Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hraunagata

Um Hraunin milli gömlu götunnar millum Innnesja og Útnesja, Alfaraleiðar, og strandar virðist hafa legið gata, nefnd Hraunagata og Hraunavegur. Hún er enn greinileg og vörðuð á stuttum köflum, en í heild er gatan torlæs – nema þeim er lesninguna kunna.
HraunagatanVið götuna eru, ef vel er að gáð, mannvistarleifar á báðar hendur. Gatan virðist hafa legið milli Straums/Óttarsstaða og Hvassahrauns, neðan Sjónarhóls, Brunnhóls og Grænhóls.
Í fyrri ferð um svæðið þar sem gatan var rakin fram og til baka frá Straumi að Lónakotssvæðinu vestanverðu höfðu komið í ljós hnökrar á framhaldinu. Í stað þess að leita sunnar í hrauninu var ákveðið að fara norðar, þ.e. með stefnu niður fyrir Grænhól. Það leiddi til hringferða um hraunið neðanvert. Áður en þetta var gert hafði verið hlaðin lítil varða þar sem gatan virtist áður enda.
Nú var gatan hins vegar rakin frá Hvassahrauni áleiðis yfir að Lónakotssvæðinu. Fljótlega lá fyrir hvar Hraunagatan lá í klapparmóanum. Vísbendingar í litlu vörðuformi gáfu og leguna til kynna. Víða mátti sjá hófmarið grjót, sérstaklega í klapparþrengslum.
HraunagatanHraunagatan liggur fyrir norðan Skyggni með svo til beina línu yfir hraunið að Straumi. Í stað þess að beygja norður fyrir Grænhól lá gatan nokkuð sunnan hans. Þegar austur fyrir hólinn var komið beygði hún til norðvesturs – með stefnuna á vörðuna, sem fyrr hafði verið hlaðin á „endamörkum“ fyrri ferðar. Í stað þess að halda beint áfram þar eða beygja til hægri átti að beygja nánast 75° til vinstri. Hefði það verið gjört mátti auðveldlega fylgja götunni heim að Hvassahrauni.
Líklegt má telja að Hraunagatan hafi að mestu verið farin af heimafólki og kunnugum í Hraununum. Aðrir hafa farið Alfaraleiðina, sem er nokkuð sunnar (ofar) í hrauninu.
Segja má að með opinberun Hraunagötunnar hafi enn ein hinna gömlu þjóðleiða bæst í félagsskap þeirra, sem fyrir voru. Það að götunnar hefði verið getið í örnefnalýsingum hefur gert að verkum að hennar var leitað. Fundurinn verður vonandi til þess að fólk nýti sér Hraunagötuna til ánægjulegra gönguferða á komandi árum og áratugum. Leiðin eftir henni á milli Straums og Hvassahrauns er u.þ.b. 1 klst og 30 mín gangur á eðlilegum gögnuhraða.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum, Óttarsstaði, Lónakot og Hvassahraun.

Klettaborg

.

Leiðarendi

Hellaferð í Leiðarenda er spennandi ferð fyrir ævintýraþyrsta hópa. Hentar vel eftir vinnu eða sem hluti af lengri ferð. Hellirinn er aðeins í u.þ.b. 10 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.
Skilti í LeiðarendaEinn slíkur, samsettur af fólki á öllum aldri, fór í Leiðarenda nú eitt síðdegið. Í ljós kom að Árni Stefánsson er kominn langt með að ganga þannig frá varnargirðingum og merkingum að draga megi úr líkum á að dropsteinum og öðrum listaverkum náttúrunnar verði raskað af gáleysi. Hins vegar er hægt að skemma alla hluti, ef vilji er til slíks. Hafa ber þó í huga að dropsteinar í hellum njóta verndunarákvæða skv. gildandi reglum um friðlýsingu dropsteina.
Hraunbreiður Íslands geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellum er að finna einstakar jarðmyndanir, s.s. dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Allt þetta hefur Leiðarendi í Tvíbollahrauni upp á að bjóða. Í nýju Hellahandbók Björns Hróarssonar segir að hellirinn sé um 180 metra frá Bláfjallavegi, í Stórabollahrauni. Tvíbollahraunið er ofan á því. Alls er hellirinn er um 900 m langur, greiðfær og aðgengilegur.
Stórabollahraun er u.þ.b. 2000 ára gamalt og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Brýnt var því sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema myndir.
Áður en Árni hóf störf sín í hellinum fór hann þangað með stjórn Reykjanesfólkvangs. Nota átti tækifærið að skoða hellinn og ræða um leið ástand og aðgerðir við hraunhella í fólkvanginum. Árni var einn þeirra, sem fyrstur kannaði Leiðarenda árið 1991. Þá var hellirinn algerlega ósnortinn, en þótt ekki séu liðin mörg ár hafa ýmsar dásemdir hans verið eyðilagar og jafnvel fjarlægðar, s.s. langir dropsteinar.
Árni sagðist sjá verulegan mun á hellinum frá því sem var. Margir háir og fallegir dropsteinar hafa verið brotnir, sömuleiðis hraunstrá, hraundellur og -rósir. Þá hefur verið þreifað á viðkvæmum bakteríumyndunum á veggjum. Hann sagði þó enn vera mikið heillegt til að varðveita fyrir áhugasamt hellafólk. Hafði hann þegar lagt drög að áætlunum um tilteknar ráðstafanir inni í hellinum sjálfum svo draga megi úr líkum á frekari skemmdum – og um leið auka áhuga og aðgengi að hellinum. Í þær framkvæmdir réðist hann svo í s.l. vetur og vor.

Verndargirðing í Leiðarenda

Árni hefur komið fyrir skiltum og gert ýmsar varnaraðgerðir inni í hellinum og sett upp eftirmyndir tveggja stórra dropasteina, sem nú eru horfnir, á þeim stöðum þar sem þeir voru. Á annarri eftirmyndinni af hinum stóru dropsteinum, sem fjarlægðir hafa verið úr hellinum, stendur þetta: „Brotinn 02.04.-23.06.2007“.
Þá hefur Árni límt upp þá dropsteina, sem brotnir hafa verið, en brotin skilin eftir á staðnum. Upplýst skal hér að dropsteinar eru einungis fallegir þar sem þeir eru fæddir á eða undir hellisþakinu. Um leið og búið er að bera þá út úr hellinum breytist mikilfengleiki þeirra í eftirsjá. Skyldu framangreindir dropsteinar t.d. nú vera notaðir einhvers staðar sem stofustáss? Áreiðanlega ekki. Líklega hefur gerandanum þegar hefndst fyrir því skv. þjóðsögunni hvílir bölvun á hverjum þeim er raskar minjum, þ.m.t. náttúruminjum, auk þess sem líkt er refsivert skv. lögum mannanna.
Hafa ber í huga að vitleysingjar hafa alltaf verið til og þeir munu verða til. Spurningin er hvort girðingar munu duga til að hindra skemmdarfíkn þeirra? Langflestir hellagestir ganga þó vel um og þannig á það líka að vera!
Til dropsteinamyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar sem hanga niður úr hellisþökum og standa upp úr gólfum. Með auglýsingu nr. 120/1974 voru dropsteinar í öllum hellum landsins friðlýstir. Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir.
Auglýsingin um friðlýsingu dropsteina hljóðar svo: „Samkvæmt heimild í 23. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið, fyrir sitt leyti, að lýsa dropsteina í hellum landsins náttúruvætti.  Tekur friðlýsing þessi til allra hella landsins.
Til dropsteinsmyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar, sem hanga niður úr hellisþökum og niður með hellisveggjum, svo og dropsteinskerti, sem standa á hellisgólfum og syllum hellisveggja.

