Tag Archive for: Suðurnesjabær

Faxi

Í Faxa  árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um „Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum„. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:

Friðrik Gunnlaugsson

„Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir.

Merkines

Merkines fyrir sunnan Hafnir.

Þennan dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?

Jamestown

Skip líkt Jamestown.

— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.

Ósar

Ósar – herforingjaráðskort 1903.

Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?

Sigurður B. Sívertsen

Séra Sigurður B. Sívertsen. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík) og Steinunnar Helgadóttur konu hans.

— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,“ sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.“

Hestaklettur

Hestaklettur. Hafnir í bakgrunni.

— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?

Reykjanesbær

Hafnir – Ankeri Jamestown; minnismerki.

— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?

Jamestown

Strandið – auglýsing.

— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.

Sandgerði

Ankeri Jamestown við Sáðgerði í Sandgerði.

— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.

Hafnir

— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.

Kotvogur

Kotvogur.

— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,“ sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.

Hafnir

Hafnir.

— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – byggðir úr timbri Jamestown.

— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.

Jamestown

Í byrjun desember 2018 var vígt við anddyri Safnahússins minnismerki um síðustu og um leið öflugustu botnfestar sem lagðar voru á botni Vestmannaeyjahafnar árið 1920. Theódór S. Ólafsson, vélstjóri og fyrrv. útgerðarmaður hafði frumkvæði að verkinu. Keðjan er frá strandi Jamestown.

En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
Jamestown— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.

Jamestown

Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi“ eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin“. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjórur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó.

— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
Jamestown— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
Vestmannaeyjar
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.

Jamestown

Húsið var byggt úr timri úr Jamestown.

— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?

— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli.

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?

— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..

Jamestown

Hljóðfæri smíðað úr timbri úr Jamestown.

— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.

Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.“ – Hallgrímur Th. Björnsson.

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.
Jamestown

Leira

Njáll Benediktsson skrifar um „Fyrsta íbúann á Suðurnesjum“ í Faxa árið 1989:

Steinunn gamla

Skáli.

„Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka“ var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka“. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.

Steinunn gamla

Steinunn gamla.

Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Steinar í Leiru
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.

Leiran

Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.“ – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Garður

Í „Fornleifaskráningu í Garði á Reykjanesi: Verndarsvæði í byggð“, sem gerð var árið 2019 má m.a. lesa eftirfarandi um bæi og nokkrar merkar minjar:

Sögubrot

Garður

Garður – kort.

Í Landnámu er sagt frá því að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskagann sem og Rosmhvalanesið allt. Þá segir frá því að hann hafi gefið frænku sinni Rosmhvalanes „allt fyrir útan Hvassahraun“ að gjöf. Ólíklegt þykir að hún hafi hafið þar búskap og fátt vitað um nákvæmt upphaf byggðar á því svæði.
Með nýjum lögum árið 1905 um sveitastjórnir á Íslandi um aldamótin 1899-1900 fóru íbúar Keflavíkurkauptúns fram á skiptingu lands í Rosmhvalahreppi til helminga. Annar helmingurinn skyldi hljóta nafnið Gerðahreppur og þannig var stofnun hans til komin þann 15. júní árið 1908.
Fyrir árið 1200 mun hafa verið mikið um kornrækt og kvikbúskap á svæðinu samhliða sjávarútvegi. Hefur landið orðið fyrir hinum ýmsu náttúruhamförum síðan, þ.m.t. Reykjaneseldar og seinna, undir lok 17. aldar, olli kólnandi loftslag rýrnandi landkostum. Urðu skilyrði til kornræktar bág og varð þá sjávarútvegur helsti nytjabúskapur Garðsins. Sem merki um akurrækt og búskap standa leifar af hinum svonefnda Skagagarði. Talið er að sveitarfélagið hafi dregið nafn sitt af þeim akurgarði.

Kapp sjómanna á fiskimið

Garður

Mikill uppgangur átti sér stað í útgerð fyrstu tvo áratugi 20. aldar í Garði. Dró snögglega úr honum á 3. áratugnum vegna erfiðra hafnaraðstæðna og fækkaði íbúum samhliða. Vélbátaútgerð kom frekar seint í sveitarfélagið vegna þessara aðstæðna og hófst hún ekki fyrr en eftir 1930. Þá var þorpsbyggð farin að taka á sig mynd með auknum atvinnumöguleikum og margt var um manninn á hafnarsvæðinu við Gerðavör. Þess má þó geta að stærri bátar komust illa að bryggju í Gerðavör, þrátt fyrir hafnarframkvæmdir á árunum 1943-47. Sigldu þeir úr höfn frá Sandgerði og Keflavík.
Framfarir á sviði atvinnu og í byggð áttu sér stað með komu hersins á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Hernum, sem hélt til á Reykjarnesi, vanhagaði um flugvöll nær búðum og var þá tekið til höndum við gerð flugvallar á Garðskaga sunnan af vita. Mikil breyting varð á atvinnulífi og menningu í Garði við komu hans og tók bærinn stórt stökk í átt að myndun þess sveitarfélags sem Garður er í dag.

Umhverfi

Garður

Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030 er staðarháttum á svæðinu lýst svo: „Einkennist [sveitarfélagið] af grónu landi á láglendi. Staðurinn býr yfir víðáttu og sýn til ystu sjónarrandar úti á hafi og glæsilega fjallasýn. Landið stendur fyrir opnu hafi og gætir bæði ágangs sjávar og vinda um allt landið. Sterkur þéttbýliskjarni einkennir sveitarfélagið ásamt dreifðari byggð út á Garðskaga“.
Eins og áður hefur komið fram var mikil gróðursæld á svæðinu og akurrækt stunduð fyrir Reykjaneselda á 13. öld. Leifar þess tíma má sjá í korngörðum á víð og dreif um svæðið. Einnig er þar Skagagarðurinn, 2 kílómetra hlaðinn veggur sem notaður var til þess að verja akrana frá búfé. Má sjá mynda lítillega fyrir honum enn í dag.
Minjar á borð við gömul hússtæði og vindmyllustanda má finna svo gott sem ósnertar á við og dreif um svæðið líkt og minnisvarðar um það sem áður var.
Ósnert og grýtt náttúra fléttast saman við byggð og slegin tún. Allt er þetta vafið strandgarði og ólgandi hafi sem á stóran þátt í atvinnulífi staðarins. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir svo: „Túnin spillast af sjóargángi sem garðana brýtur, item af sandi, sem sjór og vindur ber á, og af leysingarvatna ágángi um betrartímann.“

Þróun byggðar

Garður

Garður – upphafsstaður sögugöngu um Garð.

Til er skrásetning mannfjölda allt frá árinu 1703, þegar fyrsta manntal var tekið og þá bjuggu í Garði 218 manns. Þéttbýliskjarni í Garði tók þó ekki að myndast fyrr en skömmu eftir aldamótin 1900, er afli fór að aukast í sjó og vertíðina tók að lengja.
Svo virðist þó vera að sjórinn hafi verið stundaður í Gerðahreppi allt frá landnámi, frá því að vermannastöð, á vegum Steinunnar frænku Ingólfs, reis í Hólmi.
Árið 1896 fluttist útgerðarmaður að nafni Finnbogi Lárusson að Gerðum. Tók hann við af Árna Þorvaldssyni á Meiðastöðum sem hinn mesti útvegsmaður Garðs. Flutti hann hús til Suður-Gerða er áður hafði staðið í Njarðvík og verið í eigu H.P. Duus. Árið 1907 festi Milljónafélagið kaup á verslun Finnboga og hélt rekstri áfram næstu ár.

Garður

Garður, bátar í vör.

Í bókinni Gerðahreppur 90 ára er fjallað um að frá stofnun sveitarfélagsins árið 1908 megi greina þrjú skeið tengd búsetu og atvinnu. Fyrsta skeiðið má marka frá árunum 1908-39. „Þessi ár voru að mörgu leyti skeið erfiðleika og kyrrstöðu, ekki síst í atvinnulífinu.“ Mikinn afla var að hafa úr hafi og olli það aukinni aðsókn utanaðkomandi sjómanna á miðin í Garðsjó. Þurftu Garðsmenn að etja kappi við þennan straum sjómanna og vegna aukinnar samkeppni varð útgerðin sífellt minni og hafði þetta mikil áhrif á vöxt sveitarfélagsins. Á árunum 1920-30 fækkaði heimilisföstum í Gerðahreppi um 100 manns og má rekja það til samdráttar í sjávarútvegi.
Þó að íbúafjöldi hafi verið töluvert meiri við stofnun sveitarfélagsins og þéttbýliskjarni farinn að taka á sig mynd, þá var búseta enn á sveitabýlum.
Þétting bæjarkjarnans jókst upp úr 1920 og þorpsmyndun hófst í landi Gerða og upp af Gerðavör. Af sextán heimilum skráðum árið 1920 voru húsráðendur flestir sjómenn, að undanskildum kaupmönnum tveim og barnaskólakennara að nafni Einar Magnússon.
Séra Sigurður Brynjólfsson Sívertsen stóð fyrir stofnun barnaskóla í Gerðum, árið 1871. Aðdragandinn að stofnun skólans var nokkuð langur, en það var fyrst upp úr 1860, að séra Sigurður fór að ræða við héraðsbúa um stofnun hans. Presturinn lagði sjálfur fram fé til byggingar skólans auk þess sem hann gekk á undan góðu fordæmi í því að safna fé til skólans bæði til byggingarinnar og til þess að hægt væri að halda skólastarfinu áfram. Kaupmenn í Keflavík gáfu fé, en mestu munaði það sem bændur hér gáfu. Það vildi svo vel til að vel áraði, svo að flestir gátu gefið eitthvað fé, og svo unnu margir kauplaust við bygginguna.

Garður

Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gengst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.
Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
GarðurHætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir. Frá 1887 til 1890 var skólinn í leiguhúsnæði í Miðhúsum en fram til 1911 var svo skólinn til húsa að Útskálum og var byggt timburhús yfir hann og stóð það yst á Útskálahólnum. Árið 1910 var svo hafist handa við byggingu skólahúss í Gerðalandi, á stað er skólinn stendur enn í dag. Byggt var við skólann sjö sinnum þar til nýtt húsnæði skólans var tekið í notkun 2010.
Sumarið 1921 var hafist handa við vegagerð á milli Keflavíkur og Garðs sem lauk árið 1922. Fyrsta bifreiðin í Garði var í eigu Sigurgeirs Ólafssonar á Nýjabæ og festi hann kaup á henni árið 1923. Hófust þá flutningsbílsferðir á milli Reykjavíkur og Garðs. Í framhaldi af því var tekið til handa við gerð vegar á milli Út-Garðs og Sandgerðisbæjar. Lauk þeim framkvæmdum árið 1924.
Annað skeið má marka í sveitarfélaginu sem hersetutímabilið í Garði. Breski herinn kom íbúum Garðskaga skýrt fyrir sjónir er hann sigldi meðfram Reykjanesinu vorið 1940. Orrustuflugvélar voru staðsettar á Reykjanesskaga, en flugvöllinn vantaði.
Þá var hafist handa við gerð Skagavallar og með framkvæmdum sem slíkum jókst framboð atvinnu til muna.
Kynding húsa var með ýmsu sniði til ársins 1930. Allt frá grútarlömpum kyntum með fisklýsi, til gaslukta fram á 4. áratug þegar fyrstu vindmyllurnar fóru að rísa. Voru þær ýmist innfluttar eða heimasmíðaðar.

Býli og hús
Hús sem eru 100 ára og eldri og þ.a.l. friðuð eru:
• Unuhús, Gerðavegur 28a, 1890
• Efri Kothús, Kothúsavegur 10, 1897
• Kothús, Kothúsavegur 12, 1897
• Akurhús I, Akurhús 1, 1912
• Lambhús, Gaukstaðarvegur 6a, 1920
• Þórshamar, Gerðavegur 33, 1912
• Jaðar, Jaðar, 1905
• Efri Rafnkelsstaðir, Rafnkelsstaðavegur 8, 1910
• Réttarholt, Réttarholtsvegur 17, 1912
• Krókvöllur, Skagabraut 6, 1905
• Nýibær, Skagabraut 44a, 1911
• Sjávargata, Skagabraut 72, 1905
• Blómsturvellir 76, Skagabraut, 1920
• Útskálar, Útskálar, 1890

Hús sem byggð eru fyrir árið 1925 eru:
• Lambhús, Gaukstaðarvegur 6a, 1920
• Guðlaugsstaðir, Skagabraut 41, 1920
• Blómsturvellir 76, Skagabraut, 1920
• Hólavellir, Skagabraut 86, 1920
• Skuld, Akurhúsavegur7,1924
• Varir, Vararvegur 14, 1920

Hús sem byggð eru á tímabilinu 1926-28
eru:
• Meiðastaðir, Meiðastaðavegur 7a, 1928
• Meiðastaðir, Meiðastaðavegur 7b, 1928
• Miðhús, Miðhús, 1926
• Neðra Hof, Skagabraut 72a, 1927
• Varir 1, Vararvegur 9, 1926

Garður
Þriðja skeiðinu er lýst sem „vaxtarskeið og velmegun“ í afmælisbókinni Gerðahreppur 90 ára. Táknar það tímabilið frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og að árinu 1998, er bókin var gefin út. M.a er fjallað um fjölbreytileika á svæðinu, en eftir komu hersins breyttust atvinnuhættir og samgöngur höfðu batnað til muna og með því tengt íbúa Garðs betur við nágrenni sitt. „…Garðurinn, sem fram til þessa hafði verið næsta afskekkt útvegshérað, færðist nú nær hringiðu samfélagsins, ekki síst þeim nornakatli mannlífsins, sem stöðugt kraumaði á Miðnesheiðinni.“ Mannfjöldi jókst hægt og reglulega og er íbúafjöldi tæplega 1500 manns í dag, en var 442 við upphaf heimsstyrjaldarinnar.
Kjarni byggðar myndaðist smám saman við Gerðavör með atvinnustarfsemi og Gerðaskóla og úr varð Gerðahverfið. Í nýlegu aðalskipulagi segir: „Þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir aldamótin 1900 einkennir sveitarfélagið ásamt dreifðari byggð út á Garðskaga og til suðurs. Í daglegu tali er Garði skipt í Inn- og Út-Garð en á milli þeirra er Gerðahverfið.“ Skipulag bæjarins var lítið sem ekkert fyrr en í febrúar árið 1954. Fyrir þann tíma réðist skipulagið mest af hentisemi og landsvæði hvers og eins. Fyrsti skipulagsuppdrátturinn var svo lagður fyrir árið 1956.

Lambastaðir (býli)

Garður

Lambastaðir.

1703: konungsjörð. Dýrleiki óviss. 1847, 33 1/3 hdr. Bændaeign.
1563: Jarðarinnar er getið í Jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563. DI XIV, 155.
“Sagt er, að fyrr á öldum hafi Hof og Lambastaðir verið ein jörð, Lambastaðir, en síðan verið skipt milli tveggja systra. Hof á heldur meira land en Lambastaðir.” Ö-Garðskagi, 1.
1703: “Túninu spillir vatn, sem um veturinn liggur á, item spillist það af sandi og sjávargangi, þegar stórfæður brjóta garðinn, og þarf hönum með stóru erfiði og athuga við að halda. Engjar eru öngvar. Útigangur í lakasta máta og nær enginn sumar og vetur, nema hvað fjaran er, þegar þáng, söl eður murukjarni og brúk rekur upp fyrir sjávargangi. Vatnsból er ekkert nema það eitt, er í annarar jarðar landi þarf til að sækja, bæði lángt og erfitt, og bregst þó tíðum bæði sumar og vetur.” JÁM III, 77.

Garður

Lambastaðir túnakort 1919.

“Sjávargangur hefur so merkilega grandað jörðinni, að bærinn er fyrir þann skuld færður þángað sem nú stendur hann, og gjörist að því æ meir og meir, so valla má óhætt kalla pening og heyjum þar sem nú eru,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Í örnefnalýsingu segir ennfremur: “Rétt innan við gamla bæinn á Hofi er Lambastaðahóll. Þar stóð gamli bærinn á Lambastöðum, sá sem fluttur var undan sjó fyrir 1703 eða ef til vill annar yngri, því sjórinn hefur herjað hér á landið af miklum móð. Nýi bærinn á Lambastöðum er hinsvegar ofarlega í landareigninni, beint upp af gamla bænum,” segir í örnefnalýsingu. Elsta bæjarstæði Lambastaða, þar sem bærinn stóð fyrir 1703, er nú að öllum líkindum farið í sjó.

Garður

Lambastaðir.

“Lambastaðir eru líka að þokast undan sjónum. Þar er hærri hóll og snarbrattara í flæðarmáli [en á Hofi], með miklu húsarústa grjóti – og nokkrum arfagróðri, en engin sjógarður. Hóllinn (bæjarstæðið gamla) hæstur bak við húsið,” segir í athugasemdum á túnakorti frá 1919. Á túnakorti 1919 er sýnt eitt stórt hús með bíslagi til suðurs og 8 litlir kofar þar austan við, kálgarður sunnan við og a.m.k. 3 kofar og eitthvað sem gætu verið trönur við vörina vestan við. “Rétt innan við gamla bæinn á Hofi er Lambastaðahóll. Þar stóð gamli bærinn á Lambastöðum, sá sem fluttur var undan sjó fyrir 1703 eða ef til vill annar yngri, því sjórinn hefur herjað hér á landið af miklum móð. Nýi bærinn á Lambastöðum er hinsvegar ofarlega í landareigninni, beint upp af gamla bænum,” segir í örnefnalýsingu.
Bæjarhóll Lambastaða er um 180 m ASA við bæjarhól Hofs, fast sunnan við sjóvarnargarð. Síðast stóð tvílyft bárujárnsklætt timburhús á hólnum en það var rifið fyrir fáum árum (2007).
Bæjarhóllinn er fast sunnan við sjóvarnargarð. Hann er vaxinn sinu en sunnar eru slétt tún. Bæjarhólllinn er alls um 86×30 m að stærð, snýr austur vestur og er um 1,5 m hár. Við suðausturhorn hans er steyptur grunnur 029. Vestarlega á hólnum er skúr úr bárujárni og vegur liggur upp á hólinn úr suðri. Fjölmörg önnur mannvirki eru á hólnum sem er algróinn og mikil mannvist er þar undir sverði.

Skagahóll (Býli)

Garður

Skagahóll.

“Úr nefndum merkisteini á miðjum Skagahól nyrðri er markalína Lambastaðalands að sunnan bein sjónhendingarlína í suðurhorn skólahússins á Útskálum að merkisteini merktum og úr honum bein lína í Lónshúsahlið,” segir í Landamerkjabók Gullbringusýslu frá 1889 samkvæmt örnefnalýsingu.
Skagahóll er um 20 m suðaustan við Hólavelli. Hóllinn er á þeim stað þar sem Brynjúlfur Jónsson teiknar rústabungu á uppdrátt sinn af sáðreitunum á Garðskaga, sem birtur var í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903. Í grein Brynjúlfs segir: “Akurlönd hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum … takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítill hæð eða tóftabungu, sem er skammt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru.” Skagahóll og tóftabungan eru eflaust einn og sami staðurinn.
Skagahóll er klapparhóll í sléttu túni við íbúðarhúsið á Hólavöllum. Búið er að reisa styttu á hólnum og þar koma þrjár girðingar saman. Hóllinn er um 20×16 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er um 2-2,5 m hár. Dæld er í suðurhluta hólsins, líklega eftir útihús. Dældin er 3,6 x 1,3 m að stærð, 0,2 m að dýpt og opnast til suðurs. Í norðurhlið hólsins hans skín í bera klöppina. Enginn merkjasteinn er nú á hólnum en girt er úr honum til norðurs að Helgarétt. Engar hleðsluleifar eru á hólnum sem er gróskumikill og sker sig úr umhverfinu og greinilegt er að mannvist er hér undir sverði. Garðlag 080:106 liggur til austurs og vesturs að hólnum.

Hof (býli)

Garður

Hof – túnakort 1919.

1703 og 1847 er Hof hjáleiga frá Lambastöðum. “Sagt er að fyrr á öldum hafi Hof og Lambastaðir verið ein jörð, Lambastaðir, en síðan verið skipt milli tveggja systra. Hof á heldur meira land en Lambastaðir … Milli 1920 og ‘30 var nýbýlið Efra-Hof stofnað úr landi Hofs. Stendur sá bær enn ofar en nýi bærinn á Hofi. 1933 var íbúðarhúsið Grund reist í landi Efra-Hofs. Þar er enn búið, og fylgir því dálítill jarðarskiki.” Ö-Garðskagi, Hof, Lambastaðir, 5.
1703: “Fóðrast kann i kýr að helmíngi laklega. … Eldiviðartak af fjöruþángi í lakasta máta.” JÁM III, 78.
Tún 1919: Hof a 1,6 teigar, kálgarðar 3280 m2. Hof b 1,4 teigar (á víxl).
“Rústir gamla Hofs: 6 tættur og síðustu leifar af 2 kofum í sjógarðlagi, sem sjór grefur undan. Þar stóð timburhús Einars Jónss. Hreppstjóra áður fyrr og þurrabúð (Þórarins Pálss.), eyðilögð 1917. En bærinn sjálfur fluttur 1906, inn á túnið,” segir í athugasemdum á túnakorti frá 1919. Í örnefnalýsingu segir ennfremur: “Bærinn að Hofi stóð áður inn með sjónum inn af Helgarétt. Þar var mikill sjávargangur, og var því reistur nýr bær fjær sjó, þegar foreldrar Sigurbergs komu að Hofi. Eftir það var gamli bærinn aðeins þurrabúð. Var hann stundum kallaður Gamla-Hof til aðgreiningar frá nýja bænum. Nú er þessi þurrabúð ekki til lengur, en ennþá mótar fyrir tættunum. Inn undir baðstofuna hafði verið hlaðið holræsi, sem lá út í forina fyrir utan. Enn sést móta fyrir opinu á því.” Bæjarhóll Hofs er fast sunnan við sjóvarnargarðinn um 190 m austan við bæjarhól Lambastaða. Hóllinn er fast sunnan við sjóvarnargarð. Sunnan við hann er slétt grasflöt.

