Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Eldborgargren

Hér á eftir verður fjallað um „Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: „Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum“.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
„Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.

Selsvellir

Selsvellir.

Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. … Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.

Hraunssel

Hraunssel.

Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla“ …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.

Knarrranessel

Knarrarnessel.

Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: „Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima“.
Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: „Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt“.

Selsvellir

Selsvellir.

Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: „Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi“.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: „Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar“. …

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:

Kringlumýri

Kringlumýri undir Sveifluhálsi.

1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.

Klofningar

Í Klofningum.

Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.
Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): „Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.

Markhella

Markhelluhóll.

Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
Kálfatjörn
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – grenið.

Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): „Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum“.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.

Klofningar

Klofningar – greni.

Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki.

Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan „Suðurnesjaalmenning„. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: „Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: „Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,““ … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.
Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.“ … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: „Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: „Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum“.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: „Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd“.
Síðar segir Geir: „Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]“. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: „ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum. Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]“ … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: „þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó“. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.
Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: „Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo“.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: „að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum“.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: „Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús“. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: „bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða“. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um „Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.

Efri-Brunnastaðir

Fyrrum var réttað í Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd. Réttin sést vel á loftmynd frá árinu 1954, en í dag (2021) er hún horfin af yfirborði jarðar.
Í Úrskurði Óbyggðanefndar árið 2004 var lögð fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Þar lýsir Sæmundur bæði Brunnastaðaréttinni og réttinni á Vigdísarvöllum:

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

„Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).

Vigdísarvallarétt

Vigdisarvallarétt – uppdráttur ÓSÁ.

3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litlahrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum.
Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.“

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt – fyrr og nú.

Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 – „Munir og minjar á Kálfatjörn og nágrenni og sagnir þeim tengdar„.

Kálfatjörn „Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju sem haldið er á vegum leiðsögumanna Reykjaness ses og í samvinnu við Minjafélag Vatnsleysustrandar og Mark – Hús ehf.
Í kvöld munum við bjóða ykkur upp á sögulegan fróðleik og að því loknu er kaffi í boði í þjónustuhúsinu hér við hliðina. Við áætlum að dagskráin taki tæplega tvær klukkustundir hér í kirkjunni og endi í þjónustuhúsinu.
Ég ætla að segja ykkur frá helstu munum og minjum hér á Kálfatjörn og hér í kring og sögnum þeim tengdum.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Viktor Guðmundsson er innfæddur Vogamaður. Hann mun segja okkur frá fræknum formönnum sem voru uppi á síðari hluta 19. aldar þegar útvegurinn var í miklum blóma hér á Ströndinni og íbúafjöldinn tvöfaldaðist yfir vetrarvertíðina. Ómar Smári Ármannsson er vel þekktur en hann er mikill göngugarpur og er búinn að þræða Suðurnesin fram og aftur og kynna sér margar minjar og skrá þær og mynda og hægt er lesa um ferðir hans á vefslóðinni FERLIR. Hann ætlar í kvöld að segja okkur frá seljabúskap sem var mikið stundaður hér fyrr á öldum og sýna okkur myndir af minjum sem enn má sjá frá þeim búskap.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þorvaldur Örn Árnason er Vogamaður og mikill náttúruunnandi. Hann ætlar að fá okkur til að taka lagið á milli atriða og spila undir á gítar. Snæbjörn Reynisson, Vogamaður, mun segja nokkur orð fyrir hönd minjafélagsins.
Eins og þið sjáið þá ákváðum við að vera dálítið þjóðleg í kvöld og klæðumst því íslenskum lopapeysum bæði gamaldags þ.e. hnepptum og beinum og nýmóðins með rennilás og aðskornum. Íslensku peysurnar eru gott dæmi um það hvernig hið gamla getur orðið nýmóðins en það er kannski það sem við viljum koma áleiðis til ykkar í kvöld þ.e að minna ykkur á allar þeir verðmætu minjar og sagnir sem til eru á þessu svæði í von um að þær megi varðveitast og verða að nýjum fróðleik fyrir þá sem á eftir koma.

Norðurkot Hér á Kálfatjörn eru margar minjar og sagnir þeim tengdar. Hér hafa margir fróðir og merkir menn búið og sem betur fer er ýmislegt sem hefur varðveist bæði ritað og hljóðritað. Í efni mínu um muni og minjar á Kálfatjörn og sagnir þeim tengdar styðst ég aðallega við heimildir s.s.:

1. Erindi sem Erlendur Magnússon á Kálfatjörn flutti þegar kirkjan átti 50 ára afmæli og birt var í riti sem gefið var út í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar, 11. júní 1993.
2. Lýsingu á örnefnum í Kálfatjarnarhverfi sem Örnefnastofnun safnaði og höfundar eru synir Erlendar þeir Gunnar og Ólafur Erlendssynir.
3. Fróðleik frá þeim systrum Ingibjörgu og Herdísi Erlendsdóttur sem ég kynntist og þær miðluðu mér.

Kálfatjörn 1978

Kálfatjörn 1978.

Allt þetta fróða fólk er nú því miður látið og hvílir hér í garðinum utan einn bróðirinn Ólafur Erlendsson sem er vel hress og verður níræður á þessu ári. Ég ræddi við hann og tók samtalið upp til varðveislu. Einnig fræddi sonur Ingibjargar, Friðrik H. Ólafsson mig en hann er hér fæddur og alinn upp.
Kálfatjarnarkirkja og næsta nágrenni.
Árið 1200 er fyrst getið kirkju hér og þá í sambandi við rekamörk kirkjunnar. Telja má víst að þá hafi kirkja verið búin að standa hér um nokkurt skeið, því þegar eftir kristnitökuna voru kirkjur reistar í flestum byggðarlögum landsins.
KálfatjörnKirkjustaðurinn getur því verið mjög gamall en með fullri vissu um 800 ára gamall. 1397-1450 er Kálfatjarnarkirkja nefnd Péturskirkja í kaþólskri tíð tileinkuð Pétri postula. Margir prestar hafa setið á Kálfatjörn og ætla ég ekki að fara út í alla þá sögu en nefna þó séra Stefán Thorarensen sem er hér prestur til 1886, í 29 ár. Hann var mikið sálmaskáld og sálmaþýðandi eins og sjá má í sálmabókum en mjög sálmar eru eignaðir honum. Séra Árni Þorsteinsson sat í 33 ár eða til 1919. Hann var síðasti presturinn sem sat hér á Kálfatjörn, því Kálfatjarnarsókn lagðist til Garðaprestakalls 1907.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919 sett ofan á loftmynd. ÓSÁ

Í þau tæp 500 ár sem Kálfatjörn var prestsetur er getið að 15 prestar hafi setið hér og þeir þjónað til jafnaðar 34 ár. Það segir heilmikið um hversu gott brauð þetta hefur verið. Því prestar fóru ekki að fá laun frá ríkinu fyrr en seint á 19.öld en fyrir þann tíma var það jörðin og hlunnindi hennar sem skiptu máli hversu efnaðir prestar urðu. Kirkjan sem var á undan þessari var byggð 1863, og því aðeins 30 ára gömul þegar þessi var byggð. Mun hún hafa verið of lítil fyrir söfnuðinn sem var á þeim tíma 6-700 manns og 10-12 hundruð á vertíðinni.

Goðhóll

Hinn 15. maí 1892 eru fermd 25 börn í kirkjunni og daginn eftir er byrjað að rífa hana og hafist handa við byggingu nýrrar kirkju. Sjálfboðaliðsvinna kom þá þegar til sögunnar og var mjög mikil. Fyrir byggingu grunnsins stóð Magnús Árnason steinsmiður. Hann bjó þá í hreppnum í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk enda var það haft eftir yfirsmið kirkjunnar Guðmundi Jakobssyni að hann hefði ekki reist hús á jafnréttum grunni, sem þessum. Allt efni kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp hér, á árabátum, öllum unum við, en stórtré lögð á fleka og róin til lands, aðrir tóku svo við og báru upp hingað heim og var mikið kapp í mönnum að verkið gengi fljótt og vel fyrir sig. Þá voru eigi bílar til að létta og flýta ferðum.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 1930.

Þegar farið var að höggva til grindina kom í ljós að efni vantaði í fótstykki forkirkjunnar þrátt fyrir að allt hafi verið mjög nákvæmlega útreiknað áður en bygging hófst. Þótti það bagalegt og til tafar, því til að fá þetta efni þurfti að manna skip með 8-10 mönnum og fara til Reykjavíkur til að fá það. En þá kemur frétt um að stórt tré hafi rekið á fjörur kirkjunnar, inn á svokölluðum Réttum. Reyndist tré þetta vera “kjölsvín” úr skipi og mældist 8 x 9 tommur að gildleika og 34 feta langt. Var tréð því svo mátulegt í þau 3 stykki sem vantaði að hvorki þurfti af að taka né við að bæta, en einn kantur forkirkjunnar kom af sjálfu sér frá aðalkirkjunni. Eins og Erlendur Magnússon orðaði svo vel í afmæliserni sínu í tilefni af tímmtíu ara afmæli korkjunnar var þarna komið „fótstykki frá kirkjunni sjálfri til að reisa hinn mikla og glæsilega turn kirkjunnar og eins og kjölsvínið” tengir aðalgrind skipsins innviðum við stofntré þess kjölinn, eins tengdi það nú saman aðalkirkju og forkirkju sem gefur hverri kirkju hinn glæsilega og tilkomumikla svip. Kirkjan var síðan vígð 11. júni 1893.
Kálfatjörn Aðalsmiðir kirkjunnar voru Guðmundur Jakobsson er teiknaði hana og var yfirsmiður og Sigurjón Jónsson kennari hér við barnaskólann sem einnig var lærður trésmiður. Allt sem rennt var, svo sem pílárar og ljósaliljur gerði Þorkell Jónsson frá Flekkuvík þá bóndi í Móakoti, hér í Kálfatjarnarhverfi. En þá þekktist ekki nein vélarvinna og tiltölulega lítið flutt inn af unnum við og megnið því handunnið og er því um feiknaverk að ræða. Kirkjuna málaði danskur málari, búsettur í Reykjavík, Bertelsen að nafni og málningin á inniveggjunum hefur varðveist fram á þennan dag í yfir 100 ár.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla og málning.

Fyrir utan smá lagfæringar sem gerðar voru við fordyr kirkjunnar en það verk unnu hagleiksmennirnir Jón og Gréta er gistu hér á Kálfatjörn hjá Herdísi Erlendsdóttur meðan á verkinu stóð. Þetta er eina heildar verkið að ég held sem varðveist hefur eftir Bertelsen málara. Hann virðist hafa málað kirkjuna á Akranesi af gömlum myndum af dæma og Iðnó en á báðum stöðunum hefur verið málað yfir og verkið það ekki varðveist eins vel og hér. Hingað komu menn fyrir nokkrum árum síðan og skoðuðu verkið en þá voru þeir að gera upp Iðnó en þar fundust einmitt brot af málningarverki Bertelsen þegar þeir rifu niður veggpappír og þeir vildu reyna að mála Iðnó í sömu mynd aftur eins og Bertelsen hafði málað forðum.
Ýmsir aðrir munir í kirkjunni eiga sér sögu, altaristaflan er eftirmynd Sigurðar málara af upprisunni en fleiri slíkar eru til s.s. í Dómkirkjunni, Hvalsneskirkju og á fleiri stöðum.

