Tag Archive for: Ölfus

Selvogur

Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.

Víghólsrétt?

Þórður Sveinsson sagði nýlega frá því að Selvogsbóndi einn hafi misst frá sér kind við Hásteina. Hún hafi síðan fundist í skúta skammt vestan við þá. Áður höfðu þrjár kindur horfið sporlaust á þessu svæði. Þær fundust síðar af tilviljun þegar maður einn var að ganga skammt vestan við girðinguna, sem þar er (var). Bein kindanna lágu framan við hellisop og virðast þær hafa fennt þar í kaf. Hvar opið er eða hvað er fyrir innan opið er ekki vitað. Ætlunin var m.a. að skoða svæðið.
Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.
Í Örnefnaskrá fyrir Nes segir m.a.: „Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð.  Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur. Prestskrókur er milli Nesstekkjar og Víghólsréttar.  Það er slægjublettur, og hefur prestur slegið þar einhvern tíma. Þar var PrestGapiskróksvarða, nú dottin niður.
Ofar en Víghóll er Fornagata. Á Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum  og neðan úr Selvogi, s.s. frá Þorkelsgerði og Bjarnastöðum. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“
Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta svæði umhverfis Bjarnastaðaflatir: „Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.
Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann FRétt við Fornugötuornugötuflatir.“
Í örnefnalýsingu fyrir Götu er getið um Bjarnastaðastekk o.fl.: „Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v. í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
Að þessu sinni var lagt af stað frá Fornugötu sunnan Fornugötuhliðs, gengið suður fyrir klapparhæðina þar sem gatnamótin á götunni eru, annars vegar til vesturs og austurs og hins vegar til suðvesturs niður að Selvogi. Nokkru sunnar var stefnan tekin til vesturs, að Víghól og áfram inn á og yfir Bjarnastaðaflatir. Mikil landeyðing hefur orðið á neðanverðum flötunum og neðan þeirra. Ekki var unnt að greina mannvirki á þeirri leið, þ.e. frá svonefndri Víghólsrétt. Nokkrar grónar vörður, sem fyrrum hafa verið allstórar, eru á ofanverðum Bjarnastaðaflötum, s.s. Digravarða. Ekki er óvarlegt að ætla að Nesstekkur geti verið Fornagata við Strandarhæðtvískipt tóft norðan í Fornugötu, örskammt vestan við gatnamótin. Sú tóft hefur ekki verið skýrð og hennar virðist ekki vera getið í örnefnaskrám. Ef þetta er Nesstekkur er hann í Neslandi, svo til alveg við mörkin.
Komið var í fjárstekknum Gapa og haldið inn á Fornugötu ofan hans. Gatan sést þar vel í holtinu. Hún liggur skammt norðan við Bjargarhelli. Litið var inn í hellinn, en götunni síðan fylgt áfram til austurs. Komið var að grónum hvammi og liggur gatan norðan hans. Hlaðið er í götukantinn ofan við hvamminn. Skammt suðaustan við hann er annar gróinn hvammur, sem eflaust hefur verið ágætur áningarstaður fyrrum þegar langar lestir manna og skepna liðuðust um hæðina. Þarna sunnan við götuna er rétt. Líklega hefur hún verið notuð sem aðhald þegar reka þurfti fé þessa leið. Skammt austar og norðaustar eru allnokkrar vörður, líklega á landamerkjum.
Fornugötu var fylgt áfram til austurs, en stefnan síðan tekin upp með girðingunni fyrrnefndu á mörkum Ness og Bjarnastaða. Henni var fylgt upp að efstu Hásteinum. Ætlunin var að finna skúta þann eða helli sem Þórður Sveinsson hafði sagt frá vikunni áður. Þegar komið var upp fyrir Hásteina mátti sjá hlaðið aðhald norðvestan við þá. Tóftir eru og undir hæsta Hásteini. Eftir stutta göngu til vesturs var komið að litlu jarðfalli og skúta. Þar gæti verið um að ræða skúta þann sem fyrr var nefndur. Innihaldið gæti vel rúmað 10 kindur. Vestan við hann var hlaðið skjól, líklega refaskyttu. Varða var þar skammt frá, yfir greni. Á bakaleiðinni var gengið fram á nokkur merkt greni. Nýleg fótspor voru eftir ref frá vestanverðum Hásteinum með stefnu á Strandarkirkju.
Annað jarðfall fannst nokkuð suðvestar, í sömu fjarlægð frá girðingunni og sá efri. Gróið var umhverfis, en inni var rými fyrir 15-20 kindur. Engin bein sáust í eða við framangreinda skúta, en nokkur mold var á gólfum beggja.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Nes, Bjarnastaði, Þorkelsgerði og Götu.

Bjarnastaðastekkur

Bjarnastaðastekkur.

Festarfjall

Þegar ströndinni er fylgt má víða sjá hella, sem sjórinn hefur gert inn í bergið eða sem hluta hraunrása.
Viðarhellir er milli Þorlákshafnar og Selvogs. Takmörk nefndra sveita eru við Hraunsvíkhellinn. Hann er dæmigerður hellir í hömrum við sjó. Ægir brýtur sér leið inn undir bergið og þeytir síðan þakinu af skammt ofar, bæði með þunga sínum og þrýstingi. Þegar staðið er á bjarginu í ágjöf má bæði sjá og skynja afl hafsins því segja má að landið leiki á reiðiskjálfi.
Yst undir Hellisbergi við Hlíðarenda ofan Þorlákshafnar er Hellir, eða Hlíðarendahellir, ágætt fjárból. Þótt hellirinn sé nú langt uppi í landi er hann sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m. langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Við með suðurströndinni má sjá skúta í fjallsjöðrum ofan strandarinnar. Landið þarna hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Eftir að síðustu ísöld lauk voru móbergshryggirnir og einstök fjöll áberandi norðaustur eftir og með Atlantshafshryggnum frá suðvestri. Síðan mynduðu dyngjurnar mikil hraunflæmi og fylltu að og út frá þeim. Loks bættu stærri og smærri sprungureinagos um betur. Nýjahraun, sem álverið í Straumsvík stendur á, rann t.a.m. árið 1151. Síðasta stóra gosið var á 13. öld, en á Reykjanesskaganum hefur gosið fram á 18. öld. Síðan hefur eldvirknin dvínað, en þar með er ekki sagt að henni sé lokið. Eldgos geta orðið hvenær sem er, en á líklega eftir að koma öllum jafn mikið á óvart þegar það verður.
StraumsvíkSjávarhellar í Herdísarvíkurbjargi og berginu milli Selatanga og Ísólfsskála eru allmargir, auk hella í Festisfjalli, ofan við Hraunsvík, í Staðarbergi og Hafnabergi. Í suma er hægt að komast með sæmilegu móti, en við aðra er erfitt um vik.
Grunur hefur verið um mikinn sjávarhelli utan við Straumsvík er náð gæti inn undir álverið og hugsanlega eitthvað up í hraunið. Vonir eru bundnar um samvinnu við kafara að kanna svæðið með ströndinni og huga að mögulegri innför. Að sögn kafara, sem hafa skoðað svæðið eru þar víða rásir inn undir bergið, en ekki er að heyra að þær hafi verið kannaðar með það fyrir augum að þar gætu verið verulegir hraunhellar.
Ef eldri ljósmyndum af álverinu í Straumsvík má sjá þrjú síló (rauð/hvít). Frásögn er af því að þegar eitt sílóið tók upp á því að halla var borað undir það. Þá kom í ljós tómarúm þar undir. Var brugðið á það ráð að dæla steypu niður um gatið daglangt. Þegar einn starfsmannanna gekk fram á sjávarkampinn sá hann hvar sjórinn var allur steypulitaður framanvert. Var verkið þá stöðvað. Sílóið var þó notað enn um hríð, en síðan rifið. Nú er þarna einungis tvö síló.
Ef þarna er stór sjávarhellir með öllu sem fylgt getur slíku jarðfræðifyrirbæri væri það einstakt í heiminum.
Sjávarhellir

Þorlákshöfn

Í Sveitarstjórnarmálum 1976 fjallar Gunnar Markússon um „Ágrip af sögu Þorlákshafnar„:

Þorlákshöfn

Gunnar Markússon.

„Sögu Þorlákshafnar má skipta í tvo höfuðkafla — sögu sveitabýlisins og sögu sjávarþorpsins.
Upphafið að sögu sveitabýlisins er svo algjörlega hulið í móðu fjarskans, að ekki er einu sinni á hreinu með nafn staðarins. Munnmæli herma, að bær hér hafi í upphafi heitið Elliðahöfn og verið kenndur við skip það, er Ketilbjörn gamli kom á frá Noregi — það sama og Elliðaárnar eru við kenndar. Hvort svo hefir verið eða ekki, verður víst seint upplýst. Þó má benda á, að Þórdís, systir Skafta lögsögumanns á Hjalla, varð þriðja kona Gissurar hvíta. Þeirra son var Ísleifur biskup. Hafi hinn kristni goði á Hjalla verið að gera lögbýli úr verbúðum þeim og hrófum, sem hann hlýtur að hafa átt hér niðri á ströndinni, um svipað leyti og hann var að gefa dóttur sína sonarsyni Ketilbjarnar — þeim manni, er fáum árum áður átti sinn stóra þátt í kristnitökunni á Þingvöllum, — er varla hægt að segja, að seilzt hafi verið um hurð til lokunnar, þótt nýbýlið væri kennt við frægasta farkost í ætt brúðguma. Þau sömu munnmæli, sem herma, að bær hér hafi heitið Elliðahöfn, geta þess og, að bóndi hér hafi í hafsnauð heitið á heilagan Þorlák sér og félögum sínum til fulltingis og heimkominn hafi hann breytt nafni á bæ sínum og kallað Þorlákshöfn. Sitthvað gæti verið missagt í fræðum þessum, en varla er hægt að gera ráð fyrir, að bær hafi verið kenndur við heilagan Þorlák fyrr en 20. júlí 1198. Þann dag var helgur dómur hans upp tekinn og prestar samþykktu áheit á hann.

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Þess skal að lokum getið, að í lögmannsannál er sagt, að árið 1360 hafi Gyrður Skálholtsbiskup ætlað til Noregs fjölmennur á skipi litlu. Skipið var ekki komið úr landsýn, er það sökk. Fyrir áheit á heilagan Þorlák björguðust menn allir, og silfurkistu dómkirkjunnar rak á land á Eyrum. Vel má vera, að hér sé að finna kveikjuna að munnmælasögunni og nafnaskiptunum — ef verið hafa. En hvað sem bærinn hét, þá fer það ekki á milli mála, að hér var búið og oftast stórt. Tún voru tödd og slegin, búsmala gætt og hann nytjaður. Konur komu ull í fat og mjólk í mat, og karlar gættu útiverka til lands og sjávar. Börn fæddust og eldra fólk safnaðist til feðra sinna.
Kynslóðir komu og kynslóðir fóru, þar til komið var fram um 1950, þá hvarf síðasta bændafólkið héðan með amboð sín og áhöld — fénað og föggur.
Þá lauk sögu sveitabýlisins.

Mannskaðar og mannbjörg

Þorlákshöfn

Þorlákhöfn – kort frá 1908.

Auður in djúpúðga lét gera knörr einn mikinn. Hún hafði með sér frændlið sitt allt, það er á lífi var, þar á meðal 20 karla. Hún hafði og auð fjár á skipinu.
Hún kom skipi sínu á Vikraskeið. Þar braut skipið, en menn héldust og fé. Vikraskeið heitir nú Hafnarskeið. Þannig er elzta frásögn, sem til er úr nágrenni Þorlákshafnar, tengd sjónum, og fer vel á því. Þetta er þó ekki í eina sinnið, sem getið er um gifturíka björgun mannslífa hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – lending fyrrum.

Laugardaginn 5. nóvember 1718 strandaði danska herskipið Gautaborg á Hafnarskeiði. Þá björguðu bændur hér úr grenndinni rúmlega 170 manns á land.
Hinn 16. marz árið 1895 réru öll skip, sem þá voru gerð út frá Þorlákshöfn, en þau voru rúmlega 20. Þann sama dag réru einnig um 60 skip frá öðrum verstöðvum í Árnessýslu. Um miðjan dag brimaði svo snögglega, að einungis tugur skipa náði lendingu í heimavör austan Ölfusár. — öll hin skipin, rúmir sjö tugir, urðu að lenda inn á milli Skarfs og Flataskers. Þann dag áttu nær 1000 karlmenn á bezta aldri Norðurvörinni hér líf að launa. Ekki þarf að ræða, hvert afhroð sunnlenzkar sveitir hefðu goldið, ef hennar — og þeirra manna, er þá stjórnuðu hér — hefði ekki notið við.
En því miður geymir saga Þorlákshafnar ekki aðeins frásögur um sigra í baráttunni við Ægi. Þar er líka getið um ósigra og mannskaða. Á árunum 1840—90 fórust tvö skip héðan með um 30 manns innanborðs, og á sama tíma fórst um tugur manna í lendingu hér.

Verstöð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þess er áður getið, að fyrstu mannabústaðirnir hér hafi verið verbúðir. Þannig mun starf hinna fyrstu manna hér hafa verið það sama og enn er sá burðarás, er afkoman hvílir á, að afla fiskjar og verka hann.
En veiðiskapur þessi og verkun hefir aldrei verið neitt einkamál þeirra, er hér hafa búið. Höfuðkirkjur og stórbýli sýslunnar áttu hér sína aðstöðu.
Þess er t. d. getið, að árið 1543 hafi Skálholtsstóll átt hér um 40 hestburði af fiski. Stóllinn átti um aldir ítök hér á staðnum — hvort þau hafi verið hluti af heimanmundi Þórdísar á Hjalla, veit ég ekki — en gömul eru þau. Og þegar jarðir Skálholtsstóls voru seldar um árið 1800, var Þorlákshöfn ein af þeim.
S

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

tórbóndinn sendi nokkra af vinnumönnum sínum hingað, og einyrkinn skildi búsmala sinn eftir í umsjá konu og barna og fór í verið. Þannig varð Höfnin einn af hornsteinum undir afkomu manna í héraðinu öllu. Ekki mun kunnugt um tölu vermanna hér, fyrr en komið er fram um miðja síðustu öld, en þá var ekkert óalgengt, að þeir væru 300—400 að tölu.
Framan af öldum var handfærið eina tækið, sem notað var til að ná fiski úr sjó. Árið 1800 gerði Lambertsen, kaupmaður á Eyrarbakka, tilraun með netaveiði hér útifyrir. Sú tilraun gaf góða raun, en þetta nýmæli mætti svo mikilli andspyrnu, að rúm öld leið, þangað til aftur var róið með net hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – skipshöfn um 1900.

