Í Dagur-Tíminn 1996 er fjallað um „Frumbyggja Íslands – Krýsana„. Þar er og m.a. skrif um höfundinn; „Skugga“, Jockum M. Eggertsson.
Uppruni Skugga og ferill
Hugmyndir um búsetu á Íslandi fyrir daga Ingólfs Arnarsonar eru mörgum hugleiknar og eru víða til. Meðal þeirra sem sett hafa fram kenningar um efnið er Jochum M. Eggertsson, sem tók sér höfundarnafnið Skuggi.
Hér á síðunni er leitast við að gefa nokkra hugmynd um kenningar hans um Krýsa, sem vöktu talsverða athygli á sínum tíma, en hafa nú fallið í skuggann fyrir enn öðrum kenningum, sumum miklu ótrúlegri, en margir taka samt sem góðar og gildar.
Jochum M. Eggertsson fæddist á Ísafirði 1896, sonur Eggerts Jochumssonar, bróður Matthíasar skálds og Einars trúmálahöfundar og margra fleiri systkina. Móðir hans var seinni kona Eggerts, Guðrún Kristjánsdóttir frá Gullbringu.
Eggert faðir hans var um tíma skrifari hjá Jóni Þ. Thoroddsen, sýslumanni og rithöfundi, sem þá sat í Haga á Barðaströnd. Annars var hann vitavörður á Naustum, gegnt Ísafirði, en var lengstum ævinnar heimiliskennari hér og þar um Vestfirði og síðar á Ísafirði við barnaskólann. Skáldmæltur, fjölfróður og ritfær, en gaf lítið út. Jochum kallaði sjálfan sig Skugga og gaf út bækur undir því heiti.
Hann varð búfræðingur frá Hvanneyri, fór síðan til Norðurlanda ungur maður og lærði ostagerð og fleiri hagnýt fræði. Heimkominn snéri hann sér þó ekki að sérgrein sinni, heldur skriftum, afar fjölbreyttum. Þýddi hundruð ljóða eftir þekkta erlenda höfunda, gaf út Galdraskræðu um hvíta- og svartagaldur, ritaði Syndir guðanna 1-3, magnað ádeilurit um samtíð sína, samdi fyrsta kvikmyndahandrit á íslensku, þýddi Rubayat Ómars Khajjam og gaf út kenningar sínar um margvísleg efni. Þar á meðal um landnám Krýsa, sem leita verður uppi í fleiri bókum, því svo virðist sem nokkuð skorti á skipulag í framsetningu Skugga. Alls eru útgefin rit hans um 30 talsins.
Skóga í Þorskafirði keypti Jochum 1950 og stundaði þar skógrækt og víðfeðmar hugsanir. Síðustu árin gekk hann til liðs við Baháisöfnuðinn og arfleiddi hann að Skógum. Þar ólst faðir hans upp ásamt systkinum sínum, þar á meðal Matthías skáld Jochumsson.
Jochum Magnús Eggertsson (1896-1966) var einn af fyrstu bahá’íunum á Íslandi. Jochum má telja til frumkvöðla skógræktar á Íslandi. Hann arfleiddi íslenska bahá’í samfélagið að landinu eftir sinn dag.
Jochum var rithöfundur og skáld. Hann skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi.
Í Vikunni 1963 er grein um Skugga; „Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur.“ Þar segir m.a.:
JOCKUM EGGERTSSON (SKUGGI) ER ALLRA HÉRLENDRA MANNA FRÓÐASTUR UM GALDRALETUR FRÁ FORNRITÍÐ. HANN HEFUR KOMIST YFIR GALDRASKRIF, SEM SEGJA FRÁ KRÝSUM, SEM BJUGGU í KRÝSAVÍK OG NÁGRENNI ÁÐUR EN LANDNÁMSMENN KOMU. ÞAR SEGIR EINNIG FRÁ ÞVÍ, AÐ ÞEIR SKRÁÐU SÍÐAR ÍSLENDINGASÖGUR, EN KOMUST í ANDSTÖÐU VIÐ KIRKJUVALDIÐ OG VAR NÁLEGA EYTT MEÐ AÐFÖR ÁRIÐ 1054.
ÞEIR SÁU FYRIR LANDNÁMIÐ OG KOMU VÍKINGA. ÞEIR FUNDU SÚLUR INGÓLFS FYRIR SUNNAN LAND OG FLUTTU ÞÆR Á DRAUGI VESTUR FYRIR HEIÐI. ÞEIM LEIST VEL Á INGÓLF OG HELGUÐU HONUM ÞAÐ LAND ER HANN LYSTI.
„Fyrir skömmu síðan bárust mér í hendur bækur nokkrar sjaldséðar, en að sama skapi merkilegar. Þær eru skrifaðar af Jochum Eggertssyni, skáldi og fræðimanni. Hann er einn af þeim sjaldséðu ágætismönnum, sem troða ekki hefðbundnar slóðir, heldur ryðja nýjum skoðunum rúm í samfélagi mannanna. Hann hefur varið miklum hluta ævi sinnar til rannsókna á íslenzkum bókmenntum, rúnaletri og náttúru landsins. Það sem ég geri hér að umtalsefni er þáttur Papanna, sem bjuggu að Krýsavík, í sköpun fornsagnanna samkvæmt þeim heimildum, sem koma fram í einu ritverki Jochums er hann nefnir „Skammir“. Jochum Eggertsson hefur ferðazt mikið um Vestfirði og víða um landið og hefur komizt yfir gömul handrit og handritaafrit, sem hann telur fjalla um frumlandnám Austmanna og einnig um dvöl Vestmannanna eða Papanna, sem hingað voru komnir miklu fyrr.
