Krýsuvíkurheiði

Jafnan, þegar heyra má spurninguna um hvaðan örnefnið Krýsuvík (Krísuvík) sé upprunnið, verður jafnan fátt um svör. Getgátur eru leiddar fram, en fáar áreiðanlegar. En hver er þá merkingin Krýsuvík og hvar er örnefnið Gullbringu að finna í sýslunni, sem hún dregur nafn sitt af?

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessari spurningu svarar Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun Íslands með eftirfarandi hætti: “Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37. Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- ‘beygja’ og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002. Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.”

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að “krýs” táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun og fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík neðan við þar sem nú eru tóftir “Gömlu Krýsuvíkur”, þaktar hrauni, en tóftir hinna gömlu bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu, (sjá t.d. lýsingar Brynjúlfs Jónssonar og bæði rannsóknir Sveinbjörns Rafnssonar og þeirra Hauks og Sigmundar).

Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga (Jochums). Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Jarðfræðiathuganir á svæðinu benda til að þarna hafi fyrrum verið vík inn í landið, enda gamlir sjávarhamrar langtum ofar.
Gullbringa

Gullbringa.

Áður en hraunið rann 1151 og fyllti víkina hefur landslagið litið öðruvísu út. Þarna hefur væntanlega verið góð landtaka undir hömrunum, gróið í kring þar sem nú standa Húshólmi og Óbrennishólmi skammt vestar, upp úr. Stutt hefur verið í fiskimið og nægur fugl í björgum. Beit hefur og verið væn, bæði fjær og í fjöru, og nægt vatn í brunnum. Þarna hefur verið, og er reyndar enn, mjög skýlt í norðanátt og austanáttin, rigningaráttin, er ekki til vansa.

Bringur

Bringur í Mosfellssveit.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og það er einnig til í Kjósasýslu, sbr. Bringur eða Gullbringur norðaustan undir Grímarsfelli, efst í Mosfellsdal. Sumir telja Gullbringunafnið komið frá lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, “enda glói hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks (Miðdegishnúks) [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Sennilega getur allt landslag á Reykjanesskganum fallið undir framangreinda skilgreiningu því kvöldsólin, og reyndar morgunsólin líka, lita jafnan umhverfið gylltum litum undir þeirra síðustu morgna og kvölds þegar aðstæður haga þannig til. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu og í öðru en sólargyllingunni, enda endurspeglast hún í sömu lögmálum sínum um allt land, óháð stað eða tilteknu svæði.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi:
“Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.
Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512)”.

Krýsuvík eða Krísuvík?
Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og út í víkina fyrrum. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.” Öll tilvitnuð forn skrif fyrrum voru “krysuvik”.

Reyndar er til ein mjög líkleg skýring á nafngiftinni. Í dönsku er til orðið “krys”, sem merkti “grunn skora”, s.s. æi ask. Orðið þýddi og “grunn”, t.a.m. grunn vík”, sem Krýsuvík var fyrrum. Fólk hefur gjarnan ruglað saman orðunum “krís” og “krýs”. Hið fyrrnefna stendur fyrir deilur eða ástand, en hið síðarnefnda fyrir vog eða skoru í ask.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php
-Orðabók M&M.
-Orðsifjabókin.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera “Er Reykjanes það sama og Suðurnes?” Stutta svarið er “Nei”.
Lengra svarið er: “Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: “Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.” Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var “hællinn” á skaganum en það síðarnefnda “táin”, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.”
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið “kátir menn og frískir”, en í Grindavík “sjósæknir og fríðir”. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan “málsmetandi” ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbergs heita “Bergsendi” eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd “Krýsuvíkurberg”. “Ytri” og “Innri” voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innri syðra.

Bergsendi

Bergsendi – útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
“Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur.

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.” Þorsteinn nefnir bergið allt “Krýsivíkurberg”.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

“Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
“Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari.

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um “Ræningjasker” og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
“Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: “Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.” (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.”

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Hægra megin við lækinn er “Krýsuvíkurbjarg”, en vinstra megin er “Krýsuvíkurberg”.

