Arngrímshellir

Í aprílmánuði árið 1948 birtist eftirfarandi lýsing á „Mókollu“ í Lesbók Morgunblaðsins í dálknum „Fjaðrafok“:

Heimkynni Mókollu í Klofningum

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

„Sú er sögn að í Krýsuvík hafi einu sinni búið bóndi, sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin hvað skera skyldi, en eitt haust, er hún leit á fje bónda, sagði hún að eins: „Lengi lifir Mókolla“ – og fekk bóndi ekki meira upp úr kerlingu.
Bóndi ljet skera fátt fje þetta haus, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn, 300 í Kerið á Kirkjufjöru og 299 kindur fyrir berg, en Mókolla stóð ein eftir á bjargbrúninni þegar bóndi kom að. Varð hann þá svo reiður út af missi sínum að hann ætlaði að þrífa Mókollu og henda henni fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sögnin að svo margt fje hafi æxlast út af henni að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Önnur saga segir: „Eitt sinn var bóndi í Krýsuvík sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin, hvað skera skyldi, en eitt haust er hún leit yfir fé bónda sagði hún aðeins: „Lengi lifir Mókolla,“
– og fékk bóndi ekki meira upp úr kerlingu, hvernig sem hann reyndi til.
Bóndi lét skera fátt fé þetta haust, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn og 300 í Kerið á Kirkjufjöru; sjást þar enn kindabein, þegar smogið er inn í Kerið um fjöru, því að ekki er hægt að komast niður í það að ofan; 299 kindur missti bóndi niður fyrir berg, en mókollótt ær ein, sem bóndi átti, stóð á bergsbrúninni, þegar hann koma að; varð hann þá svo reiður yfir missi sínum, að hann ætlaði að fleygja Mókollu fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sagan, að svo margt fé hafi æxlast út af henni, að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“
(Þessi saga er til í nokkrum útgáfum.)
Heimild:
-Lesbók MBl. apríl 1948, bls. 188.
-Ólaf Davíðsson II 124.

Kirkjufjara

Keflavík neðan Klofninga.

Fornleifar

Ritheimildir eru þekktar allt frá tímum Egypta og jafnvel eldri. Í fyrstu var ritað á steintöflur, síðan pappírus. Hér á landi eru elstu skráðar heimildir frá 12. öld. Þær fjalla um forsöguna – eldri tíma en þær eru skráðar. Skipta má því ritheimildum í „Sögulegra tíma“ umfjöllun annars vegar og „Forsögulegar“ hins vegar. Skilgreiningar liggja þó ekki alveg á hreinu – hvar liggja mörkin?

“Frumsagan” er stundum nefnd „proto-history“. En hverskonar heimildir gera sögu? Ritmál er t.d. ekki sama og saga. Skipta má ritheimildum m.a. í flokka eftir innihaldi. Þannig eru frásagnarheimildir t.a.m. ein tegund og Krónikur (sögur lands, manns, stofnunar og trúarbragða er lúta bókmenntalegum lögmálum) og annálar (samtímaheimildir, fáheyrðir atburðir, efni haldið til haga, n.k. dagblöð þess tíma) önnur.

Landnáma

Landnáma.

Ritheimildarýni fjallar um gagnrýna söguritun. Vísindaleg sagnfræði er hins vegar skipuleg greining á gæðum heimilda með áherslu á bréf, skjöl og skrifræðisgögn.
Leopold von Ranke var „faðir vísindalegrar sagnfræði“. Hann sagði að „Wie es eigentlich gewesen ist“ (að segja hlutina eins og þeir eiginlega eru). Gagnrýni hafði komið fram á ógagnrýna söguritun. Oft var um að ræða samhengislaus söfn af anekdótum. Sagan þurfti að vera hlutlæg. Gera þurfti greinamun ákjaftasögum og þjóðsögum og öðrum vísindalegum heimildum, vísindalegri sagnfræði. Þjóðfræðin varð til sem fræðigrein til að vinna úr fyrrgreindum heimildum.
Eitt af verkefnum sagnfræðinnar er t.d. að greina á mili falsaðra og ekta skjala, s.s. landamerkjabréfa.
En um hvað er sagan? Stjórnmálasagan er saga konunga og stríða. Persónusaga er saga konunga og skálda. Um þessi viðfangsefni var venjulega skrifað í upphafi ritmáls. Stóru samhengin komu síðan með Gibbon (Hnignun og hrun rómverska heimsveldisins (1776-88)) og Hagsaga verður til á 19. öld.

Samhengi verðu í sögurituninni sem og stefnu sögunnar. Fjallað er um „Hnig og ris“ og Framþróunarkenningar koma fram. Í þeim var fjallað um þróun sem jákvætt ferli (Vélhyggju). Þannig fjallaði Karl Marx um Þrælakerfi > Lénskerfi > Kapítalisma > Kommúnisma. Ritað var um Efnishyggjuna (hagfræði ræður gangi sögunnar) og Hugmyndasaga varð til á prenti. Fram kom að hugmyndinar sem slíkar geti haft áhrif á framþróun. Spurning er og verður þó; hvort kemur á undan – hugmyndin eða aðlögun að hugmyndinni? Getur hugmyndin staðið ein eða þróast hugmyndin út frá raunveruleikanum á hverjum tíma? Max Weber fjallaði um „Uppruna kapítalismans“ í vinnusiðferði mótmælenda. og Annales skólinn kom til sögunnar meðal sagnfræðinga á millistríðsárunum í Frakklandi. Þrjú samhengi sögulegra ferla og fyrirbæra voru þar ráðandi: „Skammtími“ – dagar, mánuðir, ár og áratugir er fjalla um persónur, stjórnmál og stríð, „Miðtími“ – áratugir og aldir er fjalla um hugmyndakerfi, ríki, hagkerfi og stofnanir á borð við kirkju og „Langtími“ – aldir og árþúsund er fjalla um loftslag, framleiðslukerfi (landbúnaður) og samfélagsgerðir.

Fernand Paul Achille Braudel

Fernand Paul Achille Braudel.

Ferdinand Braudel hélt því fram að „Stjórnmálasagan væri ryk“. Þannig getur ryk bæði þýtt „lag“ er lægi ofan á samfélagsmyndinni sem slíkri og „dust“, sem þyrfti að þurrka á burt. Þannig þarf stundum að horfa á setningar og jafnvel einstök orð með fleiri en einn skilning í huga. Mikilvægt væri að geta sett fornleifar í kennileg samhengi – ekki endilega með sagnfræðina sem viðmið.
Sagan er. (punktur) Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að punkturinn getur bæði verið eitthvað og ekki neitt. Sagnfræðin skilgreinir hann með fyrrgreindum hætti en fornleifafræðin varpar ljósi á hann eins og hann er – ef hann er þá eitthvað.
Hugmyndir fræðimanna og almennings fara ekki alltaf saman. Fræðimenn hafa ekki verið nægilega duglegir að koma efni sínu á framfæri með skiljanlegum hætti. Fornleifafræðingar (eiga að) taka þátt í að móta söguna – og geta það. Fyrir sögulega tíma byggir sagan nær alfarið á ritheimildum. Nauðsynlegt er því fyrir fornleifafræðinga að þekkja þær heimildir, geta gagnrýnt þær, geta virkjað þær fyrir fornleifarannsóknir og ekki síst geta tekið þátt í túlkun ritheimilda.
Heimildir eru „Frumheimildir“ – Elsta eða fyrsta – eða Afleiddar (secondary) heimildir. Þegar skoðuð eru Frumrit og afrit frumrita verður að gera ráð fyrir að textar breytast í afritun, s.s. í Landnámu og Ísl.sagnum. Sagan heldur þó megineinkennum sínum og yfirleitt vísa afritin til frumútgáfunar. Upphaflega útgáfan (Frumútgáfan) gæti þó verið glötuð með öllu.

Falsanir koma venjulega fram sem formleg skjöl þar sem þau hafa verið „diktuð upp“ eða breytt. Ekki er endilega um að ræða nýjar útgáfur, heldur hefur eldri útgáfum verið breytt, þ.e. eldri skjöl notuð að hluta til. Þannig bendir t.d. ýmisleg textafræðileg athugun til að einn elsti kirkjumáldaginn, sem átti að hafa verið ritaður um 1140, hafi í rauninni verið ritaður um 1300.
Trúverðugleiki heimilda skiptir miklu máli. Er sama atburðar/atriðis getið í annarri heimild eður ei. Íslendingabók er ágætt dæmi um þetta. Þar hefur flestum tilvitnunum verið fundinn staður annars staðar og allflest, sem þar var skráð, virðist standast. Þar er og sagt frá atburðum, sem ekki er getið um annars staðar í rituðum heimildum. Skyldleiki texta – textatengsl, er því mikilsverð þegar textar eru skoðaðir og bornir saman.

Laxdæla

Laxdæla.

Fyrirmyndir – heimildir texta, er þýðingarmiklar þegar heimildir eru metnar. Fordómar – skoðanir höfundar, er eitt af því sem gæta þarf að sem og Tilgangur textans. Er hann Áróður eða Staðfesting á atburði. Með hvaða hætti má telja hann Tæknilegan? Hver eru Áhrif textans, bæði á þátíð og framtíð? Var Útbreiðsla hans mikil? Hafði hann Áhrif á aðra texta eða höfunda? Hvaða Áhrif hafi hann á söguna? Allt eru þetta mikilsverðar spurningar með hliðsjón af notkun og túlkun ritheimilda – frá frumrita til afrita.
Í heimildarýni er nauðsynlegt að þekkja hvaða heimildir eru til, um hvað þær eru, hverskonar upplýsingar er að finna í þeim, hvernig er hægt að nota þær upplýsingar til fræðilegrar umræðu um tilurð, aldur, upphaflegt samhengi, höfund, handritageymd og túlkun. Ágæt dæmi eru Íslendingabók, Landnámabók, Íslendingasögur, og Kirkjumáldagar.
Íslendingabók virðist rituð af Ara fróða á árunum 1122-33. Í varðveittri útgáfu segir að hún sé önnur útgáfa af henni, sem hafi verið mun ítarlegri. Sú útgáfa er glötuð. Fram kemur að höfundur hafi einnig skrifað fyrri útgáfuna. Landnáma fjallar um sögu Íslands frá landnámi til 1120, kirkjuna, upphaf Alþingis sem og stjórnskipan landsins. Allt virðist standast m.v. aðrar heimildir. Sagan ber keim af því að höfundur er alinn upp af Haukdælum. Þá virðist hún rituð í ákveðnum tilgangi, þ.e. tryggja ættarveldinu völd.

Landnámabók er hins vegar miklu stærra og flóknara verk. Hún er til í nokkrum afritum, s.s. Sturlubók (1270-80) og Hauksbók (byggir á Sturlubók, en bætir við). Hauksbók vísar til þess að Sturlubók sé rituð upp úr öðru afriti þar sem fram kemur að Ari fróði átti fyrst að hafa ritað um landnámið. Svo er að sjá að Landnáma hafi að nokkru tekið mið af Íslendingabók. Mikill munur er á afritum Sturlubókar og Hauksbókar. Þess vegna er mikilvægt að gera glögg skil á heimildum þegar vitnað er í þær. Melabók er knappari útgáfa endurritunar Landnámu og stendur næst svonefndri Styrmisbók (milliafritun). Þannig eru til mismunandi gerðir Landnámu eftir mismunandi ritara af mismunandi tilefnum á mismunandi tímum.