Kalfatjorn - hestasteinn

Ýmsir munir hafa verið gefnir kirkjunni s.s skírnarfonturinn, ljósastikan úr birki, ikoninn altarisklæði og dúkur, hökull o.fl. oft til minningar um látna ættingja. Fyrir 1935 var turn kirkjunnar öðruvísi en nú er en þá var hann áttstrendur og þótti mjög fallegur. Söfnuðurinn vildi fá að halda sínum gamla og vinsæla turni, en húsameistari ríkisins og biskup lögðust móti því og því var honum breytt eins og hann er í dag. Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Móakot; uppdráttur.

Annar steinn, hestasteinninn, er/var á móts við Hátún þ.e. við afleggjarann að kirkjunni hann er með tveimur götum og líklega til að binda hesta við. [Steinn þessi hvarf, en eftir umfjölluna var honum skilað á sinn stað aftur og stendur nú austan megin við heimreiðina að kirkjunni]. Norðan megin við kirkjuna er stór forláta steinhella frá 1669 yfir Erlendi Jónssyni lögréttumanni. sem Björn Th Björnsson, listfræðingur telur vera eftir steinasmiðinn mikla Þorkel Arngrímsson guðsþénara á Görðum á Álftanesi. Verk hans má einnig sjá í kirkjugarðinum á Görðum og á Þingvöllum. Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina. Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka.

Kálfatjörn

Kálfatjörn 2023. Bjarg fjær.

Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999.

Kalfatjarnarkirkja

Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. Skipið var talið vera á við fótboltavöll á stærð og svo stórt að önnur skip gátu ekki dregið það að landi og bjargað því. Um borð í skipinu var mikill timburfarmur sem átti að fara í járnbrautargerð. Farmurinn kom sér vel á Suðurnesjum og voru mörg hús smíðuð úr viðnum og enn má sjá nokkur þeirra uppistandandi. Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins. Fyrir vestan hlöðuna má sjá móta fyrir sjávargötu sem liggur niður í naustin og lendinguna. Við hana er mjög hagalega hlaðinn djúpur brunnur sem talinn er vera með elstu brunnum á ströndinni.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Skammt fyrir neðan brunninn lá rásin sem alltaf var full af vatni en tæmst hefur á síðustu árum. Yfir hana sést greinilega steinhleðsla frá fornri tíð. Rásin kom ofan úr heiði og tók oft í sundur veginn eftir að hann kom og bar þá með sér möl sem enn má sjá en rásin hélt síðan áfram niður eftir Goðhólstúninu sem er vestan við Kálfatjarnartúnið en beygði síðan norður neðan Hallhóls og endaði í Kálfatjarnarsíkinu en þaðan rann hún bæði í Kálfatjörnina og út í sjó. Enn sér móta fyrir affallinu. Stundum snéri þetta við á stórstraumsflóði og í vestanátt en þá flæddi inní síkið og jafnvel upp um öll tún. Kálfatjarnarkirkja stóð á hól og stundum var hún eins og á miðri eyju.
Munnmæli herma að fyrrum hafi kirkjan staðið nær sjónum en síðar verið flutt ofar vegna ágangs sjávar og gætu því minjar frá fyrri tíð verið í Kálfatjarnartúninu. Húsið sem stendur neðan við hlöðuna er Norðurkot en það hús stóð aðeins sunnar á Ströndinni og var flutt hingað fyrir stuttu. Í þessu húsi var skóli um tíma eða á árunum frá 1900 – 1911.
KálfatjörnNýstofnað minjafélag Vatnsleysustrandar fékk húsið að gjöf frá afkomendum Erlendar og Kristínar auk ýmissa muna sem þau höfðu geymt þar og segja sögu svæðisins. Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóhús.

Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar. Vestan við Naustakot og Kálfatjarnartúnið eru tóftir Goðhóls en þar var búið í torfbæ til ársins 1933. Þar má vel sjá hvernig fólk lifði í byrjun tuttugustu aldar en þar eru tóftir baðstofu og fjósið við hliðina og þar er fjárhús og garðar í kringum kálgarðinn og kartöflubeðin. Goðhólsjörðin afmarkast greinilega af hlöðnum görðum. Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.
Kálfatjörn Mjög víða eru garðar og vörður og merkar minjar sem tengjast útvegi og gömlum búskaparháttum á Vatnsleysuströnd og gæti ég haldið lengi áfram að segja frá þeim og ýmsu öðru en það verður að bíða betri tíma. Fyrirhugað er að leiðsögumenn bjóði upp á gönguferð í sumar um svæðið og skoða minjarnar. Ég hef nú í þessum pistli mínum tekið saman helstu þætti um muni og minjar á Kálfatjörn. Kirkjan var eins og áður hefur komið fram byggð á árunum 1991-1993 en það voru harðræðisárin sem stór hluti landsmanna flúði til Ameríku. Kirkjubyggingin hefur því verið þrekvirki þess tíma.
Von mín er sú að hið nýja minjafélag með hjálp sóknarbarna og annarra velunnara megi eiga þess kost að varðveita muni og minjar og sagnir þeim tengdar og koma Kálfatjarnarkirkjustaðnum til vegs og virðingar á ný eins og hann var um aldir.
Við lokin hér í kirkjunni vil ég fyrir hönd okkar leiðsögumanna þakka öllum fyrir komuna og Minjafélaginu fyrir samvinnuna og Mark-Hús ehf sem er byggingarfyritæki og eiganda þess Markúsi, sem er nýr landeigandi hér á Vatnsleysuströnd og styrkti okkur, Þorvaldi fyrir sönginn og Jóhanni kirkjuhaldara fyrir greiðviknina. Einnig börnum Oktavíu og Helgu Ragnarsdætra fyrir auglýsingaútburðinn sem og þeim systrum fyrir kaffiveitingarnar. Gjörið svo vel að ganga yfir í þjónustuhúsið og þiggja kaffisopa.“

-Framangreint er úr erindi SFJ á Sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju 19. jan. ´06.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Í Faxa árið 2000 er frásögn séra Péturs Jónssonar á „Lýsingum Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840„:

„Takmörk Njarðvíkursóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík, ofan að sjó; frá hans efri enda upp í heiðina að Gömlu-Þúfu á svokölluðu Háaleiti, af hverju sjá má umhverfis á þrjá vegu í sjó; frá Gömlu-Þúfu sjónhending í Kirkjuvogsklofninga, sem eru frá Háaleiti að sjá milli dagmála og hádegisstaðar. Sunnanverð takmörk hennar frá Kirkjuvogsklofningum ná upp í Stapafellsgjá, sem er í dagmálastað frá Klofningunum; að innan og austanverðu er Innri-Skora á Vogastapa hér um bil miðjum, er liggur ofan að sjó.

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistu heiti af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum. Þessi mishái heiðarmúli (Stapinn) liggur milli Stapakots í Njarðvík innri og Voga (gömlu Kvíguvoga) með þverhníptum hömrum, sem taka nokkuð mislangt fram að sjó. Nes eru hér ekki utan Stutti-Tangi, sem kallast Vatnsnes, á hverjum samnefndur bær stendur, norðvestasti eður yzti bær í Njarðvíkursókn. Þar fyrir sunnan skerzt inn vík, hér um stutt íslenzk hálf vika, að svo kölluðu Klapparnefi í ytra Njarðvíkurhverfi og nærfellt að sömu lengd; sker hún sig aftur milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur inn í landið. Af gömlum eldgosum eru hraun hér sýnileg, sums staðar með hólum og lágum á milli, í hverjum er sums staðar nokkurt gras, lyng og mosi. Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.

Njarðvík

Njarðvík 1950. Vatnsnes fremst og Grindavíkurfjöllin fjærst.

Að norðanverðu við nefnda vík, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur myndast nes, er kallast Hákotstangar, er ná að lítilli vík, er kallast Kopa, sem er lending milli Stapakots og Stapans. Fiskiskútur ogjafnvel stærri skipgeta legið á Njarðvíkurvík; þó mun þar vart trygg höfn.
Lendingar og varir hefir náttúran og menn svo tilbúið, að víðasteru vel brúkanlegar. Grynningar og sker eru hér ekki til greina að taka utan Eyland, sem ekki sést utan með stórstraumsfjöru; norðar en á miðri vík, líka upp undir landi, Skarfasker utan Klapparnefið og Fitjar- og Steinbogasker sunnan, á hverju sauðkindur stundum flæða.
Hvassir vindar ganga hér oft af norðri, landsuðri og vestri. Snjóar og einkum stórrigningar eru tíðar af þessum áttum; skruggur á stundum, ekki síður á vetrum en sumrum, en sjaldnast skaðlegar.

Þurrabúð

Þurrabúð á fyrri hluta 19. aldar á Reykjanesskaganum.

Fiskiveiðar eru hér stundaðar oftast ár út og ár inn, en í marz og aprílmánuðum brúkast mest netaveiðar, því um þær mundir gengur sá fiskur inn með landi, sem nefnist netafiskur. Þjóðvegir liggja Iangsetis yfir sóknina og krossgötur hér og hvar, sem árlega eru ruddir og hreinsaðir. Fyrir nokkrum árum síðan er betri og beinni vegur lagður eftir Stapanum framarlega í stað þess fyrri, sem ofar lá eftir heiðinni, lengri, verri og villugjarnari, einkum á vetrum. Graslítill áfangastaður fyrir lestamenn er á millum Njarðvíkanna, á svo nefndum Njarðvíkurfitjum.
Annexkirkjan frá Kálfatjörn er á heimabænum í Innri-Njarðvík; þar er venjulegt að embætta 3ja hvern helgidag á sumrum, en 4ða hvern á vetrum. Þessi kirkja var árið 1811 lögð til Kálfatjarnar, þó framar presti þar til kostnaðar en ábata. Fiskitökuhús kauphöndlandi manna eru fyrir nærverandi tíð 3 í Ytri-Njarðvík og 2 í Innri.

Verbúð

Verbúð fyrrum.

Bjargræðisvegur er mest og bezt sjávarafli; hann er og framar öðru stundaður. Búfénaður er yfir höfuð lítt ræktaður, þar hey er ekki utan litlar töður til gjafar á vetrum, og því útigangsskepnur í fári, þá fjörur Ieggja af ísum og tekur fyrir jörð í heiðinni. Útfærsla túna, sléttun þeirra, steingarða byggingar kringum þau og timburhúsa uppkoma hefir smám saman aukizt; kályrkja er og svo ræktuð með allgóðri heppni víða hvar. Eldsneyti yfir höfuð er slæmt af sjávarþangi og öðrum óhroða. Sumarvinnan til lands er fiskverkun, túnrækt og húsbyggingar, sláttur byrjar vanalegast 14 vikur af sumri og endast oft í 18.-19. viku.
Margir menn eru hagir á járn og stunda nokkrir með fram skipa-, báta og annað smíði. Vetrarvinna er mest hampspuni til sjóarútvegs, fyrir utan annað ýmislegt, er fyrir fellur. Til skemmtunar á vetrarkvöldum er sums staðar iðkaður rímnakveðskapur, en þó meira fornsögulestur. Uppfræðing, áðferði og trúrækni fólks virðist fremur yfir höfuð á góðum vegi og heldur fara batnandi í sumu. Þénustusemi, greiðvikni og hjálp við aðra algeng.
Fólksfjöldi hefir undanfarin ár aukizt, mest fyrir tómthúsabyggingar.