Garður

Hof – minjar.

Bæjarhóllinn er um 40×10 m stór og snýr austurvestur. Hann er um 2 m hár. Um það bil á miðjum hólnum er tóft. Hún er um 5×5 m stór, opin til suðurs. Hleðslur tóftarinnar eru um 0,6 m háar og allvíða sér í grjót í þeim. Tóftin er eflaust leifar þurrabúðarinnar sem var á bæjarstæðinu eftir að bærinn var fluttur. Í norðausturhorni bæjarhólsins er dálítil hólbunga, um 5×2 m stór og um 0,4 m há, leifar útihúss, þá sér móta fyrir útihúsi sem var sunnan við bæinn, sunnarlega á hólnum. Árið 2014 var göngustígur lagður meðfram sjóvarnargarði. Göngustígurinn er malbikaður en hlaðið er upp undir hann austur og vestur af bæjarhólnum og yfir hann að hluta en á um 20 m kafla hefur verið útbúin viðarbrú yfir hólinn í stað malbiks. Brú þessi hylur tóftirnar sem sáust 2007 svo aðeins sést torfveggur, um 11 m að lengd og 2 m að þykkt. Hann er mest um 1,3 m að hæð. Vestast á hólnum er tóft með tveimur hólfum. Tóftin er byggð utan í hólinn til norðurs, er um 10 x 6 m að utanmáli og snýr austur-vestur. Tóftin er torf- og grjóthlaðin og má sjá 6 umför grjóts í eystra hólfinu. Veggir tóftarinnar eru um 1,3 m að hæð mest. Vestara hólfið er um 5 x 2,5 m að innanmáli, snýr norður-suður og er opið til suðurs. Eystra hólfið er um 5 x 2 m að innanmáli, snýr norður-suður og er opið til suðurs. Suður af vestara hólfinu er dæld í hólinn, um 0,3 m að dýpt, sem virðist vera leifar eldri byggingar. Dældin er um 3 x 2 m að stærð og snýr austurvestur. Syðst í hólnum eru tveir steinsteyptir grunnar, sem líklega eru yngri en 1919.
Þar sem bærinn á Hofi stóð frá árinu 1906 er nú steinsteypt hús á litlum hól. Húsið er um 75 m sunnan við bæjarhól. Enn er búið í húsinu, það er ekki með kjallara. Á bæjarhólnum voru fjögur hús árið 1919 þegar túnakortið var gert, þau eru öll horfið. Umhverfis hólinn eru slétt tún. Hóllinn er um 18×10 m stór, snýr austur-vestur. Hann er lágur, um 0,4 m hár. Engar hleðsluleifar eða skýr ummerki eldri húsa eru á hólnum. Hugsanlega er hluti hússins frá 1906 en líklega hefur verið byggt við það í seinni tíð, að norðan og vestan. Það er steinsteypt með bárujárnsþaki. Gengið er inn í húsið á vesturgafli þess.

Hofsbrunnur (vatnsból)

Garður

Hofsbrunnur.

Brunnur er í túninu um 30 m vestan við bæ samkvæmt túnakorti frá 1919. Brunnurinn sést enn.
Brunnurinn er á sléttri grasivaxinni flöt. Lítil hólbunga er á sléttri flötinni. Hún er um 5×5 m stór og um 0,2 m há. Í henni miðri er járnhleri yfir brunninum.

Lambastaðafjárrétt (rétt)

Garður

Lambastaðarétt (Helgarétt).

“Þessi eru landamerki umhverfis Lambastaða og Hofs landareign: Úr merkistein á miðjum Skagahól nyrðri ræður bein stefna í norður í merktan stein á sjávarkampi 5 föðmum fyrir vestan Lambastaðafjárrétt, og sama stefna ræðu yfir fjöru á sjó fram,” segir í Landamerkjabók Gullbringusýslu frá 1889 samkvæmt örnefnalýsingu. Þar segir ennfremur: “Vestast í Hofslandi, milli vikanna, er Helgarétt (sama og Lambastaðafjárrétt) hlaðin úr fjörugrjóti. Hún er talin kennd við bónda, sem eitt sinn bjó á Lambastöðum. Sennilega hefur hún áður verið skilarétt fyrir hreppinn, en seinna aðeins heimarétt Lambastaða. Nú er hún ekki notuð lengur. Hún stendur enn uppi, en sjórinn hefur brotið af henni sjávarmegin.” Helgarétt er fast sunnan við sjóvarnargarðinn um 210 m vestan við bæ og um 20 m austan við akurreiti.
Réttin er á sléttri grasivaxinni flöt sunnan við varnargarðinn. Eitt stórt hólf er eftir af réttinni. Það er um 8×6 m stór og snýr austur-vestur. Hólfið er opið til norðurs að varnargarðinum en þar sem sjór hefur brotið af réttinni. Réttin er hlaðin úr ávölu fjörugrjóti og hleðslur hennar eru mest um 2 m háar. Malbikaður göngustígur liggur nú fast norðan við réttina.

Útskálar (býli)

Garður

Útskálar.

Um 1200. Staður. Getið í kirknatali Páls Jónssonar frá um 1200 – DI XII, 9.
[um 1270]: Útskálar eiga viðreka milli Útskálaóss og Skagaflesjar og 4/5 milli ássins fram undan borginni hjá Kirkjubóli og hjallsins á Fitjum. Útskálar eiga einnig þriðjung í viðreka milli Kölduhamra og Miðhólms og allan viðreka frá honum suður til Mjósyndis. ‘Jtem eigu vtskaler vatztokv j kroks brvnn ok halldi hvorertveggv brvnnenvm. Krokvr ok midhvs eiga tveggia skipa vpp satur j navsta holm. Jtem eiga vtskaler allar veidar sydvr j lambarif, enn krokvr ok midhvs. Enn kirkivbol ad svnnann. Enn fiskreka allan at miofa tanga. DI II, 77.
[um 1270]: Útskálar eiga þann þriðja af níu hlutum allan nema 17 hverja vætt úr þeim hlut sem Presthús eiga. Útskálar eiga einnig þriðjung af fjórða hlut og sjöttung af sjötta hlut, samtals 16,01 % af hval sem er meir en 12,5 vættir og rekur milli Æsubergs og Keflavíkur – DI II, 78-79.
17.12.1340: Selur Bjarni Guttormsson fjórðung í Útskálalandi ‘vmm framm aull þau akurlond sem Biarni keypti til vtskaala ok ein[n] karfa met atkierum ok ollum reida ok bäti’ Skálholtskirkju gegn því að staðurinn taki Hrómund son hans á æfilangan kost. Bjarni og Ingibjörg kona hans gefa einnig Pétri postula og heilögum Þorláki annan fjórðung úr Útskálalandi til æfinlegrar eignar – DI II, 734.
10.6.1370: J mote Þeim iiij bæium sem vndann Vtskaala kitkiu eru tekner leggur Biorn bonde kirkiunni ad Vtskalum jord er heiter j Vorum med tveimur kugilldum til æfinnligrar eignar – DI III 56-257. Máldagar 1363, 1397 og 1575 – geta í engu um fasteign – DI III, 256-257; DI IV, 104; DI XV 639.
5.8.1560: Gísli Jónsson Skálholtsbiskup veitir sr. Jóni Loptssyni Útskála sem ævinlegt beneficium – DI
XIII, 508.

Garður

Útskálar.

1703: 9 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús, ónefnd heima við staðinn, Vatnagarður og Naust, auk þess tvær hjáleigur í eyði sem höfðu verið heima við staðinn. Einnig höfðu Blómsturvellir/Snorrakot lagst í eyði um 1670, og Hesthús var eyðihjáleiga sem ekki var vitað hvar hafði verið. JÁM III, 79-84.
1703: Vatnsnautn á staðurinn í Króksbrunni, en Krókur þar í mót skipsuppsátur í staðarins landi fyrir tólfæring eður smærra. JÁM III, 79.
1839: 7 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús og Vatnagarður en Naust hafði farið í eyði 1782 – SSGK, 160.
1919: Tún 7,5 ha., garðar 2600 m2. 1703: Túnin spillast af sjóargangi, önnur í betra lagi, en önnur hættari sandi, sem sjór og vindur ber á, og af leysingavatna ágángi um vetrartímann. Engjar öngvar. Útigangur mjög lítill sumar og vetur. JÁM III, 79.
1839: Mælt er að staðarins tún hafi mikið af sér gengið, og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núleifandi elztu menn muna eftir grastóum fremst framan í fjöru, sem sýnir, að fyrr meir hafi allt það svið verið grasi vaxið og máske tún; hefir þá sjór ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú á brýtur fremst fram við fjörumál (þaragarð). SSGK, 160.
1839: Beitiland staðarins er lítið annað en á svonefndum Skaga, sem liggur fyrir sunnan Lambastaði, á milli Út-Garðsins og Nessins. Það var í fyrri daga fallegt og grösugt sléttlendi, en nú gengur þar á mikill sandur, svo oft á vetrum sést ekki til jarðar fyrir honum; á honum gengur Út-Garðspeningurinn, og sauðfé hafnast þar vel, ef ekki er ofsett á. Á Skaganum voru fyrr meir kornakrar og sáðgerði fornmanna, og má enn sjá mót til girðinganna … – SSGK, 161
Bæjarhóllinn er vestan við kirkjugarðinn í miðju Útskálatúni. Á honum stendur timburhús á hlöðnum grunni, byggt 1882. Það er tæplega 50 m vestan við kirkjuna en bæjarhóllinn nær alveg að kirkjugarðinum, um 20 m frá kirkjunni. Á túnakorti frá 1919 er sýnd húsalengja fast austan við íbúðarhúsið og var þá aðeins mjótt sund á milli. Sú lengja er nú horfin en austast þar sem hún stóð komið steypt útihús sem snýr NNV-SSA og nær fram á brún bæjarhólsins að norðaustan.

Garður

Útskálar.

Sérstakur hóll, flatur að ofan. Gnæfir yfir náttúrulega slétt tún í kring. Uopi á hólnum eru tvö hús, annað á steyptum grunni, hitt á hlöðnum, og malarborið plan allsstaðar í kring um þau og út á brúnir hólsins nema mjó ræma vestast. Sunnanmegin á hólnum er sléttað malarplan, líklega uppfylling, þar sem kálgarðurinn var, en hann náði þó 15 m lengra í suður þar sem nú er slétt tún. Hóllinn er mjög brattur að vestan og norðan og þar eru hliðarnar grasi grónar, en að sunnan og austan er hallinn minni og þar allsstaðar möl ofaná. Heimreið liggur upp á hólinn á sama stað og hún var 1919, sunnantil á vesturhlið og niður af honum í norðausturhorni hjá kirkjugarðshorninu. Dæld er í hlið hólsins að vestanverðu, nálægt því sem húsið stóð, en að öðru leyti eru hliðar hans allar sléttar og hefur hóllinn að líkindum allur verið lagaður til og snyrtur á seinni hluta 20. aldar.
Nú er bíslag vestan á íbúðarhúsinu en 1919 voru skúrar norðan og austan á. Húsið snýr ekki eins við áttum og kirkjan heldur meira NNV-SSA. Það er annað timburhúsið á hólnum , hið eldra var byggt 1855, og er ekki vitað hvar síðasti torfbærinn var né hvernig hann snéri. Sr. Sigurður Sívertsen byggði eldra timburhúsið “það var 12 álna langt og 8 álna breitt íveruhús, en lét þó gömlu baðstofuna standa og byggði hana upp með nýrri súð.” Undir Garðskagavita, 146.

Útskálar

Útskálar 1920.

Á hólnum voru 1919 útihúsin og kálgarðarnir auk íbúðarhússins og lengjunnar austan við það. Fornleifauppgröftur fór fram á bæjarhólnum haustið 2005. Þar sem uppgröfturinn fór fram við norðanvert íbúðarhúsið hafði áður verið niðurgrafin viðarbygging en í tengslum við endurbætur á húsinu stóð til að reisa þar strærri byggingu. Uppgröfturinn var um 27 m2 stór og alldjúpur, eða um 3 m. Efstu jarðlög voru sundurskorin af lögnum og köplum en undir þeim voru þrjú mannvistar stig, gróflega áætlað. Elstu minjarnar sem voru grafnar upp lágu undir syrpu af gjóskulögum frá 12. öld og sást þá ekki enn í óhreyfðan jarðveg. Varðveisla var með eindæmum góð í bæjarhólnum jafnt á lífrænum leifum og málmi. Einn merkasti gripurinn sem fannst við uppgröftinn var útskorinn kambur af norænni miðaldagerð en svipaðir kambar hafa fundist í 11.-13. aldar lögum í Noregi

Útskálakirkja (kirkja)
GarðurKirkjan er 50 m austan við timburhúsið á bæjarhólnum sem snýr ekki eins og hún. Kirkjan og kirkjugarðurinn standa mun neðar en hóllinn og er lítil upphækkun merkjanlega þar sem garðurinn er.
Árið 1919 var kirkjan heldur norðar en fyrir miðju garðsins en grafreiturinn var þá alls 60-65 m langur N-S og 45-50 m á breidd. Hann hefur síða verið færður út, um 15 m til austurs og um 50 m til suðurs. Steypt girðing er fyrir vesturhlið og stærstum hluta norðurhliðar en grjóthlaðinn garður (nýlegur) fyrir austurhlið. Engin tré eru í garðinum sem er að mestu sléttur.
Kirkjan er byggð 1861. Hún er 18×7 m, með forkirkju undir minna formi (6×3 m), á grjóthlöðnum grunni sem hefur verið múrhúðaður. Eldri kirkja var byggð 1799, öll úr timbri, 20 álna löng en 8 álna breið. Forveri hennar var með timburþaki en grjóthlöðnum hliðarveggjum. Margir gamlir legsteinar eru í kirkjugarðinum næst kirkjunni. 1879 minnist Sr. Sigurður Sivertsen þess að “kirkjugarðurinn á Útskálum hefur nú verið færður út í þriðja sinn og á tvo vegu hlaðinn upp af grjóti, en á einn veg, að vestan, hefur verið sett upp grindverk úr tré. Hann var færður út 1827, 1861 og loks nú 1879.” Undir Garðskagavita, 162.
C. 1840: “Þá dönsku dysjuðu Norðlingar fyrir norðan garð [á Hafurbjarnarstöðum]. Þetta var ár 1551, en það man ég, að bein úr dysjum þeirra voru blásin upp og færð heim hingað [til Útskála] í kirkjugarð hér um 1828. Þar fannst og silfurhringur með gömlu merki líkt eins og á mörgum steyptum beltispörum.” SSGK, 184-85.

Það var lífseig trú á Suðurnesjum að kumlin á Hafurbjarnarstöðum væru dysjar Kristjáns skrifara og danskra fylgisveina hans sem drepnir voru af norðlenskum vermönnum á Kirkjubóli 1551 en í ritgerð frá 1593 kemur fram að þeir voru dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli en að seinna hafi þeir verið teknir upp og grafnir heima hjá hálfkirkjunni á Kirkjubóli (Bsk II, 256). Beinin sem flutt voru í Útskálakirkjugarð um 1828 hafa því væntanlega komið úr heiðnum gröfum. Sjá ennfremur KE í Árbók 1943-47, 119-20. Úr kirkjugarðinum á Útskálum koma tveir legsteinar með rúnaáletrunum, sem báðir eru á Þjóðminjasafni (Þjms. 10927, 10928). Þeir fundust báðir í stétt við kirkjudyrnar 1840 og voru sendir til Oldnordisk Museum í Kaupmannahöfn 1843 en aftur til Íslands 1930. Báðir eru tímasettir til 15. aldar. Árbók 2000-2001, 11-12.

Naust (býli)

Garður

 Jarðabók Árna og Páls er Naust talin sem níunda hjáleiga frá Útskálum. Um hana segir í örnefnalýsingu: «Naust, er nefnd 1703, þar var þá þríbýli. Það er þessi jörð, sem talin er að hafa verið á Naustarifi, eða réttara að Naustarif séu leifar strandarinnar…Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð.» Í sýslu- og sóknarlýsingum frá 1839 segir ennfremur: «… Jörðin Naust, þríbýli, sem fyrir 80 árum var byggð. Braut sjórinn upp á, svo hún ár 1762 var óbyggileg álitin og 1782 eyðilögð með öllu. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif; gengur sjór þar alltaf yfir, og er ei nema grjót og möl.» Þá segir í örnefnalýsingu Nýlendu: «Naustarifið liggur fyrir allmiklu af Útskálalandi og hér fyrir framan [þ.e. Nýlendu, Akurhús og Lónshús], fer í kaf um öll flóð. Á Naustarifi er sagt að hafi verið bær sá, er Naust hét. Var það þríbýlisjörð, er eyðilagðist að öllu leyti 1782.» Nákvæm staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt enda landið komið í sjó. Hnit var tekið af korti vestan við

Útskálar

Útskálar – loftmynd 1957.

Manntapaflúð (Mannskaðaflös) um 295 m norðaustan við bæ. Hnit var tekið á klöppum fram undan ströndinni en þær eru velgreinilegar á loftmynd og sjást eflaust á fjöru. Klappirnar voru ekki skoðaðar á vettvangi en augljóst þykir að allar minjar býlisins séu horfnar vegna rofs.
Í Jarðabók Árna og Páls segir í upptalningu á hjáleigum: «Hjáleigur tvær hafa áður verið heima við staðinn og eru nú báðar í eyði; var hvorugri nafn gefið nema eftir þeim sem i hvört sinn bjuggu þar, grasnyt fylgdi hvörri þeirra og var l álna landskuld af og i kúgildi með hvörri, þær hafa nú yfir xxx ár í eyði legið. Kunna og ómögulegt aftur að byggjast, nema með staðarins fordjörfun.» Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það.

Útskálar

Útskálar – loftmynd 1954.

Í Jarðabók Árna og Páls segir í upptalningu á hjáleigum: «Hjáleigur tvær hafa áður verið heima við staðinn og eru nú báðar í eyði; var hvorugri nafn gefið nema eftir þeim sem i hvört sinn bjuggu þar, grasnyt fylgdi hvörri þeirra og var l álna landskuld af og i kúgildi með hvörri, þær hafa nú yfir xxx ár í eyði legið. Kunna og ómögulegt aftur að byggjast, nema með staðarins fordjörfun.» Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það.

Blómsturvellir (býli)

Garður

Blómsturvellir – bæjarstæði.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: «Blómsturveller, öðru nafni Snorrakot. Nú í auðn og það yfir xxx ár, var með l álna landskuld og i kúgildi. kann ei aftur að byggjast nema með staðarins skaða. Grasnautn, sem þar fylgdi með, meina menn sje nú lögð til hjáleigu þeirrar, er Vatnagarður heitir.»
Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt og hennar er ekki getið í yngri heimildum. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það. Blómsturvellir eru merktir á túnakort frá 1919. Það eru þó án vafa ekki þeir Blómsturvellir sem Jarðabókin getur um þar sem þeir eru of langt frá Vatnagarði til að vera lagðir undir þá jörð. Auk þess sagði Magnús Gíslason, heimildamaður, frá fjölskyldu sem flutti þangað (á Blómsturvelli) í byrjun 20. aldar og nefndi bæinn Blómsturvelli því þau höfðu svo gaman af blómum.

Króksós (lending)
GarðurÍ Jarðabók Árna og Páls segir: «Lendingar eru tvennar, önnur í betra lagi, en önnur hættari.» Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1839 segir: «Tvær eru lendingar sem staðnum tilheyra, önnur í svonefndum Króksós, sem í máldögum heitir Útskálaós; er þar hættulegt og vandfarið sund, þegar brimsamt er, með því það er mjótt, og til annarar hliðar sker eða flúð, sem Manntapaflúð er kölluð; þar hefir skipum borizt á. Fyrir innan sundið liggur ósinn eða skipaleiðin, og er hverju skipi óhætt, þegar inn fyrir kemur.» Í örnefnaskrá segir ennfremur: «… Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós.» Í örnefnaskrá Miðhúsa og Króks segir: «Naustarif er hér fyrir neðan, og lendingin er inn úr Króksós. Þar eru tvær varir, sem heita Miðhúsavör og Króksvör, sem er innst undan Útskálum. Króksós er mjór, en lónið sjálft er allbreitt og nær út að Naustarifi.» Í athugasemdum við örnefnaskrá Miðhúsa og Króks segir: «Útskálavör er niður undan skúrum nokkrum, aðeins innan við Útskála. Fara þurfti inn um Króksós til að komast inn í hana.» Útskálaós er um 310 m norðaustan við bæ, við uppsátur.
Þar sem lendingin var er skarð í klappirnar við ströndina. Það virðist vera náttúrúlegt að öllu leyti.
Manntapaflúð er vestan við skarðið.

