Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Eftirfarandi grein birtist í Alþýðublaðinu árið 1951.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum. Í eftirfarandi grein, sem tímarit ungmennafélaganna, „Skinfaxi“ birti fyrir nokkru og byggð er á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen, rafveitustjóra í Hafnarfirði, varðandi jarðboranir og raforkuframkvæmdir, er gerð allítarleg grein fyrir því, sem gert hefur verið í Krýsuvík.
Á SÍÐARI ÁRUM hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sannanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu bar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. —
Síðan tók fólki stöðugt  að fækka Seltúnog byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þá að lokum að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri.
— Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km. Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

GRÓDURHÚS
Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur“ cg blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti.
Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð Krýsuvíkmeð, er gufa, og er hún leidd í þró. þar sem katli hefur verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi. Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skolpræsi og rafmagn frá díselrafstöð.

BÚSKAPUR
í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e. t. v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum.
Gosið úr nýjustu borholunni í Krýsuvík. hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Undirbúningur hefur verið undir Í fjósinugrasfræssáningu á þessu vori.
Grafnir hafa verið 8 km. langir opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km. löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m. í þvermál og 14 m. háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak. Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna rætkunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

BORANIR EFTIR JARÐHITA
í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. —Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa yfrin nýjar vonir til hans staðið og standa enn. Fyrstu jarðbornir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknaráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við
suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver í Seltúni [??].

Seltún

Jarðborar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem borrásir voru þröngar stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1948 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946 og 47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveita Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þess höfðu verið notaðir snúningsborgar. Fallborar geta borað víðaðri holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Enn fremur er minni festuhætta fyrir þá gerð. en áður hafði það tafið mikið, hve borar vildu festast.

Seltún

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðarstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá horinn fluttur í svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum.
Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til bess að bora upp þessar sliflur. Enn fremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbornum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þrefalt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa borarnir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir.

Seltún

Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæfa svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun höfð gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m. á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum. Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltún. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora og orðin var 229 m, djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 Baðstofatommu víðum járnpípum 100 m. niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þetta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í liós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál.“
Þrátt fyrir stóra drauma og mikil áform varð allt að engu. Má að mörgu leyti líkja framangreindu við það sem nú er að gerast varðandi virkjunaráform í Eldvörpum – stórhuga framkvæmdarmenn blása tímabundið litlumhjarta stjórnmálamönnum ofgnótt í brjóst, en landið; náttúran, á ávallt síðasta orðið til lengri tíma litið. Hún talar gjarnan sínu máli sjálf, nú sem fyrrum.

Heimild:
-Alþýðublaðið – fimmtudagur 20. sept. 1951, bls. 5.
-Alþýðublaðið – sunnudagur 8. september 1957.Krýsuvíkurkirkja

Í ferð FERLIRs um austanverðan Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík kom í ljós óvænt tóft, gróin.
Tóftin er á Stori-Nyibaer-2gróanda suðaustan við bæjarhólinn, á ystu gróðurmörkum torfunnar. Hún er aflöng, líklega gerð úr torfi, með op vestast á austanverðri langhlið. Þarna gæti hafa verið um stekk eða rétt að ræða, en tóftin gæti einnig hafa verið hús og þá líklega eldri en aðrar minjar á torfunni. Hún er ekki nefnd í fornleifaskráningu af svæðinu.
Gengið var um Öldur yfir Kálfadal syðri, Víti skoðað sem og móbergsmyndanirnar vestan dalsins. Síðan farið um Vegghamar og Veggi til baka. Þetta síðdegi var frábært veður á Krýsuvíkursvæðinu.

Stóri-Nýibær

Tóftin sunnan Stóra-Nýjabæjar.

 

Krýsuvík

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1961-1970.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810 – færð yfir til umhverfis nútímans.

Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.

Krýsuvíkurkirkja

Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mum hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.

Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”. Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”

-Úr Krýsuvíkurkirkja að fornu og nýju – Ólafur Þorvaldsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Krýsuvík

Krýsuvík í lok 19. aldar.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er fjallað um framkvæmdir í Krýsuvík, s.s. vegagerð, garðyrkjubú, kúabú og raforkuvinnslu. Þar segir m.a.:

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

“Þegar menn tóku að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Kýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík hefur verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar hafa erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.sl. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tímum, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.
Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktarland milli Sveifluháls og Geitahlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurn tíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnaruymdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi.
Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka framkvæmdir í stórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og húsbyggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðustu áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marsmánuði síðsatliðnum. Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta við 1000 fermetrum. Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búreksturinn í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.
Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”

Vinnuskólin

Vinnuskólapiltar á leið í sundlaugagerð við Bleikhól. (HH)

Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fjósbyggingin og súrheysturninn standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Lögbergi árið 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdastjóra, um fyrirhugað stórfellt landnám í Krýsuvík undir fyrirsögninni „Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar –
Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans:

krysuvik-221„Í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.

Heil kirkjusókn í eyði
— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna all-fjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík. Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.

Bjó einn í kirkjunni
Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.

Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
jens— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha. Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlag þó mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krýsuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík. Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt; í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.

Skilyrði til búskapar góð
— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.

Miklar framkvæmdir
krysuvik-903Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.
Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli. Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið byggingu eins íbúðarhúss og hafin bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?
— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu -norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má það nú heita nær því fullgert. Á s. l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.


Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp. Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzluvatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s. l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar. Framkvæmdir á þessu ári Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, votheysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949. En svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.“

Heimild:
-Lögberg. 20. maí 1948, bls. 7

Krýsuvík

Á leið til Krýsuvíkur. Vesturengjar framundan.

Krýsuvík

Mánudaginn 12. marzmánaðar var kveðinn upp dómur í máli bóndans á Litla-Nýjabæ í Krýsuvík; nr. 3/1906: Réttvísin gegn Sigurði Magnússyni.
Krysuvik-loftmynd-221„Dómur – Mál þetta var í héraði höfðað gegn ákærða, sem þá var bóndi í Litla-Nýjabæ í Krýsuvík, fyrir að hafa dregið óleyfilega undir si gull af kindum, er aðrir áttu, en hann rúði fyrir þá óbeðið, eins og alltítt er að bændur geri í Krýsuvík við kindur utansveitarmanna, er þar hittast órúnar.
Var málið dæmt í aukarétti Gullbringu- og Kjósarsýslu 25. okt. f. á. þannig, að refsing fyrir brot það, er ákærði áleizt sekur um og heimfært var af héraðsdómaranum undir 259. gr. alm. hegningarlaga, var látin niður falla, en ákærði dæmdur til að greiða kostnaðinn, er af málinu leiddi. En þessum dómi hefir stjórnarráðið skotið til yfirdómsins.
Það er sannað í málinu með játningu ákærða og öðrum skýrslum, að vorið 1904 rúði hann í Krýsuvíkurrétt meðal annara kinda svarta á tilheyrandi Halldóri bónda Halldórssyni á Setbergi, en skilaði ekki ullinni eigandanum, heldur tók hana til sín og hagnýtt sér hana. Ákærði hefir fært sér það til afsökunar, að hann hafi verið í óvissu um, hver kindina átti, vegna óglöggs eyrnamarks á henni. Ákærða var þó skýrt frá því í réttinni, hver eigandi kindarinnar væri, og hún var með réttu horna- og brennimarki þess manns, er hún var eignuð, og þar sem ákærði lét þó ullina saman við sína eigin ull, án þess að grenslast nokkuð eftir eiganda kindarinnar, verður að álíta, að hann hafi sviksamlega dregið sér hana.

Krýsuvíkurrétt

Krýsuvíkurrétt.

