Tag Archive for: örnefni

Njarðvík

Njarðvíkur eru tvær hérlendis, önnur í N-Múlasýslu, oft nefnd Njarðvík eystri til aðgreiningar. Flestir hafa hingað til talið Njarðvíkurheitin tengjast norræna goðinu Nirðri í Nóatúnum og dýrkun hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Elsta heimild, sem líklegt þykir að beri vott um átrúnað á Njörð, er frásögn rómverska sagnaritarans Tacitusar, en í riti sínu Germania, sem samið er um árið 100 eftir Krist, gat hann þess að danskir þjóðflokkar dýrkuðu gyðjuna Nerþus. Nafn hennar er talið hið sama og Njarðar, en ekki er þessi gyðja nafngreind í norrænni goðafræði.
Njörður gat ráðið veðri og vindum og gróðri jarðar. Með þá hugmynd að leiðarljósi hafa menn talið að örnefnin Njarðvík hérlendis og í Noregi, og Njarðey, sem kemur fyrir í Noregi en ekki hér á landi, merki lendingarstaði sem helgaðir voru siglingarguðinum eða voru í umsjá hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður Örnefnstofnunar Þjóðminjasafnsins, hetur um áraraðir rannsakað örnefni með tilliti til örnefna dregin af mannanöfnum. Hann hefu sett fram þá tilgátu að Njarðvíkurnar tvær á Íslandi séu alls ekki kenndar við Njörð, né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið. Upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”.

Þórhallur hefur í þessu sambandi bent á að heimildir greini frá því að Rosmhvalanesið og nágrenni þess hafi einmitt byggst frá Innesjum og sé Kvíguvoga getið sem landnámsjarðar.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Einnig bendir hann á að finna megi samsvörun með staðheitum á upprunaslóðum landnámsmanna í Noregi og á Vatnsleysuströndinni. Heiti Njarðvíkur í Gullbringuslýslu er þá samkvæmt tilgátu Þórhalls orðið til vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu heitir svo vegna þess að hún er næsta vík austan Fljótsdalshéraðs, og hefur verið gefið nafn af mönnum sem þar bjuggu. Hafa ber í huga að í Keflavík er þekkt örnefnið Náströnd. Forliður þess, “ná-“, hefur einmitt merkinguna “nærri” og virðist skírskotun til þess hvort staðir lágu nærri eða fjarri einhverjum öðrum hafa verið virk þegar örnefni urðu til hér um slóðir.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Reykjanesskagi

Þann 27. apríl 2023 skrifaði Ásgeir Eiríksson áhugaverða grein á vefsíðu Víkurfrétta (Vf.is) undir fyrirsögninni „Reykjanes eða Reykjanesskagi„. Innihald og niðurstaða greinarinnar á erindi til allra er vilja eða hafa áhuga á að tjá sig réttilega um örnefni á Skaganum, en á það hefur verulega skort, ekki síst hjá sveitarstjórnarfólki, löggæsluyfirvöldum og fréttafólki einstakra fjölmiðla.

Ásgeir Eiríksson

Ásgeir Eiríksson.

„Ég er fæddur árið 1957. Í minni æsku var ekkert vafamál hvenær maður væri staddur á Reykjanesi og hvenær ekki. Að minnsta kosti var maður ekki í vafa þegar maður var staddur við Reykjanesvita að maður væri staddur úti á Reykjanesi. Hversu langt í norður og hversu langt í austur Reykjanesið nær var svo aftur meira vafamál. Ég starfaði í nokkra áratugi við sýslumannsembættið í Keflavík og hafði mikinn áhuga á landamerkjamálum. Rétt staðsetning örnefna skiptir þar sköpum en flest hafa þau verið búin til fyrir mörg hundruðum ára og koma fyrir í fornritunum. Það eru því hrein skemmdarverk á söguarfi þjóðarinnar að færa til örnefni eða breyta þeim á einhvern hátt þannig að henti hégómagirnd einhvers eða leti til að kynna sér rétt örnefni. Enn verra er að halda fram röngu örnefni gegn betri vitund.

Reykjanes

Reykjanes á Reykjanesskaga – kort 1952.

