Skipsstígur – um loftskeytastöðina ofan Grindavíkur

Skipsstígur

Haft var samband við Varnarmálastofnun og leitað eftir heimild til að fá að skoða svæðið innan afgirtrar loftskeytastöðvarinnar undir Lágafelli ofan (norðan) Grindavíkur með það fyrir augum að leita og skoða Skipsstíg, hluta hinnar fornu þjóðleiðar milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Vegna starfseminnar hefur svæðið ekki verið aðgengilegt síðustu áratugina. Bent var á Kögun [nú Advania], sem rekur loftskeytastöðina. Þar var leyfi góðfúslega veitt til könnunarleiðangurs um svæðið.

Títublaðavarða

Loftskeytastöðin var eign og undir stjórn bandaríska flotans, en eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Skipsstígur innan girðingarKögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.
Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana.  Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum. Strangar umgengisreglur gilda því þarna.
Þegar götur voru raktar innan girðingarinnar var byrjað að sunnanverðu, við Títublaðavörðuna. VarðaÞar sést gatan glögglega. Varða er við hana áður en gatan fer inn á raskað svæði (mastur). Gatan sést við strýtulagaðan hraunhól suðvestast í Eldvörpum, en svo heita gígaþyrping á suðausturhorni svæðisins. Vestan hennar liggur svo til bein gata áleiðis upp heiðina, samhliða gömlu hlykkjóttu götunni. Þarna er um að ræða hestvagnagatan, sem sést svo glögglega vestan í Lágafellinu, áfram um Lágar og upp í Blettahraunið, þar sem hætt hefur verið við endurbæturnar á gamla Skipsstígnum.

Skipsstígur

Varða er við götuna suðvestan húsa loftskeytastöðvarinnar. Þá hverfur gatan vegna fyrrum framkvæmda, en kemur síðan í ljós að nýju skammt norðar. Þar er varða á grónum strýtumynduðum hraunhól, Helghól. Sú trú var manna fyrrum að þar væri álfakirkja. Helghólslág eða Helghólslautir, grasi grónar, eru umhverfis hólinn. Frá honum liggur gatan upp með aflöngum berangurslegum hraunhól að austanverðu og beygir síðan til vinstri upp gróninga áleiðis að vörðu innst á honum (handan girðingarinnar). Hestvagnagatan liggur að sömu vörðu, en vestan í aflanga hraunhólnum (í beina línu). Þarna eru og gatnamót því önnur gata liggur frá vörðunni til suðausturs. Gatan sést skammt austar, hverfur síðan vegna framkvæmda (mastur), en kemur síðan aftur í ljós þar sem hún her yfir óraskað hæðardrag. Þar er varða. Frá henni liðast gatan niður hæðardragið að handan, hverfur í rask, en kemur síðan aftur í ljós á órsökuðu svæði (móa) austast á svæðinu. Þar eru tvö vörðubrot með stuttu millibili. Þarna fer gatan síðan undir girðinguna og er allgreinileg þar sem hún liðast áleiðis upp á hraunhaft á leið hennar í Kúadal (við innkomuna á þjóðveginum til Grindavíkur).
Sjá má legu gatnanna innan loftskeytastöðvarinnar á loftmyndinni hér að neðan.
Starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar er þökkuð jákvæð viðbrögð og góða aðstoð við verkefnið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Götur innan loftskeytastöðvarinnar ofan Grindavík