Njarðvík

Innri Njarðvík fyrrum – Áki Grenz.

Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir, Innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
Kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún stendur, þar hún fékk ekki kirkjurétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn. Keflavíkurhöndlunarstaður átti fyrrum kirkjusókn að Njarðvík, stuttan og góðan veg, en nú að Útskálum, að sögn fyrir eftirleitni prests þar. Kauphöndlun Njarðvíkinga er mest í Keflavík.
Alls staðar liggja kýr inni á sumrum um nætur. Margir menn eru skrifandi og sums staðar kvenfólk; nokkrir finnast, sem bera skyn á einfaldar lækningar, margar lagnar nærkonur, þó ekki yfirheyrðar. Sjúkdómar eru helztir: Á börnum oft andarteppuhósti, fullorðnum iktsýki almenn, sumir eru brjóstveikir, fáeinir holdsveikir.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Frá Innri-Njarðvík var selstaðs við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík; þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.
Fyrir innan áður nefnda Innri-Skoru á Stapanum byrjar Stóru-Vogaland og takmörk Kálfatjarnarsóknar. Inn af Stapanum, eru 4ur skörð. Það syðsta heitir Reiðskarð, bratt upp; þar eftir er alfaravegur, sem stundum er ófær af fönn á vetrum; hin þrjú, hvert vestar af öðru að sjó, eru gengin. Á innri parti Stapans er hæsta hæð hans, sem kallast Grímshóll, og á henni stór varð. Þar er mjög víðsýnt í allar áttir. Strax við Stapann að innan er Vogavík, er vegna sandgrunns tengist hvað af öðrum upp með Stapanum. Við sjóinn rétt við Stapann, vestan víkina, em Hólmabúðir, sem sjómenn róa frá og höndlunarmenn hafa fiskitökuhús; framundan Vogunum á víkinni er bezta skipalega fyrir stór og smá skip og trygg höfn fyrir öllum vindum utan vestan-útnorðan. Þar norðanleguna er Þórusker, er fer í kaf með stórstraumsflóðum; norður frá því skammt em smásker. Norðan vfkina er bærinn Stóru-Vogar og Vogahverfi; norðar em Minni-Vogar. Gengur svo ströndin í þá átt að Brunnastöðum; á þeim vegi em 3 fiskitökuhús og 1 milli Stóm-Voga og Stapans, fyrir víkurbotninum, á litlu nesi, hvar og tjárréttarmynd er, að hverri sækja á haustum Strandar-, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppar.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Framundan Brunnastöðum og samnefndu hverfi eru tangar og grynningar nokkuð fram í sjó; þó er lending þar góð kunnugum. Eftir sömu stefnu mæta Hlöðunesstangar framundan Hlöðunessbæ, innar Atlagerðistangar framundan Ásláksstöðum. Innan þá er nokkuð stórt sker, sem kallast Svartasker; þar fyrir innan skerst inn vík ei mjög stór, kölluð Breiðagerðisvík. Svo er ströndin nær því jöfn og beygist heldur til landnorðurs, allt inn í svo kallað Keilisnes, sem er skammt innan Kálfatjörn. Á öllum þessum vegi grunnleið með ströndinni, frá Þóruskeri í Vogum inn að Keilisnesi, er mjög brimsamt, meðboðum, nöggum, hnýflum, flúðum og smáskerjum. Innan Keilisnesness gengur inn breið vík, kallast Vatnsleysuvík; hún er full vika sjóar á breidd inn að Hraunsnesi, sem er takmark milli Kálfatjarnar og Garðasóknar við sjó; víkin er nær því eins löng inn í landið og hún er breið til.

Kúagerði

Kúagerði.

Sunnan til við hana er Flekkuvík, Kálfatjarnarkirkjujörð, austar lítið er Minni- og Stóra-Vatnsleysa; fram undan þeirri minni eru grynningar, sem kallast Vatnsleysueyri. Hún er þangi vaxin, og yfir hana hylur með hverri flæði, nokkuð stór um sig og hættuleg ókunnugum; verður að miða inn hjá henni leiðina, eins og víðast er tilfellið í lendingar á Ströndinni. Fyrir botni víkurinnar er sagt verið hafi bær, er heitir Akurgerði; innar er Kúagerði. Þar í er tjörn í nokkuð djúpri dæld, sem minnkar með fjöru, en vex með flóði; þar hjá er alfaravegur gegnum brunahraun.
Innar eru gömul Sellátur, en löngu síðan af; þar skammt frá er Hvassahraun og samnefnt hverfis, innsti sóknarbær, lítið innar er áður nefnt Hraunsnes.
Þessi einajörð íbáðum sóknunum, sem útgjöra hreppinn, hefir allgóðan skóg, sem heldur er í rénun. Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhreppslögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru.

Fagridalur

Í Fagridal.

Fjallgarðurinn liggur frá austri til vesturs, allt frá Grafningsfjöllum að Fagradalsfjalli, sem eiginlega endar hann; upp undan Stóru-Vogum hér og hvar eru smáskörð í hann. Vestur frá Fagradalsfjalli eru í hrauninu tvö lág fell, Stóra- og Litla-Skógfell, vestar er Sýlingarfjall, svo Þorbjarnarfell, svo lengra vestur Þórðarfell og loksins Stapafell, áfast við Súlufjall, sem er það vestasta ofan Stapann, hér um bil í austur að sjá frá Kirkjuvogi í Höfnum.
Í Fagradalsfjalli er samnefndur dalur, fyrrum fagur, en nú að mestu stórgrýttur af skriðum og graslítill; innar er Hagafell með sæmilegum grasbrekkum. Nokkuð innar er hár fjalltindur, er kallast Keilir, sem sjófarendur kalla Sykurtopp. Fyrir innan hann er skarð í fjöllin, þar fyrir innan gamalt eldfjall, sem heitir Trölladyngjur, sem spúð hafa nýju hrauni ofan á það eldra á 13. eður 14. öld. Þetta nýrra hraun er tómur apall og bruni, víða með grasmosa, hvar ekki sést eitt grasstrá; einn armur þess hefir hlaupið fram í sjó sunnan Hvassahraun.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Milli Vatnsleysanna liggur gjá frá sjó, skáhallt eftir endilangri heiði, allt suður í sjó á Reykjanesi. Þar hún er mjóst, má stíga yfir hana, en er sums staðar óyfirfærileg; hún kallast Hrafnagjá. Ofar í heiðinni er Klifgjá, enn ofar Grindavíkurgjá og efst næst fjöllum tvær Kolhólagjár; er það menn vita, allar þessar byrja norður í heiði og enda í Skógfellshrauni. Margaraðrar fleiri gjár og holur eru um hraunin, sem ekki er nafn gefið. í svo kölluðu Vogaholti eru sæmilegir hagar og sums staðar í heiðinni. Margslags lyngtegundir gefast og hátt í henni víðir. Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætast ofan Stapann 3 tjamir, sem heita Snorrastaðatjamir, hvar bær eftir munnmælum skal hafa staðið í fornöld; þær eru eiginlega vatnsgjár, og þar skyldi fiskur hafa haft undirgang frá Grindavík gegnum út fyrir Stapa á hraunið, hvar nú ekki merkist á þessum tímum.
Fiskimið eru rétt ótal djúpt og grunnt með allri sjósíðunni, engin sérleg hákarlamið; þó em fáir lagvaðir brúkaðir.
Úr Kálfatjarnarsókn sækja innbúar verzlun framar til Hafnarfjarðar en Keflavíkur. Helztu bæir eru Stóru-Vogar, Brunnastaðir, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Auðnar, Þórustaðir, Kálfatjörn, Stóra-Vatnsleysa og Hvassahraun, og líka mætti telja Minni-Voga.

Trölladyngja

Trölladyngja. Hverasvæði ofan Oddafells.

Í fjöllunum er helzt að sögn hraungrýti og mógrýti, en sjóklappir víða af stuðlabergi. Frá Kálfatjörn eru Dyngjur að sjá, þá sól er kl. 9, Keilir kl. 10, Fagradalsfjalls innri endi kl. 12.
Sjórinn brýtur víða af túnum og landi og ber upp á sand og grjót, og grynningar aukast.

Kálfatjörn

Yfir höfuð er sama að segja um upplýsingu, siðferði, atvinnuveg og annað í þessari sókn sem hinni, utan að hér er minni þorskanetabrúkun, en meiri hrognkelsa og færafiskirí um vertíð. Til húsabygginga er brúkað nokkurt rekatimbur, en meira af útlenzku, þar óvíða er reki til hlítar. Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helzta, sem ég get frá skýrt. Svohljóðandi bréf, dagsett á Kálfatjörn 24. febrúar 1840, hefur síra Pétur sent Finni Magnússyni með sóknarlýsingu sinni: „Þar ég ekki fékk því við komið að senda með haustskipum þá hér með fylgjandi skýrslu, læt ég hana nú fara í von um, að hún komist með póstskipi. – Ég bið yður og, háttvirtu félagsbræður, að virða vel, þó hún sé ekki svo fullkomin sem skyldi, og taka viljann fyrir verkið“. – P. Johnson

