Tag Archive for: vörður

Gluggavarða

Vörður hafa verið til marga hluta nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Hliðstæðar vörður, með sambærilegan tilgang og hér eru, má t.d. finna í Noregi og á Suðureyjum, en auk þess á Grænlandi og í Nýfundnalandi.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.

Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga. Þær voru hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem „útsýnisgluggi“) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).

Brúnavörður

Brúnavörður.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.

Prestavarða

Prestsvarða.

Nafnkenndar vörður á Reykjanesskaganum eru um 200 talsins, auk allra þeirra hundruða, sem fylgja röðum gamalla gatna, kenni- og landamerkjum. Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við gömlu Sprengisandsleiðina, Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í „lágvaxnar“ vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu „grjóthringi“ á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig „sveiflan“ í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.

Prestastígur

Varða við Presthól hjá Prestastíg.

Þá standast t.d. vörður úr hraungrýti betur „áreiti“ en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.

Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á.
Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smala.

Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að „nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.“
Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Þar segir m.a. að „svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell“.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.

Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni.
Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur. Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin. Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.

Gömlu Hafnir

Stelpuvarða ofan við Gömlu-Hafnir.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir „vörðugerð“ fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans. Í hans augum hafa vörður bara verið vörður og tæplega þó.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Þegar „æft“ fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að „endurfinna“ eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að „merkja“ tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.

Bláfellsháls

Dysin á Bláfellshálsi.

Ein merkilegasta varðan hér á landi er án efa dysin á Bláfellshálsi. Á meðal ferðamanna gengur sú saga að varðan sé ævagömul. Sú hefð hefur myndast að ferðalangar kasta steini í vörður þeim til heilla á löngum leiðum. Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið hans. Hann skildi stígvélið þar eftir, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, vörðuna á hálsinum, sem er táknrænn áfangi á leiðinni, og bættu um betur, minnugir sögninni um heillamerki.
Þetta er nú bara svolítill fróðleikur um vörður svo engan reki í vörðurnar ef um verður spurt. Þetta ætti a.m.k. að varða leiðina að aukinni vitneskju – því markmiðið er jú að vita meira og meira, meira í dag en í gær.

Gluggavarða

Glugggvarða á Mosfellsheiði.

Selvogur

Farið var í Selvoginn. Gengið var að flaki vélbátsins Varðar sem liggur í stórgrýtisurð skammt fyrir austan Selvogsvita. Bátinn rak upp í brimi árið 1956 og fórust allir sem um borð voru, fimm menn.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Flakið er illa farið en stefnishlutinn, með lúkarnum, er eftir og nokkuð þarna frá er afturdekkið, skreytt með ryðguðu dráttarspili.
Þátttakendur fengu sér kaffisopa og meðlæti þarna við flakið, með útsýni út yfir hafið og landið, böðuð í sólskini.
Þegar einn FERLIRs félaginn stóð upp, féll hann afturábak og kláraðist þannig úr könnunni yfir hann. Þar sem FERLIRs menn eru orðnir ýmsu vanir í þessum ferðum lét hann þetta ekki aftra sér í að fá aftur í könnuna. Teygði hann sig síðan í girnilega brauðsneið með áleggi. Skipti þá engum togum að brauðsneiðin var slegin úr höndum hans og féll hún niður í stórgrýtið.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Annar FERLIRs félagi missti síðan kaffikrúsina sína niður í grjótið, þó án þess að hún brotnaði. Þátttakendur þökkuðu fyrir móttökurnar þótt í gletnara lægi væru. En allir voru sammála um að þarna vildu þeir ekki eiga næturstað fyrst svona fjörugt sé í glaða sólskini.
Gengið var að Nesi og skoðaðar þær miklu minjar sem þarna eru.

Nes

Nes – legsteinn.

Mikið hefur verið leitað að legsteini þeim sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður með meiru, hafði bjargað undan jarðýtunni um miðja síðustu öld, þegar bóndinn í Nesi var að byggja hlöðu og fjós.
Vitað var að þarna hafði verið kirkjugarður og kirkja sem var endanlega aflögð 1706 en síðastur var þar grafinn Jón Jónsson, bóndi í Nesi. Hann andaðist árið 1702. Síra Jón Vestmann hefir þessa athugasemd um Jón bónda en hann ritaði m.a. „Lýsingu Selvogsþinga árið 1840“
„Hann byggði sér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans loks grafinn í skemmunni“. (Landnám Ingólfs, Guðni Jónsson).
Nokkrar fleiri heimildir eru um kirkju í Nesi.

Nes

Nes í Selvogi.

Forn maldage:
(1313) „Maraíu kirkia j Nese og hins helga mangvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyjar er (Finnr) Bjarnmason liet goira. a xx hvundrvd j heima landeog tielld vmm kirkiv . smelltan kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysisolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij kyr. a og kirkia“ (Fornleifaskráning í Ölfusi)

Máld (1313) 1397: Maríukirkja j Nesi …a .xxc j heimalandi, iij. kyr oc vj. ær…lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum í Nesi, tyund liggur þar til heimmanna oc af Biarnastodum.
(Fornl.sk. í Ö)

Selvogur

Selvogs-Jói með nýfundna legsteininn.

Kristófer fann þrjá legsteina, tvo stóra og einn lítinn sem hann taldi vera legstein frá barni. Var hann með kross.
Fyrir nokkrum árum ætlaði hann að ná í steinana en fann þá aðeins tvo þá stóru og fór með þá á minjasafn á Selfossi. Litla steininn fann hann ekki.
Nú þurfti ekki að leita, einn FERLIRs félaginn gekk beint að steininum þar sem hann var hálf niðurgrafinn við niðurfallinn vegginn á hlöðunni. Blasti krossinn í steininum við, moldfylltur.
Kristófer var látinn vita af fundinum og ætlar hann að huga að steininum ef einhverjar framkvæmdir verða þarna á staðnum. Hann var sammála FERLIRs félögum um að þessi steinn ætti ekki heima upp í hillu á minjasafni heldur fái að vera í sínu rétta umhverfi, gamla kirkjugarðinum í Nesi, með mannlífstónað öldugljálfrið við ströndina.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Vörður

„Vörður munu aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur.
Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku Arnastigur-501sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.
Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.

Skógfellavegur

Vörður við Skógfellaveg.

Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu ofan á annað, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.

VARÐAÐAR LEIÐIR FRÁ LANDNÁMI
Skogfellastigur-501Landnámsmenn Íslands komu að auðu landi og óbyggðu að mestu. Fyrstu árin í nýju landi hafa farið í að kanna næsta umhverfi á hverjum stað og síðan í framhaldi af því að leita hagkvæmra leiða milli byggða. Fyrst í stað könnuðu menn hinar skemmri leiðir, en ljótlega lögðu þeir land undir fót til að leita leiða milli landshluta. Líður þá ekki á löngu, þar til þeir þekkja deili á helstu hálendisleiðum um landið þvert og endilangt. Að sjálfsögðu urðu þessir landnemar að sýna mikla gætni og varúð, þegar þeir fóru um fjöll og óbyggðir í landi sem þeir þekktu lítið sem ekkert til. Þess vegna merktu þeir gjarna leiðir sínar með því að hlaða vörður, enda grjót tiltækt næstum hvarvetna á fjöllum. Slík leiðarmerki komu sér vel til að rata sömu leið tilbaka og þá ekki síður fyrir hina sem á eftir komu.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Frásagnir af hálendisferðum manna ná aftur til landnámsaldar og fyrsti nafngetni fjallvegurinn var Kjalvegur sem er leiðin frá Norðurlandi til Suðurlands, milli Hofsjökuls og Langjökuls. Og í þessum sögum er þess getið að landkönnuðirnir merktu leiðir sínar með því að hlaða vörður. Má því eiginlega slá því föstu að vörðuhleðsla sé nokkuð jafngömul mannabyggð í landinu. Þannig segir Landnáma frá fyrstu mannaferðum um Kjalveg og öruggt má telja að brátt hafi vörðum fjölgað svo, að Rangaðarvarða hafi aðeins verið ein af mörgum á þessum fjölfarna hálendisvegi. En elsta heimild um mannaferðir á Sprengisandsleið er að finna í Njálu. Ekki er þó getið um vörður, en gera má ráð fyrir að snemma hafi slík leiðarmerki komið til þar á hálendinu. Í lýsingu Eiríks Hafliðasonar frá því um 1740 eru að minnsta kosti nefndar vörður á Sprengisandi. Þar nefnir hann stað á sandinum sem hann segir að heiti Sveinar og „eru þar klappir með nokkrum vörðum“.

