Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er getið um öll sel, sem þar er að finna.
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vantsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. Árið 1703 var búfénaður á Brunnastöðum sem hér segir: 10 nautgripir, 27 kindur ásamt lömbum, 29 sauðir og 4 hestar. Heimilsfólk var 14 talsins. Hjáleigurnar voru 5 og þar 8 kýr og 7 kindur. Því má ætla að um aldamót 1700 hafi 10-12 kýr verið í Brunnastaðaseli og 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
[Þess skal geti að höfundur hefur gengið mikið með Sesselju um selin ofan Vatnsleysustrandar og orðið margs áskynja. Eitt af merkilegri seljum þar er Gjásel. Það er undir Stóru-Aragjá og er sennilega eitt fyrsta “raðhúsið” hér á landi. Í einni keðju eru a.m.k. 7-8 hús undir gjárveggnum og tveir stekkir. Þarna hefur greinilega verið um einhvers konar samyrkjubúskap að ræða, sem fróðlegt væri að reyna að fá gleggri upplýsingar um].
Í upphafi voru líklega bæði kýr og kindur hafðar í seli hér í hreppnum og afurðirnar, jafnvel ullin, unnar á staðnum. Selfarir lögðust trúlega endanlega af hér og víðar á landinu upp úr miðri nítjándu öldinni, og þá á bilinu 1850-1880. Selstæðin voru kennd við höfuðbýlin en hjáleigubændurnir höfðu líka afnot af þeim og víða voru því 4-6 búendur á sama selstæðinu.
Í heimildum um seljabúskap í Dalasýslu er sagt að sumir bæir hafi átt tvö sel og þrjú sel og notað a.m.k. tvö sama sumarið, þ.e. flutt búpeninginn á milli selja þegar beit var uppurin í því sem fyrst var flutt í. Ekki er getið um kýr í seljum þar vestra á 19. öldinni, aðeins kindur. Í ritinu segir: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Líklega hefur seljabúskapurinn hér verið með svipuðu sniði og fyrir vestan en ekki er vitað til þess að býli hafi átt tvær selstöður. Hér í hreppi hefur verið meiri nauðsyn á að hafa kýr í seli en í Dölunum vegna þess hve heimahagarnir vorur rýrir.
Vatnsskorturinn í heiðinni er tíundaður í Jarðarbókinni 1703 og er sagt þar að fólk hafi þurft að flytja hem úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimidlir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til sömu nota. Það sama hefur eflaust gilt hvað varðar selstöðurnar hér og víðar þegar þurrviðrasamt var. Við nokkur selin í heiðinni eru smá vatnsstæði í klöppum og gamlar heimildir eru til um vatnsból við önnur en þau hafa ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.
[Selin á Vatnsleysustrandarheiði eru öll ofan Reykjanesbrautar]. Norðaustur og upp frá Pétursborg [á Huldugjárbarmi] en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegn um einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel enda engar húsarústir sjáanlegar. [Minjarnar í og við hólana benda til þess að þarna hafi verið sel. Ekki er útilokað að tjaldað hafi verið yfir gjána, en í henni eru hleðslur veggja].
Undir Arahnúk [þar sem Stóra-Aragjá rís hæst] er Arahnúkasel eða Arasel. Ekki er vitað við hvern þennan Ara selið er kennt við, en getgátur hafa verið uppi um það, sem ekki verður fjallað nánar um hér. Selið dæmigert fyrir selin á Reykjanesskaganum; í skjóli fyrir austanáttinni.
Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
[Þess ber að geta framangreindu til staðfestingar, að við leit að vatnsstæðum og vatnsbólum við sel á Reykjanesi sumrin 2002 og 2003 kom í ljós að sum þeirra höfðu þornað alveg upp miðsumars, enda um óvenjuhlý sumur að ræða.]
