Hvassahraun lætur ekki mikið yfir sér þrátt fyrir að bæjarstæðið hafi lengi verið í þjóðleið. Framhjá því hafa farið milljónir ferðamanna, auk Íslendinga, sem átt hafa leið um Reykjanesbrautina millum Kapelluhrauns og Kúagerðis.
Það, sem einkum hefur náð athygli augans á þessari leið, er brúnleitt mannlaust hús, braggi í sama lit og nokkrir kofar á stangli í hrauninu. Brúnleita yfirgefna húsið og bragginn eiga sér sögu, líkt og önnur hús. Rætt var m.a. við Pétur Kornelíusson, einn eigenda Hvassahraus, bæði um húsið og örnefnin.
Hvassahraun virðist ekki hafa tilheyrt Hraunabæjunum s.s. Straumi, Óttarsstöðum, Eyðikoti, Lambhaga, Þorbjarnarstöðum og Lónakoti. Ástæða mun að öllum líkindum fyrst og fremst hafa verið hreppamarkalegs eðlis því Hvassahraun var og er í Vatnsleysustrandarhreppi, en hinir voru í Garðahreppi (nú Hafnarfirði).
Tengslin við Hraunabæina hefur áreiðanlega verið meiri en af er látið. Óvenjulítið hefur verið skrifað um Hvassahraun sem bæjarkjarna, þrátt fyrir að hann hafi verið í fjölfarinni þjóðleið millum Innnesja og Útsnesja á Reykjanes-skaganum. Hér er að mörgu leyti um áhugaverða fyrrum „sveit“ að ræða þótt ekki væri lengur fyrir annað en minjarnar, sem þar eru; áþreifanlegur vitnisburður um gengnar kynslóðir.
Annað sérstaklega áhugavert við Hvassahraunssvæðið er fyrsta viðmót þeirra, sem þar búa, gagnvart ókunnugum. Ólíklegt er að það séu leifar frá löngu liðinni tíð, en einhverri þó. Þegar FERLIR skoðaði svæðið fyrsta sinni með örnefnalýsingar að vopni virtist við fyrstu sín af nógu að taka, enda tóftir, garðar, götur, lægðir og hólar hvert sem litið var, en þegar að íbúunum eða umráðamönnum kom mætti þátttakendum hvarvetna tortryggni og andúð – í fyrstu a.m.k.
Einn öskraði á þátttakendur og bað þá um að hypja sig af landinu (jafnvel þótt hann hefði ekkert með það að gera) og annar kom síðar út og heimtaði skýringar á veru þeirra á svæðinu. Í ljós kom, eftir stuttar viðræður við viðkomandi, að hinn fyrrnefndi var bara eins og hann er, og hinn síðarnefndi hafði ástæðu til að tortryggja fólk, sem gekk um svæðið. Öðrum hafði verið bolað frá með fé sitt og hinn hafði þurft að berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni á svæðinu.
Hvassahraun.
Allir er ágætir inn við beinið. Samskiptin, þrátt fyrir tortryggni í upphafi, áttu eftir að breytast til hins betra við nánara samtal. Hafa ber í huga að FERLIR hefur haft þann hátt að kynna viðkomandi ekki strax tilefni ferðar á vettvang, heldur reynt að fá fram viðbrögð hjá viðkomandi er gætu gefið til kynna tilbrigði tilfinninga og ástæðna þeirra er undir liggja hverju sinni. Eftir að upphaflega viðmótinu sleppir og að útskýringum fengnum hefur FERLIR aftur á móti hvarvetna verið vel tekið – með tilheyrandi fróðleik og ávísun á nálægar minjar. Þessi ferð varð engin undantekning í þeim efnum.
Hvassahraun – Herforingjaráðskort 1903.
Áður en lagt var af stað voru vopn sótt til Örnefnastofnunar, á loftmyndavefinn og til Fornleifastofnunar Íslands. Fornleifakönnun var gerð um Hvassahraunsland árið 2002 að beiðni Styrktarfélags vangefinna, sem er eigandi Hvassahraunslands vestan og norðan túngarðs, í tilefni af skipulagningu sumarbústaða-byggðar á svæðinu.
