Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík
Hér á eftir er getið nokkurra ártala í sögu Krýsuvíkur:
KrýsuvíkurkirkjaGamla Krýsuvík eldri en 870?
Ögmundahraun rennur 1151
Kirkja um 1200
Krýsuvíkurkirkja byggð 1857 – 1929, endurgerð 1964
Arnarfell – búið til 1870
Vigdísarvellir 1830 -1905
Brennisteinsnám á 18. og 19. öld
Skúli Magnússon 1753
Jón Hjaltalín 1848
Joseph William Busby 1858
T.G. Paterson og W.G.S P
aterson 1871
Selatangar til 1880
Eignarnám ríkisins á Krýsuvík 1936
Stóri-Nýibær til 1938
Hafnarfjörður eignast Krýsuvík 1940 (afsal 1941)
Krýsuvíkurvegurinn kominn 1945
Magnús Ólafsson bjó í kirkjunni til 1945
Bústjórahús reist 1948
Gróðurhús og starfsmannahús reist 1949
Fjós byggt 1950
Vinnuskólinn 1953-1964
Túnræktun 1954

Krýsuvík

Krýsuvík; Hverafjall, Hveradalur og Baðstofa efst.

Gunnuhver

Á ferð FERLIRs um svæðið austan Eldborga í Krýsuvík var góða veðrið notað til að staldra við hjá dysjum Herdísar og Krýsu. Konur þær er dysjarnar draga nöfn sín af hafa einungis, svo vitað sé, verið til í þjóðsögum. Útgáfur frásagnanna eru mismunandi, en þó er sumt sammerkt með þeim öllum. Herdís bjó í Herdísarvík og Krýsa bjó í Krýsuvík.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Í sögunum segir að konurnar hafi deilt vegna landamerkja og deilan endað, eftir að hvor um sig hafi lagt á landshagi hinnar, með því að þær drápu hvora aðra neðst í Kerlingadal neðan við Deildarháls. Þar eru nefndar dysjar þeirra. Milli dysjanna eiga að vera hin gömlu landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Minjar og fiskur eiga margt sameiginlegt. Menn róa til fiskjar og skapa úr honum mikil verðmæti. Í framtíðinni verður einnig gert út á minjar sem þessar og úr þeim sköpuð mikil verðmæti. Ferðamennskan er vaxandi atvinnugrein. Á árinu 2003 komu t.a.m. 230.000 erlendir ferðamenn til landsins, með flugi og með Norrænu. Aukning á milli ára er um 12 – 14%. Búast má við að aukningin haldi áfram að öllu óbreyttu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Ferðaþjónustan skilar nú um 13% útflutningstekna landsins, svipað og ál og kísiljárn. Aðeins fiskafurðir og önnur þjónusta ýmis konnar skilar meiru. Tekjur af ferðamönnum árið 2001 voru um 37.7 milljarðar króna. Aukningin hefur verið stigvaxandi.
Flestir ferðamannanna eru frá hinum Norðurlöndunum, þá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Kynjaskipting ferðamanna er 55% karlar á móti 45% konur. Flestir, eða um 55% að vetrarlagi og 75% að sumarlagi koma vegna náttúru landsins. Langflestir eru í fríi og koma á eigin vegum. Þeir fá upplýsingar um Ísland á Netinu, hjá Ferðaskrifstofum eða í bæklingum. Flestir heimsækja Geysi og svæði í uppsveitum höfuðborgarsvæðisins. Um 75% af þeim fóru í Bláa lónið og um 80% í náttúruskoðun.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Suðurnesin hafa verið vannýtt ferðamannaland þrátt fyrir að flestir ferðamanna koma þangað á leið sinni inn og út úr landinu. Í skýrslu Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu er m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Í skýrslu Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum eru markaðssvsæðin skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.

Í skýrslu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
Í skýrslu samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.

Ferlir

Dásemdir í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í skýrslu samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
Á ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.
Í 14 skýrslum Norrænu ráðherranefndarinnar er gert ráð fyrir mögulegri nýtingu menningarlandslags, búsetulandslags og menningarumhverfis í þágu ferðamennsku framtíðarinnar. Þar er gert ráð fyrir að minjar og saga verði í öndvegi og að líta eigi á minjarnar sem hluta af heild.
Þegar horft er á dysjar þeirra Herdísar og Krýsu annars vegar og til möguleika Reykjanesskagans í þágu ferðamennsku framtíðarinnar hinsvegar er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýn.
Frábært veður.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Krýsuvík

Í „Rauðskinna hin nýrri“ skrifar Jón Thorarensen um Ræningjahól í Krýsuvík.
Krýsuvíkurbærinn 1898„Þegar ég var 18 vetra gamall, átti ég heima í Krýsuvík. Ég var þar vinnumaður ásamt fjórum öðrum. Tuttugu manns voru á heimilinu, kátt fólk og skemmtilegt. Vorið 1898 stundaði ég þar veiðar í berginu, náði fugli og eggjum. Ég fór á morgnana niður á berg og var þar allan daginn fram á kvöld.
Krýsuvík var stórbýli, túnið afar stórt og hæðótt, svo ekki sást yfir það allt frá bænum. Í túninu er hæð, sem heitir Ræningjahóll. Þegar komið er sunnan í hól þennan, sét ekki heim að bænum. Hæð þessi er slétt tún og skammt fyrir innan túngarðinn.
Það var, að mig  minnir, í níundu viku sumars 1898, að ég svaf hjá einum vinnumanninum, sem heitir Jón Ívarsson. Rúmið okkar var inni við gluggann, og svaf ég fyrir ofan Jón. Þá dreymdi mig draum þann, sem nú skal greina: Mér þótti maður koma inn gólfið, inn að rúmi mínu. Mann þennan hafði ég ekki séð áður; var hann á að gizka um þrítugt. Hann var meðalmaður á hæð. Hann var í stuttbuxum og skóm úr íslensku skinni, sem voru svo djúpir, að þeir náðu upp á ökla, dregnir saman með skinnþvengum. Ég hafði aldrei séð mann með þannig fótbragð. Hann var í svartri prjónapeysu, með prjónahúfu á höfðinu, sem var eins og alpahúfur þær, sem nú eru notaðar. Mér þótti hann heilsa mér  og biðja mig um að koma með sér heim til sín.

