Tag Archive for: Vogar

Óttarsstaðaborg

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Óttarsstaðaselsstígur

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Gerandinn flutti líkið á jeppabifreið suður í hraunið, komst í skjól fyrir annarri umferð og setti líkið ofan í sprunguna. Það fannst þar allnokkrum dögum síðar eftir að gerandinn hafði bent á staðinn. Á svipuðum slóðum var á sínum tíma leiða að líki manns, sem hvarf um 1976, en hefur enn ekki fundist. Talið var að manninum hefði verið komið fyrir í hrauninu. Ekki eru mörg misseri síðan morðingi kom fórnarlambi sínu fyrir í Arnarseturshrauni, en benti síðar á staðinn. Ljóst er af þessu að hraunin geta geymt marga „afleiðingu“ fyrri tíma.
SkógargataAnnars er hraunið þarna hluti Hrútargjádyngjuhrauns, sem rann fyrir 4500-5000 árum síðan. Allt, sem þá lifði, er löngu dautt. Nú skreytir hraunin bláberja- og krækiberjalyng, beitilyng, víðir, birki og fjalldrapi, auk margra annarra flórutegunda.
Frá fjárborginni er auðvelt að komast inn á Lónakotsselsstíginn skammt sunnar. Einnig Óttarsstaðaselsstíginn skammt norðar. Nóg er að ganga spölkorn til austurs og er þá komið inn á Alfaraleiðina, hina fornu þjóðleið millu Innesja og Útnesja. Draugadalir eru þar skammt norðar. Að þessu sinni var götunni fylgt til norðurs, að Draugadölum, enda ætlunin að fylgja Óttarsstaðasselstígnum áleiðis upp í selið, allt að Meitlum, en þar vestan við voru gatnamót stígsins og Skógargötunnar. Aðaltilgangur ferðarinnar var athuga hvort Skógargatan gæti hafa verið stök sem slík og þá legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, án þess þó að hafa verið hluti af honum, með áframhaldandi aðkomu niður á Straumsselsstíginn vestari.  Jafnan hefur verið talað um Óttarsstaðaselsstíg, Skógargötu og Rauðamesstíg í einu orði. Í ljós átti hins vegar eftir að koma að um þrjá aðgreinda stíga hefur verið að ræða. Þannig virðist Skógargatan hafa legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, sem lá upp með Smalaskálahæð og kom inn á Rauðamelsstíg neðan við Bekkina. Sá síðastnefndi lá þaðan áleiðis niður að Óttarsstöðum, þvert yfir Alfaraleiðina ofan við Brúnirnar og norðan við Rauðamel, stystu leið heim að Hraunabæjunum.
Eftir að hafa gengið Óttarsstaðaselsstíginn upp að Bekkjunum var ákveðið að kíkja í Bekkjaskjólið, mikla fyrirhleðslu fyrir skúta ofan við hálfopið jarðfall. Aðkoman að skjólinu er sérstök; um hraunklofa. Ofan og norðan í Bekkjunum er torfærarar hraun og nýrra, Afstapahraunið eldra. Um er að ræða tiltölulega mjóa hraunræmu á þessu svæði og því auðvelt yfirferðar – ef stígnum er fylgt í gegnum það.
Þegar komið var upp undir Meitlana sáust tvær fallnar vörður sunnan við götuna. Sunnan í þeim er fjárskjól, Meitlaskjól (Norðurskúti).
Varða við AlfaraleiðinaÞarna neðan við Meitlana, sunnan við Óttarsstaðasels-stíginn, eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur, sem fyrr sagði, stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur.
Ætlunin var sem sagt að skoða hvort Skógargatan gæti hafa verið sjálfstæð eining í fornu gatnakerfi Almennings, eða hluti af öðrum götum. FERLIR hafði áður (oftar en eini sinni) fylgt Skógargötunni bæði upp og niður úr Skógarnefi. Þótt gatan sé ekki vel greinileg er hún vel vörðuð svo auðvelt er að fylgja henni á þeim kafla. Þegar staðið var við gatnamótin var ljóst að ekkert væri auðveldara en að fylgja henni áfram til norðurs, þvert á Óttarsstaðaselsstíginn. Eldra Afstapahraunið (4000-4500 ára gamalt) er vestar, en ofan (austan) þess er hraunið vel gróið og greiðfært. Skógargatan hefur fylgt Óttarsstaðaselsstígnum spölkorn til vesturs, en síðan tekið stefnuna yfir á Straumsselsstíginn vestari. Vörðubrot er á hraunhól skammt norðan gatnamótanna. Frá honum er haldið niður í enn grónara hraun og síðan gróningum fylgt áfram aflíðandi til norðurs, líkt og að ofanverðu. Tiltölulega stutt er yfir á Straumsselsstíginn. Þar, undir hraunbrúninni, er vörðubrot. Komið er inn á stíginn þar sem hann liðast upp á Eldra Afstapahraunið og þar eftir sléttu hrauni. Aðkoman inn á Óttarsstaðasels-stíginn er mjög svipuð, nema hvað ekki var hægt að greina tvö vörðubrot á seinni staðnum, einungis eitt.
Grunur leitendanna reyndist réttur. Skógargatan hefur verið notuð hvort sem er af þeim er fóru um Óttarsstaðaselsstíg eða Straumsselsstíg vestari – eins sjálfsagt og það gat verið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Bekkjaskúti

