Tag Archive for: Hafnarfjörður

Reykjanesskaginn

Á Reykjanesskaganum er vitað um a.m.k. 600 hella og hraunskjól.

Óbrennisbruni

Hlaðið fyrir skúta.

Hraunskjólin eru yfirleitt skútar, sem hlaðið hefur verið fyrir, ýmist í jarðföllum eða í hraunrásum. Nær undantekningalaust hafa þau verið notuð sem skjól fyrir fé því engin voru fjárhúsin á skaganum fyrr en kom fram á 20. öldina eða til að hlífa fólki á langri ferð og þá oftast nálægt gömlu þjóðleiðunum. Dæmi um fjárskjól má finna nálægt seljunum, en þau eru um 400 á Reykjanesskaganum, s.s. umhverfis Óttarstaðaselið og Straumsselið. Einnig má sjá þau nálægt bæjum eða beitaraðstöðu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Fjárborgirnar, en vitað er um 90 slíkar, lutu sömu lögmálum. Þær standa yfirleitt hátt, eru hringlaga, og hafa veitt fé hið ágætasta skjól. Rétt er að minna á að hér fyrrum má segja að lífið hafi meira og minna snúist um fé, líkt og reyndar enn gerist, en bara annars konar fé. Hér áður fyrr snérist allt um feitt fé og magrar konur, en nú snýst allt um mikið fé og fagrar konur. Allt var gert til að halda lífinu í kindinni því hún hélt lífinu í mannfólkinu. Fiskurinn var ágæt búbót þegar hans varð vart og ein helsta verslunarvaran um tíma, en féð var viðvarandi. Mannvirkin frá þessum tíma eru svo til við hvert fótmál á Reykjanesskaganum.

Bjargarhellir

Dropsteinar í helli.

Því miður er ekki hægt að segja frá öllum hellum, sem vitað er um. Sumir eru mjög viðkvæmir fyrir ágangi og því meiri líkur á skemmdum eftir því sem fleiri fara um þá. Það er kannski ekki ætlun allra að valda skemmdum, en þær verða fyrir slysni. Þúsundir ára gamlir dropasteinar og hraunstrá eru viðkvæm viðkomu og svo er líka erfitt að varast hvorutveggja í þrengslum og í myrkri. Þá er einnig til fólk, sem beinlínis leitast við að taka slík djásn með sér úr hellum til að „eiga“. Rétt er að benda slíku fólki á að fallegur dropasteinn í helli er hvergi fallegri en þar sem hann varð til. Þar er samhengi hans við upprunann og jarðsöguna á staðnum. Heima í stofu er dropasteinn aðskotahlutur.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Skútar og hraunbólur, rásir og traðir hafa verið notað sem skjól fyrir ferðalanga og jafnvel sem sæluhús á ferðum þeirra um lengri vegu. Má í því sambandi t.d. nefna Hellukofann á Hellisheiði og sæluhúsið undir Lat í Ögmundarhrauni. Dæmi er um að fólk hafi borið beinin þar sem það leitaði skjóls í skútum, sbr. Dauðsmannsskúti nálægt Selvogsgötu, og jafnvel fætt börn sín þar. Til eru a.m.k. þrír Sængurkonuhellar á Skaganum.

Hellasvæði í nágrenni Hafnarfjarðar eru t.d. í Þverhlíð norðan Sléttuhlíðar (Kershellir/Ketshellir/Hvatshellir), Kaldárseli (Kaldárselsfjárhellar), Helgadal (Hundraðmetrahellir og Rauðshellir), í Kristjánsdölum (Kristjánsdalahellar), við Þríhnúka (Brúnn og Bratti), undir Grindarskörðum (Selvogsgötuhellar), í Dauðadölum (Flóki), í Tvíbollahrauni við Bláfjallaveg (Leiðarendi) og við Hrútargjárdyngju (Húshellir, Híðið, Maístjarnan, Hellirinn eini o.fl.).

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Í Húshelli er hlaðið hús í stórum geimi. Opið er ekki langt frá Stórhöfðastíg áleiðis upp á Undirhlíðaveg. Sá grunur læðist að manni að hellirinn kunni að hafa verið afdrep „útilegumanna“ um tíma. Kershellir norðan Sléttuhlíðar var notaður af félögum í stúku Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM. Neyðarútgöngudyrahellir við Hrútaárgjárdyngju fékk nafn af hluta neyðarútgöngudyrar er fannst við opið. Í Leiðarenda eru leifar kindar er einhvern tímann í firndinni hefur rölt inn í einn endann og ekki ratað út aftur. Reyndar er hægt fyrir ókunnuga að villast í Leiðarenda og það gildir einnig um Flóka. Þangað ætti t.a.m. enginn að fara án þess að vera með línu meðferðis. Þá er góð regla þegar farið er í hella, auk þess að vera með góð ljós, hanska og húfu eða hjálm, að fara aldrei einn. Aldrei er hægt að útiloka að eitthvað geti komið upp á þar sem aðstoðar er þörf.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli.

Straumur

Gengið var að Straumsrétt norðaustan við Brunntjörn (Urtartjörn).

Straumur

Straumur.

Réttin er í hraunkvos og hlaðið allt um kringum. Í djúpri hraunspungu norðvestan hennar uxu háir og fallegi burknar, eins og svo víða á Straumssvæðinu. Höfuðborgarbúar hafa hirt mikið af þessum burknum í garða sína þar sem þeir hafa dafnað vel. Þetta er risaburknar, enda þurfa þeir að teygja sig langt til að ná sólargeislunum áður en þeir hverfa bak við næsta holt eða sprunguvegg. Skoðuð voru þurrkbyrgi upp á hraunhól norðvestan við réttina og síðan haldið hiklaust yfir að Kúarétt.

