Hvaleyri – rúnasteinar

Flókaklöpp

Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bætt við fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.
Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum.

Flókaklöpp

Áletrun á Flókaklöpp.

Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: „Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri“. Síðan segir hann: „Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.“

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.