Tag Archive for: Vogar

Borgarkot

Borgarkot er býli, sem Viðeyjarklaustur hafði umráð yfir, milli Kálfatjarnar og Flekkuvíkur. Tóftir sjóbúðanna sjást enn en sjórinn er að brjóta þær smám saman.

Borgarkot

Stórgripagirðing við Borgarkot.

Krýsvíkingar fengu að hafa kálfa og nautgripi í Borgarkoti gegn afnotum Viðeyjarklausturs að verstöð Krýsvíkinga, sennilega að Selatöngum. Einnig hafi Viðeyjarklaustur gripi sína í Borgarkoti. Girðingin er sennilega vegna þeirra – stórgripagirðing. Hún náði fá Kálfatjörn yfir að landamerkjum Flæekkuvíkur neðan Hermannavörðu. Þar beygir hún til strandar. Önnur sambærileg girðing er vestan Litlu-Vatnsleysu. Í steinana beggja vegna eru grópuð tvö göt og í þau reknir trétappar. Á þessa tappa voru hengdar taugar til að varna stórgripum ferð um upplandið. Ekkert virðist hafa verið vitað um girðingar þessar þótt ótrúlegt sé, en svo virðist vera um margt á Reykjanesskaganum. Honum hefur lítill gaumur verið gefinn.

Valdimar Samúelsson hafði samband við FERLIR eftir að hafa séð myndir af steinum með götununum á við Borgarkot.

Borgarkot

Stórgripagirðing við Borgarkot.

„Ég var ekki lengi að ákveða að fara eftir að ég sá þessar holur en fór um Borgarkotsland og sá töluvert meira af steinum þar á meðal einn sem hefir verið settur upp á annan.
Þessir steinar eru svörun á því sem ég hef verið að leita að en þarna voru mjög greinilegar þríhyrningslagaðar holur ásamt venjulegum holum en auðvitað voru sumar eyddar af veðri. Þér að sega þá freistaðist ég til að taka tappa út þrem holum en setti þá í aftur.

Þetta er því fyrsta sönnun fyrir því að þessar þríhyrnings löguðu holur í S-Dakota hafa líkan annarstaðar, en við erum búinn að leita um allt, þá á ég við reynt að fá upplýsingar um sambærilegar holur í öðru en skipafestarholur og eða skipasteinum, en í öllum Norðurlöndum eru engar að finna.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Á Grænlandi finnast skipafestarholur þríhyrningslagaðar en þær eru sverari og dýpri en þessar, einnig í Hudson Bay, held við Nelson-ánna, en það er álitið að menn hafi farið þar upp og endað í Winnipegvatn, síðan niður Rauðá, en þá eru þeir komnir á þetta holusvæði. Svæðið í S-Dakota heitir Whetstone Valley og eru svona steinamerkingar í steinum og bergi við ár og læki um allan dalinn.“

Spurning er hvort Íslendingur, sem farið hafi til Ameríku, en komið aftur, hafi gert þessar holur og notað steinana í girðingu hér.

Nú er bara að fá upplýsingar um hversu gömul götin eru í Ameríku og í hvaða tilgangi þau voru gerð.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur

Upphaf Prestastígs ofan Hundadals.

Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.

Prestastígur

Prestastígur – Eldvörp.

Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.

Prestastígur

Prestastígur ofan Húsatófta.

Prestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.

Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóptarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrst er nefnd Hrafnagjá. Ofan hennar er svonefnt Sauðabæli. Neðar er Miðgjá og næst Húsatóftum er Hjálmagjá. Komið er inn á vestanvert heimatúnið (golfvöllinn) í skarð á gjánni.

Heimild um jarðfræði:
-Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi.

Ólafur Sigurgeirsson tók saman.

Á Prestastíg

Keilisnes

Keilisnes er nes milli Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flestum núlifandi er það ferskast í minni vegna umræðna um væntingabyggingu álvers á síðasta árattug er gufaði upp jafnskjótt og hún hafði kviknað.
Efst á nesinu, skammt frá gamla þjóðveginum, er varða sem Stefánsvarða heitir, á hæð sem við hana er kennd.  Þaðan er mikið útsýni yfir Faxaflóa. Örn Arnarson skáld lýsir siglingu Stjána bláa fyrir Keilisnes í örlagaþrungnasta minnigarkvæði sem ort hefur verið um íslenskan sjómann:

Í FlekkuvíkÆsivindur lotugangur
Löðri siglum hærra blés
Söng í reipum. Sauð á keipum.
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
Stýrði fyrir Keilisnes.

Ríkið á þarna landið. Fjárfest hafði verið í því eftir að vonarblær lék um byggingu álversins. Hugmyndir eru nú um það í bæjarstjórn Voga að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Keilisnes kemur og til greina sem nýr staður undir álver Alcans í kjölfar þess að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík. Bæjaryfirvöld í Vogum á Vatnsleysuströnd íhuga hins vegar að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði.
Hafnfirðingar höfnuðu því að álverið í Straumsvík yrði stækkað í 460.000 tonna ársframleiðslu, í atkvæðagreiðslu á dögunum. Síðan hefur komið fram að hægt er að stækka álverið í Straumsvík umtalsvert á núverandi lóð þess. Þá hefur einnig komið fram að kostnaður álversins vegna hugsanlegrar stækkunar sé þegar kominn yfir miljarð króna og spurning hvort stjórnendur fyrirtækisins vilji nýta þá fjármuni eða hætta rekstri hér og tapa þeim peningum alveg. Haft var eftir Gunnari Guðlaugssyni, sem líka leysir Rannveigu Rist af hólmi, í fréttum Stöðvar tvö að hugmyndin um Keilisnes væri góð. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarmanni í Alcan, sagði í fréttum stöðvarinnar að Keilisnes væri einn möguleikanna. Nýjustu fréttir gefa Hafnfirðingum þó von um að álverið verði um kyrrt á sínum stað næstu nálæga áratugina.“

Coot

Keilisnesið er í Flekkuvíkurlandi. „Ríkið á land á Keilisnesi, sem fyrr sagði, og eignaðist það raunar vegna hugmynda um álver á nesinu, á tímum Viðeyjarstjórnarinnar. Lóðin þar er skilgreind sem iðnaðarlóð í aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að verið sé að endurskoða aðalskipulagið og að það hafi komið til tals í bæjarstjórn, að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Það verði þó ekki gert án samráðs við landeigandann. Fram kom í könnun Gallups að meirihluti landsmanna vill gera hlé á stóriðju næstu fimm árin; 2/3 kvenna og helmingur karla. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að ekki sé farsælt að stíga á bremsuna í þessum efnum.“ Þótt afstaða formannsins hafi verið raunhæf með hliðsjón af þróun þjóðarbúskapsins virtist hún úr takt við viðhorfs fólks er bar umhyggju fyrir náttúru og umhverfi landsins.
Á Keilisnesi dagaði fyrsti togari Íslendinga, Coot, uppi.
„Í marsmánuði (þann 6. mars) árið 1905 kom fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, sem stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður, til heimahafnar í Hafnarfirði. Skipið var breskur gufutogari sem hét Coot, þ.e. blesönd, en skipið var smíðað í Glasgow árið 1892 og mældist 141,5 brl. Útgerðin gekk brösuglega í fyrstu en síðan batnaði afkoman og síðustu árin var ágætis hagnaður af útgerð togarans, en skipið strandaði í desember 1908 við Keilisnes og náðist ekki á flot aftur. Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum.

Frímerki

Togarinn gekk fyrir gufuaflsvél. Sá sem stuðlaði að því að Coot var keyptur til Íslands var útgerðarmaðurinn Einar Þorgilsson. Landsmenn vildu banna botnvörpur en svartsýni þeirra hvarf þegar þeir sáu hvað útgerðin gekk vel.
Á Coot var tólf manna áhöfn, allt Íslendingar. Útgerðin gekk oftast vel og skilaði miklum hagnaði til eigendanna.  Erfiðlega gekk að gera togarann út fyrsta árið en betur þegar á leið og útgerðin skilaði miklum hagnaði eða alveg þangað til Coot strandaði við Keilisnes árið 1908, en það urðu endalok útgerðarinnar. Nú eru engin ummerki eftir strandið á Ströndinni, en ketillinn úr togaranum var tekin þaðan og settur upp við minjasafnið í Hafnarfirði.
Næst á eftir Coot kom togarinn Jón forseti árið 1907.  Hann var á vegum útgerðarfélagsins Alliance.  Eftir það kom hver togarinn á fætur öðrum til landsins og árið 1912 voru þeir orðnir tuttugu talsins á öllu landinu.  Ketillinn
Í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu eftir Skúla Magnússon er fjallað um Kálfatjarnarsókn. Þar eru sagðar 18 jarðir og eigi konungur 15 þeirra, en hinar 3 á Kálfatjarnarprestakall. „Mannfjöldi var árið 1703 [er] 401, en árið 1781 464. Engjar eru sagðar engar og eigi annar heyskapur en sá er fæst af túnunum og er ekki hægt að stækka þau. Frá flestum bæjum eru selstöður upp til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar, þar er Skúli hefur séð á Íslandi á fjögurra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur (danskar) frá sjónum upp að háfjöllunum sem greina Gullbringusýslu frá Árnessýslu. Þannig tekur þetta svæði yfir 8 fermílur.
Segir svo að á milli Kálfatjarnarsóknar og Garðasóknar sé hálent hraunsvæði, sem Almenningur nefnist. Er það 2 mílur að breidd og þriggja mílna langt frá sjónum upp að fjöllunum. Landslag og gróður er þar með sama hætti, sem fyrr segir um Kálfatjarnarþingsókn; þó er þarna meira smáhrís og lyng. Undir þessu hrauni er bærinn Lónakot, sem eyddist fyrir skömmu af sjávargangi (það er að sjóflóð árið 1776 reif bæði burtu grassvörðinn af túninu og fyllti húsin og vörina grjóti og möl).“
Meira er fjallað um Vatnsleysustrandarbæi, minjar og sagnir annars staðar á vefsíðunni.
Ásláksstaðir

Kálfatjörn

Leitað var ártalssteins í Kálfatjarnarvör. Í 9. tbl. Ægis árið 1936 segir að „þar við vörina hafi verið steinn í byrgi og á hann höggvið ártalið 1677.