Kúarétt

Kúarétt.

Kúarétt er í gróinni kvos milli hárra hraunhóla. Hlaðnir eru garðar við endana. Við suðausturendann er hlaðinn kúastekkur. Hraunhólarnir umhverfis er háir, eins og fyrr segir. Jarðfræðiskýringin á þessu fyrirbæri er sú að glóandi hraunkvikan undir niðri í nýju hrauninu nær ekki að renna frá heldur safnast saman í kvikuþó. Við það lyftist storknuðu skelin, myndar hóla og klofnar þegar hún storknar. Mikið erum slíka sprungna hraunhóla í hraununum í nágrenni Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðarétt.

Gengið var norður fyrir réttina, að byrgi eða tóft, sem þar er. Hlaðið er fyrir lítið jarðfall (Straumsmegin) og eru dyr mót suðri. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið aðhald eða hreinlega reft yfir jarðfallið og það notað sem hýsi eða skjól.
Haldið var yfir að Óttarstaðaréttinni í Klofanum. Á leiðinni var gengið yfir háan klofinn hraunhól. Í honum var hleðsla. Hraunhóllinn ofan við réttina er einnig vel klofinn. Réttin er fallega hlaðin í skjólgóðri kvos mót norðri. Hún er tvískipt og innst í henni er lambakró. Réttin er ágætt dæmi um fallega hlaðna heimarétt. Í henni er náttúrulegur stekkur eða kví ef þurfa þótti. Réttin er vel staðsett miðað við upprekstur fjár af ströndinni, utan heimagarðasvæðis Óttarstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Gengið var yfir að Óttarstöðum eystri og skoðað niður í brunnana. Vestari brunnurinn er eldri. Sá austari er frá 1944 skv. áletruninni við hann. Þarna skammt frá voru menn að dunda við að endurbyggja sumarbústað frá stríðsárunum. Þegar göngulangar komu nær og farið var að sjást hverjir voru þarna á leið um ástkæra landið breyttist viðmótið; varð öllu vingjarnlegra. Mennirnir þar reyndust vera afkomendur fólks frá Óttarstöðum vestri, einir af ófáum afkomendum Hraunafólksins. Nefndi það í viðræðum ýmsa staði til sögunnar, sem fróðlegt verður að skoða nánar síðar.
Litið var á gerði eða rétt í hraunkvos skammt suðaustar, markarklettinn á landamerkjum Óttarstaða og Straums, sem nú var næstum umflotinn sjó (stórstreymt var) og Jónsbúðarbrunnurinn var umflotinn. Skoðuð var Jónsbúð og gerðið umhverfis og einnig Tjörvagerði skammt ofar. Í því er tóft.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði.

Gengið var um garðana umhverfis Þýskubúð, gerðið, brunninn og síðan að bátaréttinni norðan við Straum. Þar má enn sjá hleðslur ofan við Straumsvörina, garðana norðan og vestan við bæinn sem og ýmsar tóftir er tilheyrt hafa Straumsbænum. Bærinn sjálfur speglaðist í stórstreymdum tjörnunum. Gæsahreiður á grasbala og tjaldshreiður á malarkambi. Gaman verður að fylgjast með ungunum þegar þeir fara á stjá.
Þótt farið hafi verið yfir svæðið og það rissað upp eru enn að opinberast ýmsar minjar, sem ekki hafa náð athyglinni fram að þessu. Ljóst er að uppdráttur af Straumssvæðinu verður þéttdreginn minjum. Vont er til þess að hugsa að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði halda enn í þá fyrirætlun sína að gera þarna hafnarmannvirki og þurrka með því út öll sérkenni svæðisins sem og hina stórkostlegu náttúru þess.
Frábært veður.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðir vestari

Gengið var frá Straumstúninu að hlöðnu byrgjunum austast á Sigurðarhæð og kíkt á Straumsréttina áður en haldið var framhjá Brunntjörn (Urtartjörn) og vestur að Kúarétt.

Óttarsstaðir

Eldhús við Óttarsstaði vestari.

Brunntjörn er sérstök að því leyti að í henni gæti sjávarfalla, en ofan á þyngri sjónum flýtur ferskvatn. Við bakka hennar vex því ýmis sjaldgæfur gróður, sem einungis þrýfst við slík skilyrði. Þarna þarf hann að takast á við seltu og súrefni, ferskvatn og frost og hitt og þetta.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Í Kúarétt eru hleðslur. Réttin er í skjólgóðri hraunlaut með háa barma allt í kring. Rjúpa kúrði enn sem oft áður efst í barminum. Gengið var upp úr réttinni og yfir að Kotaklifsvörðu. Við hana eru gatnamót; annars vegar efri stígurinn yfir að Lónakoti og hins vegar gata niður að Miðmundarhæð. Síðarnefndu götunni var fylgt niður að Miðmundarvörðu vestast í hæðinni. Beint þar fyrir neðan, í stórum hraunkrika er Óttarstaðaréttin, falleg og vel hlaðin rétt. Innst í henni er hlaðin kró.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Gengið var áfram framhjá fjárhúsi, sem þarna stendur nokkuð heillegt og suður fyrir Óttarstaðabæina. Þar er grasi gróinn hóll, sem talið er að hafi hýst bænahús til forna. Þar við er Álfakirkjan. Skoðað var í kringum Eyðikotið og gengið austur með heillegum og vel hlöðnum garði austan Kolbeinskots. Frá enda hans var ströndinni fylgt um Jónsbúð og Þýskubúð.

