Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna. Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu. Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.
Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.
Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi. Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógræt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana. Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarða sinna. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli. Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.
Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Urriðakotshraun

Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni. Sumarið 1966 fékk Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg, eða Elliðavatnsveg eins og hann heitir réttu nafni. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð sem Bretar komu sér upp í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa á sínum tíma og ruddu í leiðinni herstöðva tóftunum í burtu.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárrétt – Kjarval.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag. Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni.

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla. Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin rétt sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa fjárrétt sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd hér að ofan. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega Fjárrétt.

Gísli Sigurðsson og Svanur Pálsson tóku saman örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er lýsing Svans dagsett 30. mars 1988. Móðir hans, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Guðmundur Jónsson, bónda í Urriðakoti, fæddist þar 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld. Hluti upplands Urriðakots er nú gjörbreyttur frá fyrri tíð.

Heimild m.a.:
-http://www.hraunavinir.net/fjarrett-kjarvals-i-svinahrauni/#more-1739

Urriðakotshraun

Fjárréttin í Urriðakotshrauni.

Eldvörp

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum.

Fiskgeymsluhús á Selatöngum

Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.
Á  þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.

Fiskgeymsluhús í Sundvörðuhrauni

Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. 

Fiskgeymslur í Sundvörðuhrauni - flugmynd

Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurkkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Fiskbyrgi við EldvörpOg þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum er verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær geymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta.

Skjól fiskivarða við Eldvörp

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar eru þau yngri og auk þess hafa þau gleymst eftir að notkun þeirra lauk um 1800 eða skömmu eftir Básendaflóðið mikla 1799. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til að sömu stærð, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um varningin, sléttar þunnr hellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast matvöruna í byrgjunum. Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.

Áhugi

Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Auðvitað er ávallt “leiðinlegt” að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan “Tyrkunum” í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Líklegast má þó telja, þrátt fyrir að hver hafi apað upp eftir öðrum hingað til, að umrædd byrgi hafi þjónað öðrum tilgangi en hingað til hefur þótt sagnakennt.
Sjá meira um byrgin HÉR og HÉR.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Keflavík

Eftirfarandi frásögn frú Mörtu Valgerðar Jónsdóttur um “fyrstu ár Keflavíkur” má lesa í Faxa 1947: “Blaðið hefur tryggt sér nokkrar greinar um ýmsan gamlan fróðleik af Suðurnesjum, og birtist fyrsta greinin í þessu blaði. Er það frú Marta V. Jónsdóttir sem þessar greinar ritar. —

Keflavik 1833 - 2

Frú Marta Valgerður Jónsdóttir er fædd 10. jan. 1889, að Landakoti á Vatnsleysuströnd. Voru foreldrar hennar Guðrún Hannesdóttir og Jón Jónsson, bæði Rangæingar að ætt, annáluð gáfu og merkishjón. Frú Marta fluttist til Keflavíkru árið 1898 og dvaldist hér með foreldrum sinum þar til hún giftist Birni Þorgrímssyni verzlunarmanni. Þau bjuggu í Keflavík til ársins 1920. — Frú Marta er af kunnugum talin fjölgáfuð kona, og vel menntuð. Hún á mikið og vandað bókasafn, og er víðlesin. Á seinni árum hefur hún lagt mikla stund á íslezkan fróðleik fornan, einkum ættfræði. — Þess má geta að frá Marta stofnaði hér fyrsta kirkjukórinn, og var organisti við kirkjuna frá því að kirkjan var byggð og þangað til skömmu áður en þau hjón fluttust til Reykjavíkur.
V. G.
Keflavik 1908-222Í æsku minni heyrði ég gamalt fólk, er alið hafði aldur sinn í Keflavík og mundi langt, rifja upp eitt og annað um hyggð og bæ, er það hafði numið í sinni æsku. Mér er einna minnisstæðast, er ég heyrði, að Keflavík hefði, endur fyrir löngu, verið einn einasti bóndabær og ekkert annað byggt ból alla leið inn í Ytri-Njarðvíkur. Þetta átti að hafa verið um það leyti, er Tyrkir rændu í Grindavík og í tíð séra Hallgríms skálds Péturssonar, en gamla fólkið gleymdi aldrei að minnast þess, að hann hafði eitt sinn dvalið á þessum slóðum. Bærinn Keflavík átti að hafa staðið sunnan á hrygg þeim eða höfða, er reis upp og suður af Grófinni, en næst var Berginu. Var höfðinn hæstur að austanverðu næst sjónum og snarbrattur upp frá sjó, en hallað svo niður aftur að sunnanverðu og myndaði þar aðra gróf. Þar var Keflavíkur vör, átti þar að hafa verið uppsátur frá ómunatíð. Sú vör er ennþá notuð. Þar fyrir sunnan og ofan tók við vítt og mikið land alla leið’ upp til heiða og suður að Nástrandargröf, sem svo var nefnd, er ég heyrði þessar sögur. En þar er nú Tjarnargata. Átti það land að hafa verið grasi vafið, en breyst smátt og smátt í uppblástursland. Um miðbik höfðans, sem fyrr er nefndur, var hóll. Þar sunnan undir hólnum átti bærinn að hafa staðið, en túninu hallaði til suðurs, vesturs og norðurs.