Kálfatjörn

Kálfatjörn – kirkjur
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn sem líklega hefur verið kirkjustaður frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjörn 1936Hálfkirkjurnar hafa lagst niður fyrir löngu, líklega um siðaskipti. Aðalkirkjan á upphaflega að hafa staðið á Bakka en vegna landbrots af sjávargangi var hún flutt að Kálfatjörn. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með torfveggjum, en timburþaki. Rigningarvatn rann þó af þakinu inn í kirkjuna svo innviðir hennar að sunnanverðu fúnuðu. Varð kirkjan því endingarlítil. Árið 1844 var komin þar timburkirkja sem ekki heldur stóðst tímans tönn, var rifin og ný timburkirkja reist á árunum 1863-64. Kirkjan sem nú stendur var reist árið 1893 og er með stærstu sveitakirkjum landsins.

Kálfatjörn á 50 ára afmæli kirkjunnar, 1943
KálfatjörnKringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll (túnblett). Þau sem ekki nutu þeirra hlunninda voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Smábýli í landi Kálfatjarnar voru Fjósakot, Móakot, Hátún, Goðhóll og Naustakot og utan golfvallarsvæðis Hlið, Litlibær, Bakki, Bjarg, Borgarkot, Hólakot, Árnahús og Bakkakrókur.
Hlutverk grjóthleðslanna var að verja túnin ágangi búfjár. Heiðargarðurinn náði utan um stóran hluta hverfisins og var ætlað það hlutverk að verja túnin þeim megin er að heiðinni snúa. Sum kotanna höfðu svo grjóthleðslur um sína túnparta. Grjóthleðslur við og utan um kotbýlin sjálf voru svo í flest öllum tilfellum til að verja matjurtagarða. Gamla sjóvarnargarða til varnar túnum má líka finna í Kálfatjarnarhverfi.

Hluti Kálfatjarnar hverfis

Kálfatjörn

Bændur í Kálfatjarnarlandi nýttu vel það sem fjaran gaf. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang sem notað var til eldiviðar. Um réttaleytið að hausti var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða. Einnig var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjörur utan þess tíma sem þangað var.

Lýsingar á landamerkjum milli fjöruparta kunna mönnum að þykja smásmugulegar í dag en það gat verið um 1-2 mánaða eldsneyti að ræða hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eða ekki.
HeiðargarðurBærinn á Kálfatjörn stóð því sem næst í miðju túni á allstórum bala vestan kirkjunnar. Allt umhverfis kirkjuna er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, þó aðallega norðan og austan megin. Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurinn er grunnur.

Golfvöllurinn fyrr og nú

Gjáarvatnsstæðið

Á Hátúnshæðinni hefst golfhringurinn. Slegið er með og yfir Heiðargarðinn, hægra megin við Fjósakot á Margrétarflöt en svo hét og heitir túnið austan við kotið. Fjósakot sem var með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysu- strandarhreppi var lítið grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1920. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreit á Kálfatjörn. Fyrsta og áttunda flötin liggja við svonefndar Kotagirðingar. En Kotagirðingar Móakots og Fjósakots voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum, ætlaðir til kúabeitar.

Austan við rauða teiginn á braut 2 við Heiðargarðinn er vatnsstæði í sprungu á Stóru-Klöpp, kallast vatnsstæðið Gjáin eða Gjáarvatnsstæði. Skammt suðvestur frá því, nær Fjósakoti, var fiskbyrgi, kallað Baráttubyrgi. Þar sér nú aðeins í undirstöðuna en gróið stæðið í kringum er eflaust vegna þess fiskúrgangs sem fallið hefur til og verið góður áburður.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Slegið er yfir þar sem Heiðargarðurinn lá og er flötin nú þar sem áður var grýtt moldarflag. Við teiginn á braut 3 á klöpp er stórgrýtt hrúga, líklegast einhver hleðsla, við hestaslóð sem lá þarna fyrir löngu síðan og sést móta vel fyrir. Hestaslóðin lá upp með Hátúnshæðinni að sunnanverðu, við klöppina og þaðan inn eftir að Stefánsvörðu. Nú hefur breytt nýting á landi máð þessi ummerki að hluta.
Braut 4 öll liggur vel fyrir ofan Heiðargarðinn o.þ.a.l athafnasvæði bóndans hér áður fyrr sem var í fjörunni og á túnum. Því er lítið um örnefni á brautinni því eðlilega tengjast þau þeim svæðum þar sem mest var starfað. Fuglalíf er fjölskrúðugt við brautina einkum kríuvarp.

