Grindavíkurvegur
Miðað við nýjustu rannsóknir eru vegalengdir á milli þéttbýlissvæða á Reykjanesi frekar stuttar ef tekið er mið af landsmeðaltali. Önnur merkileg niðurstaða þessara rannsókna staðfestir að vegalengdir milli tveggja tiltekinna staða eru nákvæmlega þær sömu, hvort sem farið er fram eða til baka.
Einn liður rannsóknanna var að mæla fjarlægðir frá vegi í áhugaverðustu útivistarsvæðin. Þær reyndust vera frá 3 metrum upp í 3 km, eftir því hvaðan farið var.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Leiðin frá Grindavík til Reykjavíkur er 51 km. Við athugun kom í ljós að sama leið frá Reykjavík til Grindavíkur reyndist einnig vera 51 km. Erfitt er að byggja niðurstöður rannsókna á einni niðurstöðu, m.a. vegna hugsanlegra efasemda um áreiðanleika, svo ákveðið var að sannreyna aðrar vegalengdir á Reykjanesi. Þær reyndust staðfesta fyrri niðurstöðu. Þannig reyndist fjarlægðin milli Keflavíkur og Reykjavíkur vera sú sama og á milli Reykjavíkur og Keflavíkur (48 km). Vegalengdin til og frá Reykjavík og Sandgerðis reyndist í báðum tilvikum vera 55 km. Til að taka af allan vafa var ákveðið að mæla vegalengdina milli staða, sem fólk nýtir sér sjaldnar, þ.e. Keflavíkur og Grindavíkur. Reyndist hún vera 23 km, sama í hvora áttina var farið.

Hafnir

Hafnir.

Ef farin var leiðin um Hafnir kom í ljós að 39 km skyldu þar á millum. Jafnvel var talið að vegalengdirnar fram og til baka þá leiðina gæti verið misvísandi vegna malarvegarins á hluta leiðarinar, en það virtist ekki hafa áhrif á niðurstöðuna, þrátt fyrir 9 tilraunir. Á sama hátt reyndist vegalengdin frá Reykjavík til Grindavíkur um Krýsuvíkurveg vera 62 km, í sama hvora áttina var farið.
Heildarniðurstaðan af þessari umfangsmiklu rannsókn er sú að óvíða er styttra frá Reykjavík til áhugaverða staða hér á landi en einmitt á Reykjanesinu – og heim aftur. Vegalengdir eru ekki meiri en svo að hver og einn ætti að geta farið nestislaus að heiman og skoðað sig um án þess að óttast að verða hungurmorða á ferðalaginu. Ef svengdin kveður að eru víðast hvar bæði söluturnar og betri veitingarstaðir með tiltölulega stuttu millibili.
Ef lagt er í lengri ferðalög um svæðið, t.d. að morgni, er fátt sem getur komið í veg fyrir að viðkomandi komist heim að kveldi – hvílt sig og sofnað í eigin rúmi.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur.

Járnbrautarvegur

„Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni.
Hafnarfjardarhraun-2Þessar hleðslur vitna um vegasögu okkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrri hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.
Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.
Hafnarfjardarhraun-4Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.
Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum.

Hafnarfjardarhraun-6

Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm. Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri.
Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Hafnarfjardarhraun-10Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.
Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.
Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Midaftansvarda-21

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1904-1912. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.
Hafnarfjardarhraun-12Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann. Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.
Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé.

Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða Hafnarfjardarhraun-15áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.
Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.
JarnbrautEr glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.“

Heimildir:
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.
-Unnið af Jónatan Garðarssyni.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Hamrahlíð

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Blikastaði í Mosfellshreppi segir m.a. um bæinn Hamrahlíð, sem nú er kominn í eyði:

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

„Jörð í Mosfellssveit, uppl[ýsingar] gaf þar Helga Magnúsdóttir, húsfreyja þar á staðnum. Fjallið fyrir ofan bæinn, austur frá bæ, heitir Hamrahlíð. Þar nokkuð norðarlega er skarð, klettalaust upp á fjallið, er blasir við, þegar komið er austan veginn.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Þetta skarð heitir Kerlingarskarð, og eftir því, hve kvöldsett er, myndar skuggi klettanna karl eða kerlingu.
Neðan við þjóðveginn undir fjallinu og hitaveitustokkinn heitir Börð, og í þeim neðan þessa er klettahóll, sem sprengdur var burt og nefndur var Sauðhóll. Þar bjó huldufólk, og mýrin þar upp af, ofan við veginn, heitir Sauðhólsmýri. Efst í óræktaða landinu við afleggjarann heim að Blikastöðum stóð býli, sem hét Hamrahlíð. Þetta er utar og neðan við veginn. Þar nokkuð utar er svo beygja, sem nefnd var Alnbogi, og þar utar var önnur beygja á veginum, sem nefnd var Öxl.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Þar neðar tók svo við nokkuð samfelldur flói niður að Blikastaðaá, og heim undir tún í þessari mýri eru þrír klettar (?) hólar, sem heita aðeins Hólar.“