Síra Pétur Jónsson er þjónaði Kálfatjarnarprestakalli 1826 -1851

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

Í íslenskum Æviskrám segir svo um höfund þessarar lýsingar, síra Pétur Jónsson.
„Hann var sonur síra Jóns Magnússonar á Vesturhópshólum og síðar á Borg, og ólst upp við mikla fátækt. Hann fór í skóla 17 ára að aldri og var þar 7 vetur svo, aðfaðir hans þurfti ekki að kosta hann, heldur kom hann heim hvert vor með nokkuð af ölmusu sinni óeyddri; svo hart lagði hann að sér að styrkja foreldra sína. Vorið 1802 átti hann að útskrifast, en eftir beiðni hans var honum veitt leyfi til þess að vera eitt ár enn í skóla. Um seinan komu honum þau tíðindi, að Hólaskóli væri lagður niður 1802, og að piltar yrðu nú að ljúka námi íReykjavíkurskóla. Hefði hann vitað það í tíma, mundi hann ekki hafa sótt um leyfið, enda sagði hann oft, að þess hefði hann mest iðrast. Hann úrskrifaðist úr Hólavallarskóla 1803 með þeim vitnisburði, að hann sé ágætum gáfum gæddur, en þó einkum þroskaðri greind og farsælu minni, og hafi á þessu eina ári tekið undramiklum framförum í lærdómi, þrátt fyrir nokkurn heilsubrest.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Hann vígðist aðstoðarprestur fóður síns 1808 og kvæntist áríð eftir Ingibjörgu Jónsdóttur í Hjörsey, Egilssonar. Hún veiktist hastarlega 1820 og var veik á sál og líkama upp frá því til dauðadags og nær alltaf rúmliggjandi.
Þegar síra Pétur kom til Kálfatjarnar, var hann svo blásnauður, að hann flutti allt sitt á 2 hestum. En fátæktinni þyngri var þó heilsuleysi konunnar. Varð hann á hverju kvöldi að kveða hana í værð eins og barn, og marga nótt varð hann að vaka yfir henni til morguns. En hann unni henni svo mjög, að fyrir hana vildi hann allt á sig leggja, vökur, hungur og nekt. Konan dó 1860 og höfðu þau þá verið í hjónabandi í rúm 50 ár, en ekki átt börn.
Síra Pétur afsalaði sér Kálfatjörn 1851, þá 73 ára gamall. Hann fluttist nú að Móakoti, fékk það eftirgjaldslaust og 1/3 fastra tekna brauðsins. Árni stiftprófastur Helgason mat síra Pétur jafnan mikils og útvegaði honum nú 50 rdl. árlegan styrk hjá stjórninni og auk þess nokkum styrk hjá Synodus. Þó veitti síra Pétur hörmulega í Móakoti, og sá þess varla stað þótt sóknarmenn gæfu honum oft stórgjafir, þegar hann átti bágast. Sumarið 1860 fór hann aftur að Kálfatjörn og naut þar húsaskjóls og aðhlynningar eftir það. Var hann þá þrotinn að kröftum og heilsu, maður á níræðis aldri, sem mestan hluta ævi sinnar hafði búið við eymd og skort. Hann fékk slag 8. desember 1864 og andaðist 8. janúar 1865. Við jarðarför hans vom rúmlega 200 manns, margir langt að komnir og má af því marka vinsældir hans. Einhver seinustu orð hans á banasænginni voru þau, að hann bað sóknarprestinn að muna sig um að láta sig hvíla sem næst „elskunni sinni“ í gröfinni. Og í Kálfatjarnarkirkjugarði hvíla þau hlið við hlið.
Síra Pétur var hinn mesti reglumaður í embætti, kennimaður góður og lét sér mjög annt um barnafræðslu. Veðurbækur hélt hann í samfleytt 50 ár. „Hann var merkur maður og valinkunnur“.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.04.2000, Lýsingar Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840 – séra Pétur Jónsson, bls. 12-14.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Vatnsleysa

Í „Þjóðsögum um Suðurnes„, sem Hildur Harðardóttir hefur tekið saman er að finna söguna „Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu“.
Skammt sunnan við bæinn á Stóru-Vatnsleysu eru minjar af bæ, sem byggður var ofan á hálfkirkju, sem þar var. Sæmundur á Vatnsleysu staðfesti þessa frásögn þegar FERLIRsfélagar heimsóttu hann einn daginn. Gekk hann með þeim um sögusviðið:

Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir sögusviðsins – kirkjan og bærinn fyrrum.

„Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn í fyrrum grafreit við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Sögusviðið merkt með gulum hring.

Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum
þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu.
Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919.

„Varð þér ekki bilt við?“ spurði Guðmundur. „Ekki svo mjög,“ svaraði hann.
„Maður er orðinn þessu svo vanur,“ bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár.
Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.“

Heimild:
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu – ÞJÓÐTRÚ 171.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

 

Stóri-Vogaskóli

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi. Hér er ætlunin að rekja lítillega sögu og afrek þessa merka manns, sem engar myndir virðast vera til af.

Í Ægi 1998 fjallar Jón Þ. Þór um „Þilskipaútgerð við Faxaflóa„. Þar er Jóns getið meðal annarra merkismanna:

Þilskip

„Vagga þilskipaútgerð Íslendinga á 19. öld stóð við Faxaflóa, nánar tiltekið í Hafnarfirði. Þaðan gengu skútur konungsverslunarinnar síðari til veiða á ofanverðri 18. öld og þar rak Bjarni kaupmaður Sívertsen útgerð sína um aldamótin 1800 og á öndverðri 19. öldinni.
Þilskipaútgerð Bjarna Sívertsen stóð með blóma fram á síðari hluta 3. áratugs 19. aldar, en lagðist með öllu af eftir að hann flutti til Danmerkur árið 1831.

Bjarni Sívertsen

Bjarni Sívertssen.

Ekki fór hjá því að athafnir Bjarna Sívertsen hefðu áhrif á framtakssama nágranna hans og leið ekki á löngu, uns útvegsmenn suður með sjó gerðu sér ljóst, að góðan hag mætti hafa af útgerð þilskipa, ef rétt og vel væri að henni staðið. Meðal þeirra, er þannig litu á málin, voru þrír efnabændur við sunnanverðan Faxaflóa, þeir Ari Jónsson í Njarðvík, Jón Daníelsson í Stóru-Vogum og Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti. Fjórði maðurinn í hópnum var Árni Magnússon í Halakoti, en hann átti um skeið þilskip í samlögum við Jón Daníelsson.

Frumkvöðullinn Jón Daníelsson

Jón Daníelsson virðist hafa orðið fyrstur þeirra fjórmenninganna til að hefja þilskipaútgerð. Árið 1803 keypti hann jagtina Willingen, 9 commerciallestir að stærð, og hóf útgerð hennar. Á næstu árum jók Jón útgerð sína. Árið 1820 átti hann, auk Willingen, hlut í skútu, sem Karven nefndist, á móti Árna Magnússyni. Var það skip smíðað í Vogum á árunum 1817-1819.

Þilskip

Þilskip.

Árið 1828 (eða 1829) eignuðust Jón og sonur hans, Magnús Waage, aðra jagt og nefndist hún Anna Sophia. Það skip slitnaði uppaflegu í Reykjavík í októbermánuði 1830, rak á land og ónýttist. Þeir feðgar voru þó ekki af baki dottnir, en létu smíða nýtt skip heima í Vogum. Því var hleypt af stokkunum árið 1833 og hlaut nafnið Willingen, eftir gömlu jagtinni, sem lagt var árið 1826. Mun nýja skipið hafa gengið til veiða úr Vogum allt til ársins 1857, er Magnús Waage lést. Þar með var lokið sögu þilskipaútgerðar frá Stóru-Vogum.
Þeir feðgar, Jón Daníelsson og Magnús Waage, voru miklir atorkumenn og lánaðist vel flest það er til búsýslu og útgerðar heyrði. Magnús lærði skipstjórnarfræði og stórskipasmíði í Danmörku og mun hafa átt mestan þátt í smíði Karven og Willingen (yngri). Hann smíðaði einnig fjölda opinna báta og hermir ein heimild (Annáll 19. aldar), að hann hafi smíðað um eitt hundrað skip og báta.“

Í Andvara 1950 er lýsing Páls Eggerts Ólasonar eftir Jón Guðnason á uppruna og fjölskyldutengslum Jóns Daníelssonar:

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

„Um þær mundir er Ólafur Pétursson var að hverfa úr þjónustu Ólafs stiftamtmanns og gerast bóndi, kemur til sögunnar á Álftanesi syðra ungur maður, sem örlögin höfðu ætlað mikla velgengni og frama. Má urn margt líkja honum við Ólaf á Kalastöðum. Þessi ungi maður hét Jón Daníelsson, bónda á Hausastöðum, Erlendssonar á Hausastöðum, Eyvindssonar í Arabæ í Gaulverjabæjarhreppi, sem var fjórði maður í karllegg frá síra Ólafi Tómassyni, er hélt Háls í Fnjóskadal í rúm 50 ár og lézt 1628. Kona Daníels og rnóðir Jóns var Guðríður Jónsdóttir, bónda á Spóastöðum í Biskupstungum, fyrr á Víðivöllum í Blönduhlíð, Guðmundssonar á Úlfsstöðum í Blönduhlíð, Gíslasonar á Silfrastöðum, Eiríkssonar lögréttumanns í Djúpadal, Magnússonar lögrm., Björnssonar prófasts á Melstað, Jónssonar biskups á Hólum, Arasonar. Kona Jóns á Spóastöðum, móðir Guðríðar, var Vigdís Jónsdóttir, prests á Torfastöðum, Gíslasonar úr Svefneyjum, Jónssonar á Fróðá, Halldórssonar. En Gísli í Svefneyjum átti Ingibjörgu Arngrímsdóttur hins lærða, prófasts og officialis á Melstað, Jónssonar.

Dannebrogs

Dannebrogsorðan.

Jón Daníelsson kvæntist Sigríði Magnúsdóttur, bónda í Hlíð á Álftanesi Bragasonar, og Margrétar Pétursdóttur af Melshúsaætt á Álftanesi. Fluttust þau Jón og Sigríður suður á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar, í Stóru-Vogum, um hálfa öld. Gerðist Jón hinn mesti framkvæmdamaður, formaður á skipi sínu, gildur bóndi og vellauðugur. Þótti eigi einleikið um velgengni hans, og eignaði þjóðtrúin það mökum hans við huldar vættir, eins og lesa má um í þjóðsögum Jón Árnasonar. En hitt mun sönnu nær, að þar hafi honum bezt gagnað eigið hyggjuvit, atorka og forsjá, ásamt ágætum hæfileikum til sjómennsku og skipstjórnar. Fyrir framkvæmdir sínar var hann sæmdur heiðursmerki dannebrogsorðunni.

Meðal barna Jóns Daníelssonar og Sigríðar Magnúsdóttur var Magnús, er bjó eftir föður sinn í Stóru-Vogum og nefndi sig Waage, fyrstur þeirra ættmanna. Varð hann hinn mesti afreksmaður sem faðir hans. Ungur nam hann siglingafræði og síðan stórskipasmíði í Danmörku. Talið er, að hann hafi alls smíðað um 100 báta, en þilskip smíðaði hann fyrir föður sinn og annan útvegsbónda þar syðra, skömmu eftir heimkomuna frá Danmörku. Þótti slík framkvæmd miklum tíðindum sæta, svo lágæt sem hún var á þeim tíma. Getur Espólín þessa í árbókum sinum og bætir við: „Og margur frami jókst þá Íslendingum, þó margt þætti þungt“. —

Í Lesbók Morgunblaðsins, tveimur tölublöðum, árið 1937 eru „Sagnir af Jóni sterka„, sem Ólafur Ketilsson skráði:

Steinninn í Stóru-Vogavörinni
Reykjanes 1809
„Frá ómunatíð hafði klettur einn mikill verið framarlega í Stóru-Vogavörinni, þar sem þrengsli voru mest á millum tveggja skerja þegar skipin voru sett upp eða fram. Var steinninn mitt á milli skerjanna þar, sem þrengslin voru mest, og varð því að setja skipin annað hvort yfir steininn, eða þá yfir annað hvort skershornið, en þetta kom ekki fyrir nema þegar lágsjávað var, eða um fjöru, eða því sem næst, annars flaut yfir steininn, eða skerin, þótti hvoru tveggja miklum erfiðleikum bundið, og hefir því sennilega steinn þessi margt ókvæðis- og formælingarorðið verið búinn að fá á sig, hjá hinum þreyttu og þjökuðu sjómönnum, sem svo marga bakraunina höfðu orðið að þola hans vegna, á meðan að þeir voru að klöngvast með skipin yfir hann.