Jónsbúð er dæmi um kot er óx og varð að mannvænlegum bæ. Bóndinn kom sér upp kotinu, keypti sér kind og kú, eignaðist konu og krakka, sem náðu sér í kött annað kynlegt.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Ef vel er að gáð er ýmislegt forvitnilegt að sjá í og við Jónsbúð. Brunnurinn er í tjörninni norðan við bæinn. Tóft og gerði er utan garðs að vestanverðu og ekki allfjarri er talið að maður hafi haldið til í hellisskúta um tíma.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þarna er fjölbreytilegur gróður og fuglalífið er þarna á fæti og á flugi. Á kvöldin má sjá mink stinga sér innan um þangið í fjörunni í leit að einhverju ætilegu. Handan við víkina er skemmtileg andstæða við lífríkið, álverið.
Við Þýskubúð er talið að Þjóðverjar hafi haft verslun á öldum fyrrum þótt þess sjáist ekki merki í dag. Hins vegar eru þarna ýmsir garðar og gerði frá því að síðast var búið þarna. Eiríkur Smith, listmálari, ólst upp í Þýskubúð ásamt fleiru ágætu fólki.
Haldið var yfir að strandminjunum norðan við Straum og síðan gengið yfir á austurtúnið þar sem hringnum var lokað.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot

Þegar unnið var við að bæta Straumsuppdráttinn í kringum Óttarstaði vestri á einu síðdeginu sást hvar stígur lá frá vesturtúnjaðrinum til vesturs. Stígurinn er greinilegur og varðaður að hluta. Hann liggur nokkuð ofar en gönguleiðin yfir að Lónakoti, sem er skammt ofan við sjávarkambinn.

Lónakot

Varða við Lónakotsselsstíginn.

Stígurinn liggur í gegnum gróið hraunið að stórri vörðu og þaðan að annarri mjórri vörðu nokkru vestar, sbr. meðfylgjandi mynd. Við hana er leiðin yfir að Lónakoti. Neðan vörðunnar, skammt ofan við kambinn, er sérkennilega sorfnið fjörugrjót, sbr. meðfylgjandi mynd, ólíkt því sem annars staðar er þarna á leiðinni. Þegar verið var að skoða grjótið stakk forvitinn minkur sér upp úr urðinni fylgdist vel með tvífætlingunum.
Stígurinn kemur inn á austurjaðar Lónakotstúns ofan við neðsta hraunhólinn eftir að komið er í gegnum hlið á girðingu.

Lónakot

Varða við Lónakotsselsstíginn.

Stígnum var fylgt áleiðis upp í hraunið í stað þess að halda gönguleiðina áfram neðan við hólinn eins og liggur beinast við. Lítil varða er þar sem gamli stígurinn liggur af henni upp í hraunið. Þegar túngarðinum er fylgt til suðurs má sjá gróinn stíg liggja upp í hraunið til suðausturs. Honum var fylgt að fyrstu vörðunni uppi í hrauninu. Þar beygir stígurinn til austurs í áttina að Straumi. Hann er greinilegur svo til alla leiðina.
Frábært veður.

Lónakot

Varða ofan Lónakots.

Lónakot

Gengið var frá Reykjanesbraut og haldið niður hraunið vestan fjárhúsanna ofan við Lónakot.

Lónakot

Lónakot.

Vestan girðingarinnar liggur fjárgata niður eftir gróðurlænum við hærri hraunkant. Komið var niður að efri innsiglingavörðunni. Frá henni var gengið niður á heimatúnið, sem er umlukið Lónakotsvatnagarðinum (vörslugarðinum). Gengið var framhjá hlöðnu skjóli í hraunkvos, hlöðnu gerði, garði er lokaði af dalkvos og síðan yfir garðinn er umlykur heimatúnið. Innan hans er tótt, en heimreiðin legur inn á vestanvert túnið, í gegnum þvergarð og yfir hann aftur þar sem reiðin sveigir heim að bænum.

Lónakot

Fjárskjól við Lónakot.

Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Neðar, nær sjónum er hústótt, garður og enn má sjá hluta varnargarðs á milli túnsins og sjávar. Fjaran neðan við bæinn er að hluta til sendinn. Suðvestan við bæinn er gerði, líklega matjurtargarður, en sunnan við bæjarhúsin er tjörn þar sem sjávarfalla gætir. Í vesturhorni hennar er lind þar sem ferskt vatn streymir upp á fjöru. Hlaðið er landmegin við brunnstæðið.

Lónakot

Tóft í túninu.

Nyrst á túninu eru heillegar tóttir og garðar, s.s. útvegshús og bátarétt (sem síðar varð fjárhús (Norðurfjárhúsin). Sunnar er klettahóllinn Gjögur. Ofar er sauðhústóft. Framhjá því liggur leiðin að Óttarstöðum. Suðvestan þeirra, innan garðs, má sjá fleiri tóttir. Utan garðs, landmegin, eru en fleiri tóttir, gerði í hraunlaut og stórt gerði (rétt) efst. Yfir gjá skammt suðvestan við túngarðinn er hlaðin brú. Til baka var gengið upp hraunið norðan fjárhúsanna.