Í athugasemdum og viðbætum Jónu Þorbjarnardóttur og Jóns Guðnasonar við handrit Ara má lesa eftirfarandi:
„Stórihnúkur er hæsta hæðin á Úlfarsfelli. Forarmýri nær frá ánni (Úlfarsá) upp að vegi. Hún var blaut, en nú búið að ræsa hana eitthvað. Kálfakotsgil, venjulega nefnt Gilið, en jörðin hét Kálfakot fram til um 1927.
Lambhagamelar eru fyrir ofan túnið í Lambhaga.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Skyggnir heitir hraunhóll eða hólbarð ofan við melana. Austur af honum er Leirtjörn upp að fjalli, mikið leirflag á sumrum, en á vetrum tjörn.
Milli Grafarholts og Reynisvatns er Leirdalur.
Hamrahlíð heita hamrarnir norðan í Úlfarsfelli, rétt við veginn.“
Ekkert er minnst á kotbýlið í athugasemdunum.

Sagan af brauðinu dýra

Hamrahlíð

Guðrún Jónsdóttir.

Í Hamrahlíð bjó Friðrik nokkur sem sektaður var fyrir að stela kræklingabeitu og hýddur fyrir að stela dönskum spesíum. Þar bjó líka Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður. Í Hamrahlíð fæddist dóttir hans, Guðrún Jónsdóttir vinnukona. Halldór Laxness gerði henni ógleymanleg skil í Innansveitarkróniku sinni og hún varð aðalpersóna í stuttri sögu hans: Sagan af brauðinu dýra. Samkvæmt henni lenti Guðrún í margra daga villum á Mosfellsheiði þegar hún var að sækja brauð fyrir húsbændur sína. Þótt svöng væri snerti hún ekki á brauðinu. Um ástæðu þess svaraði hún ungum Halldóri Laxness:

„Því sem manni er trúað fyrir því er manni trúað fyrir, segir þá konan,“ las Halldór Laxness í Ríkisútvarpinu 1978.“

Uppgröftur fór fram á Hamrahlíð á árinu 2022 – sjá meðfylgjandi myndir sem og frásögn

Heimildir:
-Örnefnastofnun, Kjósarsýsla, Mosfellshreppur; Blikastaðir – Ari Gíslason skráði.
-Örnefnastofnun, Kjósarsýsla, Úlfarsá, aths. og viðb. 1 – Mosfellshreppur; Samlesið G.Þ.G.
-https://www.ruv.is/frett/2022/10/26/kotbyli-grafid-upp-ny-byggd-vid-vesturlandsveg?term=fornleifa&rtype=news&slot=1

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Friðþór Eydal

Kristján Már Unnarsson skrifaði um Rauðhóla 15. nóvember 2022 þar sem Friðþór Eydal fjallar um falda leynilega stjórnstöð Bandaríkjahers í gígum hólanna:

Rauðhólar

Friðþór Eydal bendir á grunn ratsjármiðstöðvar Bandaríkjahers í Rauðhólum.

„Ein mikilvægasta herstöðin á Íslandi á árum síðari heimsstyrjaldar var starfrækt í Rauðhólum. Stöðin var vel falin ofan í gervigígum og þaðan var loftvörnum Íslands stjórnað. Nánast ekkert hefur verið ritað um þessa starfsemi opinberlega.

Við höfum áður fjallað um malarnámið úr Rauðhólum. En það er önnur saga tengd hólunum sem er minna þekkt. Þar var nefnilega eitt leynilegasta og mikilvægasta hernaðarmannvirki stríðsáranna, falið ofan í gervigígum.

Rauðhólar

Ratsjármiðstöðin var í gígnum vinstra megin, fjarskiptamiðstöðin í gígnum hægra megin.