Hraunrós girt af

Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.  Felld eru úr gildi eldri ákvæði um vernd dropsteina.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Í menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.“
Í bæklingi, sem Slysavarnarfélagsið Landsbjörg gaf út í samvinnu við Hellarannsóknarfélagið, HELLASKOÐUN – FORVARNIR OG UPPLÝSINGAR, segir m.a. um umgengni um hellana o.fl.:
Hellaskoðun – Að skoða hella er áhugaverður kostur fyrir útivistarfólk og gefur alveg nýja sýn á íslenska náttúru. Til að fá sem mest út úr hellaskoðun þarf að Lagfærður dropsteinn í Leiðarendaundirbúa ferðirnar vel, vera með réttan búnað og rétt hugarfar. Ef undirbúningurinn er ekki góður þarf ekki mikið til þess að eitthvað fari úrskeiðis og ekki auðveldar það aðstæðurnar ef maður er fastur ofan í helli.
Ferðaáætlun – Hellar eru oftar en ekki í afskekktum hraunum þar sem fáir eru á ferli og fáir þekkja til. Ef eitthvað kemur upp á þarf að vera hægt að finna viðkomandi og spilar ferðaáætlunin þar stórt hlutverk. Hana þarf alltaf að skilja eftir hjá nánustu aðstandendum.
Búnaður – Mjög mikilvægt er að hafa með sér réttan búnað þegar skoða á hella en hann getur tryggt að við komum heil heim. Þegar farið er ofan í helli er góð regla að skilja eitthvað með áberandi lit eftir uppi á yfirborðinu. Það getur flýtt verulega fyrir ef leita þarf að fólki. Ef um óþekktan helli er að ræða er þetta enn mikilvægara.
Hjálmur – Mikilvægt er að hafa hjálm við hellaskoðun. Í hellum er svo til engin veðrun og grjótið getur verið oddhvasst.
Skór – Góðir gönguskór eru mikilvægir. Yfirleitt er ferðin að hellinum yfir ójafnt hraun og ofan í hellum er oft stórgrýti sem klöngrast þarf yfir. Stífir gönguskór sem styðja vel við ökkla koma í veg fyrir óþarfa slys.
Ljós – Í hellum er algert myrkur. Eina ljósið sem þangað kemur er það sem gestir hafa með sér. Ekki þarf mikið til að pera í vasaljósi skemmist og svo er alltaf hætta á að rafhlöður tæmist. Hver hellafari ætti því að hafa minnst tvö ljós, auka rafhlöður og perur. Mjög gott er að hafa ljós á hjálminum til að hafa hendur frjálsar til að geta stutt sig við gólf eða veggi við erfiðar aðstæður. Kerti og kyndlar eru ekki æskilegir ljósgjafar í hellum, auk þess sem þeim fylgir óþrifnaður.
Fatnaður – Hitastig í hellum er í flestum tilvikum 1-4°C, sama hvaða árstími er. Þótt úti sé sólríkur sumardagur þarf að gera ráð fyrir köldu og röku loftslagi hellisins. Ofan í hellum er síðan oft aur, bleyta og hvasst grjót og jafnvel þótt ekkert hafi rignt undanfarna daga getur dropað mikið úr loftinu þannig að auðvelt er að blotna í gegn. Hlífðarfatnaður getur því verið mjög gagnlegur.
Lambið í Leiðarenda verndaðHanskar – Gott er að hafa góða hanska til að verja hendur fyrir hvössu grjóti.
Fjarskipti – Ekkert fjarskiptasamband er í hellum. Mikilvægt er að hafa það í huga þar sem ekki er hægt að treysta á neinn nema góðan ferðafélaga ef eitthvað kemur upp á.
Hættur – Hellar geta verið mjög hættulegir yfirferðar ef ekki er farið gætilega og rétt að hlutunum.
Ís í hellum – Á veturna og vorin geta hellar verið algjörlega ófærir vegna íss. Þetta á sérstaklega við um þá hella þar sem mikið vatn dropar úr lofti.
Grjóthrun – Hrun í hellum á meðan á heimsókn stendur er sjaldgæft. Það hrun sem fólk sér í hellum er yfirleitt frá því að hellirinn myndaðist og hraunið var að kólna. Jarðskjálftar eiga einhvern þátt í hruni en það er einnig sjaldgæft. Líklegast er að hrun geti verið við hellismunna eða rétt fyrir innan hann þar sem áhrifa frosts og þíðu gætir helst.
Laust grjót – Þegar farið er um hella er oft lauslegt grjót sem hangir í lofti eða í og við veggi. Þetta grjót ætti að láta alveg í friði. Ef hreyft er mikið við grjóti, sérstaklega í lofti, er auðvelt að koma af stað hruni.
Eftirmynd dropsteins, sem fjarlægður varUmgengni – Að heimsækja hella krefst bæði aga og virðingar fyrir náttúrunni. Mörg dæmi eru um að fallegir hellar hafi verið skemmdir í gegnum tíðina en þar hefur rangt hugarfar oftast stjórnað gjörðum fólks.
Viðkvæmar hraunmyndanir – Dropsteina er að finna í mörgum íslenskum hellum. Þeir standa á gólfi og syllum og geta verið í öllum stærðum og gerðum. Dropsteinar eru viðkvæmir og geta auðveldlega brotnað séu þeir snertir og ber því að forðast það. Brotna dropsteina má alls ekki fjarlægja úr hellum. Hraunstrá er einnig hægt að finna
í mörgum hellum. Þau hanga niður úr loftinu, eru hol að innan og þola alls ekki snertingu. Ýmsar aðrar viðkvæmar myndanir er líka að finna í hellum. Oft myndast bekkir þar sem hraun hefur runnið lengi. Þeir eru oft þunnir og það má alls ekki setjast eða stíga á þá. Þunnur glerungur myndast stundum á gólfum og molnar auðveldlega undan skóm. Reynið að ganga til hliðar við þess konar svæði.
Rusl – Því miður hefur safnast mikið rusl í marga þekktari hella landsins í gegnum tíðina. Takið allt rusl með ykkur út úr hellinum sem þið eruð að skoða og ef þið sjáið rusl eftir aðra, vinsamlegast takið það líka með.
Kerti og kyndlar – Kerti og kyndlar eiga ekkert erindi inn í hella. Kertin skilja eftir mikinn sóðaskap þegar vax slettist niður og kyndlar geta bæði skemmt hella og verið hættulegir fólki. Þegar kyndlar brenna kemur af þeim bæði reykur og sót. Sótið sest á myndanir hellisins og reykurinn getur verið fólki hættulegur, sérstaklega innarlega í hellum þar sem loftstreymi er lítið.“
Á skiltum inni í Leiðarenda má m.a. lesa eftirfarandi: 1. Hellirinn myndaðist við eldgos fyrir um 2000 árum. Minjar hellisins hafa gildi fornminja. 2. Gefið ykkur tíma til að aðlagast myrkrinu. 3. Notið góð ljós, helst höfuðljós. 4. Flýtið ykkur hægt, sýnið aðgát. 5. Horfið og njótið. 6 Ekki snerta og ekki taka myndanir, hvorki brotnar eða óbrotnar. 7. Leyfið beinum lambsins að hvíla í friði. 8. Ekki snerta slím á veggjum í efri enda hellisins. 9. Ekki snerta loft þar sem hrunið hefur úr. Lifið heil.
Stjórn Reykjanesfólkvangs og Hafnarfjarðarbær styrktu framkvæmdina.
Þegar út var komið hafði unga fólkið lært a.m.k. eitt; hvorki má snerta né fjarlægja hellamyndanir. Það er margt hægt að kenna litlu fólki á skömmum tíma.
Frábært veður (skiptir reyndar ekki máli þegar inn er komið). Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-www.ust.is