Keflavik 1908- 224

Þegar fyrsta íbúðarhúsið í Keflavík var byggt — Gamla Duushúsið, sem enn stendur —, var það reist nokkru neðar en bærinn, en við sama hólinn. Stóð þá bærinn ennþá og var notaður til íbúðar. Til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, var greint frá því, að þar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldra Duus.
Sögur voru einnig sagðar um landspjöll af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land allt og bakkarnir hrunið að framan smátt og smátt. Landið milli Ytri- og Innri-Njarðvikurjarða var nefnt Fitjar og heitir svo enn. Þaðan voru sögð hvað mest landspjöll af landsigi og sjávarágangi. Þar átti að hafa verið byggt ból endur fyrir löngu og landgæði nóg, en allt það land var talið liggja á sjávarbotni. Þannig sagðist gamla fólkinu frá.

Keflavik-batsbryggja-229

Skal nú vikið að gömlum heimildum um Keflavíkurjörð. Árið 1703, síðari hluta sumars, eftir alþing, ferðuðust þeir Árni Magnússon assessor og Páll Vídalín lögmaður um Suðurnes. Hafði konungur skipað þá árið 1702 til þess að virða upp allar jarðir landsins og lýsa högum bænda og búenda. Fóru þeir um landið árin 1702 til 1707 til þess að gera nýja jarðabók yfir allt landið „og athuga hver að væri meðöl til að afkoma þeim ýmsum ósiðum, er innsmognir væru” segir Páll Vídalín sjálfur í annál sínum. Erindi þeirra þetta síðsumar um Suðurnes var því að skrá jarðir þessara byggða og kynna sér hagi bænda. Riðu þeir um með fylgdarmönnum og skrifara og höfðu mikinn útbúnað, tjöld og hesta. Þeir lögðu upp frá Bessastöðum þann 12. ágúst, fóru um Hafnarfjörð og þaðan suður hið efra með fjalli til Grindavíkur. Þaðan fóru þeir niður í Hafnir, út á Hvalsnes, til Útskála og svo innúr um Njarðvíkur og Vatnsleysuströnd allt inn til Sunda. Auðséð er af annálum, er skráðir voru þessi ár, að ferðir þeirra um landið hafa vakið athygli og þótt mikill og mestur viðburður í lífi þjóðarinnar. 

Keflavik-1895-4

Þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín settust venjulega um kyrt á prestssetrunum, reistu þar tjöld sín og bjuggu um sig sem bezt. En bændum var gert að skyldu að koma til þeirra heim á prestssetrin. Keflavíkurbóndinn ,sem þá var, hefur því orðið að taka sér ferð á hendur, um miðjan september, út að Útskálum til þess að lýsa jörðinni og högum sínum. Keflavíkurjörð er þannig lýst: „Hér er fyrirsvar ekkert. Jarðardýrleiki óviss. Eigandinn Kongl. Majestat. Ábúandinn Halldór Magnússon. Landskuld XXV álnir betalast I vætt og II fjórðungum fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum. Við til húsabótar leggur ábúandinn. Kúgildi ekkert. Kvaðir eru mannslán, en fellur niður Keflavík 1908. Gömlu Duushúsin sjást fremst á myndinni. fyrir bón kaupmannsins í Keflavík fyrir vöktun búðanna. Kvikfénaður I kýr, I hross, I foli þrevetur. Fóðrast kann I kýr naumlega. Heimilismenn VI. Skóg til kolagerðar hefur jörðin í almenningum. Torfrista og stunga víðsæmandi. Lyngrif í heiðinni nokkuð. Fjörugrastekja nægileg. Eldiviðartak af fjöruþangi hjálplegt. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara varla reiknandi. Skelfiskfjara nokkur. Heimræði er hér árið um kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hér engin. Lending slæm. Engjar öngvar. Utihagar í betra lagi. Vatnsból í allra lakasta lagi sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartíma”.
Af þessari lýsingu Keflavíkurjarðar sjáum við, að Keflavík hefur ekki verið stór jörð, heldur miklu fremur kotbýli, þó er greinilegt, að jarðarlandið hefur verið ólíkt grasgefnara en þekkst hefur um
 langan aldur.