Um 1880 var farið að nota hér línu síðari hluta vetrar. Árið 1903 reyndi Gísli Gíslason, þá bóndi í Óseyrarnesi að veiða fisk í net og tókst vel. Sú mótmælaalda, sem þá reis, var brotin á bak aftur á nokkrum árum, og árið 1909 voru netin orðin aðal veiðarfærið.
Það lætur að líkum, að ekki var fremur hægt að róa alla daga vertíðarinnar um aldamót en nú er. Vermenn urðu því að sjá sér fyrir einhverju að gera í tómstundum, sem því miður urðu stundum helzt til margar. Gat jafnvel komið fyrir, að einungis væri hægt að róa 30 af þessum 90—100 dögum, sem vertíðin stóð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – áhöfn um 1920.

Sumir notuðu tómstundirnar til þess að gera ýmsa smáhluti, sem heimilum þeirra mátti að gagni koma. Aðrir spiluðu eða glímdu og fyrirkom, að leikfimi var iðkuð. Þá starfaði hér lestrarfélag og söngfélag. Einnig var málfundafélag hér um og eftir aldamótin. Það hóf m.a. undirbúning að byggingu sjúkraskýlis hér á staðnum. Nokkru var safnað af peningum, og á vertíðinni árið 1916 var grunnurinn gerður og grindin reist.
Það vor veitti sýslusjóður 200 kr. til þessara framkvæmda. En því miður fauk grindin og þar með vonin um sjúkraskýli hér, en fé það, er til var, var lagt í sjúkrahússbygginguna að Litlahrauni, en, eins og kunnugt er, voru konur þær, er að þeirri byggingu stóðu, of stórhuga fyrir sína samtíð, og byggingin endaði sem fangelsi, en ekki sjúkrahús.

Verzlunarstaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Í Íslendingasögunum er hvergi getið um skipakomur til Þorlákshafnar. Fyrsta örugga heimildin um kaupskip hér er frá árinu 1533, þá segist landfógeti hafa tekið við 30 lýbskum mörkum frá tilteknum kaupmanni liggjandi í „Thorlacershaffen“.
Ekki er ljóst, hvort skip þetta var statt hérna fyrir einhverja tilviljun eða algengt var, að kaupskapur færi fram hér á víkinni. Okkur, sem átt höfum heima hér í Þorlákshöfn fleiri eða færri undanfarinna ára og sótt svo til allar okkar daglegu nauðþurftir í þessa einu búð, sem hér hefir verið, gæti virzt, að ekki þyrfti mörg orð til þess að rekja verzlunarsögu staðarins. En það er öðru nær.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – bærinn 1911.

Hér er um að ræða nær tveggja alda sögu — sögu um baráttu hins veika við hinn sterka — sögu um uppreisn hins kúgaða gegn kúgara sínum —, en fæst af því verður rakið hér.
Hinn 13. júní árið 1787 var gefin út í Kaupmannahöfn konungleg tilskipun um, að verzlun á Íslandi skuli frjáls öllum þegnum Danakonungs. Þá hófst verzlunarsaga Þorlákshafnar. „Spekulantar“ lögðust hér inn á víkina, en voru illa séðir af Bakkakaupmanni — var jafnvel dæmi til, að þeir héldu sig heldur vestur á Keflavík, þar sem þeir blöstu ekki eins við Bakkanum. Sumrin 1789 og 1790 fengu þrír Árnesingar skip hingað, en Petersen Bakkakaupmanni tókst að fá verzlunarleyfin dæmd af þeim félögum.
Árið 1845 var lögð fram á Alþingi bænaskrá undirrituð af 142 sunnlenzkum bændum, þar sem óskað var eftir, að Þorlákshöfn verði löggilt sem verzlunarstaður.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1918.

Vorið 1875 samþykkti fjölmennur bændafundur, haldinn í Hraungerði, að óska hins sama, og þá um sumarið flutti Þorlákur Guðmundsson frumvarp til laga um verzlunarstað í Þorlákshöfn. Frumvarpið var samþykkt í neðri deild. Þegar það svo kom til efri deildar, gekk þáverandi landlæknir svo hreinlega af því dauðu, að það var fellt við fyrstu umræðu.

Landlæknir sagðist hafa verið læknir á Eyrarbakka um eins árs skeið og gæti því borið um, að Þorlákshöfn væri einn mesti brimrass á öllu landinu, nema ef vera skyldi, að Svörtuloft væru lakari. Það mætti alveg eins setja lög um verzlunarstað á tunglinu eins og í Þorlákshöfn.
Hins gat læknirinn ekki, að hann hafði þetta ár sitt á Bakkanum verið meiri gistivinur í húsi kaupmannsins en í kotum karlanna, sem áttu lendingunum í Þorlákshöfn líf að launa. Þorlákur tók málið upp aftur á þinginu 1877 og daginn eftir Þorláksmessu á sumri það ár var samþykkt, að Þorlákshöfn í Árnessýslu skuli vera löggiltur verzlunarstaður frá 20. júní 1878. Verzlun hér hefir þó aldrei verið mikil. Þó hafði Jón Árnason hér sölubúð um skeið, og eftir að þorpið myndaðist, hefir Kaupfélag Árnesinga rekið einu verzlunina, þar til nú, að komin er önnur matvöruverzlun, brauðgerð og tvær sérverzlanir.

Lendingaraðstaða — hafnargerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – loftmynd 1958.

Tvær voru lendingar í Þorlákshöfn, Norður- og Suðurvör, og voru þær um mitt Hafnarnes austanvert. Varir þessar höfðu tvo stóra kosti. Þann fyrstan, að siglingaleiðin að þeim var hrein og skerjalaus. Og hin, sem oftar skipti sköpum um gildi þeirra, að þar var sjór ekki ófær, nema rok væri af suðaustri eða um 30 gráður hvoru megin við þá átt. Nokkru áður en vindur nær hásuðri, verður hann nesfastur og Flóinn tekur við mestu látunum, áður en áttin verður þver austan. En auðvitað getur lagt kviku hér inn á víkina í öðrum áttum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – bátar í nausti.

Á fyrstu árum þessarar aldar samþykkti sýslunefnd Árnessýslu að láta fara fram athugun á hafnarstæði beggja vegna Ölfusár. Thorvald Krabbe, þáverandi landsverkfræðingur, gerði þessa athugun á árunum 1907—1909. Honum fannst ekki gerlegt að leggja í framkvæmdir austan ár, en gerði tillögur um hafnargerð í Þorlákshöfn.
Árið 1913 veitti Alþingi Fiskveiðifélagi Íslands1000 kr. styrk til þess að rannsaka og gera áætlun um vélabátahöfn í Þorlákshöfn. Jón Þorláksson, sem þá var orðinn landsverkfræðingur, gerði þessa áætlun.
Árið eftir flutti Matthías Ólafsson, þingmaður Vestur-Ísfirðinga og starfsmaður fiskifélagsins, tillögu þess efnis, að landssjóður veitti 20.000 króna styrk til hafnargerðar hér og auk þess yrðu lánaðar 40.000 krónur úr viðlagasjóði til sömu framkvæmda.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – santfiskbreiður.

Tillaga þessi fór til sjávarútvegsnefndar, sem lagði til, að landssjóður keypti jörðina og léti gera þar landshöfn, og er það fyrsta sinni, sem það orð er notað um höfnina hér, svo mér sé kunnugt.
Þegar þessi tillaga var komin fram, dró Matthías tillögu sína til baka. Tillaga nefndarinnar var mikið rædd og var loks ákveðið að vísa málinu til landsstjórnarinnar.
En þingsalirnir voru ekki eini vettvangurinn fyrir umræður um hafnarmál Þorlákshafnar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Hinn 18. júlí 1914 var mest öll forsíða blaðsins Suðurland helguð þessum málum og þá komizt að þeirri niðurstöðu, að vélbátaútgerð á Eyrum nyti sín ekki til fulls, nema til kæmi í Þorlákshöfn hafnaraðstaða, sem þeir gætu leitað til í viðlögum eins og verið hafði með áraskipin.
Hinn 11. marz árið 1916 ritar Gestur á Hæli langa grein í Suðurlandið. Þessi grein er um samgöngumál Sunnlendinga. Þar kemst Gestur að þeirri niðurstöðu, að það fyrsta, sem gera þurfi í þeim málum, sé að byggja höfn í Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911.

Það ár var sýslufundur Árnessýslu haldinn um mánaðamótin marz—apríl. Þar lagði Gestur fram tillögu um hafnargerð í Þorlákshöfn og samgöngur út frá henni.
Og á aukafundi sýslunefndar hinn 17. júní um sumarið var samþykkt að kaupa jörðina Þorlákshöfn og gera þar höfn, sem tæki 175 fiskibáta og a. m. k. 2 hafskip. Samþykkt þessi var bundin því skilyrði, að verð jarðar og hafnar færi ekki fram úr einni milljón króna, og á því mun málið hafa strandað. Þetta sumar var mikið skrifað um hafnarmálin hér, og er ekki tækifæri til að tíunda það nú. Þó vil ég ekki láta ógetið greinar, sem danski faktorinn á Eyrarbakka skrifaði í Suðurlandið hinn 24. apríl um vorið. Greinin hefst á orðunum „vel lýst mér á hugmyndir Gests um höfn í Þorlákshöfn“. Síðan er gerður samanburður á aðstöðu til hafnargerðar hér og á Eyrarbakka. Það fer ekki á milli mála, að þar heldur náttúrufræðingurinn Pétur Nielsen á pennanum, en arftaki dönsku einokunarkaupmannanna hefir verið rekinn út í horn, meðan greinin var skrifuð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Árið 1917 var samþykkt þingályktunartillaga um, að gerð verði áætlun um fulltrausta hafnargerð í Þorlákshöfn og hvað slíkt verk muni kosta. N.P. Kirk, verkfræðingi, var falið að vinna þetta verk, og skilaði hann áætlun árið 1919. Hann lagði til, að gerður yrði 635 m langur suðurgarður og 860 m norðurgarður. Inni í höfninni kæmi svo „T“ laga bryggja, og væri landleggurinn 183 m, en þverbryggjan 60 m. Kostnað áætlaði hann 3.830.177 kr. Sumarið 1929 var 20 m löng og 4 m breið bryggja gerð norðan við Norðurvörina. Sumarið eftir var hún lengd um 10 m.
Sumarið 1935 var Flataskersgarðurinn gerður. Hann var 90 m langur, teiknaður af Jóni Þorlákssyni til þess að taka skakkafallið af Norðurvörinni. Árið 1938 var hafin gerð Suðurvararbryggju. Var unnið við hana öðru hverju næsta hálfan annan áratuginn, og var hún þá orðin 175 m löng með tveggja metra háum skjólvegg á ytri brún.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

Vorið 1962 var enn hafizt handa um hafnargerð hér. Þeim áfanga lauk árið 1969. Þá var Suðurvararbryggja orðin 240 metrar. Norðurvararbryggjan var þá orðin „L“ laga. Frá landi var hún 195 m, en þverleggurinn 100 m. Fljótlega eftir að Heimaeyjargosið hófst, var farið að huga að bættri hafnaraðstöðu á suðurströndinni. Árangur þeirra bollalegginga var, að Alþjóðabankinn lánaði fé til þriggja hafna, en lang mest til Þorlákshafnar.
Hinn 1. september árið 1974 hóf verktakafyrirtækið Ístak framkvæmdir við þann áfanga hafnargerðar hér, sem nú er unnið að, og áætlað er, að verði lokið á þessu ári, en það er stærsta átak, sem gert hefir verið í einu við hafnarbyggingu hér á landi.

Jörðin Þorlákshöfn

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Sjálfsagt hefir oltið á ýmsu um eignarhald á jörðinni Þorlákshöfn, eins og á öðrum góðjörðum landsins. Kirkja og klaustur — biskupar og braskarar hafa áreiðanlega átt hana öldum saman. En stundum hafa setið hér sjálfseignarbændur.
Árið 1818 keypti Magnús Beinteinsson, þá bóndi hér, jörðina, og í Suðurlandi 8. des. árið 1910 er þess getið, að Jón Árnason, sonarsonur Magnúsar, hafi þá fyrir fáum dögum selt Þorleifi Guðmundssyni frá Háeyri höfuðból sitt. Jón sat hér þó til dauðadags, 4. nóvember 1912.

Þorlákshöfn

Jón Árnason og frú.

Um það leyti, er Þorleifur keypti jörðina, hafði franskt útgerðarfyrirtæki mikinn áhuga á að koma sér upp útgerðarstöð hér. Það sendi hingað verkfræðinga árið 1911, og sögur voru á lofti um, að Þorleifur hafi selt Frökkunum hluta jarðarinnar.
Upp úr 1920 kemst Þorlákshöfn svo í eigu Reykvíkinga og er það, þangað til árið 1934, að Kaupfélag Árnesinga, undir stjórn Egils Thorarensen, kaupir hana. Tólf árum síðar kaupa svo Árnes- og Rangárvallasýslur staðinn, og á þeirra vegum var ráðizt í hafnarframkvæmdirnar á árunum 1946 og 1962.
Árið 1966 var höfnin gerð að landshöfn, og eignaðist ríkið þá 80 m breiða spildu meðfram ströndinni. Árið 1971 keypti svo Ölfushreppur jörðina að undanskildum nokkrum hekturum, sem sýslurnar eiga enn.