Innst í Leiðarenda

Leynir

Leynidalir eru í hraunklofa ofan við Þórðarvík mitt á milli Hvaleyrar og Straums. Ofan við víkina er Hellnahraun en við hana vestanverða er (var) Bruninn (Kapelluhraun). Upp með honum lágu landamerki Hvaleyrar, Þorbjarnarstaða og Lambhaga í Hraunum – upp í gegnum Leynidali. Neðanvert í þeim er Hellnahraun, en í þeim ofanverðum er lágbruninn. Línan liggur (lá) upp með Brunahorninu Neðra um þessa dali, í beina stefnu á Grænhól. Þar á millum má enn sjá gamlar merkjavörður. Sú neðsta, Stóravarða, er fast austan við Reykjanesbrautina.

Skjól

Þegar upp á Grænhól var komið lá línan áfram inn á Brunann og í hann austanverðan í Brunatorfum, allt að Efstahöfða á mörkum Straums og Garða.
Handan við Brunahornið-Neðra, ofan og utan þess og Grísaness, voru Grófirnar í landi Hvaleyrar. Þær eru í Hellnahrauninu. Í þeim voru nokkur skjól og sjást a.m.k. tvö þeirra enn. Grófunum verður gerð betur skil hér á eftir.
Í Leynidali lá Leynisstígur yfir Brunann frá Þorbjarnarstöðum ofan við Gerði. Birki óx í dölunum. Fé sótti þangað yfir svo hlaðin voru þar smalaskjól, eitt á klettastandi og annað í hraunsprungu. Til langs tíma mátti sjá hlaðið skjólið á standinum, en fyrir stuttu hefur einhver verktakinn (væntanlega með leyfi hlutaðeigandi yfirvalda) gert sér að leik að brjóta klettastandinn niður sem og skjólið, án sýnlegs tilgangs. Eftir standa í Leynidölum leifar stígsins, markavörðurnar og annað smalaskjólið. Sennilega fær það að vera óskemmt um tíma því erfiðara er að koma auga á það en hitt sem á standinum var.
LandamerkjavarðaÍ örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þórðarvík, er þar við brunann. Hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun, sem heitir Hvaleyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir, er ganga þaðan inn í hraunið, og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innan til við hæsta brunann. Austur af þeim, rétt innan við lága brunann, er hóll, sem nefndur er Grænhóll.“
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Norðurtakmörk ofannefndrar jarðar er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ (Bréfið dags. í Hafnarfirði 1890.)
„Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól.“
VarðaOg þá yfir að Grófunum – handan (norðaustan) við Leynidali. Þær eru einnig geil upp í úfnara hraun (Hellnahraunið yngra) líkt og Leynidalir eru í Brunanum, bara ofar. Niður á Grófirnar kemur Hrauntungustígur. Varða er við stíginn þar sem hann kemur niður af nýrra hrauninu. Önnur varða var áður skammt ofar, á brunabrúninni, en henni var velt um koll þegar núverandi rafmagnslína var lögð. Raskið, sem henni fylgdi, fjarlægði Hrauntungustíg á kafla, en hann kemur aftur í ljós handan við Krýsuvíkurveginn. Þar er steinn á háum steini við stíginn.
Þar sem Hrauntungustígurinn kemur niður til norðurs, niður í Grófirnar, eru skammt utar tvö skjól, Grófarhellir að austan og fjárskjól að vestan. Fyrirhleðslur eru við bæði skjólin. Í því vestara má sjá hvar sléttar hraunhellur standa enn fyrir fyrrverandi þaki. Skjólið er um 12 metra langt, en grunnt og lágt.
VarðaGrófarhellir er hins vegar hið ágætasta skjól enda hafa börn notað það til leikja. Skjólið nýtist vel fyrir austanáttinni (rigningaráttinni). Á veggjum má einnig sjá sléttar hellur fyrir þak. Þegar inn fyrir opið er komið er ágæt rými til beggja handa.
Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir m.a.: „Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. [Landamerkja]Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er hann nefndur Grófarhellir, en þar mun hafa verið átt við annað skjól í sjálfum Grófunum stutt frá Hrauntungustígnum.
FjárskjólÍ Dalnum liggur Hrauntungustígurinn upp á Hamranes og áfram inn að Stórhöfða þar sem hann beygir til suðurs inn á hraunin, áleiðist upp á Undirhlíðaveg ofan við Hrútagjá.
Þaðan [frá Ási í vestur] liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“
Í fornleifaskráningum, gömlum og nýjum, hefur Leynidölum og Grófunum jafnan verið ruglað saman sem og minjunum, sem í þeim eru. Skárra er þó að vita af vitleysunni s.s. í Grófunum, en vanskráningunni í Leynidölum því þar hafa aðilar komist upp með að ganga að vild á fornleifar sem þar eru (voru). Reyndar hafa fornleifarnar í Grófunum ekki heldur farið varhluta af þeim, sbr. Grísanesskjólið sem og annað „ómerkilegra“ fjárskjól, sem var þarna skammt norðvestar. Það fór undir athafnasvæði Sorpu fyrir nokkrum misserum síðan.
GrófarhellirEins og sjá má er enn að finna leifar af gamla bændasamfélaginu inni á milli hraunbrúnanna í næsta nágrenni við þéttbýlið, en segjast verður eins og að ráðamenn virðast bera óvenjulitla virðingu fyrir slíkum leifum þegar á hólminn er komið. Hversu léttvæg sem sérhver fornleif kann að vera er hún jafnan hluti af heildar búskaparsögu svæðis – og ber að varðveita sem slíka.
Annars væri það áhugavert viðfangsefni fyrir einhvern fornleifafræðinema við Háskólann að gera rannsókn og skrifa ritgerð um áreiðanleika fornleifaskráninga. Niðurstaðan myndi án efa þykja áhugaverð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ás, Hvaleyri, Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði.