Aðalheimildarritið er Gullbringa eða Gullskinna, sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum á undangengnum rúmum 900 árum síðan hún var færð í letur af Kolskeggi Ýrberasyni frá Krýsavík, má þar meðal annars nefna Gráskinna, Rauðskinna og ýms önnur nöfn, sem yið galdra eru tengd. Eigendur bókarinnar eða handhafar þóttu og jafnan fjölkunnugir, að undanteknum biskupum þeim er fyrst varðveittu hana að Skálholti eftir víg Kolskeggs Ýrberasonar árið 1054. í galdrakveri, sem er í einkaeign, afrituðu eftir skinnbókarslitri frá 13. öld stendur eftirfarandi málsgrein með „brimrúnum“, opnuðum með dverglykli, III. skerðingar, og hér færð til nútímamáls.
„Kolskeggur Krýs orti Hávamál, var heiðinn sagður, fordæmdur af helgum mönnum og kirkjustoðum. Hans nafni var útskúfað. Kristinn mun þó Kolskeggur verið hafa. Mestur var hann kunnáttumaður; lifði eftir þann tíma er upp var tekinn Christum og sankti Maríá. (þ. e. kristni lögtekin) aflífaður áður en Ísleifur vígðist.
Stórvitur var Kolskeggur og langglygginn, hans sporningar ógengilegir. Marga hluti hann fullfurðulega gerði, svo sem af litum, letur og stafi, að eigi kunni fölna eður aflýsast. Af kunnáttu (sinni) sauð hann efni saman af jurtum og dýrum og svo af steinum og málmi; rauð á skinn og gerði af bækur að eigi kunni granda feyskja, vatn eður eldur. Þá bók (eina) hafði hann fullkomna, þá hann aflézt, þar á öll hin fornustu fræði, og svo vitur að biskupar og fróðustu klerkar fá eigi af numið. Sú bókin segir um alla landsbygging og sköpun og skifting jarðarinnar, nafngiftir og örnefni og áttvísi, frá Krýsum og Vestmönnum og landvættum þeirra, þá Austmönnum öllum, þeirra áttum og uppákomu. Helgir menn vilja eigi þessa bókina upp taka vegna villu og galdurs. Nú er þessi bókin Kolskeggs sögð undir Skálholtsbiskup og afturreirð, að eigi uppljúkist. Snorri (Sturluson í Reykholti) fékk hana eigi léða eður keypta þó margleitaði til með miklum fjármunum. Þessi Krýsabókin Kolskeggs vitra, hefur Arinbjörn prestur mér sagt, að héti Gullbringa eður Gullskinna.
Öndvegissúlur Ingólfs.
Í Gullbringu skýtur nokkuð öðru við í frásögnum af landnáminu heldur en kemur fram í síðari tíma afritum á Landnámabókum. Í Landnámabók þeirri, sem Guðni Jónsson sá um til prentunar segir: „Þá Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla. Hann mælti svá fyrir, at hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.“ Í næsta kafla segir: „Þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan Heiði.“
Enda þótt Ingólfur Arnarson yrði fyrstur norrænna víkinga til að staðfesta ráð sitt á þessu landi, verður þó, sannleikanum samkvæmt, varla hægt að kalla hann landnámsmann í þessa orðs fyllstu merkingu. Suðvesturströnd landsins var löngu numin af Vestmönnum og margar kynslóðir lifað og dáið í „Landnámi Ingólfs“ á undan honum. Hér var fyrir friðsamt fólk og vopnlaust, en úrval af mannkostum. Hér voru fyrir framsýnir menn og vitrir, er sáu þann kostinn vænstan, að taka þeim víkingum, er setjast vildu að, með opnum ömrum, gera þá að höfðingjum sínum og allan veg þeirra sem virðulegastan.
Allt Norðurlandið ásamt Vestfjörðum og Austfjörðum var enn óbyggt, er norrænir víkingar komu hér fyrst, þá landshluti höfðu Vestmenn að vísu kannað fyrir löngu síðan, en töldu þá lakari að gæðum og lítt byggilega.
Víkingar fengu því venjulega með sér Vestmenn, er voru landinu kunnir, er þeir hugðu til könnunarferða og voru þessir Vestmenn venjulega þaulkunnugir siglingamenn og jafnframt trúnaðarmenn Krýsa.
Frumlandnáma segir frá ferðum Ingólfs Arnarsonar og staðfestu hans í Reykjavík, á allt annan hátt en núverandi gerð. Þeir Vífill Kormáksson og Karli Njálsson, systursonur Vífils, voru EKKI ÞRÆLAR Ingólfs, heldur leiðsögumenn hans og trúnaðarmenn Krýsa. Vífill var siglingagarpur mikill. Og þegar Ingólfur kom hingað til lands könnunarferðina, áður en hann afréð að setjast hér að, þá fylgdu þeir honum út, Vífill og Karli, að ráðum Krýsa. Ingólfur dvaldi vetrarlangt við suðurströndina og ræddi við þá, er fyrirmenn voru innbyggjanna, og sögðu þeir honum allt landið betra suður en norður. Krýsar voru forvitrir menn og framsýnir og sáu fyrir þjóðflutninginn og það los, er komið var á víkinga í Noregi. Þeim leizt Ingólfur gæfusamlegur og höfðu þegar ákveðið að setja hann yfir bezta landshlutann og allt það land, er hann fýsti.
Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill var kunnur suðurströnd landsins allri og þekkti þar voga alla og svo vötnin. Fóru þeir Karli jafnan tveir saman vestur með landi og höfðu fengið drauga stytting úr drómetar, þ. e. úlfalda, af Krýsum og svo prjám (léttur skinnbátur).