Dýrasta jörð á Íslandi
ÞorlákshöfnÁ árunum kringum 1920 var unnið að nýju fasteignamati fyrir landið í heild. Mat þetta tók gildi 1. apríl 1922 og var Þorlákshöfn þá dýrasta jörð á Íslandi, metan á 118.000 kr. auk bygginga.
Hve hátt land hér var virt, sést bezt á því, að allt land Árnessýslu var þá metið á tæplega tvær og einn fjórða úr milljón, og að 6 af hreppum sýslunnar voru hver um sig lægra virtir en landið hér. Skálholtsland var þá virt á 9.700 kr. og Oddi á Rangárvöllum á 8.400, og allt land Skarðshrepps í Dalasýslu var talið 400 kr. minna virði en sandurinn hér og trúlegt, að Birni á Skarði og Ólöfu ríku hefði þótt það þunnur þrettándi. Var þá hægt að moka hér upp gulli á þessum árum? Ekki úr sandinum, en þeir, sem að matinu unnu, gerðu sér ljóst, að mikið gull var geymt í Selvogsbanka, og hér höfðu verið hönnuð þau mannvirki, er þurfti til að taka á móti því.

Meitillinn hf. stofnaður
ÞorlákshöfnÁrið 1949 var Meitillinn h.f. stofnaður að frumkvæði Egils Thorarensen. Í september það ár kom fyrsta skip þess fyrirtækis hingað. Var það 22 tonna eikarbátur, er Brynjólfur hét. Félagið hóf svo útgerð á vertíðinni 1950. Þann vetur voru bátar þess 5 og hétu allir nöfnum Skálholtsbiskupa. Flaggskip þess flota var Þorlákur, er var 27 tonn. Samtals voru þessir 5 bátar 104 tonn. Fyrstu starfsmenn Meitilsins settust að í bæjarhúsum bóndans. Þannig sátu gamli og nýi tíminn hér í tvíbýli um skeið og skildu í bróðerni.
Á manntalinu árið 1950 voru skráðir hér í Þorlákshöfn 4 karlmenn, en engin kona. Árið eftir, þegar fyrstu húsinu voru reist, voru komnar hingað tvær fjölskyldur og 7 einhleypingar, alls 14 manns. Nú eru hér 834 íbúar með lögheimili, þar af 406 innan við tvítugt, en aðeins 5, sem náð hafa áttræðisaldri. Meðalaldur manna hér er nú 24 ár, og má segja, að sá hafi verið meðalaldur íbúanna öll árin, sem þorp hefir staðið hér.

Barnafræðsla

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamla skólahúsið.

Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavistarskóla fyrir börn í Hveragerði. Þar áttu bændabörnin héðan að stunda sitt skyldunám, eins og önnur börn sveitarinnar.
Fyrstu ár þorpsins hér voru engin skólaskyld börn á staðnum. Það var ekki fyrr en á árunum 1954—1955, sem þurfti að fara að hugsa um barnafræðslu í Þorlákshöfn. Þá varð hver að bjarga sér, eins og bezt hann gat. Einu barni var komið fyrir á Selfossi, og með öðru var lesið heima.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn fyrrum.

Sumarið 1956 voru hér 9 skólaskyld börn. Þá um haustið var sett hér á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði og Kristján frá Djúpalæk ráðinn til kennslunnar.
Fram að jólum var kennt í sjóbúð, í janúar var verið í skúr, sem reyndist óhæfur. Þá var flutt í íbúð, sem útibússtjóra K.Á. hafði verið ætluð. Svona gekk þetta næstu árin. Kennt var, þar sem hægt var að fá inni fyrir nemendur og kennara.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Gamli bærinn 1961.

Í upphafi ársins 1962 var flutt í skólahús staðarins. Byggingu þess var þó ekki lengra komið en svo, að mótatimbur klætt tjörupappa þénaði sem útihurð og rúðugler. Útbúnaður þessi hélt vindi og vatni að mestu utan veggja, en rafmagn og olía gáfu húsinu birtu og yl.
Þetta vor luku 37 börn prófi hér. Þá var Þorlákshöfn gerð að sérstöku skólahverfi. Aukning nemenda hefir verið stöðug og nú, þegar hér hefir verið kennt í rétt 20 ár, er tala nemenda 170. Vantar aðeins tug til að tvítugur standi skólinn með 20 sinnum fleiri nemendum en hann byrjaði með. Kennarar voru 9 í vetur eða jafnmargir og nemendurnir fyrsta árið.

Gamall kirkjustaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Á fyrri öldum, þegar hestar postulanna máttu heita eina farartæki alþýðu hér á landi, voru kirkjur miklu víðar en nú er. Þorlákshöfn er einn þessara gömlu kirkjustaða.
Hvenær eða hve lengi hér stóð kirkja, er mér ekki kunnugt, en víst er, að hér var hálfkirkja fram yfir miðja 18. öldina.
Kirkjugarður var fyrir norðan bæjarhúsin, og voru flutt þaðan að Hjalla bein, er upp komu í jarðraski, er þar var gert í sambandi við hafnargerðina árið 1962. Hökull úr Þorlákshafnarkirkju er á minjasafninu á Selfossi.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn-gamli bærinn.

Mér er fullljóst, að mikið vantar á að sögu Þorlákshafnar hafi verið gerð tæmandi skil. Til þess að ég geti gert það, vantar mig tvennt, sem ekki verður án verið, en það er þekking og tími til að raða saman þeim sprekum, sem rekið hafa á fjörur mínar. En enginn Sunnlendingur lætur hug fallast, þótt ekki sé alhirt um höfuðdag, og það, sem við ekki komum í verk í dag, munu afkomendur okkar gera á morgun.
Þegar Þorlákur Guðmundsson, 2. þingmaður Árnesinga, mælti fyrir þeirri tillögu sinni á Alþingi árið 1875, að hér mætti verða verzlunarstaður, sagði hann m.a.: „Það mun fara með þetta mál sem hvert annað, að væri það á skynsamlegum ástæðum byggt, mundi það hafa framgang, en væri það af heimsku stofnað, mundi það með henni fyrirfarast.“
Það er von mín, að sú verði gifta Þorlákshafnar, að hvert það mál, sem er á skynsamlegum ástæðum byggt, nái fram að ganga, en það, sem er af heimsku til stofnað, muni með heimskunni fyrirfarast.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 3. hefti, 01.06.1976, Ágrip af sögu Þorlákshafnar – Gunnar Markússon, bls. 109-115.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Í Sjómannadagsblaðinu 1982 er fjallað um „Sögu Þorlákshafnar„:

Höfundur Þorlákshafnar, höfðingjarnir tveir

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

„Þorlákshöfn mun draga nafn sitt af Þorláki helga, er biskup var í Skálholti (1139—1193) en þar mun hann hann hafa stigið á land, eftir að hafa tekið biskupsvígslu, árið 1178. Hann þótti hinn skörulegasti biskup og reyndi mjög að efla kirkjuvaldið, sem kunnugt er. Önnur sögn segir á hinn bóginn að bóndi í Þorlákshöfn, er þá hét Elliðahöfn, hefði heitið á Þorlák biskup í sjávarháska, að breyta nafni jarðarinnar, ef hann næði landi, heilu og höldnu.
Miklar sögur eru um útgerð og siglingu í Þorlákshöfn og talið að Ögmundur Pálsson, biskup, sem var í Skálholti 1521—1540 (d. 1541) hafi siglt skipi sínu, Súðinni í Þorlákshöfn, en hann var nafntogaður skipstjórnarmaður og réði yfir Súðinni, haffæru skipi, en hann sigldi sjálfur, meðal annars margsinnis til Noregs.
ÞorlákshöfnEkki er unnt að rekja hér langa útgerðarsögu Þorlákshafnar, en einkennileg tilviljun er það, að tveir frægðarmenn koma þar seinast við sögu, Þorleifur ríki á Háeyri, útvegsbóndi, kaupmaður og alþingismaður, er segja má að væri seinasti ábúandi í gamla stíl, meðan róið var á áraskipum, og Egill Gr. Thorarensen í Sigtúnum, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga, er menn nefndu oft Jarlinn í Sigtúnum. Hann fékk kaupfélagið til að kaupa Þorlákshöfn og er réttur faðir Þorlákshafnar eins og hún er í dag.
Svo skemmtilega vildi til, að við hér á blaðinu hittum að máli syni þessara tveggja höfðingja, þá Benedikt Thorarensen, framkvæmdastjóra hjá Meitlinum hf. og Sigurð Þorleifsson, Guðmundssonar á Háeyri, en báðir eiga þeir heimili í Þorlákshöfn, og ennfremur Gunnar Markússon, bókavörð, en hann er einnig fróður mjög um sögu staðarins.
Og á frásögnum þeirra og öðrum upplýsingum, rituðum, skal hér reynt að gjöra nokkra grein fyrir Þorlákshöfn að fornu og nýju, það er Þorlákshöfn Þorvaldar á Háeyri og Þorlákshöfn Egils í Sigtúnum.

Þorlákshöfn í byrjun aldar

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – kort.

Þorlákshöfn liggur í vesturjaðri Árnessýslu og svonefnt Hafnarnes skýlir höfninni í suðlægum og suðvestlægum áttum og síðan er landvar frá hendi náttúrunnar allt að ASA. Landsynningur eða suðaustanáttin var erfiðasta áttin, því þá stóð upp í víkina. Að norðan og austanverðu markar Skötubótin og síðan Hafnarskeið Þorlákshöfn, eða „Höfninni“ bás, en fyrrgreint svæði, þótt opið sé, er einstakt í óvogskorinni og skjóllausri strönd Suðurláglendisins. Þorlákshöfn varð því snemma lífhöfn manna á þessum slóðum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þorleifur á Háeyri bjó í Þorlákshöfn á árunum 1914—1927 og gerði þar út. Í hans tíð munu skipin (áraskipin) flest hafa orðið 30 talsins. Þetta voru teinæringar, er sumir nefna 12 róin skip. Til eru góðar heimildir um skip í Þorlákshöfn á þessari öld og munu þau um aldamótin hafa verið um 20 talsins og árið 1901 voru þau 27. En flest urðu þau árið 1916, eða 30, en úr því fer skipum að fækka í Þorlákshöfn.
Nýir tímar fóru í hönd í útgerð, og menn leituðu á aðra staði, þar sem náttúruhafnir voru fyrir skútur og togara. Árið 1923 voru aðeins 5 skip eftir, sem réru frá Þorlákshöfn. Vélbátaútgerð var ekki stunduð í tíð Þorleifs á Háeyri. Bryggja var engin og allt varð að bera. Róið var út í saltiskip og saltið borið í sekkjum í hús og fiskinum var skipað út með sama hætti, róið var í skip. Út og uppskipun fór fram við Hellurnar, Norðurhellu og Suðurhellu. Aðallega var þó skipað út við Suðurhelluna, því þar var fiskinum pakkað í húsi, er þar stóð, og nefnt var Bakkapakkhús, en Einarshafnarverslun átti það hús. Saltinu var skipað upp í báðar varirnar, Norðurvör og Suðurvör, en á báðum stöðunum voru salthús.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Mjög fjölmennt var í Þorlákshöfn á vertíðum og að meðtöldu heimilisfólkinu hjá Þorleifi, mun hafa verið á fimmta hundrað manns í Þorlákshöfn á vetrarvertíð.
Sjómennirnir, eða skipshafnirnar bjuggu í sjóbúðum, sem voru grjótbyrgi með bárujárnsþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti, áður en bárujárnið kom til sögunnar, voru sjóbúðirnar með torfþaki, eins og flest önnur hús á Íslandi. Upphitun var engin, en prímus var notaður við eldamennsku, sem aðallega mun hafa verið sú að laga kaffi. Sjóbúðin var eitt herbergi og flet meðfram veggjum og sváfu tveir í hverju fleti. Aðkomumennirnir voru flestir úr Ölfusinu og austan úr Árnessýslu. Margir komu frá Eyrarbakka, og ennfremur réru þarna Rangæingar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – sjóbúð.

Þorleifur á Háeyri gerði út nokkra báta og verkaði fisk af sínum bátum og einnig tók hann að sér fiskverkun fyrir Einarshafnarverslun á Eyrarbakka. Fyrstu árin að minnsta kosti.
Í tíð Þorleifs voru tvö íbúðarhús í Þorlákshöfn. Gamli bærinn, sem svo var nefndur og svo tvílyft timburhús, eða íbúðarhús, bárujárnsklætt, sem stóð framar.
Umsvif Þorleifs á Háeyri í Þorlákshöfn voru mikil en fóru minnkandi. Hann þraukaði þó þarna til ársins 1927, en þá voru skipin aðeins orðin fjögur. Þorleifur fluttist síðan til Reykjavíkur og varð þar fisksölustjóri. Hann andaðist árið 1942.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – róðraskip um 1890.

Áraskipin voru á netaveiðum, einvörðungu, í tíð Þorleifs. Þá var hætt að verka í skreið á Íslandi, nema harðfisk til heimabrúks.
Allur fiskur var saltaður, og það sem ekki var saltað til útflutnings, var svokallaður matfiskur, morkinn fiskur og fiskur með lýti. Hann var hafður til manneldis og seldur í sveitirnar. Þorskhausar voru þurrkaðir og seldir innanlands.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Þess má þó geta, að þorskanet voru fyrst notuð í Þorlákshöfn árið 1907. Sjómennskan var erfið og aldrei höfðu menn með sér bita á sjóinn, ekki einu sinni þótt tvíróið væri sama daginn, eða þríhlaðið, sem oft kom fyrir, ef verið var á leirnum, sem svo var nefnt. Fengust þá of 12000 fiskar á skip sama daginn, og þegar róið var hrærðu menn í þorski með árunum og oft gogguðu menn fiska upp úr sjónum á leiðinni í land.
Þorlákshöfn
Merkileg tilraun var gerð í Þorlákshöfn árið 1922, en þá reyndi frægur aflamaður Nes-Gísli (Gísli Jónsson) að veiða þorsk í hringnót. Gísli hafði þríhlaðið skip sitt þennan dag. Þegar lokið var við að landa, héldu þeir út með hringnót, sem gjörð var úr trolltvinna. Nóttina höfðu þeir á einu skipi, en kunnu ekki með að fara, enda sveitamenn, eins og flestir þeir sem réru á áraskipum á þessum stað. Þeir köstuðu nótinni og fengu 60 fiska. Ekki hugkvæmdist þeim að nota tvö skip til að kasta nótinni, en það er önnur saga. Er þetta líklega í fyrsta skipti, sem gerð er tilraun til þorskveiða með nót hér á landi. Ekki mun nótinni þó hafa verið kastað nema einu sinni.
Þess má einnig geta, að Gísli í Nesi, varð fyrstur manna til að nota þorskanet í Þorlákshöfn, en áður fóru skipin með lóðir.
Síðasti bóndinn í Þorlákshöfn var Guðmundur Jónsson, en hann flutti að Eyði-Sandvík í Flóa árið 1940. Þá lagðist sveitabúskapur af í Þorlákshöfn. Skúli Þorleifsson var ráðsmaður í Þorlákshöfn 1942—1943 og viðloðandi þar um skeið.
Lítil útgerð mun hafa verið í Þorlákshöfn í tíð Guðmundar Jónssonar.

