Stafnes

Gengið var upp í Stafnesheiðina með Jóni Ben Guðjónssyni frá Austur-Stafnesi. Hann þekkir svæðið líkt og lófann á sér.
JónVið fyrstu sýn virðist fátt áhugavert við ofanvert Stafneslandið, en þegar betur er að gáð er því öðruvísi farið. „Landið er skjóllaust yfir að líta og í rauninni hvergi hægt að skíta“, segir í einni hendingu ferðalangs er fór þar um fyrir skömmu. Öðrum finnst auðnin bæði dulúðleg og heillandi. A.m.k. er beitilyngi hvergi fallegra en þarna í miðri auðninni.
Skammt ofan við Stafnes, utan garða, er reisuleg innsiglingavarða fyrir hafnarlagið. Ofar í heiðinni blasir Pétursvarðan við. Að sögn Jóns var hún innsiglingarvarða inn á legurnar við Básenda, þá innri og ytri. Vörður voru á ströndinni fyrir hvora innsiglinguna, en þær báru báðar í Pétursvörðu. Hún mun hafa staðið þarna um langan tíma og ávallt haldist nánast óröskuð. Jón sagði að heiðin hefði mikið breyst frá því að hann var barn og unglingur. Þá hefði hún öll verið gróin, en nú væri heiðin norðanverð nánast örfoka.

Beitilyng

Margt fé gekk um svæðið fyrrum, stundum of margt. Þá hafi leið legið upp frá Básendum svo til beina yfir til Keflavíkur með stefnu á Pétursvörðu. Gengið var fram á vörðubrot við leiðina á holtstanga skammt suðvestan við Pétursvörðu. Frá henni sást í vörðubrot á holtsbrún neðar í heiðinni. Þarna virðist hafa verið greið leið þarna á millum því er komið var spölkorn ofar í heiðina lá landið svo til flatt fyrir fótum og enn vel gróið. Jón sagði að Háaleiti hefði verið nálægt þar sem nú er flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Leitið hefði verið um 50 m hátt og því vel greinilegt sem viðmið. Sjávargrandi hefði verið við Háaleiti er gaf til kynna að áður hafi landið verið mun lægra, en risið eftir að jökla leysti.

Varða

Leiðin hafi legið þar við, en nú sæist hvergi móta fyrir götunni, bæði vegna jarðvegs-eyðingarinnar að vestanverðu og flugbrauta-framkvæmdanna að austanverðu.
Þá var komið að Skjólgarði (eða Skjólgörðum eins og Jón nefndi hann). Um er að ræða bogadregna einfalda garðhleðslu, um 18 m. langa. Út frá henni til vesturs liggur um 7 m langur þverveggur. Hæst er hleðslan nú um 0.9 m. Jón sagði að garðurinn hafi verið um hærri þegar hann var strákur. Fyrir ofan garðinn er vel gróið sem fyrr sagði. Staðsetningin er ofan við brúnina áður en hallar niður að Básendum (Stafnesi).
Jón

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrrir Stafnes er m.a. getið um Skjólgarð og Pétursvörðu. „Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr.

Ummerki

Ekkert er vitað um tilefni örnefnisins Pétursvarða né fólk það, sem hún er kennd við.“
Í suðvestri blasti Mjóavarða við, austan við Gálga (Gálgakletta (sjá meira HÉR)). Hún var innsiglingarvarða fyrir Þórshöfn. Í útliti eru Pétursvarða og Mjóavarða nánast eins og tvíburar.
Svo virðist sem Skjólgarður hafi verið ígildi fjárborgar, líkt og Stóri-Skjólgarður ofan við Innri-Njarðvík og krossskjólgarðurinn við Borgarkot. Aukin heldur, vegna þess að hann hefur verið í alfaraleið millum kaupstaðarins á Básendum og Keflavíkurbæjarins fyrrum, hefur garðurinn verið kærkomið skjól fyrir fólk á þeirr leið því óvíða er berangurinn meiri og skjólleysið augljósara en einmitt þarna. Augljóst var af ummerkjum að dæma, að þarna hefðu og aðrir haft eitthvert skjól, þ.e. Verndararnir í Heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 40 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði.
-Jón Ben Guðjónsson, Austur-Stafnesi.