Krýsuvíkurbærinn 1910

Föt mín lágu á kofforti, sem stóð við rúm mitt. Mér fannst ég fara fram fyrir Jón og klæða mig í flýti og ganga með manninum út og vestur bæjarhlað og suður að Ræningjahól, og þegar við vorum þangað komnir, erum við allt í einu komnir að bæ, sem ég hafði aldrei fyrr þar séð, því að ég bjóst við að sjá þar aðeins slétt tún. Þessi bær var með tveim húsum, hlið við hlið, og gengið þversum inn í bæinn um hleðsluna. Þegar við komum inn í fremra bæinn, voru gömul hjón þar fyrir, sem sátu á rúmum sínum og sitt barnið hjá hvoru. Voru þau að gefa börnunum að borða skyr eða graut úr tréskálum. Við héldum svo inn í innra bæinn. Þar inni var kona mannsins, sem ég var með. Mér virtist hún vanfær og að því kominn að veikjast og ala barn. Rúmstæði var á gólfinu, sem var brotið, og það bað maðurinn mig að gera við, um leið og hann fékk mér verkfæri, og fór ég að fást við þetta, eins og ég væri vanur smiður.

Ræningjahóll og túnbletturinn sunnan hans

Þegar ég hafði lokið viðgerðinni, lét konan f´öt í rúmið, en maðurinn hafði orð á því við mig, að hann gæti ekki borgað mér þetta, en hann skyldi minnast mín síðar. Ég hélt því næst heim, og fylgdi maðurinn mér alveg inn að rúmi mínu. Þar kvaddi hann mig og fór út, en mér fannst ég hátta aftur og sofna. Þannig var draumurinn.
Þennan morgun svaf ég fram að fótaferðatíma. Klæddist þá og hélt til veiða niður á berg. Þegar ég  var kominn suður með túngarðinum, þá verður mé rlitið upp að Ræningjahól, og þá mundi ég, hvað mig dreymdi um nóttina. Ég hugsaði sem svo, að þetta væri allt tóm vitleysa, þarna gæti enginn bær verið, og svo hvarf þessi draumur alveg úr minni mínu. Ég var allan daginn frammi á bergi, og veiddi ég með mesta móti þennan dag. Ég kom heim klukkan níu um kvöldið; þá var fólkoð að borða kvöldverðinn, margt við sama borð, og ég fór að borða líka.
Þá spyr Jón Ívarsson mig, hvað ég hafi verið að gera út í nótt. „Ég fór ekkert út“, var mér að orði. Þá svaraði hann: „Júm ég sá þig klæðast, og þú varst lengi úti“. „Það getur ekki verið“, svaraði ég. Rétt í þessu kom húsbóndinn inn, heyrði samtal okkar og segir: „Jú, ég  var úti og var að reka fé úr túninu um klukkan tvö, og sá þig koma sunnan frá Ræningjahól og fara inn í bæinn“.
Mér þótti þetta nokkuð skrítið og minntist þess þá aftur, er mig dreymdi um nóttina, og sagði fólkinu drauminn, en það varð alveg undrandi af frásögn minni. En aldrei hefir mig dreymt manninn í Ræningjahól aftur.  (Handrit Guðmundar Guðmundssonar trésmiðs í Reykjavík).“

Heimild:
-Jón Thorarensen – Rauðskinna hin nýrri, þjóðsögur, sagnaþættir, þjóðhættir og annálar, II. bindi, 1971, bls. 54-56.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja um 1940.

Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Krýsuvíkurkirkja
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík. Síðasti bóndinn.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja 2010.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Holland.

Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Arnarfell

Gengið var umhverfis Arnarfell í Krýsuvík. Skoðaðar voru tóftir Arnarfellsbæjarins sunnan undir fellinu, útihúsatóftir í fellinu miðju, litið á Arnarfellsvatnið suðaustan við fellið og síðan skúta og stekk norðan við það. Að Arnarfelli að vestanverðu liggja miklir garðar er tengast Suðurkoti og Læk. Frægastur ábúanda á Arnarfelli var Beinteinn Stefánsson, sá er byggði Krýsuvíkurkirkju þá er nú stendur, 1857.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – tóftir gamla bæjarins framar.

Þegar gengið er frá kirkjunni er fyrst fyrir Ræningjahóll sunnan henar, handan þjóðvegarins. Hóllinn, sem og gróinn hóll austan hans, Ræningjadys, tengjast sögnum af Tyrkjunum er komu upp Ræningjastíg á Krýsuvíkurbergi og áleiðis að kirkjunni þegar þeir mættu séra Eiríki á Vogsósum, sem hafði verið þar við messu. Ræningjunum var komið fyrir í dysinni eftir að þeir höfðu vegið hvorn annan að áhrínan séra Eiríks.
Syðri vörslugarðinum, sem nær milli Bæjarfells og Arnarfells, var fylgt áleiðis yfir að síðarnefnda fellinu. Sunnan undir fellinu eru tóftir bæjarins.
Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan segir að eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan af viðureign Beinteins og Tanga-Tómasar á Selatöngu er mörgum kunn. Í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929, var sagan eftirfarandi [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

[Hér er um að ræða stytt afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.

Arnarfell

Tóftir Arnarfellsbæjarins.

Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.

Arnarfellsvatn

Arnarfellsvatn.

