Sauðabrekkuskjól

Ætlunin var að rekja þann kafla Hrauntungustígs er liggur frá Hrauntungum upp að Sauðabrekkugjá. Hlutarnir beggja vegna liggja nokkurn veginn ljósir fyrir, en á Í Sauðabrekkugígaskjóliþessum kafla ofanverðum koma a.m.k. þrjár götur til greina, einkum að austanvörðu. Í leiðinni var m.a. litið á Fjallsgrensvörðuna, Fjallsgrenin og Sauðabrekkugjárgígaskjólið.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Hrauntungustígurinn er ein af hinum gömlu þjóðleiðum millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Markmiðið var að eftir þessa ferð lægi ljóst fyrir hvar „meginleið“ Hrauntungustígsins hafi legið fyrrum.
Sem fyrr sagði var aðaltilgangur ferðarinnar að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur á milli Sauðabrekkugjár að Fjallgrensvörðunni á hæsta hluta Almennings. Þessi kafli virðist hafa reynst mörgum erfiður og fáum hefur tekist að rekja hann réttu leiðina. Líklega er torræðið ein af ástæðum þess að Hrauntungustígurinn hefur greinst í nokkrar leiðir ofan við Sauðabrekkugjár, flestar austar en sú sem hér var ætlunin að greina.
Í SauðabrekkugígaskjóliGengið var upp austanverðan Almenning. Mikið kjarr er nú aftur komið í Almenning, en hann var fyrr á öldum eitt helsta hrísforðabúr Hraunamanna og Álftnesinga og eitt besta beitarland, sem völ hefur verið á á Reykjanesskaganum. Stefnan var tekin upp fyrir Þrísteinsvörðu með beina stefnu á Fjallgrensvörðuna. Austan hennar var beygt til suðurs og miðið sett á Fjallsgreinin norðan Sauðabrekkugjárgígaraðarinnar ofan Sauðabrekkugjár.