Skjólgarður

 

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að „Hallgrímshellunni“ með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Þorbjarnastaðir

Björn Möller í Hafnarfirði benti FERLIR á Minningu um forföður eiginkonu hans, Guðfríðar Guðmundsdóttur, Ólaf Jónsson, bónda á Geitabergi, Katanesi, er birtist í Íslendingaþáttum Tímans árið 1982. Ólafur var langafi Guðfríðar. Þar segir Valgarður I. Jónsson frá Eystra-Miðfelli frá Ólafi, en hann var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.

Thorbjarnarstadir-2

„Ólafur Jónsson fæddist 25. 12. 1838 að Lambhaga í Mosfellssveit, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Maríu Eyjólfsdóttur. Þetta fólk mun hafa átt ætt sína og uppruna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mosfellssveitinni og nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Laxnesi, í Stardal og í Breiðholti. Ólafur átti tvö bræður og eina systur.
Ungur stundaði Ólafur jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar býr hann í 12 ár sem leiguliði.

Thorbjarnarstadir-3

Satt best að segja átta ég mig ekki á hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunauðninni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyni mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.

Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstarndarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Ólafur handasalaði kaupin, en tók ekki strax við jörðinni því hann vildi borga jarðarverðið út í hönd þegar hann tæki við jörðinni, en hann vantaði lítillega og þurfti að afla þess. Þá stóðu munnleg loforð sem skrifaðir samningar og ekki var háttur manna að kaupa allt ís kuld, en fara að öllu með fyrirhyggju.
Ólafur flutti með allt sitt að Geitabergi á vordögum 1881. Þar bjó hann í 18 ár, en vorið 1899 skipti hann á jörðinni og Katanesi. hann lést þar 22. maí 1912.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – heimaréttin.

Það er á allra vitorði að sú kynslóð sem lifði samtíð Ólafs vann hörðum höndum að framgangi sinnar þjóðar til betra lífs. Af verkum þessa fólks uppskerum við enn í dag.
Ólafur var virtur af verkum sínum. Því til sönnunar má bend á að þrisvar sinnum voru honum veitt konungsverðlaun úr Ræktunarsjóði fyrir jarðabætur.“
Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi. Bærinn stóð við gömlu þjóðleiðina, Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja. Við bæinn eru enn allflestar þær minjar, sem gefa innsýn í búskaparhætti fyrri tíma.

Heimild:
-Íslendingaþættir Tímans – 30. júní 1882, 25. tbl. – Valgarður I. Jónsson.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta.

Hvaleyrarvatn

Í Gráskinnu hinni meiri er þjóðsaga frá Hvaleyrarvatni ofan Hafnarfjarðar:

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

„Sagt er, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftarnesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum. Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftarnesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng.
„Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóftir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum Skátalundi, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.“

Heimild:
-Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson, Gráskinna hin Meiri. (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1962), I, 258-259.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Fimmvörðuháls

Gengið var yfir Fimmvörðuháls frá Skógum að Básum í Þórsmörk. Tilgangur ferðarinnar var að skoða leiðina með hliðsjón af annarri væntanlegri í kjölfarið.

Fimmvörðuháls

Lagt af stað á Fimmvörðuháls.