„Nú skal byggja borg“
ÞorlákshöfnSem áður sagði, þá eru það einkum tveir héraðshöfðingjar, er setja svip sinn á Þorlákshöfn á þessari öld. Annar þeirra Þorleifur á Háeyri sér hina eldfornu útgerð áraskipa liðast í sundur í straumi tímans, hinn Egill í Sigtúnum tekur að sér að leiða Þorlákshöfn til nýrrar tíðar. Báðir þessir menn voru orðnir að þjóðsögu, áður en þeir voru allir, sem er fremur sjaldgæft á Íslandi, og ekki hafa þeir heldur meiðst í endurminningunni. — Standa þar fyrir sínu. Sem áður sagði þraukaði Þorleifur á Háeyri til ársins 1927 í Þorlákshöfn, enda staðurinn búinn að vera í bili, sem viðunandi verstöð.
Þá verða tímamót í sögu Þorlákshafnar. Árið 1929 mun fyrst hafa verið reynt að gjöra bryggju í Þorlákshöfn, og var hún 20 metra löng. Ekki skal fullyrt um gagnsemi hennar, en árið 1934 kaupir Kaupfélag Árnesinga jörðina. Um þetta segir Guðmundur Daníelsson, rithöfundur í grein á þessa leið. (Stytt):
„Á stjórnarfundi Kaupfélags Árnesinga 2. apríl 1934 var samþykkt að festa kaup á jörðinni Þorlákshöfn með þeim mannvirkjum, sem þar voru. Kaup þessi voru í upphafi mest hugsuð til að hefja útgerð í atvinnubótaskyni, hef ég einhvers staðar lesið, en tel mjög hæpið. Aftur á móti mun hafa vakað fyrir Agli að bæta svo lendingarskilyrði, að þar yrði brátt hægt að skipa upp flestum vörum Sunnlendinga, það er að segja að byggja hafskipahöfn.
Árið 1935 lét Egill kaupfélagið hefja útgerð í Þorlákshöfn. Ólafur bóndi Þorláksson á Hrauni í Ölfusi er einn af örfáum Íslendingum, kannski sá eini, sem vitni varð að því, þegar Egill kom fyrsta sinni út í Þorlákshöfn til þess að ræða við eina formann staðarins um væntanleg kaup K.Á. á jörðinni, umsvif og atvinnurekstur þar. Ólafur segir frá þessu í minningargrein, sem hann skrifaði um Egil látinn:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

„Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1933, að ég var við sjóróðra á vertíð í Þorlákshöfn, þá tvítugur unglingur. Staðurinn var þá kominn í slíka niðurníðslu, að aðeins einn bátur (opin trilla) reri þarna frá verstöðinni, þrátt fyrir það að þarna rétt upp við landsteina var sjórinn svo morandi af fiski, að einn daginn fengum við til dæmis á fjórða þúsund fiska, þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Og þeir sem við þetta unnu voru aðeins menn úr nágrenninu. Slík var nú trúin orðin á framtíð staðarins.
ÞorlákshöfnÞað var snemma morguns einn dag áður en farið var á sjó, að inn í verbúðina vatt sér maður einn gustmikill og mikilúðlegur, og af honum sindraði orka og fjör. Hér var þá kominn forstjóri hins unga kaupfélags, sem nýbúið var að stofna í héraðinu. Maður þessi tók sér sæti á rúmi formanns og fékk sér hressilega í nefið. Síðan tóku þeir tal saman, og fór ég að leggja við eyra. Egill sagðist nú vera kominn í þeim erindagjörðum að skoða Þorlákshöfn, því að hann hefði hugsað sér að láta kaupfélagið kaupa jörðina. Síðan hann að lýsa á sinn alkunna hátt öllum þeim möguleikum, sem þarna væru fyrir hendi og verkefnum sem biðu þess að verða leyst. Og ég, unglingurinn, hlustaði þarna sem bergnuminn og fannst sem ég hlýddi á ævintýri „Þúsund og einnar nætur.“
Og kaupfélagsstjórinn var ekki að tvínóna við hlutina fremur en endranær. Strax um sumarið var hafizt handa um lendingarbætur og síðan útgerð. Fyrst í smáum stíl en síðan vaxandi. Þannig hefur þróunin haldið áfram, að vísu með nokkru hléi á stríðsárunum (þá dró „Bretavinnan“ til sín allt fáanlegt vinnuafl). En að lokinni styrjöldinni komst nýr og aukinn skriður á uppbyggingu Þorlákshafnar, og ekki hefur orðið lát á því síðan.“
Um þennan þátt í frumlegu og stórtæku sköpunarstarfi Egils á vegum verklegra framkvæmda hefur Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu þetta að segja:
„Egill Thorarensen gleymdi ekki sjónum og gjöfum hans. Hann var líka vel minnugur hafnlausu strandarinnar, sem umlykur mesta samfellda búnaðarhérað landsins. Hann sá, að höfn yrði að byggja í hinni gömlu verstöð við Eyrarbakkabugt, sem helguð var hinum sæla Þorláki biskupi, og hann sá fyrir sér stóra hafnarborg rísa upp á hinni gróðurlausu örfoka sandströnd. Og hann lét ekki sitja við hugsanir og orðin tóm, það gerði hann aldrei. K.Á. keypti þessa niðurníddu verstöð, hóf hafnarbætur og útgerð, þar sem fiskurinn gengur upp í landsteina á vetrarvertíð, svo að þríróa má hvern dag, þegar gæftir eru.
Þorlákshöfn
Eftir stríðið, sem endaði 1945, endurreisti Egill í annað sinn útgerð í Þorlákshöfn, og þá stofnaði hann sjálfur, K.Á., SÍS og fleiri aðilar hlutafélagið Meitilinn í Þorlákshöfn. Áður, árið 1938, hafði Egill látið K.Á. hefja þar byggingu hafskipahafnar. Að heimsstyrjöldinni lokinni vaknaði almennur áhugi á lengingu þessa hafnargarðs, sem kominn var. Þar með taldi Egill, að málið væri í rauninni orðið ofviða einu kaupfélagi, því að vissulega stefndi hann að hafskipahöfn með öruggri legu fyrir 40 til 50 stóra fiskibáta. Þá vann Egill það þrekvirki, sem ég persónulega er viss um, að enginn lifandi maður á Íslandi hefði getað leikið eftir honum: að fá Árnes- og Rangárvallasýslur til að kaupa Þorlákshöfn, það er að segja jörðina og hafnarmannvirkin. Meitillinn hélt aftur á móti áfram að vera hlutafélag. Þetta gerðist árið 1946. Hafnarnefnd var sett á laggirnar og formaður hennar kosinn Páll Hallgrímsson sýslumaður. Helmingur nefndarinnar mun hafa verið búsettur austan Þjórsár, meðal annarra sýslumaðurinn, Björn Fr. Björnsson.
ÞorlákshöfnNú var settur kraftur á framkvæmdirnar, og sýslusjóðir urðu auðvitað að galopna pyngjur sínar — og dugði stundum ekki til. Þá tókst Agli jafnvel að fá stjórn Mjólkurbús Flóamanna til að hlaupa undir bagga, eitt sinn þegar mikið reið á að koma niður bryggjukerum, sem búið var að steypa í landi.. . .“ Samþykkti Mjólkurbúið að leggja til 5 milljónir króna, sem var mikið fé á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum Benedikts Thorarensen, framkvæmdastjóra, þá hóf Kaupfélag Árnesinga hafnargerð þegar árið 1934 og stóð sú framkvæmd til ársins 1946. Gerður var varnargarður í Norðurvör og ennfremur var hafist handa um gerð Suðurvarargarðs árið 1938, sem árið 1940 var orðinn 75 metra langur. Á þessum árum var hafin útgerð trillubáta og dekkbáta og reist var fiskhús til að salta aflann.
Voru verslunarhús Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka flutt til Þorlákshafnar og endurreist þar. Trillurnar lönduðu aflanum við Norðurvararbryggju.
Árið 1950 urðu enn þáttaskil í sögu Þorlákshafnar. Keyptir voru fimm þilfarsbátar og einn 100 tonna bátur. Annars skammtaði höfnin stærð bátanna, og voru þeir 20—30 tonn hver. Minni bátarnir lágu fyrir legufærum, en stærri bátar voru á útilegu.
Næsti áfangi er svo að árið 1960 en þá byggði Meitillinn hraðfrystihús. Annar þáttur hafnarsögunnar var sá, að Sambandið setti snemma upp fóðurblöndunarstöð og landaði fóðurvörum, og Olíufélagið hf. setti upp olíugeyma og sendi olíu með skipum til Þorlákshafnar, en mikið hagræði var að geta landað varningi og skipað út vörum í Þorlákshöfn. Var t.d. mestu af föngum Búrfellsvirkjunar skipað upp í Þorlákshöfn, svo dæmi séu nefnd um almennt gildi hafnarinnar á þessum árum. Þá var Þorlákshöfn notuð til mjólkurflutninga út í Vestmannaeyjar og er enn.

Takmarkinu náð — Höfnin fullgerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1960 – Meitillinn.

Árið 1960 voru miklar framkvæmdir á vegum sýslufélaganna, sem nú áttu Þorlákshöfn. Fengið var lánsfé með ríkisábyrgð, en árið 1965 var Þorlákshöfn gjörð að landshöfn. Síðan er svo lokið við hafnargerðina með stórátaki í kjölfar Vestmannaeyjagossins.
Benedikt Thorarensen lýsir þessu svo í grein er hann ritaði í Sjómannablaðið Víking árið 1978:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1965.

„Eftir eldgosið í Heimaey í janúar 1973, leit helzt út fyrir, að Þorlákshöfn yrði að taka við hluta Vestmannaeyjaflotans, og opnuðust þá möguleikar á lántöku hjá Alþjóðabankanum til uppbyggingar hafnarinnar í Þorlákshöfn. Höfnin var þá reyndar þegar alltof þröng orðin fyrir heimaflotann, en skipin stækkuðu og þurftu meira pláss.
Gifta hafnar heilags Þorláks var mikil morguninn eftir gosnóttina, þegar um 5000 eyjaskeggjar komust hér á fastalandið slysalaust með fiskibátum sínum og annarra, þ.á m. bátum héðan, sem legið höfðu í Eyjum daginn áður vegna óveðurs. Frá kl. 8 árdegis fram yfir hádegi munu hartnær 1 þús. manns á klukkustund hafa stokkið uppá bryggjurnar hér. Það var mikið lán.
Verksamningur um gerð nýrrar hafnar var undirritaður við Ístak h.f. 9/10 ’74, og þegar hafist handa. Á verðlagi þess árs átti verkið að kosta um 710 millj. Er óhætt að segja, að þetta vandasama verk hafi í öllum meginatriðum gengið samkvæmt áætlun.
Þorlákshöfn
1975, síðla hausts, var lokið hættulegasta áfanga hafnargerðarinnar, Suðurvarargarðs. Alls fóru í gerð beggja hafnargarðanna um 2900 steinakkeri (dolosar) sem vega hver um níu lestir eða alls 26.000 tonn. Um 380 þús. rúmmetrar af grjóti, af ýmsum ákveðnum stærðum fóru í garðana. Þá varbyggt ferjulægi fyrir ferjuskipið Herjólf, sem vígði svo höfnina hausið 1976 með því að slíta borða, sem strengdur hafði verið fyrir hafnarkjaftinn. Ferja þeirra eyjamanna hefur því verið starfrækt um tvö ár, og allt gengið vel.“ Síðan víkur Benedikt að vegamálum, nauðsyn á vegi með bundnu slitlagi til Reykjavíkur, en þeirri framkvæmd er nú lokið, þótt ýmsum hafi þótt miða heldur seint.
Nú því er við að bæta, að Þorlákshöfn hefur reynst vel. Þaðan eru gerðir út um 25 bátar og þrír togarar, en auk þess leggur fjöldi aðkomubáta þar upp afla, og á þessa vertíð munu um 50 skip landa afla í Þorlákshöfn.“ -JG

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1982, Þorlákshöfn, bls. 31-41.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Selvogur

Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð „horfin“, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.

Imphólarétt

Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
FornagataÍ lýsingum segir m.a. um Fornugötu: „Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu.  Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“ Jafnframt að „ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“ Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið „Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.“ Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Víghólaréttin?Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. „Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.“ Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.“
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
Mörk Ness og Bjarnastaða„Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð.  Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði.  Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við  eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana.  Rúst við FornugötuVið túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi.  Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.“ Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
„Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina.  Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli.  Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi.  Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.“ Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. „Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð.  Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Varða við FornugötuFrá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.“ Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.“ Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
„Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“ Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.“
Fornagata í MiðheiðinniÍ örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: „Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina.  Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig.  Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Þórður Sveinsson - t.h.Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa.  Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.“
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.

Strandarkirkja

Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
„Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Riftún

Á Riftún í Ölfusi er kaþólsk kapella. Þar er einnig safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar á Suðurlandi.
Riftun-1Kapellan ber heitið „Kapella hins helga kross“ og vísar heitið til fornrar sögu krossins sem var í Kaldaðarnesi í Flóa sem er handan Ölfusár. Árið 1985 var reistur kross á hamrinum fyrir ofan bæinn og stendur hann enn. Nær krossmessu á hausti eru farnar krossgöngur að krossinum.
Forsaga þess að kaþólska kirkjan eignaðist Riftún var sú að íslenska Jósefssystirin systir Clementía „yngri“ (Svanlaug Guðmundsdóttir), ein fjögurra íslenskra kvenna sem gekk í Jósefsregluna hafði forgöngu um það ásamt séra George þáverandi skólastjóra Landakotsskóla. Systir Clementía ráðstafaði hluta af arfi sínum til kaupanna. Kirkjan keypti svo jörðina árið 1963 til að reka þar sumarbúðir fyrir nemendur Landakotsskóla. Riftún var rekið sem sumardvalarheimili en nemendur Landakotsskóla nutu líka aðstöðunnar á öðrum árstímum.
Síðustu árin hefur sóknarprestur Maríukirkjusóknar haft umsjón með staðnum. Hann messar þar á sunnudögum kl. 16 og á miðvikudagskvöldum kl. 20. Reglulegar pílagrímsferðir eru farnar að krossinum í september ár hvert.  Kapellan dregur nafn sitt af krossinum.
Skammt frá eru kirkjuleifar og grafreitur frá árinu 1000, án þess þó að nokkur hafi veitt því athygli.