Það hefir verið borið í málinu, að ákærði hafi einnig dregið undir sig ull af 2 öðrum kindum, er hann hafi rúið, aðra vorið 1903, en hina vorið 1904, en ákærði hefir neitað því, að hafa rúið og tekið ull af kindum þessum, og hefir ekki fengist full lagasönnun til að hnekkja þessari neitun hans.
Þá er það og upplýst í málinu, að ákærði sumarið 1904 lagði inn í kaupstað miklu meiri ull en hann gat hafa fengið af kindum þeim, er hann átti sjálfur, og að vísu er sú skýring hans á þessu atviki harla ósennileg, að hann hafi fundið alla þá ull, um eða yfir 70 pd., í haganum sumarið 1903 og vorið 1904, sem innlegg hans nam meiru en ullinni af hans eigin kindum.
Hinsvegar sést það af málinu, að aðrir menn hafa fundið á sama hátt ull svo tugum punda skifti, einkum sumarið 1903, og virðist því ísjárvert að telja það sannað, að ákærði hafi verið óráðvandlega kominn að ullarinnleggi sínu eða nokkru af því.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Það verður þannig eigi álitið, að ákærði hafi gerst sekur i öðru refsingarverðu athæfi en ullartöku þeirri af kind Halldórs Halldórssonar, er fyr er nefnd, og er rétt að heimfæra það brot ákærða, eins og héraðsdómarinn hefir gert, undir 259. gr. alm. hegningarlaga, en þar sem ákæruvaldið hefir eigi viljað sleppa málsókn fyrir brotið, verður ákærði að sæta refsing fyrir það, er þykir hæfilega ákveðin 8 daga einfalt fangelsi. Ákærða ber að greiða allan kostnað, er leitt hefir af málinu, bæði í héraði og fyrir yfirrétti, þar með talin málflutningslaun sækjanda og verjanda fyrir yfirdóminum, er ákveðast 10 kr. til hvors þeirra.
Það vottast, að rekstur málsins í héraði hefir verið vitalaus og málsfærslan fyrir yfirdóminum lögmæt.
Því dæmist rétt vera:
Ákærði Sigurður Magnússon á að sæta 8 daga einföldu fangelsi, og greiða allan kostnað málsins, bæði í héraði og fyrir yfirdómi, þar með talin málflutningslaun skipaðs sækjanda og skipaðs verjanda við yfirdóminn, yfirréttarmálaflutningsmannanna Odds Gíslasonar og Guðm. Eggerz, 10 kr. til hvors þeirra. Dóminum að fullnægja með aðför að lögum.“

Heimild:
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar úr íslenskum málum, 7. árg 1909, bls. 212-214.

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina.

Drumbdalastígur

Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík. Hér lýsir hann Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…

Bæjarfell

Bæjarfell.

“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Arnarfell (t.v.) og Bæjarfell.

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.

Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1931 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af Hinu íslenska bókmenntafélagi”.

Bæjarfell

Bæjarfell – tóft.

Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar, kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Refur

Ætlunin var að ganga frá Sýslusteini í Lyngskjöld og leita uppi greni, sem þar á að hafa verið.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Á þeim slóðum átti svonefnt þrætugreni að vera, en það var nefnt svo vegna þess að hvorki Selvogsmenn né Grindvíkingar töldu grenið vera í þeirra landi. Heyrir það til undantekninga að bændur afneiti landi því oftar en ekki hafa þeir deilt um yfirráð á slíkum svæðum. Bréfaskrifti fóru á millum hreppsnefndanna vegna þessa þar sem ítrekaðar voru skyldur hvorrar fyrir sig að vinna grenið. Ástæðan var fyrst og fremst sú að grenið var á ystu mörkum sveitarfélaganna og langt að fara fyrir báða aðila, þó heldur lengra fyrir Grindvíkinga. Líklegt mátti því telja að Lyngskjaldargrenið hafi verið það greni er olli framangreindum deilum fyrrum, nefnt „Þrætugreni“. Hafa ber í huga að akvegur þarna var fyrst gerður um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn kunnugra er grenið við landamerkjavörðu á „Skildi“ og eiga hlaðin byrgi skyttu að vera nálægt greninu.