Í bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Þórsmörk. Land og saga (Reykjavík 1996) er kafli um fjallferðir og smölun. Þar segir meðal annars um Fimmvörðuháls: „Allt frá miðöldum munu Austurfjallamenn hafa farið með fjárrekstra stystu leiðina milli Goðalands og heimabyggðar, um Hrútafellsheiði, Drangshlíðarheiði og slakkann milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Meginreksturinn að sumri með fráfærulömb og eitthvað af geldfé var oftast um 11. sumar-helgina, en þó réðst rekstrardagur jafnan af veðri. … Leiðin inn eftir hraununum – sem svo nefndust – var vörðuð, en illa var þó vörðum haldið við í seinni tíð. Numið var staðar til hvíldar á Fimmvörðuhálsi. Þar voru fimm vörður þétt saman til að átta sig á í dimmviðri. Þrjár vörður voru á Þrívörðuskeri sem stóð upp úr jökulhjarninu nokkru innar. Lægðin innan við Fimmvörðuháls var öll í jökli á þessum tíma, en fáein sker ráku kollinn upp úr honum norðaustur af hálsinum.“
Fimmvorduhals-3Í göngukorti  FÍ um Fimmvörðuháls segir m.a.: „Allt fram á þennan dag var Eyjafjallajökull hliðarjökull út frá Mýrdalsjökli. Þegar hlýnaði og jöklar tóku að hopa hvarf íshellan að mestu á milli þessara jökla. Eftir eru stórar fannir sem sjaldan leysir alveg sumarlangt. Þetta er Fimmvörðuháls. Nafnið kemur af því að norðan í Hornfellsnýpu í Skógarheiðinni er klapparsker með fimm vörðum sem kallað er Fimmvörðusker.
Oft var talið betra að taka hæðina frá Goðalandi í einum áfanga og ganga síðan undan fæti stærstan hluta leiðarinnar. Auk þess getur veður verið þannig að erfitt sé að finna leiðina niður af Hálsinum og inn á Morinsheiði. Sá, sem reynir að fara annars staðar niður en yfir Heljarkamb, segir ekki frá ferðum sínum.
Þar er hins vegar vinsælla að hefja gönguna frá Skógum og því verður sú leið valin hér. Um er að ræða eina vinsælustu gönguleið hér á landi. Hitt er líka jafn ljóst að hún er e.t.v. sú víðsjárverðasta sakir snöggra breytinga sem þar geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Því miður hafa orðið þar alvarleg slys sakir þess að menn hafa verið vanbúnir undir veðurbreytingar.
Um Skógarfoss er sú þjóðsaga að landnámsmaðurinn Þrasi hafi falið gullkistu sína í helli bak við fossinn.
Margir nafngreindir fossar eru í Skógaránni uns komið er að göngubrú rétt sunnan þar sem vegslóðinn liggur yfir hana. Fyrsti fossin nefnist Hestavaðsfoss. Neðan hans eru skógi vaxnir hólmar sem bærinn dregur nafns itt af. Munnmæli herma að ekki megi hrófla við gróðri þar, annars hljótist illt af. Næsti foss fyrir ofan er Fosstorfufoss og síðan Steinbogafoss. Þar er eini staðurinn sem hægt er (var) að ganga þurrum fótum yfir ána.
Þar lá fyrrum kirkjuvegur ábúenda á austurstu bæjum í Autsur-Eyjafjallahreppi Fimmvorduhals-7(Skarðshlíð og Drangshlíð), á þeim tíma er þeir áttu kirkjusókn í Skóga. Síðan tekur hver fossinn við af öðrum; Fremri- og Innri-Fellsfoss, Rollutorfufoss, Efri-Skálabrekkufoss, Kæfufoss og Gluggafoss (sem margir telja þann tilkomumesta í allri Skógaránni).