[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð].

Arnarfell

Tóft í Arnarfelli.

Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.

Arnarfell

Arnarfellsrétt.

Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.”
Ofar í Arnarfelli eru tóftir útihúsa. Efst á því er Eiríksvarða, sögð hlaðin af séra Eiríki með þeim orðum að á meðan hún stendur munu Tyrkir ekki koma í Krýsuvík. Suðaustan við Arnarfell er Arnarfellsvatn. Vel gróið er við það sunnanvert. Þar munu hestalestarnar á leið austur yfir hafa áð fyrrum. Enn mótar fyrir tóftum við vestanvert vatnið. Nokkru suðvestar er Arnarfellsréttin.
Gengið var norður fyrir Arnarfell. Uppi í því norðaustanverðu er nafngreindur skúti, fremur lítill þó, kenndur við kvenmann frá bænum. Norðan fellsins er hlaðinn stekkur utan í grettistaki. Skammt vestar er hlaðinn garður er nær áleiðis að bænum Læk, austan á austanverðri Krýsuvíkurtorfunni. Honum var fylgt þangað og á leiðinni voru rifjaðar upp sagnir af Arngrími frá Læk og veru hans með fé sitt í fjárhellinum í Klofningum (sjá aðrar FERLIRslýsingar).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Magnús Ólafsson í Krýsuvík
Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og  MagnúsKrýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogsósum og göldrum hans).
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið  1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu.  Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).  Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík.  Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.

Magnús Ólafsson, einsetumaður í Krýsuvíkurkirkju
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvik sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum.  Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita.  Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“  Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.
„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er.  Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt.  Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“
Þóra

Magnús vann sem fjárhirðir  hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda  bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.
Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.

Þóra Þorvarðardóttir, eiginkona Magnúsar Ólafssonar
Þóra bjó með Magnúsi í vestri enda Nýjabæja ásamt öðru vinnufólki á bænum. Þegar elsta barn (Ólafur Magnússon) þeirra hjóna var komið á skólaaldur flutti Þóra búferlum til Hafnarfjarðar. Magnús unni sér hins vegar ekki í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þóra bjó eftir sem áður í Hafnarfirði og heimsótti hún ásamt börnum sínum Magnús í Krýsuvík.  Hún var atorkusöm kona sem bjó við lítil efni, en kom börnum sínum í gegnum skólagöngu og til mennta með sóma.
Þóra var dugleg kona og nýtin, börn þeirra hjóna komust vel á legg og skorti ekki andlega næringu né líkamlega. Hún kenndi börnum sínum að njóta lífsins án þess að þurfa mikið af veraldlegum gæðum. Frú Þóra gat gert veislumat úr hverju sem var og var þakklát fyrir góða heilsu og þá reynslu sem að lífið gaf henni. Gestir voru ævinlega velkomnir og bauð frú Þóra ævinlega til borðs er gesti bar að garði þótt efni hafi verið lítil.
Þorvarður

Sonur þeirra hjóna sem er yngstur Þorvarður Magnússon varð húsasmiðameistari í Hafnarfirði og kvæntist Áslaugu Einarsdóttur klæðskeradóttur í Hafnarfirði.

Þorvarður Magnússon
Þorvarður Magnússon, sonur Magnúsar einbúans í Krýsuvík.  Þorvarður er um þrítugt á þessari mynd og vinnur sem húsasmíðameistari í Hafnarfirði.
Þorvarður kveðst ekki hafa búið með foreldrum sínum á Nýjabæ enda yngstur systkina sinna sem komin voru á skólaaldur er hann fæddist.  Hann heimsótti þó föður sinn í Krýsuvík þegar að hann bjó á bænum og einnig í kirkjunni. Þorvarður man ekki mikið frá Nýjabæ enda var hann kornungur þegar faðir hans bjó enn þar.  Bærinn lagðist í eyði árið 1938 og var Þorvarður einunigs 11 ára gamall þá.
Hann heimsótti hins vegar föður sinn í kirkjuna í Krýsuvík og man eftir henni og hvernig faðir hans bjó.  Einsetumaðurinn í Krýsuvík var því fjölskyldumaður þó svo að hann hafi kosið að búa fjarri mannabyggðum. Þorvarður man eftir fátæktinni sem var á þessum árum, atvinnuleysinu og hvað húsakostur var misjafn eftir efnum manna. Faðir hans var vinnumaður allt sitt líf og þekkti ekki annað.
Húsasmiðameistarinn í Hafnarfirði Þorvarður Magnússon segir frásögnina rétta sem er í bókinni Landið er fagurt og frítt, sem að var gefin út árið 1944 og er rituð af Árna Óla og gefin út Bókafellsútgáfunni.  Í bókinni er viðtal við einbúann í Krýsuvík.

Krýsuvík

Vigdísarvellir

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu 1960, er birt þjóðsagan  „Í risaklóm„. Sagan birtist einnig í Æskunni árið 1981:

Vigdísarvellir

Móhálsadalur austan Vigdísarvalla.

„Endur fyrir löngu bjuggu hjón á bæ þeim, skammt frá Krýsuvík, er Vigdísarvellir hét. Sá bær er nú í eyði. Þau hjón áttu sér eina dóttur. Hún hét Guðrún. Guðrún var forkunnar fögur. Svo fögur að hennar líki fannst enginn á öllu íslandi. Ekki er þess getið að þau hjón hafi átt fleiri barna. Og bjuggu þau með dóttur sinni einni á Vigdísarvöllum.

