Tag Archive for: Vogar

Vatnsleysa
Gengið var um Vatnsleysuheiði og Flekkuvíkurheiði umhverfis Hafnhóla. Ástæðan var tvíþætt; annars vegar hafði FERLIR skömmu áður flogið yfir svæðið með Ólafi Erni og þá m.a. rekið augun í mikið vörðumannvirki á hól, fjárborg, gamlar götur og fleiri minjar og hins vegar var vitað um fjölmargar vörður á svæðinu sem að öllum líkindum höfðu ekki verið hlaðnar til einskis.
DigravarðaVið fyrstu sýn virðast heiðarnar lítt áhugaverðar tilsýndar, en þegar betur er að gáð mátti í þeim finna bæði fornar og áður óskráðar mannvistarleifar sem og áhugaverðar ábendingar um breytingar í gróðurfari umliðinna alda.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a.: „Suður og nokkru ofar í heiðinni er hóll, sem heitir Svartavarða, og áfram ofar er hóll, sem heitir Digravarða. Hlaðnar vörður og vörðubrot eru á öllum þessum hólum. Heiðarslakkinn í austur af Digruvörðu er kallaður Digravörðulágar. Ofan Digruvörðu eru svo litlir hólar, sem heita Geithólar, og skammt þar frá aðrir, sem heita Svínhólar.“ Segja má með sanni að víða leynast vörður og vörðubrot. Með lagni má þó greina vörður frá öðrum „vörðum“. Norðan við Digravörðulágar eru t.d. slík mannvirki, en þegar betur er að gáð er augljóst að þar hafa refaveiðimenn verið að verki. Bæði hafa verið hlaðin skjól á hólum og gamlar hlaðnar refagildrur verið aflagaðar eftir að þær hættu að þjóna hlutverki sínu sem slíkar. Skjólin eru seinna tíma mannvirki, þ.e. eftir að byssan kom til sögunnar, en gildrurnar eru leifar enn eldri veiðiaðferða – þá þegar aflagðra.

Stekkur

Þegar gengið var um ofanverða Vatnsleysuheiðina var auðvelt að staðsetja Svörtuvörðu. Ofar í heiðinni var áberandi hóll. Þegar betur var að gáð reyndist á honum vera hið veglegasta mannvirki, fyrrum einkar stór varða. Hún var að vísu fallin og gróin umleikis, en augljóst var að þarna hafði fyrrum verið mikið mannvirki. Ekki var auðvelt að koma auga á mannvirkið úr fjarlægð, en þess greinilegra var það í návígi á hólnum. Standandi við vörðubrotið virtist sem þarna hafði fyrrum verið eyktarmark (hádegi) frá Stóru-Vatnsleysu eða mið af sjó í Keili.
Undir hólnum að suðaustanverðu var lítill hlaðinn stekkur eða kví. Austan við mannvirkið má ætla að hafi verið hús, líkum þeim er sjá má í seljum. Munurinn var þó sá að ekkert eldhús var þarna greinilegt, sennilega vegna nálægðar við bæinn. „Digravörðulágar“ munu þá heita gróningarnir góðu efra.
Haldið var áfram upp heiðina uns komið var að heillegum vörðum upp undir núverandi Reykjanesbraut. Þegar tekið var stöðumat á svæðinu var einna líklegast að ætla að þarna hafi fyrrum legið þjóðleið frá Kúagerði og áfram yfir heiðarnar áleiðis að Vogastapa. Bæði var leiðin einstaklega greiðfær og eðlileg í alla staði. Fyrir Grindvíkinga eða aðra Suðurnesjamenn myndu sparast nokkrar klukkustundir á göngu ef farin væri þessi greiðfæra leið millum staða en farin væri Ströndin. Um hefði verið að ræða svo til beina leið að Skógfellaleið eða Stapagötu. Og þá var bara að sannreyna áætlunina.
FjárborgÞegar leiðin var gengin var jafnan komið að vandlega hlöðnum vörðum eða greinlegum vörðubrotum. Til hægri handar, á klapparhryggjum, voru og heillegar vörður, sem erfitt var að sjá hvaða tilgangi öðrum hafi gegnt en að vera leiðarmerki yfir heiðarnar. Þegar komið var upp að Hafnhólum (þeim Stóra) mátti sjá að gatan hélt áfram til vesturs yfir heiðina. Ætlunin er að fylgja henni til enda síðar.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a. um þetta svæði: „Heiðarslakkinn suðaustur og upp af þeim er kallaður Miðmundarlágar. Næsta kennileiti er nokkuð stór klapparhóll, sem er kallaður Litli-Hafnhóll. Annar hóll er nokkru ofar, og heitir sá Stóri-Hafnhóll. Báðir þessir hólar eru svipaðir að því leyti, að þeir hafa sprungið eftir endilöngu eða frá norðri til suðurs í jarðskjálftum eða eldsumbrotum. Breiðar gjár hafa þá skipt hólunum í tvennt. Nú eru þær að mestu uppfylltar jarðvegi. Hafnhólar eru á hæsta punkti heiðarinnar á nokkuð stóru svæði og sjást mjög vel af sjó. Þeir voru og eru sjálfsagt enn notaðir sem mið af grunnslóð. Frá Litla-Hafnhól er svo línan um hól, sem á eru vörður tvær, og kallast hann Bræður.“ Síðastnefna kennileitið er vel þekkt.
ARefaskyttubirgiuðvelt var að fylgja leið áfram til vesturs norðan núverandi Reykjanesbrautar. Mjög líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið gata undir fótum Grindvíkinga millum Innnesja og Útnesja, aukinheldur Rosmhvalsnesinga. Reykjanesbrautin virðist hafa verið lögð með sömu hagsmuni og sjónarmið í huga og gilt hafa um aldir.
Og þá var bara eftir að leita að fyrrnefndri fjárborg í óravíddinni.
Gengið var til norðvesturs áleiðis niður Flekkuvíkurheiðina frá miðlægum Hafnhólum uns komið var að vandlega hlaðinni vörðu nokkru suðaustan Miðmundahóla í Flekkuvíkurlandi. Þar virðist vera um landamerki að ræða, enda eldri vörðuleifar skammt frá. Þarna hafði leið legið um fyrrum með stefnu á Staðarborg, sem blasti við sem kennileiti í suðvestri. Þegar hugsanleg leið var fetuð til baka upp heiðina að áleiðis að Hafnhólum kom fyrrnefnd „fjárborg“ í ljós. Um var að ræða hringlaga hleðslu á annars sléttu landi. Op virtist til suðurs.
Hér, á þessum stað, var í raun komið hið ágætasta viðfangsefni til verulegra skoðanaskipta. Mannvirkið var hringlaga. Veggir stóðu grónir að utanverðu, en grjótför að innanverðu. Mannvirkið hafði fallið bæði út á við og inn. Ef þarna hefði verið um fjárborg (sú 98. á Reykjanesskaganum) að ræða hefði hún verið hlaðin ofar, t.a.m. á nálægum klapparhólum. Óljós gata lá niður (eða upp) með tóftinni. Staðarborgin blasti við í suðvestri og Hafnhólar til beggja handa í norðaustri.