Naustakot (býli)

Garður

“Neðan síkis á kampinum voru býli, nokkrar hjáleigur. Þar er hlið á garðinum, sem nefnt er Naustahlið. Við það er gamalt kot, nefnt Naustakot,” segir í örnefnalýsingu. Staðsetning Naustakots er ekki þekkt. Magnús Gíslason heimildamaður sagði að hlið hefði verið á vegi þar sem hann liggur að Vatnagarði. Vegurinn hefur eflaust eitt sinn einnig legið að Naustum þegar þau voru í byggð og má því leiða líkur að því að hliðið hafi verið nefnt Naustahlið. Engar tóftir eru á þessu svæði sem nú er vaxið sinu norðan við veg en slétt tún eru sunnan við hann. Hnit var tekið norðan við hliðið, þar er þúst 150 skammt sunnar. Nú er sinuvaxið svæði á milli sjóvarnargarðs og vegar. Engin ummerki kotsins sjást á svæðinu sem líklega hefur verið raskað við gerð sjóvarnargarðsins.

Móhús (býli)

Garður

Móhús.

Á túnakorti Garðsins 1919 er sýnd hjáleiga frá Útskálum, Móhús, syðst og vestast í túninu. Bæjarröðin hefur legið frá norðaustri til suðvesturs. Tvílyft steinhús með kjallara stendur þar sem Móhús voru. Fast vestan við húsið er malarplan og þá vegur að Akurhúsum, Akurhúsabraut. Í aðrar áttir er slétt grasflöt. Húsið stendur á litlum stalli. Hann er um 20×12 m stór og snýr austur-vestur. Stallurinn er um 0,3 m hár. Líklegt þykir að hann hafi myndast við byggingu hússins sem nú stendur á staðnum fremur en að hann geymi uppsafnaðar mannvistarleifar.

Hellukot (býli)

Garður

Hellukot – bæjarhóll.

Á túnakorti Garðsins 1919 er sýnd hjáleiga, Hellukot, fast austan við tún Garðhúsa og virðist byggð úr þeirra túnskika. Bærinn virðist hafa samanstaðið af tveimur húsum sambyggðum. Samkvæmt túnakortinu var tún Hellukots 0,26 ha og garðar 500 fermetrar. Þar sem Helllukot stóð er nú sinuvaxinn hóll. Skilti merkt “Hér stóð bærinn Hellur” hefur verið rekið ofan í hólinn. Hugsanlegt er að bærinn hafi verið þekktur undir því nafni áður en hann var kallaður Hellukot. Hvorki Hella né Hellukots er getið í Jarðabók Johnsens frá 1847 né í fasteignabók frá 1915 svo líklegt er að bærinn hafi ekki verið í byggð lengi. Fyrir austan bæinn sést sigin tóft og garðlag í túni, líklega tilheyrðu þær minjar þessum stað. Hóllinn er á sinuvöxnu svæði fast vestan við garðlag. Slétt tún taka við að austan, vestan, sunnan og norðan. Hóllinn er um 8×4 m stór og snýr norður-suður. Hann er um 1 m hár. Engar skýrar hleðsluleifar eru á hólnum. Það glittir í eitt umfar af grjóti neðst í honum til vesturs.

Garðskagi (akur)

Garðskagi

Garðskagi.

“Garðskagi er hið gamla nafn á nyrzta hluta skagans, reyndar alveg þvert yfir. Mun það vera leifar frá því að hér var afgirt land, akurreinar,” segir í örnefnalýsingu. Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar á Reykjanesskaga, frá um 1860 segir: “Skaga (eða Garðskaga) kalla menn odda þann enn þríhyrnda, er lengst gengur fram í sjó í Garðinum og snýr til útnorðurs. Hann er að mestu sléttur og grasi vaxinn. … Á Skaganum hafa í fyrndinni verið girðingar eigi alllitlar, og hafa þær skipt honum í marga ferhyrnda reiti, suma aflanga, suma jafna á alla vegu. Allir hafa þessir garðar verið hlaðnir upp úr hnaus eða sverði, en litlu eða engu grjóti.”
Sunnan við nýja vitann og byggðasafnið, vestan Hólavalla og norðan Skagabrautar er slétt tún. Þar má þó sjá móta fyrir lægðum þegar sól er lágt á lofti. Þær munu vera leifar þeirra akurreina sem hér voru og lýst er í heimildum.
Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1839 segir um garðana: «Á skaganum voru fyrr meir kornakrar og sáðgerði fornmanna, og má enn sjá mót til girðinganna.» Í sóknalýsingu frá um 1840 segir: «Er þessi garður, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.»

Garður

Garðskagi – túnakort 1919.

Í grein Magnúsar Grímssonar frá um 1860 segir ennfremur: «Er það auðsjáanlegt, að hér hafa verið tómir akrar, og er það mikið svæði, sem þeir hafa náð yfir, því sjórinn hefur án efa brotið töluvert af því. Ekki sjást nein merki um skurði eða þess háttar, og getur vel verið, að þeir séu nú fullir orðnir af sandi og gras gróið yfir, þó að þeir hafi verið þar áður. Ekki vita menn þessara akra eða akurlanda getið neins staðar nema í bréfi Jóns biskups í Skálholti, dat. 1340, er hann keypti einn fjórðung úr Útskálalandi til Skálholtsstaðar að Bjarna Guttormssyni – og «um fram öll þau akurlönd, sem Bjarni keypti til Útskála.» [Dipl. Isl. II, 733-34.]. Þó að þessi bending sé lítil, sýnir hún að Útskálar hafi átt akra, og þeir geta varla hafa veirð annars staðar en á Skaganum, því nokkuð af honum er enn í eign Útskála, og ganga merkin eftir einum garðlaginu, sem um Skagann liggur.»

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Brynjúlfur Jónsson rannsakaði garðana árið1902. Í grein hans í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 segir: “Akurlönd hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítill hæð eða tóftabungu, sem er skammt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru. Suður- og austur frá langsetis-garðinum og rústinni eru margar stærri girðingar, flestar hér um bil ferhyrndar, og ná þær allt suður að landamerkjum Útskála og Kirkjubóls. Hafa það að líkindum verið töðuvellir. Þar er nær sjó dregur, eru girðingar þessar óglöggar af sandburði.” Eftir rannsókn Brynjúlfs voru akurreinarnar friðaðar. Kristján Eldjárn ritar í Árbók Ferðafélagsins árið 1977: “Akurreinar Brynjúlfs voru friðlýstar árið 1930 eftir lýsingu hans, en ekki entist sú friðlýsing þeim til verndar, þótt ekki séu þær með öllu horfnar.” Í Friðlýsingaskrá segir: “Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga.10 Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.” Árið 1999 var gerð rannsókn á þessum reinum og uppgröftur gerður í landi Hólavalla. Um örlög reinanna segir í rannsóknarskýrslunni sem birt var í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 2002-2004: “Nú, hundrað árum eftir för Brynjólfs, eru akurreinarnar afar ógreinilegar og víða horfnar með öllu. Ætla má að sjávarrof, bæði á vestur- og norðurströnd skagans, hafi valdið nokkurri eyðileggingu, en mest spjöll hafa orðið af manna völdum.

Garður

Fjórar hjáleigur og nýr viti eru nú á því svæði sem Brynjúlfur Jónsson lýsir akurreinunum … Þessari búsetu hafa fylgt húsbyggingar, vegagerð, túnasléttun og annað jarðrask … Niðurstöður úr Garðinum eru fremur lítil afgerandi. Sandfylltar dældir í sniðum eru til marks um að jarðvegur hafi verið hreyfður, en ekki eru tök á að tímasetja þann atburð sem stendur. Ekki verður heldur fullyrt með vissu að raskið stafi af jarðrækt, þó að aðrar vísbendingar um kornrækt á staðnum geri þá túlkun sennilega.” Túnið sunnan byggðasafnsins þar sem sér fyrir akurreinunum á stöku stað er um 145×125 m stórt og snýr austurvestur. Hver akurrein er 3,5- 4 m á breidd, 0,1-0,2 m á hæð og eru milli 40-150 m að lengd. Ummerki um akurlöndin sjást vel á stafrænu yfirborðslíkani með 50% hæðaskyggingu (hillshade). Það má greina fleiri akurreinar á myndinni, m.a. fyrir sunnan Byggðasafnið og í túni Hofs.

Skagagarður (vörslugarður)

Garður

Skagagarður fyrir miðri mynd.

“Lokaðist það [akurland] af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,” segir í örnefnalýsingu. Í sýsluog sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: “Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.”

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar (innan deiliskipulagsreitsins sem lá til grundvallar fornleifaskráningu árið 2007) er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans. Samkvæmt stefnu garðsins sunnan vegar hefur hann legið um 25-30 m austan við landamerkjagarð. Þá má einnig vera að Skagagarðurinn hafi legið frá syðsta hluta túngarðsins á Útskálum að Krikjubóli og að hann hafi því aldrei legið norðan núverandi vegar.
Þar sem Skagagarður lá norðan Skagabrautar eru nú slétt tún. Sunnan vegar liggur hann að mestu í sinuvöxnum móa.

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

Í Chorogarphicu Árna Magnússonar frá 1720 segir: «Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.» Í sýslu- og sóknalýsingu frá 1839: «… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.» Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: «Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flangastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri. Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.»

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð:»Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3-4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.» Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: «En Skagagarðurinn mikil, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerðu til Út-Garðs. …

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð. Þessi beini garður, hinn raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Kaflavíkur.

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju. Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt. Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976.

Garður

Garður – Hof.

Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: “Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.” Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15 m. Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson) ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögur til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum.

Garður

Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?” Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: “Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum sem merktir eru inn á kortið [sýnt á bls. 92]. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum. … Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.”

Skagagarður

Skagagarðurinn v.m.

Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: “Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11. öld.” Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut v/ deiliskipulagsgerðar. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur, 5-8 m breiður og mest 0,3-0,4 m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Sæból (býli)

Garður

Sæból.

Á túnakorti er bærinn Sæból sýndur sem timburhús með bíslagi að norðanverðu, brunnur er við vesturhlið þess og kálgarðar eru austan við. Þessi bær er 20 m sunnan við Fögruvelli. Samkvæmt túnakortinu frá 1919 var Sæból um 40 m vestan við Sjávargötu. Húsið er enn uppistandandi.

Sjávargata (býli)

Garður

Sjávargata.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var bærinn í Sjávargötu tveir litlir kofar samtengdir. Nú stendur hús á einni hæð með risi í Sjávargötu, um 50 m ASA við Blómsturvelli. Húsið er ekki með kjallara. Húsið stendur á sléttri flöt. Engin ummerki eldri húsa eru greinanleg á þessum stað.

Fögruvellir (býli)

Garður

Fögruvellir.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var bærinn á Fögruvöllum torfbær, 4 hús í röð með stafna í norður en auk þess þrír samtengdir kofar þar austan við og lá garður frá þeim til norðausturs yfir í kálgarð við suðurhlið Hofstúns. Á túnakortinu eru Fögruvellir merktir um 60 m norðvestan við Sjávargötu og um 100 m austan við Blómsturvelli. Magnús Gíslason heimildamaður sagði frá því að Fögruvellir hefðu verið fluttir til Reykjavíkur og hlýtur því timburhús að hafa staðið á bæjarstæðinu eftir að torfbærinn féll. Steyptur húsgrunnur er fast VNV við unga kálgarða 108 og 32 m vestan við Steinshús. Grunnurinn telst líklega ekki til fornleifa en er tekin með á skrá til að ná utan um þær búsetuminjar sem eru á svæðinu fyrir vinnu við verndarsvæði í byggð. Ekki er sýnt hús á þessum stað á korti frá 1954 og ekki er vitað hvenær húsið sem þarna stóð var byggt eða hvenær það var rifið. Þar er nú óræktað tún. Gróið flatlendi á lóð húss sem ber nafnið Grund og er byggt á bæjarstæði Blómsturvalla.
Grunnurinn er steyptur en nánast alveg yfirgróinn. Hann er um 9,3×8,7 m að stærð og snýr NNA-SSV. Á túnakorti frá 1919 eru Blómsturvellir sýndir sem þrír kofar, þar af tveir samtengdir, með stafna í norður, um 180 m suðvestan við Neðra-Hof. Nú stendur steinsteypt, járnklætt hús á einni hæð, nefnt Blómsturvellir, um 140 m suðvestan við Neðra-Hof. Húsið er ekki með kjallara. Leiða má líkur að því að Blómsturvellir hafi verið færðir til vesturs nær Sjávargötu á 20. öld og að eldra bæjarstæði þeirra sé í túninu vestan við íbúðarhúsið Grund (byggt um 1933) og sunnan við túngarð. Grund er byggt á þessu bæjarstæði Blómsturvalla.
Húsið stendur á sléttri flöt. Vestan við það er malarplan en í aðrar áttir er óræktað tún.
Húsið Grund er að öllum líkindum byggt í miðjan bæjarhólinn. Það mótar fyrir suðausturhorni hans í sléttu túni. Þar sést um 0,3 m há og aflíðandi brekka sem fjarar út þegar kemur að húsunum.

Garðskagaviti (samgöngubót)
Garður“Það var minnisverður atburður, þegar fyrsta leiðarmerkið var sett á Garðskaga. Það var árið 1847, að hlaðin var varða … Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. … Gert er ráð fyrir , að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verið hlaðinn, verði 15 álna há … Það var svo ekki fyrr en 1884, að ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga og jafnframt byggt þar dálítið hús úr timbri … Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. … Það var ferstrend bygging úr steinsteypu, 12,5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús … Umhverfis vitann var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 m á hæð. Í vitann voru sett mjög vönduð ljósatæki frá París … Nýr viti var svo byggður árið 1944 … En gamli vitinn hefur fengið nýju hlutverki að gegna. Þar er nú verið að koma upp fuglarannsóknarstöð,” segir í Undir Garðskagavita. “Gamli vitinn er fremst á tánni. Hann var reistur 1897. Þá var gras fyrir framan hann og náði dálítið fram á rifið, en nú er þetta alveg gróðurlaust,” segir í örnefnalýsingu. Vitinn er merktur á túnakort frá 1919. Gamli vitinn stendur enn. Hann er um 200 m norðvestan við nýja vitann frá 1944.

Garðskagaviti

Garðaskagaviti.

Vitinn stendur á hlöðnum stöpli, umluknum sjó. Steinsteypt gagnstétt liggur að honum úr suðaustri.
Í Undir Garðskagavita segir ennfremur: «Ein höfuðástæða þess, að nýr viti var reistur á Garðskagatá árið 1944, var sú að sjór hafði gengið mikið inn á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Fyrir kom það, að ekki var hættulaust að annast vörzlu hans … samkvæmt frásögn elztu manna, að landbrotið sé um 100 metra frá þeim stað, sem gamla Skagavarðan stóð, og eflaust hefur verið nokkuð land fyrir utan hana. Þegar grafa tók undan gamla vitanum, svo að hann virtist í hættu, var farið að steypa öldubrjóta og varnarveggi í kringum hann, fyrst árið 1924 og margsinnis síðan.» Engin ummkerki eldri mannvirkja en vitans frá 1897 sjást nú á Garðskagatá enda hefur sjórinn eflaust fyrir löngu étið leifar vörðunnar og timburhússins sem þar stóðu áður en vitinn var byggður. Varðan hefur samkvæmt bókinni „Undir Garðskagavita“ staðið um 100 m norðvestan við vitann.

Garðskagi (býli)

Garður

Garðskagi – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti Garðskagavita frá 1919 stóð bærinn, vestast í túni, um 240 m suðaustan við vita 060. Þar eru sýndir tveir klasar af byggingum með kálgarði á milli. Gamli bærinn á Garðskaga stóð fast austan við vitavarðarhúsið sem byggt var um 1940, um 40 m sunnan við vitann sem byggður var 1944. Þró var fast sunnan við bæinn. Þar er lítil hólbunga í sléttu túninu. Hólbungan og leifar kálgarðsins sunnan við hana eru á svæði sem er alls um 40×40 m stórt. Sjálf er bungan um 40×10 m stór og snýr austur-vestur. Hún er um 0,5 m há, séð frá suðri en fellur inn í landið til norðurs. Vegurinn að byggðasafninu liggur yfir norðvesturhorn hennar. Ekkert greinilegt tófta- eða byggingarlag er á hólbungunni enda hefur svæðið augljóslega verið sléttað í seinni tíð.

Hólavellir (býli)

Garður

Hólavellir.

“Milli Hofslands og Garðskaga var þurrabúðin Hólavellir, en hún tilheyrði Útskálum. Enn býr fólk á Hólavöllum, en eins og stendur er þar enginn búskapur,” segir í örnefnalýsingu. Hólavalla er getið á túnakorti frá 1919 en hús og garðar eru ekki sýnd. Samkvæmt túnakortinu var þar ekkert tún en um 820 fermetra kálgarður fylgdi býlinu. Hann er ekki merktur á kortið. Nú stendur hús með kjallara og risi á bæjarstæði Hólavalla. Það er um 195 m suðaustan við bæjarhólinn á Garðskagavita og um 140 m SSA við Helgarétt.
Húsið stendur á sléttri grasivaxinni flöt. Enginn hóll er greinilegur á bæjarstæðinu.

Steinshús (býli)

Garður

Steinshús.

Guðni Ingimundarson, heimildamaður, sagði frá leifum húsgrunns þar sem íbúðarhúsið Steinshús stóð lengi. Grunnurinn er um 40 m norðan við Sjávargötu. Við húsgrunninn er útskorið skilti sem stendur á Sæból, en þetta hús gekk einnig undir því nafni. Grunnurinn er á sléttri grasflöt. Steinsteyptur grunnur gægist upp úr grassverðinum á þessum stað. Hann er L-laga, um 7×6 m stór og snýr austur-vestur. Byggingaár hússins er ekki þekkt en Guðni Ingimundarson, heimildamaður sem er fæddur 1923 mundi eftir húsinu frá uppvaxtarárum sínum. Hér leynast ugglaust mannvistarleifar undir sverði en húsið er byggt eftir að túnakortið er gert 1919. Grunnurinn er steyptur og það mótar fyrir ytri og innri brún hans. Sé tekið mið af lagi grunnsins var þetta timburbygging, hús með áföstum skúr. Grunnurinn er 0,2 m á hæð og 7,3×6,6 m að stærð. Á túnakortinu er þetta svæði sýnt sem kálgarðar frá Sæbóli.

Lónshús (býli)

Garður

Lónshús.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr naumlega …. Fjörugrasa og sölva og þángtekja til eldiviðar hafa báðir þessir menn nægilegt.” JÁM III, 80.
1919: tún 2 teigar, kálgarðar 1030 fm.
Í Jarðabók Árna og Páls segir 1703 segir: «Lonshus, fyrsta hjáleiga…Fóðrast kann i kýr naumlega….» Þá var tvíbýlt á bænum. Í athugasemdum á túnakorti frá 1919 segir: «Þar er gróið yfir nokkuð af rústum Lónshúsabæjar, sem var fluttur á túnið fyrir rúmum 30 árum (að sögn). Var þó lengi áður varinn bærinn með sjógarði. Nú mun sjógarðsmyndin nærri miðju bæjastæðinu gamla, og ofan á því – Grefur undan.»
Gamla bæjarstæðið er merkt, á túnakort frá 1919, um 50 m VNV við nýrra bæjarstæðið. Þar sem bærinn stóð er nú malarplan við fiskvinnsluhús (byggt 1973).
Engin ummerki eldri bæjarhólsins sjást nú. Vilhelm Guðmundsson heimildmaður sagði frá því að grafið hafi verið frystihúsinu árið 1973. Hann minntist þess ekki að neinar minjar hafi komið í ljós við það verk. Hugsanlega hefur sjórinn þá þegar verið búinn að éta burt mannvistarlögin.
Yngra bæjarstæði Lónshúsa, frá um 1890, er merkt um 50 m ASA við á túnakort frá 1919. Þar eru merkt fjögur sambyggð hús, eitt um 20 m vestar og tvö sambyggð um 20 m norðar. Þar sem bærinn stóð stendur nú steinsteypt hús, gamla íbúðarhúsið í Lónshúsum. Húsið stendur fast sunnan við sjóvarnargarðinn. Það er ekki með kjallara. Sunnan við húsið er steynsteypt plan og þá slétt tún. Húsið stendur á hól sem er um 30×26 m stór og snýr austur-vestur. Austan og norðan við það, í austur og norðurmörkum hólsins er garðlag og í norðvesturhorni hans er gróðurhrúgald með miklu grjóti í. Hóllinn og garðlagið eru saman um 1,5 m á hæð.

Akurhús (býli)

Akurhús

Akurhús – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr viðsæmilega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekja af fjöruþángi nægileg.” JÁM III, 80.
1919: Tún (a) 96 ha, garðar 770 m2. Tún (b) 1 ha, garðar 880 m2.
Akurhús voru samkvæmt túnakorti frá 1919 rúma 200 m norðvestur af Útskálabænum. Á kortinu sést að bæjarröðin samanstendur af mörgum húsum sem hefur legið hér um bil frá austri til vesturs. Núverandi íbúðarhús í Akurhúsum II (byggt 1932) er í norðausturhorni bæjarhólsins.
Hann er um 240 m norðvestur af bæjarhól Útskála.“ Skráningin frá 2007 var endurskoðuð þegar deiliskráning var unnin á svæðinu árið 2019.
Heimreið að Akurhúsum liggur yfir bæjarhólinn. Umhverfis hann er slétt tún en þó er lág hólmyndun fast SSV við hann þar sem jarðvegi og byggingarefni hefur verið ýtt út. Líklega eru það leifar af byggingum á bæjarhólnum.