Þegar þessi saga gerðist eru hjónin hnigin mjög á efri aldur, en dóttir þeirra gjafvaxta. Fregnir um fegurð Guðrúnar og gjörvuleik fóru víða. Menn komu víðsvegar að til þess að biðja hennar. En allt var það árangurslaust.
Hversu fríðir og föngulegir og fémiklir sem biðlarnir voru, neitaði Guðrún þeim öllum. Og getur sagan ekki um ástæðu fyrir því. Gekk svo um langan tíma.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Eitt kvöld síðla sumars er barið all-harkalega á bæjardyrnar á Vigdísarvöllum. Verður þeim hjónum og Guðrúnu bilt við, og hikaði bóndi við að fara til dyra. Er þá aftur barið og enn þunglegar en áður. Verður bónda nú ekki um sel og fer hvergi. Þess er þá skammt að bíða, að barin eru þrjú bylmingshögg á bæjardyrnar. Og þorir bóndi nú eigi annað en út að ganga. Nokkuð var farið að rökkva. Koldimmt var í göngum. Uggur var í bónda. Þreifaði hann sig fram eftir göngunum, fálmaði eftir slagbrandinum, tók hann gætilega frá dyrunum og gægðist út. Sá hann þá hvar stór maður, ferlegur útlits og ófríður, stóð frammi fyrir honum. Fannst bónda maðurinn mikilúðlegur og illa vaxinn. Þóttist hann aldrei hafa séð svo ljótan mann fyrr á ævi sinni. Sýndist honum hann meira líkur risa en mennskum manni. Hugði nú bóndi að hér væri ekki allt með felldu, en reyndi sem allra minnst að láta á ótta sínum bera. Heilsaði hann manni þessum, spurði um heiti hans og innti hann eftir erindi hans, og hvaðan hann væri. Kvaðst maðurinn heita Ögmundur og vera kominn til þess að biðja dóttur hans.
Ekki sagðist hann geta sagt hvaðan hann væri. Svo óttasleginn sem bóndi var fyrir, varð hann hálfu hræddari, er hann heyrði erindi komumanns og hinn hrikalega málróm hans. Bóndi varð fár við í fyrstu en sá fljótt að nú var annað hvort að duga eða drepast. Bað hann komumann hinkra ögn við meðan hann brygði sér í baðstofu og færði þetta í tal við konu sína og dóttur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Þarf ekki að orðlengja það, að bónda þótti nú þunglega horfa, og að konu hans og Guðrúnu þóttu tíðindin ill. Æddi bóndi nú eirðarlaus fram og aftur um baðstofugólfið. Álasaði hann dóttur sinni harðlega fyrir að hafa ekki þegið bónorð einhvers af þeim mörgu ágætu og glæsilegu mönnum, er höfðu beðið hennar. Hefði þá þessum vansa verið bægt frá dyrum þeirra. En um það dugði ekki að fást, úr því sem komið var. Hér var vandi á ferðum. Góð ráð voru dýr. Hryllti bónda við að láta dóttur sína í hendurnar á þessum hræðilega risa. Og ef hann neitaði, var eins líklegt að hann tæki Guðrúnu með valdi og flytti hana á brott með sér. Í öngum sínum og ráðaleysi ráfaði bóndi nú til dyranna, en kona hans og dóttir fylgdu honum eftir með skelfdum augum. Komumaður leit löngunarfullum augum til bónda er hann kom út. En í því er bónda varð litið upp til hins ljóta og afskræmda andlits risans, kom honum skyndilega ráð í hug. —

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Nú er frá því að segja að skammt frá Vigdísarvöllum var hraun nokkurt, ógreiðfært og illt yfirferðar. Var það ákaflega úfið, holótt og þversprungótt og lá víða á því mosaslæða, svo að stórhættulegt var yfir að fara. Kom það eigi sjaldan fyrir að slys urðu á mönnum og dýrum. Bóndi hafði þá nýlega misst hest sinn og hafði hann fótbrotnað í klungri hraunsins.
Bóndi bað komumann fylgja sér. Mæltu þeir fátt en gengu hratt. Þegar þeir komu að hraunjaðrinum, mælti bóndi: „Ég skal gefa þér dóttur mína fyrir konu en með einu skilyrði þó. Þú skalt ryðja þetta hraun. Skaltu ryðja greiðfæran veg í gegnum það og vera búinn að því að sólarhring liðnum. Verðurðu ekki búinn að því fyrir lágnætti annað kvöld, verður þú af dóttur minni.“ Að svo mæltu gekk bóndi snúðugt burtu. Varð fátt um kveðjur. En risinn tók til óspilltra málanna við að ryðja hraunið.
Bóndi gekk glaður heim á leið og þóttist nú heldur en ekki vel hafa dugað sér og sínum. Sváfu þau hjónin vel um nóttina. Guðrún svaf illa. Hafði hún ýmist þunga drauma eða lá andvaka. Gat hún ekki varist þeirri hugsun, að verið gæti að risanum tækist að ryðja hraunið. En bóndi kvað það hina mestu fjarstæðu, taldi í hana kjark og bað hana sofa.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Árla næsta morgun reis bóndi úr rekkju. Hann gekk út á bæjarhólinn og skyggði hönd fyrir auga. Sá hann þá hvar risinn hamaðist sem mest hann mátti. Var engu líkara en kominn væri á hann berserksgangur. Grýtti hann grjótinu til beggja handa sem óður væri. Fannst bónda atgangur hans mikill og æðisgenginn. Og ekki var ásýnd risans ásjálegri.
Bónda leist nú ekki á blikuna. Hvarf hann inn í bæinn aftur og tjáði konu sinni, að tvísýnt væri nú að ráð hans dygði nokkuð. Kvað hann vera komið æði á risann enda miðaði honum drjúgum. Svo gæti farið að honum tækist að ryðja hraunið og yrðu þau hjónin að láta af hendi dóttur sína.
Ögmundardys
Þennan dag var eigi rótt í koti karls og kerlingar og varð lítið úr verki á Vigdísarvöllum. Var sem enginn gæti innt af hendi nokkurt verk til hlítar.
Tíðum var þeim hjónum og Guðrúnu gengið út á hólinn, einkum þó Guðrúnu. Og var sem hún hefði enga eirð í sínum beinum.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Jón Guðmundsson frá Skála við dysina.