„Þessi staðsetning hérna var náttúrlega klárlega til þess að verja eða fela staðsetninguna fyrir loftárásum,“ segir Friðþór Eydal, höfundur bóka um umsvif hersins á stríðsárunum.

Þar má enn sjá grunna fjarskipta- og ratsjármiðstöðvar, sem Bandaríkjaher hóf að reisa árið 1942 og tók til starfa árið 1943, en miðstöðin var tengd ratsjárstöðvum hersins víða um land.

Rauðhólar

Ljósmynd bandaríska hersins úr stjórnstöðinni í Rauðhólum. Þar var tekið við öllum upplýsingum um ferðir þýskra flugvéla og fyrirskipanir sendar út til að mæta þeim.

„Það var þannig að Bandaríkjaher reisti ratsjárstöðvar víða um land og þær sendu tilkynningar til þessarar miðstöðvar hér í Rauðhólunum. Þaðan voru síðan send fyrirmæli til loftvarnastöðva í Reykjavík og á Reykjavíkurflugvelli þar sem loftvarnabyssunum var stjórnað og orustuflugsveitinni sem var á Reykjavíkurflugvelli. Þannig að hér var miðstöðin fyrir þetta kerfi,“ segir Friðþór.

Til er gömul ljósmynd úr Rauðhólastöðinni sem sýnir herforingja yfir landakorti, rétt eins og menn þekkja úr bíómyndum um stríðið.

-Þetta hefur verið bara nokkuð mikilvæg stöð og kannski ein sú þýðingarmesta á stríðsárunum?

Rauðavatn

-Mikil braggabyggð við Rauðhóla hýsti hermennina en þegar leið á stríðið árið 1944 var stöðin flutt til Keflavíkurflugvallar. Braggabyggðin við Rauðhóla hýsti hermenn stöðvarinnar. Hægra megin sjást Elliðavatn og Elliðavatnsbærinn.

„Þetta var náttúrlega miðstöð loftvarnanna. Það er enginn vafi á því,“ svarar Friðþór.

-Það er eins og fólk viti lítið af þessu. Það er ekkert sérstaklega merkt hér hversu merkileg stöð þetta var?

„Nei, það hefur raunar lítið verið fjallað um þetta. Ég hef reyndar sagt frá þessum loftvarnaviðbúnaði í mínum bókum. En aðrir hafa nú ekki fjallað mikið eða skoðað þessa sögu neitt frekar,“ segir Friðþór.“

Heimild:
-https://www.visir.is/g/20222339498d/bandarikjaher-faldi-leynilega-stjornstod-i-gigum-raudhola
-Friðþór Eydal, höfundur bóka um hernaðarumsvif á stríðsárunum á Íslandi.

Rauðhólar

Herbyggingarnar voru hafðar í gígbotnum í vesturhluta Rauðhóla. Norðlingaholtshverfi í baksýn.

Rauðhólar

Kristján Már Unnarsson fjallaði þann 14. nóvember 2022 um Rauðhóla ofan Reykjavíkur í þættinum „Um land allt„:

Rauðhólar

Loftmynd bandaríska hersins frá árinu 1946. Rauðhólar sjást neðarlega til vinstri, Rauðavatn efst í vinstra horninu. – U.S. AIR FORCE

„Friðþór Eydal er höfundur bóka um hernaðarumsvif á stríðsárunum á Íslandi segir ekki breska hernum um að kenna hvernig Rauðhólar fóru. Það var ekki breski herinn sem eyðilagði Rauðhólana við gerð Reykjavíkurflugvallar heldur borgarbúar sjálfir vegna gatnagerðar. Loftmynd sem tekin var skömmu eftir stríð virðist staðfesta þetta.

Rauðhólar

Reykjavíkurflugvöllur á árum síðari heimsstyrjaldar.

Örlög gervigíganna hafa löngum verið tekin sem dæmi um eitt fyrsta stóra umhverfisslysið á Íslandi. Það hefur verið viðtekin skoðun að breski herinn hafi eyðilagt Rauðhólana þegar hann fór að leggja Reykjavíkurflugvöll. Þessi saga er ekki allskostar rétt, miðað við athugun Friðþórs Eydals, sem ritað hefur bækur um umsvif hersins á stríðsárunum.

„Það var þegar hafin efnistaka hérna áður en herinn byrjaði á sínum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll,“ segir Friðþór. Borgin hafi áður verið byrjuð að nýta efni úr hólunum í gatnagerð.