Auðvelt er að sjá hvar Lónakotsselsstígur liggur upp hraunið í átt að selinu, sem er í u.þ.b. klukkustundar gang frá kotinu.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gangan niður að Lónakoti tekur u.þ.b. 20 mínútur. Svæðið hefur bæði upp á fegurð og fjölbreytileika að bjóða. Fjörugt fuglalíf er í kringum lónin. Ströndin er sendin á kafla og vestar með henni eru fallegar tjarnir á milli hárra hraunhóla.
Tækifærið var notað og uppdráttur gerður af Lónakoti til hliðsjónar ef einhver áhugasamur skyldi leggja leið sína þangað síðar.
Frábært veður.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Hér er 55 atriða listi yfir nokkra áhugaverða staði í nálægð við Reykjanesbrautina milli Hafnarfjarðar og flugstöðvarinnar í Sandgerðishreppi, sem gaman er að virða fyrir sér eða ganga að og skoða. Ef farið er frá flugstöðinni þarf ekki annað en að byrja á hæsta númerinu og feta sig upp listann. Áhugasamir geta skoðað heimildarlistann hér á síðunni og fræðst meira og betur um hvern stað en hér er hægt að koma að í stuttum texta.

Reykjanesbrautin frá Hafnarfirði:

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

1. Kapellan – Kristján skrifari – Kristján Eldjárn rannsakaði hana á sjötta áratugnum. Kapelluhraunið er frá 12. öld, þ.e. frá sögulegum tíma.

Straumur

Straumur.

2. Útfall Kaldár í Straumsvík. Kemur upp við föruborðið.
3. Fagurgerði (vinstri hönd – garðhleðslur) og minjasvæði.
4. Straumur (teiknað af Guðjóni Samúelssyni). Nú listamiðstöð Hafnarfjarðar. Svæðið neðan Straums er bæði fagurt og áhugavert (Jónsbúð, Þýskabúð, Óttarstaðir).
4. Straumsselsstígur (þvert á veginn – greinilegur vinstra megin) liggur upp í Straumssel, u.þ.b. 30 mín göngu upp hraunin.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

5. Þorbjarnastaðir (fallegt bæjarstæði, torftbær, fór í eyði á 20. öld, rétt o.fl.). Skammt norðaustan við tjarnirnar er Gerði, gamalt bæjarstæði. Í tjörninni má sjá hleðslur þar sem þvottur var þveginn. Ferkst vatn kemur þar undan hrauninu.
6. Alfararleið – gamla gatnan frá Innesjum á Útnes, sunnan Þorbjarnastaða, framhjá Miðaftanshæð, vel greinileg, Gvendarbrunnur við götuna skammt vestar. Einn af a.m.k. fjórum á Suðvesturhorninu.

Brunntjörn

Urtartjörn / Brunntjörn.

7. Urtartjörnin / Brunntjörn (gætir flóðs og fjöru, ferskt vatn ofan á, sérstakur gróður). Norðaustan hennar er Straumsréttin og norðan hennar eru þurrkbyrgi.
8. Óttarstaðaselstígur (liggur þvert á veginn – vörður). Liggur upp í Óttarstaðasel, framhjá Óttarstaðarborg (Kristrúnarborg). Gatan upp í selið hefur stundumverið nefnd Skógargata og Rauðamelsstígur. U.þ.b. 30 mín gangur er upp í selið. Umhverfis það eru fjárskjól, nátthagi og fleiri mannvirki.
9. Fornasel, Gjásel, Straumsel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru örfá af um 140 sýnilegum seljum á Reykjanesskaganum. Stígur liggur á milli þeirra (um 20 mín gangur milli selja – Gjásel og Fornasel eru nyrst og styst á milli þeirra).

Lónakot

Lónakotsbærinn.

10. Lónakot (lónin, mjög fallegt svæði. Hraunsnesið vestar – minjar). Vestan við Lónakot eru minjar selsstöðu og fjárskjól.
11. Lónakotsselstígur (vinstra megin). Fjárskjól skammt frá veginum hægra megin. Stígurinn liggur upp í selið, u.þ.b. 30 mín gangur.
12. Kristrúnarborg (Óttarstaðaborg). Fallega hlaðin fjárborg, en af 76 á Reykjanesskaganum).
13. Virkishólar (Virkið, notað til hleypinga áður fyrr).
14. Loftskútahellir (fallega hlaðið skjól vinstra megin, m.a. nota til að geyma rjúpur við veiðar).

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

15. Gömul hlaðin rétt (norðan undir hól hægra megin við gamla veginn áður en komið er að nýrri timburréttinni við Hvassahraun (gegnt bragganum)
16. Hjallhólsskúti (hægra megin – svolitlar hleðslur fyrir skúta, nota m.a. til að geyma fisk).
17. Hvassahraun (hægra megin, gömul byggð og ný). Margar minjar ef vel er skoðað.
18. Hvassahraunsselsstígur (vinstra megin, ógreinilegur fyrst, en sést betur er ofar kemur). Hvassahraunssel í u.þ.b. 20 – 30 mínútna fjarlægð frá veginum eins og mörg seljanna á þessu svæði. Mannvirki.
19. Vatnsgjárnar (fast við veginn vinstra megin, notaðar til þvotta).

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamel.