Garður

Akurhús.

Bæjarhóllinn er um 70×35 m stór og snýr VNVASA. Hann er um 0,5 m hár og er vel gróinn. Núverandi íbúðarhús stendur í norðausturhluta hans. Það var byggt 1932 en byggt hefur verið við það síðan. Húsið er tvílyft með kjallara. Bæjarhólnum hefur augljóslega verið raskað við byggingu hússins og þegar eldri byggingarleifum var ýtt fram af hólnum til suðurs. Aftan við íbúðarhúsið er grunn lægð ofan í bæjarhólinn þar sem ótilgreind bygging hefur staðið. Lægðin er 2,5×2 m að innanmáli og snýr eins og bæjarhóll. Hún er 0,2 m djúp.

Akurhúsabrunnur (vatnsból)

Garður

Akurhúsabrunnur.

Í þúst sem er í túni Akurhúsa um 70 m ASA við bæ er steypt mannvirki, að öllum líkindum brunnur. Óvíst er hversu gamall brunnurinn er en ekki er vitað um annan brunn fyrir Akurhús. Brunnurinn er í sléttu, fllatlendu túni sem enn er slegið. Þústin í túninu er 3,5×2,5 m að utanmáli og snýr nálega austur-vestur. Hún er 0,3 m á hæð. Í þústinni er yfirgróin steypt plata og á henni miðri er ferkantað op ofan í holrými sem er á að giska 0,2-0,3 m djúpt. Opið er í suðurjaðri þústarinnar. Ekki sést vel ofan í meintan brunn og virðist hann nánast fullur af jarðvegi. Ekki er því hægt að lýsa honum nánar.

Nýibær (býli)

Garður

Nýibær – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr og i úngneyti ríflega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af þángi nægilegt.” JÁM III, 6.
1919: Tún 1,18 ha, garðar 760 m2.
“Nijebær, þriðja hjáleiga. … Við til húsabótar segist ábúandinn í xx ár ekki þegið hafa, en þá uppbygt hjáleiguna að nýju af viðum, sem staðarhaldarinn Sr. Þorleifur Cláusson hafi sjer þá fengið,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Nýibær rúma 100 m suður af Akurhúsum. Bæjarhóll Nýjabæjar er um 7 m sunnan við íbúðarhús Nýjabæjar sem byggt var árið 1911. Hann er um 120 m sunnan við Akurhús. Bærinn var skráður árið 2007 en skráningin var uppfærð og aukin þegar unnin var deiliskráning á svæðinu 2019. Norðan, austan og vestan við hólinn er slétt tún en sunnan við hann er órækt innan kálgarðs.
Framan (norðvestan) við íbúðarhúsið er allstórt malbikað plan. Stór sólpallur var byggður suðvestan við íbúðarhúsið fyrir um 5 árum síðan (í kringum 2014) og hefur sú framkvæmd raskað bæjarhólnum talsvert að norðaustanverðu.
Þegar bæjarhóllinn var skráður 2007 var hann mældur um 30×35 m stór, litlu lengri austur-vestur en norður-suður, og 2 m á hæð. Hóllinn hefur verið sléttaður að nokkru leyti. Raskið í norðaustanverðum hólnum vegna framkvæmda við sólpall virðist talsvert og svo virðist sem að efni sem fjarlægt var úr honum hafi verið ýtt til suðausturs. Nú (2019) er bæjarhóllinn svipaður að stærð og hann var áður en er aflagaður frá því sem var í fyrri skráningu. Í norðvesturhorni hólsins er steyptur grunnur um 6,5×6,5 m stór. Fast suðvestan við hann er hlaðinn grunnur sem er 5,5×3,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Ofan við hann til suðausturs er svo þriðji grunnurinn sem er 3,5×4 m að stærð og snýr þvert á hinn. Að sögn Ingibjargar Önnu Gísladóttur, heimildamanni, var steypt fjós og hlaða á þessum stað. Fleiri hús voru þarna í röð sem náði lengra til norðausturs. Man Ingibjörg eftir smiðju og trésmíðaverkstæði sem þarna voru. Garðlög, leifar kálgarðs 002 liggja frá suðvestur og suðausturjaðri hólsins.

Móakot (býli)

Garður

Garður – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr laklega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 81.
1919: Tún 0,7 ha, garðar 450 m2.
Samkvæmt túnakorti Garðsins frá 1919 var Móakot um 160 m SSV af Útskálum. Á túnakortið eru merkt fimm sambyggð hús og snýr röðin nær norður-suður. Bæjarhóll Móakots er um 20 m norðvestan við núverandi íbúðarhús Í Móakoti. Hann er fast norðvestan við bílskúr sem grafinn er inn í hólinn að suðaustan. Bæjahóllinn var fyrst skráður 2007. Þegar varið var aftur á vettvang vegna deiliskráningar á svæðinu var eldri skráning uppfærð og breytt lítillega. Sunnan við hólinn er malarborið plan en í aðrar áttir er slétt tún. Hóllinn er um 30×15 m stór og snýr norðvestursuðaustur. Hann er um 1,5 m hár. Meðfram suðurvesturbrún hans er grjóthleðsla norðvestan við bílskúrinn. Hún er 11,5 m á lengd og 1 m á hæð. Í henni sjást mest 4 umför en inn á milli má sjá vikurstein sem gefur til kynna ungan aldur hleðslunnar. Önnur sambærileg hleðsla er í bæjarhólnum sem liggur til norðausturs frá norðurhorni bílskúrsins. Hún er um 4 m á lengd og innan við 1 m á breidd. Hleðslan er hæst næst bílskúrnum en lækkar til norðausturs. Í henni sjást 3-4 umför. Að lokum er grjóthlaðinn, lágur og unglegur veggur meðfram norðausturhlið bílskúrsins. Hann er 1,5 m á breidd, 0,5 m á hæð og í honum sjást 3-4 umför hleðslu. Í kverkinni sem myndast á milli síðasttöldu hleðslnanna er flati og þar má ætla að hús hafi staðið sem hefur verið rifið fyrir nokkru.

Móakotsbrunnur (vatnsból)
Brunnur er merktur á túnakort frá 1919, um 5 m austan við Útskálaveg og um 30 m austan við bæ. Hann er um 20 m vestan við bæ, staðsetningin er röng á túnakorti, hann er um 20 m of sunnarlega.
Brunnurinn er í sléttu túni. Enn er brunnur á þessum stað um 5 m vestan við veg. Brunnurinn er steinsteyptur með járnhlera yfir. Hann hefur líklega verið endurbættur í seinni tíð.

Garðhús (býli)

Garður

Garðshús – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga Útskála.
1703: “Fóðrast kann i kýr að tveim þriðjúngum. … Fjörugrasa og sölvatekju og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 82.
1919: Tún 1,1 ha, garðar 1000 m2.
Samkvæmt túnakorti Útskála og hjáleigna frá 1919 voru Garðhús um 100 m austan við Presthús.
Gamli bærinn í Garðhúsum var um 30 m vestan við skemmu við austurenda garðlags og um 50 m norðan við núrverandi íbúðarhús í Garðhúsum.
Vilhelm Guðmundsson, heimildamaður, bjó í bænum á uppvaxtarárum sínum. Hann er fæddur 1937. Á túnakortinu voru 7 hús sem tilhayrðu bænum árið 1919. Þar er slétt tún. Bæjarhóllinn er 20×18 m að stærð og snýr norðursuður. Aðeins sér móta fyrir ójöfnum í túninu þar sem bærinn stóð en engin skýr ummerki hans eru greinileg. Bæjarhóllinn er 0,2-0,3 m á hæð og búið að slétta yfir hann.

Vatnagarður (býli)

Garður

Vatnagarður – túnakort 1919.

1703 og 1847. Hjáleiga Útskála.
1703: “ Fóðrast kann i kýr og i vetrúngur … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af fjöruþángi nægilegt”
JÁM III, 83. 1919: Tún norðurbæjarins 0,09 teigar, kálgarðar 440 m2. Tún suðurbæjarins 0,07 teigar, kálgarðar 550 m2.
Í örnefnalýsingu Útskála segir: «Vatnagarðar, er nefnd 1703 og 1861, síðan ekki,» og síðar: «Niður undan kirkjugarðinum [Útskálakirkjugarði] eru rústir, sem nefndar eru Vatnagarðar.» Í athugasemdum við örnefnaskrá Gerða segir: «Gerðabakkar eru sjávarbakkar fyrir neðan Síkið. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður, stór jörð, nú komin í eyði, en bærinn stendur enn uppi [1978].» Árið 1919 voru tveir bæir í Vatnagörðum, nyrðri og syðri, og er sá syðri er skráður hér undir. Ekki hefur mjög mikið breyst á svæðinu, miðað við túnakort frá 1919, en 2007 brann þó bærinn á bæjarstæði til grunna. Ekki er vitað hvenær þessi bær hvarf. Bæjarstæðið er um 120 m norðvestan af bæjarhól Miðhúsa. Ekki er vitað hvar bærinn 1703 var, líklega á svipuðum slóðum og heimatúnið er nú.

Garður

Bæjarstæðið er á landræmu milli Útskálasíkis til suðurs og sjávar til norðurs. Svæðið er nú nýtt til beitar, búpeningi er gefið í túninu yfir vetrarmánuðina. Nú stendur eftir steyptur grunnur húss, holur að innan. Hann er um 8 x 6 m að stærð í NNV-SSA og um 1 x 1 m steypupartur stendur út úr honum að sunnan. Þar hefur inngangur líklega verið. Innan í grunninum er um 0,6 m djúp gryfja sem til er kominn vegna uppblásturs. Undir gróðri kemur í ljós skeljasandur sem er mjög laus í sér, og stuðlar að uppblæstrinum. Ekki sér til uppsafnaðara mannvistarlaga undir húsinu.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð hús, íbúðarhús nyrðri bæjarins, um 40 m norður af bæ og tæpum 20 m austan við Útskálasíki. Fram til ársins 2007 stóð þessi bær undir þaki, en var brann síðla sama ár.Nú stendur eftir grunnur og veggur austan við hann. Bæjarstæðið er í aflíðandi, gróinni brekku. Hér standa eftir steypugrunnur og veggur. Grunnurinn er 7,5 x 6,5 m stór, og stendur um 0,7 m hátt sunnan megin en er jafnhár umhverfinu nyrst. Suður út undan veggnum má óljóst greina merki um eldri leifar. Um 5 m austan við grunninn er 1,5 m hár fokheldur veggur, hlaðinn úr fjörugrjóti og límdur með sandlími. Veggurinn er um 7 x 1,2 m á stærð, snýr norður-suður og er 2 m á hæð. Milli veggjarins og grunnsins er svo stétt, sem víða er orðin óljós, sérstaklega nær grunninum.

Miðhús (býli)

Garður

Útskálar – fornleifar.

1703: Jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847: 20 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið í skjölum um rekaskipti frá um um 1270: “Þetta er reka skipti aa rost hvalsnesi eptir þvi sem at fornv hefer verit. …Þa eigv Midhvs vt til byrdinga skers j vtskala oss. Þadann eigv vtskaler til skagaflesiar.” DI II, 76-77. Jarðarinnar er getið í fjárskiptabréfi “milli húsfrú Hólmfríðar Erlendsdóttur af einni álfu, en af annari Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar, og systkina hans” frá 1522. DI IX, 87 Þá er hennar getið í í yfirýsingu Gissurar Skálholtsbiskups frá 1541 þar sem hann lýsir því yfir að “hústrú Hólmfríðr Erlendsdóttir haldi til fullrar eignar jörðunum Sandgerði, Króki og Miðhúsum …” DI X, 657 og í dómi um “testametum hústrú Hólmfríðar heitinnar Erlendsdóttur” frá 1545, DI XI, 402. Þá er jarðarinnar aftur getið í dómi frá 1547 “um gildi gjafabréfs hústrú Margrétar Vigfúsdóttur 1486 um ánefnt jarðagóz til Þorvarðs Erlendssonar, dóttursonar síns…” DI XI, 570. Þorleifur Björnsson lýsir því yfir í Miðhúsum árið 1569 að “hann viti ekki , að jörðin Dynjandi í Jökulfjörðum hafi nokkurn tíma komið í eign föður síns.” DI XV 300.
1703: “Fóðrast kann ii kýr naumlega. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenníngum ef vill. Torfrista og stúnga ekki nema í sendinni jörð og landlitlu landi. Lýngirif lítilsháttar og lángt í burtu. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsa og skelfisksfjara valla nefnd gefandi. Murukjarnar og þvílíkt ekki nema af reka, þó oftlega til að næra peníng á vordag í heyskorti. Eldiviðartak af fjöruþángi mjög af skorti so annarstaðar þarf til að fá. Heimræði er árið um kríng og gánga skip ábúanda eftir hentugleikum, inntökuskip eingin. … Engjar eru öngvar. Landþröng hin mesta. Hagar nær því öngvir vetur og sumar.” JÁM III, 84-85.
1919: Tún 3 ha, kálgarðar 700 m2.

Framhald um upphaf og þróun byggðar í Garði

Garður

Garður.

Landslag og náttúrufar í Garði er svipað og víðast annars staðar á utanverðum Reykjanesskaga. Svæðið er flatlent og fremur gróðursnautt, þar er vindasamt og oft á tíðum töluverð úrkoma. Jarðvegur svæðisins er fremur þurr og sandur er við Skagatá. Uppblástur hefur sett mark sitt á gróðurfar allt frá 13. öld og gróðurþekja er víða þunn. Landbrot er mikið á Reykjanesi og landsig hérlendis er hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Sökum þessa er sjóvarnargarður meðfram allri strandlínunni innan verndarsvæðis. Meðfram ströndinni hefur verið byggð öldum saman og þar hefur líklega snemma myndast þéttbýli (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifarannsóknir og úr heimildum, s.s. upplýsingar um stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram kenningar um upphaf og þróun byggðar.

Útskálar

Útskálar – túnakort 1919.

Um tímasetningu landnáms í Garðinum er ekkert vitað með vissu. Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskaga og Rosmhvalanesið allt og síðan gefið frænku sinni Rosmshvalanes fyrir utan Hvassahraun að gjöf. Engar sagnir fylgja um búsetu hennar. Hvar fyrstu bæir í Garðinum voru staðsettir er ekki vitað en sé horft á tilrækar upplýsingar er hægt að gera tilraun til þess, innan verndarsvæðis. Í ritheimildum eru Útskálar gjarnan taldir með elstu jörðum á svæðinu. Við fornleifarannsóknir á bæjarhól Útskála var farið niður á búsetulög frá 12. öld og ljóst að eldri mannvistarlög eru enn enn neðar en ekki hafi var grafið í þau.
Kirkju í Útskálum er fyrst getið í kirknaskrá Páls Jónssonar frá því um 1200 en ekki eru heimildir um aðrar kirkjur eða bænhús innan skráningarsvæðisins. Kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000. Einn kumlateigur hefur fundist í Gerðaheppi, í landi Hafurbjarnastaða sem er næsti bær sunnan við Útskála.

Garður

Garður – loftmynd 1957.

Ekkert kuml né sagnir um dysjar eða aðra legstaði er innan verndarsvæðisins. Ekki hafa varðveist mikið af ítarlegum heimildum um Útskála á miðöldum en jarðarinnar er þó getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Þar koma fram athyglisverðar upplýsingar sem varpa ljósi á sögu og nýtingu svæðisins. Í máldaga Útskálakirkju frá árinu 1270 segir: ‘Jtem eiga Útskaler vatnstöku j Kroksbrunn […] Krokur ok midhus eiga tveggia skipa uppsatur j Naustaholm. Jtem eiga Útskaler allar veidar sudur j lambarif…“. Samkvæmt þessu var útræði stundað frá Útskálum á 13. öld, líklega frá hjáleigunni Naustum sem fór í eyði undir lok 18. aldar vegna ágangs sjávar. Einnig vekur að athygli að minnst er á akurlöndin í máldaga frá árinu 1340: „umframm öll þau akurlond sem Biarni keypti til útskaala ok ein[n] karfa met atkierum ok ollum reida ok bäti.“ Þetta sýnir ennfremur að útræði var stundað á svæðinu.
Útskálar voru í bændaeign og kirkjan þar bændakirkja allt fram undir miðja 14. öld en þá komst helmingur jarðarinnnar í eigu Skálholtsstaðar. Um miðja 16. öld er jörðin öll komin í eigu Skálholts.
Vísbendingar eru um að fólki hafi fjölgað á svæðinu á þessum tíma m.a. vegna aukinnar sjósóknar enda voru sjávarafurðir mikilvægustu útflutningsafurðir á þessum tíma. Annar bær innan verndarsvæðis sem getið er í máldögum eru Lambastaðir og telst hann líklega önnur stærsta jörðin á eftir Útskálum, innan þess svæðis sem tekið var út 2019.

Garður

Garður frá Garðskaga.

Jarðarinnar fyrst er getið í Jarðaskiptabréfi árið 1563 og ólíkt Útkálum þá var hún konungseign og eitt af höfuðjörðum dönsku konungsútgerðarinar á 16.-18. öld á Reykjanesi.11 Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir um þá Lambastaði: „ Kvaðir eru mannslán um vertíð, item að meðtaka í vertíðarlok skipsbáta allan af kóngsskipi, sem þar gengur, hvort það er stærra eður smærra […] Enn nú að auk er sú kvöð að viðhalda kóngsskipsbúðinni, og alt þetta betalíngslaust (…) Heimræði er árið um kríng og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum, item gengur hjer eitt kóngssip venjulega um vertíð, oftast áttáringur, stundum stærra stundum smærra.“
Elsta ítarlega heimildin um Út-Garð er einmitt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum Útskála lýst og hjáleigur jarðarinnar taldar upp, en þær eru þá 10 talsins. Af lýsingunni fæst staðfest gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 2 kýr, 1 ungnaut og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður, fjörugrastekja og sölvafjara í betra lagi, selveiði til góðra hlunninda ef notuð væri, rekavon góð og en torfskurður sendinn, engjar engar, vatn sé tekið úr Króksbrunni og þess einnig getið að sjór brjóti af landið og sandur gangi þar yfir. Í jarðabókinni kemur einnig fram að á Lambastöðum séu þrjár hjáleigur en seinna var jörðinni skipt í tvö sjálfstæð býli og hjáleigan Hof varð þá lögbýli á hluta jarðarinnar. Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina við Útskála fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái mun lengra aftur og hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði og vaxandi fólksfjöldi.

Garður

Garður – gengið um gömlu byggðina.

Það er ljóst að innan minjasvæðisins var stunduð talsvert umfangsmikil sjósókn en umfang hennar hefur án efa ráðist að hluta af tíðarfari og öðrum utanaðkomandi ástæðum. Það ekki er t.d. vitað hversu mörg skip réru frá úttektarsvæðinu árið 1703, en það er ljóst að þaðan réru skip frá konungi, kirkjunni og bændum á svæðinu. Þegar Jarðabókin var rituð var ekkert útræði frá Útskálajörðinni sjálfri en bændur frá öllum hjáleigunum bar skylda að róa eða lána mann til kirkjunnar á Útskálum. Hjáleigurnar voru því að öllum líkindum fyrst og fremst byggðar vegna útræðis og skipsróðurs á vegum kirkjunnar, allt árið um kring. Konungsútgerð á Lambastöðum lagðist af á seinni hluta 18. aldar. Á 19. öld var bændaútgerð mikil á svæðinu en ekki er vitað hversu mörg skipin voru.

Garður

Garður.

Ljóst er að áhrif landbrots í Út-Garði hafa verið mikil um aldir, a.m.k. allt frá 17. öld og eflaust allt frá upphafi byggðar á svæðinu. Þegar jarðabókin er rituð í upphafi 18. aldar er þegar búið að flytja Lambastaði af elsta bæjarhólnum.
Á næstu 140 árum urðu miklar breytingar á svæðinu, jörðin Naust fór í eyði vegna sjógangs og tvær af hjáleigum Lambastaða hurfu í sjó. Við yfirferð loftmynda í þessari skráningu fundust ummerki um garðlag/túngarð á klöppum norðan Vatnagarða. Klappirnar eru undir sjó en ummerkin benda engu að síður til að þarna gæti verið fundinn hluti af túngarði bæjarins Nausts.
Túngarður Útskála var einnig færður tvisvar sökum landbrots, upp í túnið að norðanverðu. Landbrotið hélt áfram og þegar komið er fram undir lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. urðu enn og aftur breytingar á byggðinni við sjávarsíðuna. Þá voru bæirnir Hof og Lónshús báðir fluttir vegna ágangs en síðarnefndi bæinn hafði verið varinn með sjógarði fram að þeim tíma.