Leynir

Leynir – loftmynd.

Nýjaland

Enn og aftur var haldið inn á Krýsuvíkursvæðið í leit að seljatóftum, sem tilgreindar hafa verið í gömlum heimildum. Að þessu sinni var haldið í Hvamma undir Hverahlíð, en svæðið, sem er sunnan við Kleifarvatn, er á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hitaveitu Suðurnesja. Í örnefnalýsingum má ætla að Hvammahryggur hafi verið hæðargarðurinn austan við Hvamma, en öllu sennilegra er hann melhryggurinn vestan við þá. Hæðarhryggurinn austan við Hvammana hefur jafnan verið nefndur Ásar og ná þeir til suðurs utan (suðaustan) við Austur-Engjar.
Í raun var um tímamóta FERLIRsferð að ræða því hér birtist 1000. ferðalýsingin. Alls hafa verið farnar 1269 FERLIRsferðir frá upphafi svo aðrar óinnfærðar lýsingar bíða betri tíma.
StekkurÍ Hvömmum hefur vestari hlutinn einnig verið nefndur Nýjabæjarhvammur, en sá austari Selhvammur. Þar eru nú „hnakkageymslur“ hestamanna. Grasbalar þar hafa verið sléttaðir og litlum húsum komið þar fyrir. Hafi verið tóftir í hvamminum eru þær horfnar. Um hvamminn rennur Sellækur. Vestan við Nýjabæjarhvamm er Nýjaland sbr. eftirfarandi:
„Svo sem mörgum er kunnugt, liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan að vatninu, virðist sem fjöll þessi nái saman, við norðurenda vatnsins. [Þar heitir Vatnsskarð.] Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.
Sá hluti af Krýsuvíkurveginum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið innra og fremra). Misvöxtur vatsnins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og frema, og kallast tangi sá Rif.

Gerði eða rétt ofan við Nýjaland

Vestan við fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vestur-Engjum og í Seltúnshverunum, en smálindir koma þó í hann að Austur-Engi, úr Hvömmunum og Lambafellum.
Svo er landslagi háttað, að Fremralandið er miklu lengur slægt en hið Innra og nemur sá tími einatt nokkrum sumrum og eins og áður er lauslega vikið að, má í góðu grasári heyja um 600 hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið er svo þorrið, að unnt er að slá þau bæði. ekki er það fátítt að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnar há, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarlagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.
Hverir eru í vatninu og sést hvar reyki nokkura leggur upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
„Þegar lítið er í vatninu“ var jafnan farið með því, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar áður fyrr, liggur sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls. Var sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan „með hlíðum“, enda liggur bílvegurinn þar nú.“

Hugsanlegt sel í Nýjabæjarhvammi

Gengið var út með „Hvammahrygg“ og stefnan tekin upp á hálsinn er skilur undirlendið frá Austur-Engjunum austan og suðaustan Stóra-Lambafells. Þegar yfir hálsinn var komið er þar Seljamýrin eða Nýjabæjarengi, stundum nefnt Þrætuengi. Leitað var minja á svæðinu. Ekki fundust þar hús, en hleðsla allnokkur (ferhyrnd), sennilega leifar stekks, eru þar á hæð. Húsin hefðu þá átt að vera neðar og sunnar, en Austurengjalækurinn (Grófarlækurinn) hefur brotið allnokkuð af landinu. Líklegra má ætla að hús hefðu verið austar og við ferskvatnslæk, en hafi svo verið, munu moldir úr hlíðunum hafa fært þau í kaf. Þá má jafnvel áætla að engin varanleg hús hafi verið þarna því bæði er stutt til bæja (u.þ.b. 40 mín. gangur) og enn styttra yfir í selið á Seltúni (u.þ.b. 10 mín gangur). (Sjá meira HÉR).
Gengið var niður með Stóra-Lambafelli til norðurs og vesturs. Þegar niður var komið blasti þar við ferhyrnt gerði. Sennilega hefur það verið gerði eða rétt, torfhlaðið að hluta, frá 19. öld eða byrjun 20. aldar. Gerðið er við fjölfarna götu frá Vestur-Engjum inn í Hvammana.
Lóan og spóinn léku við hvern sinn fót.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Ósinn (Seltúnslækur)

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg ofan við Þorbjarnastaði og honum fylgt til suðurs upp í Flár. Þar var strikið tekið til vesturs að Gvendarbrunni og Alfaraleiðinni síðan fetuð til norðurs, að Straumsselsstíg.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur vestari – skotbyrgi.

Straumsselsstígur er enn greinilegur. Hann er gróinn í hrauninu og því tiltölulega auðvelt að fylgja honum áleiðis upp að Selhrauni og áfram upp í selið. Að þessu sinni var stígnum fylgt yfir Alfaraleiðina og upp í svonefndar Flár, nokkuð slétt hraun norðan við Selhraun. Á klapparhrygg við stíginn er hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sést vel yfir Flárnar. Refaskyttan hefur getað greint hvern þann ref, sem leið átti niður úr ofanverðu hrauninu í átt að byggðinni í Hraunum. Slík byrgi eru við flest grenin á Reykjanesskaganum. M.a. er mjög svipað byrgi við efri Straumsselshella. Það er hlaðið úr réttarveggnum, sem þar var. Byrgið mun vera hlaðið af Jónasi Bjarnasyni og félögum er þeir voru við tófuveiðar í Almenning skömmu eftir miðja síðustu öld. Svo mun einnig vera um byrgið við Straumsselsstíginn og byrgið við Sléttugrenin norðan við Sauðabrekkugjá. Fallegasta og jafnframt heillegasta byrgið er þó á hraunsléttunni norðvestan við Búðarvatnsstæðið, auk refagildru norðan Húsfells..

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Hrauninu var fylgt til vesturs norðan við Selhraun, að Gvendarbrunni á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Brunnurinn er við Alfaraleiðina, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Segir sagan að Guðmundur góði biskup hafi vígt brunn þennan líkt og nokkra aðra á Reykjanesi, nefnda eftir honum, s.s. við Voga, í Arnarnesi og í Hólmshrauni. Skammt norðvestan við brunninn er hlaðið fjárskjól undir hraunvegg. Girðingin á mörkum Óttarsstaða og Lónakots liggja við brunninn er má enn sjá undirhleðslur hennar alveg að mörkum Óttarsstaða og Krýsuvíkur uppi í Almenning.
Alfaraleiðin gamla var gengin að Straumsselsstíg og hann síðan að upphafsstað. Fallegar vörður eru við gömlu götuna sem og gatnamótin. Skammt austan þeirra er varðan á Miðmundarholti; Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnastöðum.
Frábært veður. Gangan tók 50 mín.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Krýsuvíkurkirkja 27. maí 2007Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: „Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.
Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var höfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.

