Í tveimur tölublöðum Faxa áriðð 1978 segir Guðsteinn Einarsson frá Grindavík frá „Einari pósti Árnasyni„:
Einar póstur gekk undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum
Guðsteinn Einarsson.
„Einar Árnason f. 31. des. 1851, skírður 2. jan. 1852 í heimahúsum. Foreldrar hans voru Árni Jónsson og Helga Einarsdóttir búandi hjón í Vesturkoti.
Einar missti föður sinn 4 ára gamall, því að Árni dó 23. apríl 1856 þá talinn 36 ára gamall tómthúsmaður á Miðengi.
Helga giftist aftur 29. jan. 1859 þá 34 ára. Seinni maður hennar var Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði,
29 ára. Þau voru gefin saman í Kálfatjarnarkirkju.
Einar Árnason var fermdur á Trinitatis 1867. Og fær þá þessa umsögn hjá presti sínum, sr. Stefáni Thorarensen: „Lestur og kunnátta sæmileg. Skilningur daufur. Hegðun góð“.
Einar fluttist með móður sinni og stjúpa frá Breiðagerði að Vigdísarvöllum árið 1870.
Fyrir og upp úr síðustu aldamótum var hér á landi til nokkuð af fólki sem var talið sérkennilegt, þ.e. að það batt ekki sína bagga þeim hnútum er almennt gerðist.
Vitanlega var þetta mestmegnis það sem kallað er förufólk, þ.e. það flakkar bæ frá bæ og lifði á því sem því var gefið hverju sinni. Á þessu rjátli sínu, einsamalt að jafnaði, hefir það sennilega aldrei náð hugsunarhætti hins almenna borgara og þannig orðið einhvers konar utangarðs-manneskjur.
Mér duttu þessar manneskjur í hug í sambandi við skoðanakönnun „Vikunnar“ nú fyrir skömmu, þar sem segir frá skoðunum ungs fólks. Eitt af því sem þar kemur fram, er orðrétt: „Nú er svo komið, að allir skólar eru orðnir fullir af meðalmönnum.“
Grindavík 1925.
Vonandi verkar þetta þannig að þetta utangarðs-fólk aldamótanna sem ég var að geta um, nái meðalmennskunni, en vonandi standa þó topparnir upp úr. Í þessu sambandi datt mér í hug sérkennilegur maður, sem fyrst og fremst var bundinn við Grindavík, en almenningur nú mun ekki kannast við og gekk undir nafninu: Einar póstur. Það skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða ævisögu Einars pósts, heldur minningar mínar eins og þær eru frá barnæsku til fullorðins manns, svo og sögusagnir sem í mér hafa loðað, frá árum Einars hér í Grindavík.
Upphaf Einars pósts mun það, að hann var fæddur á Vatnsleysuströnd, af hjónum sem hétu Helga og Árni. Föður sinn mun Einar hafa misst mjög ungur og stóð þá móðir hans uppi með 6 börn, öll ung.
Á þeim tímum þýddi slíkt yfirleitt að fjölskyldum var sundrað og börnin boðin upp til lægst bjóðandi framfærslu, en fljótlega kom til maður sem giftist ekkjunni og tók hann jafnframt að sér framfærslu barnanna. Maður þessi var annálaður dugnaðarmaður, en jafnframt mjög harður við alla sér undirgefna, svo að segja mætti sögur af, en þessi lýsing ætti að nægja til að gera megi ráð fyrir að þessi fósturbörn hafi ekki alltaf átt sjö dagana sæla.
Nú var það Einar póstur, sem ég ætlaði að segja frá og verður þá fyrst að byrja á vaxtarlagi hans. Hann mun hafa verið um 150 cm á hæð, bolurinn eðlilega stór, höfuðið mjög stórt, en sá líkamshluti, er vantaði vöxtinn, var fæturnir. Klofið á Einari var ekki meira en í hné á meðal manni, en aftur á móti var hann svo handleggjalangur að hendurnar virtust koma við hnén á honum er hann bar á börum.
Vöxtur Einars mun kallaður dvergvöxtur nú til dags og efa ég ekki að það hafi verið beinkröm á uppvaxtarárunum sem hefur framkallað þennan vöxt.
