Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Eldborgargreni

Hér á eftir verður fjallað um „Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: „Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum“.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
„Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.

Selsvellir

Selsvellir.

Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. …

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.

Hraunssel

Hraunssel.

Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla“ …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.

Knarrranessel

Knarrarnessel.

Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: „Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima“.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: „Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt“.

Selsvellir

Selsvellir.

Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: „Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi“.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: „Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar“. …

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:

Kringlumýri

Kringlumýri undir Sveifluhálsi.

1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.

Klofningar

Í Klofningum.

Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.

Vigdísarvallarétt

Vigdisarvallarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): „Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.

Markhella

Markhelluhóll.

Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
Kálfatjörn
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – grenið.

Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): „Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum“.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.

Klofningar

Klofningar – greni.

Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki.

Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan „Suðurnesjaalmenning„. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: „Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: „Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,““ … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.“ … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: „Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: „Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum“.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: „Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd“.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Síðar segir Geir: „Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]“. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: „ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum.

Brunnhóll

Brunnhóll.

Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]“ … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: „þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó“. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: „Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo“.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: „að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum“.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: „Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús“. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: „bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða“. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um „Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.

Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.

Rauðhólssel

Gengið var frá Höskuldarvallavegi, til suðurs með gígum og yfir að Rauðhól, að Rauðhólsseli. Að því búnu var gengið um norðanverðan Þráinsskjöld að Þórustaðastíg og skoðuð ummerki í heiðinni norðan Keilis.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur.

Eins og svo víða á Reykjanesskaganum hafa sammsýnir menn dundað við að krafla utan af fallegum hraungígum og eldvörpum. Þannig hefur smám saman verið grafið utan af fallegum mosavöxnum hraunhól stutt sunnan við veginn upp að Höskuldarvöllum. Stígur liggur með austanverðum hólnum, áleiðis yfir að Rauðhól. Norðvestan við hólinn, undir hraunbakka Þráinsskjaldarhrauns, eru tóftir Rauðhólssels. Minni-Vatnsleysa hafði selstöðu undir Oddafelli, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Stóra-Vatnsleysa hafði hins vegar í seli undir Rauðhól þar sem heitir Rauðhólssel. Þar voru hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp með Rauðhól, ofan hraunskila, en nýrra hraun hefur runnið að því eldra að austanverðu. Stíg var fylgt áleiðis að Keili, en þegar komið var á Þórustaðastíg var honum fylgt áleiðis niður heiðina.
Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keili og Keilisbörn og færði Litla Keili næstum í kaf. Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.

Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Gengið var vestur fyrir Keili og skoðuð gömul gata, sem þar liggur á ská upp heiðina. Gatan liggur austur með sunnanverðu fjallinu, en þegar komið er vestar niður í heiðina virðist gatan hverfa í gróðureyðinguna.
Skammt norðar var Kolhóll sem og Stóri-Kolhóll. Gengið var að honum og síðan beygt var frá honum til norðurs og gengið yfir hraunið að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Landakot

Jörðin Landakot lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er um Vatnsleysstrandarveg. Jörðin er á milli Þórustaða og Auðna (Höfða) og skartar m.a. fallega hvítri skeljasandsströnd. Tóftir er þar víða að finna. Fróðlegt er því að skoða örnefnalýsingar um jörðina, annars vegar skráða af Ara Gíslasyni og hins vegar Margréti Guðnadóttur og bróður hennar Eyjólfi.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Ari Gíslason skráði m.a. eftirfarandi (lýsingar á upplandinu er sleppt): „Jörð á Vatnsleysuströnd næst við Auðna. Upplýsingar um örnefni gaf Guðni Einarsson bóndi þar.
Merki móti Auðnum. Fyrir neðan flæðarmál er ós sá, sem heitir Markaós sem er austasti ósinn er skerst inn úr aðalós þeim er gengur inn milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál við suðurenda stakkstæðis, sem tilheyrir Landakoti, um Krók þann er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda svo um Brunnhóla sunnanverða eftir gömlu torfgarðlagi um sunnanverðan Landakotshól.
Við merkin móti Auðnum er sker sem heitir Skurðsker og aðeins innar er annað sem heitir Sundsker. Milli þeirra er leiðin inn að vörinni og þar innar eru svo Markaflúðir í fjörunni.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Markaflúð á landi er Djúpagróf, gamalt vatnsból, unnið af mannahöndum, allmikið og merkilegt mannvirki, er á merkjum móti Þórustöðum. Þangað var vatn sótt áður fyr. Þetta er borað með handafli, hlaðið innan og tröppur niður í.
Í túninu er aðeins Landakotshóll, stór hóll upp af bæ og á merkjum móti Höfða, í sambandi við hann og slátt þar er sagt að fólk hafi dáið hér úr óþekktri veiki. Gamlar tættur eru inni í miðju túni neðan við bæ og heitir það Gata. Þar var alinn upp skipstjórinn á glæsilegasta skip Íslands. Þar standa hlóðir eins og áður fyr Tröppurnar í Djúpugróf er Landakotsmegin en
líklega hefur hann verið gerður í félagi. Vestast á túni lenti hér eitt sinn flugvél, hún brotnaði en maðurinn slapp, síðan var þetta stykki nefnt Holland.“

Margrét Guðnadóttir

Margrét Guðnadóttir.