Vogar

Vogar – fjarnan neðan við Stóru-Voga.

Eina vetrarvertíð, sem næst 1835, kom Jón Daníelsson af sjó á áttæring sínum vestan úr Garðsjó. Fékk hann þennan dag landsynningsrok og roga barning alla leið heim í vör. Voru hásetar Jóns venju fremur þjakaðir eftir barninginn og bölvuðu klettinum í sand og öskuá á meðan að þeir voru að koma skipinu yfir hann. En þegar að setningnum loks var lokið, sagði Jón hásetum sínum að fara heim, en kvaðst sjálfur ætla að verða eftir og taka til í skipinu m.m. En þegar hásetar hans eru komnir upp á túnfótinn heyra þeir ógurlegt öskur niður í fjörunni, og litu því allir samtímis við, og sjá Jón með klettinn í fanginu, og skotthúfuna í munninum, sem hann brúkaði vanalega á sjónum. Öskraði karlinn œgilega, og var þá hinn ægilegasti ásýndar. Hásetarnir þutu allir samstundis niður eftir aftur, en þá hafði Jón borið steininn langt norðvestur fyrir lendinguna og kastað hanum þar frá sjer, en svo máttfarinn var hann, eftir að berserksgangurinn rann af honum, að hásetarnir urðu að leiða hann heim, en daginn eftir var Jón þó sjáanlega jafngóður.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogsvör – loftmynd.

Nokkrum dögum seinna tók hann svo steininn aftur í fang sitt, og bar hann lengra upp í fjöruna norðvestur af lendingunni, þar sem hann liggur enn þann dag í dag. Í síðastliðnum desembermánuði gerði jeg mjer ferð inn að Stóru-Yogum til Sigurjóus frænda míns, var ferðin aðallega farin til þess að skoða steininn og áætla þunga hans. Fórum við þrír niður í fjöruna og skoðuðum steininn, og gátum velt honum við. Kom okkur saman um að minna en 500 kg. (1000 pund) væri hann ekki, og börutækur fjórum duglegum mönnum, en Sigurjón fræddi mig líka um það, sem, jeg áður ekki hafði heyrt, að leðurbrók sú, sem Jón var í og tvennar buxur, hefði verið sundur tætt á hnjám og lærum, eftir átökin, og hann sjálfur blóðmarinn, en ómeiddur að öðru leyti.

Vogar

Vogar – loftmynd 1954.

Að til hafi verið, og sjeu til ennþá, á Íslandi þeir aflraunamenn, sem taki steininn upp, og geti fært bann úr blautum sandinum, þar sem hann hafði legið öldum saman á kafi, til þess hefir þurft, bæði að mínum og annara dómi, sem sjeð hafa steininn, alveg yfirnáttúrulegt mannssafl.

Pertlínan
Eitt sumar, á meðan að Jón Dauíelsson bjó í Stóru-Vogum, kom suður á Vogavík danskur „spekúlant“, sem kallað var í þá daga. Vom það vörubjóðar, eða með öðrum orðum, skip sem höfðu allskonar útlendan varning á boðstólum, fyrir íslenskar afurðir. Höfðu þeir einskonar búð í lestinni, þar sem að öllu ægði saman, ætu og óætu, þurru og blautu.
Þegar skip þetta var komið inn á Vogavík og lagst þar við festar, spurði skipstjórinn einn af þeim mönnum, sem komnir voru um borð hvert þessi sterki Íslendingur myndi ekki komi um borð til sín. Benti þá einn maðurinn skipstjóranum á bát sem kom frá landi, og sagði skipstjóra, að maðurinn sem sæti aftur í bátuum væri hinn sterki Íslendingur, sem hann óskaði að sjá.

Vogar 1950

Vogar um 1950.

Þegar Jón Daníelsson var kominn um borð í skipið, varð skipstjóranum starsýnt á þennan háa og herðabreiða beinabera mann, sem horfði á skipstjóra tindrandi stálgráum augunum, þrungnum af viti og viljakrafti. Þegar Jón hafði heilsað skipstjóra, og þeir höfðu talast við góða stund, gekk Jón fram á skipið, og sá þar afarstóra kaðalrúllu, sem ekki hafði verið vætt. Var þetta „Pertlína“ sem kallað er, eða festartóg, afar sver og úr tjöruhampi, mörg hundruð pund, eftir því sem mjer hefir verið skýrt frá.
Stóru-VogarÞegar Jón hafði skoðað þessa kaðalrúllu, gekk hann aftur til skipstjórans, og bað hann að selja sjer 4—5 faðma af kaðlinum, sem hann svo ætlaði að rekja spottann upp og snúa svo úr honum stjórafæri netateina, m. m., en skipstjóri svaraði samstundis neitandi en hann bætti svo við: „En jeg skal gefa þjer af kaðlinum það, sem jeg má hringa upp á handlegg þinn ofan frá öxl og fram á hönd, þar til handleggurinn fer að bogna eða síga“. Sem auðvitað gekk Jón að þessu veglega boði skipstjóra, því að hann hafði engu að tapa, en til mikils var að vinna fyrir ofurmennið Jón Daníelsson.

Var Jón svo látinn* standa á stórum kassa, og böndin, sem hjeldu rúllunni saman, skorin í sundur. Og byrjaði svo skipstjóri að dunda við að hringa kaðalinn á handlegg Jóns og gætti þess jafnframt hvert handleggurinn bognaði ekki, eða sigi niður. Loks kom að því að Jón sagði, eitthvað á þá leið, að nú færi handleggurinn að síga, og hjó þá skipstjóri samstundis á kaðalinn og ljet leggja á metaskálarnar það, sem hann hafði hringað á handlegg Jóns.

Vogar

Vogar.

Jeg hafði aldrei áður heyrt hvað kaðallinn var þungur, sem hringaður var á handlegg Jóns, en Sigurjón frændi minn sagði mjer, þegar jeg heimsótti hann síðast, að faðir sinn hefði sagt sjer, eftir sjónarvottum að þyngdin hefði verið 320 pund.
Jeg verð að játa að þó þetta sje haft eftir sjónarvottum, þá er þetta næsta ótrúlegt, en alveg yfirnáttúrulegt mannsafl, ef satt væri. En sennilega hefir samt skipstjóranum þótt nóg mn þyngdina, þegar hann var búinn að vigta kaðalinn, því hann sagði um leið og hann labbaði niður í káetuna sína:
„Hvaða djöfuls mannsbein eru þetta“.
Allir vita það, sem reynt hafa, að það er mjög þreytandi að halda til lengdar beinum handlegg út frá sjer, þó ekkert sje á hann lagt, hvað þá heldur, þegar lögð eru á handlegginn fleiri hundruð pund í lengri tíma. Enda er líka þessi aflraun Jóns Daníelssonar talin af mörgum sú mesta sem hann hafi sýnt í lífinu.

„Liggðu nú þarna skussinn þinn“

Vogar

Vogar um 1950.

Þegar faðir minn var 27 ára gamall, fór hann einn dag að heimsækja afa sinn, sem þá var búinn að vera blindur í 11 ár, og kominn í kör. Þegar þeir höfðu skifst á kveðjum segir Jón gamli við föður sinn: „Komdu nú hjerna fast að rúminu til mín frændi, og lofaðu mjer að þreifa þig og þukla, jeg ætla að finna hvað þú ert orðinn stór og státinn“. Gekk faðir minn svo fast að rúminu, en karl fór að þreifa hann og þukla hátt sem lágt, án þess þó að setjast upp, eða hreyfa höfuð frá kodda. En svo veit faðir minn ekki fyr til, en að hann er kominn í loft upp, og karl kastar honum upp fyrir sig í rúmið, um leið og hann segir hlægjandi:
„Liggðu nú þarna skussinn þinn“.

Vogar

Í Vogum.

En faðir minn var með hæstu mönnum, fullar 3 álnir, og að því skapi þrekvaxinn, og þá sennilega ekki verið minna að þyngd en 90—100 kg. Þetta var eftir af kröftunum í köglum gamla mannsins, þó hann væri þá 97 1/2 árs karlægur karl.
Jeg hefi skýrt hjer frá nokkrum aflraunum Jóns Daníelssonar, sem ljóslegn sýna hvílíkt ofurmenni hann hefir verið að afli og frækleik, og eru þó ýmsar sagnir, sem áreiðanlegar heimildir eru fyrir af aflraunum hans enn ósagðar, eins og t. d. þegar að hann bar tvær fullar brennivínstunnnur.
sitt í hvorri hönd, með því að láta laggir hvíla á mjaðmarhöfðum, og halda svo með höndum í hinar laggirnar. Tunnur þessar bar hann alla leið úr, að mig minnir, Levisensbúð í Hafnarfirði, og fram á bryggju, án þess að hvíla sig, og eins ljettileg, sem tómar hefðu verið, að sögn sjónarvotta.

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Eins og sagt hefir verið hjer að framan, þá var Jón Daníelsson álitinn hinn mesti galdrakarl, af samtíðarmönnum sínum, en þessir galdrar Jóns voru áreiðanlega ekkert annað en hyggindi hans og vit, sem hann var gæddur fram yfir fjöldann, og oft var Jóns leitað er einhvern vanda bar að höndum, ekki þó sökum vitsmuna hans, eða hygginda, heldur vegna þess að hann gat leyst hinar þyngstu þrautir og vandráðnar gátur með sinni egyptsku speki, sem allir trúðu á.
Skal að endingu sagt hjer frá nokkrum þeim þrautum, sem lagðar voru fyrir hann, og leitað til hans með, og sem Jón leysti, með hyggindum sínum og viti, en als engri galdrakunnáttu, þó svo væri litið á í þá daga.

Peningapjófnaðurinn í Stóru-Vogum
Stóru-VogarEina vetrarvertíð þá er margt var í heimili hjá þeim Stóru-Voga-hjónum, bar það við eina nótt að stolið var töluverðri peningaupphæð frá einum af hásetum Jóns, sem líka hjet Jón. Strax um morguninn þegar maðurinn saknar peninganna, fer hann til Jóns Daníelssonar og segir honum frá stuldinum, og biður hann nú með kunnáttu sinna að komast eftir hver stolið hafi peningunum.
Jón bað nafna sinn að vera rólegan, því peningunum mundi verða skilað aftur næsta morgun.

Skildu þeir svo talið, og leið fram til kvölds að Jón hafðist ekkert að með að komast eftir hver stolið hefði peningunum. En um kvöldið þegar komið var að sængurtíma kallar hann alt heimilisfólkið með tölu, unga og gamla, niður í stofu til sín.