Þá er Ingólfur hafði verið að Hjörleifshöfða einn vetur, en þangað fluttist hann með farangur sinn og skip eftir víg Hjörleifs, fundu þeir Vífill aðra súlu hans að landi komna en hina hvergi. Þar voru fyrir opnir sandar. Færðu þeir súlu þá vestan allra vatna, vestur fyrir Ölvésósa, festu við armtré og reistu upp og jarteinuðu Kristikross. Þeir voru menn kristnir. En þá Ingólfur frétti af þeim, að fundið hefðu þeir aðra súlu hans, en hina hvergi, þá líkaði honum stórum illa tiltektir. Hélt hann þá skipum sínum vestur með landi og inn í ósa og kallaði Arnarbæli, þar, er hann lagðist með skip sín. Reisti Ingólfur skála að Arnarbæli, en aðrir af liði hans höfðu skipin að skjóli. Voru þá með Ingólfi konur þeirra Hjörleifs, svo og skip hans. Ingólfur gekk á fellið, hvaðan bezt varð séð af. Honum leizt landið gott, bæði gnóglegt og fagurt. Þar heitir síðan Ingólfsfell og er Ingólfur heygður þar á fellinu. En þar, sem heitir að Reykjum bjó Ingólfur vé og setti þar völvur tvær og fretti. Þar voru vötn heit og svo jörðin um kring. Lét Ingólfur búa þar til gerði og færa niður sæði og melti þar kornið og hafði þar ölhitu. Heitti hann á Æsi, þá Óðinn og Frey.
Vötn voru heit, að eigi þurfti að elda. Er þar Ölvé kallað og vötn þar við kennd. En það er af þeim Vífli að segja, að þeir hlupu á prjám og létu í haf tveir saman. Lintu þeir eigi fyrr en þeir tóku Suðureyjar. Þar var þá fyrir frændfólk þeirra Ingólfs og svo Vífils. Sagði Vífill þeim Herjúlfi og Steinúði innilega um för þeirra Ingólfs og svo um andlát Hjörleifs. Lofaði Vífill landið mjög og bað Steinúði og svo Herjúlf upp að koma og hafa land með Ingólfi. Þau höfðu þá bæði kristni tekið. Varð það að ráði. En þeir Vífill létu aftur í haf það sama sumar og komu að landi við Krýsavík. En Krýsar höfðu þá séð allt fyrir. Tóku þeir þá súlu Ingólfs og færðu á draugi og fluttu á landi vestur fyrir Reykjanes og allt þangað er heitir Reykjavík og reistu upp á hóli einum og gáfu nafnið Arnarhvoll, en það land átti Vífill.
Það mun hafa vafizt fyrir mörgum að trúa því að hlutur, sem settur er í haf suð-austur af Íslandi ræki vestur með ströndinni fyrir Reykjanestangann og upp á fjörur þar sem landkostir voru beztir. Hitt er mikið líklegra að öndvegissúlurnar hafi rekið einhversstaðar upp á suðurströndina og verið hreinlega fluttar á þann stað sem Reykjavíkurborg stendur nú á.
Krýsar helguðu Ingólfi svo mikið land, er hann lysti og settu hann yfir það allt og voru þá þar eftir í hvor annars vernd og forsjá og svo hans afkomendur. Krýsar einir höfðu alla ströndina frá Reykjanesi til Ölvésósa og öll fjöll þar yfir. Þar heitir Arnarnes, og víkin Arnarnesvík, er þeir Ingólfur geymdu skipa sinna. Vífill fór utan á skipum Ingólfs, er eigi fór heill af holund, er hann ungur hlaut í orrustu og deyddi hann ógamlan 49 ára eða árið 899.
Krýsar
Kolskeggur vitri þ. e. kölski samkv. þjóðtrúnni var 5. liður frá Vífli Kormákssyni, þeim er með Ingólfi var, en þó ekki í beinan karllegg, því Vífill átti engan son, en 4 dætur, sem upp komust.
Kolskeggi var veitt það bezta uppeldi og sú hæsta menntun, semhugsanleg var. Kolskeggur var í frændsemi við þá Njálssonu á Bergþórshvoli og í búð með þeim á Þingvelli þegar rætt var um vígsmálin, vorið á undan Njálsbrennu. Hann segist hafa verið 16 ára þá um haustið, er brennan var framin. Ætti þá Njálsbrenna að hafa gerzt haustið 1012.
Segir Kolskeggur að það hafi verið í annað sinn er hann hafi komið á Lögberg á Alþingi, en var þá búinn að vera nokkra vetur í klausturskóla á eynni Iona á Suðureyjum.
Árið eftir Njálsbrennu fór Kolskeggur til Suðureyja aftur og þaðan til Skotlands og Englands. Eftir það fór hann til Frakklands og var í Svartaskóla næstu árin. Síðan hélt hann til Miklagarðs, Grikklands, Egyptalands og Jórsala. Um Danmörk, Garðaríki, Bjarmaland og Norðurveg fór hann á heimleiðinni. Er hann kom úr þessum miklu leiðöngrum af Austurvegi, lét hann þó ekki staðar numið, heldur brá sér til Vesturheims, til Grænlands og Vínlands og var þar á skipi, er hann stýrði sjálfur. Var hann tvö ár í þeim leiðangri. En að því loknu hóf hann margra ára ferðalag um Ísland, þvert og endilangt. Var hann þá að afla sér gagna og staðfæra ýmislegt viðkomandi frumlandnámu og fornsögu.
Árið 1044 hafði hann fullgert frumlandnámu sína („Gullbringu“, „Gullskinnu“) og tekur þá til óspilltra málanna að skrá fornsagnirnar, fornkvæðin, konungasögur o. m. fl. jafnframt því sem hann stjórnaði stórum skóla og stórbúi í Gömlu-Krýsavík og hafði yfirumsjón með öllum ritstörfunum og samræmdi þau, bæði í Krýsavík og Vífilsstöðum. Allar voru sögurnar settar saman úr fjölda þátta og skiptu þeir hundruðum. Ætt og uppruni og lífshlaup hvers einastalandnámsmanns og afkomenda þeirra allt fram til 1030, var skráð í þáttum og svo vísur, sem ortar höfðu verið um atburðina. Allt var þetta skráð á papyrus og biblos, og því allt sem nokkurs konar uppköst, en tilætlunin að koma öllu á kodex (bókfell, skinn), þegar fullsamið væri og fullkarrað og til þess hafði Kolskeggur mikinn útbúnað síðustu misserin, en entist ekki aldur til að koma því í verk.