Grenin eru a.m.k. tvö. Það austara er merkt með lítilli vörðu, en norðvestan við það vestara er hlaðið skjól fyrir refaskyttuna. Skammt vestar er hlaðið byrgi í lítilli klettasprungu. Frá því sést vel yfir neðri hluta hraunsléttunnar norðan grenjanna. Skolli hefur ekki getað komist þeim megin að grenjunum óséður.
Þá var haldið upp í Skjólið í Sauðabrekkugjárgígunum. Það er í einum gíganna. Gengið er inn um þröngt op, en þegar inn er komið er þar rúmgott skjól. Innsti hluti gólfsins hefur verið flóraður svo þar hefur verið hið besta bæli. Gluggi er á skjólinu, en hella fyrir. Op er fyrir stromp. Separ eru í loftum svo þarna inni er fagurt um að litast. Að öllum líkindum hefur þetta verið afdrep fyrir refaskytturnar í Fjallsgrenjunum – og jafnvel aðra er leið áttu um og þekktu vel til, því opið er ekki auðfundið.
Meginhluti Almennings er hraun úr Hrútargjárdyngju. Þó má sjá yngri hraun þar inni á milli, s.s. hraun úr gígum Sauðabrekkugjár. Hraunið hefur verið þunnfljótandi og líklega tekið fljótt af. Meginhluti hraunsins er, líkt og gígarnir, norðan gjárinnar, en hún er auk þess að vera sprunga er Sauðabrekkugjá misgengi. Það er mest áberandi efst í gjánum, upp undir austanverðum Sauðabrekkum. Lítill hrauntaumur hefur runnið til austurs, myndar þunnfljótandi tjörn og m.a. fyllt upp samhliða djúpa sprungu austan Sauðabrekkugjár. Einungis lítill hluti, sennilega sá dýpsti og breiðasti, hefur „lifað af“ fljóðið, en á veggjum hans má sjá hvernig þunnfljótandi hraunið hefur smurt veggina. Um merkilegt jarðfræðifyrirbæri er þar um að ræða.
Og þá var að hefjast handa við að greina Hrauntungustíginn frá þeim stað er hann kemur inn á gjána. Stígurinn sést mjög vel austan gjárinnar og er auðrakinn þaðan áleiðis að Hrútárgjárdyngu. Þá er hann mjög áberandi ofan við gjána þars em hann liggur um slétt helluhraun Sauðabrekkugjárgíganna. Hraunið er einungis þakið mosa, en að mestu ógróið að öðru leyti er segir nokkuð til um aldur þess.
Skammt norðvestan gíganna beygir gatan upp á hrauntjarnarbrún með stefnu til norðurs. Stígar þar geta auðveldlega afvegaleitt fólk, en ef mjög vel er að gáð má sjá stíginn liðast „mjúklega“ um hraunið. Þar er hann bæði breiður og augljós. Austan við stíginn er jarðfall og í því rúmgóður skúti (gott skjól – 6359316-02200230).
FjallgrensvarðaÞá heldur stígurinn áfram um annars nokkuð slétt hraunið. Þessi kafli hefur afvegaleitt marga, en að þessu sinni voru kjöraðstæður til rakningar. Stígurinn sást mjög vel í hrauninu. Þegar komið er út úr nýrra hrauninu taka við gróningar. Þar stefnir stígurinn til vinstri, áleiðis að Fjallsgrensvörðu, sem er áberandi á þessari leið.
Við vörðuna greinist Hrauntungustígur í tvennt, vinstri og hægri, en báðir angarnir koma saman á ný neðan við holt eitt (varða á því) suðvestan Hafurbjarnaholts. Þaðan liðast stígurinn um norðanverðan Almenning að Gjáseli og frá því áfram inn á Skógræktarsvæði ríkisins. Þar hefur trjám verið plantað í stíginn. Vörðurnar má sjá í skóginum, en nauðsynlegt er að saga niður þau tré, sem eru í stígsstæðinu, enda bæði ágætt og skemmtilegt að leyfa stígnum að halda sér um hraunið niður að Hrauntunguopinu. Stígurinn liggur inn í tungurnar og er augljós, framhjá hlöðnu Hrauntunguskjólinu og að brún þeirra að norðanverðu. Þar hefur hrauninu verið eytt sem og stígnum.
Ef haldið er áfram yfir hrauntungusvæðið og stefnt á vörðu þar að handan kemur stígurinn í ljós að nýju. Þar sést hann vel þar sem hann liðast niður að Krýsuvíkurvegi. Vestan vegarins er slétt hraunhella og færi vel á því að gera þar lítið bílastæði og láta stíginn enda við það. Óþarfi er að rembast við hann lengra, enda svæðið þar austan við nú óðum að byggjast óðslega upp til lengri framtíðar.
Um er að ræða fallega gamla þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Hér að framan er lýst þeirri leið stígsins, sem telja verður skemmstan þar á millum. byrgiGengið er um fallegt hraunlendi með miklu og stórbrotnu útsýni á allar hendur – alla leiðina.
Ástæða er til að viðhalda hinum mörgu gömlu þjóðleiðum á Reykjanesskaganum. Vaxandi áhugi er meðal fólks að fá tækifæri til að feta í fótspor forfeðra og – mæðra og njóta þess umhverfis og þeirrar náttúru er þau urðu aðnjótandi fyrrum.
Ef leiðin væri gengin enda á milli tæki það ca. 6 klst.
Frábærlega skemmtilegt slagveður er setti dulúðlegt yfirbragð á fjarrænt útsýnið. Vel mátti ímynda sér hvaða takmarkaða skjól fólk fyrr á öldum hafði af fatnaði sínum við þær „hefðbundu“ aðstæður er nú voru á svæðinu. Þátttakendur voru nú í þeim besta hlífðarfatnði, sem völ er á, en gegnblotnuðu samt. Á móti kom að tiltölulega hlýtt var í veðri svo gangan var fyrst og fremst ánægja yfir að uppgötva „týnda“ hlekkinn sem og kærkomið tækifæri til að grandskoða svæði, sem sjaldan er gengið – af fáum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Hvatshellir