VÖRÐUR SEM EYKTAMÖRK
Midmundavarda-501En frá elstu tímum voru vörður ekki aðeins hlaðnar upp til að auðkenna leiðir eða til að sýna landamerki. Þær voru líka settar upp á viðeigandi stöðum sem eyktarmörk til að sýna hvað tímanum leið, því að klukkur komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en á síðustu öldum. Af þessum sökum finnast því víða um land á fjöllum og fellum vörður eða vörðubrot sem bera hinni fornu þriggja stunda skiptingu dagsins glöggt vitni, en þrjár stundir heita eykt hjá fyrri tíðar fólki. Ef vel er leitað munum við því geta fundið dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleira í líkum dúr víða um land. Ef til vill eru margar þeirra orðnar lágreistar eða jafvel hrundar af því að þær gegna ekki lengur neinu hlutverki og því er ekkert um þær skeytt, en víða munu örnefnin
enn vera á sínum stað.

VÖRDUR SEM MINNISMERKI
Prestsvarda-502Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Hallbjarnarvörður sem standa við Kaldadalsleið, nokkru norðar en Biskupsbrekka. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. í Landnámu segir frá uppruna varðanna. Af frásögn Landnámu má vera augljóst að Hallbjarnarvörður voru hlaðnar sem bautasteinar yfir þá sem féllu og þá ein fyrir hvern mann. Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður. Nægir í því sambandi að benda á Konungsvörðuna á Holtavörðuheiði sem hlaðin var til að minnast Norðurlandsferðar Kristjáns konungs X. og föruneytis hans árið 1936.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg. Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi. En þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum, en víst er að farið var um Sprengisand árið 1772 í tilraunarskyni. Þó komst á árið 1776 skipuleg póstþjónusta og landpóstar tóku þá að ferðast um byggðir og óbyggðir. Kjalvegur hafði alltaf verið fjölfarin leið, en árið 1780 urðu þar úti þeir bræðurnir Bjarni og Einar frá Reynisstað og förunautar þeirra. Hafði sá atburður mikil áhrif á fólk og tók mjög fyrir ferðir um fjallveginn um árabil. Alltaf fóru þó einhverjir þar um og árið 1794 var Sveinn Pálsson læknir þar á ferð. Lenti hann þá í hinu versta veðri og villtist. En hann rataði á rétta leið, þegar hann fann vörður nokkrar í Kjalhrauni sem vísuðu honum til vegar.

VARÐAÐAR LEIÐIR UM ALDAMÓT
Melabergsgata-501En hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin síðustu. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira. Páll Briem, amtmaður að norðan og austan, kynntist Daniel þessum og fékk hann til að kanna vegastæði á nokkrum hálendisleiðum í ferðum sínum. Í framhaldi af því var Kjalvegur merktur og varðaður sumrin 1898 og 99. Það verk unnu að mestu tveir skagfirskir bændur, Indriði Árnason á Írafelli og Magnús Jónsson í Gilhaga. Síðan sneru þeir Páll og Daníel sér að Sprengisandsleið. Fylgdarmaður Danans, Jón Oddsson, varðaði leiðina úr Bárðardal og suður fyrir Kiðagil sumarið 1901. Á næstu árum var verkinu haldið áfram og lokið við það um sumarið 1906. Þessa vörðuhleðslu önnuðust að mestu Jón Oddsson, Jón Þorkelsson og Eiríkur Sigurðsson, allir úr Bárðardal. Við þessa framkvæmd var tæknin komin á svo hátt stig að þeir félagar höfðu hest og kerru til að draga saman grjót í vörðurnar.

Gamli Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur – varða.

Í framhaldi af þessum samgöngubótum á helstu hálendisvegunum tóku menn víða að lagfæra vegi um fjöll og heiðar milli byggða og þá jafnframt að hressa við gamlar vörður og hlaða upp nýjar. Má í því sambandi benda á leiðina um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og Jökuldalsheiði og marga aðra fjallvegi úti um allt land. Síðasta skipulagða stórátakið sem gert var í því að hlaða vörður á hálendisleiðum var árið 1922. Þá unnu sumarlangt við að reisa sæluhús á Hveravöllum og varða Kjalveg að nýju þeir Halldór Jónsson frá Hrauntúni í Þingvallasveit, Helgi Sigurðsson, verkfræðingur og síðar hitaveitustjóri í Reykjavík, og maður að nafni Þorkell Guðmundsson. Eitthvað munu menn síðar hafa merkt leiðir með því að hlaða vörður og gera enn, þótt brátt kæmi að því að ný vegamerki leystu vörðurnar af hólmi, en það var þegar mönnum lærðist að setja tréstikur meðfram vegum og enn síðar grönn plaströr, máluð í skærum litum.

BEINAKERLINGAR
Dysjar-501Að endingu skal nefnd sérstök tegund af vörðum sem kallaðar voru beinakerlingar. Voru þær margár hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna. Ferðamennirnir gerðu gjarna klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin.
Minna má á beinakerlingu eina sem fyrrum stóð á miðri Höfðabrekkuheiði, þar sem lestamenn og aðrir ferðalangar höfðu fastan áningarstað. Fyrir munn hennar var eftirfarandi vísa gerð: Veri þeir allir velkomnir sem við mig spjalla í tryggðum; eg get valla unað mér ein í fjallabyggðum.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

En frægust allra þessara kerlinga mun þó vera Beinakerlingin á Kaldadal, en hún stendur þar sem talin var hálfnuð leið frá Þingvöllum til Húsafells. Í orðastað þessarar víðfrægu beinakerlingar varð fyrir margt löngu þessi staka kveðin: Sækir að mér sveina val sem þeir væri óðir; kúri ég ein á Kaldadal, komi þið, piltar góðir.
Auðvelt væri að halda áfram með að rifja upp gamlar beinakerlingarvísur sem margar hverjar eru haglega gerðar. En oft þóttu þær grófar í meira lagi. Breyttir samgönguhættir á bílaöld og meiri hraði en fyrrum hafa valdið því að menn nú á tímum staldra lítt við hjá fornum vörðum á fjallvegum og fágætt mun orðið að kveðnar séu beinakerlingavísur.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón R. Hjálmarsson, 12. ágúst 1995, bls. 6-7.

Skipsstigur-501

Skipsstígur.