Varða

Eftir gaumgæftir mátti ætla að þarna hafi fyrrum verið áningarstaður Kálfatjarnarbænda (-presta) á leið þeirra í selstöðuna, hvort sem um var að ræða Kolhólssel, Oddafellssel eða Sogasels í Sogaselssgíg, nokkurs konar og kærkominn áningastaður á langri leið. Um langan veg var að fara frá bæ að selstöðu, hvort sem um var að ræða selstöðuna í Sogaselsgíg eða Oddafelli, og því hefði þarna gjarnan verð um kærkominn áfangastað að ræða á bakaleiðinni úr selstöðunni. Fornminjar, sem þarna má augum líta, gætu því verið hvort sem er aðhald fyrir skepnur ábúenda eða afdrep þeirra sjálfra. Þá gæti tóftin hafa verið sæluhús, jafnvel hof í heiðinni eða tengst gömlum sögnum um kaupstað í Hafnhólum. Erfitt er um það að segja nema að undangegnum frekari rannsóknum (sem Fornleifastofnun ríkisins virðist alls ekki svo áhugasöm um að fenginni reynslu). Umræddar minjar hafa hvergi verið skráðar sem fornminjar – líkt og svo fjölmargar aðrar á Reykjanesskaganum.

Varða milli borganna

Varðandi skráningu á minjum á Vatnsleysuheiðinni eða annars staðar, svona til að gæta sanngirnis, þá er það sennilega ekki vegna áhugaleysis að Fornleifavernd ríkisins skráir ekki minjarnar. Eins og staðan er í dag er enginn mannskapur til eða fjármagn til skráningarvinnu. Það er frekar sorglegt en satt að afar fá sveitarfélög hafa séð ástæðu til þess að leggja út í fornleifaskráningu af eigin hvötum og áhuga á verkefninu og varðveislu minjanna. Eins og staðan er í dag þá fer nánast engin skráning fram af hálfu opinberra aðila, sem ekki tengist mati á umhverfisáhrifum eða skipulagi, sem kostar skráninguna. Fornleifastonfun Íslands er stærst á þeim markaði, en er auðvitað rekin á markaðsgrundvelli og útseldri vinnu, eins og flestir aðilar sem sinna skráningu fornleifa hér á landi.
Hér má sjá lýsingu af göngu um Kálfatjarnarheiði, þá næstu að vestan, og óvæntum fornleifafundum þar.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. HÉR má sjá myndband úr Strandarheiðinni.Heimildir m.a.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu, Flekkuvík og Kálfatjörn.

Fjárborg

Kolagröf eða skjól í Strandarheiði.

Stóru-Vogaskóli

Stóru-Vogaskóli er 140 ára í haust. Afmælisveislan hefst kl.12 á hádegi fimmudaginn 18. október n.k. Dagana áður munu nemendur og starfslið skólans sökkva sér í þessa löngu sögu og árangur þess mun væntanlega sjást upp um alla veggi skólahússins. Einnig verður bakað baki brotnu, kræskingar lagðar á borð og hellt uppá. Flutt verða ávörp og erindi og ýmislegt til gamans gert.

Einn af elstu skólum landsins
Brunnastadaskoli-yngri-221Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa í nýbyggðu húsnæði. Þeir voru báðir á Suðurnesjum; Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík. Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: “Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli og þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Rústir tveggja síðustu íbúðarhúsanna að Stóru-Vogum, sem reist voru 1871 og 1912, eru nú hluti af leikvelli skólans.
Vogaskolar-4Allan tímann er þetta sama stofnunin þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Grunnur elsta skólahússins er enn heillegur og aðalbygging skólans frá 1944 – 1979 er nú íbúðarhúsið Skólatún í Brunnastaðahverfi. Byggð voru tvö minni hús, annað í Kálfatjarnarhverfi og hitt á Vatnsleysubæjum og kennt þar um tíma þegar hverfin voru barnmörg. Síðan kom skólabíll til sögunnar 1942 – með þeim fyrstu á landinu – og eftir það var ekki lengur þörf á kennslu í einstökum hverfum. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur nú endurbyggt annað þessara húsa að Kálfatjörn og stendur til að koma þar upp skólasafni.

Thorchilliisjóður fyrir fátæk börn
vogaskolar-2Hver var þessi Thorchillii sem skólinn var kenndur við? Hann hét Jón Þorkelsson (1697-1759), barn efnaðra foreldra í Innri-Njarðvík. Hann varð mikill lærdómsmaður og rektor Skálholtsskóla um tíma og kallaði sig Thorchilliius upp á Latínu. Hann eignaðist ekki börn en efnaðist vel og gaf eftir sinn dag eigur sínar í sjóð til að “allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi skyldu fá kristilegt uppeldi, þ.m.t. húsnæði, fæði og klæði”. Árið 1870 hóf Stefán Thorarenssen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, undirbúning stofnunar barnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi.
Vogaskolar-5Efnt var til samskota, keyptur jarðarpartur og reist skólahús sem var vígt 13. sept. 1872 með því að halda þar stofnfund skólans sem hóf starfsemi skömmu síðar og hefur starfað óslitið síðan, stundum á fleiri en einum stað samtímis. Með leyfi kóngsins og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchillii-sjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir vel börnum sem minna mega sín.
Thorchilllii-sjóðurinn greiddi  um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna í þessum skóla og síðar í fleiri skólum sem stofnaðir voru á Reykjanesskaga. Mörg “Thorchillii-barnanna” bjuggu á skólatíma í risi skólahússins og ráðið var fólk til að ala önn fyrir þeim.
vogaskolar-3Þannig var skólinn bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli og einnig var börnum komið fyrir á nálægum bæjum, m.a. börnum úr Njarðvík, en fyrstu árin var þessi skóli líka fyrir Njarðvíkinga uns þeir komu sér upp eigin skóla rúmum áratug síðar. Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (fyrir fermd börn) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur. Fyrsta veturinn voru 30 börn í skólanum, þar af 8 fermdir unlingar, og bjuggu 10 af börnunum í skólahúsinu. Í húsinu, sem var 56 m2 að grunnfleti, hæð og ris, var einnig íbúð fyrir kennarann svo það hefur verið búið þröngt. Kannski hefur það komið sér vel því timburhús á þessum tíma voru mjög köld.