Landnáma

Landnáma.

Írum er. t.a.m. gert talsvert hátt undir höfði í Hauksbók. Ástæðan er óljós, en svo virðist sem ætlunin hafi verið að bæta þar með upp frumútgáfu Landnámu. Kolskeggur gamli er jafnan nefndur sem söguritari, en hann virðist vera aðalheimildamaður af atburðum á Austurlandi. Landnáma virðist þannig vera samvinnuverkefni þar sem safnað er saman heimilamönnum af ýmsum landhlutum og þeir látnir segja frá landnámsmönnum og atburðum á hverjum stað. Landlýsingar virðast því oft furðu nákvæmar. Oft er sagt frá landnámsmönnum, hvar þeir bjuggu og hjafnvel hvaðan þeir komu.
Íslendingasögur eru hins vegar flokkar ævi- og ættarsagna. Frásganir þeirra tengjast ákveðnum ættum og mönnum á 10. og 11. öld, þrátt fyrir að þær voru ritaðar á 13. og 14. öld og jafnvel allt fram á 19. öld. Þær nýjustu gefa þeim elstu lítt eftir. Engir höfundar eru þekkir og við vitum lítið um hvenær einstakar sögur vour ritaðar. Sögurnar hafa hins vegar haft mikil áhrif á landsmenn í gegnum aldir og allt til þessa dags. Þær voru mjög útbreiddar og víðast hvar lesnar sem húslestrar og þannig átt drjúgan þátt í sagnamenningu þjóðarinnar um langan aldur. Íslendingasögur tengjast þjóðarímyndinni sterkum böndum. Sem heimildir eru lýsingar á mönnum eitt og lýsingar á húsakosti, vopnum og öðru annað. Sögurnar eru gullnáma um þjóðfræðileg og samfélagsleg málefni fyrri tíma. Vandamálið er hins vegar tímasetningarnar, sem fyrr sagði. Handritið sjálft er ekki góð vísbending, en innihaldið er það hins vegar.

Kirkjumáldagar er formlegar kirkjuheimildir. Elsta er Reykholtsmáldagi (1180). Flestir máldagar hafa glatast, en eru til í afritum frá 17. öld. Þeir eur formleg skjöl um eignir, réttindi og skilyrði kirknanna, ítök, gripi, tíundargreiðslur bæja og gjafir. Til eru á annað hundrað máldagar frá 12. og 13. öld. Auðunnarmálgadi kom t.d. frá Hólum og Wilkinsmáldagi frá Skálholti. Þeir eru ólíkir að mörgu leiti og lúta hvor um sig ákveðinni formfestu. Máldagarnir eru yfirleitt safn máldaga, sem stöðugt hafa verið skrifaðir upp, en eru ekki til í frumútgáfum. Þeir urðu því til á löngum tíma, bætt er inn í fyrri texta og annað strikað út eftir því sem við átti hverju sinni. Flókið er að rekja hvaðan heimild komst inn í kirkjumáldaga og vandasamt er að meta þessar heimildir því mjög svo erfitt er að tímasetja þær. Þá er og erfitt að meta málhefðir eða rithefðir út frá textunum, jafnvel fyrir fræðimenn. Fyrir fornleifafræðinga eru þetta merkar heimildir; upplýsingar um einstaka gripi, jarðir, hvenær þær fóru í eyði, uppruna gripa, sem varðveist hafa, o.s.frv.
Ritheimildir eina sér gefa verið fornleifar, s.s. áletranir, handritin sem fornleifar (einkum gerðfræði þeirra) eða aldurs- og efnagreiningar bleks og skinns. Textar geta og verið fornleifar sem og Diplómasían – gerðfræði strúktúrs textans. Þá geta fornleifar í raun veru textar þar sem túlkunarfræðin ræður ríkjum. En það er nú enn eitt viðfangsefni fræðigreinarinnar.

Upplýsingar fengnar í tíma í HÍ í fornleifafræði hjá Orra Vésteinssyni – 2006.

Hlið

Gengið var um vestanvert Álftanes norðan Skógtjarnar. Litið var m.a. á tóftir Hliðs, Melshúss, Haugshúss, Skógtjarnar, Lákakots og Hliðsness. Reyndar aflitaði snjór jörðina víðast hvar svo eftirfarandi lýsing er að nokkru leyti byggð á upplýsingum úr deiliskráningu í Bessastaðahreppi frá árinu 2004.
Kort af svæðinuHlið er á Hliðstanga. Ysti og syðsti hluti hans tangans nefnist Melshöfði. Það var einn helsti útróðrarstaður á Suðurnesinu í margar aldir. Hliðstangi er vel gróinn og hallar landið mót suðri. Sjó hefur brotið mikið af landinu, tugi metra frá því túnakort var gert af svæðinu 1917. Á honum sjást þó enn allmargar fornleifar, s.s. grónir garðar, tóftir kota, brunnar, varir o.fl.
Hliðs er fyrst getið í skráðum heimildum árið 1395, sbr. „Svo margar jarder hafa vunder komit sidan pall aboti kom til videyiar. … Hlid.“ Í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 segir að „Peturskyrkia j Gordum a aaltanesei aa heimaland allt. Havsastder. selskard. hlid…. .“ Í ágripi Garðamáldaga og Álptaness 1477 segir: „Peturskirkia j gordum a alftanese a heimaland allt. hausastade. elskard. hlijd. …“ Árið 1558 hefur Garðakirkja jarðaskipti við umboðsmann konungs; „… jeg hefe under köngsins eign til Bessastada tekid jördina Hlid. er liggur a Kongsznese. … .“
Mikið útræði var frá Melshöfðanum sem liggur er fyrr segir suðvestur frá Hliðstanga. Melshöfða er getið í fógetareikningum yfir leigu, landskyldur og skreiðargjaldsreikninga af konungsjörðum frá 1547-1548. Einnig í fógetareikningum frá 1552 og 1553. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus …Jonshus … Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað… Lending er góð.“ Jarðardýrleiki árið 1703 er óviss. Fram kemur að m.a.: „Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar,…“. Margbýlt var á Hliðstanga.
HliðstangiÁrið 1703 voru „Tún jarðarinnar Hliðs [að] rotna og fordjarfast af sjáfarágángi meir og meir.“ Telja verðu því líklegt að tanginn hafi verið mun stærri hér áður fyrr, enda benda grynningar út frá honum að sunnanverðu til þess. Árið 1870 var ein þurrabúð hjá Neðra Hliði og fjórar við Gamla Hlið. Árið 1989 eignast Bessastaðahreppur jörðina. Nú er eitt íbúðarhús á Hliðstanga, norðan við bæjarstæði Neðra-Hliðs. Fátt minja er nú á Melshöfða því hann er strípaður gróðurlaus klettatangi sem fer í kaf á flóði. Af túnakortinu frá 1917 að dæma hafa brotnað um 30 m af landi síðan þá.
Bærinn Efra-Hlið stóð á Hliðstanga þar sem Grandinn er hæstur. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lágu áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó sem hefur brotið mikið af landi á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til en Þvottatjörn er þar í fjöruborðinu, u.þ.b. 100 m frá Efra Hliði. Í örnefnaskrá segir um Hlið: „Forðum stórbýli á Álftanesi. s.v. horni þess. Var í eigu Garðakirkju til 1556, að konungur skifti á því fyrir Vífilstaði og milligjöf, svo sem mjöltunnu, sem aldrei galzt af konungsins valdmönnum. Þar var margt þurrabúða og þar var margbýlt jafnaðalega.“

Hlið

Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, „Sjósókn“, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að þá eru á Hliðstanga eru þrjú býli; Gamla Hlið, Efra Hlið og Neðra Hlið. Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 vegna landbrots og á túnakortið frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla Hliðbýli var hér. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Við eyðingu Gamla Hliðs hófst nafnaruglingur og hefur Efra-Hlið stundum verð kallað Gamla-Hlið og ekki er ólíklegt að Gamla Hlið hafi einnig kallast Efra-Hlið áður fyrr enda segir í örnefnaskrá segir: „Efra Hlið: Svo var Gamlahlið einnig kallað.“ Einnig kemur fram í örnefnaskrá að bærinn Efra Hlið var kallaður Kristjánshlið þegar maður að nafni Kristján [Jónsson] bjó þar seint á 19. öld.
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Efra-Hliði bjó Kristján Mathiesen, ríkur maður og um leið einn merkasti maður sveitarinnar. Hafði hann útgerð mikla, venjulegast fjögur skip, tvo áttæringa og tvö sexmannaför.“ Þegar túnakort var gert fyrir Hlið 1917 eru bæjarhúsin á Efra Hliði úr torfi og grjóti. Húsin snéru þremur burstum til suðurs og eitt hús sambyggt var norðan til. Við bæinn að norðan var kálgarður en bæjarhlað að sunnan. Sunnan bæjarhlaðsins voru einnig kálgarðar og greinir örnefnaskrá frá því að matjurtagarður á hlaðinu hafi heitið Sandagarður. Stórt hús var reist í Efra Hliði snemma á 20. öld og má sjá mynd af því Álftaness sögu. Það hús brann á seinni hluta 20. aldar. Öll ummerki um Efra Hliðsbæ og mannvirki umhverfis hann eru horfin. Rústir hafa verið sléttaðar og ekki sést móta fyrir þeim á yfirborði.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Á túnakorti frá 1917 er sýnt mannvirki um 20 m suðaustur frá bæ, fast sunnan við bæjarhlað Efra Hliðs. Á túnakortið er bókstafurinn „f“ merktur við mannvirkið og í skýringum við túnakortið merkir f=for. Hugsanlega hefur verið þarna einhvers konar haughús.
Á túnakortið er merkt og sýnt tvískipt útihús úr torfi og grjóti vestast á Hliðstanga. Það stóð um 70 m vestur frá Neðra Hliði 006. Nú er sjávarkamburinn aðeins 40 m vestan við bæjarstæði Neðra Hliðs og útihúsið því horfið í sjóinn.
Inn á túnakortið frá 1917 er merkt útihús úr torfi og grjóti um 30 m NNV frá Neðra Hliði. Það stóð í suðausturhorni kálgarðs sem náði til norðurs fram á sjávarkambinn. Húsið var á vestanverðum Hliðstanga. Þar er sléttað tún, sinuvafið og farið að hlaupa í þúfur. Ekki sést lengur til útihússins eða kálgarðsins. Í örnefnaskrá segir: „Salthúsgarður: Svo hét einn matjurtagarður er lá við Salthúsið rétt ofan við Hliðsvarir.“ Að öllum líkindum er útihúsið Salthúsið framangreinda.
Inn á túnakortið er Nýja Hlið merkt, um 180 m VNV við Gamla Hlið, á vesturhluta Hliðstanga. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð.“
Bærinn á Nýja Hliði stóð talsvert lægra en Fulltrúi eldri tíma í HliðiEfra Hlið og var því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bærinn stóð á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda, sem býlin á Suðurnesinu eru mörg hver staðsett á. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins. Í örnefnaskrá kemur fram að á Neðra-Hliði var tvíbýli. Neðra-Hlið gekk einnig undir heitunum Nýja-Hlið og Jörundarhlið. Þar var þurrabúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1917 sést að þá var bærinn úr torfi og grjóti og sneru burstirnar tvær til suðurs. Sambyggt að norðan til var eitt hús. Kálgarður var kringum bæinn vestan til. Öll ummerki bæinn og kálgarðana sex sem voru sunnan, og austan við bæinn eru horfin. Bærinn hefur verið rifin og rústirnar sléttaðar í tún. Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8.áratug 19. aldar: „Á Neðra-Hliði bjó Ketill Steingrímsson…[hann] hafði alltaf mikla útgerð, þetta tvö og þrjú skip.“
Hliðsbrunnur var í minningum fólks allnokkurt mannvirki. Inn á túnakortinu frá 1917 er merkt einkennilegt mannvirki um 20 m vestur frá Nýja Hliði.