RGB/Heimild: „St. Jósefssystur á Íslandi 1896-1996“. Ólafur H. Torfason. Útg. St. Jósefsreglan af Chambéry, 1997. Bls. 434.

Ölfus

Riftún.

Kolviðarhóll

Í Tímanum 1977 er fjallað um „Kolviðarhól 1877-1977, fyrsta gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…„:

Kolviðarhóll
„Í byrjun júlí síðastliðins var gamla gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er eign Reykjavíkurborgar rifið til grunna.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Fyrsta gistihúsið á þessum stað var reist 1877, en áður var sæluhús á Kolviðarhóli og var það orðið léleg vistarvera þeim, sem þangað leituðu í vondum veðrum. Þetta fyrsta gistihús var lengi eina húsið á staðnum. Oft var þröngt setinn bekkurinn og þúsundir manna munu hafa gist þar. Matthías Jochumson, þá prestur i Odda, kom þar í janúar 1884 og hitti 40 ferðamenn, sem voru veðurtepptir. Og á loftinu í þessu húsi gisti í rúmi með mosadyngju sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup, lítill drengur í fyrstu ferð sinni til sumardvalar austur í Ölfus.
Kolviðarhóll
Þriðja og síðasta gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er horfið, reisti Sigurður Daníelsson gestgjafi 1929 og var það með öllu nýtízku þægindum, sem þá þekktust hér á landi, m.a. ljósavél og raflýsingu.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Þjóðvegurinn forni milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá nokkru norðar en nú er farið og skammt frá Kolviðarhóli. Sæluhús var fyrst reist á þessum slóðum 1703 við svonefnda Draugatjörn fyrir framan Húsmúlann, og var það eina vistarveran milli byggða fram til 1844, að sæluhús var reist á Kolviðarhóli. Sumarið 1877 sama ár og fyrsta gistihúsið var reist að Kolviðarhóli hófst vegagerð yfir Svínahraun sem var lokið sumarið eftir.
Hellisheiði var um aldir og er enn einn fjölfarnasti fjallvegur landsins. Við sem ökum þessa leið í upphituðum bílum höfum litla hugmynd um þá baráttusem forfeður okkar háðu hér í vetrarferðum. Mannskaðar voru tíðir á þessum slóðum, þótt engar tölur séu til um hversu margir hafa látið þar líf sitt. Trúlegt er að flestir hafi orðið úti á þessum slóðum á 18. öld, einkum eftir móðuharðindin 1784. Fólk flúðu heimili sín og reikaði allslaust undan hörmungunum í vesturátt.

Hellisheiði

Hellsiheiði – forna leiðin um helluna.

Skjalfestar heimildir eru um manntjón á Hellisheiði á 130 ára timabili frá 1792-1922. Í bók sinni Sögu Kolviðarhóls greinir Skúli Helgason frá 24, sem urðu úti á heiðinni á þessu tímabili, en getur þess að ekki sé víst að þar séu allir upp taldir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Einn þeirra fyrstu sem vakti máls á að reist skyldi veitingahús á Kolviðarhóli var Sigurður Guðmundsson málari á fundi í „Kveldfélaginu“ svonefnda sem var e.k. leynifélag í Reykjavík árið 1871.
„Þar mætti hafa hvers kyns veitingar. Þar þyrfti að blása í lúðra svo sem þriðja hvérn tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum, sömuleiðis hafa alpahunda og fl.“ Í fundargerðinni, sem virðist rituð af Sigurði sjálfum, er rissmynd af þessu fyrirhugaða húsi. Er á miðju þaki þess turn mikill með gluggum, sem ætlazt var til að ljós logaði í, þá er dimma tæki, en upp af honum var stöng með flaggi. Þar sem Sigurður talar um „alpahunda“, á hann við að þeir gætu orðið til bjargar villtum ferðamönnum, er úti lægju í illviðrum og ekki næðu til mannabyggða.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hugmynd Sigurðar málara um veitingahúsbyggingu á Kolviðarhóli virðist þó hafa þótt ærið loftkastalakennd, eins og flest annað hjá honum á þeim tíma, og var henni víst lítill gaumur gefinn. Þegar hann lézt þrem árum síðar sá hann ekki votta fyrir framkvæmdum á þessari hugmynd sinni fremur en öðrum hugsjónum sínum, þótt margar ættu þær eftir að verða að veruleika i einhverri mynd.
Fyrsti gestgjafi að Kolviðarhóli var Ebernezer Guðmundsson frá Minna-Hofi á Rangárvöllum, en kona hans var Sesselja Ólafsdóttir frá Geldingaholti. Þau voru þar hálft annað ár, en þá tók við Ólafur Arnason frá Hlíðarendakoti, og heitkona hans Málfríður Jónsdóttir af Vatnsleysuströnd.
KolviðarhóllBjuggu þau við harðindi og fátækt og höfðu sama og engar tekjur af ferðamönnum. Frumburður þeirra fæddist að Kolviðarhóli og var skírður eftir staðnum, en andaðist fimm vikna gamall. Ólafur og Málfríður fóru til Ameríku 1886 og komust þar vel af. Næsti gestgjafi, Sigurbjörn Guðleifsson, var kunnur fyrir lækningar. Sambýliskona hans var Soffía Sveinsd. Þau bjuggu einnig við kröpp kjör að Kolviðarhóli og voru þar aðeins í eitt ár í nábýli við Jón Jónsson, sem tók við Sigurbirni, en þeir eltu grátt silfur saman. Kona Jóns var Kristin Daníelsdóttir. Guðni Þorbergsson tengdasonur þeirra og Margrét dóttir þeirra tóku síðan við, en í tíð þeirra jókst umferð mjög. Nýr akvegur var lagður á svipuðum slóðum og farið er enn í dag. Hestavagnaöldin hófst og samgöngur urðu meiri. Guðni lét reisa nýtt gistihús á Kolviðarhóli aldamótaárið.
Sá gestgjafi sem lengst sat að Kolviðarhóli og varð viðkunnastur þeirra allra var Sigurður Danlelsson 1906-1935. Valgerður Þórðardóttir hafði verið vinnukona að Kolviðarhóli um þriggja ára skeið þegar Sigurður kom þangað ókvæntur maður, og gengu þau í hjónaband ári síðar. Sigurður og kona hans voru mikið fyrirhyggju- og framtaksfólk og unnu margvíslegar framkvæmdir á staðnum.
KolviðarhóllSigurður hafði jafnan margt hesta og var fylgdarmaður og vann oft björgunarstarf í illviðrum. „Það var gömul hefð á Kolviðarhóli, að húsinu var aldrei lokað um nætur. Þar voru opnar dyr allan sólarhringinn, svo að ferðamenn, sem bæri þar að garði um nætur í vonskuveðri, gætu tafarlaust komizt í húsaskjól. Enda var það almenn venja ferðamanna, er komu þar eftir háttatíma að þeir gengu inn og kveddu þar nauðþurfta sinna. Þar var alla jafna allt til reiðu. Þar var matur og drykkur veittur, þó um hánótt væri, og þar var fylgdarmaður og hestur til taks, ef með þurfti, á hvaða tíma sólarhrings sem var, hvort heldur var austur yfir fjall eða suður yfir Svínahraun. Þetta var erilssöm og erfið þjónusta, en hún var álitin næstum sjálfsögð og ekki talin eftir. Hún var ávallt seld við vægu verði og margur var sá, er lítið gat goldið fyrir sig fyrr á árum og sumir ekki neitt. Þannig gekk starfið á Kolviðarhóli ár eftir ár, gestastraumarnir komu og fóru, en mitt í þeirri miklu mannös stóð gestgjafinn sjálfur, Sigurður Danlelsson, alltaf samur og jafn, veitti öllum fyrirgreiðslu og leysti úr vandkvæðum manna, sem gátu verið mörg. Þar komu menn af öllum stéttum þjóðfélagsins og var það stundum hnöttóttur lýður, er hafði á sér litla háttvísi né siðmenningarbrag. Þangað komu oft ölvaðir menn, er höfðu í frammi heimtufrekju og ódámshátt. Slíkum gestum sýndi Sigurður fulla einurð og mælti þá stundum til þeirra ekki með neinni silkitungu. En svo var það búið, og enginn erfði slíkt við hann, enda lá það orð á að hann ætti engan óvildarmann.“ (Úr sögu Kolviðarhóls).
KolviðarhóllSíðasta árið sem Sigurður lifði, sumarið 1935 hófst hann handa um að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður, að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf, með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var steinhella gerð. Grafhvelfingin er það há undir loftað hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir. Í grafhvelfingunni hvíla jarðneskar leifar Sigurðar Daníelssonar, Valgerðar Þórðardóttur og sonar þeirra Davíðs Sigurðssonar, járnsmíðs, sem lézt af slysförum 25 ára gamall.
Valgerður kona Sigurðar, var annáluð fyrir hjálpfýsi og margar sögur fóru af viðbrögðum hennar við veikt og hrakið ferðafólk. Hún var mikill dýravinur, og henni var ekki nóg að gera gestunum gott heldur þurftu hestar og hundar þeirra að fá sitt. Valgerður bjó í tæp þrjú ár að Kolviðarhóli eftir að hún missti mann sinn 1935.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Haustið 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól með öllum mannvirkjum. Hún lét þó ekki af störfum þar heldur veitti gistihúsinu áfram forstöðu næstu 5 ár eða til 1943. Var hún þá orðin 72 ára, hafði hana ekki grunað 40 árum áður, er hún fyrir tilviljun réðst að Kolviðarhóli, að hún ætti þar svo langan starfsdag framundan. Bjó hún síðan í þrjú ár í litlu húsi skammt frá sem Sigurður maður hennar hafði látið byggja og svo 10 ár í Hveragerði unz hún lézt í Landakotsspítala eins og maður hennar.
KolviðarhóllTignir menn og tötrum búnir hafa haft viðkomu að Kolviðarhóli og um síðustu aldamót settu förumennirnir svip á staðinn, svo sem Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjðlfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
Margar sagnir eru af minnisverðum atburðum á Hellisheiði, svo sem þegar Þuríður formaður átti þar leið um og síðar er Indriði Einarsson skáld lá þar úti, eða barnsfæðing, sem átti sér þar stað sumarið 1890 og loks eru allar draugasögurnar.
KolviðarhóllÍþróttafélag Reykjavíkur ætlaði að gera Kolviðarhól að miðstöð vetraríþrótta og eftirsóttum hvíldarstað á sumrin. Félagið átti einnig að halda uppi greiðasölu fyrir ferðamenn. Áhugamenn unnu að ýmsum framkvæmdum, byggður var pallur framan við húsið, upplýst og hituð skíðageymsla, skíðabrekkur lagfærðar og byggðir stökkpallar.
Þegar Valgerður Þórðard. fór frá Kolviðarhóli var sem brotið blað í sögu Kolviðarhóls.
Veitingamennirnir, sem komu eftir hana urðu ekki „mosavaxnir“ á staðnum. Í nóvember 1951 kemst Kolviðarhóll á síður Reykjavíkurblaðanna vegna veru varnarliðsmanna og íslenzkra stúlkna þar.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á vordögum 1952 var svo komið um stjórn og starfsemi Kolviðarhóls, að enginn fékkst til þess að vera þar, og ferðafólk virtist forðast staðinn. Var þá húsunum lokað og enginn maður hafði þar aðsetur lengur. Strax á fyrsta ári fór að bera á því að óheiðarlegir vegfarendur legðu þangað leið sína. Rúður voru brotnar í gluggum, ruplað og rænt úr stofum, og þessi saga endurtók sig æ ofan í æ. Loks var staðurinn viðurstygging og eyðileggingin uppmáluð og var svo síðustu tvo áratugina eða meir.
„Hvort Kolviðarhóll á eftir að rísa úr auðn og niðurlægingu skal engu um spáð“, segir Skúli Helgason í bók sinni 1959. „En eitt er víst: hann verður aldrei aftur það, sem hann einu sinni var. Því valda fyrst og fremst breyttir tímar og allt viðhorf þjóðlífsins.“
Kolviðarhóll
„Guð gaf okkur Hólinn til hjálpar hröktum ferðamönnum af fjallvegum, en ekki til leikaraskapar“. Þessa látlausu setningu mælti Valgerður Þórðardótur, þegar hún var flutt af Kolviðarhóli fyrir fullt og allt. Þessi orð hins síðasta fulltrúa staðarins fela í sér stærri staðreyndir en í fljótu bragði kann að virðast. Líf og starf þeirra gestgjafa, sem lengst og bezt sátu Kolviðarhól var enginn leikaraskapur.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Með þrotlausu starfi, þrautseigju og fórnfýsi unnu þeir sig upp og gerðu þannig „garðinn frægan“. Þeir gerðu jafnan fyrr kröfu til sjálfra sín en annarra. Þeir vissu það, að lífinu varð ekki lifað þar, svo yrði með sæmd á værðarsvæflum við sukk og sællífi. Þess vegna gátu þeir haldið uppi reisn staðarins svo lengi, sem þeirra naut við. En þegar þeir hurfu þaðan á braut, komu „nýir siðir með nýjum herrum.“ Tíminn er búinn að skera úr því, hvernig þau siðaskipti reyndust. Máltækið segir, að „maður komi manns í stað“, og er það að vissu leyti sannleikur. Er þar átt við það að þótt einn hverfi frá athöfn og ævielju, þá komi aðrir og taki við. En svo bezt getur það gengið, að þeir, sem eftir lifa og áfram halda, hafi manndóm til þess að halda í horfinu. Því eins og segir í Hávamálum: „Bautasteinar standa í brautu nær, nema reisi niður að níð.“
Með þeim orðum skal sögunni lokið.“ SJ tók saman.