Í skýrslunni er m.a. bæjarstæði Hvassahrauns-bæjanna (I og II – Vesturbæjar og Austur-bæjar) staðsett, auk kotanna; Suðurkots, Norðurkots, Þorvaldskots og Niðurkots.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvassahraun er m.a. fjallað um svæðið næst bæjarstæðinu. Þar segir m.a. að Hvassahraun sé jörð í Vatnsleysus-trandarhreppi næst austan við Vatnsleysur og um leið austasta jörð hreppsins á þá vegu. Í lýsingunni segir að upplýsingar hafi Sigurður Sæmundsson frá Hvassahrauni gefið og aðallega kona hans. Hér er sennilega átt við Sæmund Sigurðsson.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar.
Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði.“ Skyggnir er áberandi hóll norðan við gamla Keflavíkurveginn. Á honum eru hlaðnar a.m.k. tvær vörður og þarf önnur af nútímafólki, sem hefur haft gaman að því að skilja eftir sig verksummerki. Hin varðan er gróin og gæti hafa verið eyktarmark frá Hvassahrauni.
Þegar farið er beint niður að sjó neðan við Hvassahraun má líta yfir svæðið með hliðsjón af eftirfarandi í örnefnalýsinunni: „Svo er þar næst vík sem heitir Heimavík og inn úr henni Hvassahraunsvör. Þar fram af tanganum vestan vararinnar er sker sem heitir Snoppungur og þar uppaf er Litliklofi. Þessir Klofar stóðu hver á móti öðrum upp úr sjó þegar allt annað var farið í kaf um stórstraumsflóð [Þeir sjást mjög vel frá Austurbæjarstæðinu]. Þar er svo Sjávarbrunnur, þar er lón og þar er graslendi, Þaravíkur. Þar upp af er svonefnt Vesturhraun, nær upp að vegi. Fúla er vík sunnan við lendingarvík niður í fjöru, þar safnast saman þari og ýlda, þar voru grasflatir.
Svo eru þar utar þrír hólar, Láturhólar, þar hjá eru Láturtjarnir og út af þeim eru tangar sem heita Láturtangar, þeir ná langt út um fjöru, á þeim er mikill þari. Svo er þar næst vestur dalur sem heitir Siggudalur þar sem vegurinn liggur næst sjó, er við veginn upp af Látrahólum. Þá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.“ Að sögn Péturs fór Siggudals-Bakkatjörn undir Reykjanesbrautina þegar hún var lögð.
Í örnefnalýsingu kemur fram að við Heimavík er Hvassahraunsvör. Við hana eru Lendingavör á Lendingum. Stutt er þarna á millum. Ofan við eru leifar af hlöðnu húsi og gamalt gerði. Búið er að byggja huggulegt hús ofan við gerðið, sem gæti vel hafa verið rétt um tíma, en segja má eigendunum til hróss að þeir hafa látið garðana halda sér ósnerta.
„Nú færum við okkur heim í tún. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn.
Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni. Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella [sést mjög vel frá Vesturbænum]. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún.
Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Þar niður af er svæði sem heitir Fjósatunga, svo er þar niður af býli nefnt Niðurkot og Sölvhóll er þar. Uppaf í túni er svo Fimmálnaflöt, er þar vestur af þar sem nú er sumarbústaður. Sú flöt var vanalega slegin þegar lítið var um þurrka. Þá brá vanalega til þerris. Vestur undan húsinu er dalur sem heitir Stekkjardalur, þar sunnar er svo flöt í túni sem heitir Kvíavöllur. Brunnur er suður af bæ. Gíslalaut er suður í túni og þar bak við hólana er Undirlendi sem er milli hólanna og túngarðsins. Þessir hólar voru svo nefndir Suðurhólar.“
Hér að framan er getið um Sönghól. Í skýrslu um ábúendur í Kálfatjarnarsókn um 1840 nefndir prestur býlið Saunghól sem hjáleigu frá Hvassahrauni. Þar hafi verið byggð 1803 og virðist búskapur þar hafa verið skammvinnur, ef til vill nokkur ár um 1830.
Í örnefnalýsingu segir og að í Sönghól hafi verið álitin huldufólksbyggð. „Sönghóll hafi einnig verið nefndur Einbúi“. Hér hefur skrásetjari farið villur vegar um allnokkra metra þar sem hann hefur ruglað saman Sönghól og Einbúa, sem er sitthvor staðurinn, eins og annars staðar er lýst. Þegar Einbúi var skoðaður og leitað var skráningarskjóls undir honum mátti sjá þar vængbrotinn þúfutittling kúra undir honum í skjóli fyrir rammri austanáttinni, sem verið hafði undanfarna daga. Litli smáfuglinn virtist rólegur þar sem hann beið ásjár huldufólksins í hólnum – eða varanlegra örlaga sinna. Norðvestur undir hólnum mótar fyrir tóft.