Keflavik-ornefni-231-

Torfrista og stunga, sem talin eru viðsæmandi, talar sínu máli. Grasvöxtur hefur þá verið mikilj og er af því auðsætt, að uppblástur hefur eytt jarðvegi og gróðri á þeim 243 árum, sem liðin eru síðan jarðarmatið fór fram. Enda sáust greinilegar leifar af uppblæstri ennþá um síðustu aldamót. Uppi á Melunum fyrir ofan kauptúnið voru þá enn eftir, hingað og þangað, nokkrar torfur, eins og dálitlar eyjar á berum sandmelnum. Á þessum torfum var þéttur grassvörður; af þeim mátti og greinilega sjá jarðlagið og þykkt moldarinnar, er var vel mannhæð. Er vindar blésu og jörð var þurr, mátti sjá mórauða mekki bera víð loft yfir Melunum. Þar voru að hverfa út í veður og vind hinar síðustu leifar gróðurmoldarinnar, er eitt sinn, fyrir ævalöngu, hafði þakið Keflavíkurjörð. En þessar minjar eru nú löngu horfnar. Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímamanna, en svo sem kunnugt er, hafði konungsvaldið eða umboðsmenn þess á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabeztu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira. T. d. voru sumir Innnesjamenn skyldir að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Bátsenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verzlunarskipunum til Danmerkur. Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur veríð laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verzlunarbúða hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur. Njarðvíkurbændur hafa, sem aðrir, yfir mörgu að kvarta. Bóndinn í Innri-Njarðvík kvaðst verða „að gegna gisting þeirra frá Bessastöðum, umboðsmannsins, sýslumanns og þeirra fylgdarmanna, hvenær sem þá aðber” og hvað fjölmennir sem þeir eru. Segir hann þá hafa „næstu 16 ár með sjálfskyldu þegið” allan beina fyrir sig og hesta sína, svo lengi, er þeir sjálfir óski. Þar að auki séu þeir, Njarðvíkurbændur, skyldir að fylgja Bessastaðamönnum innan sýslu og margoft utan. Sé allt þetta endurgjaldslaust.
Bóndinn í Ytri-Njarðvík kveðst þurfa að sjá um og flytja farangur vermanna, er þeir komi um hávetur innan frá Bessastöðum og Sundum til sjóróðra á kóngsskipin, er gengu frá Stafnesi. Ef vetur var harður og vermenn treystu ekki hestum sínum lengra en að Sundum, urðu bændur, er bjuggu meðfram veginum til Suðurnesja, að flytja þá bæ frá bæ út að Ytri-Njarðvík. Þar tók bóndinn við og flutti þá ásamt farangri suður yfir heiði, að Stafnesi. Allt var þetta bótalaust.
Keflavik-241Sami bóndi segir frá því, að komið hafi verið með bát suður í Ytri-Njarðvík í nafni umboðsmannsi
ns á Hessastöðum „í fyrstu með bón og síðar með skyldu, tveggja manna far, sem ganga skyldi um vertíð, en ábúandinn að vertíðarlokum meðtaka skipsábata, verka hann og vakta til kauptíðar, ábyrgjast að öllu og flytja í kaupstað”.