Krýsuvíkurkirkja 1810

Skoski vísindamaðurinn Scott McKenzie kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard og Henru Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: „Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja…“. Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: „Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu Krýsuvíkurkirkja 1887stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína.“ [Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].
Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggða að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.
Krýsuvíkurkirkja 1887Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysir. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björm Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Krýsuvíkurkirkja 1964Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn. Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar – enda hafa þeir vel efni á því).
Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu Á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju - Þór Magnússon. f.v. þjóðminjavörður fremstkirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni.“
Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar – líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi – að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði? Kirkjan, í sínu náttúrulegasta umhverfi, hefur verið mörgum mikilvægt skjól – einnig þegar hún hafði verið afhelguð. Háreistar kirkjubyggingar og skrauti hlaðnar virðast ekki ná slíkri skírskotun til fólks sem einfaldleiki lágreisnarinnar í Krýsuvík. Hvar var kirkjumálaráðherrann á þessum þjóðlegu tímamótum?“
Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

 

Óttarsstaðaborg

Fjórar götur lágu út frá eða nálægt Óttarsstöðum í Hraunum. Nyrst var sjávargatan ofan strandar áleiðis að Lónakoti, Skógargatan (Óttarstaðaselsstígur) lá til suðurs að Óttarsstaðaseli og Fjárborgargatan lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð. Fjórða gatan, Hraunagatan (Hraunavegur, studdum nefndur Óttarstaðavegur) lá svo frá Straumi áleiðis vestur að Hvassahrauni, ofan Óttarsstaða og Lónakots. Enn ofar var svo Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja.
Óttarsstaðir vestriAð þessu sinni var skoðuð Hraunagatan ofan Óttarsstaða og Fjárborgargatan, en síðarnefnda gatan þverar þá fyrrnefndu skammt norðan við Jakobshæð.
Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði og Straum er getið um þessar götur. Í lýsingu fyrir Straum segir: „[Gata liggur] suðvestan við Straumstúnið, upp á Gunnarsskarð, framhjá Lambhúsgerði, vestur um Karstensvörðu, sem var í Óttarsstaðalandi, en hefur nú verið rifin. Hraunagata eða Hraunavegur og Óttarsstaðavegur voru einnig nöfn á þessari leið um Hraun.“
StekkurÍ lýsingu Óttarsstaða segir um Fjárborgargötuna og Skógargötuna: „Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
Sunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða. Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
JakobsvarðaVestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga…
Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.“
Um fjárborgina segir: „Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót [1900]. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“
GöturnarOg þá um Skógargötuna: „Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið. Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana. Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn.
Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur Skjólstígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir… Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá Óttarsstaðaselið við.“
Tækifærið var notað og „hinn ævaforni stekkur“ undir Jakobshæð skoðaður. Hann er tvískiptur með lágum hraunhrygg á millum.
Hraunagötunni er lýst annars staðar á vefsíðunni .
Svæðið milli Straumsvíkur og Hvassahrauns nefnast einu nafni Hraunin. Þegar talað var um bæina í Hraunum var jafnan átt við Lambahagabæina, Þorbjarnarstaði, Straum, Óttarsstaðabæina, Eyðikot og Lónakot. Hvassahraun virðist hafa verið þar undan skilið, þó eflaust megi finna fólks, sem fyrrum hefur talið Hraunið hluta af fyrrnefndri heild, enda bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ástæða fyrirstöðunnar hefur án efa verið hreppamarkalegs eðlis því síðastnefndi bærinn tilheyrði Vatnsleysustrandar-hreppi, en þeir fyrrnefndu Garðahreppi. Má með sanni segja að þar hafi langsum þverskallast frásögnin af Hólmfasti!
RefagildraÞegar gengið var um Hraunin ofan við Lónakot og utan og ofan við Óttarsstaði mátti víða sjá mannvistaleifar. Á einum stað, norðavestan undir Tindhólum, skammt frá Lónakotsselsstígnum, var t.d. fallega hlaðin vörðulaga refagildra, ein sú heillagasta af 36 slíkum, sem vitað er um á Reykjanesskaganum. Refagildran hafði op mót austri. Fallhellan lá framan við opið. Þrátt fyrir að FERLIR hafi marggengið um bæði Lónakotssels-stíginn og svæðið neðan við Sjónarhól hafi sjónin aldrei áður fests á refagildru þessari – svo vel fellur hún inn í umhverfið. Má ætla að hið sama gildi um fjölmargar aðrar mannvistarleifar í Hraununum. Því til staðfestu má nefna hlaðið skjól í skúta við Óttarstaðasel-stíginn.
HraunagatanÞrátt fyrir margar ferðir fram og aftur um götuna hafði skjólið aldrei opinberast fyrr en einmitt nú. Um er að ræða fallegar hleðslur við niðurgang í náttúrulegt lítið jarðfall, sem án efa hefur verið reft yfir fyrrum. Inn undir því er hið ágætasta skjól. Gæti það hugsanlega hafa verið brúkað af fólki er fara þurfti upp í Óttarsstaðasel – og jafnvel lengra því gatan sú lá einnig sem afleggjari bæði upp á Hrauntungustíg og í Skógarnef og áfram um Mosa að Dyngjum.
Margt af því sem birtist hefur þegar verið skráð í örnefnalýsingar. Stundum getur verið erfitt að lesa úr lýsingunum því bæði áttir geta verið misvísandi sem og fjarlægðir. Þannig er oft getið um „vestur af“ eða „niður af“ og getur þá verið um verulegar fjarlægðir að ræða. Sá, sem heldur á örnefnalýsingu á stað eins og Hraununum, þarf annað hvort að vera mjög kunnugur á svæðinu eða óvenju vel læs á landslag. Hvorutveggju er varla til að dreifa í dag því flestir þeir, sem þekktu til, eru dauðir, og örfáir núleifandi eru læsir á framangreint.
Af öllu þessu má ætla að ekki væri vanþörf á að að senda liðssveit „sérfræðinga“ (og er þá ekki átt við háskólamenntaða nema í undantekningartilvikum) á vettvang og „skanna“ upp öll örnefni og mannvistarleifar, sem kunna að leynast á svæðum sem þessum. Slík vinna fæli bæði í sér mikla verðmætasköpun til framtíðar og ómetanlegt vermætagildi komandi kynslóðum til handa.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Óttarsstaði og Straum (GS).