„Nú flytjum við okkur vestur fyrir, þar upp á flatneskjuna og tókum þaðan svæðið þar vestar og ofar vegar. Utan við túnið er flatlendi, hraun með lausagrjóti, nefnt Melurinn, þetta er flatneskja. Vestan hans eru svo Vatnsgjár.
Ofan við núverandi veg vestur af Melnum, neðan við veg á melnum er nafnlaust þúfubrot. Vatnsgjárnar eru svo þrjár og er það Helguhola næst vegi, svo er þar Þvottagjá. Þar austar og ofar er svo smáhóll á milli, þá er Ullargjá, er svo syðst og þar fram af er svo Strokksmelur, þar eru gamlir gígir og smá gömul eldvörp.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson [f: 1919] gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, segir auk þessa um sama svæðið (sumt er endurtekið og annað hefur ekki verið skráð áður): „Hvassahraun er austust jarða Vatnsleysu-strandarhrepps. Hún er mikil að flatarmáli, en eldri og yngri hraunbreiður þekja hana alla. Um jörðina hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin.
Hvassahraun var aðallega fjárjörð, því að erfitt var til slægna. Líka var stundaður sjór, og þurfti ekki langt að fara til fanga. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana.“ Í fornleifakönnuninni segir að bæjarstæðið hfi veri þar sem íbúðarhúsið með steyptum kjallara stendur nú. „Það sem er hæð virðist að mestu náttúrlegt enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn, Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið“. Aðalheimildarmaður fornleifa-könnunarinnar er sagður Guðmundur Stefánsson, en á að öllum líkindum að vera fyrrnefndur Guðmundur Sigurðsson.
Þá segir í örnefnalýsingunni: „Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær (001).“ Í fornleifakönnunni segir um Austurbæinn: „Um 30 m suðaustan við [Vesturbæinn] 001 er merkt hús inn á túnakort. Guðmundur Sigurðsson telur þetta vera það hús sem kallað var Austurbær eða Hvassahraun 2. Þar er nú hlað“. Ef vel er að gáð má sjó ummerki eftir Austurbæinn á hlaðinu framan við fjárhúsbraggann. Þar mótar fyrir vegghleðslum. Ofar, vestan við braggann, eru leifar af húsi og vestan við þær eru bæjarhólshleðslur. Undir þeim er ferhyrndur torfgarður, augljóslega matjurtargarður.
Í örnefnalýsingunni segir síðan: „Hvassahraunstún var allmikið um sig og lá á hraunklöppum og í lægðum milli þeirra. Túnið var girt túngarði, aðallega austan og sunnan. Hvassahraunstraðir lágu í suðaustur frá bænum. Á túngarðinum var Traðarhlíð. Suðurtún lá sunnan bæjar og traðanna. Undirlendi var lægð suðaustan við bæinn og lá út að túngarðinum við þjóðveginn. Fjósatunga var hluti túnsins, suður frá bænum. Þar rétt hjá var Fjóshóll og annar hóll, Einbúi. Þar átti að vera huldufólksbyggð. Kvíadalur er einnig í Suðurtúni og Hjallhólar. Í Kvíadal voru ærnar mjólkaðar, en það var löngu fyrir minni Guðmundar. Vestan til í Suðurtúni var Gíslalaut. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Austurtún lá austan og ofan bæjar og norðan við traðirnar.