Lyngskjaldargreni-1

Ólafur Þorvaldsson, síðasti bóndinn í Herdísarvík, getur um Lyngskjaldargrenið í lýsingu sinni af Herdísarvík: „…Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar. Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Úr Sýslusteini liggja sýslumerki yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og hefur yngsta hraunið runnið ofan af fjallinu, austan hans og vestan. Gren er á Lyngskildi, austan marka, Lyngskjaldargren. Meiri gróður er í Lyngskildi en umhverfis hann, t. d. mikið um eini, og er oft á haustin gott þar til einiberja…“
Mosavaxið hraun liggur neðan, ofan og beggja vegna Lyngskjaldar. Hann er í eldra greiðfærara helluhrauni. Svæðið hallar snarlega upp á stall vestan Herdísarvíkurfjalls. Hallinn er lyng- og hrísvaxinn. Þegar upp á hann er komið tekur við fyrrnefnt tiltölulega slétt hellurhraun. Ofar eru rásir og í þeim nokkir litlir hellar. Stallurinn er kjörið grenjasvæði því alls staðar má sjá op á yfirborðsrásum.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Lyngskjaldargrenið (-grenin) er rétt fyrir ofan hallann, fremst á stallinum, vestast í honum. Lítil varða er ofan við brúnina og síðan má sjá hvert opið á greninu á fætur öðru. Þau eru öll merkt með tveimur steinum. A.m.k. tvö byrgi refaskyttu eru sitt hvoru megin við grenjasvæðið. Meginopið er í nokkurs konar „urð“ skammt suðaustan við efra byrgið. Innan við það var skít að sjá, en hvergi var fiður eða önnur nýleg ummerki eftir ref í eða við grenin. Talsvert var af rjúpu í nágrenninu, sem bendir fremur til þess að refur hafist ekki við í greninu um þessar mundir. Hnit voru tekin. Af afstöðunni má ætla að grenið sé nokkurn veginn á sýslumörkunum fyrrnefndu, en þó heldur innan Selvogslands ef eitthvað er.

Þrætugrenin

Eitt þrætugrenjanna.

Refur hefur löngum verið veiddur á Reykjanesskaga. Í frétt í Morgunblaðinu 1987 segir m.a. um tófuveiðar á Reykjanesskaganum: „Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt. Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðs-stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
MelrakkiÍsólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði. Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar
refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson refaskyttur í Hafnahreppi hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af eru 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.
Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.“

Þrætugrenin

Skjól refskyttu við Þrætugrenin.

Og svolítill fróðleikur um tófuna: Talið er að tófan hafi sest að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en talið er að hún hafi komið hingað á hafís.
Fullvaxinn refur getur orðið tæpur metir á lengd, skrokkurinn ekki nema 56-60 cm. Og þyngdin getur orðið allt að 6 kg. Læðurnar eru yfirleitt léttari.
Til eru nokkur litarafbrigði af Íslenska heimskautarefnum en aðallitirnir eru mórautt og hvítt. Dýr af mórauðakyninu eru dökkbrún allt árið en geta verið með hvítan blett eða rák á bringu. Á sumum mórauðu dýrunum getur feldurinn orðið upplitaður á vorin, svo að hann sýnist ljósbrúnn eða grábrúnn. Dýr af hvíta afbrigðiðu eru aftur á móti grábrún á baki og ljósbrún á kvið á sumrin, en þau eru alhvít á vetrum. Mórauða afbrigðið er algengast á Íslandi þegar á heildina er litið. Trýni refsins er alltaf svart og eyrun upprétt. Refir ganga úr hárunum tvisvar á ári. Þeir skipta yfir í sumarfeldinn á tímabilinu frá miðjum maí til miðjan júní. Vetrarfeldur fullorðinna dýra vex út aftur í byrjun vetrar og er að vaxa eitthvað fram yfir áramót.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Húsakynni tófunnar er kallað greni. Greni tófunnar eru margvísleg. Greni hennar eru víðast í stór-grýtisurðum neðarlega í fjallshlíðum eða í hraunrásum. Vitað er með vissu að mörg greni hafa verið notuð áratugum saman, þótt ekki sé það á hverju ári.
Tófan gýtur að jafnaði um miðjan maí eftir c/ 52 daga meðgöngu. Afkvæmi tófunnar kallast yrðlingar.
Meðal gotstærð íslensku tófunnar er 5-6 yrðlingar. Þeir fæðast blindir en augun opnast eftir 15 daga. Yrðlingarnir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Læðan venur þá síðan af spena við 6-10 vikna aldur.
Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldið. 

Vembla

Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu einn um aðdrætti. Refaparið notar afmarkað heimasvæði sem það fer um í ætisleit og reynir að verja gegn öðrum refum. Heimasvæði sem varið er fyrir öðrum dýrum sömu tegundar er nefnt óðal. Bæði kynin merkja óðalið með þvagi á áberandi stöðum.
Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil tólf vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, eru þeir oft farnir að dreifa sér og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast eiginleg greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að refur hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir. Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