Sundhnúkar

Jón Jónsson jarðfræðingur tók upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dró þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í Sundhnúkagígaröðinni. Strangt til tekið ætti því að tala um Sundhnúksgíga og Sundhnúkshraun. Hnúkurinn er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund. Þeir sem sóttu sjóinn þurftu að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem báturinn færðist nær landi.
Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi: „Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Heiðarvörðu/Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“ Stamphólsvarðan er nú horfin vegna nýbyggðar.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Varir Járngerðarstaðabænda voru vestan Hópsins, þ.e. Suðurvör, Skökk (Stokkavör), Norðurvör og Staðarvör. Hópsvörin var austan við Hópið.
„Skip Járngerðarstaðabænda reru úr [Norðurvör og Suðurvör], en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan reru skip Skálholtsstóls á meðan enn var útræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað“, segir í Sögu Grindavíkur I.
1703: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans…Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa á stólsins skipum…“JÁM III.

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

„Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör, sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör“, segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
„Innan við Staðarvör tók við malarkampur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur …“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Stórgrýtt fjara neðan sjávargarðs og um 200 m austan við Suðurvör, verbúðirnar voru upp af henni. Engin ummerki um lendinguna eru nú greinileg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þess má geta að þekking á leiðarmerkjum hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda reru margir aðkomumenn frá Grindavík og þar var lengi aðalverstöð Skálholtsstaðar.

Heimild m.a.:
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – https://www.facebook.com/arnastofnun/

Grindavík - kort 1751

Uppdráttur Christophs Klogs af Grindavíkurhöfn frá 1751, Staður og Húsatóftir vestast og Járngerðarstaðir og Hóp austast. Grynningar og sker sýnd með ýmsum táknum. Skjalið er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

 