Vatnsleysustrandarhreppur í fremstu röð á 19. öld
Vogaskolar-6Hvers vegna voru stofnaðir skólar svo snemma í Vatnsleysustrandarhreppi og Garði? Þá voru komnir barnaskólar á verslunarstöðunum Eyrarbakka (frá 1852) og Reykjavík (frá 1862). Það fiskaðist vel á grunnslóð á þessum tíma áður en togveiðar komu til. Hér var þéttbýlla en víða annars staðar, enda fór fjöldi íbúa í Vatnsleysustrandarhreppi yfir 1000 áður en hreppnum var skipt og Njarðvík klofin frá 1890. En það þarf meira en peninga til að stofna og reka skóla. Það þarf ekki síður menningarlegt atgervi og framsýni. Ég læt Árna Daníel Júlíussyni, sagnfræðingi, eftir að svara þeirri spurningu ásamt mörgu öðru sem á hugann leitar, en hann flytur erindi og situr fyrir svörum á afmælishátíðinni 18. okt. n.k. Sjálfur þakka ég Hauki Aðalsteinssyni, skipasmið og áhugasagnfræðingi, fyrir að afla mikilvægra gagna um þetta mál á Þjóðskjalasafni og víðar, sem ég byggi grein þessa á.

Hvar stöndum við nú?
Vogaskolar-7Stóru-Vogaskóli er í dag 180 barna grunnskóli með 1. – 10. bekk í 2700 m2 húsnæði, en íbúar í Sveitarfélaginu eru rúmlega 1100, ívið fleiri en þegar skólinn var stofnaður. Skólinn hefur á að skipa metnaðarfullu starfsliði sem rækir starf sitt af alúð. Eins og í upphafi er vel hugsað um börn sem minna mega sín eða hafa ýmis konar sérþarfir og er skipulega unnið gegn einelti. Að einu leyti  hefur skólinn sérstöðu á landsvísu: Hér fá börnin hádegismat í boði sveitarfélagsins. Hér sitja allir við sama borð og fá einstaklega góðan og hollan mat sem eldaður er í skólanum af snilldarkokki. Hér er leitast við að sinna vel bæði líkamlegum og andlegum þörfum barna, óháð efnahag foreldra.

– Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Virkishólar

Gengið var til suðurs frá Reykjanesbrautinni austan við Hvassahraun að svonefndum Virkishólum. Ætlunin var að skoða Virkið, sem þar er á milli hólanna. Virkishólarnir þrír eru áberandi skammt sunnan við veginn.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Skv. upplýsingum Kristján Sæmundssonar, jarðfræðings, myndast hólar sem Virkishólar þannig að glóandi kvikan safnast saman á einum stað og nær ekki að renna frá. Massi hraunsins þenst út vegna hitans og gúlpar og sprengir af sér harnaða hraunskorpuna.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Djúp sprunga er í efsta hólnum. Greinilegur gróinn stígur lá frá Hvassahrauni áleiðis upp að hólunun. Liggur stígurinn í reglulega lagað, nokkuð djúp og gróið jarðfall; Virkið. Það var notað til að hleypa til í um fengitímann. Fyrirhleðslur eru í norðanverðu jarðfallinu þar sem farið er ofan í það og skúti norðarlega. Vel gróið er í kringum Virkið sem og inni á milli og utan í hólunum. Ekki er útilokað að Virkið hafi einnig verið notað sem nátthagi því greinlega hefur verið beitt þarna um nokkurn tíma.
Skammt austan við Virkishólana eru aðrir hraunhólar í hólóttu helluhraunnu. Suðvesturundir einum þeirra (varða ofan við) er jarðfall. Í því er hlaðið fyrir skúta, Lofstkúta. Þarna munu Hvasshraunsmenn hafa m.a. geymt rjúpur o.fl. þegar þeir voru við veiðar í hrauninu.
Gangan tók 53 mín. Blanka logn og sól.

Loftsskúti

Í Loftsskúta.

Virkishólar
Í örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun er sagt frá nokkrum hellum og skútum. Þrír þeirra eru á tiltölulega afmörkuðu svæði, þ.e. Grænhólshellir, Loftsskúti og Grændalahellir (Grendalaskúti). Auk þeirra má telja til Sjónarhólshelli.
Í lýsingunum um skútana segir m.a.:
„Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól, stundum nefndur Stóri-Grænhóll“.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði er hóll á mörkunum nefndur Sjónarhóll. „Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður.“
Þá segir um Grendalahelli og Loftsskúta: „Upp af Krapphólum ofan vegar koma svo Draugadalir, norðaustur af Virkishólum. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum. Milli Smalaskála og Brennhóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi.“
„Virkishólar eru þrír. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann.
Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.“
Gengið var frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhól á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Þar suðaustan undir hólnum er fyrrnefnt fjárskjól; Sjónarhólshellir. Miklar hleðslur eru fyrir skútanum, sem í suðurendanum á stóru grónu jarðfalli.

Virkishólar

Virkið.

Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h. (Sjá um fund á skjólinu undir Lýsingar). Þá ber að hafa í huga að Lónakot kemur inn í markasetningu síðar en Óttarsstaðir. Talið er að Lónakot hafi fyrrum verið þar sem Svínakot var, undir Réttarklettum. Þar ofan við er enn eitt fjárskjólið.
Haldið var upp fyrir (suður fyrir) Reykjanesbraut og stefnan tekin á Virkishóla. Ofan við þá var leitað að Loftsskúta þeim er getið er í örnefnalýsingunum. Skv. lýsingum átti skútinn að vera ofan við hólana, milli Smalaskála og Brennhóla. Þarna eru nokkrir skútar og skjól, en ekki var að sjá miklar eða greinilegar hleðslur fyrir þeim. Brennhólar eru suðsuðaustan við Virkishóla, en Smalaskáli sunnan við þá. Utan í Smalaskála er hins vegar fjárskjól, sem ekki er getið um í örnefnalýsingum.
Svæðið ofan við Virkishóla og á milli Smalaskála og Brennhóla er tiltölulega lítið og afmarkað og því væri vænlegt að gaumgæfa svæðið betur. Ekki er ólíklegt að Loftsskúti kunni að leynast þar ofan við Virkið, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Þrír staðir ofan við Virkið eru sérstaklega áhugaverðir. Sá, sem er næst fyrir ofan, er með gróið svæði umhverfis gróið gat. Þegar lyngið og grasið er dregið frá sést niður í stóran skúta. Annað op er skammt austar, en fyrir það hefur gróið birkihrísla. Með aðstoð skóflu væri hægt að skoða þetta betur.
Annar staður er skammt sunnar. Þar er gömul varða ofan við skúta. Ekki virðist langt síðan grjót úr loftinu hefur fallið niður og lokað opinu að mestu.

Virkishólar

Virkishólar.