Margrét Guðnadóttir og Eyjólfur Guðnason rituðu eftirfarandi örnefnalýsingu fyrir Landakot byggða á landamerkjalýsingu jarðarinnar frá 1886:
„Um landamerki jarðarinnar Landakots í Vatnsleysustrandarhreppi gagnvart jörðunum Þórustöðum að norðan og austan og Auðna og Bergskots að sunnan og vestan vísast til landamerkjalýsingar gerðrar 12. júní 1886 að Brunnastöðum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Undirrituð kannast við flest kennileiti í þeirri lýsingu, en ekki þó öll.

Landakot

Landakot – Gata.

Um fjölda býla í Landakoti fyrrum vitum við ekki, en höfum ekki heyrt talað þar um tvíbýli. Í 7. línu, bls. 2, er talað um býlið Götu. Gata á að hafa verið neðan við Landakotsbæinn, en er norðan við hann, miðja vegu milli íbúðarhússins í Landakoti og girðingarinnar, sem skilur Landakot frá Þórustöðum.
Tættur Götu standa enn, og þar er hlaðinn grjótgarður um kálgarð, sem alltaf var kallaður Götugarður og sáð í hann fram á síðustu ár.

Landakot

Landakot 1921.

Býlið Lönd vitum við ekki hvar var og getum ekki staðfest, að það hafi verið niður við sjó, en þar eru tóftarbrot á tveimur stöðum og gamalt kálgarðsstæði hjá öðrum, sennilega er það sá kálgarður, sem talað er um í landamerkjalýsingunni frá 1886 og nefndur sjávarkálgarður Landakots. Hann var aflagður fyrir okkar minni. Ofan til í Landakotstúninu, miðja vegu milli Þórustaða og Bergskots, eru enn eldri hleðslur, og var faðir okkar stundum að gizka á, að þar hefðu Lönd verið. Þetta var þó ágizkun ein.

Landakot

Landakot – sjóhús.

Á bls. 2 er talað um kennileiti í Landakotsfjöru. Skerið, sem þar er kallað Sílalónssker, var alltaf kallað Síllónssker í okkar bernsku (kannski Sílónssker, því lón er fyrir innan skerið, og fellur aldrei vatn úr því um fjöru) og kampurinn kambur. Landasker og Skorusker þekkjum við ekki. Talað var um tvö Sundsker, dýpra og grynnra. Það Sundsker, sem er á mörkum Landakots og Þórustaða, er dýpra skerið, en í grynnra skerinu er djúp skora, og gæti rétta heitið á því verið Skorusker eða Skurðsker.

Landakot

Landakotsskiparétt.

Neðst á bls. 2. er talað um brunninn Djúpugröf. Sá brunnur var aldrei kallaður annað í okkar tíð, og var ausið úr honum vatni á þvott. Vatnsbólið var annar brunnur miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað er Brunnurinn. Fjöruvötn eru í Landakotsfjöru, ósalt vatn, sem áður fyrr var notað á þvott og ull. Þau koma upp úr um fjöru, en fara í kaf á flóði, og eru líklegast á suðurmörkum fjörunnar, upp undan Síllónsskeri. Meðan þang var skorið um allar fjörur, var auðvelt að finna vötnin, en nú
eru þau kannski horfin í þangið fyrir löngu.

Landakot

Landakotsgarður.