Brúnavörður

Árni Óla skrifaði um „Vörður“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1972:
Varda-221„Það mun hafa verið forn siður í Noregi, að menn einkenndu ákveðna staði, með því að hlaða þar vörður. Þennan sið fluttu landnámsmenn með sér hingað, og hann hélzt um aldir, enda má víða finna gamlar vörður og vörðubrot hér á landi. Allar höfðu vörður þessar sinn ákveðna tilgang, þá er þær voru hlaðnar, en tilgangurinn gat verið ærið mismunandi.
Þegar menn voru að kanna ókunna stigu, hvort heldur var á landi eða með ströndum fram, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu komizt lengst og höfðu orðið að snúa aftur. Vörðurnar gátu þá bent til þess seinna, er aðra bar að þeim, að þarna hefðu menn komið áður. Þessi siður varð meðal annars til þess að sanna frásagnir um hina fornu íslenzku landnema í Grænlandi. Sagt er að þeir hafi farið óraleiðir norður með strönd Grænlands til veiða, þangað sem þeir kölluðu Norðursetu.
Brigður Varda-222voru bornar á að þetta gæti verið rétt, þar til fyrir rúmri öld, að á ey norður á 73. breiddargráðu, (um 30 sjómílum norðan við Upernivík), fundust þrjár vörður, mjög fornar og voru sýnilega á þeim handverk norrænna manna. Og til þess að taka af öll tvímæli um það, fannst þarna lítill rúnasteinn og stóð á honum, að þessar vörður hefði hlaðið „Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson laugardaginn fyrir gangdaginn (líklega 24. apríl 1333).
Árið 1876 ætlaði Sir George Nares að komast til Norðurpólsins og fann þá á leið sinni tvö vörðubrot á Washington Irvingey, lítilli klettaey hjá Ellesmerelandi á 79. gr., 35. mín. nbr., og síðar fundust enn tvær vörður á Ellesmerelandi á 72. gr., 58. mín. nbr. Öllum fræðimönnum ber saman um, að á þessum vörðum sé norrænt handbragð. En þessir staðir eru fyrir vestan Melvilleflóa. Hvað gátu Grænlendingar verið að gera þar? — Nú er sögn að árið 1266 hafi Grænlendingar haft úti leiðangur til að njósna um Skrælingja, og þykir líklegt að menn úr þeim leiðangri hafi hlaðið þessar vörður. Svo segir Vilhjálmur Stefánsson.
Þá má geta þess, að vörður voru hlaðnar sem siglingamerki og lendingamerki, ennfremur við vöð á ám og á ýmsum kennileitum, þar sem menn gætu áttað sig, ef þeir væru villtir, og eins voru vörður hlaðnar á landamerkjum. Færu menn í rannsóknarferðir, svo sem að kanna stóra hella, en fundu ekki botn í þeim, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu lengst komizt, og ef menn gengu á há fjöll, eða dranga, þá hlóðu þeir þar vörður fræknleik sínum til sönnnnar.
varda-223Enn var siður að hlaða vörður þar sem einhverjir merkisatburðir höfðu gerzt, og má nefna Hallbjarnarvörður á Uxabryggjaleið, þar sem þeir börðust Hallbjörn Oddsson frá Kiðjabergi og Snæbjörn galti. Eru þar tvær hæðir, er þeir börðust, og felldu þar átta menn. Segir Landnáma að þess vegna séa fimm vörður á annarri hæðinni, en þrjár á hinni, til þess að tákna mannfallið. En ekki er þess getið hverjir hafi hlaðið þær vörður. Örnefnið er kunnugt enn, en vörðurnar eru horfnar. Á þessum stað hafa vörðurnar verið minnismerki þeirra, er þar féllu.
Þá var það og siður, að hlaða vörður sér til verndar, einkum á torsóttum og hættulegum fjallvegum. Menn trúðu því, að það myndi blíðka skap dulvætta þeirra, er þar voru allsráðandi.
Sá, sem hlóð vörðu í fyrsta skipti er hann fór um fjallveginn, vættunum til heiðurs, mátti eiga víst að hann henti aldrei neitt óhapp á þeirri leið. Seinna var svo farið að varða vegi, svo að þeir væru ratandi í hvaða veðri sem væri, ef til vill fyrst leiðina á beitarhúsin, síðan leiðir milli bæja og- seinast óralanga heiðarvegi.
Vörðuhleðsla var upphaflega þjóðlegur siður og hafði margs konar tilgang, eins og hér hefir verið lýst. Siðurinn hefst með landnemum og eftir nokkrar aldir hefir verið kominn vörðugrúi í öllum landsfjórðungum.
varda-225En elztu frásögnina um vörðuleðslu er að finna í Landnámu og er sagan svo merkileg, að vel mætti hún vera í heiðri höfð meðan íslenzk tunga er töluð og Íslendinguni er annt um þjóðmenningu sína. Sagan er þannig sögð í Landnámu og hún gerðist í fremstu byggðum Skagafjarðar snemma á landnámsöld: Merkastur landnámsmaður þar var Eiríkur Hróaldsson í Goðdölum. Hann var eigi aðeins falinn vitrastur maður í Skagafjarðarhéraði á seinni tíð, heldur er hann talinn meðal ágætustu landnámsmanna í Norðlendingafjórðungi. Hann nam land frá Gilsá um Goðdali alla og ofan til Norðurár.
Hann bjó að Hofi í Goðdölum og var kvæntur Þuríði dóttur Þórðar skeggja, en hún var systir Helgu, er átti Ketilbjörn gamla á Mosfelli í Grímsnesi. Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Írafellslönd, með ráði Eiríks. Hann átti þræl þann er Roðrekur hét. Hann sendi þrælinn upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann komst að gili því er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreks gil. Þar setti hann niður staf nýbirktan, er þeir kölluðu Landkönnuð. Og eftir það snýr hann aftur.
varda-226Annar nágrannii Eiríks var Vékell hinn hamrammi, er land nam ofan frá Gilsá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli. Hann spurði til ferða Goðreks (spottaði hana, segir í Hauksbók). Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar. Hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur. En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður. Fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Vínverjadal, og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar, og kom þar á mannsspor, og skyldi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína. Og þaðan af tókust upp ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.
varda-227Saga þessi er bæði skemmtileg og fróðleg. Upphafið er skemmtilegt vegna þess, að
það afsannar þá firru, er margir hafa verið haldnir, að elztu rithöfundar vorir hafi verið gjörsneiddir allri gamansemi. Er ekki notaleg glettni í sögunni af Roðrek, sem sendur er að kanna firnindi Íslands og leggur af stað hinn borginmannlegasti með nýbirktan staf í hendi? Hannn kemst á hvarf við byggðina, stingur þar niður stafnum og hverfur aftur, en stafurinn fékk nafnið „Landkönnuður!“ Og svo er sagan um Mælifellsbóndann. Hann spottaði Roðrek fyrir ferð sína og hugðist nú gera heldur betur. Það er ekki út í bláinn að hann er kallaður hinn hamrammi. Hann komst að vísu lengra en Roðrekur, rakst þar á tvo hóla og skaut á millU þeirra. Við það hvarf hann aftur. Ekki er þess getið hvað skotið átti að þýða.
Niðurlag sögunnar er mjög fróðlegt, því að það sýnir með hverjum hætti fannst fyrsta leiðin yfir öræfi Íslands milli landsfjórðunga og hver árangur af því varð. Og hún sýnir líka, að Rönguður sendimaður hefir verið athugull og glöggskyggn. Hann fer þar til hann finnur slóð manns að sunnan.
Hann veit þá varda-228að ætlunarverki hans er lokið, sú leið er fær, sem hann á enn ófarna, og þess vegna hleður hann vörðu þar sem hann rakst á slóðina. Hann hefir einnig tekið glöggt eftir landslagi og staðháttum og getur lýst því öllu greinilega, er heim kemur. Vitrasta manninum í Skagafirði var trúandi til að kunna að meta þetta. Hann vissi að hinn ófrjálsi maður hafði unnið það frægðarverk, að opna alfaraleið þvert yfir landið, og veitti homum fyrir hin dýrustu laun, sem í hans valdi stóð að veita. Hann gaf þrælnum frelsi.
Vegna þess, að Garðar Svavarsson, hafði sigl umhverfis landið, munu flestir landnámsmenn hafa haft spurnir af því, áður en þeir fluttust hingað, að Ísland væri eyland. En fæsta mun hafa órað fyrir hve stórt það er og erfitt yfirferðar. Það er ekki fyrr en þeir hafa setzt hér að og komizt að raun um, að landið var ekki byggilegt nema með ströndum fram, að þeim urðu samgönguerfiðleikarnir ljósir. Hér var ekki hægt að treysta á samgöngur á sjó, eins og í Noregi. Hér var enginn skerjagarður úti fyrir, sem hlífði strandlengjunni. Hér voru ekki langir og veðursælir firðir að ferðast eftir. Hér var víðast opin brim strönd og hafnir fáar. Leiðir með ströndum fram, eða um byggðir, voru langar og krókóttar og þar voru margir farartálmar, enda þótt stórárnar hafi þá verið mörgum sinnum vatnsminni heldur en þær eru nú. Það var því eðlilegt nð landnámsmönnum væri mjög í mun að finna leiðir þvert yfir hálendið, og sendu því menn sína víða til að kanna landið. Og það hefir þótt svo merkur atburður, er fyrsta leiðin yfir öræfin fannst, að frásögn um það hefir verið skráð, enda þótt ekki sé minnst á aðrar rannsóknaferðir, sem farnar hafa verið, að undanteknu því, er synir Gnúpa-Bárðar fundu veg um Vonarskarð úr Bárðardal suður í Fljótshverfi.
varda-229Leið sú, er Rönguður fór, virðist hafa verið mjög hin sama og síðar var alfaraleið um margar aldir, um Mælifellsdal, Haukagilsheiði, Eyvindarstaðaheiði, yfir Blöndukvíslar að Reykjavöllum, sem nú kallast Hveravellir. Þar leggur hann á Kjalhraun. Í hrauninu rakst hann á mannsspor „og skildi að þau lágu sunnan að“. Vera má, að þetta hafi verið síðsumars og komið föl á hálendið og slóðin hafi því verið auðrakin. En ekki þarf svo að vera, hann gat hafa fundið sporin í sandi. En hver var þá maðurinn, er hafði skilið eftir spor sín þarna? Allar líkur benda til þess, að hann hafi verið þarna í sömu erindagerðum og Rönguður, sendur af sunnanmönnum til þess að finna leið norður yfir öræfin, og er þá varla öðrum til að dreifa en landnámsmönnum í Hrunamannahreppi. Landnáma segir svo frá þeim: „Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslandsbyggðar snemma. Þeir námu Hrunamannahrepp svo vítt sem vötn deila.“ Þeir voru synir fyrsta norræna mannsins, sem talið er að hafi stigið fótum á Ísland. Af góðum ættum hafa þeir verið og urðu sjálfir kynsælir. Út af Bröndólfi var kominn Hallur í Haukadal og Þorlákur biskup Runólfsson, en af Má var kominn Hjalti Skeggjason. Þessum landnámsmönnun er vel til þess trúandi eins og Eiríki í Goðdölum, að hafa haft mikinn hug á að kanna landið og finna veg norður yfir hálendið.
varda-230Rönguður hlóð vörðu þar sem hann rakst á slóð sunnanmannsins. Sú varða var við hann kennd og kölluð Rangaðarvarða, svo að ekki gleymdist nafn þess manns, er fyrstur fann þennan fjallveg. En ekki er þess getið hvar varðan stóð og gleymt er það nú. Varla hefir hann haft tíma til að hlaða háa og gilda vörðu og því er ólíklegt að hann hafi hlaðið hana inni í hrauninu. Hann muni hafa valið henni stað þar sem mest bar á henni og auðveldast var að finna hana. Þess vegna mun hún hafa staðið í hraunjaðrinum, ef til vill ekki langt frá þeim merka stað Hveravöllum.
Vörðum þeim, sem stóðu hjá fjallvegum, var haldið við, vegna þess að þær voru vegfarendum til leiðbeiningar. Fór þá tíðum svo, að þessar vörður urðu bæði háar og digrar, og af stærðinni voru þeim gefin nöfn og kallaðar Kerlingar. En Kerling þýddi þar sama sem skessa eða tröllkona. Um vörðu, sem stóð á Mýrdalssandi, var t.d. þessi vísa kveðin:
Kerling ein á kletti sat
Kötlusands á stræti,
vísað mönnum veginn gat,
var þó kyrr í sæti.
varda-231Enginn vafi mun á því vera, að Rangaðarvarða hefir verið endurnýjuð og stækkuð svo, að hún átti skilið að heita Kerling og hefir verið kölluð svo um aldir, því að til þess bendir gömul vísa, að hún hafi staðið langt fram á 18. öld. Um þá heimild er það að segja, að í Kjalhrauni er hellir, sem nefnist Grettishellir og á Grettir að hafa hafzt þar við um þær mundir er hann hitti Loft á Kili og Loftur strauk hendur hans af beizlistaumum sínum. Hellir þessi er í hrauninu sunnan við Rjúpnafell og um 7 km fyrir sunnan Hveravelli. Hann var allstór fyrrum og leituðu ferðamenn þar oft náttstaðar, en nú er hann fullur af roksandi.
Vísan var kveðin í þessum helli eigi seinna en á 18. öld:
Hér er Grettis gamla borg,
sem gott er við að una,
en eg er hryggur út af sorg
eftir Kerlinguna.
Þetta virðist benda til þess, að varðan hafi þá verið hrunin. Og varla hefir hún verið hresst við aftur, því að eftir óhappaför Reynistaðarbræðra 1780, tóku ferðir um Kjalveg að leggjast niður og má segja að hann hafi verið týndur sem ferðamannaleið allt framundir seinustu aldamót, að Daniel Bruun „fann“ veginn að nýju. Og þótt hann hafi síðar verið varðaður, þá er Rangaðarvarða týnd. Slíkt hugsunarleysi getur ekki verið skammlaust þeirri þjóð, sem vill hafa menningarsögu sína í heiðri. Rangaðarvörðu verður að reisa að nýju, þetta elzta íslenzka minnismerki um afrek unnið á sviði landkönnunar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. sept. 1972, bls. 12-13.