Samantekt um fornleifaskráningu og -rannsóknir innan verndarsvæðis

Garðaskagi

Garðsskagi – loftmynd 1957.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka saman helstu niðurstöður þeirra fornleifarannsókna sem höfðu verið gerðar innan úttektarsvæðis áður en skráning vegna verndarsvæðis hófst í mars 2019.
Einn friðlýstur minjastaður er innan svæðisins en það eru forn akurgerði, austan við Garðskagavita. Í Friðlýsingarskrá segir: „Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga. Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Það er ljóst að þessi friðlýsing er almenn og skilgreinir ekki nákvæm mörk hins friðlýsta svæðis. Minjarnar eru merkar og því afar brýnt er að varðveita ummerki þeirra sem enn sjást. Akurgerðanna er fyrst getið í sóknarlýsingum Útskálaprestakalls árið 1839 og aftur tæpum 10 árum síðar í riti Magnúsar Grímssonar um svæðið. Brynjúlfur Jónsson fjallar um akrana í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902. Brynjúlfur getur þess að akurlöndin séu á skaganum fyrir norðan Útskála og segir votta fyrir a.m.k.: „18 akurreinum, 4—8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að litilli hæð eða tóftabungu, sem er skamt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru.“ Þessar akurreinar eru nú að mestu horfnar. Þó mótar óljóst fyrir þeim á tveimur stöðum sunnan við Byggðasafnið á Garðskaga og í afgirtu beitarhólfi þar austar, norðan býlisins Hólavalla.
Fornleifarannsókn var gerð á akurreinunum árið 1999, í landi Hólavalla. Þá voru grafnir tveir könnunarskurðir en engin gjóskulög fundust í þeim og ekki var hægt að aldursgreina minjarnar. Jafnframt fundust frjó af byggi en ekki var hægt að staðfesta að akuryrkja hafi farið fram á svæðinu, þótt það teldist líklegt. Í skráningu minja vegna verndarsvæðis 2019 var var flogið með dróna yfir svæðið og það ljósmyndað kerfisbundið.
Samhliða rannsókninni á akurreinunum 1999 var Skagagarður aldursgreindur og fyrri aldursgreiningar staðfestar. Niðurstöður rannsókna sýna að hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Skagagarður er því líklega hlaðinn á 10.-11. öld. Hann sést ekki innan fyrirhugaðs verndarsvæðis en heimildir geta þess að hann hafi náð allt að túngarði Útskála.

Garður

Garður – formannaleiði.

Talsverðar fornleifarannsóknir voru gerðar á Útskálum árið 2005 en þá var fyrirhugað að byggja safnaðarheimili norðan við bæinn og reista hótel til vesturs. Af þeim sökum var svæðið næst bænum deiliskráð og reyndust átta minjastaðir vera innan hans. Í kjölfarið var ráðist í uppgröft á bæjarhól Útskála, á 25 m2 svæði.
Rannsóknirnar voru gerðar árin 2005-2006 og leiddu í ljós umfangsmiklar mannvistarleifar í bæjarhólnum. Jafnframt reyndust varðveisluskilyrði vera einstaklega góð, bæði fyrir lífrænar leifar og málma. Elstu leifarnar sem grafnar voru upp reyndust vera frá því um miðja 12. öld en greinilegt var að enn eldri leifar voru neðar í hólnum þótt ekki hafi verið grafið niður á þær að þessu sinni.
Talsvert landsvæði frá Garðskagavita austur að Útskálum var deiliskráð árið 2007. Það svæði er lítið minna en fyrirhugaðverndarsvæði og voru samtals skráðar 144 minjar á því. Síðan skráningin var gerð hafa kröfur til deiliskráningar verið auknar og er nú m.a. nauðsynlegt að mæla upp alla sýnilega minjastaði.

Garður

Garður – Vatnagarðar.

Árið 2007 hafði Fornleifastofnun því samtals skráð 152 minjastaði innan þess svæðis sem hér er til skoðunar. Fornleifastofnun aðalskráði fornleifar í sveitarfélaginu Garði á árunum 2008-2010. Vatnagarðar eru eina jörðin sem koma við sögu úr þeirri skráningu, þar voru skráðar fimm minjar.
Við skráningu á fyrirhuguðu verndarsvæði 2019 voru skráðar um 120 minjar til viðbótar. Því eru samtals þekktar tæplega 280 minjar innan fyrirhugaðs verndarsvæðis. Kom þessi aukning minjastaða innan svæðis talsvert á óvart en nefna má ýmislegt sem skýrir hana. Í fyrsta lagi fundust talsvert margar fornleifar þegar svæðið var þaulgengið. Nokkrar þeirra voru á svæðum sem ekki höfðu verið rannsökuð svo ítarlega áður en aðrar voru án efa greinilegri en áður þar sem gróður var ekki kominn á skrið en minjar eiga það til að hverfa í gróður seinni hluta sumars. Í öðru lagi má nefna að sökum reglu um 100 ára aldur fornleifar bætast ungar minjar við sem fornleifar ár hvert og því nokkrir minjastaðir sem skráðir voru sem ekki höfðu talist til fornleifa þegar eldri skráning var gerð. Því hafði fornleifum fjölgað lítillega á þeim rúmu 10 árum sem liðin voru frá því síðasta deiliskráning var gerð. Að öllu jöfnu þarf minjastaður að hafa náð 100 ára aldri til að teljast til fornleifa og „nýjar“ fornleifar hafa því bæst í hópinn. Í þriðja lagi var verklag við skráninguna var nákvæmara en nokkru sinni áður, bæði vegna aukinna skilyrða um deiliskráningu og fyrirmæla Minjastofnunar Íslands um að þegar verndarsvæði í byggð séu skráð skuli taka með yngri minjar en ella.

Bæjarstæði og bústaðir

Garður

Garður – hús.

Þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir, jafnvel allt frá landnámsöld myndast gjarnan reisulegir hólar, svokallaðir bæjarhólar. Slíkir bæjarhólar eru samsettir úr byggingarleifum og mannvistarlögum. Í þeim er geymd saga daglegs lífs kynslóð á kynslóð ofan og í þeim er gjarnan marga forngripi að finna. Bæjarhólar teljast því að jafnaði merkustu minjastaðir hverrar jarðar og er bæjarhóllinn á Útskálum þar engin undantekning líkt og fornleifarannsóknir sýna. Aðrir bæjarhólar á svæðinu láta minna fyrir sér fara þótt greina megi nokkra uppsöfnun á flestum bæjarstæðum. Þó er ljóst að fornleifa væri að vænta undir sverði hvar sem skófu yrði er stungið niður í þeim.
Gera má ráð fyrir að þéttbýlt hafi verið í Út-Garði um aldir og á nokkrum bæjum innan fyrirhugaðs verndarsvæðis var tví- og jafnvel þríbýli. Ekki er ljóst hvenær hjáleigu- og þurrabúðabyggð tekur að þéttast að ráði í Garði. Eins og áður segir eru 13 hjáleigur taldar upp á svæðinu í Jarðabók Árna og Páls árið 1703. Flestar þeirra eru orðnar að lögbýlum árið 1847 og sumar sennilega löngu fyrr. Auk þeirra 11 bæja á svæðinu sem voru lögbýli 1847 og voru skráð 29 önnur býli og bæjarstæði innan þess. Þessi tala er þó villandi, í einhverjum tilvikum er um tilfærslu á bæjum að ræða, sumar staðsetning sumra hjáleiganna eru týnd og aðrar eru án nafns og er vel mögulegt að sum þessara býla hafi verið á sömu slóðum og síðar byggjast upp aðrar hjáleigur með nýjum nöfnum.

Garður

Garður – Hof; bæjarhóll.

Árið 1703 voru tvær jarðir innan þess svæðis sem nú er til umfjöllunar, Útskálar og Lambastaðir. Þegar jarðabókin er rituð var þegar búið að færa Lambastaði vegna ágangs sjávar. Ekki er greint frá því í jarðabókinni hvenær bærinn var færður en elsti bæjahóll jarðarinnar er að öllum líkindum alveg horfinn í sjávarrof. Yngri bæjarhóllinn á Lambastöðum er fremst á sjávarbakkanum og sjóvarnargarður sér til þess að sjórinn brjóti ekki meira af honum en orðið er. Á bæjarhólnum er skúr og margvísleg ummerki um búsetu, m.a. bátaspil, húsgrunnar og hleðslur. Íbúðarhúsið á Lambastöðum er um 150 m sunnar og bærinn stendur því nú á sínum þriðja stað. Í Jarðabókinni er getið um þrjár hjáleigur Lambastaða. Lítið er vitað um tvær þeirra og þær komnar í sjó árið 1839. Önnur var þegar í eyði þegar Jarðabókin var rituð en ekki vegna ágangs sjávar. Líkur eru taldar á að Skagahóll sé býli en það þarfnast frekari rannsókna. Samkvæmt örnefnalýsingu er Hof helmingur Lambastaða en býlið var upphaflega hjáleiga og er þess getið sem slíks í jarðabókinni. Ekki er vitað hvenær hvenær býlið verður að lögbýli en hefur verið á tímabilinu 1704-1847 þar sem býlið er talið til lögbýla í jarðabók frá því ári. Í upphafi 20. aldar var bærinn á Hofi aftur fluttur vegna ágangs sjávar, á núverandi stað um 70 m sunnar. Gamli bæjarhóllinn sést enn fremst á sjávarbakka, á honum eru ummerki um þurrabúð sem var þar eftir að bærinn var flutttur í upphafi 20. aldar. Viðarbrú hylur nú þessar tóftir og göngustígur er ofan á sjóvarnargarðinum sem var gerður árið 2014.

Garður

Garður – loftmynd 1957.

Öll umerki um eldri bæjarhús og útihús á Útskálum eru horfin af yfirborði en bæjarhóllinn geymir upplýsingar um búsetu allt aftur á fyrstu aldir líkt og áður hefur verið minnst á. Á bæjarhólnum er íbúðarhús sem byggt var 1890 og nánar er fjallað um í Húsakönnun. Útihús stóð í norðvesturhorni bæjarhólsins en það var rifið fyrir um 10 árum. Í jarðabókinni 1703 er getið um 10 hjáleigur Útskála. Fjórar þeirra voru í eyði þegar jarðabókin var rituð og þær eiga það allar sameiginlegt að ekki er lengur vitað hvar þær voru. Tvö af býlunum voru kennd við þá ábúendur sem þar bjuggu hverju sinni en báðar fóru í eyði um 1700. Samkvæmt jarðabókinni má ætla að búseta hafi þar verið nokkuð samfelld fram að þeim tíma. Blómsturvellir/Snorrakot fór í eyði á sama tíma og nafnlausu býlin og voru grasnytjar þess lagðar til Vatnagarða. Ekki er vitað hvar býlið stóð en líklega var það nærri Vatnagörðum. Fjórða hjáleigan var Hesthús og var staðsetning hennar þegar ertýnd 1703. Nafnlaust býli var í byggð 1703 nærri Útskálabænum en ekki er vitað nákvæmlega hvar hún stóð. Í túni Útskála eru fimm rústahólar þar sem hugsanlegt mætti telja að hjáleigur hefðu verið og verður hér greint stuttlega frá þeim öllum. Fyrir suðvestan bæjarhól Útskála eru minjar og mótar þar fyrir bæjarhól og útflöttum tóftum. Þessar minjar urðu fyrir smávægilegu raski þegar húsgrunnur fyrirhugaðs hótels á Útskálum var steyptur. Minjar eru rétt austar, beint norðan við bæjarhól Útskála. Þar er allstórt og óreglulegt þústahrúgald, að hluta eru ójöfnurnar vegna jarðrasks. Könnunarskurður var gerður á þessum stað árið 2006 og þá komu í ljós byggingarleifar og gripir frá 18.- 20. öld. Rústahóll var um 100 m vestan við Útskála og var skráður árin 2005 og 2007. Minjanar voru fjarlægðar vegna framkvæmda við húsgrunn fyrirhugaðs hótels og voru ekki rannsakaðar sem verður að teljast alvarlegt mál fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Fyrir sunnan Útskála eru tveir rústahólar þar sem gætu hafa staðið býli. Vestari hóllinn er umfangsmeiri og á yfirborði hans mótar fyrir hólfum. Eystri hóllinn er skammt austar og örlítið lægri. Ekki mótar fyrir þar fyrir ummerkjum á yfirborði en ljóst er að mannvistarleifar leynast undir sverði. Býlið Naust fór í eyði árið 1782, en þar var áður þríbýli. Öll ummerki um býlið eru komin sjó líkt og áður var greint frá.

Garður

Garður – Lónshús.

Lónshús var hjáleiga Útskála en bærinn var fluttur um 1890 vegna ágangs sjávar. Húsið Hólmasteinn er líklega á hluta elsta bæjarhólsins að hluta, þ.e. ef eitthvað var eftir af honum. Yngra bæjarstæði Lónshúsa var skammt vestan við gamla bæjarstæðið. Þar er nú steinsteypt íbúðarhús byggt 1906. Engin ummerki um eldri byggingar sjást þar á yfirborði. Íbúðarhúsið, Akurhús II, eru byggð ofan í norðvesturhorn bæjarhóls Akurhúsa en engin ummerki um eldri bæ sjást á yfirborði. Á túnakorti frá 1919 er merkt lítið timburhús fast austan við gamla bæinn, en þarna er nú húsið Akurbrekka II. Þarna var líklega timburhús sem tók við af gamla torfbænum. Bæjarhóll Nýjabæjar er merkjanlegur en engar minjar eru þar á yfirborði. Hólnum var mikið raskað með byggingu sólpalls á síðustu árum og jarðvegi rutt til suðausturs. Íbúðarhúsið í Nýjabæ er reist fast norðan við bæjarhólinn árið 1911 og nánar er fjallað um það í Húsakönnun. Bæjarhóll Móakots sést enn, á honum eru ekki greinilegar minjar en hleðslur afmarka suðvestur- og norðausturbrúnina. Bílskúr er grafinn inn í hólinn til suðausturs. Bæjarhóll Presthúsa er fast norðaustan við núverandi íbúðarhús á bænum en ekki sjást minjar á yfirborði. Garðhús fóru í eyði á seinnihluta 20. aldar og öll hús hafa verið rifin. Bæjarhóllinn sést í sléttu túni og það mótar fyrir lágum hryggjum og dældum þar ef vel er að gáð. Vatnagarðar eru norðan við Útskálasíki, við sjávarkampinn. Bærinn fór í eyði eftir 1919, þar var tvíbýlt en bæði húsin hafa verið rifin og engin ummerki eru þar um bæjarhól.

Garður

Garður – Presthús.

Getið er um býlið Naustakot í örnefnalýsingu Útskála. Ekki er vitað hvenær það byggðist en þess er fyrst getið í manntali 1840. Þar er enn búið árið 1845 en bærinn fer líklega úr ábúð fljótlega eftir það. Mögulegt er að kotið byggist upp á sama stað og Naust var áður eftir að síðarnefnda býlið er fallið í eyði en ekkert er hægt að fullyrða um það og nákvæm staðsetning eða önnur ummerki um bæinn eru ekki þekkt. Nýlendu er fyrst getið í nýrri Jarðabók fyrir Ísland 1861 og að öllum líkindum fyrst byggð stuttu áður. Á seinnihluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. öld þéttist byggð ennfrekar á svæðinu.
Flest nýju býlanna eru merkt inn á á túnakort frá 1919. Öll eru þau sunnan við eldri bæi, utan við gömlu heimatúnin. Þetta eru býlin Garðskagi, Hólavellir, Steinshús, Sjávargata, Sæból, Blómsturvellir, Hólavellir, Móhús, Hellukot, Fögruvellir og Steinhús. Nýr viti var einnig reistur árið 1944, innan túns Garðskaga. Þá voru íbúðarhúsið að Grund og Efra Hofi reist á fjórða áratug síðustu aldar og síðar hafa fleiri íbúðarhús verið byggð fast norðan Skagabrautar á milli Móakots og Móhúsa. Þessari þéttingu byggðar hefur fylgt talsvert rask á svæðinu.

Kálgarðar, gerði og garðlög

Garður

Garður – garðar og aðrar minjar.

Sá minjaflokkur sem setur hvað mestan svip á umhverfið í Garði eru ýmiskonar garðlög og er það jafnframt stærsti minjaflokkurinn. Stór hluti þeirra var merktur inn á túnakort frá 1919 en haldið var áfram að hlaða tún- og kálgarða í Garði fram eftir öldinni. Fjöldi garðlaga í Garði helgast sennilega fyrst og fremst af þéttri byggð, en ljóst er að þéttbýlt hefur verið þar um aldir. Garðlögin þjónuðu ýmsum hlutverkum. Sumir garðanna hafa verið hlaðnir um kálgarða eða túnskika sem tilheyrðu ákveðnum býlum, aðrir voru hlaðnir milli jarða og hafa þá væntanlega einnig þjónað hlutverki túngarða, einhver eru hlaðin undir girðingar og önnur gegna mörgum hlutverkum eða þá að hlutverk þeirra er óþekkt. Eftir því sem byggð þéttist á svæðinu hefur án efa orðið sí algengara að hlaða garða um túnskika eða litla bletti sem tilheyrðu hinum og þessum eigendum. Þannig hefur garðanetið orðið flóknara eftir því sem leið á 19. öldina. Sumum görðum hefur verið haldið við allt fram á þennan dag en erfitt er að ráða af yfirborðsummerkjum hvort þeir eru gamlir að stofni til eða hleðslur frá 20. öld. Af þeim sökum voru öll sýnleg garðlög á svæðinu skráð, jafnvel þótt sum gætu verið yngri en 100 ára. Það er þó rétt að hafa þann fyrirvara á að jafnvel þótt garðlag sé nýlegt að sjá getur það hafa verið endureist á fornum grunni. Á þetta bæði við um nýhleðslur og garðlög sem tilheyra sýnilega eldri byggingarskeiðum. Nokkrum vandkvæðum er bundið að skrá garðlögin, enda mynda þau flókið kerfi og eru sýnilega misgömul. Ekki er alltaf auðvelt að ákveða hvaða garðlög tilheyra sama mannvirki eða byggingarstigi og því er erfitt að birta tölulegar upplýsingar um garðlög líkt og aðra minjastaði, enda geta fleiri en eitt garðlag stundum verið skráð undir einu númeri.
Alls voru skráð 94 garðlög innan úttektarsvæðis og mynda þessi mannvirki heild sem nær yfir allt verndarsvæðið. Garðlögin gætu verið lykillinn að því að ráða í þróun byggðarinnar, sérstaklega ef hægt væri að aldursgreina þau. Stundum var hægt að setja fram tilgátur um í hvaða röð garðlögin voru reist út frá afstöðu þeirra í milli hér á eftir fylgir umfjöllun um mögulegan aldur garðlaganna sem byggð er á slíkum rannsóknum. Reynt var að greina hvaða garðlög væru „ráðandi“ á svæðinu og gætu þar af leiðandi verið elst. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að engir könnunarskurðir hafa verið gerðir ennþá og því hugmyndir um aldur byggðar á tilgátu en vonandi má í framtíðinni afla betri upplýsinga um aldur garðlaganna með skurðum.

Garður

Skagagarður er samofinn sögu Garðs og nafnið byggðarinnar líklega dregið af honum. Skagagarður er horfinn innan úttektarsvæðisins og en sést sunnan við Skagabraut. Heimildir geta þess að hann hafi legið til suðurs frá túngarði Útskála og er það ekki ólíklegt. Heimatún og þar með talið túngarður Útskála hefur tekið breytingum í gegnum tíðina, ekki síst með þéttingu byggðar til suðurs og landbroti til norðurs. En það eru fleiri garðlög á verndarsvæðinu, sem svipar til Skagagarðsins. Suðvestarlega á úttektarsvæðinu mótar fyrir fornu, signu garðlagi.
Fyrst má nefna garðlag sem suðvestast á svæðinu. Þessi garður var án efa umhvefis akurreiti til suðurs og áhugavert væri að aldursgreina hann til að kanna hvort hann sé samtíða Skagagarði. Á uppdrætti Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 er teiknað bogadregið garðlag sem liggur til austurs að rústahól og er líklega um sama garð að ræða. Garðlagið liggur áfram til austurs og hvefur við húsið Grund, vegna jarðrasks. Fyrir austan það hús sést garðurinn aftur en töluvert jarðrask er á því svæði og hann rennur saman við aðrar, yngri hleðslur. Afar líklegt er að garðurinn hafi náð að túngarði Lambastaða sé tekið mið af legu og gerð þessarra garðlaga. Öll þessi garðlög eru bogadregin og útflött. Annars eru bogadregnar línur sjaldséðar meðal unglegra garða á svæðinu en yfirleitt afmarka yngri garðlög kantaða reiti.
Ekki er ljóst hvaða garður er elstur á milli Lambastaða og Útskála, þar er m.a. heimatún Lónshúsa en þar mótar ekki fyrr fornum garði á yfirborði. Hugsanlegt er að garðlag sem varð veitt er í tveimur hlutum, sé hluti af eldri merkjagarði milli þessarra jarða. Túngarður sem virðist nokkuð forn er milli Prestshúsa og Útskála. Hann er ekki merktur inn á túnakort frá 1919 og er án efa löngu fallinn og horfinn úr notkun þá. Túngarðurinn er siginn og bogadreginn og með aðra stefnu en flest önnur garðlög á svæðinu. Hann afmarkaði heimatún Útskála til suðurs og líklegast er að hann sé sá túngarður sem Skagagarður lá að, ástand þeirra er svipað. Ef rétt er má segja að þetta sé talsverð uppgötvun og áhugavert væri að kanna aldur garðsins frekar með könnunarskurði. Túngarðurinn er vestan við núverandi heimreið að Útskálum og nær allt að Garðhúsum til austurs. Sá bær gæti verið byggður ofan á garðlagið.

Garður

Garður – Hellukot.