Kálfatjörn

Ártalssteinn í fjörunni þar sem hann fannst.

Steinninn hafi “fallið úr byrginu fyrir nokkru í brimi. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn lét leita hans í grjóthrúgunni og fannst hann; er hann nú múraður í vegg byrgisins”. Nú er sjórinn einnig búinn að taka nefnt byrgi, en tvö heilleg eru þarna vestar, ofan fjörunnar.
FERLIR hafði farið nokkrar leitarferðir í fjöruna við Kálfatjörn. Leitin virtist vonlaus því grjót er þarna við hvert fótmál og engin lýsing á þessu tiltekna grjóti lá fyrir. Hins vegar mátti gefa sér, með því að skoða grjótið í hinum byrgjunum, að það hlyti að vera ferkantað og að tiltekinni stærð fyrst það var notað í vegghleðslu sjóbúðar og síðan byrgis. Með því var a.m.k. hægt að nota útilokunaraðferðina. Vopnaðir henni og með öll augu galopin var nú fjaran gauðmgæfð aldrei sem fyrr.
Sjórinn var greinilega búinn að brjóta talsvert land ofan við vörina, þar sem sjóbúðin gamla átti að hafa verið ofan við. SteinninnByrgið var, sem fyrr sagði, að mestu farið, en þó mátti enn sjá einn vegg þess að hluta (2003). Þarna nærri eru og leifar garðhleðslna gamallar fjóstóftar með hálfuppistandandi veggjum. Greinilegt var að jarðýtu hafði verið ekið út með ofanverðri fjörunni fyrir skömmu síðan. Og fyrir algera tilviljun fannst steinninn í öðru beltafarinu. Í ljós kom að áletrunin var ekki 1677, heldur A° 1674. Hún var vel greinileg og læsileg. Svo virðist sem tölustafurinn 4, sem er stærri en hinir, geti einnig verið tákn, þ.e. segl og kross.
 Steinninn var hulinn til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Upplýsingum um hann var síðan komið til menningarnefndar Vogamanna, sem lét því miður færa hann úr sínu „nálæga umhverfi“ upp að safnarheimili Kálfatjarnarkirkju þar sem hann liggur, ekki svipur hjá sjón – einmana og tilgangslaus í umkomuleysi sínu. Auðvitað (og án nokkurs vafa) á steinn sem þessi, það eina sem eftir er, ætlaður sem hornsteinn í hlaðinni sjóbúð niður við ströndina, að fá áfram að minna á uppruna sinn; tilgang, gamla atvinnuhætti og fólkið sem þar var. Þetta kenndi FERLIR að vera ekkert að láta umkomuaðila vita sérstaklega af uppgötvunum sínum. Kannski verður svo að „sjóbúðarsteinninn“ verði síðar færður á veglegan stall nærri uppruna sínum.
Um er að ræða einn elsta ártalsstein á Reykjanesskaganum, sem vitað er um. Steinninn í Fuglavík, sem heimild segir að þar var í yfirbyggðum brunni og síðan í bæjarstéttinni, er þó eldri, en hann er enn ófundinn þegar þetta er ritað. (Hann fannst þó skömmu síðar eftir umleitan FERLIRs – sjá umfjöllun um Fuglavík). Elstu áletranir er á einum Hvaleyrarsteinanna (1657) og á klöppum við Básenda (16. öld), en aðrar áletranir, sem sumir telja eldri, eru rúnir (Kistugerði og fornmannasteinninn í Garði). Flekkuvíkurrúnarsteinninn er þó sennilega frá 16. eða 17. öld. Ekki er vitað um aldur rúnasteinsins í Kisturgerði.
Að loknu góðu síðdegisverki var skoðaður ártals- og skósteinn í hlaðinni brú á gömlu kirkjugötunni vestan LetursteinninnKálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera, skv. heimildum, ártalið 1700, en á honum er áletrunin A°1709 (sjá Kálfatjörn – letursteinn (1709).Â
Hornsteinar búða, bæja eða byrgja voru oftlega með táknum eða ártölum, líkt og þessi steinn í sjóbúðinni við Herdísarvík; ártal er myndar segl og kross. Í Krýsuvíkurbúð í Herdísarvík var merki á steini; kross og bogi undir er myndaði ankeri. Steinninn var lengi í brunnstæðinu við heimreiðina að gamla bænum. FERLIR tók mynd af honum á sínum tíma, en lét hann liggja áfram óhreyfðan. Annað dæmi er við dyr bæjar syðst í vestanverðum Skorradal; tvöfaldur kross á einum legg. Eflaust mætti finna slík tákn víðar, ef vel væri að gáð.
Allar hafa þessar áletranir kristnileg tákn er benda til beinna tengsla við sjómennsku og væntanlega vernd (öryggi), bæði til handa búðum og ábúendum. Í rauninni er um að ræða leifar heiðinnar trúar. Þetta er þekkt fyrirbæri allt frá því á frumlífsöld (fyrir 12.000 – 7.000 árum f. Kr. – Catal Hüyük og Lepenski Vir) er menn tóku sér fyrst fasta bólfestu og byrjuðu að búa í húsum er mynduðu þorp. Þeir grófu látna ættingja sína undir gólfinu til að tryggja Endurbyggingað óviðkomandi færu ekki inn af ótta við hina dauðu (dauðann), þ.e. færðu hina náttúrulegu og fyrrum villtu efnismenningu inn í híbýli sín). Með svipaðri hugsun voru hinir fyrstu látnu landnámsmenn hér á landi grafnir á ystu landamerkjum jarða þeirra. Tilgangurinn var að tryggja vitund manna um hver mörkin væru og auk þess að fæla nágrannana, sem og aðra, að ásælast landið. Óttinn við dauðann og hina dauðu var mikill. Hann var í rauninni hornsteinn frumgerðistrúarbragðanna er kristnin byggði síðan grunn sinn á, sbr. Jesús krist, upprisuna og afturhvarf mannsins til alsælu himnaríkis.
Þeir sem reyttu hina dauðu til reiði áttu ekki von á góðu. Grunnhugsunin hefur í rauninni lítið breyst í gegnum árþúsundin þótt efnismenningin, vegna sífelldra áhrifa umhverfis og aðstæðna, aukinna krafna, tækni og nýrra möguleika, hafi tekið breytingum frá því sem áður var. Og þótt efnislegar leifar geti lýst áþreifanlegu afsprengi hugsunar, frá einum tíma til annars, geta þær þó lítið sagt til um hugsunina sjálfa. Líklegt má þó telja að hún hafi jafnan tekið mið af gildum og viðurkenningu fjöldans hverju sinni. Því má spyrja; hver voru gildin hér á landi fyrr á öldum?
Þetta voru nú einungis svolitlar vangaveltur í tilefni af opinberun letursteinsins í nálægð við guðshúsið að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hugmyndin er að koma ártalssteininum A°1674 fyrir í endurgerðri Skjaldbreið við Kálfatjörn (sjá HÉR).
Kálfatjörn

Almenningavegur

Í örnefnaskrá og öðrum heimildum úr Vatnsleysustrandarhreppi er Almenningsvegurinn nefndur og er þá átt við þjóðleiðina sem lá úr Vogum (sem og öðrum byggðum sunnar) og inn í Hafnarfjörð. Frá Vogum nefndist hún Almenningsleiðin, en frá Kúagerði nefndist hún Alfaraleið til Hafnarfjarðar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Gatan er hér gengin eftir endilöngum Vatnsleysustrandarhreppi frá Hæðinni við Voga og eins langt inn úr og hægt er. Frá vegamótum Vogar-Vatnsleysuströnd er stefna götunnar til norðausturs á Presthóla, tvo ílanga hóla sem ber við himin og liggur hún á milli þeirra. Vegna þess hve gatan er óljós að Presthólunum er best að staðsetja hólana frá Hæðinni áður en lagt er upp. Stekkjarholt er rétt neðan Neðra-Presthóls en Brunnastaðalangholt suðaustan við þá.
Vegurinn var í eina tíð vel varðaður og enn má sjá vörðubrot á þessum fyrsta hluta leiðarinnar með tiltölulega stuttu millibili ef vel er að gáð. Fólk ætti að huga að því ef það er óvisst um götuna, en veit nokkurn veginn stefnuna að undantekningalítið má finna hana aftur við hóla þar sem eitthvert graslendi er og á það sama við um flestar gamlar götur sem liggja að hluta um grjótmela og moldarflög.
Á milli Presthólanna er gatan djúp og augljós og skammt austan þeirra sjást hófför í klöppum. Frá hólunum liggur leiðin svo í stefnu á Arnarbælið sem er að margra mati stærsti og fallegasti hóllinn í heiðinni. Gatan liggur fast við hólinn að ofanverðu og er mjög greinileg þar. Arnarbælið er grasi vaxið og ágætur áningarstaður fyrir göngufólk en vatn er þar ekkert frekar en annars staðar á þessum slóðum. Frá Arnarbæli til Breiðagerðis er vegurinn mjög óljós og að mestu óvarðaður svo erfitt getur verið að rekja hann síðasta spölinn niður í Breiðagerði.
Ofan Breiðagerðis þar sem Gamlivegur og núverandi Strandarvegur koma saman má sjá vísi að vegagerð fyrri tíma, þ.e. flórlagða götu sem stundum var nefnd Hestaslóðin og gæti verið að sú slóð hafi verið lögð ofan á Almenningsveginn. Gott er að fylgja Hestaslóðinni inn á móts við Kálfatjarnarafleggjarann.

Almenningsvegur

Á Almenningsvegi.

