Fagradalsfjall

Gengið var vestur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu, upp Brattháls undir Lyngbrekkum og beygt áleiðis til norðurs austan hans. Þaðan var gangið upp á Langahrygg og skoðað flugvélaflak, sem þar er efst í öxlinni. Gengið var áfram til norðurs að Stóra-Hrút, haldið til vesturs sunnan hans, í átt að Geldingadal. Horft var niður í dalinn og síðan haldið áleiðis til norðurs upp á Langhól, hæstu bungu Fagradalsfjalls (385 m.y.s.). Efst undir Langhól eru leifar flugvélaflaks.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og umhverfi.

Gengið var niður af Langhól til norðausturs, skammt austan við fallegan þverskorinn gíg nyrst í fjallinu og gengið niður að Dalsseli. Frá því var haldið um Nauthólaflatir og Fagradal til suðurs, gengið milli fjallsins og Sandhóls-innri, um Kastið, skoðað flugvélaflak þar og síðan niður af því að sunnanverðu, haldið framhjá Sandhól og síðan um Borgarhraun framhjá Borgarfjalli til baka. Á leiðinni var komið við í Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsfjárborgin skoðuð áður en komið var að upphafsstað.
Fagradalsfjall er vestasta fjall Reykjanesfjallgarðsins. Er það raunverulega fjölbreytileg lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var slóðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum. Vísan var eftirfarandi:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera allra meina bót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra. Þá mætti ekki saurga vatnið, enda fékk sá sem það gerir, bágt fyrir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn í Drykkjarsteinsdal.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (f:1921)ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson íHerdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – gígur.

Sumsstaðar er jeppaslóðinn kominn yfir veginn. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.
Haldið var áfram upp með austanverðum Bratthálsi og Lyngbrekkum og stefnan tekin upp með Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill. Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Stóri-Hrútur hægra megin (fjær).

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stórahrút. Stórihrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stórahrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Langihryggur

Langihryggur – brak.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Dalssel

Í Dalsseli.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni. Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir.

Kastið

Kastið.

Eftir göngu til suðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli var komið að Kastinu. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943. Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank M. Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Frank. M. Andrews var æðstur í herafla Bandaríkjanna í Evrópu er hann fórst á Fagradalsfjalli eftir að flugmaðurinn hafði villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. „He was born on February 3, 1884 in Nashville, Tennessee and was killed in an aircraft accident in Iceland on May 3,1943. He was buried in Section 3 of Arlington National Cemetery. Andrews Air Force Base in Maryland is named in his honor. His death in a B-24 Liberator on May 3, 1943 was an enormous loss.“
AndrewsGengið var greiða leið niður af Kastinu að sunnanverðu. Skammt sunnar og austar með fjallinu er Selskálin. Hún er nú að mestu fokin burt. Sunnan hennar er Einbúi, stór hóll. Sunnan hans sést móta fyrir gamalli götu, sem kastað hefur hefur verið upp úr. Við hana er hlaðið gerði. Þaðan var haldið að Borgarhraunsrétt undir hraunbrúninni sunnan Borgarfells og síðan áfram að Borgarhraunsborginni. Gamla gatan frá Siglubergshálsi liggur að Drykkjarsteinsdal. Borgin er norðan hennar og er allstór. Gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar. Frá Borgarhraunsborg var örstutt eftir inn á slóðann frá Drykkjarsteinsdal niður að Ísólfsskála.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 55 mín.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Hvaleyri

Gengið var um Hvaleyri við Hafnarfjörð, út á Hvaleyrarhöfða og staðnæmst við Flókaklöpp. Þá var gengið að þeim stöðum á höfðanum þar sem gömlu kotin höfðu staðið.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Sveinskot var á túninu ofan við Herjólfshöfn, Halldórskot skammt norðvestar og Vesturkot vestar. Golfklúbburinn Keilir fékk síðasta íbúðarhúsið að Vesturkoti undir golfskálann fyrst eftir að byrjað var á golfvellinum á Hvaleyri 1967. Nokkrir staðir komu til greina sem golfvöllur, en fljótlega fengu menn augastað á Hvaleyrinni. Voru þá enn ábúendur á sumum smájörðunum á Hvaleyri og stóð í talsverðu stímabraki uns allt það land fékkst, sem nú er undir golfvellinum. Efst í túninu stóð bærinn Hvaleyri. Hjartarkot var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Fleiri kot voru við höfðann, en erfitt er að greina staðsetningu þeirra vegna röskunar á svæðinu. Þórðarvík heitir víkin milli Hvaleyrarhöfða og Straumsvíkur. Hraunið hefur jafnan verið nefnt Hvaleyrarhraun vestan og sunnan við holtið, en einnig Hellnahraun yngra og eldra.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri.

Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.
Í Íslendingabók segir að Flóki Vilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn.”

Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrlegra hafnarskilyrða. Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífeldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni.
Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar.

Frábært veður. Gangan um Hvaleyrina tók 1 klst og 11 mín.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Heimild m.a.
-http://www.hafnarfjordur.org/main/view.jsp?branch=2151204

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Jóhannes J. Reykdal

Fyrsta rafstöðin til rafmagnsframleiðslu fyrir bæjarfélag var reist í Hafnarfirði. Í fyrstu var einungis um ljósarafmagn að ræða.

Jóhannes

Jóhannes Reykdal.

Sá, sem stöðina reisti, var Jóhannes Jóhannesson Reykdal og var hún reist við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Jóhannes reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909 þegar Hafnafjarðarbær keypti rafstöðina og bætti við dísilrafstöð vegna ört vaxandi bæjarfélags. Jóhannes keypti þessa stöð aftur af Hafnafjarðarbæ og starfrækti hana við verksmiðju sína í Setbergslandi allt til ársins 1952.

Jóhannes á að hafa rekið þessi rafstöð sína á frumlegan hátt og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu á rafmagnsreikningum. Sú saga er sögð að hann hafi alfarið séð um sölu á ljósaperum til rafmagnsnotenda og selt þær dýrt og þannig náð inn gjöldum vegna rafmagnsnotkunar bæjarbúa. Þar sem margir bæjarbúa voru fátækir og höfðu sumir ekki efni á nema einni ljósaperu, var sú pera nýtt um allt húsið. Það er að segja hún var færð milli herbergja og þar skrúfuð í ljósastæði þar sem þörf var fyrir ljós.

Jóhannes Reykdal.

Jóhannes J. Reykdal á „Reykdalsstíflunni“.