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Hraunin

Um Hraunin milli gömlu götunnar millum Innnesja og Útnesja, Alfaraleiðar, og strandar virðist hafa legið gata, nefnd Hraunagata og Hraunavegur. Hún er enn greinileg og vörðuð á stuttum köflum, en í heild er gatan torlæs – nema þeim er lesninguna kunna.
GöngusvæðiðVið götuna eru, ef vel er að gáð, mannvistarleifar á báðar hendur. Gatan virðist hafa legið milli Straums/Óttarsstaða og Hvassahrauns, neðan Sjónarhóls, Brunnhóls og Grænhóls. Neðan við götuna er t.d. Hausthellir, „ágætt fjárskjól“, Fjárborgargötuskjól, Jakobsstekkur, refagildrur og aðrar hleðslur og e.t.v. eitthvað fleira, ef miklu betur væri að gáð. Fjárborgsgatan frá Óttarsstöðum sker Hraunagötuna undir Jakobshæð. Þar er t.a.m. „ævaforn stekkur“. Óttarsstaðasels-stígurinn kemur inn á hana nokkur austar og enn vestar má sjá Lónakotsselsstíginn liggja yfir götuna.
HraunagatanEflaust hafa einhverjir reynt að rekja Hraunagötu á síðari tímum, en ekki haft laun fyrir erfiðið. Reynsla FERLIRs var a.m.k. sú að gatan væri langt frá því að vera augljós – þ.e. áður en hún hafði verið rakin með mikilli göngu, þolinmæði, útsjónarsemi og þekkingu á kennileitum.
Að þessu sinni hófst leitin á augljósum kafla götunnar í vestanverðu Lónakotshrauni neðan við Brunnhól. Ofan við hólinn eru leifar af refagildru á gróinni klapparhæð. Neðar er hlaðin varða við götuna. Aðrar slíkar eru bæði vestar og austar. Ætlunin var að rekja Hraunagötuna til vesturs síðar.
StekkurGengið var til austurs og götunni fylgt af áreiðanleika áleiðis að neðanverðu fjárhúsgerði núverandi fjárhúsa ofan við Lónarkot. Þar virtist gatan fylgja neðanverðu gerðinu og síðan áfram til austurs neðan við Sjónarhól og áleiðis að Straumi. Þegar nánar var að gáð reyndist þar vera um fjárgötu að ræða. Þrátt fyrir það var hrunið leitað ofanvert alla leið að Straumi. M.a. var komið við hjá Jakobsvörðu, stekkurinn neðan hennar skoðaður sem og Fjárborgargatan. Þegar henni var fylgt áleiðis að Óttarsstöðum virtist hún bæði augljós og auðvelt eftirfylgju þar sem hún lá áleiðis niður að hárri vörðu á Sjónarhól vestan bæjar, niður undir Miðmundarhæð. Þegar beygt var til norðausturs áleiðis að Straumi var komið að mikilli fyrirhleðslu í litlu jarðfalli, óskráðu skjóli.
VarðaÞegar hér var komið var ekki nema um tvennt að ræða; annars vegar að skoða áður skráðar heimidlir og hins vegar að reyna að rekja götuna til baka áleiðis að Hvassahrauni.
Í örnefnalýsingu fyrir Straum segir m.a.: „“Suðvestan túnsins í Straumi er Gunnarsskarð, sem er raunverulega hæð. Liggja reiðgötur þar um. Þarna rétt hjá er nafnlaust skarð. Norðan við Gunnarsskarð er gömul útgræðsla, Lambhúsgerði. Þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, að þar hafi verið hjáleiga. Gísli Sigurðsson segir, að seinna hafi þetta verið nefnt Markúsargerði, en heimildarmenn sr. Bjarna kölluðu það Markúsarblett.
Nafnið er dregið af því, að Markús Gíslason frá Lambhaga ræktaði þarna þennan blett og flutti heyið í Hafnarfjörð; kunnur Skjólformaður í Hraunum. Gísli Guðjónsson kallar kotið ennþá Lambhúsgerði, svo að það nafn er ekki horfið… Suðvestan við Straumstúnið, upp á Gunnarsskarð, framhjá Lambhúsgerði, vestur um Karstensvörðu, sem var í Óttarsstaðalandi, en hefur nú verið rifin. Hraunagata eða Hraunavegur og Óttarsstaðavegur voru einnig nöfn á þessari leið um Hraun.“
Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir jafnframt: „

Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá…
VarðaAustur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar…“
Þegar leiðin var gengin til baka var farið nokkru norðar. Þá var komið inn á þokkalega götu er leiddi leitendur inn á hina eðlilegustu götu norðan undir Tindhólum. Þar lá gatan um hófbarið haft. Þaðan í frá virtist hún bæði eðlilegt og auðveld yfirferðar. Ljóst var að gróið hafði yfir hina gömlu Hraunagötu á ekki lengri tíma. Þó mátti sjá vegsummerki eftir hana á köflum, einkum í þrengslum, auk þess sem bæði mosavaxnar vörður og einstakir skófvaxnir steinar á lykilstöðum vörðuðu leiðina. Gatan lá nokkru norðar en hún virðtis hafa legið við fjárhúsin ofan við Lónakot. Norðvestan þeirra mátti vel tengja þessa gömlu leið fyrri athugunum. Norðvestan undir Tindhólum birtist skyndlega hin fallegasta refagildra (sjá síðar).
Þá er bara eftir að endurheimta kaflan frá upphafsreit að Hvassahrauni (sjá HÉR – væntanlegt). Að því loknu má segja að enn ein gömul þjóðleið hafi bæst í safn hinna gömlu þjóðleiða um Reykjanesskagann fyrrum.

 