Túngarður í Hliði

Nýja Hlið stendur talsvert lægra en Efra-Hlið og er því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu Neðra-Hliðs, það er sinuvafið og tún komið í órækt. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð…Hliðsbrunnur: Hann var stór og hlaðinn upp í Hjallavelli. Voru þar tröppur niður að ganga í Brunninn. Reft mun hafa verið yfir hann í eina tíð.“ Mun hér átt við mannvirkið einkennilega sem sýnt er á túnakortinu. Er þá komin skýringin á teikningunni á túnakortinu, þ.e. þar eru teiknaðar tröppurnar ofan í brunninn. Búið er að afmá ummerki um brunninn, hann hefur líklega verið byrgður og er horfinn í óræktina.
Um 30 m suðvestan við Nýja-Hlið er hlaðinn grjótgarður í fjörukambinum. Vestan garðsins er fjara og en austan hans grasi gróin órækt. Þar er fremur grýtt þar sem sjór hefur borið grjót á land. Skv. túnakotinu frá 1917 var sjóvarnargarður með vesturströnd Hliðstanga, þá 70-80 m frá Neðra-Hliði. Tugir metra hafa brotnað af landinu síðan þá og er grjótgarðurinn sem er í fjörukambinum yngra mannvirki en það sem sýnt er á túnakorti. Garðurinn er örugglega varnargarður og hann liggur suðurnorður. Jarðvegi hefur  verið ýtt upp að garðinum, bæði við norður- og suðurenda hans, til að verjast landbroti. Hæstar eru garðhleðslurnar um 1 m.
Á túnakortinu er sýnd vör 80 m norðvestan við Efra-Hlið og 130 m norðaustan við Neðra-Hlið. Vörin er austast í röð fjögurra vara á norðurströnd Hliðstanga. Austan og vestan vararinnar eru klettatangar. Steinar eru í vörinni og í sandinum upp af. Mikið land hefur brotnað á norðurströnd Hliðstanga og umhverfi vararinnar væntanlega breytt.
SkjónasteinnÍ Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Hjáleiga af Hliði kend við þann, sem ábýr í hvört sinni, og nú kölluð Jóns Björnssonar hús. …Jarðardýrleiki er óviss. … Túnum hjáleigunnar spillir sjór árlega. Selstöðu nýtir ábúandi ásamt heimabóndanum.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.
Í Jarðabókinni segir einnig: „Hjáleiga önnur ónafngift, kend í hvört sinn við þann sem á býr og nú kölluð Halfdanarhús. Jarðardýrleiki er óviss. … Túnið brýtur sjór, sandur og veður. Selstaða er ásamt heimajörðinni brúkuð.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Þá segir einnig í Jarðabókinni: “
Þá er getið um Lonshús: „Jarðardýrleiki er óviss. … Túnunum spillir sands og sjáfarágángur. Vatnsból og selstaða er sem á heimajörðinni.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Einnig; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: Tómthús kallað Kastiansshus… Eldiviðartak af móskurði ásamt heimabóndanum. Vatnsból sama sem heima á jörðinni Hliði…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“ Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum. Og; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jons Marteinssonar hus, tómthús…Eldiviðartak ásamt heimajörðinni.Vatnsból sama sem heima á jörðinni [Hliði]….Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“ Einnig; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jonshus, þriðja tómthús í sama stað [þ.e. Melshöfða]. Það halda Bessastaðamenn undir sínum umráðum og so hefur lengi verið…Eldiviðartak og vatnsból ásamt Hliði. Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“Skjónaleiði skoðað þegar Jói hafði hár
Í Jarðbók Árna og Páls er getið um verbúð: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus… Jonshus… Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð“ ,,Hliðskot: Svo var eitt býlið kallað vestast í túninu [í Hliði]. Partur sá var gefinn Álftaneshreppi 1836…,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur nú brotið mikið land af vestanverðu nesinu og má heita öruggt að Hliðskot sé horfið í sjóinn, sbr. útihúsin fyrrnefndu. „Sveitaparturinn: Hliðskot var einnig kallað þessu nafni. 1910 rak þar hval, en þá átti Hafnarfjörður partinn. Hvalurinn reyndist Andarnefja kasúldinn,“ segir í örnefnaskrá.
„Þurrabúð við Kristjánshlíð [sama og Efra-Hlið],“ segir í örnefnaskrá. Litli bærinn hefur staðið nálægt Efra Hliði, en ekki er vitað hvar. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðsvegur lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó, en mikið land hefur brotnað af sjávargangi síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
„Gula húsið“: Svo var gesthús Kristjáns [Jónssonar] í Hliði kallað. Á hlaðinu…Kinn: Svo var slétta kölluð, er lá framan við Kristjáns Hlið. Þar stóð hús sem kallað var „Gula húsið“,“ segir í örnefnaskrá. Gula húsið hefur verið í hlaðvarpanum sunnan við bæinn.
Bærinn stóð á háhæðinni sem fyrr sagði en aflíðandi halli er niður að sjó sunnan til. Kristján Jónsson bjó á Hliði seinni hluta 19. aldar. Þegar túnakortið er gert 1917 er Gula húsið horfið af bæjarhlaðinu.

Skógtjarnarbrunnur

Í örnefnaskrá segir: ,,[Hliðstúngarður] var aðallega reistur á norður og austurhlið túnsins, en sjór braut hann og var hann byggður aftur.“ Á túnakortinu er merktur túngarður sem liggur 70 m til austurs frá bæ en beygir þar til suðurs og liggur í um 50 m áður en hann hverfur. Túngarðurinn sést enn. Hann er fast sunnan malarvegarins, 2-3 m, sem liggur eftir tanganum. Garðurinn er alls 90 m, jafnlangur og hann var árið 1917 m skv. túnakorti. Hann er aðallega úr torfi, en þó sést í honum grjót á stöku stað. Hann er siginn, 0,3 m hár.
„Hliðsvegur“: Svo var vegur lagður og hlaðinn eftir Grandanum. Síðan það var hefur jarðvegur hlaðist að veginum og fyllt upp beggja megin við,“ segir í örnefnaskrá. Malarvegur er eftir Grandanum miðjum, líklega þar sem Hliðsvegur lá áður, á háhryggnum. Skv. túnakorti lá vegurinn heim að Efra-Hliði, en engar götur eru merktar niður að Neðra-Hliði. Beggja vegna malarvegarins er grasi gróin órækt og mikil sina.
Inn á túnakort frá 1917 er merktar varir 60-70 m norðaustan við Neðra Hlið. Við þá vestustu stendur skrifað á kortið: „Vör (notuð nú).“ Sú vör er staðsett u.þ.b. 60 m norðaustur frá Neðra Hliði og 140 m VNV við Efra Hlið. Á staðnum sem vörin á að hafa verið skv. túnakortinu, er slétt klöpp, og fremur stórgrýtt beggja vegna. Aðalvörin frá Hliði var nefnd Gamla-Hliðsvör. Á örnefnakort af Álftanesi er Gamla-Hliðsvör merkt inn 20-40 m norðaustur frá Efra-Hliði. Á þessum slóðum hefur sjór brotið land og allt umhverfi breytt frá því sem áður var. Ekki er alveg ljóst af örnefnaskrá hvaða heiti eiga við hverja vör. Við skráningu Gömlu-Hliðsvarar var fylgt merkingum örnefnakortsins. Í örnefnaskrá segir: „Hliðsvarir: Norðan undir Hliðsbæina Bessastaðirundir miðjum Gamlahliðsbakka. Þar var gott rúm fyrir mörg skip og stór…Nýja Hliðsvör: Svo var annar hluti vararinnar kallaður.“ Nýja-Hliðsvör var u.þ.b. 70 m norðaustan við Neðra Hlið. Þar eru tvær varir saman og báðar merktar inn á túnakort frá 1917. Nýja-Hliðsvör var líklega sú eystri. Eystri vörin er ekki eins hrein og sú vestari. Í henni eru flúrur og klettar en sandur í fjörunni.
Ofan við fjöruna var hlaðið byrgi. „Það var allstórt skipahróf, er geymdi skip og báta Hliðsbónda milli,“ segir í örnefnaskrá. Inn á túnakort frá 1917 er merkt skiparétt. Hún var á norðurbakka Hliðstanga milli Hliðsvara og, 80 m norðvestur frá Efra-Hliði. Líklega er skiparéttin það sama og nefnt er skipahróf í örnefnaskrá. Núverandi íbúðarhús á Hliðstanga er fast sunnan skiparéttarinnar. Fjörukamburinn er hærri en veggur naustsins. Sunnan naustsins er slétt malarborin lóð að núverandi íbúðarhúsi á Hliðstanga. Aðeins eru 3 m milli hleðslu og húss vestast, en 10 m austast. Aðeins er einn veggur naustsins eftir. Hann er 7 m langur, norðvestur-suðaustur. Hann er 0,6 m hár og sjást fjögur umför af grjóti. Ekki sést hversu breið hleðslan er því mölin í fjörukambinum gengur að honum og upp fyrir hann. Ekki sést nú hvort hleðslan tilheyrir suður- eða norðurlanghlið naustsins. Sé naustið horfið í fjörukambinn, þá er hleðslan leifar suðurlanghliðar. Hafi verið byggt á nauststæðinu er hleðslan leifar norðurlanghliðar.
LáskotsbrunngataHeimild er um sjóbúð, „Beitningabyrgið“: „Það var byrgi austan varanna, líklega Hliðsvara, þar beittu menn lóðir,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. Ætla má að það hafi staðið nálægt Hliðsvörum, en mikið land hefur brotnað af norðurströnd Hliðstanga og líklegast að byrgið sé horfið í sjóinn, alltéð sjást leifar þess ekki á þessum slóðum. Hnit var tekið austan varanna fyrrnefndu á norðurströnd Hliðstanga.
Grútarbyrgið var enn eitt byrgjanna. „Það geymdi ker og tunnur undir lifur þá sem kom úr fiskinum,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. E.t.v. stóð það nálægt Hliðsvörum, þar sem fiskurinn kom á land, en sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og líklegast er að byrgið sé horfið í sjó, a.m.k. sjást leifar þess ekki á þessum slóðum.
Sjógatan var gatan kölluð frá vörunum heim til bæjar. Lá hún upp með vesturvegg Gamlahliðs [ekki er ljóst hvort hér sé vísað í Efra-Hlið, að gatan hafi legið upp úr fjörunni við bæinn. Eða hvort vísað er til Gamla-Hliðs],“ segir í örnefnaskrá. Milli bæjarstæðis Efra-Hliðs og Hliðsvara er grasi gróið og sinuvafið, svæði. Það sama á við um svæðið að þeim slóðum sem Gamla-Hlið stóð áður. Öll merki um Sjógötuna eru nú horfin og kemur þar sjálfsagt bæði til að sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og sömuleiðis gætu jarðbætur á 20. öld hafa skemmt götuna.