Bærinn Goðhóll fór í eyði 1933
BaráttubyrgiðÞegar farið er yfir Goðhólsrásina og Heiðargarðinn á braut 5 er komið á stórt tún sem heitir Land, einnig kallað Suðurtún, slétt og hólalaust fyrir utan eina hólbungu, allmikla um sig sem heitir Hallshóll. Hóllinn skilur að Landið og Naustakotstúnið. Sagt var að alltaf gerði rigningu þegar búið var að slá Hallshól. Um mitt Landið lá Kirkjugatan frá Hliði til Kálfatjarnar. Rétt ofan við götuna lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstúnið kölluð Kirkjubrú. Líklegt er að Kirkjubrúin hafi verið gerð til þess að auðvelda kirkjufólki för yfir Goðhólsrásina sem gat orðið hinn versti farartálmi í leysingum. Aftur er slegið yfir Heiðargarðinn og á Goðhólstúnið.
ÚtihúsÁ klapparhól nyrst í túninu er Sundvarðan sem notuð var sem mið í Keili og gaf til kynna að rétt væri róið um Kálfatjarnarsund fyrir Markklettinn inná Leguna. Þar mátti láta litla dekkbáta liggja.

Úr Legunni var svo róið uppí Kálfatjarnarvör. Flötin liggur fyrir norðan Goðhól, við eitt útihúsanna. Goðhóll stóð á mörgum hólum, sem einu nafni heita Goðhólar. Goðhóll sem fór í eyði árið 1933 var tómthús frá kirkjujörðinni en hafði grasnyt. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Á kampinum fyrir neðan flötina má svo sjá grunn af uppsátrinu, þar sem bátarnir voru teknir á land, skiparéttinni og neðar í fjörunni er Goðhólsvör.

Byrgið (sjávarhús Kálfatjarnar)
GoðhóllÁ sjötta teig er gott útsýni yfir það athafnasvæði er tengdist sjávarútvegi á Kálfatjörn. Þar má sjá hæstan og mestan Markklett sem var landamerki milli Þórustaða og Kálfatjarnar. Við enda sjóvarnargarðsins við teig var sjávarbyrgi Kálfatjarnar. Þar norður af er Snoppa (Hausaklöpp) þar sem þorskhausar voru hertir. Í Naustakoti (í byggð 1703) voru fjárhús eftir búsetu. Sunnan við Naustakot var fjárrétt og fast við hana að sunnan grasigróið gerði, kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausar í seinni tíð uns það lagðist niður með öllu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Næst kampinum, mun lægra en túnið umhverfis, er Síkið sem nær suður undir Sjávargötu. Í Síkið flæddi sjór í miklum flóðum um Rásina allt uppí Kálfatjarnarbrunn. Fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin.
SjávarbyrgiðÞar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thorarensen lét byggja, er hann var prestur og bóndi á Kálfatjörn 1857-1886. Sagt var að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Þar mun býlið Hólkot (Hóll) hafa staðið en síðast er getið um búsetu þar í lok 17. aldar. Í seinni tíð mun búðin hafa verið notuð sem fjárhús. Aftur er leikið á Landinu og þegar á flöt er komið má finna lága hleðslu austan megin við hana sem eru leyfar af Hestarétt þar sem kirkjugestir geymdu hesta sína.

Krosshóll
Teigurinn á brau 7 er þar sem Hátún stóð. Slegið er yfir Austurtún að grjótgörðum þeim er umlykja Móakotstúnið. Áður en farið er yfir garðinn, sunnarlega í Króknum er dálítil lægð eða pollur sem var kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið nærri en gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið eins og sögnin um biskup og séra Hallgrím Pétursson bendir til.

Bærinn Móakot

Móakot

Sagt er, að Brynjólfur biskup hafi eitt sinn vísiterað á Kálfatjörn og haft spurnir af manni er bjó þar í þurrabúð í túninu, Árnahúsi (Víti). Ekki þótti hann kirkjurækinn og réri til fiskjar á helgidögum. Biskup hafði tal af honum og fylgir það sögunni, að hann hafi veitt honum leyfi til þessara helgidagsbrota, er honum varð ljós fátækt hans og ómegð. Er séra Hallgrímur frétti þetta, orti hann:

Golfið„Biskupinn blessar hjalla
bila ei upp frá því,
krosshús og kirkjur allar
og karlinn, sem býr Víti í.“

Sunnan við tóftirnar af Móakoti er langur og hár hóll, Klapparhóll. Þar var talið að mikið af huldufólki byggi og því var hann einnig kallaður Álfhóll. Móakot var grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1950. Hverju sem það sætti var orðrómur um að enginn mætti búa þar lengur en í 9 ár. Nær sjó er svo Móakotstjörn sem var mýrartjörn. Í fjörunni neðan flatarinnar er Móakotsklöpp sem áður var landföst en þar eru fjörumörk Kálfatjarnar og Móakots.
Þegar horft er af Móakotsbakka til sjávar er stórt lón út af kampinum sem heitir Búðarlón og grandarnir sitt hvoru megin við, þara vaxnir, Búðarlónsgrandinn Syðri og Búðarlónsgrandinn Nyrðri. Slegið er yfir Móakotstún, á flötina nálægt þar sem Kotagirðingar voru.