Varda-221

Borgarhóll

Eftirfarandi frétt birtist í Fréttablaðinu 22. sept. 2008 undir yfirskriftinni „Felldu ferðamannavörtur“.
Leiðsögumenn„Þetta er mikilvæg aðgerð sem miðar að því að vekja athygli á einu versta náttúrusóða- vandamáli síðari tíma,“ segir Ari Arnórsson leiðsögumaður, sem á föstudaginn stóð fyrir vörtuhreinsun meðfram Krýsuvíkurvegi.
Vörtur eru vörður sem ferðamenn hlaða á ferðamannastöðum. Þó að flestar þeirra séu í smærri kantinum var sú stærsta sem Ari og félagar felldu á föstudaginn einn og hálfur metri á hæð.
„Vörður og vörðubrot eru menningarverðmæti sem ekki má hrófla við en vörtur eru ómenningarlýti sem hreinsa þarf jafnóðum,“ segir Ari.
Umfjöllun Fréttablaðsins var í kjölfar fréttar á vef Félags leiðsögumanna þann 19. sept. 2008, sem hljóðaði svo undir yfirskriftinni „Leiðsögumenn felldu 1200 ferðamannavörtur“:

Ísólfsskálavegur

„Þetta er mikilvæg aðgerð sem miðar að því að vekja athygli á einu versta náttúrusóðavandamáli síðari ára,“ segir Ari Arnórsson leiðsögumaður sem í dag stóð fyrir vörtuhreinsun (vörðuhreinsun) á Krýsuvíkurvegi. Gott framtak, segir form. Félags leiðsögum.
„Vörturnar eru miklu meira og stærra vandamál í náttúru Íslands heldur en skógarhögg í leyfisleysi, rusl, hávaði og varðeldar,“ segir Ari. „Ég tók þátt í þessu þarfa náttúruverndarátaki vegna þess að mér þykir vænt um náttúruna eins og hún er og vil stuðla að góðri umgengni ferðamanna um náttúruna,“ segir Þórunn, eini þátttakandinn sem ekki er leiðsögumaður.
„Vörtur hlaðnar af ferðamönnum á ferðamannastöðum eru lýti í náttúrunni. Fyrir mér eru vörður í náttúrunni samskonar lýti og graff í borginni,“ segir Stefán. „Vörtur eru og hafa verið vandamál á ýmsum ferðamannastöðum víðsvegar um landið um langt skeið og of lítið að gert til að stemma stigu við þeim. Hins vegar trúi ég því að fagmenntaðir landverðir og fagmenntaðir leiðsögumenn upp til hópa fordæmi vörður ferðamanna og taki virka afstöðu með náttúrunni. Það er verðugt umhugsunarefni að ferðamenn hlaða vörður á ýmsum vinsælum ferðamannastöðum í meira mæli en áður, að því að mér virðist.“

Vörtur

„Í mínum huga eru ferðamannavörtur eins og krabbamein, þegar það er byrjað heldur það bara áfram,“ segir Rakel Jónsdóttir. Ragnheiður Björnsdóttir, formaður Félags leiðsögumanna, fagnar framtaki Ara. „Það er sjálfsagt að vekja athygli á þessu vaxandi vandamáli. Mér finnst óþarfi að hlaða vörðum út um allar trissur. Reyndar finnst mér vörður  eiga rétt á sér á sumum stöðum, eins og til dæmis landamerki og leiðarvísar, en alls ekki hvar sem er. Vörðuvandamálið er að sumu leyti af sama meiði og þegar ferðamenn kasta smápeningum í gjár og hveri. Hvort tveggja finnst mér mikið líti í náttúru Íslands.“
Á vefsíðu reykjanesguide.is þann 20. mars 2007 sagði um „Vörðurnar á Borgarhól“: „Margir sem ferðast um Reykjanes reka upp stór augu þegar komið er að Borgarhóli við veginn milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Þar gefur að líta tugi, jafnvel hundruð misstórra steinvarða sem eru á víð og dreif um svæðið. Ekki er svo að þetta sé af náttúruvöldum, eða að þetta sé fornar minjar, heldur hafa þær skotið upp kollinum, ein af annari, síðustu 4-5 ár. Ferðalangar sem eiga leið þar hjá hafa sett saman litla vörðu til minningar um ferðir sínar og er nú svo komið að vart er þverfótandi fyrir vörðum. Að vísu var ein varða á Borgarhól en sú markaði svæði Reykjanesfólkvangs.

Vörtur

Engu að síður er gaman að koma á Borgarhól og þetta er skemmtileg sjón. Vitað er um einn svipaðan stað á landinu, en nálægt Vík í Mýrdal hafa ferðalangar reist sér litlar vörður og þykir það boða gæfu á ferð um svæðið.“
Í rauninni mætti segja fleira slæmt um þann gjörning að fella „vörturnar“ á Borgarhól en þá, sem þær hlóðu. Flestir geta verið sammála um að ekki eigi að hlaða vörður (sjá HÉR) einungis til minningar um að viðkomandi hafi komið þangað. Þannig hefur Borgarhóll orðið náttúrulegt altari ferðamanna, sem vildu votta hinu sérstæða umhverfi Krýsuvíkursvæðisins virðingu sína. Gjörningurinn hefur því orðið til af góðum hug, en ekki meðvituðu virðingarleysi fyrir umhverfinu.
VörturHér var ekki um eiginlegar vörður að ræða heldur einungis nokkra steina á steinum (vörtur) á mjög afmörkuðu svæði. Með tímanum hafði myndast á Borgarhól þyrping smávarða eftir ferðalanga um Ísólfsskálaveg, en leiðin er og hefur verið mjög vinsæl ferðamannaleið, ekki síst meðal útlendinga. Eftir að smávörðurnar komu til á annars eyðilegum hólnum hafa æ fleiri staðnæmst á honum og gefið umhverfinu gaum. Minnismerkin, sem má líta á sem nokkurs konar gjörning (listaverk) með þátttöku fjölda manns, hafa og orðið mörgum eftirminnilegt myndefni. Umhverfi hólsins hafði verið látið í friði, t.d. hlaðin forn fjárborg, sem er þar vestan í hólnum. Undir hólnum lá gamla gatan milli Krýsuvíkur og Húshólma. Á hólnum voru tvö vörðubrot til merkis um gömlu leiðina milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur (sjá HÉR). Þær höfðu fram til þessa verið látnar í friði – þangað til núna. Í „átaki“ leiðsögumanna varð þeim raskað, sem reyndar er bæði mikil synd og gæti hugsanlega varðað refsingu.