Jóhannes Reykdal fæddist að Vallakoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 18. janúar árið 1874. Tvítugur að aldri hóf hann trésmíðanám hjá Snorra Jónssyni trésmíðameistara á Akureyri og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára dvöl ytra flutti hann heim til Íslands og ætlaði til Akureyrar en hann hitti unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur og ástin varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.
Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fannst það ekki nóg. Hann vildi reisa verksmiðju við Lækinn í Hafnarfirði og er það fyrsta stórvirkið sem Jóhannes vann. Trésmiðjan var búin átta fullkomnum trésmíðavélum og staðsetningin var engin tilviljun, því Jóhannes virkjaði lækinn og fékk þar orku til að knýja vélarnar áfram. Elísabet Reykdal, dóttir Jóhannesar, segir þetta fyrsta virkjunarafrek Jóhannesar megi rekja til heimsóknar hans til Margrétar systur hans sem bjó í Noregi. Þar sá hann hvernig Norðmenn nýttu sér vatnsaflið.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes J. Reykdal; upplýsingaskilti við fótstall hans á „Reykdalsstíflunni“.

Alls unnu tíu til tólf menn að jafnaði í þessari fyrstu verksmiðju Jóhannesar.
Jóhannes lét ekki staðar numið þótt hann væri kominn með orku til að knýja vélarnar, hann vildi nýta Lækinn betur og framleiða rafmagn. Árið 1904 fór hann til Noregs og festi kaup á rafal og setti sig í samband við fyrsta íslenska raffræðinginn, Halldór Guðmundsson, sem nýkominn var úr námi í Þýskalandi. Með hjálp Halldórs setti Jóhannes upp rafalinn og einn starfsmanna hans, trésmiðurinn Árni Sigurðsson, lagði raflagnir. Þann 12. desember þetta sama ár urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Þá tók virkjunin til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar. Þar á meðal voru tvö stærstu hús bæjarins, barnaskólinn og Góðtemplarahúsið. Einnig voru tendruð fjögur götuljós.

Hafnarfjörður

Vatnsstokkur J.R. frá Reykdalsstíflunni.

Rafvæðing Íslands var hafin. Eins og gefur að skilja varð strax mikil eftirspurn eftir rafmagninu hans Jóhannesar og trésmiðjuvirkjunin annaði engan vegin eftirspurn, jafnvel þótt Jóhannes hafi bætt nýju vatnshjóli við virkjunina.

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes fór því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð, á svo kölluðum Hörðuvöllum, sem fyrst um sinn fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði.

Reykdalsvikjun

Reykdalsvirkjun.

Þetta er fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi og hún tók til starfa haustið 1906 og framleiddi 37 kW. Á þessum tíma var ekki hægt að mæla rafmagnsnotkun heimilanna þannig að Jóhannes tók til þess ráðs að selja perur. Hann einn seldi perurnar og þegar pera sprakk þurfti fólk að skila ónýtu perunni til þess að kaupa nýja. Áður en Hörðuvallavirkjunin (Reykdalsvirkjun) kom mátti einungis hafa tvær perur í hverju húsi, þótt perustæðin væru fleiri.
Jóhannes ReykdalJóhannes Reykdal óttaðist ekki breytingar. Árið 1909 seldi hann Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og keypti jörðina Setberg. Hann seldi líka trésmiðjuna en starfsmennirnir tólf ráku hana áfram undir nafninu Trésmiðjan Dvergur. Fyrstu tvö árin hafði Jóhannes ráðsmann sem sá um búreksturinn en árið 1911 tók hann við búskapnum en sá fljótt að hann gat ekki án rafmagns verið. Árið 1917 tók hann sig til og reisti enn eina rafstöðina við Lækinn. Þá þurfti hann að grafa um það bil eins kílómetra aðveituskurð og er það fyrsti aðveituskurðurinn sem grafinn var fyrir vatnsaflsvirkjun á landinu.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Sem dæmi um framsýni Jóhannesar segir Elísabet að hann hafi fjárfest í fyrstu mjaltavélinni sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélinni sem var Countor G, tíu hestafla framdrifin vél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við. Þótt Jóhannes hafi rekið myndarbú á Setbergi, með 20 kýr í fjósi og 200 ær, nægði það framkvæmdamanninum ekki. Hann reisti því timburverslun og trésmiðju við bæinn sem að sjálfsögðu var drifin með afli úr læknum.
Elísabet Reykdal segir að Jóhannes hafi víða séð tækifæri og hafi kunnað að nýta sér þau. Hún nefnir sem dæmi þegar þýska skonnortan Adelheid strandaði í hafnarmynninu í Hafnarfirði og sökk. Skonnortan var full af kolum. Jóhannes keypti skipið fyrir lítið og fékk mannskap með sér í að koma vírum undir það og lyfti því síðan upp með prömmum og lét aðfallsölduna mjaka því smám saman upp á land.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við „Reykdalsstífluna“.

Björgunaraðgerðirnar gengu ótrúlega vel, en mesta vesenið var að koma vírunum undir skonnortuna. Jóhannesi leist ekki á hægaganginn hjá köfurunum og brá sér því sjálfur í kafarabúning og bjargaði málunum. Þetta þótti mikil dirfska og kafararnir sem biðu á þurru voru orðnir ansi smeikir, því Jóhannes var mun lengur í kafi en þeir voru vanir. Elísabet segir að Jóhannes hafi haft allar klær úti við að ná sér í timbur. „Hún er fræg sagan af því þegar hann var í timburleiðangri en erfitt var að finna skip til að sigla með timbrið heim. Þá fékk þá hugmynd að gera fleka úr timbrinu og láta dráttarbát draga farminn yfir hafið. Ekki varð úr því, þar sem enginn banki vildi tryggja farminn. Jóhannes gerði sér því lítið fyrir og keypti barkaskip, fyllti það af timbri og lét sigla því heim.“
Það er óvinnandi vegur að gera æfi Jóhannesar Reykdals skil í einni blaðagrein, slík voru afrek hans. En ekki verður hjá því komist að nefna íshúsið sem hann reisti. Húsið framleiddi ís fyrir togara Hafnfirðinga og skilaði um leið miklum auði til bæjarins. Aðrir togarar þurftu að fylla sig af ís eftir söluferðir til útlanda meðan hafnfirsku togararnir lestuðu kol og fluttu heim til Hafnarfjarðar. Því varð aldrei kolaskortur í Hafnarfirði, þökk sé stórhug og framfaraviðleitni Jóhannesar Reykdals.

Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.
-http://www.rafmagn100.is/johannes.htm

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður í dag – athafnasvæði Jóhannesar fyrrum.

Jóhannes Reykdal

Eftirfarandi umfjöllun um „Brautryðjandann Jóhannes Reykdal“ er eftir Albert J. Kristinsson:

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal Einarsson, langalangafabarn Jóhannesar Reykdal, og Lovísa Christiansen, dótturdóttir Jóhannesar J Reykdal, afhjúpuðu styttu við „Reykdalsstífluna (25. maí 2018).

