Vörður hafa verið til marga hluta nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Hliðstæðar vörður, með sambærilegan tilgang og hér eru, má t.d. finna í Noregi og á Suðureyjum, en auk þess á Grænlandi og í Nýfundnalandi.
Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga. Þær voru hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem „útsýnisgluggi“) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).
Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.
Nafnkenndar vörður á Reykjanesskaganum eru um 200 talsins, auk allra þeirra hundruða, sem fylgja röðum gamalla gatna, kenni- og landamerkjum. Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.
Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við gömlu Sprengisandsleiðina, Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í „lágvaxnar“ vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu „grjóthringi“ á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig „sveiflan“ í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.
Þá standast t.d. vörður úr hraungrýti betur „áreiti“ en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.
Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á.
Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.
Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að „nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.
Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.
Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.“
Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli.
Þar segir m.a. að „svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell“.
Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni.
Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur. Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin. Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.
Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir „vörðugerð“ fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans. Í hans augum hafa vörður bara verið vörður og tæplega þó.
Þegar „æft“ fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að „endurfinna“ eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að „merkja“ tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.
Ein merkilegasta varðan hér á landi er án efa dysin á Bláfellshálsi. Á meðal ferðamanna gengur sú saga að varðan sé ævagömul. Sú hefð hefur myndast að ferðalangar kasta steini í vörður þeim til heilla á löngum leiðum. Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið hans. Hann skildi stígvélið þar eftir, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, vörðuna á hálsinum, sem er táknrænn áfangi á leiðinni, og bættu um betur, minnugir sögninni um heillamerki.
Þetta er nú bara svolítill fróðleikur um vörður svo engan reki í vörðurnar ef um verður spurt. Þetta ætti a.m.k. að varða leiðina að aukinni vitneskju – því markmiðið er jú að vita meira og meira, meira í dag en í gær.