Með því að forfæra eitt grjótið með kúbeini væri hægt að komast niður og inn í skútann.
Þriðji staðurinn er skammt austar. Þar er gróið jarðfall og skúti inn undir berginu. Staðurinn hefur greinilega verið nýtt sem skjól fyrir fé.
Grændala- eða Grendalahellir var skoðaður ofarlega í Gren-/Grændölum). Ofan við hann er Grændalavarða.
Við leit í hrauninu neðan við Brennhóla fundust nokkur skjól og sum með mannvistaleifum í. Eitt þeirra hafði t.a.m. verið flórað og gott rými þar inni.
Þegar gengið er upp í Brennhóla frá Grænhól er gengið yfir a.m.k. þrjár greinilegar gamlar götur. Sú fyrsta liggur skammt norðan og samhliða Reykjanesbrautinni. Önnur liggur skammt sunnan brautarinnar og sú þriðja enn ofar. Hún kemur í austanverða Virkishóla og liggur ofan við þá. Sennilega eru tvær hinar síðarnefndu hlutar að gömlu Alfaraleiðinni áleiðis á Útnes; sá nyrðri angi af henni áleiðis niður að Hvassahrauni.
Í næstu ferð um svæðið þarf að muna eftir a.m.k; skóflu, sög, kúbeini eða járnkarli og hellaljósi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Virkishólar

Virkishólar.

Búðarvatnsstæðið

Gengið var upp og suður um Almenning eftir landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns austan Lónakotssels. Landamerkjagirðingunni var fylgt upp Taglhæð, um Hólbrunnshæð og áfram upp að Mið-Krossstapa. Girðingin liggur í gegnum stapann og áfam upp í Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Neðri-Krossstapi.

Geldingahraunið er vestar, en þegar komið er upp fyrir efsta krossstapann taka við neðri Skógarnefsbrúnir. Skógarnefið sjálft er nokkuð stór kjarri vaxin hraunhvilft, vel gróin. Efri brúnirnar sjást við sjónarmörkin í suðri. Ofan þeirra tekur við tiltölulega slétt mosahraun þar sem fyrir eru heillegar hleðslur grenjaskyttu við a.m.k. tvö greni, sem þar eru. Ofar er Búðarvatnsstæðið.
Ef fylgt er landamerkjalínu Lónakots og Hvassahrauns lá landamerkjalínan úr Söndugrjóti í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er sagt að áletrun hafi verið, en hana er ekki að finna í dag. Þaðan liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að. Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes. Högnabrekkur liggja vestan Smalaskála, og ber ekki mikið á þessum brekkum.

Krossstapi

Efri-Krossstapi.

Neðan þjóðvegarins er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunnshæðin, eða Hólabrunahæðin, fyrrnefnda. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Línan liggur um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.
Gata liggur upp gróið hraunið um Almenning fast austan krossstapana. Staparnir áttu að hafa verið þrír. Sumir telja að þriðji og neðsti krossstapinn sé Álfakirkjan eða Álfaklettur norðaustan við Lónakotssel, en líklegra verður að telja hann norðan Mið-Krossstapa, í svo til beinni línu við Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Krossstapar.

Fyrrnefnd gata liggur til suðurs austan hans.
Þegar komið var upp undir neðri brúnir Skógarnefsins var snúið við að þessu sinni. Vel gróið er undir brúnunum. Skógarnefsgrenin eru skammt vestar. Hraunið austan við krossstapana er úfið, mosavaxið, en tiltölulega greiðfært yfirverðar. Upp úr því rísa hraunklettar, sem taka á sig allskyns myndir í kvöldsólinni. Svo virðist sem vörður séu á stangli þarna í hrauninu, en þær eru klettar eða steinar, sem standa upp úr hrauninu.
Þrátt fyrir góða gaumgæfni á svæðinu vildi fyrrnefndur Skógarnefsskúti ekki sýna sig að þessu sinni. Ekki er ólíklegt að hann kunni að leynast svolítið sunnar og vestar við leitarlínuna. Norðan við hana er hraunið mosavaxið og úfið, en nokkuð greiðfært. Sunnan við það og vestan eru víða hraunhvilftir, sem vert er að skoða nánar.
Frábært veður. Kvöldsólin samstillti haustlitasetteringuna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Vegghleðsla

Námskeið í „grjóthleðslu í gömlum stíl“ var haldið í Vogunum á vegum Miðstöð Símenntunnar á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu, sem tók tvo vinnudaga, var m.a. ætlunin að hlaða frístandandi og fljótandi veggi úr náttúrulegu grjóti. Auk Kálfatjarnarkirkjaþess var ætlunin að kenna öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur áttu að læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta var að mestu verklegt námskeið og gert var ráð fyrir töluverðu líkamlegu puði – enda varð sú raunin, en eins og einhver komst að orði; „I love it!“.
Hér verður seinni degi námskeiðsins n.k. laugardag lýst.
Leiðbeinendur voru Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistari og skrúðgarðyrkjumaður, og bróðir hans, Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður, miklir hagleiksmenn. Seinni hluti grjóthleðslunámskeiðsins fór fram við Kálfatjörn.
Markmið námskeiðsins var að nemandinn þjálfaðist í hefðbundnum vinnubrögðum við íslenskt byggingarhandverk; í þessu til­felli grjóthleðslu úr náttúrlegu grjóti, þekkti helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í grjóthleðslu, kynni skil á góðu hleðslugrjóti og gæti hlaðið og gengið frá grjótvegg úr náttúrlegu grjóti og gæti hlaðið horn og boga.
SuðurveggurinnEfnisatriði og kjarnahugtök voru m.a: Grjótnám (hleðslugrjót), einstakar bergtegundir, grjót klofið, höggvið, flutningur, árstími, grjóthleðsla, undirstöðusteinar, smásteinar, hellubrot (klípa), stæði steins (sæti), möl á milli laga, moldarfylling, þjöppun, veggjagrjót jafnað, þykkt grjótveggja, hæð, ending.  Að mörgu var að hyggja.
Lýst var t.d. vegghleðslu úr grjóti, m.a. með tilliti til mismunandi bergtegunda, er hlaðið var úr. Kynntir voru undirstöðusteinar og kampsteinar, smásteinar og hellubrot, sem notuð voru til að skorða steina í hleðslu (klípi t.d.). Stæði steins í hleðslu nefndist t.d. sæti. Lög í veggjum voru hlaðin úr langhellum eða langsteinum til bindinga. Í sumum veggjum var torf notað milli laga í grjóthleðslu. Mikilvægt var að leggja grjótið rétt í hleðsluna? Stundum var venjuleg heytorfa notuð við vegghleðslu, rist að endilöngu, er hlaða átti, og báðir helmingarnir notaðir í hleðsluna. Strengur (strengir) var einnig hafður milli laga í grjóthleðslu. Hleðslu á ytra borði útveggja og gaflhlaða var lýst sem og fláa í innveggjum.