Ísólfsskáli

Nokkrir svonefndir “brimkatlar” eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi. Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstranda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir “katlar”, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að “þakið” innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar “strandgeysir” þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram “Ketilinn” sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi “Brimketill” því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum “Kvennagöngubásum”. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: “Þar var kvenfólk sagt baða sig”. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltaöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegru aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið 1151.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; “105 kallar stöðina“. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu “Lögreglan á Íslandi” er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
“Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega” sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá “Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði“:
lögregla“Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum” í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta” gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent” ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
“Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa altaf verið”. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina”, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; “Gripið niður í fornum sögum – og nýjum“:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: “Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum”.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: “Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.”
Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 204 skráðum  fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í “Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal“, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

“Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.”

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; “rétt Reykjavíkurbarna” eftir Guðna Þórðarson:

“Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.”

Í Vísi 1964 er grein; “Í Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
“Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,” sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.”

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um “Hafravatnsrétt”:
Hafravatnsrétt
“Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur” á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.”

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; “Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?”:
Hafravatnsrétt
“Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.
Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.”

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni “Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt“:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. “Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

“Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.”

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
“Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.”

Í “Skrá um friðlýstar fornleifar 1990” segir um Þormóðsdal: “Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.”

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Selbrúnir

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006“, skráða af Þjóðminjasafni Íslands, segir eftirfarandi um sögu Miðdals:

Miðdalur

Miðdalur – kort 1908.

“Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Mið­dalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 1938-57 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal.
Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalkot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögu­legur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefna­lýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonuns á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).”

Í “Örnefnalýsingu fyrir Miðdal“, skráð af Tryggva Einarssyni Miðdal, segir um svæðið norðan og austan Selvatns:

Litla-sel

Tóft ofan við Litlu-Selsvík.

“Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Víkursel

Víkursel.

Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin. Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norðvestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norðvestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur. Sá konunglegi dalur, árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.

Selbrúnir

“Borg” í Selbrúnum.

Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur. Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir. Norðvestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lykklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots. Suðaustur af Urriðarlágarbotninum (svo) eru Vörðhólar. Vestan undir Vörðhólum er allstór dalur er Vörðhóladalur (heitir. Sunnan við Vörðhóla er greni með fallegu skotbyrgi. All langt norður af Lyklafelli eru Klettabrúnir sem Klettabelti heita, spölkorn austur af Klettabeltum er jarðfastur bergstöpull sem Litli-Klakkur heitir. Nokkru austar er stærri bergstöpull sem Stóri-Klakkur heitir.”

Selvatn

Selvatn – málverk Ásgríms Jónssonar 1956. Sjá myndina fyrir neðan.

Tryggvi Einarsson getur ekki um fjárborg í Selbrúnum. Borgarmynd er þó þarna í dag, árið 2021, ca. 15 metra frá sumarbústað, sem þar hefur verið byggður, allhrörlegur. Fjárborgin þessi kemur heldur ekki fram í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” 2006. Í Þjóðminjalögunum frá 2001 sagði í 11. grein: “Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.” Fjárborgin hefur ekki verið friðlýst. Hennar er heldur ekki getið í “Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006”, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.

Selvatn

Selvatn – steinn Ásgríms Jónssonar.

Í Minjalögum frá 2012 segir hins vegar í 22. grein: “Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið”. Sumarbústaðurinn hefur væntanlega verið byggður fyrir 2012.
Líklegasta skýringin á vanskráningu “fjárborgarinnar” að hún hafi verið hlaðin eftir 2006. Handbragðið á hleðslunum bendir m.a. til þess. A.m.k. sést hún ekki á loftmynd af svæðinu frá 1954.

Árnakróksrétt

Árnakróksrétt.