Vogar

Vogar um 1950 – sjávarhús Stóru-Voga og Hábær.

En þegar allir eru komnir niður í stofuna, sýnir Jón öllum hópnum snærisbúta, sem lágu á stofuborðinu, og sem allir voru nákvæmlega jafnlangir. Fekk Jón svo hverjum manni einn snærisbútinn og bað einn og sjerhvern að geyma hann vandlega til næsta morguns, og svo áttu allir að skila honum snærisbútunum niður í stofunni, eftir fótaferðartíma um morguninn.

Vogar

Stóru-Vogar.

Þegar því var lokið að hver og einn hafði fengið sinn snærisspotta til geymslu yfir nóttina, segir Jón fremur við sjálfan sig, en við fólkið sem í stofunni var: „Við skulum sjá hvert spottinn ekki lengist í nótt hjá þeim, sem var fingralangur á peningunum hans nafna míns“. Næsta morgun þegar fólkið kom niður í stofuna að afhenda Jóni snærisspottana, og Jón fór að mæla þá, reyndist spottinn hjá einum manninum lang sytstur (hann hafði skorið af honum). Þá sagði Jón við manninn:
„Hvers vegna fórst þú að skera af þínum spotta, maður minn, þess þurftir þú ekki með ef þú varst saklaus, en það ert þú sem hefir tekið peningana, og skilaðu þeim tafarlaust“.
Maðurinn var þarna kominn í þá gildru, sem hann ekki gat losað sig úr. Hann meðgekk því samstundis stuldinn, og skilaði peningunum. En ekki minkaði trúin á galdramáttinn hans Jóns gamla Daníelssonar við þetta mjög svo einfalda kænskubragð, sem hverjum nútíðarmanni er auðskilið.

Jón rekur út djöfla

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Í Bjarmarkoti í Vogunum, sem var hjáleiga frá Stóru-Vogum, en er nú eyðibýli, varð maður einn snögglega brjálaður, djöfulóður, sem þá var kallað. Jón var samstundis sóttur og beðinn um að reka djöfsa úr manninum, með kyngikrafti þeim, sem hann hefði yfir að ráða. Þegar Jón kom inn til mannsins, sem brjálaður var, hrópaði hann á móti Jóni: „Þarna kemur þú helv… . þitt Jón Daníelsson, þú er sá eini maður, sem jeg hræðist á þessari jörð“.
og hristi hann og skók, eins og ketlingur væri, þar til maðurinn fór að æpa og emja, og biðjast griða, þá fyrst slepti Jón manninum, um leið og hann sagði: „Nú hefi jeg sent djöful þann, sem í þjer var suður á Garðskaga að tína þar saman lambaspörð, og mun hann ei oftar ónáða þig“.
Manninum batnaði samstundis eftir að Jón slepti honum, og bar aldrei neitt á honum eftir þetta.
En sennilega hefir það ekki verið annað en þessi ofsahræðsla, sem greip manninn, sem læknaði hann, þó þetta væri þá eingöngu þakkað galdrakunnáttu Jóns.

Happasteinninn

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Jón Daníelsson var einn með meiri aflamönnum, sem sögur fara af, og er sagt að honum hafi aldrei brugðist fiskur úr sjó, þegar hann komst á flot, og sem meðal annars má marka af því, að hann flutti bláfátækur suður að Stóru-Vogum, þegar að hann byrjaði þar búskap, en gat eftir fárra ára veru þar keypt alla Stóru-Voga-torfuna, og auk þess eins og áður er sagt tvær jaktir, fyrir utan annan kostnað sem hann hafði bæði við húsabyggingar og fleira.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1965.

En þessi mikli afli Jóns, og gróðasæld, var ekki einleikin og eðlileg aflabrögð. Nei, það var eitthvað bogið við þetta, sögðu samtíðarmenn hans, og nágrannar. Bölvaður karlinn hann hafði sem auðvitað seiðmagnaðan, eða göldrum hlaðinn happastein falinn í skipinu, sem seiddi að sjer fiskinn, svo að Jóni brást aldrei afli á hvaða veiðarfæri, sem var.
Í Norðurkoti í Vogunum bjó þá maður, sem Friðrik hjet, dugnaðarmaður og sjósóknari, en svo sig af því, að hann hefði fengið þennan happastein hjá Jóni, sem seiddi fiskinn að sjer, svo að honum brygðist nú aldrei fiskur, eins og þeir vissu sjálfir, en steininn hefði hann fólginn undir þiljum aftast í skipinu, eins og Jón hefði sagt sjer að hann ætti að gera.
Hásetar Friðriks urðu nú meira en minna forvitnir, og fóru að skoða þennan undra stein, sem seiddi fiskinn að þeim, en þeim fell allur ketill í eld, er þeir sáu steininn, og að þetta var eins og aðrir hnöttóttir fjörusteinar, sem Jón hafði látið Friðrik fara þrjár ferðir eftir suður að Vogastapa til þess að styrkja hann í trúnni á seiðmagn steinsins. En svo brá við, að eftir þetta sótti í gamla horfið hjá Friðrik, að hann fekk ekki „bein úr sjó“ upp frá því.

Reikningsgáfan

Vogar

Vogar – upplýsingaskilti við tóftir Stóru-Voga.

En það sem ef til vill einkendi Jón Daníelsson einna mest frá samtíðarmönnum hans, var hin undraverða reikningsgáfa sem hann var gæddur, sem ekki þótti einleikin, en ganga göldrum næst, eða galdrar vera. En einkum er þó viðbrugðið hugareikningsgáfu hans, sem öllum öðrum var ofraun að botna hið minsta í, enda líka brúkaði hann aldrei pappír eða ritblý hversu erfið stærðfræðisleg viðfangsefni, sem hann fekkst við, heldur reiknaði hann alt í huganum, og var öðrum fljótari fyrir það.
Hásetar Jóns, sem trúaðri voru á galdrakunnáttu Jóns, en reikningslist, höfðu þrásinnis þá sögu að segja af Jóni, að þegar að hann átti þorskanetatrossur vestur í Garðsjó, og leiði var úr Vogunum og vestur, og segl voru komin upp, og skipið komið til skriðs, að þá hefði Jón horft augnabliks stund út fyrir borðstokkinn, fengið svo einum hásetanna stýrið, en lagst sjálfur fram í barka, breitt skinnstakkinn yfir höfuð, og bannað þeim (hásetum) að nefna með einu orði þegar þeir kæmu að duflinu, hann mundi sjálfur gera það. En aldrei sögðu hásetar Jóns að það hefði brugðist, að þegar þeir komu að duflinu, stóð Jón upp í barkanum, og skipaði að lægja segl. Og hið sama sögðu hásetarnir, að þegar siglingaleiði var að vestan og heim í Voga, þá ljek Jón nákvæmlega sömu listina, lagðist fram í barka, þegar segl voru komin upp, með skinnstakkinn breiddan yfir höfuð, og hreyfðist ekki fyr en skipið var komið inn undir lendingu, þá stóð hann fyrst upp og sagði að lægja segl. Þetta að sjá í gegnum tvöfaldan skinnstakkinn og byrðing skipsins, sögðu hásetar Jóns að hefðu verið römmustu galdrar, en engin reikningslist það hefði verið ómögulegt.
Sigurjón WaageEn Sigurjón frændi minn sagði mjer þegar jeg heimsótti hann síðast, að eftir að Jón Daníelsson langafi okkar var orðinn blindur, þá hefðu daglega allir veggir í herbergi hans verið útkrítaðir með reikningsdæmum, sem hann var að búa til, og skemta sjer við í einverustundum ömurlegrar blindrar ellinnar.
Ennfremur sagði Sigurjón mjer að þegar Jörundur hundadagakonungur fór suður í Keflavík 1809, hefði Jón á meðan að Jörundur var í Keflavík, safnað að sjer fjölmennu liði af Vatnsleysuströndinni, vel vopnum búið af ýmiskonar morðtólum, járnkörlum, ljáum, hákarlasveðjum o.s.frv., en sjálfur var gamli maðurinn búinn að safna að sjer all-myndarlegri hrúgu af vel völdum steinvölum, sem hann ætlaði að fara í boltaleik við Jörund með. En Jörundur ljet ekki sjá sig, fór þar fyrir utan garð, en ekki innan, svo ekkert varð úr bardaganum.
Að endingu vil jeg geta þess, að ritgerð þessa las jeg fyrir Sigurjóni frænda mínum, óðalsbónda í Stóru-Vogum, áður en að jeg sendi hana, og telur hann það, sem hjer er skráð af langafa okkar, Jóni Daníelssyni, í fullu samræmi við það, sem hann hafi áður heyrt, bæði hjá föður sínum, Jóni M. Waage og fleirum.
Þakka jeg svo Sigurjóni fyrir þær upplýsingar, sem jeg fekk hjá honum, og hefi stuðst við í ritgerð þessari.“

Í „Strönd og Vogar„, bók Árna Óla, „Úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarssonar, Sagnaþættir“ frá árinu 1961, segir frá Jóni Daníelssyni:

„Jón Daníelsson ríki í Vogum var fæddur 23. marz 1771, d. 16. nóvember 1855. Foreldrar hans voru Daníel Erlendsson á Hausastöðum og kona
hans Guðríður Jónsdóttir á Spóastöðum. Jón bjó fyrst á Urriðakoti fyrir ofan Hafnarfjörð, keypti síðan Stóru-Voga og bjó þar til æviloka. Gerðist auðmaður, enda atorkumaður, orðlagður kraftamaður, forspár. Ganga af honum miklar sagnir. Kona: Sigríður Magnúsdóttir, Bragasonar. Börn þeirra: Vigdís átti Ketil Jónsson í Kirkjuvogi, Magnús skipherra í Stóru-Vogum, Jón í Tumakoti, Guðríður átti Daníel Gíslason í Eyrarkoti. —

Magnús Waage

Magnús Waage.

Magnús sonur hans tók sér ættarnafnið Waage (f. 24. júlí 1799, d. 26. september 1857). Hann nam siglingafræði í Kaupmannáhöfn, en skipasmíðar í Noregi. Smíðaði hann um 100 báta og 2 þilskip. Kona: Guðrún Eggertsdóttir prests í Reykholti, Guðmundssonar. Börn þeirra voru:
1) Eggert stúdent og kaupmaður í Reykjavík, faðir Jens B. Waage leikara.
2) Eyjólfur í Garðhúsum, dóttir hans var Guðrún móðir dr. Páls Eggerts Ólasonar.
3) Guðrún átti Pál gullsmið Einarsson í Sogni í Kjós og voru þau foreldrar séra Eggerts alþm. á Breiðabólstað.
4) Vigdís átti Guðmund alþm. Ólafsson á Fitjum.
5) Margrét ógift og barnlaus. Launsonur Magnúsar var Stefán múrari í Reykjavík (kallaður Egilsson) og fleiri voru launbörn Magnúsar.