Unnið að endurbótum

Veggur hlaðinn með fláa myndaði boglínu upp og niður, líkt og torfveggir. Stundum var vegghleðsla bein eða bogadregin milli horna í húsi (þ.e. grunn lína). Moldarfylling gat verið í grjótveggjum. Þá var moldinni þjappað mjög vel. Veggjagrjót var jafnað með öxi eða sleggju er hlaðið var. Þykkt grjótveggja gat verið mismunandi. Ending grjótveggja gat og verið mismunandi, allt eftir tilgangi byggingarinnar.
Viðfangsefnið að þessu sinni var grjóthlaðin hlaða við bæjarstæðið, svonefnd
Skjaldbreið. Skjaldbreið, eins og sjá má hana nú, mun hafa verið reist um 1850, líklega af þáverandi ábúendum Kálfatjarnar. Upphaflega hafa allir veggir hennar verið hlaðnir grjóti úr næsta nágrenni, líklega fjörunni, en árið 1926 þegar fjós var byggt við hlöðuna var suðurveggurinn steyptur upp en grjótið notað til þess að drýgja steypuna.
Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst nokkuð. Er helsta breytingin sú að árið1946 mun Erlendur, þáverandi bóndi á Kálfatjörn hafa gert kvist á hlöðuna að norðanverðu. Hann hafði eignast nýja dráttarvél þetta sama ár og var kvisturinn byggður til þess að auðvelda aðkomuna vegna heyflutninga. Bárujárn er á þaki hlöðunnar en upphaflega mun það hafa verið klætt skarsúð með breiðum borðum.

Gert við

Standandi klæðning mun einnig hafa verið á báðum göflunum og er sú klæðning enn sýnileg á vesturgaflinum. Fyrsti hluti uppbyggingarinnar á Skjaldbreið hafði verið hafinn og hafði Víglundur Kristjánsson, torf- og grjóthleðslumaður, unnið að henni ásamt vinnuflokki sínum. Hluti hans hafði þá þegar skemmst vegna aksturs stórra tækja um bæjarhlaðið.
Skjaldbreið hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi um aðstöðu og lifnaðarhætti sjávarútvegsbænda á 19. öld auk þess að vera ómissandi hluti af umhverfinu við kirkjuna og mikilvægur þáttur í sögu staðarins. Samkvæmt aldursákvæði Þjóðminjavarðar er hlaðan Skjaldbreið friðuð.
Grjót sem var notað í hleðsluna var nánast eins og það kemur af skepnunni, kannski örlítið snyrt til að það legðist betur. Víglundur er menntaður bifvélavirki en þrátt fyrir það hefur hann unnið sem fornhleðslumaður síðastliðin 30 ár, þar af sem aðalstarf síðastliðin 15.
Hans þekktustu verk eru Skansinn í UnniðVestmannaeyjum, húsin í Bröttuhlíð á Grænlandi og svo endurbyggði hann Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal svo fátt eitt sé nefnt. Menntun til að verða fornhleðslumaður er ekki hægt að læra í neinum skóla. Hún lærist eingöngu frá manni til manns, til að mynda lærði Víglundur af afa sínum sem lærði þetta af föður sínum og svo koll af kolli. Í dag er þessi stétt að deyja út og að mati Víglunds eru aðeins 4-5 menn sem gefa sig út sem fornhleðslumenn. Það er fyrst og fremst vegna þess að starfsöryggi er ekki nóg og svo er þetta hreinlega fjári erfitt að vera að burðast með grjót allan daginn.
Víglundur kannast við flest ef ekki öll þau nöfn sem hleðslan bar með sér hér áður fyrr, mismunandi gerðir hleðslu, verkfærum og annað slíkt. Þau eru samt flest orðin úrelt vegna tækniframfara. Það er einungis eitt verkfæri sem hefur sama nafn og áður en það er stutull, hann var notaður til að þjappa moldina í veggjunum. Að þjappa moldina hefur alla tíð verið mikilvægt og sagt hefur verið að það að þjappa vel er jafn mikilvægt og að hlaða vel. Hleðsluheitin hafa haldið sér.

Unnið við

Heitin eru í raun skírskotun í nöfn þess sem hlaðið er úr, til dæmis eru tvennskonar hleslur á Jaðar, grjóthleðsla þar sem eingöngu er notað grjót og svo hlaðið í streng en þá er sett torf(streng)- og grjótlag til skiptis. Sem sagt að það er annaðhvort hlaðið í torfið, grjótlag á milli, eða úr torfi en þá er eingöngu torf líkt og með grjótveggina.
Efnisöflun í dag er með nokkuð breyttu sniði frá því sem var. Núna má eiginlega ekkert hirða og er flest allt grjót fengið úr námum, það er sprengt grjót en ekki tilhöggið af nátturunnar hendi. Torfið er náttúrulega fengið úr nánasta umhverfi, það eru þó til svæði sem ekki gefa hentugan jarðveg til grjóthleslu. Þar sem það á við er í raun ekkert hægt að gera þrátt fyrir góðar samgöngur og gjöfulli svæði, það er vegna sauðfjársjúkdóma eins og riðu og eru lög sem koma í veg fyrir það að jarðvegur er fluttur landshorna á milli. 
VegghleðslaÞegar tekist var á við Skjaldbreið þurfti að rífa hluta veggjanna alveg niður, rétta þá af og lagfæra. Við þá vinnu komu í ljós eldri undirlagshleðslur, sem nýrri veggir höfðu verið byggðir ofan á. Neðsta lag austurveggjarins var t.a.m. runnið til, en það samt sem áður notað fyrir nýja vegghleðslu. Neðsta lag suðurveggjarins var vandlega hlaðið, en greinilega eldra en það sem ofan á var. Vesturvegginn vantaði alveg. Hann hafði verið steyptur, sem fyrr sagði, en fallið þegar þakið fauk af hlöðunni í óveðri s.l. vetur. Nú átti að endurhlaða hann frá grunni. Á norðurveggnum voru fjögur flórgöt í mismunandi hæð. Þau neðri virtust hafa verið á eldri veggnum. Veggir voru tvíhlaðnir og var bæði púkkað á milli með smágrjóti og skeljasandi. Að þessum uppgötvunum fengnum má ætla að Skjaldbreið, sem mannvirki, sé miklu mun eldri en áætlað hefur verið. Fulltrúi Fornleifaverndar ríkisins mætti á staðinn, en hann virtist „út á þekju“ líkt og jafnan þegar slíkir frá þeirri stofnun koma að fornum mannvirkjum Reykjanesskagans.

Hleðsla

Breidd nýja hússins verður 6.50 m. Lengdin er svipuð. Ætlunin er að koma ártalssteini, A° 1674, fyrir í suðurveggnum, en hann fannst fyrir nokkrum árum í fjörunni við Rásina neðan við Kálfatjörn eftir að leitað hafði verið að honum. Steinninn hafði verið hornsteinn í sjóbúð þar á sjávarkambinum, en sjórinn tekið húsið til sín. Steinninn fannst fyrir tilviljun.
Fróðlegt var að skoða handbragð hleðslumeistarans á seinni stigum veggsteinshleðslunnar í Skjaldbreið og bera hana saman við vegghleðsluna í Staðarborginni. Í fljótu bragði virtist handbragðið (hleðslulagið) vera það sama. Hafa ber í huga að jafnan hafa vanir hleðslumenn reynt að hlaða „lárétta“ eða „lagskipta“ veggi, þ.e. notað grjót svipað að þykkt líkt og sjá má í neðsta lagi suðurveggjarins í Skjaldbreið. Veggþykktin er þó hin sama á báðum stöðunum (um 65 cm) og vegghallinn einnig (um 5 cm). Því má ætla að hleðslumeistarinn hafi verið sá sami í báðum tilvikum eða að sá hinn sami hafi kynnt sér handbragðið á öðru hvoru staðnum áður en hófst handa. Ef hleðslumeistarinn hefur verið á Kálfatjörn á sama tíma og Skjaldbreið var hlaðin og þá, annað hvort á eftir eða á undan, hlaðið eða endurhlaðið Staðarborgina, má ætla að síðarnefna mannvirkið hafi verið reist um 1850. Líklega er það mjög raunhæft þegar tekið er tillit til hversu heilleg borgin er og lítt skófvaxinn. Neðstu umförin á austanverðri Skjaldbreið eru t.d. með svipuðum skófvexti og sjá má á austanverðri Staðarborginni.
Í lokin útskrifuðust nemendur af grjóthleðslunámskeiðinu, sem var MSS og vettvagnsstjórnendum til mikillar fyrirmyndar í alla staði.