Eins fram kemur varð nokkur þræta um Hvatshelli eftir að honum var lýst nýfundum í sept. 1906. Slíkar þrætur koma jafnan í kjölfar óvæntra uppgötvana. Þær eru þó ekki alltaf á rökum reistar. Hér er eitt ágætt dæmi um viðbrögð við fundi Hvatshellis er birtist í Þjóðólfi 28. sept. 1906 og bar yfirskriftina „Ketshellir“:
Hvatshellir„Hellir í Garðahrauni, er félagar úr göngumannafélaginu „Hvat“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli. Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eptir kunnugum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því, að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við, að hellir þessi hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða. Er til enn vitnisburður um landamerki frá 2. janúar 1625, útgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundarsyni. Segir Þorvaldur þar svo frá; „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hver eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk; úr miðjum Flóðum, upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeilding úr miðjum fyrsögðum hálsi og í hvíta steininn, sem stendur í Tjarnholtum og þaðan sjóndeilding í Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu. Úr Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður og allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi eg þar nokkra efan heyrt. Og var eg á fyrrsagðri jörðu í minni ómagavist hjá föður mínum í þau 15 ár hann þar bjó; en eg hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn, eptir hverjum eg má sverja með góðri samvizku“.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Af þessu mætti það verða augljóst, að þessu nýfundi „Hvatshellir“ hefur verið mönnum kunnur í mörg hundruð ár, og heitir nafni Ketshellir.
„Hvatsmenn“ eru í sjálfu sér ekki syndugri menn en aðrir í Galelía, þó að þá hafi hent þessi hellaglöp. En af þessari hendingu væri jafngott, að menn dragi sér þá kenning að vera ekki of veiðibráðir að nema lönd í heimahögum annara, þar sem þeir eru ókunnugir, en spyrja sig heldur fyrir hjá smalapiltinum, áður en þeir fara að skíra landnámin. Að hlaupa í það umsvifalaust að búa til örnefni, þótt menn af ókunnuguleika viti ekki að það væri til áður, getur orðið til mikils ills og komið til leiðar skæðasta glundroða, buldri og þrefi, þar sem svo stendur á eins og hér, að það hittir á æfagömul landamerki.“

Í Ketshelli

Svo mörg voru þau orð. En skoðum þetta svolítið  nánar. Séra Friðrik var ekki að lýsa Ketshelli. Hann var að lýsa innkomunni í Kershelli og síðan nýfundnum afhelli hans; Hvatshelli, sem er ekki á landamerkjum heldur skammt ofar (norðaustar) í Smyrlabúðahrauni. Ketshellir er hins vegar á landamerkjum, einnig nefndur Selhellir og Setbergsselshellir/Hamarskotsfjárhellir. Landamerkjavarða stendur ofan á hellisþakinu þar sem fyrirhleðsla er undir í hellinum. Þar voru mörk Garðalands (Setbergs) og Hamarskots. Syðri endi hellisins hýsti hluta selstöðu frá Hamarskoti. Í fyrrnefndri lýsingu frá 1625 er getið um að landamerkin liggi um Ketshelli, sem er rétt. Hann kemur bara Kershelli og Hvatshelli ekkert við svo framangreind viðbrögð voru því algerlega óþörf.

Setbergssel

Markavarðan í Setbergsseli.

Kershellir var einnig þekktur og töldu ýmsir er þekktu til að Hvatsmenn hafi verið að lýsa honum þegar þeir töldu sig hafa fundið nýjan óþekktan helli er þeir skírðu Hvatshelli. Það voru þeir hins vegar ekki að gera þó svo að Hvatshellir sé í raun hluti sömu rásar og Kershellir. Þeir voru því ekki að umbreyta örnefni heldur búa til nýtt á áður óþekktu. Sumir gagnrýnenda voru í raun að afhjúpa ókunnugleik sinn á þessum stað því ekki er að sjá að þeir hafi sjálfir farið á vettvang, borið saman heimildir og metið aðstæður.
Hafa ber í huga að fáir hraunhellar voru þekktir á þessum tíma hér á landi, enda erfitt að skoða þá með þeim búnaði er þá var til staðar.

Heimild:
-Jón Þorkelsson – Þjóðólfur 28. sept. 1906.

Ketshellir

Landamerkjavarða á Ketshelli.

Gvendarhellir

Lagt var stað frá Eldborgarréttinni. Þegar komið var að henni kom álft í lágflugi og settist hjá þátttakendum. Hún var svo gæf að hægt var að klappa henni á kollinn. Hún kvartaði sáran og var hin spakasta. Fjölfóður maður í hópnum skyldi strax að álftin var að kvarta yfir fyrirhuguðu vegastæði Suðurstrandarvegi. Það er því alveg ljóst að sá sem hefur álft, en ekki bara krummafót, sér til stuðnings í því máli getur ekki annað en verið ánægður.

Gvendarhellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

Gengið var niður um Litlahraun og skoðuð tóttin, sem þar er, hlaðinn nátthagi og fjárskjól utan í hraunhól. Þaðan var haldið niður að Bergsendum og þrædd gatan neðan við gamla bergið uns vent var á bakborða og strikið tekið á Krýsuvíkurhelli. Hann var skoðaður beggja vegna, en nú er ljóst að hægri hlutinn heldur áfram niður á við. í endanum er op, en gróft hraun allt í kring. Opið liggur þarna niður á við og eitthvert áfram. Ókannað. Í hægri hellinum eru separ í loftum og fallegur, grófur, brúnleitur hraunfoss. Svo virðist sem þar séu síðustu leifar hraunsstraumsins, sem rann um rásina.
Farið var í jarðfallið ofan við hellinn og opnað þar inn úr. Einn skreið inn fyrir og kíkti. Ákveðið var að segja ekkert meira um þennan hluta að svo komnu máli.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Þá var haldið upp um Klofninga og komið við í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og hann vandlega skoðaður. Ákveðið var að fara niður um efsta hluta Bálkahellis og síðan áfram niður í neðsta hlutann. Loks var haldið upp fjárskjólshraunið og komið að dysjum Herdísar og Krýsu áður en hringnum var lokað. Við skoðun á dysjunum kom í ljós að dys smalans, sem átti að vera horfin undir skriðu, er þarna skammt frá.
Frábært veður.

Litlahraun

Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.

Þorsteinshellir

Lýsing á Þorsteinshelli og Dimmu (Dimmi) var sú að hellarnir ættu að vera norðaustan við Hólmsborgina (Sauðaborgina) í Hrossabeinahæð sunnan Hólmshlíðar og austan Gráhryggjar. Þeir, sem einhvern tíma hafa komið á svæði, vita að þar er eitt hraunhaf svo langt sem augað eygir. Þrjár fyrri ferðir á svæðið hafa reynst árangurslausar. Því var ákveðið að nota að þessu sinni léttvopnaða og fótfráa sérsveit FERLIRs. Sveitin getur farið hratt yfir og ef eitthvað markvert er að finna þá finnur hún það, það er a.m.k. reynslan.

Dimmir

Við opið á Dimmi.

Þegar búið var að leita af sér allan grun á Hrossabeinshæðum, var haldið inn á Gráhrygg. Farið var hratt yfir, en þegar komið var í austanverðan hrygginn skammt norðvestan við Selfjall var ákveðið að umkringja líklegt svæði og grandskoða það. Eftir stutta leit fannst Þorsteinshellir og síðan Dimmir í kjölfarið. Við skoðunina fannst einnig annar hellir, sem bíður betri tíma.
Hlaðið er (sjá mynd) við op Þorsteinshellis. Þrep er niður og síðan tekur við heil hraunrás, u.þ.b. 8-10 metra löng. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem skjól fyrir þann eða þá, sem setið hafa yfir ánum. Krikinn, sem þótti svo líklegur, hefur þá að öllum líkindum verið notaður sem nátthagi. Sennilegt er að aðstaða þessi hafi m.a. verið notuð frá seljunum í Lækjarbotnum (Örfiriseyjaseli og Reykjavikurseli) og frá Hólmi.
Skammt norðan við Þorsteinshellir fannst opið á Dimmi (sjá mynd). Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur, heil hraunrás, en tiltölulega lág.
Frábært veður.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Njarðvíkurkirkja

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir hafa nú runnið saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Minnismerki um Thorcellius.

Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.
Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki greinanleg ókunnugum.
Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.
Njarðvíkin sjálf er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Sú kirkja, sem þar er nú, var reist 1884-86. Hún var vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni. Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.

Njarðvík

Minnismerki um Sveinbjörn.

Að baki kirkjunni er minnisvarði eftir Ríkharð Jónsson um Jón Þorkelsson Skálholtsrektor, öðru nafni Jón Thorkillius var afhjúpaður við Innri-Njarðvíkurkirkju síðasta laugardag í maí árið 1965. Jón Thorkellius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Jón var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði. Minnisvarðinn sýnir skólamanninn Jón sitjandi með tvö börn og er þetta eitt af stærstu verkum Ríkharðs Jónssonar.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Þarna er og minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor, en hann bjó í Innri-Njarðvík. Minnisvarðin var afhjúpaður 27. febrúar 1991. Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Þjóðhátíðarinnar 1974 var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.
Byggðasafn Njarðvíkur er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið stendur norðvestan við kirkjuna.