20. Sérkennileg hraundrýli á Strokkamelum (vinstra megin, einhver verið skemmd, einstakt náttúrufyrirbæri, gasuppstreymi).
21. Brugghellir (vinstra megin, getur verið erfitt að finna, þarf að síga ofan í, hleðslur).
22. Hleðslur (hægra megin, vestan við Fögruvík, líklega rétt eða hluti að borg, að mestu skemmd).
23. Afstapahraun (eitt af 2-15 hraunum á Reykjanesi, sem rann á sögulegum tíma. Í þeim eru Tóurnar svonefndu, en neðst í þeim eru gamlar fyrirhleðslur, sem námur hafa gengið mjög nærri). Í efstu tóunni, Hrístóu, eru greni og refabyrgi. Upp úr þvíliggur stígur áleiðis upp í Búðarvatnsstæðið.
24. Kúagerði (forn áningastaður. Sumir segja að þar undir hrauninu hafi bærinn Akurgerði verið, en farið undir hraun. Þarna er a.m.k. gamall kúahagi).

Alemmningsvegur

Almenningavegur.

25. Almenningsleiðin (hægra megin, framhald af Alfararleiðinni). Stundum nefnd Menningsleið eftir að misritun varð í ritun prests á Kálfatjörn og forskeytið datt út. Liggur áleiðisút á Vtnsleysuströnd og síðan ofan byggðar út í Voga
26. Vatnaborgin (vinstra megin). Hleðslur og fornt vatnsstæði. Nú alveg við veginn.
27. Hafnhólar (tveir, annar með mastri). Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu. Á túnin á Stóru Vatnsleysu er einn af mörgum letursteinum á Reykjanesskaganum.
28. Bræður (vörður vinstra megin, við Flekkuvíkurselstíginn, refabyrgi o.fl).

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

29. Flekkavíkursel (Lagðist af í lok 19. aldar). Hleðslur og mannvirki.
30. Staðarborg (Hægra megin, sést vel – endurgerð fjárborg ofan Kálfatjarnar).
31. Þórustaðastígur (liggur frá Þórustöðum, austan við Keili, um austanverða Selsvelli og upp á Vigdísarvelli). Neðan Reykjanesbrautar er m.a. Þórustaðaborgin, sem stígurinn liggur framhjá.
32. Þyrluvarðan (hæga megin við veginn. Minnisvarði um fimm látna menn í þyrluslysi 1965.

Hringurinn

Fjárborgin Hringurinn.

33. Hringurinn (hægra megin, sést á einum stað, hlaðinn fjárborg, ein af a.m.k. 6 fjárborgum hægra megin við veginn á Vatnsleysustöndinni).
34. Hlaðin refagildra (vinstra megin). Ein af 23 hlöðnum refagildrum á Reykjanesi.
35. Breiðagerðisslakki (vinstra megin). Brak úr þýskri orrustuflugvél, sem skotin var niður í síðari heimstyrjöldinni. Fyrsti fanginn, sem ameríkar náðu í styrjöldinni, að talið er.
36. Knarrarnessel og Breiðagerðissel (vinstra megin). Gróðurflettir uppi í heiðinni eru yfirleitt gömul sel. Sprungur og gjár og varhugavert að fara um um vetur.
37. Fornasel eða Litlasel (vinstra megin). Gróinn hóll, Gamalt sel stutt frá veginum. Mörg sel eru uppi í heiðinni, s.s. Vogasel, Brunnastaðasel, Gjásel, Knarrarnessel og Auðnasel.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

38. Hrafnagjá (vinstra megin). Falleg gjá sem nær frá Stóru Vatnsleysu langleiðina að Snorrastaðatjörnum sunnan Háabjalla, trjáræktunarsvæði Vogafólks.
39. Við Snorrastaðatjarnir er Snorrastaðasel og Nýjasel.
40. Pétursborg á Huldugjá (vinstra megin, sést í góðu veðri). Gjárnar (misgengin) mynda stalla í heiðinni, s.s. Aragjá og Stóra Aragjá. Undir veggjunum eru gömul sel. Sum enn ofar, s.s. Dalsel í Fagradal við norðausturhorn Fagradalsfjalls. Þarna sést líka Kálffell. Í því er Oddshellir og mannvirki þar í kring.
41. Skógfellavegur (merktur vinstra megin). Gömul leið milli Voga og Grindavíkur, u.þ.b. 16 k, löng. Klappaður í bergið milli Skógfellanna.
42. Arnarklettur (vestan tjarnarinnar). Landamerki Grindavíkur, Voga og Njarðvíkur.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

43. Stapinn (hægra megin). Reiðskarðið á gömlu götunni og Stapagata til Njarðvíkur. Undir Stapanum er tóftri Brekku, Stapabúðir, Hólmabúð og Kerlingabúð (með elstu minjum á Reykjanesi).
44. Gamli Hreppskartöflugarðurinn (hleðslur hægra megin).
45. Gamli Grindarvíkurvegurinn (byrjað að gera 1913 á Stapanum og var lokið 1918). Mörg mannvirki vegagerðarmanna má sjá við Grindavíkurveginn.
46. Gömul varða skammt norðan við gamla veginn, á hærgi hönd (sennilega landamerkjavarða).
47. Tyrkjavörður (merkilegt smávörðukaðrak hægra megin á holti).
48. Grímshóll (hægra megin, við Stapagötu). Hæsti punktur á Stapanum. Þjóðsaga.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

49. Stúlknavarðan (vinstra megin). Varða skammt frá veginum. Ártal hoggið í undirstöðuna. Saga tengist vörðunni.
50. Skipsstígur. Gömul þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Falleg leið. 18 km. Greinist í Árnastíg við Rauðamel eftir 6 km göngu.

Stóri-Krossgarður

Stóri-Krossgarður.