Rauðhólar

Hermenn við malarnám í Rauðhólum. Herinn tók 95 þúsund rúmmetra úr hólunum.

„En efnið í Reykjavíkurflugvöll kom úr Öskjuhlíðinni, þar sem sprengt var út grjót, og úr sandgryfjunum í Fífuhvammi í Kópavogi. Og svo fylliefni héðan úr Rauðhólunum.“

Friðþór segir að herinn hafi skráð það sem kom úr Rauðhólum.
„Herinn tók 95 þúsund rúmmetra. Þeir skráðu það niður allt saman. Það er ekki meira en svo að ef við stöfluðum því upp í svona fimm metra hæð þá væri það ekki nema hundrað sinnum tvöhundruð metrar á kant.“

Rauðhólar
Þetta segir hann sjást vel á loftmynd sem bandaríski herinn tók skömmu eftir stríð, árið 1946.

„Þar sér eiginlega bara ekki högg á vatni.“

-Þannig að megnið af Rauðhólunum er tekið eftir stríð?

„Já.“

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

-Þannig að þetta er bara bæjarbúum sjálfum og borginni um að kenna hvernig Rauðhólarnir fóru?

„Já, já, væntanlega kannski að stærstum hluta. Því að hér var óheft efnistaka meira og minna fram á sjöunda áratug,“ segir Friðþór.“

Heimildir:
-https://www.visir.is/g/20222338971d
-Friðþór Eydal, höfundur bóka um hernaðarumsvif á stríðsárunum á Íslandi.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

 

 

 

Stóra-Knarrarnes
Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar„, úgt. 1961, er m.a. fjallað um leturstein hjá Stóra-Knarrarnesi á Vatnseysuströnd (bls. 216-229). Benjamín Halldórsson benti Árna Óla á steinninn í samtali, sem þeir áttu saman í herbergi 402 á Hrafnistu, dvalaraheimili aldraðra sjómanna, þ.e. „grágrýtisstein með áletrun“.

Knarrarnes

Árni Óla heimsótti síðan Ólaf Pétursson, bónda á Stóra-Knarrarnesi, sem vísaði á steininn við garðshliðið. Um var að ræða jarðfastan grágrýtisstein, um metri á lengd og toppmyndaður. Steinninn var allur þakinn skófum, sem voru samlitar honum. „Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: „17 HVNDRVD…“ og svo nafnið „HIARNE EIOLFSSON“ í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf“.
Í manntalinu 1703 er Bjarnir Eyjólfsson sagður búa að Stóra-Knarrarnesi, sem þá var einbýli.
Árni taldi sig loks hefa getað lesið eftirfarandi áletrun af steininum:

Knarrarnessteinninn17 HVNDRVD SEIAST
AR SEN ÞO FIOGUR RI
ETT I VON SO ÞA CIORDE
SEM HIER STAAR SA HIET
BIARNE EIOLFSSON.

Gísli Sigurðsson í Minni-Knarrarnesi hafði heyrt þetta vers í æsku sinni (f. 1850-60). Vísan hafi verið svona:

17 hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von,
svo þá gjörði sem hér stár
sá hét Bjarni Eyjólfsson.

Áletrun þessi mun því vera um 300 ára gömul. Árið 1707 bjó Bjarni þessi enn á Stóra-Knarrarnesi, skv. þinggjaldabók, og ekki er ólíklegt að hann hafi einnig búið þar árið sem ártalið var klappað í „brúarsteininn“ (1790) á gamla kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (sjá Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)).

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

 

Fuglavík

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags (1903), fyrir nálægt einni öld síðan, segir Brynjúlfur Jónsson m.a. frá letursteini í Fuglavík (bls. 38). Brynjúlfur frá Minna-Núpi ferðaðist um Reykjanesskagann fyrir og um aldamótin 1900 og skráði og skoðaði það sem teljast mátti til fornleifa. Þessi steinn var ein þeirra.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni.