Á köflum allt inn að Prestsvörðu sem stendur rétt ofan og austan afleggjarans að kirkjunni er gatan grjótfyllt milli klappa, þ.e. flórlögð svæði sem nú eru mosagróin að mestu.
Austan vörðunnar hækkar landið dálítið og þar heitir Hæðin. Frá götunni á þessum slóðum sjáum við annað veifið í Staðarborgina, stóra grjóthlaðna fjárborg í Kálfartjarnarheiði. Á leiðinni upp hæðina er hætta á að tapa götunni endrum og sinnum enda engar vörður sjáanlegar sem gætu vísað veginn. Neðan við Strandarveginn innst á Hæðinni er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson útgerðarmannn á Stóru-Vatnsleysu (f.1838). Varðan var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og syni hans Magnúsi. Á stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða. Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegurinn og liggur hún neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu og að Kálfatjörn og hefur líklega verið meira notuð af heimafólki en hinum almenna vegfarenda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar, norðan undir nyrðri hólnum er Borgarkotsstekkur.
Þegar komið er upp á Hæðina er auðvelt að rekja sig eftir götunni sem liðast á milli hóla skammt ofan Strandarvegarins. Innri hæðin á þessum slóðum heitir Tvívörðuhæð og gengur Strandarvegurinn í gegn um hana en dálítill slakki skilur á milli hæðanna tveggja.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Haldið er áfram eftir Almenningsveginum og rétt austan Tvívörðuhæðar er Arnarvarða. Varðan sjálf er nú grjóthrúga en hóllinn sker sig nokkuð úr umhverfinu og liggur djúp gatan fast við hann að norðanverðu. Nær bílveginum er Tvívörðuhóll og lítill stekkur vestan undir honum.
Frá Arnarvörðu er vítt útsýni yfir heiðina og niður til Strandarinnar. Upp undir Reykjanesbraut sjást Hafnhólarnir tveir, Litli- og Stóri-, er sá síðarnefndi í stefnu á Keili séður frá Arnarvörðu. Nær er svo nokkur hæð sem heitir Þorsteinsskáli, er hún í stefnu á Þorbjarnarfell við Grindavík. Suðvestan Þorsteinsskála sést Staðarborgin á sléttlendi. Rétt sunnan við Arnarvörðu er langur klapparhryggur sem heitir Löngubrekkur.
Nú hallar undan fæti og gatan er augljós austur af Arnarvörðu. Á móts við gamla Flekkuvíkurafleggjarann liggur Almenningsvegurinn um 50 m fyrir ofan Strandarveginn, þar er lítið grjótbyrgi sem hlaðið hefur verið við veginn. Á þessum slóðum, rétt ofan hans, er gömul vegagerð sem heitir Eiríksvegur og liggur hann frá Kúagerði og endar í Flekkurvíkurheiðinni. Við breikkun Reykjanesbrautar færðist Strandarvegurinn ofar í heiðina með tilheyrandi hringtorgi að brautinni en þessi lýsing miðar við Strandarveginn eins og hann lá fyrir breytingarnar, enda sér móta vel fyrir honum austan við gamla veginn ofan við Vatnsleysuströnd.
Stuttu innan grjótbyrgisins er farið yfir Hrafnagjá, þrönga misgengissprungu sem gengur niður um tún Stóru Vatnsleysu og í sjó fram. Rétt vestan gjárinnar og neðan Eiríksvegar er komið að Vatnsleysustekk. Á þessum slóðum er erfitt að fylgja götunni og virðist sem Eiríksvegur liggi yfir hana á köflum. Ofan vegar við Stóru Vatnsleysu er túnblettur og ofan hans liggur Eiríksvegur og Almenningsvegurinn hlið við hlið.

Almenningsvegur

Almenningsvegur við Arnarvörðu.

Nú hallar aðeins undan fæti og slóðinn nálgast Strandveginn aftur og þar hverfur hann og Eiríksvegur undir afleggjarann að rafstöð fiskeldisstöðvarinnar við Vatnsleysu. Innar, á móts við Steinkeravík (Stekkjarvík), sem er austan stöðvarinnar liggja vegirnir þrír þétt hlið við hlið og er Almenningsvegurinn í miðjunni.
Fagurhóll heitir hóll niður við sjóinn innan víkurinnar og á móts við hann liggja vegirnir tveir undir Strandarveginn, Almenningsvegurinn þó aðeins innar. Áfram er haldið veginn um Akurgerðisbakka en sjórinn hefur sýnt bökkunum töluverðan ágang og næst Afstapahrauninu hverfur hann undir malarkamb en kemur svo aftur í ljós í Kúagerði. Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar um kring. Þarna liggur Almenningsvegurinn fast við fjörukambinn og myndar nokkuð grasi gróna rönd, kögraða hraungrýti, en þegar komið er að tjörninni hverfur gatan undir umrótið sem varð við byggingu Reykjanesbrautar.

Næst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjar (þetta getur hafa breyst við breikkun brautarinnar. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Þá er gengið um Draugakróka.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (sumarhús á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni um Hvaleyri og til Hafnarfjarðar.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp fyrir Vestriháls og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum og Bala austan undir Núpshlíðarhálsi.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur. Her er hann sagður 12 km, en er allst 21 km.

Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi verið gata.
Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa vestan undir allháum hól.
Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól, löngum hól, söðulbökuðum (þ.a. lægstum um miðjuna). Hóllinn er rétt ofan við miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól sem nefnist Kolgrafarholt skammt ofan Reykjanesbrautar, en það dregur nafn sitt af tveimur djúpum, grasigrónum bollum sunnanvert í holtinu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Undir Kolgrafarholti austanverðu eru tóftir af sauðabyrgi frá Þórustöðum, þar var áningarstaður á leið í fjallið á haustin um Þórustaðastíg. Liggur gatan meðfram Kolgrafarholti norðaustanmegin. Frá Kolgrafarholti er stefna götunnar austan Sýrholts sem er allmikil hæð í heiðinni og liggur slóðinn þar sem lægst er á milli holtsins og Flekkuvíkursels en það stendur nokkuð fyrir neðan Grindarvíkurgjá. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f. 1858 kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.”

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur um Núpshlíðarháls.

Einiberjahóll heitir stór hóll skammt neðan Grindavíkurgjár og liggur stígurinn spölkorn vestan hans. Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Yfir gjána liggur stígurinn svo milli tveggja þúfna sem standa á vesturbarmi hennar en hærri bergveggurinn snýr til fjalla.
Þegar komið er upp fyrir Grindavíkurgjá er farið sem leið liggur í stefnu norðan til við Keili. Ofarlega í heiðinni liggur gatan vestan við stóran hól sem heitir Kolhóll. Stór skál er ofan í miðjan hólinn og eftir nafninu að dæma mætti halda að þar hafi verið kolavinnsla. Áfram liggur svo leiðin að norðurhorni Hrafnafells (Móbergsstapa rétt við Keili að norðanverðu) og síðan fram með því og að Keili. Frá þessu svæði liggur síðan Höskuldarvallarstígur yfir hraunið að Oddafelli.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Þórustaðastígurinn liggur áfram frá Hrafnafelli og er stefnan í suðaustur að Melhól en hann er spöl ofan Keilis við hraunjaðarinn að Driffelli. Fyrsti spölurinn er um brunakarga, stuttan veg, en svo eru sléttar klappir að fellinu. Stígurinn liggur síðan í sveig með Driffellinu að austanverðu og svo suður með því drjúgan spöl.
Þegar komið er á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla liggur leiðin yfir hraunhaft í stefnu fast sunnan við gíghólinn. Upp frá völlunum liggur gatan síðan upp gilið andspænis gígnum og þegar komið er upp á fjallið sveigir slóðin til suðurs.
Niður á túnið á Vigdísarvöllum er svo farið um skarðið vestan við Bæjarhálsinn og við gömlu reitina.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Stapagata

Gömlu þjóðleiðinni milli Voga og Innri-Njarðvíkur var fylgt til vesturs. Þrátt fyrir skiptingu gömlu hreppanna við Innri-Skor á miðjum Stapanum, eða Kvíguvogastapa eins og hann var einnig nefndur, voru þeir einn og sami hreppurinn um skeið. Gangan hófst við íþróttahúsið í Vogum, hinu nýborna sveitarfélagi.