Örnefnið Reykjanes kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu og segir þar um komu Hrafna-Flóka sunnan með landinu:
„Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnsföll stór.““

Hrafna-Flóki hefur sennilega ekki gefið nesinu nafnið Reykjanes en þegar Landnáma er skrifuð á fyrri hluta 12. aldar þá hefur nesinu verið gefið nafn. Af lýsingunni á siglingu Hrafna-Flóka mætti dæma að Reykjanesið næði allt til enda Garðskaga.

Reykjanes

Reykjanes.

Nafngiftin Reykjanes getur ekki verið dregin af öðrum stað en jarðhitasvæðinu á Reykjanesi sem hefur verið all sérstakt tilsýndar hjá mönnum sem sjaldan eða aldrei höfðu séð gufu frá jarðhitasvæði. Eftir stutta siglingu frá Reykjanesi hafa þeir séð Snæfellsjökul, ef bjart hefur verið yfir, a.m.k. þegar nær dró Sandgerði og mynni Faxaflóans opnast þegar þeir koma fyrir Garðskaga.

Á Vísindavefnum er ágæt umfjöllun um örnefna-ruglinginn undir heitinu „Er Reykjanes sama og Suðurnes?“ Þar segir m.a. í grein Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica (um 1700). Hann segir um Reykjanes:

„Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (svo heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.““

Árni Magnússon og Páll Vídalín gáfu út jarðabók og manntal á árunum 1702–1714 þar sem lýst er íbúum, ástandi, og búpeningi á flestum jörðum á landinu. Auk þess bjargaði hann sögu þjóðarinnar og flutti til Kaupmannahafnar í þokkalega geymslu að hann hélt. Ella hefðum við sennilega notað fornritin í vettlinga og sokka.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Reykjanesskagi er þakinn stórum hraunum og erfitt að tilgreina nákvæmlega hvar þetta eða hitt örnefnið er. Nokkrir áhugamenn hafa unnið þrekvirki í söfnun örefna og við staðsetningu þeirra. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson frá Merkinesi safnaði örnefnum í Hafnahreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir gaf út bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi og Ómar Smári Ármannsson heldur úti hinum stórmerka vef ferlir.is. Aðrir merkir menn hafa einnig haldið örnefnasögu Reykjanesskagans á lofti svo sem landeigendur og ýmsir fræðimenn.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti. Stundum er örnefnið ritað „Krísuvík“, sem rangnefni.

Íbúar þéttbýlisins nota örnefni ekki síður, t.d. með því að tilgreina staði með götuheitum, en það er auðvitað mun auðveldara þar sem götuheitisskilti eru við hver gatnamót. Yrði einhver sáttur við að götuskilti í Keflavík yrði fært á einhverja aðra götu? Hafnargatan héti Hringbraut og Hringbraut héti Tjarnargata?

Örnefni skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Þau voru meðal annars notuð hér áður fyrr til að staðsetja menn og dýr og til að tilgreina landamerki á milli jarða o.s.frv. Örnefni á landi voru ómissandi fyrir sjómenn til að staðsetja góð fiskimið.

Keflavík

Í Keflavík – neðan Krýsuvíkurhrauns.

Enn þann dag í dag notum við örnefni til að staðsetja okkur og aðra og í ýmsum tilgangi. Í árdaga Neyðarlínunnar kom beiðni um aðstoð frá manneskju sem stödd var í Breiðholti án þess að tilgreina það nánar. Aðstoðin var send í Breiðholtið sem allir þekkja en viðkomandi var staddur í Breiðholti á Akureyri. Sama örnefnið getur verið til víða á landinu, t.d. Reykjanes og Keflavík. Mikilvægt er að allir séu sammála um hver staðsetning örnefnisins er í grófum dráttum til að ekki skapist ruglingur.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi. Reykjanesviti er réttnefndur á „Reykjanesi“.

Ef ég kalla eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíls og er staddur á eða við veginn milli Grindavíkur og Hafnahrepps hins forna þá myndi ég líklega segjast vera úti á Reykjanesi. Þetta er hinn almenni skilningur flestra Suðurnesjamanna og Grindvíkinga á örnefninu Reykjanes að ég tel (margir Grindvíkingar telja sig ekki til Suðurnesjamanna og sá skilningur er virtur hér). Ef ég er austan Grindavíkur eða í Sandgerði, Garði eða á Vatnsleysuströnd dytti mér ekki í hug að tilgreina staðsetninguna Reykjanes. Ég skrapp nýlega út á Reykjanes og við Hafnir sló ég inn orðinu „Reykjanes“ í Google maps. Forritið vildi leiða mig áfram út á Reykjanes og halda þaðan í vestur til Grindavíkur og þaðan áfram að bifreiðastæðunum þar sem gengið er að gosstöðvunum! Hver ber ábyrgð á þessu?