„Jóhannes Reykdal varð goðsögn í lifanda lífi. Hann fæddist að Vallakoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 18. janúar árið 1874. Tvítugur að aldri hóf hann trésmíðanám hjá Snorra Jónssyni trésmíðameistara á Akureyri og fjórum árum síðar silgdi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms.Eftir þriggja ára dvöl ytra flutti hann heim til Íslands og ætlaði til Akureyrar, en hann hitti unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, og ástin varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.

Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fannst það ekki nóg. Hann vildi reisa verksmiðju við Lækinn í Hafnarfirði og er það fyrsta stórvirkið sem Jóhannes vann.

Reykdal

Jóhannes Reykdal – minningarskjöldur við Reykdalsstíflu.

Trésmiðjan var búin átta fullkomnum trésmíðavélum og staðsetningin var engin tilviljun, því Jóhannes virkjaði lækinn og fékk þar orku til að knýja vélarnar áfram. Elísabet Reykdal, dóttir Jóhannesar, segir þetta fyrsta virkjunarafrek Jóhannesar megi rekja til heimsóknar hans til Margrétar systur hans sem bjó í Noregi. Þar sá hann hvernig Norðmenn nýttu sér vatnsaflið. Alls unnu tíu til tólf menn að jafnaðií þessari fyrstu verksmiðju Jóhannesar.

Upphaf rafvæðingar
Jóhannes ReykdalJóhannes lét ekki staðar numið þótt hann væri kominn með orku til að knýja vélarnar, hann vildi nýta lækinn betur og framleiða rafmagn. Árið 1904 fór hann til Noregs og festi kaup á rafal og setti sig í samband við fyrsta íslenska raffræðinginn, Halldór Guðmundsson, sem nýkominn var úr námi í Þýskalandi. Með hjálp Halldórs setti Jóhannes upp rafalinn og einn starfsmanna hans, trésmiðurinn Árni Sigurðsson, lagði raflagnir. Þann 12. desember þetta sama ár urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Þá tók virkjunin til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar. Þar á meðal voru tvö stærstu hús bæjarins, barnaskólinn og Góðtemplarahúsið. Einnig voru tendruð fjögur götuljós.

Rafvæðing Íslands var hafin
Jóhannes ReykdalEins og gefur að skilja varð strax mikil eftirspurn eftir rafmagninu hans Jóhannesar og trésmiðjuvirkjunin annaði engan vegin eftirspurn, jafnvel þótt Jóhannes hafi bætt nýju vatnshjóli við virkjunina.
Jóhannes fór því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð, á svo kölluðum Hörðuvöllum, sem fyrst um sinn fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Þetta er fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi og hún tók til starfa haustið 1906 og framleiddi 37 kW. Á þessum tíma var ekki hægt að mæla rafmagnsnotkun heimilanna þannig að Jóhannes tók til þess ráðs að selja perur. Hann einn seldi perurnar og þegar pera sprakk þurfti fólk að skila ónýtu perunni til þess að kaupa nýja. Áður en Hörðuvallavirkjunin kom mátti einungis hafa tvær perur í hverju húsi, þótt perustæðin væru fleiri.

Bóndinn á Setbergi
Jóhannes ReykdalJóhannes Reykdal óttaðist ekki breytingar. Árið 1909 seldi hann Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og keypti jörðina Setberg. Hann seldi líka trésmiðjunaen starfsmennirnir tólf ráku hana áfram undirnafninu Trésmiðjan Dvergur. Fyrstu tvö árin hafði Jóhannes ráðsmann sems á um búreksturinn en árið 1911 tók hann við búskapnum en sá fljótt að hann gat ekki án rafmagns verið. Árið 1917 tók hann sig til og reisti enn eina rafstöðina við Lækinn. Þá þurfti hann að grafa um það bil eins kílómetra aðveituskurð og er það fyrsti aðveituskurðurinn sem grafinn var fyrir vatnsaflsvirkjun á landinu. Sem dæmi um framsýni Jóhannesar segir Elísabet að hann hafi fjárfest í fyrstu mjaltavélinni sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélinni sem var Countor G, tíu hestafla framdrifin vél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Jóhannesson Reykdal; minningaskjöldur við heimagrafhýsi fjölskyldunnar milli Setbergs og Þórsbergs.

Þótt Jóhannes Jóhannesson Reykdal hafi rekið myndarbú á Setbergi, með 20 kýr í fjósi og 200 ær, nægði það framkvæmdamanninum ekki. Hann reisti því timburverslun og trésmiðju við bæinn sem að sjálfsögðu var drifin með afli úr Læknum.

Timbur og skonnorta
Elísabet Reykdal segir að JóhJóhannes Reykdalannes hafi víða séð tækifæri og hafi kunnað að nýta sér þau. Hún nefnir sem dæmi þegar þýska skonnortan Adelheid strandaði í hafnarmynninu í Hafnarfirði og sökk. Skonnortanvar full af kolum. Jóhannes keypti skipið fyrir lítið og fékk mannskap með sér í að koma vírum undir það og lyfti því síðan upp með prömmum og lét aðfallsölduna mjaka því smám saman upp á land.

Hafnarfjörður

Jóhannes Reykdal; stífla.

Björgunaraðgerðirnar gengu ótrúlega vel, en mesta vesenið var að koma vírunum undir skonnortuna. Jóhannesi leist ekki áhægaganginn hjá köfurunum og brá sér því sjálfur í kafarabúning og bjargaði málunum. Þetta þótti mikil dirfska og kafararnir sem biðu á þurru voru orðnir ansi smeikir, því Jóhannes var mun lengur í kafi en þeir voru vanir. Elísabet segir að Jóhannes hafi haft allar klær úti við að ná sér í timbur. „Húne r fræg sagan af því þegar hann var í timburleiðangri en erfitt var að finna skip til að sigla með timbrið heim. Þá fékk þá hugmynd að gera fleka úr timbrinu og láta dráttarbát draga farminn yfir hafið. Ekki varð úr því, þar sem enginn banki vildi tryggja farminn. Jóhannes gerði sér því lítið fyrir og keypti barkaskip, fyllti það af timbri og lét sigla því heim.“

Jóhannes ReykdalÞað er óvinnandi vegur að gera æfi Jóhannesar Reykdals skil í einni blaðagrein, slík voru afrek hans. En ekki verður hjá því komist að nefna íshúsið sem hann reisti. Húsið framleiddi ís fyrir togara Hafnfirðinga og skilaði um leið miklum auði til bæjarins. Aðrir togarar þurftu að fylla sig af ís eftir söluferðir til útlanda meðan hafnfirsku togararnir lestuðu kol og fluttu heim til Hafnarfjarðar. Því varð aldrei kolaskortur í Hafnarfirði, þökk sé stórhug og framfaraviðleitni Jóhannesar Reykdals.“
Sjá meira um Jóhannes HÉR.

