átta skip. Þá var farið að salta allan fisk. Nýjar sjóbúðir risu. Þá var róið þarna á tíæringum.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson. Seiður lands og sagna III; Áfangastaðir Suðvestanlands. Skrudda. Reykjavík (2004): bls. 8.
-Árni Óla. Landið er fagurt og frítt. Bókfellsútgáfan. Reykjavík(1944): bls. 59-64.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Selvogsgata

Gengið var áleiðis upp Grindarskörð millum Kristjánsdalahorns og Kerlingarhnúka (Kerlingarskarðs).
Ætlunin var að ganga gömlu Selvogsgötuna (Suðurfararveginn) milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu Selvogsgata um Grindarskörðáratuga hafa gjarnan fetað aðra götu upp Kerlingarskarð og síðan fylgt vörðum frá því á sjötta áratug síðustu aldar niður að Hlíðarskarði – og kynnt þá leið sem hina einu sönnu „Selvogsgötu“. Í rauninni eru nú um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust, eins og síðar á eftir að minnast á. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna um þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn „sú eina“ millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar allt önnur.
Að baki var úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Þar er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð. Að baki voru sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu ofan við Strandartorfur. Þegar komið var upp Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í suðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Kristjánsdalahorni.
Tvær vörðuleifar eru á þessum hluta Selvogsgötu (Eystri), en annars er yfir slétt helluhraun að fara. Leiðin er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Nú var það þurrt líkt og öll önnur vatnsból við götuna, önnur en Rituvatnsstæðið millum Litla-Leirdals og Hliðardals.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðinga. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 70 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.
Efst í GrindarskörðumÞegar lestirnar komu frá Selvogi fram á norðurbrún Grindarskarða blasti við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Á háskarðinu höfðu lestirnar jafnan verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð í Selvogi. Ferðin frá Mosum og upp á skarðsbrúnina hafði tekið um þrjá stundarfjórðunga (án lestarinnar).
Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður  að Hrauni í Ölfusi. Næsta varða er á þeirri leið, upp á og niður með Heiðinni há. Við fyrri vörðuna var beygt til hægri og stefnan tekin milli gígs á vinstri hönd og hraunbrúnar á þá hægri. Framundan voru vörðubrot við götuna, sem annars virðist augljós. Þegar komið var að gatnamótum norðvestan við Litla-Kóngsfell var staðnæsmt um stund. Í norðvestri blöstu Stóri-Bolli, Miðbolli, Kerlingahnúkar og Syðstu Bollar við. Norðaustan við Kelringahnúka er Kerlingarskarð, sem leið FERLIRsferðalanganna átti síðar eftir að liggja um.
Dæmigert vörðubrot við SelvogsgötunaHér reis slétt hraunhella upp úr móðurhrauninu; táknræn varða. Skammt sunnar voru tvö vörðubrot sitt hvoru megin götunnar. Vestar voru vörður og síðan tvær beggja vegna götu er lá millum þessarar og „Selvogsgötu Vestari“ og Hlíðarvegar (hinna beinvörðuðu vetrarleiðar). Gatan lá yfir að „Hliðinu“ á sýslugirðingunni, sem lá þarna upp að sunnanverðum Grindarskörðum. Leifar hennar sjást enn vel.
Gömlu Selvogsgötunni var fylgt um Grafninga neiður með Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Stóra-Leirdal. Á leiðinni verður fyrir þurr foss á vinstri hönd og uppþornaður lækjarfarvegur, sem stundum fyrrum hefur þótt óárennilegur. Þess vegna liggur gatan yfir hann (en ekki eftir) og upp á hraunbrúnina að vestanverðu. Þar liðast gatan skamman veg niður af henni aftur að austanverðu. Eftir það liggur gatan um Stóra-Leirdal, vel gróinn slátturdal ofan við Hvalskarð. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafi verið heyjaðir hundruð hestburðar, eins og sagnir eru til um, verður að teljast vafasamt. Hestar lestanna fyrrum urðu hér léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt.
„Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell“.
„Lestargangur í Stóra-Leirdal var um 4 klukkustundir á fótinn frá Selvogi. Sunnan við dalinn liggur gatan í sneiðing upp Vestari leiðinlágt skarðið. Þegar upp er komið blasir vitinn í Nesi við sem og Selvogur vestan hans. Hér er leiðin tæplega hálfnuð (gengnir höfðu verið 14 km) niður á Strandarhæð (og er þó Selvogsheiðin eftir).
Handan Hvalskarðins liggur gatan eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í suðaustur að hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari eru vegna hraunhólanna neðan við Hvalskarðsbrekkur.“
Þegar komið var niður fyrir Hvalskarð var látið staðar numið. Héðan er gatan augljós niður í Litla-Leirdal, Hlíðardal, Strandardal og um Standarmannahliðið að Selvogsheiði, allt niður á Strandarhæð (Útvogsskála[vörðu]).
Staldrað var við í aðalbláberjahvammi og horft var eftir Hvalhnúk og Austurási, allt vestur að Vesturási. Kjói lét öllum illum látum. Líklega var hreiðurstæði hans í nánd. Sólin baðaði allt og alla og lognið umlék þátttakendur á alla vegu. Í dag var 17. júní, þjóðhátíðardagurinn sjálfur. Líklega var hvergi betra að vera en einmitt hér í tilefni dagsins. Fánar blöktu við götuna á hverjum bakpoka í tilefni af merkilegheitum dagsins.
Eftir stutta hvíld var gengið vestur með Hvalhnúk og vestur fyrir Austurása. Líklega eru nafngiftirnar augljósari en einmitt sunnan við fellin. Ásarnir; Austurás og Vesturás, eru móbergshæðir á sprungureinum (gos undir jökli), en Hvalfell er grágrýtisbrotafell frá upphaf nútíma (í lok ísaldar). Með fellunum eru, þrátt fyrir gróðureyðingu síðustu áratuga, fjölbreytilegt blómaskrúð.