Risanum miðaði æ betur og betur. Eftir því sem á daginn leið lengdist vegurinn og styttist nú óðum sá kafli er eftir var.

Leið nú dagurinn uns komið var fram í myrkur. Tóku hjónin að örvænta að úr þessu mundi rætast. Guðrún var orðin vonlaus. Fór hún að búa sig undir brottförina, og gerði hún það ekki sársaukalaust. Hjartað barðist ótt í brjósti hennar. Bar hún sig næsta aumlega, sem vonlegt var. Hafði hún aldrei úr föðurgarði farið áður enda ætlað sér vænlegra hlutskipti en að lenda í risaklóm. Grét hún beisklega yfir örlögum sínum. Móðir hennar reyndi að hughreysta hana þótt það kæmi einnig við hjarta hennar að skilja svo við dóttur sína.
Bóndi horfði á dapur í bragði. Rann honum svo til rifja að sjá örvæntingu dóttur sinnar, að hann ákvað að gera eitthvað, hvort sem það dygði eða dygði ekki. Æstur í skapi, samanherptur og þrútinn í andliti af reiði, yfirgaf hann mæðgurnar í þessu ástandi.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi gekk út í skemmu. Hann tók sveðju eina mikla og stóra og brýndi snarplega. Er hann hafði lokið því gekk hann rakleiðis út í hraunið. Stóð það heima að risinn hafði lokið hlutverki sínu. Greiðfær og allgóður vegur var nú kominn yfir hraunið.
Eins og bóndi bjóst við var risinn yfirkominn af þreytu. Var hann kominn miðja vegu til baka aftur og skjögraði til beggja hliða, er hann gekk.
Bóndi beið risans við hraunjaðarinn.
Honum var órótt. Eftir alllanga stund kom risinn að hraunjaðrinum. Gekk hann upp og niður af mæði og var þreyttur mjög. Réðst bóndi þegar að honum. Er hann sveiflaði sveðjunni og sá blika á hana, óx honum ásmegin. Ekki var allt afl þrotið úr æðum risans. Var þetta bæði harður leikur og langur, en þó fór svo að bóndi felldi risann. Var hann svo þjakaður eftir viðureignina að hann gat sig hvergi hreyft. Er hann hafði jafnað sig dysjaði hann risann þarna við hraunjaðarinn. Og heitir þar síðan Ögmundardys og hraunið Ögmundarhraun. Má enn þann dag í dag sjá Ögmundardys við vegarendann í Ögmundarhrauni.
Er bóndi kom heim voru heldur en ekki fagnaðarfundir á Vigdísarvöllum.
Af Guðrúnu er það að segja að hún giftist skömmu síðar og lifði við gæfu og gengi allt sitt líf.
Og lýkur svo þessari sögu.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, Í risaklóm – þjóðsaga, bls. 33-34.
-Sagan birtist einnig í Æskunni, 1. tbl. 01.01.1981, bls. 16-17.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurleið

Gengið var frá Skökugili um Siglubergsháls, eftir Krýsuvíkurleiðinni þar sem langar birgðarlestirnar fullhlaðnar þurrkfiski liðuðust um áleiðis til Skálholts forðum, gömlu gönguleiðinni austur til Krýsuvíkur, framhjá Drykkjarsteini og Hlínarvegi fylgt að Méltunnuklifi, haldið yfir Grákvíguhraun, yfir Núpshlíð og um Tófubruna niður af Lathólum og síðan var hinum forna Ögmundarstíg fylgt austur yfir Ögmundarhraun. Staðnæmst var við dys Ögmundar, þess er þjóðsagan segir að hafi rutt brautina í gegnum hraunið forðum daga.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Nýr Suðurstrandarvegur mun fara yfir hina fallegu leið á Siglubergshálsi svo hver var að verða síðastur til að berja hana augum.
Að sögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála var jafnan farið upp á Siglubergsháls um sneiðing utan í Skökugili. Nafnið er dregið af því að þar féll af hesti smjörskaka, en skaka hét smérstykkið, sem pressað hafði verið í strokknum. Nafnið er til komið líkt og Méltunnuklif nokkru austar, en þar munu menn hafa misst méltunnu af einum hestanna á leið sinni um klifið. Það var þá mun mjórra en nú er.
Jón sagði að elsta gatan um hálsinn hafi verið göngugatan er liggur upp með vestanverðu Festisfjalli. Guðmundur á Skála, faðir Jóns, og Bergur bróðir hans löguðu veginn að hluta árið 1930. Þá gerðu þeir götuna akfæra upp hálsinn. Sá hluti vegarins sést vel á honum vestanverðum þar sem hann liggur á ská niður brattann. Þessi hluti götunnar fer undir Suðurstrandarveginn.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Af Siglubergshálsi er fegurst útsýni til suðvesturs yfir fegurstu byggð á gjörvöllu landinu. Hún er og hefur verið fámenn, en með afbrigðum góðmenn. Fólkið þar hefur skilið tilgang lífsins betur en flest annað fólk, en borist lítið á, enda hreykir það fólk, sem veit og skilur, sér jafnan ekki hátt yfir meðvituð takmörk.