Þá er að minnast tveggja eyðijarða í Njarðvíkurlandi, sem getið er í Jarðabókinni 1703. Er um þær báðar hið sama að segja, að þá vissi enginn, hve lengi þær hefðu í eyði verið. Önnur jörðin var Hjallatún. Voru þá tún uppblásin í mel, lyng og hrjóstur, en girðingar stóðu þá enn, en jarðarlandið löngu lagt undir Ytri-Njarðvík. Þótt svo langt sé síðan býli þetta lagðist L eyði, að enginn, er var á lífi 1703 kunni skil á hvenær þar hefði byggð verið, hefur nafn þessarar heiðarjarðar aldrei gleymst. Rétt eftir síðustu aldamót voru haldnar skemmtisamkomur í Hjallatúnum nokkur sumur. Var það að tilhlutun Ágústs Jónssonar hreppstjóra í Höskuldarkoti, er ævinlega vildi alla hluti vel gjöra. Mættust þá Njarðvíkingar og Keflvíkingar í Hjallatúnum einn glóbjartan sunnudag, einu sinni á sumri, og gerðu sér þar glaðan dag. Var farið upp eftir með margskonar farangur; vatn í kaffi, kökur og annað góðgæti og mikið af áhöldum og borðbúnaði.
Allir fóru gangandi og bar hver sem betur gat. Gott var að hvílast í grasi grónum brekkunum, er upp eftir var komið. Margt varð til gleði, ræður haldnar og mikið sungið. Svo voru byggðar hlóðir uppi undir klettabeltinu og hitað kaffi, lagt á borð hingað og þangað um lautir og bala, gengið á milli búa og góðgerðir þáðar á víxl.
Keflavik-245Þegar leið á daginn fór unga fólkið í leiki og er kvölda tók, var gengið heim. Vegir skiftust og hóparnir héldu niður í Njarðvíkur og út í Keflavík. Í logniblíðu kvöldsins kváðu við léttir söngvar og gleðiómar, allir voru glaðir og ánægðir eftir góðan dag og komu heim í sólskinsskapi löngu eftir sólarlag. Hin eyðijörðin var Fitjakot milli Ytri- og Innri-Njarðvíka. Hefur hún legið að sjó. Þar eru nú Fitjar. Er svo sagt 1703, að lítil merki sjáist þar fornra girðinga, en almenn sögn, að býli hafi verið. Var það mál manna, að jörðin hafi í eyði lagst af örtröð. Hinar tíðu lestaferðir austan- og norðanmanna, er sóttu sér björg í bú til hinna aflasælu verstöðva um Suðurnes, eru taldar drýgsti þáttur í eyðingu jarðarinnar. Þar var ævinlega áð og að vetri munu ferðamenn hafa haft þarna náttstað áður en lagt var suður í Hafnir, út á Nes, Garð, Leiru og Keflavík. Er svo sagt í jarðabókinni, að ferðamenn megi ómögulega missa þennan afangastað. Þá er og greint frá því, að sjór brjóti landið að framanverðu í stórkostlega ósa, en vatnsrásin úr heiðinni flytji fram aur og grjót. Á þessum slóðum eru byrjaðar framkvæmdir að hafnarmannvirkjum, er verður einn liður í fyrirhugaðri landshöfn Keflavíkur og Njarðvíkur.
Ábúendur í Keflavík fyrr á öldum, kann ég fáa að nefna. Í fornum annálum er þess getið, að Grímur Hergsson, bóndi í Keflavík, hafi orðið bráðkvaddur árið 1649. Setbergsannáll kann best skil á þessum atburði, enda var höfundur annálsins Gísli Þorkelsson að móðurætterni af Suðurnesjum, dóttursonur séra Þorsteins Björnssonar, er prestur var á Útskálum 1638—1660. Þar segir svo: „Þann 8. janúar andaðist Grímur Bergsson í Keflavík skyndilega í sinni heytótt á kvöldtíma”. Grímur hafði fyrrum (1632) verið sýslumaður í Kjósarsýslu og síðar lögréttumaður á Suðurnesjum. Hann bjó á Kirkjubóli á Miðnesi, síðar í Ytri-Njarðvík og síðast í Keflavík.
Fyrri kona hans var Matthildur Árnadóttir, dótturdóttir séra Einars, prests á Útskálum (1581—1605) Hallgrímssonar. Seinni kona Gríms var Rósa Ásgeirsdóttir frá Fitjum í Skorradal. Dóttir þeirra var Oddný kona Gísla Bjarnasonar frá Stokkseyri. Þau bjuggu á Skarði á Landi. Frá þeim er komin merk ætt er rekja má til núlifandi manna. Nefni ég hér á eftir nokkra kunna niðja þe
irra, en þeir eru ýmist 8. eða 9. maður frá Grími.