Jón Mar Guðmundsson og Margrét Ásgeirsdóttir, sem voru með í för, sýndu nýverðlaunaðan garð sinn við Aragerði 17. Garðurinn er látlaus og smekklega hannaður með snyrtilegum og vel hirtum gróðri. Í honum fari vel saman grasflatir, pallar og grjót með fallegri umgjörð trjáa. Húsinu og garðinum hafi verið haldið við af natni í fjölda ára og eignin ávalt verið til stakrar prýði.
Eftir að Vogunum sleppti var gengið upp á Stapann um Reiðskarð. Ofan þess liðast gamla gatan tvískipt uns hún sameinast á ný. Kvennagönguskarðsleiðin kemur inn á hana ofan brúnar. Gatan er augljós upp að Grímshól, þaðan verður hún vandséðari í móanum, en sést þó. Lúpína er sums staðar í götunni sem og annar lággróður. Ofan við Innri-Skor fer gatan undir gamla Keflavíkurveginn frá 1912. Skammt vestar sést gatan vel þar sem hún liggur svo til beint upp brekkuna vestan Innri-Skoru. Eftir það er tiltölulega auðvelt að fylgja henni. Á smá kafla rofnar hún vegna seinni tíma ræktunar og vegagerðar að fyrrum ruslahaugum er voru undir brún bjargsins frá stríðsárunum og fram á fyrri hluta sjöunda áratugar 20. aldar. Þá hafa verið sett niður trönusvæði þvert á götuna, en handan þess er gatan einstaklega falleg á kafla áleiðis niður að Stapakoti. Skammt austan túngarðanna skiptist gatan í þrennt, en nyrsti hluti hennar liggur niður að görðum Stapakots og með þeim til vesturs. Þegar síðasta spottanum er fylgt með garðinum má sjá hvar gatan hefur legið áfram – þar sem nú hefur verið byggt hús þvert á hana. Líklegt má telja að þar kunni að vera reimt, einkum að næturlagi.
Gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur er framhald gömlu þjóðleiðarinnar (Almenningsvegarins/Alfaraleiðarinnar) sem lá frá Hafnarfirði og suður úr. Þessi hluti leiðarinnar hefur í seinni tíð verið nefnd Stapagatan. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur.
Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennileg sveit. Hún er löng og mjó, um 15 km á lengd og 10 km á breidd. Þar er ekkert rennandi vatn, því hraunið gleypir allt rigningarvatn og leysingarvatn. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni en þó sundurslitin. Hver einasti bóndi hér áður fyrr var útvegsbóndi og áttu þeir mismargar fleytur. Margir bændur voru framfarasinnaðir og urður brautryðjendur á ýmsan hátt, sem sést best á því að það var bóndi í Vogum sem keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Það var bóndi á Vatnsleysuströnd sem hreyfði því fyrstur manna að friða skyldi Faxaflóa fyrir erlendum veiðiskipum. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fyrstur kenndi mönnum að veiða síld og nota hana til beitu. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fór til Noregs, aflaði sér þekkingar sem varð til hagsbóta fyrir útgerð við Faxaflóa.
Vogar við Vatnsleysuströnd er kauptún og stendur við Vogavík, innan Vogastapa. Íbúar í Vogum og Vatnsleysuströnd eru um 1000. Staðurinn kemur við sögu þegar á landnámsöld. Fyrsti bærinn hét Kvíguvogar. Það nafn týndist en jörðin Stóru-Vogar var höfuðból um aldir og fylgdu því mörg smábýli. Á fyrri öldum var hálfkirkja í Vogum en höfuðkirkja sveitarinnar var á Kálfatjörn og er svo enn.
Gott þótti undir bú í Vogum og miklir hagar voru á Strandarheiði, ofan byggðarinnar, sem og víðar. Þá stunduðu Vogamenn mjög útræði og var stutt að sækja á fengsæl mið. Um miðja 19. öld hófu verslanir að senda skip á Vogavík til að taka fisk. Var þá reist fiskhús á hólma við sunnanverða víkina. Upp úr 1870 stofnuðu bændur á Vatnsleysuströnd verslunarfélag með bændum á Álftanesi og fjölgaði þá ferðum fisktökuskipa á Vogavík. Víkin var löggilt sem verslunarhöfn árið 1893, þótt hafnarskilyrði þættu þar löngum fremur erfið. Um aldur notuðust sjómenn við áraskip í Vogum og síðar trillur, en árið 1930 hófu heimamenn þar útgerð vélbáta. Var þá gerð þar stöplabryggja og reist fiskhús. Árið 1942 var byggt þar fyrsta frystihúsið og einnig miklar hafnarbætur upp úr því.
Gengið var milli Síkisins og Síkistjarnar, framhjá hesthúsum Vogabúa, framhjá „laxahrognaræktarhúsum“ Stokkfisks og að Vogastapa innan Vogavíkur. Milli þeirra og sjávar er varnargarður, sem hlaðist hefur upp með aðstoð melgresissáningar. Þorvaldur Örn Árnason, sem einnig var með í för, sagði frá því ap það hafi verið kona í Vogunum, sem byrjaði á því ásamt börnum sínum að sá þarna fræjum með þeim árangri að upp hlóðust smám saman hinir ágætustu varnargarðar sem falla vel inn í umhverfið.
Hæsti hluti Stapans austan Reiðskarðs heitir Fálkaþúfa en suður af þúfunni eru Lyngbrekkur. Víða má sjá fallegar hundaþúfur (fuglaþúfur) á hraunhólum er setja svip sinn á landslagið neðan og innan við Stapann.
Gamla gatan liggur upp hlíðina um skarð sem heitir Reiðskarð en þar er hún hlaðin upp að hluta og er ytri vegkanturinn nokkuð hár og hleðslan þar bæði falleg og heilleg. Þessi efsti hluti vegarins var gerður árið 1904. Veittur var 45 kr. styrkur til úrbóta á götustæðinu og þá efsti hlykkurinn tekinn af. Peningarnir entust ekki lengur en raun bar vitni. Samsskonar úrbætur, þó á legri kafla, má sjá þar sem hallar niður að Innri-Njarðvík. Þar hefur einnig hlykkur verið tekinnn af götunni og hlaðinn upp bein braut í staðinn.
Í Árbók FÍ 1936 fjallar Bjarni Sæmundsson um „Suðurkjálkann“. Þars egir hann m.a. um Vogavík: „Á Vogavík er all-gott skipalægi og voru þangað töluverðar siglingar á fyrra hluta síðustu aldar, meðan fiskur gekk á vetrarvertíðinni „undir Stapann“ og þorskanetabrúkunin var í algleymingi. Þá var „saltanlegg“ og fisktaka „á Hólmanum“, smáhólma innst í víkinni, en nú er það allt horfið fyrir löngu og kyrrð yfir Vogunum“.
Reiðskarð er fyrsta skarðið af fjórum á austurhluta Stapans. Hin eru Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Urðarskarð í þessari röð til vesturs. Upp úr Reiðskarði er gatan djúp og sendin með miklum grjótruðningum til beggja handa. Í skarðinu vex töluvert af Gullkolli en það er sjaldgæf jurt á þessu svæði. Landið hækkar örlítið þegar komið er upp á Stapann. Eftir stutta göngu sjáum við miklar grjóthleðslur á milli götunnar og Gamla-Keflavíkurvegarins. Þar var svonefndur „hreppsgarður,“ einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19. aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Sáralítill jarðvegur er nú innan hleðslanna. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan í löngum hjalla sem kallaður er Kálgarðsbjalli.
Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn lýsti þessum hluta leiðarinnar eftirfarandi: „Sunnan við Vogana liggur vegurinn um svonefnt Reiðskarð upp á Vogastapa, sem áður hét Kvíguvogabjarg. Vegurinn upp skarðið var brattur, en ekki langur. Reiðskarð mun heita svo af því að það var eina leiðin með hesta upp á Stapann. Gönguleiðir voru um Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Rauðastíg, sem þótti illfært en var þá stundum farinn um fjöru til að stytta sér leiðina um Vogasand, því að fjöruborð er þarna allmikið. Undir Stapanum stóðu bæirnir Brekka og Stapabúð. Á þeim – og syðstu bæjunum í Vogunum, Suðurkoti og Bræðraparti, var fyrrum talsverð gestnauð og mikil gestrisni.“
Gengið var upp Reiðskarð austast á Vogastapa með útsýni yfir Hólmabúð, Brekku, Stapabúð og Vogavík. Rifjuð var upp sagan af huldukonunni með kúna er hvarf sjónum vegfaranda efst í þokukenndu skarðinu. Stapagötunni var fylgt að Grímshól, en þar segir þjóðsagan að vermaður hafi gengið í hólinn og róið með hólsbónda, huldumanni. Gamla Grindavíkurveginum var fylgt til suðurs niður Selbrekkur að Selvatni (Seltjörn), kíkt á Njarðavíkursel og þaðan gengið til norðausturs með Háabjalla.
Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól, Stapagatan. Neðan við skarðið er hlaðið undir nýjasta vegstæðið, en gamla leiðin, eða öllu heldur gömlu leiðirnar, lágu í hlykkjum efst í því. Í þeirri nýrri hafa myndast háir ruðningar beggja vegna.
Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana. Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Koman er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.
Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir hún sér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Gengið var yfir að Brekkuskarði og litið yfir bæjarstæðið undir Stapanum sem og Hólmabúðir. Sjá má móta fyrir minjum í hólmanum. Austan við hann hvílir gamall innrásarprammi, sem notaður var við hafnargerð, en rak síðan þarna upp og hefur verið síðan. Lágsjávað var svo leirurnar í Vogavíkinni iðuðu af fugli.
Vogastapi (80m) hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi og er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó fram. Uppi á Grímshóli, hæsta stað Stapans, er útsýnisskífa og útsýni gott á góðum degi.
Reykjanesbraut liggur um undirhlíðar Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Fyrrum fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg. Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. (Atburðir á Stapa eftir Jón Dan).
Fiskislóðin Gullskista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á þessum miðum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli.
Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúðin, sem kennd var við hólmann skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes, þar sem fyrirtækið er enn í dag.