Njarðvík

Njarðvík – minjasafn.

Vestar eru tjarnir. Austan þeirra er brunnur. Suðvestan við brunninn eru tóftir grasbýla, sem jafnan tóku nafn af húsráðendum sínum hverju sinni. Eitt þeirra var Hólmfastskot.
Íslandssagan segir frá því að árið 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt.

Njarðvík

Hómfastskot.

Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp. Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
Garðbær er skammt suðvestar, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti. Bærinn hét áður Bræðraborg. Við hlið hans stendur nýrra íbúðarhús klætt bárujárni, sennilega frá byrjun 20. aldar. Við norðurenda þess er þurrkhjallur, sem algengir voru við hús hér fyrrum.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er í Innri Njarðvík. Það er endurgert tilgátuhús sem, reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur.
Fitjarnar voru ofan við Njarðvíkina. Þær þóttu farartálmi á ferðum fólks milli byggðalaganna, auk þess sem skrímslu gerðu sig þar stundum sýnileg ofan við kampinn, einkum að kvöldlagi. Við þjóðleiðina um Fitjar stóð eitt sinn grasbýli, sem bókstaflega var etið út á gaddinn.
Um árið 1890 varð uppi fótur og fit í Innri-Njarðvík út af dýri ókennilegu, sem þar hafði sézt nýlega á Kampinum heima við íveruhúsið.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Sjónarvottar lýstu því svo, að það hefði verið áþekkast tryppi, að því fráskildu, að það var með upphringaðan hala eins og hundur. Það var hvítt á lit. Vinnumenn og sjómenn í Innri-Njarðvík hlupu út til að skoða þessa skepnu nánar. En þá tók hún á rás fram til sjávar. Þeir eltu hana, þar til þeir sáu hana hverfa í sjóinn niðri í Kirkjuvík.
Heiman frá bænum í Innri-Njarðvík niður í Kirkjuvík mun hafa verið um 200 metra vegalengd. Eitt kvöld rétt fyrir miðjan nóvembermánuð árið 1912 fór bóndinn út í fjós, eins og venjulega, til að vatna kúnum. Það mun hafa verið um tíuleytið og orðið alrokkið. Fjósið og önnur útihús, sem hér koma við sögu, voru þann veg sett, að syðst var hesthús með dyrum á móti suðri. Norður af því var fjósið og gengið í það úr hesthúsinu. En nyrzt og áfast við fjósið var fjárhússkúr og dyr á honum í austur. Við vesturhlið hans var steyptur brunnur, sem safnað var í rigningarvatni af þökum gripahúsanna handa búpeningnum, en þess utan var yfir honum hlemmur. Örskammt frá suðvesturhorni hesthússins var vanhús, með dyrum til norðurs. Sást úr þeim meðfram vesturveggnum á hesthúsinu, fjósinu og fjárhússkúrnum og til brunnsins.

Njarðvík

Brunnur við Stekkjarkot.

Stúlka fór með föður sínum þetta kvöld og skrapp á vanhúsið, á meðan hann var að vatna kúnum. Hesthúsdyrnar voru opnar og lagði út um þær daufa glætu frá ljósi, sem faðirinn hafði hjá sér í fjósinu. Vanhúsdyrnar stóðu líka opnar, og sá hún ljósglætuna út um þær, dálítið skáhallt til hægri hliðar. Hafði stúlkan ekki lengi setið á vanhúsinu, þegar henni verður litið um dyrnar norður með gripahúsunum. Þykist hún þá sjá skepnu, líkasta tryppi, standa á brunnhlemminum, um tíu metra frá henni. Hún þorði ekki að trúa sinni eigin sjón og kreisti aftur augun í þeirri von, að þetta yrði horfið, þegar hún opnaði þau á ný, sem hver önnur missýning. En það varð ekki. Þegar stúlkan opna augun, sér hún glöggt, hvar skepnan stendur á hlemminum, hvít á lit, eða annan lit gat eg ekki greint á henni. Hún sneri hliðinni að stúlkunni og sperrti eyrun eins og hestur, sem hlustar, og horfði í vesturátt til næsta bæjar, er hét Hákot. Stúlkan reyni að telja sér trú um, að þetta væri náttúrulegt tryppi. En þá tók hún eftir því, að það hefur upphringaðan hala eins og hundur. Þá gat hún ekki beðið boðanna lengur og kalla til föður síns. Hann kemur út í hendingskasti, hélt víst af kallinu, að eitthvað hefði orðið að dóttur sinni.
Hún segi við hann: „Sjáðu dýrið, sem stendur á brunnhlemminum!“
Faðirinn lítur þangað og segir: „Eg sé ekkert dýr.“

Njarðvík

Frá Njarðvík.