Krýsuvíkurbærinn um 1914.
Um tvítugsaldur mun Einar hafa ráðist vinnumaður að Krýsuvík til Árna sýslumanns. Ekkert hefi ég heyrt um vinnu hans þar annað en að vori og sumri hafi hann að mestu gætt engjanna í Krýsuvík. Þrátt fyrir lélegan líkamsvöxt, lítur út fyrir að karlinn í Einari hafi verið fullgildur til kvenna, því í Krýsuvík er sagt að hann hafi verið trúlofaður vinnukonu að nafni Kristín og frá þeim tíma er fyrsta sérkennilega orðatiltækið sem ég hefi heyrt frá þeim tíma, en það átti að hafa verið þegar Kristín sveik hann, að eftir á hafi Einar sagt frá því þannig: „Hún sveik mig á mánudaginn í tólftu, helvítis mellan þessi“, og frá þeim tíma er vísa sem eignuð var Stefáni Stefánssyni, sem lengi gekk undir nafninu „túlkur“. Einhverntíma er Einar kom seinna heim en búist var við, kvað hann:
Nú er hann Einar durgur dauður,
dúkasólin grætur hann.
Kúfur er hinn eini auður
er hún Stína erfa kann.
Ísólfsskáli.
Um 1880 er svo Einar kominn að Ísólfsskála til móður sinnar og fósturföður, sem þar bjuggu þá. Þá var á Ísólfsskála vinnukona sem Katrín hét, Þorkelsdóttir, og þar hitti Einar sína ektakvinnu, sem seinna varð.
Katrín þessi mun hafa verið ættuð úr Grindavík, en það sérstaka við þessi hjón var, að þau virtust sköpuð í sama farið, hvað hæð og vexti við kom. Með þeim var sem sagt fullkominn hjónasvipur. Ég varð nú ekki svo frægur að sjá uppi klobbann á Kötu, enda pínupilsin ekki komin til sögunnar, en segja mætti mér að fæturnir hefðu ekki haft eðlilega lengd frekar en á Einari.
Árið 1890 strandaði „Fransari“, þ.e. þrísigld skonnorta. Þau fóru í stórum flotum með fram ströndum landsins og fiskuðu á færi. Þetta skip hafði siglt upp í Hraunsand í góðu veðri seint í aprílmánuði. Mannbjörg varð. Leki mun hafa komist að skipinu. Skipshöfnin mun hafa unnið nokkuð að björgun úr skipinu og því verið þar nokkurn tíma.
Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.
Skipsstrand þótti ætíð athyglisvert og var því mjög fylgst með því frá nærliggjandi stöðum. Einar og Kata munu hafa komið þar á Hraunssand meðan Fransararnir dvöldu þar og frá þeim tíma er þetta haft eftir Einari um Kötu: „Þegar ég og Fransararnir hlupu á eftir henni austur um allan Sand, mikið anskoti var skepnan fljót.“
Eitthvað mun hafa dregist frá því að talið var að Einar og Kata væru að draga sig saman og þar til þau urðu hjón og einhver sem spurt hafði Einar um, hvað giftingu þeirra liði, hafði hann svarað svo: „Ég væri löngu giftur henni, ef ekki væri á henni anskotans hausinn.“. Þetta mun hafa verið í sambandi við að talið var að hún hefði geitur.
Einar póstur.
Fljótlega eftir þetta munu þau hafa gift sig og hófu búskap í þurrabúð sem þá var kölluð svo, á Hrauni og hét það Hrauntún. Frá þeim tíma er þau bjuggu í Hrauntúni hefi ég heyrt að þá hafi Kata lagst á sæng til að eiga barn og eftir að ljósmóðirin hafði verið sótt og ekkert barnið kom, að þá hafi Einar sagt: „Ætli væri ekki reynandi að gefa henni lútsterkt baunakaffi til að snerpa á henni.“ Hvað sem kaffinu leið mun ekkert barnið hafa komið, en talið var að barnið hefði visnað upp með móðurinni. Í Hrauntúni og Melbæ munu þau Einar og Kata hafa búið hér í Grindavík, en árið 1910 munu þau hafa flutt til Keflavíkur.