Sigrún, móðir Kolskeggs, stóð fyrir búi með honum í Gömlu Krýsavík og sýndi hann móður sinni jafnan slíka kurteisi og virðingu, sem væri hún konungborin. Hún er sögð hafa bjargað öllum handritunumog komið þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en látið sjálf lífið í reyknum og svælunni og fundist dauð í þessum undirgangi, löngu síðar; því þeir, sem að sóttu létu sér ekki nægja minna, en brenna staðinn til kaldra kola, áður en frá var horfið. En þessari miklu dáð þessarar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en það, að hún var, að minningum verka sinna, kölluð: „Sigrún kelling“, eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði“.
Helztu samstarfsmenn Kolskeggs vitra, voru fyrst og fremst fyrirrennari hans, meistarinn Ioan „inn gamli“ Kjarualarson, höfundur Völuspár og Land-Erna-Sögu, þríleiksins mikla, sem var afmáður eftir að norræna höfðingja-, kirkju- og konungsvaldið náði tókum og yfirráðum.
Ioan „inn gamli“ var sagður hafa legið dag og nótt við arineld, er vaktaður var, að aldrei kulnaði. Hann neytti engrar fæðu utan lítið eitt fuglaeggja og sýrðrar mjólkur, en drakk jurtaseyði. Engum manni veitti hann áheyrn eða viðtal nema Kolskeggi einum og var enginn viðstaddur samræður þeirra. Þjóna sína ávarpaði hann aldrei, en gaf allt til kynna með táknum og merkjum. Hann mun hafa verið orðinn mjög gamall, er hann orti Völuspá, og var þá enn í gömlu Krýsavík.
En þeir Krýsar og aðalrithöfundar, sem næstir gengu Kolskeggi voru þeir Grímur Hrafnsson og Rymskati Asklaugarson. Grímur Hrafnsson tók saman Egils-Sögu Skallagrímssonar og fleiri sögur og þætti og orti skáldkvæði. Hann var fæddur árið 999, af Mýramannaætt, laungetinn. Var ungur tekinn í fóstur af Krýsum og naut þar kennslu og menntunar. Það var Grímur þessi, er reit fræðimikil með tánum fóta sinna, að Bæ í Borgarfirði, eftir að hann hafði verið fluttur þangað og búið að tunguskera hann og handhöggva.
Rymskati Asklaugarson var sagður mesta hamhleypa til ritstarfa og efnilegasta skáld allra þeirra yngri krýsostómasa (gullmunna). Réðst ungur á kaupskip Krýsa og í siglingar með kaupmönnum þeirra. Fór uppkominn í skóla til þeirra Krýsa og reyndist afburðamaður aðnámsþroska og gáfum. Hann var örlagatrúarmaður meiri en Grímur Hrafnsson, draumamaður mikill og dulspakur, Rymskati setti saman Grettis-sögu, Gísla-sögu Súrssonar, Fóstbræðrasögu, Snorra-sögu goða (þ.e. Eyrbyggju), Kormáks-sögu, Vatnsdælu, Heiðarvíga-sögu, Hallfreðar-sögu o.fl. auk fjölda þátta og lausavísna, er hann orti fyrir munn persónanna, bæði í sínar sögur og hinna.
Rymskati ferðaðist mest allra um sögusvæðin, ræddi við aðstandendur söguhetjanna og aðra fróða og minnuga, er séð höfðu eða heyrt frásagt, staðhæfði efnið, safnaði vísum, er ortar höfðu verið um atburðina eða orti þær sjálfur eftir munnlegri umsögn. Rymskati var sá, er valdist til að flytja þeim „Bandamönnum“ Ófeigs-sögu bragðakarls (nú Bandamannasaga), en var þá þegar tunguskorinn. Hann var ekki fluttur að Bæ í Borgarfirði með þeim Grími Hrafnssyni og öðrum limlestingum, er af lifðu aðförina, haustið 1054. Hann var hafður í haldi einn sér annars staðar og geymdur vendilega. En árið 1056, undir eins á fyrsta stjórnarári Ísleifs biskups í Skálholti, var hann fluttur þangað og handhöggvinn. En biskup þorði samt sem áður ekki að eiga hann yfir höfði sér, og var hann þar skamma stund í gæzlu, en síðan líflátinn.
Gamla Krýsavík var, all-löngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutningakvíslarinnar, orðin höfuðstöð Iona-þjóðflutningakvíslarinnar, er voru sægarpar og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dan-kvíslin (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „Papar“, þ. e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna. Jónarnir skoðuðu Krist sem guðmenni, er hægt væri að líkjast og urðu umræðilega vitrir og máttugir. Kristjónar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt, sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu ofsatrúarmenn og ofstækisfullir og liggur fátt eftir þá af viti.
Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia er nefndur var Krýsostómas-gullmunnur. Þeir voru því kallaðir Krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostómosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi. Gamla Krýsavík var, fyrir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvað mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu Jóna og Krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargazt án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og Krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væri viðhöfð mannblót eða annað ódæði.
Vestmannaþjóðflutningakvíslin (þ. e. Jónar, Krýsar) voru því löngu búnir að kanna allt landið, skipa niður landvættum og gefa því nafn (Þýli) áður en austmannaþjóðflutningakvíslin: (Danirnir, víkingarnir) tóku að hefja hér landnám. Og það voru fleiri en einsetumenn, er hér höfðu aðsetur. Flestir „Papanna“ voru fæddir hér á landi. Eins og hverjum skynbærum manni ætti að vera augljóst hafa ekki fornkvæði vor og fornsögur, konungasögur, ættartölur og frumlandnámssögur gert sig sjálfar, ort sig og skráð, heldur stendur þar afar harðsnúin, glöggskyggn, lærð, þrautþjálfuð og raunvísindalega skipulögð starfsemi bak við. Hvorki Ari prestur Þorgilsson fróði né Snorri Sturluson eiga þar frumkvæðið enda þótt Snorri endursemdi með vissu Heimskringlu og Egilssögu Skallagrímssonar.