51. Stóri Krossgarður (vinstra megin, nálægt veginum). Miklar hleðslur í kross.
52. Rósasel (hægra megin) við Rósaselsvötn. Tóft nálægt veginum.
53. Gamla gatan (norðan við Hringtorgið) milli Sandgerðis og Keflavíkur. Sést vel. Skammt frá eru tvær fjárborgir.
54. Melabergsgata (Hvalsnesgata) liggur hægra megin vegarins áleiðisút að flugstöð. Sést vel liðast um móana áleiðis niður að Melabergi.
55. Hleðslur (vinstra megin) frá stríðstímum. Vallarsvæðið ekki skoðað að fullu. Innan þess eru þó mannvirki, sem hafa varðveist.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

FERLIR stendur fyrir Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Markmiðið er að gefa áhugasömu fólki kost á að hreyfa sig í fallegu og krefjandi umhverfi. Einnig að kynna sér nágrennið, afla upplýsinga um minjar og merkilega staði, sem skrifað hefur verið um eða getið er um, leita að þeim, skrá og jafnvel mynda og/eða teikna upp minjasvæði. Höfum fundið flest það sem við leituðum að. Við byrjuðum fyrir nokkrum árum að ganga um Reykjanesskagann vestan Suðurlandsvegar og síðan höfum við farið um 700 ferðir í þessum tilgangi. Hver ferð er skráð og þess helst getið hvað er skoðað hverju sinni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Hingað til hefur hópurinn haldið sig við Reykjanesskagann. Eigum önnur svæði til góða. Í ljós kom við aukna þekkingu hvað maður vissi í rauninni lítið. Og því meira sem maður kynnti sér svæðið því betur kom í ljós hin miklu verðmæti sem svæðið hefur upp á að bjóða. Auk þess að um er að ræða einn yngsta hluta landsins (12-15 hraun hafa runnið á skaganum á sögulegum tíma) þá eru þar einstaklega falleg útivistarsvæði og merkileg minjasvæði er segja fólki fjölmargt um líf, búskapar- og atvinnusögu þjóðarinnar frá upphafi.

Leiðarendi

Leiðarendi.

Skoðaðir hafa verið um 600 hella og hraunskjól, sum með mannvistarleifum, 400 gömul sel, tæplega 90 letursteina, suma mjög gamla, tæplega 90 fjárborgir, 140 brunna og vantsstæði, 140 gamlar þjóðleiðir, vörður með sögu, fjölda tófta, sæluhúsa, nausta, vara o.s.frv. o.s.frv. Reykjanesið er það fjölbreytilegt og margbrotið að enn höfum við ekki skoðað allt sem það hefur upp á að bjóða. Auk þess er þetta allt það nálægt að óþarfi hefur reynst að leita annað. Við göngum jafnt um sumar sem vetur. Hver árstíð býr yfir sínum sjarma og litbrigðum, sem sífellt breyta umhverfinu.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Í dag sér fólk síst það sem er næst því. Allt of margir leita langt fyrir skammt. Reykjanesið hefur upp á allt að bjóða, sem þarf til hreyfings og útivistar. Hins vegar vantar fólk upplýsingar og hvatningu til að nýta sér það. Um 200.000 manns búa á eða við svæðið. Þú mætir fleirum á göngu upp á hálendinu en á því, hvort sem um er að ræða sumar eða vetur. Það er í sjálfu sér ágætt að fólk nýti sér aðra landshluta, en það er líka óþarfi að gleyma að líta sér nær þar sem aðstæðurnar eru fyrir hendi. Það er sagt í ferðabók árið 1797 að ekkert merkilegt væri að sjá á Reykjanesi. Það væri ömurlegt á að líta. Þeir sem kynnst hafa svæðinu líta á það öðrum augum. Þar er fegurðin og sagan við hvert fótmál.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Það er alltaf einhverju fórnað þegar vegur er lagður. Margar óafturkræfar minjar og mörg falleg svæði hafa verið eyðilögð við slíkar framkvæmdir í gegnum tíðina. Grindavíkurvegurinn er gott dæmi um hirðuleysi gagnvart minjum. Hann var lagður á þeim tíma er nánast ekkert tillit var tekið til minja. Þó má, ef vel er að gáð, sjá merki vegagerðarmanna er lögðu fyrsta veginn í byrjun 20. aldar á a.m.k. 12 stöðum við veginn, sum allvegleg.
En á seinn árum hefur skilningur manna breyst í þeim efnum, sem betur fer.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Fulltrúar Vegagerðarinnar eru t.d. mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að raska eins litlu og mögulegt er við vegalagninu án þess að draga úr öryggi. Þess hefur greinilega verið gætt að skemma eins lítið og nokkur var kostur þegar nýrri hluti Reykjanesbrautarinnar var lagður. Að vísu er gengið nærri stöðum, s.s. hraunkötlunum við Hvassahraun og Afstapahrauni. Gömlu selstígarnir og gamla þjóðleiðin hefur verið skemmt að hluta, s.s. í Hvassahrauni, en umferðin krefst fórna líkt og virkjanir eða önnur mannanna verk. Hjá því verður seint komist. Góður skilningur og athafnir þeirra sem ráða, skiptir því miklu máli þegar vegaframkvæmdir eru annars vegar. Ástæða er þó að hafai áhyggjur af svonefndum Suðurstrandarvegi, en honum er ætlað að liggja um stórbrotna náttúru og mörg minjasvæði.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Reynt hefur verið að vekja athygli á mikilvægi þess að skrá og merkja minjar og minjastaði. Bæði til að vernda minjarnar og gera þær aðgengilegar almenningi. Fólk þarf að vita hvar á að leita og hvað það er að skoða á hverjum stað. Minjar eru ígildi skrifaðra handrita. Hver og ein segir sitt. Margar saman segja heilstæða sögu. Letursteinn á Stóra-Hólmi segir söguna af smalanum, sem veginn var og dysjaður. Dysjar Herdísar og Krýsu er vitnisburður um þjóðsöguna. Sama á við um dysjar Ögmundar í Öghmundarhrauni, Þórkötlu og Járngerði í Grindavík. Ræningjastígur í Hælsvík segir af ferðum Tyrkjanna í Krýsuvík. Hlínarvegur frá Ísólfsskála til Krýsuvíkur segir frá vegagerð. Selstígarnir gömlu þvert á Reykjanesbrautina eru til vitnis um gamla búskaparhætti. Gömlu þjóðleiðirnar segja til um ferðir fólks fyrr á öldum. Margar sögur eru tengdar þeim ferðalögum, hvort sem farið var á milli byggðalaga eða í verið. Svona mætti lengi telja.