Drykkjarsteinn í Kerlingarskarði

Milli hnúkanna eru gatnamót; annars vegar Hlíðarvegar og hins vegar Stakkavíkurvegar. Þrjár vörður (og vörðubrot) á hraunbrúninni undirstrika það. Hér var stefnan tekin til baka upp Hlíðarveginn velvarðaða. Selvogsgatan Vestri er skammt vestar. Þar liggur hún upp úfið apalhraun. Eftir skamma göngu eftir slóða austan við „Hlíðarveginn“ lá gata inn á úfið hraunið. Yfir stutt hraunhaft var að fara. Þegar þeirri götu var fylgt áleiðis að vörðunum þráðbeinu var komið inn á Vestari leiðina. Hún liggur upp frá Vesturásum, inn á hraunbreiðuna og upp fyrir hans. Hér var hægt að velja um tvennt; annars vegar að fylgja Hlíðarvegnum með vörðunum eða beygja af og fylgja „Selvogsgötunni Vestri“. Í raun er hér ekki um Selvogsgötu að ræða. Selvogsgatan er þar sem fyrstneftnt var lýst; upp Grindarskörð og niður með Litla-Kóngsfelli, um Grafninga, Stóra Leirdal, Hvalskarð og dalina áleiðis að Strandarheiðinni.
Ákveðið var að fylga „Vestri“ leiðinni. Hún er öllu greinilegri og fótmeðfærilegri en „túrhestagatan“. Fallnar vörður eru við götuna. Ofan við og móts við Gráhnúk sker hún Hlíðarveginn og liggur svo til beint upp að hinum tveimur vörður á millileiðinni er fyrr var minnst á. Annars vegur liggur leiðin til hægri að Selvogsgötunni um Grindarskörð, er fyrr hefur verið lýst, eða til vinstri, að Kerlingarskörðum.
„Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.“
Gengið um SelvogsgötuAf ummerkjum að dæma má telja líklegt að „Vestri“ leiðin hafði verið framhald af Stakkavíkurselstígnum, enda mjög svipuð leið og önnur leið þess fólks um Brennisteinsfjöll framhjá Eldborg, vetrarleið þess til Hafnarfjarðar. Hvorugur stígurinn er varðaður, en þó hafa einhverjir á seinni tímum lagt sig fram við að rekja þá og merkja með litlum vörðum er það bara hið besta mál.
Líklegt má telja að frá hraunbrúninni við Vesturása hafi sameinast Stakkarvíkurstíg fyrrum Hlíðarvegur áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Híðarvatn. Umferðin um þær götur hafa varla verið jafnmikil og um sjálfa Selvogsgötuna (Eystri).
„Vestri“ leiðin liggur um slétt helluhraun og er auðfarin. Á einstaka stað hefur gatan verið unnin, sem verður að teljast óvenjulegt, því hvergi er gatan mörkuð í hraunhelluna. Það staðfestir fyrrnefna ályktun. Það er ekki fyrr en upp undir gatnamótunum „tvívörðuðu“ að forn gata fær staðfestu. Þar eru greinileg gatnamót; annars vegar um Grindarskörð og hins vegar um Kerlingarskarð.
„Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.“
Í þessari lýsingu kemur m.a. fram að Litla-Kóngsfell sé á markalínu. Í dag er Stóra-Kóngsfell, allnokkru norðaustar, notað sem slíkt viðmið. Verður það að teljast athyglisvert í ljósi þessa (sem og annarra vitnisburða).
Gengið var niður Kerlingarskarð, framhjá drykkjarsteininum sögufræga og niður að Mosum – þar sem gangan endaði (eftir 24 km).
Sjá lýsingu af leiðinni (frá suðri til norðurs) HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Byggt á heimild Konráðs Bjarnasonar um Selvogsgötuna til norðurs – 1993.

Miðbolli og Litla-Kóngsfell

Gvendarhellir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um hraunin við Herdísarvík og Krýsuvík undir fyrirsögninni „Aldargömul Íslandslýsing„.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hinn 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess „að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, sem lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á íslandi, en síðan verði prentuð út af fyrir sig á fjelagsins kostnað“. Sama dag var þetta samþykkt á fundi Hafnardeildar Bókmenntafjelagsins og nefnd kosin 21. sept. s.á. Um veturinn sendi nefndin brjef til allra presta og sýslumanna. Fylgdu brjefunum til prestanna 70 spurningar og til sýslumanna fylgdu 12 spurningar. Jafnframt var biskupi, stiftamtmanni og amtmönnum skrifað og þeir beðnir um að lá málinu fylgi.
Ekki verður annað sagt, en að prestar og sýslumenn hafi brugðist vel við þessari málaleitan. Allar lýsingarnar eru geymdar í Landsbókasafninu, fjögur bindi í folio. Er hjer um að ræða eitt hið merkasta heimildarrit, eigi aðeins um landfræði Íslands, heldur einnig um búskaparháttu, atvinnuvegi, hlunnindi, tíðarfar, þjóðháttu, heilsufar, menningu o.s.frv.
Að vísu eru ekki allar lýsingarnar jafn fullkomnar eins og vænta má, og skara ýsmir prestar fram úr ís kilningi á því, hvernig svörin ættu að vera. Hjer skulu nú birtir stuttir útdrættir úr þessum sóknarlýsingum, sem sýnihorn af þessu handritasafni.

Úr sóknarlýsingu síra Jóns Vestmanns, Vogsósum:

Nes er austanvert við Selvog. Þar á stendur bær með sama nafni. Vestan til við voginn er annað nes. kallað Alnbogi, líkt bognum handlegg hvar Herdísarvík t.a.m. skyldi vera í alnbogabótinni og bærinn með sama nafni við víkurbotninn. Á milli tjeðra nesja er breið sjávarbugt, kölluð Selvogur, en stuttleiks vegna má hún ei fjörður nefnast.

Þau merkilegustu eldhraun eru:

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

a) Stakkavíkurhraun [kom] upp í gosi upp úr Kongsfelli (sem hefir nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skifti þar á haustum fólki í fjárleitir); er Kongsfell kringótt eldborg, með háum börmum og djúpri gjótu innanvert, samanluktri í botninn, svo þar er þó ekki gjá, en grjótið brunnið í sand og vikur, sumt útlits sem sindur. Þaðan liggur hraun þetta þvert um fjallið til útsuðurs og ofan yfir Stakkavíkur landeign, en stansaði rjett fyrir ofan sjálft túnið; er þó upp gróið með góðum högum, smáskógi, beiti- og sortulyngi. Á fjallinu framarlega hefir hraunrenslið skift sjer við grjóthæð nokkra og hlaupið fram af fjallsbrún þar sem heitir Mosaskarð og lýsir nafnið þess útliti. Þessi tangi hraunsins er svartur og gróðurlaus þegar frá fjalli dregst alt fram í sjó.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

b) Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum og fram af fjallsbrún beggja megin Lyngskjaldar, en hefir runnið saman aftur á láglendinn fyrir neðan. Þetla hraun er sumsstaðar upp gróið með lyng, litlum skóg, gras, og góða haga í lágum og gjótum. Sums staðar er það svart og ávaxtarlaust, með gjám og stöndum og grámosabreiðum. Engir eru þar hellar eða stórgjár; þó er þar hellir kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn. Hellir þessi er annars ekki stór.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

e) Krýsuvíkurhraun [kom] upp í gosi úr Eldborginni í Deildarhálsi, austan til við Krýsuvík. Eldborg þessi er alt eins útlits og Kongsfell. Hraunið er upp gróið með gras, lyng og smáskóg í lautum og brekkum, en grámosaskóm, gjám og stöndum yfir alt þar sem hærra liggur.

Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,“ svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á einslita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún fœri niður fyrir. Og jafnótt og hann losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrímshellir

Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honnm þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Frá landnámstíð hafa menn engar sögur um breytingar á landslagi alt til l367 að Oddgeir biskup í Skálholti visiteraði kirkjuna á Strönd. Telst hún þar eiga 30 hndr. í heimalandi. Þaðan frá hafa menn enga vissu hjer um fyrri en um daga Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem eftir Árbókum Esphólíns bjó mektarbúi á Strönd í full 30 ár fyrir um og eftir trúarbragðaendurbótina. En hjer uum bil 1700 telur sveitarbragur Jóns bónda Jónssonar í Nesi 7 búendur á Strönd meinast þar sjálfsagt með hjáleigu býli. 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afhýlum öldungis eyðilögð „af sandfoki og þá þó fyrir nokkrum árum.

Æsubúðir

Geitahlíð.

Þar sem ekki er sandágangurinn, þar eru skriðuföll, blástrar; þar að lýtur saga Árna Þorsteinssonar, merkisbónda í Herdísarvík, og þannig hljóðar: ..Þegar jeg var 8 ára fór jeg fyrst með föður mínum út með Geitahlíð og sá jeg þá í einum stað eitt lítið flag blásið í aur hjertta austast í hlíðarhorninu en hvergi annarsstaðar, heldur einlægt graslendi og blóma yfir alt að líta“. Þessa sögu sagði hann mjer þá við eitt sinn urðum samferða með nefndri hlíð, af forundran yfir því hversu hrörleg hún var þá orðin er hann var sjötugur. Sáust þá í henni fáienir grasgeirar hjer og hvar að neðanverðu og einstakir fáir grasblettir einasta þar, sem hlje var við landnyrðingi. —

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Kirkjan á Strönd í Selvogi er kölluð heimakirkja; hún er enn á sama stað, einmana á eyðisandi, þar sem Strandarbær var meðan jörð þessi var bygð. — Hjer var þingabrauð þar til árið 1749 að ekkjufrú biskups Jóns Árnasonar keypti, eður þó hann áður andaðist, eyðijarðirnar Strönd og Vindás og gáfu til Selvogs prestakalls. Síðan hafa prestarnir verið kirknanna forsvarsmenn, en Vogósar hafa ætíð, eftir sem áður, verið prestsetur, en Krýsuvík annexia.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

d) Ögmundarhraun; lítið fyrir vestan Krýsuvík runnið vestan úr Amenningi, sem allar er líka hraun en þó grasi og skógi vaxið — er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits: gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Hríshólmi. Þar eru stórar húsatóttir niður sokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást ei tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg.

Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært; hraun alt um kring nema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríksvarða; þó Eiríksvarða sje ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svo langa tíð. – Hún er einhlaðin, á mjög hárri fjallsbrún, 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, úr einhlöðnum steingarðsparti, er svo hver steinn lagður yfir annan; flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða; allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utan veggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt að norðan og sunnan. Þessi Eiríkur Magnússon var lengi prestur í Selvogi, þótti skrítinn í ýmsu, og dó 1716. Af hans langa prestskap má ráða að hann hafi aldraður orðið, og skyldi menn setja að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa 123 ár.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg.

Arngrímur Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti.
Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust“ (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: —
„Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 49. tbl. 23.12.1954, Aldargömul Íslandslýsing, bls. 642-645.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Eiríksvarða

Á Svörtubjörgum ofan Selvogs er Eiríksvarða.
Í þjóðsögunni „Vörðurnar á Vörðufelli“ segir m.a.: Eiríksvarða„Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum. Nokkru seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.“
Í þjóðsögunni „Eiríksvarða og Vörðufell“ segir m.a.: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.“

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. „Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.
Eiríksvarða, var sem fyrr sagði, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710.

Heimild:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Gapi

Í Árbók HÍF 1930-1931 má lesa eftirfarandi um hella á Strandarhæð sem og í Krýsuvíkurhrauni (Klofningi) úr „Lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna“ eftir séra Jón Vestmann, 1840.
Saengurkonuhellir HerdisarvikHerdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteins-fjöllunum, engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór. Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug.
Strandarhaed-22Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — 