Það voru íslenzkir krýsostómasar-gyllinmynnar, er hér á á landi höfðu starfsemi sína og aðalbækistöð, löngu á undan landnámi norrænna víkinga og allt fram yfir miðja elleftu öld, er starfsemi þeirra stóð með mestum blóma, að þeir voru líflátnir og eignir þeirra lagðar undir eigna- og kirkjuvaldið. Fyrsti biskupsstóll landsins, Skálholtsstóll, var þá stofnaður og lagður undir hann mikill hluti af hinu svokallaða „Landnámi Ingólfs“ auk margra stóreigna annarra, er allt var eign Krýsa. Meðal annars áttu þeir 9 hafskip (kaupskip) í förum, er þeir voru líflátnir, og sigldu skip þeirra til Grænlands, Vínlands (er þá var kölluð Albania), suður til Miðjarðarhafslanda og allt til Egyptalands og inn í Nílarósa. Út fluttu þeir íslenzka og grænlenzka grávöru og margt annað, þar á meðal hinar afar dýrmætu og eftirsóttu rostungaog náhvalatennur. Krýsar fluttu inn á skipum sínum margs konar varning og meðal annars fluttu þeir hingað inn bæði arabiska hesta og úlfalda. Gengu stórar úlfaldalestir undir klyfjum að og frá aðalbækistöð þeirra, Gömlu-Krýsavík. Þeir lánuðu og úlfalda langleiðir til skreiðarflutninga. Krýsar höfðu eingöngu tvíkryppuúlfalda og voru þeir kallaðir „drógir“ og „draugar“, íslenzkun af heitinu „drómetar“. Draugalestirnar hafa verið ærið ferlegar undir skreiðarflutningi, enda eimdi eftir af því í þjóðtrúnni í margar aldir jafnvel fram í okkar tíma hafa Draugalestir sést á Krýsavíkurvegi.
Endalok Krýsa
Krýsar voru nokkurskonar kristnir heiðingjar, örlagatrúar, frelisunnandi stjórnleysingjar, óháðir ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir hér á landi, undir stjórn Kolskeggs, og andlegir yfirburðir þeirra svo stórkostlegir, að víkingahöfðingja- og kirkjuvaldið nötraði og riðaði.
Þeir voru að verða ríki í ríkinu og átökin jukust með kristinni og sameinuðu kirkjuvaldi, svo að hlaut að skríða til skarar. Þeir voru engum háðir nema sjálfum sér og því enn hættulegri höfðingjavaldinu og áttu auk þess mikinn kaupskipastól og bezta hérað landsins með ágætustu veiðistöðvunum. Það var löngu farið að slást í kekki milli kristnivaldsins og Krýsa, þegar höfðingjar loks sendu Kolskeggi úrslitakosti vorið 1054. En Kolskeggur svaraði með „Ófeigs sögu bragðakarls“ (Bandamannasögu), er hann reit með latínuletri og sendi einn lærisvein sinn með hana til að „staðfæra“ hana og færa hana hlutaðeigendum. En þeir svöruðu Kolskeggi með því að skera úr sendimanni tunguna og höggva af honum hægri höndina, en gerðu sendimenn á fund Kolskeggs og kváðu honum sæmra að rita níð sitt og rógburð á því letri er þeir læsu sjálfir og skildu. Kolskeggur reit þá söguna í annað sinn, og „þá á málrúnum, og gerði það á tveim dægrum, en sendimenn biðu á meðan.
Eftir það skáru Bandamenn herör, söfnuðu liði um flest héruð landsins og fóru að Kolskeggi og þeim Krýsum, haustið 1054, með tvö þúsund vopnaðra manna. Ioan Kjarvalarson „inn gamli“ var brenndur inni á Vífilsstöðum og margt manna með honum. Kolskeggur hafði víggirt Krýsavík og hafði þar harðsnúið lið, sem þó var ofurefli borið. En Kolskeggur slapp þó undan þar, á Brimfaxa, miklum hesti, hvítum af arabisku kyni og náðist ekki fyrr en í Straumrandahrauni, sunnan Hafnarfjarðar eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur.
Þar festist hestur hans í hrauni og brotnaði fóturinn, „inn vinstri afturfótur“, og sat hann þar fastur, en var þó svo sár af spjótalögum, að iðrin lágu úti.
Kolskeggur hraut af hesti sínum og kom niður standandi. Hesturinn var móður og blés mjög og þeyttist blóðgufa og froða úr vitum hans. Kolskeggur hafði aldrei annað vopna en rýting einn lítinn, gullrekinn, við belti sér, dró hann úr slíðrum, og varð það jafnsnemma að þeir þustu að, er eftir sóttu, og kom þá spjót eitt fljúgandi og stefndi á Kolskegg. Kolskeggur tók spjótið á lofti og lagði hest sinn í brjóstið, er mjög reisti höfuð til lofts, barðist um og prjónaði. En Kolskeggur mælti: „Sækja sóknhvattar sveitir háleitan“. Féll þá hesturinn dauður og Kolskeggur jafnsnemma, því að þá stóðu á honum mörg vopn. Hjuggu þeir þar höfuð af Kolskeggi og alla útlimi og stungu augun úr höfðinu og skáru úr tunguna; settu síðan höfuðið á stengur og svo útlimi. Lágu bein Kolskeggs og hestsins þar við reiðgöturnar næstu árin.
En er ferðamönnum öllum og vegfarendum stóð ógn og fordæming af þessum slóðum var svo fyrirskipað af hinum fyrsta biskupi í Skálholti, Ísleifi Gizurarsyni, að kapella skyldi reist á þessum stað yfir beinum Kolskeggs og þeirra félaga. Sést enn móta fyrir allri lögun kapellunnar, þó nýtt hraun hafi á hana runnið yfir hið gamla bungumyndaða helluhraun, sem undir var.