Heimild:
-http://www.rafmagn100.is/johannes.htm
-Brautryðjandinn Jóhannes Reykdal – Albert J. Kristinsson.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við „Reykdalsstífluna“.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er afleíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.

Hausastaðir

Hausastaðir og tóft Hausastaðaskóla 2024.

Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, „kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa“. Sé hann kvongaður „skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði“. Hann átti að hafa „gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla“. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.

Hausastaðir

Hausastaðaskóli (t.v.), minnismerki og Hausastaðir.

Um kennsluna var það tekið fram, að „með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar“, þá átti daglega, „kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng“, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og „stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum“, og „aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins“.

Hausastaðir

Hausastaðir 2022.

Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja „alla sálma tíðkanlega hér á landi.“ Og til þess að „lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.“
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann „eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra“.
Börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki í Njarðvíkum.

Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að ráðast í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé „afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.“

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í „sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.“ Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.

Hausastaðir

Hausastaðir og minnismerkið um Hausastaðaskóla.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.

Járnbrautarvegur

Gísli Sigurðsson ritaði eftirfarandi grein um „Vegagerð í nágrenni Hafnarfjarðar“ í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1966:
„Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Hverjir það voru, sem forgöngu höfðu í því, að leitað var til ríkisstjórnar um atvinnumál, veit ég ekki, en tel þó, að það hafi verið Gísli Sigurðssonbæjaryfirvöld kaupstaðanna. Þessi viðleitni varð til þess að stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það mun hafa verið hinn ungi Geir G. Zoëga verkfræðingur, er þá hafði verið skipaður vegamálastjóri, sem mældi út veginn og fann honum stað. Vegurinn átti að liggja út af Suðurlandsbraut um austanverða Sogamýri, vestan Blesugrófar, og upp austurenda Digranessháls, rétt austan við bæinn Digranes, þar sem gömlu göturnar lágu um hálsinn, þaðan niður að Kópavogslæk og yfir hann fyrir neðan Fífuhvamm, um mýrina þar, um Nónskarð og niður holtið úr skarðinu yfir Arnarneslæk um Kringlumýri, um Vesturmýrina rétt undir Hofstaðaholti, um Bjarnakrika, vestan Vífilsstaða og túns út á Svínahraun eða Vífilsstaðahraun, eins og það nú er kallað. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Þessi vegur átti sem sagt að bæta úr allri þörf fyrir flutninga milli kaupstaðanna, bæði mannflurninga og vöruflutninga. Mig minnir, að til þessarar dýrtíðarvinnu ætti að verja um það bil 500.000.00 – fimm hundruð þúsund krónum – úr ríkisskassanum. Reykvíkingar áttu að leggja veginn úr Sogamýri suður að Miðaftanshól, en Hafnfirðingar frá Miðaftanshól niður í Hafnarfjörð. Hverjir verkstjórar voru frá Reykjavík vissi ég aldrei, en Sigurgeir Gíslason skyldi vera verkstjóri Hafnfirðinga. Hann mun og hafa verið sá maðurinn, er ráða skyldi menn til vinnu í vegagerð þessa. Faðir minn hafði komið mér þarna í vinnu. Og nú var aðeins beðið eftir því að kallið kæmi, að vinnan skyldi hefjast.

Sigurgeir Gíslason

1. febrúar 1918. Það hlýtur að hafa verið þennan dag, sem vinnan byrjaði, því daginn eftir, 2. febrúar sem er kyndilmessa, ætlaði pabbi í verið upp í Grindavík, það var gamall siður, að menn skyldu vera komnir til verstöðva sinna þennan dag eða að minnsta kosti leggja þá af stað í verið. Þó lítil von væri með vinnu, fóru menn á hverjum degi, hverjum morgni að heiman niður á götu til þess að eigra þar milli vinnustöðva, hvort þar væri handarvik að fá. Ég mun þá eins og fleiri daga hafa farið niður á götu og gengið þar milli stöðva í snapi eftir vinnu, en ekkert bólaði á vinnu frekar en fyrri daginn. Á tíunda tímanum, er ég nálgaðist húsið, þar sem við bjuggum þennan vetur, Vesturbraut 10 í kjallara, slagafullum, mætti ég pabba. Sagði hann mér, að þá um morguninn hafi Sigurgeir verkstjóri farið með vinnuflokk til vegagerðar upp í hraun. Dýrtíðarvinnan væri að byrja. Ég yrði því að tygja mig til ferðar þegar í stað. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, fór inn til mömmu, drakk kaffisopa og mun hafa fengið brauð með. Nesti fór ég ekki með, en slíkt var þó nauðsynlegt, þar sem vinnan var svo langt í burtu, að ekki var tiltökumál að fara heim í mat í hádegi. Mamma lofaði að senda bóður minn, ellefu ára, með mat til mín. Ég lagði svo af stað, og innan stundar var ég kominn á staðinn og hitti Sigurgeir að máli. Hann úrskurðaði mig í vinnuflokk sinn. En verkstjóri fyrir öðrum flokk var Jón Einarsson, velþekktur verkstjóri.
VJón Einarssonið byrjuðum undir Miðaftanshól. Skyldi flokkur Jóns Einarssonar halda austur og upp af hólnum til móts við Reykvíkinga, en flokkur Sigurgeirs skyldi halda niður hraunið. Strax var ég settur í að bera grjót á handbörum móti ungum manni, Halldóri M. Sigmundssyni. Vorum við vinnufélagar allan tímann, sem við vorum í þessari vinnu.
Hælar voru settir niður til að fara eftir með veginn. Mælt var fyrir vegarbrúnum og þar settar niður stikur. Sérstakir menn voru til þess settir að hlaða vegarbrúnirnar. Ekki var skortur á hæfum mönnum í slík störf í Hafnarfirði. Þar var hver snillingurinn öðrum fremri. Sigurgeir hafði langa þjálfun í vegarlagningum um hraun Hafnfirðinga og Hafnfirðingarnir langa þjálfun í að hlaða vegarkanta, bæði heima í Firðinum og með Sigurgeir út um land. Þeir eru ekki margir vegarkantarnir, sem nú verða séðir, en þó eru þeir til og bera vott um vandaða vinnu, bæði handlagni og góða útsjón. Aðrir voru settir til að ryðja hólum og hæðum niður í lægðir. Svo vorum við strákarnir látnir bera grjótið að lagningarmönnunum eða smágrjót í púkkið við veginn.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning.