En við því var máski ekki að búast. Hann var nýkominn út í myrkrið úr ljósbirtunni og mun hafa verið dimmt fyrir augum. Í sömu svifum sér stúlkan dýrið snarsnúa sér við og skjótast austur fyrir fjárhúshornið, eins og í átt til kirkjunnar. Nú var henni runninn móður í brjóst og segir við föður sinn: „Við skulum hlaupa austur fyrir húsin og vita, hvort við sjáum ekki til þess.“
Feðginin þutu þangað, en urðum einskis vör. Dýrið var horfið.
Fyrir nokkrum árum var í Njarðvíkum suður maður sem Bjarni hét Högnason. Hann sagði eitt sinni frá því að hann hefði orðið fyrir áleitni af sjóskrímsli þar í víkunum og komist nauðulega undan. Gat hann þess og til að það mundi sitja um sig. Svo leið og beið þangað til að hann átti ferð síðla dags á milli Njarðvíkna. En áður hafði hann orðið skrímslisins var á milli þeirra og Keflavíkur og uggði því síður að sér. Hann lenti í myrkri og kom eigi sem menn væntu um nóttina né morguninn. Var hans þá leitað og fannst hann þegar dauður með ærið miklum áverkum. Töldu menn það víst að skrímslið hefði hitt hann aftur og gert útaf við hann. Engin glögg sögn er til um útlit þessa skrímslis.Frá Fitjum í Njarðvík liggur forna þjóðleiðin Skipsstígur til Grindavíkur. Vörður hafa fallið á fyrrihluta leiðarinnar, en eru mjög greinilegar frá Stapafelli til Grindavíkur og Húsatófta (Árnastígur).  Áætlaður göngutími er u.þ.b. 5 klst.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Siggi-2Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
„Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég  var barn“, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, „geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar“.

Siggi-3

Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: „Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?“
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson með geirfuglana.

 

Náma

Nýlega kom í ljós op í námunni í Undirhlíðum (við Bláfjallaveginn) þegar unnið var við að færa til efni úr hlíðinni. Uppistaðan er bólstraberg eins og glögg má t.d. sjá í giljunum milli Sveifluhálsar og Kaldárhnúka. Við athugun kom í ljós u.þ.b. 30 metra langur hellir. Skömmu eftir að hellirinn uppgötvaðist var hann skoðaður og myndaður.

Náman

Hellirinn er norðanlega í námunni. Þótt hin stóra náma falli ekki beinlínis inn í landslagið, heldur þvert á móti, gefur þessi hellir til kynna spennandi myndun, jafnvel þótt hellirinn sjálfur sé svo sem ekkert mjög spennandi. Hann er þó, sem fyrr sagði, um 30 m langur. Þarna í bólstabergi og breksíu drasli er, öllum að óvörum, hraunhellir. Í honum eru m.a. hraunreipi og alles… og ekki er hvað síst spennandi að velta fyrir sér myndun hans, en svo virðist sem þarna hafi hraun runnið frá A til B í holrúmi á töluverðu dýpi.
Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar kvikan rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast kvikan því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að kvikan streymi úr einum bólstri í þann næsta.