Tóftir Lásakots

„Fjósbrunnurinn var í túninu austan við Fjósið. Vatnið var með megnu brennisteinsbragði. Fjósið: Það stóð í túninu sunnan bæjanna, sér byggingin alveg,“ segir í örnefnaskrá. Ummerki um Fjósið, Fjósbrunn og Fjósgötur eru horfin og ekki vitað hvar þau voru.
Innan túngarðs er Skjónaleiði. „Þar var 1807 heygður hestur Jörundar bónda Ólafssonar á Hliði er Skjóni hét. Skjónasteinn er ofan á leiðinu. „Á þúfu þessari eða leiði liggur steinn. Á hann er klöppuð vísa þessi. Ofan við vísuna er ártalið 1807. Heygan Skjóna hér ég tel/þessi Jörsa þjenti vel/Hestinn bezt að liði./Þegar hann bjó á Hliði,“ segir í örnefnaskrá. Það sem sést af steininum er 40 x 30 sm. Steinninn er meira en hálfur á kafi í sinu en og sokkinn í þúfuna. Á þeim hluta sem er ofar moldu má sjá nokkra stafi en ekki vísuna góðu né samhengi í texta, til þess þyrfti að moka ofan af honum. (Sjá meira undir Skjónaleiði).
Sandhús var enn eitt býlið á Hliði, suð-vestur frá Hliðsbæjum. Það stóð þar sem Melshöfði byrjaði. Sandhúsavör lá innan Melshöfða. Var allgóð vör. Þar var lent þegar komið var úr kaupstaðarferðum úr Hafnarfirði,“ segir í örnefnaskrá. Sandhúsavör er merkt inn á kort Erlends Björnssonar. Um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar segir hann: „Hjá Neðra-Hliði var Pétursbúð, er var þurrabýli.“ Ekki er vitað hvar Pétursbúð stóð.
LásakotsbrunnurGrasi gróið og þýft er á bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bæjarstæðið er á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins.
„Markasteinn var stór steinn, sem stóð á miðjum Hliðsgranda. Slíkur steinn stendur nú á austanverðum Grandanum. Spurning er hvort þarna kunni að vera um sama steininn að ræða, enda hefur brotið mjög af Grandanum á umliðnum tímum.
Varasteinn var norðar í fjörunni. Þessi steinn var með áletruninni „M.H.S“,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur brotið mikið af norðurströnd Hliðstanga líklegt að Varasteinn sé horfinn í sjó því engin merki fundust um hann við vettvangsathugun.
Um bæinn Skógtjörn er m.a. getið 1248: „Gaf Þórður til staðarins í Skálaholti Skógtjörn á Álftanesi fyrir sál föður síns og móður.“  „… Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …“
1703: Tvennar varir… „jarðarinnar brýtur sjórinn í Skógtjörn og ber þar uppá sand og marálm…“  Íbúðarhúsabyggð er risin allt í kringum Skógtjarnarbæjarstæðið gamla utan þess að sléttað tún er austan þess. Land jarðarinnar er í aflíðandi halla mót suðri, niður að Skógtjörn sem er meðfram landareigninni að sunnanverðu. Skógtjörn er merkt inná túnakort frá 1917, um 300 m suðvestan við Brekku. Inn á örnefnakort af Álftanesi er merktur brunnur nálega miðja vegu milli Skógtjarnar og Hólakots. U.þ.b. 80 m VNV frá Hólakoti er steypt þró með járnloki. Að þrónni hefur verið ýtt jarðvegi. Umhverfis þróna er slétt tún, þó farið að hlaupa í þúfur.  Brunnurinn er ekki merktur á túnakort frá 1917.

Garður við Lásakot

Um 260m austan við Skógtjörn og 100 m SSA við Brekku liggur garðlag frá grjótgarði niður að Skógtjörn. Garðurinn er líka merktur inn á túnakort frá 1917. Grónir lyngmóar eru austan garðlagsins en sléttuð tún vestan þess. Garðurinn er mikill um sig, en eingöngu rjóthlaðinn. Hann er um 200 m langur. Op (um 2 m) er á garðinum um 90 m frá norðurenda. Vestan garðsins og í stefnu frá opinu voru hjáleigurnar Gíslakot og Eysteinskot. Að líkindum hefur garðlagið verið Skógtjarnartúngarður. Syðst tengist það garðlögum frá Lásakoti og sjóvarnargarði, sem þarna er.
Skógtjarnarbrunngata lá frá Brunninum heim til bæjar. Brunnurinn hefur verið vel upp hlaðinn. Frá honum lágu götur heim á hverja hjáleigu, og að hverri þurrabúð,“ segir í örnefnaskrá. Umhverfis brunninn er sléttað tún en óræktaður rimi að íbúðarhúsbyggð vestar. Ekki sést til Skógtjarnarbrunngötu lengur. Hún er horfin í sléttað tún.
Gíslakot var þurrabúð frá Skógtjörn S-A frá Skógtjörn. Gíslakotstún var lítið gerði sem fylgdi þurrabúðinni. Inn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Gíslakot um 160 m SSV við Brekku og 200 m suðaustan við Skógtjörn. Ekki er víst að kotið hafi verið nákvæmlega staðsett á túnakortinu þar sem bæjarheitið er innan sviga og gæti það þýtt að kotið sé í eyði og orðið tóftir einar. Á uppdrætti EB er Gíslakot merkt inn alveg niðri við sjó (Skógtjörn) u.þ.b. 350 m SSV frá Brekku.
Nöfnunum Gíslakoti og Dómhildarkoti hefur slegið saman í gegnum tíðina. Árið 1870 er Gíslakot og Dómhildarkot sitthvor bærinn. Inn á örnefnakort af Álftanesi frá árinu 1977 er Gíslakot nefnt Dómhildarkot í sviga. Árið 1917 er Dómhildarkot ekki merkt inn á túnakortið. Búið er að slétta bæjarstæði Gíslakots í túnið en þar sem býlið stóð skv. túnakortinu eru ójöfnur, þúfnahlaup og einstaka steinar standa upp úr sverði. Þar mætti búast við leifum býlisins undir sverði. Á uppdrætti EB eru merkt inn fjögur kot í einum hnappi norðan Skógtjarnar. Vestast var Gíslakot, 100 m austar var Eysteinskot og Hólakot 50 m austur frá Eysteinskoti. 50 m norðan Gíslakots og Eysteinskots var Dómhildarkot.

Grásteinn

Seint á 19. öld var grasnyt í Gíslakoti og ein kú. Eysteinskot var Þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. Ekki sést vottur af Eysteinskoti í túninu, það hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Örlitlar ójöfnur eru á þeim stað sem kotið á að hafa verið á skv. túnakorti í rimanum og þar geta leynst leifar Eysteinskots. Í endurminningum EB kemur fram að Eysteinskot um 1870, hafi verið grasbýli, með eitt kýrfóður. Á uppdrætti í bók EB er Eysteinskot 350 m sunnan Brekku og 100 m austan við Gíslakot, af þessu má ráða að staðsetning býlanna hafi skolast til í gegnum tíðina.
Hólakot var einnig þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. „Hólakotstún var túnskiki eða gerði við þessa þurrabúð,“ segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Ójöfnur sjást þó í hólnum og steinar standa upp úr sverði á nokkrum stöðum, líklega úr býlinu.
Lásakot er, líkt og aðrar bæir, nú tóftir einar – en þó öllu greinilegri því vel má lesa þar húsaskipan og nýtingu. Lásakot var þurrabúð austast í Skógtjarnarlandi. Þar var búið einna lengst af öllum Skógtjarnarþurrabúðum, eða allt til 1920? Haughúsbrunnur - GAG„Lásakotstún var stærst tún við þurrabúðir Skógtjarnar,“ segir í örnefnaskrá. Inn á örnefnakort af Álftanesi er Lásakot merkt skammt norðan Skógtjarnar suðaustan við Hólakot og Gíslakot. Tóftir Lásakots eru á norðurbakka Skógtjarnar, u.þ.b. 450 m suðaustan Brekku, og umhverfis tóftirnar eru miklir grjótgarðar. Bæjarstæðið er í aflíðandi halla mót suðri. Tóftirnar standa fremst á hörðum, grasi grónum en smáþýfðum bökkum Skógtjarnar. Í endurminningum EB kemur fram að Lásaskot (um 1870), var þurrabúð og oftast tvíbýli. Annar þurrabúðarmaðurinn í Lásakoti lifði mikið af því að þurrka og flytja marhálm til Reykjavíkur og selja hann þar. Rústasvæðið er stórt, markað af töluverðum garðlögum og eru tóftirnar í suðausturhorni þess. Bæjartóftin eru 4 hús sambyggð og snúa austur-vestur. Tóftirnar eru úr torfi og grjót, og sést grjót í veggjum bæði að innan-og utanverðu. Austasta húsið í tóftaröðinni er með op á norðurgafli. Vestasta húsið er stærst, skiptist í 3 hólf  og snýr norður-suður. Í nyrst hólfinu er afstúkað smáhólf og þaðan er op til austurs. Úr stærsta hólfinu er svo innangengt í fjórða hólfið í tóftaröðinni sem er smáhólf til austurs. Hæstu hleðslur eru u.þ.b. 1 m á hæð. U.þ.b. 10 m norðvestan við vestasta húsið í bæjarröðinni er tóftarbrot í túninu um 3 x 2 m stór og dæld og stallar þar upp af. Einnig er stallur í túninu bæði upp af miðjutóft bæjarraðarinnar og sömuleiðis austustu tóftinni. Ekki er ljóst hvaða hlutverki stallar þessir hafa gegnt.

Álftanes

Brekka og nágrenni – kort – túnakort.