Í Lesbók Morgunblaðsins 2001 fjallar Gísli Sigurðsson um „Kolviðarhól – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum„:

Kolviðarhóll
„Gistihúsbygging þeirra Sigurðar Daníelssonar og Valgerðar Þórðardóttur á Kolviðarhóli árið 1929 var afreksverk og húsið sjálft byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar. Umsvifin á Kolviðarhóli urðu mest í tíð Sigurðar og Valgerðar, enda bílaöld gengin í garð. Með breyttum Suðurlandsvegi varð Kolviðarhóll ekki lengur í þjóðbraut, þar var ekki lengur þörf á gististað. Hugmyndir og dug vantaði til að finna húsinu nýtt hlutverk. Skemmdarvargar unnu á því tjón, en bæjarstjórn Reykjavíkur gekk í lið með þeim og lét mola húsið mélinu smærra.
Kolviðarhóll
Fáar ljósmyndir eru til frá tímaskeiði lestaferðanna sem vonlegt er. Þó hefur ein verið tekin við Kolviðarhól 1904 og sýnir hún Hannes póst Hannesson, annálaðan ferðagarp, leggja upp í dumbungsveðri af Hólnum. Hann er með sex hesta undir koffortum og sjálfur blæs pósturinn í lúður í nafni embættisins. Á mynd sem tekin er líklega áratug síðar sést að tæknileg umskipti hafa orðið; þá er póstvagnalest á ferð suður með Reykjafellinu; póstvagnarnir með háu þaki og sýnilegt að þeir hafa getað tekið farþega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Þægindin eru komin til sögunnar, bílaöldin rétt handan við hornið. Þriðja myndin sem varðveizt hefur er tekin á Kolviðarhólshlaði í tíð Guðna og Margrétar um aldamótin 1900. Þetta hefur verið snemma vors og enn mikill snjór norður í Skarðsmýrarfjalli… Ferðamenn hafa brugðið sér inn til að fá sér hressingu og hefur ekki þótt taka því að spenna frá vagnhesta eða taka ofan koffort af baggahestum. Á myndinni sem birtist í síðustu Lesbók er fortíðin að syngja sitt síðasta og millistigið, hestvagninn, er kominn til sögu; fyrsti bíllinn þó ókominn til landsins. Enn er til ljósmynd, tekin tveimur áratugum síðar. Þá hafði verið ekið upp að Kolviðarhóli á virðulegri, svartri drossíu eins og þessi farartæki voru gjarnan kölluð þá. Hún er með bílnúmerið RE 85 og bílstjórinn er Vígmundur Pálsson úr Mosfellssveit. Bíllinn var orðinn þarfasti þjónninn.

Teningunum kastað og örlög ákveðin

Kolviðarhóll

Landpóstur á ferð með lúður sinn.

Gestgjafarnir á Hólnum, Sigurður Daníelsson frá Herríðarhóli og Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti, voru í rauninni fulltrúar nýrrar aldar og gerbreyttra samgangna sem gerðu hvorttveggja, að umferðin að Kolviðarhóli margfaldaðist, en kipptu líka fótum undan þessum rekstri með tímanum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Menn urðu fljótir í förum og sífellt færri þurftu á gistingu að halda. Óhætt er að segja að Sigurður og Valgerður á Kolviðarhóli hafi orðið þjóðkunnar persónur, enda bæði afburðafólk fyrir áræði og dugnað. Þau voru gestgjafar á Kolviðarhóli frá 1906 til 1935 og Valgerður var þar lengur, eða til 1943.
Sigurður Daníelsson var Holtamaður að uppruna, kominn af Torfa sýslumanni í Klofa á Landi. Hálfbróðir hans var Daníel bóndi í Guttormshaga, faðir Guðmundar rithöfundar. Sigurður þótti bráðþroska ungur maður og var fljótt talinn óvenjulegt mannsefni, hjálpsamur og ljúfur og ávann sér alls staðar traust.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Eftir 1902 er Sigurður skráður í Reykjavík og stundar þá ýmsa vinnu til sjós og lands; þar á meðal voru fjárkaupaferðir fyrir ýmsa kaupmenn á haustin. Mikilvægasti vendipunkturinn í lífi hans var hinsvegar þegar hann réðst í að kaupa Kolviðarhól, þá 37 ára og ókvæntur. Um þriggja ára skeið hafði Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti í Stokkseyrarhreppi verið vinnukona hjá Guðna og Margréti á Hólnum. Hún var öllum hnútum kunnug í rekstrinum og Sigurði þótti fengur í að fá hana sem ráðskonu. Raunar voru þau orðin hjón eftir fyrsta árið. Hjónaband þeirra varð barnlaust, en áður hafði Sigurður eignast soninn Davíð.
Kolviðarhóll
Sigurður Daníelsson þótti „réttur maður á réttum stað“ á Kolviðarhóli, öflugur arftaki þeirra Jóns Jónssonar og Guðna Þorbergssonar. Í þau 30 ár sem hann var gestgjafi á Hólnum gerði hann stórfelldar umbætur í ræktun og byggingum; menn kölluðu það þrekvirki.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hann varð meðal hinna allra fyrstu meðal bænda til að fá þúfnabana til að slétta og brjóta land og jók svo túnrækt á Kolviðarhóli að töðufengur margfaldaðist og fór yfir 400 hestburði um það er lauk. Á síðasta áratugnum sem hann lifði lét hann vinna á fjórða þúsund dagsverk að túnrækt og fénaðarhúsbyggingum og gat þá losað sig við jörð austur í Ölfusi sem hann hafði nýtt til heyskapar.
Sigurður Daníelsson var meðalmaður á hæð en þrekinn. Hann var svipsterkur maður, hærður vel með dökkar og miklar augabrúnir og yfirskegg. Á yngri árum var hann með glóbjart hár. Aldrei kvartaði hann þótt móti blési, æðraðist ekki yfir því sem orðið var, áreiðanlegur í viðskiptum, reglusamur og gerði vel við sitt fólk, höfðingi í lund.
KolviðarhóllValgerður Þórðardóttir var ekki síður framúrskarandi og þótti bera af ungum stúlkum í sinni sveit. Ung fór hún að heiman til vinnumennsku á Háeyri og á Stokkseyri. Þar kynntist hún ungum manni frá Ísafirði og átti með honum tvær dætur. En sambúð þeirra varð ekki til framtíðar. Maðurinn flutti til Noregs og Valgerður átti ekki annarra kosta völ en að koma dætrum sínum í fóstur. Ætlun hennar var að fara í atvinnuleit til Austfjarða og ásamt vinkonu sinni lagði hún af stað fótgangandi til Reykjavíkur. Veður var vont og þung færð á leiðinni yfir heiðina. Þær stöllur náðu samt að Kolviðarhóli og gistu þar. Matreiðslukona sem verið hafði í vinnu hjá Guðna og Margréti var þá á förum og Guðna leizt strax vel á þessa kraftmiklu, ungu konu úr Flóanum og falaði hana umsvifalaust. En Valgerður setti þá upp mun hærra kaup en þekktist og Guðni kvaðst ekki geta gengið að því. „Gott og vel, þá er því sleppt,“ svaraði Valgerður og bjóst til brottferðar með vinkonu sinni. En ekki voru þær komnar lengra en niður af hólnum þegar Guðni kom hlaupandi og vildi ganga að kröfum Valgerðar. Hún sneri við; teningunum hafði verið kastað, örlög ráðin. Upp frá því var hún kennd við Kolviðarhól. Í fjögur ár var Valgerður í þjónustu Guðna og Margrétar og svo tók hún við gestgjafahlutverkinu sem eiginkona Sigurðar Daníelssonar eins og áður var sagt.

Kolviðarhóll

Saga Kolviðarhóls.

Í Kolviðarhólssögu sinni segir Skúli Helgason, að aldrei verði hægt að lýsa ævistarfi Valgerðar á Kolviðarhóli svo að glögg mynd fáist af því: „Allar frásagnir verða eins og veikt bergmál af því sem hún var. Henni er svo lýst, að skapgerðin var sterk, viljaþrekið óbilandi, framkoman uppörvandi og hressileg, hjálpfýsin með afbrigðum og velviljinn einstæður, hver sem í hlut átti. Hún krafðist mikils af starfsfólki sínu og þoldi illa sérhlífni. En hjúum sínum reyndist hún ævinlega hin ágætasta húsmóðir.“ Björgunarstörf Sigurðar fólust í að koma örmagna mönnum inn úr dyrum á Kolviðarhóli. Þar tók Valgerður við þeim, dró af þeim vosklæði, háttaði þá ofan í rúm og hjúkraði þeim eins og með þurfti. Þegar þeir fóru að skjálfa kvaðst hún hafa hætt að óttast um líf þeirra.

Stórvirki á Kolviðarhóli

 

Árið 1929 réðst Sigurður Daníelsson í að byggja 140 fermetra steinhús, kjallara hæð og ris. Megineinkenni hússins voru þrjár svipmiklar burstir. Þetta hús reis tignarlega á Hólnum, byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem var einmitt á þessu tímaskeiði að gera athyglisverðar tilraunir til að endurvekja burstabæjarstílinn með nýju byggingarefni, steinsteypunni. Laugarvatnsskólinn er til dæmis frá sama tíma.
Kolviðarhóll
Margir hafa tekið eftir því að burstir fara vel undir fjallshlíðum og sannaðist það bæði á Laugarvatni og Kolviðarhóli. Þetta svipmót fær líka aukinn styrk sé húsið hátt. Sérkennilegt var, að miðburstin var mjórri en hinar og ögn lægri og í öðru lagi það, að kvistur gekk í gegnum burstirnar þrjár. Þá lausn notaði Guðjón ekki annarsstaðar.
Nú varð heldur betur staðarlegt heim að líta á Hólinn; „skýjaborgir“ Sigurðar málara orðnar að veruleika og gott betur. Í húsinu voru 20 vistarverur, 6 herbergi í kjallara, önnur 6 herbergi og 2 stofur á hæðinni og 8 herbergi undir súð í burstunum. Húsið var allt steinsteypt, miðstöðvarhitun frá kolakatli í kjallara og raflýsing frá stórri ljósavél. Byggingarkostnaðurinn nam 70 þúsundum sem var stórfé á árunum 1929–30. Úr ríkissjóði fékkst 12 þúsund króna styrkur; hitt kostuðu þau Sigurður og Valgerður sjálf.

Ekki allar ferðir til fjár

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Hér var gengið fram af miklu áræði og ekki vissu menn þá að heimskreppan mikla var framundan. Nú var sú aðstaða fengin sem lengi hafði verið nauðsynleg og þau hjón urðu þekkt sem afburða gestgjafar. En ekki voru allar ferðir til fjár og enn sem fyrr var Kolviðarhóll björgunarstöð við alfaraleið í óbyggðum. Fyrir mikla og óhemju erfiða vinnu við hjálparstarf og björgun mannslífa var einskis krafizt.
Þó að vegum sé nú haldið opnum með snjómokstri þekkja margir þann ótrúlega mun sem orðið getur á veðri í Reykjavík og uppi í Svínahrauni. Hæðarmunurinn er þó ekki ærinn. Fyrsti vegurinn upp eftir Svínahrauni var lítið sem ekki neitt upphlaðinn og hann varð ófær í fyrstu snjóum.

Símastaurar

Símastaurar við fjallveg.

Árið 1907 var sími lagður austur yfir Hellisheiði og sími kom þá að Kolviðarhóli. Eftir það varð föst venja Sigurðar að nota símann til að fylgjast með mannaferðum ef illa leit út með veður og færð. Þá hafði hann annarsvegar samband við Lögberg, efsta byggða ból ofan Reykjavíkur og hinsvegar við Kotströnd í Ölfusi. Þegar Sigurður frétti að einhver hefði lagt af stað í tvísýnu veðri og skilaði sér ekki á eðlilegum tíma, fór hann óbeðinn af stað til leitar og aðstoðar þó ekki sæist út úr augum, ýmist einn eða með einhvern með sér. Aftur og aftur kom hann að mönnum sem voru búnir að gefa allt frá sér og lagstir fyrir. Alltaf tókst Sigurði að bjarga þeim. Á verstu snjóavetrunum kom fyrir að hann færi tvær eða þrjár björgunarferðir sama daginn, ýmist upp á Hellisheiði eða fram í Svínahraun Þegar heilsu Sigurðar fór að hraka 1935 lét hann það verða sína síðustu framkvæmd á Kolviðarhóli að útbúa heimagrafreit með steinsteyptu grafhýsi. Þarna vildi hann bera beinin og nú er þetta grafhýsi eina mannvirkið sem uppi stendur á staðnum fyrir utan nokkra grjótgarða. Krabbamein í hálsi dró Sigurð til dauða. Hann var þá 67 ára og fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar.

Frægir menn og flakkarar

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson gat kvartað yfir verðskránni á Kolviðarhóli.

Förumenn, eða flakkarar eins og þeir voru nefndir, áttu vísan næturstað á Kolviðarhóli og ekki gátu þeir borgað fyrir sig. Einn þeirra, sem margoft hafði gist á Hólnum og þegið matarbita, kom þangað aldraður og þrotinn að kröftum með þá ósk eina að hann mætti fá að deyja hjá Valgerði. Honum varð að ósk sinni. „Ég saknaði þessara manna þegar þeir hættu að koma,“ sagði Valgerður, „þó að mér væri alltaf illa við sóðaskapinn sem þeim fylgdi.“ Meðal förumanna sem oft komu að Kolviðarhóli voru Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjólfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.

En þjóðskáld, stjórnmálamenn og frægir erlendir ferðamenn gistu líka á Kolviðarhóli. Á gestalistanum eru ýmis þjóðkunn nöfn: Sigurður Breiðfjörð skáld, Þuríður formaður og séra Matthías Jochumsson.

