Aukahola

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi eftir slóða til austurs með Undirhlíðum í áttina að skógræktarsvæði, sem þar er ca. 2/3 að Bláfjallavegi. Björn Hróarsson, hellafræðingur, leiddi hópinn.

Aukahola

Aukahola.

Gengið var framhjá Markrakagili og að skógræktinni. Þar austan við, undir hlíðunum, hefur nú vaxið mikill greniskógur. Mikil og falleg gil eru í hlíðunum. Þarna og nokkru austar dunduðu vinnuskólasveinar úr Krýsuvík sér undir röksamri stjórn Guðmundar Þórarinssonar að planta græðlingum fyrir u.þ.b. 40 árum. Nú eru þetta hin myndarlegustu tré, líkt og vinnuskólasveinarnir.
Við horn girðingar tók Björn örugga stefnu til norðurs yfir mosahraun og hraunhrygg, sem liggur þarna samhliða hlíðunum. Norðan við hrygginn eru tvær djúpar holur. Þær liggja báðar niður í Aukaholu. Hún er um 10 metra djúp.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Farið var niður í eystra gatið með aðstoð bands. Aukahola virðist vera gjá, sem hraun hefur runnið niður í, líkt og Ginið. Þegar komið var niður mátti sjá fallegar rauðleitar hraunmyndanir. Þunnt fljótandi hraunið hefur smurt gjáveggina og myndað gúlpa og jafnvel hraunsúlur hér og þar. Hægt var að fara spölkorn inn eftir gjánni til austurs. Þar inni er mjög falleg hraunsúla. Á leiðinni þangað sást hvar hrjúfur seigfljótandi hraunfoss hefur runnið niður frá lofti og myndað hraundellur undir.

Aðalhola

Aðalhola.

Sepamyndaðir veggirnir þar eru sérstaklega fallegir á að líta. Til vesturs mátti sjá lengra niður og inn í stærra rými. Fyrir neðan opið er gat lengra niður. Með aðstoð bandsins var farið þar niður. Þaðan er hægt að fara inn í stærra rými vestra, en opið er upp úr því um gatið.
Aukahola er fallegt jarðfræðifyrirbirgði. Aapalhola er annað stærra gat, eða göt, þarna skammt norðar í gjánni. Hún er um 17 metra djúpt, ílöng og falleg á að líta, svipuð Aukaholu, einungis minni í sniðum. Einnig þarf band til að komast niður í Aðalholu. Hún er undir hraunveggnum þar sem hann er einna hæstur. Ákjósanlegt er að nálgast hana frá Óbrennishólum, ganga yfir Óbrennisbruna, sem er nokkuð sléttur á köflum, um fallega hrauntröð og að gjárveggnum. Þá kemur Aðalhola fljótlega í ljós.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 22 mín (með skoðnun).

Aukahola

Aukahola.