Í 17. lið upptalningar hans segir m.a.: „Í Fuglavík er brunnur með fersku vatni, og er það fágætt á Suðurnesjum, að vatn hafi ekki sjókeim, eða smakki af seltu. Brunnurinn var áður á hlaðinu, en er nú innanbæjar, síðan timburhús var byggt og sett framar en bærinn var áður. Brunninum fylgir sú sögn, að útlendur maður, Pípin að nafni, hafi grafið hann, og höggvið ártalið á hellustein, sem hann setti hjá brunninum. Steinninn er nú í bæjarstéttinni, og sér enn gjörla á honum ártalið 1538.“
FERLIR hafði samband við Sigurður Eiríksson í Norðurkoti. Hann sagðist ekki hafa heyrt um stein þennan en myndi setja sig í samband við nágranna sinn og húsráðanda í Fuglavík, Jónínu Bergmann.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn.

Jónína hafði ekki heyrt um steininn, en var reiðubúin til að skyggnast eftir honum. Henni fannst þetta mjög áhugavert. Eftir þrjár vikur hafði Sigurður samband og kvað Jónínu hafa fundið steininn.
FERLIR fór umsvifalaust á staðinn. Jónína sagðist hafa leitað að steininum af og til. Hún hefði sópað stéttina norðvestan við húsið og jafnvel reynt að moka ofan af einhverjum steinanna. En þegar hún hafi komið út þennan morgun hafi hún rekið tá í ójöfnu í gömlu bæjarstéttinni. Reyndist þar undir vera steinn. Jónína sópaði af steininum og viti menn – í ljós kom áletrun; ártal. Við nánari skoðun sáust vel tölustafirnir 158, en aftasti tölustafurinn var óljós. Hann gæti þess vegna verið 1 eða 4 – og allt þar á milli. Þarna var þó að öllum líkindum kominn fyrrnefndur steinn, sem tekinn hafði verið úr brunninum og komið fyrir í stéttinni, með u.þ.b. 420 ára gamalli áletruninni. Hér er því um að ræða elsta einstaka ártalsletursteininn, sem enn er vitað um á Reykjanesskaganum. Til eru þó eldri áletranir á klöppum, s.s. við Básenda.
Letursteinninn var tekinn upp úr stéttinni, sem hefur reyndar undanfarin ár þjónað sem bílastæði við nýja húsið, og færður til hliðar við hana, örskammt þar frá, sem hann fannst. Þar er hann aðgengilegur og minnir á uppruna sinn.

Fuglavík

Fuglavíkurhverfi – örnefnakort Sigurðar Eiríkssonar.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík segir að “í bréfi sr Geirs Backmanns til biskups árið 1844 hafi hann notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. Vogamenn ásældust Selsvellina, en Grindavíkurprestur var einarður um að Vellirnir væru Grindavíkurbænda.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 naugripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þeta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestsetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi áfram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ennfremur segir og er þá vísað í skýrslu Guðrúnar Gísladóttur frá árinu 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel sjá þær enn. ..Þarna eru rústir í hraunjaðrinum, sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í sel á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnvel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprests”. – Árið 1703 höfðust útileguþjófað við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár [Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir].
Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli.
Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu.
Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Gengið um selsstíginn að Selsvöllum.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin.
Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Meðalfell

Ætlunin var að skoða land Hurðarbaks í Kjós í Laxárdal, norðan Meðalfells, og síðan hluta af landi Sands í Eyjakrókum. Gengið var um Hurðarbaksland með Jóhannesi Björnssyni, bónda í Flekkudal og að Hurðarbaki. Á svæðinu mátti eiga von á minjum selja og fleiri fornra mannvirkja. Í Jarðabókinni 1703 er þó ekki getið um selstöðu frá Hurðarbaki aðra en þá er nýtt var með Meðalfelli. Þá var og ætlunin að skoða undir hlíð Sanddalsfjalls, milli Eyjadals (Sands) og Flekkudals (Grjóteyrar), en þar eru sagnir um minjar, sem Jóhannes telur að gætu hafa verið selstaða.