Harðhaus
KálfatjörnFjölmörg örnefni önnur eru á Kálfatjörn. Nafnið Harðhaus er t.d. til komið vegna þess hve illa hóllinn fór með ljá bónda á Kálfatjörn í seinni tíð. Í miðju Hátúnstúni sem girt var grjótgörðum stóð Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni en fór í eyði um 1920. Árið 1941 var þar byggður sumarbústaður en föst búseta tekin upp um 1960. Innan garðs eru t.a.m. Hátúnshóll og Hátúnsflöt. Litlu sunnar við flötina liggur Heiðargarðurinn sem áður hefur verið minnst á.

Heimild:
-www.gvsgolf.is

Kálfatjarnarkirkja

Stefánsvarða

Gengið var frá Stefánsvörðu á Stefánsvörðuhólum áleiðis niður að Borgarkoti vestan Keilisness. Skammt norðan vörðunnar var komið að tvískiptum gömlum stekk, Borgarkotsstekk, í graslægð. Á bökkunum sáust leifar af gömlum garði. Norðaustan við stekkinn eru gróin svæði, en nokkuð uppblásin.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Gengið var norðnorðvestur í átt að Helgahúsi ofan við Breiðufit (Réttartanga). Á leiðinni var gengið þvert á gamla stógripagirðingu. Enn má sjá steinaröðina liggja þar til austurs og vesturs. Í hvern steinn eru klöppuð tvö göt; annað ofan á og hinn á hliðina. Í götin voru reknir trétappar og á tappana strengd bönd. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Skammt austan þess, norður undir grasi grónum klapparhól, var fallegt vatnsstæði, Vatnssteinar (Vaðssteinar). Í því var vatn. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól. Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Norðar er Borgarkot. Það mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau, að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot. Þarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir. Minnkaveiðimenn munu hafa rutt honum að mestu um koll, en þó sést enn móta vel fyrir honum á kambinum. Neðan tóttanna er Borgarkotsvörin, en ofan við hana lá dauður háhyrningur – nægt kjöt í margar grillveislur.

Borgarkot

Vatnssteinar – vatnsstæði við Borgarkot.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn ruddu síðar um koll.
Ofan við Borgarkotstúnið er varða á hól. Beint upp af henni, sunnan girðingar, sem þar er, er hlaðin refagildra.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á þetta svæði því bæði gleymdust skriffæri til uppdráttagerðar og gps-tækið til að staðsetja vatnsstæðin sem og refagildruna. Samt sem áður var gerður bráðabirgðauppdráttur af svæðinu með aðstoð bíllykils og pappaspjalds. Þarna er greinlega um að ræða stórlega vanmetið svæði. Miklar minjar eru við Borgarkot og einnig allt í kring.
Veður var frábært – hiti, sól og þægilegur andvari. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Gvendarborg

Sesselja G. Guðmundsdóttir hefur endurútgefið bók sína „Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysustrandar-hreppi“ frá árinu 1995.
Gamla bókinBókin var löngu uppseld, enda einungis gefin út í 500 eintökum. Það var Lionsklúbburinn Keilir, sem stuðlai að hinu merka framtaki – líkt og nú. „Gamla“ bókin var 152 bls. með fallegum ljósmyndum og upplýsandi örnefnakortum af Vogaheiði og Strandaheiði. Með nýju bókinni (útg. 2007) hefur Sesselja bætt um betur; endurbætt og staðfært kortin og fjölgað ljósmyndum af merkilegum stöðum, sem eru fjölmargir á landssvæðinu ofan Voga og Vatnsleysustrandar. Nýja bókin er 184 bls, aukin og endurbætt. Hún er ágætur vitnisburður um dugnað, elju og þrautseiglu manneskju er þykir bæði mjög vænt um landið sitt og uppruna og jafnframt vilja til að miðla eftirlifandi kynslóðum af forsögunni og áþreifanlegum menningararfi – sem verður dýrmætari með hverju árinu sem líður.
Nýja bókin hefur verið gefin út í 1000 eintökum og ef að líkum lætur munu þau eintök verða fljót að fangast fegnum aðdáendum útivistar og fróðleiks. Með nýju bókinni hefur höfundinum tekist að nálgast viðfangsefnið enn frekar – líkt og sjá má á kápumyndinni.
Bók Sesselju fæst bæði hjá henni sem og í öllum betri bókaverslunum landsins, einkum á Reykjanesskaganum – næst Vogum á Vatnsleysuströnd.

Örnefndi og gönguleiðir í Vatnsleysstrandarhreppi

Örnefndi og gönguleiðir í Vatnsleysstrandarhreppi – II.