Frá búskaparárum þeirra í Grindavík hefi ég heyrt ýmislegt sem farið hefur í millum þeirra hjóna og virðist Einar þá farinn að beita sérstökum orðaforða og að kasta fram vísum. Þau hjón munu hafa haft skap stórt, þótt lítil væru og eitt sinn hafði Einar átt að segja við Kötu sína í orðasennu: „Farðu í hurðarlaust helvíti, hornafullt af skónálum, helvítis árans pístólan þín.“
Á þessum árum, sennilega 1905 eða 1906, gerist Einar póstur frá Keflavík, um Hafnir, Grindavík, Krýsuvík, Selvog, Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Það má heita ótrúlegt að hann gæti þetta, þar sem pósturinn var talinn vera um 100 pund með útbúnaði, þegar lagt var af stað frá Keflavík, en það var þó staðreynd að þetta gat Einar og mun hafa byggst á því, að hann var skrokksterkur, þ.e. að hann gat staðið undir og gengið undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum. Um þessa eiginleika sagði faðir minn sögu af honum.
Einarsbúð t.v.
Pabbi var oft vor og haust við afgreiðslu í búð Einars í Garðhúsum og einhverju sinni hafði Einar póstur komið að fá einn hundrað punda poka af rúgmjöli. Pabbi sagðist hafa tekið pokann úr bing og kippt honum að tunnu sem höfð var til að ganga frá pokunum á bakið, því allt var borið á bakinu þá.
Nú, þegar Einar tók við pokanum gat hann aðeins draujað honum eftir gólfinu, en ekki lyft upp á tunnuna. Hann spurði hvort ekki ætti að skipta pokanum í tvennt og fara með í tveim ferðum. Nei, hafði Einar sagt, ég er góður ef þú hjálpar mér að koma honum á bakið.
Þegar það var búið, dáðist pabbi mikið að, hvað Einar var léttfetalegur með pokann á bakinu, þegar hann labbaði austur garðana, eftir að hafa séð hann glíma við pokann inni.
Einar mun ekki hafa þótt gengur í skipsrúm og segir sig því sjálft að tekjur munu hafa verið af skornum skammti hjá þeim hjónum og fátækt mikil, en til að halda sér uppi í erfiðleikunum mun Einar hafa haft einhverja hörku við tilveruna og er þetta til sannindamerkis um það: Einhverju sinni er Einar kom úr póstferð, hafði Kata farið að telja upp hvað blessað fólkið hafði gefið þeim. Þegar Einar hafði hlýtt á upptalningu Kötu, hafði hann sagt: „Ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“ Kata hafði sagt: „Mikil ósköp eru að heyra til þín, maður, en Einar svarað: „Ég sný ekki aftur með það, ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“
Reykjanesviti í byggingu.
Árið 1907 skeður svo það að fólk hér í Grindavík og jafnvel um allan Reykjanesskagann fær peninga í hendurnar fyrir vinnu sína. Þetta var í sambandi við að á því ári var Reykjanesviti byggður. Sennilega hefir þessi nýbreytni leyst úr læðingi það bezta sem í hverjum einstaklingi bjó. Einar póstur var þarna í vinnu á milli póstferða og einmitt þarna komu fram tvær vísur hjá Einari, sem næstar munu því að þola bragarreglur. Sú fyrri var svona:
Þorsteinn hvíti þar með ýtum gengur.
Oft hjá Dísu una kann,
ekki tala ég meira um hann.
Einland í Grindavík.
Þessi Þorsteinn var Steini í Einlandi og munu allir eldri Grindvíkingar muna eftir honum, en Dísa var vinnukona á Stað hjá séra Brynjólfi Gunnarssyni.
Önnur vísa Einars frá vitabyggingunni og sú er meiri eftirköst hafði fyrir hann, var um mann úr Höfnum. Sá hét Ketill Magnússon og er vísan svona:
Ketill Magnús kallaður
kempan magtar stinna
Einu sinni á ævinni
hann ætlaði að fara að vinna.