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hann segir frá því í ævisögu sinni, að hann gisti á Hólnum 1884 á austurleið. Ófærð var og hríðarveður og 40 ferðamenn höfðu þá verið hýstir á Hólnum. Þeim gaf séra Matthías öllum staup af brennivíni og síðan gengu menn til náða.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra kom oft á Hólinn og gisti þar tvívegis. Í eitt skiptið var hann á ferð þeirra erinda að vígja Sogsbrúna. Þótti heppilegt að skipta þeirri löngu leið austur að Sogi í tvo áfanga og gista á Kolviðarhóli. Annað skáld, Einar Benediktsson, gisti þar ásamt konu sinni þegar hann var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Það var ólíkt Einari sem að jafnaði jós út fé, að hann kvartaði yfir háu verði á gistingunni. Gott hjá Guðna, að hann bauðst þá til að gefa honum gistinguna eins og flökkurunum, en ekki þáði skáldið það. Eitt skáldið enn, Grímur Thomsen, hafði sérstaklega stutt húsbygginguna á Hólnum 1877 og gisti þar löngu síðar og bað um tvennt: Þrjú staup af brennivíni og að hestur hans yrði látinn í hús og breitt yfir hann. Grímur átti þá fá ár eftir.
Daniel Bruun.Íslandsvinurinn Williard Fiske gisti á Kolviðarhóli 1879 ásamt séra Matthíasi. Daniel Bruun gisti þar oft og baróninn á Hvítarvöllum hafði þar viðkomu þegar hann fór til að athuga ölkelduvatn í Hengli, sem hann hugðist nýta. Áður var minnst á Friðrik kóng VIII sem kom að Kolviðarhóli í Íslandsförinni 1907.
Hnignun og fall á Kolviðarhóli Eftir lát Sigurðar bjó Valgerður áfram á Kolviðarhóli til ársins 1938 og sinnti gestgjafahlutverki. En 10. apríl 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól ásamt öllum mannvirkjum. Þá var sá skilningur ríkjandi að ÍR ætti að annast áfram greiðasölu og gistingu og Valgerður var ráðin næstu 5 árin til að veita gistihúsinu forstöðu.
Í fardögum 1943 lét hún starf sitt laust, þá orðin 72 ára. Á þriðja ár bjó hún áfram í litlu timburhúsi sem Sigurður hafði byggt norður á völlunum. Þar bjó öldruð kona með henni sem lengi hafði starfað á Hólnum og saman hugsuðu þær um nokkrar kindur og hænsni. Þær fóru alfarnar 1946 og settust að í Hveragerði. Þar bjó Valgerður til dauðadags 13. júní 1946, þá orðin 86 ára. Þá var aðeins eftir síðasta ferðin á Hólinn þar sem kistu hennar var komið fyrir í grafhýsinu.

KolviðarhóllHjá Íþróttafélagi Reykjavíkur voru uppi stór áform um að Kolviðarhóll skyldi verða miðstöð vetraríþrótta. Breyta átti húsinu svo það rúmaði a.m.k. 100 næturgesti. Í sjálfboðavinnu átti að fegra staðinn, planta trjám, hreinsa skíðabrekkur, hlaða stökkpall og undirbúa gott skautasvell á vetrum. Á sumrin átti Kolviðarhóll að vera hvíldar- og skemmtistaður fyrir Reykvíkinga.
Í Alþýðublaðinu sagði svo 1. september 1938: „25 piltar við vinnu og vinnunám á Kolviðarhóli. Miklar framkvæmdir á hinum nýja skíðastað Reykvíkinga. Unglingavinna byrjar að líkindum uppúr næstu mánaðamótum.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – skíðasvæði.

Piltarnir unnu m.a. að því að byggja pall á hlaðinu. „Hefur verið gerð mikil og rammleg upphækkun fyrir framan húsið og hefur það verið mikið verk og vandasamt. Grjót hafa piltarnir sprengt upp í hrauninu og flutt það á bíl þaðan. Þá vinna þeir að gerð skíðastökkbrautar við Búastein þar sem skilyrði eru sögð mjög góð fyrir stökkpall.“
Skemmst er frá því að segja að pallurinn sem gerður var við húsið sumarið 1938 var það eina af þessu sem komst í framkvæmd. Hlaðinn kantur hans að framanverðu er nánast það eina sem ekki var eyðilagt og sést enn. Trjárækt varð aldrei að veruleika; ekki skautasvellið heldur. Talsverð vinna var lögð í lagfæringar á skíðabrekkum og sumarið 1945 lagði ÍR nýja vatnsveitu heim í hús og byggði skíðageymslu. Um 30 manns unnu að þessu í sjálfboðavinnu.

Kolviðarhóll 1910

Kolviðarhóll 1910.

ftir að Valgerður hætti umsjón með veitingarekstri gekk á ýmsu og alls komu níu menn að rekstrinum á tímabili sem lauk 1948, þegar Kolviðarhóll var leigður Rauða krossi Íslands fyrir barnaheimili. Það stóð í ár og eftir það var ekki um neinn samfelldan rekstur að ræða. Síðastur til þess að bjóða gestum veitingar á Kolviðarhóli varð Guðni Erlendsson sem einnig rak veitingaskála við Gullfoss.
Pólitískur hanaslagur varð til þess að flýta fyrir endalokunum á Kolviðarhóli. Hann varð með þeim hætti að dagblöð í Reykjavík, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn, birtu æsifréttir um að bandarískir hermenn hefðu sést með íslenzkum stúlkum á Kolviðarhóli. Þær áttu að hafa verið drukknar. Einkanlega var það Þjóðviljinn sem gerði sér mat úr þessu og var þar talað um Kolviðarhólshúsið sem aðstöðu fyrir „telpnaveiðar hernámsins“. Formaður ÍR lofaði að láta stöðva meintan ósóma, en Morgunblaðið taldi að þessi umræða væri byggð á ýkjum.
Kolviðarhóll
Vorið 1952 var hún Snorrabúð sannarlega orðin stekkur; enginn fékkst þá til að vera á staðnum og um líkt leyti fór að bera á því að skemmdarvargar og bullur legðu leið sína á Hólinn til þess eins að skemma húsið. Rúður voru brotnar, hurðir sprengdar upp og húsbúnaði, sem þar hafði orðið eftir, var stolið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Árin liðu og á síðari hluta sjötta áratugarins leit hin glæsta burstabygging Sigurðar og Valgerðar á Kolviðarhóli út eins og þau hús sem orðið hafa fyrir árásum í stríði. Búið að brjóta allar rúður, jafnvel karmana með og hnullungar lágu um öll gólf, svo stórir að fíleflda karlmenn hefur þurft til að kasta þeim inn af þvílíku afli að þeir moluðu bæði rúður og gluggapósta. Allur húsbúnaður var sömuleiðis í méli og með mikilli fyrirhöfn höfðu miðstöðvarofnar jafnvel verið slitnir frá. Umhverfis húsið var allt í braki, útihúsin fallin og túnið í órækt.
Kolviðarhóll
æjarráð Reykjavíkur samþykkir að brjóta húsið niður Hjá öllu þessu hefði mátt komast með því einu að ráða húsvörð og halda húsinu við. Það hefði kostað einhverjar krónur en við ættum í staðinn hús sem væri byggingarsögulegt verðmæti og því hefði verið fundið nýtt hlutverk við hæfi.. Þar hefði til að mynda getað orðið miðstöð gönguferða um Hengilssvæðið eða safn um samgöngur og flutningatækni fyrr á tímum. Ekkert slíkt safn er til. Þeir tímar þegar ekkert var hægt að flytja nema lyfta því á klakk, svo og hestvagnaöldin, eru ungu fólki jafnfjarlægir og söguöldin og samt er ekki lengra síðan en svo að reiðingar og hestvagnar tilheyrðu daglegum veruleika þegar elzta kynslóðin í landinu var ung. Jafnvel þótt skemmdarvargar brytu allt á Kolviðarhóli sem brotnað gat og fátt væri óskemmt innanstokks, þá stóð þetta sögulega hús eftir sem áður. Það var ekki fyrir neinum.
Einhverntíma hefði komið að því að framsýnir menn tækju til hendinni og þá hefði húsið gengið í endurnýjun lífdaganna. En því miður réð sú skammsýni ferðinni sem telur fara bezt á því að brjóta allt niður sem er gamalt og slétta yfir öll gengin spor.
Kolviðarhóll
Tímanum 22. janúar 1960 segir svo í fyrirsögn: „Aldargamall gististaður lagður undir fallhamar.“ Og í frétt blaðsins er m.a. eftirfarandi: „Sl. þriðjudag kl. 16 gerði bæjarráð Reykjavíkurbæjar samþykkt um að fela bæjarverkfræðingi að fjarlægja húsin að Kolviðarhóli. Þá er lokið langri og litríkri sögu. Þegar starfsmenn bæjarverkfræðings hafa brotið þar gömlu húsin sem eftir standa, mun þögnin geyma Kolviðarhól.
Íþróttafélag Reykjavíkur hafði selt Reykjavíkurbæ húsin á Kolviðarhóli og höfðu áhugasamir menn gert tilraun til endurbóta; skipt um glugga og ýmislegt fleira.“
En það var ekki fyrr en 12. júlí 1977 að menn á vegum bæjarverkfræðingsins komu að Kolviðarhóli með járnkúlu til að mola steinveggina.. Ekki hafa allir verið sannfærðir um réttmæti þess, því málið var borið undir Þór Magnússon þjóðminjavörð, en hann beitti sér að minnsta kosti ekki gegn eyðingunni. Tíminn er eina blaðið sem ýjar að því að þetta sé vafasamur verknaður og segir í fréttinni um niðurbrotið 14. júlí 1977: „Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er í.“
Í Morgunblaðinu er smáfrétt 28. júlí 1977 með ljósmynd sem Ragnar Axelsson hefur tekið og sýnir hún þegar verið er að skófla því síðasta af steinhúsinu upp á vörubíl.
Síðan hefur þögnin ríkt á Kolviðarhóli – og skömmin.“

Í Óðni  1923 er fjallað um „Ebenesar Guðmundsson, gullsmið„, en hann réði húsum á Kolviðarhóli fyrstur ábúenda:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010. Horft frá Hellisskarði.

Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frumbýliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkurinn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur, erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sumpart sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin tafði húsbóndan frá handverkinu.
Loks þreyttist Ebeneser á öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags; hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921. Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta myntust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega Jóns landæknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum ölkelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði allmikið.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1972 er „100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll

Valgerður Þórðardóttir.

„Valgerður fœddist 30. jún i 1871 að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hennar voru Þórður bóndi Þorvarðsson frá Brattsholti í Flóa og kona hans Guðríður Jónsdóttir, komin af Bergsætt.
Átján ára fór hún í vist til Jóns ríka í Móhúsum á Stokkseyri og var þar um skeið ásamt nokkurri dvöl heima í Traðarholti.
Það var vorið 1902, að hún ætlaði sér að breyta um störf og þá fór hún að heiman. Leiðin lá um Kolviðarhól, sem var gististaður. Gestgjafinn naut þá lítillega fjárhagsstuðnings frá sýslumanni. Það var áskilið að þar væri höfð stúlka, er kynni til matreiðslustarfa.
Guðni Þorbergsson og kona hans Margrét bjuggu þar, er Valgerður og önnur stúlka með henni gistu þar umrætt vor. Guðni hafði haft spurnir af Valgerði og verið bent á að hún hentað í vel í starf þetta. Hann falaði hana því til þjónustu, en hún setti upp óvenju hátt kaup á þeirra tíma mælikvarða. Fór svo, að Guðni veigraði sér við að ganga að kröfu hennar. Lagði Valgerður þá úr hlaði. Ekki var hún langt komin, er gestgjafinn kallaði á eftir henni til frekara viðtals. Sagðist hann ganga að skílmálum hennar og sneri hún þá aftur heim með honum.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Margrét og Guðni.

Urðu þau Guðni og Margrét, ásamt börnum þeirra, tryggir vinir Valgerðar alla tíð. Það má með sanni segja að þessi næturgisting varð afdrifarík, því Valgerður átti heima á Kolviðarhóli í nærri hálfa öld, og þar varð hennar lífsstarf.
Nafn hennar er þekkt um land allt. Þessari sérstöku ágætiskonu hefur verið þakkað af almenningi og hinu opinbera. Hennar óvenjulega erfiða starf krafðist mikilla hygginda og framsýni til þess að geta rækt það grundvallaratriði að hlúa að öðrum. Hún sagði: „Guð gaf okkur „Hólinn“ (svo var Kolviðarhóll oft nefndur) til þess að hlúa að hröktum og þreyttum ferðamönnum, en ekki til leikaraskapar.“ Sýna þessi orð að hún hefur tekið starf sitt alvarlega og skilið tilgang veru sinnar í þessum fjallasal, sem svo sannarlega gaf ekki mikinn tíma til frjálsræðis. Geysilega vandasamt verk hvíldi á henni, þegar á það er litið, að hún var í þessari stöðu til sjötíu og tveggja ára aldurs, og mörg ár með fullri reisn eftir að hún missti mann sinn. Til gamans má geta þess, að árið sem Valgerður fæddist var haldinn fundur í Reykjavík um þá nauðsyn að veitingahús væri rekið á Kolviðarhóli. Sigurður Guðmundsson málari bar þá hugmynd fram á fundi 26. janúar 1871 í „Leynifélaginu“ svokallaða.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson, málari.