Strandarhaed-23

Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áður-nefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús.
Strandarhaed-24Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn.
Hlóð af honum með þver- vegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“
Strandarhaed-25Í
„Þjóðsögur og munnmæli” – Sagnir frá Strönd í Selvogi, segir m.a.: „Á Strönd í Selvogi, sem nú er eyðisandur, var áður stórbýli. Átti þá jörð fyrrum Erlendur lögmaður sterki (d. 1312) og frændbálkur hans, þeir Kolbeinsstaðamenn, svo öldum skipti, og bjuggu þar jafnan höfðingjar. Síðastur höfðingja og sagnamestur, er þar bjó, var Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d.1575). Var Strönd annað höfuðból hans, en hitt Kolbeinsstaðir í Hnappadal. Á Kolbeinsstöðum bjó Erlendur fyrri hluta ævi sinnar, og þar var það, að sagt var, að hann hefði átt mök við álfkonu og getið við henni barn. Var og Erlendur kallaður bæði fjöllyndur og forneskjumaður, skapstór og vígamaður var hann mikill. Þegar hann bjó á Strönd á efri árum sínum, var hann svo ríkur, að hann átti sex hundruð ásauðar. Af þeim gengu 2100 með sjó á vetrum og höfðu þar borg við sjóinn, og geymdi þeirra einn maður.
Strandarhaed-26Önnur 200 gengu upp á Völlum hjá Strandarborg, sem nú (1861) er lítil rúst, og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæðum við Strandarhelli upp undir heiði, og geymdi hinn þriðji maður þeirra. Sauðirnir gengu uppi í heiði. Eitt kvöld hafði smalinn við Strandarhelli, sem oftar, byrgt allt fé, sem þar var, inni í hellinum, en um morguninn vantaði eina á, og varð þá lögmaður mjög reiður og sagði, að ána mundi hafa vantað um kvöldið. Smalinn þrætti þess. Lét þá Erlendur afhýða smalann, en aðrir segja, að hann hafi drepið hann. Litlu síðar fréttist, að ærin hefði Strandarhaed-27einn morgun verið inni í byrgðum fjárhelli á Hlíðarenda í Ölfusi.
Þóttust menn því vita, að hellar þeir næði saman, og var því hlaðið í þá gaflhlað. Annar smalamaður eða þá sveinn Erlends lögmanns, er sagt, að eitt sinn hafi rekið spjót sitt ofan í jörðu. Kom þá sandur upp á oddinum. Sagði sveinninn þá, er hann sá það, að sú jörð mundi verða eyðisandur. Lögmaður svaraði: „Það skaltu ljúga!” Sveinninn stóð fast á þessu, en Erlendur reiddist og sagði hann skyldi fá laun fyrir hrakspá sína og vildi vega hann. Hljóp þá sveinninn undan norður um tún, en Erlendur náði honum og drap hann við háan hól fyrir norðan túnið. Sá hóll heitir síðan Víghóll enn í dag. „Skúta” hét tólfæringur, er fylgdi Strönd í Selvogi langa ævi. Hafði Skúta lag á Strandarsundi, hversu mikið brim sem var. Aðrir segja, að þau ummæli hafi fylgt Strandarsundi, að þar kæmi alltaf lag á nóni, enda var Strandarsund kallað bezta sundið í Selvogi þangað til það grynntist, af því að sandfok barst ofan í það. Nú er það ekki tíðkað, en þó haldið allgott.
Selvogur-562Það var mörgum árum eftir andlát Erlends lögmanns, nær 1632, að Skúta fórst. Er svo sagt, að næstu nótt áður en það varð, gæti einn af hásetunum á Skútu ekki sofið, fór hann því á fætur og gekk ofan til nausta. Stóðu þar tvö skip, sem gengu í Strandarsundi þann vetur. Var það Skúta og annar tólfæringur, sem Mókollur hét. Þegar hásetinn kom til naustanna, heyrði hann, að skipin töluðu saman. Mókollur byrjaði:
„Nú munum við verða að skilja á morgun.” „Nei,” sagði Skúta, „ég ætla ekki að láta róa mér á morgun!.” „Þú mátt til,” segir Mókollur. „Ég læt hvergi hræra mig,” sagði Skúta.
Arngrimshellir-21
Formaður þinn skipar þér þá í andskotans nafni,” segir Mókollur.
„Þá má ég til,” segir Skúta, „og mun þá ver fara.” Síðan þögnuðu þau. Maðurinn gekk heim og var þungt í skapi, og lagðist niður.
Um morguninn eftir var sjóveður gott, og bjuggu menn sig til róðrar. Maðurinn, sem heyrt hafði til skipanna samtal þeirra um nóttina, sagðist vera veikur og ekki geta róið og bað formann að róa ekki. En ekki tjáði að nefna slíkt. Hvorar tveggja skipshafnirnar fóru nú að setja fram, og hljóp Mókollur greiðlega af stokkunum, en Skútu varð hvergi mjakað úr stað, og hættu menn við að setj hana fram. En þegar þeir höfðu hvílt sig um hríð, kallaði formaður þá aftur og bað þá leggja á hendur í Jesú nafni, eins og hann var vanur, en ekki gekk Skúta enn. Reyndu þeir í þriðja sinn og gekk ekki um þumlung.
Gvendarhellir-21Þá reiddist formaður og kallaði menn í fjórða sinn og sagði í bræði sinni: „Leggið þið þá hendur á í andskotans nafni!”
Hlýddu þeir því, og hljóp Skúta þá svo hart fram, að menn gátu varla fótað sig. Nú var róið í fiskileitir. Þegar á daginn leið, gerði aftakabrim og fóru menn í land. Tólf-æringarnir frá Strönd sátu í lengra lagi, en fóru svo heim. Þegar þeir komu að sundinu, mælti formaður Mókolls: „Nón mun ekki vera komið og skulum við bíða við.”
Formaðurinn á Skútu sagði, að nón væri liðið, og þrættu þeir um það, þangað til Skútuformaðurinn staðréð að hleypa út að Herdísarvík og fór af stað. Rétt á eftir kom lag. Þá kallaði Mókollsformaður: „Nú er Skútulag.” Skútuformaður heyrði það ekki og hélt áfram út í Herdísarvík og hleypti þar að í Bótinni, en svo var brimið mikið, að Skúta stafnstakkst þar og fór í spón. Drukknuðu menn allir.
Gardur-21Mókollur naut Skútulags á Strandarsundi og komst með heilu og höldnu til lands. Þá sagði maðurinn frá því, er fyrir hann hafði borið um nóttina. (Að mestu eftir handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861)
Það er tekið til þess, hvað lítið sé um hrafna um vetrarvertíðina á Garðinum, þvílíkur sægur sem þar sé af hröfnum endranær, svo sem haust og vor. En sú er saga til þess, að í fyrndinni var dæmafár hrafnagangur suður í Garði, svo þeir rifu allt og slitu, hvort sem það var í görðum, í hjöllum, króm eða byrgjum. Stefndi þá einn af bændunum þar í Garðinum hröfnunum í burtu um vertíðina og austur í Krýsuvík og Herdísarvík, og síðan hefur varla sézt hrafn í Garðinum um vertíðina, því síður að hann hafi gert þar skaða. En því stefndi bóndinn hrafnavaðnum í Krýsuvík og Herdísarvík, að hann átti Krýsuvíkur-bóndanum eitthvað illt upp að inna, gott ef hann hafði ekki stefnt hröfnunum frá sér haust og vor suður í Garð.
Strandarhaed-28Það hafa vermenn sagt mér, að þeir hafi oft mætt hröfnum, þremur og fjórum í hópum, er þeir hafa farið suður á veturinn. (Eftir handriti Jóns Sigurðssonar í Steinum 1662-64)“
Hér að framan er blandað saman, annars vegar sóknarlýsingum og þjóðsögum. Margir taka sannleiksgildi hins fyrrnefnda oftar framm yfir hið síðarnefnda, en þótt ótrúlegt megi ber hvorutveggju ótrúlega oft saman þegar kemur að áþreifanlegum minjastöðum, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Hér að ofan má t.d. sjá opið á Bjargarhellisskjóli, en skv. sögnum ætluðu Selvosgbúar þangað að flýja léti „Tyrkinn“ sjá sig aftur eftir 1627.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg. 1930-1931, bls. 76.
-Fréttaveitan, fréttarbréf Hitaveitu Suðurnesja, 150. tbl., 7. árg., 1. nóv. 2000, bls. 4-5.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Fornigarður

Í ritinu „Árnesingur VII“ árið 2006 er grein um Fornagarð í Selvogi eftir Bjarna F. Einarsson, „Garður er grannna sættir“. Tilvísun þessi er sótt í Jónsbók.
Fornigardur-559Greinin er tilefni rannsóknar, sem Bjarni gerði á garðinum árið 8. – 18. júlí 2003. Þrátt fyrir að véfengja megi niðurstöðu rannsóknarinnar í nokkrum megindráttum kemur í greininni fram ýmiss fróðleikur um þennan merka garð.
Ljóst var að nýr Suðurstrandarvegur myndi rjúfa „Forngarð“? skammt frá nýrri heimreið að Vogsósum. Hann var því rannsakaður þar sem vegurinn átti að fara í gegnum garðinn.
Bjarni segir „Fornagarð“ liggja á milli Vogsósa og Strandar í Selvogi.