Vörtur

„Vörtur“ þær er hafa verið umfjöllunarefni hér að framan hafa ekki verið vandamál á Reykjanesskaganum og því óskiljanlegt að þar skuli hafa verið látið til skarar skríða í þeim efnum. Nær hefði verið að beina athyglinni að einstökum vörðum, sem fólk hefur verið að hlaða hingað og þangað í algeru tilgangsleysi, en leyfa ferðamönnum að hafa afmarkað svæði fyrir sig til að hlaða vörtur, líkt og verið hefur á Borgarhól. Ætla mætti, með þessum gjörningi, að leiðsögumönnum væri illa við að Reykjanesskaginn skuli njóta aðdráttarafls ferðamanna. Fyrst viðbrögðin voru þessi við litlum vörtum mætti spyrja; Hver ætli viðbrögðin hefðu verið ef ÞETTA mannvirki hefði verið reist á Borgarhól?
Leiðsögumönnum er vinsamlegast bent, vilji þeir beita sér á svæðinu, á mun nærtækara og mikilvægara viðfangsefni til að takast á við – utanvegaakstri með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Á vefsíðu leiðsögumanna er könnun með spurningunni: „Ég er mótfallin/n því að ferðamenn hlaði vörður“. Út frá viðbrögðum þátttakenda er síðan dregin ályktun um viðhorf þeirra sömu til fyrrnefndra „varta“, sem er bara allt annar hlutur. Og loks má benda leiðsögumönnum á að Borgarhóll er ekki við Krýsuvíkurveginn eins og lesa má út úr fréttinni.

Heimildir:
-frettabladid.is 22.09.2008, bls. 1
-http://www.touristguide.is/
-reykjansguide.is
-myndir; æbj á flickr.com/photos/purephotos/2599305140

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Selvogur

Gengið var um Selvog í sól og blíðu. Kristófer kirkjuvörður kom þar að akandi á sínum öndvegis jeppa með kerru við annan mann. Báðir bullsveitir. Vel lá á Fera og var hann að vonum glaður á sjá hópinn, sem að mestu var skipaður „orginal“ Hafnarbúum.

Selvogur

Selvogs-Jói með grafstein úr Neskirkjugarði.

Kristófer var spurður almæltra tíðinda og við hvað hann hafi verið að dunda í Voginum. „Ég var að gera kirkjugarð“, svaraði hann. Kristófer sagði að hann teldi að steinninn sem FERLIR fann eftir leit (sjá sögnina af legsteinunum þremur og hvarfi eins þeirra) s.l. sumar væri ekki sá sem hann hefði fundið um árið þegar framkvæmdirnar voru við útihúsin. Þennan stein hefði hann ekki séð áður. Steininn sem hann fann á sínum tíma og týndi aftur hefði verið rúmlega lófastór og þess vegna hafi hann talið að sá hefði verið á leiði barns er hafi líklega dáið í „svartadauða“.
Farið var að bátsflakinu (Vörður) austan við Nessvita (Selvogsvita) og vitinn síðan skoðaður sem og og gamla vitastæðið á klöppunum.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við nes.

Þegar komið var að Nesi sást að á sléttri flöt rétt vestan við rústirnar af hlöðunni hafði verið afgirt svæði með staurum og vírneti, nokkra metrar á hvorn veg. Garðurinn hafði verið borinn fínni möl og hlaðnir fjörusteinar í kring. Í suðvesturhorninu á garðinum lá á mölinni steinn með krossmarki. Þarna var kominn steininn sem FERLIR fann s.l. sumar (sjá mynd) og er hann eini legsteinninn sem þar er sýnilegur í dag. Enn vantar litla legsteininn, sem Kristófer fann um árið, en týndist aftur. Hinir tveir, er fundust, eru á minjasafninu á Selfossi.
Gengið var í 2 klst og 17 mín.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Selatangar

Svonefndar „gatvörður“ hafa valdið mönnum heilabrotum um langa tíð.
Sjá má nokkrar slíkar á Reykjanesskaganum. Ein helsta kenningin hefur verið Gatvarða ofan við Merkines - sú að þær eigi sér skírskotun til sambærilegra mannvirkja í Norður-Ameríku og hefðu því bæði verið hlaðnar af sama fólkinu beggja vegna Atlantshafsins og/eða gegnt sambærulegu hlutverki. Hvert fólkið var eða hvaða hlutverki þær áttu að hafa þjónað hefur hins vegar ekki verið útskýrt af neinu viti.
Ef litið er á þessar gatvörður á Reykjanesskaganum má a.m.k. telja eftirfarandi:
a) Ofan við Merkines eru tvær gatvörður. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessar vörður: „Landið á hægri hönd, að Merkinesvör, er nefnt Flatir(nar). Þá er komið að hringmynduðum grjótgarði á vinstri hönd. Það heitir Innstigarður. Upp frá Innstagarði liggur breitt lægðardrag allt upp að Norður-Nauthólum og kallast einu nafni Merkineslágar. Skammt upp frá Innstagarði er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og stór varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.“ Í örnefnalýsingu fyrir Merkines er einig getið um vörðurnar: „Neðst í Merkineslágum er grjótvarða, hlaðin þannig, að neðst eru tveir stólpar og svo einn upp úr. Þetta er mjög gömul varða og ágætlega hlaðin. Hún heitir Strákur. Nokkuð ofar er lítil varða á kletti, sem nefnd er Stelpa. 

Varða ofan við gömlu Hafnir - Systur

Þarna eru allmargir smáhólar. Meðan þetta land var meira nytjað, hafa örugglega margir þeirra haft nöfn, sem nú eru glötuð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn segir einnig um þessar vörður: „Dálitlum spöl ofar er sérkennilegur klapparhóll, áþekkur gömlum torfkofa í laginu. Hann heitir Bæli, mikið notaður sem mið, bæði við leiðir og lendingar og eins á grunnamiðum. Þar, en ofar eru tvær vörður með litlu millibili á klöppum og heita þær Systur. Til suðausturs upp frá Kalmanstjörn er holt, sem liggur frá suðvestri til norðausturs, og nokkru hærra til norðausturs, með vörðubroti á, svo sem 1 km frá bænum; það heitir Merarholt.“
Við svonefndan Prestastíg (nýnefna) eru tvær gatvörður utan í efstu brúnum (Presthól) ofan Hundadals. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessa leið (ekki er getið sérstaklega um vörðurnar): „Til norðurs er nokkuð stór grjót- og klapparhóll skammt upp frá gjánni. Hann heitir Markhóll. Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll.  Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag.“

Varða við Presthól

Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn af sömu leið er ekki heldur getið um þessar „afbrigðilegu“ vörður: „Vestan við Tjaldstæðagjá, sem fyrr er nefnd, er hrauntangi. Þar á er hæð, sem heitir Presthóll og var á leið Grindavíkurklerka, er þeir voru á ferð. Haugur er hæð, sem er sunnarlega, vestur af Haugsvörðugjá.“
Á Mosfellsheiði eru tóftir sæluhúss vestan í Háamel. Í örnefnalýsingu fyrir Mosfellsheiði segir: „Sunnan undir Háamel var eitt sumar, eða tvö, fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarblóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sléttir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. „Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.“ Gatvarðan skammt vestar virðist ekki hafa verið í frásögu færandi. Reyndar eru vörður á þessari leið eitt allsherjar samansafn af öllum helstu vörðutegundum landsins.
Við Vestari rekagötuna milli Selatanga og Ísólfsskála er falleg gatvarða. Einnig á samhengisslausum stað í Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Tvær gatvörður, annars vegar við hina fornu Hvalsnesleið og hina nýju Reykjanesbraut virðast vera æði nýlegar og vera dæmigerð sköpunarverk höfundanna. Þessar vörður, þótt nýlegar séu, gefa jafnframt góðar vísbendingar um tilurð þeirra, sem eldri eru, sem og annarra sambærilegra vestanhafs.