Á bls. 2 er getið álaga á Landakotshól, sem er að mestu í Landakotstúni, en að hluta í landi Bergskots. Hólinn mátti ekki slá Landakotsmegin nema neðst, en við kunnum engar sögur um afleiðingarnar eða sjálf álögin. Það þótti sjálfsagt að slá aldrei hólinn; kýrnar myndu ekki heppnast, ef hóllinn væri sleginn.
Á bls. 3 í lýsingu Örnefnastofnunar er getið þekktra hóla og kennileita úr Strandarheiði, en erfitt er að staðsetja þá í landi hverrar einstakrar jarðar á svo þéttbýlu svæði, nema þá, sem næstir eru bæjum, eins og Skálholt og Vatnshóla, sem báðir virðast vera í landi Landakots. Ekki vitum við, hvar Auðna-Klofningar, Stórhæð eða Klofi eru, en þeirra er getið í landamerkjalýsingu. Önnur kennileiti á bls. 3 þekkjum við.
Sú lýsing á jörðinni Landakoti, sem við fengum í hendur frá Örnefnastofnun, gæti verið ítarlegri, og skulum við tína til hér á eftir fáeina bletti, sem hétu nöfnum í okkar bernsku, og reyna að lýsa staðháttum.

Landakot

Landakot 1950.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson, faðir heimildarmanna. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot – bæjarstæðið.

Áföst íbúðarhúsinu sjávarmegin eru hlaða og fjós, er mynda skúrlaga ranghala, sem gerir húsið sérkennilegt að ytra útliti. Safnþró er neðan við grunn gamla hússins, vestan og neðan við fjósið. Alveg við austurhorn íbúðarhússins byrja gamlir grjótgarðar, sem skýldu kálgörðum heima við bæinn. Austast í þessum hleðslum er talin hafa verið smiðja. Undir
suðurhlið hússins var í okkar bernsku gerður blómgarður, girtur með trégrindverki og hlaðin sæti í horn grindverksins næst húsinu.
Niður túnið, frá húsinu, liggur sjávargata að uppsátrinu. Þetta var troðningur, en túnið hart og hægt að fara sjávargötuna með hest og vagn, ef með þurfti. Sunnan við sjávargötuna, suður að mörkum Auðna, er slétt flöt, harðbali, sem kallaður var Seiglöpp. Heyið á Seiglöpp þótti þorna seint. Vestast á Seiglöpp, næst mörkum Auðna, var gerður kálgarður um 1940. Er hann notaður enn. Sjávarmegin við þennan kálgarð eru hólar og klappir. Þar eru líklega þeir Brunnhólar, sem nefndir eru í landamerkjalýsingunni, þótt enginn sé þar brunnurinn. Við höfum ekki áður heyrt þetta nafn. Flötinni Seiglöpp hallar í átt til sjávar, og endar hún í þýfðri laut milli Brunnhóla og sjávargötunnar. Í lautinni er oftast tjörn, misstór eftir úrkomumagni og árstíðum, en brunn vitum við ekki um á þessum slóðum.
LandakotBrunnurinn, sem notaður var í okkar bernsku, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Neðan við tjörnina er gamalt, gróið kálgarðsstæði, aflagt fyrir okkar tíð. Það hlýtur að vera sá sjávarkálgarður, sem til er vitnað í landamerkjalýsingunni gagnvart Auðnum, enda liggur girðingin milli bæjanna úr suðurhorni hans í krók, sem myndast á mörkum sjávargarða beggja býlanna. Hjá kálgarðinum eru tóftarbrot, en ekki vitum við, hvort þar stóð bærinn

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Lönd, eins og látið er að liggja í heimildum, sem við fengum í ljósriti frá Örnefnastofnun. Í okkar bernsku gekk fjárhús með hlöðnum veggjum vestast út úr kálgarðsveggnum og sneri dyrum til sjávar. Það var kallað Efrikofi til aðgreiningar frá öðru fjárhúsi, Neðrikofa, sem stóð alveg niðri á sjávarkambinum. Út úr suðurvegg kálgarðsstæðisins gekk
hesthús með hlöðnum veggjum og sneri dyrum að Auðnum. Frá syðra vegg Efrikofa gekk gamalt garðbrot alveg niður á sjávarkamb. Gæti það hafa verið á mörkum jarðanna Landakots og Auðna, en girðingin, sem nú skilur jarðirnar, liggur nú skáhallt nokkru sunnar, eins og sneitt hafi verið af Auðnatúninu.

Landakot

Landakot – uppdráttur af Landakotsskiparétt.

Norðan sjávargötunnar, eiginlega í beinu framhaldi af neðra vegg gamla kálgarðsstæðisins, sem áður getur, neðan við þann brunn, sem vatn var leitt úr í bæinn, og skáhallt norður og niður til sjávar, var grjótgarður. Svæðið, sem afmarkaðist af honum og gamla kálgarðsstæðin annars vegar og sjávargarðinum hins vegar og girðingunni milli Landakots og Auðna að sunnan, var alltaf kallað Gerðið. Gerðið var athafnasvæði þeirra, sem sjóinn sóttu frá Landakoti. Þar var gert að veiðarfærum, og líklega hafa verið þar fiskreitir áður fyrr. Gerðið var slegið í okkar bernsku, en fiskur þurrkaður á reit, sem gerður var ofan túns eftir 1930. Grásleppa var þurrkuð við sjóinn og sundmagi breiddur á sjávargarðana, meðan hann var hirtur. Hleðslurnar kringum Gerðið hafa líklega átt að verja athafnasvæði útgerðarinnar fyrir ágangi búfjár.