Keflavik-321

Frú Ásdís Rafnar, prestskona á Útskálum, nú á Akureyri, Soffía Guðlaugsdóttir systir hennar, leikkona í Rvík, frú Matthildur Finnsdóttir, kennari í Gerðum í Garði, Finnur Jónsson, faðir hennar, fræðimaður á Kjörseyri, Magnús Jónsson, bróðir hans, bóndi í Junkaragerði í Höfnum, frú Torfhildur Hólm, skáldkona, frú Guðrún Briem, kona Sigurðar Briem póstmeistara, frú Karolína Ísleifsdóttir, kona Guðm. Hannessonar prófessors, og Halldór Kiljan Laxness skáld. Grímur Bergsson hefur verið drengskaparmaður. Það sést bezt, er litið er á þátt þann, er hann átti í því að liðsinna Hallgrími skáldi Péturssyni, er hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár, með konuefni sitt Guðríði Símonardóttur. Komu þau út í Keflavík sagt á verzlunarskipi. Hafði Hallgrímur hætt námi til þess að fylgja Guðríði út til Íslands. Hefur hann án efa vel séð, hver kjör biðu sín hér, er hann kaus þennan kost.
Sýnir hinn fagri ferðasálmur, er hann orti áður en lagt var í haf, hve örugglega hann hefur falið sig Guðs handleiðslu. Grímur bjó þá í Ytri-Njarðvík. Hann tók Guðríði á heimili sitt og fæddi hún þar fyrsta barn þeirra Hallgríms það sama sumar. Reyndist Grímur þeim hinn bezti vinur. Mun Guðríður hafa dvalið í Ytri-Njarðvík í umsjá Gríms og konu hans, þar til hún giftist. En Hallgrímur vann eyrarvinnu hjá Keflavíkurkaupmanni um sumarið.
Grími bónda hefur auðsýnilega verið áhugamál að hjálpa þeim enn betur. Hinn 19. maí 1638 ritaði hann bréf til þess að leita samskota til handa Hallgrími í fjársektina, er hann var fallinn í. Bað hann „góða menn á Suðurnesjum gefa honum 1, 2, 3 fiska eftir því sem Guð blési sérhverjum í brjóst”. Grímur komst í mál út af bréfí þessu vegna þess, að hann hafði ritað, að hirðstjórinn, Pros Mundt, hafi gefið í sitt vald barnssektina og ætlaði að láta nægja 8 vættir fiska í stað 18 vætta. Er Grímur kom fyrir Kálfatjarnarþing hið sama haust, gat hann ekki sannað mál sitt, kvað vitni sigld. Var hann því dæmdur fjölmælismaður og bréfið nefnt lygabréf, „hugðu þó flestir að hann mundi satt mæla” segir í ævisögu séra Hallgríms. (Gestur Vestfirðingur V. árg.). Mál þetta kom fyrir alþing 1639. Var Grímur þar. dæmdur í 20 dala sekt til fátækra og Kálfatjarnardómur staðfestur. Voru þó margir er lögðu honum líknarorð. Þannig voru launin fyrir að greiða veg þess manns, er átti eftir að verða einn hinn mesti skáldsnillingur Íslendinga og hefur svo löngum farið. Um samskotin í sektargjaldið er ekki vitað, en hitt er víst, að það hefur verið greitt, því annars hefðu þau Hallgrímur og Guðríður ekki getað gifst. Er sennilegt að hinir fátæku bændur á Suðurnesjum hafi lagt þar til sinn skerf. En Grímur bóndi í Njarðvík hefur enn sem fyrr verið þeim hliðhollur. Eftir giftingu þeirra bjuggu þau í Baulufæti (Bolafæti), sem var hjáleiga frá Ytri-Njarðvík og rétt við túnfótinn. Hafa þau eflaust verið þar í skjóli Gríms.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Munnmæli, er lifðu enn syðra um síðustu aldamót heyrði ég um dvöl þeirra í Bolafæti. Áttu þau að hafa búið þar nokkur ár. Sagt var að Hallgrímur hefði á sumrum unnið hjá Keflavíkurkaupmanni, en gengið heim og heiman kvölds og morgna.
Nálega 250 árum síðar bjó niðji þeirra, séra Hallgríms og Guðríðar, í Bolafæti um mörg ár. Það var Magnús smiður Árnason, hinn mesti atorku- og sæmdarmaður, faðir Vigfúsar skipasmiðs í Veghúsum í Keflavík. En Magnús var sjöundi maður frá séra Hallgrími.
Árið 1703, um vorið, var manntal á Íslandi skráð í fyrsta sinn. Þá var heimilisfólk í Keflavík eftirtaldir 6 menn: Halldór Magnússon sem þar býr 52 ára. Hallgerður Árnadóttir kona hans 42 ára. Jakob Halldórsson sonur þeirra 22 ára. Þorbjörg Nikulásdóttir dótturbarn þeirra 8 ára.
Guðríður Þorsteinsdóttir vinnukona 32 ára. Gunnhildur Þorgeirsdóttir tómthúskona 52 ára.
Um ætterni Halldórs er ég ekki fróð, en Hallgerður kona hans hefur án efa verið dóttir Arna bónda á Stóra-Hólmi í Leiru Jakobssonar, (Árni býr þar 1703, 82. ára) en hann var sonur Jakobs bónda á Þorkötlustöðum í Grindavík, Helgasonar. Þorbjörg litla, dótturbarn þeirra Keflavíkurhjóna, var frá Stóru-Vogum. Þar voru foreldrar hennar húshjón (1703) þau Auðbjörg Halldórsdóttir og maður hennar Nikulás Þóroddsson. Þar er einnig skráð Þorbjörg dóttir þeirra, sögð vel 3. ára. Getur hvorttveggja verið að telpan sé sú hin sama og skráð er í Keflavík, eða að dæturnar hafi verið tvær með sama nafni.
Sá siður var algengur fyrrum, að foreldrar létu börn sín, tvö eða þrjú, heita sama nafni. Mun sá siður hafa átt rót sína að rekja til hins mikla og ægilega barnadauða, er þá lá eins og mara á þjóðinni. En áhersla var lögð á það, að þau nöfn ættarinnar lifðu, er mest voru í heiðri höfð.”