Óljóst framhald túngarðsins má greina austan Garðhúsa, í grónu túni og býlið Hellukot virðist reist ofan á þessum hluta garðsins. Austan Hellukots eru sigin garðlög utan verndarsvæðis í beinu framhaldi og ljóst að í neti garðlaga á þessum slóðum liggur fólginn mikill fróðleikur og sögu og byggðaþróun Út-Garðs. Túngarður afmarkar austurhlið verndarsvæðis og var landamerki milli Útskála og Miðhúsa. Þar sést nú grjóthlaðinn túngarður með vírgirðingu og ljóst að honum hefur verið haldið við síðustu áratugi en garðurinn er mögulega forn í grunninn. Innan heimatúns Útskála mótar fyrir signu garðlagi, milli kirkjugarðsins og Útskálasíkis. Annað garðlag sést sunnan við meint býli og með góðum vilja má segja að mögulega hafi þeir afmakað tún þeirra býla. Túngarður liggur yfir hluta þessara minja og greinilega yngri.
Túngarður Lambastaða/Hofs er varðveittur í heild sinni nema til norðurs, þar er hann kominn í sjó og hlaðinn varnargarður ver ströndina. Ástand túngarðsins er misjafnt, við sjóinn sést vel hlaðið fjörugrjót en í túnum myndar það gróna hryggi. Sunnan við heimatúnin sést móta fyrir enn öðrum garði, signum og útflöttum. Ástand hans er bágborið og hann skráður í fjórum hlutum. Garðurinn er á því svæði þar sem byggðin þéttist mikið í lok 19. aldar og hefur hann horfið á köflum vegna bygginga og annarra yngri mannvirkja á svæðinu. Garðbútarnir eru hins vegar allir umfagsmiklir og sambærilegir elstu garðlögum á verndarsvæðinu. Garðlagið gæti hafa afmarkað akurlönd eða heimatún syðstu hjáleigna líkt og Presthúsa og Móhúsa að hluta. Þessir túngarðar eru umfangsmiklir, fornlegir og skipulag byggðarinnar fylgir þeim.
Næsta stig garðahleðslu sem fjallað er um hér eru garðar sem flestir eru taldir frá seinni hluta 19. eða 20. aldar þótt ekkert sé hægt um það að fullyrða. Flestir garðanna eru merktir inn á túnakort frá 1919 og er ástand þeirra oftast ágætt. Það er áhugavert að flest garðlaganna eru innan heimatúnanna, nærri eldri lögbýlum og þeim garðlögum sem hér hafa verið túlkuð sem elst. Garðlögin eru flest bein, algróin og afmaka kálgarða eða voru túngarðar. Af þeim eru garðlög einna umfangsmest.

Garður

Garður – ofan við Helgustaðavör.

Yngstu garðlögin sem skráð voru í verndarsvæðisskráningunni voru ýmis garðlög frá 20. öld og eru í flestum tilvikum kálgarðar eða undirhleðslur af girðingum. Kál- og kartöflurækt virðist hafa blómstrað í Garði á 20. öld ef marka má fjölda kálgarða sem sýndir eru á túnakortum frá 1919. Sennilega hefur ræktunin þá verið tiltölulega nýtilkomin, enda talið að jarðrækt hafi fyrst færst í aukana á 19. öld eftir viðvarandi uppblástur á svæðinu allt frá 13. öld og fram á þá 19. Þegar sóknarlýsing Útskálaprestakalls var rituð árið 1839 var sóknarpresturinn í það minnsta ekki upprifinn yfir kálrækt samsveitunga sinna: „Kálgarðarækt er á sumum stöðum vel stunduð, en víða líka miklu verr en vera ber.“ Flestir voru kálgarðarnir sunnan við heimatún og umhverfis bæi sem byggðust upp á svæðinu. Með því að skoða þá sést vel hvernig umfang jarðræktar á svæðinu hefur vaxið og færst suður fyrir gömlu heimatúnin, með undantekningum. Sumir þessara kálgaða eru enn í notkun og ummerkin eru misgreinileg og umfangsmikil eins og gefur að skilja. Ekki er alltaf um stæðilegar hleðslur að ræða, sumir þeirra eru plægðir niður og kantur mótar þá.
Landamerki og ummerki þeirra eru ekki mörg innan skráningarsvæðisins. Eins og áður sagði eru núverandi túngarðar í mörgum tilvikum einnig landamerki milli jarða en einnig er getið um áletranir klappaða í steina sem allir eru hofnir. Ekki er ljóst af hverju en líklega eru þeir nú komnir í sjó.

Önnur hús í hverfinu

Garður

Garður -minjar.

Það er ljóst að talsvert af þeim minjum sem setja hvað sterkast svip á Út-Garð eru frá 19.-20. öld. Þar vega þyngst útihústóftir ásamt kál- og túngörðum sem áður var fjallað um. Við skráningu verndarsvæðisins var skráð 61 útihús og er það um fjórðungur allra skráðra minja þar. Lítið er varðveitt af minjum um skepnuhald á skráningarsvæðinu annað en garðlög þau sem áður er getið sem hafa sjálfsagt mörg verið aðhöld eða vörslugarðar. Þær útihúsatóftir sem eru varðveittar vitna ekki um umfangsmikinn skepnubúskap, enda virðist hann nánast hafa verið aukabúgrein á þessu svæði en sjósóknin í aðalhlutverki. Þegar Jarðabók Árna og Páls var tekin saman 1703 var stærsta búið á Lambastöðum en þar voru 5 kýr, 11 ær, 6 sauðir, 6 lömb og 4 hross. Á Útskálum voru 5 kýr, 1 kvíga, 3 kálfar, 7 ær, 2 lömb og 5 hestar. Önnur bú voru mun minni. Árið 1837 voru aðeins 130 ær í Útskálaprestakalli en heldur fleiri brúkunarfær hross eða 142 og 133 kýr.

Garður

Lambastaðarétt (Helgarétt).

Ekki var vitað um nákvæmt hlutverk flestra af þeim útihúsum sem skráð voru á svæðinu. Af 61 slíku húsi er aðeins vitað um nákvæmt hlutverk sex húsa, eða 10% þeirra, og sýnir það hversu mikill fróðleikur um þennan hluta sögu Garðsins hefur glatast á undanförnum áratugum. Upplýsingar um húsin eru allar fengnar af túnakortum frá 1919 og í einhverjum tilvikum af skipulagsuppdrætti frá 1954. Tæplega helmingur húsanna er horfinn af yfirborði eða 27 hús. Hluti af þessum húsum voru þrær en ein eða fleiri slíkar voru á hverri jörð. Í þær var safnað saman öllum úrgangi sem féll til á bæjum og borið á túnin á vorin Af þeim húsum sem nákvæmt hlutverk er þekkt er ein fjárrétt, Lamastaðafjárrétt/Helgarétt sem var við sjávarkampinn. Réttin er gjóthlaðin úr fjörugrjóti en norðurhlið hennar er röskuð. Réttin var gjarnan talin gömul skilarétt fyrir hreppinn og syðri hluti hennar er vel varðveittur. Fjárskýli er sunnan við sjávarkampinn og norðurhluti hennar gengur undir malbikaðan göngustíg. Tóftin er sigin og ekki ólíklegt að norðurhlutanum hafi verið raskað vegna sjógangs. Ummerki um tvö gömul fjós eru varðveitt innan verndarsvæðis.
Þúst er á svokölluðum Fjósaflötum í heimatúni Útskála en ekki er hægt að greina neitt lag á henni, örnefnið gefur þó helst til kynna að þetta hafi verið fjós. Í landi Hofs er fjós sem var byggt eftir 1930. Tóftin sést enn, og í henni mótar fyrir grjóthlöðnum veggjum. Ritaðar heimildir geta einungis um einn hjall innan verndarsvæðis en á túnakorti Vatnagarða frá 1919 er skrifað ‘3 timburskýli fyrir fisk.“ Þau eru horfin, en á sömu slóðum er nú göngustígur. Á túnakort Akruhúsa eru sýnd þrjú sambyggð hús og skifað við þau „malir“. Þessi mannvirki eru öll horfin.
Innan heimatúnanna voru skráðar 19 þústir, í öllum tilvikum var talið augljóst að mannvistarlög leyndust þar undir sverði. Í mörgum tilvikum er líklega um útihús eða minjar tengdar sjósókn að ræða en nánari upplýsingar um hlutverk þeirra og aldur má aðeins fá með fornleifauppgreftri.

Minjar um sjósókn

Garður

Garður – vör.

Þrátt fyrir að ljóst sé að íbúar í Útskálasókn hafi ætíð stundað sjósókn samhliða búskap eru ekki hlutfallslega margar sýnilegar minjar um sjósókn innan verndarsvæðis. Slíkar minjar eru samtals 15 talsins. Ástæður þessarar fæðar eru að öllum líkindum tvær. Í fyrsta lagi gætu flestar minjar um sjósókn hafa horfið vegna landbrots og tíðra framkvæmda við sjávarsíðuna á 20. öld. Þetta á við um naust, fiskreiti, sundmerki o.fl. Í öðru lagi er ekki alltaf augljóst að mannvistarleifar hafi tengst sjósókn ef ekki eru til heimildir um notkun þeirra.
Best varðveittu minjar um sjósókn á verndarsvæðinu eru ruddar varir eða lendingar. Innan skráningarsvæðisins eru þrjár slíkar varðveittar og hafa verið merktar með skiltum á undanförnum árum af Guðmundi Garðarssyni og Vilhelm Guðmundssyni. Augsýnilega hefur mikil vinna verið lögð í að halda vörunum þokkalegum, enda líf manna komið undir því að hægt væri að ná landi líkt og kemur fram tillögu að verndarsvæði í byggð. Þetta eru Akurhúsavör, Miðvör og Lónið. Tvær aðrar lendingar eru innan skráningarsvæðis, Lambastaðavör og Króksvör en öll ummerki um þær eru horfnar. Á Lambastöðum voru umsvif konungsútgerðarinnar mikil á 16.-18. öld en lítil sem engin ummerki um hana varðveitt nema sjálf Lambastaðavör. Það er ljóst að þennan hluta atvinnu- og byggðasögu svæðisins þarf að rannsaka mun betur. Líklega er útgerðarsvæði Lambastaða komið í sjó, á 18. öld er búið að flytja bæinn vegna sjógangs. Í máldaga Útskála frá 14. öld sést að lendingar og uppsátur voru einnig við býlið Naust en það svæði er komið í sjó og engar upplýsingar aðar en ritaðar heimildir varðveittar um þá jörð og minjar þar.
Fjögur uppsátur eru merkt inn á Túnakort frá 1919 og Skipulagsuppdrætti frá 1954. Uppsátur er sunnan við Króksvör, suðurhlið þess er hlaðin og tvö bátaspil sjást þar enn. Þarna voru bátar úr Króksvör teknir á land. Í landi Lambastaða er uppsátur, þar sér enn móta fyrir grónum kanti, sunnan við Lambastaðavör. Bátaspil er sýnt á túnakorti nærri Lónshúsum en ummerki þess eru horfin undir byggingu. Hið sama má segja um uppsátur við Lónshúsavör sem komið er undir malbikað plan. Fiskimalir eru sýndar á túnakorti frá 1919 við Lambastaði en þess sjást ekki merki á yfirborði.
Einungis tvær þurrabúð eru þekktar á skráningarsvæðinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar er minnst á konungsbúð á Lambastaðastöðum en ekki er vitað hvar hún var. Þurrabúð var gerð í bæjarhúsum Hofs um 1906 í kjölfar þess að bærinn var fluttur. Tóft þurrabúðarinnar er nú undir trébrú á göngustíg sem liggur meðfram sjávarsíðunni og ljóst að miklar brreytingar hafa orðið á eldri bæjarhól Hofs á síðustu 10 árum eða svo.

Samgönguminjar

Garður

Garðskagaviti.

Á skráningarsvæðinu eru 20 minjastaðir sem tengjast samgöngum, en stór hluti þeirra er horfinn vegna jarðræktar. Allt eru þetta leiðir sem flokka mætti sem styttri leiðir innan landareignar auk minjastaða sem tengjast samgöngum á sjó.
Garðskagaviti er reistur 1897 en nýrri viti var reistur árið 1944. Báðir vitarnir standa enn og eru orðnir eitt helsta kennileiti Garðs. Þrjú siglingamerki eru innan skráningarsvæðis, á þeim öllum eru nú grjóthrúgur og rekaviðartré. Merkin eru fallin úr notkun en það væri áhugavert í ljósi sögu svæðisins að halda þeim við.
Aðeins einar reiðgötur voru skráðar innan úttektarsvæðis. Þær lágu sjávarmegin við Akurhús, á svæði sem kallaðist Sandaflatir. Þar mátti greina allt að 13 troðninga innan heimatúns sem bendir til þess að leiðin hafi verið fjölfarin en ekki er vitað hvert leiðin lá.
Á túnakortum frá 1919 eru teiknaðar traðir að sjö bæjum á svæðinu en hvergi sjást ummerki um þær lengur. Traðirnar lágu flestar til suðurs frá bæjunum en ekki í átt til sjávar, litlar sem engar heimildir hafa varðveist um sjávargötur. Í upphafi 20. aldar er því greinilegt að þungamiðjan í samgönguneti Út-Garðs hefur verið sunnan við heimatúnin, eftir vegi þar sem Skagabraut liggur enn. Ekki er ljóst hvort að svo hafi alltaf verið en heimildin um reiðgöturnar gefur til kynna að mikilvæg leið hafi áður verið norðar, nær sjó. Malarvegur er yfir tröðum að Hofi. Þær voru um 20 m breiðar og enduðu beint vestan við yngra bæjarstæðið.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti nýrri.

Traðir lágu til norðurs frá vegi (núverandi Skagabraut) inn á gróið svæði milli býlanna Fögruvalla og Sjávargötu. Á sama stað er nú vegslóði að Steinshúsi sem byggt var eftir 1920. Traðir lágu til suðurs frá Lambastöðum en á svipuðum slóðum er nú gróin lág í túni. Traðir lágu til suðurs frá Fögruvöllum, í gegnum kálgarða. Á þessu svæði eru nú gróin tún og engin ummerki traðanna merkjanleg. Frá Móhúsum lágu traðir að fyrrnefndum vegi sunnan við túnin en öll ummerki þeirra eru horfin í tún. Hið sama má segja um traðir sem lágu til suðurs frá Nýjabæ, þær eru komnar í tún og lítil sem engin ummerki þeirra sjást lengur. Traðir lágu til norðurs frá Nýlendu að kálgörðum sem þar voru. Á Útskálum voru tvennar traðir, aðrar lágu til suðurs frá bænum að fyrrnefndum vegi og traðir til norðausturs að Naustahliði. Yfir þeim báðum eru akvegir í dag. Þetta eru einu „gömlu traðirnar“ sem liggja til norðurs innan skráningarsvæðisins.
Ýmsar aðrar götur eru teiknaðar inn á túnakort frá 1919. Götur eru einnig sýndar á túnakortum. Í landi Lónshúsa lágu götur til suðvesturs frá Lónshúsum að hliði sem þar var á túngarðinum. Göturnar sjást ekki lengur. Leið er einnig merkt á túnakortið og lá til suðurs frá fiskimölum og lendingnum sem þar eru. Líkt og aðrar götur innan svæðis er hún horfin. Steypt stétt er sýnd á túnakorti frá 1919 frá Garðskaga að Garðskagavita, þar er enn vegur. Leið var fast vestan við Fögruvelli og lá inn á gróið svæði milli kálgarða Fögruvalla og kálgarða Hofs. Á sama stað er nú malarvegur að Efra-Hofi. Leið lá til suðurs fá Móakoti en þar er nú malarvegur að bænum.

Brunnar

Garður

Presthús – brunnur.

Áberandi minjaflokkur á svæðinu eru brunnar en aðgangur að fersku vatn var víða erfiður á Reykjanesi. Allt vatn í Út-Garði var sótt í brunna en einnig var vatni safnað í þrær eða kör við hús. Sumir brunnanna sem voru skráðir voru aldagamlir meðan aðrir eru gerðir á 20. öld. Alls voru skráðir 11 brunnar á svæðinu en enginn þeirra er enn í notkun. Brunnur var gerður á fyrrihluta 20. aldar og vatn leitt úr honum inn Nýjabæ. Þar sést nú einungis dæld á yfirborði. Brunnur sem var gerður árið 1929 við Nýlendu er horfinn en óljós ummerki þústar sem líklega eru leifar af brunn fundust í landi Akurhúsa. Á skipulagsuppdrætti frá 1954 er merktur brunnur í landi Garðhúsa en engin ummerki hans sjást nú í grónu túni. Hið sama má segja um brunn sem er merktur á túnakort frá 1919 vestan við Sæból, en hann er horfinn undir malarveg. Lónshúsabrunnur sést vel og er merktur með litlu skilti. Hliðar hans eru steyptar og plata er yfir opi hans. Hið sama má segja um brunn í Prestshúsum, steyptur kassi er umhverfis hann og járnhleri yfir. Ártalið 1938 er teiknað í steypuna en brunnurinn er í grunninn eldri, hann er sýndur á túnakorti frá 1919. Tveir brunnar eru í Vatnagörðum. Þar var tvíbýli og eru brunnarnir frá sitt hvorum bænum. Báðir eru þeir fullir af grjóti. Brunnur var sunnan við kirkjugarðinn á Útskálum, þar er gróin dæld sem ber honum vitni. Brunnur var í landi Hofs og þar er nú hólbunga yfir.
Margvíslegar annars konar minjar voru skráðar við úttekt á verndarsvæðinu og vísast að mestu til fornleifaskráningar um einstaka minjastaði þar sem sjaldan eru margir hverri gerð. Í lokinn er vert að minnast á tvo minjastaði sem láta lítið yfir sér en gætu engu að síður verið mjög merkir. Við skráningu vegna verndarsvæðis fundust tveir öskuhaugar, annar í Vatnagörðum en hinn í Miðhúsum. Ummerki um báða öskuhaugana fundust í rofi sem myndast hafði vegna ágangs hrossa. Öskuhaugur er norðan við nyrðri bæinn í Vatnagörðum. Þar er hólbunga innan við túngarðinn og mikill sandur í jarðvegi. Þar er rof í gróðurþekju og um 0,1-0,2 m þykkt lag af fiskibeinum blasir þar við. Ekki var hægt að greina ösku eða brennd bein þar. Öskuhaugur fannst norðan í svokölluðum Miðhúsahól, þeim hluta sem er innan verndarsvæðis. Hóllinn skagar til norðurs að Útskálasíki og þar er í rofi mikið af ösku og brenndum beinum. Bæjarhóll Miðhúsa er fast austan við verndarsvæðið og hefur öskuhaugurinn tilheyrt þeim bæ.

Samantekt 

Garður

Hinir eiginlegu „úthagar“ voru ekki skráðir og þar af leiðandi ekki minjar af því tagi sem helst finnast á slíkum svæðum, s.s. sel, stekkir, beitarhús, o.s.frv.. Útskálahjáleigurnar, Lambastaðir og Hof eru merktar inn á túnakort frá upphafi 20. aldar ásamt kálgörðum og öðrum mannvirkjum sem þeim fylgdu. Túnakortin eru bestu tiltæku heimildirnar sem völ er til að veita innsýn inn í menningarlandslag svæðisins í upphafi 20. aldar, fyrir tíma stórvirkra vinnuvéla þrátt fyrir að byggðin hafi strax á þessum tíma verið farin að þenjast út. Þrátt fyrir að mikið jarðrask hafi verið á svæðinu undanfarna áratugi er með ólíkindum hversu vel hversu góða og nákvæma mynd túnakortin gefa af mannvirkjum og þá um leið hversu mikið af minjum er enn varðveitt. Minjarnar spanna að líkindum allt tímabil búsetu á svæðinu, allt frá landnámi og fram eftir 20. öld (en hluti minja sem skráður teljast ekki til fornleifa samkvæmt skilningi laganna).
Innan skráningarsvæðisins eru samtals þekktar 27 minjar og af þeim voru 110 staðir nýskráðir vorið 2019 en 157 staðir höfðu áður verið skráðir en voru nú mældir upp og skráningin endurskoðuð. Ástand minja á skráningarsvæðinu er sem fyrr segir gott, einkum í ljósi þess hversu þéttbýlt það er en aðeins um þriðjungur þekktra minjastaða reyndist alveg horfin. Á öðrum stöðum sáust einhver ummerki um minjastaði, þótt þau væru stundum brotakennd.

Garðskagi

Garðsskagi – loftmynd 1954.

Mikið rask hefur átt sér stað innan svæðisins á síðari árum samfara þéttingu byggðar s.s. við húsbyggingar og jarðrækt. Minjar hafa oftast horfið vegna niðurrifs og sléttunar eða vegna þess að ný mannvirki hafa verið byggð í stað þeirra gömlu. Minjar við ströndina hafa einnig horfið og skemmst vegna ágangs sjávar. Með gerð sjóvarnargarðs var að mestu komið í veg fyrir frekara landbrot á norðanverðu svæðinu.
Hættumat var gert fyrir allar fornleifar innan fyrirhugaðs verndarsvæðis. Ákveðið var að meta það sem svo að uppistandandi hús teldust ekki í hættu. Aðrar minjar töldust allar vera í almennri hættu vegna ábúðar en slíkt er vinnuregla með minjar í nágrenni jarða og innan þéttbýlis. Ekki eru fyrirhugaðar framkvæmdir innan verndarsvæðisins svo vitað sé en í þéttbýli og á athafnasvæðum er slík hætta ævinlega til staðar. Þó að fornminjar sjáist ekki á yfirborði er oftar en ekki hægt að finna leifar þeirra undir sverði og því kunna minjar að teljast í hættu þó að þær séu ekki lengur sýnilegar.

Garður

Garður – loftmynd 1954.

Í raun má kalla byggðina í Út-Garði „dreift þéttbýli“. Meginreglan um dreifingu minjastaða er sú að flestir þeirra eru í og við heimatún en þeim fækkar hlutfallslega eftir því sem fjær dregur bæ. Innan túns eru líkur á að mannvistarleifar leynist undir sverði einnig mun meiri en annars staðar. Því má gera ráð fyrir að til viðbótar við þær tæplega 280 fornleifar sem þekktar eru innan verndarsvæðis leynist áður óþekktar mannvistarleifar víða þar sem allt úttektarsvæðið er í raun innan heimatúna. Til að koma í veg fyrir að minjum verði spillt eða leggja þurfi út í mikinn kostnað við að bjarga fornleifum sem er ógnað er gjarnan mælt með að forðast allar umfangsmiklar framkvæmdir í heimatúnum gamalla jarða og er það ítrekað hér. Framkvæmdir nærri bæjarhól Útskála eru gott dæmi. Þar viku minjar sem voru skráðar árið 2005 án nokkurra rannsókna vegna byggingar sem aldrei var reist.
Akurlönd eru eini friðlýsti minjastaðurinn innan svæðisins. Minjunum hefur engu að síður verið raskað á síðustu áratugum svo vart sér til þeirra lengur nema á litlu svæði norðan við Hólavöll. Hins vegar sjást fleiri ummerki um akurreiti á yfirborðslíkani sem gert var í þessari skráningu og á því má greina akurreinar til austurs allt að Hofi. Það gefur til kynna að ummerki um akrana séu enn varðveitt undir yfirborði þótt þau séu orðin illgreinanleg á yfirborði. Þetta þarfnast frekari rannsókna en ef rétt reynist gæti friðlýsingin Akurlanda náð til þessa svæðis og það haft áhrif á nýtingu þess.

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Nokkrar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar innan verndarsvæðisins á síðustu árum og hafa þær staðfest að búsetu á Útskálum fyrir 12. öld. Skagagarðurinn hefur einnig verið aldurgreindur og er frá 10. – 11. öld. Sá hluti Skagagarðsins sem liggur innan skráningarsvæðis sést ekki á yfirborði en líklega eru leifar hans merkjanlegar undir sverði og enn sér móta fyrir honum sunnan Skagabrautar. Við þessa skráningu fundust nokkur sambærileg garðlög sem kunna að hafa markað suðurhlið heimatúna á svæðinu og gætu þannig hafa gegnt svipuðu hlutverki og Skagagarðurinn. Brynjúlfur Jónsson teiknaði líklega hluta þeirra inn á uppdráttinn frá árinu 1902. Ljóst er að það gæti orðið mjög áhugavert rannsóknarefni að kanna þetta forna net garðlaga, aldur þeirra og innbirgðis tengsl.
Minjarnar sem skráðar voru innan verndarsvæðis hafa mismunandi hlutverk en eiga það sammerkt að endurspegla eðli og nýtingu svæðisins. Algengustu minjarnar sem skráðar voru reyndust ýmiskonar hús. Þar vógu þyngst íveruhús af margvíslegum gerðum þ.e. bústaðir og býli enda lengi verið þéttbýlt á svæðinu en nokkur fjöldi útihúsa var einnig skráður. Talsverður fjöldi kálgarða var einnig skráður og sömuleiðis garðlög sem byggð voru í annars konar tilgangi. Einnig er ljóst að ummerki um akurlöndin sjást sunnan Skagabrautar en ekki var farið í kortlagningu þeirra í þessari skráningu, t.d. túngarðar, garðar sem reistir voru til að marka eignarrétt á minni jarðskikum og landamerki jarða. Túngarðarnir eru eflaust margir að stofni til fornir en kálgarðarnir frá síðari öldum. Kvikfjárrækt og garðrækt hefur verið talsverð á svæðinu og ber fjöldi garðlaga, túngarða og kálgarða þess vitni.

Garður

Garður – sjóspil við Helgustaði.

Sjávarútvegur hefur frá fornu fari verið aðalatvinnuvegur Garðverja en vægi hans endurspeglaðist ekki nema að litlu leyti í þeim minjum sem skráðar voru. Aðeins ein þurrabúð er varðveitt á svæðinu, á gamla bæjarhól Hofs. Á Lambastöðum voru mikil umsvið konungsútgerðar á 16.-18. öld en engin ummerki um hana eru varðveitt. Heimildir eru um fimm lendingar á svæðinu en tvær þeirra eru horfnar. Skráningin bendir til að mikið af minjum tengdum fiskveiðum hafi horfið í sjó á undanförnum áratugum og öldum.
Fornleifaskráning í þéttbýli verður, eðli málsins samkvæmt, nokkuð frábrugðin þeirri skráningu sem gerð er á bújörðum í dreifbýli. Þrátt fyrir að búið sé að safna mjög miklum fróðleik um minjar í Út-Garði má minna á að áður óþekktar mannvistarleifar geta enn komið í ljós við umrót.
Skráning minja í þéttbýli er mikilvæg til að skilja hvernig menningarlandslag hefur breyst og þróast í tímans rás. Fátt vegur þyngra þegar leggja á mat á ásýnd og verndargildi byggðar. Þá skiptir máli að átta sig á uppruna og einkennum sögulegrar byggðar til að meta á hvaða rótum byggingararfur á svæðinu hvílir. Þrátt fyrir að ásýnd byggðar og byggingararfur hafi tekið talsverðum breytingum á á liðinni öld hefur svæðið samt sem áður haldið mörgum af sínum helstu sérkennum. Þar er t.d. enn að finna mikið af garðlögum setja svip sinn á svæðið og höfðu ráðandi áhrif á skipulag svæðisins allt fram á 20. öld. Vel mætti nota hugmyndir um verndarsvæði í byggð til að draga fram mikilvægi garðlaga á svæðinu, bæði landamerkjagarða, túngarða og akurgarða enda endurspeglast það í sjálfu nafni svæðisins. Ljóst er að megindrættir í búsetuþróun Út-Garðs voru dregnir snemma en að umfang byggðarinnar hafi aukist mjög mikið allt frá síðari hluta 19. aldar. Af túnakortum frá 1919 sem til eru af svæðinu má þó sjá að þar hafa þegar verið dregnir margir af helstu dráttum búsetulandslagsins þótt byggðin hafi vissulega þéttst mikið síðan kortið var gert. Á túnakortum eru jafnframt sýndar leiðir og hluti af þeim er í raun grunnur vegakerfis sem enn er notað. Á verndarsvæðinu má enn má sjá margvísleg merki um eldri byggð á svæðinu og verði tillagan að verndarsvæði í byggð samþykkt munþað vonandi stuðla enn betur en áður að varðveislu þess menningarlandslags sem þar er að finna Ljóst er að minjar innan verndarsvæðisins eru merkar og í þeim er fólginn áhugaverður vitnisburður um sögu jarðarinnar og byggðarlagsins alls. Allra markverðustu minjarnar teljast líklega, auk sjálfra bæjarhólanna, vera akurreitir og fornir garðar sem geyma áhugaverða sögu sem ekki hefur verið sögð nema að hluta. Markverðar minjar er að finna um allt svæðið í formi tófta og húsagrunna, útihúsa og garða og annarra minja sem bera vitni um daglegt líf í Út-Garði um aldir.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garði á Reykjanesi: Verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2019.

Garður

Garður – bæir.

Básendar

Í „Fornleifaskráningu á Miðnesheiði“ sunnanverðri árið 2000 er m.a. fjallað um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gömlu-Kirkjuhöfn, auk Kaupstaðarvegarins og aðrar merkar minjar.

Stafnes (býli/konungsútgerð)

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnesin í land að Beinhól og Háaleiti. Stafnes var fyrr á tíð eitt mesta stórbýli Suður-nesja. Í gömlum jarðabókum eru taldar þar 20 hjáleigur og tómthús. Þó er ekki víst að þau hafi öll verið byggð samtímis.
Jarðardýrleiki er sagður óviss í Jarðabók Árna Magnússonar sem tekin var saman árið 1703. Mjög er nú mannfátt í Stafnesshverfi og enginútgerð hefur þar verið seinustu áratugi. Eflaust hefur útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi sem og annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19. þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita að Stafnes væri í eyði um aldarmótin 1800. Útgerð á Stafnesi mun hafa lagst niður fyrir fullt og allt um árið 1945 og hafði þá áður mjög úr henni dregið.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Á öldum áður var þó útræði mikið og hófst konungsútgerð á Stafnesi um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum.
Stafnes er í fornum máldögum oftast kallað Starnes. Ef það er upprunalegt nafn bæjarins bendir það til þess að þar hafi verið starengi. Þá er líklegast að það sé komið undir sjó.
Hrjóstrugt er umhverfis Stafnes, einkum í heiðinni ofan við byggðina. Hefur jarðvegur fokið burt og er nú aðeins bert grjótið eftir. Samhliða þessu hefur sjór gengið mjög á landið, enda bera skerjaflákar undan ströndinni þess merki. Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum.
Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti. Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað.
Annað botnvörpuskip, Admiral Toco, strandaði þar í foráttu brimi árið 1913 og fórust allir með því.

Friðlýsingar

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í landi Stafness eru tveir staðir friðlýstir:
Básendakaupstaðarleifar, á hraunnefi milli 2ja víka skamt fyrir austan Stafnes. Sbr. Árb. 1903:40; Blöndu III: 48-49.b).
„Lögrjetta“, svo nefnd, forn hringur í Stafnesstúni, fyrir norðan bæinn. Sbr. Árb. 1903: 39-40. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst15.11.1938.
Lögréttan er utan hins skráða svæðis og er aðeins lítillega vikið að henni í þessari fornleifaskráningu. Um Básenda er fjallað í sérstökum kafla svo sem fyrr segir. Í landi Stafness eru samkvæmt heimildum um 73 fornminjar sem rétt væri að kanna og skrá í heildarúttekt á svæðinu, en hér verða skráðar 11 sem teljast vera innan yfirráðasvæðis Varnarliðsins.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Magnús Grímsson skrifar að spölkorn suður frá Draughól „í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru lettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum hinna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.“ Magnús Grímsson hefur staðarlýsinguna upp úr örnefnalýsingu Stafness, en bætir við sögninni. Í örnefnalýsingunni segir enn fremur að hraunið upp af Gálgaklettum sé nefnt Gálgahraun. Páll Sigurðsson, lagaprófessor, segir að Gálgaklettar þessir séu einnig nefndir Gálgar: „Að Stafnesi er varðveitt örnefnið Lögrétta, sem kynni að benda til þinghalds af einhverju tagi, en hins vegar var þingstaður hreppsins fyrrum að Bæjarskerjum, sem ekki eru í næstu grennd.“ Páll Sigurðsson fer nánar í málin í bæklingi um aftökustaði í landnámi Ingólfs, en nefnir þó ekki sögnina úr ritgerð Magnúsar um meðferðina á beinum hinna afteknu: „Gálgaklettar eru tveir aflangir en sundursprungnir klettar með allbreiðu sundi á milli, sem greinilega er of breitt til að þar megi koma fyrir gálgatré milli klettanna. Kann því aðvera um náttúruörnefni að ræða, en þröngar sprungur í klettunum geta að vísu komið til álita í þessu sambandi þótt ekki virðist þær sérlega líklegar. Upp við klettana hefði hins vegar máttreisa gálga.“ Mannvistarleifar eru engar sýnilegar við Gálgakletta.

Þórshöfn (lending)

Þórshöfn

Þórshöfn.

Litlu sunnar en Básendar er Þórshöfn. Elsta heimild umÞórshöfn mun vera skrá Resens frá síðari hluta 16. aldar um íslenskar hafnir „sem skip sigla nú til og skip hafa áður siglt og nú er ekki siglt til, landinu til stórtjóns.“ Skúli Magnússon fógeti (1711-1794) lýsir höfninni sem lítilli og lélegri: „Skipaleiðin inn að henni er ekki nema 65 faðma breið og stefnan inn sundið er í norðaustur til hálfausturs. Mesta lengd innsiglingarinnar er 170 faðmar, en breiddin 51 faðmur, en þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet. Þangað geta skip ekki leitað nema í góðu veðri; og í blásanda byr af suðvestri verður að festa þau með 4 köðlum og 3 akkerum að minnsta kosti. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér álandi. Nú er þar ekkert graslendi eða land, sem byggja má á, á ½ mílu svæði frá höfninni, heldur aðeins grjót og sandur, og er því eigi hægt að hafa þar verzlunarstað.“
Í Lýsingu Útskála-prestakalls 1839 segir: „[Þórshöfn] fóru að reyna fiskiskútur fyrir 2 árum, þegar liggja vildu af sér veður, og voru mið sett á landi, til leiðarvísis handa þeim í inn- og útsiglingu; hefir það vel gefizt, og geta þar 20 snekkjur legið í senn. –Vatnsból er þar nýfundið, og þannig þeim örðugleika úr vegi rutt, sem vatnssókn fyrir skipin kostaði. Þórshöfn stendur í sjókortum farmanna og liggur á millum Bátsenda [Básenda] og Ósanna.“ Við vettvangsskráningu fundust engin mannvirki á svæðinu utan ein uppistandandi varða og vörðubrot.

Þórshöfn (fangamörk)

Þórshöfn

Þórshöfn – fangamörk.

Skammt austan við Þórshöfn, uppi í landi, eru klettar og steinar með fangamörkum. Ártöl sem hafa verið höggvin í stein, 1844 til 1891, benda til aðfangamörkin séu frá seinna helmingi nítjándu aldar þegar höfnin var aftur tekin í notkun eftir langt hlé. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar, en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessum áletrunum áður en veður og vindar má þær út.

„Hallgrímshella“ (áletrun)

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

Preststorfa (ferjustaður)

„Ósar heitir vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi [í Höfnum], er kölluð Preststorfa, því þar er prestur vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvogi, þegar hann fer þá leiðina.“

Einbúi (sjóbúðir)

Einbúi

Tóft í Einbúa.

„Litlu innar í Ósunum [en Preststorfa] er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar fráVogi […].“ Á innrauðum loftmyndum má sjá rústir í Einbúa. Var ekki unnt að komast þurrum fótum út í hólmann sumarið 2000, þótt heimildir geti um að það sé hægt.

Stafnessel (sel)

Stafnessel

Stafnessel.

„Austan Stórubjarga er gamalt sel, sem heitir Stafnessel.“ (ÖS). „Enn sést móta fyrir rústum af Stafnesseli.“ (ÖS, 1980). Sel þetta fannst ekki við vettvangsskráningu og er hugsanlega horfið undir mannvirki.
[Stafnesselin eru tvö; annað skammt ofan við Gamla-Kirkjuvog og hitt ofar í heiðinni, upp undir varnargirðingunni.]

Háaleitisvarða (varða)
Í landamerkjabréfi frá 1270 segir um vörðu þessa að hún hafi staðið uppi á Háaleiti þar sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. Hennar er getið víðar seinna, en nú er hún horfin undir flugvöll.

Básendar (verslunarstaður)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi og sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Höfnin var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Landslaginu er þannig lýst í Blöndu á þriðja áratug 20. aldar að umhverfis Básenda séu fjörur og sandauðn með litlum grasflesjum frá öldinni á undan að austan og norðanverðu. Þær séu að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi, en sjór mylji framan af. Þá er lýst boðum miklum, skerjum og lónum.
Skúli Magnússon, fógeti, lýsti Básendum svo um 1785: „Kring um hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar.“
Nafnið Básendar mun ekki vafalaust, en er í góðu samræmi við landslagið eins og það hefur verið frá fyrstu tíð. Nöfnin Bátsendar og Bátsandar, sem einnig má sjá í heimildum, eru taldar vera ambögur, enda eru til fleiri básar enn sunnar á nesinu, s.s. Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíusbás. Básendahöfn hefur sjálfsagt lengi verið notuð til bátaútræðis og fiskiveiða á vertíðum – þó lítið séum þetta kunnugt. En samkvæmt Blöndu voru þó merkustu notin af hinni góðu hafskipalegu og versluninni sem telja má víst að þar hafi oftast verið rekin í rúmar þrjár aldir (1484-1800)og sennilega fyrr á öldum líka.

Básendar

Básendar – bærinn.

Enskir og þýskir kaupmenn börðust blóðugri baráttu um verslunina innbyrðis og við Dani uns þeir síðastnefndu urðu hlutskarpastir. Til dæmis að taka fóru Þjóðverjar frá Básendum og víðsvegar af Suðurnesjum í bardaga við enska kaupmenn í Hafnarfirði og varð þar mikið mannfall.
Samkvæmt Skúla Magnússyni var á Básendum: […] höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá.[…] Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi.

Þegar mjög er stórstreymt, hefur borið við, að sjór hefir flætt inn í verzlunarhúsin, en það hefir þó eigi valdið verulegu tjóni.
Hálfum öðrum áratug eftir að þetta var skrifað eyddust Básendar í einhverju ofsalegasta fárviðri og sjávarflóði sem sögur fara af hér á landi. Aðfararnótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Snæfellsnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu svo að nokkuð sé nefnt. Á Básendum tók þó út yfir allan þjófabálk. Þar sópaði flóðið á einni nóttu flestum ef ekki öllum húsum hins forna kaupstaðar burt, kona einroskin og lasin drukknaði en annað heimilisfólk bjargaði sér við illan leik. Þrátt fyrir öll ósköpin og þó að tvær aldir séu liðnar síðan sér vel til rústa á tanganum. Eyðingu Básenda er lýst í skýrslu hins „fjárþrota“ danska kaupmanns H[inriks] Hansen sem er í vörslu Þjóðskjalasafnsins, skrifuð 16. mars sama ár til að sýna „hversu ofurefli sævarins, hef[ði] eyðilagt verslunarstaðinn og margskonar fjármuni [kaupmannsins], og í hvílíkum dauðans vandræðum [hann] var staddur, með [s]ínum nánustu.“Hér verður stuðst við endursögn skýrslunnar í Blöndu, en því er svo nákvæmlega greint frá þessum atburðum að frásögnin gæðir hinar mállausu tóttir lífi og kann að verða til þess að auka áhuga nútímamanna á varðveislu þessara fornuminja: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úrrúmunum, því við óttuðumst, að við myndum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsið var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo að það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn. Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, tilað komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautirnáðum á næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi.

Stafnes

Lodda.

Í Loddu tók Jón Björnsson, fátækur bóndi, og kona hans við fjölskyldunni, nærri „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki.“ Hafðist hún þar við í hálfan mánuð. Til þess að níðast ekki á gestrisninni frekar fluttist fjölskyldan í baðstofuna á eyðibýlinu Stafnesi. Þegar veðrinu slotaði og aftur fjaraði út var allt á tjá og tundri á Básendum: Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.
Var það hverju orði sannara. Í matsgerð yfirvalda um skemmdirnar á verslunarstaðnum fáum mánuðum eftir óveðrið segir: Verzlunarstaðurinn og umhverfi húsanna er svo hlaðið sandi, möl og grjóti, að það verður ekki lagfært til notkunar, nema með mjög miklum kostnaði, því hér eru [steinar], svo stórir, að naumast verða færðir úr stað af 6 mönnum, með tækjum, sem hér eru til. …
Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1 – 2 álnum lægri en áður.
Til frekara marks um hve hátt flóðöldurnar risu er að sjór komst hátt í 300 m upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur skolaðist upp á þakið á einu verslunarhúsinu meira en 2,3 m frá jafnsléttu.

Brennitorfuvík – Básendahöfn (lending)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar stóðu á grjótrima milli tveggja víka. Í örnefnalýsingu Magnúsar Þórarinssonar segir: „Sunnan við malartangann hjá Básenda er ílangt lón, það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefur verið löngmilli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Básendahöfn mun heitaréttu nafni Brennitorfuvík.“ Enn má sjá merki um varir þar sem höfnin hefur verið.

Festarhringur (kengur)

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í þangi vaxinni klöpp, 42m niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla (vöruhúsið), er járnkarl velgildur en ryðbrunninn, greyptur og tinsteyptur við klöppina. Hann er um 15 sm á þykkt og 30 sm á hæð með áföstu hringbroti í gati ofarlega. „Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborðabeizli sjóhesta. [Aðrir festarhringir fundust ekki sem áttu að vera utar og í klöppum við suðurhlið legunnar. Þannig hafa skipin verið „svínbundin“ á báðar hliðar og frá báðum stöfnum.“ Svo segir í Blöndu, en Magnús Grímsson segir þau skip „svínbundin“sem bundin séu landfestum „svo að ei máttu snúast fyrir vindi.“
Samkvæmt heimildum ættu fleiri festahringir en sá sem lýst er að vera við leguna, en við vettvangskráninguna fundust þeir ekki. „Annar slíkur er dálítið utar, niður undan kotinu og eru tveir eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppunum við suðurhlið skipalegunnar,“ segir í Blöndu. Magnús Grímsson ritar að festarnar séu „5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum.“ Hann segist einungis hafa séð 2 þessara stólpa, fyrrgreindan og annan sem hringurinn var úr: „Sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum.“

Fangamörk (áletur)

Básendar

Básendar – áletur.

Magnús Grímsson segir að við landfestar þær sem hann sá og hringurinn var úr hafi verið klappað í steininn fangamarkið ASS. Var honum sagt að á skeri einu væru ótal slík fangamörk, þ.e. að austanverðu við syðri voginn og kvað vera gengt í skerið á fjöru.

Básendar (býli)

Básendar

Básendar – bærinn.