Landakot

Landakotsfjara millum Þórustaða.

Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru.
Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – tóftir.

Um skerin í Landakotstanga má bæta því við það, sem segir hér á fremstu síðu, að sunnan við sundið í Landakoti er grynning, þar sem sér á þara í mestu fjöru. Þegar illt er í sjóinn, getur tekið sig þarna upp boði, sem heitir Landaboði. Einnig er talað þarna um Landarif.
Sjór hefur mikið gengið á landið í seinni tíð, og má heita, að sjávargarðurinn frá Hausaklöpp að mörkum Þórustaða sé eyddur. Á honum sem næst miðjum er sundvarðan, sem áður er á minnzt, og hefur verið reynt að halda henni við. Ofan við garðstæðið eru harðir sandbakkar með lágu, þéttu grasi. Þeir voru kallaðir Bakkinn eða Landakotsbakki og talað um að slá Bakkann.

Landakot

Landakot – hjallur.

Neðst á Bakkanum sést nú kálgarðsstæði, sem notað var til skamms tíma, eða þar til ágangur sjávar gerði þar veruleg spjöll. Þessi kálgarður var kallaður Bakkagarður eða Sandgarður , því að jarðvegurinn var hvítleitur af fjörusandi, hér um bil eins og sandfjaran fyrir neðan sjávarkambinn. Utan um Bakkagarð voru grjótveggir, og fyrir austan hann merkilegt mannvirki grafið inn í Bakkann, hlaðið í hring og reft yfir með tunnustöfum, svo tyrft yfir allt saman. Þetta var kallað Jarðhúsið og notað fyrir kartöflugeymslu í okkar bernsku og var víst upphaflega ætlað til að ísa í fisk.
Bakkinn náði frá sjávargötunni að sunnan og vestan og allt norður og austur að Þórustaðabakka og Þórustaðatjörn. Syðst í þeirri tjörn er brunnurinn Djúpugröf, að hluta í Landakotstúni, og tjörn í kvosinni sunnan og austan við Djúpugröf, en mógrafir vestan og sunnan við Djúpugröf í austurjaðar Bakkans. Þarna að norðanverðu, milli Jarðhússins og Djúpugrafar, er Bakkinn nánast ræma, en breikkar eftir því sem nær dregur sjávargötunni.
Það eru víst ekki nema um 60 ár síðan þessi hluti túnsins varð slægur, áður var þetta víst fjörusandur. Melgresi er sjávarmegin í öllum Bakkanum, og hefur það kannski átt sinn þátt í því að græða upp fjörusandinn1. Bakkinn var alltaf snöggur, hvernig sem á hann var borið. Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt. Í austurjaðri Bakkans, aðeins sunnan við tjörnina, sem Djúpugröf er í, er sá hóll Holland, sem flugvél nauðlenti á, líklega 1934-35. Þetta var mesti merkisviðburður í þá tíð, og sem betur fer slasaðist enginn.

Landakot

Landakot – Götugarðar.

Frá Auðnum, um hlaðið í Landakoti, inn túnið, ofan við tóftarbrotin í Götu og að Þórustöðum liggur troðningur, sem var alfaraleið um Ströndina og liggur áfram inn á bæi.
Ofan við þennan götuslóða liggur sá hluti Landakotstúns, sem nefndur var Inntún, næst Þórustöðum, en Upptún upp af bænum í Landakoti. Í Upptúni mótar fyrir gömlum hleðslum, sem gætu verið bæjarstæði, og faðir okkar gizkaði á, að hefði verið bærinn Lönd.
Mamma vissi ekki um neinn slíkan bæ. Heimreiðin frá þjóðveginum að Landakoti liggur beint upp af íbúðarhúsinu og skilur að Upptún og svonefndan Leyni, sem er grösug laut, er liggur frá heimreiðinni að girðingunni, sem skilur að Landakot og Bergskot. Leynirinn breikkar, er sunnar dregur, og suður við girðinguna er hann breiðastur og afmarkast af Landakotshól, sem áður er að vikið sem álagabletti. Milli hólsins og íbúðarhússins er þýfi ofan við Seiglöpp. Í þetta þýfi gat safnast vatn og stundum orðið úr tjörn. Þetta þýfi endar í tveimur lágum hólum, sem við kunnum ekki nöfn á, en á milli þeirra lá götuslóðinn, sem áður getur suður að Auðnum. Í Landakoti var álagahóllinn yfirleitt kallaður Bergskotshóll.
Ofan við Upptún, Inntún og Leyni var girðing og heiðarmegin við hana fiskreitur og hænsnakofi. Síðan kom önnur girðing neðan við þjóðveginn, og á milli þessara girðinga var Móinn með moldarflögum og klöppum, sem við krakkarnir skírðum ýmsum nöfnum, sem varla verða talin til örnefna.“