Heimild:
-Faxi, 7. árg., 6. tbl., frú Marta Valgerður Jónsdóttir: Fyrstu ár Keflavíkur, bls. 1-4.

Keflavik-229

Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, “Tvær aldir í Keflavík”:
Keflavik -221“Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt! Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldra vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.

Stafnes

Á Stafnesi.

Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbúðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og að upphafi Keflavikurbyggðarinnar! Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi”. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu”, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir” í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið” og „búlausir menn”. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar” hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!”

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.

Setbergssel

Kershellir er við Selvogsveg (Suðurferðavegs) norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli á fremur stuttri hraunrás. Hraunið er úr Búrfelli fyrir um 7400 árum. Á svæðinu eru einnig nokkrir styttri hellar.
Kershellir er nyrstur og austastur þeirra. Inn af honum er svonefndur Hvatshellir. Suðvestar er Ketshellir-222Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín. Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.
Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna. Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Kershellir-223

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu. Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir.

Kershellir-224

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og  máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni  7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:
„Hann er 152 fe
t á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hvatshellir-222

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hvatshellir-223Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“
Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd  og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:
„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.
Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu,  er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.
Hvatshellir-224Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.
Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti: Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.”
Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir  komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum. Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir  lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Hvatshellir-225

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

Setbergssel-222

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli.
Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða.

Setberg

Setberg 1772 – Joseph Banks.

Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í fáu 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Ketshellir

Tröllið í “Síðasta bænum í dalnum” við Ketshelli.

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð.
Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli. Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur splölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svomeð gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“
Þess má geta að íslen
ska kvikmyndin “Síðasti bærinn í dalnum” var að hluta til tekinn í Ketshelli.

Heimildir:
-Jónatan Garðason.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, Ólafur Þorvaldsson, Grindarskarðavegur (Selvogsleið), bls. 96-107
-Reykjavík, 7. árg. 1906, bls. 162
-Fjallkonan  7. september 1906, bls. 161
-Þjóðólfur, 56. árg 1906, bls. 164
-Æskan, 9. árg. 1905-1906, bls. 93
-Frjáls verslun, 4. árg. 1942, bls. 4
-Þjóðhvellur, 1. árg. 1906-1908, bls. 1

Munnleg heimild:
-Þórður Reykdal.
-Friðþjófur Einarsson, Setbergi.

Kershellir-221

Grindavík
Hér á eftir eru upplýsingar um ýmislegt það er fyrir augu ber þegar farið er í u.þ.b. 5 klst hringökuferð um Reykjanesið. Leiðarhlutunum er skipt í 19 kafla (1-19). Í þessu tilviki er byrjað í Keflavík, en í rauninni má hefja ferðina hvar sem er. Þótt hér séu tekin saman ýmis atriði til fróðleiks, eru þau engan vegin tæmandi. Góður leiðsögumaður gæti t.d. bætt ýmsu við ef hann væri með í för.
Ljóst er að náttúrufegurð og menningarsaga Reykjanessins hefur verið vanmetin í gegnum tíðina. Nú er komið að því að breyta um betur og auðvelda áhugasömu fóki að tileinka sér svæðið með lítilli fyrirhöfn, en til mikillar ánægju.
Áður en lagt er af stað skal a.m.k. hafa tvennt í huga:

A. Jarðfræði
Reykjanesið er stórmerkilegur staður frá jarðfræðilegu sjónarmiði, myndað á skilum Evrópu og Ameríku þar sem hafsbotnsplöturnar tvær reka sitt í hvora áttina. Þannig stækkar Ísland því meir sem Evrópa og Ameríka fjarlægjast.
Elsti hluti Reykjaness, Rosmhvalanes, er um 200 þúsund ára gamalt. Við lok síðustu ísladar var hér mikil eldgosahrina sem, stóð lengi og má segja að hún sé megin uppistaða landslagsins eins og það er í dag. Þetta eru gos í Sandfellshæð og Þráinsskildi fyrir um 12-13 þúsund árum og í Hrútagjá fyrir um 5-6 þúsund árum. Öll eru þessi hraun vel sýnileg í dag og ná frá Reykjanestá að Hafnarfirði, en eru þó að hluta til hulin hraunum sem runnið hafa í aldanna rás. Eldri hraunin eru mjög sprungin vegna jarðskjálfta og landreks.
Frá landnámi hafa runnið 13 apal- og helluhraun á Reykjanesi og eru þau m.a.: Illahraun við Bláa lónið frá 1226, Arnarseturshraun frá 1226, Eldvarpahraun við Árnastíg frá 1211, Yngra-Stampahraun við Öngulbrjótsnef frá 1211, Ögmundarhraun frá 1151 í Krýsuvíkureldum, Kapelluhraun rann til sjávar við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði árið 1150.
Gígar sem sjá má á Reykjanesi eru dyngjur eins og t.d. Þráinsskjöldur á Strandarheiði, klepra- og/eða gjallgígar eins og við Búrfell við Hafnarfjörð, gjóskugígar eins og Eldvörpin yst á Reykjanesinu og sprengigígar eins og Grænavatn við Krýsuvík.
Miðaldalagið 1226/1227 kom úr eldgosi sem hófst í sjó út af Reykjanestá og spúði það gos mikilli ösku og vikri yfir landið. Askan úr því hefur verið nefnd “Miðaldalagið” en hún var það mikil að vart sást til sólar í heilt ár og var það kallað sandasumar og sandavetur. Það ár drápust 100 naut frá Snora Sturlusyni í Reykholti sem hann hafði í Svignaskarði.
Á Reykjanesi eru fjölmargar gjár og sprungur. Í sumum þeirra vex fallegur gróður, s.s. burknar. Einnig eru hrauntraðir, þar sem hraun hefur runnið í rásum eins og í Brúfellsgjá og Gígnum við Lágafell. Þá ber skaginn ummerki jarpskorpuhreyfinganna þar sem misgegi finnast, t.d. á Haábjalla og Hrafnagjá.

B. Jarðhiti
Reykjanesið er í virku gosbelti og því eru mörg háhitasvæði þar, en þau helstu eru á Reykjanestá, Svartsengi, Trölladyyngju og í Krýsuvík. Helstu einkenni háhitasvæða er fjölbreytni í litum. Leirinn gefur brúnan lit og hvítan, glópagillið virðist dökkblátt, breinnisteinninn fagurgulur og kopasamböndin eru blágræn. Þar eru einnig gufuhverir þars em gufan kemur stundum upp undir þrýsingi í vellandi blágráum leirhverum sem skvetta úr sér leirslettum er gufubórunar springa. Á Reykjanesskaganum hefur sjór síast inn í jarðlögin og hitnað. Heita vatnið í Svartsengi er t.d. 2/3 sjór en yst á Reykjanesi er það eingöngu sjór. Niðri í um 5 km dýpi á þessum slóðum má ætla að fáist um 500°C yfirþrýst gufa í stað 240-340°C sem algengt er í 2 km djúpum holum. Á meira dýpi eykst þannig gufuafl úr 3-4 MW í 40-50 MW.
Ef tilraunadjúpboranir á Reykjanesi fara að óskum gæti það gerbreytt allri orkuvinnlsu hér á landi – og jafnvel víðar í heiminum.

Sjá leiðsagnir um Reykjanes: 1234567891011121314 1516171819.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni.

Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur.

Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.

Ósabotnar

Ósabotnar.

Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fengið var góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Göm þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.
Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – rústir á bæjarhólnum.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – Kaupstaðagatan.

Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.

Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Sjá MYNDIR.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Þingvellir

Árið 1993 rak Þórarinn Þórarinsson arkitekt augun í áletrun í klöpp á Þingvöllum, þar sem gengið er út á Spöngina sem er á milli Flosagjár og Nikulásargjár. Áletrunin var uppljómuð í kvöldsólinni en reyndist þó skófum vaxin og máð og gekk því illa að lesa úr stöfunum.

Blomkvist

Þingvellir – áletrun.

Mynd sem sýnir sykri stráða áletrunina á Spönginni. Giskað hefur verið á að stafirnir séu verk ferðamanna, hugsanlega frá 19. öld. Hægt er að smella á myndina til að skoða stærra eintak af henni. Myndasmiður: Einar Á.E. Sæmundsen.

Fundurinn vakti töluverða athygli. Í fyrstu voru uppi getgátur um að áletrunin kynni að vera frá fyrsta skeiði þinghalds og gæti jafnvel tengst lögréttu sem sumir telja að hafi verið á Spönginni. Þetta var stutt með því að einhver hefði lagt mikið á sig til að slétta klöppina og höggva svo letrið í.

Þingvellir

Spöngin á Þingvöllum.