Stór einföld tóft er í túnhorni 25 m norðvestur frá tóftaröðinni á bakkanum. Sú er hlaðinn úr torfi og grjóti þó hún sé að mestu torfhlaðinn, snýr norður-suður og op nyrst á vesturlanghlið. Suður frá tóftaröðinni eru aðeins 2 – 5 m suður að tjarnarbakka Skógtjarnar en austan, norðan og sunnan liggja garðlög umhverfis bæinn. Garðarnir eru eingöngu hlaðnir úr grjóti og skiptast í ýmsa smágarða. Í sumum má sjá öldukennt yfirborð og eru það líklega gamlir kálgarðar. Í og á tjarnarbakkanum má einnig sjá hleðslur víða. Op er á grjótgarðinum 2 m austan austustu tóftarinnar í bæjarröðinni og einnig er op austan við tóftina sem er stök norðvestast í túninu. Gata hefur legið til vesturs, norðan bæjarraðarinnar. Rústirnar í Lásakoti eru stæðilegar og hafa mikið varðveislugildi sem eini fulltrúi tuga smákota sem voru á Álftanesi. Lásakotsbrunngata lá frá kotunu til vesturs og er enn greinileg. Skógtjarnarbrunnur er nú vestast á sléttu túni vestan Lásakots og suðvestan Brekku. Hann virðist í fyrstu vera hóll, en er betur er að gáð má sjá á honum járnlok; dæmigerður brunnur á þessu svæði fyrrum. Hafsteinn Árnason í Brekku sagði brunninn hafa verið færðan nær Stógtjörn vegna þess að vatnið hafi þótt saltbragðað.
Lásakotstúngarður er austan til við þurrabúðina. Lásakotstúngarðshlið var á þessum túngarði og sést enn. Um 110 m austur frá Lásakoti er mikill garður sem liggur frá fjöru (eða Skógtjarnarbakka) nánast upp að landamerkjagarði. Vegur skilur í milli garðlaganna tveggja.
Lyngmóar eru beggja vegna garðsins. Garðurinn er eingöngu grjóthlaðinn, 2 m breiður og u.þ.b. 160 m langur og liggur í norður – suður. Op er á garðinum um 30 metra frá suðurenda hans.
Lásakot - uppdrátturLásakotsbrunngata lá frá Skógtjarnarbrunni heim í bæ,“ segir í örnefnaskrá. Á herforingjaráðskorti frá 1902 er sýnd leið frá Lásakotsbæ til vesturs að Skógtjörn, Árnakoti og Melshúsum. Varla hafa margar götur legið þessa leið og verður að telja hana Lásakotsbrunngötu, þó e.t.v. hafi hún kallast fleiri nöfnum. Enn sést hvar gatan hefur legið frá Lásakoti og vestur að Skógtjarnartúngarði en vestan túngarðsins eru sléttuð tún og þar sést gatan ekki. Grónir lyngmóar eru í kringum Lásakot en sléttuð tún vestar. Umferð um götuna hefur grafið hana niður en hún liggur milli garðlaganna í Lásakoti. Gatan sjálf er mjó, 0,4 m breið og er allt að 0,3 m djúp. Þá breikkar hún er kemur að brunninum. Þangað hafa verið a.m.k. 200 m. En gatan sést nú u.þ.b. 80 m vestur frá Lásakoti, að túngarðinum. Áður farið var á staðinn var leitað upplýsinga hjá Hafteini Árnasyni (áttræðum) í Brekku. Hann sagði brunninn varla hafa verið brunn, frekar holu með steinum í kring. Hann væri skammt neðan við hlaðna túngarðinn ofan strandar, um 10-15 metrum vestan við þvergarðinn, sem þar er og liggur áleiðis upp að Brekku. Í Lásakoti hefði síðast búið Guðmundur nokkur, uppnefndur Kartafla vegna þess hvernig fætur hans væru.
Með bökkum Skógtjarnar er grjótgarður. Sunnan garðsins eru bakkar Skógtjarnar, flatir og blautir (20 metra breiðir) en norðan þess eru sléttuð Suðurtúnin. Garðurinn liggur frá Skógtjörn að Hólakoti. Hann hefur ekki verið hlaðinn upp vandlega á þessum parti og er fremur grjótruðningur en verkleg hleðsla. Suðaustar verður garðurinn verklegri, og greina má hleðslur með 3-4 umförum af grjóti. E.t.v. er grjótruðningurinn yngri en hleðslurnar í austurhluta garðsins. Garðurinn hefur að líkindum gegnt hlutverki túngarðs fremur en sjóvarnargarðs.
Kvöldroði handan göngusvæðisins - bærinn Skógtjörn var efst til hægriLending virðist vera neðan Lákakots. „Ekki er talað um lendingu á þessum slóðum í örnefnaskrá. Brekkuvör, Melhúsavör og Skógtjarnarvör voru við „Helguvík, undir Grandanum að Hliðós.“ E.t.v. er þetta lending smákotanna sem voru í suðurtúninu, Lásakots, Eysteinskots, Hólakots, Gíslakots eða Dómhildarkots, en áður fyrr var lagt upp frá Skógtjörn á bátum, skv. heimildamanni, Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Á þessum stað er eini staðurinn í fjörunni milli Skógtjarnar og Lásakots, sem virðist vænlegur sem lending. Varirnar virðast tvær, eins og áður segir, og skiptast í miðju af mjóum klettarana. Sandur er í fjörunni. Grjótgarður liggur niður að þessari meintu lendingu, suður frá öðrum grjótgarði.
Brekka er nokkuð ofan skógtjarnar. Bæjarins er getið 1556: ,, … Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“ Þá er jarðardýrleiki er óviss og jörðin í konungseign. Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1842, segir: „…dæmi eru og til, að jarðeigendur hafa selt jarðir sínar svona í smápörtum, og þannig var t.a.m. jörðin Brekka í Álptanesi, 16 hndr. að dýrleika, seld fyrir fáum árum í 7 pörtum, fyrir hverja virðist vanta lagaheimild.“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Túnunum spillir sjáfarágangur og átroðningur af almenningsvegi.“ Tún Brekku eru beggja megin Grandans og kallast Suður-og Norðurtún eftir því hvoru megin þau liggja. Suðurtún eru enn óbyggð en íbúðarhúsabyggð er risin annarsstaðar í kringum Brekkubæ.
Gamli bærinn, sem merktur var inn á túnakort frá 1917, stóð þar sem vesturhluti íbúðarhússins á Brekku er nú. Brekka er á náttúrulegum hrygg í landslaginu. Þar sem gamli bæinn var er nú steinsteypt íbúðarhús með kjallara en vestan við það er hæð í sléttu túninu.Tóft við Haugshús - fyrir trjáplöntun
Hugsanlegt að þarna sé um að ræða útflattar leifar bæjarhúsa þó mestur hluti þeirra sé nú undir íbúðarhúsinu.
Inn á túnakort frá 1917 er merkt útihús innan við 5 m vestsuðvestan við Brekku. Útihúsið hefur verið þar sem nú er hæð í túninu vestan við núverandi íbúðarhús á Brekku. Inn á túnakortið er merkt útihús 300 m suðaustan við Brekku. Tóft hússins sést enn.
Inn á túnakortið er merkt býlið Kirkjubrú u.þ.b. 220 m austan við Brekku. Á Kirkjubrú er nú gamalt steinhús, tvílyft með kjallara, skv. túnakortinu stóð gamli Kirkjubrúarbærinn u.þ.b. 20 m vestan núverandi íbúðarhúss. Kirkjubrú stendur á náttúrulegum hrygg, Granda, sem liggur frá Hliði í vestri að Skerjafirði í austri. Vegur lá eftir Granda, hægra megin við íbúðarhúsið.
Allir Brekkubæirnir (Brekka, Brekkukot og Kirkjubrú) eru á hrygginn og kallast bæjartúnin norður og suðurtún, eftir því hvoru megin hryggjar þau eru. Hóll er vestan við steinsteypta íbúðarhúsið, sem nú stendur. Hann er mjög raskaður, húsum hefur verið ýtt niður brekkuna mót suðri. Útihús stóðu á hólnum í seinni tíð að sögn Friðriks Jóhannssonar ábúanda í Sviðholti en gamli bærinn stóð þar áður, skv. túnakorti. Miklar ójöfnur eru í hólnum og spýtna og steypubrak neðst í honum að sunnanverðu.  Allt bæjarstæðið er mjög raskað af sléttun, niðurrifi og nýrri byggingum. Á Kirkjubrú eru nú, auk steinhússins, útihússkúrar, sem ekki niðurgrafnir. Kirkjubrú hefur verð í eyði í nokkur ár.
Tóft við Haugshús - eftir trjáplöntunInn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Núpskot 170 m ASA við Brekku. „Núpskot var á miðju Suðurtúni Kirkjubrúar (Ath.: en talað var um Norðurtún og Suðurtún sitt hvoru megin í áðurnefndum hæðarhrygg [þ.e. Grandi] – bæði frá Brekku og Kirkjubrú). Á rústum þess var kálgarður fram til 1940.“ segir í örnefnaskrá. Þar sem Núpskot var, er ávalur hóll í túninu.
Hóllinn er í sléttuðu túni. Landi hallar mót suðri og austri. Vegna þess hversu ávalur hóllinn er, eru mörk hans óskýr. Rústirnar hafa verið sléttaðar í túnið en búast má við að hleðslur leynist undir sverði.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir um Brekkuland: „Torfrista og stúnga fer mjög til þurrðar.“
Halakot er merkt inn á túnakort frá 1917 um 420 m vestan við Brekku. Halakot er u.þ.b. 20 austan við Halakotstjörn, Bæjarstæði Halakots. Horft til norðvesturs. Bæjarstæði Hjallakots er hægra megin við golfskálann bláa. Halakotstjörn er neðan við gerðið.
Í endurminningum EB kemur fram að Halakot hafi verið grasbýli og þar venjulega hafðar 3 kýr. Búið er að rífa bæinn og öll ummerki um hann horfin, en gerði um kálgarð sem var við norðan við bæ sést enn. Árið 1917 var vegur heim að bæ frá götunni, þar sem nú heitir Höfðabraut. Timburhús virðast hafa verið í bæjarröðinni vestanverðri en stakt torfhús austan við. Kálgarður var norðan og vestan bæjar.
Jardhysid 2014„Beint vestur af Brekku c.a. 10 m vestan við merkin er Smiðshús. Það stendur á svipuðum stað og býlið Brekkukot, stóð áður. Fyrir 1950 voru þarna tveir kálgarðar og umhverfis þá hlaðnir grjótgarðar. Sjávargatan frá Brekku lá á milli þessara garða. Hún var fjölfarin gönguleið, því eftir henni var t.d. gengið til kirkju að Bessastöðum af bæjunum vestan við Brekku.“ segir í örnefnaskrá. Sjávargatan lá frá gamla bænum og til vesturs á hryggnum sem er í landslaginu á þessum slóðum. Gatan lá í túnunum til vesturs þangað sem nú er vegur að Hliði. Hún lá á sama stað og vegurinn liggur þar til komið var að Brekkuvör í Vestri-Skógtjörn. Rennislétt tún eru að mestu þar sem gatan var en þó lá hún að hluta þar sem nú liggur akvegur. Gatan var notuð fram eftir öldinni.
„Í Brekkulandi, fast fyrir austan merkin [líklega við Brekkukot], er Brunnurinn. Í hann var sótt vatn frá Brekku“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn var um 80 m norðnorðvestan við bæ en 2-3 m austan við túnjaðar og heimreið að Smiðshúsum. Hann var 30-40 m ofan við Suðurnesveg. Fyllt hefur verið upp í brunninn og hann er ekki lengur greinilegur á yfirborði. Umhverfis eru sléttuð tún en gras er aðeins lægra í námunda við þar sem brunnurinn var.
„Áður mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur á Suðurnesið og var byggður nokkru fyrir aldamótin“ segir í örnefnaskrá. Greinilegur, grjóthlaðinn túngarður sést 80-100 m sunnan við íbúðarhúsið á Brekku. Garðurinn liggur austur-vestur með nokkrum litlum beygjum. Garðurinn liggur í túnjaðri í Brekkulandi en er ennþá greinilegur vestar í íbúðahúsabyggð.
Túngarðurinn er hlaðinn úr stórum grjóthnullungum. Hann afmarkar tún Brekku til suðurs og liggur í suðvesturhorni þess svæðis sem nú er tekið til aðalskipulags (þ.e.a.s. árið 2002) á um 100 m kafla.
„Sýsluvegur var lagður laust fyrir aldamótin 1900 austan frá Selskarði vestur milli Skógtjarnar og Brekku,“ segir í örnefnaskrá Álftaness.