Árið 1905 seldi Guðni Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum. Þann 16. apríl 1906 giftust þau Sigurður og Valgerður og hófu þar búskap sama vor, og bjuggu þar til ársins 1935, er Sigurður lézt. Hann var mesti myndar- og ágætismaður og góður gestgjafi.
Varla verður annars þeirra hjóna minnzt án þess að hins sé getið, því að svo var starf þeirra samofið. Sigurður var framkvæmdasamur dugnaðarmaður. Hann byrjaði á því að rækta þar jörðina, sem var mjög erfitt og dýrt, vegna þess hversu hátt hún liggur yfir sjávarmáli, 200 m. Árið 1929 var húsið á Kolviðarhóli byggt og stendur enn. Það var stórt og vandað þriggja hæða hús með miðstöðvarhitun og rafmagni frá olíukyntri ljósavél, sem sérstakt hús var byggt yfir. Vatnsleiðsla var lögð, svo rennandi vatn var þar. Áður var vatni dælt úr brunni með dælu, en síðar með vatnshrút frá uppistöðu. Var þetta mikil hagræðing frá því, er vatni var ekið heim á vagni í tunnum, og þó var erfitt að ná því. Sigurður byggði líka votheysgryfjur með allra fyrstu bændum; var að þeim nokkurt öryggi. Ekki veitti af, fjallaskúrir komu skyndilega og gegnvættu nærri þurrt hey. Um langan veg þurfti að fara til þess, að afla heyfanga; alla leið austur í Ölfus. Þar átti Sigurður jörð, sem nýtt var til slægna.“

Í Vísi 1977 er sagt frá „Veislunni á Kolviðarhól“:

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

„Halldór Laxness segir á einum stað um Kolviðarhól: Þar ætti að vera viðboð handa prestum/mikið voðalega er skemmtilegt á Hólnum. Og satt er það, að Kolviðarhóll er kunnur aö skemmtilegheitum. Um mitt sumar árið 1907 kom Friðrik konungur áttundi í heimsókn hingað, og meðal annarra ágætra verka gaf hann út á fyrsta degi heimsóknarinnar konunglega tilskipun, þar sem sagði að samkvæmt óskum forsætisráðherra beggja landanna „höfum vér með allra hæstum úrskurði, dagsettum í dag (þ.e. 30. júlí), skipað nefnd alþingismanna“ og ríkisdagsmanna til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs.“ Að líkindum mun Friðrik áttunda varla hafa órað fyrir því að sú sambandslaganefnd, sem hann var að stofna til, yrði upphafið að lokasprettinum í sjálfstæðismálum Íslendinga. Hins vegar hafði konungur þær artir til landsins, að hann hefði eflaust látið kyrran liggja slíkan grun.
En viðbrögð við frægri ræðu, sem konungur flutti, kominn austan frá Gullfossi og Geysi, benda eindregið til þess að hið danska fylgdarlið hafi um margt talið að einungis væri verið að sinna daglegu nuddi um sífeldar athuganir á réttarstöðu landsins innan veldis Danakonungs.

FriðrikSamtímaheimildir skýra frá því að konungur hafi fengið gott veður í austurreisunni, heiðan himinn og sólskin frá morgni til kvölds. Og ekki skemmdi að töluvert var af kampavíni með í förinni. Svo fóru leikar, þegar komið var að Kolviðarhóli undir kvöld, áður en lagt var upp í síðasta áfangann til Reykjavíkur að Friðrik konungur flutti stutta tölu yfir nærstöddum, hrifinn eftir velheppnaða ferð, hýr af freyðandi veigum, og þess fullviss að allir konungar og keisarar Evrópu mundu öfunda sig af þeirri för, sem var að ljúka.
Í hinni stuttu ræðu talaði hann um ríkin tvö, þ.e. Ísland og Danmörku. Lengi hefur verið deilt um það, hvort konungi hafi orðið á mismæli, eða hvort hann var með vilja að ýta bæði við Íslendingum og Dönum með því að tala um hin tvö ríki. Of seint er að spyrja Friðrik, en eftir þessa ræðu óx Íslendingum ásmegin, enda liðu ekki nema ellefu ár þangað til þessi hugsun Danakonungs var orðin að veruleika með sambandslögunum. En þetta orðalag konungs var merkilegt að öðru leyti, og má Kolviðarhóll vel njóta þess, það benti viðstöddum á, að utanríkismál, eða öllu heldur milliríkjamál, eru flókin og vandasöm og þeirra verður varla gætt sem skyldi yfir glösum af freyðivíni á sólskinsstund. Orðræðan um ríkin tvö var því nokkur kennslustund jafnframt því að vera fagnaðarefni þeim, sem lengi höfðu beðið eftir skilningi á þörfum og vilja eyþjóðarinnar.“

Í Vísi 1976 er sagt að „Húsið á Kolviðarhóli [sé] nær ónýtt vegna vanhirðu og skemmdarverka“. „Ætti að brjóta húsið niður“, segir borgarverkfræðingur.

Kolviðarhóll
„Þeir sem lagt hafa leið sina upp að Kolviðarhóli hin síðustu misseri hafa varla komist hjá að taka eftir því hve hroðalega illa útleikið hið stóra og fyrrum glæsilega húsa þar er. Í öllu húsinu er ekki ein einasta heil rúða, allar hurðir hafa verið rifnar af hjörum, ofnar, kranar, vaskar og annað þess háttar liggur ýmist brotið um öll gólf, eða þá að því hefur verið stolið. Fyrir nokkrum mánuðum kviknaði í efstu hæðinni í austurhluta hússins, og hefur engin viðgerð farið fram ennþá.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Saga Kolviðarhóls er bæði löng og merkileg, og þar var um áratuga skeið rekin veitingasala og gistihús. Er ekki að efa að margur ferðalangurinn hafi rennt hlýjum og þakklátum augum heim að Kolviðarhóli í frosti og kafaldsbyl á ferðum sínum milli þéttbýlisins við Faxaflóa og sveitanna austur í Árnessýslu. Þó Hellisheiði þyki nú ekki erfið yfirferðar né hættuleg ferðamönnum, þá hafa sennilega fleiri orðið þar úti en á nokkrum öðrum fjallvegi á Íslandi. Stafar það trúlega bæði af því hve umferð um hana hefur jafnan verið mikil, og ekki síður vegna þess hve leiðin er stutt. Þá ber allt húsið þess merki, að sauðfé getur gengið þar um að vild sinni, því sum gólfin eru verr útlítandi en mörg fjárhús sem ekki hefur verið stungið út úr lengi.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Þannig er í stuttu máli útlits í þessu stóra húsi, sem eitt sinn var ein glæsilegasta bygging í allri Árnessýslu, og þó víðar væri leitað.
Jörðin Kolviðarholl hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar í nokkur ár, en jörðin er í Ölfushreppi í Árnessýslu. Hjón úr Reykjavík bjuggu þar með börnum sínum fyrir örfáum árum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

Áður en hús var reist á Kolviðarhóli var um langan aldur sæluhús þar skammt frá, við svonefndan Húsmúla, sem dregur nafn af sæluhúsinu sem þar stóð undir múlanum. Eru til heimildir um hús þar allt frá árinu 1703, og vafalaust hefur sæluhús verið löngu áður þó ekki finnist um það skriflegar heimildir.
Fljótlega mun það þó hafa þótt ófullnægjandi að hafa sæluhúsið undir Húsmúlanum, og því var það að menn úr Reykjavik og Ölfusi tóku sig saman um að byggja sæluhús á Kolviðarhóli við, Hellisskarð. Var fyrsta sæluhús á þeim stað reist árið 1844.
KolviðarhóllStarfræksla gistihúss á Kolviðarhóli hófst síðan árið 1878, og var frá þeim tíma rekið þar gistihús og greiðasala með stuttum hléum allt fram til ársins 1952, en síðustu árin var gistihúsið og greiðasalan rekin af Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR).
Sögu Kolviðarhóls verða gerð nánari skil hér í blaðinu á næstunni, en vert er að hafa það í huga er menn leggja leið sina að Kolviðarhóli að þar var eitt sinn rekið glæsilegt gistihús, og staðurinn er þess alls ómaklegur að hann verði látinn grotna niður eins og nú er að gerast. Betur hefði þá farið að húsið brynni niður á einni nóttu, og hyrfi þar með niðurlægingarlaust af sjónarsviðinu. Það væri vissulega verðugt verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Ölfushrepp og Árnesingafélagið að stuðla að því í sameiningu að reisa staðinn til fornrar virðingar að nýju.
Eins og er eru þó ekki miklar líkur á að svo verði, því samkvæmt upplýsingum borgarverkfræðings í gær eru ekki uppi neinar áætlanir um að gera við húsið, enda sé það í lakara ástandi en fokhelt hús. „Ef ég mætti ráða myndi ég láta kúluna á húsið og brjóta það niður“, sagði borgarverkfræðingur.“ -AH

Í Tímanum  segir; „Rifið niður á Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll
„Þriðjudag sl. var hafizt handa um að brjóta niður gamla gistihúsið á Kolviðarhóli, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki er liðinn nema rétt rúmur áratugur síðan húsið var lagfært mjög, skipt um glugga í því og ýmislegt fleira. Voru þar á ferðinni áhugasamir menn um framtíð staðarins og er nú verk þeirra að engu að verða. Spellvirkjar ýmsir hafa að vísu lagt gjörva hönd á niðurrif hússins, brotið allar rúður og hurðir og jafnvel kveikt í húsinu. Er þetta starf þeirra nú fullkomnað og verið að rifa niður húsið. Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er af. Kolviðarhóll er sögufrægur staður og lá þar gamla þjóðleiðin um Hellisskarð fram til þess að akvegur var lagður yfir Hellisheiði. Leiðin frá Lögbergi að Kolviðarhóli, eða austan úr Ölfusi var hér áður drjúgur spotti, sem menn nú aka á rúmum stundarfjórðungi.
Þegar hin „græna bylting“ hefur lokið sínu verki, mun heimagrafreitur síðustu gestgjafanna á Kolviðarhóli, Valgerðar Þórðardóttur og Sigurðar Danlelssonar, verða einu minjarnar á þessum sögufræga stað.“

Sjá meira um Kolviðarhól HÉR.

Heimildir:
-Tíminn, 158. tbl. 24.07.1977, Kolviðarhóll 1877-1977, fyrsti gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…, bls. 2-3.
-Lesbók Morgunblaðsins 07.04.2001, Kolviðarhóll – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum, – Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.
-Óðinn, 7.-12. tbl. 01.07.1923, Ebenesar Guðmundsson, gullsmiður, bls. 56-57.
-Lesbók Morgunblaðsins, 16. tbl. 30.04.1972, 100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli, bls. 8-9 og 16.
-Vísir, 5. tbl. 07.01.1977, Veislan á Kolviðarhól, bls. 10-11.
-Tíminn, 149. tbl. 14.07.1977, Rifið niður á Kolviðarhóli, bls. 1.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 28. júlí 1977.

Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um „Sögu Kolviðarhóls„:

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.“

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Ölfusvegir

Ætlunin var að rekja gamla þjóðleið frá mótum Ölfusár (ferjustað við Hraun) yfir Hraunsheiði og áfram áleiðis að Litlalandi þar sem hún tengist Ólafsskarðsvegi. Að öllum líkindum tengist hún þjóðsögunni um Draugshelli, sem var áningarstaður ferðamanna á þessari leið fyrr á öldum, auk þess sem hún kemur við sögu lykla bryta í Skálholti.

Draugshellir

Draugshellir – opið.

Gatan er ekki merkt inn á kort. En þrátt fyrir sandfok á heiðinni mun gatan enn augljós, ef vel er að gáð.

Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. „Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri.

olfusvegir-2

Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.
Olfusvegir-3Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“ 

Olfusvegir-4

Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“. „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.“
Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-

Olfusvegir-5

Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal, Ólafsskarðveg, og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Mælifellssand syðri. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Olfusvegir-7Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Fleiri sagnir eru af tilurð nafngiftar Lyklafells. Hér verður nefnd ein til viðbótar. Sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat.
Olfusvegir-8

Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.

Olfusvegir-9

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um þetta svæði: „Norðvestur frá Stekkatúni er varða sem heitir Beinteinsvarða. Stendur hún við götuna þar sem skiptast leiðir, upp á eystri Hlíðarbæina, og syðri gatan, á ytri Hlíðarbæi. Á klöppina sem Beinteinsvarða stendur á er klappað M. Norðaustur frá Beinteinsvörðu er hólaþyrping sem heitir Miðþúfur, eða í eintölu Miðþúfa. Fyrir framan Sandamót er áberandi varða suðvestur frá bænum, hún heitir Nónvarða.“
Örnefnalýsing fyrir Litlaland: „Niðri á Sandi, niður undir Leirum, er varða í mörkum Litlalands, Breiðabólsstaðar og Þorlákshafnar. Hún heitir Varða í Hálfförum. Um 50 m austan við Þorlákshafnarveg, álíka sunnarlega á Sandinum og nýnefnd varða, er lágur klapparhóll, sem Guðmundur Jónsson frá Læk, lengi vinnumaður í Þorlákshöfn og Vindheimum, síðar bóndi í Þorlákshöfn segir að heiti Hálffarahóll .“
Örnefnalýsing Vindheima og Breiðabólsstaðar: „Vestan-suðvestan við Dagmálahæð er önnur klöpp, lægri og minni. Hún heitir Litla-Dagmála-hæð. Á milli Dagmálahæðanna er gata, engjavegur frá Austur-Hlíðarbæjunum í Naut-eyrar, og að Hrauni.
Suðvestur frá Dagmálahæð er lægð sem hOlfusvegir-6eitir Siggulág. Suðvestan við hana eru Þrívörður, og í norður frá Þrívörðum er Stekkjartún, ekki langt fyrir sunnan þjóðveginn, suður frá Langamóa. Í vestur frá Stekkjartúni eru enn klappir skammt fyrir sunnan þjóðveg.  Þeir heita Klapparhólar. Vestastur þeirra er stakur hóll, kross-sprunginn. Hann heitir Hádegishóll.
Fyrir austan Grænuflöt og Harðavöll liggur gata beinustu leið til Þorlákshafnar. Heitir hún Hafnarvegur. Vestan við götuna, rétt fyrir sunnan þjóðveginn er Músarhóll, lítill hóll með hundaþúfu á kolli, ofan við Sandamótin. Niðri á Sandi, ofan við Leirur, er varða sem heitir Hálffaravarða eða Varða í Hálfförum.“

Ólafsskarðsvegur er merktur til suðurs austan Geitafells og suður með vestanverðu Búrfelli. Þessi gamla gata liggur hins vegar til suðausturs austan Geitafells og niður heiðina vestan Litlalandsels (nokkru austan Búrfells) og sameinast framangreindri götu yfir Hraunsheiði að Ölfusá. Gatan er áberandi frá Litlalandi að Hrauni (með stefnu á „Vörðu í Hálfförum“), en hverfur í túninu ofan við bæinn. Á austari kafla götunnar hefur vagnvegur verið lagður ofan í gömlu reiðleiðina.
Skammt austan við Þorlákshafnarveg eru gatnamót vegar (Engjavegarins) að Breiðabólastað (Vindheimum), við svonefnda Beinsteinsvörðu. Skammt norðar er mest áberandi varðan í heiðinni, Nónvarðan. Gatnamótin eru á tveimur stöðum með skömmu millibili, en gatan sameinast á móts við núverandi þjóðveg að Þorlákshöfn. Mjög auðvelt er að fylgja götunni. Efst á Hraunsheiði er fallin varða við götuna, sem hefur verið kennileiti ef farið hefur verið frá Breiðabólsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Herforningjaráðskort frá 1909.

Litlaland

Litlaland.