Ætlunin var að ganga eftir hluta af svonefndum Sandakravegi, þ.e. frá Kasti, yfir Dalahraun og áleiðis að Skógfellavegi, sem liggur þar millum Stóra- og Litla Skógfells á leiðinni frá Grindavík í Voga.
Sandakravegur var forn þjóðleið vermanna sem komu af Suðurlandi um Krýsuvíkurveg á leið í Voga eða norður á nes. Leiðin lá frá Slögu norður með Borgarfjalli, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika sunnan Einbúa og að Kasti, sem er suðvestasti hluti Fagradalsfjalls. Þaðan lá gatan yfir hraunið inn á Skógfellaveg og síðan norður í Voga. Að þessu sinni var gengið frá Móklettum norðan við Lyngfell og Festisfjall, yfir Beinvörðuhraun, framhjá Beinvörðunni að Kasti. Nú voru þátttakendur vel varðir allra veðra Cintamani-fatnaði, en eins og ljóst má vera urðu ferðalangar fyrrum úti á þessum leiðum eða bara dóu, eins og gengur. Til er frásögn erlends ferðamanns á leið til Krýsuvíkur. Kom hann að látinni konu, sem legið hafði lengi óhreyfð við þjóðleiðina. Hvers vegna ættu ferðalangar að taka með sér löngu látið fólk, sem það þekkti ekkert. Einfaldara var að hylja það með grjóti, en sjá má slíkar grjóthrúgur á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. við Sandakraveginn, Fógetastíginn í Gálgahrauni, Garðsstíginn, Sandgerðisgötuna og Undirhlíðaleiðina, svo einhverjar séu nefndar. Við Garðagötuna er t.a.m. Mæðgnadysin og við kirkjugötuna frá Hraunsholti að Görðum er Völvuleiði. Að vísu var erfiðara að greina kennimerki við aðstæður, sem nú voru til staðar, en jafnan að vorlagi er grónar dysjar verða fyrr grænni en aðrar náttúrulegar „þúfur“ við alfaraleiðirnar. Hrossadysjarnar í Slysadal á Dalaleiðinni eru þó jafnan ágætt dæmi þessa allt árið um kring. Þá má og telja líklegt að dysjarnar í Kerlingardal austan við Deildarháls milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur eigi sér slíkt upphaf.
Sandakravegur er enn í dag djúpt markaður í harða hraunhelluna eftir hófa, klaufir og fætur liðinna kynslóða um aldir. Nú átti að feta í fótspor þessara forfeðra og -mæðra, ganga þetta spölkorn eftir veginum frá Sandhól við Kast yfir á Skógfellaveginn milli Stóra- og Litla-Skógfells. Síðan var ætlunin að kanna hvort önnur leið, jafngreiðfær, gæti legið af Sandakraveginum austan við Skeifu með stefnu til suðurs, stystu leið að gatnamótum Sandakravegar og Kýsuvíkurvegar við Slögu eð Litla-háls.
Nú er búið að stika Sandakraveginn. Þegar byrjað var við stiku nr. 70 komu fljótlega í ljós nokkrar afvegaleiðanir. Í fyrsta lagi var stikum nr. 71 og 72 ofaukið. Eftir að komið var í skarð á hraunbrúninni lágu tvær stikur til vinstri, en af vörðunum að dæma áttu þær að liggja samhliða þeim beint áfram og síðan til vinstri. Þessar stikur voru augljós villa og voru því lagfærðar. Þá voru stikur látnar í framhaldinu fylgja seinni tíma mosaslóð, en vörðubrot í svo til beina stefnu á myndarlega vörðu á hraunhól gátu fyrrum legu vegarins til kynna.
Þegar gangan hófst við, eða réttara sagt skammt norðan við Sandhól, komu í ljós tvær sandbrunabungur (Sandhólinn hærri) er gengið höfðu út undan Kasti. Þegar hraunið rann að Fagradalsfjalli, og þar með Kasti, hefur það nánast náð að umlykja hólana. Sandhóllinn hefur fengið nafn, bæði vegna þess hversu áberandi kennileiti hann er þarna í hrauninu og auk þess hefur hann verið þörf „vegstika“ á leið um veginn.
Skammt norðvestar er farið um fyrrnefnt skarð. Skammt sunnan þess er skjól í vegg hrauntraðar. Opið snýr til vesturs, en í austurenda þess hefur verið fyrirhleðsla, nú að hluta til fallin. Þarna hefur verið bæði hið ágætasta skjól fyrir tvo menn og útsýni yfir veginn framundan, tilvaldið til að staldra við í og bíða eftir þeim, sem hægara fóru.
Þá tóku við tiltölulega slétt mosahraun. Vörður og vörðubrot gefa veginn glögglega til kynna. Á lágum hraunhól er varða. Frá henni má bæði sjó vörðu neðan við hraunbrúnina í suðaustri og aðra á hraunbrún í norðvestri. Þegar komið er udnir síðanefndu hraunbrúnina sást, áður en varðan kemur í ljós, tvær ílangar þunnar hraunhellur, sem reistar hafa verið upp á endann, og púkkað með. Ofar liggur vegurinn um skarð og síðan um mosahraun áður en komið er inn í stóran helluhraunsdal. Frá fyrstu skrefum þar til þess síðasta er Sandakravegurinn klappaður í hraunhelluna. Norðvestan hennar er varða á hraunbrún, en frá henni hallar vegurinn áleiðis niður að Skógfellavegi. Hann hvarfur að vísu á stuttum köflum undir mosa, en auðvelt er að finna hann aftur ef hallað er að Litla-Skógfelli. Þar sem vegirnir mætast liggja þeir samhliða á kafla uns þeir falla saman í einn veg.
