Braggi

Friðþór Eydal skrifaði um „Herbragga – minjar um merka húsagerð“ í Bændabæaðið árið 2013:
Braggi-21„Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu þjóðarinnar. Skyndileg opnun markaða í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir allar útflutningsafurðir þjóðarinnar á margföldu verði og atvinna sem skapaðist við það og fjölbreytt umsvif erlends herliðs í landinu hleypti af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin þóttu kærkominn eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur varð lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.
Fjölmennt herlið bandamanna flutti til landsins ógrynni tækja og búnaðar og skildi ýmislegt eftir að styrjöldinni lokinni sem landsmenn nýttu á margvíslegan hátt. Nýstárlegar bifreiðar og stórvirkar vinnuvélar ollu byltingu í samgöngum og framkvæmdatækni og stór hverfi tunnulaga bárujárnsskála báru vitni um hugvitsamlegar lausnir í gerð bráðabirgðahúsnæðis til íbúðar og atvinnustarfsemi. Þótt herbúðirnar hyrfu flestar fljótt af sjónarsviðinu gengu fjölmargir skálar sem landsmenn nefndu bragga í endurnýjun lífdaga. Er af því merk saga sem snertir ýmsa þætti atvinnu- og byggingarsögu landsins á árunum eftir stríð og allt fram á þennan dag.
Víða um land má enn sjá bragga sem nýttir hafa verið með fjölbreyttum hætti og af mikilli hugkvæmni sem atvinnuhúsnæði í bæjum og útihús til sveita. Í nokkrum héruðum má segja að vart sé það býli sem ekki státi af gömlum bragga sem enn er í fullri notkun. Þetta er einkum áberandi í Eyjafirði og víðar á Norðurlandi. Gamlir braggar eru þó ekki bara braggar heldur eru þeir af nokkrum mismunandi gerðum og stærðum frá mismunandi framleiðendum í Bretlandi og Bandaríkjunum sem áhugavert er að skilgreina. Sjálfberandi bogaform er einkar hagkvæmt byggingarform semfremstu arkitektar og hönnuðir hafa löngum hagnýtt til fjölbreyttra nota enda mjög sterkt miðað við efnismagn. Formið hentar vel af þessum sökum við gerð bráðabirgðahúsnæðis og skýla, enda ódýrt og auðvelt í flutningi og uppsetningu og er t.d. víða notað í uppblásnum neyðarspítölum.
braggi-22Breski Nissen-bragginn var hannaður í fyrri heimstyrjöldinni af norskættuðum Kanadamanni, Peter Norman Nissen, sem starfaði í verkfræðisveit breska hersins í Frakklandi. Hönnunin var einföld – bogin bárujárnsklæðning á stálbogum með langböndum úr tré. Gaflar voru úr timbri eða steinhleðslu með gluggum og dyr á öðrum endanum. Gólfið var gert úr tréflekum og innri klæðning úr bárujárni eða trétexi. Efniviðurinn var auðveldur í flutningi og uppsetning fljótleg með ófaglærðu vinnuafli. Nissen-braggar voru framleiddir í stórum stíl fyrir breska herinn í báðum heimsstyrjöldum. Algengustu íbúðarskálarnir voru 16 x 36 fet að grunnfleti og hýstu 14 hermenn. Stærri skálar, 24 og 30 fet á breidd voru notaðir sem spítalar, mötuneyti, samkomusalir og skemmur. Stærri braggaskemmur, 35×90 fet að grunnmáli, voru notaðar í margvíslegum tilgangi, t.d. sem vörugeymslur og verkstæði.
Bandaríkjamenn kynntust bröggum Nissens í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni og hófu eigin framleiðslu skömmu áður en Bandaríkin tóku að sér hervernd Íslands árið 1941. Bandaríkjaher tók við breskum herbúðum eftir því sem þær losnuðu og reisti fleiri skála úr bresku efni en þegar bandarískum hersveitum tók að fjölga árið 1942 tóku braggar af bandarískri gerð að berast til landsins. Bandaríkjamenn framleiddu fyrstu braggana nánast óbreytta og nefndu Quonset eftir flotabækistöðinni Quonset Point Naval Air Station í Rhode Island þar sem hönnun og framleiðsla fór fram í fyrstu á vegum Bandaríkjaflota.
Bráðlega braggar-23komu fram endurbættar gerðir sem voru 16, 20 og 24 fet á breidd. Breskir íbúðarbraggar og fyrstu bandarísku braggarnir þekkjast á tunnulagi, þ.e. innhvelfdum boga við jörðu, en endurbættir braggar af Quonsetgerð á lágum beinum veggjum. Aðrar gerðir hvelfast frá fótstykkinu.