Heimild m.a:
-khi.is/torf/2003/jada

Unnið

Vatnsleysuströnd

Málþing var haldið í apríl 2010 um sögu Vatnsleysustrandarhrepps/Sveitarfélagsins Voga á vegum Minjafélags Vatnsleysu- strandarhrepps. Fjölmargir, lærðir og leiknir, héldu þar fróðleg erindi og lýstu sögu sveitarfélagsins.
Guðrún Lovísa MagnúsdóttirÁrið 1889 var að frumkvæði heimamanna samið um að skipta hreppnum upp í Vatnsleysustrandar-hrepp og Njarðvíkurhrepp. Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu heimilaði skiptingu hreppanna. Skiptingin var svo samþykkt með landshöfðingjabréfi 21. sept. 1889 og tók gildi 1. október það ár. Vogar urðu síðan löggildur verslunarstaður (kaupstaður) 24. nóv. 1893. Magnús Ágústsson í Halakoti stundaði útgerð um 60 ára skeið um og eftir miðja 20. öld, fyrst á Neðri-Brunnastöðum og síðan frá Vogum. Hann lýsti því m.a. hvernig Vogar hefðu tekið kipp frá því að vera 8 hús í aðdraganda að þorpi eftir byggingu frystihússins 1941. Áður höfðu dugmiklir menn byggt þar bryggju eftir kaup á tveimur vélbátum smíðuðum í Danmörku.
Um næstu áramót eru 5 ár síðan Vatnsleysustrandarhreppur varð Sveitarfélagið Vogar.

ArahólavarðaHér er listi yfir helstu elstu byggingar í Sveitarfélaginu Vogum. Hafa ber í huga að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða heldur eru upplýsingarnar fyrst og fremst settar fram til fróðleiks. Þorvaldur Örn Árnason tók saman. 

(?) Staðarborg – mannhæðar há, hringlaga fjárrétt hlaðin úr grjóti í landi Kálfatjarnar.
(1850?)
Skjaldbreið – hlaða á Kálfatjörn. Minjafélagið í Vogum var byrjað að gera hana upp en þakið fauk í ofviðri í ársbyrjun 2008 og var rifið, hluti af efniviðnum er geymdur.
(1860) Veggir sjávarhúsa í Norðurkoti í Vogum – bætt var við timburhúsi úr Jamestown 1882 en á grunni þess
stendur nú skúr, en annar minni skúr á syðstu tóftinni barnn í des. 2007.
(1865) Tóftir Neðri-Brunnastaða sem Guðmundur Ívarsson byggði, með fyrstu timburhúsunum í hreppnum.
(1871) Stóru-Vogar – Enn standa steinhlaðnir veggir hæðar upphaflega hússins, en urðu kjallaraveggir er það var 
endurbyggt 1912 með hæð og risi ofaná. Búið í því til 1940, rifið 1964. Er nú í jaðri leikvallar Stóru-Vogaskóla og nýtist sem leiktæki barna.
(1872) Grunnur fyrsta skólahússins í Suðurkoti í Brunnastaðahreppi.
(1873) Hellur – steinhlaðnir veggir bæjar (nýbýli) sem Lárus Pálsson hómópati byggði. Sjást frá vegi.
(1884) Ytri-Ásláksstaðir – úr Jamestownviði, síðar múrhúðað utan. Geymslukjallari, hæð og ris, um 35 m2. Mjög Brunnastaðaskóliheillegt hús og merkilegt, en mannlaust.
(1885) Mýrarhús í Vogum – hesthús í eigu hreppsins undir lokin, rifin upp úr 1990 – allt  horfið.
(1885) Grænaborg – brann 1887, endurbyggð og hækkuð 1916, brann 2002. Jöfnuð við jörðu 2004.
(1890) Arahólavarða – lagfærð 1982.
(1893) Kálfatjarnarkirkja – friðlýst og mjög vel við haldið.
(191?) Suðurkot í Vogum – tóft torfbæjarins við enda Akurgerðis. Síðast endurbyggð af Benedikt Péturssyni upp  úr 1900. Í eyði 1927. Tóftir heillegar við enda Akurgerðis.
(1903) Norðurkotsskóli á Vatnsleysuströnd – fluttur að Kálfatjörn 2005 og endurbyggður af Minjafélaginu.
(1903?) Neðri-Brunnastaðir – nefnt Húsið. Stendur enn.
(1912) Austurkot í Vogum – elsta hús sem búið er í og mjög vel við haldið.
Norðurkot(1917) Garðhús við Knarrarnes – rúst pínulítils steinsteypts bæjar.
(1917) Hallandi (Nýibær) við Ásláksstaði – rústir.
(1919) Steinlímdar, heillegar rústir fiskibeinamyllu í Auðnalandi.
(1922) Minni-Vogar – tvílýft timburhús.
(1922) Háibær í Vogum – syðsti hluti, vel uppgert.
(1922) Landakot á Vatnsleysuströnd (1926).
(1924) Naustakot – byggt við síðar.
(1926) Austurkot í Brunnastaðahverfi.
(1926 og 1929) Stóra-Knarrarnes (tvö hús).
(1927) Nýibær í Vogum (Vogagerði 24).
(1927) Suðurkot (Suðurgata 2) í Vogum.
(1929) Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd – steinsteypuhús uppistandandi, lengi í eyði.
Arahnúkasel(?) Að framan vantar tóftir kota og verbúða, s.s. Borgarkots, Hólkots, Goðhóls, Tíðargerðis og Kálfatjarnarverbúð, auk fjölmargra fjárborga (Pétursborg, Gvendarborg, Lynghólsborg, Þórustaðaborg, Auðnaborg, Hringurinn), stekkja (t.d. í Kúadal) og fjárskjóla.
(?) Mannvirkin undir Stapanum, s.s. Kerlingarbúð, Stapabúð, Hólmabúð og Brekka eru ekki heldur talin upp hér að framan.
(?) Smalaskálar, s.s. undir Miðmundahólum og í Smalaskálahæð eru ekki taldir með, stúlknabyrgi ofan Flekkuvíkur.
(?) Ýmsar aðrar miklar vörður (Svartavarða, Hermannavarða, Arnarvarða, Brúnavarða, Stúlknavarða, Prestavarða) eru ekki heldur taldar með sem og sundvörður ofan og neðan bæja.
(?) Hlaðnir brunnar eru og ótaldir. Elsti brunnurinn er við Kálfatjörn og sennilega Norðurkot. Brunnar voru svo til við hvern bæ eða bæjarhverfi. Þrír brunnar eru t.d. við Garður við AragerðiFlekkuvík.
(?) Hlaðnar refagildrur eru ótaldar.
(?) Gamlar réttir og garðar eru ótalið.
(?) Verslunarminjar (húsgrunnar) á Bieringstanga eru ótaldar.
(?) Dysjar eru ótaldar, s.s. í Narfakoti og Ásláksstöðum.
(?) Gamlar áletranir eru ótaldar, s.s. við Kálfatjörn (hlaðin brú), Kerlingarbúð og Knarrarnes. Ekki má gleyma steini á Flekkuleiðinu.
(?) Gamlar þjóðleiðir eru ótaldar, en á sumum þeirra er manngerðar brýr.
(?) Um 18 fornar selstöður í heiðinni vantar; sumar líklega með elstu sýnilegum minjum í Vatnsleysustrandarhreppi.