Frá Jóni ríka í Vogum
Þegar Jón Daníelsson kom að Stóru-Vogum, var þar draugur, er lengi hafði gert illt af sér. Stóð svo á þessu, að einu sinni hafði þar verið úthýst manni í misjöfnu veðri og varð hann úti nærri Grímshóli. Gekk hann svo aftur til að hefna sín. (Í Ölfusvatnsannál er þess getið, að pilti nokkrum, illa til fara, hafi verið úthýst á einhverjum bæ á Ströndinni, og hafi hann orðið úti. Þetta var 1750).
Draugur þessi sótti að Sigríði konu Jóns í svefni og hafði hún aldrei frið, því að ekki hafði hún fest blund fyrri á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún tók að láta illa í svefninum. Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur, kom að henni sama óværðin. Aldrei kom þetta fram við Jón sjálfan, en ekki var lengi, áður honum leiddist þessi áleitni. Eitt kvöld þegar Jón heyrir að fer að korra í konu sinni rýkur hann á fætur og fer ofan og tekur sax í hönd sér, og segir, ef djöfull sá láti sig ekki í náðum og alla sína, skuli hann reka í hann sveðjuna, og vísar honum til fjandans. Eftir það hætti reimleikinn hjá Jóni. En þegar reimleikinn hvarf frá Vogum, fór hann að gera vart við sig í Tjarnarkoti í Vogahverfinu, og var það þó ekki af því, að þar væri heldur neinir niðjar þess, er hafði úthýst manninum. Sótti draugurinn einkum á bóndann þar, og það svo, að hann varð gjörsamlega óður eina nótt. Var þá sent heim að Vogum eftir Jóni, því Vogamenn leituðu jafnan liðs hjá honum í flestu sem þeir við þurftu.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Kom hann vonum bráðar. En þegar bóndinn í Tjarnarkoti sá hann, var hann svo óður, að hann sagðist ekki hræðast neinn, nema andskotann hann Jón Daníelsson. Gekk þá Jón að manninum og segist þá muni neyta þess, að hann sé hræddur við sig, og skipar hinum óhreina anda út úr manninum með mikilli alvörugefni. En svo brá við það, að maðurinn fékk þá værð og datt í dá. En Jón fór þegar út. Fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað, sem nú er búð sú í Vogum, sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta, þaðan sem hann væri kominn, og gera aldrei framar mein af sér í Vogum. Við þessi ummæli Jóns hvarf reimleikinn þegar, svo hvorki bóndanum í Tjarnarkoti né neinum öðrum varð eftir það meint við hann. En þó hefir þótt örla á því oft, að ekki væri allt hreint í Tuðru.

— Sagan er tekin eftir Páli gullsmið Einarssyni, en honum sagði Jón Daníelsson hana sjálfur. Jón Daníelsson átti draumkonu og draummann.
Draumkonan réð honum ýmis heilræði í svefni og varð honum það jafnan til góðs að fara að ráðum hennar. Hún vísaði honum og á týnda hluti. En skilnaður þeirra varð með ólánlegum hætti. Það var á seinni árum Jóns, að þar týndist silfurskeið og fannst ekki, hvernig sem leitað var. Skömmu síðar kemur draumkonan til hans í svefni, og spyr hann hana hvar skeiðin muni vera, en hún sagði, að hann skyldi leita í buxunum sínum. Um morguninn lét Jón leita í öllum buxum sínum og fötum, en ekki fannst skeiðin. Næst þegar Jón hitti draumkonuna, segir hann, að ekki hafi skeiðin fundizt, en hún svarar, að þá hafi ekki verið leitað vel. Næsta dag leitar Jón sjálfur í öllum sínum fötum, en það fer á sömu leið, ekki fannst skeiðin. Jón segir draumkonunni frá þessu næst, en hún hélt því fram, að illa hefði verið leitað. Þá varð Jón reiður og skipaði henni að fara og koma aldrei fyrir sín augu, úr því að hún væri að skrökva að sér. Eftir það hvarf draumkonan og vitjaði hans aldrei framar. En veturinn eftir, er Jón ætlaði að byrja róðra, lét hann taka skinnbrók ofan úr eldhúsi, sem þar hafði hangið frá því um vorið, og fannst þá silfurskeiðin í annarri brókarskálminni.

Vogar - skilti

Stóru-Vogar – skilti.

Draummaðurinn sagði Jóni, að hann skyldi ekki búa lengur en 20 ár í Vogum, og flytjast þá inn í firði (Hvalfjörð eða Borgarfjörð) og reisa þar bú. Mundi hann þá jafnmikill uppgangsmaður næstu 20 árin, eins og hann hefði verið þessi 20 ár í Vogum. En Jón vildi ekki flytjast burt. Þóttu ummæli draummannsins sannast, því að fremur rénaði auðsæld Jóns, eftir að hann hafði verið 20 ár í Vogum.
Jón bóndi Daníelsson var í miklu áliti hjá Vogamönnum og þeim, sem reru á vegum hans. Leituðu þeir tíðum ráða hans, ef þeir fiskuðu illa, og lagði hann þeim oftast þau ráð, sem dugðu. Oft gaf hann þeim steina og þess konar, er hann bað þá geyma vandlega og segja engum frá að þeir hefðu né heldur hvaðan þeir væru, og mundu þeir verða varir meðan þeir geymdu steinana vel.
VogarEinn formaður í Vogum var sá, sem jafnan var óheppinn með afla. Hann leitaði einu sinni í vandræðum sínum til Jóns og bað hann að kenna sér ráð við þeirri óheppni. Ráðlagði Jón honum að fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa (hún er niður undan Grímshóli) og koma með það fullt af malarsteinum og færa sér. Hlyti þar að vera í einhver happasteinn. Maðurinn færði Jóni austurtrogið fullt af möl. Jón fór að leita í því. Brá hann ýmist tungunni á steinana eða þefaði af þeim og stundum hvort tveggja. Loksins fann hann einn, sem honum líkaði, fékk hann manninum og sagði honum að hafa hann með sér í hvert skipti sem hann færi til fiskveiða, en muna sig um að láta engan vita um þetta. Eftir þetta brá svo við, að maðurinn hlóð í hvert skipti. Þeir voru tveir á og lentu jafnan í handóðum fiski. Þegar svo hafði farið fram um stund, gat formaðurinn ekki setið á sér að segja háseta sínum frá steininum og að Jón í Vogum hefði gefið sér hann, og viti hann fleira en almenningur. En eftir það brá svo við, að þessi formaður fékk aldrei bein úr sjó. — Saga þessi er höfð eftir Páli Einarssyni gullsmið, en honum sagði Jón sjálfur. Ekki vita menn hvaða steinn þetta hefir verið, en talið líklegt, að það hafi verið svartur agat, sem mikil trú var á (svart raf).
Það var eitt sinn á vetrarvertíð, að peningum var stolið í Vogum. Jón var þá orðinn gamall og blindur, en sá, sem stolið var frá, bað hann að hjálpa sér að finna þjófinn. Var þó ekki gott aðgerðar, því að þarna var margt fólk. Jón bauð þá öllu heimilisfólki að ganga fyrir sig og taka í hönd sína, og hlýddu allir því. Þegar einn vermanna tók í hönd Jóns, sagði hann: „Þú ert valdur að peningahvarfinu!“ Maðurinn játaði þegar, en enginn vissi hvernig Jón hafði fundið það á handtaki hans.“

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun „Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar“ við Stóru-Vogaskóla:

Stóru-Vogaskóli

Stóru-Vogaskóli – Minnisvarði um Jón Daníelsson og aflraunasteininn.

„Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn. Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.
Árið 1792 giftist Jón frændkonu sinni, Sigríði Magnúsdóttur, systur „Hákonar“ ríka frá Stóru-Vatnsleysu. Það sama ár fluttu þau að Stóru-Vogum og bjuggu þar allan sinn búskapartíma við hinn mesta höfðingsskap og rausn. Græddist honum mikið fé, að eftir fá ár gat hann keypt alla Stóru-Vogatorfuna, og auk þess tvö þilskip, sem hann notaði til fiskveiða og flutninga. Jón og Sigríður eignuðust 5 börn, sem öll náðu fullorðinsaldri og frá þeim eru miklar ættir komnar.
Árið 1834 kom Friðrik Danaprins í heimsókn til Íslands og fór hann suður að Stóru-Vogum til að heimækja Jón, sem var í miklum metum hjá honum, og sæmdi hann dannebrogsorðunni er hann komst til valda, en dannebrogsorðan var í þá daga talinn mesti heiður sem íslenskum bændum gat hlotnast.

Minnisvarðinn er steinn sem var tekinn úr fjörunni við Stóru-Voga en sagt er að Jón Daníelsson hafi tekið steininn í fangið og borið til vegna þess að hann var fyrir í Stóru-Vogavörinni, en steinninn vigtar 450 kg.

Stóri-Vogaskóli

Skjöldur á aflraunasteininum við Stóru-Vogaskóla.

Guðmundur Brandsson alþingismaður flutti eftirmæli yfir moldum vinar síns og samverkamanns, og þannig lýsti hann Jóni meðal annars: „Hér var Egils afl og áræði, frækileiki Gunnars, framsýni Njáls, hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar, Áskels
friðsemi og ígrundun Mána.“ – EG

Í „Þjóðsögum um Suðurnes“ í samantekt Hildar Harðardóttur er sagan „Agat„. Hún fjallar um nefndan Jón Daníelsson:

„Jón bóndi Daníelsson í Vogum var í miklu áliti bæði hjá Vogamönnum sjálfum og öðrum sem þar reru á vegum hans fyrir kunnáttu sína og þekkingu á mörgu. Leituðu þeir því tíðum ráða til hans í vandræðum sínum og eins ef þeir öfluðu illa. Lagði hann þeim oftast þau ráð sem dugðu. Oft gaf hann þeim steina og annaðþess konar, en hann bað þá geyma vandlega og segja engum frá að þeir hefðu né heldur hvaðan þeir væru og mundu þeir verða varir meðan þeir geymdu steinana vel.

Mölvík

Mölvík undir Vogastapa – loftmynd.