Stórir skálar sem Bandaríkjaher reisti hér á landi sem vöruskemmur og verkstæðishús voru af tveimur gerðum, báðar 40×100 fet að grunnmáli. Slíkar skemmur þjónuðu einnig ýmsum öðrum tilgangi líkt og hjá Bretum, t.d. sem samkomuhús. Bandaríkjafloti reisti fyrst skemmur með háum beinum veggjum og lágu bogadregnu þaki sem líktust ráðhúsinu í Reykjavík í útliti. Þessi gerð var efnismikil og rúmfrek í flutningi og leysti jafnstór gerð Quonset-bragga, sem var helmingi efnis- og fyrirferðarminni í flutningi, hana fljótt af hólmi. Allmargar skemmur af báðum gerðum eru enn í notkun á nokkrum stöðum á landinu ásamt breskum bogaskemmum sem þó eru mun algengari.
Meginliðsafli bandaríkjahers hélt af landi brott árið 1943 og 1944. Liðsveitir sem eftir sátu til stríðsloka höfðu flestar braggi-24aðsetur á Keflavíkurflugvelli og Bretar á Reykjavíkurflugvelli. Breska og bandaríska herliðið reisti alls um 12.000 bragga af öllum stærðum og gerðum í landinu auk um 1.000 smærri bygginga úr timbri og steini sem einkum þjónuðu sem eldhús og böð. Bandaríkjaher tók við vörnum landsins af Bretum árið 1942 ásamt flestum mannvirkjum þeirra og bar ábyrgð á uppgjöri leigusamninga við landeigendur og að skila lóðum í upprunalegt horf.
Braggarnir leystu brýnan húsnæðisvanda að nokkru leyti Húsnæðisskortur var viðvarnandi í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri og lánaði bandaríkjaher bæjaryfirvöldum nokkur yfirgefin braggahverfi til þess að leysa úr brýnasta vandanum árið 1943. Bandamenn höfðu hvorki not fyrir mannvirkin annarsstaðar né mannafla til niðurrifs og sömdu stjórnvöld um að ríkisstjórnin keypti öll mannvirki Bandaríkjahers nema á Keflavíkurflugvelli og Miðsandi í Hvalfirði vægu verð gegn því að annast niðurrif og bæta landspjöll.
Voru samsvarandi samningar gerðir um eftirstöðvar breskra eigna braggi-26og Sölunefnd setuliðseigna falið að annaðist sölu eignanna og standa straum af kostnaði við landlögun og bótagreiðslur. Í erindisbréfi til nefndarmanna lagði Björn Ólafsson fjármálaráðherra áherslu á að vel væri gengið frá landinu og afmáð eftir því sem best væri unnt öll ummerki um herstöðvar og landinu komið í sómasamlegt horf.

Margir braggar standa enn Óhægt þótti fyrir Sölunefndina sjálfa að annast framkvæmdir og bæta skemmdir vítt og breitt um landið. Var samið við kaupendur á landsbyggðinni, sem aðallega voru sýslufélög og sveitarstjórnir, um að þær önnuðust landbætur og skuldbindingar vegna landeigna sem nefndinni báru. Innkaupsverð smærri Nissen-bragga var 100 krónur en margir voru í slæmu ástandi og ekki hæfir til endursölu. Útsöluverð samskonar bragga hjá Sölunefndinni var 1.000 krónur en vandaðri bandarískir braggar voru mun dýrari og vöruskemmur seldust fyrir 6.000 – 12.000 krónur.
braggi-28Braggarnir þóttu henta vel til íbúðar í skamman tíma en einkum fyrir atvinnustarfsemi og sem útihús til sveita þar sem fjölmargir þeirra gengu í endurnýjun lífdaga og standa margir enn nærri 70 árum síðar.

Ísland er ekki eina landið þar sem þessar stríðsminjar fengu nýtt hlutverk, en bragga er t.d. víða að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hérlendis fengu braggarnir þó fljótt á sig hálfgert óorð sökum allt of langrar notkunar gamalla bráðabirgðaherbúða sem íbúðarhúsnæðis efnaminna fólks í höfuðborginni. Hlutfallslegur fjöldi og fjölbreytt nýting braggaefnis til endurbóta og tengingar við önnur byggingarform hérlendis verður þó að teljast nokkuð sérstök ef ekki einstök í húsagerðarlist.
Erlendis eru dæmi um að braggar hafi verið varðveittir í tengslum við byggðasöfn, hernaðarsöfn eða söfn um sögu húsagerðarlistar en hérlendis hefur varðveislan einungis ráðist af notagildi. Með endurnýjun húsakosts líður senn að því að þessar lifandi stríðsminjar og merkileg dæmi um útsjónarsemi í húsagerð landsmanna hverfi af sjónarsviðinu.“

Heimild:
-Bændablaðið, 19. árg., 15. tbl. 2013, bls. 22 – Friðþór Eydal, höfundur bóka um hernámsárin og fyrrum upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Braggar

Braggar við Keflavíkurflugvöll.

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Vatnshólavarða
Um fiskimið við Grindavík
Síðan á landnámstíð hafa Íslendingar stundað veiðiskap, af miklum dugnaði og elju, bæði í vötnum og sjó. Svo er skráð um Hrafna-Flóka landnámsmann, að hann hafi misst fé sitt um veturinn, því hann gætti ekki þess að afla heyjanna um sumarið, vegna veiðanna, því Vatnsfjörður var fullur af fiski.