Fjárborgir eru margar hér enda hreppslandið talið gott sauðfjárland. Skúli Magnússon segir í landlýsingu sinni árið 1785 að Strandarheiðin sé “….eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar það sem ég hefi séð á Íslandi….”.
Merki um 10 fjárborgir eru sjánlegar og eru þær mismunandi heillegar, allt því að vera svo til óskemmdar niður í illgreinanlegar hringlaga grjóthrúgur.
Um síðustu aldarmót var t.d. setið yfir tugum sauða í Kálffelli [sunnarlega í Vogaheiðinni]. [Þar má bæði sjá hleðslur við fjárskjól á a.m.k. tveimur stöðum, stekk og hlaðið gerði. Auk þess er þar að finna helli Odds frá Grænuborg, en hann hélt til í honum um aldarmótin 1900]. Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d: 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Oddshellir er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið neðan dyranna. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
[Nýjasel er austanvið Snorrastaðatjarnir. Þar mótar fyrri nokkrum tóftum og stekk undir lágreistum bjalla. Snorrastaðasel er norðan við Snorrastaðatjarnir. Um eina tóft er að ræða. Í hana hefur, af öllum stöðum, verið plantað grenitré. Talið er að Snorrastaðasel hafi verið kúasel].
Nokkurn spöl vestan við [svonefnda] Viðaukahóla er nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan við Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel. Víst er að Þórunafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en í því átti að satnda höfuðból með átján hurðir á hjörum. Engar rústir eru sjánlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað, en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð.
[Rétt er að geta þess að þarna skammt vestar er gróinn hóll. Í honum má sjá marka fyrir hleðslum í klofi hans. Utan með er það gróið og enn utar það mikil eyðing, að erfitt er að sjá hvor þar geti verið hægt að finna heilleg mannvirki. Þó er það ekki útilokað]. Ein sögn er til að Þórusel hafi verið um tíma í Fornuseljum í Sýrholti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar sjást þrjár gamalgrónar tóftir og ein nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 17003 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel.
[Í brekkunni suðaustan við Gömlu-Vogasel má sjá tóftir Nýju-Vogaselja. Þær eru nokkrar á a.m.k. tveimur stöðum; aðrar undir klapparhól og hinar skammt neðar utan í grónum hól. Ofar er stekkur og fleiri hleðslur].
Frá Gamla-Vogaseli, austur af Vogaholtinu, er Brunnastaðasel undir Brunnastaðaselsgjá og er um 15 mín. gangur á milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru um Brunnastaðaselsvansstæði ofan við og sunnan selsins en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.
Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggnirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og liggur um Gjásel og Brunnastaðasel.
Undir Hlöðunesskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel og þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikill þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðunesi sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.[Þegar Hlöðunessel var skoðað komu í ljós mjög gamlar tóftir á tveimur stöðum á torfu þeirri, sem enn er heil, en í kringum selið er mikill uppblástur, eins fram hefur komið, en þarna er greinilega um mjög gamalt sel að ræða, sem erfitt er að koma auga á].
Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðarbókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni.
Selið sést vel frá Skrokkum og er stutt ganga að því. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt fyrir ofan hólinn að austanverðu er smá vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á legnd, um 2 m á breidd með grjóthleðslu í kring.
Fyrir ofan fornasel liggur Línuvegurinn. Ofan hans blasir Klifgjá við og framundan er bergveggur hennar hár og mikill, en lækkar til austurs og vesturs þegar fjær dregur.
Yfir gjána á þessum slóðum eru tveir stígar með nokkru millibili; Knarranesselstígur og Auðnaselsstígur nokkurn spöl norðaustar.
Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan við Klifgjá og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selsstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnstæðið sem er um 100 m neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs.
Næst er Auðnasel, en það er norðaustur af Knarranesseli innan við [Breiðagerðisslakka]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól. [Við leit að vatnsstæðinu sumarið 2003 kom í ljós að það er niðurgrafið undir nefndum klapparhól, skammt norðan vestustu tóftanna].