Alfaraleið

Alfaraleiðin.

Gaman er að velta fyrir sér þróun gatna og vegagerðar á þessari leið. Til fróðleiks fyrir fólk mætti gera Alfarar- og Almenningsleiðina skýrari, a.m.k. að hluta, og hlífa kafla af gamla Keflavíkurveginum, t.d. þar sem fyrir eru fallegar kanthleðslur. Gott dæmi um fyrstu endurbætur á gömlu þjóðleiðinum er á Skipsstíg í Illahrauni ofan við Grindavík. Hlínarvegur frá Ísólfsskála um Mjöltunnuklif er annað dæmi. Slíkir bútar eru ómetanlegir.
Þegar fólki er sýnd Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin á milli Innesja og Útnesja finnst því yfirleitt mikið til koma. Gatan er klöppuð í bergið undan hófum, klaufum og fótum liðinna kynslóða. Slík merki ber okkur að virða.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókavarða (minnismerki) fremst.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þorbjarnastaðarborg

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog. Hætt hefur verið við hleðsluna í miðja kafi því með henni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring.
Varða er á holtinu sunnan borgarinnar. Frá henni eru vörður í suðaustur og einnig til suðvesturs, að Fornaseli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Þegar þeim er fylgt í u.þ.b. 15 mín. er komið að uppréttum steini í vörðu, sem stendur hátt á kletti. Norðvestan hans er Fornasel. Þarna eru nokkrar tóttir, sumar frá því um 1500.
Aðaltóttin er hæst á hæð og við það gott vatnsstæði. Þá eru tóttir bæði norðan og vestan við aðaltóttina. Stekkur er í lægð sunnan við hana. Einnig er að sjá að nálæg jarðföll hafi verið notuð í tenglsum við seljabúskapinn.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Í norðvestur frá Fornaseli, í ca. 15 mín., er Gjásel. Það er einnig á hól skammt utan við skógræktargirðinguna. Breið varða er á hól norðaustan selsins. Það er nokkuð stór tvískipt tótt og er vatnssvæðið þétt norðvestan við hana. Það þornar í þurrkum. Norðan selsins, undir hraunhól, er hlaðinn stekkur undan skúta. Ef gengið er frá vörðunni norðaustan selsins sjást vörður í norðaustri. Næsta er á sprungubarmi og önnur á hól. Frá henni sést vel yfir að veginum í gegnum skógræktarsvæðið og því auðvelt að fylgja honum til baka að upphafsreit. Hraunið þarna er mjög gróið og því mikilvægt að fylgja hæðum og gæta þess að fara ofan við skógræktina sjálfa þegar þegar gengið er á milli seljanna.
Frábært veður.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðasel
Gengið var frá Rauðamel að fjölfarinni Alfaraleiðinni á milli Innesja og Útnesja. Henni var fylgt að Gvendarbrunni, einum þeirra mörgu brunna, sem Guðmundur góði vígði í sinni tíð.
Norðvestan brunnsins er Gvendarbrunnshæð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðafjárskjól.

Sunnan í því er ónefnt fjárskjól frá Óttarsstöðum, hlaðið fyrir skúta. Skammt vestan brunnsins var beygt s Óttarstaðaselsstíg. Önnur nöfn á stígnum eru Skógarstígur og Raftastígur (og stundum Rauðamelsstígur). Skömmu eftir að komið fyrir sporðinn á Selhrauni þegar yfir línuveginn var komið, var beygt út af honum til vesturs með fallegum hraunhól. Gengið var inn í stóra sprungu og síðan inn eftir henni þangað til komið var að stóru jarðfalli. Þar blasti við mikil hleðsla fyrir víðum skúta. Haldið var upp úr jarðfallinu og beygt til norðvesturs.

Brennisel

Brennisel.