Í hellinum

Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn.
Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi, Mosfelli í Mosfellsdal og Sigöldu sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn.
Í UndirhlíðahelliUndirhlíðarnar eru eldri en t.d. hraunin umhverfis. Líklegt má telja að þær hafi myndast er ystu nes og tangar, s.s. Kársnes, Digranes, Arnarnes, Stapinn og Rosmhvalanes voru í bernsku fyrir u.þ.b. 200.000 árum. Mörg hinna eldri fjalla Reykjanesskagans byggja á bólstrabergi og er Stapafellið skýrasta dæmið um það, sem fyrr sagði, enda nú búið að „skafa það inn að skinni“. Í Stapafelli má t.d. sjá einn stærsta „bólstra“ í heimi (sbr. Sig. Þórarinsson).
Hvað sem þessu öllu líður er hér um forvitnileg fyrirbæri að ræða, helli (rás) í bólstrabergi, sem reyndar verður að teljast nokkuð sjaldgæft, jafnvel hér í landi hraunhellafjölbreytileikans.
Utan í Undirhlíðum má sjá, auk þessa, gíga og hraun frá nútíma, s.s. hluta af Ögmundarhraunsgígaröðinni(Nýjahraun/Kapelluhraun til norðurs), Kerin og Gvendarselsgíga nyrst.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Björn Hróarsson.

Í Undirhlíðahelli

Í Undirhlíðahelli.

Krækiberjablóm

Þegar gengið er um móana má, ef vel er að gáð, sjá fyrir fótum nokkrar berjategundir, s.s. bláber, krækiber, hrútaber og skollaber.
Bláberjalyngið er sumargrænn smárunni. Blöðin eru breytileg að gerð og lögun. Blómin, sem nefnast sætukoppar, eru nokkur saman efst á árssprota fyrra árs. Fullþroska eru berin dökkblá að utan en grænleit að innan með litlausum en bragðgóðum safa. Bláberjalyng er að finna um allt land, einkum í votlendi og mólendi. Bláberjarunninn blómgast í maí – júní og er þá u.þ.b. 10 – 30 cm. á hæð. Það fer mikið eftir árferði hvenær berin verða nægjanlega þroskuð til tínslu en líkt og með önnur íslensk ber má ekki reikna með fullum þroska fyrr en eftir miðjan ágúst. Ber, blöð og rót voru talin kælandi og barkandi. Þau voru notuð gegn lífsíki, köldu og skyrbjúgi. Gott þótti að strá dufti af rótinni á holdfúa sár.
BlaberAðalbláber
eru dökkblá og í sumum tilfellum svört ber sem vaxa villt víða um landið. Að innan eru þau rauð og bragðið er súrsætt. Aðalbláber vaxa í skógum, lautum og mólendi og oft er mest um þau á snjóþungum stöðum.
Algengust eru þau á norðanverðu landinu en heldur sjaldgæfari á landinu sunnarverðu, en þó ekki óalgeng. Aðalbláberjalyngið er grænn smárunni. Blöðin eru smásagtennt, ljósgræn, þunn og egglaga. Þau eru græn báðum megin en roðna er líður að hausti. Aðalbláberjalyngið blómgast í júní og er þá 10-30 cm. á hæð. Berin eru þó sjaldnast fullþroska fyrr en eftir miðjan ágúst. Ber, blöð og rót voru talin kælandi og barkandi. Þau skyldu nota, líkt og hálfnefnur þeirra, við lífsýki, köldu og skyrbjúgi. Te má gera af blöðunum til daglegrar notkunar. Aðalbláber hafa verið notuð við ýmis konar kvillum tengdum sjóninni. Rannsóknir benda til þess að aðalbláber bæti nætursjón, a.m.k. tímabundið. Tvær rannsóknir hafa verið gerðar á aðalbláberjum sem sýna að jurtin bætir sjón í rökkri, styttir þann tíma sem það tekur að venjast myrkrinu o
g styttir þann tíma sem augun eru að ná sér eftir að hafa orðið fyrir skerandi birtu. FERLIR hefur nýtt sér áhrifin, einkum þegar gengið er í myrkri eða áður en farið er niður í myrkvaða hella. Önnur áhrif berjanna virðast vera stutt og koma strax fram, þannig að ráðlagt er að nota berin eða þykkni úr þeim, rétt áður en þörf er á betri nætursjón.
Í MBL þann 15. ágúst 2000 er í grein fjallað um upphaf berjatímans: „Krækiber, bláber og aðalbláber hafa verið tínd hér á landi allt frá landnámi. Berjatíminn er nú hafinn og víst að margir eiga eftir að leggja leið sína í berjamó enda eru berin talin holl og af mörgum hreinasta sælgæti. Margir berjatínslumenn eiga sitt uppáhalds berjasvæði þar sem þeir fylla ílát sín ár hvert um þetta leyti. Aðrir ferðast um landið þvert og endilangt til að leita uppi ný berjasvæði og kynnast um leið margs konar náttúru enda útiveran stór hluti berjatínslunnar.

