“Stórkostlegasti hellir, sem ég hef séð. Sáuð þið litadýrðina, skærgult, rautt, blátt, grænt og allt þar á milli. Ekki rykkorn á gólfinu, Óendanlegur. Hef ekki séð gulan björgunarbát í helli áður. Það tekur a.m.k. viku að skoða hann allan”. Þetta voru viðbrögð FERLIRs félaga og félaga úr HERFÍ eftir að hafa fundið helli í Brennisteinsfjöllum eftir langa göngu og allnokkra leit. Áður höfðu þeir fundið nokkra hella til viðbótar, reyndar heilt hellakerfi, en það reyndist einungis sýnishorn af því sem koma skyldi.
Efst í Fálkageiraskarði.
Gengið var upp Fálkageiraskarð (Falskageiraskarð skv. örnefnalýsinigu) með það fyrir augum að kanna hvort um væri að ræða hellagöt á ókönnuðu svæði í Brennisteinsfjöllum. Áætlaðir voru þrír tímar í göngu og síðan tvo tíma í leit á svæðinu því ganga þurfti til baka sömu leið. Hálfa klukkustund tók að ganga upp skarðið, en það er í sjálfu sér ekki erfitt uppgöngu. Leiðin upp er þakin fjölskúðugum plöntum, og utan í því er fallegur hraunhóll, sem (þegar upp var komið) kom í ljós að hafði runnið í þunnfljótandi hraunæð fram af brúninni og storknað jafnóðum utan í og neðan við bergbrúnina. Síðan hafði brotnað út hömrunum efst og þeir fjarlægst hraunstandinn, sem stendur þarna einn og tignarlegur. Efst í skarðinu er hár klettadrangur, Fálkaklettur. Undir honum eru grasbrekkur og jafnframt fyrir ofan þegar komið er upp.
Standur efst í Fálkageiraskarði – Fálkaklettur.
Ofan við skarðið tók við langt misgengi. Því var fylgt, haldið yfir apalhraun að ísaldarskyldi. Suðaustur úr honum lá þriggja metra breiður stígur áleiðis niður að Mosaskarði. Sennilega er hér um að ræða hluta leiðarinnar, sem Stakkavíkurbræður gengu þaðan yfir að Fagradalsmúla og niður í Hafnarfjörð með rjúpur á vetrum, sbr. frásagnir Eggerts og Þorkels undir viðtöl hér á vefsíðunni. Gengið var yfir ísaldarskjöldinn og síðan úfin apal- og helluhraun uns komið var í hraunið, sem átti að skoða. Strax fundust nokkur op. Rásirnar voru hverri annarri fegurri. Þunnfljótandi hraunlag hafði slétt út gólfin og myndað þunna skán á því. Afhellar voru hingað og þangað. Ein rásin lá þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litardýrð. Gljáfægðir separ í loftum.
Í Ferli.
Tvær hraunsúlur héldu loftinu uppi á einum stað og svona mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir voru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að vera klukkustunum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthv nýtt. GPS-punkar voru teknir af þremur opanna.
Á leiðinni til baka var haldið ofar í hlíðina og strikið þvert á hana því einn FERLIRsfélagi hafði veitt athygli gati þar á leiðinni upp eftir. Um er að ræða sæmilegt jarðfall. Sjá má lýsingarinnar á innihaldinu í upphafinu hér að framan. Hægt er að far niður rásina og þar greinist hún í margar nokkrar aðrar.
Í Ferli.
Fremst er bergið bláglerjað, hárrauð þverrás gengur inn úr henni og hægt er að ganga í hringi um ýmsa ganga. Ofar virðist rásin ekki mjög merkileg. Hún virðist enda eftir um 100 metra, en þegar betur er að gætt er rás upp undir lofti. Þegar skriðið er eftir henni opnast “konfektkassi” hellaháhugamanna í öllum litum og litbrigðum. Tvær fallegar súlur eru í rásinni. Allar rásir eru heilar og varla steinn á gólfi. Hliðarrásir ganga inn úr hverjum gangi, stundu í allar áttir. Sá litur, sem sker sig mest úr er skærgulur, en jafnframt má sjá silfurliðar berg. Þegar þessi hluti verður skoðaður þarf að hafa spotta er merkilínu.
Storknun í Ferli.
Varið var tveimur klukkustundum í skoðun á hellinum, en sýnt er að gefa þarf sér góðan tíma til að skoða hann allan.
Stungið var upp á nafni á hellinn og gengur hann framvegis undir vinnuheitinu FERLIR (beygist eins og HELLIR).
Gengið var niður með ísaldaskyldinum og austan misgengisins, en síðan var bjargbrúninni fylgt að Fálkageiraskarði. Blankalogn var svo auðvelt var að fylgjast með fýlnum í berginu og tilburðum hans. Sauðamergur, geldingahnappur, ljónslappi og burknategundir eru dæmi um jurtir í gilinu.
Í Ferli.
Skammt ofan við jökulskjöldinn fyrrnefnda fannst skarlatbikar (cladonic borealis), en hann vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum og er algengur um land allt, en askhirslurnar, skærrauðar, sem voru á þessari einu litlu plöntu víðáttunni, eru fremur sjaldséðar.
Áætluð er fljótlega fer með HERFÍ á hellasvæðið. Þá verður farið með allan nauðsynlegan búnað og ljós, sem og það markmið að reyna áætla umfang þess nýfundna hellis. Mjög erfitt er að að koma auga á opið, auk þess sem það er á einu fáfarnasta svæði landsins. Slík svæði eru „veiðilendur“ FERLIRs.
Það var vel við hæfi að ferð nr. 666 tengdust undirheimunum.
Gangan tók 8 klst og 12 mín, eins og áætlað var. Fábært veður – sól og blíða.
Sjá MEIRA.
Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.