Keilir

Keilir.

Frumstæðasta hvöt alls, sem lifir, er að seðja hungur sitt. Þegar fiskur hefur fengið fylli sína og kannske etið yfir sig, svo maginn er við það að springa, tekur hann varla beitu en slær sér til rólegheita eða leggst á meltuna, eins og það er orðið, í holum, pollum eða við hraunbrúnir og hverja aðra mishæð, sem afdrep er. Þetta er kallað að fiskurinn sé lagztur.Heyrt hef ég það haft eftir Bjarna Sæmundssyni, að stórþorskarnir gömlu mundu að mestu leyti liggja kyrrir í hraunholum á grunnsævi og bíða þar ellidauða, sem karl og kerling í koti sínu, en lifðu aðeins af smáverum þeim, sem syntu eða bærust að munni þeirra. Ef til vill berst þeim svo einhvern tíma að munni góður biti og glæsilegur, en öngull er í því, maður matinn sendi eins og Jakob Thor. orðar það í kvæðinu ‘Tófan svanga’.Fyrr á tímum, allt fram yfir síðustu aldamót, var mest fiskað á handfæri og þá oftast legið við fast, á hnitmiðuðu fiskimiði, og vandað til beitu, svo sem bezt voru föng á. Menn höfðu fundið, að ekki var alls staðar jafn fiskisælt. Bezt aflaðist við hraunbrúnir eða í hraunholum og smápollum, þar sem sandur var í botni, en hraunhæðir í kring. Þessar fiskisælu matarholur voru miðaðar nákvæmlega á tvo vegu og gefin nöfn, sem oftast voru dregin af örnefnum þeim, sem miðað var við, eða hugkvæmni manna um nafnaval. Er mikill urmull slíkra fiskimiða frá eldri tímum með öllum Suðurnesjum og um allan Faxaflóa, fundin af glöggum formönnum áraskipanna.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Stundum tileinkuðu menn sér einstakar holur, sem þeir höfðu fundið eða lengi notað. Fannst þeir eiga þær og það væri orðin hefð. Þótti miður og varla rétt, ef annar var þar kominn á undan þeim. Þeir höfðu kannski dekrað við holu sína með niðurburði. En það var oft, ef beita var afgangs, svo sem ræksni (innyfli úr grásleppu), að því var kastað útbyrðis, ef straumlaust var, til þess að hæna fisk í holuna. Má nærri geta, að það var gjört fyrir sjálfan sig en ekki aðra.

Svo nákvæmt varð að liggja í nokkrum þessum holum, að legufærið var stundum dregið inn að nokkru eða gefið betur út, eftir því sem straumur jókst eða minnkaði. Stundum varð að taka stjórann og okra, eins og það var kallað, um örfáa faðma, til þess að sökkur og önglar kæmu niður á alveg sama punkti og áður með hinu fallinu. Þeir voru oft nákvæmir, gömlu formennirnir, og þetta voru nú þeirra vísindi. – Bergmál, Radar og fisksjá þeirra tíma.

Með þeim stórbreytingum, sem orðið hafa á skipastól og veiðafærum á liðnum aldarhelmingi, hefir áraskipum verið útrýmt með öllu. Togarar og sístækkandi vélbátar hafa sótt næstum eingöngu á djúpmið. Gömlu miðin áraskipanna hafa lítið eða ekkert verið notuð um áratugi og eru nú að gleymast. Grunnmiðin flest verða horfin úr minni manna með þeirri kynslóð, sem nú er á förum.

Þó mikið vanti á, að öll gömul fiskimið séu talin og mörgu sé illa lýst mætti þó þessi upptalning verða að nokkru liði fyrir þá ungu menn, sem nú eru að hefja lífsstarf á smáum trillubátum, auk þess að það eru þjóðleg fræði, sem skaði er að láta með öllu tínast.

Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

1. Lambrifshola. Keilir um Ósvöðu (á melnum austur af Skálareykjum. – Súlur um Þóroddstaði. Syðsti bær í Kirkjubólshverfi.
2. Sundpollur grynnri. Kolbeinsstaðavarða um skúr við sjóinn á túnmörkum Kirkjubóls og Vallarhúsa. – Súlur um Flankastaði.
3. Sundpollur dýpri. Kolbeinsstaðavarða um skúrinn áðurnefnda. – Súlur um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
4. Vatnshólshola grynnri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Fuglavík.
5. Vatnshólshola dýpri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Melaberg.
6. Einarshola grynnri. Digravarða um Tjarnarkot í Sandgerðishverfi. – Sandfell um Melaberg.
7. Einarshola dýpri. Digravaða um Tjarnarkot. Súlur um Melaberg.
8. Munkállinn Keilir um Endagerði. – Hvalneskirkja um Munkasetur á Bæjarskerseyri.
Miðin 1 –8 eru öll í þaranum og aðeins notuð á smábátum á sumartíma. Fyrir utan þaragarðinn eru ágæt veiðisvæði, sem heita:
9. Kirkjubóls-Labbar. Þar suður af eru:
10. Fitja-Labbar.
11. Bæjarklettur. Keilir um Flankastaðakot. – Digravarða um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
12. Sundpollur. Keilir um Digruvörðu – Hamarsund. – Bæjarsker um Búðina á Bæjarskerseyri.
13. Sandskarð. Keilir um Sjónarhól. Hann er landamerki milli Sandgerðis og Bæjarskerja. – Sýrfell um Hvalneskirkju.
14. Miðskarð I (öðru nafni Boðatorfa). Keilir um skarð milli vegamótahólanna á vegamótum Bæjarskers og Sandgerðis. (Gamli vegurinn) – Skálin um Stafnes.
15. Miðskarð II Keilir um skarð o.s.frv. – Skálin um Garðana, (sjávarhús Stafnesinga á Gelluklöppum).
16. Miðskarð III Keilir um skarð o.s.frv. – Sílfell um Stafnes.
17. Bæjarpollur. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Stafnes.
18. Bæjarlega. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Garðana.
19. Bæjarlega dýpri Keilir um Bæjarsker. – Sílfell um Stafnes.
20. Hleypisund I. Keilir um Hleypisundshól, (landamerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
21. Hleypisund II. Keilir um Hleypisundshól. – Skálin um Garðana.
22. Hleypisund III. Keilir um Hleypisundshól. – Sílfell um Stafnes.
23. Hólsund. Keilir um Eyktarhólma, (fjörumerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
24. Hólsund II. Keilir um Eyktarhólma. – Skálin um Garðana.
25. Hólsund III. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Stafnes.
26. Hólsund IV. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Garðana.
Miðin 13 –26 eru nefnd einu nafni „Skörðin“. Þar út af (dýpra) er hraunfláki, mjög fiskisæll, sem heitir:
27. Eldborgarhraun
28. Gunnvararpollur. Keilir norðan við Norðurkot. – Sílfell um Stafnes.
29. Snókur. Keilir um Vatnshólavörðu. – Hvalneskirkja í Súlutoppinn.
30. Tjarnarpollur. Keilir um varptjörnina, sunnan við Fuglavíkurtúnið. – Sandfell um Hvalneskirkju.
31. Melabergsmið. Keilir um Melaberg. – Vatnsfellið laust.
32. Állinn. Virkisvarða um Moshús (nú horfin) alla leið frá Másbúðarsundi að Bæjarskerseyri. Vor og sumar veiðisvæði, þarafiskur.
33. Nesjapollur. Keilir um Nesjar. – Móar á Vatnsfelli. (Sést aðeins ofan á Vatnsfell yfir Hafnabergstána).
34. Busthúsahola I. Keilir um Busthús til Nýlendu. – Eldborg dýpri langlaus.
35. Busthúsahola II. Keilir um Busthús. – Djúphallir-Hausar. Löngumið á agnar smáum blett, eins og hreiður.
36. Virkispollur. Keilir um Virkishól. – Vatnsfell laust.
Miðin 33 –36 eru nefnd einu nafni: Hvalnespollar.
37. Bakkholur. Keilir um bakkana frá Ærhólmum að Hólakotstúngarði. (Hólakot nú í eyði.) – Eldborg dýpri til skörðin. Fiskisælt svæði.
38. Stafnesállinn. Heiðarvarða og Urðarvarða saman frá Urðinni fram á Vatnsfell.
39. Álslegan er í Álnum þegar móar á Eldborg dýpri.
40. Stafsund. Heiðavarða um Skiphólma (uppsátur Stafnesinga). – Eldborg dýpri laus.
41. Glaumbæjarhola. Heiðarvarða um Glaumbæ (í eyði). Eldborg dýpri laus.
42. Rifshola. Heiðarvarða um Vallarhús. (Eyðirústir norðvestan við Stafnesbæinn.) – Vatnsfell laust.
43. Sandhúsahola. Keilir um Sandhús. (Eyðirústir sunnan við Stafnestúnið.) – Vatnsfell laust.
44. Stromphola. Keilir um strompinn á gamla bænum á Stafnesi. – Vatnsfell laust.
45. Djúpmið. Keilir um Gálga. – Vatnsfell laust. (Lúðumið og löngu).
46. Lega I. Keilir um Þórshöfn. – Vatnsfell laust.
47. Lega II. Keilir um Þórshöfn. – Skálahaus við Berg. (Lúðumið og skötu).
48. Þórshafnarhola. Keilir um Þórshöfn. – Eldborg grynnri.
49. Þórshafnarhraun. Nær frá Álnum og Keilir suður um brún.
50. Básendahola. Keilir um Svartaklett (hann er úti í sjó í Djúpuvík). – Karlinn laus.
Þá er ógetið merkasta fiskimiðs um aldir, en það er:
51. Stafnesdjúp. Það nær Keili suður um Brún (þar endar hraunið, en byrjar Hafnaleir, Hafnasjór) og Keilir norður um Ærhólma. (Þar fyrir norðan kölluðum við Norðurdjúp.) En á djúpmiðið: Rauðhól, Vörðufell, Stampar og Sílfell. Þetta var aðalveiðisvæði stórskipanna og annarra vertíðarskipa öldum saman. Milli Hvalnespolla og Stafnesdjúps eru miðin: Skálin, Reykirnir og Hraunþúfurnar. Þar þótti ekki fiskisælt og var minnst notað.
53. Súluállinn. Keilir um Útskála. – Þrjár botnsúlur farmundan Esju. (Lúðumið, löngu og skötu).