Hurðin í Meðalfelli

Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls. Hins vegar ber þess að gæta, að Kjósarhreppur nær yfir mun stærra svæði, þ.e.a.s. Brynjudal og suðurhluta Botnsdals að norðanverðu en Eilífsdal og eystri hluta Miðdals að suðvestan. Í daglegu tali virðist orðið Kjós notað um Kjósarhrepp allan.
Meginhluti byggðarinnar er þó í hinum forna Kjósardal, eins og svæðið milli Esju og Reynivallaháls er stundum nefnt í fornum textum. Í honum miðjum gnæfir Meðalfell og ber því vissulega nafn sem því hæfir. Í daglegu tali eru nöfnin Laxárdalur og Eyjakrókur eða Krókur (eða Eyjahverfi) notuð um þá tvo hluta, sem Meðalfell skiptir Kjósardalnum í, en þau heiti eru ekki að finna í eldri textum en frá þessari öld. Nú var ætlunin að skoða Hurðarbak í sunnanverðum Laxárdal (norðan Meðalfells) og Sand í sunnanverðum Eyjakrók.
Garður við HurðarbakKjósardalurinn, sem Björn Bjarnarson nefnir svo í sýslulýsingu sinni 1937, er grösugur dalur og frjósamur, undirlendi er mikið, einkum í norðurhluta dalsins, Laxárdal. Hins vegar gerir sr. Sigurður Sigurðsson langa sögu stutta í sóknarlýsingu sinni 1840 er hann segir „landslagið er víða rakasamt” og á það við um landið norðan og sunnan Laxár að miklu leyti þótt bakkarnir og nesin við ána séu víðast hvar góð slægjulönd og hafi ævinlega þótt svo. Á tímum áveitnanna snemma á þessari öld voru miklar slægjur á undirlendi dalsins.
Landnámsmaðurinn á þessu svæði var Valþjófur Örlygsson hinn gamli á Esjubergi er nam Kjós alla, segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Þegar ekið er að Hurðarbaki frá Vesturlandsvegi blasir vestanvert Meðalfellið við, stakt fjall. Vestasti hluti þess heitir Harðhaus. Fjallið er flatt að ofan.
Að norðan við fellið rennur Laxá, ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Hún á upptök sín í Stíflisdalsvatni, en það blasir við til vinstri af Mosfellsheiðinni, þegar ekið er til Þingvalla frá Mosfellsdal. Venjulega er Laxá auðveld yfirferðar. Á henni eru góð vöð, svo oftast er hún lítill farartálmi. En í stórrigningum og leysingum getur komið í hana ofsavöxtur. Þá flæðir hún yfir bakka sína og eirir engu. Árið 1556 fórst Oddur Gottskálksson í henni. Oddur var sonur Gottskálks hins grimma Hólabiskups, sem var nafnkenndur á sinni tíð. En frægð Odds er þó einkum bundin við það að hann þýddi
Nýja testamentið á íslensku fyrstur manna. Í umrætt skipti var Oddur á leið til Alþingis. Sagan segir að hestur Odds hafi hnotið í ánni, og féll Oddur af baki. Hann komst lifandi upp á eyri í ánni, en þegar hann ætlaði að standa upp þvældist kápan fyrir fótum hans, svo hann datt aftur í strauminn og varð það hans bani.
Garður eða hluti áveitu við HurðarbakLandslagið varð til á jökultímanum. Þá gengu miklir skriðjöklar innan frá hálendi til sjávar. Þeir surfu og skófu bergið. Fátt stóðst fyrir þessum heljarkrafti. Þá skreið feiknamikill jökull fram þar sem nú er Hvalfjörður. Annar kom austan að og skildi eftir þann dal sem við höfum verið að skoða í þessari ferð. Meðalfellið veitti það mikla mótstöðu að hann vann ekki á því. Svo komu minni skriðjöklar að sunnan frá hábrún Esjunnar. Þeirra verk eru litlu dalirnir þrír, sem fyrr eru nefndir.
Efst, norðvestan í Meðalfelli, er hurðin mest áberandi, mikill klettastandur. Frá bæjarstæðinu að Hurðarbaki virðist hún hvað tilkomumest.
Jóhannes Björnsson á ættir að rekja til Hurðarbaks. Þegar amma hans keypti jörðina á sjöunda áratug 20. aldra á 3.5 milljónir króna héldu flestir að nú væri gamla konan orðin galin. Húsakostur var lélegur og tún lítil. Hins vegar var jörðin stór, um 230 hektarar, ágæt beit, slægjur góðar og tekjur af laxveiði í Laxá. Sagan segir að bóndinn, sem búið hafði að Hurðarbaki, hafi átt tvær tíkur. Nefndi hann aðra Pólitík og hina Rómantík. Þegar hann var spurður um hvora hann mæti meira kvaðst hann jafnan hafa þótt meira til Rómantíkunnar koma.
Á vefsíðu Örnefnastofnunar Íslands í apríl 2004 segir m.a. um hurðar-örnefni: „Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl.
Skurðgrafa frá fyrri tíð í KjósinniOrðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. „ætti afriett að hurdarbaki“(DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).
Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400-1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir ‘staður/bær í hvarfi’, þ.e. væntanlega frá alfaraleið.“
Tóft við HurðarbakÞegar land Hurðarbaks var skoðað með Jóhannesi var fyrst haldið að gamla bæjarstæðinu. Núverandi bæjarstæði er senni tíma íbúðarhús á suðaustanverðri jörðinni, en eldra bæjarstæðið var uppi í miðri hlíð Meðalfells um miðbik þess. Gamli þjóðvegurinn, sem nú er gróinn, sést enn vel í hlíðinni. Hann lá beint að bænum og síðan upp og niður fyrir íbúðarhúsið, áleiðis að Þorláksstöðum skammt austan við Ásinn, rana, sem kemur út úr Meðalfelli. Íbúðarhúsið var byggt úr steypu á fyrri hluta 20. aldar, en var rifið og jafnað við jörðu um 1990. Nú sjást fá ummerki eftir það og í rauninni erfitt að sjá að þar hafi verið bæjarstæði. Þó móta fyrir grónu ferköntuðu svæði upp á létthallandi stalli í hlíðinni. Skammt norvestan við það hafa verið útihús, einnig jarðjöfnuð. Neðar eru leifar af kartöflukofa úr torfi, en reft hefur verið yfir með bárujárni. Austan við bæinn er hlaðinn mikill steingarður upp fyrir miðja fjallshlíð. Á móts við bæinn hefur lækur grafið undan garðinum svo hann er kominn í hann að mestu að neðanverðu. Nokkru austar eru tóftir útihúss, lítið fjárhús, sennilega hrútakofi og gerði. Vestan undir Ásnum eru tóftir af stóru tvískiptu beitarhúsi með heytóft aftan við. Hlaðinn garður sést eftir miðjum húsunum. Sennilega eru þetta beitarhús frá Hurðarbaki frá því í byrjun 20. aldar.

Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli

Neðan þjóðvegarins eru merkilegar minjar; leifar af áveitu frekar en túngarði. Um er að ræða garð gerðan úr torfi, sem nær niður að Laxá. Á einum stað við garðinn eru leifar af hlaðinni brú yfir keldu. Austan við garðinn virðist vera gömul gata, með svo til beina stefnu að Reynivöllum, þeim gamla kirkjustað. Hurðarbaksfólkið sótti hins vegar kirkju að Meðalfelli og jafnvel Eyjum áður, en heimildir eru um að þar hafi fyrrum verið lítil kirkja. Þó er ekki útilokað að kirkja hafi einnig verið sótt að Reynivöllum í sömu sveit, einkum þegar um var að ræða skírnir, brúðkaup og jarðarfarir. Þarna gætu því verið leifar af gömlu kirkjugötunni frá Hurðarbaki. Jóhannes sagðist jafnan lítið þurfa að bera á slétturnar niður við ána því þær greru vel. Áður fyrr hleyptu bændur ánni yfir slétturnar að vetrarlagi, en af þeim á vorin. Þannig grænkuðu þær fyrr en önnur svæði og því nýtanlegri á undan þeim.
Skurðir, sem þarna voru grafnir um miðmið síðustu aldar, voru grafnir með þeirra tíma skurðgröfum. Leifar af einni þeirra má sjá í sveitinni.
Meðalfellskirkja stóð á Meðalfelli allt til aldamóta 18. og 19. aldar en þá var hún lögð niður og hefur kirkjugarðurinn á Meðalfelli tilheyrt Reynivallasókn síðan. Í garðinum eru nokkur leiði og var síðast jarðsett í honum á níunda áratug síðustu aldar.
Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli - uppdrátturGæludýragrafreitur er að Hurðarbaki. Hann var tekinn í notkun sumarið 2003. Þar gefst fólki kostur á að greftra hús- og gæludýr. Sífellt meiri eftirspurn hefur verið um þess háttar þjónustu á síðustu árum þar sem gæludýraeign hefur aukist til muna og ekki eiga allir garð. Að baki núverandi íbúðarhúsi að Hurðarbaki má sjá leifar af hlaðinni rétt.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hurðarbak: „Eigandinn er Meðalfells kirkja. Snjóflóð tók fjós og fénað 1699. Hús jarðarinnar að falli komin. Selstöðu í Meðalfellslandi þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt..“. Um selstöðuna frá Meðalfelli segir einungis: „Selstaða í heimalandi og er þar mótak til eldingar“. Auk þess: „Selvegur erfiður yfir torfæru keldur“. Ekki er minnst á selstöðu frá Sandi, en það var næsta viðfangsefni þessarar ferðar að grennslast fyrir um hana. FERLIR hafði áður farið um Eyjadal, land Sands (sjá meira undir Eyjadalur) og dalina beggja vegna, Flekkudal og Trönudal.
Ætlunin var að skoða svæðið undir hlíð Sandsfjalls milli Grjóteyrar (Flekkudals) og Sands, en ekki vannst tími til að skoða það svæði í fyrrnefndri ferð um Eyjadal. Jóhannes gaf góðfúslegt leyfi til ferðarinnar. Rakin var gömul gata út með hlíðinni. Hún lá að lítilli hlaðinni rétt með leiðigarði og tveimur litlum rýmum. Líklega hefur þarna verið rúningsrétt frá Sandi í skjóli undir gróinni brekku með útsýni heim að Eyjabæjunum og Meðalfelli. Að öllum líkindum hefur þarnaa verið „heimaselstaða“ um tíma, mögulega frá Eyjum. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Eyjum: „Selstöðu á jörðin í heimalandi“. Erfitt er þó að ímynda sér hvar slík selstaða gæti hafa verið annars staðar en þarna. Landamerkin hafa þá væntanlega verið önnur en nú eru, enda munar litlu. Sambærilegar „heimaselstöður“ má t.d. sjá að Mógilsá og Úlfarsá.
Loks benti Jóhannes á gömlu réttina norðan við Meðalfellsvatn. Enn sést móta fyrir henni inni á lóð austasta bústaðarins, sem þar er. Hann átti áður Jóhannes í Bónus.  Að göngu lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti að sveitasið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Í Kjósinni – Gunnar Kristjánsson.
-Jarðabókin 1703.
-Kjósarmenn – æviskrár ásamt sveitarlýsingu – Haraldur Pétursson, 1961.
-Örnefnalýsingar fyrir Hurðarbak og Sand.
-Jóhannes Björnsson.
-Mbl. 28. ágúst 1980
-Örnefnastofnun – vefsíða
www.ornefni.is – skoðað 17. nóv. 2007.