 Um miðjan september taka fyrstu yrðlingarnir að yfirgefa óðal foreldranna. Steggir virðast fara fyrr en læður.
Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.
Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi.
Önnur Íslensk heiti eru: Djangi, djanki, dýr, dratthali, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, melkraki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tófa, tæfa, vargur og vembla.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara.. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.“
Til baka var gengið eftir torsóttri fjárgötu undir Lyngskildi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1943-1948. Herdísarvík í Árnessýslu, eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 134.
-Morgunblaðið 14.07.1987, bls. 26.
-Villt spendýr, bls. 74-85.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

Krýsuvík

 Eftirfarandi kafli er úr bók Bjarna Sæmundssonar „Um láð og lög“, sem kom út árið 1942. Bjarni fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík 15. apríl 1867 og var skírður af sér Þorvaldi Böðvarssyni á Stað. Hann mundi eftir fólki frá uppvaxtarárum sínum í Grindavík, en síður eftir örnefnum og merkilegum minjum. Í þessum kafla lýsir hann ferð með föður sínum til Krýsuvíkur þegar hann var u.þ.b. 6 ára til að „sækja í sel“, en svo virðist sem Járngerðarstaðabændur hafi átt innangegnt í Krýsuvíkurland til slíkra nytja á sjöunda áratug 19. aldar, eða um það leyti er selstöður voru að leggjast af á þessu landssvæði:

Gamla gatan - nú eyðilögð með leyfi Fornleifaverndar ríkisins

„Til Grindavíkurhrepps heyrði í uppvexti mínum Krýsuvíkursókn, höfuðbólið Krýsuvík og nokkrar hjáleigur, sem nú eru allar, ásamt sjálfri heimajörðinni, í eyði. [Skv. sóknarlýsingu Jóns Vestmanns (1840) voru eftirfarandi bæir byggðir á þessum tíma; heimajörðin Kýsuvík, Suðurkot, Norðurkot, Lækur, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær og Vigdísarvellir]. Krýsvíkingar lifðu sem sveitamenn á landbúnaði (sauðfjárrækt) og með fram á fiskveiðum og fuglatekju í Krýsuvíkurbergi („Berginu“). Stundum tóku þeir kýr og kálfa af Grindvíkingum til hagabeitar á sumrin og hirtu smjörið og mjólkina (súrmjólk og sýrublöndu), sem Grindvíkingar svo sóttu til þeirra og spöruðu þeim þannig alla selmennsku, sem þá var að leggjast niður, en hafði áður verið tíð víða um Suðurkjálkann, eins og hin mörgu örnefni kennd við sel bera vitni um.
Eitt sumarið, er við áttum kýr í Krýsuvík, fór pabbi sem oftar „að sækja í sel“ (hann gerði það víst á hálfsmánaðar fresti), og fékk ég að fara með (likl. 6 ára). Þða var nú heldur en ekki tilhlakk. Við riðum hvor sínum hesti og höfðum einn undir áburði, heilankerum undir sýru eða súrmjólk. Vegurinn var alllangur (21 km) og ekki góður; milli lágra fella, yfir hálsa, hraun og leirgötur og hestarnir latir áburðarhestar, sem vanastir voru klyfjaganginum og þurftu 5 klst. til Krýsuvíkur, sem með léttri reið tekur frá Járngerðarstöðum 3 1/2 – 4 klst. 

Vestari lækur í Krýsuvík

Vegurinn liggur um fjalllendi, er nefnist í daglegutali Hálsar, eftir móbergshryggjum tveimur lágum. Austurhálsi /Sveifluhálsi) og Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi), sem áður voru sameiginlega nefndir Móhálsar.
Mér leiddist ekki ferðin, þótt seint gengi. Ég var kominn þarna inn á milli fellanna, sem ég þekkti orðið sæmilega, heiman að séð, og hafði gert ráð fyrir, að hefðu aðeins tvær hliðar og litu því eins út báðum megin frá. Var ég því illa svikinn, er ég sáð, að þau voru gjör-ólík og óþekkjanleg, séð frá hinni hliðinni, og ein af mínum barnahugmyndum um lögun fjalla beið herfilegt skipsbrot. Varð ég nú að heita á pabba til að hjálpa mér, ekki eingöngu, þegar um smá örnefni, svo sem hálsa, kletta, gjáarsprungur o.fl. var að ræða, heldur og um fjöllin og fellin, sem ég í fyrsta sinni sá frá „hinni hliðinni“. Hafði hann lítinn frið fyrir spurningum mínum, en það vildi svo vel til, að hann var sérlega örnefnafróður maður, sem á yngri árum hafði fengizt mikið við smalamennsku á þessum slóðum.
Mógröf í KrýsuvíkNú var orðið lítið um smalamennsku þarna suður, smalar fáir og örnefnin týnast því miður, þau sem ekki eru þegar fest á kort.
Við gistum í Krýsuvíkurhverfinu (Suðurkoti), og sá ég þar í fyrsta sinni á ævinni læk (vestasta „vatnsfallið“ á suðurströnd landsins) og smakkaði þar fyrst ósalt uppsprettuvatn. Einnig sá ég þar skrítna „steina“, dökk-mórauða á litinn, en mjög létta í sér, hlaðna upp í hrauk þar á hlaðinu. Það voru mókögglar! Mór þekkist tæplega út um Suðurkjálkann.“
Heimild:
-Bjarni Sæmundsson, Um láð og lög, Rvík 1942, bls.10-11Krýsuvíkurtorfan - uppdráttur.