Þetta þótti hitta, þannig að Ketill Magnús þessi hafi þótt heldur sérhlífinn við vinnu, en eftirköstin voru þau, að faðir Ketils Magnússonar var vel hagmæltur og sá gerði brag um Einar póst, svohljóðandi:
Þá Friðrik kóngur sigldi um sæ
og sá til Grindavíkur,
leit hann mann einn, langt frá bæ.
á leið til Keflavíkur.
„Cristiansen minn komdu hér“
kallaði sjóli glaður,
„líttu á hvernig labba fer
líkur dvergi maður.“
Christiansen með kíkirinn
kíminn glotti og sagði:
„Þetta er putti pósturinn
með prakkara látbragði.“
Ólafur með stóran staf
stendur upp úr fönnum,
en putti fer á kolsvart kaf
og kallast burt frá mönnum.
Póststjórninni skrifa skal
og skýra frá því betur,
ég held það mesta heimskuhjal
að hafa putta í vetur.
Eftirlaunin enginn fær
Einar þó að deyi,
en Ólafur í rósum rær,
svo raunum léttir eigi.
„Við köllum þetta hér í Keflavík, hús, en ekki bæ“, sagði Einar póstur við Grindvíkinginn
Ég man fyrst eftir Einari árin 1906 eða 1907, því hann kom alltaf að Húsatóftum þar sem ég er uppalinn. Raunverulega voru það hátíðisdagar, því Einar opnaði alltaf blaðatöskuna og skildi eftir öll blöð í Staðarhverfið, sérstaklega minnist ég blaðanna Lögbergs og Heimskringlu, sem pabba voru send öll póstár Einars, en í þeim voru mjög spennandi neðanmálssögur.
Þegar Einar var í póstferð, var full múndering hans blaðataska úr sverum striga, spennt um axlir og náði niður á rass á Einari, þá tösku mátti opna og skilja eftir blöð á viðkomandi bæi — 2. bréfataska, hana mátti ekki opna nema á bréfhirðingastöðum — 3. var lúður og þótti okkur strákunum það mikill merkisgripur og venjulega fengum við lúðurinn lánaðan til að blása í, en leyfðum okkur ekki að leita eftir að fá hann fyrri en farið var að bera á borð fyrir Einar og helst að hann væri byrjaður að borða.
Ég tel rétt að minnast á eina sérstaka minningu um Einar póst frá þessum árum, sem sýnir hvað lífsbaráttan var hörð, miðað við daginn í dag og einnig að Einar karlinn hefir ekki legið á liði sínu til sjálfsbjargar. Árið 1910 var kirkjan á Stað rifin. Hún var úr timbri og það var allt selt á uppboði. Á uppboðinu keypti Einar 10 eða 12 borð. Þau voru l0 eða 12″ og 8-12 fet á lengd.
Sem fyrri er sagt, fluttust þau Einar og Kata til Keflavíkur 1909 eða ’10 og árið 1910 var Einar farinn að byggja í Keflavík og borð þau er hann keypti úr Staðarkirkju, bar hann fyrst upp að Húsatóftum og geymdi þar og bar þau síðantvö og tvö til Keflavíkur, þegar hann var að koma að austan úr póstferðum. Ég og bróðir minn, Jón, minnumst þess, þegar Einar labbaði með borðin norður göturnar á Keflavíkurvegi, frá Húsatóftum. Göturnar voru um hnédjúpar meðalmanni, svo ekkert sást, nema borðin sem vögguðu sitt á hvað.
Niðurstaðan að áreynslu Einars varð svo sú, að hann kom húsi yfir sig og Kötu í Keflavík. Keflvíkingar voru á þeim tímum orðlagðir fyrirnafnagiftir og vitanlega var hús þeirra nefnt „Pósthús“. Með sínu pósthúsi fékk Einar um 3600 ferm. lóð og var eignalóð.
Einn öflugur peningamaður í Keflavík náði lóðinni undir sig, en hún er nú talin á 5-6 hundr. kr. ferm., svo hefði Einar lifað 40-50 árum lengur, hefði hann verið orðinn milljóneri. Í sambandi við hús Einars í Keflavík, hefi ég heyrt þessa frásögn: Grindvíkingur einn hitti Einar hjá húsi sínu eftir að það var byggt. Þeir hófu tal saman og þar kom að Grindvíkingurinn spurði Einar hvort þetta væri bærinn hans. Einar hafði svarað: Við köllum þetta hér í Keflavík hús, en ekki bæ.