Varða við Reykjanesbraut - nú horfin

Fyrr á tímum voru bændur skuldbundnir til tiltekinnar þegnskylduvinnu. Yfirvaldið ákvað verkefnið, sem gat verið í formi vegghleðslna, gatnagerðar eða vörðuhleðslu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig þurfti sérhver bóndi að leggja sitt af mörkum tiltekinn tíma á hverju ári – endurgjaldslaust. Sýslumenn, hreppsstjórar, prestar og læknar gengu í sama skólann, tengdust vinarböndum og tryggðarfestum til lengri framtíðar. Prestarnir virðast hafa haft afgerandi áhrif á vinnuframlagið, sbr. vetrarleið Hvalsnesgötunnar, en þá götu fór presturinn í Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson, jafnan milli vinnustaðarins og heimilisins að Bolabás í Ytri-Njarðvík á 17. öld. Helsta öryggisáhugamál prestanna var að komast lifandi milli kirkjustaða, sem þeim var ætlað að þjóna, einkum í víðsjálegum verðum að vetrarlagi.

Af framangreindum gatvörðum má draga tvenns konar ályktanir; annars vegar þá að einstaka áræðnum bónda hafi ofboðið ánauðin og ákveðið að tjá hug sinn til hennar. Í stað þess að hlaða hefðbundna forskrifaða vörðu (60×60 og 120 að hæð) hafi hann viljað vekja athygli á þurfalinginu. Dagsverkið hefur eflaust verið ca. tvær fullhlaðnar vörður og skýrir það vel gatvörðurnar tvær við Presthól. Afurðin hefur í framhaldinu án efa vakið mikið umtal á þeim tíma, enda vörðurnar ólíkar öllum öðrum hefðbundum við stíginn. Ef til væru stólræður prestsins frá þessum tíma mætti eflaust sjá viðbrögðin við afbrigðilegheitunum – með tilheyrandi bölvunum og bannfæringum.
Varða við vestari Rekagötuna að ÍsólfsskálaÍ dag, þegar gengið er „Prestastíg“ (sem reyndar lá annars staðar um heiðina fyrrum) vekja þessar tvær vörður einna mesta athygli göngufólks. Svo gildir og jafnan um verk þeirra, sem hafa viljað tjá sig í seinni tíð á annan hátt en hefðbundinn. Líkt og þá hafa verkin verið talin „fáranleg“, en smám saman, með tímanum, fengið viðurkenningu í samræmi við gildi tjáningarinnar. Sömu lögmál eru algild, bæði í tíma og rúmi, um árþúsunda sögu mannskepnunnar – og þarf ekki Reykjanesskagann til. Hins vegar má ætla, út frá sömu rökyggju, að einhverjir hafi viljað byggja vörðu á fjölförnum stað er ætlast var að vekti sérstaka athygli. Segja má að á öllum þeim stöðum, er það átti við, hefur það tekist með ágætum. Hughrifin ein hafa þó jafnan verið látin duga, en ekki verið talin ástæða til að fjallaa sérstaklega um einstök mannvirki í markverðum textum – enda vörðurnar yfirleitt skammlífar. Þannig entist varðan við Reykjanesbrautina einungis í þrjú ár. Vörðurnar við „Prestastíg“ og ofanvert Merkines sem og við Rekagötuna frá Selatöngum og á Mosfellsheiði eru hins vegar u.þ.b. 100 ára. Ekki er vitað um aldur vörðurnar í Norður-Ameríku, en ætla má að tilefni að sköpun þeirra hafi verið af sömu tilfinningarrótum og hér á landi.
Gatvörður

Heiðin há

Einn FERLIRsfélaga hefur dundað við að skoða mögulegar gamlar leiðir um Heiðina há. Heiðarvegurinn, af Selvogsgötu við ofanverð Grindarskörð, með sunnanverðum Kerlingarhnúk og niður heiðina að Sandfelli, hefur verið kortlagður sem Hraunbólaog Selvogsgatan öll.
Vörður vestan Heiðarvegar virtust stopular við fyrstu sýn, en þegar farið var að skoða þær nánar og hnitsetja kom svolítið áhugavert í ljós; hugsanleg gata þvert á Heiðarveginn ofan við Bláfjallahornið niður á Selvogsgötu ofan við Urðarfell með viðkomu í Rituvatnsstæðinu. Þessi kafli er rúmlega 9 km langur og liðast niður Háheiðina vestanverða. Ef tekið væri mið af vörðum á þessari leið myndi gatan liggja frá norðri til suðurs um stalla og hvamma.
Þegar komið var á svæðið virtist landslagið einsleitt, hraunhólar hverjum öðrum líkir. Vörðurnar voru litlar og höfðu verið lagaðar. Gata á milli þeirra er næsta óljós. Vörðurnar þarna eru jafnan á klapparhólum svo til í beinni stefnu. Á a.m.k. þremur stöðum eru skjól í hraunbólum, það efsta hið ágætasta.
Jón hafði áður skoðað götur upp með Selfjalli um Rjúpnadali og áfram áleiðis upp í Bláfjöllin vestanverð. Fallnar vörður eru einnig á þeirri leið, en hraunhaft á leiðinni setti strik í reikninginn. Annars er þessi leið í heild mjög greiðfær og í raun mjög eðlileg fyrir t.d. vermenn að vestan á leið í Selvog eða aðra staði á sunnanverðum Reykjanesskaganum. Hins vegar er erfitt að sjá hvers vegna fólk ætti að hafa farið svo hátt upp í Heiðina há þegar hægt var að fara mun greiðfærari leið mun neðar, þ.e. milli Þríhnúka og Strompa. Hækkunin þar er lítil og um slétt helluhraun að fara. Sú leið væri líka eðlilegt framhald af Selvogsgötunni.

Varða

Líklegt má telja að framangreindar vörður hafi ráðið smalaskilum. Fjárkóngar Grindavíkinga, Hafnfirðinga, Selvogsinga, Ölvusinga og Reykvíkinga og fylgdarlið þeirra hittust í Kóngsfelli ofan við Bolla. Þaðan skipuðu þeir liði sínu á heiðina. Vörðurnar gætu hafa verið kennileiti fyrir mannskapinn í annars kennilausri heiðinni vestanverðri, annars vegar Ölvusmanna og hins vegar Selvogsmanna.
Annars var frábært að skoða Brennisteinsfjöllin og Ásana frá Heiðinni há. Gengið var langleiðina niður að Rituvatnsstæðinu (Móvatnsstæðinu) ofan við Urðafell. Þegar þangað var komið  var stefnan tekin á gíginn í Heiðinni há.

Rás vestan í Heiðinni há

Hún er 2030 fet á hæð, geisimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lík í lögun og Skjaldbreiður. Hún er hlaðin upp úr óteljandi gömlum hraunalögum. Efst á heiðinni markar fyrir gígum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr. Gígurinn er nú fullur af hrauni, em hefir verið afar stór, sem sjá má af leifum þeim, sem standa af gígröndinni. Það eru dálitlir hraunhnúkar sem standa í hring og hefir gígurinn verið allt að 100 faðmar að þvermáli.
Útsýni er frá dyngjunni austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa. Sunnanlands undirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum. Vestmannaeyjar lyftust upp af hyllingunni og Snæfellsjökull norðan við flóðann blasti við eins og fagur og hann er vandur. Langt uppi í landi rís Skjaldbreiður við himin og jöklarnir með hvítleitum bjarma.
RásEldstöðin Heiðin há er sem fyrr segir af dyngjuætt og er ein mest eldstöðva á Reykjanesskaganum. Hraun frá henni þekja um 170 ferkíómetra og rúmmál þeirra um 6,8 rúmkílómetrar, en það er ríflega helmingur af hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Ekki ber mikið á gígnum sjálfum en þó eru á börmum hans háar hraunstrýtur sem sýna nokkurn vegin útlínur hans. Hæðin er 613 m.y.s.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun.
Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og GjallLeitin tilh
eyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.