Guðnabær

Guðnabær.

Nákvæmar er að segja að umræddur vörslugarður liggi milli Hlíðarvatns í landi Vogsósa austur fyrir Nes (að Snjóthúsi/Snjóhúsi) í Selvogi líkt og segir í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1902. Snjóthús var þar sem nú er Nesviti (Selvogsviti). Að vísu eru hlutar vörslugarðsins misgamlir og garðinum hefur augsýnilega verið breytt í gegnum tíðina, m.a. til að verjast sandfoki, en megingarðurinn hefur varla náð í upphafi á milli síðarnefndu staðanna, enda ber hann þess öll ummerki.

Fornigarður

Fornigarður sunnan Vogsósa.

Hinn eldri garður er nú hrofinn að hluta, enda var talsvert grjót tekið úr honum á milli Strandar og Torfabæjar og Þorkelsgerðis og Guðnabæjar þegar vegagerð fór fram á þjóðveginum á Strandarhæð um miðja síðustu öld (Þórarinn Snorrason og Þórður Bjarnason). Bjarni getur reyndar í umfjöllun sinni um breytt hlutverk garðsins á mismunandi tímum, bæði vegna umhverfisins sem og tengingu við fleiri en eitt lögbýli í sveitinni.
„Fornagarðs er trúlega fysrt getið í miðaldaheimildum og því býsna merkilegur, Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss (Fornleifaskrá 1990).
Markmiðið með rannsókninni var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og kanna byggingu hans..
Garðar hafa verið hlaðnir um allt land frá upphafi byggðar í landinu.
Gerð þeirra og hlutverk hefur verið með ýmsum hætti en eitt eiga þeir allir sameiginlegt og það er að allir eru þeir gerðir úr jarðefnum, þ.e.a.s. grjóti, torfi, mold og öðrum jarðvegi…“.
Vogsos-37Í Grágás og Jónsbók eru ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæðin átti að ná meðalmanni í öxl. Garða skyldi hlaða í fyrsta lagi á vorönn þegar mánuður var af sumri.
Árið 1776 kom tilskipun er fól m.a. í sér að girða skyldi tún með torf- eða grjótgarði verði því við komið.
Fornigardur-552„Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju áruð 1275. Þar segir m.a.: „Sex vætter æ huert land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida með slijku sem rekur“ (Íslenskt fornbréfasafn 1893, bls. 124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns (1769-1859) til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818. Í lýsingu Jóns segir svo um garðinn: „Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa misfóst verid/ með læstu Hlídi að Lógbýli hvóriu;; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í selvogi og Deidi þar 1576…
Fornigardur-552Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidgaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, í Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, að sógn Manna“ (Frásögum um fornaldaleifar 1817-1823 (1983) bls. 228).

Fornigarður

Fornigarður.

Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar er hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um þessi vísa:
Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit
“ (Sýslu og sóknarlýsingar, Árnessýsla, bls. 226-227).
Vogsos-29Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar,  virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá fyrir Vogsósa, ártal vantar).
Brynjúlfur Jónsson nefnir garðinn ekki þessu nafni í grein sinni um athuganir sínar í Gullbrungusýslu. Hann kallar hann einungis aðalgarðinn (Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903, bls. 51-52). Kannski festist nafnið við garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt með þjóðsagnablæ.
Vogsos-30Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi þar verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingu séra Jóns Vestmanns hér að ofan…
Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örfoka, sandorpið og lítt gróið. Víða sér í bera hraunhelluna. Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðina þar hjá.
Einkennandi fyrir landslagið á svæðinu eru misháir hólar, lægðir og lautir með einstaka grónum þúfum þar sem kyrkingslegur gróður leynist á stöku stað. Landið er afar þurrt og djúpt virðist vera á grunnvatn. Eina ferskvatnið sem Vogsos-51finnst í nágrenninu er Hlíðarvatn og ósinn sem úr því rennur til sjávar.
Rannsóknin á Fornagarði fólst í að grafa tveggja metra breiðan skurð þvert á garðinn. Fyrir rannsókn stóð aðeins einföld, u.þ.b. 0.45 metra há og u.þ.b. 0.40 metra breið grjóthleðsla upp úr sandinum þars em vegurinn átti að fara yfir. Þessi hleðsla var áberandi illa hlaðin og engar líkur á því að hún væri hluti af fornum hleðslum sem gætu verið allt að 700 ára.
Einungis nánasta umhverfi garðsins var kannað. Engin mannvistarlög fundust, en nokkur gjóskulög sáust undir garðinum sem ástæða þótti til að kanna frekar. Var jarðfræðingur fenginn til að kanna gjóskuna sérstaklega og reyna að fá á hreint hvort grunur um að undir garðinum Vogsos-32mætti sjá H1 gjóskulagið (Hekla 1104) væri réttur.
Heildarhæð garðsins eftir uppgröft var 1.66 metrar. Þar af var 1.1. metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalega garðinum. Vantaði trúlega eitthvað á hæðina eins og hún hefur verið þegar garðurinn var og hét. Mesta breidd hans neðst var 0.96 metrar. Garðurinn mjókakði upp og var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans.
Vogsos-33Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinu 1104 (Bryndís G. Róbertsdóttir, Skýrsla um fornleifarannsóknir sumarið 2003; Bjarni F. Einarsson).
Jarðvegssiðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226.
Vogsos-34Munnmæli og sagnir herma að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við Ósinn. Nú stendur bærin hins vegar við útfall Óssins hjá Hlíðarvatni. Í upphafi hét bærinn Vogur eða Vágr (Landnámabók) og svo virðist hann heita árið 1275 þar sem Fornagarðs er fyrst getið [??]. Í máldaga Strandarkirkju árið 1367 er nafnið hins vegar Vogshús og aftur í máldaga sömu kirkju upp úr 1570 (Íslenskt fornbréfasafn III, bls. 212). Nú á dögum heitir bærinn Vogsósar. Hugsanlega eru Vogsos-35þessar nafnabreytingar eitthvað tengdar flutningi bæjarins þótt telja megi að breytingin hafi ekki orðið fyrr en eftir að bærinn var fluttur. Breytingin hefur þá væntanlega orðið eitthvern tímann á árabilinu 1275-1367.
Fornigarður gæti hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (Vágs) og þann nýja eftir flutninginn og þannig umlukið bæði gömlu túnin og þau nýju. Túnin lifðu gamla bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði verið fluttur. Garðurinn er býsna langt frá bæjarstæðunum og afar umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag. Meginhlutverk hans hefur vafalaust verið að vernda tún Vogsósa fyrir ágangi sandsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í selvogi eru mögulegar ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinnn var gleymdur og Vogsóasr fluttir á núverndi stað. Bogadreginn garðurinn [yfir að Strönd] er líkur þeim túngörðum sem þekktir eru frá fyrstu öldum byggðar í landinu og bendir helst til þess að hafa legið utan um eitt býli.