Þar sem svo langt var heim, að ekki voru möguleikar á að fara í mat, átti sú regla að gilda að borða vel heima áður en farið væri til vinnu. Ferðin aðra leiðina skyldi greidd sem vinna. Svo átti að vinna sleitulaust til kl. 12 á hádegi. Þá var gefin hálf stund til matar. Síðan var unnið fram til kl. 5 e.m. og ekkert kaffihlé. Þetta fyrirkomulag þætti víst ómögulegt nú til dags. En þessu uðrum við verkamenn að hlíta í þá daga. Dálítið var þetta óþægilegt fyrst í stað, en þetta vandist þegar fram í sótti, og að síðustu vorum við farnir að kunna þessu allvel…
Alla tíð mættumst við verkamennirnir við hús Jóns Einarssonar, Strandgötu 19. Þaðan héldum við upp í hraunið, eftir stíg, sem þar lá og þeir Sigurgeir og Jón þekktu vel…

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Eins og áður segir um verkið, var hólum jafnað í holurnar og kantar hlaðnir, en það sem til vantaði, var borið á handbörum og fyllt þannig upp. Var þetta allmikilvinna, en undir stjórn þeirra Sigurgeirs og Jóns miðaði verkinu allvel áfram. Þegar eftir stuttan tíma, var smiður fengin til til að skerpa og herða járnkarla og fleyga sem notaðir voru. Var smiðjan borin upp eftir einn morguninn. Smiðurinn var Sveinn járnsmiður Sigurðsson, ætaður frá Syðri-Gróf í Flóa. Fyrst í stað var smiðjan undir berum himni, en brátt var skúr fluttur upp eftir fyrir smiðjuna. Þá var einnig annar skúr fluttur upp eftir, það var matar- og áhaldaskúr. Bættist nú hagur manna, því nú var farið að matast inni. En ekki var skúrinn stærri en það, að ekki komst nema annar flokkurinn í skúrinn í einu. Flokkarnir urðu því að skiptast á að borða…

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól.

Ég man það enn, að mikil gleði var í kjallarnum á Vesturbraut 10, þegar ég kom heim með fyrstu útborgunina. Þá var hitað kakaó og snúðar keyptir til hátíðarbrigða. Svo var farið og skuldir greiddar, en þá var ekki mikill peningur eftir. En að vera skuldlaus var sama og hafa lánstraust. Þeirri reglu héldu við móðir mín alltaf. Vinnan gekk með sama hætti frá degi til dags og áfram mjakaðist vegurinn, sjö metra breiður og byggður með það fyrir augum, að járnbraut lægi á öðrum kanti hans, þegar þar að kæmi…
Þegar hér var komið sögu, hafði flokkur Jóns Einarssonar náð upp að Miðaftanshól. Þá sneri hann við og bætti upp í skörðin, sem orðið höfðu í flokki Sigurgeirs. Var enn um stund haldið áfram verkinu. En þar kom samt, að fé það þraut, er ríkisstjórnin hafði lagt til þessarar vegagerðar. Þá var lokið þessari dýrtíðarvinnu, og við héldum heim síðasta kvöldið. Vorum við þá farnir að una þessu vel, sem nú yrði kallað harðrétti, að eta einmælt allan vinnutímann…“
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt.

Heimild:
-Gísli Sigurðsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1966

Járnbrautarvegurinn

Járnbrautarvegurinn – Miðaftanshóll fjær.

Kolhólasel

Gengið var suður Rauðhólsselsstíg frá Vatnaborginni norðvestan við Gráhellu vestan Afstapahrauns. Þegar komið var fyrir Hraunsnefið var stefnan tekin til suðsuðvesturs, í áttina að Kolhólaseli.

Keilir

Keilir.

Gamalli götu var fylgt austan Einiberjahóls á Efri-Heiði. Eftir u.þ.b. klukkustundar gang var komið að Kolhólagjá. Skammt sunnan (ofan) við gjána eru hólar með grasi grónum hliðum. Norðaustan undir þeim næst efsta í suðvestri er Kolhólaselið. Tóftirnar hafa verið kunnar, en ekki var vitað um sel eða örnefni því tengdu á þessum slóðum. Landið er í Vatnsleysulandi svo líklegt má telja að selstaðan hafi tilheyrt henni. Kolhóll er allnokkru ofar og þá Hrosshóll áður en komið er upp að Keili.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Vatnaborgin er skammt fyrir ofan Reykjanesbrautina. Hún er 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er skammt austar.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Litlu ofan við hólinn er Grindavíkurgjáin. Ofan hennar tekur við mosalægð en síðan hækkar landið í átt til Keilis. Á þessu svæði er Vatnsleysuheiðin kölluð Efri-Heiði. Þegar komið var yfir Kolhólagjá taka við nokkuð áberandi klapparásar með djúpum grasbollum milli þeirra. Sunnan við ásana er kúptur og hár hóll og norðaustan undir honum er fyrrnefndar seltóftir, í stórri gróinni lægð. Reyndar getur verið nokkrum erfiðleikum háð að finna minjarnar.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Fimm greinilegar, þrískiptar og afmarkaðar tóftir eru undir brekkunni. Sagnir munu vera til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði munu heita Kolhólar og grasrindirnar Kolhólalágar. Ein tóftin, tvískipt, er austan undir brekkunni. Önnur tví eða þrískipt tóft er norðan undir henni og austan hennar er greinilegur stekkur. Húsaskipan eru dæmigerð fyrir selshús á Reykjanesskaganum. Í langflestum seljanna 140, sem finna má á skaganum, eru þrjár vistarverur; búr og svefnaðstaða annars vegar og eldhús hins vegar. Sameiginlegur inngangur er í hinar fyrrnefndu og sérinngangur í eldhúsið. Hefur það verið gert af eðlilegum ástæðum.

Kolholasel-21

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef ekki hefur verið kolasel þarna má vel ímynda sér selráðskonuna, sem hafði öll völd í selinu yfir sumarið, hagræða sér í vistarverunni að loknu dagsverki. Hún hefur tekið daginn snemma, smalinn verið kominn með ærnar úr nátthaganum og hún fært hverja á fætur aðra í kvína til mjalta. Ef einhverja vantaði að morgni var alveg eins líklegt að hann fengi að „eta skömm sína“, þ.e. matarskammtur hans var skorinn við trog þann daginn. Það hefur verið erfitt að vera smali í seli, en samt minnast flestir, sem það voru, þeirra daga með söknuði. Smalinn hefur verið látinn aðstoða við að færa frá og gæta þess vandlega að ekki færi dropi til spillis. Að mjöltum loknum hefur selráðskonan hafist handa við mjólkurvinnsluna og látið smalann hamast við strokkinn. Hleypa hefur þurft undan, skekja smérskökuna, grysja skyrið og búa um allt vel og vandlega í búrinu svo hægt hafi verið að afhenda húsbóndanum afurðirnar skammlaust er hann kæmi í sína reglulegu vitjun til mjólkumatsins og afhenti fiskskammtinn til selsins. Áður en hann kvaddi kyssti hann selráðskonuna að skilnaði, en stundum var sagt að „útilegumenn“ eða jafnvel „huldumenn“ hefðu komist í þær bæru þær ávöxt eftir selsveruna.