Hraunagatan

Svæðið milli Straumsvíkur og Hvassahrauns nefnast einu nafni Hraunin. Þegar talað var um bæina í Hraunum var jafnan átt við Lambahagabæina, Þorbjarnarstaði, Straum, Óttarsstaðabæina, Eyðikot og Lónakot. Hvassahraun virðist hafa verið þar undan skilið, þó eflaust meigi finna fólks, sem fyrrum hefur talið Hraunið hluta af fyrrnefndri heild, enda bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ástæða fyrirstöðunnar hefur án efa verið hreppamarkalegs eðlis því síðastnefndi bærinn tilheyrði Vatnsleysustrandar-hreppi, en þeir fyrrnefndu Garðahreppi. Má með sanni segja að þar hafi langsum þverskallast frásögnin af Hólmfasti!
Þegar gengið var um Hraunin ofan við Lónakot og utan og ofan við Óttarsstaði mátti víða sjá mannvistaleifar. Á einum stað, norðavestan undir Tindhólum, skammt frá Lónakotsselsstígnum, var t.d. fallega hlaðin vörðulaga refagildra, ein sú heillagasta af 36 slíkum, sem vitað er um á Reykjanesskaganum. Refagildran hafði op mót austri. Fallhellan lá framan við opið.
Þrátt fyrir að FERLIR hafi marggengið um bæði Lónakotssels-stíginn og svæðið Refagildraneðan við Sjónarhól hafi sjónin aldrei áður fests á refagildru þessari – svo vel fellur hún inn í umhverfið. Má ætla að hið sama gildi um fjölmargar aðrar mannvistarleifar í Hraununum. Því til staðfestu má nefna hlaðið skjól í skúta við Óttarstaðase-lstíginn. Þrátt fyrir margar ferðir fram og aftur um götuna hafði skjólið aldrei opinberast fyrr en einmitt nú. Um er að ræða fallegar hleðslur við niðurgang í náttúrulegt lítið jarðfall, sem án efa hefur verið reft yfir fyrrum. Inn undir því er hið ágætasta skjól. Gæti það hugsanlega hafa verið brúkað af fólki er fara þurfti upp í Óttarsstaðasel – og jafnvel lengra því gatan sú lá einnig sem afleggjari bæði upp á Hrauntungustíg og í Skógarnef og áfram um Mosa að Dyngjum.
LóuhreiðurMargt af því sem birtist hefur þegar verið skráð í örnefnalýsingar. Stundum getur verið erfitt að lesa úr lýsingunum því bæði áttir geta verið misvísandi sem og fjarlægðir. Þannig er oft getið um „vestur af“ eða „niður af“ og getur þá verið um verulegar fjarlægðir að ræða. Sá, sem heldur á örnefnalýsingu á stað eins og Hraununum, þarf annað hvort að vera mjög kunnugur á svæðinu eða óvenju vel læs á landslag. Hvorutveggju er varla til að dreifa í dag því flestir þeir, sem þekktu til, eru dauðir, og örfáir núleifandi eru læsir á framangreint.
HraunagatanAf öllu þessu má ætla að ekki væri vanþörf á að að senda liðssveit „sérfræðinga“ (og er þá ekki átt við háskólamenntaða nema í undantekningartilvikum) á vettvang og „skanna“ upp öll örnefni og mannvistarleifar, sem kunna að leynast á svæðum sem þessum. Slík vinna fæli bæði í sér mikla verðmætasköpun til framtíðar og ómetanlegt vermætagildi komandi kynslóðum til handa.
Ferðin þessi var farin með það fyrir augum að reyna að endurheimta hina fyrrum Hraunagötu / Hraunaveg / Óttar-staðaveg. Gatan hefur verið farin af fáum um mannsaldur og því langflestum gleymd. Ef ekki væri fyrir örnefnalýsingu Straums (Gísla Sigurðssonar) hefði verið fátt um fína drætti. Gísli á því mikinn, en vanmetinn, heiður skilinn fyrir áhuga sinn og fórnfýsi við að skrá niður gamlar heimildir, örnefni og minjar hins gamla Íslands.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
Örnefnalýsingar fyrir Straum, Óttarsstaði, Lónakot og Hvassahraun.

Hraunagata

Moshellar

Stórhöfðastígur greinist í tvær leiðir.
Ætlunin var að skoða nyrðri leið Stórhöfðastígs frá Hraunhólum, Storhofdastigur-7yfir Mosana áleiðis að Hrúthólma. Í leiðinni var ætlunin og að reyna að staðsetja Moshella og Sauðahelli er Gísli Sigurðsson nefnir í örnefnalýsingunni sinni fyrir Krýsuvík. Í lýsingunni segir hann m.a. að „[Stórhöfðastígur] nyrðri liggur norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma“. Einnig að „[V]egurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna“.
HraunhólarÍ nefndri örnefnalýsing Gísla segir m.a. um leiðir vestan við Vatnsskarð: „L.M. línan liggur úr Markrakagili yfir Nýjahraun og um Hraunhóla gíga á Fjallstagli Fjallsins eina, þaðan út á svonefnd Slitur, sem nefnd eru í gömlum skjölum, þar sem minnst er á landamerki Krýsuvíkur. Hjá hraunhólum þessum skiftist Stórhöfðastígur. Liggur sá nyrðri norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma. Syðri stígurinn lá sunnan Fjallsins eina og í Grænklofa milli Sandfells og Hrútagjárhorns um Grenklofa sem Grænklofi er einnig kallaður og undir Hrútagjárhraunbarmi) síðan frá Hrútagjárhorninu syðra upp á Krýsuvíkur- eða Ketilstíg. Hrútagjárhraun eða Hrútahraun hefur runnið úr gígum áður nefndum í Sveifluhálsi. Norðurbarmurinn er allur sprunginn og brattur. 

Hraunhólar-2

Þar er Hrútagjá stórgrýtt í botninn og ill umferðar. Syðst liggur stígur af gjánni yfir í Hrúthaga, Hrútagjárstígur. Stígurinn heldur síðan áfram vestur um Dalinn, Móhálsadalinn um sléttar og mosavaxnar klappir allt að Hrútafelli og sunnan þess í Ketilstíg.
Af Slitrum liggur L.M. línan í Markhelluhól.“
Um Undirhlíðaveg og Vatnsskarðsskarðsstíg segir Gísli m.a.: „
L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Mar-krakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus. Niður undan Undirhlíðum liggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík.
MosarUndan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið. Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð. Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina. Við stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu.
Moshellar-2Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til. Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur.
Storhofdastigur nyrdriUppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna. Þá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver. Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg.“
Því miður er framangreind Ráherraflöt kominn undir Vatnsskarðsnámusvæðið.
Um Stórhöfðastíginn nyrðri segir Gísli: „
Landamerkjalínan milli Krýsuvíkurlands og upprekstrarlands Álftaneshrepps hins forna liggur um vestanverðar Undirhlíðar, rétt um Háuhnúka eða Rakka. Vatnsskarð skiptir nöfnum á þessum móbergshálsum og heitir Sveifluháls fyrir vestan. 

Storhofdastigur nyrdri - 2

Um skarðið lá Vatnsskarðsstígur og má enn sjá móta fyrir honum á melum vestan vert við Krýsuvíkurveginn. Eru nú engin örnefni fyrr en komið er nokkuð vestur á Hálsinn. Hellutindar eða Skriðutindar eru fyrstir fyrir. Þá Stapatindur eystri og þá Stapatindur vestri og milli þessara tinda eru svo Tindaskörðin. Þá er komið í Ólafsskarð, en um það liggur Ólafsstígur. Örnefnin eru kennd við Ólaf trésmið Magnússon, en hann fór hér oft um þegar hann heimsótti föður sinn Magnús Ólafsson í K-vík. Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatn.“
Storhofdastigur nyrdri - 3Í viðleitninni að rekja Stórhöfðastíginn nyrðri var lagt af stað við neðsta hraunhólinn í Hraunhólum og síðan gengið upp með þeim áleiðis að Fjallinu eina, þ.e. syðri leiðina, í von um að hún gæfi færi á kennileitum v/hinn fyrrnefnda. Þegar komið var upp undir fjallstöglin var stefnan tekin inn undir brúnum áleiðis að Mosum. Þeir voru síðan fetaðir upp í Moshella. Hellarnir eru greinileg fjárskjól. Gróin varða er á einum þeirra. Einhverra hluta vegna hefur þeirra verið getið sem „Sauðabrekkukjól“. Nefnt skjól er hins vegar í norðanverðum Sauðabrekkum. Það er skjól fyrir smala eða þann/þá er áttu leið um Hrauntungustíg.
Storhofdastigur-4Þegar komið var upp að gatnamótum Stórhöfðastígs og Hrauntungustígs austan Hrúthólma var auðvelt að fylgja fyrrnefnda stígnum yfir mjóa apalhraunstungu áleiðis að Hrútargjárdyngjubrúninni. Reykjavegurinn hefur af einhverjum ástæðum verið lagður þarna til hliðar við hina fornu götu og yfir aðalhraunið á miklu mun óaðgengilegri stað en gamli stígurinn.
Stígnum var fylgt að grónum rauðamelshól. Á honum var varða. Síðan var stígnum fylgt eðlilegustu leið niður annars greiðfært hraunið, niður að fallegri sprungureinagígaröð, miklu mun yngri en dyngjuhraunið, og niður að annarri slíkri þar sem hann beygði með neðstu brúninni áleiðis að Hraunhólum. Einungis ein varða var við ofanverða leiðina, sem verður að teljast svolítið sérstakt.
Tvi-DrangarÞegar komið var niður á Mosana var stígnum fylgt eðlilegustu leið milli gjáa. Leiðin liggur síðan með lágum hæðum á hægri hönd, í svo til beina stefnu á Stórhöfða. Þegar kemur fram á brúnirnar og séð verður niður á syðri Stórhöfðastíginn liggur leiðin með grónum hraunhólum niður í stóra lægð í hrauninu með svo til beina stefnu á Tví-Dranga, tvo samliggjandi klettadranga við Stórhöfðastíginn. Þar virðist hafa verið áningarstaður og þar við eru gatnamótin.
Nyrðri leið Stórhöfðastígar virðist gleymd og tröllum gefin, en hefur engu að síður bæði verið greiðfær og einna sú beinasta millum Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar (Stórhöfða) fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimidlir m.a.:
-Örnefnalýsing Krýsuvíkur – Gísli Sigurðsson.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