Seltún

Eftirfarandi er úr grein um sögu brennisteinsvinnslu hér á landi eftir Ingvars Birgirs Friðleifssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997:
Krysuvikurnama-5„Þótt Íslendingar hefðu ekki mikil not af jarðhitanum, allavega ekki þegar átti að tíunda hann til skatts eins og í Jarðabókinni, hafði Danakóngur þeim mun meira gagn af brennisteini sem víða finnst á gufuhverasvæðum. Brennisteinn var snemma fluttur út frá Íslandi og varð er fram liðu stundir dýr verslunarvara. Svo virðist sem erkibiskup í Niðarósi hafi á 13. öld haft nokkurs konar einkarétt til að flytja eða kaupa brennistein frá Íslandi, en síðar náði kóngur réttinum undir sig. Ekki er vitað hvað mönnum erkibiskups gekk til að flytja út brennistein, því púðurgerð hófst ekki í Evrópu fyrr en eftir 1400. Lýður Björnsson, sagnfræðingur, hefur komið með þá athyglisverðu tilgátu að prestar hafi ef til vill kveikt í brennisteini í kirkjum sínum til að hrella sóknarbörnin, sýna þeim hvernig Vítislogar líta út og leyfa þeim „að finna lyktina“ (Lýður Björnsson, munnlegar upplýsingar 1995).
Á fyrri hluta 16. aldar keyptu Hamborgarar brennistein á Íslandi og varð Danakóngur að kaupa af þeim brennistein til púðurgerðar á krysuvikurnamur-4geypiverði. Árið 1561 forbauð kóngur Íslendingum að selja útlendingum brennistein, nema þeir hefðu sérstakt leyfisbréf. Eftir þetta lét danska stjórnin flytja út brennistein frá Íslandi út 16. öldina og var verslunin svo arðsöm framan af að kóngur hafði eitt sinn 6000 ríkisdala ábata af einum skipsfarmi. Þetta svaraði til 1500-2000 kýrverða sem jafngilda 150-200 milljónum króna í dag. Brennisteinsverslunin var þá helsti arður sem Danir höfðu af Íslandi.
Helstu brennisteinsnámurnar voru í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum á Suðvesturlandi og í Þingeyjarsýslu (Hlíðarnámur í Námafjalli, Fremrinámur, Kröflunámur og Þeystareykjanámur). Fróðlegt er að lesa um hvernig kóngsins mönnum tókst í skugga Stóradóms, sem þá var verið að lögfesta, að sölsa undir sig námuréttindi í Mývatnssveit vegna legorðsmála þar í sveit (sjá Ásverjasögu eftir Arnór Sigurjónsson, 1967).
Í byrjun 17. aldar hætti stjórnin sjálf að kaupa og flytja brennistein enda fór hann þá mjög að falla í verði í Evrópu. Var brennisteinsnámið því í minni metum á 17. og 18. öld og fengu þá ýmsir einkaleyfi til brennisteinsverslunar. Brennisteinsvinnsla var einn liður í Innréttingum Skúla Magnússonar, fógeta, en var lítt arðbær.“

Heimild:
-Ingvar Birgir Friðleifsson, Lesbók Morgunblaðsins 20. sept. 1997, bls. 10-13.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla Við Seltún.