Fjallamið voru tekin af útsýnisskífunni. Á hólnum hefur einhvern tímann verið mannvirki og mótar enn fyrir því. Gerði hefur og verið við götuna sunnan í hólnum, en búið er að fjarlægja mesta af grjótinu. Sennilega hefur hluti þess verið notað utan um bragga, sem staðið hefur suðvestan við hólinn. Hleðslan sést enn.
Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og reri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðina.
Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn reri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann að hann reri einhvers staðar þar sem hann aflaði vel.
Af Grímshól má vel sjá gamla Keflavíkurveginn liðast upp Stapann sunnanverðan. Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Steypustykki neðan Reiðskarðs er m.a. leifar af því, þ.e. frárennsli þess.
Bjarni Sæmundsson segir í lýsingu sinni m.a. um Stapann: „Gamli vegurinn á Stapanum var niðurgrafinn og grýttur, enda þótt ekki væri um hraun að ræða, einn versti vegurinn á Suðurkjálkanum í vætutíð og snjókomm (og er þá mikið sagt). Urðu menn all-oft þar úti í hríðarbyljum, villtust og hröpuðu fyrir björgin – í sjóinn, eða urðu til við veginn, eins og kom líka fyirr á öðrum vegum þar syðra og má vera að Keflavíkurbrennivínið hafi stundum átt sökina á þessu og eins á því, að ekki þótti ætlið „hreint“ við þessa vegi, einkum í skammdeginu, og hefir ekki verið laust við, að borið hafi á reimleika á Stapanum í seinni tíð, jafnvel eftir að bílarnir fóru aðganga. Ýmsir menn, jafnvel hugprúðir bílstjórar, segjast hafa séð þenna 20. aldar Stapadraug, sem fólk hefir jafnvel getað nafngreint, en lítið hefir hann gert af sér, nema ef hann skyldi einhvern tíma hafa sprengt slöngu fyrir einhverjum bílstjóra, sem honum hefir verið í nöp við. Annars var hann sagður vel kurteis, tók jafnvel ofan (höfuðið náttúrulega) fyrir framhjá þjótandi bíl“.
Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og tóttir þess húss standa enn þá. Sjá má þær í suðvestri. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól sem er hæsti hluti Stapans (74m). Á Grímshól er útsýnisskífa. Af Grímshól er gott útsýni yfir Faxaflóa og fjöllin í kring. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.
Í Lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar 1840 eftir síra Pétur Jónsson að „nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistuheiti af því mikla fiskiríi er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt undir upp undir í útilegum á nóttum“.
Í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon landfógeta, segir af fiskveiðum. „En bezt eru þau undan Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á 3 faðma dýpi; tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, er dimmt er, Þarna hafa fiskveiðarnar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa veruð tekin í notkun“.
Nú lækkar landið vestur af Grímshól og hér liggur gatan rétt sjávarmegin við Gamla-Keflavíkurveginn. Á móts við þar sem akvegurinn liggur yfir götuna eru landamörk Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar í viki sem gengur inn í Stapann og er ýmist nefnt Grynnri-Skor eða Innri-Skor. Þegar komið er nokkuð vestur fyrir Grynnri-Skor er landið aflíðandi til vesturs og freystandi að skreppa út af götunni og ganga með bjargbrúninni en fara þarf varlega. Gróðurinn er mjög fjölbreytilegur á þessu svæði.
Ofan Innri-Skor er Brúnavarðan. Önnur varða, Kolbeinsvarða er/var landamerkjavarða ofan við Kolbeinsskor. Hún er sögð hafa verið ofan Innri-Skor. Varðan er fallin og nú gróið yfir hana vestan Skorinnar. Önnur slík er innar á heiðinni. Ólafur (blindi) frá Knarrarnesi man eftir henni. Hún stóð þá bærði há og breið. Síðan tóku „bryggjuframkvæmdarmenn“ hana að mestu og settu undir bryggjuna í Vogum. Þar með minnkuðu þeir efri mörk Vogalands allnokkuð. Að sönnu ættu bæði austustu „listaverk“ Áka Grënz (steintröllin) og „Reykjanesshollywoodskiltið“ að vera hvorutveggja innan landamerkja Vogabæjar.
Hér koma m.a. úrdrættir úr þemur þinglýstum landamerkjabréfum. Tvö eru nokkuð samhljóma, en það þriðja ekki. Fyrst Innra-Njarðvíkurhverfi og Vogar I-226-27 dags. 25/6 1889, þinglýst 16/6 1890 – …“Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðan, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjár,“… Þá Stóru- og Minni-Vogar I-219-20, dags.23/5 1890, þinglýst 16/6 1890 (sjá og H-56 og Imb.37-41). …“Vestan og sunnan frá herjanssæti (?Kerjansfæti sbr.H-56 eða Kerjanssæti??), eða úr uppgöngunum úr Kolbeinsskoru, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan í klett er stendur norðan vert við Litlaskógfell“…
Loks úrdráttur úr þinglýstri lýsingu Jóns Daníelssonar eiganda Stóru-Voga -Stóru- og Minni-vogar H-56, lýsing Jóns Daníelssonar eiganda Stóruvoga, dags.20/8 1840, þinglýst 14/6 1887. …“Vestan og sunnan: Frá Kerjansfæti, eður úr upp—Kolskoru, suður til Mörguvarða á gamla Stapavegi, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan—nyrðri—á Litla-Skógfelli.“…
Í landamerkjabréfunum er hvergi talað um Kolbeinsvörðu. Sú varða er engu að síður til. Brúnavarðan (sumir vilja meina að það sé Kolbeinsvarða) rétt ofan við gamla Keflavíkurveginn þar sem hann liggur við Innri-Skoru er mið af sjó. Þegar varðan ber í Stapafell er komið út fyrir brún, (hraunbrún) nánar tiltekið út í leirinn þar sem varla bregst ýsudráttur. Það hafa sjómenn margreint og gefist vel. Innriskora, Grynnri-Skor, Kolbeinsskora og Kolskora eru fjögur heiti á sama stað.
Næst verður fyrir Dýpri-Skor eða Ytri-Skor en þar fyrir ofan voru áður ruslahaugar Suðurnesja og sjást enn skýr merki um þá. Rétt vestan við Ytri-Skor standa leifar af fiskihjöllum og liggur gatan um það svæði. Gömul og grasi gróin fjárborg stendur nokkuð hátt, líkt og hóll, rétt við Gamla-Keflavíkurveginn og austan hesthúsahverfis Njarðvíkinga.
Norðan af henni hallar undan. Í hallanum er vel gróið. Þar má sjá móta fyrir þrískiptum grónum tóftum og líklega stekk. Tóftirnar benda til að þarna kynni að hafa verið selstaða. Afstaða þeirra bendir og til þess. Þó er ekki útilokað að um hafi verið að ræða mannvirki til nota í öðrum tilgangi.
Í Örnefnalýsingu er minnst á Narfakotsborg á þessum slóðum. Enginn hefur hins vegar, hingað til a.m.k., getað bent á þá borg. Grænuborgar er aftur á móti ekki getið í örnefnalýsingu, s.s. Guðmundar A. Finnbogasonar frá 1961. Ekki heldur í annarri örnefnalýsingu frá Njarðvíkum, Ingimars Einarssonar frá árinu 1970. Borgin er mjög áberandi kennileiti og augljóst mannvirki svo hennar hlýtur að hafa verið minnst í slíkum lýsingum.
Grunur er um að hér kunni að hafa orðið einhver nafnavíxl, þ.e. að Grænaborg sé fyrrgreind Narfakotsborg. Ef svo er þá hefur selstaðan hugsanlega getað verið frá Narfakoti því Njarðvíkurbærinn hafði selstöðu við Selvatn (Seltjörn). Sjást tóftir þess enn. Narfakot var byggt úr Njarðvíkurjörðinni, en varð sérstakt býli frá því um 1600.
Þarna er Stapagatan sérstaklega falleg þar sem hún liðast niður móana. Hefur hún verið endurbyggð á kafla svo hægt hafi verið að fara með vagn um hana.
Utan við Ytri-Skor er Svartiskúti undir bjarginu. Þegar Stapinn lækkar hvað mest er Sigurðarsteinn, klöpp frammi við sjó. Gömul saga segir að maður að nafni Sigurður hafi ekki fengið skipspláss og þá tekið á það ráð að renna færi fram af steininum. Aflaði hann engu minna en aðrir þá vertíðina.
Tvær vörður er þar vestur af, Álabrúnavörður. Þær voru mið á fiskislóð, Álbrún, ein af nokkrum utan við Stapann.
Samkvæmt örnefnalýsingu kallast Njarðvíkurbrún þar sem hraunið og leirinn mætast. Miðin þar eru: Brúnarhnúkur suðvestur af Keili kemur fram fyrir Grímshólshæð nærri hraunbrún fram úr miðri Njarðvíkinni að vestan og út af Kópu að austan. Klettsmið eða Klettsslóð fram í leirnum var kallað, er Súla bar í Gálgakletta. Njarðvíkurbrún var kölluð, þegar Súla bar í Njarðvík og Kirkjubrún er Súla bar í kirkjuna; Narfakotsbrún, er Súla bar í Narfakot. Skoruleir var kallaður undir Stapanum út frá og milli Ytri- og Innri-Skor. Voru þessi mið oft mjög fiskisæl, er netafiskur gekk hér á grunnið.
Þar skammt vestar er smáklettanes, fremst á því er stór klettur, sem nefndur er Grákjaftur. Þar fyrir suðaustan er vík, sem heitir Kópa. Við botn hennar að vestanverðu er Stapakotsvör og var stundaður sjór þaðan allt fram til 1930. Fyrir botni Kópu er hár malarkampur allt að Stapaenda, en hann myndar víkina að austanverðu.
Bærinn sem stendur næst Stapanum af húsunum í Innri-Njarðvík heitir Stapakot. Skammt utan við Stapakot er Innri-Njarðvíkurkirkja.
Gamla gatan liggur áfram til vesturs ofan túngarðs Stapakots uns hún hverfur undir eina af hinum nýju lóðum, sem þar eru. Það er í raun kauðslegt af hálfu skipulagsyfirvalda í núverandi Reykjanesbæ að leyfa byggingu íbúðar á hinni gömlu þjóðleið, sem er svo augsjánleg í landslaginu. Skynsamlegra hefði verið að gera þar ráð fyrir göngustíg millum húsa og sýna þannig hinni fornu leið milli byggðalaga tilhlýðilega virðingu.
Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík. Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðasta hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríkukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Að lokum vísa eftir Guðmund A. Finnbogason:
Tímarnir breytast og mennirnir með,
margt hefur gengið úr skorðum.
En halda skal í það, er hefir þó skeð
og hugsuðu kynslóðir forðum.