Einn formaður í Vogum var sá sem jafnan var óheppinn með afla. Hann leitaði einu sinni í vandræðum sínum til Jóns og bað hann kenna sér ráð við þeirri óheppni. Jón sagði honum að ekki mundi gott við því að gjöra, en ráð gæti hann þó kennt honum. Skyldi maðurinn fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa og koma með það fullt af malarsteinum og færa sér; mundi þá varla fara svo að þar væri ekki í einhver happasteinn. Síðan fór maðurinn sem honum var sagt og færði Jóni fullt austurtrogið.
VogarJón fór að leita í því og fann seint þann stein sem honum líkaði. Brá hann ýmist á þá tungunni eða þefaði af þeim og stundum hvort tveggja. Loksins fann hann einn er honum líkaði. Þann stein fékk hann manninum og sagði að hann skyldi hafa hann jafnan með sér er hann reri til fiskjar og mundi hann þá varla fara fýluferð, en muna sig um það að láta ekki á þessu bera við nokkurn mann. Eftir þetta brá svo við í hvert sinn sem maðurinn reri að hann hlóð og dró með háseta sínum stanzlausan.
Þegar þetta hafði gengið svo um stund getur formaðurinn ekki að sér gjört og segir háseta sínum frá hvað Jón hafi gefið sér og sýnir honum steininn. Þar með segir hann frá því að Jón hafi beðið sig að láta þetta ekki vitnast og biður hann fyrir alla lifandi muni að láta það ekki fara lengra, en satt hafi karlinn sagt og fleira viti hann en almenningur.
En hér eftir fékk formaðurinn aldrei bein úr sjó það sem eftir var vetíðarinnar né upp þaðan og kenndi hann það mælgi sinni sem Jón hefði varað sig við.“ – Jón Árnason I 652

Heimildir:
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1998, Þilskipaútgerð við Faxaflóa – Jón Þ. Þór, bls. 39.
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Agat.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1950, Páll Eggert Ólason eftir Jón Guðnason, bls. 8-9.
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1937, Sagnir af Jóni sterka – Ólafur Ketilsson skráði, bls. 54-55.
-Lesbók Morgunblaðsins, 8. tbl. 28.02.1937, Sagnir af Jóni sterka – Ólafur Ketilsson skráði, bls. 59 og 63.
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarssonar, Sagnaþættir, 1961, bls. 254-257.
-Morgunblaðið, 109, tbl. 15.05.1988, Minnisvarði Jóns sterka Daníelssonar afhjúpaður, bls. 28.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Kálfatjörn

Á Kálfatjörn, þar sem íbúðarhúsið stóð er tvískipt skilti. Á öðru þeirra er fjallað um túnakort og minjar og á hinu um Kálfatjörn. Á með má lesa eftirfarandi texta:

Kirkjur á Kálfatjörn

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Í máldaga (skrá um eignir kirkju) Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 er getið um kirkju á Bakka. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn þar sem til eru heimildir um kirkju frá 1450. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með tofveggjum, en timburþaki. Sú kirkja sdtóð í 20 ár. Aftur var byggð timburkirkja sem stóð önnur 20 ár. Árið 1864 var byggð kirkja sem stóð uns smíði núverandi kirkkju hófst á vormánuðum 1892. Kirkjan var vígð þann 11. júni 1893. Kálfatjörn var prestsetur allt til ásrins 1919.

Núverandi kirkja
Kálfatjarnarkirkja
Bygging núverandi kirkju gekk afar vel. Allt efni til kirkjunnar var flutt hingað á dekkskipi og skipað upp á árabátum. verkið tók um það 14 mánuði. Kirkjan er byggð úr timbri á hlöðnum grunni. Kirkjusmiður var Guðmundur Jakobsson, byggingameistari, sem nait aðstoðar Sigurjóns Jónssonar trésmiðs. Steinsmiðurinn frá Holti á Vatnsleysuströnd, Magnús Árnason, hlóð grunninn. Pílára á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. þegar allri trésmíði var lokið kom danski málarinn Nicolaj Sofus Bertelssen og málaði kirkjuna að innan og hefur því verki verið vel við haldið alla tíð. Hann málaði einni innviði Dímkirkunnar í Reykjavík.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Árið 1935 var kirkjuturninn endurbyggður vegna vatnsskemda. Nokkuð var deilt um breytinguna sem gerð var á turninum og breytti um leið öllu útliti kirkjunnar eins og sjá má á myndum. Meirihluti sóknarbarna vildi fá samskonar turn og var í upphafi, en fjármálasjónarmiðin réðu og fékk kirkjan þann turn sem hún nú ber. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hin síðari ár hefur kirkjan talsvert verið endurbætt að innan og utan. Kirkjan rúmar um 15o manns.

Kirkjugarður

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja og kirkjugarðurinn. Bakki og Litlibær fjær.

Kirkjugarðurinn er hlaðinn úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tíþætta hlutverki í gegnum tíðina að verja kirkjugarðinn ágangi búfjár, og sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurjnn er grunnur.

Kirkjumunir
Kálfatjarnarkirkja
Altaristöfluna gerði Sigurður Guðmundsson málari og er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem talinn er vera frá kaþólskri tíð. Þar hafa kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir gengu til kirkju. Pípuorgel var keypt í kirkjuna 1985. Skírnarfont, hökla, altarisklæði, sálmanúmeratöflur ásamt spjöldum, andvirði nýrra kirkjubekkja og ótal margt fleira hefur kirkjunni verið gefið í gegnum tíðina.

Prestar á Kálfatjörn
Nokkuð er vitað um þá presta sem sátu staðinn og þjóðnuðu frá 15. öld. Nafnkunnastur þeirra presta er þjónuðu á Kálfatjörn er séra Stefán Thorarnesen sálmaskáld og þýðandi. Aðrir prestar sem vitað er um eru:

Þorsteinn um 1450
Ásbjörn djákni Grímsson óvíst hvenær
Bjarni óvíst hvenær
ormur Egilsson 1580-1623
Ámundir Ormsson 1623-1670
Sigurður Eyjólfsson 1670-1689
Oddur Árnason 1689-1705
Jón Ólafsson 1705-1745
Sigurður Jónsson 1746-1786
Guðmundur Magnússon 1786-1808
Guðmudur Böðvarsson 1809-1826
Pétur Jónsson 1826-1851
Jakob Guðmundsson 1851-1857
Stefán Thorarensen 1857-1886
Árni Þorsteinsson 1886-1919
Árni Björnsson 1919-1930
Ólafur Stephensen 1931-1932
Garðar Þorsteinsson 1932-1966
Bragi Friðriksson 1966-1997
Gunnlaugur Garðarsson 1988-1991
Bjarni Þór Bjarnason 1991-1999
Hans markús Hafsteinsson 1997-2002
Friðrik J. Hjartar 1999-2002
Carlos Ari Ferrer 2002-2007
Bára Friðriksdóttir 2007-2012
Kjartan Jónsson 2012-

Mannvistarleifar
Kálfatjörn
Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum eru nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Skilningur hefur vaknað á nauðsyn þess aðs krá upplýsingar um slíkar minjar og vernda þær sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir. Túnakortin frá 1919 eftir Vigfús Guðmundsson fræðimann sýna glögglega hvernig landnýtingu var háttað. Þar má sjá þyrpingu bæjarhúsa með kálgarða (kg) í kring. Einnig má sjá skiptingu túna og fjöruparta milli bæja, gönguslóða, brunna, lendingar í fjörum og fleira.

Hlið

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrúnni.

Hlið var tómthús frá Kálfatjörn, með kálgarð og lítinn túnblett. Þar lagðist búskapur niður 1923. Við Hlið lá Kirkjugatan svokallaða sem kirkjugestir fóru um á leið til messu. Þar var grjóti hrúgað þvert yfir Goðhólarásina sem kölluð var Kirkjubrú og átti að auðvelda kirkjugestum för yfir rásina sem gat orðið hinn mesti farartálmi í leysingum á vorin.

Goðhóll

Goðhóll
Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bæjarhúsin eru greinileg og vel uppistandandi.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið. Eftir að það var aflagt árið 1919 bjuggu Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir með börn sín. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við búskapnum af forledrum sínum og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Kjálfatjarnarhúsið brann í nóvember 1998.

Skjaldbreið

Skjaldbreið við Kálfatjörn.

Skjaldbreið, hlaðan norðvestan við bæinn, mun hafa verið reist um 1850. Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst. Í vonskuveðri árið 2007 fauk þakið af henni. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Talið er að tréverkið, þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown, mannlausu skipi sem strandaði í Höfnum árið 1881, fullt af viði. Nú hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar látið gera hlöðuna upp, lík og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hátún

Kálfatjörn

Hátún.

Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni fór í eyði 1920 en föst búseta var tekin upp aftur um 1960. Í millitíðinni var þar sumarbústaður. Öll bæjarhúsin hafa verið jöfnuð við jörðu fyrir utan hleðslur kálgarða sem sjást enn. Um tíma bjuggu ungverskir flóttamenn í Hátúni.

Fjósakot

Fjósakot
Fjósakot var grasbýli frá Kálfatjörn og fór í eyði 1920. Bærinn stóð á stórum hóli í miðju túni og var talinn með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysustrandarhreppi. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í kirkjugarðinn á Kálfatjörn.

Móakot
Móakot
Móakot var grasbýli frá Kálfatjörn sem fór í eyði um 1940. Árið 1920 voru husakynnin í Móakoti orðin léleg. Þegar séra Árni Þorsteinsson andaðist árið 1919 var hús það er hann bjó í á Kálfatjörn rifið og Móakot byggt upp úr því efni. Sunnan við bæjartóftirnar er langur hár hóll, er nefnist Klapparhóll, oft kallaður Álfhóll því trúa lá á að þar byggi huldufólk.

Bjarg

Bjarg

Bjarg.

Bjarg var tómtús frá kálfatjörm með kálgarð og dálítinn túnblett. Bærinn fór í eyði árið 1934. Árið 1910 fluttu að Bjargi ung hjón, Ingimundur Guðmundsson, frá næsta bæ, bakka og Abigael Halldórsdóttir frá Hóli við Öndunarfjörð. Ingimundur var mikill hagleiksmaður sem lýst er í ljóðlínum Jóns Helgasonar frá Litlabæ:

Ef ár þurfti’ að smíða’ eða oka í hrip,
upp-hressa bæ eða gera við skip
– þó væru’ei laun nema’ þakka —
járnklæða þak eða járnskóa hest,
þá jafnan var viðkvæðið: „Það er vist best
að biðja hann Munda á Bakka“.

Bakki
Bakki
Aldamótin 1990 var Bakki sagður tómthús frá kirkjujörðinni. Ekki leið þó á löngu þar til ábúandinn, Bjargmundur Guðmundsson, bróðir Ingimundar, var búinn að rækta svo umhverfis Bakka að úr varð góð grasjörð. Eftir það var Bakki skráður grasbýli. Þeir bræður á Bakka og Bjargi voru samhentir og gerðu vel að jörðum sínum, þó kirkjujarðir væru. Þrívegis svo vitað sé hefur Bakki verið fluttur vegna ágangs sjávar. Fysri Bakki er kominn útí sjó, annar Bakki er í dag rústir á sjávarkambinum og núverandi Bakki sem fluttur var árið 1904 stendur vel uppí túni.

Litlibær

Kálfatjörn

Vanræktur hestasteinn við Kálfatjörn.

Litlibær var tómthús í upphafi en síðar grasbýli frá Kálfatjörn þegar leyfi fékkst frá prestinum á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum. Litlibær var byggður úr tofbæ í timburhús árið 1906. Það timburhús var flutt og endurbyggt við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Grunnur Litlabæjarhússins stóð í 13 ár eða þar til Ingimundur á Bjargi byggði þar nýtt íbúðarhús 1934 og fluttist þangað frá Bjargi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skilti.

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um „Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

„Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

Brunnastaðasel
Á Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.“

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um „Reykjanes“; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á „Reykjanesskaganum“.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki „um 250“ talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel „Vestan Esju“ þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.