Tryggvi Einarsson frá Miðdal skráði “Örnefni í landi Elliðakots í Mosfellssveit”. Þar getur hann um aðra fornleif skammt sunnar, þ.e. Árnakróksrétt: “Landamörk Elliðakots að norðan eru þar sem Dugguós rennur í Hólmsá.
Svo Dugguós í vesturenda Selvatn. Skammt vestan við mitt Selvatn eru stórgrýtisklettar, sem Veiðiklettar heita. Nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur.
Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og vakað alla réttanóttina.” Í “Aldaskil” eftir Árna Óla, á bls. 243, er minnst á tilurð nafnsins Árnakrókur. “Þarna fannst maður úr Laugardalum helfrosinn í Króknum svokallaða sem aftur breyttist í Árnakrók”.

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna  tók við af Hafravatnsrétt fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna haustið 1986 eftir að Hafravatnsrétt hafði verið lögð niður en hún hafði verið lögrétt allt frá 1902 þegar Árnakróksrétt, skammt frá Selvatni, var aflögð (skömmu eftir aldarmótin 1900).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Þjóðminjalög 2001 nr. 107 31. maí.
-Minjalög frá 2012.

Selbrúnir

“Fjárborg” í Selbrúnum.

Kálfatjörn

Í Faxa árið 2000 er frásögn séra Péturs Jónssonar á “Lýsingum Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840“:

“Takmörk Njarðvíkursóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík, ofan að sjó; frá hans efri enda upp í heiðina að Gömlu-Þúfu á svokölluðu Háaleiti, af hverju sjá má umhverfis á þrjá vegu í sjó; frá Gömlu-Þúfu sjónhending í Kirkjuvogsklofninga, sem eru frá Háaleiti að sjá milli dagmála og hádegisstaðar. Sunnanverð takmörk hennar frá Kirkjuvogsklofningum ná upp í Stapafellsgjá, sem er í dagmálastað frá Klofningunum; að innan og austanverðu er Innri-Skora á Vogastapa hér um bil miðjum, er liggur ofan að sjó.

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistu heiti af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum. Þessi mishái heiðarmúli (Stapinn) liggur milli Stapakots í Njarðvík innri og Voga (gömlu Kvíguvoga) með þverhníptum hömrum, sem taka nokkuð mislangt fram að sjó. Nes eru hér ekki utan Stutti-Tangi, sem kallast Vatnsnes, á hverjum samnefndur bær stendur, norðvestasti eður yzti bær í Njarðvíkursókn. Þar fyrir sunnan skerzt inn vík, hér um stutt íslenzk hálf vika, að svo kölluðu Klapparnefi í ytra Njarðvíkurhverfi og nærfellt að sömu lengd; sker hún sig aftur milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur inn í landið. Af gömlum eldgosum eru hraun hér sýnileg, sums staðar með hólum og lágum á milli, í hverjum er sums staðar nokkurt gras, lyng og mosi. Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.

Njarðvík

Njarðvík 1950. Vatnsnes fremst og Grindavíkurfjöllin fjærst.

Að norðanverðu við nefnda vík, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur myndast nes, er kallast Hákotstangar, er ná að lítilli vík, er kallast Kopa, sem er lending milli Stapakots og Stapans. Fiskiskútur ogjafnvel stærri skipgeta legið á Njarðvíkurvík; þó mun þar vart trygg höfn.
Lendingar og varir hefir náttúran og menn svo tilbúið, að víðasteru vel brúkanlegar. Grynningar og sker eru hér ekki til greina að taka utan Eyland, sem ekki sést utan með stórstraumsfjöru; norðar en á miðri vík, líka upp undir landi, Skarfasker utan Klapparnefið og Fitjar- og Steinbogasker sunnan, á hverju sauðkindur stundum flæða.
Hvassir vindar ganga hér oft af norðri, landsuðri og vestri. Snjóar og einkum stórrigningar eru tíðar af þessum áttum; skruggur á stundum, ekki síður á vetrum en sumrum, en sjaldnast skaðlegar.

Þurrabúð

Þurrabúð á fyrri hluta 19. aldar á Reykjanesskaganum.

Fiskiveiðar eru hér stundaðar oftast ár út og ár inn, en í marz og aprílmánuðum brúkast mest netaveiðar, því um þær mundir gengur sá fiskur inn með landi, sem nefnist netafiskur. Þjóðvegir liggja Iangsetis yfir sóknina og krossgötur hér og hvar, sem árlega eru ruddir og hreinsaðir. Fyrir nokkrum árum síðan er betri og beinni vegur lagður eftir Stapanum framarlega í stað þess fyrri, sem ofar lá eftir heiðinni, lengri, verri og villugjarnari, einkum á vetrum. Graslítill áfangastaður fyrir lestamenn er á millum Njarðvíkanna, á svo nefndum Njarðvíkurfitjum.
Annexkirkjan frá Kálfatjörn er á heimabænum í Innri-Njarðvík; þar er venjulegt að embætta 3ja hvern helgidag á sumrum, en 4ða hvern á vetrum. Þessi kirkja var árið 1811 lögð til Kálfatjarnar, þó framar presti þar til kostnaðar en ábata. Fiskitökuhús kauphöndlandi manna eru fyrir nærverandi tíð 3 í Ytri-Njarðvík og 2 í Innri.

Verbúð

Verbúð fyrrum.

Bjargræðisvegur er mest og bezt sjávarafli; hann er og framar öðru stundaður. Búfénaður er yfir höfuð lítt ræktaður, þar hey er ekki utan litlar töður til gjafar á vetrum, og því útigangsskepnur í fári, þá fjörur Ieggja af ísum og tekur fyrir jörð í heiðinni. Útfærsla túna, sléttun þeirra, steingarða byggingar kringum þau og timburhúsa uppkoma hefir smám saman aukizt; kályrkja er og svo ræktuð með allgóðri heppni víða hvar. Eldsneyti yfir höfuð er slæmt af sjávarþangi og öðrum óhroða. Sumarvinnan til lands er fiskverkun, túnrækt og húsbyggingar, sláttur byrjar vanalegast 14 vikur af sumri og endast oft í 18.-19. viku.
Margir menn eru hagir á járn og stunda nokkrir með fram skipa-, báta og annað smíði. Vetrarvinna er mest hampspuni til sjóarútvegs, fyrir utan annað ýmislegt, er fyrir fellur. Til skemmtunar á vetrarkvöldum er sums staðar iðkaður rímnakveðskapur, en þó meira fornsögulestur. Uppfræðing, áðferði og trúrækni fólks virðist fremur yfir höfuð á góðum vegi og heldur fara batnandi í sumu. Þénustusemi, greiðvikni og hjálp við aðra algeng.
Fólksfjöldi hefir undanfarin ár aukizt, mest fyrir tómthúsabyggingar.

Njarðvík

Innri Njarðvík fyrrum – Áki Grenz.

Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir, Innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
Kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún stendur, þar hún fékk ekki kirkjurétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn. Keflavíkurhöndlunarstaður átti fyrrum kirkjusókn að Njarðvík, stuttan og góðan veg, en nú að Útskálum, að sögn fyrir eftirleitni prests þar. Kauphöndlun Njarðvíkinga er mest í Keflavík.
Alls staðar liggja kýr inni á sumrum um nætur. Margir menn eru skrifandi og sums staðar kvenfólk; nokkrir finnast, sem bera skyn á einfaldar lækningar, margar lagnar nærkonur, þó ekki yfirheyrðar. Sjúkdómar eru helztir: Á börnum oft andarteppuhósti, fullorðnum iktsýki almenn, sumir eru brjóstveikir, fáeinir holdsveikir.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Frá Innri-Njarðvík var selstaðs við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík; þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.
Fyrir innan áður nefnda Innri-Skoru á Stapanum byrjar Stóru-Vogaland og takmörk Kálfatjarnarsóknar. Inn af Stapanum, eru 4ur skörð. Það syðsta heitir Reiðskarð, bratt upp; þar eftir er alfaravegur, sem stundum er ófær af fönn á vetrum; hin þrjú, hvert vestar af öðru að sjó, eru gengin. Á innri parti Stapans er hæsta hæð hans, sem kallast Grímshóll, og á henni stór varð. Þar er mjög víðsýnt í allar áttir. Strax við Stapann að innan er Vogavík, er vegna sandgrunns tengist hvað af öðrum upp með Stapanum. Við sjóinn rétt við Stapann, vestan víkina, em Hólmabúðir, sem sjómenn róa frá og höndlunarmenn hafa fiskitökuhús; framundan Vogunum á víkinni er bezta skipalega fyrir stór og smá skip og trygg höfn fyrir öllum vindum utan vestan-útnorðan. Þar norðanleguna er Þórusker, er fer í kaf með stórstraumsflóðum; norður frá því skammt em smásker. Norðan vfkina er bærinn Stóru-Vogar og Vogahverfi; norðar em Minni-Vogar. Gengur svo ströndin í þá átt að Brunnastöðum; á þeim vegi em 3 fiskitökuhús og 1 milli Stóm-Voga og Stapans, fyrir víkurbotninum, á litlu nesi, hvar og tjárréttarmynd er, að hverri sækja á haustum Strandar-, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppar.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Framundan Brunnastöðum og samnefndu hverfi eru tangar og grynningar nokkuð fram í sjó; þó er lending þar góð kunnugum. Eftir sömu stefnu mæta Hlöðunesstangar framundan Hlöðunessbæ, innar Atlagerðistangar framundan Ásláksstöðum. Innan þá er nokkuð stórt sker, sem kallast Svartasker; þar fyrir innan skerst inn vík ei mjög stór, kölluð Breiðagerðisvík. Svo er ströndin nær því jöfn og beygist heldur til landnorðurs, allt inn í svo kallað Keilisnes, sem er skammt innan Kálfatjörn. Á öllum þessum vegi grunnleið með ströndinni, frá Þóruskeri í Vogum inn að Keilisnesi, er mjög brimsamt, meðboðum, nöggum, hnýflum, flúðum og smáskerjum. Innan Keilisnesness gengur inn breið vík, kallast Vatnsleysuvík; hún er full vika sjóar á breidd inn að Hraunsnesi, sem er takmark milli Kálfatjarnar og Garðasóknar við sjó; víkin er nær því eins löng inn í landið og hún er breið til.

Kúagerði

Kúagerði.

Sunnan til við hana er Flekkuvík, Kálfatjarnarkirkjujörð, austar lítið er Minni- og Stóra-Vatnsleysa; fram undan þeirri minni eru grynningar, sem kallast Vatnsleysueyri. Hún er þangi vaxin, og yfir hana hylur með hverri flæði, nokkuð stór um sig og hættuleg ókunnugum; verður að miða inn hjá henni leiðina, eins og víðast er tilfellið í lendingar á Ströndinni. Fyrir botni víkurinnar er sagt verið hafi bær, er heitir Akurgerði; innar er Kúagerði. Þar í er tjörn í nokkuð djúpri dæld, sem minnkar með fjöru, en vex með flóði; þar hjá er alfaravegur gegnum brunahraun.
Innar eru gömul Sellátur, en löngu síðan af; þar skammt frá er Hvassahraun og samnefnt hverfis, innsti sóknarbær, lítið innar er áður nefnt Hraunsnes.
Þessi einajörð íbáðum sóknunum, sem útgjöra hreppinn, hefir allgóðan skóg, sem heldur er í rénun. Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhreppslögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru.

Fagridalur

Í Fagridal.

Fjallgarðurinn liggur frá austri til vesturs, allt frá Grafningsfjöllum að Fagradalsfjalli, sem eiginlega endar hann; upp undan Stóru-Vogum hér og hvar eru smáskörð í hann. Vestur frá Fagradalsfjalli eru í hrauninu tvö lág fell, Stóra- og Litla-Skógfell, vestar er Sýlingarfjall, svo Þorbjarnarfell, svo lengra vestur Þórðarfell og loksins Stapafell, áfast við Súlufjall, sem er það vestasta ofan Stapann, hér um bil í austur að sjá frá Kirkjuvogi í Höfnum.
Í Fagradalsfjalli er samnefndur dalur, fyrrum fagur, en nú að mestu stórgrýttur af skriðum og graslítill; innar er Hagafell með sæmilegum grasbrekkum. Nokkuð innar er hár fjalltindur, er kallast Keilir, sem sjófarendur kalla Sykurtopp. Fyrir innan hann er skarð í fjöllin, þar fyrir innan gamalt eldfjall, sem heitir Trölladyngjur, sem spúð hafa nýju hrauni ofan á það eldra á 13. eður 14. öld. Þetta nýrra hraun er tómur apall og bruni, víða með grasmosa, hvar ekki sést eitt grasstrá; einn armur þess hefir hlaupið fram í sjó sunnan Hvassahraun.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Milli Vatnsleysanna liggur gjá frá sjó, skáhallt eftir endilangri heiði, allt suður í sjó á Reykjanesi. Þar hún er mjóst, má stíga yfir hana, en er sums staðar óyfirfærileg; hún kallast Hrafnagjá. Ofar í heiðinni er Klifgjá, enn ofar Grindavíkurgjá og efst næst fjöllum tvær Kolhólagjár; er það menn vita, allar þessar byrja norður í heiði og enda í Skógfellshrauni. Margaraðrar fleiri gjár og holur eru um hraunin, sem ekki er nafn gefið. í svo kölluðu Vogaholti eru sæmilegir hagar og sums staðar í heiðinni. Margslags lyngtegundir gefast og hátt í henni víðir. Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætast ofan Stapann 3 tjamir, sem heita Snorrastaðatjamir, hvar bær eftir munnmælum skal hafa staðið í fornöld; þær eru eiginlega vatnsgjár, og þar skyldi fiskur hafa haft undirgang frá Grindavík gegnum út fyrir Stapa á hraunið, hvar nú ekki merkist á þessum tímum.
Fiskimið eru rétt ótal djúpt og grunnt með allri sjósíðunni, engin sérleg hákarlamið; þó em fáir lagvaðir brúkaðir.
Úr Kálfatjarnarsókn sækja innbúar verzlun framar til Hafnarfjarðar en Keflavíkur. Helztu bæir eru Stóru-Vogar, Brunnastaðir, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Auðnar, Þórustaðir, Kálfatjörn, Stóra-Vatnsleysa og Hvassahraun, og líka mætti telja Minni-Voga.

Trölladyngja

Trölladyngja. Hverasvæði ofan Oddafells.

Í fjöllunum er helzt að sögn hraungrýti og mógrýti, en sjóklappir víða af stuðlabergi. Frá Kálfatjörn eru Dyngjur að sjá, þá sól er kl. 9, Keilir kl. 10, Fagradalsfjalls innri endi kl. 12.
Sjórinn brýtur víða af túnum og landi og ber upp á sand og grjót, og grynningar aukast.

Kálfatjörn

Yfir höfuð er sama að segja um upplýsingu, siðferði, atvinnuveg og annað í þessari sókn sem hinni, utan að hér er minni þorskanetabrúkun, en meiri hrognkelsa og færafiskirí um vertíð. Til húsabygginga er brúkað nokkurt rekatimbur, en meira af útlenzku, þar óvíða er reki til hlítar. Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helzta, sem ég get frá skýrt. Svohljóðandi bréf, dagsett á Kálfatjörn 24. febrúar 1840, hefur síra Pétur sent Finni Magnússyni með sóknarlýsingu sinni: „Þar ég ekki fékk því við komið að senda með haustskipum þá hér með fylgjandi skýrslu, læt ég hana nú fara í von um, að hún komist með póstskipi. – Ég bið yður og, háttvirtu félagsbræður, að virða vel, þó hún sé ekki svo fullkomin sem skyldi, og taka viljann fyrir verkið”. – P. Johnson

Síra Pétur Jónsson er þjónaði Kálfatjarnarprestakalli 1826 -1851

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

Í íslenskum Æviskrám segir svo um höfund þessarar lýsingar, síra Pétur Jónsson.
„Hann var sonur síra Jóns Magnússonar á Vesturhópshólum og síðar á Borg, og ólst upp við mikla fátækt. Hann fór í skóla 17 ára að aldri og var þar 7 vetur svo, aðfaðir hans þurfti ekki að kosta hann, heldur kom hann heim hvert vor með nokkuð af ölmusu sinni óeyddri; svo hart lagði hann að sér að styrkja foreldra sína. Vorið 1802 átti hann að útskrifast, en eftir beiðni hans var honum veitt leyfi til þess að vera eitt ár enn í skóla. Um seinan komu honum þau tíðindi, að Hólaskóli væri lagður niður 1802, og að piltar yrðu nú að ljúka námi íReykjavíkurskóla. Hefði hann vitað það í tíma, mundi hann ekki hafa sótt um leyfið, enda sagði hann oft, að þess hefði hann mest iðrast. Hann úrskrifaðist úr Hólavallarskóla 1803 með þeim vitnisburði, að hann sé ágætum gáfum gæddur, en þó einkum þroskaðri greind og farsælu minni, og hafi á þessu eina ári tekið undramiklum framförum í lærdómi, þrátt fyrir nokkurn heilsubrest.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Hann vígðist aðstoðarprestur fóður síns 1808 og kvæntist áríð eftir Ingibjörgu Jónsdóttur í Hjörsey, Egilssonar. Hún veiktist hastarlega 1820 og var veik á sál og líkama upp frá því til dauðadags og nær alltaf rúmliggjandi.
Þegar síra Pétur kom til Kálfatjarnar, var hann svo blásnauður, að hann flutti allt sitt á 2 hestum. En fátæktinni þyngri var þó heilsuleysi konunnar. Varð hann á hverju kvöldi að kveða hana í værð eins og barn, og marga nótt varð hann að vaka yfir henni til morguns. En hann unni henni svo mjög, að fyrir hana vildi hann allt á sig leggja, vökur, hungur og nekt. Konan dó 1860 og höfðu þau þá verið í hjónabandi í rúm 50 ár, en ekki átt börn.
Síra Pétur afsalaði sér Kálfatjörn 1851, þá 73 ára gamall. Hann fluttist nú að Móakoti, fékk það eftirgjaldslaust og 1/3 fastra tekna brauðsins. Árni stiftprófastur Helgason mat síra Pétur jafnan mikils og útvegaði honum nú 50 rdl. árlegan styrk hjá stjórninni og auk þess nokkum styrk hjá Synodus. Þó veitti síra Pétur hörmulega í Móakoti, og sá þess varla stað þótt sóknarmenn gæfu honum oft stórgjafir, þegar hann átti bágast. Sumarið 1860 fór hann aftur að Kálfatjörn og naut þar húsaskjóls og aðhlynningar eftir það. Var hann þá þrotinn að kröftum og heilsu, maður á níræðis aldri, sem mestan hluta ævi sinnar hafði búið við eymd og skort. Hann fékk slag 8. desember 1864 og andaðist 8. janúar 1865. Við jarðarför hans vom rúmlega 200 manns, margir langt að komnir og má af því marka vinsældir hans. Einhver seinustu orð hans á banasænginni voru þau, að hann bað sóknarprestinn að muna sig um að láta sig hvíla sem næst „elskunni sinni” í gröfinni. Og í Kálfatjarnarkirkjugarði hvíla þau hlið við hlið.
Síra Pétur var hinn mesti reglumaður í embætti, kennimaður góður og lét sér mjög annt um barnafræðslu. Veðurbækur hélt hann í samfleytt 50 ár. „Hann var merkur maður og valinkunnur”.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.04.2000, Lýsingar Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840 – séra Pétur Jónsson, bls. 12-14.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ristjóri Lesbókarinnar, um Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun:

Hvassahraun

Hvassahraun.

“Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær” (It seems to be a ghost town).
Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.” – Gísli Sigurðsson

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.