Hér kemur svo síðasti kafli minn um Einar póst og hann er um það, þegar ég kynntist honum persónulega. Það gerðist þegar Grindavíkurvegurinn var lagður árin 1914 til 1917. Við vorum þar báðir öll árin, ég stráklingur, en Einar vitanlega fullorðinn.
Einar var ræðinn og laginn
Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.
Ég var hestasmali fyrsta sumarið, fór á fætur um 5 að morgni og átti að skila hestunum kl 7, þegar vinna byrjaði. Kl. 1 var skipt um hesta aftur. Þá voru morgunhestar fluttir, en kl. 2-3 átti það að vera búið og þá átti hestasmali að vinna til kvölds.
Einar póstur var venjulega látinn bera á börum á móti strákum og hann var sá sem ég bar venjulega á móti í þessum vinnutíma mínum. Einar var ræðinn og nokkuð laginn að segja frá, enda kunnugur langt út yfir það umhverfi, sem ég þekkti þá, en það sem mest sat í mér og gerði það að verkum að ég, stráklingurinn, fékk mig lítið til að gera grín að Einari að einhverju sinni er hann var að segja frá sínum uppvexti, endaði hann frásögu sína með þeim orðum, sem ég gleymi aldrei, en þau voru: „Ég ætla bara að segja þér það, að ég á engan þann óvin, að ég óski honum þess að búa við, það er ég átti í uppvextinum.“
Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda…
Búðastaður vegagerðarmanna við gerð Grindavíkurvegarins 1918 í Hrossabrekkum.
Öll árin í veginum var Einar í sér tjaldi, sýndist víst ekki heppilegt að hann væri innan um aðra sökum sinna sérkenna, en það vildi svo til, að hann var með í því tjaldi, sem ég var í þrjú seinni sumurin, svo ég vissi þess vegna svo vel hvað Einari leið. Öll haustin í veginum enduðu eins hjá Einari, þannig að þegar fór að gera rigningar, var ekki unnið í fasta rigningu, aðeins þegar gekk á skúrum, en Sigurgeir verkstjóri gekk eftir því, að allir væru í galla, þegar skúraveður var komið, en þá sagði Einar: „Það er enginn verri þótt hann vökni“. En þegar bleytur voru búnar að ganga nokkra daga og einar orðinn gegndrepa og allt í kringum hann í tjaldinu, þá var viðkvæði Einars: „Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda að láta drepa mig“, og þar með var hann farinn. Sigurgeir sagði að svona hefði gengið öll sumur í restinni og Einar var alltaf farinn áður en vinnan raunverulega hætti.
Nokkur skáldaandi var yfir
Einari þarna í vegavinnunni, en
því miður man ég ekki nema
tvær vísur hans frá þessum
tíma. Þær eru svona:
Mangi langi, mjór og krangalegur
hleypur Voga horskur til,
hann í sogar veðrið sig.
Hin er svona:
Fjandans eru faularnir,
fullir með svik og pretti,
allir standa aularnir
undir sama kletti.
Stundum rann svona skáldskapur upp úr Einari, en vitanlega sat lítið af því eftir í manni.
Andskotinn hossi þér á hrossherðablaði
Kúadalur í Grindavík.
Einar kom að jafnaði til að drekka kaffi í okkar tjaldi, því það var hitað fyrir allann hópinn og tvennt sem Einar sagði upp úr eins manns hljóði eða án þess að viðræður hefðu sveigt að því. Annað var að upp úr þögn sagði Einar: „Einu sinni var maður á Skálanum, sem ég réði við“. Við getum gert okkur í hugarlund að á bak við þessi fáu orð, sé raunverulega heil æfisaga lítilmagnans, sem undir niðri hafi fundið sitt getuleysi í sambandi við alla sem hann hafði umgengist. Hitt var eins til komið, að upp úr þögn sagði Einar: „Margt er það í koti karls, sem kóngs er ekki í ranni, og tvenn á ég hnífapörin.“ Þetta sýnir vitanlega takmarkalausa sjálfsánægju með sitt litla og má vera, að það hafi verið eitt af því sem gat haldið svona fólki uppi í lífsbaráttunni.