Eftir stutta göngu yfir tiltölulega gróið hraun var komið upp á hraunhól. Norðan hans var jarðfall og í því mikil vegghleðsla, algerlega heil. Utar er hleðsla fyrir skúta, en í miðju jarðfallinu er greinileg tótt. Hún sést ekki yfir sumarið því birkið vex svo til alveg yfir hana og yllir jarðfallið. Þarna er sennilega um Brennisel að ræða, sem gamlar heimildir eru til um. Það var sel notað til kolagerðar, en ofar í Almenningunum var hrístaka svo til allra bæja með ströndinni, allt fram á 19. öld. Ef vel er leitað þarna skammt norðar má finna enn eldra og líklegt kolasel, í lægð við hraunhól. Hleðslurnar eru vel mosavaxnar og erfitt að greina þær, en tótt er enn greinileg handan við hleðslurnar. Sama er að segja um þetta sel og hið fyrra, gróðurinn þekur það nú alveg yfir sumartímann.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Sunnan Brennisels er mikill krosstapi, sennilega þriðji Krosstapinn á þessu svæði, sem getið er um. Hann ber heitið Álfakirkja. Í honum norðanverðum er fjárhellir með hleðslum fyrir munna. Ef haldið er til austurs frá Álfakirkjunni, að Óttarsstaðaselsstíg og honum fylgt spölkorn til suðurs má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við jarðfall og neðan hennar eru vandlegar hleðslur fyrir skúta. Hann er lágur mjög en víður um sig. Hrísrunni vex fyrir opið og því er mjög erfitt að komast að honum yfir sumartímann.

Óttarsstaðasel

Meitlaskjól.

Nokkru sunnar eru Meitlarnir, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Þetta eru greinileg fjárskjól í hlofnum hraunhólum vestan stígsins (Meitlaskjól). Rétt eftir að gengið er yfir Stóruhæðir og skömmu áður en komið er upp úr litlu dalverpi við svonefnda Meitla og í Óttarsstaðasel má sjá lítinn fjárhelli vinstra megin við stíginn, Meitlahelli eða Meitlaskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og framan við opið. Líklega hafa þær verið notaðar sem kví því þarna er gott skjól fyrir suðaustanáttinni. Óttarsstaðasel eru rústir tveggja seljahúsa og snúa þau göflum saman. Aðrar dyrnar hafa snúið í austur og hinar í vestur. Göng og tvær vistarverur hafa verið í hvoru húsi. Í seljum á Reykjanesskaga voru vistarveran venjulega með sama inngang og búr eða geymsla, en eldhúsið til hliðar með sérinngangi.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Vatnsstæðið er rétt hjá tóttunum í austur. Í vestur er hraunhryggur og vestan í honum er stórt fjárskjól með miklum hleðslum. Vel má greina hlaðinn stekk sunnan við selið og sunnan þess er greinilegur nátthagi.
Í litlum skúta suðvestan við vatnsstæðið er einnig gott vatn að finna. Þar vestan við er Þúfuhóll og Þúfhólsskjól vestan í honum. Hjá hólnum liggur Rauðhólastígur að Tóhólum og Rauðhól. Í Tóhólum er Tóhólahellir og í Rauðhól er Rauðhólshellir. Stígurinn liggur síðan um Skógarnef yfir á Mosana hjá Bögguklettum um Dyngnahraun, hjá Lambafellunum að Eldborg, um Jónsbrennur undir Trölladyngju að Höskuldarvöllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Annar Mosastígur liggur frá Óttarsstaðaselsstíg norðan við Bekkina áleiðis upp í Skógarnef. Þá götu fóru Hraunamenn er þá vantaði mosa til eldiviðar.
Vestan við Óttarsstaðarsel, í uþ.b. 15 mín. fjarlægð, er Lónakotssel. Í því eru þrjár byggingar. Auk Lónakotssels voru þar sel frá tveimur hjáleigum Óttarstaða, Eyðikoti og Kolbeinskoti. Austan við Óttarsstaðasel, í u.þ.b. 20 mín. fjarlægð, er Straumssel. Þar var búið fram á miðja 19. öld, eða þangað til bærinn brann. Enn austar eru gömul sel frá Þorbjarnarstöðum, Gjásel og Fornasel. Nýlega var grafið í tvær tóttir þess síðarnefnda og kom í ljós að þær voru frá 1500-1600.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Tóftir Óttarsstaðasels.

Kaldársel

Farið var í fylgd Jóns Bergs um Álftanesið, Kaldársel, Vatnsleysuströnd og Grindavík. Jón er hafsjór fróðleiks, hvort sem um er að ræða jarðfræði, verkfræði, sögu, náttúru, landamerki eða annað.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata – Jón Bergs.

Skoðaður var Skjónasteinninn á Hliði og forn steinbrú yfir Skógtjörnina, frá Görðum að Bessastöðum. Jón sýndi fram á nytsemi blaðfífilsins, en hann, ásamt njólanum, var fluttir inn af Dönum til neyslu á sínum tíma við takmarkaðan áhuga landans. Hvorutveggja er tiltölulega auðvelt að matreiða með góðu móti.
Staðnæmst var við staðinn þar sem Hraunréttin var í Gráhelluhrauni (nú horfin) og við brunninn þar sem vatnið úr gömlu vatnsleiðslunni frá Kaldárbotnum rann niður í hraunið austast í Sléttuhlíð, og áfram niður í Lækjarbotna.
Gengið var um Kaldársel, skoðaður gamli selsstaðurinn, landamerkin og gengin gamla þjóðleiðin að staðnum. Hún er klöppuð ofan í bergið á kafla, skammt austan Nátthaga.
Jón lýsti vegagerð og akstri um Vatnsleysuströndina sem og eftir gamla Grindavíkurveginum. Staðnæmst var í byrgjunum við veginn á Gíghæð. Eitt byrgi til viðbótar fannst í þessari ferð.
Farið var í gegnum Grindavík og því lýst sem fyrir augu bar.
Fróðleikur úr ferðinni verður nýttur í aðrar leiðarlýsingar – eftir því sem við á.

Gíghæð

Gamli Grindavíkurvegurinn um Gíghæð vestan Arnarseturs – uppdráttur ÓSÁ.