Þá beygir áin til norðausturs og þar er svonefndur Krókur með Króksfossi. Nokkir nafnlausir fossar eru þar fyrir ofan. Þarna fyrir ofan er öruggast að fylgja bílslóðanum upp að Baldvinsskála. Hann er nefndur eftir Baldvin Sigurðssyni frá Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum, kunnum fjalla- og göngugarpi. Annar skáli, ofar á Fimmvörðuhálsi, er í umsjá Útivistar.“
Gígarnir tveir sem mynduðust í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi hafa fengið nöfn sem sótt eru í Ásatrú.
Fimmvorduhals-4Stærri gígurinn fékk nafnið Magni en sá minni nafnið Móði og hraunið sem rann frá þeim heitir nú Goðahraun. Þetta var ákveðið í gær þegar menntamálaráherra féllst á tillögu starfshóps undir forystu örnefnanefndar.
Nöfnin vísa til Þórsmerkur og Goðalands, en Magni og Móði voru synir þrumuguðsins Þórs. Í greinargerð starfshópsins segir að löng hefð sé fyrir því að örnefni á þessu svæði vísi til norrænnar heiðni.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst að kvöldi tuttugasta mars og stóð í þrjár vikur.
Í ársskýrslu Landsbjargar 1970 má lesa eftirfarandi um mannsskaða á Hálsinum: „Það hörmulega slys varð aðfaranótt Hvítasunnudags 17. mái að tvær stúlkur og þrítugur maður urðu úti á Fimmvörðuhálsi er 11 manna hópur ætlaði að ganga frá Skógum yfir hálsinn og niður í Þórsmörk. Hópurinn lagði af stað í góðu og björtu veðri frá Skógum, en um síðan skall á stórhríð. Þá var fólkið skammt frá Heljarkambi…“.
Fimmvorduhals-6„Áður en komið niður á Heljarkamb þegar halla fer niður að Þórsmörk, er mest hætta á þoku og gæta þarf þess að villast ekki. Þessi kafli er vandrataðstur ef eitthvað er að veðri. Í björtu veðri er útsýni fagurt til norðurs yfir fjöllin í Goðalandi; Réttarfell, Útigönguhöfða og Morinsheiði.
Gengið er um Heljarkamb út á Morinsheiði. Nyrst á Morinsheiði heitir Heiðarhorn. Niður af heiðinni er gengið um skarð sem er lítið eitt sunnan við Heiðarhorn. Það er eini staðurinn þar sem niðurganga er möguleg. Gönguslóðinn liggur síðan niður svokallaðan Kattarhrygg með Strákagil á vinstri hönd og Útigönguhöfða sunnan þess. Þá er stutt eftir um einstigu í Bása.“
Fimmvorduhals-5Búið er að stika nýja leið frá göngubrúnni á slóðamörkum (vaðinu) upp að gígunum, en ástæða er til að forðast hana, en fylgja fremur slóðanum uns sést yfir að þeim. Þá er hægt að fylgja stikunum áleiðis niður að Morinsheiði. Fara þarf varlega þarna niður niður að Heljarkambi sökum malarleysinga á bröttu móberginu.
Talsverð lausleg aska úr Eyjafjallajökulsgosinu er í austanverðum hálsinum og skapar það nokkra erfiðleika í brekkum.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst. Hæðarmismunur var 1025 m frá Skógum, en um 800 m frá Þórsmörk. Leiðin yfir Hálsinn er einungis fyrir þjálfað göngufólk. Hún er 25 km löng. Áætlað má að hún taki að jafnaði 10-12 klst. Eins og fram kemur hér að framan er um fjárgötu að ræða og sést það vel á Þórsmerkurhlutanum þar sem hún liggur hátt í bröttum hlíðunum.