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

En hvenær byrjaði þessi örnefnaruglingur? Sumir telja að ruglingurinn hafi hafist þegar Reykjaneskjördæmi varð til árið 1959 (ferlir.is) og ekki hefur Reykjanesbrautin (1964) bætt úr þessum nafnaruglingi, né heldur þegar sameinað sveitarfélag tók upp nafnið Reykjanesbær. Sumir töldu ímynd okkar Suðurnesjamanna ekki upp á marga á þessum tíma og þótti ráðlegt að skipta um nafn á svæðinu og vonað að það bætti ímyndina. Við bjuggum því ekki lengur á Suðurnesjum heldur á Reykjanesi. Við vorum Reyknesingar en ekki Keflvíkingar, Njarðvíkingar eða Hafnamenn. Vitleysan heldur svo áfram og hver nefndin og stofnunin fær heitið Reykjanes þetta og hitt. Ein þessara nefnda eða stofnunar er Markaðsstofa Reykjaness sem rekur vefinn með útlenska heitinu visitreykjanes.is. Stofan er rekin af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Grindavík og þar eru mætir menn í stjórn. Vefurinn veitir margar góðar upplýsingar um hvað er að sjá og hvers er njóta á Reykjanesskaga en sá meinbugur er á að staðir eru tilgreindir á Reykjanesi en eru í raun langt þar frá.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir. Ekkert þessa er á Reykjanesi.

Eldgosið í Meradölum er t.d. sagt vera á Reykjanesi. Ekki held ég að sá mæti maður, Sigurður heitinn Gíslason, bóndi á Hrauni í Grindavík, myndi segja að fjöllin hans og dalir væru úti á Reykjanesi.

En hvað er til ráða? Eigum við að láta þetta yfir okkur ganga og eftir nokkra áratugi hefur örnefnið Reykjanes allt aðra merkingu en hjá flestum Suðurnesjamönnum og Grindvíkingum í dag? Mitt álit er að við eigum að snúa þessari öfugþróun við og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og í Grindavík hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Ritstjórn Víkurfrétta gæti leitt þá baráttu með því að leiðrétta örnefnaruglinginn í blaði sínu.“ – Ásgeir Eiríksson, Heimavöllum 13, Keflavík.

Heimild:
-https://www.vf.is/adsent/reykjanes-eda-reykjanesskagi – Reykjanes eða Reykjanesskagi?, Ásgeir Eiríksson, fimmtudagur 27. apríl 2023.

Reykjanesskagi

Raykjanesskagi – loftmynd.

Suðurnesvarða

Kjartan Einarsson, Tjarnarbóli 4, Seltjarnarnesi, gerði örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes. hann er fæddur í Reykjavík 15. febrúar 1914, en fluttis að Bakka á Seltjanarnesi í október 1914 og átti þar heim atil 1961. Hann hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi síðan. Kona hans, Unnur Óladóttir, er fædd og uppalin á Nesi…

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – örnefni.

Selur

Ari Gíslason skráði örnefni á Ísólfsskála í Grindavík. Heimildarmaður hans var Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá skráði Loftur Jónsson örnefni á Ísólfsskála. Framangreind örnefni hafa verið færð inna á meðfylgjandi loftmynd.

Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi. Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin. Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar.

Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga. Bærinn stendur austan við Hraunsvík, niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar. Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dágon. Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur [reyndar eru báðir þeirra horfnir nú]. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar…

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Hraun

Ari Gíslason skráði örnefni á Hrauni við Grindavík.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun.

Heimildarmenn hans voru Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni og ennfremur um hluta af landinu, Guðmundur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála.
Auk þess skráði Loftur Jónsson örnefni á jörðinni Hrauni. Haun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Hér eru einungis sett inn örnefni  með ströndinni m.v. örnefnalýsingarnar, en land Hrauns nær m.a. upp að Núpshlíðarhálsi…

Hraun

Hraun – örnefni.

Hóp

Ari Gíslason skráði örnefni í Hópslandi eftir feðgunum á Hópi í Grindavík.

Grindavík

Neðri-Hópsvarðan.

Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga…

Hóp

Hóp – örnefni.