Sýsluvegurinn gamli

„Áður fyrr mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur um Suðurnesið og var byggður nokkur fyrir aldamót,“ segir í örnefnaskrá. Vegurinn er orðinn talsvert úr lagi genginn enda byggður á mjög blautu undirlagi. Hlaðið hefur verið undir vegginn með grjóti. Hleðslur eru 0,2-0,4 m háar að sunnan en lægri að norðan því örlítill halli er á landinu. Vegurinn er a.m.k. 400 m langur og víðast um 2 m breiður. Hann liggur í suðaustur -norðvestur. Á honum hafa verið gerðar vegabætur á nokkrum stöðum, t.d. ræsi í gegnum veginn hlaðið svo vatnið safnaðist ekki saman ofan hans. Fyrst hefur verið stungið fyrir ræsinu, það lagt hellum sem eru reistar á rönd og að lokum hellur lagðar yfir.
„Á Grandanum, fast norðan við veginn, sem liggur út á Suðurnes, er stór steinn, sem nefndur er Grásteinn,“ segir í örnefnaskrá Brekku. Suðurmerki Sviðholts lágu úr Grásteini „…í Króksgarð miðjan og þaðan í markastein fast norðan við sjávargötu frá Króki,“ segir í örnefnaskrá Sviðholts. Grásteinn er 290 m norðaustan við Brekku og 700 m ANA við Sviðholt. Grásteinn er u.þ.b. 10 m norðan Suðurnesvegar á náttúrulegum hrygg í umhverfinu sem kallast Grandi. „Í honum [Grásteini] býr huldufólk. Eitt sinn var reynt að kljúfa Grástein og sjást enn þá fleygaförin í honum. Þegar menn voru byrjaðir að kljúfa steininn sýndist þeim húsin á Eyvindarstöðum standa í ljósum loga og fóru að athuga. Reyndist þá ekki vera kviknað í. Önnur tilraun var gerð til að kljúfa Grástein og fór allt á sömu leið. (Sjá meira um Grástein).
Hefur það ekki verið reynt síðan.“ segir í örnefnaskrá Brekku. Fleygförin afdrifaríku eru vel greinileg í Grásteini.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Tómthús [eru] heima við bæinn.“ Í Sýslu-og sóknalýsingum er sagt að við Brekku séu tvö tómthús. Ekki sést til býlanna nú og enginn veit hvar við bæinn þau stóðu.
Á túnakorti frá 1917 er merktur inn brunnur 30 m vestur frá vesturhorni Halakots. Þar er þúst á austurbakka Halakotstjarnar. Þústin er fast austan tjarnarinnar í deiglendi á mörkum tjarnar og túns. Ofan og austan þústarinnar er þurr og rennsléttur golfvöllur. Þústin er um 2,5 m í þvermál og 0,6 m á hæð. Steinar sjást í hliðum hennar. Þetta eru síðustu leifar Halakotsbrunns, sem eru nú mjög raskaðar.
Haugshús er 1703 konungseign. „Hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna byggð úr Sviðholtslandi.“ „Haugshús voru um 200 m norður og austur (upp) af Hjallakoti. Þau eru einnig komin í eyði fyrir löngu. Þar var löngum tvíbýli,“ segir í örnefnalýsingu.
Haugshús voru á hól, um 100 m suður frá Þórukoti. Sunnan við hólinn er malarvegur niður að golfskála, sem er fast sunnan við bæjarstæði Hjallakots. Haugshús stóðu hér um bil á miðjum golfvellinum.
Brúin yfir norðaustanverða Skógtjörn„Haukshús, hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna bygð úr Sviðholtslandi.“ segir í JÁM. Ekki er til af jörðinni en hinsvegar hefur kortagerðamaðurinn merkt Haugshús í sviga, til að sýna afstöðu, inn á túnakort Brekku, Skógtjarnar og Halakots.
Gróa Guðbjörnsdóttir, sem er alin upp í Hákoti á Álftanesi, segir bæinn hafa verið á hólnum, sunnan brunnhúss úr torfi og grjóti sem var reist um 1950.  „Við merkin, niður frá Haugshúsum, var Haugshúsabrunnur og voru tröppur niður í hann,“ segir í örnefnaskrá.  Hóllinn er sléttaður en þó ber á ójöfnum í honum. Hafsteinn sagði brunninn hafa verið skammt austan götu, sem nú liggur að Haukshúsum, alveg niður undir túnmörkum. Jafnan hefði verið talað um þennan brunn af lotningu. Hann hefði sjálfur lagt til fyrir alllöngu að brunnurinn yrði grafinn upp og hafður til sýnis. Á herforingjaráðskorti frá 1902 sést að leiðin heim að bænum var frá Þórukoti.
Annars er það helst í frásögu færandi að daginn, sem FERLIR gekk um Haughúsasvæðið (Haukshúsasvæðið) og skoðaði m.a. tóft þá er sést á meðfylgjandi myndum að engin tré var þar að sjá. Daginn eftir hafði verið plantað röð trjáa – m.a. þvert á tóftina. Í Þjóðminjalögum segir m.a. í 10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þarna ætti því að liggja fyrir opinbert leyfi fyrir framkvæmdunum. Ef ekki virðast bæði skipulagsyfirvöld á Álftanesi og Fornleifavernd ríkisins hafa verið sofandi á verðinum. (Sjá Þjóðminjalögin frá 2001 í heild).
Í Skógtjörn er gömul hlaðin brú yfir hana norðaustanverða. Um hefur verið að ræða götu er lá frá Garðabæjunum yfir að Bessastaðabæjunum. Hún sést enn glögglega, en hluti hennar fer á kaf á flóði.
Svæðinu hefur verið mikið raskað og erfitt fyrir ókunnuga að staðsetja og greina einstakar tóftir. Í rauninni kom á óvart, miðað við hversu heillegt búsetulandslag var þara skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að ekki skuli hafa verið meira tillit til þess er raun ber vitni.
Ekki var gengið um Sviðholt að þessu sinni, en verður gert síðar.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Guðrún Alda Gísladóttir – Deiliskráning í Bessastaðahreppi: Fornleifaskráning á völdum aðalskipulagsreitum – Fornleifastofnun Íslands – Reykjavík 2004.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703.
-Jarðabók Johnsens, 1847.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn.
-Anna Ólafsdóttir Björnsson – Álftaness saga.
-Sturlungu saga II – Þórðar saga kakala.
-Hafsteinn Árnason – Brekku.

Lásakot

Reykjavík

Eftirfarandi er hluti greinar Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 1967 undir yfirskriftinni „Þegar Reykjavík eignaðist Eiði.“

Eidi-222

Eiði 1967.

„Glöggskyggnir fræðimenn telja, að Nes við Seltjörn muni vera fyrsta býlið, sem byggðist úr landi Reykjavíkur. Verða þó ekki fundnar neinar beinar heimildir þar um, því að saga Ness er öll í móðu og mistri fram eftir öldum, eins og saga Reykjavíkur sjálfrar. Þar er varla um annað að ræða en bendingar í fornum máldögum og landamerkjabréfum. En sé þessar bendingar athugaðar rækilega, virðast þær sýna, að Nes sé ekki miklu yngra en Reykjavík, og hefði jafnvel getað heitið landnámsjörð, þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Nokkuð eru skiptar skoðanir um, hve stórt skuli telja Seltjarnarnes. Sumir telja, að það takmarkist af línu, sem hugsast dregin milli Kirkjusands ytra og Fossvogs, en aðrir segja að það nái inn að Elliðaám og að línu dreginni úr Blesugróf niður að Fossvogi. Hér skakkar því, að sumir telja lönd Laugarness, Klepps og Bústaða til Seltjarnarness, aðrir ekki. Hér skal ekki lagður neinn dómur á hvort réttara sé, en vegna efnis þessarar greinar er handhægara að fylgja hinum þrengri takmörkunum, og því verður hér miðað við það, að Reykjavík og Nes hafi skipt öllu Seltjarnarnesi á milli sín. Allt bendir til þess, að sú skipting hafi farið fram skömmu eftir að Ingólfur settist að í Reykjavík. Landamerkin lágu þvert yfir nesið þar sem það var lægst og einna mjóst. Þar var Eiðistjörn á landamerkjunum nyrzt og síðan tók við mómýri, sem seinna hlaut nafnið Kaplaskjólsmýri. Og þarna þvert yíir nesið hefir þá verið hlaðinn voldugur landamerkjagarður, svo að Nesland þyrfti ekki að verða fyrir átroðningi af öðrum. Það mun hafa verið forn siður í Noregi að hlaða landamerkjagarða, og elzti landamerkjagarður á Íslandi mun hafa verið þessi garður þvert yfir Seltjarnarnesið. Hann hefir verið bæði hár og þykkur, því að enn sást móta fyrir honum austan við Lambastaði árið 1879. Þessi garður hefir að sjálfsögðu verið hlaðinn þegar eftir að Nesi var úthlutað fremra hluta nessins.

sel - teikning-5

Selshús.

Vera má, að nafnið á vestasta býlinu í Reykjavík geti að vissu leyti borið vitni um aldur hans. Býli þetta hét Sel og hafði verið gefið fyrstu kirkjunni í Reykjavík og talið 10. hndr. að dýrleika Nafnið bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið sel frá Reykjavík, en landamerki þess að vestan voru hin sömu og landamerkin milli Reykjavíkur og Ness. Líklegt má telja, að þarna hafi verið fyrsta selstaða Reykjavíkur, og er staðsetning hennar einkennileg að því leyti, að hún skuli vera rétt við landamerkin milli Reykjavíkur og Ness. Gæti það ef til vill bent til þess, að nesinu hefði verið skipt áður en selið var reist og landamerkjagarðurinn þegar verið hlaðinn. „Ekkert verður um það sagt, hvenær selstaða þessi hefir fyrst verið tekin upp, en selið gæti vel verið frá fyrstu tímum byggðarinnar“, segir Ólafur prófessor Lárusson í grein um hvernig Seltjarnarnes byggðist (Byggð og saga bls. 100).
Nú er það vitað, að landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið í búskaparháttum að hafa í seli, og þess vegna er líklegt að Reykjavíkurbóndi hafi fljótlega komið sér upp selstöðu. — Ef þessar tilgátur eru réttar, þá má sjá, að engin fjarstæða er að kalla Nes landnámsjörð, enda þótt hún sé byggð úr landi Reykjavíkur.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla, „Þegar Reykjavík eignaðist Eiði“, 5. febr. 1967, bls. 1.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

Staðarhverfi

Klukknaportið í kirkjugarðinum á Stað í Staðarhverfi við Grindavík hefur verið endunýjað.

Staður

Nýtt og gamalt klukkuport í Staðarkirkjugarði.