Einiber

Einiber í Skógarnefi.

Ber hafa áreiðanlega alltaf verið höfð til matar á Íslandi. Í bók Hallgerðar Gísladóttur, Íslensk matarhefð, kemur fram að samkvæmt íslensku þjóðveldislögunum mátti tína ber upp í sig á eignarlandi annarra en það varðaði sektum að tína þau og flytja burtu. Þar kemur einnig fram að krækiberjavín var bruggað í Skálholti snemma á öldum, sennilega vegna skorts á innfluttu messuvíni.
Berjaskyr var algengur réttur síðsumars og á haustin áður fyrr. Berin voru gjarnan geymd í súru skyri fram eftir vetri eða í sýru og drukkin með henni til bragðbætis. Berin hafa áreiðanlega oft stuðlað að því að draga úr skorti á C-vítamíni, sem var mjög algengur hérlendis, einkum á vetrum. Krækiber eru óvíða borðuð annars staðar en á Íslandi þó þau vaxi í fleiri löndum eins og t.d. á Grænlandi, í Kanada og í Skandinavíu. Samar, Inúítar og norður-amerískir indíánar borða raunar mikið af þeim.
Bláber og aðalbláber eru náskyld en aðalbláberin þykja betri enda sætari og safaríkari. Bláber eru fremur smá hér á landi en þykja bragðgóð. Þau eru vinsælust fersk en einnig notuð í bökur, grauta og í skyr. Þau má frysta og þurrka og gera úr þeim saft, hlaup og sultur. Best er þó að borða berin fersk, næstbest er að frysta þau því þá varðveitist eitthvað af C-vítamíninu en versti kosturinn með tilliti til næringargildis er að gera sultu eða saft.“

Hrútaber

Hrútaber.

Hrútaberjalyng er algengt á láglendi um allt land. Það vex í frjósömum brekkum og bollum,einnig oft í skógarbotnum. Plantan er með löngum, skriðulum renglum, sem eru bæði blöðóttar og hærðar. Þessar renglur, sem stundum eru kallaðar skolla- eða tröllareipi, geta orðið allt að tveir metrar á lengd. Blómstönglarnir eru uppréttir og með þyrnum. Blóm eru fá saman og eru bikarblöðin niðurbeygð en krónublöðin upprétt. Hrútaberin þroskast fremur seint á sumrin, þau eru safamikil og örlítið súr á bragðið. Berin hafa töluvert verið nýtt til sultugerðar. Dropar af hrútaberjum þykja styrkjandi bæði fyrir maga og hjarta. Einnig er talið að þeir lækni skyrbjúg. Droparnir eru búnir til á eftirfarandi hátt: 100 gr. af steyttum berjum eru sett í 1/2 lítra af sterku brennivíni og geymt á flösku í heitum sandi í þrá daga. Hið þunna er síðan síað frá og geymt.
Hið síðastnefna hefur áreiðanlega vakið athygli einhvers.
Skollaber vaxa innan um lyng og kjarr. Berin vaxa ætíð í breiðum, en oftast á fremur litlum svæðum. Þau eru víða að finna á norðanverðu Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og við utanverðan Eyjafjörð. Skollaber eru einnig að finna nyrst á Austfjörðum. Ef vel er að gáð má einnig finna þau á Reykjanesskaganum. Hvítu blöðin fjögur eru ummynduð laufblöð sem lykja um blómsveipinn. Blómin sjálf eru nær svört eða rauðsvört á litinn. Skollaber þroskast ekki fyrr en seint á haustin, oft í september. Oftast þroskast ekki nem 2-3 ber í hverjum sveip.kraekiber

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“ Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.

Hausthellir

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: „Markaklettur [er] á innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.

Grænhólsskjól

Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.“
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: „Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.“ Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni.
 Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Sjónarhólshellir-2Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og angist. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
Hugsanleg skýring kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og „hvopsaði“ áður en hann hvarf inn. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið.
Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
SkotbyrgiÍ örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: „Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður.

Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Lonakot

Lónakot.

Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann „tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.“

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður „skilríkr maðr“, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: „Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: „Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.“
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. „Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.“ Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi „listamanns“ hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.is

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.