Fornigarður

Fornigarður.

Þannig voru t.d. túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær eða fjær býlunum. Þegar viðbæturnar við Fornagarð voru komnar á það stig að þær tengdust öðrum túngörðum annarra býla við Selvoginn má tala um að um alla byggðina hafi verið einn garður.
Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120-1226.
Vogsos-37Um 1104, eða nokkru fyrr, verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún fyrir þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um gömlu og nýju tún Vogsósa hvort sem það hefur verið gert fyrir flutninginn á bænum eða á eftir.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. [Þórarinn á Vogsósum, f: 1931, nefnir garðinn jafnan Gamlagarð]. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við í seinni tíð með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað til verksins enda ekki þörf á því.
Vogsos-37Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þótt eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans.
Trúlega voru garðhleðslur eitt af stærstu verkum sem samfélag manna tók sér fyrir hendur á þjóðveldistímanum og lengi síðan. Um þær giltu strangar reglur sem kváðu á um skyldur manna og viðurlög ef þeim var ekki hlýtt. engar framkvæmdir voru jafn  viðamiklar, nema ef vera skyldi stærri kirkjubyggingar. Líkja má garðhleðslum þjóðveldistímans við vegagerð nútímans. Umfangið var líklega svipað og kostnaðurinn sömuleiðis“.
Þegar framangreind rannsókn á „Fornagarði“ er skoðuð vaknar a.m.k ein spurning; beindist rannsóknin virkilega að hinum eiginlega Fornagarði eða var bara

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

um einhvern annan og yngri garð að ræða?
Þegar uppdrátturinn hér að framan er skoðaður má sjá að um nokkur garðlög er um að ræða á svæðinu millum Strandar og Vogsósa. Augljóst er að garðurinn liggur til norðurs austan Strandar þar sem austurgarðurinn frá Snjóthúsi/-um kemur að honum þvert ofan við gömlu byggðina í Selvogi (sjá meðfylgjandi uppdrátt ÓSÁ).
Í rannsókninni er gengið út frá því að Fornigarður liggi á milli Strandar og Vogsósa, en var það svo? Þegar garðlögin þarna á millum voru gengin daglangt komum í ljós miklar efasemdir um að svo kunni að hafa verið í upphafi.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Stórhól sameinast tveir garðar (hnit:6350460-2141926); innri garður og ytri garður. Sá ytri er greinilega veigaminni (sá er kemur við sögu rannsóknarinnar). Sjá má þessa greinileg ummerki á klapparhæðum og holtum þar sem jafnan er einungis um eina steinaröð að ræða. Þessi garður liggur hins vegar alla leið yfir að Vogsósum og lá, þrátt fyrir strokleðrun (túnasléttun) ofan fjárhúsanna á Vogsósum II, alla leið niður að Imbukofahól og endar í Hlíðarvatni skammt neðar. Athyglisverðar minjar eru austan við þennan vörslugarð skammt ofan túnmörkin á Vogsósum; tvær fornar, nú grónar, fjárborgir með gerði umleikis. Annarri fjárborginni, þeirri syðri, hefur greinilega síðar verið umbreytt í stekk, en þó má enn sjá grjótleifar hinnar eldri fjárborgar umleikis.
Hinn grjótgarðurinn er augsýnilega veigameiri, bæði að breidd og hæð. Telja verður hann eldri en hinn efri af tveimur ástæðum; hann er nær hinni fyrstu byggð og meira er í hann lagt. Tilgangurinn fyrir tilurð hans virðist hafa verið annar en þess efri, þ.e. að halda búfé innan hans eða utan. Efri garðurinn virðist hins vegar einungis hafa verið varnargarður, bæði vegna breytinga á búsetu (bærinn Vágr er fluttur upp að ósum Hlíðarvatns móts við Nauthólma (Vaðhóll)) og breyttri þörf á að varsla svæðið fyrir búfé (kindum og kúm). Nýlegri álagshleðslan ofan á fornan garðinn hefur að öllum líkindum orðið til vegna varnaraðgerða sandfokinu á 13. öld og síðar.
Vogsos-39Þegar svæðið var skoðað af nákvæmni kom a.m.k. þrennt áður upplýst í ljós; 1. leifar af garði, sem hefur verið sértaklega mikill umleikis, eru til vestan við „upplýstan“ vörslufornagarð er framangreind rannsókn beindist af, 2) fornleifar, sem eru ofan við tún Vogsósa II, virðast hvergi skráðar (tvær grónar fjárborgir þar sem annarri (þeirri syðri) hefur á einhverjum tíma verið breytt í stekk), og 3) hvergi er getið leifa beitarhúsa (sauðahúsa) á ósamótum affalls Hlíðarvatns frá því um aldamótin 1900. Að sögn Þórarins Snorrasonar (f. 1931) bónda á Vogsósum hlóð afi hans þessi tilteknu hús skammt ofan þar sem nú heitir Baðstofuhella. Að sögn Þórarins er Baðstofuhellan hæsti beri klapparhóllinn undan strandlandinu austan ósa affallsins.
Þar hafði hann Vogsosar-37oftlega setið í sprungu í hólnum daglangt og dundað sér við að skjóta fugl. Hins vegar væri augljóst, þegar hugmyndir eru uppi um að landnámsbýlið Vágr hafi verið þar, að það gæti vel verið sennilegt því á hans stuttu æfi einungis hafi sjórinn þá og þegar brotið mikið land af strandlengjunni frá því sem áður var.
Lágur hóll er skammt austan fyrrnefndra beitarhúsatófta, nánast niður á ströndinni. Í honum virðast vera mannvistarleifar.
Hvað sem allri umfjöllun um Fornagarð líður virðast (ekki síst að teknu tilliti til sambærilegra garða annars staðar, t.d. í Húshólma og Óbrinnishólma (þar sem einungis er í fornleifaskráningu getið um „fjárborg“, en hvorki topphlaðnar leifar húss né forna garða) vera miklar líkur til þess að vestari garðurinn sé eldri en sá er grafið var í títtnefndri rannsókn.