Krýsar voru ekki allir drepnir er aðförin var gerð að þeim hauslið 1054. Sumum var gefið líf að nafninu til, en voru ýmist blindaðir, tunguskornir eða handhöggnir, og síðan fluttir að Bæ í Borgarfirði, en þar áttu Krýsar mikið land og gengu nokkur kaupskip þeirra jafnan í Hvítá. Var svo látið heita að með þessu tiltæki hefði „munkaregla“ stofnuð verið að Bæ í Borgarfirði. Þrír Krýsar komust þó undan ómeiddir og lögðust í óbyggðir, lágu í Hallmundarhrauni og Arnarvatnsheiði næstu missiri, en komust þá í skip með írskum kaupmönnum og af landi brott.
Um lærisveina Kolskeggs
Kolskeggur vitri hafði ritara sína og lærisveina í tveim flokkum. Var annar flokkurinn (helmingur liðsins) á Vífilsstöðum undir forustu Ioans Kiarualarsonar „inns gamla“, en hinn í Krýsavík undir forustu Kolskeggs sjálfs. En yfirumsjón með báðum stöðunum hafði Kolskeggur. Alls voru hinir lærðu Krýsar og nemar þeirra 26 talsins, 13 í hverjum stað. Kolskeggur og allir lærðir Krýsar fóru ávallt hvítklæddir. Sagður er Kolskeggur hafa átt 12 hvíta hesta, mikla fáka, blendinga af arabisku og norrænu kyn og báru allir Faxanöfn. Hafði Kolskeggur sex þeirra á Vífilsstöðum en sex í Krýsavík og skipti jafnan um, er hann reið í milli. Hundar tveir, hvítir og stórir, eltu hann og runnu með honum hvert er hann fór.
Dýralíf á dögum Kolskeggs
All fróðleg er frásögn Kolskeggs um dýralíf hér á landi, fyrir og eftir landnám norrænna manna. Hann segir, að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði og enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafa ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjist ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í kvofti og beittu þeim sem vopni.“
Kolskeggur gaf fyrstur Íslendingum stafróf, (latneska stafrófið). Kolskeggur orti Hávamál og reit sjálfur hina miklu bók: Brenna“, (Þrísögn. Gunnars, Höskuldar og Njálssaga).
Auk þess er Kolskeggur sagður hafa ritað með eigin hendi: Laxdælu, Gunnlaugssögu, Hrafnkelssögu og Ófeigssögu (Bandamannasögu), er var síðust ritverka hans og kostaði hann lífið.
Eins og gefur að skilja hefur lítið sem ekkert varðveizt óbreytt af ritum Krýsa. Fornsögurnar, Íslendingasögurnar og fornkvæðin voru flestar endurritaðar og endursamdar um daga Snorra Sturlusonar, fyrir og eftir lok þjóðveldisins. En margt var þá þegar glatað eða affært og margt hefur misfarizt síðan.
Frásagnir af Krýsum hafa varðveitzt í gegn um aldirnar á mörgum tugum stafrófa af „galdrarúnum“. Jochum Eggertssyni hefur tekizt að finna lykla að og ráða nær 30 tegundir af dulrúnum af nær 100 stafrófum er hann hefur í sínum fórum auk allmargra „kerfa“ af málrúnum, „viðkenndum“ og „óviðkenndum“. Mun Jochum vera fróðastur allra núlifandi Íslendinga í þýðingu galdrarúna svonefndra. Það mun sennilega vera algjörlega ókannað mál, hvað Papar á Írlandi og Suðureyjum hafa ritað um Ísland og Íslendinga til forna og vissulega verðugt rannsóknarefni, og vissulega stendur íslenzka þjóðin í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem leggja fram annan eins skerf og Jochum Eggertsson hefur gert á þýðingu fornra rúna.“ – Þór Baldurs.
Í Degi-Tímanum 1996 er fjallað um „Frumbyggja Íslands, Krýsana„.
„Gullbringa“ var rituð 100 árum á undan Landnámu, að sögn Jochums Eggertssonar. Í henni er mikill fróðleikur um hverjir námu Ísland og um menningarafrek Krýsa, sem voru búnir að búa á Íslandi í hundruð ára áður en Norðmenn komu til landsins. Um þá miklu sögu er hægt að fræðast í galdraskræðum og leynibókum. „Bók sjómanna“ dró Jochum úr jörðu fimmtudaginn 6. október 1938 og voru þá 27 blöð heil. Engum vildi Jochum sýna þessi gögn né þau galdrakver, sem hann þóttist rýna í og lesa úr allt aðra Íslendingasögu en almennt er talin vera í gildi.
Um Ara fróða fer hann háðulegum orðum og segir hann aðeins hafa verið vesælt peð biskupa og alinn upp sem fugl í búri af þeim. Hann segir um hin frægu orð Landnámu, að hafa skuli það heldur sem sannara reynist, að þau séu einhver siðspilltustu orð og sannleikanum fjandsamlegustu sem nokkru
sinni hafi skráð verið.
Launhelgar Egyptalands
Eðlilega þurfti Jochum að gera Ara fróða Þorgilsson og skrif hans ómerk til að koma að sinni „Frumlandnámu“.
Í stuttu máli er kenningin sú, að Krýsar hafi numið hér land mörgum mannsöldrum á undan Norðmönnum og er Krýsuvík við þá kennd. Þeir bjuggu á gósenlandinu Krýsuvík, sem var drjúgur hluti Reykjanesskagans. Allt var þar skógi vaxið, gnægð flskjar í sjó og dýralíf fjölskrúðugt. Þeir þurftu ekki á meira landi að halda.
Krýsar voru upprunnir úr launhelgum Egyptalands, gáfaðir og mennilegir með afbrigðum. Höfundur Krýsakenningar gefur þeim heitið gullmunnar. Þeir dreifðust víða og voru afbragð annarra hvar sem þeir fóru. Meðal gullmunna má nefna Lao Tse og Jesú frá Nasaret, og má sjá að mannval var gott meðal þeirra.
Kolskeggur vitri, eða Kölski, var einnig Krýsi og var hann höfuðpaur íslensku nýlendunnar þegar aðkomnir landnemar gengu milli bols og höfuðs Krýsanna árið 1054. Síðar reyndu þeir að leyna ódæðisverkum sínum með sögufölsunum.