Heimildir m.a.:
-Þórður Tómarsson, Þórsmörk, land og saga – Eystri rekstrarleiðin, bls. 223-225.
-Gönguleiðarbæklingur FÍ með loftmynd og örnefnum. Hann er þó ónákvæmur ef tekið er mið af núverandi aðstæðum.

Fimmvörðuháls

Útsýni niður í Þórsmörk af Morinsheiði.

Brennisteinsfjöll

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi undir Grindarskörðum, upp Kerlingarskarð og inn með ofanverðum Draugahlíðum að brennisteinsnámusvæðinu suðaustan við Kistufell.
Efri drykkjarsteinninn í KerlingarskarðiÆtlunin var að gefa sér góðan tíma til að skoða tóftir námubúðanna í Námuhvammi sem og námurnar sjálfar, ofninn, götur, mannvirkjagerð o.fl. Til baka var ætlunin að fara um Kerlingarhnúka. Reyndar hafa hnúkarnir allir einnig verið nefndir Grindarskarðshnúkar, sem  ekki er réttnefni því þeir eru allir þrír vestan við Kerlingarskarð, en Grindarskarð er austan við Stórabolla. Þriðja skarðið er vestast; Þverskarð. Skörðin hafa stundum verið nefnd Bollaskörð. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnar. Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli (Tvíbollar) og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni hafa þeir allir  verið nefndir Grindarskarðshnúkar sem fyrr sagði. Hnúkarnir sjálfir eru miklu mun eldri en eldvörpin utan í þeim. Þeir eru móbergsmyndanir eftir gos á sprungurein undir jökli. Eldvörpin urðu einnig til á sprungureininni á mismunandi tímum. Yngsta hraunmyndunin þar (Tvíbollahraun) er líklega frá því um 950.
Þessi hluti „Selvogsgötunnar“ var í raun gata upp í Kerlingarskarð. Í skarðinu var birgðageymsla námumannanna, sem enn má sjá leifar af. Þar hefur verið timurhús og hlaðið undir veggi og upp með þeim. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en Vatnsstæði á leiðinni - Kistufell fjærhann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Síðar mun gatan hafa verið vörðuð og er nú ein helsta fótgangandagatan upp fyrir Bollana og inn á Hlíðarveg að Hlíðarskarði ofan við Hlíð í Selvogi. Selvogsgatan lá hins vegar um Grindarskörð og suður með Stórkonugjá, Litla-Kóngsfelli og um Hvalsskarð áleiðis að Selvogi. Hana má vel sjá enn þann dag í dag enda ein af helstu þjóðleiðum fyrri tíma. Þær fáu vörður, sem eru við hana, eru nú flestar fallnar.
Þegar komið var upp úr Kerlingarskarði eftir að hafa skoðað drykkjarsteinana neðan við brúnina, var götu fylgt áleiðis inn að námunum. Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Búðir námumannaBláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.
Gatan inn í námurnar liggur framhjá góðu og varanlegu vatnsbóli í lítilli gígskál utan í Hvirflisbrúnum.
Þegar komið var að námusvæðinu mátti fyrst sjá tóftir búðar námumanna í Námuhvammi. Efst í honum rennur lækur, sem námumenn hafa notið góðs af. Af ummerkjum að sjá er líklegt að þeir hafi veitt læknum inn á grónar flatir hvammsins, framhjá búðunum og þar áfram niður á námusvæðið. Farvegur lækjarins sérst þar enn í gróandanum.
Í námunum má enn sjá múrsteina úr ofninum, undir moldarleirbakka. Við hlið hans er hróf, sem hefur verið upphleðsla utan við lítið timburhús. Námusvæðið ber öll Á námusvæðinuummerki slíkra svæða; brennisteinskjarnar eltir niður í gegnum hraunið, götur og hraukar. Holur á svæðinu gefa til kynna hvar leitað var að brennisteinskjörnum. FERLIR hreinsaði ofan af ofninum fyrir fjórum árum eftir leiðsögn gamals manns, sem vel þekkti til. Moldarleirbakkinn hafði þakið hann að fullu. Nú var gengið frá eins og verið hafði, þ.e. ofnin sést ekki lengur. Ætlunin er hins vegar að fara þangað síðar og grafa ofninn út í heilu lagi – að tilskildum leyfum fengnum.
Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæðinu.
Englendingar hófu þarna brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálf er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var Hluti ofnsins á námusvæðinuað nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Enn má finna brennistein á námusvæðinuBrennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans Námugatan rakin til baka - Kistufell fjæraf þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”
Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að Kerlingarhnúkar að bakivarðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og „knýjandi“ orkuþörf, sem reyndar verður óþörf innan skammrar framtíðar. Nýtingartími slíkra svæða til raforkuvinnslu er að jafnaði um 60 ár. Nýtingartími þeirra til „ferðamannaframleiðslu“ er hins vegar til allrar framtíðar. Ef velja á um, í ljósi þessa, hvort halda eigi slíkum ósnertum ætti svarið í rauninni að vera ótrúlega auðvelt. (Sjá fleiri umfjallanir um Brennisteinsfjallasvæðið á vefsíðunni).
Þegar gengið var til baka var reynt að rekja námugötuna eins nákvæmlega og unnt var, en hafa ber í huga að bæði er um 125 ár síðan námuvinnslunni lauk í Brennisteinsfjöllum og auk þess hefur gróðurfar í fjöllunum breyst nokkuð á þeim tíma. Þó var hægt að fylgja götunni upp frá námubúðunum, með innanverði hlíð upp að fyrrnefndu vatnsbóli undir Hvirflisbrúnum og áfram með neðanverðum brúnunum áleiðis að Kerlingarskarði. Í þessari ferð var hins vegar gengið til baka um Þverskarð.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Gengnir voru 14,2 km.

Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

 