 

Hvassahraun

Gengið var frá Hvassahrauni. Veður var ekki bara ágætt – það var frábært, logn, hiti og sól. Gengið var eftir stíg, sem liggur til suðurs sunnan Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur áfram til suðurs skammt austan við Brugghellinn. Í botni hellisins, beint undir opinu, er ferköntuð upphækkun, sbr. meðfylgjandi mynd. Í botninum var vatn, u.þ.b. fet á dýpt. Gólfið er flórað að hluta svo ganga megi þurrum fótum í hluta hellisns, sem er í rauninni stór rúmgóð hvelfing, um sex metrar á dýpt.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Stígnum var fylgt áfram suður Rjúpnadalshraun og áfram til suðurs í jarði Flatahrauns. Stígurinn gerðist greinilegri eftir því sem ofar dró. Haldið var yfir línuveginn vestan Öskjuholts, áfram upp í Bælin og alveg upp í Höfða. Við efsta hólinn, Sauðhól, var snúið við, en frá honum sést vel til suðurs upp í tiltölulega slétt og víðfeðmt hraunið. Suðvestan í hólnum er Sauðhólsbyrgið. Veðrið var svo gott þarna að því miður gleymdist að taka GPS-punkt á byrgið.

Nú var snúið til norðurs með sólina á bakborða. Fallegt útsýni var niður að Öskjuholti og áfram upp að Brennhólum. Þegar komið var að Öskjuholti úr þessari átt blasti Öskjuholtsbyrgið við sunnan undir holtinu. Opið er tiltölulega lítið þar sem það er þarna í lyngi vöxnum bakkanum. Það er hlaðið, en fyrir innan er mjög rúmgott fjárskjól, enda greinilega mikið notað. Holtið sjálft er klofið eftir endilöngu með mikilli gjá. Annar klapparhóll, en minni, er austan við holtið.

Hvassahraun

Öskjuholtsskúti.

Gengið var til norðurs, upp að Smalaskála. Þar eru vel grónar lægðir og mörg náttúrleg skjól. Efst á Smalaskála er Smalaskálavarða. Gott útsýni er frá henni niður að Hvassahrauni. Í suðsuðaustri sést í háa vörðu á hæð, Jónsvörðu. Húner nokkurs konar „vendivarða“ þegar farið er upp í Hvassahraunssel. Í henni er steinn, sem bendir til austurs, en frá henni er enga vörðu að sjá. Ef hins vegar er gengið frá henni til austurs kemur Hvassahraunsselsvarðan fljótlega í ljós. Norðvestan við hana er selið undir holti.
Sunnan við Smalaskála er náttúrlegt skjól undir hæð, mjög góður hellisskúti með tiltölulega litlu opi. Vel gróið er í kring. Ef smalaskáli ætti að vera í Smalskála þá væri þetta staðurinn. Skammt norðnorðvestan við það er lítið, en djúpt, jarðfall. Í því lá dauð rolla, enn í reifum.
Vestan í Smalaskála er lítið gat, en fyrir innan er rúmgóður skúti, sem greinilega hefur verið notaður sem fjárskjól. Allt í kring er vel gróið. Skammt norðan við hrygginn, sem fjárskjólið er í, er gat, u.þ.b. 5 metrar á dýpt. Ummálið er ca. 2×2 metrar. Við það er lítil varða.
Á smáhól norðan við Smalaskála er grönn og nokkuð há varða. Leitað var í kringum vörðuna, en ekkert markvert fannst. Útsýni er frá henni að Virkishólum og er varðan sennilega greinilegust þar. Hins vegar ber þessa vörðu í Smalaskálavörðuna þegar komið er neðan að austan Bláberjahryggjar. Við hana er gata. Götunni var fylgt til norðurs og var þá komið inn á nokkuð áberandi götu, sem kom að austan ofan við Virkishóla. Gengið var eftir götunni til vesturs. Sást hún vel í kvöldsólinni þangað til hún fór undir nýju Reykjabrautina gegnt gatnamótunum að Hvassahrauni.
Frábært veður.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Skógarnefsgata