Gamla gatan frá Grindavík til Krýsuvíkur lá í gegnum Móklettana, en vegur þeirra Guðmundar og Bergs, sem sjá má ofan við Móklettana, lá áfram niður með og norður fyrir þá, þar sem nýi vegurinn mun liggja. Í austanverða Móklettana eru klöppuð landamerki Hrauns og Ísólfsskála (V 1890).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Gamla gatan liggur undir núverandi vegarstæði austan Mókletta. Hún liðaðist niður með norðanverðu Festisfjalli og áfram milli Lyngfells og Litlahálss. Utan í honum eru klöppuð fangamörk fyrrum vegfarenda í móbergið. Götuna áleiðis niður að Skála má sjá rétt ofan við nýja veginn, vestan og utan í Lyngfellinu. Jón sagði að yfirleitt hafi verið reynt að sneiða hjá bjallanum ofan við Skála vegna þess hve brattur hann var. Sem dæmi mætti nefna að þegar Jóhannes Reykdal sendi vörubíl fullhlaðinn timbri í íbúðarhúsið á Skála hafi gengið þokkalega að koma honum niður brekkuna, sem þá var skammt vestan við núverandi vegarstæði, en þegar aka átti bílnum upp aftur hafi ekkert gengið. Varð að sækja 13 menn og reipi til Grindavíkur með til að draga hann upp brekkuna svo hægt væri að koma honum til baka.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur: Skála-Mælifell fjær.

Gömlu götunni til Krýsuvíkur var hins vegar fylgt frá Litlahálsi yfir Litla-Borgarhraun og áleiðis í Drykkjarsteinsdal. Gatan sést vel í gegnum hraunið. Fjárborgin í Borgarhrauni er skammt sunnan við götuna. Þar á hæð var hlaðið lítið ferkantað mannvirki.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum (sjá Drykkjarsteinn – saga – undir Fróðleikur).

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra.

Krýsuvíkurvegur

Gamli_Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson í Herdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum. Fyrirhuguð efnistaka í Einihlíðum ofan við Lyngbrekkur vegna Suðurstrandarvegarins stefna þessum vegarkafla í hættu. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurvegurinn um Méltunnuklif.

Þegar komið var að Méltunnuklifi mátti vel sjá hvernig vegavinnumenn höfðu kroppað drjúgt úr berginu og sprengt sér leið fram hjá stóru bjargi í klifinu ofan við bjargbrúnina, mesta farartálmanum. Eftir það var leiðin nokkuð greið í gegnum Grákvíguhraun og Leggjabrjótshraun, upp og yfir Núpshlíð þar sem gatan er höggvin í gegnum móbergskletta efst á hálsinum, áfram niður á Djúpavatnsveg og síðan var gamla veginum fylgt yfir Tófubruna að Latsfjalli. Á Núpshlíðarhálsi eru nokkrir eldgígar. Undir einum þeirra er gat og sést þar niður í myndarlega hvelfingu undir. Stiga þarf til að komast niður. Forvitnilegt væri að skoða rýmið þarna niðri við tækifæri. Hellirinn hefur fengið nafnið S. Þá vantar bara Á-ið, en Óið er norðvestan Grindavíkur.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur um Ögmundarhraun.

Af hálsinum var ágætt útsýni yfir Ögmundarhraun. Nýi vegurinn er eftir gamla sneiðingnum niður hlíðina að austanverðu. Ögmundarstígnum gamla var síðan fylgt yfir Ögmundarhraun. Jón sagði að þeir hefðu lagt veginn 1932, ofan í gömlu göngu- og hestagötuna í gegnum hraunið. Þá hafi klöppin verið djúpt mörkuð eftir hófa og fætur liðinna alda. Sums staðar hafi komin göt í bergið og holrúm verið undir. Það hafi verið fyllt upp og gatan breikkuð. Ef hreinsað væri upp úr götunni kæmi sú gamla eflaust aftur í ljós. Nú sæist hins vegar ekkert eftir af gömlu götunni nema stuttur spotti austast í hrauninu, þar sem hún liggur framhjá Ögmundardys.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Staðnæmst var við dysina austur undir Krýsuvíkur-Mælifelli.
Best varðveittu kaflarnir á leiðinni frá Grindavík áleiðis til Krýsuvíkur eru á Siglubergshálsi, vestan við Méltunnuklífið og í gegnum Ögmundarhraunið vestan við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þessum stöðum hefur þó verið farið yfir elstu götuna með nýrri vegagerð, nema á tveimur stöðum, þ.e. austast í Ögmundarhrauni og vestan við Tófubruna. Annars staðar hefur verið lagðir enn nýrri vegir yfir gömlu götuna eða þeir skemmdir með jeppaakstri. Þeir kaflar, sem heillegastir eru, eru vel þess virði að gefa góðan gaum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krysuvikurvegur-21

Gamli Krýsuvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

 

Austurengjar

Heimabæirnir í Krýsuvík áttu m.a. slægjulönd á Vestur- og Austurengjum. Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1987 segir m.a.: „Í Jarðabók sinni, telja þeir Arni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi 7 af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ.
Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé Krysuvik um aldarmoteign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Ekki fylgdu neinar engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum.
Á flestum þessara 6 býla mátti fóðra tvær kýr, hesta eftir þörfum og um sauðfjáreign, munu engin ákvæði hafa verið, né þótt þurfa. Þegar Nýjalöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni, úr Kleifarvatni, áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar) tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming, en hver hjáleiga einn tólfta hluta. í góðu grasári, gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut, af hvoru Nýjalandi, um 50 hestburði, af nautgæfu heyi.“
vesturengjar-221Ari Gíslason skráði: Norður frá Nýjabæ, austan nýja vegar, er vatn það, sem heitir Grænavatn. Norðan þess tekur svo við láglendi og graslendi norður að Kleifarvatni, sem er allstórt vatn með allmerka sögu, en ekki fullrannsakaða og því ekki til umræðu hér. Svæðið þarna á milli má segja, að sé engjar og þá með ýmsum nöfnum. Fyrst má þá segja, að upp af þessum bæjum gengur hæðarrani fram í graslendið, sem skiptir engjunum í Vestur-Engjar og Austur-Engjar. Hæðarrani þessi heitir Litla-Lambafell nyrzt, og aðskilið af smálægð er þar norðar Stóra-Lambafell.
Nokkuð norðaustur frá Grænavatni, uppi í hæðinni, er svonefndur Austur-Engjahver. Var þar lítill vatnshver, en 1924 myndaðist þar stór leirhver, sem svo heldur nafninu. Austan við þennan hver heita Ásar. Á engjunum er þá fyrst næst Stóra-Nýjabæ Giltungur (líklega er það, áður en komið er á engjarnar). Þá er Höfði og Höfðamýri og Kringlumýri.