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræsluflug. [Við skoðun á Sýrholti og Fornuseljum sumarið 2002 komu í ljós tóftir á tveimur stöðum. Tóftir eru norðvestan í holtinu. Þá eru tóftir nokkru norðar. Norðan þeirra, í gjá, er hlaðin kví].
Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts, en norðan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.
Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-
Flekkuvíkurás og Nyrðri-Flekkuvíkurás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Þórustaðastígurinn liggur milli Selshálsins og Sýrholtsins, síðan yfir Grindarvíkurgjána og áfram upp í heiðina.
Norðan Flekkuvíkursels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman og heita Bræður.
Undir norðaustanverðum Rauðhól er Rauðhólssel, en það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból. Upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði liggur Rauðhólsselsstígur, eða Rauðhólsstígur, upp í selið.
Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur frá Brennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel. Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tvennar tóftir af kofayrpingu, en kvíin er vestarlega í seltúninu. Austarlega á Selásnum er há varða sem sést víða að.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum, en hún lifði líklega fram á anna tug þessarar aldar”.
Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel fram á 19. öldina; það eru Hvassahraun og Flekkuvík. Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð nýlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir eins og [áður] er getið um.
Hvassahraunsselstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina. Líklega eru örnefnin Selskrínshæð og Hálfnaðarhæð við stíginn og þá Hálfnaðarhæðin fast hægra megin við hann sé gengið upp eftir. Örnefnið Selskrínshæð gefur til kynna að þangað hafi selfólkið farið með selskrínunarr og þær síðan verið sóttar á hæðina af heimafólki og eða skipt um ílát þar.
Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur úr Hafnarfirði um Óttarstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn: Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðhólsstígur eða Óttarstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargatan og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir geta um vatnsból við Hvassahraunssel og þá undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það. Nokkur leit hefur verið gerð að vatnsstæðinu, en það hefur ekki fundist. [Gerð var leit að því sumarið 2003 og fannst það á nefndu stað skammt fyrir ofan selið. Þar eru nokkrir hraunbollar og í einum þeirra var greinilegt vatnsstæði undir].
Næst er fallegasta gróðursvæðið á öllum Reykjanesskaganum, en það eru Selsvellirnir, sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænuvatnseggjum af smá dalverpi eða gili, en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd, en aðeins rúmlega 0.2 km á breidd.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir í lýsingunni að Selsvellir séu “í Strandamannalandi eður fyrir norðan Grindavíkurlandamerkin”. Þrátt fyrir þess heimild og fleiri hafa bændur í Grindavíkurhreppi eignað sér Selsvellina í tugi ára og á kortum Landmælinga Íslands er línan alltaf Grindvíkingum í hag þó svo hún sé að vísu einatt skráð sem óviss mörk.
Tveir lækir, Selsvallalækir, ranna um sléttuna, en hverfa svo niður í hraunjaðarinn, sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili sunnan Kúalága, en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nokkuð nálægt Selsvallaseli.
Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Backmann, Staðapresti, til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. [Þess ber að geta til glöggvunar að eldri seltóftir eru austan Selsvalla skammt norðar. Á milli þeirra liggur greinilegur stígur að nýrri selstóftunum. Kemur hann inn á selstíginn yfir hraunið, áleiðis til Grindavíkur, vestan þeirra. Stígurinn, sem reyndar greinist í fleiri stíga, er djúpt markaður á kafla eftir lappir og fætur liðinna kynslóða.
Handan við hraunkantinn að vestanverðu er Hraunsels-Vatnsfell. Uppi á því austanverðu er gígur með vatni í; vatnsstæði. Það hefur greinilega verið mikið notað í gegnum aldirnar, ef marka má hinn markaða stíg, sem þarna liggur á millum].
-Selin í Vatnsleysustrandarheiði – eftir Sesselju Guðmundsdóttur – “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd”.