Þegar gengið var upp fyrir Hvassahraunssel sást hvar forn gata lá upp í hraunið, til austurs áleiðis að Skógarnefi. Götunni var fylgt eftir frá tveimur vörðum í jaðri gamla Afstapahraunsins. Nánar að gáð sást hvar eldri gata lá á milli varðanna í sömu stefnu.
SkogarnefsgataGatan, sem eftirleiðis verður nefnd Skógarnefsgata (af skiljanlegum ástæðum því hún hefur augsýnilega verið notuð til að sækja hrís og annan eldivið upp í Skógarnef alveg framundir aldamótin 1900 (og jafnvel lengur)) lá mjög greinileg í gegnum hraunið og upp í Nefið. Önnur svipuð gata liggur yfir hraunið nokkru norðar og svo virðist sem þær komi saman sem ein nálægt vörðunum fyrrnefndu.
Sambærilegar götur má sjá bæði upp úr Straumsseli og Óttarsstaðaseli og jafnvel víðar. Eftir að hafa skoðað Skógarnefið, kíkt á Skógarnefnsskúta og vatnsstæðið þar, var gatan fetuð til baka yfir gamla Afstapahraun, framhjá vörðunum og áfram til vesturs, fyrir ofan og norðan Snjódali og að Hvassahraunsseli að sunnanverðu. Á leiðinni var m.a. gengið fram á fallega hlaðið byrgi refaskyttu og tóftir smalaskála í nátthaga. Þar drupu einiber af hverri grein sem hvergi annars staðar.
Þegar Hvassahraunssel var skoðað, enn og aftur, komu í ljós tóftir á mjög gamalli selstöðu ekki allfjarri þeim, sem hvað greinilegastar eru í dag.
Loks var Hvassahraunsselsstígurinn vestari fetaður niður fyrir Virkishóla.
RefaskyttubyrgiLjóst má vera að selstígurinn hefur verið notaður sem fyrri hluti Skógarnefsgötunnar, sem liggur upp frá selinu og hefur verið allvel greiðfær. Ekki er ólíklegt að Skógarnefnsskúti hafi verið skjól fyrir fólk við hrístöku í Nefinu og það nýtt sér vatnsstæðið til viðurværis. Enn hafa ekki fundist kolagrafir á þessu svæði, en hin forna seltóft í Hvassahraunsseli gefur þó tilefni til að ætla að hún hefi verið nýtt til slíkra verka því útlit og gerð hennar svipar mjög til þeirra er sjá má við Kolgrafaholt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

 

Vogar

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhjúpaði við hátíðlega athöfn á Fjölskyldudaginn í Vogum, 9. ágúst, verkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson listamann.
Með honum í för Afhjúpunvar forsetafrúin, Frú Dorrit Moussaieff.
Listaverkið er reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd en Vatnsleysuströndin var ein stærsta verstöð landsins á tímum árabátaútgerðar. Verkið stendur á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga. Aðeins vestar við verkið, á Eyrarkotsbakka, var Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar stofnað árið 1930 af bændum. Félagið lét m.a. byggja bryggju, báta og fiskverkunarhús með verbúð.
Forsetinn afhjúpaði verkið með aðstoð bekkjarbræðra úr Stóru-Vogaskóla þeirra Þórarins Birgissonar, Ragnars Karls Frandsen og Magnúsar Árnasonar. Þeir eru innfæddir Strandaringar og Vogamenn og um æðar þeirra rennur sjómennsku- og útgerðarmanna blóð.
Við athöfnina söng stórsöngvarinn Bjarni Thor Kristinss, Listaverkiðættaður frá Vatnsleysuströnd, lagið Íslands Hrafnistumenn við harmonikkundirleik Braga Hlíðbergs. Verkið er unnið að frumkvæði Birgis Þórarinssonar Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar. Þeir fóru þess á leit við Erling að hann kæmi að gerð listaverks, sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar héðan. Erlingur brást mjög vel við erindinu og fylltist miklum eldmóð, en Erlingur er fæddur á Vatnsleysuströnd.
Verkið og umgjörð styrktu eftirtaldir aðilar og er gjöf þeirra til sveitarfélagsins og íbúa þess: Sparisjóðurinn í Kefl avík, Sveitarfélagið Vogar, Bræðurnir frá Halakoti, Magnús, Guðmundur og Ragnar Ágústssynir, Særún Jónsdóttir og fjölskylda, Þorbjörn ehf., Menningarráð Suðurnesja og Landslag ehf.

Heimild:
-Faxi.

Vogar

Vogar.

 

Fagradals-Vatnsfell

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðatjarnaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Oddshellir

Oddshellir.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Ekki var komið við í Kálffelli að þessu sinni, en bent var á staðsetningu Oddsshellis og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er á fallegum stað. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur síðar.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar, Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km og þar var þetta lengsta FERLIRsgangan fram að þessu. Þessi ferð verður væntanlega aldrei afturgengin því um mjög óvenjulega leið var að ræða, sem að öllum líkindum mjög fáir hafa farið áður, en verður þátttakendum vonandi lengi í mynni.
Veður var frábært – þægileg gjóla og sól. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Vogar

Hinn árlegi Fjölskyldudagur í Sveitarfélaginu Vogar var haldinn 14. ágúst (2010).

Vogar

Vogar – bæjarhátíð 2010.

Ungir jafnt sem aldnir fengu að skoða innviði TF-Lífar, þyrlu Landhelgisgæslulnnar, á þessari árlegu Fjölskylduhátíð sem haldin var í bæjarfélaginu þrettánda árið í röð. Hátíðinni lauk með flugeldasýningu um kvöldið.
Að sögn Tinnu Hallgrímsdóttur, skipuleggjanda hátíðarinnar, var þyrlan við æfingar og var í leiðinni flogið yfir bæinn við mikinn fögnuð. Henni hafi svo verið lent á stóru túni og gestum leyft að skoða. Fjölskylduhátíðin á Vogum er með veglegra móti í ár enda haldið upp á 125 ára afmæli sveitarfélagsins.

