Hvaleyri – Hvaleyrarhöfði – Sveinskot – Vesturkot

Hvaleyri

Gengið var um Hvaleyri við Hafnarfjörð, út á Hvaleyrarhöfða og staðnæmst við Flókaklöpp. Þá var gengið að þeim stöðum á höfðanum þar sem gömlu kotin höfðu staðið.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Sveinskot var á túninu ofan við Herjólfshöfn, Halldórskot skammt norðvestar og Vesturkot vestar. Golfklúbburinn Keilir fékk síðasta íbúðarhúsið að Vesturkoti undir golfskálann fyrst eftir að byrjað var á golfvellinum á Hvaleyri 1967. Nokkrir staðir komu til greina sem golfvöllur, en fljótlega fengu menn augastað á Hvaleyrinni. Voru þá enn ábúendur á sumum smájörðunum á Hvaleyri og stóð í talsverðu stímabraki uns allt það land fékkst, sem nú er undir golfvellinum. Efst í túninu stóð bærinn Hvaleyri. Hjartarkot var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Fleiri kot voru við höfðann, en erfitt er að greina staðsetningu þeirra vegna röskunar á svæðinu. Þórðarvík heitir víkin milli Hvaleyrarhöfða og Straumsvíkur. Hraunið hefur jafnan verið nefnt Hvaleyrarhraun vestan og sunnan við holtið, en einnig Hellnahraun yngra og eldra.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri.

Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.
Í Íslendingabók segir að Flóki Vilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn.”

Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrlegra hafnarskilyrða. Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífeldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni.
Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar.

Frábært veður. Gangan um Hvaleyrina tók 1 klst og 11 mín.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Heimild m.a.
-http://www.hafnarfjordur.org/main/view.jsp?branch=2151204

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.