Keilir

Erlendur Magnússon, fyrrum bóndi Kálfatjörn, var fróður maður langt út fyrir sína sveit. Magnús Ágústsson frá Halakoti sagði Erlend hafa verið menntaðan mann þótt hann hafi ekki verið menntamaður.
Magnús Jónsson, fv. minjavörður í Hafnarfirði (frá Litlabæ), lýsti einhverju sinni næsta umhverfi Kálfatjarnar og þá Ólafur ErlendssonErlendi um leið: „Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“
Norðurkot Sigrún Jónsdóttir, leiðsögumaður og mikil áhugakona um svæðið, lýsti nærtækustu staðháttum að Kálfatjörn á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju árið 2006: „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881.
Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti 1998, sem fyrr sagði.“
Eftirfarandi skrif um Vatnsleysuströndina eru úr óbirtu handriti Erlendar Magnússonar. Þau lýsa vel áhuga hans og viðhorfi til Strandarinnar:
Kálfatjörn „Vatnsleysuströnd liggur frá Keilisnesi að innan og að Vogastapa að sunnan, en Vatnsleysustrandarhreppur nær frá Hvassahrauni og að Vogastapa og er 16 km langur. (Á) Vogavík er allgóð höfn. Ingólfur Arnarson landnámsmaður gaf Steinunni frænku sinni þetta land alt sem nú er Vatnsleysustrandarhreppur, en hún gaf honum fyrir heklu bláa og kvað kaup skildi heita og sagði að síður myndi rift verða. Hún bjó að Hvassahrauni. Á seinni hluta 19. aldar mun hreppurinn hafa verið fólksflestur eða um 700 manns. Var þá sjávarútvegur í blóma sem jafnan hefur verið aðalatvinnuvegur hreppsbúa og sóttu þangað menn til róðra úr nærliggjandi héruðum allt norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Nú eru rúm 310 manns í hreppnum og sjávarútvegur minni en landbúnaður meiri en var. Gengur nú bíll með mjólk til Reykjavíkur, einnig egg og jarðarávöxt. Alifuglarækt er töluverð og garðrækt mikil. Landið er erfitt til notkunar, utantúns skiftast á móar og grýtt moldarflög með berum klöppum á milli. Sauðfjárbeit er allgóð í heiðinni er nær til fjalls og kölluð er Strandarheiði. Er það gamalt hraun sem er gróið upp en víða blásið aftur. Hvergi er skógargróður nema lítið eitt í Vogaheiði sem liggur upp af Vogunum, en lynggróður og mosagróður er mikill. Gjár eru margar og slæmar (djúpar) í heiðinni og er hún því ill yfirferðar þeim sem ókunnugir eru. Helstu gjárnar eru Hrafnagjá, Klifgjá og Grindarvíkurgjá. Efst í landi Strandarinnar (Kálfatjarnarlandi) er Keilir – hann er leiðarvísir á miðum við sunnanverðan Faxaflóa. Útgerðin er mest á opnum vélbátum (trillum), einnig altaf eitthvað á mótorbátum. Úti fyrir landi eru víða mikil sker og lendingar slæmar.
BakkiByggðin er öll með sjónum og mest syðst. Skiftist hún í hverfi. Flest yngri húsin eru úr steinsteypu, en hin eldri úr timbri. Kálfatjarnarhúsið er elsta húsið – er það nú um 100 ára. Kirkjustaðurinn er á Kálfatjörn og var prestssetur til 1920 að það var lagt til Garða á Álftanesi. Síðasti prestur var séra Árni Þorsteinsson, klerkur góður. Næstur á undan honum var sálmaskáldið séra Stefán Thorarensen. Hann stofnaði barnaskóla á Ströndinni 1860 og var það með fyrstu barnaskólum á landinu. Margt góðra manna hefur verið á Ströndinni og margir nýtir menn komið þaðan, einkum sjómenn (og skipstjórar) eins og t.d. Einar Stefánsson, skipsstjóri á Dettifossi, og Jón Bjarnason, vélstjóri á Gullfoss, enda hafa Strandaringar verið orðlagðir sjómenn og fiskimenn. Í Reykjavík eru margir handiðnaðarmenn fæddir og uppaldir á Ströndinni. (2 eru nú við nám í Háskóla Íslands). Félagskapur er talsverður á Ströndinni. Þar eru meðal annars: Kristniboðsfélag kvenna, Kvennfélag, Barnastúka, Ungmennafélag, Góðtemplarastúka, lestrarfélag ágætt, Búnaðarfélag, Útgerðarfélag og fleiri.
Engar ár eða lækir eru á Ströndinni, en vatn er þar nóg núorðið, því djúpir brunnar hafa verið grafnir en áður verið vont með vatn sem nafn sveitarinnar bendir til. Útsýni af Ströndinni er fagurt og sjóndeildarhringurinn víður. Fjallgarðar Reykjaness og Snæfellsness blasa við bryddir geislaskrúði morgunsólarinnar og kvöldsólarinnar – og óvíða mun fegurra sólarlag en á ströndinni.“
Erlendur Magnússon lýsti í skrifum sínum bæði búskapar- og atvinnuháttum á Ströndinni, gömlum þjóðleiðum og öðru því sem þá hefur þótt nokkuð hversdagslegt, en verður nú að teljast stórmerkilegt.