Spöngin er skammt ofan og hægra megin við miðja mynd, einhvers konar hraunrimi milli tveggja gjáa.
Sagan segir að rútubílstjóri nokkur hafi tekið sig til, stráð sykri í áletrunina og letrið þá orðið læsilegt. Í ljós kom að tvö nöfn höfðu verið höggvin í klöppina: Gulin og Blomkvist. Listfræðingurinn og rithöfundurinn Björn Th. Björnsson taldi líklegast að þarna hefðu skandinavískir ferðamenn verið að verki, sænskir Finnar, hugsanlega um eða eftir 1870, en á þeim tíma var kenningum um lögréttu á Spönginni fyrst haldið á lofti og má ætla að fleiri hafi lagt leið sína þangað í kjölfarið.

Spöng

Spöngin – áletrun.

Jafnvel var talið að um ástarjátningu gæti verið að ræða, að par hefði ákveðið að meitla heit sín í klöppina.

Áletrunin er máð, bæði hefur hún veðrast en einnig er hún fótum troðin af þúsundum ferðamanna sem hafa lagt leið sína út á Spöngina. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um uppruna áletrunarinnar er í það minnsta líklegra að kenna hana við ástfangna Finna en Íslendinga við þingstörf fyrir mörg hundruð eða þúsund árum.

Heimild:
-DV 14. júní 1993 á Tímarit.is.
-Mynd af áletruninni: Einar Á.E. Sæmundsen.

Þingvellir

Þingvellir. Spöngin er fyrir miðri mynd.

Sel - tilgáta

Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum  bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 300 slíkum. Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Venjulega var búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars,  mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar.

 Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta – ÓSÁ.

Hús – megingerð
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara en víða annars staðar, s.s. í gróningum undir hlíðum.
Eins og fram kemur um staðhætti á Reykjanesskaganum þá er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu?) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í eitt rými; eldhúsið. Það hefur að öllum líkindum staðið stakt. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í staka rýminu.
Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum Seltóftirinngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins.  Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í  Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)).  Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr. Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.
Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, um 120×240 sm (Knarrarnessel eða 240-320 sm (Brunnastaðasel), tvískipt og jafnan með þremur rýmum. Þó eru til sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.
RéttEkki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik. Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.
Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim ef vel er að gáð.

Réttir

Seljabót

Seljabót – rétt.

Rétt er ofan við Straumssel (Efri-Straumsselshellar), í Seljabót nálægt Herdísarvíkurseli og á Selsvöllum (Vogarétt), en annars eru réttir ekki fast við sel á Reykjanesskaganum. Þessar réttir gætu verið yngri en selin af ummerkjum að dæma því hleðslur standa yfirleitt enn nokkuð vel.
Vorréttir, fráfæru-réttir og rúningsréttir voru yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamra-veggnum í Stóra Hamra-dal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.

Fjárskjól
FjárskjólFjárskjól eru um 280 á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sum þeirra eru nálægt seljum. Samkvæmt örnefnalýsingum  eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunbæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum. Þar skammt frá er fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í rásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar. 

Fjárborg – fjárbyrgi
FjárborgFjárborgir (hlaðnar) eru um 90 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum. Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki heima við bæi á vetrum.

Nátthagi
NátthagiNátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta.
Við Óttarsstaðasel og Fornasel í Hraunum eru fallegir nátthagar.

Stekkur – kví
StekkurStekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum.
Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar eru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Annað hvort hlaðnar kvíar eða stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni, jafnan staðsett í góðu skjóli.

Brunnur – vatnsstæði
VatnsbólBrunnar og vatnsstæði voru bráðnauðsynleg í seljum eða við þau. Vatnsból gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli. Í þurrkum eru dæmi um að yfirgefa þurfti sel áður en seltíma lauk. Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleika.
Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar. Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt spolkorn væri á milli þess og selsins.

Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel  eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.

Gerði – garður

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, mörg seljanna í Vogaheiði,

Stekkur

Grindavíkurselin og Merkinessel yngra. Stekkir eru þar hlaðnir utan í hæð eða bergvegg auk þess sem auðvelt hefur verið að leiða eða reka fé að þeim.
Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim. Þannig eru hvorutveggja oft undir hlíðum, gjám eða misgengjum, s.s. Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II. 

Selstígur – selsgata
SelstígurSelstígurinn lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir mörgum þessara stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli.
Selsgatan hefur verið mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km).

Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá vörður og/eða vörðubrot.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar – smalaskjól.

Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Strandarheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra. Gegnumgangur hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar gætu hins vegar hafa viljað nýta sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.

Smalabyrgi

Hlaðin smalabyrgi eru í nágrenni við örfá sel eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, við Flekkuvíkursel og neðan við Stakkavíkurselið yngra.

Selsvarða
SelvarðaSelsvarða stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi að því. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu. Margar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar grónar. – ÓSÁ

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.