Hurðin í Meðalfelli efst til vinstri

Brundtorfur

 Brundtorfuskjól (Brunntorfu-/Brunatorfu-) í Brundtorfum (Brunn-/Bruna-) hefur verið vandfundið í senni tíð. Ástæðan er einkum skógur, sem vaxið hefur upp umhverfis skjólið sem og um allt hraunssvæðið. Skjólið er í Brundtorfuhæð (Brunntorfu-/Brunatorfu-). 

Brundtorfuskjól

Áður fyrr var greinileg hlaðin ílöng grjóthleðsla fyrir skjólinu, sem var skúti er slútti inn undir bergvegg austast í grónu jarðfalli. Nú hafa laufblöð og annar gróður fokið fram af bergbrúninni, sest á hleðsluna og þakið hana að mestu. Önnur sams konar hleðsla var vestan undir bergvegg skammt vestar, en miklu mun minni. Varða er ofan við hana, líkt og þá stærri.
FERLIR kíkti fyrst á minna skjólið. Varðan er beint fyrir ofan (austan) skólið. Þarna hefur að öllum líkindum verið lítið skjól eða aðhald, í skjóli fyrir austanáttinni. Örskammt frá er op niður í dýpri helli, en það er líkt og felldar hafi verið hellur við og yfir opið. Ekki var farið niður að þessu sinni.
Þá var haldið upp í stærra skjólið. Að öllum líkindum hefur hleðslan fyrrnefnda verið þar undir veggnum. Það var skoðað nánar. Gróið er yfir hleðslu, líkt og í minna skjólinu. Ekki er ósennilegt að, eftir að skógurinn kom, að laufblöð hafi fokið þarna niður og sest undir brúninni, ofan á hleðslunni og hún gróið upp. Ekki er hægt að sannreyna það nema rífa gróðurinn ofan af!! Litið var nánar á staðháttu. Þarna er gott skjól og auðvelt að reka fé að, algert skjól fyrir austanáttinni. Afar líklegt má telja að þarna hafi Brundtorfuskjólið verið – þangað til annað kemur í ljós.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Í Brundtorfum