 

Réttarklettar

Stefnan var tekin niður að Lónakoti með gamlar örnefnalýsingar í öðrum vasanum og nýmóðins gps-tæki í hinum. Veðrið var frábært; +19°C.
BæjarhóllinnFarið var nákvæmlega eftir örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Heimildarmenn hans voru m.a. Gústaf Sigurðsson frá Eyðikoti í Hraunum, nú í Reykjavík, og Ólafía Hallgrímsdóttir, f. í Lónakoti (nú dáin), svo og Guðjón Gunnlaugsson [Gaui Lóna], alinn upp í Lónakoti, f. í Hafnarfirði (nú dáinn). Ætlunin var m.a. að skoða Lónin suðaustanverð, svæðið nyrst á Austurtúninu og halda síðan út í Réttarkletta með áframhaldandi för yfir hraunið að upphafsstað. Við skoðun á því svæði kom ýmislegt skemmtilegt í ljós.

Í nefndri lýsingu segir m.a.: „Landamerki fyrir jörðina Lónakot í Garðahreppi. Lónakot, jörð í Álftaneshreppi hinum forna, síðar í Garðahreppi, fyrr og nú syðsta jörð þessara hreppa. Nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Er í eyði síðan um 1930. Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún.
LónakotTúnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnaðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. Á heimasta hluta hólsins var Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa, sígræn hundaþúfa.“
KotagerðiÞegar svæðið í norðvesturhorni Lónakotstúnanna var skoðað var augljóst hvar nefndan Sönghól (Vökhól eða Krumfót) var að finna. Á honum er nefnd þúfa, stór og vel gróin. Neðan undir hólnum er ágætt skjól í gróinni kvos og enn neðar, á sjávarbakkanum, er Norðurfjárhúsið. Örnefnið Sönghóll er einnig til við Hvassahraun. Spurning er hvort heimafólk eitt sér eða í fagnaði með öðrum hafi safnast saman við þessa hóla og einhver þá tekið lagið.
SönghóllÞá var haldið yfir að bæjarhólnum. Í lýsingunni segir m.a. um það svæði: „Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn. Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðunum er Vatnagarðahellir eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.“
Þá var haldið yfir að túngarðshliðinu suðvestan við bæinn. „Þegar haldið var suður úr suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi.

GrjótÞar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti. Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður.“
Allar framangreindar tóftir eru enn vel greinilegar. Dys í Koti er stutt frá veginum og Kotagerðið austan hans. Kotagerðið er hringlaga, allstórt og vel gróið. Í því norðaustanverðu er tvískipt kofatóft. Annað gerði er undir hraunhól vestan við veginn, vestan við Dys. 

StekkurSkoðað var í Yrðlingabyrgið. Enn má sjá inn í byrgið. Í því er samansafn af alls kyns leifum, s.s. af vasafötum, netum o.fl. Það hefur verið notað sem ruslakista áður en urðað var yfir, en eftir að sigið hafði í gjótunni opnaðist það aftur.
Þá var haldið niður í Lónakotsfjörur og til vesturs með ströndinni. Gata liggur frá Seltúninu yfir í Réttarkletta, sem eru þar allnokkru vestar. „Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig.“
NípuskjólÍ fjörunni austan við vörina eru sérstakar grjótmyndanir, lábarið grjót sem brotnað hefur úr hrauni, sem streymt hefur fram og umvelkst í gjósku og ösku. Sjórinn hefður síðan séð um að hreinsa lausmélið utan af og skilað þessu sérkennilegu grjótmyndunum þarna á land. Brimþúfa sést enn. Einnig fallin varða, sundvarða, ofan við vörina með stefnu í Keili.
„Vestar var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
GerðiRéttarklettar eru afmörkuð klettaborg, tilkomumikil á að líta. Allt umhverfis hana er hlaðinn garður og gras fyrir innan. Stekkur er norðaustan við klettana og grónar tóftir norðvestan undir þeim. Vestar er Grænhólsfjárskjólið.
Gata liggur frá Réttarklettum til suðurs. Þegar henni var fylgt var komið að hlöðnu fjárskjóli austur undir klapparhól, Brunnhól. Engin varða var við skjólið, sem virðist hafa verið ósnert alllengi. Að öllum líkindum er hér um að ræða svonefndan Hausthelli, „fjárskjól gott“, sem Gísli Sigurðsson lýsir í örnefnalýsingu sinni og átti að vera á þessu svæði. Skammt ofar er varða við götu, sem liggur frá austri til vesturs, sennilega á milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, Jakobsvarða. Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir um þetta svæði: „Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða.

BrunnhóllNorðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.“
Ofan við hana eru sérkennilegar hleðslur í og ofan við klapparsprungu á hól. Sennilega er hér um nefndan Brunnhól að ræða. Hlaðið er í sprunguna í báða enda miðsvæðis og síðan eftir börmunum milli fyrirhleðslanna. Erfitt er að sjá til hverra nota þetta mannvirki hefur verið – nema þar hafi verið brunnur.
Eflaust eru fleiri minjar faldar þarna í tilkomumiklu hrauninu. Og gaman hefði verið að birta hér rmyndir af öllum örnefnum og minjum á framangreindri leið, en rýmið leyfir það ekki. Ætlunin er að skoða svæðið betur á næstunni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði.
-Leifur Sörenssen.

Réttarklettar

Réttarklettar.