Kringum 1890 voru mönnuð út stórskip úr Flankastaðavör á vorin með einum eða tveimur mönnum frá hverjum bæ, í legu, er svo var kallað. Voru þeir útbúnir með kaffiáhöld og mat til tveggja eða þriggja daga. Var þá ætið farið í Súluál og legið við fast, svo lengi sem verðu leyfði eða matur entist, nema fyrr væri fullt skip. Var það gleðistund hjá ungum og gömlum er skipin komu úr þessum ferðum með ágætan feng, mest lúðu og skötu, en nokkuð af þorski og löngu.

Um leið og skráð eru gömul fiskimið á Miðnesi, er þörf nokkurra skýringa á örnefnum þeim, er notuð voru sem mið.

Keilir

Keilir.

Nær ávalt er Keilir miðaður við bæi, hóla, tjarnir, garða, vörður og sundmerki eftir endilöngu Miðnesi, þó ekki ætið á grynnstu miðum. Keilir er ofarlega í Vatnsleysustrandarheiði. Strýtumyndaður, líkur Baulu í Borgarfirði séður frá Reykjavík og Innnesjum. En séður úr Miðsjó, líkastur því að sjá í gaflhlað á torfkofa, skökkum og skældum, er hann ber yfir Miðnesheiðina, og þá auðvitað blár vegna fjarlægðar.

Flest fiskimiðin fyrir norðan Másbúðarsund eru fremur grunnt, og djúpmið þeirra eru einhver örnefni á Miðnesi eða í heiðinni og tvö hin fremstu af svo nefndum Grindavíkurfjöllum, Sandfell og Súlur. En alls staðar þar fyrir sunnan eru djúpmiðin örnefni á Reykjanesi, er þau koma fram fyrir Hafnabergstána. En þau eru:

1. Karlinn. Það yddir á Karlinum af Gelluklöppum hjá Stafnesi.
2. Kerlingin.
3. Eldborgin grynnri.
4. Valahnjúkur. Þar, sem gamli vitinn stóð, fyrst byggður 1878.
5. Eldborgin dýpri.
6. Vatnsfellið. Þar, sem vitinn stendur nú.
7. Hnausarnir. Þ.e. þegar Skálartoppinn ber í Bjarghólinn á Hafnabergi.
8. Skörðin. Þ.e. þegar Skálatoppinn ber í smáskörð milli Bjarghóls og Hafnabergstáar.
9. Skálin.
10. Reykirnir – Úr Gunnuhver.
11. Hraunþúfurnar.
12. Rauðhóllinn.
13. Vörðufellið.
14. Stamparnir.
15. Sílfellið.
16. Þrúðurnar. Dýpsta fiskimið opnu skipanna.

(Eftir Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Prentsmiðja Hafnarfjarðar hf. – 1960).

Karlinn

Karlinn.

Svartsengi

„Ungmennafélag Grindavíkur hélt sumarhátíð sína á hinum gamla samkomustað Grindvíkinga, Svartsengi, helgina 18. og 19. júlí. Umf. Grindavíkur hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á þessum sérstæða útisamkomustað og endurvakið hinar gamalkunnu Svartsengis-skemmtanir í nýju formi.
svartsengiDagskrá mótsins var fjölbreytt: íþróttir, tónlist, gamanþættir og fallhlífastökk, og tókst hún í alla staði mjög vel. Formaður UMFÍ, Hafsteinn Þorvaldsson, flutti ávarp á mótinu. Dansað var á palli bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Sólskin var báða dagana og veður hið ákjósanlegasta, enda komu margir með alla fjölskylduna og bjuggu í tjöldum á mótssvæðinu.
Var það mál mótsgesta, að sumarhátíð Umf. Grindavíkur hefi farið hið bezta fram, og skemmtu allir sér prýðilega. Svartsengishátíðin er einn liður í víðtækri starfsemi ungmennafélaganna í þá átt, að koma á í hverju héraði glæsilegri sumarhátíð fyrir fólk á öllum aldri, þar sem það getur komið saman og skemmt sér á heilbrigðan hátt úti í náttúrunni.“

Heimild:
-Skinfaxi, 61. árg. 1970, bls. 24.

Svartsengi

Svartsengi – hátíð.

Stafnes

Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir:

Stafnes

Á Stafnesi.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Stafnes

Stafnesviti – tóft.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman. Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Stafnes

Stafnesviti.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.