vesturengjavegur-221

Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar. Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt. Fyrrnefndur malarhryggur er nefndur Rif. Vestan við Fremra-landið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, sem nefndur er Ós, inn á Innra-landið og svo í vatnið sjálft. Lækur þessi á upptök sín að mestu í Vestur-Engjum og Seltúnshverum, er síðar getur. En smálindir koma þó í hann af Austur-Engjum úr Hvömmum og Lambafellum.

seltun-221

Vestur-Engjarnar eru vestanvert við Lambafellin. Þar er svæði, sem heitir Norðurkotsnes. Milli þess og Lambafells er lækur, sem heitir Svuntulækur. Á Vesturengjunum er skorningur, sem nefndur er Ósgil, þá Fúlipollur og Fúlapollsrás. Þá er Flatengi. Vestan við Nýja-landið, sem fyrr er nefnt, er Kaldrani, sem fyrr var getið. Norðan við Kaldrana tekur svo við svæði, sem nefnt er Sandur (og nær inn með vatninu vestanvert, inn að Syðri Stapa. Á Vesturengjunum eru Lækjarengjar, og í Hvömmunum fyrrnefndu er Laug. Þá er á Vesturengjum stykki, sem heitir Svunta, og Svuntugil, þá er Svuntuhorn, og eitt af augunum heitir Steinkupyttur.“
Gísli Sigurðsson skráði: „Austur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá Austurengjagatan meðfram Litla-Lambafell-221Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar. Þrætustykki. Kringlumýrar tvær Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu. Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá GrSeljamyri-221ænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnistFlóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur vestan Grófarlækjar. En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin. Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk.
Krysuvikurengjar - kortMyndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur með Laugina öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil. Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækurnefnist hann. Frá Stórahvammi liggur Hvammholt niður á Rifið. „

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. mars 1987, bls. 5.
-Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Austurengjar

Austurengjar.

Friðrik Bjarnason

Í blaðinu „Akranesi“ árið 1956, skrifar Friðrik Bjarnason um „Minningar“ sínar um allt og nánast ekki neitt. Hvað Garðahrepp og Hafnarfjörð varðar eru þær flestar því miður fánýtar í ljósi staðreynda sögunnar, en þær eru þó ekki alveg allar alvitlausar. Það er ávallt fróðlegt að sjá hvað öðrum finnst um hitt og þetta. Skoðum nokkrar þeirra Friðriks er varða Reykjanesskagann:

XXI.
Hraunin

Friðrik Bjarnason

Friðrik Bjarnason.

„Sunnan Hafnarfjarðar, sem og víðar kringum Fjörðinn eru víðlend hraun, úfin og ill yfirferðar. Þar gefur að líta háa og margvíslega lagaða hraunsnaga. Þar eru líka djúpar dældir, sumar mosavaxnar og með ýmsum gróðri, og einnig eru þar djúpar gjár og sprungur, er oft reynast illar yfirferðar og hættulegar. Hellar eru þar víða, margvíslegir að lögun og stærð Hraunkleprar, dropasteinar eru sums staðar. Þar eru einnig mannvirki, svo sem fjárhellar og aðrir, er líkastir eru því, sem þar hafi mannabústaðir verið.
Eitt sinn var bóndi af Hraunabæjum að huga að fé sínu suður í hrauni. Þetta var að vetri til, er snjór var á jörðu. Rakki fylgdi bónda, og rann hann á undan, sem hundum er títt. Er komið var langt út í hraunið, veitir bóndi því athygli, að hundurinn hverfur skyndilega, niður í hraunsprungu. Bóndi hraðaði sér sem mest hann má að sprungunni, heyrir hljóð hundsins niður í gjánni, en smám saman veikara, þar til það hverfur með öllu. Bóndi heldur áfram för sinni og svo heim til bæjar aftur. Á sextánda degi frá atburði þessum, kom hundurinn heim, allur blóðrisa og kviðdreginn mjög.

Piltur og stúlka fóru eitt sinn yfir sama hraun, en á öðrum stað og höfðu hest með í förinni, sem stúlkan reið. Þegar þau voru því nær komin upp úr hrauninu, festist hægri framfótur hestsins í hraunsprungu og varð eigi losaður. Fer þá piltur heim til næsta bæjar, en það var löng leið, og fær mann með sér og sleggju, til þess að brjóta bergið frá fæti hestsins, og tókst það svo vel, að hesturinn kom alheill upp úr sprungunni. En á meðan pilturinn var fjarverandi lá stúlkan ofan á hestinum, svo að hann brytist ekki um, og mun það hafa verið nálægt þremur tímum.

XXII.
Eyðibýli

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Þorlákstún nefndist eyðibýli sunnan í Hvaleyrarholti. Býli þetta var lengi í eyði, en er nú aftur byggt og nefnist Þorgeirsstaðir eftir þeim, er reisti. Í fornum skrifum er getið um stórbýli eitt, að nafni Þorláksstaðir. Munnmæli herma að það hafi þarna verið. Sögusagnir segja, að þar hafi eitt sinn verið bænahús frá Hvaleyri og á því 18 hurðir á hjörum, með koparhúnum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumsel er eyðibýli upp af Hraunbæjum sunnan Hafnarfjarðar. Sagnir herma, að það hafi í byggð verið lengi vel. Fyrir rúmum mannsaldri bjó þar maður að nafni Jón Þorsteinsson.
Bærinn brann, og fórst Jón bóndi þar, og hefur þar eigi byggð verið síðan.