Heimild:
-mbl.is

Vogar

Vogar.

 

Stóru-Vogar

Haukur Ólafsson, sendifulltrúi FERLIRs í Lundúnum, semdi eftirfarandi ábendingu: „Ég rakst á þetta í fasteignaauglýsingu um Vogalandið sem virðist, óskipt, vera til sölu!! Þar segir m.a.: Fasteignamiðstöðin Hlíðasmára 17 er með til sölu áhugavert land í Vogum. Um er að ræða óskipt land svonefndra Vogajarða (Vogatorfa) í sveitarfélaginu Vogar (áður Vatnsleysustrandarhreppi) þ.e.a.s. Austurkots, Minni-Voga, Tumakots, Hábæjar, Nýja-bæjar, Stóru-Voga og Suðurkots.

Vegghleðslur

Áætluð stærð 2773 ha. Stóru Vogar er að fornu höfuðbýli og landnámsjörð er áður nefndist Kvíguvogar eftir sækúm er þar gengu á land og náðist ein þeirra í fjós á bænum. Segir sagan að af henni sé komið eitt besta kúakyn á landinu, allar úlfgráar að lit. Landið liggur að hluta til að þéttbýli, miðsvæðis og í þjóðbraut allra sem fara um Reykjanesbraut. Stór hluti mögulegt byggingarland. Nú þegar tilbúið skipulag að nokkrum atvinnuhúsalóðum. Áhugaverð vatnsréttindi. Áhugaverð fjárfesting m.a. vegna legu sinnar í þjóðbraut, en Reykjanesbraut liggur í gegn um landið og það liggur að norðurjaðri Reykjanesbæjar. Hver einasti ferðamaður sem heimsækir Ísland flugleiðina á leið um þetta land. Sá fjöldi nálgast nú 400 þúsund á ári og eru Íslenskir ferðamenn ekki með taldir. Frá Vogajörðunum var stundað útræði um aldir og voru þar oft hundruðir manna í verbúðum á 100-200 bátum af ýmsum stærðum. Undir Vogastapa voru fengsælustu fiskimið við Ísland, amk. á vorvertíð. Var þar oft landburður af fiski og auðgaðist margur á þeim rekstri. Tveir af kunnustu útgerðarmönnum við Faxaflóa, þeir Haraldur Böðvarsson og Geir Zoega hófu sína útgerð í Vogunum og farnaðist báðum vel. Jón M. Waage lét reisa þarna fyrsta steinhús á Íslandi árið 1871. Að verkinu stóð Sverrir Runólfsson, steinhöggvari, sá sami og reisti kirkjuna að Þingeyrum og sjálfa Skólavörðuna. Lítið stendur eftir af þessu merka húsi, nema etv. grunnurinn. Eign fyrir fjársterka aðila.“
Hér kemur fram að í Vogum séu leifar af „elsta steinhúsi á Íslandi, reist 1871“. Það er reyndar ekki alveg rétt, sbr. eftirfarandi, en ætla má að þarna kunni að leynast minjar elsta steinhúss á Íslandi, reist af einkaaðila.
Um miðja 18. öld fóru dönsk stjórnvöld að beita sér fyrir eflingu iðnaðar hér á landi. Konungur styrkti hlutafélagið Innréttingar sem Skúli Magnússon, sem var skipaður landfógeti 1749, stofnaði með öðrum 1751. Aðalaðsetur Innréttinganna var valinn staður í Reykjavík og lagði grunn að þéttbýlismyndun þar.
Skúli Magnússon var einnig aðalhvatamaður þess að byggður yrði embættisbústaður fyrir hann í Viðey hlaðinn úr íslensku grjóti. Í anda upplýsingar voru dönsk stjórnvöld því fylgjandi að byggja hús úr varanlegu efni ef það mætti verða til þess að Íslendingar lærðu að byggja varanlegri hús en torfhús. Dönsk stjórnvöld vönduðu mjög undirbúning framkvæmda sinna. Létu þau hæfustu húsameistara sína teikna þau steinhús sem reist voru hér og sendu iðnaðarmenn hingað til lands til að vinna við og hafa umsjón með bygginga-framkvæmdum og kenna Íslendingum hið nýja verklag.

Vegghleðslur

Þau steinhús sem dönsk stjórnvöld reistu á 18. öld voru Viðeyjarstofa 1753-55, Hóladómkirkja 1757-63, Bessastaðastofa 1761-67, Nesstofa 1761-63, fangahúsið í Reykjavík (Stjórnarráðshúsið) 1765-70, Viðeyjarkirkja 1766-74, Landakirkja á Heimaey 1774-78, Bessastaðakirkja 1777-1795 og dómkirkjan í Reykjavík 1787-96.
Þegar ráðist var í byggingu dóm- og hegningarhúss við Skólavörðustíg í Reykjavík árið 1871 var ákveðið að fela Klentz verkið. Sverrir Runólfsson hafði sóst eftir að byggja húsið eftir aðferð sinni en aftur var Bald falið að annast smíði hússins. Var húsið reist eftir aðferð Sverris úr ótilhöggnum hraunhellum. Þetta er sama árið og steinhúsið að Stóru-Vogum var reist. Sverrir mun því hafa tekið að sér þá framkvæmd í staðinn og gæti hún því verið elsta steinhús hér á landi í einkaeign, eins og fram hefur komið. Það eitt eykur verðgildi minjanna að Stóru-Vogum til muna.
Og þá var bara að fara á vettvang. Þegar málið var borið undir Viktor Guðmundsson, sendifulltrúa FERLIRs í Vogum, brá hann þegar upp heimildum um húsið, skráðar af afa hans, Guðmundi Björgvini Jónssyni (Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi). Hjá honum kemur fram Sverrir Runólfsson hafi reist steinhús fyrir Jón. M. Waage í Stóru-Vogum árið 1871. Húsið hafi verið hlaðið úr grjóti með íverurisi. Árið 1912 er síðan byggt nýtt timburhús á staðnum og er steinhúsið notaður sem grunnur þess.
Við skoðun á leifum bæjarins að Stóru-Vogum mátti glögglega sjá handbragð Sverris á hleðslunum. Greinilega mátti sjá hleðslur útveggja steinhússins sem og stéttar og nálægar stallhleðslur. Þegar timburhúsið, sem nú er horfið, var byggt ofan á steinhúsið og það þá notað sem kjallari þessi, hefur verið steypt bæði innan og utan á hleðslurnar og tröppur steyptar upp í timburhúsið við suðvesturhornið, auk þess sem milliveggur hefur verið steyptur í kjallarann. Ef grannt er skoðað má sjá  á einum stað steinhlaðinn boga á austurvegg kjallarans (steinhússins), sem var eitt af einkennum Sverris. Þrátt fyrir að þetta elsta steinhús í einkaeigu á Íslandi hafi síðar verið notað sem kjallari timburhúss má en glögglega sjá handbragð byggingarmeistarans, bæði á veggjum og aðliggjandi hleðslum.

Stóru-Vogar

Steinhúsið í Stóru-Vogum er líklega eina verk Sverris fyrsta steinsmiðs á Íslandi sem enn stendur. Hér koma smáupplýsigar fengna úr skýrslu sem Egill Hallgrímsson í Minni-Vogum og annar maður gerðu um bygginguna árið 1872, en þá var húsið ekki að fullu byggt:
„Kjallari – bogagluggi á hvorri hlið.
Stofuhús – Tilhögun húsa á gólfi. 2 afþiljuð hús, jafnlöng til begja enda hússins, með 2 gluggafögum til hvors gafls og sitt fag hvorumegin við suðurdyr á hliðinni og sinn glugginn hvorumegin við norðurdyr og gluggahol eru öll bogahlaðin. Gangr er eptir miðju 2 1/2 al. Bogagluggi yfir dyrum. Í vesturenda er veðr. afdeiling, stofuhús, svefnkames og búr. Þessi verelsi og dyr eru með 4 vængjahurðum plægðum og á að verða með 7 fyllingahurðum húsið niðri (sumar gjörðar).
Á lopti 2 afþiljuð hús jafnstór. Sitt gluggafag á hverjum gafli.
Þak hellulagt. Einn orn á lopti og 2 fyllingahúrðir.
ÍBogahleðsla þakið fóru 4000 skífur.
Hæð kjallara 2 og 1/2 al., stofuhús vegghæð undir lopt 3 al. – 15 þml. og gaflhæð 4 og 1/2 al.“
Skýrslunni fylgir einnig kostnaður við bygginguna.
Húsið hefur verið sagt fyrsta steinhúsið í bændaeigu á landinu, byggt af fyrsta íslenska steinsmiðnum. Þá hefur útlit hússins með alla þessa bogadregnu glugga verið glæsilegt.
Það mætti því að ósekju geta þessum minjum meira vægi en gert hefur verið, t.d. með merkingum, hreinsun með hleðslum o.fl. er gætu gert þær ásjálegri en nú er.
Íslensk byggingarlist er um margt sérstæð. Hún er samofin baráttu þjóðarinnar við náttúruöflin, aðlögun að erfiðum aðstæðum og skorti á byggingarefnum framan af öldum. Erlendra áhrifa fer að gæta hér að ráði um miðja 18. öld með byggingu timburhúsa og steinhúsa. Síðan þá hafa erlend áhrif verið mikil hér á byggingar-list en jafnvægis verið leitað með aðlögun hinna erlendu áhrifa að íslenskum aðstæðum.
Búið var í íbúðarhúsinu að Stóru-Vogum til 1940. Það var rifið 1964.

Heimildir m.a.:
-Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970 – Guðmundur L. Hafsteinsson, arkitekt FAÍ.
-Viktor Guðmundsson, Vogum.
-Guðmundur Björgvin Jónsson f. 1913: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandahreppi.
-Eyjólfur Guðmundsson.

Elsta steinhúsið