Sandakravegurinn hefur verið fjölfarinn um langan tíma, ummerkin sýna það. Einungis austasti kaflinn er minna markaður, líkt og Skógfellavegurinn er sunnan við gatnamótin.
Skógfellahraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og langleiðina að Sandhól er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið aðalþjóðleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna. Skýringar á því að syðsti hluti Skógfellavegar er ógreinilegri gæti verið sú að tíð og langvarandi eldsumbrot á því svæði hafi lagt af ferðir þangað, yfirborð svæðisins er apal- og brunahraun auk þess sem ösku- og gjóskulög gætu hafa lagst yfir eldri eldri leið, sem þar var.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta: „Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjar villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka.
Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Björns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum.“
Vitneskja um „fornar“ eða „gamlar“ götur á Reykjanesskaganum eru tiltölulega nýjar. Þeirra er ekki getið í fornum heimildum, enda hafa að öllum líkindum þótt svo sjálfsagðar að ekki tæki að fjalla um þær sérstaklega. Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúrustaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík. Að öðru leyti þótti Reykjanesskaginn líkastur auðn, líkt og Sveinn Pálsson lýsti í ferðabók sinni seint á 19. öld; „hér er ekkert merkilegt að sjá…“, auk þess sem hann sagði Gullbringusýslu „ljóta á að líta“.
Þrátt fyrir heimildarleysið hafa landsmenn ferðast af nauðsyn milli tiltekinna staða með ströndinni og stranda á millum um aldir – eða allt frá landnámi á 9. öld, eða jafnvel lengur. Þegar meiri festa komst á samfélagsmyndina og tilteknir staðir urðu ráðandi forðabúr svæðisins og aðrir ákveðnir stjórnsýslustaðir komust á fastar og hefðbundnar ferðir starfsfólks að og frá þeim, sem og fólks er sótti þangað varning, stundum í löngum lestum, s.s. að Seltöngum og í aðrar verstöðvar og verslunarstaði.
Yfirleitt var reynt að velja greiðfærustu leiðirnar á milli staða, jafnvel þótt lengri væru en þær beinustu. Reynt var að krækja framhjá úfnum og torfærum hraunum, sléttlendi frekar valið fyrir fótgangandi tvífætlinga og gróðurræmur fyrir fjórfætlinga. Vel var gætt að því að „halda hæð“ svo ekki væri verið að fara að óþörfu upp og niður hæðirog lægðir. Slíkt krafðist orku, en mikilvægt var að lá fyrirliggjandi orkuöflun nýtast sem best í ferðinni hverju sinni. Hver fylgdi öðrum. Smám saman mynduðust mjóar götur í harða hraunhelluna þar sem umferðin var mest og samfeldust. Hafa ber í huga að ný hraun voru að renna um Skagann fram á ofanverða 12. öld og hiti hefur verið í þeim allt fram á framverða 13. öld. Helluhraunið milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur er gott dæmi um breytta þjóðleið vegna eldgosa á nútíma. Einnig Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun), auk hraunanna ofan við Grindavík (Sundhnúkahraun, Illahraun og Afstapahraun sem og Eldvarpahraunin síðustu).
Eftir að þær mörgu „gömlu“ götur á Reykjanesskaganum hafa verið skoðaðar hefur vaknað grunur um að hlutar sumra þeirra séu hluti af mun eldri, almennari og lengri leiðum – gleymdum götum, sem legið hafa frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin. Þar hefur t.a.m. Krýsuvíkurleiðir, sem á seinni aldarmisserum hafa verið skráðar sérstaklega vegna tengsla, vitneskju eða áhuga manna á þeim, einungis verið hliðarstígar af almennari leiðum sem og margar aðrar götur, þ.á.m. Þórustaðastígurinn, Breiðagerðisstígurinn, Hrauntungustígurinn, Skógargatan o.fl.. Líklegt er, miðað við ummerki, að Krýsuvíkurleið með Suðurströndinni hafi verið ein aðalleiðanna frá og til sveitanna Sunnanlands.
Svo hefur einnig verið um Sandakraveg, hluta Skógfellastígs, götu um Brúnir sunnan Keilis, götur með Hálsunum, götu að og frá Selsvöllum svo og götu um Lambafell og Mosa sem annar hluti að vestanverðri Alfaraleiðinni til Reykjavíkur, heimkynna allsherjagoðans, og síðan Álftaness, aðseturs yfirvaldsins. Þessar götur eru hvað mest klappaðar í hraunhelluna. Sumar sjást nú einungis að hluta eða á köflum og líklegt má telja að elstu göturnar liggi utan þeirra leiða er síðar voru farnar með fé eða til almennra ferðalaga milli svæða.
Þegar haldið var til suðurs um Dalahraunið virtust nokkrar leiðir greiðfærar, a.m.k. langleiðina, en þegar komið var að úfinni hraunbrúninni að austanverðu varð þar torfæri. Ekki er útilokað að þarna kunni að leynast leið upp yfir brúnina því telja verður líklegt að þeir, sem þekktu vel til staðhátta og fóru oft þarna á millum, hafi gjarnan valið stystu leiðina til að spara tíma. Eftir þessa ferð er þó ljóst að stysta leiðin er ekki alltaf sú orkusparnaðasta og að þeir, sem um götunar fóru, reyndu jafnan að gæta samræmis og meta hvort væri þarfsamara.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.