Heimildir m.a.:
-www.vogar.is
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, 1995.
-Erlendur Magnússon – Kálfatjörn (1892-1975).
-Árni Óla, „Strönd og Vogar“, Bókaútgáfa Menningarsjóðs í Reykjavík 1961.
-Guðmundur M. Björgvinsson, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, 1987.
-Árbók FÍ 1936 – Suðurkjálkinn eftir Bjarna Sæmundsson, bls. 30.
-Lýsing Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar 1840 eftir síra Pétur Jónsson.
-Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu – verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon landfógeta – Landnám Ingólfs 1935-36.
-Örnefnaskrár fyrir Innri-Njarðvík 1961 og 1970.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning, Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Landamerkjabréf Innri-Njarðvíkur og Voga.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Keilir

Erlendur Magnússon, fyrrum bóndi Kálfatjörn, var fróður maður langt út fyrir sína sveit. Magnús Ágústsson frá Halakoti sagði Erlend hafa verið menntaðan mann þótt hann hafi ekki verið menntamaður.
Magnús Jónsson, fv. minjavörður í Hafnarfirði (frá Litlabæ), lýsti einhverju sinni næsta umhverfi Kálfatjarnar og þá Ólafur ErlendssonErlendi um leið: „Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“
Norðurkot Sigrún Jónsdóttir, leiðsögumaður og mikil áhugakona um svæðið, lýsti nærtækustu staðháttum að Kálfatjörn á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju árið 2006: „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881.
Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti 1998, sem fyrr sagði.“
Eftirfarandi skrif um Vatnsleysuströndina eru úr óbirtu handriti Erlendar Magnússonar. Þau lýsa vel áhuga hans og viðhorfi til Strandarinnar:
Kálfatjörn „Vatnsleysuströnd liggur frá Keilisnesi að innan og að Vogastapa að sunnan, en Vatnsleysustrandarhreppur nær frá Hvassahrauni og að Vogastapa og er 16 km langur. (Á) Vogavík er allgóð höfn. Ingólfur Arnarson landnámsmaður gaf Steinunni frænku sinni þetta land alt sem nú er Vatnsleysustrandarhreppur, en hún gaf honum fyrir heklu bláa og kvað kaup skildi heita og sagði að síður myndi rift verða. Hún bjó að Hvassahrauni. Á seinni hluta 19. aldar mun hreppurinn hafa verið fólksflestur eða um 700 manns. Var þá sjávarútvegur í blóma sem jafnan hefur verið aðalatvinnuvegur hreppsbúa og sóttu þangað menn til róðra úr nærliggjandi héruðum allt norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Nú eru rúm 310 manns í hreppnum og sjávarútvegur minni en landbúnaður meiri en var. Gengur nú bíll með mjólk til Reykjavíkur, einnig egg og jarðarávöxt. Alifuglarækt er töluverð og garðrækt mikil. Landið er erfitt til notkunar, utantúns skiftast á móar og grýtt moldarflög með berum klöppum á milli. Sauðfjárbeit er allgóð í heiðinni er nær til fjalls og kölluð er Strandarheiði. Er það gamalt hraun sem er gróið upp en víða blásið aftur. Hvergi er skógargróður nema lítið eitt í Vogaheiði sem liggur upp af Vogunum, en lynggróður og mosagróður er mikill. Gjár eru margar og slæmar (djúpar) í heiðinni og er hún því ill yfirferðar þeim sem ókunnugir eru. Helstu gjárnar eru Hrafnagjá, Klifgjá og Grindarvíkurgjá. Efst í landi Strandarinnar (Kálfatjarnarlandi) er Keilir – hann er leiðarvísir á miðum við sunnanverðan Faxaflóa. Útgerðin er mest á opnum vélbátum (trillum), einnig altaf eitthvað á mótorbátum. Úti fyrir landi eru víða mikil sker og lendingar slæmar.
BakkiByggðin er öll með sjónum og mest syðst. Skiftist hún í hverfi. Flest yngri húsin eru úr steinsteypu, en hin eldri úr timbri. Kálfatjarnarhúsið er elsta húsið – er það nú um 100 ára. Kirkjustaðurinn er á Kálfatjörn og var prestssetur til 1920 að það var lagt til Garða á Álftanesi. Síðasti prestur var séra Árni Þorsteinsson, klerkur góður. Næstur á undan honum var sálmaskáldið séra Stefán Thorarensen. Hann stofnaði barnaskóla á Ströndinni 1860 og var það með fyrstu barnaskólum á landinu. Margt góðra manna hefur verið á Ströndinni og margir nýtir menn komið þaðan, einkum sjómenn (og skipstjórar) eins og t.d. Einar Stefánsson, skipsstjóri á Dettifossi, og Jón Bjarnason, vélstjóri á Gullfoss, enda hafa Strandaringar verið orðlagðir sjómenn og fiskimenn. Í Reykjavík eru margir handiðnaðarmenn fæddir og uppaldir á Ströndinni. (2 eru nú við nám í Háskóla Íslands). Félagskapur er talsverður á Ströndinni. Þar eru meðal annars: Kristniboðsfélag kvenna, Kvennfélag, Barnastúka, Ungmennafélag, Góðtemplarastúka, lestrarfélag ágætt, Búnaðarfélag, Útgerðarfélag og fleiri.
Engar ár eða lækir eru á Ströndinni, en vatn er þar nóg núorðið, því djúpir brunnar hafa verið grafnir en áður verið vont með vatn sem nafn sveitarinnar bendir til. Útsýni af Ströndinni er fagurt og sjóndeildarhringurinn víður. Fjallgarðar Reykjaness og Snæfellsness blasa við bryddir geislaskrúði morgunsólarinnar og kvöldsólarinnar – og óvíða mun fegurra sólarlag en á ströndinni.“
Erlendur Magnússon lýsti í skrifum sínum bæði búskapar- og atvinnuháttum á Ströndinni, gömlum þjóðleiðum og öðru því sem þá hefur þótt nokkuð hversdagslegt, en verður nú að teljast stórmerkilegt.

Sólsetur

Sólsetur á Vatnsleysuströnd.

Kálfatjörn

Eftirfarandi, „Suður með sjó„, er byggt á óbirtu handriti er Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892) skyldi eftir sig. Um er að ræða handrit á stílabókarblöðum er urðu eftir undir berum himni er eyðibýlið Norðurkot var flutt með nútímatækjum yfir að Kálfatjörn. (Svo virðist sem að hér sé um að ræða erindi, sem Erlendur hélt af gefnu tilefni um leiðina milli Innnesja og Útnesja (Reykjavíkur og Njarðvíkur).
BrunnurÁrtalsins er ekki getið, en Erlendur, sem manna fróðastur var um Kálfatjörn og nágrenni, lést árið 1975). Norðurkot var einn fyrsti barnaskólinn á Vatnsleysuströnd (næst á eftir Brunnastaðaskóla) og þar var Erlendur kennari um skeið. Eftir að skólinn lagðist af sem og ábúðin á jörðinni var þar innan dyra safnað saman ýmsum persónulegum munum og minjum fólksins, sem hafði búið á svæðinu. Ekki virðist hafa verið lögð rækt við varðveislu þessa því vindur, vatn og vegfarendur áttu greiða leið að gögnunum. Sumt var borið á aðra bæi, en sumt annað varðveitt á staðnum.
FERLIR kom stílabókinni, að afritun lokinni, á sinn stað, en hvort einhver áhugasamur hefur fangað hana til frekari varðveislu skal ósagt látið. Áhugi „þarlendra“ á sögulegum og áþreifanlegum menningarverðmætum sínum virðist hafa verið takmarkaður – hingað til a.m.k.
(Eftirfarandi er endurritað sbr. handritað blaðsíðutal (1-11) ásamt athugasemdum, sem á það eru skráðar).

„Leiðin suður með sjó – þ.e. vegurinn frá Innnesjum til Suðurnesja, liggur hvorki um fjöll né fyrnindi. Í meir en 10 aldir var hún farin af ríðandi en þó fremur af gangandi fólki, og var ein af fjölförnustu leiðum landsins og á því sögu s.a.s. í hverju fótmáli. Enn þá á fólk heima suður með sjó – aldrei fleira en nú – kemur sunnan með sjó og fer suður með sjó. Ingólfur Arnarson lét ýmsa hafa af landnámi sínu til búsetu þ.á.m. Steinunni frændkonu sína í Hvassahrauni og allt land þar fyrir sunnan að hún greiddi með heklu flekkóttri og kvað kaup skyldu kallast. Árni Óla telur að Steinunn hafi búið í Hólmi í Leiru, en Eyvindi fóstra sínum og frænda gaf hún land frá Hvassahrauni að Vogastapa. Hann bjó að Stóru-Vogum. Hrolleifur í Heiðarbæ vildi hafa jarðabítti við Eyvind og skoraði hann á hólm er hann vildi ekki öðru vísi láta [merkt við]. Fluttist Eyvindur að Heiðarbæ og bjó þar lengi. Fluttist síðar suður á Nes og bjó á Bæjar(Býjar)skerjum.
Fjárskjól– Ketill Gufa kemur og við sögu Suðurnesja. Hann bjó skamman tíma á Gufuskálum í Leiru, en Steinunn í Hólmi þoldi hann ekki í nábýli við sig og kvað þar skyldu verstöð vera á Gufuskálum. Þaðan var stutt á fiskimið og gott á land að leggja fisk til herslu, (sem var algengasta verkunaraðferðin í þá daga).
Fljótlega verður fjölfarið austan úr sveitu og suður með sjó.  Skipti á land- og sjávarafurðum var fólkinu nauðsyn. Vorferðirnar voru aðallega um Jónsmessuleytið og hélst svo fram á 2. áratug þessarar aldar að austanbændur fjölmenntu þá suður með sjó með afurðir sínar og til kaupa á fisk[meti] í staðinn.
Skal nú lagt upp í ferð suður með sjó og ferðin hafi á Skólavörðuholtinu sem kennt er við vöröuna sem nú er horfin illu heilli. – Við höldum suður yfir Eskilhlíðina og ofan í Fossvog. Ef þetta er um lestirnar eru þarna mörg tjöld, margir ferðamenn með fjölda hesta, margir þeirra á leið suður með sjó, aðrir að koma þaðan. Þetta er góður áningarstaður, grasivaxinn dalur með straumlygnum læk með krystaltær[u] vatni til svölunar mönnum og málleysingjum.
Við förum yfir Kópavogshálsinn og síðan yfir Kópavogslækinn, sem ekki getur nú kallast vatnsfall, þótt allmikill geti hann orðið í leysingum eins og t.d. þegar börnin frá Hvammkoti drukknuðu og Matthías orti um sín [fögru] eftirmæli. Í stórstraumsflóðum fellur sjórinn langt upp í lækinn.
Nú tekur við Arnarneshálsinn, sem er lægri og styttri en Kópavogshálsinn. Sunnan við hann er Arnarneslækurinn sem rennur út í Skerjafjörð eins og fyrrnefndir lækir. Norðan við lækinn stóð bærinn Arnarnes, en sunnan við hann tóku við allstór mýri, sem nú er löngu ræktuð og að sumu leyti byggð eins og hálsarnir, sem báðir eru þéttsetnir húsum. Fyrrum var mikill mór tekinn upp í Arnarnesmýri, því þar var mótak allgott og nærtækt.