Framan við Básenda er malartangi með sljóu horni. Er sagt frá því í ýmsum heimildum, þ. á m. í Blöndu, að þar hafi kotbær „staðið vestast á rimanum, má þar greina fimm sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær.“ Rústirnar eru mjög greinilegar og hafa veggir verið hlaðnir úr torfi og grjóti, veggjaþykkt er mest um 2 m en minnst 60 sm. Veggir eru frá 30 sm til 130 sm á hæð. – Um bæinn segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 að jarðardýrleiki sé óviss, ábúandinn Árni Þorgilsson, landsskuld engin í skjóli kaupmanna og að við til húsabótar leggi kaupmaður. Kúgildi var ekkert. Kvaðir voru engar nema þær að gæta búðanna meðan ei var eftir liggjari. Kvikfénaður fjórar ær sem gengu í Stafnesslandi, geldir sauðir þrír veturgamlir, tvö lömb, einn hestur; í óleyfi bóndans á Stafnesi allt saman. Grasnyt engin. Heimilismenn sjö. – Hér drukknaði að öllum líkindum konan í Básendaflóðinu 1799. Hún hét Rannveig Þorgilsdóttir, 79 ára gömul, og hafði verið niðursetningur á Básendum frá 1791 eða fyrr. Aðrir íbúar í kotinu höfðu bjargað sér upp um þekjuna, vinnumaðurinn Ásmundur Jónsson, vinnukonan Þjóðbjörg Jónsdóttir og húskonan Bergljót Arngrímsdóttir. Í matsgerð yfirvalda um tjónið á íslenska bænum segir samkvæmt Blöndu: „Fimm litlir kofar voru byggðir að íslenskum sið, úr grjóti og torfi. Hafa þeir hrunið og spýtur brotnað og skolast út, svo nú er þar umhverfis aðeins ein grjóthrúga.“
Í Blöndu segir: „Aust-suðaustur frá bænum (kotbær), 28 m frá honum, hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni sem er 20 m á lengd frá suðri til norðurs og 12-15 m á breidd, ef til vill með gangstétt.“ Enn má vel greina þessar rústir. Ekki eru neinar leifar af veggjum, enda hefur húsið sennilega allt verið byggt úr timbri. Það hefur snúið í S-N. Framangreind mál eru rétt og sjá mátti að stétt hefði verið fyrir framan húsið. Í Blöndu segir um mat fulltrúa yfirvaldsins á tjóni á „vöruhúsinu mikla“ eftir Básendaflóðið 1799:„Þar er undirstaðan farin undan norðurgafli og austurhlið, fóttré brotið og sigið um ½ alin. Helmingurinn af austurþekjunni er fokinn, og var þó tvöföld. Sperra hefur farið þar líka. Grjót og sandur hefur borist á gólfflötinn. Í norðurenda húss þessa ætlar kaupmaðurinn að þilja af litla sölubúð, til þess að geta haft þar vörusölu í sumar, því ekki er kostur á öðrum stað, fyrir vörur þær, sem von er á með skipinu þangað á næsta vori.“

Húsgrunnur (sölubúð)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Um 10 m austan við vöruhúsið er annar húsgrunnur samkvæmt Blöndu, „mun þar hafa verið sölubúðin.“ Grunnurinn að húsinu sést enn vel og er um 9 m á lengd og 6 m á breidd. Ekki sjást neinar leifar af veggjum, enda trúlega verið timburhús. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar eftir sjávarflóðið 1799: „Syðri hliðin (= suð-suðvestur) var alveg farin og flotin burt, en hálf norðurhliðin opin, þar sem sjórið hafði brotizt í gegn. Hleðslan undan vesturendanum farin, svo það sem af húsinu hangir uppi, stendur á tveimur stafgólfum við eystri endann, og á litlum undirbita í miðjum vesturenda. Og kaupmaður hefur látið stoðir undir grindina hér og þar, svo húsið steyptist ekki á endann. Gólfið hefur sjórinn flutt með sér, en hlaðið möl og grjóti í aðsetursstaðinn („Værelset“ – austurendann) allt að 2 álnum á hæð.“

Hús kaupmannsins (bústaður)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

„Hússtæði kaupmanns hefur sennilega verið enn austar en vöruhúsið og sölubúðin, en í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir,“ segir í Blöndu. Við vettvangskráningu mátti greina rústir á þessum stað. Ekki var unnt að átta sig nákvæmlega á umfangi og gerð hússins, en nokkuð öruggt er að þetta eru leifar af húsgrunni. Hús kaupmannsins varð sævarrótinu 1799 að bráð. Af lýsingu kaupmannsins að dæma á flótta hans og fjölskyldu hans undan flóðinu, eins og hún kemur fyrir í Blöndu, var íbúðin nokkur herbergi og loft yfir þar sem unnt var að standa uppréttur. Að minnsta kosti tvennar dyr virðast hafa verið á húsinu því að kaupmaðurinn tiltekur að hafa opnað dyr eldhúsmegin eins og til aðgreiningar frá aðaldyrum. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar og rituðu um íbúðarhúsið: „Það hefur farið eins [og sölubúðin], suðurhliðin burt, sú er að sjónum sneri, og sömuleiðis hálf norðurhliðin. Gluggar allir brotnir og burtu. Herbergi öll hlaðin sandi, 1-2 álnir á dýpt. Undirhleðslan umrótuð, en undirviðirnir og tvö stafgólfin í vesturenda hússins hafa bjargað því frá gjöreyðing.“

Lýsisbúð (búð)
„Í Básendaflóðinu árið 1799 eyðilagðist Lýsisbúðin, svo ekki er ein spýta eftir,“ sagði í mati fulltrúa yfirvaldsins á skemmdum eftir flóðið samkvæmt Blöndu: „og meira að segja hússtæðinu rótað burt, en í staðinn komin möl og sjávargrjót. Hús þetta byggði kaupmaðurinn í fyrra.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja, sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar lýsisbúðarinnar að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af lýsisbúðinni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Lifrarbræðsluhús (hús)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Matsgerð yfirvalda vegna skemmda á húsum og munum í Básendaflóðinu 1799 greinir frá lifrarbræðsluhúsi: „Norðurgaflinn er brotinn og öll austurhliðin. Inni er 1½ alin af sandi og möl. Húsið væri nú hrunið alveg, ef ekki hefðu verið bornar að því stoðir eins fljótt og gert var.“ Svo segir í Blöndu. Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna leifar lifrarbræðsluhússins að vera, en sú ályktun byggist á því að þar stóð meira uppi eftir flóðið en af öðrum húsum sem ekki er unnt að staðsetja eða gera grein fyrir.

Húsgrunnur (hús)
Við vettvangsskráningu fundust norður af húsi kaupmannsins en sunnan við rústirnar þrjár leifar af grunni húss, trúlega timburhúss, sem örðugt er að greina hvaða tilgangi hafi þjónað, svo lítið hefur varðveist, heimild um lýsisbúð, heimild um litla vörugeymslu, heimild um skemmu, en einkum heimild um lifrarbræðsluhús. Lýsingin á lifrarbræðslunni virðist helst geta átt við þennan grunn af þeim mannvirkjum sem til er að dreifa. Um þetta verður þó ekkert fullyrt. Í grunni þessum fundust múrsteinsbrot.

Skemma (hús)
Fulltrúar yfirvaldsins tóku út húsin á Básendum eftir sjávarflóðið 1799 og segir í matsgerð þeirra samkvæmt Blöndu að skemman hafi verið „byggð að sið landsmanna, með þili, 4 stafgólf. Hún hefur sópast alveg úr stað.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar skemmunnar að vera, þó tæplega því að þar virðist meira vera varðveitt en lýsing af skemmunni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Vörugeymsluhús (hús)
Fulltrúar yfirvalda mátu skemmdirnar á Básendum eftir flóðið 1799 og sögðu um litla vörugeymslu samkvæmt Blöndu:„Gjörhrunið bæði þak og veggir. Bæði þessi hús voru byggð úr grjóti og torfi.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar vörugeymsluhússins að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af vörugeymslunni litlu gefur til kynna.

Básendar

Básendar – garður.

Garður (garður)
Garðsbrot er norður af þeim stað sem vöruhúsið, sölubúðin, og hús kaupmannsins stóðu, að mestu hlaðið úr grjóti, mest um 1,2 m á breidd. Sést garður þessi best á 10-14 m kafla, er víðast horfinn, en sums staðar djarfar fyrir honum á yfirborðinu. Í Blöndu segir að garðurinn hafi legið „í hálfhring að ofanverðu kring um húsin og verslunarsvæðið, hann var byggður úr stóru grjóti, en skemmdist í Básendaflóðinu árið 1799.“

Fjós (hús)
Norðaustur af garðinum „er kálgarður eða rétt með hesthúsi, geymslu og fjósi að baki. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum og stendur enn meira og minna af grjótveggjum þeirra, eftir 125 ár.“ Svo segir í Blöndu sem skrifuð var á miðjum þriðja áratug 20. aldar. Verður að telja ólíklegt að um kálgarð hafi verið að ræða. Rústin er hlaðin úr grjóti og ber öll merki þess að vera rétt eða gerði, 14 m á lengd og breidd með inngangi á suðurhliðinni fast við vesturgaflinn. Yst er hólf, hugsanlega hesthús, 7m á breidd frá vesturgafli og 3 m á lengd, aðgreint frá réttinni með lágum vegg sem nú er hruninn. Viðbygging við norðurgaflinn er 12 x 3m að flatarmáli og skagar út frá vesturgafli réttarinnar eina 5 eða 6 m. Er gengið inn í viðbygginguna fram og utan með vesturgafli réttarinnar. Til vinstri þegar inn er komið er fjós, 5 x 3 m á stærð, en til hægri trúlega geymsla eða hesthús. Grjóthleðslurnar eru 30 til 80 sm á hæð, réttin heillegust. – Hingað virðist síðasti kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, hafa flúið meðfjölskyldu sinni í myrkrinu og vetrarkuldanum árla morguns 9. janúar 1799 þegar sjórinn var að mola undan þeim íbúðarhúsið í Básendaflóðinu: „Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur.“

Brunnur (vatnsból)

Básendar

Brunnur.

Í lægðinni, 100 m austar en réttin, var samkvæmt Blöndu vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Viðvettvangsskráninguna fannst brunnurinn ekki, hvernig sem leitað var, sennilega er hann sokkinn auk þess sem gróður á svæðinu er mikill og hár og gerði að verkum að erfitt reyndist að leita.

Fiskbyrgi (geymsla)

Básendar

Fiskibyrgi.

Í Blöndu segir: „Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga úr einhlöðnu grjóti hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur.“ Við vettvangsskráninguna var aðeins skráð eitt fiskbyrgi í landi Básenda. Það er með skeifulagi, hlaðið úr grjóti og stendur við matjurtagarðinn.

Brennitorfa (brenna)

Básendar

Brennitorfa.

Í örnefnalýsingu og heimildum er örnefnið Brennitorfa fyrir ofan Básendahöfn og áttu Básendamennað hafa haft þar brennur. „Básendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík,“ segir Magnús Þórarinsson. Ekki sáust nein ummerki um brennur á vettvangi.

Draughóll (þjóðtrú)

Í fleiri en einni heimild segir frá örnefninu Draughól og að hann sé sunnan við Brennitorfu. Að þar hafi verið dys kemur aðeins fram í greininni Fornminjar um Reykjanessskaga. Þar segir: „Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundu þeir lítið fémætt.“ Auðvelt var að þekkja þetta kennileiti, en ekki var hægt sjá neitt manngert við hóllinn eða í námunda hans.

Kaupstaðavegur (leið)

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Séra Sigurður B. Sívertsen segir um hina fornu og þá aflögðu leið í Lýsingu Útskálaprestakalls 1839: „Frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það var gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.“ Við vettvangsskráningu var leiðin gengin frá Kirkjuvogi að Þórshöfn. Þá var hún gengin frá Gálgaklettum að Básendum. Hún er á köflum frábærlega vel varðveitt. Víða meðfram götunni hafa myndast háir kantar eftir því sem grjót hefur verið tínt úr henni. Hún er tveggja hesta breið. Með leiðinni eru 10-15 vörður sem virðast fornar, en víða á Miðnesheiðinni eru nýlegar vörður.

Gamli Kirkjuvogur (býli)

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar er að finna eftirfarandi frásagnir:
Herjólfr hét maðr, Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Íngólfs landnámsmanns; þeim Herjólfi gaf Íngólfur land á milli Vogs ok Reykjaness.
Þórir haustmyrkr nam Selvog ok Krísuvík, en Heggrson hans, bjó at Vogi, en Böðmóðr, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.
Herjólfr, sá er fyrr var frásagt, var frændi Íngólfs ok fóstbróðir, af því gaf Íngólfr honum land á milli Reykjaness ok Vogs; hans son var Bárðr, faðir Herjólfs þess, er fór til Grænalands, ok kom í hafgerðingar […]
Nokkuð er nafn bæjarins á reiki, hann virðist ýmist kallaður Vogur eða Kirkjuvogur í gömlum heimildum. Líkur benda eindregið til að um sé að ræða einn og sama bæinn – og að bæst hafi framan við bæjarnafnið þegar kirkja var reist á jörðinni. Kenningar um að Djúpivogur við Ósabotna sé þriðja nafnið á sama bænum geta vart staðist því að í landamerkjabréfi frá 1270 segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsnessskilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Hér virðist Djúpivogur vera bæjarnafn, en ekki annað nafn á Kirkjuvogi sem nefndur er í sömu málsgrein. Enda hafa Árni Magnússon og Páll Vídalín nokkurn fyrirvara á þegar þeir ráða í forn skjöl um að Kirkjuvogur hafi heitið Djúpivogur til forna.
Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Til forna lá jörðin hins vegar langt inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústa bunga, grasi gróin, sem snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og hæst um 2 m. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðins brunns vestan við hann, en tóftir enn lengra í vestur sem gætu verið rústir útihúsa. Enn fremur eru greinilegar traðir frá bænum í norður upp á kaupstaðaleiðina. Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. Hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 verða válegir atburðir sem eru færðir í annála: „Á þessu ári gerðust þau hræðilegu tíðindi, að Þorleifur Þórðarson drap Þorbjörn prest Þorsteinsson í kirkju, suður á nesjum, í Kirkjuvogi, á Mikjáls-messudag, þá er hann var skrýddur og stóð fyrir altari. Síðan lagði þessi Þorleifur sjálfan sig með hnífi til bana í kirkjunni. Þorbjörn Þorsteinsson var prestur á Hvalsnesi,en hefur þjónað í Kirkjuvogi.“

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði.

Tveir máldagar eða eignaskrár hafa varðveist um Vogskirkju. Sá eldri er í Hítardalsbók frá 1367. Það er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn hefur varðveist í Vilchinsbók biskups í Skálholti frá 1397. Þar stendur: Maríukirkja í Vogi á þriðjung í heimalandi, hálft Geirfuglasker, tíu kýr, tvö hross kúgildi. Hún á viðreka önnur hver misseri millum Klaufar og Ósa, fimm álna tré og þaðan af stærri, og þriðjung í Valagnúpafjörum. Hún á Róðukross og með líkneski, Maríuskript, Pétursskript, tabulum [þ.e. töflu] fyriraltari og brík forna. Item [þ.e. einnig] messuklæði, kantarakápur tvær, glóðarker, glergluggur, klukkur fjórar, kaleikur brotinn og annar nýr minni, sloppur, bók er tekur tólf mánaða tíðir, allar nema seqventiur, og sérdeilis söng um Langaföstu, formælabók, Lectaresacrarium, munnlaug, tvær merkur vax, kola.Portio Ecclesiæ [þ.e. reikningur kirkjunnar] sérlega mörk. Item gafst kýr frá Galmatjörn að Kirkjuvogi. Portio xvc so langan tíma sem Svarthöfði átti jörðina.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Kirkjan var í pápísku helguð Maríu guðsmóður og var rík af eignum, enda enginn vafi um að Kirkjuvogur hafi fyrrum verið höfuðból. Hafa ekki lítil hlunnindi verið að sækja í Geirfuglasker og eiga það hálft, en Kirkjubólskirkja og Hvalsneskirkja áttu sinn fjórðunginn hvor. Klettaeyja þessi var að stærð „hér um mældur kýrfóðurs völlur“ og svo mikil mergð svartfugls á henni „að engin sjást skil á neinu“; geirfugl þó ekki nærri eins mikill sem skerið hefur nafn til. Lending við skerið fór smáversnandi og strjáluðust ferðir þegar „á tvær hættur [var] að leggja líf og dauða þar upp að fara“ og mannskaðar urðu. Árið 1732 var gerð ferð í skerið í fyrsta sinn í 75 ár. Fundust þá skinin mannabein í skerinu og gátu menn sér til að dugga hefði orðið að skilja þar eftir mann sem settur hefði verið í land til að taka fugl og egg. Stef séra Hallkels á Hvalsnesi vottar að einnig gat verið illt að sækja í Geirfuglasker í fornöld þótt lending hafi áreiðanlega verið betri í þann tíð: Eg get ekki gefið mig í Geirfuglasker, eggið brýtur báran því brimið er. Um hættuför í Geirfuglasker orti Ólína Andrésdóttir í kvæði sínu Útnesjamönnum: Ekki nema ofurmenni ætluðu sér að brjótast gegnum garðinn kringum Geirfuglasker. Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betri samt en björg að sækja Básendum að; ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Nú eru Geirfuglasker, þetta mikla forðabúr, sokkin í sæ og brýtur á þeim á fjöru.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Hinn 19. apríl 1467 selur Björn Þorleifsson Eyjólfi Arnfinnssyni jarðirnar Voga á Rosmhvalanesi og Gunnólfsá í Ólafsfirði fyrir fimm jarðir á Vestfjörðum.
Einn helsti fornfræðingur landsins um aldamótin 1900, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, skráði minjar á Miðnesheiði. Á grundvelli þess að enginn bær hafi verið í Rosmhvalaneshreppi sem hét Vogar dró Brynjúlfur þá ályktun í skýrslu sinni að hér hlyti að vera átt við Kirkjuvog hinn forna.
Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu eftirfarandi um „gamla Kirkjuvog“ sumarið 1703 í Jarðabók:
Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé hvort hún liggi í Kirkjuvogs eður Stafness löndum, item að munnmæli séu að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því svo vel túnstæðið sem landið alt um kríng af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn, og er hér ágreiningur um landamerki.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – varða.

Tekið er fram að gamli Kirkjuvogur sé forn teyðibýli árið 1703. Í Jarðabók er enn fremur þetta skjal um jörðina, skrifað í ágúst sama ár í Kirkjuvogi í Höfnum:
Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur, þangað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi.
Hvað sem líður landamerkjadeilum varpa þessi gögn ljósi á að jörðin við norðanverða ósa hafi farið í eyði um 1580 eða þar um bil.
Bæjarhóllinn stendur við norðanverða Ósa. Hann er grasi gróinn, snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og um 2 m þar sem hann er hæstur. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Ýmsar heimildir eru til um gamla Kirkjuvog og verður hér látið nægja að vísa í samnefndan kafla hér að framan.

Brunnur (vatnsból)

Gamli-Kirkjuvogur

Brunnur.

8 m vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti, 1,30 x 1,50 m að utanmáli.

Túngarður (garður)
Ofan og norðan við bæjarhólinn eru ógreinilegar leifartúngarðs sem hefur verið hlaðinn úr grjóti.

Kirkjugarður (legstaður)

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður, enda var Kirkjuvogur kirkjujörð. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt héðan í kirkjugarð í Kirkjuvogi í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Rústirnar eru ógreinilegar, en augsýnilega leifar mannvirkis.

Kirkjuvogssel (sel)

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð langt austur af Hvalhólum er Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðarrústir og nokkrar sagnir eru til um það. Í Rauðskinnu hinni nýrri segir Ólafur Ketilsson, refaskytta, frá viðskiptum sínum við draug í selinu. Heyrir hann kallað nafn sitt ótt og títt svo að hann herðir för sína til byggða, en það verður honum til lífs því að foráttuveður skellur á.

Hvalsnessel (sel)

Hvalsnessel

Hvalsnessel.

Í ofanverðri heiðinni eru tvær selstöður, önnur frá Stafnesi og hin frá Hvalsnesi. Báðar eru vel greinilegar (sjá má húsaskipan) á gróðnum bleðlum í annars viðfeðmum sandflákum.

Beinhóll (blóðvöllur)
„Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu.

Hunangshella (þjóðtrú)

Hunangshella

Hunangshella.

„Við landsuðurhorn Ósanna hjá alfaravegi (Keflavíkurveginum) er flöt hraunklöpp, eigi alllítil, sem kölluð er Hunangshella,“ segir í Fornminjum um Reykjanessskaga eftir Magnús Grímsson: „Sagan segir, að dýr það, sem heitir finngálkn (þ.e. afkvæmi tófu og kattar), hafi lagzt á fénað manna og gjört tjón mikið. Reyndu menn til á ýmsa vega að drepa það, en gátu ei sökum styggðar þess og fráleika. Þá hitti maður einn upp á því að bera hunang á hellu þessa og lagðist þar hjá í leyni. Dýrið rann á lyktina og sleikti hunangið, því finngálkn eiga að vera mjög sólgin í það. Þar skaut maðurinn dýrið, en hellan er síðan kölluð Hunangshella.“ Ólafur Ketilsson, refaskytta, getur þess í framhjáhlaupum í draugasögu að hafa árið 1886 í desember tekið stefnuna á Hunangshellu á leið sinni til byggða.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði, Þjóðminjasafn Íslands, 2000.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hólmur
Gufuskálar