Kolhólasel

Tóft í Kolhólaseli.

Svæðið í kringum Kolhólaselið var gaumgæft og kannað hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Fallin varða er á hól norðvestan við selið, en selsstígurinn liggur austan við hana. Erfitt var að finna hugsanlegt vatnsstæði nálægt selinu, en tveir staðir komu til greina, þ.e. klapparholtin umhverfis eða sjálf Kolhólagjáin.
Drjúgan veg frá Kolhólum, eða um miðja vegu að Keili, er Stóri-Kolhóll eða Kolhóll, eins og hann er nefndur í landamerkjalýsingum Kálfatjarnar og Vatnsleysu og liggur Þórustaðastígurinn fast við hann að vestanverðu. Ofan í miðjan hólinn er djúp og mikil skál og dregur hóllinn líklega nafn sitt af því að í skálinni hafi fyrrum verið gert til kola. Fyrir ofan Kolhól er svo Keilisvarðan, en hún stendur við Þórustaðastíginn.

Strandarheiði

Strandarheiði – vörðukort (ÁH).

Áberandi gata liggur upp og niður frá Selinu. Henni var fylgt til norðurs. Liggur hún niður heiðina nokkuð austan við Þórustaðastíg, en nær samhliða. Þegar komið var yfir Grindavíkurgjá beygði gatan meir til austurs, með stefnu á Djúpadal við Brennihóla. Á sléttlendinu sunnan við Djúpadal virðast hafa verið vatnsstæði, en þaðan er gatan óljósari til norðurs.
Þegar komið var norður fyri Brennihóla mátti sjá hleðslur á einum klapparhólnum. Ein þeirra var greinilega byrgi refskyttu. Frá því var auðvelt að fylgjast með tófuferðum ofar í heiðinni, ekki síst við möguleg vatnsstæði við selsstíginn, ofan við Djúpudali.
Þegar FERLIR fór upp í Kolhólasel frá Vatnsleysuströnd árið 2012, eftir níu ára fjarveru, var m.a. ætlunin að skoða hvort þar kynni að vera eitthvað „nýtt“ að finna, þ.e. eitthvað sem hafði yfirsést í fyrri ferð. Enda kom í ljós að svo var.

Kolhólasel

Í Kohólaseli.

Tveir mosavaxnir stekkir og garður komu í ljós norðan við tóftirnar, sem fyrir voru. Þetta segir lærðum og reyndum einungis eitt; það er aldrei of lengi leitað á svæðum sem þarf að fornleifaskrá. Sá tími, sem nú er veittur til slíkra verka, er margsannanlega allt of skammur og því hætta á að merkilegar minjar glatist beinlínis vegna þessa.
Að þessu sinni var haldið áfram upp í Kolhól og han skoðaður nánar. Greinilega er að þarna er um örvarp að ræða en ekki fornleif. Örvarp er svo nefnt þegar náttúrulegum aðstæðum er gefið örnefni er ætla megi að kynni að eiga uppruna sinn í fornleifastað. Hér er um samlíkingu að ræða, líkt og Brunnhóll neðan við Lónakotssel. Þar er um að ræða stórt jarðfall er líkist stækkaðri mynd af brunni.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður. (Sjá meira undir Kolhólaselsstígur).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir- 1995.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um „Trölladyngju og nágrenni“ í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
„Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást“.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði“. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi“. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Seltúnssel

Ætlunin var að ganga um gömlu brennisteinsnámurnar í Baðstofu ofan við Krýsuvík og leita ummerkja eftir námumenn á svæðinu, en brennisteinn var unninn þar fyrrum líkt og ofan við Seltún skammt norðar.
Þaðan átti að Leirhver í Baðstofuhalda upp á austurbrúnirnar sunnan Hnakks (Baðstofu) á Sveifluhálsi, milli Hettu (379 m.y.s.) og Hatts. Frá hvorutveggju er hið ágætasta útsýni yfir undirlendið, allt til sjávar. Í leiðinni átti að kanna með hugsanlegar götur innar á hálsinum, milli Hettu og Arnarnípu; Hettustígs, Smérklofastígs og Ketilsstígs.. Eins og svo oft áður leiddi ferðin til óvæntrar uppgötvunar.
Byrjað var þó að rifja upp vísuna góðu:
„Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur…“
En hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík, áður grunn vík, þar sem nú er Húshólmi.

„Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512). „Krísa“ merkir vandræði, en „Krýsa“ merkir skora eða grunn vík. Því virðist eðlilegra að rita örnefnið með „ý“.

Við Baðstofu

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.“
Önnur eðlilegri skýring er á nafngiftinni, em hún er sú að ‘krys’ merki í fornnorrænu grunna skoru og þá gjarnan í ask. Krýsuvík hin forna hefur því verið grunn vík og við hana hafa landnámsmenn tekið sér bólfestu ef marka má hinar fornu minjar, sem þar má enn sjá.
Í þjóðsögunni um Krýsu og Herdísi segir: „
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Brennisteinn í BaðstofuÞað þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
SveltirÞangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans.

Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Í annarri sögu segir að: „
Herdís og Krýs hétu konur tvær í fyrri daga; þær bjuggu í víkum þeim í Gullbringusýslu sem við þær eru kenndar síðan, Krýs í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þar er vatn eitt uppi á heiðunum sem þá var veiði í. Þóttust báðar kerlingarnar eiga veiðina í vatninu og notuðu hana hvor um sig eftir megni.
Einu sinni mættust þær á leiðinni til vatnsins í hrauninu milli víkanna; þar deildu þær út af veiðinni og heituðust og urðu loks sín að hvorum steini. Standa þar steinarnir sinn hvorumegin við götuna í hrauninu, og heitir hinn syðri Herdís en hinn nyrðri Krýs.“

Búseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið fluttur frá Húshólma, til ársins 1942.

Seltúnssel

Seltúnssel – nátthagi.

Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Norðurkots, Snorrakots, Suðurkots, Lækjar og Hnausa.
Lækur undir HattiÞar sem gengið var um Baðstofu og hlíðarnar ofanverðar mátti hvarvetna sjá mikinn jarðhita, enda gáfu ummerkin slíkt greinilega til kynna. Brennisteinn var og víða á hverasavæðunum.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið.
Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Krýsuvík

Krýsuvík – Dyngja sunnan Kleifarvatns.

Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gipsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali, en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi, en þar neðan við kólnar. En engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.
Litadýrðin er mikil á jarðhitasvæðinuÁ Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún 1976.

Krýsuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitasvæðið skiptist í tvennt: Sveifluháls og Trölladyngju. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu (Halldór Ármannsson o.fl. 1996).
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík.  Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.
Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Horft niður á SeltúnshverasvæðiðBushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.  Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir (Sveinn Þórðarson, 1998). 

Gengið var niður með læk milli Hnakks og Hatts. Þar framar var hið ágætasta útsýni yfir Seltún og Vesturngjar.
SeltúnshverasvæðiðÁrið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn.  Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns. Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina (Sveinn Þórðarson, 1998).
Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.
KlettafellÁstæðu sprengingarinnar má  rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Í hlíðum HettuHverasvæðin eru síbreytileg. Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4. Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn. 

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.  Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu (Björn Hróarsson o.fl. 1991).

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla við Seltún.

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: „Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð.  Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.“
Gata austan við ArnarvatnÍ seinni tíð hafa náttúru- og umhverfisverndarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms innan raða þeirra sem taka þátt í virkjun jarðvarma.  Lengst af hafa slík sjónarmið ekki verið reifuð sérstaklega en nýtingin hefur reyndar ekki verið umfangsmikil fram á síðustu áratugi. Eyðilegging hvera hefur þó átt sér stað bæði vegna nýtingar eða af öðrum ástæðum.  Í Náttúruverndarkönnun árið 1979-1980 í Borgarfirði reyndust nærri helmingur hvera hafa verið eyðilagður og var þó heitt vatn langt umfram þarfir íbúa á svæðinu (Tryggvi Þórðarson 1981). Nýting vatnsins var algengasta orsökin fyrir eyðileggingunni, sem fólst oftast í því að steypt hafði verið yfir hverina. Mjög algengt var einnig að náttúrulegar laugar og volgrur höfðu verið eyðilagðar með skurðgreftri og framræslu. Sú nýting jarðhitasvæða sem nú er ráðgerð  í landinu er talsvert umfangsmeiri en sú sem stunduð var í Borgarfirði og því er mun nauðsynlegra að náttúru- og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við alla áætlunargerð og framkvæmdir. Ljóst er þó að þekkingn á nýtingu jarðhitans er orðin miklu meiri en þekkingin á verndarmöguleikum og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda. Ástæðan er sú að miklu fé hefur verið varið í undirbúning jarðorkunýtingar en tiltölulega litlu í rannsóknir á umhverfisáhrifum á hverina og lífríki þeirra.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Ísland er ungt land jarðfræðilega séð. Elsta berg á yfirborði landsins er 14-16 milljónir ára gamalt en til samanburðar er jörðin um 4500 milljónir ára. Virkt gosbelti liggur eftir flekaskilunum endilöngum. Gosefni hafa síðan hlaðist upp og eru yngstu jarðlögin næst núverandi rekbeltum en þau elstu liggja yst á Austfjörðum og á Vestfjörðum.
Jarðvirkni á Íslandi er mikil og landmótun hröð. Þetta má helst skýra með legu landsins á Atlantshafshryggnum sem teygir sig úr Norður-Íshafinu suður fyrir Afríku. Á hryggnum er hár hiti úr jörðu sem stýrir eldvirkninni og nefnist þetta svæði á Íslandi virka gosbeltið einnig kallað eldvirka beltið. Atlantshafshryggurinn liggur á mörkun tveggja fleka (sjá landrekskenninguna) sem rekur í sundur til vesturs og austurs.  Þessar plötur eru nefndar Evrópuplatan og Norður-Ameríkuplatan. Plöturnar eru um 100-200 km þykkar og mörg þúsund kílómetar að breidd. Jarðvirkni á Íslandi, svo sem eldgos og jarðskjálftar, er afleiðing þessa landreks.

EinirSums staðar á hryggnum, á svokölluðum heitum reitum, eru mikið uppstreymi kviku og jarðvarmi mikill. Fræðimenn hallast að þeirri kenningu að undir reitunum myndist möttulstrókar vegna mikils varmaflæðis frá kjarnanum til jarðskorpunnar. Heitur reitur liggur undir Íslandi en talið er að um 20-30 heitir reitir séu dreifðir um jörðina, óháð flekamörkum. Eldvirkni á heitum reitum er oftast meiri en umhverfis hann og því liggur Ísland 2000 metrum ofansjávar meðan hryggurinn rétt hjá er á 2000-3000 metra dýpi. Ísland væri allt öðruvísi í lögun ef heiti reiturinn einn hefði valdið gosum, Ísland myndi þá líkjast meira Hawaii.  Ísland hefði að sama skapi sjálfsagt ekki myndast ef einungis hefði verið um að ræða gos vegna plötureks. Ísland er einsdæmi á Atlantshafshryggnum að því leyti að saman fara plötuskil og heitur reitur sem bætir við efni þannig að landið er ofansjávar. Til eru eyjar nálægt úthafshryggjum en engin er nákvæmlega á honum miðjum, líkt og Ísland er eða jafnstór.
Lækur neðan HnakksÖll okkar vitneskja um innri gerð jarðarinnar fáum við með óbeinum hætti því nærri ómögulegt er að nálgast þessar upplýsingar á beinan hátt. Með mælingum á hraða jarðskjálftabylgna hafa menn komist að því að jörðin er lagskipt. Innst er kjarni, utan um kjarnann kemur möttullinn og yst höfum við jarðskorpuna. Kjarninn samanstendur að mestu úr járni og inniheldur 1/3 af massa jarðar þrátt fyrir að hann sé aðeins 1/5 af rúmmáli jarðar. Skýringin á því er mikill hiti og þrýstingur í kjarnanum sem þjappar saman massanum. Kjarninn inniheldur mikið af geislavirkum efnum. Þessi efni gefa frá sér hita þegar þau brotna niður, og sá hiti berst hægt í gegnum jörðina og upp á yfirborðið og hjálpar til við plötuhreyfingar.

Jörðin

Möttull jarðar.

Efsti hluti möttulsins og jarðskorpan kallast stinnhvolf og skiptist í fleka eða plötur. Þessar plötur (sjá landrekskenningin) eru á hreyfingu vegna hitans sem berst frá kjarnanum og möttlinum við niðurbrot geislavirkra efna. Mest af kvikunni sem berst frá möttlinum storknar neðanjarðar en hluti hennar kemur upp á yfirborðið og þá verða eldgos. Dreifing jarðskjálfta og eldvirkni er þar af leiðandi mest þar sem flekamót eru. Hiti vex með dýpi í jörðinni. Það stafar af niðurbroti geislavirkra efna frá möttlinum og kjarnanum.