Heimild:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=172
-Rauðskinna I 57.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Stafnes

Gengið var upp í Stafnesheiðina með Jóni Ben Guðjónssyni frá Austur-Stafnesi. Hann þekkir svæðið líkt og lófann á sér.
JónVið fyrstu sýn virðist fátt áhugavert við ofanvert Stafneslandið, en þegar betur er að gáð er því öðruvísi farið. „Landið er skjóllaust yfir að líta og í rauninni hvergi hægt að skíta“, segir í einni hendingu ferðalangs er fór þar um fyrir skömmu. Öðrum finnst auðnin bæði dulúðleg og heillandi. A.m.k. er beitilyngi hvergi fallegra en þarna í miðri auðninni.
Skammt ofan við Stafnes, utan garða, er reisuleg innsiglingavarða fyrir hafnarlagið. Ofar í heiðinni blasir Pétursvarðan við. Að sögn Jóns var hún innsiglingarvarða inn á legurnar við Básenda, þá innri og ytri. Vörður voru á ströndinni fyrir hvora innsiglinguna, en þær báru báðar í Pétursvörðu. Hún mun hafa staðið þarna um langan tíma og ávallt haldist nánast óröskuð. Jón sagði að heiðin hefði mikið breyst frá því að hann var barn og unglingur. Þá hefði hún öll verið gróin, en nú væri heiðin norðanverð nánast örfoka.

Beitilyng

Margt fé gekk um svæðið fyrrum, stundum of margt. Þá hafi leið legið upp frá Básendum svo til beina yfir til Keflavíkur með stefnu á Pétursvörðu. Gengið var fram á vörðubrot við leiðina á holtstanga skammt suðvestan við Pétursvörðu. Frá henni sást í vörðubrot á holtsbrún neðar í heiðinni. Þarna virðist hafa verið greið leið þarna á millum því er komið var spölkorn ofar í heiðina lá landið svo til flatt fyrir fótum og enn vel gróið. Jón sagði að Háaleiti hefði verið nálægt þar sem nú er flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Leitið hefði verið um 50 m hátt og því vel greinilegt sem viðmið. Sjávargrandi hefði verið við Háaleiti er gaf til kynna að áður hafi landið verið mun lægra, en risið eftir að jökla leysti.

Varða

Leiðin hafi legið þar við, en nú sæist hvergi móta fyrir götunni, bæði vegna jarðvegs-eyðingarinnar að vestanverðu og flugbrauta-framkvæmdanna að austanverðu.
Þá var komið að Skjólgarði (eða Skjólgörðum eins og Jón nefndi hann). Um er að ræða bogadregna einfalda garðhleðslu, um 18 m. langa. Út frá henni til vesturs liggur um 7 m langur þverveggur. Hæst er hleðslan nú um 0.9 m. Jón sagði að garðurinn hafi verið um hærri þegar hann var strákur. Fyrir ofan garðinn er vel gróið sem fyrr sagði. Staðsetningin er ofan við brúnina áður en hallar niður að Básendum (Stafnesi).
Jón

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrrir Stafnes er m.a. getið um Skjólgarð og Pétursvörðu. „Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr.

Ummerki

Ekkert er vitað um tilefni örnefnisins Pétursvarða né fólk það, sem hún er kennd við.“
Í suðvestri blasti Mjóavarða við, austan við Gálga (Gálgakletta (sjá meira HÉR)). Hún var innsiglingarvarða fyrir Þórshöfn. Í útliti eru Pétursvarða og Mjóavarða nánast eins og tvíburar.
Svo virðist sem Skjólgarður hafi verið ígildi fjárborgar, líkt og Stóri-Skjólgarður ofan við Innri-Njarðvík og krossskjólgarðurinn við Borgarkot. Aukin heldur, vegna þess að hann hefur verið í alfaraleið millum kaupstaðarins á Básendum og Keflavíkurbæjarins fyrrum, hefur garðurinn verið kærkomið skjól fyrir fólk á þeirr leið því óvíða er berangurinn meiri og skjólleysið augljósara en einmitt þarna. Augljóst var af ummerkjum að dæma, að þarna hefðu og aðrir haft eitthvert skjól, þ.e. Verndararnir í Heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 40 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði.
-Jón Ben Guðjónsson, Austur-Stafnesi.

Skjólgarður

 

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að „Hallgrímshellunni“ með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Þorbjarnastaðir

Björn Möller í Hafnarfirði benti FERLIR á Minningu um forföður eiginkonu hans, Guðfríðar Guðmundsdóttur, Ólaf Jónsson, bónda á Geitabergi, Katanesi, er birtist í Íslendingaþáttum Tímans árið 1982. Ólafur var langafi Guðfríðar. Þar segir Valgarður I. Jónsson frá Eystra-Miðfelli frá Ólafi, en hann var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.

Thorbjarnarstadir-2

„Ólafur Jónsson fæddist 25. 12. 1838 að Lambhaga í Mosfellssveit, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Maríu Eyjólfsdóttur. Þetta fólk mun hafa átt ætt sína og uppruna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mosfellssveitinni og nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Laxnesi, í Stardal og í Breiðholti. Ólafur átti tvö bræður og eina systur.
Ungur stundaði Ólafur jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar býr hann í 12 ár sem leiguliði.