Gamla gatan

Í gamla daga voru stórar þúfur hlaðnar sem vörður við veginn [götuslóðann] sem lá eftir mýrinni endilangri. Komu þær sér oft vel fyrir vegfarendur. Syðst í mýrinni var Hraunsholtslækur, mjór en nokkuð niðurgrafinn og djúpur og því víðsjáll í myrkri a.m.k. fyrir ókunnuga. Þegar kemur yfir Hraunsholtið tekur við Garðahraun – nú oft nefnt Hafnarfjarðarhraun.
Yfir það liggur vegurinn niður í Hafnarfjörð þann eina með því nafni af landsins mörgu fjörðum og ber vissulega nafn með rentu. Þar er stutt sigling um og út og var það ómetanlegt hagræði á dögum seglskipanna. Inni í höfninni var hið bezta lægi, ágætur akkerisbotn, þéttur djúpur leirbotn. Hafnarfjörður var mikið notaður fyrir [vetrar]lægi á skútuöldinni.
Yfir hraunið lá vegurinn niður í plássið, slétt svæði undir háuum kambi hraunsins þar sem framrennsli þess hafði stanzað. Plássið liggur niður að höfninni. Þar var athafnasvæði ferðamanna, bæði af sjó og landi og þar kom fyrsta bátabryggja Hafnfirðinga – Brydesbryggjan. Nú hefur allt þetta svæði og suður fyrir læk verið fyllt upp og þar er nú umferðargata. Við það fór lending og smábátauppsátur margra Hafnfirðinga. Af plássinu lá vegurinn með sjóum eftir mölinni yfir lækinn – Hafnarfjarðarlækinn – sem var aðalvatnsból byggðarinnar og þar tóku skipin [sjómenn] vatn og fluttu á tunnum út í skipin.
Þótt lækurinn í Hafnarfirði sé ekki stór á hann samt merka sögu. Þar var reist fyrsta vatnsaflsrafstöð á Íslandi og timburverksmiðja af dugnaðariðjuhöldinum Jóhannesi Reykdal. Vegurinn lá svo yfir lækinn og ofan við mölina neðan við Hamarskot og svo skáhalt upp og suður yfir Hamarinn og niður hjá bænum Hellu og á mölina er þar tók við suður fyrir Flensborg. Malarsvæði þetta sem er botn fjarðarins var kallað Bankinn þótt þarna væri um langan aldur skipum lagt á þurrt til að hreinsa af þeim slí og annan gróður. Ofan við mölina var tjörn og umhverfis hana mýri. Þar var mótak. Einhverntíma hefur þar vaxið skógur. Það sýndu sverir lurkar sem komu upp úr mógröfunum.
Rétt sunnan við Flensborg komum við að litlum læk, Ásbúðarlæk. Eru þá talin vatnsföll á leiðinni frá Rvík suður með sjó.
Gamla Þegar yfir lækinn kemur, liggur vegurinn til suðurvesturs ofan við bæina Ós, oftast nefndur Óseyrarós, stundum Flensborgarós eða Ásbúðarós því upp af honum var býlið Ásbúð.
Beggja vegna við ósinn var uppsátur þeirra er heima áttu sunnan til í firðinum. Var þar alltaf margt báta. Í ósinn sjálfan voru á haustin sett þilskip, sem flutu vel inn í hann um flóð en voru svo rétt á þurru um fjöru. Þar var gert við þau eftir því sem þurfa þótti og aðstaða leyfði. Einn þeirra, sem að þeim smíðum vann var Óli norski – sérkennilegur [dugnaðar]karl, krypplingur og hafði kikinn herðakistil. Hann mun hafa verið skipstjóra lærður enda sagði hann stundum – Mig getur allt – til sjós og lands.
En höldum nú áfram suður með sjó – Vegur lá suðvestur með Óseyrartúni og meðfram Hvaleyrartjörn þar sem nú er skipasmíðastöðin Bátalón og yfir Hvaleyrina meðfram hinu fallega Hvaleyrartúni, yfir Hvaleyrarsand inn í Hellnahraunið þar sem nú er Sædýrasafnið. Þá er farið suður yfir suður yfir Kapelluhraun ofan við Hraunabæina og suður yfir Almenninginn svonefnda – þ.e. hraunið milli Hraunabæja og Hvassahrauns. Í Almenningi er mikið skógarkjarr. Þar var gert til koma áður fyrr og þar var rifið hrís og lyng til eldiviðar á Bessastöðum og víðar, margir hestburðir á ári hverju og var furða hvað það entist. Nú er Almenningur að gróa upp bæði að grasi og skógi. – Í Almenningi er Gvendarbrunnur, hraunhola með grasbala í kring. Í henni er alltaf einhver vatnslögg. – Flestir stoppuðu við Gvendarbrunn og margir skáru fangamark sitt í grasið.
VarðaÞau voru orðin æðimörg. – Þau gömlu greru og hurfu en eönnur ný komu í staðinn. Eftir að upphlaðni vegurinn kom um hraunið 1912 tók af alla umferð hjá Gvendarbrunni.
– Skammt norður af Gvendarbrunni er, eða var öllu heldur, Rauðhóll – allhár og mikill um sig, en hefur verið tekinn í ofaníburð í vegi og lóðir og til fyllingar í húsgrunna að ógleymdum Reykjavíkurflugvelli sem að mestu er gerður úr Rauðhól sem segja má að sé nú orðinn eins mikið niðurgrafinn eins og hann var [stóð] upp úr áður. – Vestur-suðvestur af Gvendarbrunni er svonefndur Smalaskáli – hrauntunga með helli í og horfir munninn gegnt Gvendarbrunni. Við munnan eru hleðslur nokkrar enda er þetta gömul fjárgeymsla Hraunamanna. Sunnan við Smalaskála er fjárborg – Óttarstaðaborg, hlaðin af Kristrúnu á Óttarsstöðum og fjármanni hennar. Nú er skammt til hreppsmarka [seinasta bæjar] í Vatnsleysustrandarhreppi – Hvassahrauns – alkunnur bær fyrir gestrisni og greiðasemi um aldaraðir enda lá það vel við til að fá hvíld og hressingu eftir gönguna frá Hafnarfirði suður með sjó. Austan og ofan við bæinn er hraunið allhátt. Þar er hóll með vörðu á og heitir Skyggnir enda er frá honum víðsýni til allra átta. – Suður frá Hvassaahrauni heita [Siggudagur] og Látur. Þaðan var útgerð fyrrum. Þarna kemur ferskt vatn undan hrauninu sem blandast sjó og myndast tjarnir í hraunlágunum þegar að fellur [og gæti í þeim sjávarfalla]. – Þá erum við komin í Afstapahraunið. Neðan ogs unnan við það er Kúagerði – alkunnur áningarstaður, en nafnið dregið af kúahögum Vatnsleysulenda, enda er þetta einn af fáum gróðurblettum á þessum slóðum. Þar var bær ekki alls fyrir löngu. Hann reisti Einar nokkur kallaður lóni – enda frá Lónakoti – hafði áður verið í siglingum. Einar reri einn á báti og sóttust strákar eftir því að vera með honum því að Einar var barngóður. Þegar krakkarnir hlýddu honum ekki nógu fljótt sagði Einar og brýndi raustina: Þið verðið að læra að hlíða strákar – það eru hörð sjólögin. – Var þetta síðan haft að orðtaki. Sunnan við Kúagerði heitir Akurgerði –dálítið graslendi alveg við Vatnsleysuvíkurbotninn.
Gamla – Frá Afstapahrauni liggur vegurinn eftir Ströndinni ofan við byggðina alla leið á Vogastapa. Ofan við hann liggur Strandarheiðin frá Afstapahrauni að innan að Grindavíkurhrauni að sunnan. Innstu bæir á ströndinni eru Vatnsleysurnar og Flekkuvík. Fyrir sunnan hana gengur Keilisnesið út í sjó. Eftir því og upp á heiðina liggur hæðarhryggur, Stefánsvörðuhæð, því Stefán bóndi Pálsson á Stóru-Vatnsleysu hlóð þar vörðu, ágætlega gerða og hefur henni verið haldið við af þeim feðgum frá Litlabæ, Jóni Helgasyni og Magnúsi syni hans sem klöppuðu nafnið á hana. Frá vörðunni er mjög víðsýnt, því þaðan sést allur fjallahringurinn frá Snæfellsjökli og út að Garðskagatá.
Byggðin á Ströndinni er nokkuð samfelld en þó skipt Innströnd, Miðströnd og Suðurströnd að Bieringstanga, sem dregur nafn af Bireing, sem þar hóf útgerð og athafnasemi. Frá tanganum er nokkurt óbyggt bil suður að Vogum sem nú er pláss í miklum uppgangi.
Á Vatnsleysuströnd hefur alltaf verið nokkur landbúnaður og sjást menjar þess enn í dag, þar sem eru selin mörgu á Strandarheiðinni og stekkirnir, sem [fylgdu] s.a.s. hverju byggðu bóli. Byggðin er meðfram sjónum eða skamt frá ströndinni og vegur lá milli bæjanna og leiðarinnar. Kirkjustaður Vatnsleysustrandar er á Kálfatjörn og þar var prestsetur frá öndverðri kristni og til ársins 1919 er síðasti presturinn, sr. Árni Þorsteinsson andaðist [eyða] (vantar sem innskot prestatalið frá Kálfatjörn, sem var í kassanum) því árið 1907 hafði brauðið verið lagt niður með lögum og sameinað Görðum á Álftanesi.
Sunnan við Vogana liggur vegurinn um svonefnt Reiðskarð upp á Vogastapa, sem áður hét Kvíguvogabjarg. Vegurinn upp skarðið var brattur, en ekki langur. Reiðskarð mun heita svo af því að það var eina leiðin með hesta upp á Stapann. Gönguleiðir voru um Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Rauðastíg, sem þótti illfært en var þá stundum farinn um fjöru til að stytta sér leiðina um Vogasand, því að fjöruborð er þarna allmikið. Undir Stapanum stóðu bæirnir Brekka og Stapabúð. Á þeim – og syðstu bæjunum í Vogunum, Suðurkoti og Bræðraparti, var fyrrum talsverð gestnauð og mikil gestrisni líkt og áður er sagt frá um Hvassahraun. –
Reiðskarð Upp af Reiðskarði liggur vegurinn suðvestur yfir Stapann – fram hjá Grímshól, sem er á Vogastapa þar sem hann er hæstur.
Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Grynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum. Nú er aflíðandi halli niður að Stapakoti í Innri-Njarðvík. Við veginn má sjá garð hlaðinn í Kross úr grjóti og torfi. Þetta mannvirki eins og mörg önnur slík voru byggð til þess að útigangsfénaður gæti haft þar skjól hvaðan, sem vindurinn blés.
Enda þótt all-langt sé á (leiðar)enda þess vegar, sem kallað er “suður með sjó” skal hér látið látið staðar numið.“