Vogsos-40

Rannsóknin, sem slík, stendur vissulega undir sér með tilheyrandi óþarfa kostnaði fyrir Vegagerðina og með samþykki Fornleifa-verndar ríkisins (þar sem enginn hjá stofnunni virðist nokkru sinni hafa litið nauðsynlega rannsókn gangnrýnum augum).
Niðurstaðan skiptir hins vegar mestu máli; framangreind rannsókn var nauðsynleg vegna gildandi laga og krafna þar af lútandi og var í rauninni mikilvæg að teknu tilliti til aðstæðna þar sem kanna þurfti þá fornleif er vegagerðinni var ætlað að spilla. Ef einhver þekking og dugur (fjármagn og vilji) væri fyrir hendi hjá Fornleifavernd ríkisins myndi stofnunin láta framkvæma fornleifarannsókn á hinum eiginlega Fornagarði, þ.e. garðinum er nær frá Snjóthúsi að Stórhól, vestan fyrrnefnds vörslugarðs og sunnan núverandi Suðurstrandarvegar. Ef af verður mun það verða tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Sjá meira um Fornagarð/Gamlagarð/Langagarð HÉR.

Heimild:
-Bjarni F. Einarsson, „Garður er grannasættir“, Árnesingur VII 2006, bls.205-230.

Fornigarður

Fornigarður við Nes.

Selvogsheiði

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu frá Strandamannahliði neðan Strandardals, efst í Selvogsheiði, um Vörðufellsmóa og Stóraflag niður að gatnamótum Fornugötu og Útvogsgötu ofan Skálavörðu vestan Strandarhæðar. Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948, 49. árgangi.
Selvogsgata-552„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga. Þessari aðalleið Selvogsmanna, Grindaskarðaleið, skal nú lýst hér, eftir því sem föng eru á, svo og getið þeirra örnefna, sem nálægt henni eru, og nokkurra fleiri, þótt fjær liggi. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.“
Selvogsgata-553Hér er hlaupið yfir lýsingu leiðarinnar frá Hafnarfirði að Strandardal ofan Selvogsheiðar því einungis er ætlunin að feta götuna þaðan niður og áleiðis að Skálavörðu á Strandarhæð þar hún mætir Útvogsgötu. Þar eru suðurmörk Selvogsheiðar (Þórður Bjarnason frá Bjargi í Selvogi). Gatnamótin eru skammt norðan Skálavörðu, þar sem Fornugötur mæta fyrrnefndu götunum. Skal því drepið niður í lýsingu Ólafs þar sem hann er að koma niður í strandardal.
„Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum.“
Selvogsgata-554Hér er Ólafur kominn að Strandarmannahliði á fjárgirðingunni undir fjöllunum, efst í heiðinni. Þaðan er ætlunin að ganga að þessu sinni og fylgja þá Selvogsgötunni, eins og fyrr segir, um Vörðufellsmóa og Stóraflag þar sem gæta þarf vel að því að fara ekki út úr götunni sökum landeyðingar.

„Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði. Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Selvogsgata-563Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir.
Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.

Selvogsgata-555

Ég get ekki gengið fram hjá að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða. Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eftir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.“

Selvogsgata-556

Hér sleppir Ólafur tóftum selstöðu í heiðinni, en Selvogsgatan liggur niður með þeim að austannverðu. Þetta eru grónar tóftir, en þó sést móta fyrir í þeim þremur rýmum. Suðaustan við tóftirnar er grafinn brunnur og skammt vestsuðvestan við hann má sjá mosagrónar hleðslur stekks. Ekki hefur verið hægt að tengja þessar minjar við neina heimild um sel í heiðinni, en telja má líklegt að það hafi verið frá einhverri hjáleigu Strandar því þær voru nokkrar og enn sést móta fyrir ofan og austan við kirkjuna í Selvogi. Strandarselið er hins vegar upp undir Svörtubjörgum og hefur bæði verið þar um langan tíma og ríkmannlegt. Þetta sel við Selvogsgötuna virðist hafa verið þarna í tiltölulega skamman tíma, sennilega seint á 18. eða byrjun 19. aldar (eftir að jarðabók ÁM var rituð).
Í dag (2012) gæti óvönum þótt erfitt að fylgja götunni þar sem vatn hefur á þessum kafla heiðarinnar grafið hana í sundur auk þess sem gróðureyðingin er þar umtalsverð. Vanir menn ættu hins vegar ekki að eiga í erfiðleikum að fylgja götunni þrátt fyrir þetta.
Selvogsgata-557„Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar.“
Skv. upplýsingum Þórðar Bjarnasonar heita Vellir austan Skálavörðu. Norðaustar er Strandarhæð. Efst í henni er hóll og gerði norðvestanundir honum. Þar var ætlunin að rækta upp gerði um aldarmótin 1900, en ekkert varð af því.
„Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ [Útvogsgata].
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn.
Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.

Eftirmáli

Selvogsgata-558

Á Grindaskarðaleið var það, að fundum mínum og Selvogsmanna bar fyrst saman, og eru margir þeirra funda, þótt oftast væru stuttir, mér að mörgu leyti minnistæðir. Tildrög voru sem hér segir: Kringum síðustu aldamót var ég oft á ferð um fjöllin vestan Grindaskarða. Kom það þá nokkrum sinnum fyrir, að ég reið fram á eða mætti einum eða fleiri mönnum, sem voru með hesta undir klyfjum, stundum bar mig þar að, sem þeir voru að æja, — voru að hvíla sig og hesta sína. Þetta voru Selvogsmenn. Það gátu ekki aðrir verið, svo fremi að það væru ekki útilegumenn, en ég mun þá hafa verið hættur að trúa á tilveru þeirra, og var því ótti minn við þá alveg horfinn. Þó komu mér ósjálfrátt í hug sagnir um útilegumenn, þegar ég komst fyrst í kynni við Selvogsmenn þarna í fjöllunum. Ekki var það samt af því, að þeir væru svo ógnarlegir, nei, síður en svo, þeir voru bara eins og fólk er flest.