Dyngjan, sem heiðin há, stendur á, liggur utan í Bláfjöllunum og hefur á kafla kaffært framhald þeirra til suðvesturs að Austurásum. Mögulegt er að hraun frá Heiðinni há hafi fyllt 100-200 m dæld í landið umhverfis Geitafell en það mun vera þykkt hraunanna við fjallið. Eldri hraun, nú grafin, kunna að hafa fyllt slíka dæld við upphaf nútíma áður en Heiðin há varð til.
Gengið var fram á op tveggja hraunrása, aðra suðvestan í gígunum og hina norðan í þeim. Þær voru ekki skoðaðar að þessu sinni, en hnit tekin. Hins vegar var gengið yfir á Heiðarveginn milli Heiðarinnar og Kerlingarhnúks. Veginum var fylgt til vesturs þar sem hann liggur út með Bláfjallshorninu. Vörður og vörðubrot eru á þeirri leið. Handan við hornið sjást ekki vörður en augljóst má telja að vegurinn hafi liðast þar niður smágrýtta hlíðina áleiðis að Stórkonugjá og á mót Selvogsgötu austan Grindaskarða. Ætlunin er að rekja Heiðarveginn fljótlega. (Sjá meira um Heiðina há HÉR.)
Frábært veður. Gengnir voru 13 km og tók það 5 kls og 5 mín.

Vestmannaeyjar

Vörður

Eftirfarandi skrif „um fjallvegu, vörður og sæluhús“ má lesa í tímaritinu Mána 1880: „Til þess að greiða samgöngur og tryggja félagsskap milli sveita og héraða má fyrst telja þjóðveguna.

Varda-22

Félög vor og samtök eru lítil, og kemur það víst að nokkru leyti til af því, að land vort er strjálbyggt og örðugt yfirferðar, en vegir eigi nógu greiðir, og tefur það allmikið fyrir samtökum, samgöngum og félögum milli sveita og sýslna. Hvervetna erlendis þar sem fylgi og félagsskapur er mestur milli þjóðanna þar eru líka þjóðvegimir greiðastir, löndin sljett, árnar skipgengar, grafin sýki, byggðar járnbrautir o. s.
frv. Hér er eigi um neitt þesskonar að tala; land vort er fjöllótt, árnar straumharðar, og margar vatnslitlar, en brimgarður og og sker fyrir mynni þeirra, og víðast er það að sá sem vill ferðast milli sveita eða sýslna verður að fara yfir dali, hóla, fjöll og firnindi, og verður það opt mjög tilfinnanlegt í illum veðrum, er ætíð má búast við á fjallvegum einkum á vetrum.

varda-23

Nú er þó svo komið hjá oss að mikil lögun er komið á marga fjallvegu og þeir orðnir góðir yfirferðar á sumrum, og hefir nú á síðastliðnum 10 árum allmiklu fé verið kostað til vegabóta, og erum vér vissir um að meiri hluta alþýðu þykir því fé vel varið, og hafa orðið að góðum notum, en samt sem áður eru vegirnir ófullkomnir, þar eð þeir flestir eru að eins sumarvegir. Vér Íslendingar þurfum eigi síður greiða vegu um landið á vetrum og opt er það að þá þarf maður helst að reyna á þá. Á vetrum er slétt yfir alla vegu af snjó og ís, og þótt vegirnir séu hlaðnir upp, er það opt að eigi sést til þeirra fyrir snjó. Einnig er það líka að ef maður, eins og opt Vagnvegur-21kemur fyrir, á vetrum, tekur af sér króka með því að ganga beinnan vegurinn liggur, að hann á þá opt illt með að finna veginn, ef hann eigi er gagnkunnugur honum, en af slíku geta menn opt komist í vandræði og jafnvel beðið bana, ef misjöfn eru veður; til þess að ráða bót á slíku ættu sýslunefndir að fara að hugsa um það efni og sjá svo um að hlaðnar væru vissar vörður á fjallvegum, er ferðamenn gætu óhultir farið eptir, til þess að komast áfram leið sína til byggða; vörðurnar þyrftu að vera þéttar, svo að þær sæjust glöggt þó illt væri veður og kafald; það sjá allir að nauðsyn er á einhverjum vissum leiðarvísi fyrir ferðamenn á vetrum, er svo opt eru á ferð, þar sem samgöngur milli héraða eru nokkuð að aukast, einkum póstferðir, og menn eru sendir með áríðandi bréf og sendingar, er fljótt og áreiðanlega eiga að komast til skila.
Vagnvegur-22Erlendis eru víða vitar, er sjómenn og landfarar beina leið sína eptir, en að hafa vita hér sýnist óhugsandi, sakir ýmsra annmarka. Vér viljum telja hér nokkra hina helstu fjallvegu, er óumflýjanlegt er að fara yfir, og nauðsyn væri að hlaðnar væru vissar vörður á, fyrir pósta og aðra ferðamenn að rjetta sig eptir á vetrum. Allir þessir vegir eru langir og illir yfirferðar og mjög villugjarnir.
Þegar lengra er haldið áfram yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir. Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði
milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni,
þá Grindaskörð milli Ólvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.
villuvarda-21Nokkrir af vegum þeim, er áður eru taldir, hafa reyndar fengið allgóða lögun, en hvergi nærri fullkomna til þess, að þeir gætu heitið vetrarvegir, þar eð flesta þeirra vantar sæluhús og vörður eða einhver glögg einkenni, er ferðamenn gætu óhultir rétt sig eptir, ef veður eru misjöfn. Það sjá allir hvað póstferðirnar eru nauðsynlegar, og án þeirra getur enginn félagsskapur né samgöngur orðið að góðum notum, en það sjá líka allir hve örðuga og geigvænlega leið póstar eiga fyrir höndum á vetrum, er þeir í tvísýnu veðri og illri færð eins og þá opt kemur fyrir, verða að ferðast um þessar heiðar og eyðimerkur til þess að ná til byggða. Vörður þær, er hlaðnar eru á fjallvegum eiga að hafa áttavita, það er að segja út úr tveimur hliðum vörðunnar eiga að standa þrep, er snúi hvort frá öðru í gagnstæðar áttir t. d. úr suðurhlið og norðurhlið vörðunnar, og ætti eigi lengra að vera milli varðanna en svari 30—40 föðmum; best væri að vörðurnar væru hlaðnar skammt frá veginum en þó allar á sömu hlið við hann, og ætti einkum að sjá svo til, að þær gætu staðið nokkuð hátt, svo eigi þyrfti að óttast fyrir að snjó legði yfir þær; ef þær stæðu mjög nærri veginum, ætlum vér hættara við að þær kynnu fremur að falla ef ógætilega væri hjá þeim farið.

villuvarda-22

Þótt vegir séu hlaðnir upp, þarf engu síður vörður við þá, ef þeir liggja yfir óbyggðir. Sæluhús eru ómissandi á mörgum fjallvegum hér, og það er undarleg vanhirða þjóðarinnar, að eigi skuli sæluhús enn vera orðin almennari í
mestu alfara óbyggðum landsinsenþaueru, og flestir þeir sæluhúskofar, er til eru, eru hafðir mannlausir, svo þeir undir eins fúna niður, og verða að litlum notum. í nokkrum óbyggðum landsins er þar á móti gnægð af villuvörðum, er nauðsynlegt væri að felldar væru niður til grunna. Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni. Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.“

Heimild:
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 3. tbl. bls. 21-22.
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 4.-5. tbl, bls. 34-35.
-Máni, 1. árg 1879-1880, 8. tbl. bls.60-61.

Varda-21