Heimild:
-Guðmundur Björgvin Jónsson, Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi – ÞÖÁ tók saman.

Staðarborg

Staðarborg.

Grjóthleðsla

Námskeið í „grjóthleðslu í gömlum stíl“ var haldið í Vogunum á vegum Miðstöð Símenntunnar á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu, sem tók tvo vinnudaga, var m.a. ætlunin að „hlaða frístandandi og fljótandi veggi úr náttúrulegu grjóti. VeggurAuk þess var ætlunin að kenna öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur áttu að læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta var að mestu verklegt námskeið og gert var ráð fyrir töluverðu líkamlegu puði!“
Hér er fyrri degi námskeiðsins lýst, öðrum til fróðleiks.
Mæting var kl. 08:30 við félagsheimilið í Vogum. Þar tóku fulltrúar MSS og sveitarfélagsins Voga á móti þátttakendum, 24 talsins, nákvæmlega á sólarúrsslaginu. Þorvaldur Örn Árnason lýsti verkefni dagsins og kynnti leiðbeinendur til sögunnar, Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistara og skrúðgarðyrkjumann, og bróður hans Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður. Báðir hafa þeir starfað lengi við grjóthleðslur og þekkja orðið bæði allar hliðar grjóts sem og hornin fjögur (ef svo mörgum er til að dreifa). Verbúðin við Bolungarvík sem og tilgátubærinn á Eiríksstöðum eru t.a.m. handverk þeirra, grjóthleðslur á Akranesi, endurhleðsla Skálholtsvörðu, steinbogabrú í Áslandi, grjótveggur við Mosfell í Grímsnesi, kirkjugarðsveggur að Búrfelli í Grímsnesi og svo mætti lengi telja.
Byrjað að rífaGuðjón sagðist hvorki ætla að halda langa né lærða ræðu um efnið. Þátttakendur myndu fljótlega finna það á eigin skinni. Málið væri bara að byrja og þreifa sig síðan áfram. Hæfnin kæmi með reynslunni. Ræðan tók innan við eina mínútu. Mættu margir lærðir taka sér það til fyrirmyndar, þ.e. viðhafa færri orð en þess fleirri handtök. Handverkið var jú það sem mestu skipti hér á landi fyrrum – með allri virðingu fyrir rituninni, sem var reyndar að 2/3 hluta handverk. Það gleymist oft þegar handritin eru dásemuð sem mikil „þjóðargersemi“ að aðrar áþreifanlegar fornleifar, t.a.m. hleðslur, eru það engu að síður. Þær eru einnig hin áþreifanlegu tengsl nútímafólksins við uppruna sinn, forfeður þeirra, sem þraukað höfðu við þeirra tíma húsaskjól svo það mætti njóta alls þess sem dagurinn í fag hefur upp á að bjóða.
Nánari upplýsingar með námskeiðslýsingunni höfðu verið þessar: „Skoða og meta grjóthleðslur í Vogum og á Vatnsleysuströnd, svo sem vörður, túngarða, sjóvarnargarða, fjárborgir, gripahús, sjávarhús og íbúðarhús. Læra að endurhlaða og lagfæra grjótveggi, garða og vörður. Lagfæra nokkrar tegundir af hleðslum sem þarfnast lagfæringa
Tileinka sér lög, reglur og viðhorf um vernd fornminja. Aukin þekking á einkennum, þróun og varðveislu menningarlandslags á Íslandi. Virkja og efla fólk til minjaverndar og að halda við gömlum hleðslum og læra að hlaða nýjar hleðslur í gömlum stíl.“
Um var að ræða fyrsta námskeiðið af nokkrum fyrirhuguðum. „Lengd námskeiðs: 2 heilir dagar (2×8 klst.). Hámark 10 manns í hópi.“ Vegna mikils áhuga var þátttakendum fjölgað í 24 og stóðu þó 6 utangarðs.
Samstarfsaðilar að verkefnu þessu voru Sveitarfélagið Vogar, Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps (sem er farið að beita sér af auknum þunga á svæðinu) og Fornleifavernd ríkisins (illu heilli reyndar, en óhjákvæmilega), auk þess sem námskeiðið var styrkt af Menningarráði Suðurnesja. Þátttökugjald var kr. 4000-. Ætla mætti, að fenginni reynslu, að greiða þyrfti fólki fyrir alla vinnuna, sem leggja þurfti að mörkum. Ánægjan vó hins vegar þyngra en þreytan – auk þess sem þátttakendur nutu bæði hóflegrar og skynsamlegrar leiðsagnar, húsaskjóls og máltíða meðan varði.
EndurgerðTil forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. Hleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér. Bæði hafa rofaöflin séð um niðurbrot þeirra sem og maðurinn. Frostverkun, jarðskjálftar og vatns- og vindrof hafa leikið hleðslurnar grátt í gegnum aldirnar, en auk þess hafa margar hleðslur verið fjarlægðar vegna framkvæmda. T.d. var bæði grjót í vörðum og görðum endurnýtt í bryggjur á árdögum þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Þá hurfu mörg áberandi og vönduð mannvirki sem sérhverju sveitarfélagi hefði verið mikill sómi af í dag.
Ekki var ætlunin að hreyfa neitt við mjög gömlum hleðslum eða minjum sem eru sérstakar, né heldur að grafa upp fornleifar, heldur að rannsaka og lagfæra hleðslur af algengu tagi sem eru í yngri kantinum og áberandi í landslaginu.
Þegar á vettvang var komið; að löngum gömlum grjóthlöðnum garði utan við Minni-Voga, mátti sjá hvar hann hafði fallið að mestu. Garðurinn hafði fallið út til hliðanna, auk þess sem gróður hafði með tímanum lagst smám saman að honum.
Í lýsingum um garðhleðslur segir m.a.: „
Gamla lagið sem tíðkast hefur gegnum aldirnar. Neðsta steinalag látið standa u.þ.b. 10-15 sm. undir yfirborði jarðvegs. Stærstu steinarnir neðst og fyllt á milli steinalaga með mold og torfi. Mold /torf rækilega þjappað. Í dag ef jafnan skipt um jarðveg undir hleðslum (sett frostfrítt efni) og í fyllingu veggjar er notast við frostfrítt efni. Þannig ættu veggir að standa um ókomna tíð ef rétt er staðið að hleðslu.“
Hér var ekki ætlunin að takast á við torfhleðslur, en um þær segir m.a.: „Torf – Klambra: Tígullaga hnaus hlaðinn í vegg með strengtorfi . Notað í húsahleðslur og aðra veggi. Kvíahnaus: Ferkantaður hnaus notaður í vegghleðslur húsa , túngarða o.fl. Snidda: Notuð í lægri veggi, túngarða, vegkanta og fleira. Strengur: 5-10 sm. þykk torfmotta (einsog túnþaka) 30-40 sm. breið,  lengd 1-3 m. Notuð í vegghleðslur og á milli klömbruhnausa.“
MinjarGuðjón lýsti því hvernig garðurinn hafði verið gerður; lega hans mótuð með röð stórra steina að utanverðu og minni að innanverðu. Hér var garðurinn hlaðinn á klöpp með grunnu moldarlagi á millum (nægilega litlu til þess að frostverkunin hefði ekki áhrif).
Allt grjót var fjarlægt úr veggnum; mosagrónir steinar á ysta lagi lagðir til hliðar því þá átti að nota aftur í ysta lagið. Ýmsar minjar frá ýmsum tímum fundust inni á milli steinanna, t.d. hluti af ári.
Síðan var byrjað að hlaða frá grunni; sérhver steinn metinn og veginn uns hann féll sem flís við rass á réttan stað í veggnum. Smærri steinar fylltu millilagið. Hallinn inn á utanverðum veggnum var lítill, en þess meiri að innanverðu, enda minni steinar notaðir þar. Smám saman tók endurgerður veggurinn á sig mynd fyrirrennara síns. Gæta þurfti og vel að stefnu, breidd og hæð. Að því athuguðu varð til heilstæð veggmynd að nýju.
Eflaust munu íbúar Voga, sem og aðrir, líta á endurgerðan vegginn sem fornleif, enda erfitt að sjá að um endurbyggingu sé að ræða.
Deginum lauk með því að þátttakendur gengu um garða og hleðslur Norðurkots á Vatnsleysuströnd, en þær eru í senn bæði heillegar og vel vandað til þeirra í upphafi.