Selvogsgata-559

Það, sem mér fannst einkennilegast við þessa menn og ferðalög þeirra, var víst aðallega það, að þeir voru þarna á ferð, þar sem mjög lítil von var mannaferða, og voru ýmist að koma ofan af fjöllunum eða fara til fjalla. Oft fylgdist ég með þeim nokkurn spöl eða staldraði við hjá þeim, þegar þeir voru í áningarstað. Þjóðlegir voru þeir og viðræðugóðir. Engir voru þeir yfirborðsmenn — en voru það sem þeir sýndust og oftast vel það. Ég var forvitinn og spurði margs, spurði um daginn og veginn, spurði hvernig væri hinum megin við fjöllin, hvernig sveitin þeirra liti út, um það langaði mig eitthvað að vita, því að ég vissi þá, að ég var fjórði maður frá Jóni Halldórssyni lögréttumanni að Nesi í Selvogi og Rannveigu Filippusdóttur, fyrri konu Bjarna riddara, sem fæddur var að Nesi 6. apríl 1763. Og ég spurði og spurði, og þeir svöruðu víst oft betur en spurt var. Eitt var það, sem ég tók eftir í farangri þessara manna, sem var öðruvísi en ég hafði séð hjá öðrum ferðamönnum. Það voru reiðingarnir á hestunum. Þetta voru ekki torfreiðingar, heldur voru þeir gerðir af rótum eða flækjum. Þeir voru léttir og lausir við mold og leir.

Selvogsgata-560

Og ég spurði enn. „Já, þetta eru melreiðingar, lagsmaður,“ var svarið. Stundum sá ég þá flytja í kaupstað ýmsa einkennilega hluti, sem stundum voru ofan á milli bagga eða í böggum. Þetta voru ýmsir munir úr skipum, sem strandað höfðu í Selvogi. Mér fannst skrítið að sjá þessa muni, sem tilheyrt höfðu útlendum skipum, vera nú bundna með ullarböggum sveitamanna, því að þá leit ég á Selvogsmenn sem eingöngu sveitamenn, en skýringin á öllu þessu var sú, að þeirra sveit lá bæði til sjávar og lands og Selvogsmenn voru og eru „synir landvers og skers.“ Ég komst líka að því, að bændur í Selvogi áttu allmargt fé og margir fjölda sauða og fallega, og það þótti mér nú ekki alveg ónýtt. Allt fannst mér þetta vera líkt einhverju ævintýri, og á sveit þeirra leit ég í huganum sem ævintýraland, og ekki grunaði mig þá, að ég ætti eftir að eiga heima í þessari sveit, en vel gæti ég trúað, að ég hafi einhvern tíma óskað þess, þó að ég muni það ekki nú.

Selvogsgata-561

Það má nú ef til vill segja, að þessi saga komi ekki við lýsingu þeirra fornu slóða, sem aðallega eru hér skráðar, ef verða mætti til þess að forða því, að þær féllu alveg í gleymsku og týndust og enginn vissi síðar meir, hverjir hefðu þær aðallega notað. Ég gat ekki skilið svo við þetta efni, að ég minntist ekki lítillega þeirra manna, sem markað hafa þennan veg, og þeirra litlu og afskekktu sveitar, Selvogsins.
Oft hljóta Selvogsmenn að hafa farið þessa leið með hesta sína, því að fáir fóru þar um aðrir en þeir. Sanna það bezt hinar djúpt mótuðu götur í hart grjótið á þessum fornu slóðum. Nú hefur þessi aldna leið Selvogsmanna lokið sínu ætlunarverki, og mun nú fá að „gróa yfir götur“, þar sem svo hagar landi, en langt verður þar til „hölknin gróa“ svo á leið þessari, að eigi sjáist merki mikillar umferðar.

Selvogsgata-564

Nú eru flestir þessir Selvogsmenn, sem ég fyrst kynntist, gengnir veg allrar veraldar. Nokkrir afkomendur þeirra lifa þar enn. Fáir hafa flutzt inn í sveitina. Fyrir 250 árum voru um 200 manns í Selvogi, — en nú munu vera þar um 60 manns, svo mjög hefur þessi sveit gengið saman, og er það af ýmsum orsökum, sem ekki verða raktar hér. Kynni mín af Selvogsmönnum á síðari árum hafa verið góð og engri rýrð kastað á þá eða sveit þeirra, frá því að ég fyrst átti samleið með þeim í fjöllunum, fyrir 40—50 árum. Hér brestur bæði rúm og getu til að lýsa Selvogshreppi, svo að gagn eða gaman væri að. Þó vil ég aðeins drepa á tvennt, sem þessi fámenna og afskekkta sveit hefur átt og á, sem enginn getur frá henni tekið, og það er Strandarkirkja og minningin um Eirík Magnússon, prest að Vogsósum, sem vígðist að Strönd árið 1667 og þjónaði þar í 39 ár. 

Fornagata-551

Kirkjan hefur svo að öldum skiptir staðið ein húsa á hinu forna höfuðbóli, Strönd, sem sandur og uppblástur eyddu ásamt fleiri jörðum í Selvogi. Munnmæli herma, að þegar Erlendur lögmaður Þorvarðarson bjó að Strönd á fyrri hluta og fram yfir miðja 16. öld og allt var þar með blóma, hafi það eitt sinn borið við, er smalamaður Erlends kom heim, að hann hafi stungið spjóti sínu niður, og komið sandur upp á því. Segir þá smalamaður: „Hér mun uppblástur verða.“ Hjó Erlendur hann þá banahögg og kvað hann ekki skyldi spá fleiri hrakspám. Spá smalamannsins hefur illu heilli rætzt. Strandarkirkja er löngu þjóðkunn fyrir það, hve vel hún „verður við“, þegar fólk leitar til hennar með áheit í ýmsum áhugamálum sínum.

 

Fornagata-552

Um Eirík á Vogsósum skal ekki fjölyrt hér. Sagnir af honum og kunnáttu hans er víða að finna og flestar í þjóðsagnastíl og hafa því víða flogið. Sennilegast er, að Selvogsmenn hafi á sínum tíma litið til Eiríks á Vogsósum með ótta og lotningu fyrir orð hans og athafnir, og er mér ekki grunlaust um, að eitthvað eimi eftir enn af trú á verk hans og ummæli, sem honum eru eignuð, svo sem um vörðurnar á Vörðufelli, sem áður er á minnzt, og segi ég ekki þetta Selvogsmönnum til lítilsvirðingar.“
Göngunni lauk, sem fyrr sagði á Strandarhæð þaðan sem Fornugötunni efri var síðan fylgt til vesturs inn í Vogsósaland. Fyrrum hefur verið myndarleg varða við gatnamótin, en nú er hún einungis svipur hjá sjón. Fornagatan efri er vel greinileg. Áður hafði FERLIR fylgt götunni til austurs áleiðis að Hlíðarenda í Ölfusi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, 49. árg. 1943-1948, bls. 96-107.

Selvogsgata

Genginn Grindaskarðsvegurinn.