Síðasta minningin sem ég á af Einari pósti, frá vegavinnunni gerðist i Kúadal, rétt við Grindavík. Þá var Einar að fara vegna rigninga, eins og áður er sagt og hann var að labba af stað með sínar pjönkur á bakinu. Ég var að bera grjót á börum með stráki, sem nokkuð hafði strítt Einari. Þegar Einar fór framhjá, kallaði ég hvort hann ætlaði ekki að kveðja.
Jú, sagði Einar og kom og tók í hendina á mér, með viðeigandi formúlu, en labbaði svo af stað án þess að kveðja hinn, sem spurði þá hvort hann ætlaði ekki að kveðja sig líka, en þá svaraði Einar: „Nei, andskotinn hossi þér á hrossherðablaði helvítis árans kvikindið þitt.“
Þetta eru eiginlega síðustu kynni mín af Einari pósti. Hann mun hafa dáið einhverntíma milli 1920 og 1930, en hans ektakvinna dó á Karlsskála í Grindavík um 1934.“ – Guðsteinn Einarsson
Guðmundur Björgvin Jónsson segir frá Einari og hans fólki í bók hans „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“
Suðurkot í Vogum
Suðurkot í Vogum.
Eftir aldamótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur. Smiður að því húsi var Þorsteinn Árnason húsasmíðameistari úr Keflavík. Um 1930 fór að draga úr umsvifum Benedikts, enda var hann þá orðinn 63 ára. Þó hafði hann vertíðamenn í skipsrúmi hjá öðrum útgerðarmönnum, m.a. sjómann frá Skagaströnd, Kristmund Jakobsson ekkjumann, 34 ára. Árið 1944 hætti Benedikt búskap og tóku þá Guðrúnu dóttir hans og Kristmundur við og bjuggu þau í sambýli uns Kristmundur lést árið 1976. Guðrún bjó ein í nokkur ár eða þar til hún fór á elliheimilið Garðvang árið 1979 og þar er hún enn. Kristmundur vann síðustu árin, meðan heilsan leyfði, hjá íslenskum Aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Húsið Suðurkot var selt aðkomnufólki árið 1980.
Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.
Börn Benedikts og Sigríðar: 1) Guðrún Kristín, 2) Jón Gestur (látinn), einnig ólu þau upp Guðmund Marijón Jónsson sem var sonur Jóns Þorkelssonar og Mörtu Sigurðardóttur frá Flekkuvík.
Sigríður, kona Benedikts, var sem áður segir frá Vigdísarvöllum. Þar var selstaða frá fornu fari, en um 1830 var þar reist nýbýli og var það í byggð fram yfir aldamót. Þar var einnig hjáleiga er Bali hét. Um 1870 flutti Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að Vigdísarvöllum með konu sinni Helgu Einarsdóttur. Þau voru þá nýgift og hún með 6 börn í ómegð frá fyrra hjónabandi. Eftir ár fluttu þau frá Vigdísarvöllum og að Ísólfsskála. Einar Árnason, sonur Helgu, kallaður Einar póstur, var vel þekktur í Grindavík og víðar um Suðurnes, fyrir dugnað þrátt fyrir að hann var ekki vaxinn eins og fólk er flest, og nokkuð sérkennilegur í háttum.
Að Vigdísarvöllum kom Sigríður Brynjólfsdóttir frá Árbæ í Landssveit, þá 14 ára, til föður síns, er þá bjó þar með þriðju konu sinni, og hafði hann átt dreng og stúlku með hverri. Hversu lengi hann bjó þar er mér ekki kunnugt. Síðasti ábúandi á Vigdísarvöllum mun hafa verið Ívar nokkur. Ég þekkti tvo syni hans, Bjarna, er réri margar vertíðir frá Vogum og víðar og hinn var Oddur, sem var lengi póstmeistari í Hafnarfirði og vel þekktur þar.
Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1978, Einar póstur… – Guðsteinn Einarsson, bls. 16-18.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Við köllum þetta hér í Keflavík hús…-Guðsteinn Einarsson, bls. 16-17.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 40-41.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.