Hverasvæði undir Hnakk

Hitastig er mismunandi í efstu lögum jarðskorpunnar og er hann hæstur á virkum eldfjallastöðvum. Ástæðan er að kvika berst upp í jarðskorpuna og hitar hana upp. Jarðskorpan öll samanstendur af risastórum plötum eða flekum. Plöturnar eru úr föstu efni, sem fljóta ofan á seigu efni í möttli jarðar. Iðustraumar í möttlinum valda því að plöturnar eru á stöðugu reki og því er hreyfingin nefnd landrek. Þar sem flekarnir færast í sundur, eins og á Íslandi, þar er uppstreymi í möttlinum og ný jarðskorpa myndast stöðugt. Þar sem flekar rekast á eyðist jarðskorpan þegar hún hverfur ofan í jörðina og bráðnar. Sannanir fyrir plötuhreyfingunum hafa vísindamenn meðal annars fengið með að bera saman steinategundir mismunandi heimsálfa. Vísindamenn fundu meðal annars að ákveðnar steinaraðir á strönd Brasilíu birtust aftur í Afríku á nákvæmlega þeim stað þar sem gera mætti ráð fyrir að þær væru ef þessi tvö meginlönd hefðu verið föst saman.
Jarðvirkni í heiminum er mest þar sem plötur mætast og þar finnum við aðal skjálfta- og eldsumbrotasvæði Vetrarblómjarðar. Á Íslandi skapar landrekið stöðugt nýja jarðskorpu í gosbeltum landsins. Í virka gosbeltinu, sem liggur á plötuskilunum, eru öll virk eldfjöll á Íslandi staðsett. Virka gosbeltið nær frá Reykjanesi til norðausturs þvert yfir landið. Plöturnar færast í sundur um að meðaltali 1 sm á ári þannig að bergið sem einu sinni myndaðist þar er að finna á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar má finna elsta berg á Íslandi en það yngsta næst plötuskilunum.
Krýsuvík komst eftir króka- og klækjaleiðum í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups.
VinnuskólinnTveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Ljósm. Emil Jónsson.

Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Sundlaugin

Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

 

Sundlaug vinnuskóladrengjanna milli Bleikhóls og Irpuhóls

Eitt af því sem drengirnir gerðu, og enn má sjá merki um, er sundlaug á sandinum millum Bleikhóls og Irpuhóls. Þar er mikill jarðvarmi rétt undir yfirborðshimnunni. Drengirnir stungu niður skóflu á söndunum og úr varð uppspretta af heitu vatni. Þeir leiddu vatn úr henni spölkorn til austurs eftir að hafa grafið þar myndarlega vatnsþró. Í fyrstu reyndu þeir að koma fyrir trébrettum á botninum, en þau vildu fljóta upp. Þá var ákveðið að sleppa tréverkinu og láta sandinn ráða. Dýptin á „lauginni“ var um 120 cm. Að og frá vinnusvæðinu sungu þeir „Krýsuvíkursönginn“ svo hátt að enn má heyra hann hljóma í hlíðum fjallanna:

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.

Ræktum og byggjum, bætum,

brosandi þrautum mætum,
vonleysi, þrefi og þrætum,
þeytum á bug….

Kempur í kappasveit,
í Krýsuvík vinnum heit,
að duga og treysta vort drenglyndi og þor.
Vorhugans verkin kalla
verkglaða drengi snjalla.
Sindrar um sali fjalla
sólskin og vor.“

[Höfundur; Hörður Zóphaníasson].

Á heimleiðNú hefur bæði safnast sandur í gryfjuna og slý þekur yfirborðið. Enn má þó sjá rörið, en eitthvað virðist heitavatnið hafa kólnað síðan þá var (1962).
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur ústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958.

Krýsuvík

Krýsuvík – Seltúnssel sett inn á mynd.

Byrjað var á að girða 56 ha spildu sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti. Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar Vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Götu var fylgt með hlíðum sunnan og austan Arnarvatns. Þá var komið áleiðis niður á Seltún sunnan Hatts. Líklegt má telja að örnefnið Seltún hafi ekki komið til ef engu. FERLIR hefur löngum, á öðrum leiðum, gengið um Seltúnssvæðið í leit að ástæðu nafngiftarinnar; selinu. Á einu Krýsuvíkurkorti er selið sýnt norðvestan við gatnamótin að hverasvæðinu. Það er í sjálfu sér ágætt, nema þar eru bara engar tóftir. Smátóft er þó á gróðurtorfu sunnan við aðalhverasvæðið. Hún gæti hafa tilheyrt námumönnum.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni. Selið er á miðri mynd.

Og þá gerðist það, sem svo oft gerist þegar leitað er aftur og aftur; skyndilega kom í ljós tóft með þremur rýmum.

Seltúnssel

Seltúnssel – tóft.

Tóftin er greinilega mjög gömul, snýr dyrum mót norðri. Grjót eru í veggjum að hluta. Sjá má beina veggi og lögun tóftarinnar þrátt fyrir þýfið.
Að baki hennar eru leifar af hringlaga gerði, sem gert hefur verið úr torfi, trúlega kúagerði. Líklegt má telja að hér sé komið selið í Seltúni. Ketilsstígurinn hefur fyrrum legið framhjá selinu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
-Ari Trausti Guðmundsson, 1982: Ágrip af jarðfræði Íslands handa skólum og almenningi. Reykjavík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 186 bls.
-Ari Trausti Guðmundsson, 1986: Íslandseldar. Reykjavík, Vaka-Helgafell, 168 bls.
-Axel Björnsson, 1990: Jarðhitarannsóknir, yfirlit um eðli jarðhitasvæða, jarðhitaleit og  vinnslu jarðvarma. Orkustofnun, OS-90020/JHD-04, 50 bls.
-Ingvar Birgir Friðleifsson, 1979: Geothermal activity in Iceland. Jökull, 29, 47-56.
-Náttúra Íslands, 2. útgáfa, 1981. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 475 bls.
-Tryggvi Þórðarson. 1981. Varmalindir: Hvítársíða, Hálsasveit og innanverður Reykholtsdalur: Náttúruverndarkönnun. Reykjavík. Náttúruverndarráð. Fjölrit nr. 10., 77 bls.
-Barth, Tom. F. W., 1950: Volcanic Geology: Hot Springs and Geysers of Iceland. Washington, Carnegie Institution of Washington, 174 bls.
-Björn Hróarsson og Sigurður Sveinn Jónsson, 1991: Hverir á Íslandi. Reykjavík, Mál og menning, 160 bls.
-Íslandsleiðangur Stanleys 1789: Ferðabók, 1979. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Örn og Örlygur, 352 bls.
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krísuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.
http://visindavefur.is/svar.php?id=6532

Krýsuvík