Sólsetur

Sólsetur á Vatnsleysuströnd.

Skagagarður

Var genginn með Jóni Ólafssyni, fyrrverandi og margfróðum skólastjóra í Gerðaskóla í Garði. Fylgdi hann hópnum frá Kirkjubóli, um Garðskaga að Vatnagörðum. Lýsti hann staðháttum við Kirkjuból er Kristján skifari var brenndur þar inni 1551 eftir að áður hafði verið kveðið á um að “jörðin og öxin” geymdu best þá Jón Arason biskup og syni, Björn og Ara.
Dóttir Jóns fékk flokk manna tikirkjubol-21l að sækja að Kristjáni og mönnum hans eftir að fréttist af ferðum þeirra á Romshvalanesi. Höfðust þeir þá við að Kirkjubóli. Bónda var gefinn kostur á að ganga úr, sem og hann þáði, áður en eldur var borinn að bænum. Voru innimenn síðan handteknir er þeir reyndu útgöngu, hver á fætur öðrum. Þolinmæði aðsóknarmanna var lítil. Drápu þeir einhverja þar sem nú heitir Draughóll (á mörkum Garðs og Sandgerðis). Þar eru gamlar heimildir (Fornbréfasafnið) um leturstein því tengdu. FERLIR hefur leitað steinsins, en Draughól hefur verið raskað verulega frá því sem var. Varnarherinn hafðist þar að um á stríðsárunum hinum síðari og eru ummerki eftir hann á svæðinu. Við Draughól er letursteinn með áletrun, er gæti verið sá er nefndur var, en sá hefur sömu áletrun og Sveinbjörn Rafnsson lýsir þar árið 1817. Steinninn var myndaður, líkt og aðrar sýnilegar minjar á Reykjanesi.

Árnarétt

Árnarétt.

Gengið var um Hafurbjarnastaði, rættið ábúanda og litið á staðsetingu fornmannagrafreitsins, sem þar er. Í kumli þar fannst m.a. kona með keltneska skartgripi. Staðfestir það þá kenningu að sumar konur landnámsmanna hafa verið af keltneskum uppruna, en segir lítið um keltneskt landnám hér á landi (a.m.k. ekki enn sem komið er).
Jón lýsti m.a. Skagagarðinum mikla og tilgangi hans, einu elsta og mesta mannvirki hér á landi. Þegra komið var að Garðskaga opnaði Ásgeir Hjálmarsson á Garðskaga Byggðasafnið fyrir FERIRsfólkinu og gekk með því um safnið, sagði frá munum og mönnum og framtíðaráformum safnsins. Þá var komið við í enn einni fjárborginni á Reykjanesi, Útskálaborg, gengið um Helgustaði og yfir síkin að Vatnagörðum, sem er eina ófallna kotið frá tímum Milljónafélagsins.
Í bakaleiðinni var gengið yfir heiðina þar sem afvelta hrútur nauð góðs af ferðinni.
Veðrið var í einu orði sagt frábært. Gangan tók 3 klst og 11 mínútur.

Draughóll

Áletrun á steini við Draughól.

Tjarnarhnúkur

Gengið var á Ölkelduhálsi frá stað skammt austan við Kýrgil að miklum gjall- og klepragíg efst á Tjarnahnúk. Þaðan var haldið til norðausturs niður með Álftatjörn og Kattartjörnum að Súlufelli og síðan til vesturs um dalina inn að Ölfusvatnslaugum áður en gengið var til baka að upphafsstað.
Tjarnahnuksgigur-2ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr Jarfræðikort af Suðvestur-landi. Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er bent á 40 áhugaverða staði, m.a. þá sem nú var ætlunin að skoða.
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
FeldspatEftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt. Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. 

Sulufell

Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.“
Álftavatn er stórt vestan Kyllisfells. Kattartjarnarhrygg var fylgt áleiðis að Súlufelli austan Kattartjarna.
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan.
Olfusvatnslaugar-1Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum. Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum.