Heimildir m.a.:
-http://www.mss.is

http://simnet.is/stokkarogsteinar

Grjóthleðsla

Vogaheiði

Í Morgunblaðinu árið 2004 birtist eftirfarandi frétt um sprengju í Vogaheiði undir fyrirsögninni „Landhelgisgæslan segir að sprengjuleit á Vogaheiði sé margra ára verkefni – Málmflísarnar þeytast eins og byssukúlur“.

Vogaheidi-1„Það er ekki hvellurinn sem er hættulegastur heldur allar málmflísarnar sem þeytast frá sprengjunni eins og byssukúlur,“ segir Jónas Þorvaldsson, sprengju-sérfræðingur hjá Landhelgis-gæslunni, áður en rafstraumi er hleypt á litla sprengjuhleðslu sem komið hafði verið fyrir á gamalli bandarískri sprengikúlu. Sprengikúlan er á botni um 10 metra djúprar hraungjótu á Vogaheiði en heiðin var notuð sem skotæfingasvæði bandaríska hersins fyrir um hálfri öld. Eins og gengur féllu sumar sprengjurnar niður án þess að springa og síðan farið var að leita að þeim með skipulögðum hætti hafa ríflega 800 slíkar sprengjur fundist.
Í gær var TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, fengin til að flytja sprengjubrot og annað brak úr hrauninu sem fundist hafa við leit landhelgisgæslumanna í sumar og í fyrrasumar.
Adrian King, sem einnig er sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, segir að sprengikúlan í gjótunni innihaldi um tvö kíló af TNT og þótt hún sé um hálfrar aldar gömul sé sprengiefnið enn virkt. Hætturadíus slíkrar sprengju er um einn kílómetri. Til að koma af stað sprengingu setur Adrian plastsprengiefni utan á sprengikúluna og tengir það síðan við langan rafmagnsvír. Þegar allir viðstaddir eru komnir í örugga fjarlægð er straumi hleypt á. Nánast samstundis kveður við mikill hvellur og þykkur grásvartur reykur liðast upp úr gjótunni. Þó að blaðamanni finnist þetta býsna tilkomumikið er sprengjan sjálfsagt algjört smáræði fyrir þá Jónas og Adrian sem sl. vetur dvöldu við sprengjueyðingar í Írak. Þar sem hermenn skutu áður úr skriðdrekum, fallbyssum, sprengjuvörpum og öðrum tiltækum skotvopnum er nú orðið vinsælt útivistarsvæði.

Vogaheidi-2

Jónas segir að í kringum Snorrastaðatjarnir og annars staðar þar sem helst sé að vænta mannaferða hafi svæðið verið fínkembt. Til leitarinnar var m.a. notað nýlegt málmleitartæki sem er þeirrar náttúru að það getur fundið málmhluti í hrauni sem önnur lakari tæki ráða ekki við sökum segulmögnunar í íslenskum hraunum.
Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir að skotæfingasvæðið hafi verið um átta kílómetrar að lengd og hátt í fjögurra kílómetrar breitt þar sem það er breiðast.
Flatarmál svæðisins er talið um 15 ferkílómetrar en í rauninni er yfirborðið enn umfangsmeira þar sem sprengjurnar geta leynst í holum og hraungjótum auk þess sem margar hafa grafist ofan í svörðinn. Enn leynast þarna virkar og hættulegar sprengjur
Árið 1986 stóð varnarliðið fyrir umfangsmikilli sprengjuleit á svæðinu og tíu árum síðar var aftur leitað. Það dugði þó ekki til og telja sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að enn leynist þar margar bombur sem enn eru virkar og hættulegar. „Það er margra ára verkefni að kemba allt svæðið,“ segir Gylfi. Svæðið verði seint eða aldrei fullleitað. Hann brýnir fyrir göngufólki að snerta ekki sprengjur heldur tilkynna fundinn til lögreglu eða Landhelgisgæslunnar.“

Heimild:
-Morgunblaðið 10. ágúst 2004, bls. 10.

Kálffell

Sprengja í Kálffelli efst í Vogaheiði.