Handritið er óundirritað, en við samanburð á ritun hliðstæðra og jafnvel sömu upplýsinga má sjá að þær eru skráðar með eigin hendi Erlendar. Ummerki eru um brunaleifar á handritinu, en eins og kunnugt er brann húsið á Kálfatjörn, fyrrum heimili Erlendar árið 1988.
Enn þann dag í dag má sjá hluta leiðarinnar, sem Erlendur lýsir í framangreindu handriti, s.s. um norðanverða Arnarneshæð, um Hellnahraunið þar sem nú er golfvöllur að hluta og framkvæmdarsvæði, austan við Brunann, spotti við kapellluna í Kapelluhrauni, um Brunaskarð ofan Gerðis, Alfaraleiðin ofan Hraunabæjanna, Almenningsleiðin um Vatnsleysuströnd, Reiðskarð og Stapagötuna á Vogastapa. Skógfellavegur frá Vogum til Grindavíkur, Skipsstígur og Árnastígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum til Grindavíkur má enn feta um gróin hraunin – klappaða í berghelluna. Þá má enn sjá Sandgerðisveginn milli Grófarinnar og Sandgerðis og bæði Efri- og Neðrileið (Garðstíg) milli Grófarinnar og Garðs. Auk þessa sér enn fyrir Fuglavíkurleiðinni og Hvalsnesleiðinni milli Grófarinnar og framangreindra staða.
Gamla Ljóst er að víða hafa hinar gömlu þjóðleiðir, fótfetungar horfinna kynslóða, verið eyðilagðar bæði af vanþekkingu og vangá. Oft hefði verið lítið mál að hliðra nýrri vegum spölkorn án vandkvæða og þar með varðveita gömlu leiðirnar sem áþreifanlegan minnisvarða um þar sem var og nú má telja til hluta af arfleifðar eftirlifandi kynslóða. Hún sem og afkomendur þeirra munu hafa gott af því að verða meðvituð með með augljósum hætti hvernig og við hvaða aðstæður forfeður og -mæður þeirra komu þeim til manns (og kvenna).
Hinar gömlu alfaraleiðir eru hluti af sögðu svæðisins, líkt og verstöðvar, sel eða aðrar búskaparminjar er undirstrika tilvist fólksins fyrr á öldum – fólksins, sem kom okkur til þessa lífs.
Þegar horft er á vinnuvélarnar í Hellnahrauni sunnan Hafnarfjarðar skafa ofan af hraunhellunni og þar með afmá forna þjóðleið um hraunið, þegar horft er á hús byggð þvert á leiðirnar þar sem má vænta ómældrar umferðar framliðinna um ókomna tíð og raska þannig heimildisfriði nýbúanna, þegar horft er á óþarfa jarðrask í nálægð nýrra þjóðvega og þegar horft er upp á algert meðvitundarleysi ungra sérfræðinga nýrra úrræða um minjar gamalla tíma verður ekki hjá því komist að undirmeðvitundinni sárni. Margir fá fyrir hjartað þegar þeir horfa upp á óþarfa rask á ósnortu umhverfi. Sama gildir um þá, sem sjá og þekkja til gamalla mannvirkja í landslaginu er öðrum virðist hulið – og allrar þeirra sögu sem þær fela í sér, jafnvel þótt jarðlægar séu.
Þegar haldnar eru sérstakar menningarhátíðir í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er áherslan einkum lögð á „hoppukastala“ og sölutjöld. Hvernig væri að horfa að hluta til á og gefa þátttakendum, hvort sem um er að ræða heimafólki eða gestum þess, a.m.k. svolitla innsýn í aðdraganda og forsögu þess að viðkomandi samfélag hafi orðið til og getað dafnað með þeim hætti, sem raunin er. Sá þáttur hlýtur bæði óneitanlega og óhjákvæmilega að vera hluti af „menningu“ þess svæðis, sem er jú jafnan megintilefni fagnaðarins.
Heimild:
-Suður með sjó – Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892, d: 1975) – óbirt handrit.

Norðurkot flutt til nýrra heimkynna

Norðurkotshúsið flutt af grunni.

Borgarkot

Gengið var frá Stefánsvörðu, um Borgarkotsstekk, að hlaðinni refagildru ofan við Borgarkotstúnið. Þaðan var gengið að Hermannavörðunni, fallinni og raskaðri á hól við austurlandamerki Borgarkots, stórgripagirðingunni gömlu er liggur við hann áleiðis upp frá ströndinni og síðan þaðan til veturs í átt að Kálfatjörn. Henni var fylgt niður að Þjófabyrgi og síðan vestur með ströndinni að Borgarkotstóttunum. Láfjöróttur sjórinn var spegilsléttur. Krían var mætt á svæðið og fór mikinn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á tóttum Borgarkots bættust þrjár tóttir við þær fjórar, sem áður höfðu verið skoðaðar. Ljóst er að þarna hafa verið mun meiri umsvif en álitið hefur verið. Sjórinn hefur brotið smám saman af ströndinni, en túnið hefur náð mun lengra fram á klappirnar líkt og annars staðar með ströndinni. Framan við þær er myndarleg vör, sem líkast til hefur verið notuð fyrr á öldum, en kotið fór í eyði á 18. öld þegar bóndinn var ranglega sakaður um að hafa skorið sauð Flekkuvíkurbónda á aðfangadag. Síðar mun hafa komið í ljós að sauðurinn var prestsins á Kálfatjörn. Vont að þurfa að missa allt sitt fyrir sauðsmisskilning. Lokið var við uppdráttargjörð af svæðinu.
Borgarkot var um tíma nýtt frá Viðeyjarklaustri (sjá fyrri umfjöllun um Borgarkotssvæðið). Klaustrið átti margar jarðir með norðanverðum skaganum, umhverfis Reykjavík og á sunnanverðu vesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
Vatnssteinar (Vaðsteinar) voru litnir augum, en á milli þeirra er fallegt vatnsstæði. Vestan þess er hlaðið gerði eða rétt. Vestan réttarinnar má sjá hleðslur er að öllum líkindum tengjast refaveiðum. Ein hrúgan ber þess ummerki að hafa verið refagildra. Sjá má hlaðinn „ganginn“ í henni ef vel er að gáð.

Borgarkot

Jarðeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga.

Að þessari gaumgæfingu lokinni var strikið tekið suður heiðina í leit að svonefndum Bakkastekk. Hann fannst eftir stutta leit, greinilega mjög forn. Hann er á hraunhól allnokkuð suðsuðaustur af Bakka. Búið var að umbreyta austurhluta hans og hlaða úr honum refagildru. Þarna virðist því víða hafa verið átt við refaveiðar. FERLIR hefur skoðað um 70 hlaðnar refagildrur á Reykjanesi en ótaldar eru tvær mjög gamlar gildrur skammt ofan við gildruna ofan Borgarkots, gildra ofan við Húsatóftir, sem og tvær gildrur í Hraunsleyni ofan við Hraun og jafnvel gildra á Stóruflöt við Grindavík. Gildrurnar þarna virðast allar hafa sömu lögun og líklega gerðar af sama manninum. „Fellan“ virðist hafa verið hentugur steinn, en ekki slétt þunn hella, eins og t.d. í gildrunum á Selatöngum, við Húsfell, í Básum og undir Sundvörðuhrauni. Sumar heimildir segja gildruveiðar þessar vera komnar frá landnámsmönnum, en aðrir vilja meina þær yngri. Þær virðast þó að mestu hverfa eftir að byssur urðu almenningseign hér á landi. Þó er ekki óraunhæft að álíta að menn hafi haldið við einstaka refagildrum, einkum þeim sem voru á reglulegri leið þeirra, s.s. í beitarhús eða á rekagöngum.
Tiltölulega auðvelt væri að endurgera refagildrur líka þeim, sem fyrr voru notaðar, svo heillegar eru þær sem eftir standa.
Veður var frábært – sól og blíðviðri.
Gerður var uppdráttur af svæðunu (sjá mynd).
Frábært veður.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.