Thorbjarnarstadir-3

Satt best að segja átta ég mig ekki á hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunauðninni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyni mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.

Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstarndarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Ólafur handasalaði kaupin, en tók ekki strax við jörðinni því hann vildi borga jarðarverðið út í hönd þegar hann tæki við jörðinni, en hann vantaði lítillega og þurfti að afla þess. Þá stóðu munnleg loforð sem skrifaðir samningar og ekki var háttur manna að kaupa allt ís kuld, en fara að öllu með fyrirhyggju.
Ólafur flutti með allt sitt að Geitabergi á vordögum 1881. Þar bjó hann í 18 ár, en vorið 1899 skipti hann á jörðinni og Katanesi. hann lést þar 22. maí 1912.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – heimaréttin.

Það er á allra vitorði að sú kynslóð sem lifði samtíð Ólafs vann hörðum höndum að framgangi sinnar þjóðar til betra lífs. Af verkum þessa fólks uppskerum við enn í dag.
Ólafur var virtur af verkum sínum. Því til sönnunar má bend á að þrisvar sinnum voru honum veitt konungsverðlaun úr Ræktunarsjóði fyrir jarðabætur.“
Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi. Bærinn stóð við gömlu þjóðleiðina, Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja. Við bæinn eru enn allflestar þær minjar, sem gefa innsýn í búskaparhætti fyrri tíma.

Heimild:
-Íslendingaþættir Tímans – 30. júní 1882, 25. tbl. – Valgarður I. Jónsson.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta.

Hvaleyrarvatn

Í Gráskinnu hinni meiri er þjóðsaga frá Hvaleyrarvatni ofan Hafnarfjarðar:

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

„Sagt er, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftarnesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum. Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftarnesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng.
„Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóftir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum Skátalundi, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.“

Heimild:
-Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson, Gráskinna hin Meiri. (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1962), I, 258-259.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Fimmvörðuháls

Gengið var yfir Fimmvörðuháls frá Skógum að Básum í Þórsmörk. Tilgangur ferðarinnar var að skoða leiðina með hliðsjón af annarri væntanlegri í kjölfarið.

Fimmvörðuháls

Lagt af stað á Fimmvörðuháls.