Olfusvatnslaugar-2

Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.“

Olfusvatnsa

Gengið var til vesturs ofan og framhjá Djáknapolli um neðsta hluta Tindagils, inn eftir Þverárdal og Ölfusvatnsá síðan fylgt upp að laugunum.
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.“
KyrgilKristján Sæmundsson, jarðfræðingur, segir að
Ölfusvatnslaugar heiti svo en ekki Hagavíkurlaugar sem stundum sést. Þegar Hagavík (jörðinni) var skipt úr Ölfusvatni (jörðinni) fékk Hagavík vesturhlutann með laugunum. Þá fór að sjást skrifað „Hagavíkurlaugar“. Ölfusvatnslaugar eru sérstakar fyrir hrúðrið, bungulaga með gosstrokk niður úr, gos þó löngu hætt.
Iillfært er upp úr Kýrgili nema fremst. Hár hnúkur fast sunnan við Kýrgil næst Hengli, en skarð á milli, heitir Kýrgilshnúkur. Hann er gamall gígur. Þar er grágrýtisflákinn (ísaldarhraun) upprunninn sem myndar Bitru og endar í Hamrinum ofan við Hveragerði.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir:
http://isor.is/ -Jarðfræðikort af Suðvesturlandi.
-Kristján Sæmundsson, 2010.

Ölfusvatnslaugar

Ölfusvatnslaugar.

Hafnarfjörður

Á skilti milli húsanna Hverfisgötu 43 og 45 í Hafnarfirði er upplýsingaskilti um „Vitann við Vitastíg„. Vitinn sést reyndar ekki frá skiltinu, en á því er eftirfarandi texti:

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að vestanverðu.

„Þrátt fyrir að Hafnarfjörður hafi verið ein helsta höfn landsins á Suður- og Vesturlandi í gegnum aldirnar var lengi vel ekku um nein öryggistæki að ræða þar utan þess að á helgaskeri úti fyrir höfninni voru varúðarmerki í einhverri mynd allt frá aldamótunum 1800. Árið 1900 brugðust stjórnvöd við þessu og létu reisa tvo vita í Hafnarfirði, annan niðri við höfnina en hinn hér efst uppi á háhrauninu ofan við bæinn. Árið 1910 sendi stjórnarráðið bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi og fór þess á leit að kaupstaðurinn tæki að sér resktur vitanna, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir. Varð það úr og frá ársbyrjun 1911 tók kaupstaðurinn við rekstri beggja vitanna. Hafnarfjarðarbær fékk vitana afhenta án endurgjalds gegn skilyrðum um viðhald og rekstur þeirra og að á þeim logaði ljós frá hálfri stundu fyrir sólarlag til hálfrar stundar eftir sólaruppkomu frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Tveimur árum síðar, árið 1913, var ákveðið að færa neðri vitann að Fiskakletti og etta sama ár var efri vitinn hækkaður allnokkuð þar sem hin nýreista Fríkirkja við Linnetsstíg skyggði á hann.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að austanverðu.

Olíugeymsla beggja vitanna var við Fiskaklettsvitann og þurfti að bera olíu þaðan, í brúsum, upp að efri vitanum á hverjum degi. Í vitunum voru olíulampar og á bak við logann var silfurhúðaður kúptur spegill sem kastaði ljósgeislunum frá sér en framan við lampann var dregin rauð rúða, því vitaljósin áttu að vera rauð. Þar sem ljósunum bar saman úr vitunum tveimur var innsiglingarleiðin inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Árið 1931 voru gerðar miklar breytingar á rekstri vitanna sem fólust meðal annars í því að neðri vitinn, sá sem staðið hafði við Fiskaklett, var rifinn og í efri vitann var settur svokallaður blossviti sem var gasljós með mislitum hornum. Þetta varð til þess að ekki var lengur þörf á daglegri umsjón með vitunum og var þá Gísla Jónssyni vitaverði sagt upp störfum en han hafði gegnt því starfi frá árinu 1900, í rúm 30 ár. Eftir það var það hlutverk hafnsögumanna að þjónusta vitann, allt til ársins 1979 þegar vitinn var lagður niður og leiðarmerki tekin í notkun í hans stað. Í dag er vitinn í eigu Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar og nýtur hann verndar samkvæmt lögum um menningarminjar.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús við Hverfisgötu og vitinn á háahrauninu ofar.