Stærðfræði og landnám
Öll helstu bókmenntaafrek fornaldarinnar eignar Skuggi Krýsum. Völuspá, Hávamál, Njála og Egils saga eru samdar af nafnkenndum Krýsum, svo að eitt- og guð er í mannssálinni. Ef hvað sé nefnt. pelikani ætti sér guð, væri hann Gullmunnakerfið er fremur pelíkani, segir Jochum, og hina vísindastarfsemi en trúarbrögð djúpvitru Krýsa skapar hann auðvitað í eigin mynd, enda flestir afburðamenn af þeim komnir.
Ábendingar pýramídafræðinnar til Íslands eru vel kunnar og á okkar dögum eru uppi miklar kenningar um stærðfræðilega útreikninga á landnámi og byggð. Kenningar Jochums Eggertssonar um örlagabendingar frá Keopspýramídanum ti Íslands eru því alls ekki einstakar. En satt best að segja virðast þær byggjast eingöngu á hugmyndaflugi fremur en stærðfræðiþekkingu.
Flóttinn til Sóleyjar
Leið gullmunna til Íslands kortleggur Skuggi á þessa leið í bók sinni „Brísingamen Freyju“: Á 5.-6. öld eftir Krist var aðal gullmunnastarfsemin með aðsetri á eynni Iona í gríska Eyjahafinu, en fluttist svo vegna uppreisna, óeirða og ágengni sjóræningja vestur á bóginn og var sett niður á Suðureyjaklasanum (nú Hebrideseyjar), sem þá töldust til Írlands (er nú kallað Skotland).
Allt var þetta gert samkvæmt örlagabendingum Keopsmerkisins í Egyptalandi, því gullmunnarnir þekktu alla leyndardóma, stærðfræðiútreikninga og örlagabendingar Khúfusar, sem fólgnar eru í pýramídanum mikla. En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar voru yfirleitt nefndir Danir, tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu, er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þessa óbyggða eylands, er nú heitir fsland — en hét þá Þúla eða Þýli, sem merkir Sóley, síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi — og sett niður eftir bendingum Keopsmerkisins, sem enn heitir Krýsavík undir Gullbringum, er Gullbringusúsann (sýslan) ber enn í dag. Víkin við sjóinn,
Gamla Krýsavík, er síðan kennd við Chrýsiana, eða gullmunnanna, og ber enn þeirra nafn, þótt nafn höfuðbólsins, Víkurinnar, flyttist síðar, eða nálægt 1340, sakir eldsumbrota, hraunrennslis og eyðileggingar alla leið upp í dalinn milli Gullbringnanna, en það er enn í dag eina óbrunna svæðið á öllu Reykjanesinu.
Vellauðugir og vitrir
Fyrir eyðilegginguna var Krýsavík blómlegasta svæði landsins og víða vaxið stórskógi. Í Krýsavík var eftir þetta höfuðbækistöð Krýsanna og síðasta skipulagða starfsemi þeirra í veröldinni, starfandi vitandi vits og í vaxandi gengi allt til haustsins 1054, er gerð var fullnaðaraðför að þeim og þeir ýmist fangaðir eða drepnir. Það var Kolskeggur vitri (Kölski) er þá var aðalforystumaður Krýsa. Undir hans stjórn tók starfsemin öll þeirri stökkþróun, er einsdæmi er, hvar sem leitað er í veraldarsögunni.
Auðugir voru Krýsar sem vænta má: Krýsar áttu mestallt þetta svokallaða „landnám Ingólfs“, er þeir voru drepnir, og miklar eignir aðrar í löndum og lausum aurum, því þeir voru vellauðugir. Meðal annars voru níu hafskip af þeim tekin, en kaupskip þeirra sigldu mest til Suðurlanda og voru aðalviðskipti þeirra við Marseille í Frakklandi, en fóru þó stundum allt til Egyptalands og inn í Niflarósa. Aðalviðskiptastæði þeirra hér og skipalægi voru í Ölvésá við Arnarbæli og Hvítá í Borgarfirði.
Fyrsti biskupsstóllinn á Íslandi, Skálholtsstóll, var stofnaður af reytum þeirra skömmu eftir aðförina, eða nánar sagt árið 1056.
Leiðbeindu Norðmönnum
Nokkrar frásagnir eru á víð og dreif í skrifum Skugga um hvernig Krýsar tóku norsku landnámsmönnunum og leiðbeindu þeim og aðstoðuðu við að taka sér bólfestu. Skýring er á þeim viðtökum: „Ungúlf Arnarson, fyrsta norræna landnámsmanninn, eða fyrsta „Danann“, settu þeir til höfðingja yfir „allan og einasta“ byggða hluta landsins, og gerðu allan veg hans sem virðulegastan „til þess eins að þar yrði ekki síðar á leitað með ránum og hernaði“.
En kirkjan og annað erlent áhrifavald hafði horn í síðu Krýsa, sem voru sannkristnari er páfinn í Róm og konungur ránkristninnar, Ólafur digri, að áliti Skugga. Eigi að síður börðust þeir á móti kristninni á sína andlegu vísu og gerðu Ásadýrkun allt til vegs og sóma. Rétt er að reyna ekki að velta of mikið fyrir sér hvernig þetta kemur heim og saman, en í hugarheimi Skugga er kirkja og kristni ekki endilega hið sama og létt fer hann með að gera Jesúm Krist að Krýsa, hvað sem kenningum guðfræðinnar líður.
Kristnir heiðingjar
Skuggi segir Krýsa hafa verið nokkurs konar kristna heiðingja, örlagatrúar, frelsisunnandi stjórnleysingja, óháða ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir undir stjórn Kolskeggs, eða Kölska, og yfirburðir þeirra svo miklir að víkingahöfðingja- og kirkjuveldið nötraði og riðaði.