Það voru þeir feðgar í H.H. smíði sem sáu um verkið undir stjórn Helga Sæmundssonar. Kemur það í stað klukknaports sem smíðað var af Jóni Engilbertssyni frá Arnarhvoli í Grindavík á þriðja áratug síðustu aldar. Nýja portið er smíðað eftir fyrirmyndinni en þó nokkuð stærra og með koparklæðningu á þakhvelfingunni, portið hefur margvíslega trúarlega tilvísun og er í alla staði vel hannað. Ákvörðun um að hafa hið nýja klukknaport stærra helgast m.a. af því að kirkjugarðurinn á Stað hefur verið í mikilli endurnýjun og stækkun, hafa m.a. verið hlaðnir miklir og glæsilegir veggir er afmarka og skipta garðinum.
Í klukknaportinu er bjalla úr Hull-togaranum Anlaby er strandaði utan við Jónsbáskletta 14. janúar 1902 og „spónbrotnaði“. Ellefu lík skipverja rak að landi, en lík skipstjórans, Carls Nilsonar, fannst aldrei.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Loftskeytastöðin

Í Morgunblaðinu, hátíðarblaði 26.06.1930, er grein eftir Gísla J. Ólafsson, landssímastjóra, um upphaf „Landsíma Íslands„:

Gísli J. Ólafsson„Árið 1906 gerðust þau stórtíðindi, sem áreiðanlega hafa valdið aldahvörfum í sögu Íslendinga. Það ár komst Ísland í ritsímasamband við önnur lönd, þá komu hingað tveir fyrstu íslensku togararnir (Jón forseti og Mars) og þá var stofnuð hin fyrsta al-innlenda heildverslun (Ó. Johnson & Kaaber). Það er einkennilegt, að þessir þrír viðburðir fóru saman, því að fátt er vissara en aldrei hefði botvörpungaútgerðin og þó ennþá síður hin innlenda heildverslun getað þrifist svo, sem raun hefir á orðið, ef ritsímans hefði ekki notið við. Þetta sama ár kom líka fyrsta fullkomna talsímalínan innanlands. Að vísu voru hjer fyrir 2 eða 3 talsímaspottar, sem voru eign einstakra manna, t. d. símalínan milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, sem lögð var 1890, aðallega fyrir forgöngu Jóns Þórarinssonar, sem þá var skólastjóri í Flensborg.
Það var að sjálfsögðu miklum vandkvæðum bundið að finna heppilega leið fyrir símann frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. —
LandsíminnÞurfti margs að gæta og þó einkum þess, að kostnaðurinn yrði sem allra minstur. Sumarið 1905 ferðuðust þeir hjer um landið F. Hansen mælingamaður og O. Forberg, til þess að athuga línustæðið. Ráku þeir sig fljótt á það, að ekki var landakortunum treystandi. Vegalengdum yfir fjallvegi, hlíðar og dali gat skakkað um marga kílómetra á tiltölulega stuttu svæði. En þeir komu sjer saman um það hvaða leið skyldi valin og þá um haustið og veturinn eftir voru símastaurar fluttir á línuna og sumarið eftir var síminn lagður. Gerðu það útlendingar, aðallega Norðmenn, undir yfirumsjá O. Forbergs. Þótti þetta hið mesta þrekvirki, en síðan hafa þó Íslendingar sjálfir lagt síma yfir miklu verri leiðir. —
LandsíminnFramsókninni á fyrstu símaleiðinni var að vísu í mörgu ábótavant og kom það fljótt í ljós, en tvennt var það þó, sem menn vöruðu sig ekki á í upphafi.
Annað var það, að staurar standa illa; þótt þeir sjeu grafnir 1.5 m. í jörð niður, lyftir frostið þeim upp og þegar klaka leysir úr jörð á vorin, taka staurarnir að hallast. Hitt var ísingin. Hefir hún verið versti vágestur símans öll þessi ár og valdið mestu tjóni á símalínunum. — Stundum hefir ísingin orðið svo n ikil, að vírarnir hafa orðið álíka gildir og sjálfir símastaurarnir og hefir þá þungi þeirra (venjulega samfara veðurhæð) brotið staurana hrönnum saman, eða þá að vírarnir sjálfir hafa kubbast sundur. Hefir ísingin valdið flestum og mestum símabilunum á landi, og hleypt þannig gríðarlegum viðhaldskostnaði.

Landsíminn

Stækkun kerfisins.

Á hverju ári hefir talsímanetið verið stækkað stórum eins og sjá má á eftirfarandi línuriti. En aldrei hafa þó á einu ári verið eins miklar framkvæmdir um það, síðan 1906, eins og í fyrra. Þá var t.d. unnið það þrekvirki, að tengja saman símalínurnar sunnanlands — lögð ný lína milli Víkur í Mýrdal og Hornafjarðar. Er það 260 kílómetra vegur og afar erfiður, yfir sanda og jökulár þar sem árlega eru jökulhlaup, meiri og minni. Á 10—15 km. kafla varð að hafa símalínuna fast uppi undir Skeiðarárjökli, til þess að henni væri minni hætta búin af jökulhlaupum, og mun síminn hvergi hjer á landi hafa verið lagður yfir jafnvondan veg. Miklum erfiðleikum var það einnig bundið að kema honum yfir jökulvötnin, t.d. Skeiðará. En síminn komst þó alla leið á þessu sumri og þar með var komið talsímasamband hringinn í kring um landið. Er símanetið nú orðið svo víðfeðma, að talsími er í hverju þorpi, og svo að segja í hvérri einustu sókn á landinu. Þess verður þó sjálfsagt alllangt að bíða, að sími verði kominn heim á hvern bæ, en hver veit nema það verði eftir svo sem 25 ár, eða þegar Landsíminn er fimmtugur.
Í öllum kaupstöðum landsins og flestum þorpum eru bæjarsímar og langstærstur er auðvitað bæjarsíminn í Reykjavík. En hann mundi vera miklu miklu stærri en hann er, ef alt að hefði verið hægt að fullnægja þörfinni og eftirspurn að talsíma. Í miðstöðinni eru ekki nema 2400 númer, og eru þau öll fyrir löngu leigð. En þrátt fyrir það, að menn vita, að fleiri geta ekki að komist, liggja þó fyrir hjá símanum 400 talsímapantanir, sem menn hafa sent í þeirri von, að einhver númer kunni að losna. Þegar litið er á símafjölda hjer á landi, í samanburði við fólksfjölda, og það aftur borið saman við samskonar skýrslur frá öðrum löndum, verður að taka tillit til þessa hörguls á símum, því að ef hann hefði ekki verið, mundum vjer áreiðanlega hafa verið framar í röðinni. Þrátt fyrir það skipum vjer á þessu sviði allveglegan sess meðal menningarþjóða.

Landsíminn
Að ári komanda verður bætt úr símaskortinum, því að þá verður komin upp hin nýja landsímabygging, sem nú er verið að reisa við Austurvöll (Thorvaldsenstræti). Þar verður sett upp hin nýja sjálfvirka miðstöð, sem keypt hefir verið af A/B L. M. Ericsson í Stokkhólmi. Er hún gerð fyrir 4000 símanotendur, en þó má fjölga númerum smám saman, eftir því sem þörf krefur, og um meira en helming. —
LandsíminnÖnnur sjálfvirk miðstöð verður einnig sett í Hafnarfirði og nægir hún fyrir 900 símanotendur ef vill. Þegar þessar miðstöðvar eru komnar mun símanotendum brátt fjölga stórkostlega. Nú sem stendur eru 344 talsímastöðvar í landinu, og 4500 einkasímar, eða 4.3 símar á hverja 100 íbúa.
Af endurbótum sem gerðar voru á símanum síðastliðið ár, má nefna, að ritsímastöðin í Reykjavík, hefir fengið sjer Creed-móttökuvjelar. Munurinn á þeim og móttökuvjelum þeim, sem til þessa hafa verið notaðar, er sá, að í staðinn fyrir að skrifa á pappírsband hvern staf með punktum og strykum (Morse-stafróf), skrifa þessar nýju vjelar venjulega bókstafi og skipa þeim í orð. Þarf því ekki annað en klippa pappírslengjuna sundur og líma bútana á skeytaeyðublöð. Áður þurfti að afskrifa hvert skeyti til þess að viðtakendur, sem ekki kunna Morse-stafróf, gæti lesið það.
Önnur endurbót er það, að fjölsímatæki hafa verið fengin og með þeirra hjálp er hægt að hafa tvö sambönd samtímis á einni símalínu, í stað þess að ekki var hægt að hafa nema eitt samband áður.
RauðaráFyrstu 3 árin var dálítill halli á rekstri hans, en síðan hefir altaf verið beinn ágóði af honum, minstur 5% árið 1909, en mestur 14.6% árið 1924. Seinustu 3 árin hefir hinn beini ágóði orðið um 10%. En þessar tölur eru enginn mælikvarði á það stórkostlega gagn sem síminn gerir öllum atvinnugreinum landsmanna óbeinlínis, því að það verður aldrei tölum talið.
Hitt er víst, að síminn hefir orðið lyftistöng allra framfara hér á landi seinasta aldarfjórðunginn.
Á eftirfarandi línuriti má sjá samanburð á tekjum og gjöldum Landsímans frá upphafi. Sýnir það betur en mörg orð vöxt og viðgang símans.
Landsíminn er nú orðinn stærsta ríkisfyrirtæki á Íslandi. Þar eru nú 180 fastir starfsmenn, auk 327 stöðvarstjóra á smástöðvum út um land.

Loftskeytastöðvar
LandsíminnÞegar það hafði verið afráðið, að koma Íslandi í skeytasamband við umheiminn, risu þegar deilur um það hvort heldur skyldi velja síma eða loftskeyti. Og sumarið 1905 kom hingað verkfræðingur frá Marconifjelaginu í London, W. Densham að nafni, og reisti bráðabirgða loftskeytastöð innan við Rauðará, þar sem nú er Hjeðinshöfði. Og 26. júní bárust fyrstu loftskeytin hingað frá Englandi. Ljetu blöðin „Ísafold“ og „Fjallkonan“ prenta þau á fregnmiða og dreifa út um allan bæ. „Og ös var liðlangan daginn í afgreiðslustofum blaðanna af fólki, utan bæjar og innan, sem þurfti að ná í fregnmiðana. Allir fundu að hjer hafði gerst hinn sögulegasti atburður, sem dæmi eru til á þessu landi margar aldir.
Hólmanum alt í einu kipt fast að hlið heimsins höfuðbóli, hinni frægustu bygð og blómlegustu á öllum hnettinum. Fagnandi kvöddust þeir, sem hittust á strætum og gatnamótum, ókunnugir sem kunnugir“ (Ísafold, 1. júlí 1905).
Stjórnarblöðin gerðu fremur lítið úr skeytunum og loftsambandinu og komust hinar fáránlegustu sögur á loft um það. Til dæmis var sagt, að einu loftskeytinu, sem fara átti til stöðvarinnar hjá Rauðará, hefði slegið niður upp á Mýrum og legið við að það dræpi þar mann.
LandsíminnDeilurnar um ritsíma og loftskeytastöðvar urðu afar svæsnar, en þeim lauk svo að Hannes Hafstein hafði sitt fram og Stóra norræna tók að sjer að leggja sæsíma til Íslands. Loftskeytastöðin hjá Rauðará starfaði þó fram á haust 1906, en þá var hún tekin niður. Síðan var ekki minst á loftskeyti fyr en á Alþingi 1911, að rætt var um að koma á loftskeytasambandi milli Vestmannaeyja og lands, en það fjell um sjálft sig. Seinna fór franska stjórnin eða franskt fjelag fram á það að fá að reisa hjer loftskeytastöð vegna þess,að margir franskir togarar, sem veiddu hjer við land, væri útbúnir loftskeytatækjum. — Sú málaleitun strandaði. Árið 1915 lætur Eimskipafjelagið setja loft skeytatæki í ,Goðafoss’ og ,Gullfoss’ og það mun mikið hafa ýtt undir að loftskeytastöðin á Melunum var reist. Hún tók til starfa hinn 17. júní 1918. Er það 5 kw. Marconistöð. Var hún fyrst aðallega ætluð til þess, að taka við skeytum frá skipum, og koma skeytum til skipa, en í hvert skifti sem sæsíminn hefir bilað, hefir hún hlaupið undir bagga og haldið uppi sambandi við umheiminn. Tveimur árum eftir að loftskeytastöðin í Reykjavík tók til starfa, var byrjað að reisa loftskeytastöðvar í Ísafirði og á Hesteyri; stöðin í Ísafirði var svo síðar flutt að Kirkjubæjarklaustri, en á síðastliðnu sumri, þegar Skaftafellslínan var bygð, var loftskeytastöðin á Klaustri lögð niður, og nú eru loftskeytastöðvarnar hjer á landi orðnar sjö, að þessum tveimur meðtöldum. —

Landsíminn

Loftskeytahúsið á Melunm.