Rófa var slakki nefndur meðfram traðarveggnum nyrðri. Beinateigur var í túninu norðan Austurbæjar. Sönghóll var í Austurtúni. Hann var álitinn huldufólksbústaður. Þarna var Sönghólsbær, stundum tvíbýli, og man Guðmundur eftir görðum þar. Langhóll var norðan við Beinateig. Norðan við Langhól voru Leynir og Þjófagerði, kriki á milli hóla. Þegar verið var að verja túnið, gátu kindur oft laumazt þangað án þess að nokkur sæi. Í Þjófagerði er tóft af hrútakofa. Norðurvöllur var einn partur túnsins, norðan Langhóls. Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Sölvhóll var niður með götunni. Þar voru sölin þurrkuð. Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði, Norðurkot með Norðurkotstúni, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir. Gerði eða Sjávargerði voru túnin og gerðin kringum kotin kölluð einu nafni, og einnig Kotabalar og Kotagerðin og Kotatún.“
Sjávargatan er augljós niður frá Hvassahraunsbæjunum áleiðis niður að Hvassahraunsvör. Hún hefur verið gerð bílfær undir það síðasta þótt gróið sé yfir hana nú. Þá mótar fyrir Vatnsgötunni, en líklegt má telja að hún hafi öðru fremur legið að brunni í Suðurtúni. Þar mótar enn fyrir stórum brunni, sem gróið er yfir. Hvasshraunstraðirnar lágu hins vegar til suðausturs vestan við Sönghól og sést enn hvar þær lágu í gegnum Austurgarðinn skammt vestan við Braggann sem þar er. Þær hafa legið inn á Alfaraleiðina, sem þarna liðast á milli Nesjanna.
Í fornleifakönnunni eru kotin staðsett. Um Suðurkot segir: „Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn (001) voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Samkvæmt örnefnalýsingu átti Suðurkot hins vegar að vera austan Sjávargötunnar, þ.e. norðan bæjarins. Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu“. Ályktun skrásetjara um að Suðurkot hafi verið við Suðurtún er að öllum líkindum rétt. Þar er tóft á grónum klapparrana, Suðurhólum, sunnan við túnið, er tóft með op mót suðvestri, svipuð að stærð og Niðurkotið. Þarna gæti vel hafa verið nefnt Suðurkot og hefur það þá verið við Vatnsgötuna en ekki Sjávargötuna. Reyndar eru hin kotin ekki við Sjávargötuna heldur nokkuð austan hennar.
Um Norðurkot segir: „Sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dælum“. Norðurkotið hefur verið stærst kotanna; þrjú rými og stórt útihús. Af ummerkjum að dæma virðast bæði Niðurkot og Suðurkot hafa verið tómthús eða þurrabúðir, en Norðurkot og Þorvaldskot kotbýli eða grasbýli.
Um Niðurkot segir: „Enn sjást leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir“.
Um Þorvaldskot segir: „Þorvaldskot virðist hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni“.
Í lýsingum er einnig getið um Þóroddskot. Ekki er vitað hvar það var, en möguleiki er á að það sé annað hvort annað nafn á Þorvaldskoti eða að eitthvert hinna kotanna hafi tímabundið verið nefnt því nafni.
Auk þessa segir um Kirkjuhól: „Skáhallt suðaustru af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norð-vestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Gróinn aflangur hóll í túni. Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.“ Fjárréttin er svo byggð utan í klapparhól. „Vesturvegginn myndar klöppin og suðurvegginn myndar túngarðurinn. Allir veggir eru sérstaklega hlaðnir. Réttin er alveg grjóthlaðin“.
Hvassahraun – túnakort 1919.
Í örnefnalýsingunni segir svo: „Bak við Gerðin er hóll, nefndur Miðmorgunshella, eyktamark frá Hvassahrauni.“ Hella þessi ber við Hjallhól. „Uppi í Norðurkotstúni er flöt, nefnd Fimmálnaflöt. Þar hraktist aldrei taða. Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfhóll, því að þar messaði huldufólkið. Þangað mátti einnig sjá jarðarfarir huldufólks frá Miðmorgunshellu. Gísli Sigurðsson segir, að í túninu nyrzt sé Stekkur og Stekkjardalur, en Guðmundur kannast ekki við, að þar séu nein stekkjarbrot.
Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Þar rétt hjá voru Suðurhólar, klappir. Stóri-Klofi er klettur vestan við Stekkjarnes. Frá honum og vestur að Litla-Klofa er Víkin eða Heimavík. Stóri- og Litli-Klofi eru klofnir klettar í fjörunni.
Austast í Víkinni er Svartiklettur. Ofan sjávarkampsins er fjárréttin gamla. Þar litlu vestar eru Sjávarbrunar. Fellur saltvatn inn í þá í stórstraumi, og er þar hálfgerð fúlutjörn. Næst er svo Hvassahraunsvör eða Vörin. Hún var einnig nefnd Lendingin og Víkin stundum kölluð Lendingarvík. Upp af Vörinni var Naustið. Víkurtangar heita vestan Víkurinnar og þar fram er sker, sem heitir Snoppungur. Sunnan við Lendingarvík er önnur vík, sem kallast Fúla. Þar safnast þari, sem fellur inn í stórstraumi og fúlnar í smástraumi. Þarna er einnig Fúlaklöpp og Fúlubakkar. Þá er komið að Látrum, klöppum vestan við Fúluvík. Ekki er vitað, hvort þar hefur verið selalátur áður fyrr. Þarna eru grasi grónir hólar, sem nefnast Láturhólar. Þeir eru þrír, aðgreindir sem Láturhóllinn yzti, Mið-Láturhóll og Láturhóllinn syðsti. Vestan þeirra er Látrasund. Í Látrunum er einnig Láturtjörn eða Láturtjarnir. Þangað slæddist fiskur, koli og ufsi og þyrsklingur smár. Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti.
Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur. Austast og næst vegi er Siggudalur og Siggudalstjörn, ein fúlutjörnin ennþá. Hún er alveg við veginn. Ekkert er vitað um Siggu þá, sem þessi örnefni eru dregin af. Þá voru þarna Syðri-Bakkar og Innri-Bakkar og lágu umhverfis Siggudal, einnig nefndir aðeins Bakkar eða Hvassahraunsbakkar.
Utar voru svo Ytri-Bakkar eða Lónabakkar. Svæðið þarna var líka kallað Vestur-Látrar og tjarnir utan Siggudals Bakkatjarnir.“
Að þessu sinni var athyglinni, sem fyrr sagði, beint að heimatúninu og næsta nágrenni þess að vestanverðu. Utan heimatúnsins eru fjölmargar minjar, s.s. fjárskjól, gerði, réttir, hústóftir, götur o.fl.
Að sögn Péturs Kornilíussonar, eiganda Hvassahrauns, væri þekking hans á örnefnum á jörðinni takmarkaður. Eftir viðræður við hann kom þó hið gagnstæða í ljós.
Pétur sagðist hafa keypt hluta af jörðinni með fermingarpeningum sínum. Hann myndi eftir því að núverandi íbúðarhús, brúnmálað þrílyft, var flutt frá Bergstaðastræti 7 að Hvassahrauni annað hvort árið 1966 eða ’67. Kirkjuhóll (Álfhóll) væri rétt austan við íbúðarhúsið. Norðan hans væri stakur hóll eða klettur; Einbúi. Hann væri álfakirkja. Langaflöt væri svo sunnan við húsið, en þar á millum væri Brunnurinn. Hann væri hlaðinn hringlega, ferlega djúpur. Sönghóll væri austan við fjárhúsið og Langhóls norðan hans. Austan þess væri Leynir því það svæði sæist ekki frá bænum. Þjófagerði væri litlu innar þar sem sauðhústóftin væri. Uppi á holti norðan við Þjófagerði væru útihúsatóftir, líklega frá þeim tíma er síðast var búið torfbæjarbúskap að Hvassahrauni.
Pétur staðsetti Bakka, Bakkatjarnir og Sigguvík neðan við Siggudals. Bakkatjarnir þar ofan við hefðu farið undir Reykjanesbrautina líkt og brugghola Hvassahraunsbónda, sem þar var skammt vestar.
Á bökkum sagði hann hafa verið fjárhús er sjá mætti leifar af. Túnið hefði fyrrum verið grónir blettir í hrauninu, en væri nú orðið samfelldara og hefði verið stækkað mikið.
Hvassahraun er í dag vel í sveit sett milli byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Suðurensjum hins vegar. Svæðið gefur góða mynd af heilstæðu bússetulandslagi sem telja verður dæmigert fyrir útvegsbændasamfélag fyrri tíma. Með skipulegum göngustígum og góðum merkingum á heimajörðinni og næsta nágrenni hennar mæti gera þarna eftirsóknarverðan áfangastað ferðamanna, en um 90% þeirra fara um Reykjanesbrautina, örskammt frá, á leið sinni til og áleiðis frá landinu hverju sinni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.
-Fornleifakönnun fyrir Hvassahraun, Elín ÓSk Hreiðarsdóttir fryir Fornleifastofnun Íslands, 2002.
-Pétur Kornelíusson, eigandi Hvassahrauns, f: 29.03.1953.
-Róbert Kristjánsson, Hvasssahrauni.
-Arndís Einarsdóttir, Hvassahrauni.
-Túnakort af Hvassahrauni frá 1919.
-Jarðatal Johnsen 1847.
-Jarðabók JÁM 1703 (Kaupm.höfn 1943).
Hvassahraun – gerði.