Í bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Þórsmörk. Land og saga (Reykjavík 1996) er kafli um fjallferðir og smölun. Þar segir meðal annars um Fimmvörðuháls: „Allt frá miðöldum munu Austurfjallamenn hafa farið með fjárrekstra stystu leiðina milli Goðalands og heimabyggðar, um Hrútafellsheiði, Drangshlíðarheiði og slakkann milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Meginreksturinn að sumri með fráfærulömb og eitthvað af geldfé var oftast um 11. sumar-helgina, en þó réðst rekstrardagur jafnan af veðri. … Leiðin inn eftir hraununum – sem svo nefndust – var vörðuð, en illa var þó vörðum haldið við í seinni tíð. Numið var staðar til hvíldar á Fimmvörðuhálsi. Þar voru fimm vörður þétt saman til að átta sig á í dimmviðri. Þrjár vörður voru á Þrívörðuskeri sem stóð upp úr jökulhjarninu nokkru innar. Lægðin innan við Fimmvörðuháls var öll í jökli á þessum tíma, en fáein sker ráku kollinn upp úr honum norðaustur af hálsinum.“
Fimmvorduhals-3Í göngukorti  FÍ um Fimmvörðuháls segir m.a.: „Allt fram á þennan dag var Eyjafjallajökull hliðarjökull út frá Mýrdalsjökli. Þegar hlýnaði og jöklar tóku að hopa hvarf íshellan að mestu á milli þessara jökla. Eftir eru stórar fannir sem sjaldan leysir alveg sumarlangt. Þetta er Fimmvörðuháls. Nafnið kemur af því að norðan í Hornfellsnýpu í Skógarheiðinni er klapparsker með fimm vörðum sem kallað er Fimmvörðusker.
Oft var talið betra að taka hæðina frá Goðalandi í einum áfanga og ganga síðan undan fæti stærstan hluta leiðarinnar. Auk þess getur veður verið þannig að erfitt sé að finna leiðina niður af Hálsinum og inn á Morinsheiði. Sá, sem reynir að fara annars staðar niður en yfir Heljarkamb, segir ekki frá ferðum sínum.
Þar er hins vegar vinsælla að hefja gönguna frá Skógum og því verður sú leið valin hér. Um er að ræða eina vinsælustu gönguleið hér á landi. Hitt er líka jafn ljóst að hún er e.t.v. sú víðsjárverðasta sakir snöggra breytinga sem þar geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Því miður hafa orðið þar alvarleg slys sakir þess að menn hafa verið vanbúnir undir veðurbreytingar.
Um Skógarfoss er sú þjóðsaga að landnámsmaðurinn Þrasi hafi falið gullkistu sína í helli bak við fossinn.
Margir nafngreindir fossar eru í Skógaránni uns komið er að göngubrú rétt sunnan þar sem vegslóðinn liggur yfir hana. Fyrsti fossin nefnist Hestavaðsfoss. Neðan hans eru skógi vaxnir hólmar sem bærinn dregur nafns itt af. Munnmæli herma að ekki megi hrófla við gróðri þar, annars hljótist illt af. Næsti foss fyrir ofan er Fosstorfufoss og síðan Steinbogafoss. Þar er eini staðurinn sem hægt er (var) að ganga þurrum fótum yfir ána.
Þar lá fyrrum kirkjuvegur ábúenda á austurstu bæjum í Autsur-Eyjafjallahreppi Fimmvorduhals-7(Skarðshlíð og Drangshlíð), á þeim tíma er þeir áttu kirkjusókn í Skóga. Síðan tekur hver fossinn við af öðrum; Fremri- og Innri-Fellsfoss, Rollutorfufoss, Efri-Skálabrekkufoss, Kæfufoss og Gluggafoss (sem margir telja þann tilkomumesta í allri Skógaránni).
Þá beygir áin til norðausturs og þar er svonefndur Krókur með Króksfossi. Nokkir nafnlausir fossar eru þar fyrir ofan. Þarna fyrir ofan er öruggast að fylgja bílslóðanum upp að Baldvinsskála. Hann er nefndur eftir Baldvin Sigurðssyni frá Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum, kunnum fjalla- og göngugarpi. Annar skáli, ofar á Fimmvörðuhálsi, er í umsjá Útivistar.“
Gígarnir tveir sem mynduðust í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi hafa fengið nöfn sem sótt eru í Ásatrú.
Fimmvorduhals-4Stærri gígurinn fékk nafnið Magni en sá minni nafnið Móði og hraunið sem rann frá þeim heitir nú Goðahraun. Þetta var ákveðið í gær þegar menntamálaráherra féllst á tillögu starfshóps undir forystu örnefnanefndar.
Nöfnin vísa til Þórsmerkur og Goðalands, en Magni og Móði voru synir þrumuguðsins Þórs. Í greinargerð starfshópsins segir að löng hefð sé fyrir því að örnefni á þessu svæði vísi til norrænnar heiðni.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst að kvöldi tuttugasta mars og stóð í þrjár vikur.
Í ársskýrslu Landsbjargar 1970 má lesa eftirfarandi um mannsskaða á Hálsinum: „Það hörmulega slys varð aðfaranótt Hvítasunnudags 17. mái að tvær stúlkur og þrítugur maður urðu úti á Fimmvörðuhálsi er 11 manna hópur ætlaði að ganga frá Skógum yfir hálsinn og niður í Þórsmörk. Hópurinn lagði af stað í góðu og björtu veðri frá Skógum, en um síðan skall á stórhríð. Þá var fólkið skammt frá Heljarkambi…“.
Fimmvorduhals-6„Áður en komið niður á Heljarkamb þegar halla fer niður að Þórsmörk, er mest hætta á þoku og gæta þarf þess að villast ekki. Þessi kafli er vandrataðstur ef eitthvað er að veðri. Í björtu veðri er útsýni fagurt til norðurs yfir fjöllin í Goðalandi; Réttarfell, Útigönguhöfða og Morinsheiði.
Gengið er um Heljarkamb út á Morinsheiði. Nyrst á Morinsheiði heitir Heiðarhorn. Niður af heiðinni er gengið um skarð sem er lítið eitt sunnan við Heiðarhorn. Það er eini staðurinn þar sem niðurganga er möguleg. Gönguslóðinn liggur síðan niður svokallaðan Kattarhrygg með Strákagil á vinstri hönd og Útigönguhöfða sunnan þess. Þá er stutt eftir um einstigu í Bása.“
Fimmvorduhals-5Búið er að stika nýja leið frá göngubrúnni á slóðamörkum (vaðinu) upp að gígunum, en ástæða er til að forðast hana, en fylgja fremur slóðanum uns sést yfir að þeim. Þá er hægt að fylgja stikunum áleiðis niður að Morinsheiði. Fara þarf varlega þarna niður niður að Heljarkambi sökum malarleysinga á bröttu móberginu.
Talsverð lausleg aska úr Eyjafjallajökulsgosinu er í austanverðum hálsinum og skapar það nokkra erfiðleika í brekkum.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst. Hæðarmismunur var 1025 m frá Skógum, en um 800 m frá Þórsmörk. Leiðin yfir Hálsinn er einungis fyrir þjálfað göngufólk. Hún er 25 km löng. Áætlað má að hún taki að jafnaði 10-12 klst. Eins og fram kemur hér að framan er um fjárgötu að ræða og sést það vel á Þórsmerkurhlutanum þar sem hún liggur hátt í bröttum hlíðunum.

Heimildir m.a.:
-Þórður Tómarsson, Þórsmörk, land og saga – Eystri rekstrarleiðin, bls. 223-225.
-Gönguleiðarbæklingur FÍ með loftmynd og örnefnum. Hann er þó ónákvæmur ef tekið er mið af núverandi aðstæðum.

Fimmvörðuháls

Útsýni niður í Þórsmörk af Morinsheiði.