Hinar stöðvarnar eru í Vestmannaeyjum, Flatey á Breiðafirði, Flatey á Skjálfanda, Grímsey nyrðra og Húsavík. Fyrstu stöðvarnar voru gneistastöðvar, en þeim hefir öllum verið breytt í lampastöðvar, og mun Ísland vera fyrsta ríki í heimi að segja algjörlega skilið við gneista stöðvar.
Loftskeytastöðvarnar í Vestmannaeyjum og Reykjavík, eru aðallega ætlaðar til þess að halda uppi sambandi við skip í hafi, og hinar loftskeytastöðvarnar, sem vinna sín á milli. Árið sem leið afgreiddi loftskeytastöðin í Reykjavík 30 þúsund skeyti (um V2 miljón orða) og fer starf hennar stöðugt vaxandi, vegna þess að altaf fjölgar þeim skip um, sem loftskeytatæki hafa. Af 70 íslenskum skipum hafa nú 50 móttökutæki og senditæki, hin hafa móttökutæki, og eins margir vjelbátar.
Tilraunir voru gerðar þegar haustið 1920, að talast við þráðlaust milli loftskeytastöðvanna, og gengu þær ágætlega, og hafa gengið vel síðan.

Útvarp

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

Nú er verið að reisa hina margumtöluðu útvarpsstöð á Vatnsendahlíð í Mosfellssveit. Verður hún hálfu kraftmeiri heldur en útvarpsstöð Dana í Kalundborg, eða 15 kw. Hún á að senda á 1200 metra bylgjulengd. Það er Marconifjelagið í London, sama fjelagið, sem reisti fyrstu loftskeytastöðina hjer á landi, er hefir tekið að sjer að koma upp vjelum stöðvarinnar.
Var í fyrstu ætlast til þess, að stöðin gæti tekið til starfa fyrir Alþingishátíðina, en vegna þess hvað veðrátta var óhagstæð í vetur sem leið, verður hún því miður ekki tilbúin fyr en seinna á sumrinu.“

Í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands fjallar Guðmundur J. Hlíðdal einnig um „Landssíma Íslands“ árið 1930:
Landsíminn
„Hér á landi voru nálega engir símar fyr en Ísland komst í símasamband við umheiminn, en það var árið 1906. Áður var til sími milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar (lagður 1889), og árið 1905 hóf innanbæjarsíminn í Reykjavík starfsemi sina. Var það einkafyrirtæki fram til ársloka 1911, að Landssíminn tók við honum.
Saga Landssímans hefst með sæsímalagningunni 1905 og lagningu landlínunnar milli Seyðisfjarðar og Reykjavíkur, það sama ár. Sú lína var um 615 km. Er þeim, sem þá lifðu, enn í fersku minni sú harða og mikla barátta, sem háð var á Alþingi árinu áður, til þess að fá málinu hrundið áfram. Hefir Landssíminn síðan stöðugt fært út kvíarnar, þótt ekki tækist að girða hólmann fyr cn 23 árum seinna, eða seint á árinu 1929. Er nú svo komið, að síminn er kominn i nálega alla sveitir landsins, jafnvel sumar þær allra afskektustu. Öll kauptún hafa fengið síma og allmargir sveitabæir hafa á síðari árum fengið einkasíma. Í árslok 1929 var lengd landlínanna (stauraraðir) um 3600 km., lengd víra 11000 km. og tala landssímastöðvanna um 344. Alls hefir verið varið til landssímalagninga um 5% milj. króna.

Rjúpnahæð

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð rifin. Svo virðist sem takmarkaður áhugi sé að varðveita söguna alla, en þakka ber þó fyrir það litla sem gert er…

Símalagningar hér á landi eru fremur auðveldar á láglendi til sveita, en örðugar víða á fjallvegum. Hefir á allmörgum stöðum reynst ómögulegt að fá ofanjarðarlínur til að standast, og því orðið að leggja þar jarðsíma. Lengd jarðsímanna er nú alls um 26 km., og er lengsti jarðsíminn (um 7,5 km.) á fjallgarðinum milli Vopnafjarðar og Hálsfjalla.
Altítt er að símalínurnar hverfa alveg í snjó sumstaðar á fjallvegum á vetrum og koma stundum ekki upp úr snjónum fyr en komið er fram á vor eða sumar. Oft granda snjóflóð símanum og sópa þá stundum öllu á burt með sér, bæði staurum og vírum. En versti vágestur símans er ísingin. Er hún miklu tíðari og meiri hér á landi en nokkursstaðar annarsstaðar sem mér er kunnugt um, og símar eru starfræktir. Hefir hún stundum valdið mjög miklum truflunum og tjóni. Mest hefir hún verið mæld á Tunguheiði veturinn 1927—28; þar varð ummál víranna 103 cm. eða 33 cm. í þvermál.
Fjárhagslega hefir Landssíminn yfirhöfuð borið sig vel, betur en flestar aðrar ríkisstofnanir. Hefir tekjuafgangurinn oft nægt fyrir því, sem lagt hefir verið í nýlagningar og stundum langt fram yfir það. En betur má ef duga skal. Mikið er enn ólagt af nauðsynlegum símalínum, og takmarkið verður að vera það, að koma símanum heim á hvern bæ í landinu, enda virðist það sem betur fer alls ekki ógerningur.“ – Guðm. J. Hlíðdal.

Heimildir:
-Morgunblaðið, hátíðarblað 26.06.1930, Landsími Íslands eftir Gísla J. Ólafsson, landssímastjóra, bls. 17, 18 og 23.
-Tímarit Verkfræðingafélags Íslands, 1.-3. tbl. 01.06.1930, Landssími Íslands, Guðm. J. Hlíðdal, bls. 21-24.
-https://www.visir.is/g/20151623024d

Landsíminn

Árið 1015 undirrituðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, samning um að Þjóðminjasafn Íslands afhendi Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota.
Með gjafasamningi og afsali gaf Landssími Íslands ríkissjóði Loftskeytastöðina. Húsið var síðan afhent Þjóðminjasafni Íslands 1. mars 2005 til umráða og umsýslu og skyldi safnið frá þeim tíma sjá um rekstur og ráðstöfun þess samkvæmt nánara samkomulagi við Háskóla Íslands. 
Að tillögu Þjóðminjasafns Íslands féllst forsætisráðherra á að Háskóli Íslands tæki við ábyrgð Loftskeytastöðvarinnar til afnota í þágu starfsemi skólans. Við undirritun samningsins tekur Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, s.s. á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina.
Loftskeytastöðin var byggð árið 1915 og er með árinu 2015 friðuð á grundvelli laga um menningarminjar. Samkvæmt samningnum mun Háskóli Íslands sjá til þess að saga hússins á sviði fjarskipta verði þar sýnileg.

 

Raufarhólshellir
Ætlunin var að fara inn í Raufarhólshelli í Þrengslum, en alls mun hellirinn vera um 1360 metrar að lengd, en meginlínan er um 900 m og dýptin um 32 m. Sú saga hefur fylgt Raufarhólshelli að í honum hafi verið komið krukku með jarðneskum leifum síðustu manna úr útdauðum indíánaþjóðflokki við Magellansund.
RaufarhólshellirOpið inn í hellinn er bæði aðgengilegt og stórt. Eftir að inn er komið má sjá hvar loftið hefur fallið á nokkrum stöðum á leiðinni inn. Þetta er einn fjölfarnasti hraunhellir á Íslandi. Auk þess er hann lengstur hraunhellanna utan Hallmundarhrauns. Hellirinn sveigir undir þjóðveginn til suðvesturs og upp í rennslisstefnuna. Þar sem vegurinn liggur yfir Raufarhólshelli er hætta á ferðum. Þakið yfir hellinum, sem í upphafi var um 10 m á þykkt, er nú aðeins um 3-4 metrar. Búið er að hreinsa úr hellinum allar fagrar hraunmyndanir, dropsteina og hraunstrá og nú má sjá þar leifar af kyndlum, kertavax, filmuhylki, niðursuðudósir, plastpokar og fleira er nútímafólk gæti hugsanlega haft gaman að því að skoða við aðstæður, sem þarna eru.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Innst í hellinum er fallegur hraunfoss, eða hann hefur a.m.k. einhvern tímann verið fallegur. Fyrir ofan fossinn má komast inn lítil þröng göng og skríða nokkra metra áfram inn í skemmtilega kúlu þar sem nokkrir menn komast fyrir. Gamlar sagnir greina frá dropsteinum í hellinum. Margir þeirra voru um hálfur meter á hæð. Enginn dropsteinn er nú eftir í Raufarhólshelli og lýsir það vel umgegni um hella, sem aðgengilegir eru hverjum og einum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Raufarhólshellir er mjög hruninn og því erfiður yfirferðar nema innst þar sem lítið hefur hrunið úr hellisloftinu. Ís er einnig fremst í hellinum og því oft hált á grjótinu og erfitt að komast þar um. Þá er ekki síst nauðsynlegt að hafa góða fyrirhyggju á bæði ljósabúnaði, sem nota á, og þeim er hægt er grípa til ef hann bregst því myrkrið er mikið um langan veg.Þessi ferð var hins vegar farin til að kanna hvort framangreind sögn gæti átt við rök að styðjast. Sagan segir að þegar Magellan sigldi um heimsins höf og í hringferð um jarðskorpuna, hafi hann komið sem nú er Magellansund. Þá bjó þar þjóðflokkur indíána er var að deyja út. Sótt geisaði og voru einungis þrír af ættflokknum eftir. Var svo um mælt og handsalað að jarðneskar leifar índíánanna yrðu settar í krukku að þeim brenndum og henni komið fyrir á friðsælasta stað, sem til væri á jörðinni. Indíánarnir dóu og staðið var við samningana.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Ösku þeirra var komið fyrir í krukku og einhverjir tóku að sér að efna loforðið og fylgja efndunum eftir. Þeir tóku sig upp og fóru með krukkuna til friðsællar eyju í norðurhöfum. Þar var krukkunni komið fyrir í stórum og löngum helli eftir hátíðlega athöfn. Áletrun var skilin eftir því til vitnis. Nafni eyjarinnar var haldið leyndri af skiljanlegum ástæðum.
Þegar komið er u.þ.b. 300 metra inn í Raufarhólshelli er skilti á veggnum. Erfitt er að koma auga á það á bak við stóran stein eftir bugðu á göngunum. Á þessu skilti er sagt frá atvikinu…. Krukkan stendur þar hjá ef vel er að gáð. Þetta er eina indíánaathöfnin af þessum toga hér á landi sem vitað er um.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon „Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará„:

„Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.“ – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm“. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.“
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.“ Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.“

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  „Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.“

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; „Hlemmur“.

Í Heimsmynd 1990 segir frá „Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri„: „Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: „Hollur er heimafenginn baggi“. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.“

Í bókinni „Strand Jamestown“ segir Halldór Svavarsson frá því að „timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg“.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.