Þar kom að ráðist var að Krýsum, en þeir voru þá orðnir ríki í ríkinu. Höfðingjaveldið safnaði saman tvö þúsund manna liði og fór að Krýsum. Ion Kjarvalsson, sem orðinn var 200 ára gamall, var brenndur inni á Vífilsstöðum og Kolskeggur var ofurliði borinn í Krýsavík, þar sem hann varðist með vösku liði. Hann slapp þó undan á Brimfaxa sínum, arabískum gæðingi, og náðist síðan fyrir sunnan Hafnarfjörð, eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur. Þar fótbrotnaði hesturinn í hrauni og þar var Kolskeggur veginn eftir vasklega framgöngu. Lík hans var smánað og steglt á stengur. Þar lét Ísleifur biskup Gissurarson síðar reisa kapellu og er hraunið síðan við hana kennt og heitir Kapelluhraun.
Ekki var guðshúsið reist Kölska til heiðurs, heldur vegna þess að þarna var felldur heiðingi, galdraskratti og holdi klæddur djöfull. Áttu vegfarendur að biðjast þarna fyrir.
Ekki voru allir Krýsar drepnir, en þeir sem lifðu voru ofsóttir og illa með þá farið. Samt kváðu hinir bestu menn á Íslandi vera af þeim komnir.
Eftir fall Krýsa varð alger kyrrstaða í hinu forna menningarstarfi, segir Skuggi, og lágu öll ritstörf niðri þar til loks að Ari fróði var orðinn svo ritfær, sextugur að aldri, að biskupar gerðu tilraun með að láta hann gera bók, og þykir höfundi Brísingamens Freyju og fleiri ævintýralegra athugana lítið til koma.
Furðudýr á fjöllum og í sjó
Það land sem Krýsar byggðu var land ævintýra og hefur Skuggi eftirfarandi lýsingu frá Kolskeggi: Hann segir að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði, og að enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafi ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjast ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í hvofti og beitu þeim sem vopni.“
Þá segir að Krýsar hafi ferðast með ströndum fram og jafnvel yfir höfin í skinnbátum, sem kallaðir voru „briamar“. Það er sama og Brjánn, Brjánslækur og ættarnafnið Briem er þaðan dregið. Brian (bátur) er algengt mannsnafn á Írlandi.
Skinnbátana gerðu Krýsar af húðum sædýrs af spendýrakyni, er þeir nefndu þangkú, hafmær eða sírenu, en Austmenn nefndu skrumsl (skrýmsli). Segir Kolskeggur mikið af þessum dýrum hafa verið við landið, en þau séu horfin á hans dögum og harmar það mjög.
Dýrið var búið öllum þeim kostum sem voru mönnum gagnlegri til flestra hluta en nokkurt annað dýr sem í sjónum býr.
Dýrið var svo gæft að það kunni ekki að hræðast og hafðist við á grunnsævi við sker og flúðir og lifði eingöngu af þangi og fjörugróðri. Dýr þetta hafði tvenn húðlög og var hvítt fitulag, betri en öll önnur feiti, milli húðlaganna. Ytri húðin var miklu þykkari og ekki ósvipuð trjáberki, en seig og óslítandi.
Var þessi ytri húð tekin af dýrinu í heilu lagi og réð stærð dýrsins bátsstærðinni. Var baklína dýrsins höfð fyrir kjöllínu bátsins, en sporðurinn, er látinn var fylgja, gerði stýrið.
Skuggi lýsti ágæti þessa farartækis í löngu máli, sem hafði yfirburði fram yfir aðra þekkta báta eða skip.
Fleiri dýr koma við sögu, því Krýsar fluttu með sér arabíska hesta til landsins og úlfalda notuðu þeir til að flytja varning á landi.
Kellingar varðveita bókmenntir
Faðir Kolskeggs hins vitra var Úrban Colombos, sem var ráðsmaður flota Krýsa og sat hann á Vífilsstöðum. Móðirin hét Sigrún og var 14 ára gömul ambátt, þegar hún ól sveininn, en faðirinn var þá orðinn aldraður. Sigrún var afbragð annarra kvenna að mannkostum og atgjörvi og var aldrei við karlmann kennd eftír að hún ól Kölska. Varð hún mikil virðingarmanneskja og stóð fyrir búi í Gömlu Krýsavík. Þegar aðförin var gerð að Krýsum, var hún sögð hafa bjargað öllum handritunum og þar með norrænni menningararfleifð. Hún kom þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en lét sjálf lífið í reyk og svælu er bærinn var brenndur af innrásarmönnum. Fannst hún dauð löngu síðar í undirganginum. En þessari miklu dáð hinnar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en svo, að hún var í minningum verka sinna kölluð: „Sigrún kelling“ eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði“, skrifar Skuggi af mikilli foragt.
Hér má minna á að annar höfundur lætur kellingu varðveita bókmenntalegan dýrgrip í frægu skáldverki. Það er þegar móðir Jóns Hreggviðssonar dregur blöð úr sjálfri Skáldu upp úr bosi sínu á Rein. Hvar Skálda er núna niðurkomin veit enginn og ekki annað um það sem í henni stóð, en ævintýralegar sögur, sem voru fremur draumsýnir en sagnfræði, eða jafnvel skáldskapur. Enginn spyr um sannfræði þeirrar sögu, en á sínum tíma var heimtað að Skuggi legði fram gömul skinnhandrit og rúnir til að sanna sinn skáldskap, annars væri hann ómerkur.
En Jochum Eggertssyni var sama. Hann þurfti ekki að sanna sitt mál fyrir öðrum en sjálfum sér. Töflur þær og skinnpjötlur, sem hann segist hafa fróðleik sinn úr, eru hvergi finnanlegar og ekki til nema í hans eigin hugarheimi. Þær eru draumar sveitapiltsins að vestan um fagurt mannlíf í landi þar sem lífsbaráttan var ljúf og andlega lífið nærri fullkomnun.“ -OÓ tók saman.
Krýsa og Herdís
„Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvfkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn.
Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og. Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Heimildir:
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4.
-Vikan, 36. tbl. 05.09.1963, Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur, Þór Baldurs tók saman, bls. 6-9 og 36-37.
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4-5.
-http://hreinberg.is/?p=1277