Bali

Vigdísarvellir – tóftir undir Bæjarfelli. Bali er vestar, undir hlíð Vesturfells.

Vigdísarvellir heitir eyðibýli norðvestur af Krýsuvík. Jörð þessi hefur í byggð verið nokkurn tíma, eða frá því um 1830 að sumra sögn. Oft var þar tvíbýli. Slægjur voru þar engar, nema túnið, en sauðbeit allgóð niður í Núpshlíð, og er þangað löng leið frá bænum. Sumarhagar em þar ágætir heima við.
Mór var notaður til eldsneytis og mosi. Vatnsból er gott. Ástæður fyrir því að jörðin lagðist í eyði, eru sagðar margar. Fyrir aldamótin síðustu hrundi bærinn þrisvar sinnum af jarðskjálftum á rúmum 30 árum. Ágangur var mikill af sauðfé og hrossum úr Grindavík og af Ströndinni. Örðugt er þar til aðdrátta og langt til vetrarbeitar, sem fyrr segir og býlið nokkuð afskekkt. Sá, er síðast bjó þar, hét Ívar.

Garðaflatir

Garðaflatir – óskilgreindar minjar.

Sagnir eru til um það, að í fyrndinni hafi byggð verið á Garðaflötum og síðar selstöð, einnig i Helgadal, Skúlatúni og víðar. Sumir draga þó í efa, að svo hafi verið, einkum vegna skorts á neyzluvatni. Gamlir menn, er bezt máttu um þetta vita, svo og rannsóknir, er fram hafa farið á þessu, benda ótvírætt í gagnstæða átt. Vatnsskortur hefur ekki valdið heldur aðrar orsakir.

Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.

XXIV.
Vígslur

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Þjóðkirkjan í Hafnarfirði var byggð árið 1914 og vígð það ár, 20. desember. Vígsluna framkvæmdi Þórhallur Bjarnason biskup. Safnast var saman vígsludaginn við barnaskólahúsið og þaðan gengið til kirkju klukkan 12 á hádegi.
Í broddi fylkingar fór biskup og sóknarpresur, síra Árni Björnsson, en næstir þeim voru prófastur, síra Kristinn Daníelsson og síra Bjarni Jónsson og þá þeir síra Árni Þorsteinsson og síra Janus Jónsson, allir hempuklæddir. Þar næst kom sóknanefnd og þar á eftir aðrir kirkjugestir einnig í skrúðgöngu. Þegar að kirkju kom var klukkum hringt og leikið preludium á orgelið og því næst hófst sálmasöngur. Þar á eftir flutti biskup vígsluræðu, frá háaltari, og svo hin venjulega messugerð. Stólræðuna flutti sóknarpresturinn, en prófastur tónaði.
Um tólf hundruð manns voru viðstaddir athöfn þessa, eftir því sem nánast var talið. Sagt er að kirkjan taki 450 manns í sæti. — Athöfnin fór virðulega fram, enda til hennar vandað eftir föngum.
Um kvöldið bauð Ágúst kaupmaður Flygenring og kona hans biskupi, prestunum, kirkjusmiðnum, svo og öllum starfsmönnum kirkjunnar til kvöldverðar að heimili sínu, og var þar veitt af mikilli rausn. — Kirkjuvígslunnar er hér getið, því ekki var hennar minnzt í blöðunum, sakir annríkis í prentsmiðjunum fyrir jólin.
Fyrstur manna var jarðsunginn frá kirkjunni Guðni Þorláksson, yfirsmiður hennar. Naumast var lokið smíði kirkjunnar, er hann tók sótt þá, er dró hanri til dauða.
Fyrstu hjónin, sem gefin voru saman í kirkjunni, voru Björn Árnason og Guðfinna Sigurðardóttir frá Ási.

Kirkjugarðsvígsla

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarðurinn á Öldum.

Hinn nýi kirkjugarður Hafnarfjarðarkaupstaðar, uppi á svonefndum Öldum, var tekinn til notkunar og vígður 3. marz 1921 að viðstöddu miklu fjölmenni. Athöfnin fór fram kl. 3 í hinum nýja grafreit. Sunginn var viðeigandi sálmur, og að því loknu hóf prófasturinn, síra Árni Björnsson, vígsluræðu og þar á eftir var sunginn sálmur. Að því loknu var jarðsett lík Einars Jóhannessonar Hansen, hið fyrsta í grafreit þessum. Hann var moldu ausinn af presti sínum, síra Ólafi Ólafssyni, fríkirkjupresti, og loks var sálmur sunginn. Söngflokkar beggja kirknanna sungu við athöfn þessa. Bylslitringur var á, dimmviðri og vestangarri.

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarður Hafnarfjarðar hefur þjónustað Hafnfirðinga og nærsveitunga frá víglsudegi, 3. mars 1921. Garðurinn var vígður að viðstöddu fjölmenni séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og var Einar Jóhannesson Hansen jarðsettur. Einar er því vökumaður garðsins. Þjóðtrúin segir að sá sem er fyrst grafinn í kirkjugarði eigi að vaka yfir garðinum og taka á móti þeim sem eru greftraðir þar á eftir honum.

Hinn nýi grafreitur á svo nefndum öldum, stendur á þurru moldarbarði. Þegar nokkuð kemur niður í grafirnar tekur við deiglumór, svo að grafirnar eru þarna þurrar og þokkalegar. Steyptur garður er í kringum reitinn. Inni í honum er dálítið skýli, til afnota fyrir gæzlumann garðsins.“

Heimildir:
-Akranes, 4.-6. tbl. 01.04.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 59.
-Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.
Friðrik Bjarnason