Heimildir:
-Landakot – Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Landakot – Örnefnalýsing Margrétar Guðnadóttur, skráð af Eyjólfi Guðnasyni.

Landakot

Landakot 2020. Gata framar.

Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka”, segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

„Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið „Stefánsvarða“.“ (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

„Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Jónas E. Waldorff

Waldorff

Vogar – minnismerki; Waldorff.

Skammt norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan við Vogaafleggjara er kross. Á honum er eftirfarandi áletrun:
„Til minningar um Jónas E. Waldorff sem lést hér í bílslysi, f. 01.04.1989 – d. 09.03.2003“.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: „Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson“.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: „Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána“.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – „Hot Stuff“
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík. Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þess eru höggnir stafir, ME. 1888 til minningar um nefndan Magnús, og þar fyrir neðan S.J.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti – letur.

Stafirnir S.J. gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að M. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Magnúsarsæti er í austanverðri Hrafnagjá skammt vestan Stóru-Vatnsleysu.

Litli sjómaðurinn

Þorvaldur Guðmundsson eignaðist Minni-Vatnsleysu árið 1953 – og varð þar með eigandi að stærsta svínabúi landsins.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn á Minni-Vatnsleysu.

Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur á lágum grasi vöxnumhól skammt norðan við Ráðsmannsbústaðinn, ofan við sjávarkambinn. Á fótstallinum er skilti. Á því stendur: „Litli sjómaðurinn eftir Ragnar Kjartansson. Til minningar um þá er sóttu sjóinn frá Minni-Vatnsleysu – 1962“.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Þyrluvarða

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Vestast í Breiðagerðislakka, fast norðan Reykjanesbrautar, er varða – „Þyrluvarða“.
Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins vestan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.

Kúastígur

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi“. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir „þrjótur, slæpingi; seppi“. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Töðugerði

Töðugerði.

Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp á Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Vogaréttin

Vogaréttin ofan Réttartanga vestan Voga var um tíma lögrétt fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurbændur. Réttin sést glögglega á loftmyndum frá árinu 1954. Eftir það á tilteknu tímabli virðist hún hafa horfið af yfirborðinu, án nokkurra athugasemda.

Vogarétt

Vogaréttin um 1950.

Í örnefnaslýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir: „Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur.“

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin.“

Skammt norðvestar á tanganum má enn sjá leifar enn eldri réttar í fjöruborðinu og dregur tanginn mjög líklega nafn af henni. Sjórinn hefur sópað henni burt að mestu.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni.

Í leit að upplýsingum um Vogaréttina svaraði Sigurður Ingi Jónsson: „Ég reyndi að stilla saman gömlu loftmyndinni og annarri frá 2019 og fæ ekki betur séð en að malbikað hafi verið yfir réttina (sjá mynd)“.

Vogarétt

Vogarétt. – Hér er mynd af leifum Vogaréttarinnar gömlu suður á Flötunum milli Voga og Stapans. Myndin er af skátamóti þar í júlí 1971 og græna hertjaldið er í almenningnum og svo sést móta fyrir dilkunum nær okkur sem línum í jarðveginum og svo virðist vera hleðsla við klettana hér næst, enda var réttin byggð utan í klettahól. Grjótið var tekið á sínum tíma í hafnargerð í Vogum (SG).

Sesselja Guðmundsdóttir bætti við: „Já, byggingar Vogalax fóru yfir hana ca. 1983. Búið var að taka grjótið úr henni í hafnargerð að mig minnir. Nýja réttin á Ströndinni var byggð og tekin í notkun 1956“ [ofan við Hlöðunes].
Meira um „Hlöðunesréttina“ (Strandarréttina/Vogaréttina) síðar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Voga.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Voga.

Vogaréttin

Vogaréttin – loftmynd frá 1954 (t.v.) og loftmynd frá 2021.

Oddshellir

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gíg fellsins eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellisop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.

Oddshellir

Oddshellir.

Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyrnar”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.