Húsatóptir

Ari Gíslason skráðði upphaflega örnefni Húsatópta í Grindavík samkvæmt upplýsingum Guðsteins Einarssonar hreppstjóra, Grindavík, og sóknarlýsingu frá 1840.

Húsatóftir

Húsatóftir um 1960.

Seinna bar Kristján Eiríksson lýsinguna undir bræður Guðsteins og samdi drög að endurskoðaðri lýsingu. Auk þess gerði hann skrá yfir spurningar, sem enn var ósvarað. Þessar spurningar voru seinna sendar bræðrunum, og vorið 1980 bárust svör við þeim, undirrituð af Einari Kr., Jóni og Þórhalli Einarssonum. Svörin voru að lokum felld inn í lýsingu Kristjáns…

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Staður

Stofn lýsingar um „Örnefni í Staðarlandi“ í Grindavík, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Einnig eru fleiri upplýsingar fengnar úr þeirri bók.

Staður

Staður árið 1925.

Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Báðar framangreindar lýsingar voru bornar undir þá Sigurð V. Guðmundsson (S. V. G. ) og Árna Vilmundsson (Á. V. ) á Örnefnastofnun 15. janúar 1977. Þeir gerðu miklar athugasemdir við lýsingarnar og juku við upplýsingum, þótt ekki fjölguðu þeir nöfnum verulega. – Sigurður Víglundur

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Guðmundsson er fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð 22. júní 1910. Hann kom að Stað sumarið 1914 og ólst þar upp til nítján ára aldurs. Sigurður býr nú í Efstasundi 27, Rvík.

Árni Vilmundsson er fæddur 22. janúar 1914 á Löndum í Staðarhverfi og er þar til tuttugu og fimm ára aldurs. Hann býr nú í Smáratúni 11, Keflavík.

Hér er stuðst við lýsingu Gísla, en aukið inn í hana og leiðrétt samkvæmt frásögn heimildarmanna minna, án þess að þess sé getið sérstaklega. Sums staðar hefur og verið fellt úr frásögn, þar sem vafi þótti leika á sannleiksgildi og nákvæmni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Þá ber að geta þess, að stuðzt hefur verið við Jarðabók Árna Magnússonar og Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir síra Geir Bachmann, en hún er prentuð í Landnámi Ingólfs III. Fyrir framan sjálfa lýsinguna er orðrétt afrit af landamerkjabréfi Staðar frá 1890.

Kristján Eiríksson skráði lýsingu þessa á Örnefnastofnun í janúar 1977.

Athugasemd: Rétt er að geta þess að lokum, að í bókinni „Frá Suðurnesjum“ er grein eftir Guðstein Einarsson, sem heitir „Frá Valahnúk til Seljabótar.“ Ekki hefur verið stuðst við þá grein hér að framan, en í henni er getið um einstaka örnefni, sem ekki kemur fram í þessari lýsingu…

Staðarhverfi

Staðarhverfi – örnefni.

Grindavík

Ari Gíslason skráði örnefni í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þar segir m.a.: „Næst utan við Hóp er Járngerðarstaðahverfi. Upplýsingar um örnefni eru frá Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, systur hans, Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum, Spítalastíg 3 í Reykjavík, Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík o.fl.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó og eru þar nokkur önnur býli sem hafa sameignlegt land nema túnblettina.

Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Suður-Gjáhús heita nú Vík en Norður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.

Grindavík

Grindavík.

Guðsteinn Einarsson las yfir hluta af handriti Ara Gíslasonar og gerði athugasemdir við það í apríl 1967. Sæmundur Tómasson las það einnig allt yfir og bætti ýmsu við og lagfærði. Auk þess ritaði hann meðfylgjandi viðbætur eftir að gengið hafði verið frá aðalskránni.“…

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – örnefni.

Hópsnesviti

Loftur Jónsson skráði örnefni í Þórkötlustaðahverfi í Greindavík 1976 samkv. viðtali við systkinin í Buðlungu, Guðbjörgu Eyjólfsdóttur og Jón Eyjólfsson. Þau eru fædd þar og uppalin. Yfirfarið af Árna Guðmundssyni, Teigi, og Jóni Daníelssyni, Garðbæ.

Loftur JónssonÍ örnefnalýsingunni fyrir Þórkötlustaðahverfi segir m.a.: „Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.

Áframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki…„.

Meðfylgjandi er loftmynd af örnefnunum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni.